Categories
Greinar

Sanngjörn samkeppni

Deila grein

01/03/2022

Sanngjörn samkeppni

Fyrr í vetur fór fram sérstök umræða um innlenda matvælaframleiðslu að minni beiðni. Þar lagði ég megináherslu á þrjú atriði; sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði, tollasamninginn við Evrópusambandið og endurskoðun hans og aðgerðaáætlunin um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Undanfarin misseri hefur innlend kjötframleiðsla átt í harðri og ósanngjarnari samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hér heima. Við vitum að staðan í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega þung og komin að þolmörkum. Ef ekki á illa að fara þá er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðgerða sem við vitum að skili árangri. Þingflokkur Framsóknar hefur lengi talað fyrir því að kjötframleiðslan fari sömu leið og mjólkuriðnaðurinn. Þá er átt við að nýta heimild 71. gr. búvörulaga, sem kveður á um undanþágu frá samkeppnislögum og heimilar sameiningu afurðastöðva.

Nauðsynlegt er að hagræða

Fyrir liggja ýmsar greiningar á hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Þær benda til þess að allt að 1,5 milljarða hagræðing gæti átt sér stað innan sauðfjárræktarinnar og nautgripaframleiðslunnar. Ef svína- og alifuglarækt væru tekin með yrði talan enn hærri, þ.e. um 2-3 milljarða hagræðing af sameiningu á ári.

Bændur eru orðnir langþreyttir á viðvarandi ástandi og ef ekkert verður gert er mikil hætta á því að fjöldi þeirra dragi úr eða jafnvel hætti framleiðslu. Það er ekki boðlegt að reka fyrirtæki í því umhverfi sem bændum er boðið upp á í dag.

Við eigum að skapa þessum greinum viðunandi starfsumhverfi og tryggja samkeppnishæfni. Þar er algjört frumskilyrði að bændur og aðrir kjötframleiðendur hafi viðundandi afkomu af framleiðslu sinni. Við höfum tækin og tólin til að grípa inn í og það er tilefni til að nota þau. Við í Framsókn erum óhrædd við að styðja og vernda íslenska matvælaframleiðslu.

Það eru 17 ár síðan ofangreind undanþága frá samkeppnislögum var gerð í mjólkuriðnaðinum og má með sanni segja að það hafi tekist ágætlega til. Unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun, verkaskipting er skýr og allt gengur út á að ná fram hagræðingu innan iðnaðarins. Hagræðingin innan mjólkuriðnaðarins nemur allt að 3 milljörðum á hverju ári.

Við umfjöllun á þessu er grundvallaratriðið að ná fram hagræðingu og lækka framleiðslukostnað. Í því samhengi er ekki einungis verið að hugsa um hag frumframleiðandans heldur alla virðiskeðjuna. Markmiðið er að tryggja hag allra, ekki síst neytenda.

Endurskoðun á tollasamningi

Annað atriði sem leggja þarf áherslu á snýr að tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Höfuðmarkmið samningsins verður að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við. Það er vandasamt að keppa við innflutning matvöru þar sem allt önnur lögmál gilda, t.d. löggjöf um aðbúnað dýra, staðlar og kröfur eru ekki í samræmi við íslenskar reglur og kjör landbúnaðarverkamanna eru allt önnur. Tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki.

Nýtum verkfærin

Við Íslendingar eigum mikil sóknarfæri í landbúnaði, en tími aðgerða er núna! Við eigum að nýta heimildina í 71. gr. búvörulaga og endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið. Þetta eru forgangsmál.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2022.

Categories
Greinar

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Deila grein

14/09/2021

Bætt landnýting – mikilvægasta tækifærið í loftslagsmálum?

Landnýting og sjálfbær landbúnaður er mikilvægasta loftslagmálið á Íslandi. Á heimsvísu er losun gróðurhúsalofttegunda frá landi um fjórðungur af heildarlosun, en hér á landi er hlutfall losunar ríflega 60%.

Það er eðlilegt, enda erum við fá og búum í stóru landi á norðlægum slóðum. Í þessu samhengi er gott að hafa í huga að losun frá landi er um 9-10 milljónir tonna, á meðan losun frá vegasamgöngum er tæp milljón tonna af CO2.

Vegna þessa þurfum við markvissa Framsókn í grænni fjárfestingu ríkisins í landbúnaði og bættri landnýtingu. Með því að auka stuðning við sjálfbæra landnýtingu, auka skógrækt og vinna að strategískum landbótaverkefnum leggur Ísland ekki eingöngu mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni heldur styður jafnframt við tækifæri og framfarir um land allt. Afleiddu áhrifin eru m.a. þessi:

Aukin fæðuframleiðsla og minni þörf fyrir innflutt aðföng, í kjölfar stórátaks í uppbyggingu skjólbelta víða um land. Slík uppbygging skjólbelta hefur í för með sér aukna möguleika til kornræktar. Í dag flytjum við inn ríflega 100 þúsund tonn á ári af korni, til notkunar í landbúnaði. Stefna ætti að því að draga úr þessum innflutningi um 10-15% á ári, samhliða aukinni áherslu á innlenda kornrækt.

Græn störf skapast um allt land og fjölbreytt tækifæri fyrir bændur og umsjónarmenn lands, enda liggja mikil værðmæti í kolefnisbindingunni sem fyrirsjáanlega munu aukast næstu ár og áratugi. Slíkt getur stutt við að snúa þeirri ósjálfbæru byggðaþróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Í dag búa um 86% landsmanna á suðvestur-horni landsins. Slíkt hefur haft í för með sér lóðaskort á höfuðborgarsvæðinu, aukna þörf fyrir risafjárfestingar í umferðarmannvirkjum (sem kalla á aukna losun CO2) og minni kraft til uppbyggingar í dreifðum byggðum.

Með áherslu á nýsköpun um allt land, samhliða strategískum landbótaverkefnum, byggist upp mannauður á sviði sjálfbærrar landnýtingar, rannsóknastarfsemi og grænna lausna. Ný skýrsla OECD (https://read.oecd-ilibrary.org/economics/oecd-economic-surveys-iceland-2021_c4edf686-en?_ga=2.144527228.834598284.1630318730-1831108037.1630318729#page91) bendir á nákvæmlega þessi atriði sem mikilvægustu skrefin fyrir Ísland, í samhengi loftslagsmála.

Áhersla á landnýtingu

Geta lands til kolefnisbindingar er afar mikil. Asparskógur getur bundið í kringum 20 tonn af CO2 per hektara. Uppbygging birkiskóga og landgræðsla skilar ekki jafn miklu á hvern hektara, en þó mjög miklu þegar lagt er saman og í samanburði við aðrar lausnir, sem kosta mun meiri fjárfestingu og hafa fyrst og fremst staðbundin áhrif á þéttbýlustu svæðunum. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr orkuskiptum, t.d. bílaflotans, heldur fyrst og fremst bent á mikilvægi þess að fjárfesta í loftslagslausnum sem skila miklu fyrir Ísland og umheiminn allan.

Það eru fjölmargar leiðir færar til fjármögnunar grænnar umbyltingar í landnýtingu. Efla þarf græn hvatakerfi og styrki til verkefna á þessu sviði. OECD bendir á mikilvægi kolefnisskatta, sem taka mætti undir, svo lengi sem horft verði til þess að slík skattlagning dragi ekki úr möguleikum til uppbyggingar í dreifðum byggðum landsins. Í því samhengi væri eðlilegt að þær tekjur sem koma frá kolefnissköttum renni til fjárfestingar í landbótum og nýsköpun í landnýtingu. Þannig ýtum við undir sjálfbærar grænar fjárfestingar, Íslandi og umheiminum öllum til framdráttar – í nútíð og framtíð!

Helgi Héðinsson og
Þórarinn Ingi Pétursson,
frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norð­austurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu

Categories
Greinar

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Deila grein

23/08/2021

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Það er sorglegt að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, steinrunnar stofnanir og skilningsleysi kerfisins sé dragbítur framfara og verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Á sama tíma höfum við fjölmörg sóknarfæri í óbeisluðum krafti, hugviti, auðlindum og dugnaði í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur býður þess að fá að skapa verðmæti og velsæld, þjóðinni til heilla. Skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar, sem kristallast í úreltu regluverki og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn, eru hins vegar eins og myllusteinn sem halda aftur af framförum í íslenskum landbúnaði.

Raddir forneskju

Tveir kórar, skipaðir mismunandi röddum úreltra hugmynda, láta mikið að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskan landbúnað. Annars vegar eru það þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Þá hrópa úr annarri átt þeir sem vilja að Ísland snúi baki við bændum og landsbyggðinni. Oft eru þessi skilaboð klædd í búning skrúðmælgi og því hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. Megin þorri þjóðarinnar vill hins vegar ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku. Sem betur fer er staðan ekki svona svarthvít það eru fleiri hliðar á teningnum.

Sanngjörn samkeppni

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Það er forgangsatriði að laga regluverkið þannig að bændur og afurðarfyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Það eru engar töfralausnir til en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að hjálpa íslenskum landbúnaði að bjarga sér sjálfur. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að leikreglurnar séu sanngjarnar.

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Íslenskir bændur standa einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands. Við þurfum að sjá þessa styrkleika og nýta okkur þá. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Til al­manna­heilla

Deila grein

28/05/2021

Til al­manna­heilla

Á dögunum voru samþykkt ný lög frá Alþingi. Í þeim fellst m.a. að lögaðilar sem starfa til almannaheilla eru undanþegnir tekjuskatti af tilgreindum fjármagnstekjum, fest hefur verið í sessi heimild þeirra til að fá endurgreidd 100% virðisaukaskatts af vinnulið vegna byggingarvinnu, hlutfall frádráttarheimildar atvinnurekenda vegna fjárframlaga til almannaheilla tvöfaldist í tilteknum tilvikum og einstaklingum er heimilt að draga tiltekin fjárframlög til lögaðila sem starfa til almannaheilla frá skattskyldum tekjum að nánari skilyrðum uppfylltum. Þetta mál er ekki dottið af himnum ofan heldur hefur átt sér töluverðan aðdraganda.

7 ára meðganga

Upphaf málsins má rekja til þingsályktunartillögu sem Willum Þór Þórsson flutti á 143. löggjafarþingi 2013-2014. Tillagan hljóðaði upp á endurskoðun á virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar og fól í sér að íþrótta- og ungmennafélög yrðu undanþegin virðisaukaskatti af starfsemi sinni að öllu leyti ásamt því að íþrótta- og ungmennafélög fengju heimild til að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæðum sínum, vinnulaunum og efniskaupum. Willum lagði áherslu á að mikilvægt væri að skoða efnahagslegt mikilvægi íþrótta og áhrif skipulagðs íþróttastarfs á vegum íþróttahreyfingarinnar í víðu samhengi. Hlutverk ríkisins hlyti að vera að tryggja sem besta umgjörð og aðbúnað fyrir almennings- og afreksíþróttir þjóðinni til heilla. Íþróttahreyfingin væri þjóðhagslega mikilvæg og meginmarkmið tillögunnar væri að leggja til að ríkisstjórnin kæmi að því að efla skipulagða íþróttastarfsemi ásamt þátttöku foreldra og annarra.

Þingsályktunin náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Willum Þór Þórsson lagði málið fram aftur en í breyttri mynd sem frumvarp á 144. löggjafarþingi og aftur á 145. löggjafarþingi. Frumvarpið var til breytinga á lögum um virðisaukaskatt og miðaði að því að breyta virðisaukaskattsumhverfi íþróttahreyfingarinnar með sama hætti og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Fjármála- og efnahagsráðherra hafði á þessum tíma skipað stýrihóp til að endurskoða reglur um virðisaukaskatt og vörugjöld í því skyni að einfalda og bæta skilvirkni kerfisins og lagði nefndin til að þessar tillögur yrðu teknar til skoðunar hjá stýrihópnum.

Hugmyndin þróast áfram

Á 145. löggjafarþingi lagði atvinnuveganefnd undir formennsku Jóns Gunnarssonar fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Með frumvarpinu var lagt til að setja á fót sérstakt endurgreiðslukerfi til að efla hvers kyns starfsemi félagasamtaka til almannaheilla hér á landi. Með frumvarpinu var lögð til heimild til að endurgreiða félagasamtökum til almannaheilla fjárhæð sem nemur virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Markmiðið með frumvarpinu var að styðja við starfsemi félagasamtaka af þessu tagi, til að mynda til að hvetja til uppbyggingu á ýmiss konar aðstöðu. Frumvarpið fékk ekki afgreiðslu á 145. löggjafarþingi og var endurflutt á 148. og 149. löggjafarþingi.

Starfshópur skipaður

Hinn 1. apríl 2019 skipaði fjármála- og efnahagsráðherra starfshóp sem falið var að leggja fram tillögur að breytingum á þeim lögum sem giltu um skattlagningu starfsemi sem félli undir þriðja geirann. Hitann og þungann af þeirri vinnu báru Óli Björn Kárason og Willum Þór Þórsson. Af framangreindu er ljóst að umræða um breytingar á skattalegu umhverfi lögaðila sem starfa til almannaheilla og falla undir þriðja geirann, með það að markmiði að efla það mikilvæga starf sem þar fer fram, hefur átt nokkurn aðdraganda.

Mikilvægt skref

Það var mjög ánægjulegt fyrir mig að fá að vera framsögumaður á þessu máli og fá að taka þátt í þessu verkefni því að það voru aðrir þingmenn sem hafa borið hitann og þungann af því. Þetta er eitt af þeim málum sem margir hafa beðið eftir sem starfa í þessum geira. Fyrst og fremst snýr þetta að óhagnaðardrifnum félögum þar sem fólk leggur mikið á sig með ókeypis vinnuframlagi. Þessi nýju lög koma til með að efla og styrkja starfsemi sem er öllum til heilla hvar sem er, því að mörg eru félögin og starfsemin fjölbreytt. Hér er verulega verið að koma til móts við alla mikilvægu starfsemi sem unnin er í þessum félögum. Það er dásamlegt að vera þingmaður þegar svona mál eru afgreidd. Til hamingju allir þeir sem lögðu á sig mikla vinnu síðustu ár til þess að ná þessum breytingum fram. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. maí 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Deila grein

07/05/2021

Klárum leikinn: Framsókn í stuðningi á vinnumarkaði

Síðastliðinn föstudag kynnti ríkisstjórnin frekari aðgerðir til að mæta afleiðingum Covid-19 í samfélaginu. Þetta er í takt við fyrri störf ríkisstjórnarinnar, en hún hefur sýnt kjark og ítrekað lagt fram metnaðarfullar aðgerðir með jákvæðum og áþreifanlegum niðurstöðum mörgum til hagsbóta. Hér er engin undantekning.

Eins og allir vita, þá hefur Covid-19 veiran haft töluverð áhrif á vinnumarkaði hér á landi. Mikill fjöldi hefur misst sína atvinnu og heilar starfsstéttir hafa lamast. Þó svo að þessi staða er tímabundin þá getum við ekki einungis beðið eftir því að hlutirnir komast aftur á/í réttan kjöl. Mikill fjöldi landsmanna þarfnast aðgerða strax, og þeirri þörf er ríkisstjórnin að svara. Við þurfum að klára leikinn og undirbúa viðspyrnu framtíðarinnar, sem hefst strax að loknum bólusetningum.

Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur lagt á laggirnar er átak Ásmundar Einars, félags- og barnamálaráðherra, „Hefjum störf“. Átakinu er ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og félagasamtök við að ráða til sín starfsmenn og með því fjölga störfum á vinnumarkaði. Þetta átak hefur gengið vonum framar og mikill fjöldi atvinnuleitenda hefur nýtt það til að stíga aftur inn á vinnumarkað. Í ljósi velgengninnar hefur verið ákveðið að víkka átakið með eftirfarandi úrræðum:

Fyrirtæki með starfsmann í ráðningarsambandi sem fær greiddar hlutabætur geta fengið styrk til endurráðningar hans í fyrra starfshlutfall. Sá styrkur miðast við hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hlutfalli við hækkun starfshlutfalls viðkomandi einstaklings, auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að fjóra mánuði.

Styrkur að hámarki 100.000 kr. verður greiddur til atvinnuleitenda sem hafa verið án atvinnu frá því fyrir tíma Covid-19 og hefur ekki notið lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Styrkurinn verður greiddur í hlutfalli við bótarétt til þeirra atvinnuleitenda sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur vegna aprílmánaðar og höfðu fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í fjórtán mánuði eða lengur þann 1. maí 2021.

Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verður framlengt til 1. febrúar 2022. Réttur til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta var lengdur tímabundið úr þremur mánuðum í sex til að mæta tekjufalli vegna Covid-19 og upprunalega var gert ráð fyrir að heimilt yrði að nýta réttinn til 1. október 2021. Þetta tímabil verður nú framlengt til 1. febrúar 2022.

Þetta er allt gert til að laga stöðuna á vinnumarkaði og styðja við atvinnuleitendur. Til þess er leikurinn gerður.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi til Alþingis fyrir sama flokk.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2021.

Categories
Greinar

Nýjar bú­greinar og blómstrandi sveitir

Deila grein

24/03/2021

Nýjar bú­greinar og blómstrandi sveitir

Við Íslendingar höfum frá landnámi lifað á því að rækta jörðina, halda skepnur og sækja sjóinn. Dugnaður, útsjónarsemi og hyggjuvit hafa verið okkar besta veganesti. Sem betur fer hafa orðið stórstígar framfarir á ýmsum sviðum. Sjávarútvegurinn er orðinn tæknivæddur og nýjar búgreinar og búskaparhættir hafa breytt meiru en nokkurn gat órað fyrir. Þrátt fyrir þetta er kjarni lífsbaráttunnar enn sá sami. Við verðum að nýta það sem náttúran gefur af virðingu og skynsemi.

Verðmætir vænlegir vaxtarbroddar

Þótt ég sitji nú á þingi fyrir Framsóknarflokkinn er ég samt fyrst og fremst bóndi. Fáir skilja það líklega betur en við bændurnir að nýsköpun í landbúnaði er forsenda þess að sveitirnar blómstri um ókomin ár. Sem betur fer eigum við mörg dæmi um farsælar nýjungar í búvöruframleiðslu. Nú um stundir eru vænlegustu vaxtarbroddarnir líklega þar sem samruni er á milli landbúnaðar og vísinda eins og líftækni. Eitt fyrirtækið í þeim geira framleiðir verðmætt lyfjaefni úr hryssublóði.

Gjaldeyrisskapandi nýsköpun

Fyrirtækið er til fyrirmyndar á alla vegu. Nánast allar afurðir eru fluttar úr landi og skapa árlegar gjaldeyristekjur upp á einn og hálfan milljarð. Þetta hjálpar ekki bara hinum dreifðari byggðum og bændum í öllum landshlutum að skjóta styrkari stoðum undir búskapinn. Þessi nýja búgrein er dýralæknum líka aukin verkefni og býr til góð störf. Blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er að verða ein allra öflugasta nýja búgreinin á Íslandi.

Blóðgjöfin er dýrunum meinalaus

Um 5.000 hryssur eru í verkefninu og blóðgjöfin er framkvæmd af dýralæknum að undangenginni staðdeyfingu. Blóðgjöf er að hámarki 5 lítrar í hvert sinn. Vel er farið með dýrin fyrir blóðgjöf, á meðan hún er framkvæmd og að henni lokinni. Að jafnaði gefur hryssa blóð fimm sinnum á sumri og aldrei oftar en átta sinnum. Rannsóknir hafa sýnt að þetta er öruggt fyrir hryssurnar, þeim verður ekki meint af og ekki er eitt einasta dæmi um að dýr hafi drepist vegna blóðgjafar.

Sérstakir velferðarsamningar

Fyrirtækið gerir sérstaka velferðarsamninga við alla sína eitt hundrað bændur, og það er eftirtektarvert að þau bú sem eru í samstarfi við Ísteka hafa mörg hver bætt sig í allri umhirðu og umgjörð. Þetta má líklega rekja til þess að bændurnir fara eftir sérstakri gæðahandbók og starfa samkvæmt fyrrnefndum velferðarsamningum. Fyrir utan það að blóðgjöfin er framkvæmd af dýralækni eins og fyrr segir, þá er allt ferlið undir opinberu eftirliti Matvælastofnunnar.

Öflug dýravelferð er bændum eðlislæg

Því miður eiga bændur, landsbyggðin og þetta fyrirtæki sér óvildarmenn sem hafa dreift óhróðri um starfsemina. Ómálefnaleg gagnrýni, sem byggir á röngum upplýsingum eða hreinum ósannindum, hittir auðvitað helst í mark fyrir það fólk sem í henni stendur. Fullyrða má að öll umgjörðin um blóðgjafir á Íslandi sé til fyrirmyndar, hvort sem er í íslenskum eða alþjóðlegum samanburði. Ég fagna því að sjá nýjar búgreinar verða til sem hjálpa Íslandi að blómstra.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. mars 2021.

Categories
Greinar

Grænna Ísland

Deila grein

14/03/2021

Grænna Ísland

Ný­leg­ar jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesi hafa verið okk­ur Íslend­ing­um áminn­ing um ná­lægð nátt­úru­afl­anna. Við búum á eyju elds og ísa sem okk­ur hef­ur verið fal­in til varðveislu. Ábyrgð okk­ar felst í því að varðveita landið og nátt­úr­una, en á sama tíma verðum við að nýta þær auðlind­ir sem okk­ur hef­ur verið treyst fyr­ir á skyn­sam­leg­an hátt.

Græn mark­mið á öll­um sviðum

Ábyrg auðlinda­nýt­ing felst ekki í því að láta verðmæti liggja óhreyfð og ónýtt. Hún felst miklu held­ur í því að nýta auðlind­ir með sjálf­bær­um hætti og nýta arðinn og rent­una til að byggja í hag­inn fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. Það er á ábyrgð okk­ar sem nú mót­um stefn­una að skila Íslandi í betra ástandi til kom­andi kyn­slóða. Í því felst bæði sjálf­bær nýt­ing nátt­úru­auðlinda, verðmæta­sköp­un og upp­bygg­ing innviða. Þessi mark­mið fara vel sam­an.

Lát­um verk­in tala

Und­ir­ritaður hef­ur notið þeirr­ar gæfu að fá tæki­færi til að láta verk­in tala, þá bæði sem þingmaður Norðaust­ur­kjör­dæm­is og for­ystumaður bænda. Öflug­ur stuðning­ur við skóg­rækt og land­græðslu í takti við verðmæta­sköp­un og innviðaupp­bygg­ingu skil­ar bæði núlif­andi og kom­andi kyn­slóðum há­marks­lífs­gæðum. Það eru for­rétt­indi að vera í stöðu til að láta verk­in tala.

Græn for­ysta

Sauðfjár­rækt var fyrsta at­vinnu­grein­in á Íslandi til setja sér stefnu um fulla kol­efnis­jöfn­un. Verkið var unnið af bestu fag­mönn­um sem tóku út kol­efn­is­fót­spor grein­ar­inn­ar og í kjöl­farið fylgdi raun­hæf og metnaðarfull tíma­sett áætl­un. Það var meðal ann­ars byggt á reynslu af verk­efn­um eins og „Bænd­ur græða landið“ og gæðastýr­ingu í sauðfjár­rækt en yfir 90% bænda hafa unnið land­bót­astarf und­ir merkj­um þeirra.

Kerfið þarf að virka

Því miður hef­ur gengið hæg­ar að hrinda kol­efnis­jöfn­un­ar­verk­efn­inu í fram­kvæmd en að var stefnt. Sama má segja um hug­mynd­ir um stór­fellda beit­ar­skóga­rækt­un sem und­ir­ritaður keyrði af stað í sam­vinnu við skóg­ræktar­fólk fyr­ir fá­ein­um árum. Eina skýr­ingu fyr­ir þessu er meðal ann­ars að finna í því að boðleiðir og verka­skipt­ing í stjórn­sýsl­unni er ekki með þeim hætti sem best væri á kosið til að ná há­marks­ár­angri í kol­efnis­jöfn­un.

Sam­vinna er lyk­ill­inn

Eft­ir­fylgni und­ir­ritaðs á Alþingi, meðal ann­ars með því að vera fyrsti flutn­ings­maður þings­álykt­un­ar­til­lögu þing­manna úr ýms­um flokk­um um þjóðarátak í land­græðslu og skóg­rækt, hef­ur hjálpað til við að halda þess­um mála­flokki á dag­skrá. Sú til­laga miðaðist við að leitað yrði víðtækr­ar sam­vinnu, stjórn­valda, al­menn­ings, at­vinnu­lífs og bænda, stærstu land­eig­enda á Íslandi.

Nýtt ráðuneyti um­hverf­is og land­búnaðar

Það er mik­il­vægt fyr­ir kom­andi kyn­slóðir að kol­efnis­jöfn­un verði for­gangs­verk­efni á Íslandi. Öflugt þjóðarátak í land­græðslu og skóg­rækt í sam­vinnu við bænd­ur get­ur einnig leitt til nýrra at­vinnu­tæki­færa um allt land. Áður en lengra er farið þá þarf að stokka upp í stjórn­sýsl­unni. Eft­ir næstu kosn­ing­ar þarf að setja upp nýtt ráðuneyti um­hverf­is­mála og land­búnaðar. Það er kom­inn tími til að láta verk­in tala og gera Ísland grænna.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.

Categories
Greinar

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Deila grein

09/03/2021

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Velsæld allra byggðarlaga á Íslandi er háð því að hægt sé að nýta hugvit til að skapa verðmæti á sjálfbæran hátt í sátt við náttúru og samfélag. Verðmætasköpun er grundvöllur þeirrar samhjálpar og velferðar sem gerir öllum kleift að njóta lífsins í samræmi við sínar eigin óskir og þrár. Um þetta snúast stjórnmál. Hið hárrétta jafnvægi velmegunar og lífshamingju er línudans á miðjunni þar sem öfgum bæði til hægri og vinstri er haldið í skefjum með skynsemi og samvinnu. Þennan dans hefur Framsókn fullkomnað.

Velmegun byggir á verðmætasköpun

Velmegun Íslands byggir á skynsamlegri nýtingu auðlinda. Við erum í grunninn matvælaframleiðsluþjóð sem byggir nútíma lífsskilyrði sín á skilvirkum landbúnaði og sjávarútvegi þar sem öflugir bændur og hugdjarfir sjómenn hafa hellulagt stíginn frá fátækt til bjargálna. Við eigum öll mikið undir því að framleiðslugreinum hér á landi verði búin sanngjörn og hvetjandi umgjörð. Um það snúast íslensk stjórnmál að stórum hluta. Þar þarf að láta verkin tala.

Umgjörðin verður að virka

Sú umgjörð þarf að vera skynsamleg með sjálfbærni í forgangi. Verðmætin verða til hjá fólki og fyrirtækjum þegar gjafir náttúrunnar til sjávar og sveita eru nýttar með dugnaði, frumkvöðlakrafti og hugviti. Hvorki Alþingi né stjórnsýslustofnanir í Reykjavík mega þvælast fyrir því að nýjar búgreinar eins og kolefnisjöfnun geti skotið rótum. Það er afar mikilvægt að allt regluverk og lagaumgjörð sé eins og best er á kosið. Stefnan þarf að vera skýr og við Íslendingar verðum að setja grænar áherslur á oddinn.

Vegurinn áfram er grænn

Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið rödd hinna dreifðu byggða á Alþingi. Hann talar fyrir velferð sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun um allt land. Flokkurinn hafnar öfgum til vinstri og hægri og er rödd skynseminnar á Alþingi. Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt mun ýta undir fjölgun starfa um allt land. Beitarskógar og kolefnisjöfnun eru önnur græn verkefni sem fjölga möguleikum þeirrar kynslóðar sem er að vaxa úr grasi. Lífræn ræktun, handverksbrugghús, heimaslátrun og önnur vinnsla afurða bjóða upp á fjölmörg tækisfæri þar sem þörfin er mest.

Fjölbreytni og samvinna

Eigi íslenskur landbúnaður að blómstra verður að hlúa að fjölbreytninni en á sama tíma verður að hagræðis og búa til skynsamlegan ramma utan um stóru framleiðsluna sem þjónar fjöldanum. Lagabreyting sem auðveldar þeim samstarf eða sameiningu kjötafurðastöðva er nauðsynleg til þess að greinin blómstri í alþjóðlegri samkeppni. Slík undanþága getur leitt til mikillar hagræðingar sem skilar sér í hærra afurðaverði til bænda og öflugri rekstri fyrirtækjanna.

Öflug stjórnsýsla þjóni þjóðinni

Efling matvælaframleiðslu er mikilvægt hagsmunamál fyrir lífskjör okkar allra. Það eru landgræðslu og loftslagsmálin líka. Þetta þarf að fara saman svo sjávarplássin og sveitirnar blómstri. Við verðum að láta verkin tala í þessum efnum og breyta því sem við sjáum að virkar ekki sem skyldi. Sameining umhverfismála og landbúnaðar í eitt ráðuneyti gæti hjálpað okkur á þessari vegferð. Fáar aðrar breytingar á stjórnkerfinu myndu leiða til álíka aukningar í verðmætasköpun eða fjölgun starfa.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2021.

Categories
Greinar

Samvinna bænda í sölu búvara

Deila grein

25/02/2021

Samvinna bænda í sölu búvara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun Danakonungs á tímabilinu 1602–1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðleg þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma, ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum, eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376 segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi að það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar- og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni. Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „… vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það  bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum? Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítils háttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Deila grein

18/02/2021

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Í útvarpsþættinum á Sprengisandi fyrr í vikunni var rætt við Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Páll Gunnar ræddi m.a. um mikilvægi þess að samkeppnislögin væru virt, það væri mikilvægt fyrir heildarhagsmuni neytenda. Hann talaði um að það væri lenska í efnahagskreppu að taka samkeppnislögin úr sambandi og grípa til verndartolla sem kæmi síðan niður á nýsköpun, vöruþróun og vöruverði til neytenda.

Undirrituð hafa lagt fram frumvarp til breytinga á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga þá sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta frumvarp fæddist ekki í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir heldur var það fyrst lagt fram á haustdögum 2018, löngu áður efnahagskreppa af völdum COVID 19 var í kortunum. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt nú sem aldrei fyrr.

Samræmist EES og ESB

Verði tillagan að lögum er fullvíst að mikil hagræðing getur átt sér stað bæði í slátrun sem og vinnslu á kjöti. Allar líkur eru á að hagræðing sem þessi muni skila betri afkomu afurðastöðva, hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda. Það er ekkert í EES rétti sem kemur í veg fyrir að slíka breytingu megi leiða í lög hér á landi og mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður innan ESB er undanþeginn samkeppnislögum að miklu leiti.

Við erum ekki að finna upp hjólið

Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést meðal annars af því að heildarþáttaframleiðni í greininni hefur vaxið um 2,2% á ári frá 2000-2018. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum er slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum er um 3 milljarðar króna á ári á verðlagi ársins 2020. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda.

Nærsamfélagsframleiðsla og hagsmunir neytenda.

Síðustu misseri hafa kröfur neytenda tekið verulegum breytingum. Margt kemur þar til s.s. aukin vefverslun, kröfur um að draga úr notkun umbúða, minni matarsóun auk áherslu á að minnka kolefnisspor afurða. Neytendur og bændur eru samstíga að horfa í átt til þess að framleiða heilnæmar og hreinar afurðir í nærumhverfi markaðarins. Þetta á jafnt við þau sem neyta dýraafurða sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda fara þannig saman og stjórnvöld verða hlýða því kalli. Innlend framleiðsla á það skilið að staðið sé vörð um um hana til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar, og stjórnvöld geta lagt lið með breyttri löggjöf. Aukin samvinna í afurðavinnslu mun leiða af sér aukna vöruþróun og hagræðingu þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2021.