Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.

Categories
Greinar

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Deila grein

05/12/2020

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Af öll­um þeim gild­um sem mér voru inn­rætt í æsku hef­ur þraut­seigj­an lík­lega reynst mér best. Sá eig­in­leiki að gef­ast ekki upp þótt móti blási, að standa aft­ur upp þegar maður miss­ir fót­anna og trúa því að drop­inn holi stein­inn. Að lær­dóm­ur­inn sem við drög­um af mis­tök­um styrki okk­ur og auki lík­urn­ar á að sett mark ná­ist. Þannig hef ég kom­ist gegn­um áskor­an­ir í lífi og starfi og stund­um náð ár­angri sem mér þótti fjar­læg­ur í upp­hafi.

Seigla hef­ur frá aldaöðli þótt mik­il dyggð. Til henn­ar er vísað með bein­um og óbein­um hætti í helstu trú­ar­rit­um heims­ins, heim­speki og stjórn­mál­um. Jesús Krist­ur og Búdda töluðu um þraut­seigju, John Stu­art Mill um seiglu og Mart­in Lúther King sagði fólki að hlaupa ef það gæti ekki flogið, ganga ef það gæti ekki hlaupið og skríða ef það gæti ekki gengið. Lyk­il­atriði væri, að hreyf­ast fram á við hversu hratt sem maður færi!

Í gömlu mál­tæki seg­ir að þol­in­mæði vinni all­ar þraut­ir, en hitt er nær sanni að þraut­seigj­an geri það. Það dug­ar ekki alltaf að anda ró­lega þegar eitt­hvað bját­ar á, held­ur þarf að bretta upp erm­ar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en und­ur eigi – upp með plóg­inn, hér er þúfa í vegi,“ orti Ein­ar Ben í hvatn­ing­ar­ljóði til þjóðar­inn­ar fyr­ir 120 árum og þau skila­boð eiga enn við. Þannig mun slag­ur­inn við heims­far­ald­ur aðeins vinn­ast ef við tök­um sam­an hönd­um. Vinn­um sem einn maður að því að tryggja heilsu al­menn­ings, vel­ferð, at­vinnu­stig og mennt­un þeirra sem erfa landið. Það síðast­nefnda hef­ur tek­ist ótrú­lega vel, enda hafa hagaðilar í mennta­kerf­inu unnið náið sam­an, sýnt mikið út­hald og þraut­seigju. Það er því viðeig­andi að þraut­seigj­an sé til­greind sem eitt af gild­um nýrr­ar mennta­stefnu sem nú er rædd á Alþingi.

Meg­in­inn­tak mennta­stefn­unn­ar er að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þar gild­ir einu bak­grunn­ur fólks, fé­lags­leg­ar aðstæður og meðfædd­ir eig­in­leik­ar, því sam­an ætl­um við að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um allra nem­enda. Skipu­leggja mennt­un og skólastarf út frá ólík­um þörf­um fólks og gef­ast ekki upp þótt móti blási. Það er nefni­lega ekki vöggu­gjöf­in sem skýr­ir náms­ár­ang­ur held­ur viðhorfið til mennt­un­ar, vinnusiðferðið og til­trú­in á að náms­geta sé ekki fasti held­ur vaxi þegar hlúð er að henni. Á sama hátt ræðst ár­ang­ur okk­ar í líf­inu ekki af forskrifuðum ör­lög­um, held­ur líka vinn­unni sem við leggj­um á okk­ur, af­stöðu okk­ar til mál­efna og siðferðinu sem við rækt­um með okk­ur.

Stund­um er sagt að seigla sé þjóðarein­kenni Íslend­inga. Hún hafi haldið líf­inu í okk­ur í þúsund ár, á meðan við kúrðum í torf­bæj­um fyrri alda. Vafa­laust er margt til í því, þótt Íslend­ing­ar ein­ir geti tæp­ast slegið eign sinni á seigl­una. Þvert á móti hef­ur hún verið upp­spretta fram­fara um all­an heim og verður það áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Íslenska iðnbyltingin

Deila grein

27/11/2020

Íslenska iðnbyltingin

Sæt­ur ilm­ur­inn af pip­ar­kök­um, randalín­um og smá­kök­um er alltumlykj­andi, enda jól­in á næsta leiti. Ást Íslend­inga á sæt­um kök­um og brauði er þó ekki bund­in við eina árstíð og fátt er betra en að vakna snemma um helg­ar til að skjót­ast í bakarí fyr­ir fjöl­skyld­una. Bera fram nýbakað brauð, álegg og jafn­vel leyfa börn­un­um að sökkva sér í kleinu­hring eða volg­an snúð.

Bak­araiðn á sér langa sögu hér á landi. Árið 1834 stóð kaupmaður­inn Peter C. Knudt­son fyr­ir bygg­ingu húsa á Torf­unni svo­kölluðu, þar sem eitt hús­anna var búið bak­ara­ofni. Þangað réðst til starfa er­lendi bak­ara­meist­ar­inn Tönnies Daniel Bern­höft og Ber­höfts-bakarí varð til. Fram­an af voru ein­ung­is bakaðar nokkr­ar teg­und­ir af brauði, svo sem rúg­brauð, fransk­brauð, súr- og land­brauð, en smám sam­an jókst úr­valið og þótti fjöl­breytt um alda­mót­in 1900. Þar með var grunn­ur­inn lagður að baka­rís­menn­ingu sem er löngu rót­gró­in í sam­fé­lag­inu. Form­legt nám í bak­araiðn hófst í Iðnskól­an­um í Reykja­vík árið 1964 og greina mátti mikla ánægju yfir því að stórt bar­áttu­mál bak­ara­stétt­ar­inn­ar væri í höfn!

Enn má merkja mikla ánægju með ís­lensk bakarí, en ánægj­an nær einnig til annarra iðngreina. Við erum stolt af fag­mennsku þeirra sem lært hafa sína iðn í ís­lensk­um skól­um og loks­ins er okk­ur að tak­ast að ryðja úr vegi kerf­is­læg­um hindr­un­um í starfs­mennta­kerf­inu – nokkuð sem lengi hef­ur verið rætt, án sýni­legs ár­ang­urs fyrr en nú. Kerf­is­breyt­ing­un­um er ætlað að jafna stöðu iðnnáms og bók­náms, fjölga þeim sem mennta sig í takt við eig­in áhuga, auka veg og virðingu iðngreina og upp­fylla bet­ur þarf­ir sam­fé­lags­ins. Þetta er mín mennta­hug­sjón.

Stefnt er að því að frá og með næsta skóla­ári fái iðnmenntaðir sem vilja aðgang að há­skól­um, rétt eins og bók­menntaðir fram­halds­skóla­nem­ar. Í því felst bæði sjálf­sögð og eðli­leg grund­vall­ar­breyt­ing. Önnur slík felst í nýrri aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema en fram­veg­is mun skóla­kerfið tryggja náms­lok nem­enda, sem ráðast ekki af aðstæðum nema til að kom­ast á starfs­samn­ing. Reglu­gerð í þessa veru verður gef­in út á næstu dög­um, en þetta er lík­lega stærsta breyt­ing­in sem orðið hef­ur á starfs­mennta­kerf­inu í ára­tugi. Aukn­um fjár­mun­um hef­ur verið veitt til tækja­kaupa og til að bæta kennsluaðstæður í starfs­mennta­skól­um. Við höf­um ráðist í kynn­ingar­átak með hagaðilum til að vekja at­hygli á starfs- og tækni­námi, skóla­hús­næði verið stækkað og und­ir­bún­ing­ur að nýj­um Tækni­skóla er haf­inn.

Sam­hliða hef­ur ásókn í starfs­nám auk­ist gríðarlega og nú kom­ast færri að en vilja. Ein­hverj­ir kalla það lúxusvanda, en minn ásetn­ing­ur er að tryggja öll­um nám við hæfi, bæði hár­greiðslu­mönn­um og smíðakon­um. Með fjöl­breytta mennt­un og ólíka færni byggj­um við upp sam­fé­lag framtíðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Deila grein

17/11/2020

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Eng­inn kemst á áfangastað nema vita hvert ferðinni er heitið! Skýr mark­mið eru for­senda þess að ár­ang­ur ná­ist. Við gerð nýrr­ar mennta­stefnu hafa þau sann­indi verið höfð að leiðarljósi. Ég mun í dag mæla fyr­ir þings­álykt­un um mennta­stefnu til árs­ins 2030. Það er mín von að þing­heim­ur verði sam­stiga í því brýna sam­fé­lags­verk­efni að varða mennta­veg­inn inn í framtíðina.

Meg­in­mark­miðið er að tryggja Íslend­ing­um framúrsk­ar­andi mennt­un alla ævi. Stefn­an bygg­ist á fimm stoðum, sem sam­an mynda traust­an grunn til að byggja á. Við vilj­um 1) jöfn tæki­færi fyr­ir alla, 2) að kennsla verði í fremstu röð, 3) að nem­end­ur öðlist hæfni fyr­ir framtíðina, 4) að vellíðan verði í önd­vegi í öllu skóla­starfi og 5) gæði í for­grunni. Und­ir stoðunum fimm hafa 30 áhersluþætt­ir verið skil­greind­ir, sem eiga að skapa öfl­ugt og sveigj­an­legt mennta­kerfi – kerfi sem stuðlar að jöfn­um tæki­fær­um til náms, enda geta all­ir lært og all­ir skipta máli. Verði þings­álykt­un­ar­til­lag­an samþykkt verður unn­in aðgerðaáætl­un með ár­ang­urs­mæli­kvörðum til þriggja ára í senn, sem met­in verður ár­lega.

Mennta­stefn­an var unn­in í víðtæku sam­ráði, með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu. Stefnu­mót­un­in byggðist m.a. á efni og umræðum á fund­um með skóla­fólki og full­trú­um sveit­ar­fé­laga um allt land, sam­ræðum á svæðisþing­um tón­list­ar­skóla, sam­starfi við for­eldra, börn og ung­menni, at­vinnu­líf, Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina (e. OECD) og fleiri hags­munaaðila. Stefnu­drög fengu já­kvæð viðbrögð í sam­ráðsgátt stjórn­valda, þaðan sem gagn­leg­ar ábend­ing­ar bár­ust og voru þær m.a. notaðar til að þétta stefn­una og ein­falda fram­setn­ing­una. Fyr­ir vikið er text­inn aðgengi­leg­ur og skýr, sem er ein af for­send­um þess að all­ir hlutaðeig­andi skilji hann á sama hátt og sam­mæl­ist um mark­miðin.

Mennt­un er lyk­ill­inn að tæki­fær­um framtíðar­inn­ar. Hún er eitt helsta hreyfiafl sam­fé­laga og á tím­um fá­dæma um­skipta, óvissu og örra tækni­bylt­inga verða þjóðir heims að búa sig und­ir auk­inn breyti­leika og sí­fellt flókn­ari áskor­an­ir. Framtíðar­horf­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar velta á sam­keppn­is­hæfni og sjálf­bærni ís­lenska mennta­kerf­is­ins. Vel­gengni bygg­ist á vel menntuðum ein­stak­ling­um með skap­andi og gagn­rýna hugs­un, fé­lags­færni og góð tök á ís­lensku og er­lend­um tungu­mál­um til að tak­ast á við hnatt­ræn­ar áskor­an­ir.

Mennt­un styrk­ir, vernd­ar og efl­ir viðnámsþrótt ein­stak­linga og sam­fé­laga. Með mennta­stefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslend­inga til eig­in mennt­un­ar með vaxt­ar­hug­ar­far að leiðarljósi. Þekk­ing­ar­leit­inni lýk­ur aldrei og mennt­un, form­leg sem óform­leg, er viðfangs­efni okk­ar allra, alla ævi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Von kviknar með bóluefni

Deila grein

15/11/2020

Von kviknar með bóluefni

Það tók fær­ustu vís­inda­menn heims níu ár að þróa bólu­efni gegn misl­ing­um, eft­ir að veir­an sem olli sjúk­dómn­um var ein­angruð um miðja síðustu öld. Til­raun­ir og rann­sókn­ir með bólu­efni gegn löm­un­ar­veiki stóðu í 20 ár, áður en fyrsta leyfið var gefið út í Banda­ríkj­un­um árið 1955. Í því sam­hengi þykir krafta­verki lík­ast að bólu­efni gegn Covid-19 sé vænt­an­legt inn­an fárra vikna, rúm­lega ári eft­ir að fyrstu frétt­ir bár­ust af dul­ar­full­um veiru­sjúk­dómi sem síðar varð að heims­far­aldri. Bólu­efnið virðist jafn­framt vera óvenju öfl­ugt og rann­sókn­ir sýna virkni langt um­fram vænt­ing­ar.

Eng­inn hef­ur áður bólu­sett heims­byggðina

Frétt­irn­ar hafa sann­ar­lega blásið heims­byggðinni bjart­sýni í brjóst og nú þykir raun­hæft að sigr­ast á sjúk­dómn­um sem kostað hef­ur 1,3 millj­ón­ir manns­lífa. Sig­ur í þeirri bar­áttu er þó ekki unn­inn og næstu mánuðir verða erfiðir. Frek­ari rann­sókn­ir og gagna­söfn­un er nauðsyn­leg, sem von­andi styður við fyrstu niður­stöður af töfra­efn­inu góða. Í fram­hald­inu þarf að fram­leiða efnið í mikl­um mæli, dreifa því og bólu­setja svo til sam­tím­is heims­byggðina alla. Slíkt hef­ur ekki verið gert áður.

Var­fær­in bjart­sýni en mik­il áhrif á fjár­mála­markaði

Viðbrögðin við bólu­efna-frétt­un­um voru mik­il, þótt ýms­ir hafi hvatt til var­fær­inn­ar bjart­sýni. Þýsk-tyrk­nesku hjón­in sem leiða vís­inda­starfið fögnuðu frétt­un­um með bolla af tyrk­nesku tei og áréttuðu af yf­ir­veg­un, að enn væri mikið starf óunnið. Fjár­mála­markaðir tóku hins veg­ar hressi­lega við sér og verðbréfa­vísi­töl­ur sveigðust bratt upp á við. Hluta­bréf hækkuðu mikið í fyr­ir­tækj­um sem verst hafa orðið úti í heims­far­aldr­in­um – t.d. flug- og ferðafé­lög­um – og já­kvæðir straum­ar kvísluðust um allt sam­fé­lagið, meðal ann­ars inn í hag­vaxt­ar­spá Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD). Nú spá­ir stofn­un­in því að hag­vöxt­ur á næsta ári verði 7%, eða 2% hærri vegna til­komu bólu­efn­is­ins, eft­ir sögu­leg­an sam­drátt, með til­heyr­andi at­vinnum­issi sem von­andi snýst við á ár­inu 2021.

Mark­viss viðbrögð og varn­ar­sig­ur

Þegar óheilla­ald­an skall á Íslandi sl. vet­ur mátti öll­um vera ljóst að framund­an væru mikl­ir erfiðleik­ar. Þúsund­ir starfa töpuðust og stönd­ug­ur rík­is­sjóður þurfti að taka á sig dæma­laus­ar byrðar til að tryggja inn­lenda hag­kerf­inu súr­efni. Sum­ir báru þá fals­von í brjósti að ástandið myndi aðeins vara í nokkr­ar vik­ur, en eins og ég nefndi í sam­tali við Morg­un­blaðið í byrj­un apríl hlaut bólu­efni að vera for­senda þess að opnað væri fyr­ir flæði fólks til og frá land­inu. Viðbrögðin við viðtal­inu voru sterk og ein­hverj­um þótti óvar­lega talað af minni hálfu, þótt veru­leik­inn blasti við öll­um og spá­in hefði síðar raun­gerst.

Til­raun­ir stjórn­valda til að örva ís­lenska hag­kerfið hafa heppn­ast vel. Um­fangs­mik­ill stuðning­ur við fólk og fyr­ir­tæki hef­ur minnkað höggið af niður­sveifl­unni og fjár­mun­ir sem áður fóru úr landi verið notaðir inn­an­lands. Versl­un af ýmsu tagi hef­ur blómstrað, spurn eft­ir þjón­ustu iðnaðarmanna verið sögu­lega há og hreyf­ing á fast­eigna­markaði mik­il. Inn­lend fram­leiðsla hef­ur gengið vel og með aukn­um op­in­ber­um fjár­veit­ing­um til ný­sköp­un­ar­verk­efna, menn­ing­ar og lista hef­ur fræi verið sáð í frjó­an svörð til framtíðar. Krefj­andi og for­dæma­laus­ir tím­ar hafa því ekki ein­göngu verið nei­kvæðir, þótt vissu­lega eigi marg­ir um sárt að binda vegna at­vinnum­issis, veik­inda og jafn­vel dauðsfalla af völd­um veirunn­ar. Hug­ur minn er hjá þeim og ég vona að viðsnún­ing­ur­inn sem blas­ir nú við færi þeim gæfu.

Ísland hef­ur tryggt sér bólu­efni

Bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna er ekki lokið. Öll hag­kerfi heims­ins eru löskuð eft­ir ár mik­illa efna­hags­áfalla. Þjóðir heims munu því keppa sem aldrei fyrr um hylli frum­kvöðla, fjár­festa og ferðamanna, þar sem mark­miðið er að skapa vel­sæld fyr­ir þegn­ana. Fremst í verk­efnaröðinni er þó að tryggja heil­brigði fólks, sem er for­senda þess að líf fær­ist aft­ur í fyrri skorður. Líkt og ann­ars staðar er und­ir­bún­ing­ur bólu­setn­ing­ar haf­inn hér­lend­is, þar sem for­gangs­hóp­ar hafa verið skil­greind­ir og skipu­lag er í vinnslu. Ísland hef­ur tryggt sér aðgang að of­an­greindu bólu­efni, en jafn­framt verður áhuga­vert að fylgj­ast með þróun tveggja til þriggja annarra bólu­efna sem eru álíka langt kom­in í þró­un­ar­ferl­inu og efnið sem vakið hef­ur at­hygli und­an­farna daga.

Mesta öldu­rótið er næst landi

Á und­an­förn­um níu mánuðum hef­ur þjóðin sýnt mikla seiglu og sam­hug. Sigl­ing­in hef­ur verið löng og ströng, en nú sjá­um við til lands og get­um leyft okk­ur að líta björt­um aug­um fram á við. Við slík­ar aðstæður er brýnna en orð fá lýst að halda ein­beit­ing­unni, enda veit fiskiþjóðin að brimið er mest næst landi – þar sem blindsker geta gatað þjóðarskút­una og valdið ómældu tjóni ef ekki er farið var­lega. Það lát­um við ekki ger­ast, held­ur ætl­um við að standa sam­an og muna að leik­inn þarf að spila til enda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Loksins, loksins!

Deila grein

12/11/2020

Loksins, loksins!

Það er tákn­rænt að á­kvörðun um mikil­væg skref við upp­byggingu nýs þjóðar­leik­vangs skuli liggja fyrir á sama tíma og þjóðin heldur í sér andanum vegna stór­leiksins í Ung­verja­landi í kvöld. Hvort tveggja markar tíma­mót – vatna­skil sem í­þrótta­fólk og -unn­endur hafa beðið eftir.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja formlegar viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref í undirbúningsferlinu. Meðal annars þarf að semja um fyrirkomulag útboðs á helstu verkþáttum, verkefnisstjórn, hönnun, eignarhald og fjármögnun. Ég er bjartsýn á góða lendingu og að leikvangur 21. aldarinnar rísi innan fárra ára.

Lengi hefur verið ljóst að reisa þyrfti keppnisaðstöðu sem stæðist alþjóðlegar kröfur. Undanfarin 63 ár hefur Laugardalsvöllur fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og þar hafa landsliðin okkar náð undraverðum árangri. Um árabil hefur völlurinn hins vegar þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum, með ærnum tilkostnaði. Völlurinn uppfyllir til dæmis ekki viðmið um aðgengi fatlaðs fólks, aðstöðu og öryggi vallargesta, leikmanna, dómara og fjölmiðla. Hann er barn síns tíma og það er tímabært að blása til sóknar.

Það er fagnaðarefni að málið sé loksins komið á hreyfingu og nú skuli hilla undir nýjan leikvang. Starfshópur hefur skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum, kostum, göllum, ávinningi og áhættu af ólíkum leiðum. Niðurstaðan er sú að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni með tilliti til nýtingar og fleiri þátta. Nú þurfa stjórnvöld og Reykjavíkurborg að tækla verkefnið með ákveðni og af stórhug, spila sóknarleik og klára færið.

Tími innviðafjárfestinga er runninn upp og því eru spennandi tímar fram undan. Við blásum til stórsóknar! Nýr þjóðarleikvangur mun ekki einungis þjóna landsliðum okkar heldur einnig íslenskum félagsliðum og samfélaginu öllu. Við sjáum fyrir okkur nýjan og glæsilegan vettvang fyrir fótboltaleiki, sýningar, viðburði og tónleikahald. Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birist fyrst í Fréttablaðinu 12. nóvember 2020.

Categories
Fréttir

Nýr þjóðarleikvangur

Deila grein

11/11/2020

Nýr þjóðarleikvangur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu.

„Laugardalsvöllur var reistur af stórhug fyrir 63 árum og hefur reynst vel – fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og skilað íslensku knattspyrnufólki á stærstu úrslitakeppnir í heimi,“ segir Lilja Dögg.

„Hann er hins vegar barn síns tíma og langt frá því að uppfylla viðmið, m.a. um öryggi og aðstöðu vallargesta, aðgengi fatlaðs fólk, aðstöðu leikmanna, dómara og fjölmiðla, hitakerfi o.s.frv. Það er því löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og ég er vongóð um að hann muni rísa á næstu 5 árum.“

Með viðræðum við Reykjavíkurborg er mikilvægt skref stigið í að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum. Viðræðurnar munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

  • Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
  • Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
  • Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
  • Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn
AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Categories
Greinar

Nýtum tímann og finnum leiðir

Deila grein

08/11/2020

Nýtum tímann og finnum leiðir

Fram­halds­skól­ar hafa starfað með óhefðbundnu sniði frá því sam­komutak­mark­an­ir voru fyrst boðaðar í mars. Fjöl­breytni skól­anna krist­all­ast í áskor­un­um sem skóla­stjórn­end­ur, kenn­ar­ar og nem­end­ur mæta á hverj­um stað, allt eft­ir því hvort um bók- eða verk­náms­skóla er að ræða, fjöl­brauta­skóla eða mennta­skóla með bekkja­kerfi. Aðstæður eru mis­mun­andi, en í gróf­um drátt­um hef­ur verk­legt nám farið fram í staðkennslu en bók­legt nám al­mennt í formi fjar­kennslu. Marg­ir skól­anna hafa breytt náms­mati sínu, með auk­inni áherslu á símat en minna vægi loka­prófa, og sýnt mikla aðlög­un­ar­hæfni. Með henni hef­ur tek­ist að tryggja mennt­un og halda nem­end­um við efnið, þótt aðstæður séu svo sann­ar­lega óhefðbundn­ar.

Allt frá því að far­ald­ur­inn braust út hef ég verið í mikl­um sam­skipt­um við skóla­stjórn­end­ur, full­trúa kenn­ara og ekki síst fram­halds­skóla­nema. Af sam­töl­um við nem­end­ur má ráða að þeirra heit­asta ósk sé að kom­ast í skól­ann sinn og efla sinn vits­muna- og fé­lagsþroska sam­hliða nám­inu. Hér skal tekið fram, að marg­ir hafa náð góðum tök­um á fjar­nám­inu og því ekki farið á mis við náms­efnið sjálft, en fé­lags­lega hliðin hef­ur visnað og nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag er að mínu mati ekki sjálf­bært. Það tek­ur hressi­leg­an takt­inn úr dag­legu lífi unga fólks­ins, eyk­ur lík­urn­ar á fé­lags­legri ein­angr­un, and­legri van­líðan og skap­ar jafn­vel spennu í sam­skipt­um þeirra við for­eldra.

Sótt­varn­a­regl­ur veita skóla­stjórn­end­um lítið svig­rúm, en við ætl­um að nýta tím­ann vel og lenda hlaup­andi um leið og tæki­færi gefst til auk­ins staðnáms. Í því sam­hengi höf­um við skoðað ýms­ar leiðir, fundað með land­lækni og sótt­varna­lækni um horf­ur og mögu­leg­ar lausn­ir, kannað hvort leiga á viðbót­ar­hús­næði myndi nýt­ast skól­un­um – t.d. ráðstefnu­sal­ir, kvik­mynda- og íþrótta­hús sem nú standa tóm – og hvernig megi tryggja stöðug­leika í skóla­starf­inu óháð Covid-sveifl­um í sam­fé­lag­inu. Þeirri vinnu ætl­um við að hraða og styðja skóla­stjórn­end­ur með ráðum og dáð. Öllum hug­vekj­andi til­lög­um má velta upp, hvort sem þær snúa að tví­setn­ingu fram­halds­skól­anna, vakta­fyr­ir­komu­lagi í kennslu eða nýt­ingu grunn­skóla­hús­næðis sem er vannýtt hluta dags­ins.

Í gömlu lagi seg­ir að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – að finna megi út úr öllu ánægju­vott. Þannig sýna mæl­ing­ar fram­halds­skól­anna að brott­hvarf sé minna nú en oft áður. Að verk­efna­skil og und­ir­bún­ing­ur fyr­ir próf gangi vel. Að nem­end­ur sem ekki kom­ast úr húsi sofi meira og hvíl­ist bet­ur en fé­lags­lynd­ir fram­halds­skóla­nem­ar gera að öllu jöfnu. Slík­ar frétt­ir eru góðar en breyta ekki þeirri staðreynd að fé­lags­starf og sam­skipti við aðra er órjúf­an­leg­ur þátt­ur í góðri mennt­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. – liljaa@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Við stöndum öll vaktina

Deila grein

29/10/2020

Við stöndum öll vaktina

Í hvert sinn sem ég heyri af eða les um einelt­is­mál fæ ég sting í hjartað. Þetta eru erfið mál og sorg­leg fyr­ir alla hlutaðeig­andi. Við vit­um að líðan nem­enda í ís­lensk­um grunn­skól­um er al­mennt góð; um 90% grunn­skóla­nem­enda líður vel eða þokka­lega í skól­an­um sam­kvæmt könn­un Rann­sókna­stofu í tóm­stunda­fræðum við Há­skóla Íslands. Fyr­ir þá nem­end­ur, og aðstand­end­ur þeirra, sem ekki til­heyra þeim hópi skipt­ir töl­fræði hins veg­ar engu máli.

Skiln­ing­ur á einelti og af­leiðing­um þess hef­ur auk­ist en því miður verða enn of marg­ir fyr­ir einelti í okk­ar sam­fé­lagi. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er tíðni einelt­is í ís­lensk­um skól­um lág en einelt­is­mál koma engu að síður reglu­lega upp og skól­arn­ir verða þá að hafa leiðir, ferla og verk­færi til að bregðast við. Við, sem sam­fé­lag, vilj­um ekki að „lausn­in“ fel­ist í því að þolandi einelt­is neyðist til að víkja úr sín­um hverf­is­skóla. Það er óviðun­andi niðurstaða.

Til að koma í veg fyr­ir það þurfa stjórn­völd, skóla­sam­fé­lagið og ekki síst sam­fé­lagið í heild að skoða hvað megi gera bet­ur. Ég hef haft þenn­an mála­flokk til skoðunar og hef samþykkt að end­ur­skoða og styrkja lagaum­gjörð einelt­is­mála. Vegna eðlis mál­anna eru úr­lausn­araðilar oft í erfiðri og flók­inni stöðu, en þá þarf kerfið okk­ar að grípa alla hlutaðeig­andi og tryggja fag­lega lausn.

Öflug­ar for­varn­ir gegn einelti eiga að vera al­gjört for­gangs­atriði. Fræðsla er lyk­ill­inn að því að upp­ræta einelt­is­mál og koma í veg fyr­ir þau og ég mun því leggja ríka áherslu á að efla for­varn­ir inn­an skól­anna.

Fagráð einelt­is­mála var sett á lagg­irn­ar fyr­ir nokkr­um árum. Hlut­verk þess er að veita stuðning með al­mennri ráðgjöf, leiðbein­ing­um og upp­lýs­inga­gjöf. Jafn­framt geta nem­end­ur, for­ráðamenn og starfs­fólk skóla leitað eft­ir aðkomu þess ef ekki hef­ur tek­ist að finna full­nægj­andi lausn inn­an skól­anna. Fagráðið hef­ur margoft sannað mik­il­vægi sitt fyr­ir skóla­sam­fé­lagið, bæði með ráðgjöf og við úr­lausn erfiðra mála og mikið fram­fara­spor var stigið þegar ráðinu var gert að liðsinna einnig fram­halds­skól­un­um. Okk­ar helsta verk­efni er nú að auka sýni­leika ráðsins og skerpa á hlut­verki þess. Afar mik­il­vægt er að skóla­sam­fé­lagið og for­ráðamenn viti hvaða úrræði standa þeim til boða við úr­lausn einelt­is­mála.

Rann­sókn­ir sýna að af­leiðing­ar einelt­is­mála til framtíðar geta verið gríðarleg­ar. Við verðum því að gera allt til að koma í veg fyr­ir að einelt­is­mál komi upp. Við verðum að styrkja um­gjörðina, fræðsluna og síðast en ekki síst styrkja hvert annað til að sporna við einelt­is­mál­um í sam­fé­lag­inu. Eitt mál er einu máli of mikið.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. október 2020.

Categories
Greinar

Fjárfesting í fólki og nýsköpun ræður úrslitum

Deila grein

27/10/2020

Fjárfesting í fólki og nýsköpun ræður úrslitum

Í nýrri bók – The Riches of this Land – fjallar Jim Tankers­ley, blaða­maður á New York Times, um minnk­andi kaup­mátt banda­rísku milli­stétt­ar­inn­ar. Höf­und­ur­inn leitar skýr­inga og skoðar hvernig störf milli­stétt­ar­fólks hafa breyst á síð­ustu ára­tug­um, meðal ann­ars vegna tækni­fram­fara. Nið­ur­staðan er afdrátt­ar­laus; land­svæðin sem glatað hafa flestum störfum eiga það sam­eig­in­legt að hafa ekki fjár­fest nægj­an­lega í nýsköpun og mennt­un. Þau hafa skilið fólkið sitt eftir og van­rækt sínar sam­fé­lags­legu skyld­ur.

Menntun er eitt öfl­ug­asta hreyfi­afl sam­fé­laga og þeim ein­stak­lingum vegnar almennt betur sem öðl­ast og við­halda nauð­syn­legri hæfni og færni. Þetta á alls staðar við og í því felst skýr hvatn­ing til íslenskra stjórn­valda um að efla umgjörð mennt­unar og hæfni­þró­unar í land­inu. Nýsam­þykkt vís­inda- og tækni­stefna er liður í því verk­efni, enda leggur fjöl­breytt vís­inda­starf grunn­inn að marg­vís­legri þekk­ing­u.  AUGLÝSINGSýn Vís­inda- og tækni­ráðs til árs­ins 2030 er sú að á Íslandi sé lögð áhersla á gæði mennt­un­ar, jafnan aðgang allra að menntun og að mennta­kerfið þró­ist sífellt í takti við sam­fé­lagið og fram­tíð­ina. Að rann­sókn­ir, hug­vit, sköpun og frum­kvæði sem leiðir til auk­innar verð­mæta­sköp­unar og öfl­ugs athafna- og menn­ing­ar­lífs sé leið­ar­ljósið inn í fram­tíð­ina. Tíu aðgerðir styðja við vís­inda- og tækni­stefn­una og margar eru að öllu eða ein­hverju leyti á ábyrgð mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neyt­is. 

Sterk­ari sam­keppn­is­sjóð­ir 

Inn­lendir sam­keppn­is­sjóðir hafa verið stór­efldir á kjör­tíma­bil­inu, en þeir eru for­senda þess að íslenskir vís­inda­menn, frum­kvöðlar og fyr­ir­tæki geti sótt í alþjóð­lega sjóði. Aðferða­fræðin hefur skilað miklum árangri og íslenskum aðilum hefur gengið mjög vel í nor­rænu og evr­ópsku vís­inda­sam­starfi. Styrk­veit­ingar til íslenskra verk­efna úr alþjóð­legum sjóðum hafa vakið eft­ir­tekt, þar sem gamla, góða höfða­tölu­mæl­ingin sýnir magn­aðan árang­ur. Hann verður ekki til af sjálfu sér.Framlög til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum.Framlög til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum.

Auka gæði í háskóla­starfi og efla fjár­mögnun háskóla

Stjórn­völd hafa ein­sett sér að fjár­veit­ingar til háskóla­stigs­ins verði sam­bæri­legar þeim á Norð­ur­lönd­unum árið 2025. Í sögu­legu sam­hengi hafa Íslend­ingar varið minna fé til mála­flokks­ins en á kjör­tíma­bil­inu hefur vel gengið að brúa bil­ið. Eitt meg­in­mark­miða stjórn­valda er að styðja við þekk­ing­ar­drifið efna­hags­líf, þar sem sam­spil rann­sak­enda á háskóla­stigi og atvinnu­lífs er lyk­il­at­riði. Nú þegar er unnið að því að styrkja umgjörð fjár­veit­inga til háskól­anna og þróa mæli­kvarða á gæði og skil­virkni háskóla­starfs. Fram­gang­ur­inn hefur verið góður og mun leggja grunn­inn að enn sterk­ari háskólum á Íslandi.Framlög til háskóla og rannsóknarstarfsemi.Framlög til háskóla og rannsóknarstarfsemi.

Aukin færni á vinnu­mark­aði

Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tækni­breyt­inga þarf Ísland að búa sig undir breyttan heim. Ein­stak­lingar þurfa að laga sig að breyttri færni­þörf í atvinnu­líf­inu og fyr­ir­tæki að þró­ast hratt til að tryggja sam­keppn­is­stöðu sína. Fram­boð á námi og símenntun skal taka mið af þeirri lyk­il­hæfni sem atvinnu­líf og sam­fé­lag kalla eft­ir, enda þarf hæft starfs­fólk til að efla fram­leiðni og skapa ný verð­mæti. Það skal líka áréttað að form­leg menntun segir ekki lengur alla sög­una heldur líta  vinnu­veit­endur í auknum mæli til reynslu og færni við ráðn­ing­ar. 

Opinn aðgangur að gögnum og bætt miðlun vís­inda

Aðgengi að opin­berum gögnum háskóla, rann­sókna­stofn­ana og gögnum sem verða til með styrkjum úr opin­berum rann­sókna- og nýsköp­un­ar­sjóðum á að vera opið, svo sam­fé­lags­legur ábati af slíkum fjár­fest­ingum sé hámark­að­ur. Þannig á vís­inda­starf að nýt­ast í auknu mæli í stefnu­mótun og við lýð­ræð­is­lega ákvarð­ana­töku. Með auknu aðgengi sköpum við umgjörð sem tryggir sýni­leika vís­inda, stuðlar að auk­inni þekk­ingu á vís­inda­legum aðferðum og eykur skiln­ing, traust og virð­ingu fyrir vís­inda­legum nið­ur­stöð­um. Hugað verður sér­stak­lega að því að skapa tæki­færi fyrir kenn­ara og aðra fag­að­ila til að nýta aðferða­fræði vís­inda til að efla þekk­ingu barna- og ung­linga á gildi þeirra.

Þau ríki sem fjár­festa í nýsköpun og mannauði eru lík­leg­ust til að skapa ný störf. Ísland hefur alla burði til þess að láta til sín taka á því sviði og öflug alþjóð­leg fyr­ir­tæki á sviði erfða­rann­sókna, lyfja­fram­leiðslu, svefn­rann­sókna, stoð­tækja o.s.frv. hafa vaxið og dafnað á und­an­förnum árum. Stjórn­völd hafa ákveðið að styðja enn betur við vaxta­tæki­færi fram­tíð­ar­inn­ar, mótað stefnu og veitt ríku­legum fjár­munum til þess. Fjár­veit­ingar til vís­inda- og sam­keppn­is­sjóða í rann­sóknum verða um 10 millj­arðar kr. á næsta ári og hækka því um 67% milli ára. Það er svo sann­ar­lega vel, því við trúum því að Ísland geti orðið land tæki­færa fyrir vís­indi, rann­sókn­ir, menntun og nýsköpun fyrir alla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­inga­mála­ráð­herra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 27. október 2020.