Categories
Greinar

Sterkir fjölmiðlar skipta sköpum

Deila grein

17/12/2019

Sterkir fjölmiðlar skipta sköpum

Mikl­ar breyt­ing­ar hafa orðið á rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með til­komu sam­fé­lags­miðla og nýrra miðlun­ar­leiða. Flest­ir fjöl­miðlar byggja af­komu sína á aug­lýs­ing­um og áskrift­um og þegar báðir tekju­straum­arn­ir minnka veru­lega verður staðan erfið. Tekju­sam­drátt­ur­inn er rak­inn ann­ars veg­ar til þess að sí­fellt stærri hluti aug­lýs­inga er birt­ur á vefj­um er­lendra stór­fyr­ir­tækja og hins veg­ar auk­ins fram­boðs á ókeyp­is fjöl­miðlaefni.

Stjórn­völd víða um heim hafa brugðist við þess­ari þróun með því að veita fjöl­miðlum styrki eða bætt rekstr­ar­um­hverfi þeirra með öðrum hætti. Sömu­leiðis hafa Norður­landaþjóðir verið í far­ar­broddi í stuðningi við fjöl­miðlun um ára­tuga skeið. Í upp­hafi miðaðist hann einkum að dag­blöðum en hef­ur á síðustu árum einnig tekið til annarra teg­unda fjöl­miðlun­ar, svo sem net­miðla og hljóð- og mynd­miðla.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram fyr­ir­heit um að bæta rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Því hef­ur verið smíðað frum­varp þess efn­is sem er í þing­legri meðferð. Mark­mið frum­varps­ins er að efla stöðu ís­lenskra fjöl­miðla með því að styðja við og efla út­gáfu á frétt­um, frétta­tengdu efni og um­fjöll­un um sam­fé­lags­leg mál­efni. Til að ná því mark­miði er gert ráð fyr­ir að heim­ilt sé að veita einka­rekn­um fjöl­miðlum fjár­hags­leg­an stuðning sem felst í því að end­ur­greiða þeim hluta þess kostnaðar sem fell­ur til við að afla og miðla slíku efni.

Stuðning­ur­inn verður ann­ars veg­ar í formi end­ur­greiðslu á allt að 18% af launa­kostnaði viðkom­andi fjöl­miðils vegna rit­stjórn­ar­starfa og hins veg­ar í formi 4% sér­staks stuðnings, sem einnig er miðaður við til­tekið hlut­fall af launa­kostnaði. Einnig er gert ráð fyr­ir að end­ur­greiðsla til fjöl­miðils geti ekki orðið hærri en 50 millj­ón­ir króna, en ekki er þak á sér­stök­um stuðningi sem miðast við 4% af fram­an­greind­um launa­kostnaði.

Vert er að taka fram að end­ur­greiðsluþátt­ur frum­varps­ins er í anda annarra kerfa sem stjórn­völd hafa sett á lagg­irn­ar á síðustu árum til að styðja við menn­ingu á Íslandi og nefni ég þar end­ur­greiðslur er varðar kvik­mynd­ir, hljóðrit­un og bóka­út­gáfu. Einnig má nefna styrki til ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja. Hér er um að ræða end­ur­greiðslu á kostnaði úr rík­is­sjóði til einkaaðila hvort held­ur í menn­ing­ar- eða í ný­sköp­un­ar­starf­semi. Ég von­ast til þess að sá stuðning­ur sem frum­varpið ger­ir ráð fyr­ir geri fjöl­miðlum kleift að efla rit­stjórn­ir sín­ar, vera vett­vang­ur skoðana­skipta og tján­ing­ar­frels­is og með þeim hætti rækja hlut­verk sitt sem einn af horn­stein­um lýðræðis­ins.

Mál þetta hef­ur verið á döf­inni í mörg ár en því hef­ur ávallt verið ýtt til hliðar. Nú hlakka ég til að fylgja þessu frum­varpi eft­ir því það er heilla­spor fyr­ir ís­lenska fjöl­miðlun í heild sinni.

Lilja Dögg Alferðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. desember 2019.

Categories
Greinar

Ísland í fremstu röð

Deila grein

16/12/2019

Ísland í fremstu röð

Þær breyt­ing­ar sem nú eiga sér stað vegna bylt­inga á sviðum upp­lýs­inga, sam­skipta og tækni skapa ótal tæki­færi fyr­ir sam­fé­lög. Vel­sæld hef­ur auk­ist um heim all­an en á sama tíma stönd­um við frammi fyr­ir fjöl­breytt­um áskor­un­um, ekki síst í um­hverf­is­mál­um. Brýnt er að við horf­um til lausna og aðgerða sem stuðla að jöfn­um tæki­fær­um til þátt­töku í sam­fé­lag­inu og þar er mennt­un lyk­ilþátt­ur. Framtíðar­vel­sæld sam­fé­lags­ins mun hvíla á fjár­fest­ingu og for­gangs­röðun okk­ar í þágu mennt­un­ar í dag. Í þess­ari grein verður farið yfir ýmsa þætti sem styrkja og efla mennta­kerfið okk­ar; hug­ar­far, orðaforða, læsi, starfsþróun og fjölg­un ís­lensku­tíma ásamt um­fjöll­un um ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir.

Hug­ar­far mennt­un­ar

Alþjóðleg­ar mennt­a­rann­sókn­ir sýna að þær þjóðir sem skara fram úr í mennta­mál­um eiga margt sam­eig­in­legt. Það sem ein­kenn­ir þær meðal ann­ars er að þar er skýr for­gangs­röðun í þágu mennt­un­ar, ekki aðeins þegar kem­ur að fjár­magni held­ur er virðing bor­in fyr­ir námi og skóla­starfi. Störf kenn­ara eru mik­ils met­in og þau álit­in meðal mik­il­væg­ustu starfa og þar er lögð rík áhersla á aðgengi að mennt­un og að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þessi atriði mynda grunn­inn að öfl­ugu mennta­kerfi. Íslenska mennta­kerfið hef­ur vissu­lega sína styrk­leika en við þurf­um að gera enn bet­ur og til þess þurf­um við að ganga í takt. Ein­fald­ar skyndi­lausn­ir duga ekki, við þurf­um að horfa til rann­sókna og setja okk­ur skýr lang­tíma­mark­mið. Við höf­um þegar ráðist í aðgerðir sem taka mið af fyrr­greind­um grund­vall­ar­atriðum og séð góðan ár­ang­ur af þeim.

Mik­il­vægi orðaforðans

Mennt­a­rann­sókn­ir sýna að ár­ang­ur í námi ræðst að miklu leyti af hæfni nem­enda í rök­hugs­un og hæfi­leik­um þeirra til að nýta bak­grunnsþekk­ingu sína til að skilja, ígrunda og túlka texta. Nem­end­ur þurfa að þekkja 98% orða í textum náms­gagna til þess að geta skilið og til­einkað sér inni­hald þeirra án aðstoðar. Fari þetta hlut­fall niður í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð til þess að skilja inni­haldið, til dæm­is með notk­un orðabóka eða hjálp frá kenn­ara eða sam­nem­end­um. Rann­sókn­ir benda ótví­rætt til þess að orðaforði og orðskiln­ing­ur ís­lenskra barna hafi minnkað veru­lega á und­an­förn­um árum og við því verðum við að bregðast. Þessu þurf­um við að breyta með því að bæta orðaforða, með þjálf­un í lestri, rit­un og með sam­töl­um.

Læsi í for­gang

Til að bæta orðaforða sinn og hug­taka­skiln­ing þurfa nem­end­ur að æfa sig í fjöl­breytt­um lestri. Sam­kvæmt breskri lestr­ar­rann­sókn skipt­ir ynd­is­lest­ur sköp­um þegar kem­ur að orðaforða barna, en orðaforði er grund­vall­arþátt­ur lesskiln­ings og þar með alls ann­ars náms. Rann­sókn­in leiddi í ljós að ef barn les í 15 mín­út­ur á dag alla grunn­skóla­göngu sína kemst það í tæri við 1,5 millj­ón­ir orða. Ef barnið les hins veg­ar í um 30 mín­út­ur á dag kemst það í tæri við 13,7 millj­ón­ir orða. Sá veldi­vöxt­ur gef­ur skýr­ar vís­bend­ing­ar um hversu mik­il­væg­ur ynd­is­lest­ur er fyr­ir ár­ang­ur nem­enda. En við les­um ekki lestr­ar­ins vegna held­ur af áhuga og því er brýnt að til sé fjöl­breytt les- og náms­efni sem höfðar til allra barna. Ég fagna auk­inni út­gáfu ís­lenskra barna- og ung­menna­bóka á þessu ári en töl­fræðin bend­ir til þess að titl­um hafi þar fjölgað um 47% frá í fyrra sem bend­ir þá til þess að yngri les­end­ur hafi meira val um spenn­andi les­efni. Ynd­is­lest­ur­inn skipt­ir máli en við þurf­um líka að auka orðaforðann til að nem­end­ur nái tök­um á fjöl­breytt­um og flókn­um setn­ing­um. Þessi orðaforði kem­ur meðal ann­ars úr frétt­um líðandi stund­ar, fræðslu­efni og söng­textum.

Starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda

Öflug um­gjörð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda er einn af lyk­ilþátt­um í að styrkja mennta­kerfið. Ný­lega skilaði sam­starfs­ráð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda skýrslu með til­lög­um um framtíðar­sýn í þeim efn­um. Starfsþróun fel­ur í sér form­legt nám og end­ur­mennt­un kenn­ara, nám­skeið, rann­sókn­ir á eig­in starfi, þátt­töku í þró­un­ar­verk­efn­um, ráðgjöf, ráðstefn­ur og heim­sókn­ir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að auk­inni starfs­ánægju kenn­ara og hef­ur já­kvæð áhrif á ár­ang­ur þeirra í starfi. Mik­ill ár­ang­ur hef­ur nást í Svíþjóð til að bæta færni nem­enda í lesskiln­ingi, stærðfræði og nátt­úru­vís­ind­um með sér­sniðnum nám­skeiðum sem auka þekk­ingu í viðkom­andi fagi. Við horf­um til þess að stór­efla starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda hér á landi með mark­viss­um hætti í sam­starfi meðal ann­ars við Kenn­ara­sam­band Íslands, kenn­ara­mennt­un­ar­stofn­an­ir, skóla­stjórn­end­ur og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga.

Fjölg­um ís­lensku­tím­um

Alþingi ályktaði í vor um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungu­málið verði áfram notað á öll­um sviðum ís­lensks sam­fé­lags. Meg­in­mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar eru þau að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Í álykt­un­inni eru til­tekn­ar 22 aðgerðir til að ná þess­um mark­miðum. Tíu aðgerðir tengj­ast mennta­kerf­inu með bein­um hætti, t.d. að efla skóla­bóka­söfn, bæta læsi og stuðla að já­kvæðri umræðu og fræðsla í sam­fé­lag­inu um fjöl­breyti­leika ís­lensk­unn­ar sem er sér­stak­lega mik­il­væg fyr­ir nýja mál­not­end­ur. Íslensk­an er skóla­málið okk­ar en í Svíþjóð eru 35% fleiri kennslu­stund­ir í móður­máli á miðstigi í grunn­skól­um en hér á landi. Það hef­ur staðið lengi til að fjölga ís­lensku­tím­um í viðmiðun­ar­stunda­skrá grunn­skól­anna og nú er tím­inn kjör­inn til þess. Að auki verður lögð stór­auk­in áhersla á orðaforða í öll­um náms­grein­um til að bæta lesskiln­ing.

Mik­il­væg­asta starfið

Á síðasta ári hef­ur verið ráðist í fjöl­marg­ar aðgerðir til að byggja upp betri grunn fyr­ir mennta­kerfið okk­ar. Samþykkt voru ný lög um mennt­un, hæfni og ráðningu kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem auka rétt­indi kenn­ara þvert á skóla­stig. Í þess­um lög­um er einnig kveðið á um kenn­ar­aráð sem ég bind mikl­ar von­ir við. Þá höf­um við farið í ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir sem miða að því að fjölga kenn­ur­um, þær hafa meðal ann­ars skilað því að 43% aukn­ing varð í um­sókn­um um nám í grunn­skóla­kenn­ara­fræði í Há­skóla Íslands síðasta vor. Þess­um aðgerðum mun­um við halda áfram. Ný­lega bár­ust þær fregn­ir frá menntavís­inda­sviði HÍ að metþátt­taka sé í nám fyr­ir starf­andi kenn­ara í starfstengdri leiðsögn og kennsluráðgjöf.

Sam­vinna og sam­starf

Við þurf­um sam­taka­mátt skóla­sam­fé­lags­ins, sveit­ar­fé­lag­anna og heim­il­anna og skýra sýn til þess að efla mennta­kerfið okk­ar. All­ir geta lært og all­ir skipta máli eru leiðarljós nýrr­ar mennta­stefnu en drög henn­ar verða kynnt á næstu miss­er­um. Með sam­hæfðum og mark­viss­um aðgerðum get­um við bætt ár­ang­ur allra nem­enda og í því til­liti mun­um við bæði reiða okk­ur á mennt­a­rann­sókn­ir og horfa til þeirra leiða sem skilað hafa best­um ár­angri í ná­granna­lönd­um okk­ar. Ljóst er að við þurf­um einnig að fara í sér­tæk­ar aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í skóla­kerf­inu, nem­enda í dreifðari byggðum og nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku. Við þurf­um að halda áfram að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar til þess að tryggja að Ísland sé í fremstu röð; um­bæt­ur taka tíma – ekki síst í mennta­mál­um en þar höf­um við allt að vinna því framtíðin er mótuð á hverj­um ein­asta degi í ís­lensk­um skóla­stof­um. Í næstu grein, Ísland í fremstu röð II, verður greint frá stofn­un fagráða, auk­inni áherslu á nátt­úru­vís­indi, efl­ingu mennt­a­rann­sókna og nán­ar fjallað um hvernig við efl­um tungu­málið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2019.

Categories
Fréttir

Þurfum að vinna saman úr afleiðingunum

Deila grein

13/12/2019

Þurfum að vinna saman úr afleiðingunum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, sagði í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag, að vart væri hægt að ræða annað en veður síðasta sólarhrings. Sagðist hún þakklát fyrir allt það fyrirbyggjandi starf sem kom í veg fyrir mikið tjón, „svo sem með góðum veðurspám, skýrum viðvörunum og viðbrögðum fólks á vettvangi, bæði viðbrögðum fólks sem sinnir sínum daglegu störfum við erfiðar aðstæður, sem vinnur við að halda innviðum samfélagsins gangandi frá degi til dags, sem starfar við að tryggja öryggi íbúa og allra þeirra sjálfboðaliða sem liðsinnt hafa öðrum þessa dagana. Allt þetta fólk á mikið hrós skilið.“

„Margra bíða líka ærin verkefni. Í kjölfar svona veðurs fylgja margar áskoranir, viðgerðir á rafmagnslínum, opnun vega, mokstur frá húsum, viðgerðir á vegum, viðgerðir á húsum og búnaði, að halda hita í húsum og ná upp hita, endurræsing á viðkvæmum tölvukerfum, snjalltækjum, heilu framleiðsluferlunum, róbótum, koma aftur rútínu á búfé og ná upp nyt í kúm.“
„Í framhaldinu þarf líka að meta tjón, greina hvað er tryggt og safna upplýsingum um hvort eitthvað af tjóninu fellur utan tryggingaverndar. Við sem búum á Íslandi þurfum að gera ráð fyrir að náttúruhamfarir geti haft áhrif á okkar daglega líf en við þurfum líka að nota tækifærið í framhaldinu af atburðum eins og þessum og stjórnvöld að skoða hvar við getum farið í enn frekari aðgerðir til að fyrirbyggja tjón. Stjórnvöld þurfa að greina hvar eitthvað fór úrskeiðis, meta möguleg viðbrögð og gera áætlun um styrkingu innviða, t.d. til að tryggja betri fjarskipti og dreifingu raforku.

Samstaðan áorkar miklu á meðan hamfarir ganga yfir en við þurfum líka öll að vinna saman úr afleiðingunum,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Menntun á Suðurnesjum

Deila grein

13/12/2019

Menntun á Suðurnesjum

„Í nýlegri PISA-könnun kemur fram að nemendur okkar eru duglegir og hafa trú á eigin getu til árangurs sem kemur sérstaklega fram í könnuninni. Stór hluti menntunar snýst um að efla trú nemenda á eigin getu. Þetta sjáum við skýrt hjá þeim sem útskrifast til að mynda af háskólabrú Keilis á Ásbrú en þar fá margir annað tækifæri til náms. Við útskriftir verður nemendum tíðrætt um hvernig menntun þeirra hafi aukið sjálfstraust þeirra og breytt viðhorfi þeirra til lífsins,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag.

„Herra forseti. Ég starfa dagsdaglega með frábærum kennurum á Suðurnesjum og get sagt að það eru forréttindi að vinna með svo duglegu fólki. Í grunnskólunum okkar fyrir sunnan er mjög hátt hlutfall barna af erlendu bergi brotið. Við þurfum að styðja við kennara í hvívetna og tryggja að vinnuumhverfi þeirra sé gott.“

„Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, er að vinna þrekvirki í málaflokknum og stendur sig frábærlega á þeirri vegferð. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður hefur lagt fram tillögu um stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum, studda af nær öllum þingmönnum kjördæmisins. Það má segja að hér leggist allir á eitt. Ég er bjartsýnn á að með samvinnu muni okkur takast að efla menntun á Suðurnesjum og hækka menntunarstig til frambúðar,“ sagði Jóhann Friðrik.

Categories
Fréttir

Skapa ekki störf á Húsavík og Hvammstanga

Deila grein

13/12/2019

Skapa ekki störf á Húsavík og Hvammstanga

„Tollvernd er íslenskri framleiðslu mikilvæg og er henni stuðningur til að standast samkeppni við innflutning frá löndum þar sem mikill stuðningur er jafnvel í öðru formi við slíka framleiðslu. Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða er misjöfn sem og hlutfallslegir yfirburðir. Ísland er ekki auðvelt til útiræktunar á grænmeti. Við höfum hreint vatn og hreina orku en framleiðsluferlið er nokkuð dýrt,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í fyrradag.

„Þá er ótalinn einn stærsti þátturinn sem er launakostnaður.“

„Íslensk stjórnvöld vilja hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum minnka kolefnissporið og því kaupum við innlenda framleiðslu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir vinna við matvælaframleiðslu hér á landi.
Það fólk borgar skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda framleiðslustarfsemi sína hér. Erlend fyrirtæki sem framleiða matvöru erlendis borga ekki þessa skatta hér á landi og þau skapa ekki störf fyrir fólkið á Húsavík og Hvammstanga,“ sagði Halla Signý.

Categories
Greinar

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Deila grein

12/12/2019

Æskan er ekki biðstofa fullorðinsáranna

Börn eru yf­ir­leitt ekki göm­ul þegar þau átta sig á að það er betra að vera stór en lít­il, eldri en yngri. Stærð og aldri fylgja völd og mögu­leik­inn til að hafa áhrif á eigið líf og sam­fé­lag. Orðræða end­ur­spegl­ar ráðandi viðhorf til sam­fé­lags­hópa og eru börn þar eng­in und­an­tekn­ing. Ófor­svar­an­leg hegðun full­orðinna er stund­um kölluð barna­leg. Það ligg­ur í aug­um uppi að til þess að hafa vægi í sam­fé­lag­inu, eins og það er upp­byggt í dag, skipt­ir máli að vera full­orðinn.

Ósjald­an heyr­um við því haldið fram, við hin ýmsu til­efni, að börn­in séu framtíðin. Fal­leg hugs­un ligg­ur þar ef­laust að baki og ætl­un­in að benda á mik­il­vægi þess að hlúa vel að heim­in­um til þess að geta af­hent hann börn­un­um þegar þau verða stór. Það sem marg­ir átta sig hins veg­ar ekki á er að með þess­um orðum erum við að segja að tími barn­anna komi seinna. Barnæsk­an er hins veg­ar ekki biðstofa full­orðins­ár­anna. Börn og ung­menni eiga að hafa rödd frá því að þau eru fær um að koma skoðunum sín­um á fram­færi og þeirra rödd á að fá svig­rúm og vægi.

Barna­sátt­mál­inn lof­orð til barna

Fyr­ir rúm­lega þrjá­tíu árum var börn­um heims­ins gefið lof­orð. Lof­orð um að standa skyldi vörð um rétt­indi þeirra og vel­ferð fram­ar öllu öðru. Lof­orðið, sem í dag­legu tali kall­ast Barna­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna, markaði mik­il tíma­mót í bar­átt­unni fyr­ir rétt­ind­um barna, en sátt­mál­inn fel­ur í sér alþjóðlega viður­kenn­ingu á því að börn séu sjálf­stæðir ein­stak­ling­ar með full­gild rétt­indi, óháð rétt­ind­um full­orðinna.

Sátt­mál­inn var full­gilt­ur af Alþingi árið 1992 og lög­fest­ur 2013. Þrátt fyr­ir að langt sé um liðið eru mörg af ákvæðum hans enn ekki orðin að veru­leika. Það telst til dæm­is enn til fyr­ir­mynd­ar og vek­ur at­hygli þegar börn­um er gefið tæki­færi til að tjá sig á op­in­ber­um vett­vangi. Það ætti hins veg­ar að vera orðið með öllu sjálfsagt enda eru, þegar öllu er á botn­inn hvolft, fá mál­efni sem ekki snerta líf þeirra með ein­hverj­um hætti.

Radd­ir barna fá aukið vægi

Víðtæk end­ur­skoðun stend­ur nú yfir á allri þjón­ustu við börn á Íslandi að mínu frum­kvæði. Við stönd­um á kross­göt­um og höf­um alla burði til að búa til ein­hverja fram­sækn­ustu um­gjörð í heimi þegar kem­ur að því að hlusta á radd­ir barna og upp­fylla rétt­indi þeirra. Auk­inn skiln­ing­ur er að verða á því að radd­ir barna og Barna­sátt­mál­inn sé átta­vit­inn sem eigi að liggja til grund­vall­ar öll­um ákvörðunum og stefnu­mót­un sem varða líf yngri kyn­slóðar­inn­ar. Því til staðfest­ing­ar má nefna að rík­is­stjórn­in samþykkti fyrr á þessi ári til­lögu mína um að all­ar stór­ar ákv­arðanir sem og laga­frum­vörp sem varða börn skuli rýnd út frá áhrif­um á stöðu og rétt­indi þeirra.

Þessi hugs­un ligg­ur til grund­vall­ar allri minni vinnu í embætti fé­lags- og barna­málaráðherra. Ekki síst í fyrr­nefndi end­ur­skoðun og samþætt­ingu á þjón­ustu við börn sem nú fer fram und­ir for­ystu fé­lags­málaráðuneyt­is­ins þvert á önn­ur ráðuneyti. Hugs­un­in end­ur­spegl­ast einnig í stuðningi ráðuneyt­is­ins við ný­af­staðið Barnaþing umboðsmanns barna og ný­und­ir­rituðum sam­starfs­samn­ingi fé­lags­málaráðuneyt­is­ins við UNICEF um mark­visst sam­starf við inn­leiðingu sveit­ar­fé­laga á Barna­sátt­mál­an­um. Mun það fara fram und­ir for­merkj­um Barn­vænna sveit­ar­fé­laga og er stefnt að því að að minnsta kosti 30 pró­sent sveit­ar­fé­laga á Íslandi hafi fengið viður­kenn­ingu sem barn­væn sveit­ar­fé­lög við árs­lok 2021.

Hluti af dag­legu lífi

Til að tryggja raun­veru­lega barn­vænt sam­fé­lag þurfa börn að njóta þeirra rétt­inda sem Barna­sátt­mál­inn kveður á um í sínu nærum­hverfi á degi hverj­um. Þess vegna þarf inn­leiðing hans ekki síst að fara fram hjá sveit­ar­fé­lög­um en þangað sækja börn að stærst­um hluta þá þjón­ustu sem þau þurfa á að halda. Inn­leiðing Barna­sátt­mál­ans þýðir að for­send­ur hans gangi sem rauður þráður gegn­um starf­semi sveit­ar­fé­lags­ins á öll­um stig­um. Barna­sátt­mál­inn verði þannig ekki leng­ur fal­leg kór­óna sem sett er upp á hátíðis­dög­um held­ur hluti af dag­legu lífi, alla daga og alls staðar.

Ég legg áherslu á að hér er ekki aðeins um að ræða fal­leg orð og fög­ur fyr­ir­heit. Að baki þess­um breyt­ing­um liggja bein­hörð vís­indi en æ fleiri rann­sókn­ir sýna að vel­ferð barna skipt­ir sköp­um þegar kem­ur að því að byggja upp heil­brigt og gott sam­fé­lag til skemmri og lengri tíma. Lengi býr að fyrstu gerð og ein besta fjár­fest­ing sem sam­fé­lög geta ráðist í er að hlúa vel að börn­um.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2019.

Categories
Fréttir

Munum bregðast við hratt og örugglega!

Deila grein

12/12/2019

Munum bregðast við hratt og örugglega!

Sigurður Ingi Jóhannssonsamgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í dag að ríkisstjórnin muni ræða atburði síðustu daga á fundi sínum á morgun föstudag. Sigurður Ingi minnir á hvað maðurinn eigi sér lítils gagnvart náttúruöflunum. Óveðrið sem gekk yfir landið dró fram veikleika í kerfum okkar sem verði að bregðast við hratt og örugglega.
„Við verðum að fara vel yfir þann viðbúnað sem þarf að vera fyrir hendi, bæði hvað varðar raforkukerfið, þjónustulið Vegagerðarinnar og öryggi fjarskiptakerfisins. Það er hagsmunamál landsins alls en ekki síður stórkostlegt lífsgæðamál fyrir íbúa byggðanna,“ segir Sigurður Ingi.
„Ég mun sem byggðamálaráðherra leggja alla áherslu á að allir íbúar landsins búi við öryggi.“

Categories
Greinar

Endurreisn vegakerfisins

Deila grein

12/12/2019

Endurreisn vegakerfisins

Þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum er gríðarmikil. Vegagerðin áætlar að nauðsynlegt sé að fara í um 200 verkefni næstu 25 árin og eru þær framkvæmdir alls metnar á yfir 400 milljarða króna. Í síðustu viku lagði ég fram á Alþingi uppfærða samgönguáætlun. Í henni eru framlög aukin um fjóra milljarða á ári næstu fimm árin og framkvæmdum, sem í heild eru metnar á 214 milljarða króna, er flýtt.

Til að ná enn meiri árangri er gert ráð fyrir að sértækar framkvæmdir verði fjármagnaðar sem samvinnuverkefni, sbr. Hvalfjarðargangamódel. Slík verkefni mynda sterkan hvata til nýsköpunar sem getur lækkað kostnað og stytt framkvæmdatíma. Þau eru þjóðhagslega arðbær. Sex verkefni hafa verið talin fýsileg í þeim efnum og eru til umfjöllunar í sérstöku frumvarpi um samvinnuverkefni (PPP), þ.m.t. ný Ölfusárbrú (2022) og nýr vegur um Öxi (2021).

Ný samgönguáætlun boðar byltingu í uppbyggingu og viðhaldi miðað við síðustu ár. Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að að lágmarki 120 milljarðar fari til vegaframkvæmda, eða um þriðjungur þess sem þarf til nauðsynlegra framkvæmda. Loksins verður hægt að endurreisa vegakerfið og tryggja viðunandi viðhald svo tryggja megi örugga og greiða umferð með áherslu á tengingu á milli byggða. Viðhald á vegum verður aukið í takt við meiri umferð og lagt verður bundið slitlag á 400-450 km á tengivegi. Gaman er að segja frá því að Vatnsnesvegur er nú loksins kominn á áætlun eftir umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.

Í lok tímabils samgönguáætlunar verða umferðarmestu vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu komnir með aðskildar akstursstefnur. Það gildir um Vesturlandsveg fram hjá Borgarnesi, á Suðurlandsvegi að Hellu og á Reykjanesbraut að flugstöðinni. Unnið er að því að finna leiðir til að flýta framkvæmdum við Reykjanesbraut enn frekar, einum umferðarmesta þjóðvegi landsins. Þar eru óleyst skipulagsmál við Straumsvík en Vegagerðin telur að framkvæmdir þar fari í útboð í lok árs 2022. Þá verður jarðgöngum á Austurlandi flýtt og næstu skref að Sundabraut kynnt fljótlega.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. desember 2019.

Categories
Fréttir

Grafalvarleg staða víða um land

Deila grein

11/12/2019

Grafalvarleg staða víða um land

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir grafalvarlega stöðu víða um land, rafmagnsleysi, fjarskiptaleysi, illfærð á vegum og veðurhæð mikil. Það bætti ekki úr skák að það sé óvenjuleg veðurhæð, mikil ofankoma og hitastigið hefur unnið allt saman með að gera ástandið alvarlega, sérstaklega fyrir flutningslínu rafmagns. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Í Skagafirði hefur verið rafmagnslaust í sólarhring. Skagfirðingar hafa barist fyrir styrkingu flutningsleiða sem myndi jafnvel mæta þessum vanda að nokkur leiti.
„Rafmagnslaust hefur verið á Sauðárkróki og víðar í sólarhring. Keyrt hefur verið á varaafli alveg síðan þá. „Auðvitað hefur þetta truflað björgunarstörf en þetta hefur ekki truflað þau þannig að þetta hafi hamlað okkur að stóru leyti, ekki enn. Viðbragðsaðilar hér hafa getað verið í sambandi sín í milli en samskiptin út hafa ekki verið með þeim hætti sem þau eiga að vera.“

Categories
Fréttir

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

Deila grein

11/12/2019

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn

„Þann 10. desember ár hvert er degi mannréttinda fagnað um allan heim. Dagsetningin miðast við það þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var með mannréttindayfirlýsingu 10. desember 1948 og er þar á ferð fyrsta alþjóðlega skýringin á mannréttindum í heiminum, sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í störfum þingsins í gær.
„Mannréttindi eru grundvallaratriði sem allir einstaklingar hafa óháð þjóðerni, búsetu, kyni, tungumálum, litarhætti, trúarbrögðum, kynhneigð, kynvitund eða annarri stöðu. Mannréttindi hafa verið skilgreind í alþjóðasamningum, svæðisbundnum samningnum og í landsrétti flestra ríkja. Þau fela í sér alþjóðlega samþykktar kröfur til ríkja um að vernda mannhelgi borgara sinna.“

„Sem fyrr skorar Ísland hátt á flestum alþjóðlegum samanburðarlistum yfir stöðu mannréttinda en það þýðir ekki að slá slöku við því að sífellt má gera betur á því sviði. Mannréttindi eru ekki fullkomin hér frekar en nokkurs staðar annars staðar. Við eigum að halda umræðu um þau á lofti, velta upp spurningum um hvar megi gera betur, hvar megi draga lærdóm, hvert hlutverk okkar sem smáþjóðar á alþjóðavettvangi sé o.s.frv.
Virðingarleysi fyrir mannréttindum hefur leitt af sér djúpstæðan vanda sem erfitt er að kljást við, t.d. í þróunarríkjunum, og nefni ég sérstaklega fátækt, misskiptingu auðs og spillingu. Virðing fyrir mannréttindum er forsenda þess að hægt sé að færa hlutina til betri vegar til frambúðar.“

„Ég vek því athygli á viðburðum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Mannréttindaskrifstofu Íslands sem fram fóru í morgun í tilefni dagsins þar sem m.a. þessum málefnum var velt upp. Kjörtímabili Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fer senn að ljúka og munum að á vettvangi þess getum við sem lítið ríki haft mikil áhrif,“ sagði Halla Signý.