Categories
Greinar

Sýndu mér fjárlögin

Deila grein

17/12/2022

Sýndu mér fjárlögin

Í dag voru fjárlög fyrir árið 2023 samþykkt á Alþingi. Í kjölfar þeirrar afgreiðslu minnist ég þess sem formaður Samfylkingarinnar sagði fyrr í þessum mánuði:

„Sýndu mér bara fjárlögin þín og ég skal segja þér hvað skiptir þig máli.“

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt spilin með samþykkt fjárlaganna, og þau gefa skýra mynd á því hvert við stefnum. Fingraför Framsóknar sjást um öll þessi fjárlög þar sem ábyrg og skynsöm fjárhagsstjórnun mætir fjárfestingu í fólki, velferð og heilbrigði.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins

Heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola þung högg síðastliðin ár. Þá sérstaklega í kjölfar heimfaraldurs kórónaveirunnar. Einnig hefur það legið fyrir þörf er á breytingum og nýjum áherslum svo hægt er að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar.

Vegna þessa hefur ríkisstjórnin hækkað framlög til heilbrigðismála um rúma 17 milljarða króna, sem fara í endurreisn heilbrigðiskerfisins, frekari eflingu þess og endurheimt okkar mikilvæga heilbrigðisstarfsfólks. Þessi framlög undirstrika þá áherslu ríkisstjórnarinnar um að standa vörð um heilbrigðiskerfið og að tryggja samfélaginu sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Þar ber helst að nefna 2,3 milljarða styrkingu á rekstrargrunni Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri til að gera þeim betur kleift að sinna sínum mikilvægu verkefnum innan heilbrigðiskerfisins.

Stigin verða stór skref í að stytta biðlista ásamt því að efla endurhæfingarstarfsemi og heimahjúkrun. Markmið sem við öll erum sammála um.

Velferðarfjárlög

Það sést í fjárlögum þessum að velferð fólks skiptir ríkisstjórnina máli. Framlög til félags- og velferðarmála eru aukin talsvert, og með því stöndum við vörð um viðkvæma hópa samfélagsins og fjárfestum í fólki. Það skiptir máli að sjá til þess að allir hafi tækifæri og hljóti stuðning þegar þess þarf. Það hafa verið blikur á lofti síðustu árin og með þessum fjárlögum er ríkisstjórnin að bregðast við.

Staðan á leigumarkaði hefur versnað og margir eiga erfitt með að standa straum af síhækkandi leigukostnaði samhliða hækkandi útgjöldum heimilanna. Því hefur verið ákveðið að auka húsnæðisbætur um 1,5 milljarða króna. Þannig jöfnum við stöðu fólks á leigumarkaði og hlúum að þeim sem þurfa mest á frekari stuðningi að halda.

Lengi hefur verið kallað eftir auknum tækifærum öryrkja- og endurhæfingarlífeyrisþega á atvinnumarkaði. Það er verðugt verkefni að stuðla að slíkri aukningu, sem minnkar félagslega einangrun þeirra og tryggir okkur aukna þátttöku öflugs mannauðs í samfélaginu og atvinnulífinu.

Einnig verður samningum um notendastýrðra persónulegra aðstoðar við fatlað fólk (NPA) fjölgað með auknum framlögum til málaflokksins. Talið er að ráðstöfunin fjölgi samningum um 50%, sem þýðir að mikill fjöldi þeirra, sem þurfa þessa aðstoð á að halda, geti nýtt sér hana.

Að auki hafa framlög í Fæðingarorlofssjóð verið hækkuð til að stuðla að bættri nýtingu fæðingarorlofs og jafnari skiptingu þess milli foreldra. Þessi hækkun getur bætt stöðu barnafólks til muna, og þá sérstaklega unga foreldra sem eru með marga bolta á lofti, lítið á milli handanna og eru að ná fótfestu bæði á húsnæðismarkaði og í atvinnulífinu.

Ábyrg stjórnun

Þó svo að allt sé reynt til að efla íslenskt samfélag og veita sem bestu þjónustu innan opinbera geirans þá er einnig mikilvægt að við sinnum ábyrgri og skynsamri stjórnun fjármagns. Slík stjórnun er nauðsynleg til lengri tíma þar sem við verðum að tryggja sterkan ríkissjóð til frambúðar og lækka skuldir.

Það er einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera. Með fjárlögum þessum er verið að endurheimta styrk ríkissjóðs með lækkun rekstrarhalla og stöðvun á hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Ríkisfjármálum er beitt gegn þenslu og þeirri verðbólgu sem við höfum öll orðið vör við. Dregið verður úr verðbólguþrýstingi og þannig styðjum við efnahag heimilanna og samfélagsins í heild, en það er okkur mikilvægt að styðja við viðkvæma hópa samfélagsins, sem finna mest fyrir áhrifum verðbólgunnar. Lögð er áhersla á að innviðir og grunnþjónusta séu styrkt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga.

Fjárlög til bóta

Nú hefur ríkisstjórnin sýnt fjárlögin sín og hvað skiptir hana máli. Það hefur ekki verið einfalt að ná öllum þessum markmiðum í erfiðum aðstæðum þegar hver einasta króna skiptir sköpum. Með skynsemina og markmiðið um að fjárfesta í fólki að leiðarljósi getum við horft bjartsýn til næsta árs. Hjólin eru aftur farin að snúast eftir erfiða tíma. Við ætlum okkur að ná fyrri styrk og byggja á honum, samfélaginu til heilla.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og aðalmaður í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. desember 2022.

Categories
Greinar

SOS allt í neyð

Deila grein

10/11/2022

SOS allt í neyð

Í þessari viku mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Með tillögunni er matvælaráðherra falið af Alþingi að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu á hverjum tíma.

 Mikilvægi endurskoðunar

Á undanförnum árum höfum við orðið verulega vör við það að ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geti haft það í för með sér að flutningsleiðir til landsins geti stöðvast. Það er því ekkert launungamál að við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun október sl. er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Útfært fyrirkomulag gæti falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf mismunandi leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða. Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 var fjallað um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum og verðum áfram háð innflutningi á ákveðnum vörum sem og aðföngum til að geta framleitt ýmsar vörur innan lands.

Fæðuöryggi landsins

Við þurfum að taka ríkari ábyrgð vegna fæðuöryggis landsins. Byggja upp frekari innviði og fyrirkomulag sem gerir það að verkum að við eigum neyðarbirgðir af þeim matvælum sem við getum framleitt hér á landi hverju sinni. Þessi umræða hefur kviknað oft undanfarin ár en minna hefur orðið úr aðgerðum til þess að mæta henni. Nú er kominn tími til að koma sér að verki í þessum málum og er ég þess fullviss að hæstvirtur matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, muni taka þessari tillögu minni vel og hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Greinar

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Deila grein

30/09/2022

Verk­lag í kjöl­far náttúru­ham­fara

Áskoranir hafa alla tíð fylgt sambúð við náttúruöflin á Íslandi og um nýliðna helgi glímdu landsmenn sannarlega við þau. Illviðri gekk yfir, mikill vindstyrkur sem sumstaðar fylgdi mikil úrkoma og há sjávarstaða. Þetta leiddi til margs konar tjóns s.s. skriðufalla á Vestfjörðum, flóða á Akureyri, skemmda á uppskeru og gríðarlegs foktjóns. Austfirðir urðu hvað verst úti enda náði vindstyrkur þar ótrúlega víða viðmiðum fárviðris. Þegar verðrið stóð sem hæst varð auk þess rafmagnslaust á nálægt helmingi landsins, með tilheyrandi óöryggi, beinu og óbeinu tjóni.

Við getum þakkað fyrir að ekki varð manntjón um liðna helgi. Veðurspár, veðurviðvaranir, lokanir vega og vinna viðbragðsaðila komu í veg fyrir að enn meira tjón hlytist af og fyrir það ber að þakka. Viðbrögð og þrotlaus vinna björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila skiptu sköpum á meðan á veðrinu stóð. Starfsmenn sveitarfélaga brugðust einnig við með fjölbreyttum hætti og mikið mun mæða á sveitarfélögum við hreinsunarstarf næstu daga og vikur.

Á síðustu árum hefur verið farið í margvíslegar aðgerðir til að verjast náttúruhamförum og koma á samtryggingu vegna slíkra tjóna. Forvarnir eins og vöktun, spár, lokanir, varnarmannvirki og uppkaup mannvirkja eru dæmi um slíkt. Náttúruhamfaratrygging Íslands gegnir svo lykilhlutverki í tryggingavernd auk þess sem verklag stjórnvalda í viðbrögðum og úrvinnslu er í stöðugri þróun. Þá spila lögboðnar og valfrjálsar tryggingar sem keyptar eru af tryggingarfélögum inn í verndina.

Orðið náttúruhamfarir samkvæmt lögum hefur ekki endilega sömu merkingu og í daglegu tali. Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir þannig tjón á eignum af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða en ekki foktjón. Húseignir á Íslandi eru vátryggðar, en innbú og lausafé er það aðeins ef það er brunatryggt hjá sjálfstæðu tryggingarfélögunum. Staða atvinnurekanda er mun óljósari bæði hvað varðar lausamuni og framleiðslutjón og sérstaklega þarf að skoða stöðu bænda en 2009 urðu breytingar á Bjargráðasjóði sem veiktu stöðu þeirra.

Verkefni tengd náttúruhamförum falla undir starfsvið margra ráðuneyta t.d. umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, matvælaráðuneytis, innviðaráðuneytis, auk þess sem fleiri ráðuneyti geta komið að málum. Ítrekað hefur verið gagnrýnt að yfirsýn og ábyrgð á samræmi og samhæfingu verkefna tengdri náttúruvá sé óljós.

Tillaga um heildarúttekt á tryggingarvernd

Í kjölfar óveðursins í desember 2019 var ráðist í afar umfangsmiklar aðgerðir til að greina og byggja upp áfallaþol samfélagsins alls. Meta þarf það verklag sem notast hefur verið við á síðustu árum við samhæfingu aðgerða og læra af reynslunni til frekari framfara.

Við álítum mikilvægt og tímabært að gera heildarúttekt á verklagi og aðgerðumog leggjum því í þriðja sinn fram þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á tryggingavernd og úrvinnslu tjóna í kjölfar náttúruhamfara. Meðflutningsmenn koma úr öllum þingflokkum og á síðasta löggjafarþingi bárust 10 umsagnir sem styðja tillöguna og draga fram að fara þarf í aðgerðir sem flýtt geta úrvinnslu eftir tjón, stuðlað að frekara jafnræði og sanngirni og fækkað úrlausnarefnum sem stafa af óljósum reglum.

Samhliða því munum við beita okkur fyrir að samræmi í viðbrögðum við náttúruvá verði bætt og ágallar lagfærðir.

Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar og íbúar í NA kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. september 2022.

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Deila grein

30/03/2022

Fæðu­öryggi er þjóðar­öryggis­mál

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda, hefur farið mikinn í umræðunni um fæðuöryggi. Þar hefur hann talað niður ógnina sem steðjar að fæðuöryggi þjóðarinnar og leggur til aðgerðir sem grafa undan fæðuörygginu og eru þess eðlis að þær draga úr innlendri matvælaframleiðslu.

Þessi málflutningur er óábyrgur. Ógnin er raunveruleg. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál en ekki hagsmunamál atvinnurekenda eða bænda.

Fæðuöryggi á Íslandi

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi frá 2021 segir að eiginlegt fæðuöryggi Íslendinga sé háð 4 meginforsendum; að auðlindir til framleiðslu eru til staðar, að þekking og tæki til framleiðslu eru til staðar, að birgðir eru til að af þeim fæðutegundum sem innlend matvælaframleiðsla getur ekki tryggt og, síðast en ekki síst, að aðgengi að aðföngum fyrir innlenda framleiðslu er tryggt.

Staðan er þessi. Innlend matvælaframleiðsla er háð innfluttum aðföngum, svo sem hráefni til fóðurgerðar, áburði, fræjum og olíu.

Í því ástandi sem birtist okkur í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu er staðan sú að aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu er tvísýnt. Þá sérstaklega að hráefnum til fóðurgerðar og áburði til lengri tíma litið.

Viðkvæm staða

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur hins vegar litlar áhyggjur.

Hann talar um að nægt framboð sé til staðar á aðföngum og aðeins séu verðhækkanir í kortunum. Sjálfur vona ég að hann hafi rétt fyrir sér, en staðreyndin er sú að ástandið í korn- og ábuðraframleiðslu í heiminu er laklegt. Staðan er viðkvæm og það má ekkert út af bregða svo illa fari.

Í skýrslunni Fæðuöryggi á Íslandi kemur fram að ,,stríð eru sennilega sú tegund „hamfara” sem líklegast er að geti á skjótan hátt stöðvað innflutning á fóðri.“

Korn er undirstaðan í dýrafóðri og Úkraína er stærsti framleiðandi korns í álfunni. Almennt er hátt í 40 milljón tonn af korni framleitt í Úkraínu á ári hverju. Í eðlilegu árferði væru úkraínskir bændur að sá fræjum á akra sína en hafa þurft að vopnast og verjast.

Sömuleiðis hefur áburður meira en tvöfaldast í verði þar sem Rússland og Hvíta Rússland, sem bæði eru undir viðskiptaþvingunum, spila stórt hlutverk í aðfangakeðju áburðaframleiðslu. Sú hækkun hefur keðjuverkandi og markþætt áhrif á framboð landbúnaðarafurða, þ.a.m. kornafurðum.

Svartar sviðsmyndir

Skortur á fóðri hér á landi veldur framleiðslustöðvun í eggja-, alífugla- og svínarækt og dregur úr framleiðslu í nautgriparækt, mjólkuriðnaði og að einhverju marki í sauðfjárrækt.

Skortur á áburði hefur aðeins hægari áhrif en mun draga smá saman úr framleiðslu á lambakjöti, nautakjöti og mjólk. Varlega áætlað mun uppskera dragast saman um fjórðung á fyrsta ári áburðarleysis.

Sjálfur tel ég skynsamlegt að við tryggjum okkur gagnvart mögulegum skorti á aðföngum, olíu, korni, sáðvöru og áburði. Varabyrgðir sem duga að lágmarki til eins árs.

Það er mikilvægt að yfirvöld grípi inn í og komi fram með aðgerðaráætlun sem snýr að því að tryggja aðgengi að aðföngum til matvælaframleiðslu ásamt aðgerðum til að bregðast við miklum verðhækkunum við framleiðslu til að tryggja afkomu matvælaframleiðenda.

Til framtíðar þurfum við að skapa íslenskum bændum sanngjarnari starfsskilyrði, atvinnugreininni og neytendum til hagsbóta. Á sama tíma þurfum við að auka sjálfbærni í fóðurframleiðslu og nýta þau tækifæri sem felast í aukinni kornframleiðslu hér á landi. Með markvissum aðgerðum getum við framleitt allt að 80% af því kjarnfóðri sem við þurfum til innlendrar matvælaframleiðslu.

Ólafi er mikið í mun að benda á hið augljósa í umræðunni, þ.e. að lega landsins á norðurhveli jarðar veldur því að við verðum aldrei sjálfum okkur næg, að við getum ekki borðað allan fiskinn sem við veiðum og að stríðsátökin í Úkraínu marka ekki endalok frjálsra heimsviðskipta. Það er allt satt og rétt og enginn sem heldur öðru fram. Hins vegar er skynsamlegt að nýta þá styrkleika og þau tækifæri til framleiðslu sem landið hefur upp á að bjóða. Að stuðla að aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu eykur fæðuöryggi. Um það eru sérfræðingar, þjóðaröryggisráð og alþjóðastofnanir sammála um þó svo að Ólafur Stephensen hafi einhverjar aðrar hugmyndir.

Fæðuöryggi þjóðarinnar er nefnilega of mikilvægt til að leyfa sérhagsmunum að grafa undan því til að skara eld að eigin köku.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. mars 2022.

Categories
Greinar

Sanngjörn samkeppni

Deila grein

01/03/2022

Sanngjörn samkeppni

Fyrr í vetur fór fram sérstök umræða um innlenda matvælaframleiðslu að minni beiðni. Þar lagði ég megináherslu á þrjú atriði; sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði, tollasamninginn við Evrópusambandið og endurskoðun hans og aðgerðaáætlunin um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Undanfarin misseri hefur innlend kjötframleiðsla átt í harðri og ósanngjarnari samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hér heima. Við vitum að staðan í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega þung og komin að þolmörkum. Ef ekki á illa að fara þá er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðgerða sem við vitum að skili árangri. Þingflokkur Framsóknar hefur lengi talað fyrir því að kjötframleiðslan fari sömu leið og mjólkuriðnaðurinn. Þá er átt við að nýta heimild 71. gr. búvörulaga, sem kveður á um undanþágu frá samkeppnislögum og heimilar sameiningu afurðastöðva.

Nauðsynlegt er að hagræða

Fyrir liggja ýmsar greiningar á hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Þær benda til þess að allt að 1,5 milljarða hagræðing gæti átt sér stað innan sauðfjárræktarinnar og nautgripaframleiðslunnar. Ef svína- og alifuglarækt væru tekin með yrði talan enn hærri, þ.e. um 2-3 milljarða hagræðing af sameiningu á ári.

Bændur eru orðnir langþreyttir á viðvarandi ástandi og ef ekkert verður gert er mikil hætta á því að fjöldi þeirra dragi úr eða jafnvel hætti framleiðslu. Það er ekki boðlegt að reka fyrirtæki í því umhverfi sem bændum er boðið upp á í dag.

Við eigum að skapa þessum greinum viðunandi starfsumhverfi og tryggja samkeppnishæfni. Þar er algjört frumskilyrði að bændur og aðrir kjötframleiðendur hafi viðundandi afkomu af framleiðslu sinni. Við höfum tækin og tólin til að grípa inn í og það er tilefni til að nota þau. Við í Framsókn erum óhrædd við að styðja og vernda íslenska matvælaframleiðslu.

Það eru 17 ár síðan ofangreind undanþága frá samkeppnislögum var gerð í mjólkuriðnaðinum og má með sanni segja að það hafi tekist ágætlega til. Unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun, verkaskipting er skýr og allt gengur út á að ná fram hagræðingu innan iðnaðarins. Hagræðingin innan mjólkuriðnaðarins nemur allt að 3 milljörðum á hverju ári.

Við umfjöllun á þessu er grundvallaratriðið að ná fram hagræðingu og lækka framleiðslukostnað. Í því samhengi er ekki einungis verið að hugsa um hag frumframleiðandans heldur alla virðiskeðjuna. Markmiðið er að tryggja hag allra, ekki síst neytenda.

Endurskoðun á tollasamningi

Annað atriði sem leggja þarf áherslu á snýr að tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Höfuðmarkmið samningsins verður að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við. Það er vandasamt að keppa við innflutning matvöru þar sem allt önnur lögmál gilda, t.d. löggjöf um aðbúnað dýra, staðlar og kröfur eru ekki í samræmi við íslenskar reglur og kjör landbúnaðarverkamanna eru allt önnur. Tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki.

Nýtum verkfærin

Við Íslendingar eigum mikil sóknarfæri í landbúnaði, en tími aðgerða er núna! Við eigum að nýta heimildina í 71. gr. búvörulaga og endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið. Þetta eru forgangsmál.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2022.

Categories
Greinar

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Deila grein

14/09/2021

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Landnýting og sjálfbær landbúnaður er mikilvægasta loftslagmálið á Íslandi. Á heimsvísu er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi um fjórðungur af heildarlosun, en hér á landi er hlutfall losunar ríflega 60%.

Það er eðlilegt, enda erum við fá og búum í stóru landi á norðlægum slóðum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að losun frá landi er um 9-10 milljónir tonna, á meðan losun frá vegasamgöngum er tæp milljón tonna af CO2.

Vegna þessa þurfum við markvissa Framsókn í grænni fjárfestingu ríkisins í landbúnaði og bættri landnýtingu. Með því að auka stuðning við sjálfbæra landnýtingu, auka skógrækt og vinna að strategískum landbótaverkefnum leggur Ísland ekki eingöngu mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni heldur styður jafnframt við tækifæri og framfarir um land allt. Afleiddu áhrifin eru m.a. þessi:

Aukin fæðuframleiðsla og minni þörf fyrir innflutt aðföng, í kjölfar stórátaks í uppbyggingu skjólbelta víða um land. Slík uppbygging skjólbelta hefur í för með sér aukna möguleika til kornræktar. Í dag flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn á ári af korni, til notkunar í landbúnaði. Stefna ætti að því að draga úr þessum innflutningi um 10-15% á ári, samhliða aukinni áherslu á innlenda kornrækt.

Græn störf skapast um allt land og fjölbreytt tækifæri fyrir bændur og umsjónarmenn lands, enda liggja mikil værðmæti í kolefnisbindingunni sem fyrirsjáanlega munu aukast næstu ár og áratugi. Slíkt getur stutt við að snúa þeirri ósjálfbæru byggðaþróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Í dag búa um 86% landsmanna á suðvestur-horni landsins. Slíkt hefur haft í för með sér lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu, aukna þörf fyrir risafjárfestingar í umferðarmannvirkjum (sem kalla á aukna losun CO2) og minni kraft til uppbyggingar í dreifðum byggðum.

Með áherslu á nýsköpun um allt land, samhliða strategískum landbótaverkefnum, byggist upp mannauður á sviði sjálfbærrar landnýtingar, rannsóknastarfsemi og grænna lausna. Ný skýrsla OECD (https://read.oecd-ilibrary.org/economics/oecd-economic-surveys-iceland-2021_c4edf686-en?_ga=2.144527228.834598284.1630318730-1831108037.1630318729#page91) bendir á nákvæmlega þessi atriði sem mikilvægustu skrefin fyrir Ísland, í samhengi loftslagsmála.

Áhersla á landnýtingu

Geta lands til kolefnisbindingar er afar mikil. Asparskógur getur bundið í kringum 20 tonn af CO2 per hektara. Uppbygging birkiskóga og landgræðsla skilar ekki jafn miklu á hvern hektara, en þó mjög miklu þegar lagt er saman og í samanburði við aðrar lausnir, sem kosta mun meiri fjárfestingu og hafa fyrst og fremst staðbundin áhrif á þéttbýlustu svæðunum. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr orkuskiptum, t.d. bílaflotans, heldur fyrst og fremst bent á mikilvægi þess að fjárfesta í loftslagslausnum sem skila miklu fyrir Ísland og umheiminn allan.

Það eru fjölmargar leiðir færar til fjármögnunar grænnar umbyltingar í landnýtingu. Efla þarf græn hvatakerfi og styrki til verkefna á þessu sviði. OECD bendir á mikilvægi kolefnisskatta, sem taka mætti undir, svo lengi sem horft verði til þess að slík skattlagning dragi ekki úr möguleikum til uppbyggingar í dreifðum byggðum landsins. Í því samhengi væri eðlilegt að þær tekjur sem koma frá kolefnissköttum renni til fjárfestingar í landbótum og nýsköpun í landnýtingu. Þannig ýtum við undir sjálfbærar grænar fjárfestingar, Íslandi og umheiminum öllum til framdráttar – í nútíð og framtíð!

Helgi Héðinsson og
Þórarinn Ingi Pétursson,
frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norð­austurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu

Categories
Greinar

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Deila grein

23/08/2021

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Það er sorglegt að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, steinrunnar stofnanir og skilningsleysi kerfisins sé dragbítur framfara og verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Á sama tíma höfum við fjölmörg sóknarfæri í óbeisluðum krafti, hugviti, auðlindum og dugnaði í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur býður þess að fá að skapa verðmæti og velsæld, þjóðinni til heilla. Skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar, sem kristallast í úreltu regluverki og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn, eru hins vegar eins og myllusteinn sem halda aftur af framförum í íslenskum landbúnaði.

Raddir forneskju

Tveir kórar, skipaðir mismunandi röddum úreltra hugmynda, láta mikið að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskan landbúnað. Annars vegar eru það þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Þá hrópa úr annarri átt þeir sem vilja að Ísland snúi baki við bændum og landsbyggðinni. Oft eru þessi skilaboð klædd í búning skrúðmælgi og því hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. Megin þorri þjóðarinnar vill hins vegar ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku. Sem betur fer er staðan ekki svona svarthvít það eru fleiri hliðar á teningnum.

Sanngjörn samkeppni

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Það er forgangsatriði að laga regluverkið þannig að bændur og afurðarfyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Það eru engar töfralausnir til en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að hjálpa íslenskum landbúnaði að bjarga sér sjálfur. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að leikreglurnar séu sanngjarnar.

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Íslenskir bændur standa einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands. Við þurfum að sjá þessa styrkleika og nýta okkur þá. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Deila grein

07/05/2021

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Síðastliðinn föstudag kynnti ríkisstjórnin frekari aðgerðir til að mæta afleiðingum Covid-19 í samfélaginu. Þetta er í takt við fyrri störf ríkisstjórnarinnar, en hún hefur sýnt kjark og ítrekað lagt fram metnaðarfullar aðgerðir með jákvæðum og áþreifanlegum niðurstöðum mörgum til hagsbóta. Hér er engin undantekning.

Eins og allir vita, þá hefur Covid-19 veiran haft töluverð áhrif á vinnumarkaði hér á landi. Mikill fjöldi hefur misst sína atvinnu og heilar starfsstéttir hafa lamast. Þó svo að þessi staða er tímabundin þá getum við ekki einungis beðið eftir því að hlutirnir komast aftur á/í réttan kjöl. Mikill fjöldi landsmanna þarfnast aðgerða strax, og þeirri þörf er ríkisstjórnin að svara. Við þurfum að klára leikinn og undirbúa viðspyrnu framtíðarinnar, sem hefst strax að loknum bólusetningum.

Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur lagt á laggirnar er átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum störf“. Átakinu er ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og félagasamtök við að ráða til sín starfsmenn og með því fjölga störfum á vinnumarkaði. Þetta átak hefur gengið vonum framar og mikill fjöldi atvinnuleitenda hefur nýtt það til að stíga aftur inn á vinnumarkað. Í ljósi velgengninnar hefur verið ákveðið að víkka átakið með eftirfarandi úrræðum:

Fyrirtæki með starfsmann í ráðningarsambandi sem fær greiddar hlutabætur geta fengið styrk til endurráðningar hans í fyrra starfshlutfall. Sá styrkur miðast við hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi einstaklings, auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði.

Styrkur að hámarki 100.000 kr. verður greiddur til atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu frá því fyrir tíma Covid-19 og hefur ekki notið lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Styrkurinn verður greiddur í hlutfalli við bótarétt til þeirra atvinnuleitenda sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur vegna aprílmánaðar og höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í fjórtán mánuði eða lengur þann 1. maí 2021.

Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verður framlengt til 1. febrúar 2022. Réttur til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta var lengdur tímabundið úr þremur mánuðum í sex til að mæta tekjufalli vegna Covid-19 og upprunalega var gert ráð fyrir að heimilt yrði að nýta réttinn til 1. október 2021. Þetta tímabil verður nú framlengt til 1. febrúar 2022.

Þetta er allt gert til að laga stöðuna á vinnumarkaði og styðja við atvinnuleitendur. Til þess er leikurinn gerður.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2021.