Categories
Fréttir Greinar

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Deila grein

15/03/2023

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Það er sannarlega magnaður áfangi fyrir íslenskuna að tungumálið okkar hafi verið valið í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarfsverkefni með fyrirtækinu OpenAI hefur komið því til leiðar að stærsta gervigreindarnet heims er nú fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er sannarlega stórmál fyrir mál málanna – íslenska tungu. Ör þróun gervigreindartækni er afar mikilvæg fyrir tungumál eins og okkar og þar felast mörg sóknarfæri sem flest eru ókönnuð enn– en með samstarfinu fáum við ákveðið forskot til þess. Við viljum jú að framtíðin geti svarað okkur á íslensku.

Orð til alls fyrst

Samstarf þetta er afrakstur af heimsókn sendinefndar forseta Íslands í maí sl. þar sem við heimsóttum meðal annars höfuðstöðvar OpenAI í San Fransisco. Fyrirtækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Hægt var að nýta íslensku að takmörkuðu leyti í fyrri útgáfu mállíkansins en með þessari nýju uppfærslu er árangurinn margfalt betri og möguleikar gervigreindarinnar til þess að læra hraðar og miðla betur á íslensku hafa aukist verulega.

Samstarfið um íslenska virkni tækninnar er eitt af sex þróunarverkefnum sem OpenAI stendur að í tengslum við útgáfu GPT-4 og það eina af þeim sem tengist annarri þjóðtungu en ensku. Til skoðunar er í framhaldinu hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og því er íslenskan ákveðinn brautryðjandi að þessu leyti.

Dýrmæt þekking

Samvinna skilar okkur árangri. Við komum með heilmikið að borðinu í samtali okkar við erlend tæknifyrirtæki – Íslendingar hafa fjárfest í mikilvægu innviðum á sviðum máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019 og lýkur nú í ár.

Um 60 manns hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og hér á landi hefur byggst upp dýrmæt fagþekking á þessu spennandi sviði vísinda og nýsköpunar sem eftir er tekið. Íslenskar kjarnalausnir á sviðum máltækni eru aðgengilegar í opnum aðgangi, m.a. fyrir frumkvöðla, fólk í nýsköpun og fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem geta þróað notendalausnir út frá þeim. Hagnýting slíkra lausna fyrir almenning verður ein megináhersla í áframhaldandi máltækniverkefnum en brátt hefst vinna við að undirbúning og skrif næstu áætlunar.

Þakkir og stolt

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessum spennandi verkefnum, ekki síst forseta Íslands sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar við að tala máli íslenskunnar í alþjóðlegu samhengi – og annarra tungumála fámennari ríkja – samstarfsfólki hjá Almannarómi og SÍM-hópnum, og sjálfboðaliðunum sem fyrir tilstilli máltæknifyrirtækisins Miðeindar komu að þjálfun gervigreindarinnar síðustu misserin.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og íslenskan, tungumálið er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Við höfum ríkum skyldum að gegna við að tryggja aðgengi að íslensku og notkun hennar til framtíðar. Íslenskt hugvit og ástríða munu stuðla að því að það verði gerlegt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.

Categories
Greinar

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Deila grein

08/03/2023

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í því að styðja við upp­bygg­ingu beins milli­landa­flugs á lands­byggðinni. Líkt og greint var frá í frétt­um ný­verið verður met­fjöldi er­lendra áfangastaða í boði á lands­byggðinni í ár en hægt verður að fljúga beint frá Ak­ur­eyri til Kaup­manna­hafn­ar, Düs­seldorf, Teneri­fe, Alican­te, Zürich og Frankfurt – sem einnig verður í boði frá Eg­ils­stöðum.

Þetta er ánægju­leg þróun sem skipt­ir máli fyr­ir þjóðarbúið allt og staðfest­ing á því að stefna stjórn­valda sé að virka. Mark­visst hef­ur verið unnið að því að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs á lands­byggðinni og opna þannig fleiri gátt­ir inn í landið. Flugþró­un­ar­sjóður var sett­ur á lagg­irn­ar til þess að styðja flug­fé­lög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Þá tók ég ákvörðun um að veita sér­stak­lega fjár­mun­um til Markaðsstofu Norður­lands og Aust­ur­brú­ar til þess að efla kynn­ingu á flug­völl­un­um á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum sem alþjóðaflug­völl­um og setja auk­inn slag­kraft í markaðssetn­ingu á Norður- og Aust­ur­landi sem væn­leg­um áfanga­stöðum með beinu milli­landa­flugi. Sam­hliða þessu hafa stjórn­völd fjár­fest í upp­bygg­ingu flug­innviða á svæðunum, til að mynda stækk­un flug­stöðvar­inn­ar á Ak­ur­eyri, sem ger­ir flug­völl­inn bet­ur í stakk bú­inn til þess að þjón­usta milli­landa­flug. Þá var einnig ráðist í end­ur­bæt­ur á Eg­ilsstaðaflug­velli en árið 2021 var nýtt mal­bik lagt á flug­braut­ina og unnið er að til­lög­um um að stækka flug­hlað og leggja ak­braut­ir.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að opna fleiri gátt­ir inn í landið og nýta þau tæki­færi sem því fylgja. Flug­saga Íslands er far­sæl og sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur í að byggja upp greiðar og tíðar flug­sam­göng­ur til og frá land­inu hef­ur aukið sam­keppn­is­hæfni þess veru­lega. Það er til mik­ils að vinna að styðja við upp­bygg­ingu alþjóðaflugs á lands­byggðinni. Beint milli­landa­flug virk­ar sem víta­mínsprauta fyr­ir at­vinnuþróun á Norður- og Aust­ur­landi og eyk­ur veru­lega mögu­leika á að styrkja ferðaþjón­ustu á svæðunum; lengja ferðatíma­bil er­lendra ferðamanna og minnka árstíðasveifl­ur, stuðla að betri dreif­ingu ferðamanna um landið og skapa tæki­færi til þess að nýta bet­ur fjár­fest­ing­ar í innviðum og afþrey­ingu í ferðaþjón­ustu en nú þekk­ist. Auk­in­held­ur eyk­ur þetta lífs­gæði íbú­anna á svæðunum sem geta nýtt sér þess­ar greiðari sam­göng­ur – en hundruð tengiflugs­mögu­leika eru í boði frá þeim áfanga­stöðum sem flogið verður til.

Þessi já­kvæða þróun skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið allt og tryggja verður að hún verði viðvar­andi. Með það fyr­ir aug­um hafa stjórn­völd ákveðið að festa Flugþró­un­ar­sjóð í sessi til þess að skapa hvata til áfram­hald­andi leiðarþró­un­ar til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Ég bind von­ir við að þessi nýi og spenn­andi kafli í flug­sögu Íslands verði land­inu gæfu­rík­ur og skapi ný tæki­færi fyr­ir land og þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2023.

Categories
Greinar

Þjóðminjasafn í 160 ár

Deila grein

26/02/2023

Þjóðminjasafn í 160 ár

Um helg­ina verður haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 þegar Jón Árna­son, þá stifts­bóka­vörður, færði stifts­yf­ir­völd­um bréf frá Helga Sig­urðssyni á Jörfa í Kol­beinsstaðahreppi þess efn­is að hann vilji gefa Íslandi 15 gripi með því for­orði að þeir marki upp­hafið að safni ís­lenskra forn­minja. Á þess­um tíma hafði varðveisla á ís­lensk­um grip­um einkum farið fram í dönsk­um söfn­um, því var vissu­lega um tíma­mót að ræða.

Í fyll­ingu tím­ans hef­ur safnið vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þannig var safnið til að mynda yf­ir­leitt nefnt Forn­gripa­safnið fram til 1911 þegar það hlaut lög­form­lega nafnið Þjóðminja­safn Íslands, sem það hef­ur heitið all­ar göt­ur síðan. Safnið hef­ur komið víða við og verið til húsa á ýms­um stöðum, má þar nefna Dóm­kirkj­una, gamla Tugt­húsið við Skóla­vörðustíg, Alþing­is­húsið og Lands­banka­húsið við Aust­ur­stræti þar til safnið fékk aðstöðu á lofti Lands­bóka­safns­ins við Hverf­is­götu árið 1908. Þar átti það eft­ir að vera til húsa í rúm 40 ár. Það var svo við lýðveld­is­stofn­un árið 1944 að Alþingi Íslend­inga ákvað að reisa Þjóðminja­safn­inu eigið hús við Suður­götu í Reykja­vík og flutti safnið þangað árið 1950.

Nýja hús­næðið markaði vatna­skil í starf­semi safns­ins en með því gafst kost­ur á að út­víka starf­semi þess. Fram að þeim tíma­punkti sam­an­stóð safn­kost­ur­inn mest­megn­is af jarðfundn­um forn­grip­um, kirkju­grip­um og list­mun­um frá fyrri öld­um. Eft­ir flutn­ing­ana á Suður­göt­um gafst safn­inu kost­ur á að hefja einnig söfn­un á al­menn­um nytja­hlut­um sem ekki voru list­grip­ir, svo sem verk­fær­um og búsáhöld­um af ýmsu tagi sem end­ur­spegluðu dag­legt líf fólks hér á landi og tækni­m­inj­um síðar meir.

Árið 2004 var svo ný­upp­gert Þjóðminja­safn opnað á ný eft­ir gagn­ger­ar end­ur­bæt­ur á hús­næði safns­ins við Suður­götu, hús­næðið eins og við þekkj­um það í dag.

Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn. Á sama tíma hef­ur safnið aukið og miðlað þekk­ingu á menn­ing­ar­arfi og sögu þjóðar­inn­ar og gert hana aðgengi­legri fyr­ir gesti og gang­andi með áhuga­verðum hætti. Í dag teyg­ir starf­semi safns­ins sig um allt land, meðal ann­ars með Húsa­safni Þjóðminja­safns Íslands sem veit­ir inn­sýn í húsa­kost þjóðar­inn­ar á seinni öld­um og þróun húsa­gerðar. Það er eng­inn vafi í huga mér að við vær­um fá­tæk­ari sem þjóð ef ekki hefði verið fyr­ir fram­sýni Helga og fleiri um að hefja söfn­un forn­gripa fyr­ir 160 árum. Ég hvet því sem flesta til þess að leggja leið sína í Þjóðminja­safnið um helg­ina þar sem þess­um merk­is­áfanga verður fagnað með fjöl­breyttri dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Anastasia og Borysko

Deila grein

24/02/2023

Anastasia og Borysko

Ár er liðið í dag síðan veru­leik­inn breytt­ist hjá systkin­un­um An­astasiu, átta ára og Bor­ysko, tíu ára. Fyr­ir rétt rúmu ári sóttu þau grunn­skól­ann sinn í Kænug­arði, áhyggju­laus um framtíðina, eins og börn á þess­um aldri eiga skilið. Það mesta sem var að plaga þau var að An­astasia var nán­ast búin að ná full­um tök­um á Für Elise og pí­anó­tím­inn var næsta dag og Bor­ysko var ekki sátt­ur við sitt lið í ensku deild­inni. Hann batt von­ir við leik helgar­inn­ar sem fram und­an var. Hinn 24. fe­brú­ar breytt­ist líf fjöl­skyldu þeirra að ei­lífu. Móðir þeirra flúði með þau en faðir þeirra berst nú í stríðinu.

Von­brigði í Kreml

Árás­ar­stríð Vla­dimírs Pútíns í Úkraínu átti að sýna heim­in­um sterka stöðu her­veld­is Rúss­lands og hversu öfl­ugt hag­kerfið væri, þrátt fyr­ir fall Sov­ét­ríkj­anna árið 1991. Liður í að styrkja rúss­neska heimsveldið var að ná aft­ur Úkraínu. Ræður Pútíns síðustu ár hafa ein­kennst af þess­um heimsveld­is­draum­um hans og gagn­rýni á útþenslu­stefnu Banda­ríkj­anna. Þróun stríðsins í Úkraínu hef­ur verið niður­lægj­andi fyr­ir Pútín að sama skapi og ljóst að Kreml hafði ekki bú­ist við svona kröft­ug­um stuðningi vest­rænna þjóða. All­ir helstu sér­fræðing­ar töldu að Rúss­ar yrðu komn­ir inn í Kænug­arð á þrem­ur dög­um. Það varð hins veg­ar ekki raun­in og segja má að Rúss­ar hafi mis­reiknað sig hrap­al­lega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröft­ug mót­spyrna Úkraínu­manna neyddi Rússa á end­an­um til að hörfa frá stór­um landsvæðum en stríðið geis­ar nú í suður- og suðaust­ur­hluta lands­ins. Volodimír Selenskí for­seti Úkraínu ít­rekaði, á ör­ygg­is­ráðstefn­unni í München í síðustu viku, að það væri eng­inn ann­ar val­kost­ur í boði en fullnaðarsig­ur.

Stuðning­ur við Úkraínu mik­il­væg­ur gild­um okk­ar

Vegna inn­rás­ar­inn­ar blas­ir nýr veru­leiki við Evr­ópuþjóðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Mála­flokk­ur­inn hafði fengið lítið vægi í op­in­berri umræðu og sam­drátt­ur í fram­lög­um marga Evr­ópu­ríkja til varn­ar­mála hafði verið tals­verður. Að sama skapi hafa lyk­il­ríki verið háð Rússlandi um orku­öfl­un. Viðbrögð alþjóðasam­fé­lags­ins hafa verið for­dæma­laus og stuðning­ur við Úkraínu veru­leg­ur. Vel­vild og dygg­ur stuðning­ur banda­rískra stjórn­valda skipta höfuðmáli um gang stríðsins. Evr­ópa er enn og aft­ur al­gjör­lega háð stefnu Banda­ríkj­anna í varn­ar­mál­um. Varn­ar­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um end­ur­meta her­gögn og birgðir og gera ráð fyr­ir að út­gjöld til varn­ar­mála auk­ist vegna þess kostnaðar sem fylg­ir land­hernaði.

Vest­ur­lönd voru ít­rekað vöruð við þess­ari þróun

Vest­ur­lönd voru margoft vöruð við stjórn­ar­hátt­um Pútíns. Eft­ir að Rúss­ar yf­ir­tóku Krímskaga var gripið til aðgerða. Því miður töldu Vest­ur­lönd að efna­hags­refsiaðgerðirn­ar myndu duga til að koma í veg fyr­ir frek­ari átök, en þær voru veik­ar og dugðu skammt. Bók blaðakon­unn­ar Önnu Polit­kovskayu um Rúss­land Pútíns sem var gef­in út árið 2004, fjall­ar mjög ít­ar­lega um ein­ræðis­stjórn­hætti Pútíns. Bók Önnu fékk verðskuldaða at­hygli en í kjöl­farið var Anna myrt 7. októ­ber, 2006 á af­mæl­is­degi Pútíns. Hann fékk til­kynn­ing­una um morðið þegar þau Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, funduðu í Kreml. Haft hef­ur verið eft­ir Merkel að Pút­in hafi vilj­andi látið hvísla þessu að sér í þeim til­gangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu sam­hengi, eins og bar­áttu fjár­fest­is­ins Bills Browders fyr­ir rétt­læti vegna Ser­geis Magnit­skys, en sá síðar­nefndi var ná­inn sam­starfsmaður Browders og lést í fang­elsi í Rússlandi. Í fram­hald­inu samþykkti banda­ríska þingið Magnit­sky-lög­in, en þau fela í sér fjár­hags­leg­ar refsiaðgerðir gagn­vart rúss­nesk­um viðskipta­jöfr­um. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vest­ur­lönd voru vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rússlandi Pútíns.

Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands bygg­ist á traust­um stoðum

Ísland hef­ur tekið þátt af full­um þunga í aðgerðum banda­lags­ríkj­anna og stutt mynd­ar­lega við Úkraínu með ýms­um móti, meðal ann­ars með mót­töku flótta­fólks sem hingað hef­ur leitað í ör­uggt skjól. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um, er ekki sjálf­sögð. Inn­rás Rússa er grimmi­leg áminn­ing um það. Fram­sýn­ar ákv­arðanir ís­lenskra stjórn­mála­manna, um að taka sér stöðu með lýðræðis­ríkj­um með því að gera Ísland að stofn­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins árið 1949 og und­ir­rita tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in 1951, voru heilla­drjúg skref fyr­ir ís­lenska hags­muni. Þau mynda enn hryggj­ar­stykkið í ut­an­rík­is­stefnu okk­ar. Íslend­ing­ar eiga áfram að taka virk­an þátt í varn­ar- og ör­ygg­is­sam­starfi með banda­lagsþjóðum sín­um og standa vörð um þau gildi sem við reis­um sam­fé­lag okk­ar á. Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands frá ár­inu 2016 hef­ur þjónað okk­ur vel. Megin­áhersl­an er sem fyrr á aðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu, tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in ásamt aðild okk­ar að Sam­einuðu þjóðunum og nánu sam­starfi Norður­land­anna. Land­fræðileg staða Íslands held­ur áfram að skipta sköp­um í Norður-Atlants­haf­inu og við eig­um að halda áfram að styrkja þjóðarör­ygg­is­stefn­una.

Loka­orð

Þúsund­ir barna á borð við An­astasiu og Bor­ysko hafa leitað skjóls um all­an heim. Við eig­um að vera stolt af því að hafa veitt yfir 2500 kon­um og börn­um skjól frá þessu grimmi­lega árás­ar­stríði Pútíns. Við eig­um að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til að lina þján­ing­ar þeirra sem eru á flótta. Gera má ráð fyr­ir að stríðið verði lang­vinnt og það reyni á þraut­seigju Vest­ur­landa. Höf­um ætíð í heiðri frelsi og lýðræði en stríðið snýst um þau gildi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Deila grein

18/02/2023

Miðstöð skapandi greina á Íslandi

Eitt af því skemmti­lega við að starfa í stjórn­mál­um er að sjá afrakst­ur verka sinna fyr­ir sam­fé­lagið. Sú veg­ferð get­ur tekið á sig ýms­ar mynd­ir og verið mislöng. Síðastliðin vika var viðburðarík í þessu sam­hengi, en mik­il­væg­ir áfang­ar náðust fyr­ir mál­efni tón­list­ar, mynd­list­ar, hönn­un­ar og arki­tekt­úrs.

Á Alþingi mælti ég fyr­ir frum­varpi að tón­list­ar­lög­um og þings­álykt­un­ar­til­lögu um tón­list­ar­stefnu fyr­ir árin 2023-2030. Um er að ræða bæði fyrstu heild­ar­lög um tónlist í land­inu og fyrstu op­in­beru stefnu í mál­efn­um tón­list­ar á Íslandi. Ný heild­ar­lög um tónlist og tón­list­ar­stefna marka ákveðin vatna­skil fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu en fram und­an eru nokkuð rót­tæk­ar breyt­ing­ar til þess að efla stuðnings­kerfi tón­list­ar á Íslandi og styðja við ís­lenskt tón­listar­fólk í verk­um sín­um, bæði hér­lend­is og er­lend­is. Þannig verður ný tón­list­armiðstöð sett á lagg­irn­ar en henni er ætlað að verða horn­steinn ís­lensks tón­list­ar­lífs og sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þá mun nýr tón­list­ar­sjóður sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar í einn sam­eig­in­leg­an sjóð með það að mark­miði að ein­falda styrkjaum­hverfi ís­lensks tón­list­ar­lífs og auka skil­virkni þess.

Í þing­inu mælti ég einnig fyr­ir nýrri mynd­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 sem bygg­ist á fjór­um meg­in­mark­miðum sem hvert og eitt stuðli að um­bót­um og já­kvæðum breyt­ing­um svo að framtíðar­sýn stefn­unn­ar geti orðið að veru­leika. Meg­in­mark­miðin eru að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess. Í stefn­unni er einnig að finna fjölþætt­ar aðgerðir til þess að ná sett­um mark­miðum.

Síðastliðinn föstu­dag kynnti ég svo nýja stefnu í mál­efn­um hönn­un­ar og arki­tekt­úrs til árs­ins 2030. Leiðir að meg­in­mark­miðum stefn­unn­ar tengj­ast fimm áherslu­sviðum sem nán­ar er fjallað um í stefnu­skjal­inu; verðmæta­sköp­un, mennt­un fram­sæk­inna kyn­slóða, hag­nýt­ingu hönn­un­ar sem breyt­inga­afls, sjálf­bærri innviðaupp­bygg­ingu og kynn­ingu á ís­lenskri hönn­un og arki­tekt­úr.

Að baki öllu fyrr­nefndu ligg­ur mik­il og góð sam­vinna við fjölda sam­starfsaðila, og hag- og fagaðila í viðkom­andi grein­um. Í eyr­um sumra kunna orð eins og stefna og stefnu­mót­un að hljóma eins og froðukennd­ir fras­ar, en staðreynd­in er engu að síður sú að hér er kom­inn sam­eig­in­leg­ur leiðar­vís­ir til framtíðar, sem all­ir eru sam­mála um og nú er hægt að hrinda í fram­kvæmd. Fjár­mun­ir hafa nú þegar verið tryggðir til þess að hefja þá vinnu. Stjórn­völd­um er al­vara með því að sækja fram fyr­ir skap­andi grein­ar. Mikið af und­ir­bún­ings­vinn­unni er nú að baki, við tek­ur að bretta upp erm­ar og halda áfram að fram­kvæma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og aðrir uppvakningar

Deila grein

10/02/2023

Verðbólga og aðrir uppvakningar

Verðbólga á Íslandi er of mikil og er nýjasta mæling hennar 9,9%. Hækkunin milli mánaða hefur ekki verið meiri frá árinu 2002. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig og mældist 8,3% og hefur ekki verið meiri síðan í maí 2010. Hækkun húsnæðisverðs var áfram megindrifkraftur verðbólgu á fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að hægst hafi á verðhækkunum. Vísbendingar eru um að verðbólga sé byrjuð að hjaðna í Bandaríkjunum og Evrópu. Atvinnutölur í Bandaríkjunum sem birtust í síðustu viku benda til þess að þrótturinn í því hagkerfi er enn mikill. Hagsagan kennir okkur að of há verðbólga til lengri tíma rústar kaupmætti fólks.

Batnandi efnahagshorfur á heimsvísu

Uppfærð hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var birt nýlega og gefur tilefni til vænta þess að hagvöxtur á heimsvísu verði meiri en væntingar stóðu til. Breytingarnar má fyrst og fremst rekja til Kína, vegna þess að lyft hefur verið af öllum aðgerðum til að sporna gegn Covid-19. Hagspáin býst við 3,2% hagvexti á heimsvísu í ár og þykir nokkuð gott miðað við þau áföll sem heimsbúskapurinn hefur þurft að kljást við. Gert er ráð fyrir að dragi úr verðbólgu og að hún fari á heimsvísu úr 8,8% árið 2022 í 6,6% árið 2023 og 4,3% árið 2024. 

Hagsagan kennir okkur að of há verðbólga til lengri tíma rústar kaupmætti fólks.

Þessi verðbólguspá er farin að raungerast, bæði vegna þess að farið er að draga úr framleiðsluhnökrum í Kína og svo hefur dregið úr eftirspurn. Hærri stýrivextir seðlabanka hefur dregið úr fasteignaviðskiptum og umsvifum byggingaiðnaðarins. Hærra verðlag á vörum- og þjónustu hefur áhrif á heimilisbókhaldið og minnkað einkaneyslu á heimsvísu. Óvissan er þó mest einkennandi fyrir stöðuna og horfurnar og þá er ég að vísa til stríðsins í Evrópu og þess viðskiptastríðs sem geisar nú á milli Bandaríkjanna og Kína, ásamt þeirri hættu að aðrar þjóðir gætu dregist inn í þá deilu.

Verðbólgan er stóra viðfangsefnið á Íslandi og hagstjórnin tekur mið af því

Þróun verðbólgunnar eru vonbrigði. Margt kemur til eins og hækkanir á vöru- og þjónustuverði. Mestu áhyggjurnar lúta þó að því verðbólguvæntingar hafa verið að hækka. Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila í lok janúar og helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að gert er ráð fyrir að verðbólga minnki þegar líður á árið og verði 5,4% að ári liðnu og 4% eftir tvö ár.

Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld kynnt ýmsar aðgerðir til þess að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Má þar nefna hækkun bóta almannatrygginga, hærri húsnæðisbætur, sérstakur barnabótaauki, aukinn slagkraftur í húsnæðismál og fleira. 

Niðurstöður rannsókna hagfræðingsins Bobeica benda t.d. til þess að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga leiki lykilhlutverk í því að skýra minnkandi tengsl milli launahækkana og verðbólgu í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi.

Í mínu ráðuneyti á sér stað mikilvæg vinna er snýr að samkeppnis- og neytendamálum, en heilbrigð samkeppni grundvallaratriði í verðmyndun. Í þeim málum er meðal annars unnið að endurskoðun stofnanaumgjarðar samkeppnis- og neytendamála með það að markmiði að efla slagkraft í þágu neytenda. Fjármunir hafa verið auknir til neytendasamtakanna til að efla þeirra góða starf í þágu neytenda, og á næstu vikum mun ráðuneyti mitt styðja við nýtt verkefni, Matvörugáttina, sem mun stuðla að betri upplýsingamiðlum um verðlagningu til neytenda. Þá skipaði ég vinnuhóp sem hefur það hlutverk að rýna hagnað bankanna til að kanna hvort neytendur hér á landi borgi meira fyrir fjármálaþjónustu en neytendur á hinum Norðurlöndunum. Að auki hefur stjórn ríkisfjármála haft við al­menna aðhalds­kröfu, frest­að út­gjalda­svig­rúmi, kynnt var­an­lega lækk­un ferðakostnaðar hjá rík­inu og lækk­að fram­lög til stjórnmálaflokka.

Þróun verðbólgu á heimsvísu tekur breytingum … 

Samband verðbólgu og atvinnustigs hefur minnkað síðustu þrjá áratugi, þ.e. verðbólga hefur ekki verið eins næm fyrir slaka eða þenslu á vinnumarkaðnum. Ýmsar hagrannsóknir sýna að skammtímasamband verðbólgu og atvinnuleysis hefur verið að fletjast út, eins og það birtist í svokallaðri Phillips-kúrfu. Tvennt kemur til: Annars vegar aukin alþjóðavæðing, þar sem veröldin er að einhverju leyti orðin að einum markaði. Fyrirtæki sem selja vörur sínar alþjóðlega eru í mikilli samkeppni og eru því ólíklegri til að hækka verð sem byggist eingöngu á innlendum efnahagsaðstæðum. Að auki hefur framleiðslukostnaður lækkað verulega með alþjóðavæddum vinnumarkaði. 

Það eru blikur á lofti um að sambandið milli verðbólgu og atvinnustigs sé að styrkjast að nýju og að Philips-kúrfa sé að endurfæddast.

Tæknin spilar einnig stórt hlutverk í þessu samhengi. Ein helsta birtingarmynd þessa er fyrirtæki eins og Amazon er selur vörur sínar um heim allan. Hins vegar hefur framkvæmd peningastefnu styrkst verulega á síðustu áratugum. Talið er að forysta Pauls Volckers, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, hafi skipt mestu máli, en þá tókst að festa verðbólguvæntingar almennings. Niðurstöður rannsókna hagfræðingsins Bobeica benda t.d. til þess að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga leiki lykilhlutverk í því að skýra minnkandi tengsl milli launahækkana og verðbólgu í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi. Alþjóðagreiðslubankinn er sama sinnis, þ.e. áhrif launahækkana á verðbólgu eru minni í löndum þar sem verðstöðugleika hefur verið náð en í löndum þar sem verðbólga er jafnan meiri.

… og mun vaxandi skortur á vinnuafli breyta því?

Það eru hins vegar blikur á lofti um að sambandið milli verðbólgu og atvinnustigs sé að styrkjast að nýju og að Philips-kúrfa sé að endurfæddast. Þrennt kemur til: Í fyrsta lagi virðist vinnumarkaðurinn breyttur í Bandaríkjunum eftir farsóttina. Hagtölur gefa til kynna að margir hafi ekki skilað sér aftur inn á vinnumarkaðinn eða ákveðið að breyta um starfsvettvang. Að sama skapi eru stórir árgangar að detta út af vinnumarkaðnum sökum aldurs. Þá hefur einnig verið bent á að innflytjendastefna undanfarinna ára þar í landi hafi ekki hjálpað í þessum efnum. Fram undan gæti verið verulegur skortur á vinnuafli sem muni leiða til launahækkana og svo kostnaðarhækkana. 

Þegar þetta þrennt, bæði skammtíma- og langtímavandamál, kemur saman gæti orðið snúnara að ná tökum á verðbólgunni í 2% verðbólgumarkmiðið.

Framleiðni, samkvæmt nýjustu tölum, hefur einnig minnkað verulega í Bandaríkjunum. Í öðru lagi, þá hefur um nokkurra ára skeið verið viðskipta- og tæknistríð á milli Bandaríkjanna og Kína. Það, ásamt viðvarandi framboðshnökrum sem komu fyrst upp þegar farsóttin skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að færast aftur til Bandaríkjanna og kostnaður fer hækkandi samfara því. Í þriðja lagi hafa verðbólguvæntingar versnað verulega. Þegar þetta þrennt, bæði skammtíma- og langtímavandamál, kemur saman gæti orðið snúnara að ná tökum á verðbólgunni í 2% verðbólgumarkmiðið.

Að lokum

Eitt helsta verkefni stjórnvalda á næstu misserum verður að takast á við verðbólguna. Mikilvægt er að ríkisfjármál og peningamál spili áfram saman. Kerfisumbætur eru einnig á forræði hins opinbera og gætu lagt lóð á vogarskálarnar til að ná tökum á verðbólgunni. Á alþjóðavettvangi hefur verið vaxandi umræða um kerfisumbætur á framboðshliðinni til að leysa úr læðingi krafta hagkerfisins. Markmið nýrrar framboðsstefnu beinist að því að sameina hina hefðbundnu áherslu á að draga úr hömlum á atvinnulífinu, en leggja á sama tíma kraft í félagslega þætti vinnumarkaðarins til að efla atvinnu og atvinnuöryggi, en það felst meðal annars í því landið geti boðið öfluga innviði, menntun, starfsþjálfun, heilbrigði og húsnæði. Eins eigum við að horfa til þess að bjóða upp á að hækka starfsaldur en þó valfrjálst.

Á alþjóðavettvangi hefur verið vaxandi umræða um kerfisumbætur á framboðshliðinni til að leysa úr læðingi krafta hagkerfisins.

Horfur íslenska hagkerfisins eru bjartar. Hagvöxtur er kröftugur, atvinnuleysi er lítið, útflutningsgreinum vegnar vel og skuldastaða ríkissjóðs er hagfelld. Skapandi greinar og ferðaþjónusta eru í stórsókn og munu auka verðmætasköpun til lengri tíma litið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is/innherji 9. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Leggjumst öll á árarnar

Deila grein

07/02/2023

Leggjumst öll á árarnar

Verðbólga hef­ur markað umræðu um efna­hags­mál á Íslandi um ára­bil og glímdi Ísland lengi við verðbólgu sem mæld­ist langt um­fram það sem tíðkaðist í lönd­um í kring­um okk­ur.

Und­an­far­in 30 ár eða svo náðist að tempra verðbólg­una meðal ann­ars með þjóðarsátt­inni þegar all­ir lögðust á ár­arn­ar og meiri agi náðist í hag­stjórn, rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um. Þótt verðbólg­an væri stund­um um­fram það sem tíðkaðist í ná­granna­lönd­un­um var hún þó ekki langt um­fram.

Á síðasta ári voru verðbólgu­mæl­ing­ar hér þó ekki um­fram ná­granna­lönd­in og var Ísland á fyrri hluta árs­ins yf­ir­leitt í lægri kant­in­um miðað við sam­an­b­urðarlönd okk­ar. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd vísi­tala neyslu­verðs í Evr­ópu næst­lægst á Íslandi. Mæld­ist vísi­tal­an aðeins neðar í Sviss. Á síðasta ári urðu veru­leg­ar hækk­an­ir á alþjóðamörkuðum sem staf­ar af berg­máli vegna fram­leiðslu­hnökra frá þeim tíma að far­sótt­in stóð sem hæst og skelfi­legu stríði sem ekki hef­ur þekkst í marg­ar kyn­slóðir og skapað það sem kallað hef­ur verið lífs­kjara­kreppa á Vest­ur­lönd­um. Þannig má segja að verðbólga hafi því miður orðið að inn­flutn­ings­vöru, en á sama tíma hafa áfram orðið inn­lend­ar kostnaðar­hækk­an­ir og gengi krón­unn­ar gefið eft­ir. Það er gam­all sann­leik­ur í hag­fræðinni að verðbólga er af hinu illa og kem­ur verst niður á þeim sem viðkvæm­ast­ir eru, bæði þeim sem minnst hafa á milli hand­anna og þeim sem standa frammi fyr­ir fjár­fest­ingu eins og ungt fólk og fjöl­skyldu­fólk að koma sér upp hús­næði.

Á und­an­förn­um miss­er­um hafa stjórn­völd kynnt ýms­ar aðgerðir til þess að draga úr áhrif­um verðbólgu á lífs­kjör viðkvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins. Má þar nefna hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, hærri hús­næðis­bæt­ur, sér­stak­an barna­bóta­auka, auk­inn slag­kraft í hús­næðismál og fleira. Í mínu ráðuneyti á sér stað mik­il­væg vinna er snýr að sam­keppn­is- og neyt­enda­mál­um, en heil­brigð sam­keppni er grund­vall­ar­atriði í verðmynd­un. Í þeim mál­um er meðal ann­ars unnið að end­ur­skoðun stofnanaum­gj­arðar sam­keppn­is- og neyt­enda­mála með það að mark­miði að efla slag­kraft í þágu neyt­enda. Fjár­mun­ir hafa verið aukn­ir til Neyt­enda­sam­tak­anna til að efla þeirra ágæta starf í þágu neyt­enda, og á næstu vik­um mun ráðuneyti mitt kynna nýtt verk­efni sem mun stuðla að betri upp­lýs­inga­miðlum um verðlagn­ingu til neyt­enda. Þá skipaði ég vinnu­hóp sem hef­ur það hlut­verk að rýna hagnað bank­anna til að kanna hvort neyt­end­ur hér á landi borgi meira fyr­ir fjár­málaþjón­ustu en neyt­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Það er gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir þjóðfé­lagið að halda verðbólgu í skefj­um og það verk­efni þarf að nálg­ast úr ýms­um átt­um. Ég hef þá trú að ár­ang­ur ná­ist þegar við öll leggj­umst sam­an á ár­arn­ar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mik­il­vægt að neyt­end­ur séu á tán­um gagn­vart verðlagn­ingu á vöru og þjón­ustu og fyr­ir­tæki hækki ekki verð um­fram það sem eðli­legt get­ur tal­ist. Slíkt skipt­ir máli fyr­ir lífs­kjör­in í okk­ar góða landi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Deila grein

30/01/2023

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Þegar ég gekk inn í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið í des­em­ber­mánuði 2017 blasti við að öllu óbreyttu yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort­ur á Íslandi, en al­gjört hrun hafði orðið í braut­skrán­ing­um frá 2008; 80% í leik­skóla­kenn­ara­námi og 67% í grunn­skóla­kenn­ara­námi.

Sam­fé­lag án kenn­ara er ekki sam­keppn­is­hæft enda er kenn­ara­starfið mik­il­væg­asta starf sam­fé­lags­ins þar sem það legg­ur grunn­inn að öll­um öðrum störf­um. Kenn­ar­ar hafa leikið stórt hlut­verk í lífi okk­ar allra þar sem fyrstu tveir ára­tug­ir hverj­ar mann­eskju fara að tals­verðum hluta fram í kennslu­stofu. Við mun­um öll eft­ir kenn­ur­um sem höfðu mik­il áhrif á okk­ur sem ein­stak­linga, námsval og líðan í skóla. Góður kenn­ari skipt­ir sköp­um. Góður kenn­ari mót­ar framtíðina. Góður kenn­ari dýpk­ar skiln­ing á mál­efn­um og fær nem­andann til að hugsa af­stætt í leit að lausn­um á viðfangs­efn­um. Góður kenn­ari opn­ar augu nem­enda fyr­ir nýj­um hlut­um, hjálp­ar þeim áfram á beinu braut­inni og stend­ur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda.

Það var því ekk­ert mik­il­væg­ara en að snúa þess­ari nei­kvæðu þróun við, tak­ast á við yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort og sækja fram af full­um krafti fyr­ir kenn­ara­starfið. Strax í byrj­un síðasta kjör­tíma­bils var málið sett í for­gang í þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti og voru aðgerðir kynnt­ar á fyrsta árs­fjórðungi 2019. Þær fólu í sér:

Launað starfs­nám fyr­ir nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi.

Náms­styrk til nem­enda á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi til að auðvelda nem­end­um að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi og skapa hvata til þess að nem­end­ur klári nám sitt á til­sett­um tíma.

Styrki til starf­andi kenn­ara til náms í starfstengdri leiðsögn til að fjölga kenn­ur­um í ís­lensk­um skól­um sem hafa þekk­ingu á mót­töku nýliða í kennslu.

Sam­hliða var kenn­ara­frum­varp lagt fram og samþykkt af Alþingi til að leiða til meiri sveigj­an­leika og flæðis kenn­ara milli skóla­stiga til þess að auka starfs­mögu­leika þeirra.

Ég er stolt og glöð nú fjór­um árum síðar að sjá frétt­ir þess efn­is að út­skrifuðum kenn­ur­um hafi fjölgað um 160% sé miðað við meðaltal ár­anna 2015-2019 sem var 174. 454 út­skrifuðust sem kenn­ar­ar árið 2022!

Þetta er stór­sig­ur fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar og hefði aldrei tek­ist nema fyr­ir frá­bæra sam­vinnu mennta­mála­yf­ir­valda, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­bands Íslands, Há­skól­ans á Ak­ur­eyri, Menntavís­inda­sviðs Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Sam­taka iðnaðar­ins og sam­tak­anna Heim­ili og skóli.

Þetta sýn­ir svart á hvítu að aðgerðir dags­ins í dag skipta sköp­um fyr­ir framtíðina og það er vel hægt að tak­ast vel á við stór­ar áskor­an­ir á til­tölu­lega stutt­um tíma þegar all­ir róa í sömu átt með sam­vinn­una að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.

Categories
Greinar

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Deila grein

19/01/2023

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Á þessu kjör­tíma­bili verða mál­efni hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í önd­vegi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í góðri sam­vinnu við hagaðila. Mark­mið þeirr­ar vinnu er skýrt; við ætl­um að kynna stefnu og aðgerðir sem skila ár­angri, fag­mennsku og gæðum til hags­bóta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Ný hönn­un­ar­stefna verður mótuð og kynnt en henni er ætlað að virkja mannauð í hönn­un­ar­grein­um til þess að leysa brýn verk­efni sam­tím­ans, auka lífs­gæði og stuðla að sjálf­bærri verðmæta­sköp­un. Meðal lyk­ilaðgerða eru setn­ing laga um hönn­un og arki­tekt­úr, efl­ing Hönn­un­ar­sjóðs, bætt aðgengi ný­skap­andi hönn­un­ar­verk­efna að sam­keppn­is­sjóðum, end­ur­skoðun menn­ing­ar­stefnu í mann­virkja­gerð og að tryggja þátt­töku Íslands í Fen­eyjat­víær­ingn­um í arki­tekt­úr.

Í ár munu fram­lög til Hönn­un­ar­sjóðs hækka um 30 millj­ón­ir króna og um­fang sjóðsins því aukast í 80 m.kr. Sjóður­inn út­hlut­ar styrkj­um til marg­vís­legra verk­efna á sviði hönn­un­ar og arki­tekt­úrs en hlut­verk hans er að efla þekk­ingu, at­vinnu- og verðmæta­sköp­un og að stuðla að aukn­um út­flutn­ingi ís­lenskr­ar hönn­un­ar með því að styrkja kynn­ing­ar- og markaðsstarf er­lend­is.

Fyr­ir til­stilli fram­laga sjóðsins hef­ur mörg­um spenn­andi ný­skap­andi verk­efn­um verið hrint í fram­kvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snú­ast af krafti, en sam­tals hafa 386 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum frá upp­hafi. Stuðning­ur úr Hönn­un­ar­sjóði er mik­il­væg lyfti­stöng og viður­kenn­ing, og oft fyrsta skref að ein­hverju stærra.

Það eru stór efna­hags­leg tæki­færi fólg­in í því að styðja við skap­andi grein­ar líkt og hönn­un og arki­tekt­úr með skipu­lögðum hætti. Næg­ir þar að líta til Dan­merk­ur þar sem um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina hef­ur farið vax­andi í hag­kerf­inu und­an­far­in ár. Tug­ir þúsunda starfa eru inn­an slíkra greina þar í landi og hef­ur vöxt­ur í út­flutn­ingi þeirra verið um 4,8% ár­lega síðan 2011. Árið 2020 fóru út­flutn­ings­verðmæti skap­andi greina yfir 14 millj­arða evra en tísku­varn­ing­ur er til að mynda fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur.

Hönn­un og arki­tekt­úr snerta dag­legt líf okk­ar á ótal vegu og flest höf­um við skoðanir á hönn­un og arki­tekt­úr í ein­hverju formi. Ég hef sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að leggja áherslu á að efla ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr, sem fag- og at­vinnu­grein, út­flutn­ings­grein og mik­il­væga aðferðafræði – sem mun á end­an­um leiða til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið. Með hækk­un fram­laga í Hönn­un­ar­sjóð er stigið skref á þess­ari veg­ferð, slag­kraft­ur sjóðsins mun aukast og von­ir standa til þess að áhrifa hans gæti enn víðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.

Categories
Greinar

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Deila grein

12/01/2023

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Verðbólga mæld­ist 9,7% á þriðja árs­fjórðungi og hækk­un hús­næðisliðar­ins var áfram sá þátt­ur sem hafði mest áhrif. Hins veg­ar varð líka nokk­ur hækk­un á verði ým­iss kon­ar þjón­ustu og mat­vöru. Af­leiðing­ar auk­inn­ar verðbólgu eru versn­andi lífs­kjör, auk­inn ójöfnuður og fjár­magns­kostnaður ásamt óróa í fjár­mála­kerf­inu. Það sem er merki­legt við þróun verðbólg­unn­ar er ekki aðeins að hún hafi auk­ist um heim all­an held­ur eru und­ir­liggj­andi or­sak­ir henn­ar, að und­an­skildu hús­næðis­verði hér á landi, af svipuðum toga: Hækk­un alþjóðlegs hrá­ol­íu- og olíu­verðs, fram­boðshnökr­ar ásamt auk­inni eft­ir­spurn í kjöl­far þrótt­mik­illa stuðningsaðgerða í rík­is- og pen­inga­mál­um til að vinna gegn efna­hags­sam­drætt­in­um í tengsl­um við far­sótt­ina. Þróun verðbólg­unn­ar er þó að breyt­ast ef við lít­um á stærstu hag­kerf­in. Verðbólga virðist vera á niður­leið í Evr­ópu, þar sem orku­verð hef­ur hjaðnað, en verðbólguþró­un­in í Banda­ríkj­um virðist áfram vera þrálát og það sama má segja um Ísland. Þessi tvö síðast­nefndu lönd eiga það sam­eig­in­legt að vinnu­markaður­inn er kröft­ug­ur. En hvað veld­ur og hvað er til ráða?

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur verið að veikj­ast en…

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur farið þverr­andi síðustu þrjá ára­tugi, þ.e. verðbólga hef­ur ekki verið eins næm fyr­ir slaka eða þenslu á vinnu­markaðnum. Marg­ar hagrann­sókn­ir benda til þess að skamm­tíma­sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is hafi verið að fletj­ast út eins og það birt­ist í hag­fræðinni í svo­kallaðri Phillips-kúrfu. Líta má á tvær meg­in­skýr­ing­ar að mínu mati. Ann­ars veg­ar: Auk­in alþjóðavæðing, þar sem ver­öld­in er að ein­hverju leyti orðin að ein­um markaði. Fyr­ir­tæki sem selja vör­ur sín­ar í mörg­um lönd­um og mæta sam­keppni frá er­lend­um fyr­ir­tækj­um séu ólík­legri til að hækka verð sem bygg­ist ein­göngu á inn­lend­um efna­hagsaðstæðum og fram­leiðslu­kostnaður­inn hef­ur lækkað veru­lega með alþjóðavædd­um vinnu­markaði. Tækn­in spil­ar stórt hlut­verk í þessu sam­hengi, eins og fyr­ir­tækið Amazon. Hins veg­ar hef­ur fram­kvæmd pen­inga­stefnu styrkst veru­lega á síðustu ára­tug­um. Ben Bern­ar­ke, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, held­ur því fram að for­ysta Pauls Volckers hafi gert þar gæfumun, en þá tókst að festa verðbólgu­vænt­ing­ar al­menn­ings gagn­vart verðbólgu. Niður­stöður rann­sókna Bo­beica o.fl. benda t.d. til þess að traust­ari kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga leiki lyk­il­hlut­verk í því að skýra minnk­andi tengsl milli launa­hækk­ana og verðbólgu í Banda­ríkj­un­um und­an­farna þrjá ára­tugi. Að sama skapi kemst Alþjóðagreiðslu­bank­inn að þess­ari niður­stöðu, þ.e. áhrif launa­hækk­ana á verðbólgu eru minni í lönd­um þar sem verðstöðug­leika hef­ur verið náð en í lönd­um þar sem verðbólga er jafn­an meiri.

…munu vax­andi skort­ur á vinnu­afli og versn­andi verðbólgu­horf­ur breyta því?

Það eru hins veg­ar blik­ur á lofti um að sam­bandið milli verðbólgu og at­vinnu­stigs sé að styrkj­ast að nýju og hin hefðbundna Phil­ips-kúrfa end­ur­fædd. Þrennt kem­ur til: Í fyrsta lagi virðist vinnu­markaður­inn breytt­ur í Banda­ríkj­un­um eft­ir far­sótt­ina. Hag­töl­ur gefa til kynna að marg­ir hafi ekki skilað sér aft­ur inn á vinnu­markaðinn eða ákveðið að breyta um starfs­vett­vang. Að sama skapi eru stór­ir ár­gang­ar að detta út af vinnu­markaðnum sök­um ald­urs. Kenn­ing­ar eru uppi um að fram und­an gæti verið veru­leg­ur skort­ur á vinnu­afli sem muni leiða til launa­hækk­ana og svo kostnaðar­hækk­ana. Fram­leiðni, sam­kvæmt nýj­ustu töl­um, hef­ur einnig minnkað veru­lega. Í öðru lagi, þá hef­ur um nokk­urra ára skeið verið viðskipta- og tækn­i­stríð á milli Banda­ríkj­anna og Kína. Það, ásamt viðvar­andi fram­boðshnökr­um sem komu fyrst upp þegar far­sótt­in skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að fær­ast aft­ur til Banda­ríkj­anna og kostnaður fer hækk­andi sam­fara því. Í þriðja lagi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Þegar þetta þrennt, bæði skamm­tíma- og lang­tíma­vanda­mál, kem­ur sam­an gæti orðið snún­ara fyr­ir banda­ríska seðlabank­ann að koma bönd­um á verðbólgu.

Ef við lít­um á ís­lenska hag­kerfið í þessu sam­hengi, þá er það sama upp á ten­ingn­um. Mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi lítið. Að sama skapi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Sam­kvæmt síðustu Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands hef­ur hlut­fall þeirra sem bú­ast við að verðbólga verði meiri en 5% á næstu fimm árum hækkað tölu­vert á þessu ári. Það er ný saga og göm­ul að þegar verðbólga er yfir mark­miði í lang­an tíma eykst hætt­an á að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga veikist og það get­ur tekið lang­an tíma að ná þeim aft­ur niður í mark­mið. Til að koma bönd­um á verðbólg­una þarf að viðhalda góðu sam­ræmi á milli rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála. Að sama skapi er mik­il­vægt að tryggja öfl­ugt fjár­mála­kerfi sem tek­ist get­ur á við óróa á fjár­mála­mörkuðum og viðhaldið viðun­andi kjör­um. Það má jafn­framt ekki missa sjón­ar á mik­il­vægi þess að tryggja jafn­vægi í ut­an­rík­is­viðskipt­um og koma þar marg­ir þætt­ir að. Enn frem­ur verður það verk­efni að sjá til þess að fram­boðshlið hag­kerf­is­ins verði ekki hamlandi þátt­ur fyr­ir al­menn­ing og at­vinnu­lífið, en fram­boðshliðin er alltumlykj­andi og skoða verður gaum­gæfi­lega hvar fram­boðshnökra er að finna í hag­kerf­inu til að leysa krafta úr læðingi án þess að það hafi áhrif á verðlagið.

„Eigi skal gráta Björn bónda, held­ur skal safna liði,“ sagði Ólöf Lofts­dótt­ir, kona Björns Þor­leifs­son­ar hirðstjóra, þegar hún frétti að ensk­ir sjó­ræn­ingj­ar hefðu vegið mann sinn vest­ur á Rifi á Snæ­fellsnesi árið 1467. Þessa hvatn­ingu má heim­færa á verðbólguógn­ina og að halda verði áfram að grípa til aðgerða til að hamla því að hún nái fót­festu í ís­lensku efna­hags­lífi með skelfi­leg­um af­leiðing­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. janúar 2023.