Categories
Greinar

Menning og ferðaþjónusta um allt land

Deila grein

27/09/2022

Menning og ferðaþjónusta um allt land

Með upp­stokk­un á stjórn­ar­ráði Íslands og til­komu nýs menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is urðu tíma­bær­ar breyt­ing­ar að veru­leika. Í fyrsta sinn heyra þannig menn­ing, ferðaþjón­usta og viðskipti und­ir einn og sama fagráðherr­ann. Mála­flokk­arn­ir eru um­svifa­mikl­ir en tugþúsund­ir starfa við menn­ingu, skap­andi grein­ar og ferðaþjón­ustu sem flétt­ast sam­an með ýmsu móti, auka aðdrátt­ar­afl Íslands og skapa gríðarleg verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Þannig nem­ur heild­ar­um­fang mála­flokka ráðuneyt­is­ins rúm­um 40% af lands­fram­leiðslu.

Það er því nauðsyn­legt að hlúa að þeim með mark­viss­um hætti um allt land í sam­starfi við heima­menn á hverju svæði fyr­ir sig. Í liðinni viku heim­sótti ég Aust­ur­land þar sem ég fundaði með full­trú­um sveit­ar­fé­laga og lands­hluta­sam­tak­anna ásamt for­ystu­fólki í menn­ing­ar­lífi og ferðaþjón­ustu og at­vinnu­lífi á svæðinu.

Heim­sókn­in var frá­bær í alla staði og ómet­an­leg fyr­ir mig sem ráðherra til að fá beint í æð hvernig lands­lagið horf­ir við fólki sem starfar í þess­um grein­um hvað lengst frá Reykja­vík og hvaða tæki­færi eru til þess að styrkja um­gjörð þeirra. Ferðaþjón­ust­an er stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar en með henni hef­ur skap­ast fjöldi starfa um­hverf­is landið. Grein­in hef­ur átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat. Til þess að tryggja vöxt henn­ar á lands­byggðunum utan há­ann­ar þurfa stjórn­völd að halda áfram að styrkja um­gjörð henn­ar og stuðla að betri dreif­ingu ferðamanna.

Ákveðinn ár­ang­ur náðist af aðgerðum stjórn­valda í þá veru fyrr á þessu ári þegar þýska flug­fé­lagið Condor til­kynnti beint áætl­un­ar­flug til Eg­ilsstaða og Ak­ur­eyr­ar á næsta ári. Það er eitt já­kvætt skref af nokkr­um sem þarf að taka. Tryggja þarf greiðar vega­sam­göng­ur að helstu nátt­úruperl­um lands­byggðar­inn­ar yfir vetr­ar­tím­ann með nægj­an­legri vetr­arþjón­ustu. Stjórn­völd í sam­starfi við Sam­tök fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu þurfa að leiða sam­tal við fjár­mála­fyr­ir­tæk­in um aðgengi að láns­fjár­magni í ferðaþjón­ustu utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Skort­ur á slíku aðgengi virðist land­læg­ur vandi, meðal ann­ars hjá rót­grón­um ferðaþjón­ustuaðilum, sem vert er að skoða bet­ur. Halda þarf áfram að byggja upp innviði og gera Ak­ur­eyr­ar- og Eg­ilsstaðaflug­völl bet­ur í stakk búna til að taka á móti alþjóðlegu flugi ásamt því að huga ávallt að því að landið allt sé und­ir í alþjóðlegu markaðsstarfi á Íslandi sem áfangastað. Öflug menn­ing á lands­byggðunum styður við ferðaþjón­ust­una og öf­ugt og þar eru fjöl­mörg tæki­færi sem hægt er að virkja, meðal ann­ars með aukn­um stuðningi í kynn­ingu á söfn­um og menn­ing­ar­stofn­un­um. Hef ég þegar óskað eft­ir að þeirri vinnu verði ýtt úr vör.

Ég er bjart­sýn fyr­ir hönd þess­ara greina og ég hlakka til að vinna með öll­um lands­hlut­um að vexti þeirra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 27. september 2022.

Categories
Greinar

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Deila grein

26/09/2022

Tímamót í heilsufarssögu Íslendinga

Ný Brjóstamiðstöð á Landspítala við Eiríksgötu hefur verið starfandi frá því í apríl á seinasta ári en var með formlegum hætti opnuð af Willum Þór, heilbrigðisráðherra í gær. 

Aðstaðan á Brjóstamiðstöðinni er til fyrirmyndar en þjónustu miðstöðvarinnar er ætlað að ná yfir alla skimun og klíníska brjóstamyndagreiningu, göngudeildarþjónustu tengdra sérgreina, meðferð og eftirlit allra brjóstameina. Miðstöðin mun einnig sinna þjónustu úti á landi og fólki sem er í áhættuhópi á að fá krabbamein vegna stökkbreytinga í genum. Henni er því ætlað að vera miðpunktur í þjónustu við þá sem greinast með mein eða sjúkdóm í brjóstum. 

Grundvallarþáttur við undirbúning og skipulagningu þjónustu brjóstamiðstöðvarinnar var að sameina á einum stað sérfræðinga á sviði krabbameinslækninga, brjóstaskurðlækninga, geislalækninga og lýtalækninga. Brjóstamiðstöðin felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem byggt verður á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Framtíðarsýn miðstöðvarinnar er að gera þeim sem á þurfa að halda auðveldara að leita aðstoðar, að tryggja notendum samfellda og samþætta þjónustu við greiningu brjóstameina. Heildræn lausn fyrir öll vandamál frá brjóstum. Hér er um að ræða afar stórt framfaraskref í þjónustu og raun eru þetta tímamót í heilsufarssögu Íslendinga.

Krabbamein er óboðinn gestur

Að meðaltali greinast um 240 einstaklingar með mein í brjóstum á ári. Konum á Íslandi er boðin reglubundin skimun fyrir krabbameini í brjóstum. Konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Einkennalausar konur 40 til 74 ára geta pantað tíma í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Ekki nærri því allar konur þiggja þessi boð og við á Íslandi þurfum að bæta okkur þar. Algengasta krabbamein hjá konum á Íslandi er brjóstakrabbamein og því fyrr sem sjúkdómurinn greinist því betri eru lífslíkurnar. Skipuleg skimun er því afar mikilvæg til þess að finna og greina sjúkdóminn snemma. Við megum heldur ekki gleyma að skoða brjóstin okkar sjálfar, t.d. þegar við undirbúum okkur fyrir daginn eða í sturtunni. Ef við gerum þetta einu sinni til tvisvar í hverjum mánuði er mögulega auðveldara að gera sér grein fyrir breytingum á milli skipta og grípa óboðna gestinn áður en hann fer að valda alvöru ónæði.

Við í Framsókn viljum halda áfram að tryggja að heilbrigðisþjónusta hérlendis verði í fremstu röð. Við viljum leggja áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustu sé ávallt eins og best verður á kosið með því að leita hagkvæmra og skilvirkra lausna. Einstaklingsmiðuð þjónusta, teymisvinna og nýsköpun eru lykilatriði í þjónustu nýrrar brjóstamiðstöðvar sem byggir á nútímalegri nálgun við skipulag og veitingu göngudeildarþjónustu. Brjóstamiðstöðin við Eiríksgötu felur í sér fordæmi og fyrirmynd sem hægt verður að byggja á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Landspítala appið

Önnur tímamót í heilbrigðismálum á Íslandi er smáforrit í boði Landspítala. Smáforritið er enn í þróun en í nokkrum áföngum er verið að innleiða það. Upplýsingar sem finna má í appinu eru t.d. innlagnir/komur, tímabókanir, staða rannsókna o.fl. Upplýsingar sem birtast í smáforritinu og tengjast dvöl þinni á spítalanum eru t.d. upplýsingar um lífsmarkamælingar, lyf, starfsmenn, feril dvalar þinnar og svo framvegis. Nýtt Landspítala smáforrit verður einnig tekið til notkunar á brjóstamiðstöðinni fljótlega og verður það bylting í stafrænni upplýsingagjöf og öllu utanumhaldi fyrir einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda.

Hér er því sannarlega um að ræða tímamótaskref í heilsufarssögu Íslendinga og berum við öll miklar vonir og væntingar við áframhaldandi velgengni á þessu sviði og öllum öðrum sviðum heilbrigðismála. Með Willum Þór í forsvari heilbrigðismála á Íslandi erum við sannarlega á réttri leið.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2022.

Categories
Fréttir

Formleg opnun Brjóstamiðstöðvar Landspítala

Deila grein

23/09/2022

Formleg opnun Brjóstamiðstöðvar Landspítala

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra opnaði formlega Brjóstamiðstöð Landspítala.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra við opnunina ásamt Ölmu Möller, landlækni

Í Brjóstamiðstöðinni eru saman komin á einn stað brjóstaskimun, brjóstamyndgreining, greiningar og öflug göngudeildarþjónusta. Þetta fyrirkomulag tryggir bæði samfellu í þjónustunni og samlegðaráhrif. Þjónustan verður ekki bara markvissari og skilvirkari heldur styður fyrirkomulag Brjóstamiðstöðvarinnar við öfluga teymisvinnu.

Því miður hefur heilsa kvenna í gegnum aldirnar ekki alltaf fengið sama sess og heilsa karlmanna. Brjóstamiðstöð Landspítala sendir með starfsemi sinni sterk skilaboð um það að heilbrigðiskerfið á Íslandi láti slíkt ójafnræði ekki viðgangast. Í miðstöðinni vinna geislafræðingar, lýtalæknar, krabbameinslæknar og hjúkrunarfræðingar og fleiri saman að bættri heilsu kvenna.

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknar í Garðabæ

Deila grein

22/09/2022

Aðalfundur Framsóknar í Garðabæ

Stjórn Framsóknarfélags Garðabæjar hefur boðað til aðalfundar, Bjarnastöðum á Álftanesi, miðvikudaginn 5. október kl. 20:00. 

Dagskrá fundar eru hefðbundinn aðalfundarstörf.

Categories
Fréttir

Tryggjum afhendingaröryggi raforku um land allt 

Deila grein

22/09/2022

Tryggjum afhendingaröryggi raforku um land allt 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingu á skipulagslögum (nr. 123/2010) og ákvæðum þeirra sem snúa að uppbyggingu innviða.

Breytingar í frumvarpinu eru gerðar í samræmi við tillögur átakshóps sem skipaður var eftir fárviðrið sem gekk yfir landið í desember 2019. Breytingarnar styðja við þau áform stjórnvalda að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Slíkar breytingar eru m.a. í takt við áherslu ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu flutningskerfis raforku og græna orkuframleiðslu, sér í lagi í tengslum við orkuskipti.

Heimild til skipulagsákvörðunar þvert á sveitarfélagamörk

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum í tengslum við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þegar um er að ræða framkvæmdir í flutningskerfi raforku sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Lagt er til að lögfest verði heimild til að taka sameiginlega skipulagsákvörðun sem nái til einnar framkvæmdar í flutningskerfi raforku sem er áformuð í tveimur eða fleiri sveitarfélögum, þvert á sveitarfélagamörk.

Slík sameiginleg skipulagsákvörðun verði í höndum sérstakrar raflínunefndar sem skipuð verði fulltrúum allra sveitarfélaga sem viðkomandi skipulagsákvörðun nái til. Í slíkri nefnd muni einnig eiga sæti fulltrúi Skipulagsstofnunar til að tryggja fagþekkingu, bæði gagnvart skipulagsgerð og mati á umhverfisáhrifum.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdaraðili hafi frumkvæði að því að ráðherra skipi slíka nefnd. Beiðni framkvæmdaraðila skal koma fram á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en formlegt ferli samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana er hafið.

„Framkvæmdir af þessu tagi geta við núgildandi löggjöf kallað á breytingar á aðalskipulagi og útgáfu framkvæmdaleyfis frá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ef svæðisskipulag er til staðar kann einnig að þurfa að gera breytingar á því með aðkomu allra þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að því. Þannig er aukin skilvirkni í því að heimila töku einnar sameiginlegrar skipulagsákvörðunar fyrir framkvæmd af þessu tagi,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 22. september 2022.

Forsíðumynd: Sigtryggur

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Framsókn á Fundi fólksins

Deila grein

21/09/2022

Framsókn á Fundi fólksins

Fundur fólksins fór fram 16. – 17. september síðastliðinn. Tilgangur fundarins er að skapa vettvang fyrir samtal milli almennings, stjórnmálafólks og frjálsra félagasamtaka. Markmið fundarins er að skapa aukið traust og meiri skilning á milli ólíkra aðila í samfélaginu.

Framsókn tók þátt í fundinum og stýrði Unnur Þöll Benedikstdóttir, formaður SUF (Samband ungra Framsóknarmanna) og varaborgarfulltrúi málstofu í samstarfi við Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur, þingmanns og Magneu Gná Jóhannsdóttur, borgarfulltrúa. Erindi málstofunnar var ,,Þátttaka ungs fólks í stjórnmálum”. SUF sá var einnig með kynningarbás á fundinum og kynntu þau öflugt starf ungra í Framsókn. Framsókn er stolt af unga fólkinu í starfinu, rödd þeirra skiptir máli.

Á heimasíðu fundarins segir meðal annars:

Fundur fólksins er sjálfstæð hátíð og ekki tengd neinum hagsmunaöflum á Íslandi eða annnars staðar.

Lýðræðishátíðin Fundur fólksins var fyrst haldin í Norræna húsinu í júní 2015 að fyrirmynd annarra Norðurlanda, sem hafa haldið sambærilega fundi; á Borgundarhólmi (Danmörk), í Arendal (Noregur) og í Almedalen (Svíþjóð). Gestir þessara funda í nágrannalöndunum telja að öllum jafnaði tugi þúsunda og þar er að finna afar umfangsmikla þátttöku frjálsra félagasamtaka, stofnana, stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks, fyrirtækja auk almennra borgara.

Nokkur félagasamtök komu strax í upphafi að undirbúningi fundarins, þ.á.m. Almannaheill. Ári síðar tók Almannaheill hátíðina að sér með fjárhagsstyrk frá félagsmálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg ásamt stuðningi frá Norræna húsinu. Árið 2017 var hátíðin flutt til Akureyrar með samningi Almannaheilla við Menningarfélag Akureyrar, þar sem hátíðin var haldin undir nafninu LÝSA – Rokkhátíð samtalsins í Menningarhúsinu Hofi. Stefnt er að því að Fundur fólksins verði haldinn í Reykjavík næstu ár, með stuðningi Reykjavíkurborgar, félagsmálaráðuneytisins og annarra samstarfsaðila.

Categories
Fréttir

Lilja hringdi bjöllunni þegar Ísland færðist upp um gæðaflokk

Deila grein

21/09/2022

Lilja hringdi bjöllunni þegar Ísland færðist upp um gæðaflokk

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hringdi kauphallarbjöllunni í morgun þegar íslenski hlutabréfamarkaðurinn færðist upp um gæðaflokk hjá alþjóðlega vísitölufyrirtækinu FTSE Russell. Kauphöllin fagnaði áfanganum með bjölluathöfn.Við opn­un markaða í morg­un færðist Ísland upp um gæðaflokk hjá vísi­tölu­fyr­ir­tæk­inu FTSE Rus­sell í flokk ný­markaðsríkja (e. Second­ary Emerg­ing mar­kets). Lilja, Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra,  Guðrún Haf­steins­dótt­ir, formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar og Magnús Harðar­son, for­stjóri Nas­daq Ice­land hringdu af því til­efni fyrstu viðskipti dags­ins inn við at­höfn í Kaup­höll­inni

Í dag, 19. September 2022, tók nýja flokkunin gildi en Ísland er þá í flokki nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá FTSE Russell. Búast má við því að með þessari flokkun  Íslands  verði hægt að greiða fyrir  innflæði verulegs fjármagns inn í íslenskt efnahagslíf sem getur stutt við fjármögnunarmöguleika skráðra fyrirtækja.

,,Breið þátttaka almennings í hluta- og skuldabréfamörkuðum styður við fjárfestingar í innviðum, nýsköpun og tækniframförum. Það er því ánægjulegt að sjá þessa hækkun á milli fjárfestingaflokka hér í Kauphöllinni. Legg þó áherslu á að sígandi lukka er best og að innflæði beinnar erlendar fjárfestingar aukist jafnt og þétt,” segir Lilja. 

Menningar- og viðskiptaráðherra lagði áherslu á mikilvægi fjárfestinga í samfélögum, sem einn helsta drifkraftinn í framförum. Fjárfestingastig þjóða segir mikið til um hvernig framtíðin lítur út og því þurfum við alltaf að vera á táum að fjárfest sé næginlega í meðal annars innviðum, menntun og hátækni.

15 fé­lög fá öll sæti í vísi­töl­unni í dag, en Ísland verður tekið inn í þrem­ur skref­um. Fyrsta skrefið var tekið í morg­un, þriðjung­ur af væg­inu verður tekið inn í des­em­ber og lokaþriðjung­ur­inn í mars.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 19. september 2022.

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Hauststarf Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis

Deila grein

20/09/2022

Hauststarf Framsóknarfélags Akureyrar og nágrennis

Hauststarf Framsóknarfélags Akueyrar og nágrennis hófst af fullum krafti síðastliðinn laugardag með opnu húsi í sal Fjölsmiðjunnar að Furuvöllum. Gestir fundarins voru bæjarfulltrúar Framsóknar þau Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson. 

Opin hús verða á laugardögum, 1. okt., 15. okt., og 29. okt. frá kl. 11:30 – 13:00.

Bæjarmálafundir verða haldnir á mánudagana 3. okt., 17. okt., og 31. okt. kl. 20:00.

Nánari dagskrá og upplýsingar um gesti og staðsetningu funda verða birtar á Facebooksíðu félagsins og heimasíðu Framsóknar.

Categories
Fréttir

30 einbýla hjúkrunarheimili við Skjólgarð

Deila grein

20/09/2022

30 einbýla hjúkrunarheimili við Skjólgarð

,,Það var sannkölluð þjóðhátíðar stemming á Höfn í Hornafirði í gær…” Sagði Willum Þór Þórsson, heilbriðgisráðherra við fyrstu skóflustungu að nýju hjúkrunarheimili við Skjólgarð.

Hið nýja heimili verður með 30 einbýlum auk þess sem öll aðstaða í núverandi húsnæði verður bætt til muna.

Nú hefur verið skrifað undir samkomulag við verktakafyrirtækið og munu framkvæmdir hefjast innan skamms.

Categories
Greinar

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Deila grein

20/09/2022

Nám­skeið fyrir for­eldra barna með ADHD

Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest, sem oft er kallað ADHD (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder) í daglegu tali. Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, þ.e. kringum 7 ára aldur, og getur haft áhrif á alla fasa lífsins t.d. í námi, í vinnu og í félagslegum samskiptum. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD, sem þýðir að í 20-30 manna kennslutíma eru líklega um 2-3 einstaklingar með ADHD.

Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD. Foreldrar þurfa að aðlaga sig að aðstæðum, upplifunum og einkennum ADHD, sem getur leitt til þess að foreldrar eru óvissir um hvaða skref þeir eigi að stíga næst í uppeldinu. Flestir kynna sér ADHD ítarlega og allt sem hún felur í sér. Það hefur oft gefið góða raun, en foreldrar barna með ADHD eru þó allflestir á sama máli. Þeir vilja læra meira sem getur aðstoðað þá við uppeldið og börnum þeirra við komast gegnum nám og vinnu ásamt því að auka félagslega færni þeirra.

Á síðustu árum hafa verið sett á laggirnar námskeið sem bjóða upp á fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og gerðar hafa verið rannsóknir á gagnsemi þeirra fyrir foreldra og börn. Á þeim námskeiðum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og gera verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeið sem þessi hafa verið talin árangursrík. Foreldrar hafa almennt veitt námskeiðunum jákvæða umsögn þar sem þeir telja námskeiðin hafa hjálpað þeim og börnunum. Rannsakendur og foreldrar töldu námskeiðin hafa haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna ásamt því að auka þekkingu og skilning foreldrana á ADHD.

Hér á landi eru mikil tækifæri til staðar með setningu slíkra námskeiða. Einnig er nauðsynlegt að slík námskeið verði aðgengileg öllum foreldrum og/eða forráðamönnum barna með ADHD óháð efnahag, og því er talið að seta á námskeiði eigi að bjóðast þeim að kostnaðarlausu. Við eigum að hafa það að markmiði að einstaklingar með ADHD eigi auðveldara með alla fasa daglegs lífs ásamt því að byggja frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir sem aldnir, glíma við í dag.

Á næstu dögum mun undirrituð leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um aukna fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD. Það er mín von að ályktunin verði samþykkt og ríkisstjórnin hefji strax vinnu að setningu slíkra námskeiða hér á landi, sem standi foreldrum og forráðamönnum barna með ADHD til boða þeim að kostnaðarlausu og með markvissum hætti. Það er mikilvægt að við hugum að því hvernig við ætlum að gefa foreldrum barna með ADHD aukin verkfæri og aukið sjálfstraust til að leiðbeina börnunum í gegnum lífið. Því það að vera með ADHD getur verið ofurkraftur ef við sköpum börnum réttar aðstæður bæði heima og í skólakerfinu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. september 2022.