Categories
Greinar

Atvinnusköpun er númer 1, 2 og 3

Deila grein

04/05/2020

Atvinnusköpun er númer 1, 2 og 3

Stærsta verk­efni ís­lensks sam­fé­lags í dag er að skapa störf. Íslenskt sam­fé­lag hef­ur alla burði til að sækja fram. Mennt­un­arstig er hátt og sam­fé­lagið er auðugt af hug­viti og auðlind­um. Við verðum að nýta allt sem við eig­um og leggja grunn­inn að nýj­um verðmæt­um framtíðar­inn­ar. Mark­mið stjórn­valda eru skýr: að skapa störf og verja störf. Fernt er mik­il­vægt í þeirri bar­áttu. Fjár­fest­ing, einka­neysla, sam­neysla og hreinn út­flutn­ing­ur.Stjórn­völd eru að stór­auka all­ar fjár­fest­ing­ar bæði í innviðum og hug­viti. Þetta er gert með því að flýta fram­kvæmd­um og ráðast í nýj­ar fram­kvæmd­ir. Þegar hef­ur verið kynnt að op­in­ber­ar fjár­fest­ing­ar verði yfir sögu­legu meðaltali. Fjár­fest verður fyr­ir tugi millj­arða til að vinna á móti sam­drætti. Að auki er fjár­fest í mennt­un, menn­ingu og ný­sköp­un til að skapa störf til framtíðar. Hér ætl­um við okk­ur stóra hluti.

Einka­neysla hef­ur verið að drag­ast sam­an í sam­komu­bann­inu. Nauðsyn­legt er að örva einka­neyslu til að búa til ný störf og verja þau. Öll þau viðskipti sem við eig­um eru til þess fall­in að auka einka­neyslu. Þess vegna hafa stjórn­völd ákveðið að taka hönd­um sam­an við at­vinnu­lífið um að verja störf og auka verðmæta­sköp­un með sér­stöku kynn­ingar­átaki sem ber heitið: Íslenskt – gjörið svo vel. Þetta er já­kvætt skref og hvet­ur okk­ur áfram í að búa til verðmæti.

Stjórn­völd eru af öllu sínu afli að styðja við sam­neysl­una, meðal ann­ars með því að efla heil­brigðis- og mennta­kerf­in. Þessi grunn­kerfi okk­ar hafa staðist stærsta álags­próf sam­fé­laga í ver­öld­inni. Ann­ars veg­ar náðu heil­brigðis­yf­ir­völd utan um COVID-19 veiruna með eft­ir­tekt­ar­verðum ár­angri og hins veg­ar voru skól­arn­ir áfram opn­ir og huguðu að vel­ferð nem­enda sinna. Það er af­rek og við eig­um að nota okk­ur þann ár­ang­ur til að styrkja sam­fé­lagið okk­ar.

Greiðslu­jöfnuður þjóðarbúa þarf alltaf að vera sjálf­bær, þ.e. að út- og inn­flutn­ing­ur þurfa að vera í jafn­vægi. Útflutn­ings­tekj­ur ís­lenska þjóðarbús­ins hafa vaxið mikið síðustu ár, sem hef­ur skilað okk­ur fá­dæma góðri hreinni er­lendri stöðu og mikl­um gjald­eyr­is­forða. Þessi hag­fellda staða hef­ur orðið til meðal ann­ars vegna vaxt­ar ferðaþjón­ust­unn­ar, sem hef­ur búið til um helm­ing allra nýrra starfa síðasta ára­tug. Nú reyn­ir á að við hugs­um út fyr­ir kass­ann og búum til út­flutn­ings­verðmæti. Ferðaþjón­ust­an get­ur fengið vind­inn í segl­in ef við nýt­um okk­ur þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur í sótt­vörn­um og tengj­um sam­an vís­ind­in og at­vinnu­lífið. Þar eru tæki­færi. Einn merki­leg­asti for­seti Banda­ríkj­anna, Frank­lin D. Roosevelt, sagði í Krepp­unni miklu: „Það eina sem er að ótt­ast er ótt­inn sjálf­ur.“ Hlust­um á þessa hvatn­ingu og mun­um að gæf­an er und­ir okk­ur kom­in!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2020.

Categories
Greinar

Tíminn til að lesa meira

Deila grein

30/04/2020

Tíminn til að lesa meira

Bók­mennta­arfur Ís­lendinga sprettur úr frjóum jarð­vegi ís­lenskrar sögu og menningar. Um aldir hafa Ís­lendingar haft ríka þörf fyrir að segja, lesa og hlusta á sögur. Þá þörf höfum við enn, líkt og blóm­leg bóka­út­gáfa og glæsi­leg stétt rit­höfunda er til marks um. Grunnurinn að þessari sagna­hefð var lagður fyrir nærri þúsund árum, þegar stór­menni á borð við Snorra Sturlu­son unnu stór­kost­leg menningar­af­rek með skrifum sínum. Bók­menning þjóðarinnar hefur haldið á­fram að þróast í gegnum tíðina og laga sig að breyttum heimi.

Á síðasta ári tóku gildi lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku. Við sjáum strax árangurinn af þessari lög­gjöf, þar sem met voru slegin í út­gáfu ís­lenskra skáld­verka og út­gefnum barna­bókum fjölgaði um 47% milli ára. Ís­lendingar standa því undir nafni, sem sagnaog bóka­þjóð. Það hefur sýnt sig í yfir­standandi sam­komu­banni, sem þjóðin hefur nýtt til að lesa sér til gagns og gamans. Margir hafa skráð lesturinn á vef á­taks­verk­efnisins Tími til að lesa, þar sem rúm­lega 8 milljónir lesmínútna hafa verið skráðar í apríl.

Á mið­nætti lýkur á­takinu og ég þakka öllum sem tóku þátt. Þátt­tak­endur í þessu þjóðar­á­taki eru á öllum aldri. Þannig hafa þeir lesið mest sem eru 60 ára og eldri, en fast á hæla þeim komu 10 til 12 ára börn sem hafa skráð rúm­lega milljón lesmínútur í mánuðinum.

Orða­forði og les­skilningur eykst með auknum lestri og því er ó­metan­legt fyrir börn að lesa, taka glósur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orða­forði barna skiptir miklu máli fyrir vel­líðan og árangur í skóla og býr þau undir virka þátt­töku í sam­fé­laginu. Með aukinni menntun eykst sam­keppnis­hæfni þjóðarinnar og geta hennar til að standa undir eigin vel­ferð. Það er lykil­at­riði að styrkja mennta­kerfið okkar til fram­tíðar. Með lestrinum ræktum við menningar­arfinn okkar og því meira sem við lesum, því betra! Til hamingju með árangurinn, kæra bóka­þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. apríl 2020.

Categories
Greinar

Vísindakapphlaupið 2020

Deila grein

27/04/2020

Vísindakapphlaupið 2020

Tækni­fram­far­ir og vís­inda­upp­götv­an­ir eru stærsta hreyfiafl sam­fé­laga. End­ur­bætt gufu­vél hins skoska James Watts lagði grunn­inn að vél­væðingu iðnbylt­ing­ar­inn­ar, upp­götv­un raf­magns­ins breytti meiru en orð fá lýst, upp­götv­un bakt­ería og löngu síðar sýkla­lyfja bylti lík­ast til meiru í mann­kyns­sög­unni en all­ar hefðbundn­ar bylt­ing­ar sam­an­lagt!

Enn og aft­ur horf­ir all­ur heim­ur­inn til vís­ind­anna. Nú er þess beðið að vís­inda­menn heims­ins upp­götvi vopn í bar­átt­unni við óvin okk­ar allra – kór­ónu­veiruna sem veld­ur COVID-19. Vís­indakapp­hlaupið 2020 er þó ólíkt mörg­um öðrum í sög­unni því for­dæma­laus samstaða og sam­hug­ur er í vís­inda­sam­fé­lag­inu, sem stund­um hef­ur ein­kennst af inn­byrðis sam­keppni. Sann­ar­lega er sam­keppn­in enn til staðar en al­mennt eru vís­inda­menn að deila upp­lýs­ing­um með öðrum í þeirri von að manns­líf­um og hag­kerf­um heims­ins verði bjargað.

Við erum öll í sama liðinu

COVID-19 er stærsta áskor­un­in sem þjóðir heims hafa staðið frammi fyr­ir í lang­an tíma. Með áhrif­um á heilsu fólks hef­ur óvær­an gríðarleg­ar efna­hagsaf­leiðing­ar. Veir­an hef­ur veikt öll stærstu hag­kerfi heims og það mun taka lang­an tíma fyr­ir þau að ná heilsu á ný. Það leiðir til tekjutaps ein­stak­linga og rík­is­sjóða um all­an heim, sem get­ur haft mikl­ar af­leiðing­ar á vel­ferð þjóða. Það sést greini­lega á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum, sem þessa dag­ana sveifl­ast með vís­inda­frétt­um. Þeir taka við sér þegar góðar vís­inda­frétt­ir ber­ast, en falla þegar von­ir bresta. Hluta­bréf á alþjóðamörkuðum féllu til að mynda eft­ir að til­raun­ir með bólu­efni gegn COVID-19 báru ekki ár­ang­ur. Það bend­ir allt til þess, að líf manna muni ekki kom­ast í eðli­legt horf fyrr en bólu­efni hef­ur verið fundið.

Þessa stund­ina vinna yfir átta­tíu hóp­ar vís­inda­manna og fimmtán lyfja- og líf­tækn­iris­ar að þróun bólu­efn­is. Í þeirra hópi eru vafa­laust marg­ir sem vilja verða fyrst­ir – sjá for­dæma­laus viðskipta­tæki­færi og frama í slík­um ár­angri – en áður­nefnt vís­inda­sam­starf verður von­andi til þess að heil­brigði þjóða verður sett í fyrsta sæti þegar rann­sókn­ar­vinn­an skil­ar ár­angri. Það skipt­ir á end­an­um ekki máli hvaðan meðalið kem­ur, held­ur hvernig það verður notað. Í því sam­hengi er ástæða til bjart­sýni, því alþjóðleg sam­vinna hef­ur áður skilað heim­in­um bólu­efn­um gegn hræðileg­um sjúk­dóm­um; barna­veiki, stíf­krampa og milt­is­brandi svo dæmi séu nefnd.

Ísland legg­ur sitt af mörk­um

Í bar­átt­unni við hinn sam­eig­in­lega óvin hef­ur Ísland vakið nokkra at­hygli um­heims­ins. Aðferðafræðin hef­ur þótt til eft­ir­breytni og ár­ang­ur­inn með ágæt­um, en einnig það merka fram­tak Decode Genetics að bjóða Íslend­ing­um upp á skimun fyr­ir veirunni, fyrstri þjóða. Hátt í 50 þúsund sýni hafa verið tek­in hér á landi. Afrakst­ur­inn nýt­ist heim­in­um öll­um, þar sem ótal af­brigði veirunn­ar hafa fund­ist. Það fram­lag Kára Stef­áns­son­ar og sam­starfs­fólks hans allra er ómet­an­legt í þróun bólu­efn­is­ins sem ver­öld­in bíður eft­ir.

Á sama tíma hafa aðrir rann­sókn­ar- og vís­inda­menn hér­lend­is unnið þrek­virki. Svo dæmi séu nefnd kynntu vís­inda­menn fljótt spálík­an um lík­lega þróun sem gæti nýst við ákv­arðana­töku um viðbrögð og skipu­lag heil­brigðisþjón­ustu. Á ör­stutt­um tíma höfðu sér­fræðing­ar Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar og sam­starfs­fólk hjá Land­læknisembætt­inu og Land­spít­ala sent vís­inda­grein í New Eng­land Journal of Medic­ine um út­breiðslu veirunn­ar á Íslandi. Nú síðast til­kynntu vís­inda­menn í Há­skóla Íslands að þeir hefðu hug á að rann­saka áhrif far­ald­urs­ins á líðan og lífs­gæði lands­manna til þess að geta brugðist bet­ur við sam­fé­lags­leg­um áhrif­um á borð við heims­far­ald­ur. Heil­brigðis­starfs­menn og al­manna­varn­ir hafa staðið vakt­ina með vilj­ann að vopni og smitrakn­ing­ar­t­eym­inu tek­ist að rekja flest smit sem hafa komið upp hér á landi. Þetta er sann­an­lega ár­ang­ur sem Íslend­ing­ar geta verið stolt­ir af.

Vís­ind­in efla alla dáð

Eins og oft áður komst ljóðskáldið og vís­indamaður­inn Jón­as Hall­gríms­son vel að orði þegar hann orti til heiðurs vís­inda­mann­in­um Pål Gaim­ard í Kaup­manna­höfn:

Vís­ind­in efla alla dáð, ork­una styrkja, vilj­ann hvessa,

von­ina glæða, hug­ann hressa,

far­sæld­um vefja lýð og láð;

tí­fald­ar þakk­ir því ber færa

þeim sem að guðdómseld­inn skæra

vakið og glætt og verndað fá

visk­unn­ar helga fjalli á.

Jón­as var brautryðjandi á sviði nátt­úru­vís­inda og helgaði líf sitt skrif­um um þau. Hann vissi það að rann­sókn­ir, vís­indi og hag­nýt­ing hug­vits væru for­send­ur fjöl­breytts at­vinnu­lífs, vel­ferðar og styrkr­ar sam­keppn­is­stöðu þjóða. Eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag í gegn­um tíðina er mik­il virkni í alþjóðasam­starfi enda er fjölþjóðlegt sam­starf ís­lensk­um rann­sókn­um nauðsyn­legt. Það er því hlut­verk okk­ar sem störf­um á þess­um vett­vangi, hvort sem það er við stefnu­mót­un um vís­inda­mál eða fram­kvæmd rann­sókna, að virkja og efla þekk­ingu al­menn­ings á vís­inda­starfi og hvetja til öfl­ugra alþjóðasam­starfs.

Á þess­um tíma­punkti tekst heim­ur­inn á við heims­far­ald­ur. Þjóðir heims­ins taka hönd­um sam­an og leiða sam­an þekk­ingu og rann­sókn­ir. Ísland gef­ur ekk­ert eft­ir og mun von­andi verða leiðandi afl í alþjóðasam­starfi framtíðar­inn­ar. Far­ald­ur­inn er í mik­illi rýrn­un hér á landi en þó er ekki hægt að hrósa sigri enda bar­átt­unni ekki lokið. Það hef­ur þó sýnt sig á síðustu mánuðum að alþjóðlegt vís­inda­sam­starf greiðir leiðina að bjart­ari framtíð. Það býður bæði upp á þá von að lausn finn­ist á nú­ver­andi krísu, ásamt því að byggja upp sam­starfs­vilja milli ríkja um að sam­ein­ast í átt að betri og ör­ugg­ari framtíð.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. apríl 2020.

Categories
Greinar

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Deila grein

23/04/2020

Íslensk matvæli, gjörið svo vel

Í öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar Viðspyrna fyr­ir Ísland er lögð mik­il áhersla á inn­lenda fram­leiðslu og verðmæta­sköp­un. Ný­sköp­un er þar í önd­vegi enda lengi verið ljóst að skjóta verður fleiri stoðum und­ir ís­lensk­an efna­hag. Síðustu vik­urn­ar hef­ur helsta umræðuefni fólks um heim all­an verið heilsa og heil­brigði. Fólk ótt­ast þenn­an vá­gest sem kór­ónu­veir­an er og legg­ur mikið á sig til að kom­ast hjá smiti. Veik­ind­in leggj­ast misþungt á fólk og hef­ur ekki verið út­skýrt að fullu hvað veld­ur þeim mun. Hins veg­ar er ljóst að sum­ir hóp­ar eru veik­ari fyr­ir en aðrir og hef­ur til dæm­is í Banda­ríkj­un­um verið bent á að þeir sem stríða við lífs­stíls­sjúk­dóma geta orðið sér­stak­lega illa fyr­ir barðinu á Covid-19. Þegar heils­an er okk­ur svo of­ar­lega í huga er ekki laust við að maður þakki fyr­ir þá öf­undsverðu stöðu sem við Íslend­ing­ar erum í varðandi mat­væla­fram­leiðslu, hvort held­ur það er land­búnaður eða sjáv­ar­út­veg­ur. Rúmt ár er nú frá því við í Fram­sókn héld­um fjöl­menn­an fund þar sem Lance Price, pró­fess­or við Washingt­on-há­skóla, hélt fyr­ir­lest­ur um þá ógn sem mann­kyn­inu staf­ar af sýkla­lyfja­ónæm­um bakt­erí­um. Á sama fundi hélt er­indi Karl G. Krist­ins­son, helsti sér­fræðing­ur okk­ar í sýkla­fræði, og sjá­um við hon­um bregða fyr­ir á skján­um um þess­ar mund­ir í tengsl­um við heims­far­ald­ur­inn sem nú herj­ar á okk­ur. Fund­inn héld­um við til að vekja fólk til vit­und­ar um að sér­fræðing­ar telja að árið 2050 muni tíu millj­ón­ir manna deyja í heim­in­um af völd­um sýkla­lyfja­ónæm­is og ekki vild­um við síður benda á þau verðmæti sem fel­ast í ís­lensk­um land­búnaði sem er ásamt Nor­egi með minnsta notk­un sýkla­lyfja í land­búnaði í heim­in­um. Mat­væla­fram­leiðsla er gríðarlega mik­il­væg­ur þátt­ur í ís­lenska hag­kerf­inu og sann­kallaður lýðheilsu­fjár­sjóður. Rík­is­stjórn­in ákvað í fyrra að Ísland yrði fyrsta landið í heim­in­um til að banna sölu og dreif­ingu á mat­vöru, kjöti, fiski og græn­meti, sem inni­held­ur sýkla­lyfja­ónæm­ar bakt­erí­ur. Þannig vernd­um við heilsu Íslend­inga og und­ir­strik­um þau miklu gæði sem ein­kenna ís­lenska mat­væla­fram­leiðslu. Hluti af öðrum aðgerðapakka rík­is­stjórn­ar­inn­ar er auk­inn stuðning­ur við græn­met­is­bænd­ur, bæði beinn og einnig með end­ur­greiðslu kostnaðar vegna dreif­ing­ar og flutn­ings raf­orku bænda. Þar er stigið gríðarlega mik­il­vægt skref til að efla grein­ina og munu ís­lensk­ir neyt­end­ur njóta þess þegar fram­leiðsla á ís­lensku græn­meti eykst. Von­andi stend­ur versl­un­in með þjóðinni og ís­lensk­um mat­væla­fram­leiðend­um og gef­ur ís­lensku græn­meti heiðurssess. Það er bjarg­föst trú mín að það séu gríðarleg tæki­færi fram und­an fyr­ir ís­lensk­an land­búnað og ís­lensk­an sjáv­ar­út­veg. Því ef fólk er al­mennt orðið meðvitaðra um heils­una hugs­ar það meira um hvað það læt­ur ofan í sig. Ég segi því að lok­um: Íslenskt, gjörið svo vel.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2020. 

Categories
Greinar

Samvinna afurðastöðva

Deila grein

22/04/2020

Samvinna afurðastöðva

Á undanförnum árum hafa afurðastöðvar í kjöti mátt þola gríðarmiklar breytingar í sínu samkeppnisumhverfi. Þar sem innflutningur á kjöti hefur aukist verulega frá löndum þar sem aðstæður til framleiðslu eru mun hagfelldari út frá mörgum sjónarhornum, t.d. aðbúnaði dýra, launakostnaði og veðurfari. Einnig er slátrun og vinnsla í mörgum þessara landa mun hagkvæmari vegna stærðarhagkvæmni og lægri launakostnaðar svo eitthvað sé nefnt. Þetta gerir það að verkum að íslenskar kjötafurðastöðvar hafa glímt við erfiðan rekstur undanfarin ár.

Þessi fyrirtæki skapa fjölmörg störf, flest á landsbyggðinni, og eru mikilvægur hlekkur í innlendri framleiðslu matvæla sem enn og aftur sannar sig nú á hinum erfiðu tímum Covid-19. Vegna þessa erfiðu aðstæðna í rekstri hafa afurðastöðvar meðal annars ekki getað hækkað verð til bænda í takt við það sem eðlilegt væri og heldur ekki náð að endurnýja og fjárfesta í rekstri sínum eins og ákjósanlegt væri.

Breytingar á búvörulögum

Það er augljóst að ef gæta á sanngirni í þessum heimi þarf að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva á Íslandi. Ef vel ætti að vera þyrfti að horfa til sambærilegs fyrirkomulags og viðhaft er í mjólkuriðnaðinum. Þar sem afurðastöðvar hafa leyfi til þess að hafa með sér ákveðið samstarf og verkaskiptingu á markaði. Með því mætti sjá mikla hagræðingu á ýmsum sviðum í þessum rekstri sem myndi skapa fyrirtækjunum betri rekstur og rými skapast til að borga bændum hærra verð fyrir sínar afurðir. Hefur undirritaður lagt fram á Alþingi frumvarp þess efnis að breytingar verði gerðar í þá átt sem reifað hefur verið í grein þessari á búvörulögum á síðasta haustþingi með það að markmiði að efla innlenda framleiðslu og tryggja afkoma bænda og þar með fæðuöryggi þjóðarinnar. Í krísum sem þessari sannast hið fornkveðna að hollur er heimafenginn baggi. Íslendingar munu eins og aðrar þjóðir þurfa að leggja mikla áherslu á það á næstu árum að efla og tryggja sína matvælaframleiðslu. Við Íslendingar eigum að vera stoltir af okkar matvælaframleiðslu og standa vörð um hana sem aldrei fyrr.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 22. apríl 2020.

Categories
Greinar

Leiðin til öflugra Íslands

Deila grein

21/04/2020

Leiðin til öflugra Íslands

Ríkisstjórnin kynnti í dag annan hluta Viðspyrnu fyrir Ísland í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Heldur þannig áfram vinna stjórnvalda til að bregðast við þeim mikla vanda sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur skapað um allan heim. Eins og í fyrri pakka þá eru aðgerðirnar þrískiptar: Varnir, vernd og viðspyrna.

Aðgerðirnar eru fjölbreyttar. Varnirnar felast í því að veita þeim fyrirtækjum styrki sem hefur verið gert að hætta tímabundið starfsemi vegna sóttvarna, fyrirtækjum verða veitt lán með ríkisábyrgð til að standa straum af föstum rekstrarkostnaði og fyrirtækjum verður gert kleift að jafna saman tapi ársins 2020 og hagnaðar ársins 2019. Allt er þetta mikilvægt til að veita aðstoð lífvænlegum fyrirtækjum sem mikilvæg eru í viðspyrnunni.

Verndarhlutinn felur í sér áherslu á að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að vinna sig í gegnum vandann og koma eftir fremsta megni í veg fyrir óafturkræf félagsleg vandamál sem fylgja áföllum eins og þeim sem við göngum nú í gegnum. Stutt verður duglega við námsmenn, bæði með því að bjóða upp á sumarnám og 3000 sumarstörf, sexföldun Nýsköpunarsjóðs námsmanna auk þess sem námsmönnum verður auðveldað að fá atvinnuleysisbætur. Einnig er háum fjárhæðum varið til þess að auka virkni atvinnulausra og gefa þeim kost á námi samhliða bótum. Áætlað er að úrræðið nái til um 15 þúsund manns á árinu. Fjarheilbrigðisþjónusta verður efld sem styrkir mjög aðgang fólks um allt land að þjónustu heilbrigðiskerfisins. Þá er 600 milljónum veitt til sveitarfélaga til að styðja við 12 þúsund börn á tekjulægri heimilum til að stunda íþrótta- og frístundastarf.

Nú er ekki síst þörf á því að horfa til framtíðar. Nauðsyn er að styrkja enn stoðir íslensks atvinnulífs með mikilli áherslu á nýsköpun. Framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verður aukin 2,5 milljarða króna auk þess sem umgjörð fjármögnunar sprota- og nýsköpunarfyrirtækja verður styrkt með sérstakri áherslu á grænar tæknilausnir.

Ég hef áður bent á mikilvægi þess að hlúð verði að íslenskri matvælaframleiðslu. Þar er ekki aðeins um fjárhagslegt mál að ræða heldur er augljóst að lýðheilsusjónarmið eru þar mikilvæg. Þau skref sem eru stigin í þeim aðgerðum sem kynntar voru í dag eru mikilvæg og felast í nýjum Matvælasjóði þar sem hálfum milljarði verður bætt við það fjármagn sem áður fór í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Þá fagna ég því að nýr samningur við garðyrkjubændur feli í sér aukningu um 200 milljónir auk þess að fjármagn verður aukið til endurgreiðslu flutnings- og dreifingarkostnaðar á rafmagni.

Leiðin framundan er grýtt en eftir því sem tíminn líður sjáum við smátt og smátt landslagið breytast fyrir framan okkur, göturnar verða greiðfærari og bjartara yfir. Við verðum að halda hópinn og styðja hvert annað á leiðinni. Þá fer allt vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2020.

Categories
Greinar

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

Deila grein

21/04/2020

Við eigum og ætlum að standa með fjölskyldum

COVID-19 faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á okkur öll og fram undan eru miklar áskoranir fyrir íslenskt samfélag. Heilu atvinnugreinarnar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyrirtækja hefur orðið fyrir eða mun verða fyrir miklum og jafnvel óyfirstíganlegum vanda.

Um leið og faraldurinn ágerðist var brugðist við með markvissum aðgerðum. Ég lagði strax um miðjan mars fram frumvarp um hlutaatvinnuleysisbætur sem gerði atvinnurekendum kleift að minnka starfshlutfall niður í allt að 25% og Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi atvinnuleysisbætur á móti. Markmiðið með þessu var að viðhalda ráðningarsambandi fólks við vinnuveitendur sína og tryggja öfluga viðspyrnu þegar þessu tímabundna óveðri slotaði. Verkefnið fram undan er að taka ákvörðun um hvort og með hvaða hætti lögin um hlutaatvinnuleysisbætur verði framlengd. Ég held að öllum sé ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjölda­atvinnuleysi muni dragast á langinn. Í öllum þeim skrefum sem við tökum er það fyrst og fremst skylda okkar að tryggja stöðu heimilanna og framfærslu fjölskyldna í landinu við þessar krefjandi aðstæður.

Nú er ríkisstjórnin að vinna að nýjum aðgerðapakka sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á viðkvæma hópa í okkar samfélagi. Við ætlum að setja fókusinn á börnin og beina sjónum sérstaklega að því að styðja við foreldra í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna umönnunar á langveiku eða fötluðu barni. Við munum einnig kynna fjölþættar aðgerðir sem miða að því að auka stuðning við viðkvæma hópa en munum einnig halda áfram markvissum aðgerðum gegn heimilisofbeldi, en reynslan sýnir að það eykst í því ástandi sem er nú.

Við verðum alltaf að hafa hugfast að fólkið og fjölskyldur landsins eru dýrmætasta eign samfélagsins og þess vegna ætlum við áfram að vinna að aðgerðum til að bæta stöðu viðkvæmra hópa næstu vikur og mánuði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. apríl 2020.

Categories
Greinar

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Deila grein

20/04/2020

Skylda okkar að standa með fólki og fjölskyldum

Þær sótt­varn­araðgerðir sem nauðsyn­legt hef­ur verið að ráðast í vegna COVID-19 hafa haft mjög mik­il áhrif á vinnu­markaðinn. Heilu at­vinnu­grein­arn­ar eru lamaðar og ljóst er að fjöldi fyr­ir­tækja hef­ur eða mun lenda í mikl­um og jafn­vel óyf­ir­stíg­an­leg­um vanda.Við höf­um síðustu vik­ur unnið út frá því að um tíma­bundið ástand væri að ræða, eng­ar tekj­ur yrðu af ferðaþjón­ustu í skamm­an tíma en síðan færi að rofa til. Sem ráðherra vinnu­markaðsmá­la lagði ég höfuðáherslu á að bregðast hratt við og koma strax fram með frum­varp um hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur þar sem hægt væri að minnka starfs­hlut­fall niður í allt að 25% og At­vinnu­leys­is­trygg­inga­sjóður greiddi at­vinnu­leys­is­bæt­ur á móti. Með þessu mynd­um við tryggja að ráðning­ar­sam­bandi fólks og fyr­ir­tækja yrði viðhaldið gegn­um þetta tíma­bundna óveður. Mark­miðið var að verja störf og fram­færslu fólks.

Nú eru um 33.000 ein­stak­ling­ar skráðir á um­rædd­ar hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur og jafn­framt eru 15.000 ein­stak­ling­ar að fullu skráðir án at­vinnu. Staðan er því sú að um 25% af öll­um sem eru á vinnu­markaði eru skráð að fullu eða að hluta á at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Þetta hef­ur í för með sér að út­greidd­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur munu lík­lega nálg­ast allt að 100 millj­arða á þessu ári og er það um 70 millj­örðum hærra en ráðgert var.

Hluta­at­vinnu­leys­is­bæt­ur höfðu skýrt mark­mið

Framund­an er að taka ákvörðun um hvaða úrræði taka við fyr­ir starfs­menn sem hafa verið á hluta­at­vinnu­leys­is­bót­um. Við þurf­um m.a. að leggja mat á hvort telja megi að það tíma­bundna ástand sem við vor­um að brúa með hluta­at­vinnu­leys­is­bót­un­um sé í raun að verða var­an­legt og ef svo er með hvaða hætti sé hægt að hlúa sem best að fólki og búa til ný störf.Í öll­um skref­um sem stig­in eru þá er það fyrst og síðast skylda okk­ar að aðgerðir í þess­um mál­um tryggi stöðu fólks­ins í land­inu, fram­færslu fjöl­skyldna og heim­ila þeirra. Við verðum að hafa hug­fast, þótt óvin­sælt kunni að reyn­ast, að stjórn­völd geta ekki bjargað öll­um fyr­ir­tækj­um gegn­um skafl­inn með fjár­fram­lög­um úr sam­eig­in­leg­um sjóðum lands­manna. Með þessu er ekki verið að tala gegn aðgerðum til að aðstoða fyr­ir­tæki held­ur verið að minna á þá staðreynd að ekki sé hægt að vænta stuðnings af hendi hins op­in­bera um­fram það sem tal­ist get­ur mik­il­vægt út frá al­manna­hags­mun­um.

Við eig­um sókn­ar­færi sem nú þarf að nýta

Stór­aukið at­vinnu­leysi kall­ar jafn­framt á að við stíg­um stærri skref í að nýta vannýtt sókn­ar­færi til efl­ing­ar á inn­lendri fram­leiðslu og auk­inni verðmæta­sköp­un í ís­lensku hag­kerfi. Þarna má t.d. nefna aðgerðir sem þarf að ráðast í til að efla land­búnað, einkum græn­met­is­rækt, auka mögu­leika ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, styrkja sókn­ar­færi í hug­vitsiðnaði o.fl. Oft og tíðum þarf ein­fald­ar kerf­is­breyt­ing­ar og/​eða fjár­veit­ing­ar til að hægt sé að sækja fram á þess­um sviðum og þær eig­um við að fram­kvæma núna.Við ætl­um ekki og mun­um ekki sem sam­fé­lag sætta okk­ur við at­vinnu­leysi líkt og það sem er nú um stund­ir. Und­ir ligg­ur öll sam­fé­lags­upp­bygg­ing okk­ar og vel­ferð þjóðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. apríl 2020.

Categories
Greinar

Norðurlöndin þjappa sér saman

Deila grein

17/04/2020

Norðurlöndin þjappa sér saman

Við væntum þess öll, og vonum innilega, að bráðlega verði hið versta yfirstaðið í Covid-faraldrinum. Vissulega er brekkan brött, við stöndum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta byrjað að létta af takmörkunum, eftir þrjár vikur, ef allt gengur að óskum. Allir eru að gera sitt besta. Við horfum á hvað þessi veira gerir því að hún er óvissuþátturinn. Og hvað gerir hún nú?

Mun hún leggjast í dvala eða koma upp aftur og aftur? Við vitum það ekki. Nú þegar smitum fer fækkandi þá þurfum við að huga hratt að því hvernig við getum komið Íslandi aftur í gang. Þess vegna þurfum við að vera viðbúin öllu og erum að vinna að efnahagsaðgerðum nr. 2.

Norðurlöndin hafa hvert um sig farið sínar leiðir í viðbrögðum en á flestan hátt erum við á sömu braut. Öll byggja Norðurlöndin aðgerðir í sóttvörnum á besta mati fagfólks og stefna Norðurlandanna til að styðja við fjölskyldur og atvinnulíf hefur verið fumlaus og skýr.

Norðurlöndin hafa líka átt náið samráð sín á milli. Þar búum við Íslendingar að því að hafa þar til um síðustu áramót verið í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni þar sem ég leyfi mér að fullyrða að okkur hafi tekist að blása lífi og krafti í norrænt samstarf með áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Norræna samstarfið heldur nú áfram en við gjörbreyttar aðstæður.

Eitt af því mikilvægasta framundan er að opna landamæri og koma samgöngum aftur í samt lag. Vöruflutningar hafa sem betur fer haldið áfram, öfugt við fólksflutninga. Ferðaþjónustan hefur nánast stöðvast. Við ætlum okkur að koma þessari grundvallaratvinnugrein aftur af stað og það mun krefjast útsjónarsemi og úthalds.

Margt bendir til þess að veröldin muni opnast í skrefum. Þá kann það að gerast að nærsvæðin – í okkar tilviki Norðurlöndin og vestnorræna svæðið – opnist fyrst. Kannski verður þróunin sú að ferðalög og viðskipti milli Norðurlandanna muni aukast umtalsvert á næstum misserum, því á milli okkar ríkir traust og samstaða. Þar skiptir samstarfið við Norðurlöndin miklu máli.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda.

Categories
Greinar

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Deila grein

16/04/2020

Íslenskur landbúnaður í breyttum heimi

Við lifum á einkennilegum tímum. Við sótthreinsum á okkur hendur og setjum á okkur hanska þegar við förum í kjörbúðina og ekki er ólíklegt að við rekumst á fólk með andlitsgrímur í verslunum og á förnum vegi. Við erum flest, ef ekki öll, orðin meðvitaðri um hvað við snertum, hvort heldur það er hurðarhúnar eða andlit okkar.

Okkur er ráðlagt af yfirvöldum að heilsa ekki með handabandi, kossum eða faðmlögum. Fyrir nokkrum vikum hefðum við litið á slíkt ástand sem kafla úr vísindaskáldsögu, jafnvel hryllingssögu. Þessi fjandans veira hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar og mun eflaust hafa það um ókomna tíð.

Vísindi og lýðheilsa

Eitt af því sem ég tel að þessar einkennilegu vikur muni hafa áhrif á er viðhorf til matvæla. Norrænir fréttamiðlar hafa á síðustu dögum fjallað um að sýklalyfjaónæmi gæti verið einn þeirra þátta sem hafi áhrif á alvarlegar afleiðingar Covid-19. Ekki er nema rúmt ár síðan Framsókn stóð fyrir fjölsóttum fundi um sýklalyfjaónæmi þar sem amerískur prófessor, Lance Price, lofaði íslenska matvælaframleiðslu fyrir ábyrgð og framsýni hvað varðar notkun sýklalyfja í framleiðslu sinni. Á þessum fundi var einnig framsögumaður Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir, sem hefur verið einn helsti baráttumaðurinn í því að vekja athygli á þeim ógnum sem fylgja óheftri notkun sýklalyfja í landbúnaði. Við sjáum honum bregða fyrir í fréttum þessa dagana þar sem hann berst við kórónuveiruna ásamt frábæru íslensku heilbrigðisstarfsfólki.

Það var á grunni vísinda og lýðheilsu sem Framsókn barðist fyrir því að íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna sölu og dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þar stigum við mikilvægt skref sem á síðustu vikum sýnir mikilvægi sitt enn frekar.

Hráa kjötið

Innflutningur á hráu kjöti til landsins hefur verið mikið hitamál enda mikið undir fyrir bændur en þó einn meira fyrir íslenska neytendur sem eru vanir því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að það sem þeir kaupa í verslunum, hvort heldur það er í kjötborði eða grænmetisdeild, sé ekki örugg fæða. Ástæðan fyrir því að opna varð á innflutning er sú að árið 2004 gerðu íslensk stjórnvöld ekki kröfu um bann við innflutning á hráu kjöti, heldur aðeins lifandi dýrum og erfðaefni. Það er þó ljóst að atburðir síðustu vikna hljóta að breyta stöðunni. Þjóðir Evrópu hafa tekið ákvarðanir sem eflaust eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif á samvinnuna innan Evrópu. Þar sannast hið fornkveðna: Það er ekkert til sem heitir vinátta þjóða, aðeins hagsmunir.

Sáttmáli um fæðuöryggi

Velta má því fyrir sér hvort komið sé að gerð sáttmála milli matvælaframleiðenda, neytenda,  verslunarinnar og ríkisvaldsins þar sem fæðuöryggi þjóðarinnar yrði tryggt. Sáttmála um að umhverfi matvælaframleiðslunnar verði tryggt. Þjóðin treystir á innlendan mat, það sannast núna á þessum erfiðu tímum. Við verðum sem þjóð, sér í lagi vegna landfræðilegrar staðsetningar okkar að tryggja það að matvælaframleiðsla standi sterkum fótum og víkka út þá geira sem fyrir eru á jötunni. Þá liggur fyrst og beinast við að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku. Um það hefur verið rætt og á ég von á að það verði hægt innan skamms.

Ábyrg framleiðsla

Hætt er við því að sú efnahagsdýfa sem hafin er og tímabundin fækkun ferðamanna á Íslandi mun hafa einhver áhrif á íslenska bændur og allt það fólk sem starfar í matvælageiranum. Framtíðin er þó björt sé rétt haldið á spilum. Sá grunnur sem íslenskur landbúnaður stendur á með sinni hreinu matvælaframleiðslu er lýðheilsulegur fjársjóður fyrir íslensku þjóðina. Vörur úr þeim jarðvegi geta einnig orðið eftirsóttar fyrir íbúa annarra þjóða nú þegar allir gera sér grein fyrir því hvað óábyrg framleiðsla og óábyrg meðhöndlun matvæla getur haft alvarleg áhrif á heilsu og hag fólks um allan heim.

Ég efast ekki eina mínútu um að við komumst í gegnum þetta ef við stöndum saman. Við mætum þessum vanda af yfirvegun og æðruleysi eins og stórhríðunum sem við þekkjum vel. Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 15. apríl 2020.