Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Fréttir

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

Deila grein

13/11/2018

Ályktanir Kjördæmaþings Framsóknarmanna í Reykjavík (KFR)

11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, fagnar farsælu ríkisstjórnarsamstarfi flokksins. Þau mál sem brenna heitast á fjölskyldum og almenningi í Reykjavík eru helstu stefnumál flokksins. Þau snúa öll að réttlæti. Bann við verðtryggðum húsnæðislánum er réttlæti, lægri vextir með tilkomu samfélagsbanka er réttlæti, húsnæðisliður úr vísitölu er réttlæti, Svissneska leiðin í húsnæðiskaupum er réttlæti, uppskurður lífeyrissjóðakerfisins og lýðræðisvæðing er réttlæti, verja þarf rétt neytenda gegn ofurvaldi fjármálafyrirtækja, því það er réttlæti. Löngu er tímabært að almenningur geti leitað skjóls gegn fjármálastofnunum sem fara offari. Framsóknarmenn fagna því að gerð verði skýrsla um framferði yfirvalda og fjármálafyrirtækja eftir hrun.
11. Kjördæmaþing Framsóknarmanna í Reykjavík, haldið þriðjudaginn 13. nóvember 2018, telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Greinar

Frelsi til heilbrigðis

Deila grein

12/11/2018

Frelsi til heilbrigðis

Ólafur Stephensen skrifar líflega grein í Morgunblað föstudagsins þar sem hann finnur að ýmsu því sem ég nefndi í grein minni í blaðinu á fimmtudag og varaði fólk við því, meðal annars, að taka of mikið mark á mér sem dýralækni. Munurinn á okkur Ólafi liggur þegar kemur að dýralækningum og dýraheilbrigði ekki síst í því að ég er dýralæknir en hann ekki. Er þá þessum hluta rökræðunnar lokið.

Einstök staða Íslands

Það sem einna helst einkennir líf, hvort sem það er mannlíf eða dýralíf, er að það þróast. Þetta á ekki einungis við um það að lífverur eldist, heldur einnig það að við vitkumst og þróumst í hugsun eftir því sem tíminn líður. Fyrir nokkrum áratugum mæltu amerískir læknar með einstaka sígarettutegundum í auglýsingum en sú aukabúgrein lækna er líklega úr sögunni. Sykurinn sem amma mín taldi meinhollan hefur einnig hrunið niður vinsældalista þeirra sem leggja áherslu á góða heilsu. : Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í. Ég mæli því ekki með því við Ólaf og verslunina að fara í slagsmál við lækna og dýralækna þegar kemur að heilbrigði manna og dýra á Íslandi.

Hrátt kjöt er ekki eins og hvert annað vörunúmer

Sá slagur sem Ólafur og verslunin eru í og hafa náð nokkrum árangri í er á sviði frjálsrar verslunar. Þá er bara spurningin sú hvort kjörbúðin sé rétti vettvangurinn fyrir matarslag. Hvort frjáls verslun með hrátt kjöt sé bara eins og hvert annað bókhaldsnúmer þegar við blasir á þeim mörkuðum sem verið er að opna að ástandið er bara alls ekki nógu gott. Og langt frá því.

Vakning um allan heim

EES-samningurinn er Íslendingum gríðarlega mikilvægur, ekki síst þegar kemur að hagsmunum sjávarútvegsins. Það að bera saman íslenskar sjávarafurðir og afurðir verksmiðjubúa meginlandsins er þó eins og að bera saman tómata og ananas. Ég lít svo á að það sé þess virði að berjast fyrir breytingum á EES-samningnum til þess að vernda þá góðu stöðu sem við höfum á sviði landbúnaðar, dýraheilbrigðis og lýðheilsu. Um þetta er gríðarleg vakning um allan heim en ekki síst á Norðurlöndum.

Tökum ekki áhættuna

Það erfiða við þetta mál er ekki síst það að ef við leyfum tímanum að leiða í ljós hvort það hafi áhrif á lýðheilsu Íslendinga að flytja inn hrátt kjöt þá verður okkur í Framsókn engin fró í því að standa upp eftir 20 ár og segja við Ólaf og félaga: „I told you so“.

Fyrir áhugasama þá er rétt að benda þeim á að gúggla nöfn veirufræðingsins Margrétar Guðnadóttur heitinnar og Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, og sjá hvað greinar þeirra hafa að segja um innflutning á hráu kjöti og sýklalyfjaónæmi. Því þótt þau séu ekki dýralæknar þá hafa þau mikið til málanna að leggja.

Útdregið: Læknar og dýralæknar (svo því sé haldið til haga) um allan heim hafa af því stórar áhyggjur að við blasi faraldur sé ekki brugðist hratt við notkun sýklalyfja í landbúnaði. Þá komum við að þeirri staðreynd að Íslendingar eru sem þjóð í þeirri stöðu sem flestar þjóðir heims vildu vera í.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Sókn er besta vörnin

Deila grein

12/11/2018

Sókn er besta vörnin

Degi íslenskrar tungu verður fagnað með fjölbreyttum hætti á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar hinn 16. nóvember nk. Dagurinn hefur fest sig í sessi í huga landsmanna og margir nýta hann til að fagna því sem vel er gert og minna á mikilvægi tungumálsins. Íslenskan skipti sköpum í sjálfstæðisbaráttu okkar og athyglivert er hversu mikla áherslu forystufólk á þeim tíma lagði á mikilvægi tungumáls og menntunar. Þegar litið er um öxl má með sanni segja að vel hafi tekist til við að auka lífsgæði á Íslandi. Við þurfum hins vegar alltaf að vera meðvituð um þá samkeppni sem ríkir um mannauðinn og keppa að því að lífskjör séu góð og standist alþjóðlegan samanburð.

»Ef íslenskan hverfur tapast þekking og við hættum að vera þjóð,« er haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvægt að undirstrika stöðu þjóðtungunnar. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál líkt og íslenska séu gjaldgeng í nútímasamskiptum. Nauðsynlegt er að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo hún megi þróast og dafna til framtíðar. Ábyrgðin á því viðvarandi verkefni hvílir hjá stjórnvöldum og atvinnulífi hvers tíma.

Það eru forréttindi fyrir fámenna þjóð að tala eigið tungumál. Þjóðir hafa glatað tungumálum sínum eða eru við það að missa þau. Dæmi um slíkt er lúxemborgíska sem er eitt þriggja mála sem töluð eru í Lúxemborg. Um áratugaskeið hafa opinber skjöl í Lúxemborg verið birt á frönsku og þýsku en lúxemborgíska verið töluð. Líkt og Ísland er Lúxemborg fámennt land með háar þjóðartekjur en landfræðileg staða ríkjanna er afar ólík. Yfirvöld í Lúxemborg hafa hugað lítt að því að tæknivæða lúxemborgísku og því fer notkun hennar dvínandi.

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, m.a. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni verður kynnt þingsályktunartillaga um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

Deila grein

12/11/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi (KFSV) haldið í Kópavogi, föstudaginn 9. nóvember 2018, lýsir yfir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á.
Kjördæmisþingið þakkar þann góða stuðning sem listar flokksins fengu í kjördæminu í sveitastjórnarkosningunum sem leiddi til þess að framsóknarmenn eru nú í meirihluta í tveimur af stærstu sveitarfélögum landsins, Kópavogi og Hafnarfirði.
Kjördæmisþingið fagnar því að tillaga samgönguráðherra að samgönguáætlun sé komin fram og að fimm ára samgönguáætlun sé fullfjármögnuð.  Fátt er þó mikilvægara í daglegu amstri íbúa kjördæmisins en bættar samgöngur og er ljóst að væntingar eru um mun hraðari uppbyggingu samgangna í kjördæminu en þar birtist.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að helstu mál flokksins í húsnæðismálum gangi eftir er varðar möguleikann á að nýta lífeyrisiðgjald til að kaupa á fyrstu íbúð (svissneska leiðin), að afborgunarhlé verði á námslánum af sama tilefni, bann við verðtryggingu á nýjum neytenda- og íbúðalánum og að húsnæðiskostnaður falli út úr vísitölu neysluverðs.
Kjördæmisþingið leggur áherslu á að jafna kjör í komandi kjarasamingum og að undið verði ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins.  Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins um stefnu í húsnæðismálum, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefnu í menntamálum, samspil launa, bóta og skatta er lykilinn að farsælli lausn fyrir allt samfélagið.
Kjördæmisþingið telur menntun, menningu og íþróttir vera lykilstoðir í samfélagi okkar.  Því skiptir miklu máli að auka fjárveitingar til háskólanna og framhaldsskólanna til að efla starf þeirra. Lengi hefur verið beðið eftir breytingum á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.  Tekur kjördæmisþingið undir áherslur menntamálaráðherra um að breyta hluta námslána í námsstyrk, nýta LÍN til að stuðla að jafnræði til náms út um allt land og bregðast við alvarlegum skorti á ákveðnum starfsstéttum.
Kjördæmisþigið lýsir yfir áhyggjum af skorti á kennaramenntuðum starfsmönnum í leikskólum landsins. Rannsóknir sýna fram á að snemmtæk íhlutun í menntun og öðrum málefnum barna skiptir sköpum um þroska og velferð hvers einstaklings . Mikilvægt er að grípa til úrræða sem gerir starf innan leikskóla eftir sóknarvert svo hæfasta fólkið veljist til starfa.
Kjördæmisþingið lýsir yfir áhyggjum af aukinni vanlíðan ungs fólks og brottfalli þess úr framhaldsskóla. Mikilvægt er að skimma fyrir líðan nemenda í grunnskóla og grípa inn í fyrr en nú er gert og veita börnum aðstoð og þjálfun við hæfi. Einnig er mikilvægt að börn, unglingar og ungt fólk eigi greiðan aðgang að sálfræðiaðstoð og öðrum stuðningi sem hvetur þau til samfélagslegrar virkni og stuðlar að vellíðan.
Kjördæmisþingið telur að margt hafi áunnist með EES samningnum en leggur áherslu á að vegna sérstöðu Íslands beri að gæta þess að taka ekki upp ónauðsynlegt og hamlandi regluverk sem sniðið er að aðstæðum á meginlandi Evrópu. Til dæmis er ástæða til að hafna þriðja orkupakka ESB og leita allra leiða til að verja íslenskan landbúnað fyrir hættum sem stafa af óheftum innflutningi.

Categories
Greinar

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Deila grein

09/11/2018

Hin þögli sjúkdómur – vefjagigt

Einstaklingum sem metnir eru til örokur hefur fjölgað ár frá ári. Fjölgun þeirra sem metnir hafa verið 75% öryrkjar fjölgaði um 3,9% milli áranna 2016 og 2017.

Það eru fjölmargar ástæður sem liggur á bak við örorku einstaklinga en einn sjúkdómur sem hefur meiri tíðni hér en víða erlendis er vefjagigt samkvæmt svari við fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra á sl. vetri.

Vefjagigtargreining var talin meðvirkandi þáttur í 75% örorku hjá 14% allra kvenna sem voru á örorku. Örorka vefjagigtarsjúklinga orsakast oft af samverkandi þáttum vefjagigtar, annarra stoðkerfissjúkdóma og geðsjúkdóma.

Konur í meirihluta

Talið er að vefjagigt hrjái 2-13% fólks á hverjum tíma hún er algengari hjá konum en körlum eða 3-4 konur á móti einum karli. Það eru ekki til heildarupplýsingar um fjölda einstaklinga sem greinir hafa verið hér á landi en í rannsókn frá 1998 reyndist algengi vefjagigtar vera 5,6% á meðal 18 ára einstaklinga og eldri en erlendis er algengi vefjagigtar oftast á bilinu 1-4%. Vefjagigt er yfirleitt langvinnur sjúkdómur sem ekki læknast og því fjölgar í hópi vefjagigtarsjúklinga með hækkandi aldri.

Árangur af meðferð

Engar ritrýndar niðurstöður hafa verið birtar um árangur af meðferð á vefjagigt á Íslandi. Þraut – miðstöð um vefjagigt hefur tekið saman upplýsingar um árangur endurhæfingar fyrir fjögurra ára tímabil, árin 2011–2015. Niðurstöðurnar voru annars vegar birtar í skýrslu Þrautar til Sjúkratrygginga Íslands árið 2014 og hins vegar í nýlokinni meistararitgerð Sigríðar Björnsdóttur í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Niðurstöðurnar sýna þýðingarmikinn, marktækan bata eftir endurhæfingu hvað varðar heildarstöðu sjúklinganna, færni og lífsgæði. Niðurstöðurnar sýna einnig að verkir, þreyta, andleg líðan og streitueinkenni batna marktækt eftir endurhæfingu.

Fræðsla og forvarnir

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagift og láta fara fram endurskoðun á skipan sérhæfðrar endurhæfingarþjónustu með það að markmiði að styrkja greiningarferlið og geta boðið upp á heildræna meðferð byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna.

Heilbrigðiskerfið þarf að leggja eyrun við þessum þögla sjúkdómi og viðurkenna hann sem stóran þátt í að konur á öllum aldri séu að detta út af vinnumarkaði og einangrast heima með verkjasjúkdóm sem gerir einstaklinginn óvirkan bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

Categories
Greinar

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Deila grein

09/11/2018

Bæta þarf stöðu drengja í menntakerfinu

Okkur ber skylda til þess að hlúa sem best að velferð barna og ungmenna og tryggja þeim tækifæri til þess að þroskast og dafna. Menntakerfið er eitt mikilvægasta jöfnunartæki okkar og þar er lagður grunnur að tækifærum framtíðarinnar. Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Í þeirra tölum hefur einnig komið fram að íslenskt skólakerfi einkennist af jöfnuði.

Lesskilningur

Kveikjan að þessum skrifum er umræða í þinginu í gær um stöðu drengja. Hún bar yfirskriftina »Drengir í vanda« og þar ræddu þingmenn vítt og breitt um stöðu íslenskra drengja. Ég færi Karli Gauta Hjaltasyni, þingmanni Flokks fólksins, þakkir fyrir að vekja máls á þessu brýna málefni. Mér er málið hugleikið og líkt og samstarfsfólk mitt í þinginu hef ég áhyggjur af slökum lesskilningi íslenskra drengja. Niðurstöður PISA-rannsóknarinnar 2015 sýndu að 29% íslenskra drengja væru í lægstu hæfniþrepum prófsins og gætu ekki lesið sér til gagns. Það er stórt samfélagslegt verkefni að bæta læsi íslenskra barna og að því vinnum við í sameiningu. Eitt mikilvægt tæki til þess eru lesfimipróf sem innleidd hafa verið. Vísbendingar eru um að okkur miði í rétta átt samkvæmt nýjustu niðurstöðum.

Brotthvarf

Töluverður munur er á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum eftir kynjum og þar hallar á drengina. Á Íslandi eru fleiri karlar á aldrinum 25-34 ára án framhaldsskólamenntunar en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Menntunarstig þjóðarinnar hefur aukist mjög á sl. tíu árum, en háskólamenntuðum konum hefur fjölgað mun hraðar en körlum þannig voru konur eru tveir af hverjum þremur sem brautskráðust af háskólastigi hér á landi á árunum 2015-2016. Að undanförnu höfum við gripið til aðgerða til að sporna við brotthvarfi úr framhaldsskólum m.a. með því að veita auknum framlögum til skólanna til að mæta nemendum í brotthvarfshættu, hefja skimun fyrir brotthvarfi og vinna að bættri geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið.

Samstarf um árangur

Vellíðan og velgengni nemenda er stöðugt verkefni skólafólks og menntakerfisins í heild. Þar þurfa margir þættir að koma saman til að árangur náist og hann sé viðvarandi. Nú í haust var stigið gott skref í þá átt að auka samstarf í þágu barna þegar ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis, ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að við hyggjumst auka samstarf okkar á þeim málefnasviðum er snúa að velferð barna og brjóta niður múra sem myndast geta milli kerfa. Markmiðið er skýrt; að tryggja sem best að börn og ungmenni fái heildstæða og samhæfða þjónustu þvert á stofnanir og kerfi.

Snemmtæk íhlutun

Þessi viljayfirlýsing kallast á við þær áherslur sem við höfum talað fyrir er snerta snemmtæka íhlutun. Hún felur í sér að börn og ungmenni fái aðstoð og hjálp sem fyrst á lífsleiðinni og þeim sé veitt liðsinni áður en vandi þeirra ágerist. Við náum mestum árangri með snemmtækri íhlutun þegar allir leggja sig fram við að eyða þeim hindrunum sem geta skapast milli málefnasviða, stjórnsýslustiga og stofnana þegar kemur að því flókna verkefni að stuðla að velferð barna.Íslenskt menntakerfi er öflugt og mörgum kostum búið. Við viljum gera enn betur og sóknarfærin eru víða. Menntatölfræði og niðurstöður rannsókna eru mikilvæg innlegg í þá stefnumótun sem nú stendur yfir vegna mótunar menntastefnu til ársins 2030. Eitt af því sem er til skoðunar þar er hvernig við getum forgangsraðað með skilvirkari hætti í þágu þeirra sem mæta áskorunum í menntakerfinu, hvort sem það eru drengir eða stúlkur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Hugsum út fyrir búðarkassann

Deila grein

08/11/2018

Hugsum út fyrir búðarkassann

Á Íslandi höfum verið svo lánsöm að búa við þær aðstæður að íslenskar landbúnaðarafurðir eru með því heilnæmasta sem finnst í heiminum. Búfjársjúkdómar eru sjaldgæfir vegna legu landsins og vegna þess hvernig bændur hafa staðið að búskap sínum. Við erum því í einstakri og eftirsóknarverðri stöðu þegar kemur að því að kaupa í matinn. Við getum valið íslenskt og verið örugg um það að sú vara er með því öruggasta og besta sem fyrirfinnst í matvöruverslunum í heiminum.

Uppgjör dagsins

Einhver myndi halda að slík sérstæða væri eitthvað sem vert væri að halda í. Það eru þó ekki allir á því máli eins og kemur fram í vilja einstakra kaupmanna og heildsala sem hafa lengi barist fyrir því að opna landið fyrir erlendum matvælum, nú síðast hráu kjöti. Eftir langvinn málaferli hafa þeir nú unnið sigur og ættu að geta flutt inn hrátt kjöt óheft frá aðildarríkjum EES-samningsins. Þeir gleðjast um stund yfir því að geta fengið meira í kassann því álagningin á verksmiðjuframleitt innflutt kjöt gefur líklega í meira í kassann. Alveg eins og léttvínið og bjórinn sem þeim er svo mikið í mun um að fá í rekkana í verslunum sínum.

Unnið gegn lýðheilsu

Þetta er kallað viðskiptafrelsi og grundvallast á samningum við ESB. Við getum selt fisk án takmarkana og á sama tíma er ætlast til að hingað sé flutt inn hrátt kjöt án takmarkana. Málið er hins vegar ekki svo einfalt. Það sem við látum ofan í okkur getur ekki aðeins snúist um krónur og aura eða evrur ef því er að skipta. Ég tel ekki eðlilegt að Evrópusambandið geti skyldað Íslendinga til að taka upp löggjöf sem vinnur gegn heilbrigði þjóðarinnar.

Ónæmi gegn sýklalyfjum er alvarlegt mál

Heilbrigði dýra og heilnæmi matar er grundvallaratriði þegar kemur að innflutning á hráum kjötvörum. Þar standa þær Evrópuþjóðir sem mest framleiða af kjöti einfaldlega ekki á sama plani og Íslendingar. Sú matvara sem við erum svo lánsöm að hafa notið hér í boði íslenskra bænda er einfaldlega heilnæmari og betri en mikið af því kjöti sem boðið er upp á í Evrópu. Þetta er staðreynd þegar litið er til þess hversu algengt salmonellu- og kamfýlóbaktersmit er í kjöti í ríkjum ESB; þetta er staðreynd þegar litið er til þess magns af sýklalyfjum sem notað er í landbúnaði á meginlandinu og er farið að gera það að verkum að fólk myndar með sér sýklalyfjaónæmi. Þetta er ekki hræðsluáróður. Þetta er ekki pólitík. Þetta eru staðreyndir.

Sveitir landsins eru ekki menningartengd ferðaþjónusta

Áhrifin af innflutningi á hráu kjöti hefur einnig áhrif á lifandi dýr en þess eru dæmi að sýkt hrátt kjöt hafi smitað búpening með skelfilegum afleiðingum. Áhrifin eru einnig efnahagsleg því hvernig eiga íslenskir bændur að keppa við risastór verksmiðjubú meginlandsins í verði? Viljum við þakka íslenskum bændum fyrir að byggja hér upp heilbrigðan bústofn og framleiða heilnæmar vörur með því að leyfa versluninni að flytja inn hrátt kjöt og stefna lýðheilsu í hættu? Viljum við knýja þá til að stíga niður á sama plan og mörg lönd Evrópu eru að glíma við að komast út úr? Framsókn segir nei. Íslenskar sveitir eru ekki menningartengd ferðaþjónusta til sýnis í vorferð Viðreisnar.

Herða frekar en hitt?

Nýverið sýndi rannsókn að bakteríur, ónæmar fyrir sýklalyfjum, hefðu fundist í 13 sýnum af innfluttu grænmeti en ekkert fannst í íslensku grænmeti. Kannski ættum við í ljósi rannsókna að herða frekar löggjöfina þegar kemur að innflutningi á matvælum heldur en að gefa eftir. Framsókn mun leita allra leiða með samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn og á vettvangi Norðurlanda til að koma í veg fyrir að heilsu landsmanna verði fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Sameiginlegt hagsmunamál

Deila grein

05/11/2018

Sameiginlegt hagsmunamál

Innflutningur á kjöti hefur stóraukist eftir að íslensk stjórnvöld slökuðu á þeim höftum sem beitt hefur verið til að styðja við íslenska kjötframleiðslu og til að verja íslenska búféð.  Lega landsins hefur verndað íslenskt búfé fyrir búfjársjúkdómum sem herja á erlent búfé. Nú er svo komið að fjórðungur á kjötmarkaði hér á landi er innflutt kjöt. Á sama tíma berast fréttir af alvarlegum búfjársjúkdómum sem enn skjóta sér niður erlendis eins og kúariða í Skotlandi og afrísk svínapest sem nú herjar í Evrópu.

Loftslagsmál eru eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum miðar að því að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030 og metnaðarfullu markmiði ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð um nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum.

Opin landamæri

Við höfum verið á hraðferð við að opna landið fyrir innflutningi fyrir landbúnaðarafurðum. Fylgjendum þeirra sem tala fyrir frjálsum innflutningi segjast tala máli neytenda og tala fyrir frelsi bænda. Ekki skal dregið úr þeirri staðreynd að málefni neytenda og íslenska landbúnaðarins fari saman. Það á líka við þegar kemur að auknum innflutningi landbúnaðarvara. Það er stórt hagsmunamál íslensks landbúnaðar og neytenda að brugðist verði við auknum innflutningi á hráu kjöti, ógerilssneyddum mjólkurvörum og hráum eggjum. Þar getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í hreinleika íslenskra búvara.  Aldargamalli baráttu íslenskra vísindamanna og bænda við innflutta búfjársjúkdóma hefur orðið mikið ágengt en er nú virt að vettugi.

Íslensk stjórnvöld samþykktu árið 2010  að innleiða matvælagjöf ESB með það að leiðarljósi að íslensk lög um dýrasjúkdóma myndu standa með því að ekki yrðu flutt hingað hráar dýrafaurðir. En sakleysi okkar og trú á því að ekki yrði farið yfir þá varnargarða er orðið að engu með niðurstöðu EFTA dómstólsins.

Tryggja þarf varnir landsins

Það er ljóst að við verðum að breyta um stefnu. Okkar vopn eru okkar frábæru hreinu landbúnaðarvörur sem okkur ber að verja. Niðurstaða EFTA brýtur á rétti okkar allra, ekki síst neytenda, heilbrigði dýra og matvælaöryggis. Tilgangur innleiðingar á matvælalöggjöf ESB hefur snúist í andhverfu sína. En með matvælalöggjöfinni átti að styrkja hag neytenda.

Það verður að ná samningum við ESB á grundvelli EES samningsins um að Íslandi verði heimilað að verja okkar dýrastofna gegn búfjársjúkdómum. Það þýðir að við verðum að koma í veg fyrir innflutning á hráu kjöti og sækja þarf strax um allar tryggingar sem til eru í þá veru. Auka þarf eftirlit með innflutningi og tollahliðum. Þannig geta íslensk stjórnvöld tryggt að íslenskur landbúnaður standi jafnfætis í samkeppni á markaði.

Matvæla- og landbúnaðarráðuneyti

Íslenskur landbúnaður er á krossgötum. Það er komið að þeim tímamótum að blása byr í seglin með íslenskum neytendum og landbúnaði. Stofna ætti sér matvæla- landbúnaðarráðuneyti. Þar undir ættu landbúnaðar- matvæla- og neytendamál og þetta væri liður í metnaðarfullri áætlun í lofslagsmálum. Með því að styrkja stjórnsýsluna er stutt við sjálfbærni, nýsköpun og vöruþróun íslenskra matvælaframleiðslu. Draga þarf enn frekar fram sérstöðu íslenskrar framleiðslu og umhverfislega þýðingu þess að nýta betur innlend aðföng eftir því sem hægt er. Þegar þangað er komið getum við sagt að hagur íslenskra neytenda sé borgið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 1. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Raddir unga fólksins á Norðurlöndum

Deila grein

02/11/2018

Raddir unga fólksins á Norðurlöndum

Ísland tekur við formennsku í Norðurlandaráði í byrjun næsta árs og á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi í Ósló fyrr í vikunni kynnti ég þær áherslur sem við munum leggja á sviði menningarmála. Þrjú áhersluatriði íslensku formennskunnar snúa að sjálfbærri ferðamennsku í norðri, hafinu og ungu fólki á Norðurlöndunum en viðfangsefni okkar á menningarsviðinu tengjast einkum hinu síðastnefnda.

Þannig eru verkefni okkar Menntun fyrir alla og Platform-Gátt umfangsmikil verkefni á sviðum menntunar og lista fyrir ungt fólk. Þar er sérstök áhersla lögð á þátttöku og samræðu þeirra um mennta- og menningarmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á þessu ári förum við einnig með formennsku í norrænu barna- og ungmennanefndinni NORDBUK en eitt af markmiðum hennar er að efla samtakamátt og þátttöku ungs fólks á Norðurlöndunum í samfélagslegum verkefnum og lýðræðisferlum.

Ísland leggur áherslu á tungumálasamstarf í formennsku sinni og mun ég mæla fyrir því að kannað verði hvort tímabært sé að endurskoða málstefnu Norðurlanda í heild sinni. Á fundinum í Ósló urðu þau tímamót að íslenska og finnska voru í fyrsta sinn formlega skilgreindar sem opinber mál Norðurlandaráðs og er það mikið framfaraskref. Þá munum við skipuleggja tvær ráðstefnur þar sem málefni Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) um heimsminjar og menningarerfðir verða í brennidepli. Á vettvangi fjölmiðlunar munum við gera átak í að efla fjölmiðlun sem tæki gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Á sviði íþrótta- og æskulýðsmála er ráðgert að skipuleggja hliðarviðburði á stórri ráðstefnu íslensku formennskunnar um #églíka-byltinguna næsta haust.

Á fundi norrænu menningarmálaráðherranna í Ósló var einnig tekin ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu Norðurlandanna, hliðstæða Nordic Cool sem fram fór í Washington 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017, og mun sendinefnd kynna tillögur sínar að staðsetningu þriðju menningarkynningarinnar um miðjan nóvember.

Ég vil að lokum óska verðlaunahöfum Norðurlandaráðs, sem veitt voru á þinginu, hjartanlega til hamingju. Það er sérlega ánægjulegt að tvenn verðlaun hlotnuðust íslensku listafólki að þessu sinni; rithöfundinum Auði Övu Ólafsdóttur sem hlaut bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Ör og aðstandendum kvikmyndarinnar Kona fer í stríð sem fengu kvikmyndaverðlaunin. Verðlaun þessi munu án efa auka hróður fyrrgreindra verka og listamanna enn frekar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. nóvember 2018.