Categories
Greinar

Þín aðstoð við að móta stefnu í málefnum barna

Deila grein

18/03/2019

Þín aðstoð við að móta stefnu í málefnum barna

Öll getum við verið sammála um að börnin okkar séu besta fjárfesting samfélagsins. Um leið og við sammælumst um þá staðreynd þurfum við sem samfélag að mæta þeirri áskorun af festu að tryggja öllum börnum sem best uppvaxtarskilyrði. Við þurfum að grípa börn í áhættu áður en það er um seinan, bregðast við með viðeigandi hætti og tryggja þeim stuðning og nauðsynlega þjónustu svo þau geti tekið virkan þátt í samfélaginu frá bernsku til fullorðinsára.

Um síðustu áramót varð sú breyting á stjórnskipan að félagsmálaráðuneytið setti aukna og sérstaka áherslu á málefni barna. Mikil vinna er í gangi í tengslum við þessar breytingar og hluti af henni er endurskoðun barnaverndarlaga sem og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi. Við vinnuna er lögð áhersla á víðtækt samstarf og samvinnu, hvort sem um ræðir breytingar á lögum, á reglugerðum eða framkvæmd þjónustu.

Ég hef skipað þverpólitíska nefnd þingmanna til að hafa yfirumsjón með mótun þessarar vinnu. Hún starfar með fagfólki og notendum kerfisins víða að. Samhliða því hefur verið settur upp stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna sem skipaður er fulltrúum sex ráðuneyta enda hafa þessi mál snertifleti víða í samfélaginu og þvert á kerfi.

Með það að markmiði að fá sem flesta að borðinu og ná fram heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að aukinni velferð barna á Íslandi sendi ég út bréf til aðila sem hafa málefni barna með höndum, eða til um 600 viðtakenda. Í bréfinu var óskað eftir athugasemdum, ábendingum og þátttöku viðtakenda og annarra í opnum hliðarhópum sérfræðinga um tiltekin málefni.

Í þeirri vinnu sem fram fer er ekki síst mikilvægt að hlusta á raddir sem sjaldan fá að heyrast. Ég vil hvetja alla sem vilja koma skoðunum á framfæri til að fara inn á vef félagsmálaráðuneytisins en þar má finna frekari upplýsingar um vinnuna og koma ábendingum á framfæri. Á vormánuðum eru fyrirhugaðir opnir fundir þar sem fyrstu útlínur vinnunnar verða kynntar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birist fyrst í Fréttablaðinu 15. mars 2019.

Categories
Greinar

Kynntu þér framtíðina um helgina

Deila grein

15/03/2019

Kynntu þér framtíðina um helgina

Um þess­ar mund­ir stend­ur Verkiðn fyr­ir náms- og starf­s­kynn­ingu fyr­ir nem­end­ur í efri bekkj­um grunn­skóla í tengsl­um við Íslands­mót iðn- og verk­greina sem nú fer fram í Laug­ar­dals­höll und­ir yf­ir­skrift­inni Mín framtíð. Þar munu 33 skól­ar á fram­halds­skóla­stigi kynna fjöl­breytt náms­fram­boð, bæði verk­legt og bók­legt, og svara spurn­ing­um um náms­fram­boð og inn­töku­skil­yrði. Þessi viðburður er jafn­an fjöl­sótt­ur enda gefst þar ein­stakt tæki­færi til þess að kynn­ast náms­fram­boði og starf­stæki­fær­um sem standa til boða hér á landi.

For­gangs­mál

Í stjórn­arsátta­mál­an­um er kveðið á um mik­il­vægi þess að efla iðn-, verk- og starfs­nám og að því höf­um við unnið öt­ul­lega síðustu miss­eri. Það er gleðilegt að sjá að vís­bend­ing­ar eru um að aðgerðir í þá veru séu farn­ar að skila ár­angri, m.a. með fjölg­un um­sókna í iðnnám. Sem mennta­málaráðherra hef ég beitt mér fyr­ir betra sam­tali milli mennta­kerf­is­ins og at­vinnu­lífs­ins en ráðuneytið og hags­muna­fé­lög á þeim vett­vangi standa sam­eig­in­lega að ýms­um hvatn­ing­ar­verk­efn­um sem þessu máli tengj­ast, t.d. Verk­smiðjunni, nýrri hug­mynda­sam­keppni fyr­ir nem­end­ur í efstu bekkj­um grunn­skóla, #Kvenn­astarf sem miðar að því að fjölga kon­um í iðn- og verk­grein­um og GERT-verk­efnið sem teng­ir skóla og fyr­ir­tæki með það að mark­miði að auka áhuga nem­enda á raun­vís­ind­um og tækni. Þá höf­um við for­gangsraðað fjár­mun­um í þágu starfs- og verk­náms með því að hækka reikni­flokka þess náms, af­numið efn­is­gjöld og tryggt fram­lög til að efla kennslu­innviði fyr­ir verk- og starfs­nám, t.d. með bættri verk­námsaðstöðu í Fjöl­brauta­skól­an­um í Breiðholti og Borg­ar­holts­skóla.

Fjölg­um iðn- og verk­menntuðum

For­senda vel­ferðar og lífs­gæða á Íslandi er öfl­ugt og fjöl­breytt at­vinnu­líf þar sem til staðar eru störf fyr­ir menntað fólk sem stuðlar að ný­sköp­un og þróun. Fjórða iðnbylt­ing­in hef­ur hafið inn­reið sína og hún fel­ur í sér sjálf­virkni­væðingu á öll­um sviðum at­vinnu­lífs og sam­fé­lags sem leiðir af sér mik­il tæki­færi til að þróa starfs­mennt­un til móts við nýj­ar kröf­ur. Stjórn­völd leggja sér­staka áherslu á mik­il­vægi starfs- og tækni­náms enda mik­ils að vænta af fram­lagi þess til verðmæta­sköp­un­ar framtíðar­inn­ar. Í alþjóðleg­um sam­an­b­urði er hlut­fall há­skóla­menntaðra hér á landi á sviði tækni, vís­inda, verk- og stærðfræði mjög lágt, aðeins 16%. Mik­il­vægt er að fjölga þeim sem eru með mennt­un á þeim sviðum til þess að við séum bet­ur búin und­ir að mæta áskor­un­um framtíðar­inn­ar.

Spenn­andi tím­ar

Náms­fram­boð í starfs- og tækni­námi hér á landi er afar fjöl­breytt. Þau tæki­færi sem bjóðast að námi loknu eru bæði mörg og spenn­andi enda mik­il spurn eft­ir slíkri mennt­un í at­vinnu­líf­inu. Til marks um gæði náms­ins sem í boði er má geta þess að ís­lensk­ir kepp­end­ur náðu sín­um besta ár­angri í Evr­ópu­keppni iðnnema á síðasta ári en hóp­ur­inn hlaut þá þrjár viður­kenn­ing­ar fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur auk silf­ur­verðlauna Ásbjörns Eðvalds­son­ar sem keppti þar í raf­einda­virkj­un.

Spreyttu þig

Alls taka um þrjá­tíu iðn-, verk- og tækni­grein­ar þátt í kynn­ing­unni Mín framtíð og á morg­un, laug­ar­dag, eru fjöl­skyld­ur sér­stak­lega boðnar vel­komn­ar. Hvatt er til þess að gest­ir komi og prófi sem flest­ar þeirra og spreyti sig t.d. á því að teikna grafík í sýnd­ar­veru­leika, smíða, stýra vél­menni, splæsa net eða krulla hár. Þessi kynn­ing er mik­il­væg því það að sjá, upp­lifa og taka þátt tendr­ar oft meiri áhuga og inn­sýn en að lesa bæk­linga eða skoða heimasíður.

Ég hvet sem flesta til þess að gera sér ferð í Laug­ar­dals­höll og kynna sér nám og störf í iðn- og tækni­grein­um því marg­breyti­leiki þeirra mun án efa koma flest­um á óvart. Við lif­um á spenn­andi tím­um þar sem störf eru að þró­ast og breyt­ast en nægt rými er fyr­ir atorku og hug­kvæmni ungs fólks.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. mars 2019.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin í Reykjanesbæ

Deila grein

13/03/2019

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin í Reykjanesbæ

Helgina 22.-23. mars verður Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin á Park-Inn hótelinu í Reykjanesbæ og hefst skráning á föstudeginum kl.16:30.  Áætlað er að ráðstefnunni ljúki svo kl. 16:00 á laugardag. Flokkurinn er annar stærsti flokkur landsins á sveitarstjórnarstiginu og er blásið til ráðstefnunnar með það að markmiði að efla sveitarstjórnarfólk til góðra verka og vinna að stefnumótun sveitarstjórnarráðs. Ráðstefnan er einnig góður vettvangur til  tengslamyndunnar þar sem sveitarstjórnarfólk ef oft að glíma við sambærileg mál, getur sótt í þekking og reynslu hvers annars og notið góðrar samveru. Sveitarfélög á Íslandi hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Þau eru grunnstoðir þess velferðarkerfis sem hér hefur verið reist, en á þeirra könnu er félagsþjónustan, rekstur grunn- og leikskóla ásamt æskulýðs- og tómstundastarfsemi. Þá fara þau einnig með skipulagsvald innan sinna bæjarmarka.

Mikilvægi sveitarfélaganna er þó ekki einskorðað við opinberar skyldur þeirra. Öflug og sjálfstæð sveitarfélög bæta valddreifingu og færa valdið heim í sveit. Þar sem sveitarfélög eru smærri einingar hafa íbúar aukna nálægð við stjórnendur og mikilvægt að góð samskipti við bæjarbúa leggi grunninn að góðum samfélögum. Dagskrá sveitarstjórnarráðstefnunnar er fjölbreytt, en þar verður rætt um húsnæðismál, samvinnu sveitarstjórnarfólks og þingmanna ásamt stefnumótun. Bjóðum við sveitarstjórnarmenn, nefndarfólk og aðra áhugasama framsóknarmenn velkomna hingað til Reykjanesbæjar til þess að líta með okkur til framtíðar. Skráning á ráðstefnuna er á skrifstofu flokksins í síma 540-4300 eða í gegnum netfangið framsokn@framsokn.is. Frekari upplýsingar og dagskrá ráðstefnunnar má finna á vef flokksins. Sjáumst í Reykjanesbæ! – Ingibjörg Isaksen, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknarflokksins

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

 

Categories
Fréttir

Verslum íslenskt grænmeti og kjötafurðir

Deila grein

12/03/2019

Verslum íslenskt grænmeti og kjötafurðir

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir í yfirlýsingu 6. mars, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkti með 9 atkvæðum að vísa tillögu „vegna væntanlegs útboðs á skólamat, [skuli] lögð sérstök áhersla á verslun með íslensk matvæli þar sem því verður við komið hverju sinni, sérstaklega verslun með íslenskt grænmeti og kjötafurðir,“ til nánari útfærslu hjá innkaupastjóra og fræðsluþjónustu. „Auk þess verði gerð krafa á væntanlegan rekstaraðila um skýra upplýsingagjöf er varðar uppruna, innihaldslýsingar og framleiðsluhætti þeirra vara sem boðið er upp á. Þar má horfa til ýmissa opinberra gæðamerkinga, svo sem Skráargatsins og fleira,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Ágúst Bjarni segir ennfremur, „[i]nnkaupastjóra og fræðsluþjónustu er falið að útfæra nánar og skila tillögum til fræðsluráðs svo fljótt sem verða má. Í vinnu þessari skal horfa sérstaklega til nýrra laga um opinber innkaup frá árinu 2016 ásamt innkaupa-, heilsu- og umhverfisstefnu Hafnarfjarðarbæjar þar sem m.a. er lögð áhersla á heilnæmi matvæla, jafnan aðgang að hollri fæðu á stofnunum bæjarins og umhverfisvottaðar vörur. Með áherslu á matvæli sem framleidd eru sem næst neytandanum, svokallaða staðbundna framleiðslu, er auðveldara að koma til móts við auknar kröfur um gæði, hreinleika og umhverfisvernd.“

Categories
Fréttir

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Deila grein

11/03/2019

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í umræðu um efnahagslega stöðu íslenskra barna á Alþingi í síðustu viku, mikilvægi þessa „að lægstu launin hækki og að hærri hluti grunnlaunanna fáist á dagvinnutíma, því að það er tíminn sem einstæðir foreldrar geta aflað tekna.“
Í skýrslu er gerð var fyrir Velferðarvaktina og var kynnt á dögunum, en félagsfræðingurinn Kolbeinn Stefánsson vann þá skýrslu, „segir okkur að börn einstæðra foreldra og öryrkja búi við lökust lífskjör á Íslandi, þó að lífskjör barna á Íslandi séu á heildina litið góð, sem betur fer, í samanburði við flest önnur Evrópulönd. En það er óviðunandi að einhver börn búi við fátækt hér og við eigum að setja það í algjöran forgang að bæta lífskjör barna fram yfir alla aðra hópa,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 7. mars 2019.

„Í skýrslunni er tillögum eða leiðum til úrbóta skipt í þrennt; tekjur, fjölskylda, laun, og tilfærslukerfi hins opinbera til að bæta lífskjör og draga úr fátækt og að síðustu opinber þjónusta sem getur aukið jöfnuð.“
„Hins vegar langar mig að stoppa við fæðingarorlofið. Við ræðum oft um lengingu þess og hámarksgreiðslur, en gólfið, lágmarksgreiðslurnar, er það sem setur suma foreldra, unga foreldra, í mjög erfiða stöðu strax á fyrstu mánuðum þess tíma sem þau eru foreldrar,“ sagði Líneik Anna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur kynningu á skýrslunni og sagði m.a. við það tækifæri:
„Skýrslan dregur upp þá mynd að staða barna hafi því miður dregist hvað mest aftur úr á þeim árum sem hún tekur til. Það er slæmt til þess að líta að einn viðkvæmasti hópur þjóðfélagsins hafi dregist aftur úr í lífskjörum umfram aðra hópa og er skýrslan sterk áskorun um að leggja töluvert meiri áherslu á þennan hóp enda er hann framtíð landsins. Börnin hafa ekki eins sterka rödd til þess að berjast fyrir eigin réttindum svo það þurfum við sem eldri erum að gera fyrir þau.“
Jafnframt sagði Ásmundur Einar, „[é]g þakka fyrir skýrsluna, en hún er mikilvægt innlegg í starfið sem er framundan í málefnum barna. Málefni barna hafa nú fengið veglegri sess í félagsmálaráðuneytinu. Það er ófullnægjandi að börn búi við fátækt og ójöfnuð og mun vinnan í málefnum barna sem framundan er taka mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja í skýrslunni.“

Categories
Fréttir

„Stórt skref í rétta átt!“

Deila grein

07/03/2019

„Stórt skref í rétta átt!“

Birkir Jón Jónsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, segir frá í yfirlýsing í dag að á fundi bæjarráðs í morgun hafi verið tekið fyrir svar heilbrigðisráðuneytisins vegna fyrirhugaðar stækkunar á hjúkrunarheimilinu við Boðaþing 11-13. Ráðuneytið lýsir sig þar reiðubúið til viðræðna um að Kópavogsbær taki verkefni yfir. Af því tilefni bókaði bæjarráð eftirfarandi:
„Bæjarráð fagnar því að heilbrigðisráðuneytið sé reiðubúið í viðræður um að Kópavogsbær taki yfir byggingu 64 hjúkrunarrýma við Boðaþing. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við ráðuneytið.“
„Framsókn í Kópavogi hefur haft þetta sem forgangsmál og lagt til að Kópavogur taki verkefnið yfir enda þannig hægt að flýta verkinu umtalsvert. Þetta er stórt skref í rétta átt og nú er bara að vona að viðræðurnar gangi vel,“ segir í yfirlýsingunni.
„Stórt skref í rétta átt“, segir Birkir Jón Jónsson.

Categories
Fréttir

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

Deila grein

07/03/2019

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

„Virðulegur forseti. Meiri hluti landsmanna er andvígur því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum, samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í blaðinu í dag og á vef þess. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að andstaðan er meiri á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu þar sem návígið við framleiðsluna er meira. Bann við innflutningi á hráu kjöti og ferskum matvælum snýst um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir. Þeir hagsmunir eru miklu stærri en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni,“ sagði Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur, varaþingmanns, á Aþingi 5. mars 2019.

„Varðandi viðskiptaþáttinn er íslenskur markaður lítill í alþjóðlegum samanburði og vega því hagsmunir okkar þyngra í heildarsamhenginu. Það ætti að vera metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins og auknu matvælaöryggi. Það er ekki hræðsluáróður að benda á að heilbrigði búfjárstofna á Íslandi er með því besta sem gerist í heiminum og notkun sýklalyfja í landbúnaði með því minnsta sem þekkist.
Ræktum landið, verndum þá sérstöðu sem við höfum hér í heilbrigði búfjárstofna og leggjum þar inn á loftslagsreikninginn sem framtíðarkynslóðir kalla eftir að við sinnum betur en nú er gert.“

Categories
Fréttir

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

Deila grein

07/03/2019

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu 6. mars.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í vikunni fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum. Launað starfsnám mun, frá og með næsta hausti, standa nemendum til boða sem eru á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi einnig sótt um námsstyrki, frá og með næsta hausti. Í þriðja og síðasta lagi styrki til starfandi kennara vegna náms í starfstengdri leiðsögn.
„Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1.200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 23% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.“
„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað að til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.“
Grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur má lesa í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

Deila grein

06/03/2019

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma málefnum lögreglunnar á dagskrá í þinginu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera til svara. Eins og fram hefur komið gegnir lögreglan lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Lögreglan er ein af grunnstoðum ríkisins og því fagna ég áformum um framlagningu og innleiðingu löggæsluáætlunar sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í ræðu, í sérstakri umræðu um málefni lögreglunnar, á Alþingi í gær.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur, alþingismanns, á Alþingi.

„Skilgreining á öryggis- og þjónustustigi er mikilvæg til að átta sig á eðli og umfangi lögreglustarfsins og öll áform um gagnsæi á kostnaðarliðum eru af hinu góða en verkefnin eru fjölbreytt og miskostnaðarsöm.
Einn kostnaðarliður er rekstur bíla, en ég veit til þess að unnið er að endurskipulagningu í bílamálum. Það er afar mikilvægt og í raun stóra málið að því er mér er sagt. Finni menn leiðir til að ná kostnaði niður getur svigrúm til sýnilegrar löggæslu aukist verulega.
Allt kunnáttufólk á sviði löggæslu sem ég hef rætt við leggur áherslu á mikilvægi sýnilegrar öryggisgæslu. Auðvelt er að benda á átak á norðvestursvæði sem fólst í aukinni umferðargæslu og sýnileika. Það skilaði sér í 26% fækkun umferðarslysa. Sýnileikinn þarf ekki eingöngu að vera á stofnvegum heldur líka inni í hverfum, í þéttbýli, á ferðamannastöðum, á hálendinu og í miðbæ Reykjavíkur. Það er mikilvægt að lögreglumaðurinn þekki hverfið sitt, fólkið sitt og svæðið sem hann sinnir. Til að þetta gangi eftir vantar aukið fjármagn og fleira fólk. Því fagna ég öllum áformum um fjölgun lögreglumanna.
Hæstv. forseti. Fyrirkomulagi lögreglunáms hefur verið breytt og enn er eitthvað í að við sjáum hvernig það kemur út. En nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í skólanum og spennandi verður að sjá hvort og þá hverju það breytir. En um allt land erum við svo heppin að hafa gott fólk sem er að gera sitt besta og kannski má segja að fólk sé að vinna kraftaverk oft og tíðum undir afar miklu álagi.“

Categories
Fréttir

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

Deila grein

06/03/2019

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

„Virðulegi forseti. Mikil áhersla ríkisstjórnarinnar á málefni barna er farin að birtast með ýmsu móti, m.a. með nýlegri samþykkt um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda og að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
 Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 6. mars 2019.

„Nú er unnið að stefnumótun í málefnum barna á vegum félagsmálaráðuneytisins undir forystu þverpólitískrar nefndar þingmanna sem starfa með fagfólki og notendum kerfisins. Vinnan gengur út á endurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa eins og skóla, heilsugæslu, félagsþjónustu, lögreglu, dómskerfis og almannaheillafélaga, svo eitthvað sé nefnt. Nefndin hefur nú þegar fundað níu sinnum og samhliða vinna opnir hópar sem í starfar fólk með þekkingu og reynslu af málefnum barna. Markmiðið er að fá sem flesta að borðinu til að reyna að ná heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að velferð barna á Íslandi og tryggja að þau og fjölskyldur þeirra fái stuðning og þjónustu við hæfi á hverjum tíma. Hliðarhóparnir munu svo á næstu vikum og mánuðum skila tillögum til þingmannanefndarinnar. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og áætlað er að halda stærri ráðstefnu á vormánuðum. Einnig hefur tekið til starfa stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að samhæfa betur starfið og tryggja framgang þeirra ákvarðana sem teknar verða.
Nýlega sendi félags- og barnamálaráðherra út bréf til fjölda fólks til að kynna verkefnið og hvetja þá sem vilja leggja sitt af mörkum til vinnunnar að kynna sér málið og nýta sér tækifærin til að koma sjónarmiðum á framfæri, hvort sem er í vinnuhópum, með ábendingum til nefndarinnar eða á opnum fundum.“