Categories
Greinar

Hagræðing og „ekki“ hagræðing Landsbankans

Deila grein

27/07/2015

Hagræðing og „ekki“ hagræðing Landsbankans

ásmundurÁform Landsbankans, banka allra landsmanna, að byggja nýjar höfuðstöðvar á einni dýrustu lóð landsins hefur verið gagnrýnd af fjölmörgum aðilum. Landsbankinn er í almenningseigu og það er á ábyrgð okkar allra að hann fari vel með almannafé.

Landsbankinn ber við miklu fjárhagslegu hagræði af þessari framkvæmd. Þrátt fyrir að ég hafi efasemdir um skynsemi þess að færa alla starfsemi bankans á einn stað þá skulum við gefa okkur að af þessu hljótist umrætt hagræði.

Ef bankinn væri einungis að hugsa þetta út frá hagræðingu væri ekki skynsamlegra að leita að ódýrara húsnæði á ódýrari lóð? Í umræðu um málið hefur verið bent á hagkvæmari kosti, gefum okkur að bankinn gæti komist af með höfuðstöðvar sem kosti hann 2 milljarða í stað þeirra 8 milljarða sem áætlanir gera ráð fyrir. Hvað væri hægt að gera fyrir þá fjármuni?

Dugar til að reka eitt útibú í 100-150 ár!

Á undanförnum árum höfum við fylgst með því hvernig Landsbankinn hefur jafnt og þétt verið að fækka útibúum einmitt í nafni hagræðingar. Á árinu 2012 var t.d. með einni aðgerð ákveðið að loka nokkrum útibúum og áætlaður meðalsparnaður samkvæmt fréttum frá bankanum var 50 milljónir á hvert útibú.

Ef Landsbankinn færi hagkvæmari leið varðandi nýjar höfuðstöðvar þá hefði verið hægt að halda opnu einhverju af þeim fjölmörgu útibúum sem bankinn lokaði í nafni hagræðingar í 100-150 ár. Var verið að skerða þjónustu vítt og breitt um landið til að safna fyrir útborgun í nýjar höfuðstöðvar á dýrustu lóð landsins? Er nema von að margir spyrji sig hvort menn séu algerlega úr sambandi við raunveruleikann?

Stjórnendur bankans hafa heldur dregið í land varðandi fyrirhugaða uppbyggingu og það er vel. En verði ráðist í þessa framkvæmd þá er það hrein og klár ögrun við almenning, enda bankinn eigna okkar allra eftir að ríkið endurreisti hann við hrun efnahagskerfisins.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á blog.pressan.is/asmundurd/ 27. júlí 2015.

Categories
Greinar

ESB er engin elsku mamma

Deila grein

26/07/2015

ESB er engin elsku mamma

frosti_SRGBÞegar Grikkir tóku upp evru árið 2001 hafði þar um nokkurra ára skeið ríkt sæmilegt jafnvægi í efnahags- og peningamálum, en áður hafði Grikkland iðulega þurft að glíma við verðbólgu og hátt vaxtastig. Aðild Grikklands að myntbandalaginu var því álitin mikilvægur áfangi í því að tryggja efnahagslegan stöðugleika landsins til framtíðar og skapa ný tækifæri. Forsætisráðherrann á þeim tíma dró upp þá líkingu að upptaka evru myndi færa Grikkland nær hjarta Evrópu.

Kannski hafa ekki margir séð fyrir að upptaka evru myndi leiða til ofþenslu gríska hagkerfisins, efnahagshruns og margra ára kreppu. En vart hefur nokkur Grikki getað séð fyrir þá gríðarlegu hörku sem aðildarríkin, með Þýskaland í broddi fylkingar, voru tilbúin að sýna Grikklandi í efnahagserfiðleikum þess. Í stað samstöðu og samhjálpar hafa vinaþjóðirnar látið Grikki sæta afarkostum og þvingunaraðgerðum. Jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðnum virðist nóg um hörkuna.

Það eru engin fordæmi fyrir því að peningakerfi ríkis sé nánast tekið úr sambandi í þeim tilgangi að þvinga landsmenn til að ganga að afarkostum. Nú er ljóst að slík þvingunaraðgerð er ekki bara fræðilegur möguleiki heldur sá kaldi veruleiki sem Evrópusambandið hefur boðið Grikklandi. Ef grísk stjórnvöld hefðu ekki fallist á þá afarkosti sem ESB bauð þeim blasti við algert hrun hagkerfisins. Þannig hefur Evrópusambandið fengið sínu framgengt en harkan sem Grikkir voru beittir mun væntanlega seint gleymast.

Eftir þriggja vikna lokun grískra banka voru þeir opnaðir aftur síðastliðinn mánudag. Ekki má þó taka út meira en 60 evrur á dag og auk þess er lokað á millifærslur milli landa. Forseti samtaka grískra banka hvetur sparifjáreigendur til að leggja peninga sína í banka og fullyrðir að óhætt sé að treysta bönkunum. Geta Grikkir treyst því? Árið 2010 hvatti þáverandi fjármálaráðherra Grikklands almenning til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum sem voru svo færð niður um 53% tveimur árum síðar. Grískir bankar eru rúnir trausti eftir þriggja vikna lokun og hverfandi líkur á að almenningur muni treysta bönkum fyrir sparifé sínu á næstunni. Fjármagnsflóttinn úr grískum bönkum mun því líklega halda áfram og kalla á frekari neyðaraðgerðir í náinni framtíð. Spurningin er hvaða skilyrði muni fylgja þeirri fyrirgreiðslu.

Þurfa að taka upp sjálfstæða mynt

Þótt grískir bankar séu ekki í ríkiseigu hefur seðlabanki evrusvæðisins neitað að leggja þeim til lausafé án ríkisábyrgðar. Skuldir einkabanka hafa þannig færst yfir á ríkissjóð og þá sem greiða skatta. Lánin til grísku bankanna hafa runnið til þess að gera upp við stóra erlenda kröfuhafa, aðallega evrópska banka. Eignafólk hefur líka getað forðað sínu fé úr grískum bönkum en almennt launafólk situr eftir með skuldugri ríkissjóð og þyngri skattbyrði. Erfitt er að sjá hvernig Grikkland á að komast upp úr kreppunni án verulegrar lækkunar skulda og upptöku sjálfstæðrar myntar.

Þegar ESB stillti Varufakis og Tzipras upp við vegg kom í ljós að þeir höfðu í raun ekkert „Plan B“ í raun. Haft er eftir Varufakis að þeir hafi ekki gert ráð fyrir að ESB myndi beita aðildarríki slíkri hörku. Hagfræðingar hafa bent á að ef Grikkland hefði átt tilbúna áætlun um upptöku drökmu hefði samningsstaða þess verið allt önnur og sterkari. Upptaka sjálfstæðrar myntar hefði með gengisfellingu leitt til lækkunar á stórum hluta skulda, samkeppnishæfni Grikklands hefði orðið gríðarsterk, hagvöxtur hefði tekið við sér, ekki síst ferðaþjónusta, atvinna hefði aukist og skattstofnar ríkisins tekið við sér. Fjárfestar hefðu séð tækifæri í Grikklandi og fjármagn byrjað að flæða til landsins að nýju. Myntbandalag Evrópusambandsins hefði hins vegar ekki mátt við slíku fordæmi enda gætu þá fleiri aðildarríki farið að íhuga útgöngu úr myntbandalaginu sem lausn á sínum efnahagsvanda.

Reiða sig á gæsku

Án sjálfstæðs gjaldmiðils getur Grikkland ekki komið hjólum atvinnulífsins í gang af sjálfsdáðum. Grikkland mun því áfram þurfa að reiða sig á gæsku Evrópusambandsins og efnahagsaðstoð sem nú er ljóst að ekki fæst nema gegn ströngum skilyrðum. Síðan ESB hóf „björgunaraðgerðir“ í Grikklandi árið 2010 hefur hagkerfi þess dregist saman um 25%. Laun hafa lækkað um 20% og atvinnuleysi aukist úr 10% í 25%. Ríkisskuldir, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, hafa aukist úr 113% í 170%. Heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi Grikklands eru í rúst. Fjármagns- og atgervisflótti er viðvarandi. Fjórðungur grunnskólabarna er vannærður vegna fátæktar. Sjúkir og aldraðir deyja vegna þess að lyf eru ekki til. Enn sér ekki fyrir endann á vanda Grikklands og lengi gæti vont versnað. Spurst hefur að tugþúsundir Breta hafi afbókað Grikklandsferðir sínar á meðan bankar voru lokaðir og þýskir ferðamenn óttist nú að þeir séu ekki lengur velkomnir í Grikklandi. Verði stjórnmálaástandið talið ótryggt í Grikklandi gæti ferðageirinn hrunið með skelfilegum afleiðingum.

Saga Grikklands sýnir hve mikilvægt það getur verið að eiga sjálfstæðan gjaldmiðil þegar á móti blæs. Þjóðir geta lent í efnahagsáföllum af ólíkum ástæðum, en dæmin sýna að hagkerfi sem byggja á sjálfstæðum gjaldmiðli eru margfalt fljótari að ná sér aftur á strik. Það er líka ljóst að vísasta leið þjóðar til að glata efnahagslegu sjálfstæði sínu er að færa erlendum aðila valdið til að skapa gjaldmiðilinn.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í DV 25. júlí 2015.

Categories
Fréttir

Stóru málin í íslensku efnahagslífi

Deila grein

15/07/2015

Stóru málin í íslensku efnahagslífi

VilllumWillum Þór Þórsson, alþingismaður, velti upp hugleiðingum um „stóru málin í íslensku efnahagslífi“ á Alþingi á dögunum. Minnti hann á að í aðdraganda kjarasamninga hafi verið horft til hugmyndafræði þjóðarsáttarsamninganna, þríhliða samstarfi aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins.
Willum Þór sagði svo: „Nú hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar komið að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði með myndarlegum hætti með aðgerðapakka í 11 liðum þar sem sérstaklega var hugað að þeim tekjulægstu og millitekjuhópum. Breytingar á tekjuskatti fela í sér heildarlækkun upp á 16 milljarða sem munu hækka ráðstöfunartekjur allra launþega og mun hækkun ráðstöfunartekna ná til 65% launamanna sem dæmi og hækka ráðstöfunartekjur þeirra um 50–100 þús. kr. á ári. Þá mun ríkisstjórnin í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins stuðla að hraðri uppbyggingu á húsnæðismarkaði og átaki í húsnæðismálum til handa tekjulægri fjölskyldum.“
Er það mat Willum Þórs að ríkisstjórnin hafi svarað kalli þjóðarsáttar í kjarasamningum með myndarlegum hætti. „Á sama tíma hefur ríkisstjórnin nú boðað áætlun um afnám hafta sem er í senn trúverðug og söguleg, svo vel útfærð og vönduð, svo umfangsmikið verkefni að hún verður kennslubókarefni framtíðarinnar svo vitnað sé í Lee Buchheit.“
„Aðilar vinnumarkaðarins, forseti ASÍ og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telja áætlunina létta á íslensku atvinnulífi og treysta forsendur stöðugleika og þannig til þess fallin að styrkja nýgerða kjarasamninga. Það er ljóst, virðulegi forseti, að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar stendur við stóru orð,“ sagði Willum Þór að lokum.

Categories
Greinar

Er kaupmönnum treystandi?

Deila grein

10/07/2015

Er kaupmönnum treystandi?

Þorsteinn-sæmundssonFramkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sendi mér kveðju í útvarpsþætti á föstudaginn fyrir viku. Kann ég honum maklegar þakkir fyrir. Í kveðjunni fann framkvæmdastjórinn að því að undirritaður hvatti almenning nýlega úr ræðustól Alþingis til að sniðganga fyrirtæki sem gengið hafa á undan með hækkun á vöruverði í kjölfar kjarasamninga.

Nú er það svo að sá sem hér ritar er kjörinn á þing af íslenskum almenningi og sækir þangað umboð sitt. Ef það er svívirðilegt eða populismi eða hvað það annað sem framkvæmdastjórinn bar mér á brýn í viðtalinu að gæta hagsmuna almennings, vinnuveitenda minna, skal ég glaður gangast við því að vera hvort tveggja svívirðilegur og populisti. Sá sem hér ritar hefur undanfarin tvö ár gagnrýnt íslenska verslun töluvert. Ég hef einnig tekið fram að ekki eru öll verslunarfyrirtæki undir sömu sök seld. Ég hef bent á að gengisstyrking krónu hefur ekki skilað sér í lægra vöruverði, niðurfellingar og/eða lækkaðar álögur skila sér seint, illa eða alls ekki.

Flest framangreint var staðfest í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Á undanförnum tveimur árum hef ég skorað á kaupmenn að bæta ráð sitt, beðið þá, brýnt þá en lítið gagnast. Lengi vel var því haldið fram að undirritaður færi með rangt mál, ef ekki beinlínis ósannindi um málefni verslunarinnar. Loks nú nýlega hikstaði framkvæmdastjóri SVÞ því upp í útvarpsþætti að víst væri eitthvað til í að gengisstyrking hefði ekki verið skilað að fullu vegna þess að verslunin væri að bæta sér upp meint tjón í hruninu fyrir sjö árum.

Ekki kom fram í máli framkvæmdastjórans þá hversu mikið meint tjón væri eða hversu lengi íslenskir neytendur ættu að greiða yfirverð þar til meint tjón verslunarinnar væri að fullu bætt. Í útvarpsviðtalinu á föstudaginn fyrir viku kvað hins vegar við annan tón. Þegar minnst var á að vörugjaldslækkun, sem tók gildi um sl. áramót, á sykri og sykruðum vörum skilaði sér seint og illa sagði framkvæmdastjórinn eitthvað á þá leið að á Íslandi væri frjáls álagning og að samkeppnin á markaði hér (sic) myndi sjá um að lækkanir skiluðu sér til neytenda. Verslanir sem gætu verðlagt sig hátt myndu einfaldlega gera það. Það er einmitt það.

Fyrirsvarsmenn íslenskrar verslunar kveinka sér undan alþjóðlegri samkeppni og telja tolla sem enn eru við lýði skekkja samanburð. Nú er einmitt tækifæri til að gaumgæfa hverju nýframkomnar breytingar á gjöldum hafa breytt í því efni. Það er verðugt verkefni verslunar, samtaka launafólks, neytendasamtaka og stjórnvalda. Þá verður máski möguleiki að varpa ljósi á verðmyndun á Íslandi að einhverju leyti. Þá mun koma í ljós hvort kaupmönnum er treystandi.

Þangað til hvet ég neytendur til að sniðganga þau fyrirtæki á lista Neytendasamtakanna sem hækka vöruverð þessa dagana og sem draga lappirnar í að skila lækkun vörugjalda og styrkingu krónu út í verðlagið.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí 2015.

Categories
Greinar

Sólskin í kortunum

Deila grein

09/07/2015

Sólskin í kortunum

Silja-Dogg-mynd01-vefÞað er gott að búa á Íslandi. Við getum búið hvar sem er, á stað þar sem veðrið er betra, þar sem vextir eru lægri, ávextir ódýrari og mannlífið fjölbreyttara. En við veljum að búa hér. Veðrið mætti reyndar vera betra.

Þakklætið er vanmetið

Vextir mættu eða ættu öllu heldur að vera lægri. Við þurfum virkilega að vinna að umbótum á húsnæðiskerfinu og það væri óskandi að neytendalán væru ekki verðtryggð. En við megum ekki gleyma að þakka fyrir það sem við höfum og það sem vel er gert því að þakklætið er vanmetið. Bjartsýnin ein og sér leysir þó ekki verkefnin. Við þurfum að vera einbeitt og samstiga við úrlausn þeirra.

Sóknin er hafin

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar setti á oddinn að komið yrði til móts við skuldsett heimili og lagði fram aðgerðaáætlun í tíu liðum sumarið 2013. Ein af þessum tíu aðgerðum var að leiðrétta stökkbreytt húsnæðislán heimilanna. Leiðréttingin var sanngjörn jafnræðisaðgerð sem þjóðin sjálf valdi að farið yrði í í kosningunum 2013.

Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.  Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg.

Aukinn jöfnuður

Þessa dagana reyna forystumenn nokkurra flokka að telja almenningi trú um að hér á landi ríki ójöfnuður og halda því fram að ójöfnuður hafi aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessar fullyrðingar forystumannanna eru rangar. Það rétta er að ójöfnuður hefur ekki aukist, hann hefur minnkað í stjórnartíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Einhver vill halda því fram að þeir tekjuhærri hafi lækkað í launum og því hafi jöfnuður í samfélaginu aukist. En það er ekki raunin. Þeir sem hafa lágar tekjur og millitekjur, hafa hækkað í launum og þeir sem hærri hafa tekjurnar hafa staðið í stað. Þessar upplýsingar eru settar fram á greinargóðan hátt á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofan.is). Þær koma fram í frétt sem birtist þann 5. júní sl. undir yfirskriftinni „Dreifing tekna jafnari en áður“. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar kemur einnig fram að Ísland er nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Höfum þessar staðreyndir í huga.

Vinna, vöxtur, velferð

Að þessu sögðu þá held ég að flestir geti verið að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Hún er augljóslega á réttri leið. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.

Eitt og eitt þungbúið ský sveimar þó enn yfir höfðum okkar. Breytingar á húsnæðiskerfinu eru til dæmis orðnar mjög aðkallandi. Markmið okkar er að tryggja möguleika allra á að búa við öryggi og tryggja jafnræði í aðgangi að íbúðalánum óháð búsetu. Því miður tókst ekki að klára þau frumvörp sem unnið hefur verið að í velferðarráðuneytinu síðustu tvö árin en ég geri ráð fyrir að frumvörpin og afrakstur þeirra birtist okkur strax á haustdögum. Góðir hlutir gerast hægt, en viljinn er svo sannarlega fyrir hendi.

Annað verkefni sem er orðið mjög aðkallandi er afnám verðtryggingar. Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar á neytendalánum hefur skilað niðurstöðu í samræmi við stjórnarsáttmálann og ríkisstjórnin hefur samþykkt að unnin verði frumvörp á þeim grundvelli.

Hagvöxtur aldrei meiri

Frá því að ný ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við hefur hagvöxtur á Íslandi verið einn sá mesti í Evrópu. Ríkið er hætt að safna skuldum sem skapar tækifæri til frekari fjárfestinga í innviðum samfélagsins.

Verkefnin framundan eru fjölmörg. Við viljum gera gott betra. Bjartsýni og jákvæðni er undirstaða þess að okkur takist að skapa betra samfélag fyrir okkur öll.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 7. júlí 2015.

 

Categories
Fréttir

Alvöru alþjóðlegan flugvöll hinum megin á landinu?

Deila grein

06/07/2015

Alvöru alþjóðlegan flugvöll hinum megin á landinu?

PállPáll Jóhann Pálsson, alþingismaður,; „Virðulegi forseti. Nýlega skilaði Rögnunefndin margumrædda af sér áliti og segja má að ekki hafi slegið á umræðuna, heldur þvert á móti, um það hvort Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri eða einhvers staðar annars staðar. Það eru ákveðin vonbrigði að nefndin hafi ekki skoðað þá kosti að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni og að innanlandsflugið yrði flutt til Keflavíkur. Ljóst er að borgaryfirvöld vilja ekki festa Reykjavíkurflugvöll til langrar framtíðar í Vatnsmýrinni og skipuleggja stóraukna byggð. Að sjálfsögðu þarf ekki að taka það fram að flugvöllur verður ekki færður, hann verður eyðilagður. Ég spyr: Höfum við efni á því að henda 20 milljörðum? Það er ekki gáfulegt að byggja nýjan flugvöll nær Keflavíkurflugvelli eða í Hvassahrauni, að fórna öðru byggingarlandi fyrir það byggingarland sem Reykjavíkurflugvöllur er á núna er ekki gáfulegt.
Keflavíkurflugvöllur er í raun sprunginn og ekki hefst undan að stækka flugstöðina. Ferðamannastaðir við suðvesturhornið eru sprungnir og samgöngukerfið í raun líka. Meira en helmingur af bolfisksvinnslunni er klukkutímakeyrslu frá Reykjavík.
Því spyr ég hvort ekki sé kominn tími til að byggja upp alvöru alþjóðlegan flugvöll hinum megin á landinu. Með því dreifum við ferðamannastraumnum um landið og hlífum þar með viðkvæmum náttúruperlum sem liggja undir skemmdum vegna áníðslu. Með því eflum við fiskvinnslu á landsbyggðinni þar sem landsbyggðin verður betur í stakk búin til að auka verðmæti sjávaraflans og byggja öfluga byggðakjarna víða um land.“

Categories
Fréttir

„Geri alvöru úr því að kjósa með fótunum“

Deila grein

06/07/2015

„Geri alvöru úr því að kjósa með fótunum“

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, fór yfir fréttir af verðhækknum hjá birgjum og smásölufyrirtækjum í störfum þingsins í síðustu viku.
„Undanfarið hefur borið allnokkuð á því að fréttir berast af verðhækkunum bæði hjá birgjum og smásölufyrirtækjum. Það er í sjálfu sér mikið umhugsunar- og rannsóknarefni þar sem helstu viðskiptamyntir eru nú sirka 3% veikari gagnvart krónu en var fyrir ári, þá á ég við evru og Norðurlandamyntirnar, í þeim sem næstliðin missiri hefur ekki verið skilað styrkingu krónu allt að 10–12%. Það virðist einnig koma fram að enn hafi verslunin ekki skilað að fullu þeim lækkunum á sykruðum vörum sem voru ákveðnar á Alþingi um síðustu áramót. Þetta virðist koma fram í verðkönnunum Neytendasamtakanna og ASÍ.
Nú ber svo við að í Morgunblaðinu í morgun segir deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:
„Hafi kaupmáttur ekki aukist í febrúar á næsta ári eru forsendur nýgerðra kjarasamninga brostnar.“
Þetta eru alvarleg tíðindi. Ég held að það hljóti að vera þannig að nú þurfi verslunarmenn að hugsa sig um og ég held líka að neytendur í þessu landi þurfi að hugsa sig um. Það vill þannig til sem betur fer að fólk er fúsara til þess en áður að láta skoðanir sínar í ljós. Það hefur ítrekað komið berlega í ljós fyrir utan þetta hús. Nú er kannski kominn tími til þess að íslenskir neytendur láti til sín heyra með svipuðum hætti og geri alvöru úr því að kjósa með fótunum og hunsa þau fyrirtæki sem lengst ganga í hækkunum nú um stundir.“

Categories
Greinar

Skítug orka og aflátsbréf ESB

Deila grein

04/07/2015

Skítug orka og aflátsbréf ESB

Vigdís HauksdóttirHér á landi er nánast öll raforka framleidd sem græn orka án aðkomu kjarnorkuvera og án kola- og olíubrennslu. Þetta skapar landinu gríðarlega sérstöðu á heimsvísu með áherslu á fullvinnslu vöru hér á landi úr grænni orku. Fyrirtæki með áherslu á umhverfisvernd eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir raforku í framleiðslu sína. Íslensk raforkuframleiðslufyrirtæki hafa selt grænar upprunaábyrgðir sínar til fyrirtækja á EES-svæðinu og fengið í staðinn upprunaábyrgðir sem merktar eru kjarnorku, olíu, kolum og gasi. Er það sett í þann búning að kaupandi upprunavottorðs sé að styðja við framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum og framleiðslu á grænni orku. Það er nokkuð ljóst að kaupandi upprunavottorðs að grænni orku gerir það til að blekkja og ljúga að kaupanda framleiðsluvörunnar.

Öll þessi blekking og sýndarveruleiki er búinn til af embættismannaelítunni í Brussel eins og loftslagsheimildirnar. Búin eru til »verðmæti« úr engu sem ganga síðan kaupum og sölum en engin eiginleg hlutkennd verðmæti eru á bak við, eins og t.d. í íslenska kvótakerfinu þar sem hlutkennd verðmæti á bak við veiðiheimildirnar eru fiskur sem fer á markað. Mikil pressa er bæði hjá Landsvirkjun og Bretum að færa raforku til Bretlands með sæstreng. Það er ljóst að það er ekki til að fá »græna orku« inn í breska raforkukerfið því þeir í raun gætu sparað sér kapalinn og látið duga að kaupa aflátsbréf. Það er því nokkuð ljóst að það er ekki að reyna að komast yfir hrávöru – orku í þessu tilfelli – og skapa virðisaukandi störf í Bretlandi.

Garðyrkjubændur hafa stigið fram og gagnrýnt þetta harðlega. Þeim er boðið að »kaupa« sig út úr kerfinu af raforkusölum. Er þetta tilboð dæmalaust ósvífið. Þannig eru raforkusalar hér á landi að neyða framleiðendur til að kaupa sig frá skítugum orkuaflátsbréfum til að geta vottað vöru sína græna. Í millitíðinni höfðu þessir aðilar selt grænar upprunaábyrgðir fyrir skítugar og ætla að græða í annað sinn og nú í gegnum íslensk fyrirtæki.

Fyrir ekki svo löngu var mikill innflutningur á þorski frá Rússlandi. Sá fiskur seldist á lægra verði en sá íslenski. Ef sama fyrirkomulag hefði verið í þeim viðskiptum og Evrópubandalagið er með varðandi upprunavottorð á rafmagni þá hefðu íslenskar fiskvinnslur keypt vottorð um að fiskurinn væri ekki rússneskur og selt sem íslenskan til þess að blekkja kaupandann og fá þannig hærra verð. ESB hefur sektað íslensk fyrirtæki fyrir rangar upprunamerkingar á fiski en býr síðan til reglur um brask með uppruna rafmagns. Að falsa upprunavottorð á hráefni er hættulegt og algjörlega óásættanlegt og getur skaðað orðspor okkar til langrar framtíðar. Ég treysti því að iðnaðarráðherra gangi í málið og vindi ofan af þessari vitleysu og ég geri kröfu á íslensk orkufyrirtæki sem nýta okkar dýrmætu auðlindir, og við höfum falið þeim nýtingu á til orkuframleiðslu, að þau gjaldfelli ekki okkar dýrmætustu vöru – íslenska græna orku.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2015.

Categories
Greinar

Virkar skuldaleiðréttingin? – Já, hún virkar sannarlega!

Deila grein

03/07/2015

Virkar skuldaleiðréttingin? – Já, hún virkar sannarlega!

Þorsteinn-sæmundssonNýútkomin skýrsla fjármálaráðherra um skuldaleiðréttinguna staðfestir svo ekki verður um villst að markmið skuldaleiðréttingar ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafa náðst fullkomlega. Ef skýrslan er borin saman við kynningu leiðréttingarinnar á sínum tíma kemur í ljós hversu vel undirbúin framkvæmd leiðréttingarinnar var.

Eins og allir vita nam heildarumfang leiðréttingarinnar 150 milljörðum króna, 80 milljarðar í beina leiðréttingu og um 70 milljarðar með nýtingu séreignarsparnaðar. Dreifing hinnar beinu leiðréttingar, 80 milljarðanna, var í samræmi við væntingar því markmiðið var að leiðrétta útgjöld heimila sem urðu vegna verðbólgu umfram markmið Seðlabankans á tilgreindum tíma. Langstærstur hluti leiðréttingarinnar kom í hlut lág- og millitekjuhópa, s.s. heimila sem samanstanda af tveimur ASÍ-félögum, tveimur BSRB-félögum eða tveimur BHM-félögum. Meirihluti leiðréttingarinnar kom í hlut heimila sem skulduðu meira en helming í íbúðarhúsnæði sínu.
Markmið leiðréttingarinnar um réttlæti og sanngirni rættust því að fullu.

Þegar almenn aðgerð af þessari stærðargráðu er framkvæmd fer ekki hjá því að lítill hluti fellur í skaut hópum sem ekki þurfa aðstoðar við. Þannig hefur nokkuð farið fyrir því í fjölmiðlum að 1.250 heimili sem greiddu auðlegðarskatt fengu 1,5 milljarða í leiðréttingu. Það þýðir að 55.800 heimili skiptu með sér rúmum 88 milljörðum. Auk þessa hafa 34 þúsund heimili nýtt sér séreignarsparnaðarleiðina. Þeir sem ekki trúðu á þessa leið og treystu sér ekki til að fara hana auk þeirra sem voru beinlínis á móti því að leiðrétta skuldir íslenskra heimila hafa farið mikinn gegn aðgerðinni og beitt hinum og þessum blekkingum í því skyni. Það er aftur á móti athugunarefni fyrir alla þá sem nutu leiðréttingarinnar að hluti stjórnmálamanna var á móti henni. Sumir þeirra sóttu reyndar um og gátu hugsað sér að njóta ávaxtanna.

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir þó ekki máli hvað einstakir andstæðingar leiðréttingarinnar hafa látið sér um munn fara. Niðurstaðan skiptir þær tugþúsundir heimila sem nutu leiðréttingarinnar mestu. Þið öll sem fenguð lækkun höfuðstóls, sem búið nú við lægri greiðslubyrði til langrar framtíðar, vitið best að skuldaleiðréttingin virkar. Okkur sem börðumst fyrir leiðréttingunni langa hríð og sáum hana verða að veruleika skiptir líka mestu hversu miklu hún hefur breytt fyrir svo marga.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. júlí 2015.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Deila grein

02/07/2015

Eldhúsdagur: Þórunn, Willum og Silja Dögg

Í gær fóru fram eldhúsdagsumræður, almennar stjórnmálaumræður, á Alþingi. Ræðumenn Framsóknarflokksins voru í fyrstu umferð Þórunn Egilsdóttir, 8. þm. Norðausturkjördæmis, Willum Þór Þórsson, 5. þm. Suðvesturkjördæmis, í annarri og Silja Dögg Gunnarsdóttir, 3. þm. Suðurkjördæmis, í þriðju umferð.
ÞórunnÞórunn Egilsdóttir:
„Ágætu Íslendingar. Það er grundvallaratriði að við Íslendingar viljum skapa aðstæður fyrir blómlega byggð um allt land. Til þess þarf að huga að mörgu, bæði umgjörð og innviðum. Samgöngur og aðgangur að þjónustu og netsambandi eru þar okkar mikilvægustu verkefni. Vinna er nú hafin við undirbúning ljósleiðaratengingar allra heimila á landinu og tekin hafa verið mikilvæg skref í átt að jöfnun húshitunarkostnaðar um allt land. Á næstu þremur árum verður 112 milljörðum varið í samgönguverkefni og strax í ár verður 1.800 milljónum varið til brýnna verkefna í vegagerð.
Þótt samgöngur séu vissulega mikilvægur þáttur í samfélaginu krefst nútíminn þess að fólk geti litið á það sem raunhæfan möguleika að starfa hvar sem er á landinu og verið í góðu fjarskiptasambandi. Það vitum við öll sem búum á landsbyggðinni að jafnrétti verður að nást í þessum málum. Það er mikilvægt fjölskyldunnar vegna, heimilanna, atvinnulífsins og þjóðarinnar allrar. Innviðir verða að vera traustir svo byggja megi áfram blómlega byggð um land allt, til sjávar og sveita.
Örugg netsamband skýtur stoðum undir það að skólar geti haft meiri samvinnu, fundir geti átt sér stað án kostnaðarsamra ferðalaga, bændur og aðrir atvinnurekendur geti sinnt vinnu sinni og skyldum. Nefna má ótal margt sem hangir á spýtunni, en hér vil ég líka nefna fjarheilbrigðisþjónustu, mál sem var til umfjöllunar á Alþingi í dag.“
VilllumWillum Þór Þórsson:
„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur efnahagslífsins og ríkisstjórnin setti heimilin í forgang. Skuldsett hagkerfi er þunglamalegt og því var lagt upp með að vinna sérstaklega á skuldum heimila og ríkissjóðs en leggja ávallt áherslu á efnahagslegan stöðugleika.
Við skulum nú meta árangurinn á grundvelli markmiða sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

  1. Koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hvers vegna? Ná niður skuldum ríkissjóðs, lækka vaxtagreiðslur og vinna að stöðugleika.
  2. Ná niður skuldum heimila. Til hvers? Til að auka ráðstöfunargetu þeirra.
  3. Aðgerðaáætlun til að losa um fjármagnshöftin. Til hvers? Freista þess að leysa viðkvæma stöðu þjóðarbúsins og þann greiðslujafnaðarvanda sem steðjar að okkur.

Hvert er stöðumatið nú þegar við metum þetta hér á hálfnuðu kjörtímabili, í hálfnuðum kappleik, og skoðum hvernig til hefur tekist?

Snúum okkur að lækkun skulda heimilanna. Það var sett í hefðbundið stefnumótunarferli þegar ríkisstjórnin tók hér við stjórnartaumunum. 18 mánuðum síðar hafa 57 þús. heimili fengið lækkun á höfuðstól húsnæðislána og 34 þús. einstaklingar sóttu um séreignarsparnaðarleiðina og geta ýmist nýtt þann sparnað án skattgreiðslu til niðurgreiðslu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána eða sparað til íbúðakaupa. Þau heimili sem ekki voru lengur með eftirstöðvar húsnæðislána en áttu rétt á lækkun fengu sérstakan persónuafslátt sem nýtist næstu fjögur árin. Saman virkuðu þessar tvær leiðir, skuldaniðurfellingin og séreignarsparnaðarleiðin, vel á efnahagslífið þar sem þær vega hvor aðra upp. Þegar ráðstöfunargeta heimilanna eykst virkar einkasparnaðurinn sem dempari á móti.
Skuldir heimilanna hafa því lækkað hratt, hraðar en í nágrannalöndum okkar, og eru nú til jafns við það sem þær voru árið 2004. Erum við að uppfylla þessi markmið? Já, kæru landsmenn. Það að ná tökum á ríkisfjármálunum og framkvæma skuldaleiðréttingu þegar á fyrri hluta kjörtímabilsins er sannarlega mælanlegur árangur, árangur í formi þess að uppfylla loforð og tengd markmið.“
Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir:
„Góðir Íslendingar. Óveðursskýin yfir landinu eru á hröðu undanhaldi. Það glittir víða í heiðan himin og sólargeislar eiga greiðari aðgang að landinu en áður. Aðgerðaáætlun um afnám hafta er einn af þessum sólargeislum. Almenn ánægja ríkið með áætlunina. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem kemur okkur öllum til góða.
Uppbygging heilbrigðiskerfisins er annað stórverkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á. Ríkisframlög til Landspítalans hafa aldrei verið hærri og árlegt fé til tækjakaupa á Landspítalanum hefur fimmfaldast frá árinu 2012. Framlög til annarra heilbrigðisstofnana hafa einnig verið aukin. Sóknin er hafin.
Endurskoðun á almannatryggingakerfinu stendur yfir og er komin langt á veg. Verðbólgan hefur verið lítil sem engin um langt skeið og kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt nýlegri skýrslu Velferðarvaktarinnar er Ísland nú með þriðja mesta jöfnuð í tekjuskiptingu og minnsta fátækt af þjóðum OECD. Höfum það í huga.
Kæru landsmenn. Þrátt fyrir allt pólitískt karp held ég að við getum öll verið sammála um að árangur ríkisstjórnarinnar er bara nokkuð góður þegar horft er á heildarmyndina. Þrátt fyrir ágætt ástand eigum við þó að sækja fram af enn meiri krafti til að skapa réttlátara samfélag og gera það án þess að veikja hvatann til að vinna og skapa ný verðmæti.“