Categories
Greinar Uncategorized

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Deila grein

13/12/2022

VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.

Skýr afkomubati

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.

Treystum heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.

Framlag til jarðhitaleitarátaks

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Ferjurekstur tryggður

Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.

Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.

Löggæsla efld

Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.

Velferðarfjárlög

Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum

Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 10. desember 2022.

Categories
Greinar

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Deila grein

29/11/2022

Vannýtt tækifæri Menntasjóðs

Und­ir liðnum Störf þings­ins í síðustu viku nýtti ég tæki­færið og ræddi um þann lækna­skort sem við búum við hér á landi miðað við þá heil­brigðisþjón­ustu sem við vilj­um veita. Á kom­andi árum eru áhyggj­ur um að skort­ur­inn verði jafn­vel al­var­legri en sá sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag. Mann­ekla á heil­brigðis­stofn­un­um er vanda­mál víða og fólks­fjölg­un og öldrun þjóðar­inn­ar mun, eðli máls­ins sam­kvæmt, krefjast auk­inna um­svifa í heil­brigðis­kerf­inu.

Há­skóli Íslands er eini há­skól­inn á Íslandi sem út­skrif­ar lækna en hann get­ur ein­ung­is tekið inn 60 nema á ári. Sá fjöldi næg­ir hins veg­ar ekki til að bregðast við þeim skorti sem við horf­um fram á. Við bregðumst við, ann­ars veg­ar með því að flytja inn sér­menntað fólk og hins veg­ar með því að tryggja ís­lensk­um náms­mönn­um tæki­færi til lækna­náms og auk­inn­ar sér­hæf­ing­ar. Mik­ill fjöldi ís­lenskra náms­manna held­ur út í nám og meiri­hluti þeirra snýr heim með hald­bæra reynslu og sérþekk­ingu sem sam­fé­lagið nýt­ur góðs af. Íslensk­ir lækna­nem­ar sem stunda nám sitt er­lend­is hafa bent á að þeir fái ekki sama stuðning og þeir sem læra hér á landi. Stór hluti náms­gjalda þeirra þarf að greiðast úr eig­in vasa eða með stuðningi frá öðrum, sem veld­ur því að marg­ir missa af tæki­fær­inu til að ger­ast lækn­ar eða neyðast til að hætta í miðju námi. Ávinn­ing­ur sam­fé­lags­ins af því að styðja bet­ur við lækna­nema er­lend­is er mik­ill.

Sér­tæk­ar aðgerðir mennta­sjóðs

Í mennta­sjóði náms­manna er fjallað um sér­stak­ar íviln­an­ir náms­greina. Í 27. grein lag­anna er ráðherra gert heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána vegna til­tek­inna náms­greina. Fyr­ir þeim íviln­un­um liggja ákveðin skil­yrði eins og að upp­lýs­ing­ar liggi fyr­ir um viðvar­andi skort í starfs­stétt eða að skort­ur sé fyr­ir­sjá­an­leg­ur og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af stjórn­völd­um í sam­ráði við hlutaðeig­andi at­vinnu­rek­end­ur um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum.

Þess­ar aðgerðir hafa ekki verið nýtt­ar. Ráðherra hef­ur ekki nýtt þess­ar heim­ild­ir til þess að koma til móts við grein­ar eða byggðir sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Við finn­um helst fyr­ir þessu í heil­brigðis­geir­an­um.

Skort­ur á sér­fræðing­um í sveit­ar­fé­lög­um

Í lög­un­um er einnig fjallað um sér­staka íviln­un vegna náms­greina á sér­stök­um svæðum í 28. grein. Þar er ráðherra heim­ilt með aug­lýs­ingu að ákveða sér­staka tíma­bundna íviln­un við end­ur­greiðslu náms­lána til lánþega sem bú­sett­ir eru á svæðum skil­greind­um í sam­ráði við Byggðastofn­un. Skil­yrði fyr­ir íviln­un­um skv. þessu eru að fyr­ir liggi til­laga frá sveit­ar­fé­lagi eða sveit­ar­fé­lög­um til stjórn­valda um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni og að fyr­ir liggi skýrsla unn­in af Byggðastofn­un í sam­ráði við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um mik­il­vægi þess að bregðast við aðstæðum. Þá seg­ir enn frem­ur að skil­yrði sé að lánþegi hafi lokið námi og sé bú­sett­ur á skil­greindu svæði og nýti mennt­un sína þar að lág­marki í 50% starfs­hlut­falli í a.m.k. tvö ár.

Það er þörf á sér­fræðimenntuðu fólki í mörg sveit­ar­fé­lög og sveit­ar­fé­lög þurfa að vita að þessi mögu­leiki sé til staðar. Ég vil því hvetja þau sveit­ar­fé­lög sem telja sig upp­fylla fram­an­greind skil­yrði til að óska eft­ir því að þess­ar sér­tæku aðgerðir séu nýtt­ar á þeirra svæði.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 29. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Ertu á sjéns?

Deila grein

26/10/2022

Ertu á sjéns?

Þegar fólk lendir á sjéns, þá er mikilvægt að hafa nokkra hluti á hreinu: Eru allir til í þetta? Hvar eru getnaðarvarnirnar?

Getnaðarvarnir gegna margvíslegum tilgangi. Eins og nafn þeirra segir til um – eiga þær að koma í veg fyrir getnað – en margar aðrar ástæður liggja að baki þess að fólk notar getnaðarvarnir. Sumar þeirra minnka líkur á kynsjúkdómum, aðrar hafa áhrif á hormónastarfsemi og veita fólki meira frelsi yfir sínum eigin líkama.

Fríar getnaðarvarnir

Ég vil að getnaðarvarnir verði ókeypis fyrir einstaklinga sem eru yngri en 25 ára og hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi ásamt 11 öðrum þingmönnum.

Einhverjir spyrja sig eflaust hvers vegna? En svarið er einfalt.

Getnaðarvarnir skipta miklu máli fyrir kynheilbrigði einstaklinga en samkvæmt skýrslum fer notkun smokks og annarra varna dvínandi meðal ungs fólks sem leiðir af sér að tilfellum kynsjúkdóma fer fjölgandi . Auðséð er að framangreint getur haft margs konar afleiðingar og því er mikilvægt að koma til móts við ungt fólk sem mögulega hefur ekki efni á getnaðarvörnum. Ungt fólk á að hafa þann möguleika að geta notað getnaðarvarnir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði.

Önnur Evrópulönd eru að gera þetta

Í fjölda ríkja, sem við berum okkur helst saman við, eru getnaðarvarnir ókeypis. Þó er mismunandi hvaða verjur það eru sem eru aðgengilegar án endurgjalds og hverjum þær eru aðgengilegar með tilliti til aldurs, kyns o.fl. Víða í Evrópu eru getnaðarvarnir aðgengilegar ungmennum þeim að kostnaðarlausu, þar á meðal í Bretlandi, Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Ef við skoðum svo nánara dæmi frá Frakklandi þá voru getnaðarvarnir nýlega gerðar ókeypis fyrir konur sem eru yngri en 25 ára. Meðal röksemda ríkisstjórnar Frakklands fyrir þeirri aðgerð voru áhyggjur um að konur hætti að nota getnaðarvarnir af fjárhagslegum ástæðum.

Vert er að minnast á skýrslu alþjóðlegu rannsóknarinnar Heilsa og líðan skólabarna (e. Health Behaviour in School-Aged Children), sem gerð hefur verið hér á landi frá árinu 2006. Þar kom fram í síðustu könnun að meðal 15 ára ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku segist einn af hverjum fjórum strákum og ein af hverjum sex stelpum hafa stundað kynlíf. Þar kom einnig fram að notkun getnaðarvarna hefði farið minnkandi síðastliðið ár, sem er mikið áhyggjuefni.

Kynheilbrigði

Kynsjúkdómar dreifast auðveldlega milli einstaklinga við samfarir og það getur tekið langan tíma fyrir einkenni þeirra að koma í ljós. Stundum koma þau aldrei í ljós á áberandi hátt og því þurfa einstaklingar að huga að kynheilbrigði í hvívetna, nota verjur og fara reglulega í skoðun ef tilefni er til þess. Kynsjúkdómur getur haft neikvæð áhrif á lífsgæði einstaklings til lífstíðar. Sumir þeirra fylgja viðkomandi alla ævi. Þeir geta leitt til ófrjósemi og ýmissa veikinda.

Ungt fólk á að geta stuðlað að kynheilbrigði og spornað gegn óskipulögðum barneignum án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur.

Kynheilbrigði er nefnilega lýðheilsumál.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst 26. október 2022.

Categories
Greinar

Ertu í góðu sambandi?

Deila grein

25/05/2022

Ertu í góðu sambandi?

Hvernig er sambandið þitt? Ertu í góðu og tryggu sambandi? Þá er ég ekki að tala um hjúskaparstöðu – heldur fjarskiptasamband. Það er nefnilega svo að það hefur ekki verið sjálfsagt á Íslandi að vera í sambandi við umheiminn. En það er mikilvægt að tryggja að fólk búi við fjarskiptaöryggi og því hef ég hvatt lengi til þess að styrkja fjarskipti í dreifbýli.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að heyra af kynningu Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækjanna Nova, Vodafone og Símans sem hafa tekið höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi. Þetta skapar aukið öryggi þar sem víðar verður hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 og önnur símanúmer.

Brýndi ég fyrir nýjum ráðherra fjarskiptamála, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, í vetur að hún myndi láta fjarskiptamál í dreifbýli sig sérstaklega varða. Áður hafði verkefnið verið undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi samgönguráðherra og formanns Framsóknar og mikil vinna lögð í landsátakið „Ísland ljóstengt“. Við í Framsókn höfum mikið talað um mikilvægi uppbyggingu opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum. Ríkið hefur styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins.

Fólk verður að geta búið við tryggt fjarskiptasamband heima hjá sér og hef ég ýtt á eftir þessum málum. Með það að leiðarljósi lagði ég fram tvær fyrirspurnir á Alþingi vegna stöðu fjarskipta í dreifbýli. Svör framkvæmdavaldsins sýndu svo að enn væri mikið verk óunnið. Til þess að gera fólki kleift að lesa úr tölunum sem fram komu í svörunum við fyrirspurn minni hef ég sett þær upp á sérstakri síðu.

Jafnframt talaði ég fyrir því hvað símasamband er mikilvægt öryggisatriði og mikilvægt í daglegu lífi nú þegar ljósleiðari hefur verið lagður í dreifbýli um allt land. Í mörgum sveitarfélögum er staðan sú að á mörgum heimilum í dreifbýlinu er lítið eða ekkert símasamband. Það þýðir að ekki er möguleiki á að ná í foreldra eða forráðamenn ef eitthvað kemur upp á hjá börnunum í skólanum. Það þýðir að ekki er möguleiki fyrir íbúa að hringja á aðstoð ef eitthvað kemur upp á. 

Verðandi foreldrar verða því að fara að heiman mörgum dögum fyrir fæðingu vegna þess að þau geta ekki treyst á að ná sambandi við viðbragðsaðila. Eins eiga íbúar ekki möguleika á því að nota rafræn skilríki heima hjá sér því innskráningarbeiðnin er löngu útrunnin þegar hún loksins kemur í símann. Íbúar sem búa á þessum svæðum hafa fengið þau skilaboð að fjarskiptafyrirtækjum þyki það of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband á fámennum svæðum. En Neyðarlínan hefur nú tryggt í samstarfi við farsímafélögin, sem setja upp sendibúnað á staðnum með opinberum fjárstyrk, að farsímar viðskiptavina farsímafélaganna hafi jafnan aðgang að sendinum. Þetta fyrirkomulag tryggir að símasamband næst jafn greiðlega hjá viðskiptavinum allra farsímafélaganna.

Neyðarlínan mun ákveða hvar þörf er á uppsetningu sendis og í framhaldi af því er farsímafélag valið til að annast verkefnið. Tilgangurinn og markmiðið er enda að stuðla að því að koma á farsímaþjónustu þannig að sem víðast er hægt að hringja í 112 til þess að kalla eftir hjálp.

Þetta er mikilvægt og tímabært að viðeigandi aðilar taki höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi. Það tryggir aukið öryggi að víðar verði hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 og önnur símanúmer.

Hér er jafnframt tryggður grundvöllur þess að byggja enn frekar á óstaðbundnum störfum.

Það er bjargföst trú mín að öflugir fjarskiptainnviðir séu forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. maí 2022.

Categories
Greinar

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Deila grein

02/02/2022

Fjölbreytni í sveitarstjórnum

Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.

Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.

Hver er staðan?

Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.

Listar endurspegli fjölbreytni

Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.

Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.

Af hverju að taka þátt?

Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.

Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.

Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Vaxtarstyrkur fyrir frístundaiðkun barna

Deila grein

02/09/2021

Vaxtarstyrkur fyrir frístundaiðkun barna

Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur almennt reynst einstaklingum til góða. Kostirnir við slíka þátttöku eru ófáir, en iðkun skipulags frístundastarfs hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, bætir félagslíf, hefur sterkt forvarnargildi og bætir lífsgæði til muna. Hér á landi er mikil áhersla lögð á skipulagt frístundastarf og að allir hafi tækifæri til að taka þátt, og þá sérstaklega börn og ungmenni. Það hefur jákvæð áhrif á þroska barna og heilsu að taka þátt í slíku starfi hvort sem þau æfa knattspyrnu, karate, á píanó, rafíþróttir, taki þátt í skátunum eða hvað annað. Það er göfugt markmið að tryggja það að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt.

Styrkjum frístundaiðkun barna

Það markmið hefur verið viðloðandi í mörg ár. Ríkið og sveitarfélög hafa unnið í nánu samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins til að tryggja gott skipulagt frístundastarf þvert yfir landið ásamt því að tryggja tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir öll börn óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Bæði ríki og sveitarfélög hafa nýtt fyrirkomulag frístundastyrks í vinnu að umræddu markmiði. Frístundastyrkur er ákveðin greiðsla sem flest sveitarfélög bjóða fjölskyldum til að niðurgreiða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun. Tilvist styrks, upphæð hans og fyrirkomulag er mismunandi eftir sveitarfélögum. Einnig hefur Ásmundur Einar, félags- og barnamálaráðherra, ráðstafað fé til slíkrar styrkveitingar frá ríkinu á tímum Covid-19.

Vaxtarstyrkur

Þrátt fyrir þetta eru fjölskyldur hér á landi sem ekki ná að standa straum af kostnaði við frístundaiðkun barna sinna. Þetta þarf að laga. Það er almenn skoðun innan samfélagsins um að öll börn eiga skilið tækifæri til að njóta góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, og Framsóknarflokkurinn tekur í sama streng.

Ein stærsta áhersla Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að sjá til þess að ríkið veiti öllum fjölskyldum árlegan 60 þúsund króna vaxtarstyrk fyrir hvert barn og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrir tveggja barna fjölskyldu yrði styrkurinn 120 þúsund krónur og fyrir þriggja barna fjölskyldu 180 þúsund krónur. Sýnt hefur verið fram á að skipulagt frístundastarf styrkir líkamlegan og andlegan þroska barna, ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi svo að ekkert barn missir af.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í skessuhorn.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð

Deila grein

29/07/2021

Íslensk kvikmyndagerð

Í sum­ar­frí­inu get­ur verið freist­andi að slaka á í sóf­an­um með hlýtt ull­arteppi og þá er gott að geta valið sér ís­lenskt efni til áhorfs. Til dæm­is hafa nýir og spenn­andi þætt­ir um Kötlu átt hug minn all­an þessa dag­ana. Slíkt efni verður þó ekki til af sjálfu sér.

Hlúa þarf að kvik­mynda­gerð líkt og mörgu öðru. Ef grein­inni er veitt at­hygli og pláss hef­ur hún mögu­leika að vaxa og dafna okk­ur öll­um til heilla. Mik­il­vægt er að sveigj­an­legt og kraft­mikið stuðnings­kerfi sé til staðar sem ýtir und­ir já­kvæða þróun í kvik­mynda­gerð. Síðastliðið haust markaði tíma­mót í sögu kvik­mynda­gerðar á Íslandi þegar Lilja Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, lagði fram fyrstu heild­stæðu stefnu ís­lenskra stjórn­valda á sviði kvik­mynda. Mark­miðið með stefn­unni er að skapa auðuga kvik­mynda­menn­ingu sem styrk­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar, efl­ir ís­lenska tungu, býður upp á fjöl­breytt­ari og metnaðarfyllri kvik­mynda­mennt­un, styrk­ir sam­keppn­is­stöðu grein­ar­inn­ar og stuðlar að því að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvik­mynda­gerðar. Með kvik­mynda­stefnu hafa ís­lensk stjórn­völd viður­kennt vax­andi hlut­verk menn­ing­ar, lista og skap­andi greina á Íslandi.

Fram­sókn hef­ur lengi talað fyr­ir mik­il­vægi þess að styðja eigi við kvik­mynda­gerð í land­inu ásamt því að hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni. Kvik­mynda­gerð hef­ur fyr­ir löngu sannað gildi sitt sem list­grein og at­vinnu­grein. Kraft­mik­il kvik­mynda­menn­ing efl­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar. Kvik­mynd­ir og sjón­varpsþætt­ir eru list­grein sem spegl­ar sam­tím­ann og ger­ir sögu og menn­ing­ar­arfi skil. Ýmiss kon­ar efni er fram­leitt sem bæði er afþrey­ing fyr­ir nú­tím­ann ásamt því að segja mik­il­væga sögu til framtíðar. Mik­il­vægi kvik­mynda­gerðar fyr­ir ís­lenska tungu er ómet­an­legt, en kvik­mynda­gerð skip­ar stór­an sess í því að efla og varðveita ís­lenska tungu.

Ferðavenju­könn­un hef­ur sýnt að tæp­lega 40% þeirra ferðamanna sem hingað koma tóku ákvörðun um að ferðast til Íslands eft­ir að hafa séð landið í sjón­varpi eða á hvíta tjald­inu. Heild­ar­velta ferðaþjón­ust­unn­ar af slík­um ferðamönn­um hleyp­ur á mörg­um millj­örðum. Íslensk kvik­mynda­gerð skap­ar á fjórða þúsund beinna og af­leiddra starfa og laðar að er­lenda fjár­fest­ingu. Í því fel­ast gríðarleg verðmæti fyr­ir rík­is­sjóð. Við í Fram­sókn höf­um talað fyr­ir mik­il­vægi þess að skapa fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi. Kvik­mynda­gerð er skap­andi at­vinnu­grein sem fell­ur vel að þeim hug­mynd­um, en mik­il­vægt er að hún fái viðeig­andi stuðning. Fjórða iðnbylt­ing­in kall­ar eft­ir hug­viti, há­tækni, sköp­un og sjálf­bær­um lausn­um og kvik­mynda­gerð er allt þetta.

Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir, varaþingmaður Fram­sókn­ar og sit­ur í 2. sæti á lista flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júlí 2021.

Categories
Greinar

Breytingar í barna­vernd

Deila grein

07/06/2021

Breytingar í barna­vernd

Frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra hefur verið samþykkt úr velferðarnefnd. Nái frumvarpið fram að ganga munu meðal annars barnaverndarnefndir eins og við þekkjum þær lagðar af og umdæmi barnaverndarþjónustu stækkuð. Þessar breytingar eru sprottnar upp úr þeim breytingum sem eiga sér stað við samþættingu á barnaverndarþjónustu við aðra þjónustu í þágu farsældar barna, frumvörpum sem félags- og barnamálaráðherra hefur einnig lagt fram á yfirstandandi þingi. Um er að ræða fyrri hluta heildarendurskoðunar barnaverndarlaga.

Í samráði við sveitarfélögin

Gríðarmikil undirbúningsvinna hefur verið unnin og allt kjörtímabilið hefur verið haft mikið samráð við hlutaðeigandi aðila vegna þeirra breytinga sem liggja fyrir. Samráð hefur verið haft við sveitafélögin frá fyrsta stigi hugmyndanna auk þess sem þjónustuveitendur og þjónustuþegar hafa komið að borðinu. Með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að gera miklar og umtalsverðar breytingar á umhverfi barnaverndar í sveitarfélögum, en þau bera ábyrgð á þessum málaflokki. Í dag eru 27 barnaverndarnefndir staðsettar vítt og breytt um landið. Lágmarksíbúatala að baki hverri barnaverndarþjónustu er miðuð við 1500 manns, við þessar breytingar hækkar það lágmark upp í 6000 manns.

Umdæmisráð

Gert er ráð fyrir að sett verði á stofn umdæmisráð barnaverndar sem hafi aðkomu að tilteknum ráðstöfunum barnaverndarþjónustu. Umdæmisráðin skulu vera sérstakar, sjálfstæðar og fjölskipaðar stjórnsýslueiningar á vettvangi sveitarfélaga. Sveitastjórn ber ábyrgð á því að skipa umdæmisráð sem skal starfa í fimm ár. Sveitarfélög geta gert samning sín á milli um samstarf um umdæmisráð enda er lágmarksstærð umdæmisins miðuð við 6000 íbúa. Umdæmisráðið er skipað að lágmarki þremur fagaðilum. Það skal taka ákvarðanir með úrskurði sem barnaverndarmál getur leitt af sér eins og vistun barns utan heimils, forsjársviptingu og umgengni í fóstri og eða vistun. Umdæmisráð eru sjálfstæð í störfum sínum og standa utan við almenna stjórnsýslu sveitarfélaga.

Farsæld barna í fyrirrúmi

Hér er um að ræða mestu breytingar sem ráðist hefur verið í síðustu áratugi. Verið er að gera grundvallarbreytingar á umgjörð og samsetningu barnaverndarnefnda, því í frumvarpinu felst að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Þetta frumvarp er einnig partur af miklum breytingum á kerfinu sem ætlað er að gefa færi á samþættingu barnaverndarþjónustu sem veitt er í þágu barna. Þá er líka gert ráð fyrir ítarlegri þátttöku barna við meðferð sinna mála því það er réttur barna að fá upplýsingar um sín mál á barnvænan hátt. Barn frá 15 ára aldri getur veitt samþykki fyrir stuðningsúrræðum sem beinast einungis að því sjálfu svo eitthvað sé nefnd.

Hér er verið að svara þeirri gagnrýni sem hefur verið á umhverfi barnaverndar hér á landi í fjölda ára og mikilvægi þess að færa kerfið til nútímavitundar um réttindi barna.

Halla Signý Kristjánsdóttir er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý eru frambjóðendur til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. júní 2021.