Categories
Greinar

António Guterres á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Deila grein

09/10/2020

António Guterres á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Í fyrsta sinn í sögu Norð­ur­landa­ráðs fer árlegt þing ráðs­ins, sem halda átti í Hörpu í lok októ­ber, fram staf­rænt. Þar verða mörg mik­il­væg mál­efni nor­rænu ríkj­anna í brennid­epli. Það er sér­stak­lega ánægju­legt fyrir starf Norð­ur­landa­ráðs að António Guterres, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­ein­uðu þjóð­anna, mun taka þátt í sam­eig­in­legum staf­rænum fundi Norð­ur­landa­ráðs um Covid-19 í þing­vik­unni þann 27. októ­ber næst­kom­andi. Þá fáum við Norð­ur­landa­búar inn­sýn inn í hvaða áskor­anir alheims­far­ald­ur­inn hefur haft í för með sér fyrir alla heims­byggð­ina. Áskor­anir sem ekki enn sér fyrir end­ann á. 

Stofnun SÞ og nor­ræn hug­mynda­fræði

Sam­ein­uðu þjóð­irnar fagna 75 ára afmæli á þessu ári og hafa á und­an­förnum ára­tugum efnt til umfangs­mestu sam­ræðu sem um getur um alheims­sam­vinnu til að móta betri fram­tíð í þágu allra jarð­ar­búa. Starf­semi sam­tak­anna er sam­ofið þeirri hug­mynda­fræði sem Norð­ur­landa­ráð byggir á en það voru einmitt Danir og Norð­menn sem stofn­uðu Sam­ein­uðu þjóð­irnar árið 1945. 

Íslendingar og Svíar bætt­ust síðan í hóp­inn ári eftir og Finnar urðu aðilar árið 1955. Því má með sanni segja að nor­ræna sam­starf­ið, sem er elsta sam­starf í heimi af sínu tagi, hafi lagt grund­völl að því far­sæla starfi sem Sam­ein­uðu þjóð­irnar hafa gefið af sér í gegnum tíð­ina. 

Þétt sam­starf Norð­ur­landa á vett­vangi SÞ

Sú tengin og tengsl sem hefur verið milli nor­rænu land­anna og Sam­ein­uðu þjóð­anna frá upp­hafi hefur mótað starf þeirra á umfangs­mik­inn hátt. For­sæt­is­ráð­herrar og utan­rík­is­ráð­herrar Norð­ur­land­anna halda reglu­lega fundi þar sem mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna eru meðal ann­ars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna á vett­vangi Norð­ur­landa­ráðs, í beinum sam­skiptum milli ráðu­neyta og einnig milli frjálsra félaga­sam­taka á Norð­ur­lönd­un­um. Enn fremur eru starf­andi þing­manna­sam­tök Norð­ur­landa þar sem mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna eru rædd. Ríkur vilji er til að við­halda þeirri sterku ímynd sem Norð­ur­löndin hafa skapað sér sem sam­held­inn ríkja­hópur innan Sam­ein­uðu þjóð­anna sem vinnur meðal ann­ars að bættum mann­rétt­indum og jafn­rétti.

Hin nor­ræna sýn og veg­ferð heldur áfram að styrkj­ast í sam­vinnu á alþjóða­vett­vangi og þar er sam­ráð við Sam­ein­uðu þjóð­irnar mik­il­vægt til að við­halda tengslum og láta verkin tala. 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, for­seti Norð­ur­landa­ráðs og þing­maður Fram­sókn­ar­flokksins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 9. október 2020.

Categories
Greinar

Frábærar fréttir!

Deila grein

07/10/2020

Frábærar fréttir!

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir skömmu, að leggja til að komið yrði á fót menntaneti á Suðurnesjum í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Menntamálaráðherra mun stýra þessu nýja menntaneti í samvinnu við heimamenn en forsætisráðherra sagði að svona verkefni hafi verið gert víðar með góðum árangri. Það er mikið gleðiefni að haldið sé áfram veginn til styrkingar náms á Suðurnesjum.

Nám er tækifæri

Fyrirhugað er að ráðstafa allt að 300 milljónum króna til kaupa á þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá hefur verið ákveðið að styrkja þær námsleiðir sem í boði eru hjá Keili gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum komi jafnframt inn með fjármuni á móti. Stjórnvöld hafa að undanförnu átt samtöl við forsvarsmenn sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, menntastofnanir og atvinnurekendur á svæðinu um aðgerðir til að bregðast við stöðu vinnumarkaðarins á svæðinu. Atvinnuleysi þar hefur farið vaxandi eftir að Kórónafaraldurinn hófst, fór hæst í kringum 25% í upphafi faraldursins, en var í september í kringum 17%. Það skiptir máli á tímum sem þessum að fólk hafi greiðan aðgang að aukinni menntun til þess að styrkja sig á atvinnumarkaði til framtíðar.

Fjölbreytni og sveigjanleiki

Fjölbreytt námsframboð og sveigjanlegt námsumhverfi, sem skapað er í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, er nauðsynlegt svo að atvinnulíf og samfélag vaxi og dafni. Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Suðurnesjum frá stofnun árið 1976. Menntaskólinn Ásbrú (Keilir), Fisktækniskólinn og MSS eru stofnanir sem orðið hafa til vegna frumkvæðis einkaaðila, sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækja á svæðinu. Þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir, starfsþjálfun og endurmenntun hefur verið áþreifanleg. Nú eru þessar menntastofnanir orðnar rótgrónar í samfélaginu og hafa sannað gildi sitt. Menntunarstig fólks á svæðinu hefur hækkað, sérstaklega kvenna. Það er ekki síst bættu aðgengi að námi að þakka sem og fjölbreyttum námsleiðum og sveigjanlegum kennsluháttum. Höldum áfram þessa leið.

Breyttar kröfur vinnumarkaðarins

Sjálfvirknivæðing undanfarinna ára og hraðar tæknibreytingar munu ekki hægja á sér. Með þeim breytingum er einsýnt að kröfur um fjölbreytta menntun á framhaldsskólastigi sem og ákall eftir nútímalegum og sveigjanlegum kennsluháttum muni halda áfram að aukast. Ný tækifæri eru handan við hornið. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur fram að líkur á sjálfvirknivæðingu starfa minnka með hærra menntunarstigi. Líklegt er að mörg störf sem krefjast lítillar menntunar muni hverfa eða taka miklum breytingum. Vægi framhaldsskólanáms verður því sífellt meira og þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir vex. Því þarf að auka áherslu á tæknigreinar og nýsköpun auk þess að halda áfram að bjóða upp á hefðbundið bóknám og iðngreinar. Menntun er máttur.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 7. október 2020.

Categories
Greinar

Dagur norrænu grannríkjanna í vestri

Deila grein

24/09/2020

Dagur norrænu grannríkjanna í vestri

Vestn­or­ræna deg­in­um, sem hald­inn er hátíðleg­ur 23. sept­em­ber ár hvert, voru gerð góð skil með veg­legri dag­skrá í Nor­ræna hús­inu á dög­un­um. Mark­mið dags­ins er að styrkja og gera sýni­legt menn­ing­ar­sam­starf milli Fær­eyja, Græn­lands og Íslands. Í ár var áhersl­an á menn­ingu, sjálfs­mynd og tungu­mál og hvernig við not­um móður­málið í skap­andi aðstæðum.

Veiga­mik­ill þátt­ur í hátíðahöld­um dags­ins var að staldra við og fara yfir hvaða þýðingu vestn­or­ræna sam­starfið hef­ur. Það eru ákveðnir þætt­ir sem tengja lönd­in sam­an sem öll hafa það sam­eig­in­legt að vera eyríki sem nýta mögu­leika nátt­úr­unn­ar um leið og þau tak­ast af æðru­leysi á við áskor­an­ir sem henni fylgja. Íbúar vestn­or­rænu ríkj­anna hafa all­ir móður­mál sem talað er af fá­menn­um hópi fólks sem und­ir­strik­ar sér­stöðu þeirra.

Sögu­leg og menn­ing­ar­leg tengsl

Það er mik­il­vægt sem aldrei fyrr að horfa inn á við og halda á lofti góðu og nánu sam­starfi milli vestn­or­rænu ríkj­anna. Sam­starf þjóðanna er reist á sögu­leg­um og menn­ing­ar­leg­um tengsl­um ásamt sam­eig­in­leg­um hags­mun­um í efna­hags­mál­um og um­hverf­is­mál­um. Vestn­or­ræna ráðið hef­ur á liðnum árum lagt höfuðáherslu á um­hverf­is­mál, menn­ing­ar­mál, sjáv­ar­út­vegs­mál, sam­göng­ur og viðskipta­mál. Unnið hef­ur verið mark­visst að því að efla stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði sam­göngu- og ferðamála á þessu svæði. Einnig hef­ur mik­il­vægi þess að efla tengsl við ná­granna­lönd vestn­or­rænu land­anna í austri og vestri með upp­bygg­ingu skipu­lagðrar svæðis­sam­vinnu á Norðvest­ur-Atlants­hafs­svæðinu í huga sýnt sig að bera ávinn­ing fyr­ir hlutaðeig­andi aðila.

Aukið sam­starf á ýms­um sviðum

Á und­an­förn­um mánuðum, á tím­um Covid-19, hef­ur komið í ljós hversu þýðing­ar­mikið vestn­or­rænt sam­starf er lönd­un­um. Fær­eyj­ar voru meðal fyrstu landa til að opna á kom­ur farþega frá Íslandi, sem var mik­il­vægt fyrsta skref í af­námi ferðahindr­ana milli Norður­landaþjóðanna. Þegar að því kem­ur að við náum yf­ir­hönd­inni í bar­átt­unni við þenn­an vá­gest ætti það að vera æski­legt fyr­ir lönd­in þrjú að vinna sam­an í að efla ferðamennsku á svæðinu. Það hef­ur sýnt sig að svæðið allt hef­ur mikið aðdrátt­ar­afl fyr­ir ferðafólk.

Þá hafa for­send­ur fyr­ir aukn­um flutn­ingi á vör­um og fólki aldrei verið betri meðal nor­rænu grann­ríkj­anna í vestri. Nú sjást vör­ur frá Íslandi í hill­um dag­vöru­versl­ana í Nuuk, í fram­haldi af sam­starfi Eim­skips og Royal Arctic Line, þar sem fé­lög­in skipta með sér plássi í skip­um sín­um í sigl­ing­um á milli Græn­lands, Íslands, Fær­eyja og Skandi­nav­íu. Þá verða nýju flug­vell­irn­ir þrír á Græn­landi ekki aðeins hags­bót fyr­ir Græn­land og Græn­lend­inga held­ur allt vestn­or­ræna svæðið.

Á tím­um sem þess­um eru heil­brigðismál og geta heil­brigðis­kerfa til að tak­ast á við erfið verk­efni og áföll of­ar­lega í huga okk­ar allra. Við von­umst eft­ir auknu vestn­or­rænu sam­starfi um heil­brigðismál. Þá þarf að huga að hags­mun­um ungs fólks á vestn­or­ræna svæðinu. Vinna þarf bet­ur að því að auka sam­starf og sam­gang ungs fólks og þar skipta sköp­um mögu­leg mennt­unar­úr­ræði þvert á lönd­in.

Miðjan fær­ist nær vestn­or­rænu sam­starfi

Á síðasta ári í for­mennskutíð Íslands í Nor­rænu ráðherra­nefnd­inni var samþykkt ný stefnu­mörk­un um þróun Atlants­hafs­sam­starfs­ins, sem hef­ur hlotið yf­ir­skrift­ina NAUST. Það fel­ur í sér nán­ara sam­starf milli Fær­eyja, Græn­lands, Íslands og strand­lengju Nor­egs frá Roga­landi til Finn­merk­ur. Hér er kom­inn veg­vís­ir fyr­ir sam­starfið í heild sinni og stuðlar að því að efla tengsl og sam­skipti á svæðinu. Stefnu­mörk­un­in er enn ein viðbót­in við hið far­sæla og mik­il­væga vestn­or­ræna sam­starf og það er mik­il­vægt að leita leiða til að efla það enn frek­ar. En for­gangs­röðun verk­efna inn­an ramma NAUST bygg­ist á vel­ferðar- og jafn­rétt­is­mál­um, mál­efn­um hafs­ins og bláa hag­kerf­is­ins, orku­mál­um, sam­göng­um og björg­un á sjó, sjálf­bærni í ferðaþjón­ustu og menn­ing­ar­mál­um. Því má segja að miðjan fær­ist nær hinu vestn­or­ræna sam­starfi.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, sam­starfs­ráðherra Norður­landa og

Silja Dögg Gunnarsdóttir, for­seti Norður­landaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2020.

Categories
Greinar

Orku­jurtir – um­hverfis­vænir orku­gjafar

Deila grein

16/09/2020

Orku­jurtir – um­hverfis­vænir orku­gjafar

Síðastliðið haust flutti undirrituð ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins þingsályktunartillögu um mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi. Með henni var Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu og sveitastjórnarráðherra falið að skipa starfshóp til að móta og hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun um efnahagslegan hvata sem styrkja forsendur fyrir ræktun orkujurtanna repju og nepju. Þessi þingsályktunartillaga verður endurflutt í því skyni að stuðla að því að hér verði unnið í því að rækta orkujurtir til framleiðslu á vistvænum orkugjafa. Nauðsynlegt er að styðja við nýjar atvinnugreinar og hjálpa þeim að vaxa og dafna þar til þær geta séð um sig sjálfar.

Orkujurtirnar repja og nepja má rækta með góðum árangri víða um land og getur orðið góð viðbót sem nýsköpun í íslenskum landbúnaði og iðnaði. Ræktun á repju og nepju styður við landgræðslu og jarðvegsundirbúning fyrir aðra ræktun. Við ræktun og vinnslu á repju og nepju verða til þrjár afurðir, olía, fóðurmjöl og stönglar. Stönglarnir eru notaðir sem áburður og undir húsdýr, fóðurmjölið er prótenríkt og hentar vel fyrir nautgripi, svín og eldisfiska. Þá má nota olíuna sem vistvænan orkugjafa á vélar sem brenna dísilolíu. Ræktun á repju og nepju í því skyni að knýja dísilvélar er jákvæð að mörgu leiti. Innlend framleiðsla eflir orkuöryggi Íslands, sparar gjaldeyri og minkar verðsveiflur. Hún er einnig mun umhverfisvænni en notkun jarðefnaeldsneyta. Ræktun á repju og nepju bindur koldíoxíð og dregur úr losun gróðurhúsaloftegunda. Vinnsla á olíu úr fræjum repju og nepju bindur meira koldíoxíð en losnar við bruna á olíunni, öfugt við það sem gerist þegar jarðolía er brennd.

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að minnka notkun á jarðefnaeldsneyti og nýta frekar orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland er aðili að Parísar sáttmálanum, samkvæmt sáttmálanum skulu aðildarríkin setja sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og unnið er að því statt og stöðugt. Það mikið gleðiefni þegar ritað var undir viljayfirlýsingu í síðustu viku milli Samgöngustofu og ISAVIA um samstarf vegna tilraunaverkefnis um íblöndun repjuolíu á stórvirk tæki á Keflavíkurflugvelli. Með samstarfi Samgöngustofu og ISAVIA er stigið mikilvægt skref í orkuskiptum með því að auka hlutdeild innlendra orkugjafa. Með sívaxandi umhverfisvitund og aukinni þekkingu á áhrifum brennslu jarðefnaeldsneytis á hlýnun jarðar hljótum við öll að vera sammála um að nýta umhverfisvæna og sjálfbæra orkugjafa, það er gott fyrir jörðina, landbúnaðinn og efnahaginn. Repjuræktun eflir sjálfbærni íslensk samfélags og styrkir íslenska atvinnuvegi. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2020.

Categories
Greinar

Sjálfbært sjávarhagkerfi – ávinningur fyrir alla

Deila grein

16/09/2020

Sjálfbært sjávarhagkerfi – ávinningur fyrir alla

Erna Sol­berg, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, var aðalræðumaður á fundi um líf­fræðilega fjöl­breytni sjáv­ar sem Norður­landaráð stóð fyr­ir 14. sept­em­ber sl. Líf­fræðileg fjöl­breytni er eitt af þrem­ur áherslu­mál­um for­mennsku Íslands í Norður­landaráði á þessu ári. Árið 2018 setti Sol­berg á lagg­irn­ar alþjóðlega leiðtoga­nefnd um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi. For­sæt­is­ráðherr­ann stýr­ir nefnd­inni en í henni sitja leiðtog­ar fjór­tán strandþjóða. Mark­miðið er að skapa alþjóðleg­an skiln­ing á sjálf­bærri nýt­ingu hafs­ins og góðu ástandi á líf­ríki þess sem skil­ar sér í mik­illi verðmæta­sköp­un.

Alþjóðlega leiðtoga­nefnd­in um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi var stofnuð að frum­kvæði Norðmanna. Nefnd­in vill skapa sókn­ar­færi fyr­ir sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi þar sem ár­ang­urs­rík vernd, sjálf­bær fram­leiðsla og sann­gjörn vel­meg­un hald­ast í hend­ur. Með því að styrkja sam­band manns­ins og hafs­ins, tengja heil­brigði og auðæfi sjáv­ar, starfa með ýms­um hags­munaaðilum og nýta sér nýj­ustu þekk­ingu vill nefnd­in stuðla að betri og traust­ari framtíð fyr­ir menn­ina og móður jörð. Nefnd­in starfar með stjórn­völd­um, at­vinnu­lífi, fjár­mála­stofn­un­um, vís­inda­sam­fé­lag­inu og borg­ara­legu sam­fé­lagi.

Í for­mennskutíð Íslend­inga í Norður­landaráði í ár er ætl­un­in að beina sjón­um að tveim­ur þátt­um sem tengj­ast líf­fræðilegri fjöl­breytni. Ann­ars veg­ar er fyr­ir­hugað að virkja ungt fólk á Norður­lönd­um þannig að það geti haft áhrif á mót­un nýrra alþjóðlegra mark­miða um líf­fræðilega fjöl­breytni á ár­inu 2020. Hinn þátt­ur­inn snýr að líf­fræðilegri fjöl­breytni í hafi sem hef­ur mikið gildi fyr­ir Ísland og önn­ur nor­ræn ríki sem eru mjög háð auðlind­um hafs­ins.

Hlust­um á unga fólkið

Mark­miðið með sam­eig­in­lega fund­in­um var að ræða hlut­verk Norður­landa í vinn­unni að sjálf­bærri stjórn­un sjáv­ar­auðlinda og við að tryggja sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi í framtíðinni á Norður­lönd­um og um heim all­an. Góð stjórn­un hafs­ins á Norður­lönd­um og alþjóðlega er of­ar­lega á dag­skrá Norður­landaráðs. For­mennskulandið Ísland legg­ur í áætl­un sinni áherslu á líf­fræðilega fjöl­breytni hafs­ins og und­ir­strik­ar að hnign­un líf­fræðilegr­ar fjöl­breytni hafi djúp­stæð áhrif á þjóðir Norður­landa sem eru afar háðar auðlind­um sjáv­ar.

Í opn­un­ar­ræðu fund­ar­ins greindi ég frá áhersl­um for­mennsku­lands­ins Íslands á hafið og líf­fræðilega fjöl­breytni sjáv­ar ásamt hlut­verki ungs fólks í að standa vörð um hana. Unga fólkið hef­ur mjög látið í sér heyra und­an­far­in ár og kraf­ist þess af vald­höf­um – og af okk­ur öll­um – að við breyt­um hegðun okk­ar þannig að kom­andi kyn­slóðir geti áfram notið þess að búa á jörðinni og notið auðlinda henn­ar jafnt í hafi sem á landi. Við, í ís­lensku for­mennsk­unni, og fé­lag­ar okk­ar í Norður­landaráði vilj­um að hlustað verði á þess­ar radd­ir, að ákv­arðanir verði tekn­ar í sam­ráði við unga fólkið og með gagn­sæj­um hætti.

Fram­far­ir í vernd­un fiski­stofna

Nú reyn­ir enn meira en áður á sjáv­ar­út­veg­inn sem grunnstoð sam­fé­lags­ins. Hann hef­ur ekki og hann má ekki bregðast okk­ur. En við þurf­um að gæta að þeirri auðlind sem hann bygg­ist á. Fyrr á öld­um héldu menn að fiski­stofn­ar hafs­ins væru ótæm­andi. Þegar er­lend­ir tog­ar­ar fóru að sækja á Íslands­mið í lok 19. ald­ar með stór­virk­um veiðarfær­um sín­um áttuðum við Íslend­ing­ar okk­ur á því að svo er ekki.

Mikl­ar fram­far­ir hafa orðið í vernd­un fiski­stofna við Ísland síðan þá. Við höf­um líka unnið að því að nýta afl­ann bet­ur og við erum far­in að sækja í fleiri teg­und­ir. Ég gaf ný­lega út, ásamt fleir­um, bók um ís­lenska matþör­unga. Það er dæmi um fæðu úr haf­inu sem mætti nota mun meira en nú er gert. Of­veiði í höf­um er enn víða vanda­mál en á síðustu árum og ára­tug­um höf­um við líka orðið meðvituð um aðrar og enn al­var­legri ógn­ir: Lofts­lags­breyt­ing­ar sem meðal ann­ars valda súrn­un sjáv­ar, meng­un af ýmsu tagi og eyðilegg­ing búsvæða. Allt hef­ur þetta áhrif á líf­fræðilega fjöl­breytni.

Breyta ríkj­andi hugs­un og hátt­semi

Norður­landaráð legg­ur á ár­un­um 2018-2020 sér­staka áherslu á heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna núm­er 14: Líf í vatni, þar sem eft­ir­far­andi þætt­ir eru í for­grunni: kol­efn­is­los­un frá sjáv­ar­út­vegi, hlýn­un sjáv­ar, súrn­un sjáv­ar og öfl­un frek­ari þekk­ing­ar á þessu sviði, sam­eig­in­leg stefnu­mörk­un Norður­landa um plastúr­gang, aðgerðir gegn ofauðgun Eystra­salts­ins, samn­or­ræn­an gagna­grunn um líf­ríki sjáv­ar og þátt­töku ungs fólks við mót­un nýrra mark­miða fyr­ir nýj­an samn­ing Sam­einuðu þjóðanna um líf­fræðilega fjöl­breytni.

Það er von mín að mark­miðin með starf­semi Alþjóðlegu leiðtoga­nefnd­ar­inn­ar um sjálf­bært sjáv­ar­hag­kerfi verði að veru­leika svo sem að hvetja til, þróa og styðja lausn­ir í þágu heil­brigðis hafs­ins og auðæfa sjáv­ar og að efla rödd viðkvæmra sjáv­ar- og eyja­byggða svo fátt eitt sé nefnt. Fyrsta skref nefnd­ar­inn­ar er þó það að geta breytt ríkj­andi hugs­un og hátt­semi í heim­in­um með því að vera hátt­sett­um leiðtog­um hvatn­ing til að móta stefnu og aðgerðir í þess­um efn­um. Þegar það er stigið get­um við öll haf­ist handa við sjálf­bæra stjórn­un hafs­ins og sjáv­ar­auðlinda.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, for­seti Norður­landaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2020.

Categories
Greinar

Íslensk olía á skip og vinnuvélar

Deila grein

14/09/2020

Íslensk olía á skip og vinnuvélar

Rannsóknir sýna að bíódísill úr repjuolíu geti komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Á Íslandi er ónýtt ræktunarland til staðar fyrir repjuræktun. Hægt er að minnka losun margra gróðurhúsaloftegunda um allt að 70% á tiltölulega auðveldan hátt með því að breyta eldsneytisnotkun skipa og annarra vinnuvéla þannig að þau noti jurtaolíu, bíódísil eða annað lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Tækifærin felast í ræktun orkujurta á Íslandi.

Tvöföld kolefnisjöfnun

Bíódísill úr repjuolíu er lífræn dísilolía og endurnýjanlegur orkugjafi og telst einn umhverfishlutlausasti orkugjafinn sem getur komið í stað jarðdísilolíu. Repjuræktun felur í sér tvöfalda kolefnisjöfnun með tilliti til útblásturs á koltvísýringi þar sem ræktunin tekur til sín tvöfalt meira af koltvísýringi en brennsla olíunnar gefur frá sér við útblástur. Bíódísil má nota í olíubrennurum og á allar dísilvélar farartækja og varla þarf að breyta vélunum ef skipta skal yfir á bíódísil.

Olíuframleiðsla á ónýttu landi

Ísland hefur þá sérstöðu að ekki þarf að taka undir ræktunina land sem almennt er í ræktun fyrir matjurtir. Það eru góð skipti að skipta mel og söndum út fyrir gula akra, ekki satt? Gott ræktunarland á Íslandi er aðeins 6% af flatarmáli landsins, eða 600.000 hektarar. Þar af eru þegar í ræktun um 120.000 hektarar og tiltækt ræktunarland er því um 480.000 hektarar. Með sérstöku átaki mætti framleiða alla þá olíu sem íslenski skipaflotinn notar á nú ónýttu landi.

Áhersla á fiskiskipaflotann

Í samgönguáætlun íslenskra stjórnvalda er stefnt að því að losun gróðurhúsalofttegunda vegna samgangna á Íslandi verði undir 750 þúsund tonnum árið 2020, sem er í samræmi við aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Til að ná þessum markmiðum er lögð áhersla á að auknar verði rannsóknir á umhverfisvænum orkugjöfum til að þróa og framleiða vistvænt eldsneyti. Einnig að markvissar aðgerðir og ívilnanir miði að minni notkun jarðefnaeldsneytis og að samgöngutæki nýti orku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Sérstök áhersla er lögð á að auka notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotann.

Undirrituð hefur lagt fram þingsályktun varðandi ræktun og nýtingu íslenskra og þann 8. sept. sl. undirrituðu Samgöngustofa og Isavia viljayfirlýsingu um kolefnislausan flugvöll, í samræmi við Flugstefnu. Fyrsta skrefið er að prófa íblöndun á repjuolíu á vinnuvélar þjónustudeildar Isavia. Verkefni er spennandi áfangi í orkuskiptum og einmitt í því umhverfi þar sem þróunin í orkuskiptum er hægari en í fólksbílum hentar íblandað eldsneyti mjög vel og verður að jákvæðri kolefnislausn.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða í þeim efnum, þar sem stórkostlega tækifæri felast í aukinni nýtingu íslenskra orkujurta, ekki síst fyrir umhverfið og orkuöryggi þjóðarinnar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Eyjafréttum 9. september 2020.

Categories
Greinar

Loksins leið af leigumarkaði

Deila grein

10/09/2020

Loksins leið af leigumarkaði

Að búa við húsnæðisöryggi er okkur öllum mikilvægt. Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt mikla áherslu á fjölbreytt úrræði á húsnæðismarkaði því þarfir okkar eru ólíkar. Fyrir skömmu samþykkti Alþingi eitt af áherslumálum félags- og barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar um hlutdeildarlán. Þessi breyting mun skipta sköpum fyrir stóran hóp fólks sem hefur hingað til talið langsótt að komast í eigið húsnæði.

Aðeins 5% eigið fé

Hlutdeildarlánum er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd. Hægt verður að sækja um lánin frá 1. nóvember nk. Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar. Kaupandi þarf aðeins að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Hér er því verið að brúa bil á milli lána sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum eða lífeyrissjóðum og kaupverðs. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum heldur fylgja þau fasteigninni og endurgreiðast við sölu eða 25 árum frá lántöku, og er þá miðið við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði uppá.

Skilyrðin

Með hlutdeildarlánum er Húsnæðis-og mannvirkjastofnun (HMS) veitt heimild að veita lán fyrir fyrstu kaupendur og kaupendur sem ekki hafa átt fasteign sl. 5 ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. samanlagt fyrir hjón á ári miðað við sl. 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára sem býr á heimilinu. Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum en heimilað verður að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Með þessari leið skapast aukin hvati til þess að byggja hagkvæmar og góðar íbúðir sem henta fyrir þennan hóp. HMS telur þessa leið ekki þess valdandi að lækka húsnæðisverð þar sem áætlað er að um 4 milljörðum kr. verði varið árlega við kaup á 400-500 íbúðum.

Raunveruleg kjarabót

Tekjulágir einstaklingar hafa of lengi verið fastir á leigumarkaði en tölurnar sýna okkur að stór hluti þeirra vill komast í eigi húsnæði. Nú er ríkið að stíga myndarlegt skref til þess að aðstoða fólk því það er ekki sanngjarnt að aðeins þeir sem eru með sterkt bakland geti eignast eigið húsnæði. Hlutdeildarlánin eru raunveruleg kjarabót.

Framsókn fyrir heimilin!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 9. september 2020.

Categories
Greinar

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Deila grein

31/08/2020

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Við sem búum á Suðurnesjum vitum að hér eru mörg tækifæri fyrir öflugt og skapandi fólk. Hér eru tækifærin.

Nú blasir við okkur afar spennandi tækifæri hvað varðar atvinnuuppbyggingu, það er bygging skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn. Byggja þarf skjólgarð við höfnina svo að þurrkvíin geti orðið að veruleika. Verkefnið getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað tugi nýrra starfa hér á svæðinu.

Frumkvæði stjórnenda til fyrirmyndar

Stjórnendur Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Reykjaneshafnar eiga heiður skilinn fyrir að hafa tekið frumkvæðið og lagt í umfangsmikinn undirbúning svo að þessi uppbygging í kringum Njarðvíkurhöfn geti orðið að veruleika. Reykjanesbær styður verkefnið og hafa ofangreindir aðilar undirritað viljayfirlýsingu um á uppbygginu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík.

Eftirspurn eftir þjónustunni er til staðar

Þjónustuklasinn mun leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri  mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapa ný tækifæri á þessu sviði. Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70–80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni fyrst um sinn tengd kvínni skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingar-klasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250–350 bein og óbein störf.

Stuðningur ríkisvaldsins nauðsynlegur

Forsenda þessa verkefnis er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar. Til þess að sú forsenda gangi eftir þarf Reykjaneshöfn mögulega að forgangsraða sínum verkefnum í þágu skjólgarðsins.

Nú þegar Skipasmíðastöðin í samstarfi við Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ hafa sýnt vilja í verki og farið í mikla undirbúningvinnu og rannsóknir, og átt samtöl við fjárfesta, þá sé ég ekki annað en þingmenn muni styðja fjármögnun skjólgarðsins sem öllum ráðum. Við verðum að finna leiðir til að koma þessu verkefni af stað. Með því munu skapast tugir og hundruðir nýrra starfa. Við Suðurnesjafólk þurfum á þeim að halda.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 29. ágúst 2020.