Categories
Fréttir Uncategorized

LANDSÞINGI LFK FRESTAÐ!

Deila grein

27/04/2022

LANDSÞINGI LFK FRESTAÐ!

Vegna fjölda áskorana hefur framkvæmdastjórn LFK ákveðið að fresta á ný fyrirhuguðu landsþingi félagsins þann 30. apríl nk. Ástæða þessa er nálægð við sveitastjórnarkosningar þann 14. maí og ljóst að stór hluti Framsóknarkvenna standa nú í stafni í sinni heimabyggð og kraftar þeirra best nýttir þar flokknum okkar til framdráttar. Það er LFK mikilvægt að landsþingið sé vel sótt og að sem flestar konur sjái sér fært að taka þátt og þannig efla stöðu kvenna innan sérsambandsins, flokksins og í stjórnmálaþátttöku almennt.

Ný dagsetning fyrir Landsþing LFK verður auglýst þegar nær dregur.

Gangi okkur öllum vel í slagnum sem framundan er.

Áfram veginn!

Categories
Greinar

Varð­veitum söguna

Deila grein

27/04/2022

Varð­veitum söguna

Eitt af einkennum okkar góða bæjarfélags, Hafnarfjarðarbæjar, er fjölbreytt byggð gamalla og nýrra húsa. Húsa sem hafa byggst upp í gegnum langa sögu sem við þurfum og okkur ber hreinlega skylda til að halda í og varðveita. Hverfin okkar hér í Hafnarfirði eru jafn misjöfn og þau eru mörg; hvert með sinn sjarma, staðaranda og einkenni.

Nú rísa ný hverfi í Skarðshlíð og Hamranesi, auk þess sem stutt er í að lóðum verði úthlutað í Áslandi 4 og framkvæmdir þar hefjist af sama krafti og er annars staðar í bæjarfélaginu. Þetta eru okkar nýbyggingarsvæði, en samhliða uppbyggingu nýrra hverfa hefur þétting byggðar gegnið vel. Þétting byggðar þarf að haldast í hendur við uppbyggingu nýrra hverfa svo nýta megi þá innviði sem þegar eru til staðar enn betur. Hér getum við nefnt sérstaklega Dvergsreitinn, Hrauntungu, Hjallabraut og Stekkjarberg. Þar sjáum við nú hús rísa þar sem mikill metnaður er lagður í að halda í einkenni þeirra byggða sem umvefja ný hús sem munu styrkja og bæta hverfin í heild.

Við höfum lagt mikla áherslu á að vernda bæjarbraginn, styrkja og styðja við eldri byggðir ásamt því að efla miðbæinn. Það sjáum við sérstaklega tveimur samþykktum deiliskipulagstillögum; annars vegar stækkun verslunarmiðstöðvarinnar Fjarðar og hins vegar reit sem afmarkast af Strandgötu, Reykjarvíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Hér má auk þess nefna rammaskipulag inn að Flensborgarhöfn og út á Óseyrarsvæðið. Sú byggð mun ýta undir blómlegt bæjarlíf og fjölbreytta þjónustu. Tilkoma Tækniskólans á Suðurhöfnina mun styðja við samfélagið allt hér í Hafnarfirði og öll önnur verkefni í nágrenni miðbæjarins.

Sérstakt áhugamál mitt var að endurreisa húsverndunarsjóð sem var hér við líði á árum áður. Það var gert í ár og er úthlutað úr sjóðnum samkvæmt tillögu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Nýlegar var úthlutað úr sjóðnum í fyrsta skipti í langan tíma og fengu fimm aðilar úthlutað 2 milljónum króna til viðhalds og endurbóta á húsnæði. Þetta er liður í því að viðhalda og varðveita söguna og þau hús sem byggst hafa yfir langan tíma. Húsverndarsjóður er nú kominn til að vera og ég vona að okkur beri gæfa til, þvert á flokka, að styrkja hann enn frekar í framtíðinni.

Nýlega var Lífsgæðasetur St. Jó. opnað með formlegum hætti. Húsnæði gamla St. Jósefsspítala hefur nú loks fengið nýtt hlutverk og þær endurbætur sem húsnæðið á skilið. Húsnæði sem nú er komið aftur til vegs og virðingar. Ég veit að flest allir Hafnfirðingar hafa teningar við húsið með einhverjum hætti og hefur fundið dapurlegt að sjá húsið grotna niður á umliðnum árum. Þrátt fyrir miklar endurbætur og flókið verkefni hefur það gengið vel. Bæjarráð setti á fót sérstakan framkvæmdahóp um verkefnið og endurbæturnar sem undirritaður hefur leitt og átt sæti í ásamt Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra, Guðlaugu Kristjánsdóttur bæjarfulltrúa og starfsmönnum bæjarfélagsins. Það er gaman að segja frá því að góð samstaða hefur verið í hópnum og mikill einhugur um þetta mikilvæga verkefni. Það hefur birst í því að allar kostnaðaráætlanir hafa staðist og að nú hafa þrjár hæðir verið teknar í notkun sem hýsir fjölbreytta starfsemi sem er komin til að vera.

Ég er virkilega stoltur af þátttöku í þessu stóra verkefni og sjá að þetta fallega hús okkar taka á sig mynd, vera umgjörð fjölbreyttrar starfsemi sem bætir samfélagið okkar allt. Ég veit að amma mín heitin væri stolt af verkinu. Til hamingju öllsömul.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs og formaður framkvæmdahóps St. Jósefsspítala.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. apríl 2022.

Categories
Greinar

Tryggjum fötluðum á­heyrn í Bæjar­stjórn Hafnar­fjarðar!

Deila grein

27/04/2022

Tryggjum fötluðum á­heyrn í Bæjar­stjórn Hafnar­fjarðar!

Málefni fatlaðra og þjónustuskyldur sveitafélaga.

Það er yfirleitt ekki ágreiningur um hvort sveitarfélög eigi að sinna félagslegum lögboðnum skyldum sínum en hitt er annað mál að oft greinir ráðamönnum á með hvaða hætti og að hve miklu leyti sveitarfélögum ber að sinna þeim.

Yfirleitt snýst því miður umræðan um málefni fatlaðra um að ekki sé nægt fjármagn, eða hvort ríki, sveitarfélag eða hinn fatlaði sjálfur eigi að standa straum af kostnaði við þjónustuna. Sú umræða er lítillækkandi, sérstaklega í ljósi þess að hún er yfirleitt til þess fallin að varpa ljósi á að fatlaðir séu baggi á sveitarfélög.

Jafnvel hefur verið gengið svo langt að áhrifafólk ávarpi fatlaða sem „mannréttindafrekjur“ sem leiki lausum hala með réttindakröfur að leiðarljósi.

Fatlaðir íbúar sveitarfélaga geta daglega staðið frammi fyrir fötlunarfordómum, forræðishyggju, skilningsleysi og jafnvel áhugaleysi starfsmanna og ráðamanna sveitarfélaga sinna. Enginn er hinsvegar meiri sérfræðingur í sinni fötlun en sá fatlaði sem á alltaf rétt á félagslegri aðstoð á sínum forsendum og þess vegna er mikilvægt að hlusta á sjónarmið þeirra!

Gott dæmi um stefnumótandi áhrif er varða sjálfsákvörðunarrétt í kröfugerðum fatlaðra um að veita fötluðum áheyrn og hafa áhrif á með hvaða hætti lögbundin þjónusta skyldi vera framkvæmd, var í dómum Hæstaréttar nr. 151/1999 og 177/1998. þar sem Hæstiréttur tók undir sjónarmið fatlaðra að þeir ættu rétt á áheyrn. Þó svo að viðurkenna yrði sjálfsstjórn stjórnvaldsins um eigin málefni og játa þeim verulegt svigrúm til að framkvæma lögboðnar skyldur sínar gagnvart fötluðum, voru þær kröfur sem hinir fötluðu höfðu í ofangreindum málum, taldar, hóflegar og innan málefnanlegra marka og taldi því Hæstiréttur ráðamönnum það skylt að sinna skyldum sínum samkvæmt óskum þeirra sem áttu hagsmuni að gæta .

Einnig er vert að taka fram að í ofangreindum málum var ekki verið að krefjast aðgerða sem höfðu í för með sér mikinn tilkostnað , heldur var viðleitnin við að taka á móti og veita fötluðum þjónustu tekin til raunverulegrar skoðunar. Hinn raunverulegi þröskuldur sem hinir fötluðu hnutu um í ofangreindum málum var sá að kröfurnar voru málefnalegar, auðveldar í framkvæmd og án mikils tilkostnaðar en umræddir ráðamenn vildu einfaldlega ekki láta segja sér fyrir verkum!

Því miður er alltof oft hinn raunverulegi ágreiningur sem veldur árekstrum milli sveitarfélaga og fatlaðra sá að sveitarfélög fara vissulega með forræði á eigin málefnum og játa verður þeim verulegt svigrúm hvernig þau framfylgja lögboðnum skyldum sínum, en það er samt óumdeilanlegt að réttur fatlaðra til að krefjast þess að sveitarfélög sinni sínum skyldum á forsendum fatlaðra er ríkur, rétt eins og ofangreindir dómar Hæstaréttar tilgreina.

Er vistun fatlaðra á hjúkrunarheimilum ávísun á mannréttindabrot og bótaskyldu sveitarfélaga?

Sveitarfélög hafa því miður farið þá leið að vista fatlaða einstaklinga ótímabært á hjúkrunarheimilum. Slíkri ráðstöfun mótmælum við hjá Framsókn Hafnarfirði harðlega og þurfa öll sveitarfélög að bregðast við þessari slæmu þróun. Raunhæf búsetuúrræði vantar fyrir yngri einstaklinga sem eru ótímabært vistaðir á hjúkrunarheimilum ætluð eldra fólki.

Yngra fólk finnur sig ekki endilega með eldra fólki til lengri tíma. Dæmi eru um að það upplifir sig einangrað, og hafi jafnvel engan til að tala við. Oft eru áhugamál og dægradvöl með allt öðru sniði. Eldra fólk sem vistast á hjúkrunarheimilum á oft stutt eftir, upplifir mikla líkamlega verki eftir ævilangt brauðstrit, berst við öldrunarsjúkdóma og dauðinn heimsækir óþægilega oft sambýlisfólk enda meðalvistunartími íbúa á hjúkrunarheimilum einungis 2-3 ár.

Starfsfólk hjúkrunarheimila hefur sérþekkingu í meðhöndlun aldraðra og öldrunarsjúkdóma en ekki fatlaðra. Allur aðbúnaður, næringarinnihald mats sem er í boði hverju sinni, tónlist og dægradvöl er yfirleitt sérsniðin að þörfum og smekk aldraðra íbúa hjúkrunarheimila en ekki fatlaðra.

Fötluðum einstaklingum, sérstaklega konum, stafar oft mun meiri hætta af því að það sé brotið á þeim en ófötluðum t.d. kynferðislega og fjárhagslega og öll umönnun fatlaðra kallar á öðruvísi nálgun en umönnun eldra fólks. Á hjúkrunarheimilum eru oft vistaðir eldri einstaklingar með heilabilanir og hegðunartruflanir. Sambúð yngra fólks með slíku fólki getur verið ógnvekjandi og hreinlega valdið áfalli á lífsleiðinni. Það er mikilvægt að vera í félagslegu umhverfi sem hæfir fólki þar sem það er statt á lífsleiðinni og upplifa öryggi á heimilinu sínu.

Fatlaðir rétt eins og allir aðrir þurfa að geta ræktað áhugamál sín og mæta verður líkamlegum, andlegum og félagslegum þörfum þeirra en dvöl á hjúkrunarheimili í stað þess að búa á eigin heimili hefur veruleg áhrif á líf og réttindi fólks, s.s. greiðslur, þjónustu, daglegt líf og takmarkar persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti .álit sbr. Álit Umboðsmanns Alþingis nr. 9897/2018.

Í lögum nr. 88/2011 um réttindagæslu fyrir fatlað fólk er fjallað um nauðung, en þau lög gilda ekki um aldraða einstaklinga á hjúkrunarheimilum. Fatlaðir eiga t.d. að hafa stjórn á eigin lyfjatöku og eiga rétt á að stjórna hvenær það sefur, fer á fætur, hvað það borðar o.fl.

Ef starfsmenn hjúkrunarheimila framkvæma inngrip í líf fatlaðra til jafns við aldraða, gilda strangar reglur um tilkynningarskyldu til réttindagæslumanns hins fatlaða, en leiða má að því líkur að almennt starfsfólk hjúkrunarheimila geri ekki greinarmun á skyldum sínum í umönnun fatlaðra og aldraðra.

Á hjúkrunarheimilum er t.d. eftirlitsbúnaður með heimilisfólki og aðgengi íbúa og gesta inn og út mjög takmarkað. Samvist með fjölskyldu og vinum eru mikilvæg lífsgæði sem allir eiga rétt á og húsnæðisúrræði sem standa til boða fyrir fatlaða verða þar að mæta þeirri þörf að hinir nánustu geti dvalið hjá þeim í heimsóknum.

Nauðung er einnig mjög matskennt hugtak en öll ofangreind atvik væri hæglega hægt að telja til nauðungar. Nauðung getur t.d. verið þegar líkamlegri þvingun er beitt eða fólk fær ekki að hafa hluti sem það á eða fær ekki að rækta áhugasvið sín. Það telst til nauðungar þegar fólk er t.d þvingað til að gera það sem það vill ekki gera eða fær ekki að gera það sem það vill.

Undirmönnuð hjúkrunarheimili sem hafa á að skipa starfsfólki sem hefur ekki þekkingu á þjónustu við fatlaða er ávísun á mannréttindabrot og bótaskyldu sveitarfélaga fyrir að sinna ekki lögboðnu hlutverki sínu!

Það þarf að fjölga íbúðakjörnum og þjónustuíbúðum fyrir fatlaða í samræmi við óskir þeirra um búsetuform!

Í Hafnarfirði var nýverið brotið blað í húsnæðisúrræðum fyrir fatlaða. Íbúðakjarninn, Stuðlaskarð er einstakur að því leyti að hann er í eigu íbúanna sjálfra, en það er gjörólíkt því sem áður hefur sést hér á landi.

Mikil áhersla var lögð á sjálfsákvörðunarrétt og búsetufyrirkomulag allra íbúanna var í samræmi við meginreglur Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk samkvæmt óskum þeirra. Íbúar koma sjálfir að ráðningu starfsfólks og íbúðakjarninn er svo rekinn með rekstrarsamningi við Hafnarfjarðarbæ.

Slíkt búsetuform er ekki eingöngu til þess fallið að veita fötluðum aukna stjórn og ábyrgð á eigin lífi og velferð, heldur má einnig leiða að því líkur að til lengri tíma dragi slíkt búsetuform úr þörf á öðrum sértækum úrræðum til að tryggja félagslegar grunnþarfir, þar sem fatlaðir einstaklingar geta í auknum mæli axlað ábyrgð á eigin hamingju og velferð á sínum forsendum.

Í þessum málaflokki er mikilvægt að hlustað sé á kröfur fatlaðra í skipulags- og byggingarráði til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á fjölbreyttara búsetuformi fatlaðra!

Með fjölgun á fjölbreyttu og sjálfstæðu búsetuúrræði er í ríkari mæli hægt að tryggja fötluðum NPA samning!

Notendastýrð persónulega aðstoð (NPA) samningar eru í dag gerðir við sveitarfélög í þeim tilgangi að veita fötluðum ríkara forræði á eigin málefnum.

Í málefnum fatlaðra er mikilvægt að ráðamenn hlusti á kröfur fatlaðra í t.d. ráðgjafaráði og skipulags- og byggingarráði til að tryggja áframhaldandi fjölbreytt og sjálfstætt búsetuform fatlaðra!

NPA er þjónustuform sem byggir á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf og gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum það býr. Fatlað fólk stýrir því hvernig aðstoðin er skipulögð, hvaða aðstoð er veitt, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana enda er NPA besta lausnin til þess að uppfylla einn mikilvægasta kaflann í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks; þ.e. kaflinn um sjálfstætt líf.

Fatlaður einstaklingur sem dvelur á hjúkrunarheimili getur ekki fengið NPA-samning. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það samrýmist ekki ábyrgð og forræði á þeirri starfsemi sem fram fer á stofnunum, að þar innandyra séu t.d. starfandi ráðnir aðstoðarmenn sem ekki lúta boðvaldi stjórnenda heldur íbúa og má því að öllum líkindum draga þá ályktun að fatlaður einstaklingur sem vistaður er á hjúkrunarheimili hefur ekkert boðvald yfir starfsmönnum hjúkrunarheimila sem eiga að veita fötluðum einstaklingi þá lögboðnu þjónustu sem hann á rétt á!

Lokaorð

Kostnaður við þjónustu fatlaða er ávallt til umræðu, og til þess fallinn að valda togstreitu. Að ótímabært vista fatlaða einstaklinga á hjúkrunarheimilum landsins er ávísun á bótaskyldu ríkis- og sveitarfélaga, sem mun í kjölfarið bara kalla á fjáraustur úr opinberum sjóðum í formi skaða- eða sanngirnisbóta.

Miðað við núverandi stöðu í þessum málefnum er bara tímaspursmál hvenær fatlaðir einstaklingar og aðstandendur þeirra munu í ríkari mæli leita áheyrnar dómstóla ef ráðamenn hlusta ekki. Ef ætlunin er að fyrirbyggja austur úr sjóðum sveitarfélaga verður að bregðast við með skjótum hætti og hlusta á kröfur fatlaðra í húsnæðismálum!

Framsókn í Hafnarfirði hafa í dag að skipa reynslumiklum og lausnarmiðuðum frambjóðendum sem hafa látið velferðar- og skipulagsmálin sig miklu máli skipta og hafa einnig langa reynslu af því að vera í áheyrnar- og þjónustuhlutverki fyrir fatlaða og jaðarhópa!

Framsókn í Hafnarfirði skilur vel hversu mikilvægt er að tryggja slíkum einstaklingum áheyrn. Sem öflugur miðjuflokkur skilur Framsókn vel hvernig samspil fjárstjórnar- og skipulagsvalds og félagslegt þjónustuhlutverk fer fram!

Mikið gott og þarft starf hefur verið unnið á síðastliðnum árum og fyrri verk Framsóknar sýna að þessu hlutverki var sinnt af miklum dugnaði, en betur má ef duga skal!

Er ekki bara best að kjósa Framsókn til að tryggja áheyrn fatlaðra -og jaðarhópa í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar og í ráðgjafaráði og skipulags- og byggingarráði til að tryggja aukið sjálfstætt og fjölbreytt búsetuform fatlaðra!

Sindri Mar Jónsson, er lögfræðingur og skipar tíunda sæti framboðs Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. apríl 2022.

Categories
Greinar

Um­ferðar­stjórnun með gervi­greind

Deila grein

25/04/2022

Um­ferðar­stjórnun með gervi­greind

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er löngu sprungin. Við höfum öll upplifað hefðbundna umferðarhnúta, og þeim tímum dagsins sem þeir myndast fjölgar. Ómarkvissa núverandi umferðarstjórnunar á höfuðborgarsvæðinu sýnir sig nú á fleiri tímum en einungis kringum átta til hálf tíu á morgnana og klukkan fjögur til hálf sex á daginn. Það liggur fyrir að þörf er á nýrri nálgun í umferðarstjórnun hér á höfuðborgarsvæðinu, en skipulag þess er öðruvísi en í erlendum borgum og krefst öðruvísi áherslna.

Snjöll umferð

Staðan í umferðarstjórnun er þessi í dag: úrelt tækni er nýtt þar sem ljósaskipti ákveðast fyrir fram (með örfáum undantekningum t.d. ljós við Kópavogslaug og við Garðaskóla) og örfáir starfsmenn fylgjast með. Erlendis fjölgar þeim borgum ört sem nýta gervigreind við umferðastjórnun. Þar er nýjasta tækni notuð til að leysa umferðarhnúta og koma farartækjum hraðar frá A til B.

En hvernig getur gervigreind einfaldað umferðarstjórnun til muna? Hvað gerir hún? Á fyrstu dögum lærir hún umferðarmynstur og tekur mið af aðstæðum, veðráttu og tíma dags. Hún horfir á alla samgöngumáta, þ.e. bílar, almenningssamgöngur (aðallega strætóbílar hér á landi) ásamt gangandi og hjólandi vegfarendur. Gervigreindin notar myndavélar, skynjara og jafnvel forrit á borð við Google Maps við þann lærdóm. Með síaukandi þekkingu á umferðinni og þeim mynstrum sem það lærir getur gervigreindin stjórnað umferðinni, leyst umferðarhnúta og komið í veg fyrir flöskuhálsa. Með þessu bætist umferðarflæði allan daginn alla daga og gervigreindin leggur hönd á plóg við að leysa erfiða hnúta á háannatímum.

Erlendar fyrirmyndir

Þó svo að hugmynd um umferðarstjórnun hljómar útópísk þá er hún ekki ný af nálinni. Við værum ekki að finna upp hjólið. Erlendis færist nýting gervigreindar við umferðarstjórnun verulega í aukana og fyrirtæki sem bjóða upp á slíkar lausnir hafa haslað sér völl á markaði.

Sem dæmi um borgir sem nýta þessa lausn má nefna Berlin, Barcelona, Singapore og Las Vegas. Víða á Norðurlöndunum er tæknin nýtt við umferðarstjórnun, en höfundur fann ekki heimildir fyrir því að hún sé nýtt þar í öllum fösum.

Þá kemur til álita að í dæmatalningunni koma stórar borgir fram. Ísland er fámenn þjóð og á höfuðborgarsvæðinu búa töluvert færri íbúar en í þessum borgum. Í því samhengi er bent á borgina Hagen í Þýskalandi, en þar búa um 188 þúsund manns. Færri en hér á höfuðborgarsvæðinu. Í Hagen er gervigreind nýtt á ofangreindan máta við að stjórna umferð og leysa hnúta. Ef öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sameinast í verkefni um að innleiða notkun gervigreindar við umferðarstjórnun þá er það gerlegt.

Stórhöfuðborgarsvæðinu til hagsbóta

Samgöngur eru grunnstoð samfélagsins. Við viljum öll að þær séu eins góðar og hægt er. Góðar samgöngur eru hagræðing fyrir bæði atvinnulífið og samfélagið í heild. Foreldrar þurfa ekki að kvíða fyrir umferðinni við að sækja börnin sín í leik- eða grunnskóla eftir vinnu og fólk er líklegra til að koma tímanlega í skóla og vinnu. Enn fleiri dæmi má finna um ágæti góðra samgangna, sem myndu eflaust bætast með notkun gervigreindar.

Einnig er um umhverfismál að ræða. Það minnkar losun ef bifreiðar komast fyrr á áfangastað og eru ekki stanslaust að hemla og gefa í.

Megum ekki stíga á bremsuna

Stjórnvöld hafa nú þegar brugðist við sprunginni umferð á höfuðborgarsvæðinu. Þar á innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, mikið lof skilið. Hann hefur náð að mynda samkomulag sveitarfélaganna um samgöngusáttmála ásamt því að hefja framkvæmdir við nýja Sundabrú, loksins. Blessunarlega erum við með ráðherra sem hefur stigið stór skref, en við getum þó ekki stigið á bremsuna. Við þurfum að gefa í og leita fleiri lausna á stöðu umferðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ein þeirra lausna ætti að vera sú að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu taki höndum saman og innleiði notkun gervigreindar við umferðarstjórnun í samvinnu við ríkið í þágu allra íbúa svæðisins.

Gunnar Sær Ragnarsson, situr í 4. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. apríl 2022.

Categories
Greinar

Ný nálgun á mál­efni Suður­fjarðar­vegar

Deila grein

23/04/2022

Ný nálgun á mál­efni Suður­fjarðar­vegar

Með sameiningu Fjarðabyggðar varð Suðurfjarðarvegur, sem liggur frá Reyðarfirði um Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Breiðdal og þaðan áfram suður, þjóðvegur í þéttbýli. Vegurinn liggur í gegnum stóran hluta sveitarfélagsins og um þennan veg, sem er er Þjóðvegur 1, fer mikil umferð á degi hverjum; fólksflutningabifreiðar vegna atvinnu- og skólasóknar íbúa Fjarðabyggðar, vöruflutningar með afurðir tengdum sjávarútvegi og laxeldi sem eru hluti af grunnatvinnuvegum fjórðungsins, ásamt einkabifreiðum sem hefur fjölgað mjög í takt við aukna ferðamennsku.

Málefni Suðurfjarðarvegar hafa lengi verið til umfjöllunar og öllum ætti að vera ljóst að ástand vegarins ekki boðlegt fyrir Þjóðveg 1 og þann mikla umferðarþunga sem um veginn fer á degi hverjum. Framsókn í Fjarðabyggð hefur síðustu ár, líkt og aðrir flokkar í bæjarstjórn, barist ötullega fyrir því að Suðurfjarðarvegur verði settur í forgang í samgönguáætlun. Þrátt fyrir að hans sé nú getið á þriðja hluta þeirrar áætlunar, árið 2030-34, teljum við það langt frá því að vera nóg. Eitt af forgangsverkefnum nýrrar bæjarstjórnar verður því áfram að vera að þrýsta á ríkisvaldið um að endurbótum Suðurfjarðarvegar verði flýtt – en hvernig er best að nálgast það verkefni? Í huga Framsóknarmanna í Fjarðabyggð er nauðsynlegt að huga að nýjum nálgunum í málinu til að reyna að koma því áfram og tryggja að framkvæmdum verði flýtt eins mikið og kostur er.

En hvað er til ráða?

Eins og áður sagði hafa bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð verið óþrjótandi við að þrýsta á um að flýta endurbótum við Suðurfjarðarveg en ekki hefur enn tekist að ýta þeim framar í samgönguáætlun. Framkvæmd við endurbætur Suðurfjarðarvegar er stór framkvæmd, enda um langan veg að ræða þar sem ýmis verkefni bíða, auk þess sem samgöngubætur annarsstaðar á landinu hafa að sjálfsögðu áhrif á stöðu mála. Það er ljóst að þessi fíll verður ekki gleyptur í einum bita, það er ekki raunhæft. Þurfum við þá ekki nýja nálgun?

Framsókn í Fjarðabyggð mun því leggja fram þá tillögu við samgönguyfirvöld að framkvæmdum við veginn verði skipt í hluta og skapa þannig svigrúm til að hægt verði að flýta framkvæmdum. Þannig verði í forgangi að tvöfalda brýr á veginum; yfir Sléttuá í Reyðarfirði, brýr í botni Fáskrúðsfjarðar og yfir Stöðvará í Stöðvarfirði. Í framhaldi af þessu verði síðan farið í vegakafla á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar og í Stöðvarfirði. Með þessum hætti ætti að vera mögulegt að hefjast fyrr handa við þetta mikilvæga verkefni. Það þolir enga bið.

Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Elís Pétur Elísson

Höfundar eru mannauðs- og öryggisstjóri og framkvæmdastjóri og skipa 4. og 5. sæti á lista Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. apríl 2022.

Categories
Greinar

Halldór Kiljan Laxness í 120 ár

Deila grein

23/04/2022

Halldór Kiljan Laxness í 120 ár

120 ár eru frá því að Hall­dór Kilj­an Lax­ness fædd­ist í Reykja­vík 23. apríl árið 1902 og því fögn­um við. Til að und­ir­búa þau tíma­mót las ég bók Hall­dórs Guðmunds­son­ar: Hall­dór Lax­ness ævi­saga. Þessi bók er stór­virki og fjall­ar um ævi skálds­ins og menn­ing­ar- og stjórn­mála­sögu Íslands, Evr­ópu og Banda­ríkj­anna á 20. öld. Bók­in grein­ir frá bernsku Hall­dórs, náms­ár­um, dvöl hans í Kaup­manna­höfn, Taormínu, Hollywood, sam­skipt­um hans við helstu lista- og stjórn­mála­menn þjóðar­inn­ar, verk­um hans og svo hvernig átak­an­leg heila­bil­un­in náði und­ir­tök­un­um í lok­in. Saga Hall­dórs er ald­ar­speg­ill síðustu ald­ar.

Skáldið

Fyrsta skáld­saga Hall­dórs, Barn nátt­úr­unn­ar, kom út haustið 1919 þegar höf­und­ur­inn var aðeins 17 ára gam­all! Sag­an vakti at­hygli og í Alþýðublaðinu sagði m.a.: „Og hver veit nema að Hall­dór frá Lax­nesi eigi eft­ir að verða óska­barn ís­lensku þjóðar­inn­ar.“ Upp frá þessu sendi Hall­dór frá sér bók nán­ast á hverju ári í yfir sex ára­tugi. Af­köst hans voru mik­ill og skrifaði hann fjölda skáld­sagna, leik­rita, kvæða, smá­sagna­safna og end­ur­minn­inga­bóka og gaf auk þess út mörg greina­söfn og rit­gerðir. Kunn­ustu bók­mennta­verk Hall­dórs eru skáld­sög­urn­ar; Salka Valka, Sjálf­stætt fólk, Heims­ljós, Íslands­klukk­an og Gerpla, og raun­ar mætti telja upp mun fleiri. Árið 1955 hlaut Hall­dór Nó­bels­verðlaun­in í bók­mennt­um, fyrst­ur Íslend­inga, fyr­ir sagna­skáld­skap sinn sem end­ur­nýjað hafði stór­brotna ís­lenska frá­sagn­arlist. Verðlaun­in vöktu mikla at­hygli á verk­um Hall­dórs er­lend­is og hafa bæk­ur hans komið út á yfir fjöru­tíu tungu­mál­um um víða ver­öld og út­gáf­urn­ar eru yfir 500 tals­ins!

Per­són­an Hall­dór

Hall­dór var um­deild­ur vegna skrifa sinna og skoðana. Fylgispekt hans við Sov­ét­rík­in og þá hug­mynda­fræði er rétti­lega mest gagn­rýnd og eld­ist einkar illa. Í Skálda­tíma, sem kom út árið 1963, ger­ir Hall­dór til­raun til að gera þetta tíma­bil upp. Ýmsum fylgd­ar­mönn­um hans mis­líkaði mjög hvernig hann skrifaði um Sov­ét­rík­in en öðrum að hann hefði getað gengið lengra. Það mál verður ekki krufið hér enda erum við að fagna af­rek­um Nó­bels­skálds­ins. Að mínu mati eru það ekki aðeins skáld­verk Hall­dórs sem eru ald­ar­speg­ill ís­lensku þjóðar­inn­ar held­ur líka ævi hans sjálfs. Hann fæðist á tíma þegar Íslend­ing­ar eru fá­tæk þjóð og þegar hann kveður er heimalandið orðið eitt far­sæl­asta ríki ver­ald­ar­inn­ar. Umbreyt­ing­arn­ar eru gríðarleg­ar á þessu stuttu tíma­bili og eng­an skyldi undra að mik­il hug­mynda­fræðilega átök hafi átt sér stað á Íslandi. Eitt af því sem hef­ur heillað mig við ævi Hall­dórs er hversu mikið hug­rekki hann sýndi við að til­einka sér stefn­ur og strauma er­lend­is. Ung­ur sigldi hann til Kaup­manna­hafn­ar, dvaldi á Ítal­íu, hann fór til Hollywood til að kynna sér allt um hinn vax­andi kvik­myndaiðnað, var um­hverf­is- og húsafriðun­ar­sinni. Hann var á und­an sinni samtíð og án efa hef­ur þetta gert Hall­dór að þeim heims­borg­ara sem hann var en líka orðið til þess að hann sá land sitt og sögu í öðru ljósi.

Staf­setn­inga­stríð

Meðan seinni heims­styrj­öld­in geisaði háðu Íslend­ing­ar stríð um staf­setn­ingu. Frétt birt­ist í Vísi í októ­ber 1941 um vænt­an­leg­ar bæk­ur frá Vík­ingsprenti, þar sem áformað var að gefa Íslend­inga­sög­urn­ar út í nýrri út­gáfu, þar sem text­inn yrði með nú­tímastaf­setn­ingu og ætt­ar­tölu­langlok­um yrði sleppt. Til­kynnt var að Lax­dæla yrði fyrsta bók­in í flokkn­um. Að þess­ari út­gáfu stóðu þeir Ragn­ar Jóns­son – kennd­ur við Smára, Stefán Ögmunds­son og Hall­dór K. Lax­ness. Upp hófst hið svo­kallað staf­setn­inga­stríð. Jón­as Jóns­son frá Hriflu var al­farið á móti þess­ari út­gáfu en hafði af­rekað það að gjör­bylta mennta­kerf­inu, stofna Rík­is­út­varpið og leggja drög að stofn­un Þjóðleik­húss­ins. Jón­as taldi að Alþingi yrði að koma í veg fyr­ir að dýr­grip­ir þjóðar­inn­ar, forn­rit­in, væru dreg­in niður í svaðið, eins og hann orðaði það á þingi. Mikl­ar deil­ur ríktu um út­gáf­una í hart­nær tvö ár, höfðað var mál gegn út­gáf­unni og lyktaði með því að Hæstirétt­ur batt enda á staf­setn­ing­ar­stríðið í júní 1943 þegar þre­menn­ing­arn­ir voru sýknaðir, þar sem dóm­ur­inn komst að þeirri niður­stöðu að forn­rita­lög­in brytu í bága við stjórn­ar­skrána. Vegna þess­ara deilna end­ur­nýjaði Hall­dór kynni sín við forn­bók­mennt­irn­ar enn frek­ar næstu árin og afrakst­ur þess, Gerpla, kom út árið 1952.

Ný sókn fyr­ir forn­bók­mennt­ir

En af hverju er ég að rifja upp þessa sögu og hvers vegna þykir mér hún merki­leg? Sag­an er merki­leg vegna þess að þarna voru í stafni helstu for­ystu­menn þjóðar­inn­ar og höfðu sterka skoðun á tungu­mál­inu og menn­ing­ar­arf­in­um. Ég tel að okk­ar kyn­slóð skuldi fyrri kyn­slóðum að við ger­um forn­bók­mennt­un­um betri skil og fær­um þær nær unga fólk­inu. Ég tel að það eigi að end­urút­gefa Íslend­inga­sög­urn­ar með það að mark­miði að ein­falda aðgengi að þeim. Sög­urn­ar eru okk­ar arf­leifð og eru stór­skemmti­leg­ar. Hins veg­ar er það því miður svo að unga kyn­slóðin á sí­fellt erfiðara með nálg­ast inn­takið. Eitt af því sem ég hef dáðst að und­an­far­in ár er end­ur­sögn Kristjáns Guðmunds­son­ar á Grett­is sögu og mynd­lýs­ing­ar Mar­grét­ar Ein­ars­dótt­ur Lax­ness. Það sama má segja um end­ur­sögn Bryn­hild­ar Þór­ar­ins­dótt­ur á Eg­ils sögu, Njálu og Lax­dælu, end­ur­sögn Ein­ars Kára­son­ar á sögu Grett­is og Emblu Ýrar Báru­dótt­ur á sög­um úr Njálu. Eins hef­ur Þór­ar­inn Eld­járn end­ur­samið Há­va­mál Snorra-Eddu fyr­ir börn. Ég hvet höf­unda okk­ar ein­dregið til að halda áfram á þess­ari braut og gera miklu meira af því að nú­tíma­væða forn­bók­mennt­irn­ar okk­ar fyr­ir kyn­slóðir nýrra les­enda. Hollywood hef­ur gert góða hluti með Mar­vel-mynd­un­um sín­um um Þór! Ég full­yrði að ein besta af­mæl­is­gjöf til nó­b­el­skálds­ins væri að við gerðum átak í þessa veru og tryggðum með því enn betra aðgengi barna að menn­ing­ar­arf­in­um. Öll börn ættu að þekkja Freyju, Þór og Óðin!

Að mínu mati stend­ur þó eitt stend­ur upp úr þegar ævi Hall­dórs er skoðuð; það at­læti og ást sem hann hlaut sem ung­ur dreng­ur frá for­eldr­um sín­um og ömmu. Þau áttuðu sig fljótt á því að hann var hæfi­leika­rík­ur og þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, þó efna­lít­il, til að stuðla að fram­göngu hans og að Hall­dór gæti látið drauma sína ræt­ast – sem um leið urðu draum­ar þjóðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl 2022.

Categories
Greinar

Með fjölskyldur í Fjarðabyggð í fyrirrúmi

Deila grein

21/04/2022

Með fjölskyldur í Fjarðabyggð í fyrirrúmi

Sumardagurinn fyrsti er runninn upp. Þessi dagur hefur í gegnum tíðina verið helgaður börnum og fjölskyldum, löngum verið mikill hátíðisdagur og markar að mörgu leyti nýtt upphaf þegar drungi og kuldi vetursins byrjar að víkja fyrir birtu og yl sumarsins. Það er því er ekki úr vegi nú í upphafi sumars, og lok kjörtímabils, að horfa yfir farinn veg og skoða aðeins það sem hefur áunnist á síðustu fjórum árum í málefnum fjölskyldna í Fjarðabyggð.

Stefna Fjarðabyggðar hefur verið sú að sveitarfélagið sé í fremstu röð sem góður staður fyrir fjölskyldur og þess vegna hefur verið lögð áhersla á stuðning við þær. Á þessu kjörtímabili hefur fjármunum þannig verið forgangsraðað í þágu fjölskyldna og rík áhersla lögð á stefnumótun í málaflokkum sem snúa að þeim.

Skólamál

Á þessu kjörtímabili hefur bæjarstjórn Fjarðabyggðar undirstrikað áherslur sínar með ákvörðunum um byggja undir öflugt og gott samfélag þar sem málefni fjölskyldna eru í forgrunni. Þannig hefur fjármunum og krafti verið varið í uppbyggingu skólamannvirkja – og af því erum við stolt.

Á því kjörtímabili sem senn lýkur hefur m.a. verið lokið við að stækka leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði og er húsnæði skólans nú vel í stakk búið til að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun íbúa til framtíðar. Þá var ráðist í miklar framkvæmdir við húsnæði og lóð grunnskólans á Breiðdalsvík. Leikskólanum á Breiðdalsvík var einnig komið þar fyrir þannig að nú er miðstöð alls skólastarfs í Breiðdal komið undir eitt þak við góðar aðstæður. Þá hefur undirbúningur að stækkun leikskólans á Eskifirði verið í gangi og skrifað verður undir verksamninga þar um nú á næstu dögum og framkvæmdir hefjast þar í kjölfarið. Þá eru að hefjast framkvæmdir við lóð Nesskóla á Norðfirði á sumri komanda sem eru löngu tímabærar. Þetta eru nokkur þau atriði sem upp úr standa eftir kjörtímabilið.

Íþrótta- og tómstundamál

Íþrótta- og tómstundamál eru og munu verða fyrirferðamikil í rekstri sveitarfélagins, og einn af þeim þáttum sem horft er til þegar rætt er um öflugt fjölskyldusamfélag. Íþrótta- og tómstundastarf á breiðum grunni er mikilvægur hlekkur í fornvarnarstarfi og Fjarðabyggð býr vel því að í byggðakjörnum sveitarfélagsins eru rekin öflug íþróttafélög með mikla og góða starfsemi þar sem horft er til þess að flestir finni eitthvað við sitt hæfi.

Eitt af þeim stóru verkefnunum sem ráðist var í í kjörtímabilinu og ljúka mun á næstu mánuðum er bygging nýs íþróttahús á Reyðarfirði. Við sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar árið 2020, var ákveðið að nýta þá fjármuni sem til yrðu til uppbyggingar innviða á Reyðarfirði. Fyrir valinu varð að ráðst í byggingu á nýju og glæsilegu íþróttahúsi sem nú er risið á á svæðinu við Fjarðabyggðarhöllina og Grunnskóla Reyðarfjarðar. Um þessar mundir er unnið að því að ljúka við gerð byggingarinnar og er það von okkar að hún verði komin í full not á haustdögum. Með tilkomu þessa húss bætist enn í flóru glæsilegra íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu sem ýta mun undir enn öflugra starf á þeim vettvangi til framtíðar.

Þá hófst á árinu 2021 tilraunaverkefni nýs kerfis almenningssamgangna í Fjarðabyggð sem stendur til áramóta 2022. Hinu nýja kerfi var ætlað að leysa af hólmi allskyns akstur sem Fjarðabyggð stóð fyrir um sveitarfélagið í tengslum við skóla, vinnu og íþrótta- og tómstundastarf. Í mínum huga er hér um gríðarstórt mál að ræða sem snertir fjölskyldur í Fjarðabyggð. Um er að ræða tímamóta tilraun til að tengja betur saman byggðakjarna sveitarfélagins og gera fólki kleift að sækja skóla, vinnu,og þjónustu þvert á sveitarfélagið. Með kerfinu opnast auk þess á möguleika barna og ungmenna, sem og fullorðinna, til að sækja íþróttaæfingar, afþreyingu og menningu utan síns byggðakjarna og styrkir það samfélagið okkar í Fjarðabyggð allt. Strax í sumar þarf að hefja vinnu við að meta árangur verkefnisins og koma á kerfi sem keyrt verður eftir til framtíðar.

Öflug og góð samstaða bæjarstjórnar

Uppbygging og verkefni tengd málum barna, fjölskyldna og þjónustu við þau eru stór og kostnaðasöm. Þegar kemur að slíkum verkefnum og forgangsröðun í þeirra þágu er ekki sjálfgefið að yfirvöldum á hverjum tíma takist að ná samstöðu um slíka uppbyggingu. Í Fjarðabyggð hefur bæjarstjórn sem betur fer tekist það og myndast hefur góð samstaða um flestar ákvarðanir sem teknar hafa verið í bæjarstjórn og nefndum og ráðum sveitarfélagsins þvert á flokkslínur sem hefur verið mikið gæfuspor. Samvinna er alltaf grundvöllur til góðra verka.

Höldum áfram á sömu braut!

Hér á undan hefur verið aðeins verið tæpt á nokkrum þeirra framfaraskrefa sem tekin hafa verið við þjónustu við fjölskyldur í Fjarðabyggð undanfarin fjögur ár. Ekki síður er hægt að nefna stofnun Fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar í upphafi kjörtímabilsins, en undir það heyra fjölskyldumál í víðum skilnigu; félagsþjónusta, barnavernd, grunnskólar, leikskólar og tónlistarskólar, æskulýðs- og íþróttamála og frístundamál barna og ungmenna. Með stofnun sviðsins hefur náðst mikil og góð yfirsýn yfir alla þessa málaflokka, og sviðinu gert kleift að takast betur á við þau fjölþættu og mikilvægu verkerfni sem undir þessa málaflokka heyra. Þá hefur verkefnið Sprettur, þar sem unnið er eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun og grípa fljótt inn í vanda barna með viðeigandi stuðningi úr nærumhverfinu, gefist vel og árangur verið afar góður.

Framsókn í Fjarðabyggð vill að haldið verði áfram á þessari sömu braut og Fjarðabyggð verði áfram í fararbroddi þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldu og góð samstaða náist áfram um þau verkefni. Framsókn í Fjarðabyggð vill hafa fjölskyldur í Fjarðabyggð áfram í fyrirrúmi og er tilbúið til að halda áfram á þeirri vegferð til framtíðar. Við óskum því eftir stuðningi kjósenda í sveitarfélaginu þann 14.maí nk. til þess.

Að lokum sendi ég íbúum Fjarðabyggðar og landsmönnum öllum mínar bestu óskir um gleðilegt og veðursælt sumar!

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og situr í 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. apríl 2022.

Categories
Greinar

Íslenski skálinn er klár í slaginn!

Deila grein

20/04/2022

Íslenski skálinn er klár í slaginn!

Einn mik­il­væg­asti vett­vang­ur sam­tíma­list­ar í heim­in­um, Fen­eyjat­víær­ing­ur­inn 2021, opn­ar dyr sín­ar að nýju í vik­unni, ári á eft­ir áætl­un vegna heims­far­ald­urs­ins. Tví­ær­ing­ur­inn hef­ur verið hald­inn annað hvert ár með nokkr­um und­an­tekn­ing­um all­ar göt­ur síðan 1895 og er orðinn þunga­miðja í alþjóðleg­um list­um og menn­ingu. Lista­menn hvaðanæva úr heim­in­um sem hafa verið vald­ir af þjóðlönd­um sín­um streyma til Fen­eyja til að kynna list sína og varpa já­kvæðu ljósi á land og þjóð. Það er mik­ill heiður fyr­ir þann ís­lenska mynd­list­ar­mann sem val­inn er til þátt­töku á tví­ær­ingn­um hverju sinni. Ísland tók fyrst þátt í hátíðinni árið 1960 þegar þeir Jó­hann­es Sveins­son Kjar­val og Ásmund­ur Sveins­son voru vald­ir til þátt­töku og hef­ur síðan þá ein­vala lið ís­lenskra lista­manna tekið þátt í hátíðinni, allt frá Erró til Kristjáns Davíðsson­ar.

Full­trúi Íslands á Fen­eyjat­víær­ingn­um nú er mynd­list­armaður­inn Sig­urður Guðjóns­son. Hann er þekkt­ur fyr­ir magnþrung­in víd­eó­verk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Sig­urður á yfir tutt­ugu einka­sýn­ing­ar að baki víðs veg­ar um heim­inn og hlaut hann meðal ann­ars Íslensku mynd­list­ar­verðlaun­in árið 2018. Á síðustu árum hef­ur Sig­urður einnig unnið í sam­starfi við tón­skáld og þannig búið til verk sem sam­eina víd­eó, raf­hljóð og lif­andi flutn­ing list­unn­end­um til yndis­auka.

Þátt­taka á hinum alþjóðlega Fen­eyjat­víær­ingi skipt­ir máli fyr­ir ís­lenska menn­ingu. Árið 1984 varð sú já­kvæða breyt­ing að Ísland eignaðist einn eig­in þjóðarskála til sýn­ing­ar­halds á tví­ær­ingn­um en frá ár­inu 2007 hef­ur skál­inn verið til húsa víðsveg­ar um borg­ina. Árið 2020 tryggðu stjórn­völd hins veg­ar fjár­magn til að færa sýn­ing­ar­svæði Íslands á Fen­eyjat­víær­ingn­um 2022 á aðalsvæði hátíðar­inn­ar. Sam­hliða því lagði Íslands­stofa til fjár­magn til kynn­ing­ar á þátt­töku Íslands í sam­vinnu við Kynn­ing­armiðstöð ís­lenskr­ar mynd­list­ar. Með til­færslu ís­lenska skál­ans skap­ast ótví­ræð tæki­færi til að kynna bet­ur ís­lenska mynd­list en í kring­um sex hundruð þúsund gest­ir heim­sækja að jafnaði það svæði sem skál­inn stend­ur nú á. Það þýðir að gesta­fjöldi í ís­lenska skál­an­um geti nær tutt­ugufald­ast frá því sem verið hef­ur síðastliðin ár.

Er þetta í takt við áhersl­ur stjórn­valda um að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar á sviði menn­ing­ar og lista, meðal ann­ars á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Munu slík­ar áhersl­ur meðal ann­ars birt­ast í nýrri mynd­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland sem kynnt verður á fyrstu 100 starfs­dög­um nýs menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is. Það er gleðilegt að fleiri fái notið fram­lags Íslands á Fen­eyjat­víær­ingn­um með betra aðgengi. Íslenski skál­inn með Sig­urð Guðjóns­son í stafni er til­bú­inn í tví­ær­ing­inn, landi og þjóð til sóma!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2022.

Categories
Greinar

Öryrkjar og aldraðir

Deila grein

20/04/2022

Öryrkjar og aldraðir

Kjara­samn­ing­ar eru sterk­asta vopn hins vinn­andi manns. Marg­ir hóp­ar semja á tveggja til þriggja ára fresti um kaup og kjör, en það eru til hóp­ar í okk­ar sam­fé­lagi sem semja ekki um kjör sín en það eru aldraðir og ör­yrkj­ar. Mér finnst skrýtið að tengja þessa tvo hópa sam­an, en það er annað mál. Það get­ur verið erfitt fyr­ir ein­stak­linga að verða ör­yrkj­ar. Því get­ur fylgt tekjutap, þung­lyndi, dep­urð, van­líðan og auðvitað bar­átt­an við kerfið. Marg­ir ör­yrkj­ar ein­angra sig frá sam­fé­lag­inu því niður­læg­ing­in get­ur verið mik­il. Ein­stak­ling­ur­inn er ekki leng­ur hluti af vinnustaðar­menn­ingu, hann er stund­um ekki hluti af sam­fé­lag­inu og hon­um get­ur liðið eins og hon­um hafi verið hafnað. Hann kynn­ir sér regl­urn­ar um at­vinnuþátt­töku en þá skerðist ör­ork­an. Hann borg­ar ekki í stétt­ar­fé­lag og hef­ur þar af leiðandi ekki aðgang að ýms­um samn­ings­bundn­um styrkj­um. Flækj­u­stigið fyr­ir sér­eigna­sparnað er mikið. Hátt leigu­verð og dýr mat­arkarfa ger­ir hon­um lífið leitt og stund­um get­ur hann ekki náð end­um sam­an um mánaðamót.

Snú­um okk­ur að eldra fólk­inu. Margt eldra fólk upp­lif­ir það sama og ör­yrkj­ar, þ.e.a.s. dep­urð, ein­mana­leika og ótt­ann við að ná ekki end­um sam­an um hver mánaðamót. Þó svo að eldra fólk eigi af­kom­end­ur get­ur það verið einmana. Önnur áskor­un sem eldra fólk get­ur verið að tak­ast á við er tölvu­læsi. Sum­ir hafa ekki reynslu af snjall­tækj­um og jafn­vel ekki ra­f­ræn skil­ríki og hvað þá greiðan aðgang að sín­um eig­in heima­banka. Ótt­inn við að prófa þessa hluti get­ur verið mik­ill. Ef maður hugs­ar í lausn­um þá væri mögu­lega hægt að nýta þann mannauð sem við höf­um t.d. með því að ör­yrkj­ar, sem eru ekki á vinnu­markaði, geti heim­sótt eldra fólk og kennt því á snjall­tæk­in og fengið þannig laun fyr­ir, án skerðing­ar á ör­orku. Þetta gæti virkað svona:

Öryrki skrá­ir sig í bakv­arðasveit í sínu sveit­ar­fé­lagi og lýs­ir þannig áhuga á að aðstoða eldra fólk á snjall­tæki tvisvar til þris­var í viku. Þannig væri hægt að auka virkni og fé­lags­lega þátt­töku bæði ör­yrkja og eldra fólks. Laun eru greidd út einu sinni á ári í ein­greiðslu, t.d. í byrj­un des­em­ber. Þessi laun myndu alls ekki skerða tekj­urn­ar frá Trygg­inga­stofn­un. Það má líta á þetta sem þeirra kjara­bót og/​eða launa­hækk­un fyr­ir sam­fé­lags­lega virkni.

Kjör eldra fólks og ör­yrkja geta verið mis­jöfn en þeir sem eru verst sett­ir virðast sitja á hak­an­um. Þess­ir hóp­ar geta svo sann­ar­lega tekið mun meiri þátt í sam­fé­lag­inu því í þeim býr mik­il reynsla og þekk­ing og mik­il­vægt að þeir fái tæki­færi til að taka virk­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Sævar Jóhannsson, fram­bjóðandi fyr­ir Fram­sókn í Reykja­nes­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2022.

Categories
Greinar

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Deila grein

19/04/2022

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar árið 2018 sögðumst við ætla að lækka álögur á fjölskyldufólk með hinum ýmsu aðgerðum. Þær aðgerðir voru m.a. stóraukinn systkinaafsláttur á leikskólagjöldum, gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna og hækkun frístundastyrks. Allt sett fram með það að markmiði að öll börn hefðu jöfn tækifæri; jafnan aðgang að góðu heilsusamlegu fæði og gætu notið sín í íþróttum og tómstundum, óháð efnahag. Við ætluðum að fjárfesta í fólki og það gerðum við.

Aukinn systkinaafsláttur

Allt eru þetta baráttumál okkar í Framsókn. Fyrsta verk var að stórauka systkinaafslátt á leikskólagjöldum. Áður en við tókum við var greitt fullt gjald fyrir barn nr. 1, 50% afsláttur var fyrir barn nr. 2 og 75% afsláttur var fyrir barn nr. 3. Við breyttum þessu strax og í dag er áfram fullt gjald fyrir barn nr. 1, 75% afsláttur er fyrir barn nr. 2 og ekki er lengur greitt fyrir fleiri börn. Systkinaafslátturinn á einnig við vegna barna í frístund sem eiga annað systkini í frístund eða systkini samtímis í leikskóla eða hjá dagforeldri.

Grunnur að góðum degi

Á kjörtímabilinu var byrjað að bjóða upp á hafragraut í öllum skólum í Hafnarfirði, bæði fyrir nemendur og starfsfólk, þeim að kostnaðarlausu. Til viðbótar innleiddum við nýjan systkinaafslátt á skólamáltíðir grunnskólabarna. Fyrsta skrefið var stigið í upphafi kjörtímabils þegar ekki var greitt fyrir fleiri en tvö börn. Næsta skref var svo stigið við gerð síðustu fjárhagsáætlunar og nú er að hámarki greitt fyrir 1,75 barn. Við höfum því hafið þá vegferð okkar í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum með mjög markvissum og skilvirkum skrefum. Á næsta kjörtímabili munum við stíga skrefið til fulls.

„Vertu þú sjálf­ur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálf­ur, eins og þú ert“

Við höfum hækkað frístundastyrkinn á kjörtímabilinu. Markmiðið er að gera börnum kleift að taka þátt í skipulögðu starfi óháð efnahag fjölskyldna. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brotthvarfi í eldri aldurshópum iðkenda. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til að njóta sín. Hér vitnum við í texta úr lagi Helga Björnssonar sem við þekkjum svo vel og vísar til mikilvægi þess að hver og einn verði að hafa svigrúm og stuðning til að vera hann sjálfur, finna hvar áhuginn liggur, styrkleikinn og geti með þeim hætti blómstrað í lífinu. Það styrkir samfélagið og gerir það betra og fallegra.

Á næsta kjörtímabili ætlum við koma á frístundastyrk fyrir öll börn til 18 ára en núna er frístundastyrkur eingöngu fyrir börn á grunnskólaaldri.

Fjárfestum í fólki

Það er því ljóst að við höfum aukið ráðstöfunartekjur barnmargra heimila og fjölskyldna í Hafnarfirði á kjörtímabilinu. Við höfum fjárfest í fólki. Við ætlum að halda áfram að gera samfélagið betra og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til að blómstra, vaxa og dafna í okkar góða bæ fáum við til þess áframhaldandi umboð. Framtíðin ræðst á miðjunni – XB.

Valdimar Víðisson, skólastjóri og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Stuðlaskarðs og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2022.