Categories
Greinar

Ný vallarsýn í þágu myndlistar

Deila grein

15/05/2023

Ný vallarsýn í þágu myndlistar

Mik­il­vægt skref fyr­ir menn­ingu og skap­andi grein­ar var tekið í vik­unni á Alþingi Íslend­inga er þing­menn samþykktu til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2023. Stefn­an hef­ur verið lengi í far­vatn­inu og því sér­lega já­kvætt að hún sé kom­in í höfn.

Mynd­list­ar­stefn­unni er ætlað að efla mynd­list­ar­menn­ingu lands­ins ásamt því að stuðla að auk­inni þekk­ingu og áhuga al­menn­ings á mynd­list. Í henni birt­ist framtíðar­sýn mynd­list­ar­um­hverf­is­ins til árs­ins 2030 með meg­in­mark­miðum um að á Íslandi ríki kraft­mik­il og and­rík mynd­list­ar­menn­ing, stuðnings­kerfi mynd­list­ar á Íslandi verði ein­falt og skil­virkt og að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein. Er einnig fjallað sér­stak­lega um að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess.

Hvert og eitt þess­ara mark­miða skal stuðla að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika.

Stefn­unni fylg­ir aðgerðaáætl­un í 16 liðum, en aðgerðirn­ar verða end­ur­skoðaðar ár­lega í tengsl­um við gerð fjár­mála­áætl­un­ar og fjár­laga til að greiða götu nýrra verk­efna og efla mynd­list­ar­starf­semi hér á landi enn frek­ar næsta ára­tug. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgj­ast með fram­vindu aðgerða og birta upp­lýs­ing­ar þar að lút­andi með reglu­bundn­um hætti. Má þar til dæm­is nefna aukið aðgengi að Lista­safni Íslands, átaks­verk­efni í kynn­ingu mynd­list­ar gagn­vart al­menn­ingi, stofn­un Mynd­list­armiðstöðvar sem taki við hlut­verki Kynn­ing­armiðstöðvar ís­lenskr­ar mynd­list­ar og fái víðtæk­ara hlut­verk, end­ur­skoðun á skattaum­hverfi mynd­list­ar og áfram verði unnið að krafti að alþjóðlegu sam­starfi á sviði mynd­list­ar.

Mynd­list­ar­líf á Íslandi er í mikl­um blóma og fram und­an er til­efni til að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar. Ný mynd­list­ar­stefna til árs­ins 2030 er leiðarljósið á þeirri veg­ferð. Sköp­un ís­lenskra lista­manna hef­ur um lang­an tíma fangað at­hygli fólks hér á landi sem og er­lend­is. Árang­ur­inn birt­ist í fleiri tæki­fær­um ís­lenskra lista­manna til þátt­töku í kraft­mik­illi safn­a­starf­semi og vönduðum sýn­ing­um um allt land. Einnig end­ur­spegl­ast ár­ang­ur­inn í þátt­töku á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Eft­ir­spurn eft­ir kaup­um á ís­lensk­um lista­verk­um er um­tals­verð. Sí­fellt fleiri lista­verk spretta úr ís­lensk­um veru­leika eða af sköp­un ís­lenskra lista­manna og fanga at­hygli fólks hér á landi og er­lend­is.

Ég vil óska mynd­list­ar­sam­fé­lag­inu á Íslandi til ham­ingju með þenn­an áfanga og vil þakka þeim öfl­uga hópi fólks sem kom að gerð stefn­unn­ar fyr­ir vel unn­in störf. Ég er staðráðin í því að halda áfram að vinna með hagaðilum að því að tryggja und­ir­stöður menn­ing­ar og skap­andi greina þannig að þær skapi auk­in lífs­gæði og verðmæti fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag til framtíðar – ný sókn í þágu mynd­list­ar­inn­ar er hluti af því verk­efni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Deila grein

07/05/2023

Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu

Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.

Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.

Ríkisfjármálakenningin og verðbólga

Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.

Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.

„Minni fjárlagahalli skapar störf!”

„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.

Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.

Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.

Heimild: Fiscal Theory and Price Level, Kafli 4, Debt, Deficits, Discount Rates, and Inflation, bls 84.

Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu. 

Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!

Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga

Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.

Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.

Hvað með Ísland?

Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags. 

Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila

Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.

Lokaorð

Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu. 

Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.

Categories
Greinar

Hátíð hönnunar og arkitektúrs

Deila grein

04/05/2023

Hátíð hönnunar og arkitektúrs

Hönn­un­ar­Mars, upp­skeru­hátíð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs, er einn af skemmti­leg­ustu vor­boðunum. Fram­sæk­in hönn­un og nýj­ung­ar leiða sam­an sýn­end­ur og gesti á hátíðinni sem stend­ur yfir dag­ana 3-7. maí. Á hátíðinni verða tæki­færi til að upp­lifa, læra, njóta og tengj­ast en hátíðin hef­ur fest sig í sessi sem einn mik­il­væg­asti kynn­ing­ar­vett­vang­ur ís­lenskr­ar hönn­un­ar og arki­tekt­úrs. Til marks um það eru um 100 sýn­ing­ar, 400 þátt­tak­end­ur og 100 viðburðir á hátíðinni í ár sem end­ur­spegl­ar þá miklu grósku sem á sér stað í hönn­un og arki­tekt­úr á Íslandi.

Þessi mikli fjöl­breyti­leiki fær­ir okk­ur einnig heim sann­inn um það hvernig ís­lensk hönn­un og arki­tekt­úr eru mik­il­vægt breyt­inga­afl og tæki til ný­sköp­un­ar sem nýst get­ur okk­ar sam­fé­lagi á fjöl­breytt­ari hátt en marga órar fyr­ir. Þar hef­ur starfs­fólk Miðstöðvar hönn­un­ar og arki­tekt­úrs, og ótal sam­starfsaðilar þeirra, unnið þrek­virki við að þróa spenn­andi hátíð sem höfðar til víðs hóps og hef­ur sann­ar­lega átt stór­an hlut í því að koma ís­lenskri hönn­un ræki­lega á kortið – svo eft­ir er tekið.

Á þessu kjör­tíma­bili verða mál­efni hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í önd­vegi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í góðri sam­vinnu við hagaðila. Mark­mið þeirr­ar vinnu er skýrt; við ætl­um að hrinda nýrri hönn­un­ar­stefnu fyr­ir Ísland í fram­kvæmd með aðgerðum sem skila ár­angri, fag­mennsku og gæðum til hags­bóta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Hinni nýju stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönn­un­ar­grein­um til þess að leysa brýn verk­efni sam­tím­ans, auka lífs­gæði og stuðla að sjálf­bærri verðmæta­sköp­un.

Meðal lyk­ilaðgerða eru að setja lög um hönn­un og arki­tekt­úr, efla Hönn­un­ar­sjóð, bæta aðgengi ný­skap­andi hönn­un­ar­verk­efna að sam­keppn­is­sjóðum, end­ur­skoða menn­ing­ar­stefnu í mann­virkja­gerð og að tryggja þátt­töku Íslands í Fen­eyjat­víær­ingn­um í arki­tekt­úr.

Strax í ár var Hönn­un­ar­sjóður efld­ur og nem­ur um­fang sjóðsins nú 80 m.kr. Þessu fé er út­hlutað úr sjóðnum til að stuðla að því að efla þekk­ingu, at­vinnu- og verðmæta­sköp­un og stuðla að aukn­um út­flutn­ingi á ís­lenskri hönn­un með því að styrkja kynn­ing­ar- og markaðsstarf er­lend­is.

Það eru stór efna­hags­leg tæki­færi fólg­in í því að styðja skipu­lega við skap­andi grein­ar líkt og hönn­un og arki­tekt­úr. Næg­ir þar að líta til Dan­merk­ur þar sem um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina hef­ur farið vax­andi í hag­kerf­inu und­an­far­in ár. Má þar til að mynda nefna að tísku­varn­ing­ur er fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur.

Það er ekki annað hægt en að fyll­ast stolti yfir sköp­un­ar­krafti, fag­mennsku og elju ís­lenska hönn­un­ar­sam­fé­lags­ins. Ég hef sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að efla ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr enn frek­ar, sem fag- og at­vinnu­grein, út­flutn­ings­grein og mik­il­væga aðferðafræði – sem mun á end­an­um leiða til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið. Ég þakka aðstand­end­un­um Hönn­un­ar­Mars fyr­ir þeirra metnaðarfulla starf og und­ir­bún­ing og óska öll­um gest­um hönn­un­ar­sam­fé­lags­ins hér á landi gleðilegr­ar hátíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2023.

Categories
Greinar

Dansað í hálfa öld

Deila grein

29/04/2023

Dansað í hálfa öld

Íslenski dans­flokk­ur­inn fagn­ar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofn­un hans. Í hálfa öld hef­ur dans­flokk­ur­inn verið fram­sæk­inn nú­tíma­dans­flokk­ur skipaður úr­vals­döns­ur­um í hæsta gæðaflokki en um er að ræða lista­stofn­un á sviði sviðslista í eigu ís­lensku þjóðar­inn­ar. Hlut­verk hans er að sýna dans­verk, vera vett­vang­ur fyr­ir framþróun og ný­sköp­un danslist­ar á Íslandi og glæða áhuga lands­manna á danslist. Dans­flokk­ur­inn hef­ur unnið með mörg­um af fremstu dans­höf­und­um ver­ald­ar auk þess að leggja rækt við ís­lenska dans­sköp­un með því að setja á svið verk eft­ir ís­lenska dans­höf­unda. Verk­efna­val hans er fjöl­breytt og tryggt skal að á dag­skrá hvers starfs­árs séu ís­lensk dans­verk. Dans­flokk­ur­inn ferðast víða um heim með verk sín og held­ur fjöl­breytt­ar sýn­ing­ar á Íslandi og þá alla jafna í Borg­ar­leik­hús­inu sem hef­ur verið heim­ili flokks­ins síðan 1997. Ár ár­inu 2022 sýndi Íslenski dans­flokk­ur­inn 62 sýn­ing­ar, þar af 18 er­lend­is í 10 sýn­ing­ar­ferðum. Það er merki­leg­ur ár­ang­ur en dag­skrá af­mælis­árs­ins ber vel með sér þenn­an mikla þrótt sem býr í þess­um hálfr­ar aldr­ar gamla dans­flokki. Fjöl­breytni ræður ríkj­um í dag­skrá árs­ins, sem tek­ur mið af af­mælis­ár­inu þar sem saga dans­flokks­ins og dans­ins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áber­andi.

Dans sem list­form gagn­rýn­ir og hvet­ur, hneyksl­ar og hríf­ur. Dans­ar­inn tekst á við all­ar vídd­ir mann­legr­ar til­vist­ar, dans er landa­mæra­laust afl sem get­ur hreyft við öll­um gerðum áhorf­enda, ung­um sem öldn­um. List­ræn fjöl­breytni og náin tengsl við gras­rót­ina eru mik­il­væg­ir þætt­ir fyr­ir dans­um­hverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mót­un, og á síðustu árum hafa sýni­leiki dans­ins og vin­sæld­ir hans auk­ist til muna. Enda hef­ur Íslenski dans­flokk­ur­inn kapp­kostað að eiga í nánu sam­starfi við stofn­an­ir, fé­lög og aðra sem sinna danslist með list­ræn­an ávinn­ing og fjöl­breytni að mark­miði og lagt sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar með því að stuðla að listupp­eldi og fræðslu­starfi í sam­vinnu við mennta­stofn­an­ir og gera nem­end­um og al­menn­ingi kleift að kynna sér starf­semi dans­flokks­ins.

Á und­an­förn­um árum hafa verið stig­in mik­il­væg skref til þess að efla um­gjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heild­ar­lög­in um sviðslist­ir sett hér á landi sem hafa það að mark­miði búa leik­list, danslist, óperu­flutn­ingi, brúðuleik og skyldri list­starf­semi hag­stæð skil­yrði. Á þeim grunni var meðal ann­ars sviðslistaráð sett á lagg­irn­ar og tók ný Sviðslistamiðstöð form­lega til starfa – en sam­bæri­leg­ar miðstöðvar hafa lengi verið starf­rækt­ar fyr­ir aðrar list­grein­ar. Með Sviðslistamiðstöð skap­ast fleiri sókn­ar­færi fyr­ir sviðslista­fólk inn­an­lands sem utan, meðal ann­ars með stuðningi í formi ráðgjaf­ar, tengslamynd­un­ar, kynn­ing­ar, miðlun­ar og út­flutn­ings. Sam­hliða þessu hafa fleiri hóp­um verið tryggðir kjara­samn­ing­ar og vinna við þarfagrein­ingu vegna óperu­starf­semi í land­inu sem hef­ur miðað vel áfram með það að mark­miði að setja á lagg­irn­ar þjóðaróperu. Sam­spil ólíkra sviðlista­greina skipt­ir máli, en þegar á fjal­irn­ar er komið hald­ast gjarn­an í hend­ur dans, tónlist, leik­ur og fleira. Allt of­an­talið eru atriði sem skipta máli í öfl­ugu menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar.

Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúr­stefnu­leg­an dans­flokk og við eig­um hér á landi en hann hef­ur getið sér gott orð víða um heim und­ir styrkri hand­leiðslu Ernu Ómars­dótt­ur list­d­ans­stjóra og henn­ar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköp­un og fram­leiðslu á menn­ingu sem okk­ar frá­bæra lista­dans­fólk dríf­ur áfram. Stjórn­völd munu halda áfram að skapa menn­ingu í land­inu góð skil­yrði og styðja þannig við fjal­ir full­ar af lífi. Ég óska Íslenska dans­flokkn­um, starfs­fólki hans og unn­end­um til ham­ingju með 50 ára af­mælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dag­skrá sem hann hef­ur upp á að bjóða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mikilvægi Eddu

Deila grein

25/04/2023

Mikilvægi Eddu

Íslenska þjóðin er bókaþjóð og eru bók­mennt­ir samofn­ar sögu okk­ar og tungu­máli. Við vor­um ein­mitt minnt á það í liðinni viku þegar Hús ís­lensk­unn­ar var vígt með form­leg­um hætti og því gefið hið fal­lega nafn Edda. Í Eddu verða hand­rit­in, okk­ar merk­asti menn­ing­ar­arf­ur og fram­lag til heims­bók­mennta, geymd. Hand­rit­in og sá vitn­is­b­urður sem þau hafa að geyma um fræðastarf, mynd­list­ar- og menn­ing­ar­sögu, trú­mál, sagna­arf og ýmis hugðarefni fólks á þess­um fyrri tím­um í sögu þjóðar­inn­ar eru stór­merki­leg. Sú staðreynd að öll hand­rit­in í safni Árna Magnús­son­ar séu á varðveislu­skrá Menn­ing­ar­mála­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna yfir Minni heims­ins und­ir­strik­ar menn­ing­ar­legt mik­il­vægi þeirra á heimsvísu.

Þetta er staðreynd sem við get­um verið stolt af. Okk­ur ber að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins enn frek­ar, að sýna hand­rit­in, ræða þau, rann­saka og miðla til kom­andi kyn­slóða. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá munu lönd­in tvö efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Með Eddu – Húsi ís­lensk­unn­ar munu skap­ast tæki­færi til þess að lyfta menn­ing­ar­arfi okk­ar enn frek­ar en bygg­ing­in mun hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild­ar Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um sem færa hand­rit­in til al­menn­ings, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

Það var orðið löngu tíma­bært að verðugt hús yrði reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar og sýna þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Húsið hef­ur fengið frá­bær­ar viðtök­ur, þannig lögðu milli tólf og fjór­tán þúsund manns leið sína á opið hús í Eddu á sum­ar­dag­inn fyrsta til að virða fyr­ir sér þetta nýja heim­ili ís­lenskra bók­mennta og langþráð lög­heim­ili ís­lenskr­ar tungu. Með þeirri glæsi­legu aðstöðu sem fyr­ir­finnst í Eddu erum við bet­ur í stakk búin til þess að taka við fleiri hand­rit­um heim til Íslands og sinna menn­ing­ar­arfi okk­ar enn bet­ur til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Alþjóðahagkerfið sýnir styrk en verðbólga lækkar hægt

Deila grein

22/04/2023

Alþjóðahagkerfið sýnir styrk en verðbólga lækkar hægt

Alþjóðahagkerfið náði að miklu leyti að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldurinn og innrás Rússlands í Úkraínu. Kínverska hagkerfið hefur komið sterkt inn eftir opnun þess. Aðfangakeðjur eru að komast í samt lag og hækkanir á olíu- og hrávörumörkuðum hafa gengið til baka að stórum hluta.

Alþjóðasamfélagið stendur þó frammi fyrir nýjum áskorunum sem tengja má beint eða óbeint til þessara áfalla. Verðbólgudraugurinn hefur vaknað úr löngum dvala og seðlabankar um allan heim hafa þurft að stíga fast á bremsuna og hækkað vexti. Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var haldinn um helgina og margt áhugavert til umræðu enda hefur ýmislegt reynt á hagstjórn og fjármálamarkaði síðustu mánuði. Á vorfundum Sjóðsins ber yfirleitt hæst hagvaxtarspá þeirra og áhættugreining á alþjóðahagkerfinu.

Verðbólga lækkar en hægir á hagvexti

Mikið aðhald peningastefnu á heimsvísu er farin að hafa áhrif og ætti að draga úr verðbólgu á heimsvísu. Vísbendingar þess efnis eru þegar komnar fram. Verðbólga á Spáni er til að mynda orðin 3,3%. Hins vegar hefur hægt á hagvexti hjá þróuðum ríkjum og þótt víða hafi dregið úr verðbólgu er hún enn til staðar. Samkvæmt spá Sjóðsins þá mun verðbólga lækka á heimsvísu, þó hægar en gert var ráð fyrir í upphafi, úr 8,7 prósentum í fyrra í 7 prósent í ár og 4,9 prósent árið 2024. Áhrifin af miklu aðhaldi peningastefnu eru þó jafnframt að koma fram í minnkandi hagvexti, en Sjóðurinn spáir að hagvöxtur lækki úr 3,4% á síðasta ári í 2,8% á þessu ári. 

Sagan kennir okkur að miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma geta haft afleiðingar ekki bara á heimili heldur einnig á heimshagkerfið.

Það er ljóst af fréttum undanfarinna vikna að þegar er farið að reyna á fjármálamálakerfið. Þá er einnig ljóst að það mun reyna á skuldug þjóðríki í næstu framtíð, en skuldir þeirra hækkuðu verulega vegna Covid-kreppunnar. Þar verður á ferðinni önnur áskorun.

Hækkandi vaxtaumhverfi er stóráhætta í alþjóðahagkerfi

„Það er afar líklegt að leitin að ávöxtun í lágvaxtaumhverfi geti stuðlað óróleika í fjármálakerfinu, þegar fram líða stundir. Þegar fjárfestar hafa væntingar til að lágvaxtaumhverfið verði viðvarandi eða að taumhald peningastefnunnar verði lítið, þá taka fjárfestingar mið af því”, var haft eftir Jaime Caruana, fyrrverandi forstjóra Alþjóðagreiðslubankans BIS, á fundi í Abu Dhabi árið 2014, þegar hann tjáði sig um hvað mögulegar breytingar á peningastefnu gætu haft í för með sér. 

Það er líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.

Alþjóðahagkerfið hefur búið við lágvaxtaumhverfi um afar langt skeið og líklega lengur en Jamie Caruana reiknaði með þegar hann hafði uppi þessi orð. Peningastefnan hefur notið þess að verðbólga hefur líka verið lág á heimsvísu um langt skeið. Aukin hnattvæðing undanfarna áratugi á sinn hlut í þessari þróun. Breytingarnar á vaxtaumhverfinu hafa verið miklar í sögulegu samhengi og komið fram á skömmum tíma. Það var því líklegt að eitthvað gæfi eftir. Veikleikar hafa verið að koma fram í fjármálakerfinu eins og fall Silicon-Valley bankans í Kaliforníu og Crédit Suisse í Sviss báru með sér. Það er jafnframt líklegt að við munum sjá frekara umrót á fjármálamörkuðum, þegar fram líða stundir.

Arðsemi fyrirtækja á að hjálpa í baráttunni við verðbólgu

Spenna ríkir enn á vinnumörkuðum víða um heim, þar sem allir hafa ekki enn skilað sér á vinnumarkaðinn eftir Covid-kreppuna. Á sama tíma er lífaldur þjóða að hækka hratt og fækkar því vinnandi höndum. Þessi þróun getur leitt það af sér að stýrivextir verði hærri í lengri tíma en ella. Þýðir þetta að við séum komin í umhverfi víxlverkunar launa og verðlags? Hagtölurnar benda ekki til þess. Kaupmáttur launa hefur í besta falli staðið í stað en líklegt er þó að hann hækki eitthvað vegna þeirrar eftirspurnar sem er eftir vinnuafli. Að sama skapi hefur arðsemi fyrirtækja og framlegð aukist á undanförnum árum meðal annars vegna hnattvæðingar og aukinnar sjálfvirkni. 

Eðlileg framvinda hagkerfisins er að fyrirtækin ættu að geta tekið við hækkandi launakostnaði, að því gefnu að verðbólguvæntingar séu innan skynsamlegra marka. Helsta áskorun íslenskra stjórnvalda er að takast á við verðbólguna og það er afar mikilvægt að allir taki höndum saman í þeirri baráttu. Það á jafnt við um hið opinbera og einkaaðila.

Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.

Áhrifin á Íslandi

Í vorspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er því spáð að verulega muni hægja á hagvexti á Íslandi á næsta ári eða úr 6,4% í 2,3%. Þá er því jafnframt spáð að verðbólga fari lækkandi. Skuldir ríkissjóðs eru lágar í samanburði við margar nágrannaþjóðir og bankakerfið stendur hér traustum fótum. Vaxtahækkanir erlendis hafa þó áhrif hér eins og annars staðar í heiminum. Ef hægir á hagvexti í umheiminum kemur það fljótlega fram í hagvexti hér. Það mun einnig hafa áhrif á fjármögnun þjóðarbúsins í gegnum bankakerfið og beina erlenda fjárfestingu sem verður þyngri og dýrari.

Á vorfundinum komu einnig fram áhyggjur um það að í ljósi rofs á áfangakeðjum í kjölfar Covid og aukinnar hörku í alþjóðastjórnmálum gæti dregið úr mætti alþjóðaviðskipta á næstu misserum og það gæti komið niður á lífskjörum víða um heim. Lífskjör Íslendinga hafa frá upphafi síðustu aldar verið afar háð opnum og bættum alþjóðaviðskipum. Mikilvægt verður að fylgjast vel með þessari þróun mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju!

Deila grein

19/04/2023

Til hamingju!

Tíma­mót í menn­ing­ar­sögu þjóðar­inn­ar eru í dag þegar að Hús ís­lensk­unn­ar verður vígt form­lega og end­an­legt nafn þess op­in­berað. Húsið á að hýsa starf­semi Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum og Íslensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands og verður miðstöð rann­sókna og kennslu í ís­lensk­um fræðum: tungu, bók­mennt­um og sögu. Þar verða jafn­framt varðveitt frum­gögn um ís­lenska menn­ingu, þ.e. hand­rit, skjöl, orða- og nafn­fræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Í bygg­ing­unni eru ýmis sér­hönnuð rými, svo sem fyr­ir varðveislu, rann­sókn­ir og sýn­ingu á forn­um ís­lensk­um skinn­hand­rit­um, vinnu­stof­ur kenn­ara og fræðimanna, lesaðstaða fyr­ir nem­end­ur, fyr­ir­lestra- og kennslu­sal­ir og bóka­safn með lesaðstöðu.

18 ára meðganga

Verk­efnið hef­ur átt sér nokk­urn aðdrag­anda en ákvörðun um fram­lag til að byggja húsið var tek­in á Alþingi árið 2005. Niðurstaða hönn­un­ar­sam­keppni um út­lit húss­ins var kynnt árið 2008. Árið 2013 tók þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, og nú for­sæt­is­ráðherra, fyrstu skóflu­stung­una á lóðinni við Arn­gríms­götu 5 og var síðar ráðist í jarðvinnu á lóðinni. Á ár­un­um 2016-2018 fór síðan fram ít­ar­leg end­ur­skoðun og rýni á hönn­un húss­ins með það fyr­ir aug­um að ná fram hag­kvæmni í bygg­ingu og rekstri. Ég tók við þessu mik­il­væga kefli sem menn­ing­ar­málaráðherra árið 2017 en í maí 2019 var gengið frá samn­ing­um um bygg­ingu þess og hóf­ust fram­kvæmd­ir í kjöl­farið.

Það er virki­lega ánægju­legt að nú, tæp­um fjór­um árum síðar, sé komið að því að vígja þessa mik­il­vægu bygg­ingu en það er löngu tíma­bært að verðugt hús sé reist til að varðveita hand­rit­in okk­ar. Þau eru ein­ar merk­ustu ger­sem­ar þjóðar­inn­ar og geyma sagna­arf sem ekki aðeins er dýr­mæt­ur fyr­ir okk­ur held­ur hluti af bók­mennta­sögu heims­ins. Stjórn­völd eru staðráðin í að viðhalda og miðla þess­um menn­ing­ar­arfi okk­ar og kynna börn­in okk­ar fyr­ir þeim sem og kom­andi kyn­slóðir.

Tungu­málið í önd­vegi

Á und­an­förn­um árum hef­ur rík­is­stjórn­in sett ís­lensk­una í önd­vegi með fjölþætt­um aðgerðum. Þannig nam fjár­fest­ing í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar á síðasta kjör­tíma­bili yfir 10 millj­örðum kr. Í nú­ver­andi stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­flokk­anna er áfram lögð áhersla á að styðja við ís­lenska tungu með ýmsu móti. Þegar litið er yfir far­inn veg hef­ur margt áunn­ist til þess að styðja við tungu­málið okk­ar. Þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi var samþykkt á Alþingi 2019 og var aðgerðaáætl­un ýtt úr vör und­ir heit­inu „Áfram ís­lenska“.

Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð með því að gera tækj­un­um okk­ar kleift að eiga í sam­skipt­um okk­ar á ís­lensku. Auk­in­held­ur var fjár­mun­um for­gangsraðað í að styðja skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið. Bóka­út­gáfa var efld með nýju stuðnings­kerfi og hef­ur fjöldi út­gef­inna bóka á ís­lensku auk­ist mjög. Síðastliðið haust var svo ráðherra­nefnd um ís­lenska tungu sett á lagg­irn­ar sem ætlað að efla sam­ráð og sam­starf milli ráðuneyta um mál­efni ís­lenskr­ar tungu.

For­skot fyr­ir ís­lensk­una

Við erum far­in að sjá upp­sker­una birt­ast okk­ur með ýms­um hætti. Lang­ar mig sér­stak­lega að nefna ný­leg stórtíðindi þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI kynnti að ís­lenska hefði verið val­in í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyr­ir tungu­málið okk­ar en um er að ræða stærsta gervi­greind­ar­net heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upp­lýs­ing­um á ís­lensku. Var þetta afrakst­ur ferðar minn­ar ásamt for­seta Íslands og ís­lenskri sendi­nefnd þar sem við heim­sótt­um alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki til að tala máli ís­lensk­unn­ar. Fyr­ir­tæk­in geta nýtt þær tækni­lausn­ir sem ís­lensk stjórn­völd hafa fjár­fest í á und­an­förn­um árum en um 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði til þess að koma þess­um tækni­lausn­um á kopp­inn og gera ís­lensk­una í stakk búna til þess að hægt sé að nýta hana í snjall­tækj­um.

Fleiri hand­rit heim

Við eig­um að auka veg og virðingu menn­ing­ar­arfs­ins, að sýna hand­rit­in, ræða þau og rann­saka. Um 700 hand­rit eru í vörslu á söfn­um í Dan­mörku, en sátt­máli var gerður um vörslu þeirra árið 1965 milli Íslands og Dan­merk­ur. Ég tel að fleiri ís­lensk hand­rit eigi að koma til Íslands frá Dan­mörku og hef unnið að auknu sam­starfi ríkj­anna á þessu sviði. Þannig mun Árna­safn við Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla taka þátt í nýrri hand­rita­sýn­ingu Stofn­un­ar Árna Magnús­son­ar í ís­lensk­um fræðum með lang­tíma­láni á hand­rit­um. Þá ætla lönd­in tvö að efna til átaks til að styrkja rann­sókn­ir, sta­f­ræna end­ur­gerð og miðlun á forn­um ís­lensk­um hand­rit­um með sér­stakri áherslu á að styrkja ungt fræðafólk og doktorsnema.

Hús þjóðar

Á morg­un, sum­ar­dag­inn fyrsta, verður opið hús í Húsi ís­lensk­unn­ar þar sem gest­ir geta skoðað bygg­ing­una áður en starf­semi hefst í henni. Boðið verður upp á fjöl­breytta dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem ís­lensk tunga verður í aðal­hlut­verki. Til marks um mik­inn áhuga á hús­inu bár­ust til­lög­ur frá 3.400 þátt­tak­end­um í nafna­sam­keppni fyr­ir húsið. Ég vil þakka öll­um þeim stóra og fjöl­breytta hópi sem hef­ur komið að þessu verk­efni í gegn­um tíðina og ég óska ís­lensku þjóðinni til ham­ingju með húsið sitt – en af því get­um við öll verið stolt. Með til­komu þess verður menn­ing­ar­arfi okk­ar tryggt gott og ör­uggt þak yfir höfuðið og tungu­mál­inu okk­ar fært það langþráða lög­heim­ili sem það á svo sann­ar­lega skilið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging um allt land

Deila grein

15/04/2023

Uppbygging um allt land

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um innviðum tengdri ferðaþjón­ustu í gegn­um Fram­kvæmda­sjóð ferðamannastaða. Á tíu árum hafa 849 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum og í gær kynnti ég nýj­ustu út­hlut­un sjóðsins, að upp­hæð 550 m.kr. Verk­efn­in sem hljóta styrk eru að vanda afar fjöl­breytt en hverf­ast öll um ör­yggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, nátt­úru­vernd og sjálf­bærni. Styrk­irn­ir fara til verk­efna hring­inn í kring­um landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Upp­bygg­ing­in er grund­völluð á heild­ar­sýn fyr­ir hvern lands­hluta og áfangastaðaáætlan­ir.

101 um­sókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýn­ir fram á þá miklu hug­mynda­auðgi og kraft sem býr í ís­lenskri ferðaþjón­ustu og þann metnað sem heima­menn í hverj­um lands­hluta fyr­ir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Marg­ir Íslend­ing­ar urðu þess ein­mitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tím­um heims­far­ald­urs­ins. Fram­kvæmda­sjóður ferðamannastaða hef­ur skipt sköp­um við að styðja við upp­bygg­ingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokk­ur vel heppnuð verk­efni eru upp­bygg­ing „svíf­andi“ sjálf­ber­andi göngu­stíga úr áli í Hvera­döl­um sem lág­marka snert­ingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hvera­svæði sem er vin­sæll áfangastaður ferðamanna. Útsýn­ispall­ur­inn á Bola­fjalli er annað frá­bært verk­efni sem vert er að nefna, en pall­ur­inn hang­ir utan í þver­hnípt­um stórstuðluðum klett­um með stór­brotið út­sýni yfir Ísa­fjarðar­djúp, inn Jök­ulf­irði og út yfir sjón­deild­ar­hring í átt til Græn­lands. Innviðaupp­bygg­ing við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verk­efni þar sem hugað er að ör­yggi og nátt­úru­vernd með ráðgjöf fag­fólks.

Í út­hlut­un gær­dags­ins fengu 28 verk­efni í öll­um lands­hlut­um styrk. Hæsta styrk­inn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verk­efnið Baug­ur Bjólfs á Seyðis­firði, en um er að ræða hring­laga út­sýn­ispall sem sit­ur á fjalls­brún með ein­stöku út­sýni yfir Seyðis­fjörð. Þá hlaut Stuðlagil næst­hæsta styrk­inn, að upp­hæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu ör­yggi og nátt­úru­vernd við þenn­an afar vin­sæla ferðamannastað. Þá fékk út­sýn­ispall­ur við Reyn­is­fjall 72 m.kr. styrk sem eyk­ur ör­yggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjalls­ins.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma orðið einn af grunn­atvinnu­veg­um þjóðar­inn­ar, og get­ur skapað mikl­ar gjald­eyris­tekj­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma. Við þurf­um því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönn­um sem hingað koma. Styrk­ur úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upp­lif­un og aðgengi ferðamanna, meira ör­yggi og við styðjum við viðkvæma nátt­úru lands­ins. Með þessu stuðlum við að sjálf­bærni og tryggj­um framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Viðspyrna gegn verðbólgu

Deila grein

04/04/2023

Viðspyrna gegn verðbólgu

Það er afar já­kvætt að vext­ir á rík­is­skulda­bréf­um hafi lækkað veru­lega í kjöl­far auk­ins taum­halds pen­inga­stefnu sam­hliða nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un. Til­trú fjár­festa á aðgerðum stjórn­valda er að aukast. Aðhald og skýr for­gangs­röðun er meg­in­stef í nýkynntri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ásamt því að styðja við brýn verk­efni og standa vörð um al­mannaþjón­ust­una. Rík­is­fjár­mál­in þurfa að vinna með pen­inga­stefnu Seðlabank­ans til að ná jafn­vægi í efna­hags­líf­inu og ná verðbólg­unni niður. Fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára sýn­ir þá stefnu stjórn­valda að beita rík­is­fjár­mál­un­um með mark­viss­um hætti til að ná niður verðbólgu og frek­ari hækk­un vaxta með auknu aðhaldi, tekju­öfl­un og frest­un fram­kvæmda.

Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjón­ust­una, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífs­kjör al­menn­ings. Skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lækka á tíma­bil­inu og af­koma batn­ar. Lagður verður á 1% tíma­bund­inn viðbót­ar­skatt­ur á lögaðila á ár­inu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyr­ir aukn­um tekj­um af ferðaþjón­ustu með skatt­lagn­ingu á skemmti­ferðaskip sam­bæri­legri við gistinátta­gjald sem og aukn­um tekj­um af fisk­eldi og sjáv­ar­út­vegi ásamt breyt­ing­um á skatt­lagn­ingu öku­tækja og eldsneyt­is.

Á umliðnum árum hef­ur verið fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um mála­flokk­um á mál­efna­sviðum menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins sem hef­ur skilað sér í betra sam­fé­lagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjár­mála­áætl­un er að finna ýms­ar áhersl­ur kom­andi ára í þeim mála­flokk­um. Má þar nefna hið mjög svo brýna verk­efni að bæta rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með skatta­leg­um stuðningi til að tryggja fjöl­breytni á fjöl­miðlamarkaði í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála. Með nýj­um aðgerðum vilj­um við skapa hvata og auka sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði.

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öfl­un áreiðan­legra gagna og innviðaupp­bygg­ingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönn­um víðar um landið og yfir allt árið.

Þá er gert ráð fyr­ir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjón­ustu til að auka lífs­gæði heyrn­ar­skertra og heyrn­ar­lausra. Lögð verður fram til­laga til þings­álykt­un­ar um ís­lenskt tákn­mál og aðgerðaáætl­un vegna henn­ar. Barna­menn­ing­ar­sjóður verður fest­ur í sessi með 100 m.kr. ár­legu fram­lagi ásamt verk­efn­inu List fyr­ir alla og auk­inn þungi verður sett­ur í neyt­enda­vernd og unnið að heild­ar­stefnu­mót­un sem áætlað er að ljúki fyr­ir árs­lok 2024.

Starfs­um­hverfi lista­manna og um­gjörð starfs­launa lista­manna verður bætt á tíma­bil­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur verið unnið að til­lög­um í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í fram­kvæmd. Mark­mið stjórn­valda er að starfs­launa- og verk­efna­sjóðir tryggi bet­ur af­komu þeirra sem starfa í list­um eða við skap­andi grein­ar, stuðli að meiri fjöl­breytni í út­hlut­un­um, auknu og jöfnu aðgengi mis­mun­andi list­greina og raun­særri viðmiðum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar. lda@mvf.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Til varnar lýðræðinu

Deila grein

02/04/2023

Til varnar lýðræðinu

Fall Berlín­ar­múrs­ins er ein sterk­asta minn­ing mín úr æsku. Ég man það eins og í gær þegar hundruð Aust­ur-Þjóðverja þyrpt­ust að tákn­mynd ein­ræðis­ins og Berlín­ar­múr­inn var mölvaður niður. Ég sat með pabba og horfði á þenn­an sögu­lega viðburð í beinni út­send­ingu og geðshrær­ing­in var mik­il. Sov­ét­rík­in voru fall­in og með þeim þeir ein­ræðis­stjórn­ar­hætt­ir sem ráðið höfðu ríkj­um hand­an járntjalds­ins. Fólkið braust út úr fjötr­um hræðilegs stjórn­ar­fars, sem elur ekk­ert af sér annað en ótta og kúg­un. Ekki bjóst ég við því að um rúm­um ald­ar­fjórðungi síðar væri Evr­ópa að fást við fas­isma í tún­fæti sín­um.

Ræt­ur ein­ræðis

„Ein­ræðis­hyggja er ekki póli­tísk hug­mynda­fræði held­ur aðferð til hrifsa til sín völd og halda þeim,“ þannig skil­greindi fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna og pró­fess­or­inn Madeleine Al­bright viðfangs­efnið. Þessi póli­tíska aðferðafræði er að vísu leyti frem­ur óljós en hef­ur verið beitt bæði af stjórn­mála­mönn­um lengst til hægri og vinstri. Upp­sprettu ein­ræðis­hyggju má oft rekja til óánægju eða reiði al­menn­ings, hvort held­ur vegna tapaðs stríðs, glataðra landsvæða, at­vinnum­issis eða ein­hverr­ar blöndu þess­ara þátta. Þekkt­ustu leiðtog­ar ein­ræðis­hyggju hafa oft búið yfir ákveðum per­sónutöfr­um sem gera þeim kleift að tengj­ast fjöld­an­um til­finn­inga­bönd­um, breyta reiði al­menn­ings í hug­læga sam­stöðu og til­gang. Ásamt því hafa leiðtog­ar þeirra lagt of­ur­vald á að hafa stjórn á upp­lýs­ing­um í ríkj­um sín­um. Hvort held­ur með um­fangs­mikl­um áróðri, upp­lýs­inga­óreiðu eða fals­frétt­um. Mark­miðið er í raun að bæla frjálsa hugs­un.

Hrika­leg­ar af­leiðing­ar ein­ræðis­hyggju 20. ald­ar­inn­ar

Sag­an hef­ur sýnt okk­ur að fas­ist­ar kom­ast sjaldn­ast til valda með vald­aránstilraun held­ur taka þeir eitt skref í einu og fylgja oft leik­regl­um lýðræðis­ins. Eft­ir mis­heppnað vald­arán í Bæj­aralandi árið 1923 í suður­hluta Þýska­lands ein­beitti Nas­ista­flokk­ur­inn sér að því að kom­ast lög­legu leiðina að völd­um en tók þátt í kosn­inga­s­vindli sem leiddi að lok­um til þess að Ad­olf Hitler var skipaður kansl­ari. Í kjöl­farið réðst hann gegn stofn­un­um rík­is­ins, ógnaði póli­tísk­um and­stæðing­um og kom á alræðis­stjórn. Ítal­ía var und­ir fasískri stjórn í rúma tvo ára­tugi, þar sem Benito Mus­sol­ini réð ríkj­um. Af­leiðing­ar stjórn­ar­fars­ins í Þýskalandi og Ítal­íu voru hrika­leg­ar. Þýska­land hóf seinni heims­styrj­öld­ina og þegar yfir lauk er talið að um 80 millj­ón­ir manna hafi lát­ist í átök­un­um, sem náðu alla leið til Asíu, og þar af að minnsta kosti sex millj­ón­ir Gyðinga og aðrir minni­hluta­hóp­ar sem voru skipu­lega myrt­ir í hel­för­inni.

Lýðræði er far­sæl­asta stjórn­ar­farið en stuðning­ur minnk­ar

Lýðræði er horn­steinn far­sæld­ar í vest­ræn­um sam­fé­lög­um. Stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagið er ekki galla­laust. Hins veg­ar hef­ur ekk­ert stjórn­ar­far reynst betra enda bygg­ist það á skýr­um lög­um, frelsi ein­stak­linga til at­hafna og tján­ing­ar, vald­dreif­ingu og sjálf­stæðum dóm­stól­um ásamt reglu­bundn­um kosn­ing­um. Þessi grund­vall­ar­atriði stjórn­ar­fars hafa skapað mik­il auðæfi og vel­sæld í þeim sam­fé­lög­um sem hafa virt og hlúð að lýðræðinu. Staða lýðræðis á heimsvísu er þó brot­hætt. Mik­il eft­ir­vænt­ing og bjart­sýni greip um sig við fall Berlín­ar­múrs­ins og þá til­finn­ingu að lýðræði væri að ná yf­ir­hönd­inni. Því miður er vax­andi skoðun að annað stjórn­ar­far en lýðræði geti búið til betri lífs­kjör. Lýðræðis­vís­ir tíma­rits­ins „The Econom­ist“, sem fylg­ist með lýðræði um all­an heim og bygg­ir á mæli­kvörðum á borð við virðingu fyr­ir réttri málsmeðferð og trúfrelsi, gef­ur til kynna að heilsu lýðræðis hafi farið hrak­andi í 70 lönd­um frá ár­inu 2017. Sam­hliða því hafa skoðanakann­an­ir sýnt að þótt flest­ir trúi á full­trúa­lýðræði tel­ur einn af hverj­um fjór­um já­kvætt að leyfa leiðtoga að stjórna án aðkomu þings eða dóms­kerf­is. Einn af hverj­um fimm er hlynnt­ur her­stjórn. Að sama skapi kom fram í nýj­ustu grein­ingu Lýðræðis marg­breyti­leik­ans að um 72% íbúa heims­ins búa við ein­ræði, sam­an­borið við 50% fyr­ir ára­tug. Í fyrsta sinn í meira en tvo ára­tugi eru fleiri ein­ræðis­rík­is­stjórn­ir en lýðræðis­rík­is­stjórn­ir.

Or­sak­ir dvín­andi til­trú­ar á lýðræði á 21. öld­inni

Það er öf­ug­snúið að eina skýr­ingu á þess­ari þróun í sam­tím­an­um má rekja til þeirra um­fangs­miklu tækni­fram­fara sem við njót­um á hverj­um degi. Segja má að sjald­an hafi ein­stak­ling­ur­inn upp­lifað eins mikl­ar fram­far­ir á jafn skömm­um tíma. Gervi­greind­in, sem tröllríður öllu um þess­ar mund­ir, er einnig spenn­andi en marg­ar áskor­an­ir munu fylgja þess­um breyt­ing­um sem hún hef­ur í för með sér. Það er þó einkum tvennt sem fylg­ir þessu tækniumbreyt­inga­skeiði sem minnk­ar til­trúna á lýðræðið. Í fyrsta lagi þró­un­in á vinnu­markaðnum. Mik­il til­færsla er að eiga sér stað í hag­kerf­inu með nýrri tækni. Hefðbund­in störf líkt og í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, leigu­bíl­stjór­ar, prent­ar­ar og fleiri hafa upp­lifað að störf­in séu úr­elt eða mikl­ar breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi sínu í fjórðu iðnbylt­ing­unni. Þessi þróun er ekki ný af nál­inni og ekki svo ólík þeirri sem var uppi í kjöl­far iðnaðar- og tækni­bylt­inga á fyrri tím­um. Í sum­um ríkj­um í Evr­ópu er eitt af hverj­um fjór­um ung­menn­um án at­vinnu og hlut­fallið er enn hærra hjá inn­flytj­end­um. Það er því skilj­an­legt að efi geti farið að mynd­ast gagn­vart lýðræðinu, sem virðist ekki finna þess­um ein­stak­ling­um stað í til­ver­unni. Í öðru lagi mikið magn af upp­lýs­inga­óreiðu og fals­frétt­um og verri staða rit­stýrðra fjöl­miðla. Þessi fyr­ir­bæri eru þó ekki ný af nál­inni. Frægt er í sjálf­stæðis­stríði Banda­ríkj­anna, þegar sjálf­ur Benja­mín Frank­lín notaði prentvél­ina til að dreifa „fals­frétt­um“ um voðaverk Breta. Í þá daga var það mik­il fyr­ir­höfn að koma slík­um sög­um af stað og náði til tak­markaðs fjölda. Annað dæmi er hvernig nas­ist­ar í Þýskalandi gáfu hverju heim­ili út­varp til að breiða út áróður. Á öld sam­fé­lags­miðla er staðan hins veg­ar allt önn­ur. Í dag er auðvelt og ódýrt að dreifa „fals­frétt­um“ til breiðs hóps ein­stak­linga. Nán­ast ómögu­legt er að átta sig á því hvort frétt­ir á Face­book komi frá ábyrg­um blaðamanni, áhrifa­valdi, er­lendri rík­is­stjórn eða er fram­leidd af gervi­greind. Sam­bland efna­hags­legr­ar óvissu og skorts á úrræðum í þeim efn­um frá lýðræðis­lega kjörn­um stjórn­mála­mönn­um get­ur verið gróðrar­stía fyr­ir fas­isma. Efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur óstöðug­leiki óx í fram­haldi af fjár­málakrepp­unni 2008. Auk­in óánægja hef­ur þó víða kraumað und­ir frá því fyr­ir alda­mót þar sem ýtt hef­ur verið und­ir þá skoðun að hnatt­væðing hafi leitt til auk­ins efna­hags­legs ójafnaðar og flutn­ings á hefðbundn­um störf­um. Slík­ar skoðanir hafa víða kynt und­ir gremju og óánægju.

Hlut­verk fjöl­miðla stórt í lýðræðis­legri umræðu

Frjáls­ir fjöl­miðlar veita stjórn­völd­um, stofn­un­um og at­vinnu­líf­inu nauðsyn­legt aðhald. Án traustra og óhlut­drægra fjöl­miðla minnka lík­urn­ar á að fram­kvæmd lýðræðis­legra kosn­inga sé traust og þá dreg­ur jafn­framt úr póli­tískri ábyrgð. Tekju­öfl­un þeirra hef­ur átt veru­lega und­ir högg að sækja vegna sam­fé­lags­miðla og stórra efn­isveitna, þar sem aug­lýs­inga­tekj­ur hafa í vax­andi mæli farið til þess­ara fyr­ir­tækja. Að mínu mati eru berg­máls­hell­ar sam­tím­ans og al­grím­ar ekki til þess falln­ir að styðja við lýðræðis­lega umræðu.

Til að styðja við frjálsa fjöl­miðla á Íslandi er unnið að nýrri fjöl­miðlastefnu til árs­ins 2030 sem ætlað er að styrkja og styðja við rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Frum­varp um rekstr­ar­styrki til fjöl­miðla ligg­ur fyr­ir Alþingi og gert er ráð fyr­ir aukn­um stuðningi í formi skatta­legra íviln­ana í nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un, sem nem­ur tæp­um 2 mö. kr. á tíma­bil­inu. Auk þess sem unnið verður að því að draga úr um­svif­um Rík­is­út­varps­ins á sam­keppn­ismarkaði. Köld rök­vísi seg­ir okk­ur að nú­ver­andi staða á fjöl­miðlum er ekki sjálf­bær.

Loka­orð

Tíu vik­um eft­ir dauða Frank­lins Roosevelts og tæp­um tveim­ur mánuðum eft­ir upp­gjöf Þjóðverja flaug Harry Trum­an for­seti Banda­ríkj­anna til San Francisco til að ávarpa full­trúa hinna ný­stofnuðu Sam­einuðu þjóða. Ræða hans ein­kennd­ist af mik­illi bjart­sýni og von­ar­neista um bjart­ari tíma en að sama skapi hafði hann uppi sterk varnaðarorð: „Ein­ræðis­hyggja dó ekki með Mus­sol­ini“ varaði hann við og hann hélt áfram: „Hitler kann að vera dauður, en fræ­in sem hans sjúki heili sáði náðu því miður fót­festu í hug­um of margra. Staðreynd­in er sú að auðveld­ara er að losa sig við harðstjóra og eyðileggja fanga­búðir held­ur en að drepa hug­mynd­irn­ar sem urðu kveikj­an að þeim.“ Harry Trum­an var einkum að vísa til þeirr­ar hug­mynda­fræði að eig­in þjóð byggi yfir eig­in­leik­um og rétt­ind­um um­fram alla aðra. Seinni heims­styrj­öld­in var hug­mynda­fræðilegt stríð, þar sem lýðræðisöfl­in börðust við fas­ista. Næsta stríð sem háð var, kalda stríðið, var einnig stríð hug­mynda, þ.e. lýðræði gegn komm­ún­isma. Þriðja hug­mynda­fræðilega stríðið er hafið með inn­rás Rússa í Úkraínu.

Það kem­ur óþægi­lega á óvart að sjá upp­gang fasískr­ar hug­mynda­fræði og hreyf­inga á 21. öld­inni í ljósi þeirra hörmu­legu af­leiðinga sem slík­ar stjórn­ir höfðu á 20 öld­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2023.