Categories
Greinar

Öryrkjar og aldraðir

Deila grein

20/04/2022

Öryrkjar og aldraðir

Kjara­samn­ing­ar eru sterk­asta vopn hins vinn­andi manns. Marg­ir hóp­ar semja á tveggja til þriggja ára fresti um kaup og kjör, en það eru til hóp­ar í okk­ar sam­fé­lagi sem semja ekki um kjör sín en það eru aldraðir og ör­yrkj­ar. Mér finnst skrýtið að tengja þessa tvo hópa sam­an, en það er annað mál. Það get­ur verið erfitt fyr­ir ein­stak­linga að verða ör­yrkj­ar. Því get­ur fylgt tekjutap, þung­lyndi, dep­urð, van­líðan og auðvitað bar­átt­an við kerfið. Marg­ir ör­yrkj­ar ein­angra sig frá sam­fé­lag­inu því niður­læg­ing­in get­ur verið mik­il. Ein­stak­ling­ur­inn er ekki leng­ur hluti af vinnustaðar­menn­ingu, hann er stund­um ekki hluti af sam­fé­lag­inu og hon­um get­ur liðið eins og hon­um hafi verið hafnað. Hann kynn­ir sér regl­urn­ar um at­vinnuþátt­töku en þá skerðist ör­ork­an. Hann borg­ar ekki í stétt­ar­fé­lag og hef­ur þar af leiðandi ekki aðgang að ýms­um samn­ings­bundn­um styrkj­um. Flækj­u­stigið fyr­ir sér­eigna­sparnað er mikið. Hátt leigu­verð og dýr mat­arkarfa ger­ir hon­um lífið leitt og stund­um get­ur hann ekki náð end­um sam­an um mánaðamót.

Snú­um okk­ur að eldra fólk­inu. Margt eldra fólk upp­lif­ir það sama og ör­yrkj­ar, þ.e.a.s. dep­urð, ein­mana­leika og ótt­ann við að ná ekki end­um sam­an um hver mánaðamót. Þó svo að eldra fólk eigi af­kom­end­ur get­ur það verið einmana. Önnur áskor­un sem eldra fólk get­ur verið að tak­ast á við er tölvu­læsi. Sum­ir hafa ekki reynslu af snjall­tækj­um og jafn­vel ekki ra­f­ræn skil­ríki og hvað þá greiðan aðgang að sín­um eig­in heima­banka. Ótt­inn við að prófa þessa hluti get­ur verið mik­ill. Ef maður hugs­ar í lausn­um þá væri mögu­lega hægt að nýta þann mannauð sem við höf­um t.d. með því að ör­yrkj­ar, sem eru ekki á vinnu­markaði, geti heim­sótt eldra fólk og kennt því á snjall­tæk­in og fengið þannig laun fyr­ir, án skerðing­ar á ör­orku. Þetta gæti virkað svona:

Öryrki skrá­ir sig í bakv­arðasveit í sínu sveit­ar­fé­lagi og lýs­ir þannig áhuga á að aðstoða eldra fólk á snjall­tæki tvisvar til þris­var í viku. Þannig væri hægt að auka virkni og fé­lags­lega þátt­töku bæði ör­yrkja og eldra fólks. Laun eru greidd út einu sinni á ári í ein­greiðslu, t.d. í byrj­un des­em­ber. Þessi laun myndu alls ekki skerða tekj­urn­ar frá Trygg­inga­stofn­un. Það má líta á þetta sem þeirra kjara­bót og/​eða launa­hækk­un fyr­ir sam­fé­lags­lega virkni.

Kjör eldra fólks og ör­yrkja geta verið mis­jöfn en þeir sem eru verst sett­ir virðast sitja á hak­an­um. Þess­ir hóp­ar geta svo sann­ar­lega tekið mun meiri þátt í sam­fé­lag­inu því í þeim býr mik­il reynsla og þekk­ing og mik­il­vægt að þeir fái tæki­færi til að taka virk­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Sævar Jóhannsson, fram­bjóðandi fyr­ir Fram­sókn í Reykja­nes­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2022.

Categories
Greinar

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Deila grein

19/04/2022

Fyrir fólkið, fyrst og fremst

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar árið 2018 sögðumst við ætla að lækka álögur á fjölskyldufólk með hinum ýmsu aðgerðum. Þær aðgerðir voru m.a. stóraukinn systkinaafsláttur á leikskólagjöldum, gjaldfrjálsar skólamáltíðir grunnskólabarna og hækkun frístundastyrks. Allt sett fram með það að markmiði að öll börn hefðu jöfn tækifæri; jafnan aðgang að góðu heilsusamlegu fæði og gætu notið sín í íþróttum og tómstundum, óháð efnahag. Við ætluðum að fjárfesta í fólki og það gerðum við.

Aukinn systkinaafsláttur

Allt eru þetta baráttumál okkar í Framsókn. Fyrsta verk var að stórauka systkinaafslátt á leikskólagjöldum. Áður en við tókum við var greitt fullt gjald fyrir barn nr. 1, 50% afsláttur var fyrir barn nr. 2 og 75% afsláttur var fyrir barn nr. 3. Við breyttum þessu strax og í dag er áfram fullt gjald fyrir barn nr. 1, 75% afsláttur er fyrir barn nr. 2 og ekki er lengur greitt fyrir fleiri börn. Systkinaafslátturinn á einnig við vegna barna í frístund sem eiga annað systkini í frístund eða systkini samtímis í leikskóla eða hjá dagforeldri.

Grunnur að góðum degi

Á kjörtímabilinu var byrjað að bjóða upp á hafragraut í öllum skólum í Hafnarfirði, bæði fyrir nemendur og starfsfólk, þeim að kostnaðarlausu. Til viðbótar innleiddum við nýjan systkinaafslátt á skólamáltíðir grunnskólabarna. Fyrsta skrefið var stigið í upphafi kjörtímabils þegar ekki var greitt fyrir fleiri en tvö börn. Næsta skref var svo stigið við gerð síðustu fjárhagsáætlunar og nú er að hámarki greitt fyrir 1,75 barn. Við höfum því hafið þá vegferð okkar í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum með mjög markvissum og skilvirkum skrefum. Á næsta kjörtímabili munum við stíga skrefið til fulls.

„Vertu þú sjálf­ur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálf­ur, eins og þú ert“

Við höfum hækkað frístundastyrkinn á kjörtímabilinu. Markmiðið er að gera börnum kleift að taka þátt í skipulögðu starfi óháð efnahag fjölskyldna. Einnig á styrkurinn að vinna gegn óæskilegu brotthvarfi í eldri aldurshópum iðkenda. Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til að njóta sín. Hér vitnum við í texta úr lagi Helga Björnssonar sem við þekkjum svo vel og vísar til mikilvægi þess að hver og einn verði að hafa svigrúm og stuðning til að vera hann sjálfur, finna hvar áhuginn liggur, styrkleikinn og geti með þeim hætti blómstrað í lífinu. Það styrkir samfélagið og gerir það betra og fallegra.

Á næsta kjörtímabili ætlum við koma á frístundastyrk fyrir öll börn til 18 ára en núna er frístundastyrkur eingöngu fyrir börn á grunnskólaaldri.

Fjárfestum í fólki

Það er því ljóst að við höfum aukið ráðstöfunartekjur barnmargra heimila og fjölskyldna í Hafnarfirði á kjörtímabilinu. Við höfum fjárfest í fólki. Við ætlum að halda áfram að gera samfélagið betra og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til að blómstra, vaxa og dafna í okkar góða bæ fáum við til þess áframhaldandi umboð. Framtíðin ræðst á miðjunni – XB.

Valdimar Víðisson, skólastjóri og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Stuðlaskarðs og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2022.

Categories
Greinar

Skipafar­þegar og á­hafnir, van­nýtt auð­lind fyrir hag­kerfi Hafn­firðinga

Deila grein

17/04/2022

Skipafar­þegar og á­hafnir, van­nýtt auð­lind fyrir hag­kerfi Hafn­firðinga

Síðasta kjörtímabil hef ég fengið að starfa á vettvangi hafnarstjórnar Hafnarfjarðarhafnar. Sem brottfluttur Ísfirðingur þá hef ég haft nokkurn áhuga á skemmtiferðaskipum og komum þeirra en Ísafjarðarhöfn tekur á móti 160 skipum, 198.452 farþegum og 81.511 áhafnarmeðlimum komandi sumar. 

Við tökum á móti 17 skipum, 6.472 farþegum og 3.435 áhafnameðlimum þetta sumarið. Á næsta ári er gert ráð fyrir um 30 skemmtiferðaskipum. Skipin sem koma til okkar nota flest Hafnarfjarðarhöfn sem „heimahöfn“ og hér fara fram farþegaskipti, það er að farþegar koma með flugi til landsins og fara um borð í Hafnarfirði. Skemmtiferðaskipin reyna að sjálfsögðu að selja sínum farþegum ferðir út frá skipinu en það eru ekki allir sem vilja endilega fara í rútuferðir heldur vilja kannski taka göngutúr og skoða það sem bærinn okkar hefur upp á að bjóða. Eins er það svo að áhöfnin er líklegri til að fá sér göngutúr upp í bæ.

30 milljónir inn í hagkerfið

Ísfirðingar gerðu rannsókn á því árið 2018 hversu mikiðferðamenn eyddu í landi. Kom þá í ljós að meðal ferðamaðurinn eyddi um 5.000 kr. í landi á Ísafirði, í handverk, minjagripi, mat og drykk. Þetta er fyrir utan það sem þau eyddu í ferðir. Ef þetta væri raunin hér í Hafnarfirði þá værum við að tala um rúmar 30 milljónir! 30 milljónir inn í hagkerfið okkar hér skiptir máli, fyrir veitingastaði og þá sem eru í handverki, hönnun og minjagripum. Ísfirðingarnir eru að fá um 500 milljónir inn í þeirra hagkerfi veitingastaða, handverks og minjagripasala.

Fullur bær af áhugaverðum stöðum

En hvað höfum við Hafnfirðingar upp á að bjóða? Strax á hafnarsvæðinu erum við með hönnunar- og handverksfólk og veitingastað við Fornubúðir. Við erum svo með fjölmarga veitingastaði af ýmsum gerðum á Strandgötunni, Linnetstígnum og Fjarðargötunni. Allt frá pulsum og pizzum upp í fisk, steikur og veganrétti, kaffihús og bakarí. Við erum með Byggðasafnið á Vesturgötu, Bungalowið, Hellisgerði og síðan byggingasöguna um allan Vesturbæ Hafnarfjarðar. Við erum með Austurgötu, Tjarnarbraut og Lækjargötuna, fuglana við Lækinn, Reykdalsvirkjun, Suðurgötu, Brekkugötu og Suðurbæjarlaugina.

QR kóðar, öpp og merkingar

Það er nefnilega svo að margur ferðamaðurinn hefur áhuga á að sjá hvernig við búum, byggðum og byggjum. Allt er þetta í góðu göngufæri við höfnina og ef við færum í það verkefni að merkja og upplýsa, t.d. með appi og QR kóðum, skiltum eða máluðum línum sem leiða fólk um bæinn, þá myndum við auka umferð þessara ferðamanna inn í bæinn okkar og þau myndu þá skilja eitthvað af gjaldeyri eftir í hagkerfi Hafnfirðinga. Ekki er ólíklegt að fleiri en farþegar og áhafnir skemmtiferðaskipa myndu nýta sér þetta ef af yrði.

Í bænum eru starfandi mörg ferðaþjónustufyrirtæki og hafa þau byggt upp flotta þjónustu. Hins vegar má alveg velta því fyrir sér hvort stuðningur, innviðavinna og markaðssókn bæjarins megi ekki bæta, t.d. með bættum merkingum, tölvutækni og fróðleik á netinu þar sem hægt er að lesa sig til um t.d. byggingarsöguna og sögu bæjarins. Gæti þetta ekki verið hluti af sumarstarfi námsmanna?

Ég er ekki ferðamálafræðingur eða sérfræðingur í því hvernig ferðamenn hugsa. Ég hef aftur á móti ekið fjölda ferðamanna á rútum í gegnum bæinn okkar og því miður hefur það verið án þess að verið sé að stöðva og skoða. Það sem helst hefur verið staldrað við í Hafnarfirði eru skreiðartrönurnar við Krýsuvíkurveg.

Umhverfisvæn

Hafnarfjarðarhöfn hefur tekið skref í rafvæðingu hafna. Á Sjómannadaginn, 12. júní n.k., verður fyrsta skemmtiferðarskipinu stungið í samband. Þetta verður fyrsta skemmtiferðaskipið sem kemur til Íslands þar sem þetta verður gert. Þetta skip og systurskip þess munu koma ellefu sinnum til hafnar hjá okkur í sumar.

En af því að þú ert Íslendingur og ert að lesa þetta þá er einnig rétt að vekja athygli á Bæjarbíói og Gaflaraleikhúsinu ásamt ýmsum gistimöguleikum í bænum.

Guðmundur Fylkisson, skipar 6. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. apríl 2022.

Categories
Greinar

Störf óháð staðsetningu

Deila grein

17/04/2022

Störf óháð staðsetningu

Ég hef verið heppin með atvinnu í gegnum tíðina – ég hef fengið tækifæri til að starfa með góðu fólki sem ég hef lært af, notið samvista við og bæði eflst og þroskast sem einstaklingur í starfi. Þegar við fjölskyldan ákváðum að elta hamingjuna og flytja aftur heim til Akureyrar á síðasta ári gerði örlítill ótti vart við sig þar sem ég gat því miður ekki flutt þáverandi starf með mér. Það sem ég fékk hinsvegar í staðinn var dásamlegt starf óháð staðsetningu, starf sem ég fæ að taka þátt í að þróa á meðan ég bý með fjölskyldunni þar sem okkur líður best. Í okkar heimabæ, Akureyri. Stefna stjórnvalda er skýr og felur í sér að fjölga störfum án staðsetningar hjá ríkisstofnunum. Auðvitað þarf ríkið að stíga fast til jarðar í þessum efnum og standa við gefin loforð, en það erum við sem færum störfin. Við, fólkið í landsbyggðunum, sem sækjum um störf óháð staðsetningu og sýnum fram á vilja til þess að starfa í okkar heimabyggðum. Störf óháð staðsetningu eru í eðli sínu byggðamál og því hljóta markmið okkar að snúa að því að styðja við atvinnustarfsemi og ríkisumsvif á atvinnumarkaði í landsbyggðunum. Það er því líka hreint og klárt byggðamál að auka aðgengi að vinnuaðstöðu fyrir þá einstaklinga sem vilja starfa óháð staðsetningu.

Erfiðir vinnufélagar

Ég er til dæmis orðin ansi sjóuð í heimavinnu eins og margir, eftir Covid-19, og er með ágætis vinnuaðstöðu við borðstofuborðið heima. Raunveruleikinn er sá að borðstofuborðið var orðið að vinnuaðstöðu og kaffitímarnir fóru í að taka úr þvottavél og ganga frá eftir matinn. Vinnufélagarnir þurftu aðstoð við heimalestur, klósett- og baðferðir. Þau þurftu knús og athygli og stundum skelltu þau hurðum eða mættu óboðin á fundi hjá mér. Þau voru líka minn eini félagsskapur – og vildu helst bara ræða Fortnite og Harry Potter. Þannig varð heimilið að vinnustaðnum mínum. Það er því mikilvægt í þeirri vegferð okkar að fjölga störfum óháð staðsetningu að huga vel að félagslega þættinum og í því tilliti hefur verið rætt um svokallaða atvinnuklasa. Þar fær starfsfólk sem starfar fjarri höfuðstöðvum stofnana sinna tækifæri til að starfa innan um annað fólk, deila aðstöðu með öðrum og þannig efla félagslega þáttinn sem er eðlilega stór hluti af menningu og upplifun í starfi.

Blómlegt atvinnu- og félagslíf

Til að einfalda flutning starfa þarf að treysta innviðina þannig að mögulegt sé að taka á móti þeim sem vilja vera um kyrrt í heimabyggð að námi lokni eða snúa aftur. Við þurfum að vera samkeppnishæf fyrir ungt fólk að loknu námi. Við viljum byggja upp svæðisborgina Akureyri og til að stuðla að enn blómlegra atvinnulífi þá þurfum við að tryggja aðgengi að húsnæði og aðstöðu fyrir einskonar atvinnuklasa. Þar getur sveitarfélagið stigið inn í með því að hvetja til og styðja við slíka uppbyggingu. Ég er heppin að hafa fengið aðstöðu í atvinnuklasa utan heimilis hér á Akureyri þar sem ég nýt félagsskapar og sameiginlegra kaffitíma með þeim sem deila með mér rými og ég þarf hvorki að hjálpa þeim á klósettið eða ræða kills í Fortnite.

Alfa Jóhannsdóttir, starfar sem Forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 17. apríl 2022.

Categories
Greinar

Akureyri – þar sem gott er að eldast

Deila grein

16/04/2022

Akureyri – þar sem gott er að eldast

Við í Framsókn viljum gera gott samfélag enn betra – fjölbreytt og lifandi samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að blómstra og búa við góð lífsgæði ævina á enda. Að tryggja rétt okkar allra til farsællar öldrunar er stórt og mikilvægt verkefni, ekki síst í ljósi þess að hlutfall eldra fólks fer hækkandi hér á landi rétt eins og annars staðar í heiminum. Langlífið og aðrar samfélagsbreytingar kalla á breytt viðhorf gagnvart skipulagi og þjónustu við eldra fólk. Því er mikilvægt að framtíðarsýn okkar um aldursvænt bæjarfélag sé skýr.

Hvernig tryggjum við farsæla öldrun?

Eldri borgarar á Akureyri er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir en forsendurnar fyrir sjálfstæðu, innihaldsríku og heilbrigðu lífi eru í grunninn víðast hvar þær sömu þótt aðstæður séu breytilegar. Hvar svo sem við búum – í dreifbýli, borg eða bæ – er mikilvægt að horfa heildstætt til allra þátta samfélagsins. Að í boði sé nægilegt framboð af húsnæði sem hentar þörfum aldraðra er dæmi um aðgerðir sem gera okkur kleift að lifa sjálfbjarga og sjálfstæðu lífi lengur. Samstillt heilbrigðis- og félagsþjónusta styður við það markmið og stuðlar að því að fólk geti búið heima sem lengst. Fjölbreytt félags-, íþrótta-, og tómstundastarf styrkir líkamlega, andlega og félagslega heilsu og vinnur gegn einmanaleika. Samgöngur sem auðvelda þátttöku í félagsstarfi, íþróttum og annarri virkni styðja ekki síður við heilsusamlegar lífsvenjur. Það sama á við um ytra umhverfi okkar, þegar það er aðlaðandi og aðgengilegt og þegar skipulag tekur mið af þörfum og ferðavenjum eldri borgara, styður það þessa þætti. Allt eru þetta undirstöður að farsælli öldrun.

Hver er stefna Framsóknar í málefnum eldri borgara?

Framsókn mun beita sér fyrir því að Akureyri verði aldursvænt samfélag þar sem gott er að eldast. Síðastliðið ár setti Akureyrarbær fram fyrsta hluta aðgerðaáætlunar í málefnum aldraðra sem tekur á heilsueflingu, félagsstarfi og upplýsingagjöf. Það er brýnt að þær aðgerðir komist til framkvæmda sem fyrst og að hafin verði vinna við annan hluta áætlunarinnar sem horfir m.a. til húsnæðismála. Við leggjum áherslu á að samþætta verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk, t.a.m. með samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Við viljum skoða nýjar og fjölbreyttar lausnir í þjónustu við eldra fólk og nota tæknina í auknum mæli til að auka lífsgæði og sjálfræði einstaklinga. Þá viljum við að áfram verði unnið að eflingu Birtu og Sölku félagsmiðstöðva fólksins og unnið að stækkun samveru- og þjónustukjarna. Að endingu horfum við til þess að bærinn úthluti lóðum til aðila sem vilja byggja fjárhagslega hagkvæmar íbúðir fyrir eldri borgara.

Sameiginleg velferð með samvinnu

Allir eiga að geta elst með reisn og notið þjónustu heima hjá sér eins lengi og heilsa leyfir. Það er áríðandi að ríki, sveitarfélög, þjónustuaðilar og félög aldraðra vinni saman að aukinni farsæld fyrir aldraða og að samstaða sé um sveigjanlega þjónustu í takt við breytilegar þarfir. Við þurfum nýja nálgun í málefnum eldri borgara ef við ætlum að tryggja fjölbreytta þjónustu sem uppfyllir allar gæðakröfur nútímans. Framsókn er framsækinn miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Eru það ekki gildin sem við þurfum að byggja á þegar við sköpum aldursvænt samfélag fyrir okkur öll?

Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 16. apríl 2022.

Categories
Greinar

Velferð barnanna í fyrsta sæti

Deila grein

13/04/2022

Velferð barnanna í fyrsta sæti

Nú styttist verulega í sveitarstjórnarkosningar og þá verða loforð um aukna þjónustu leikskóla ansi hávær. Við heyrum falleg fyrirheit um að öllum börnum, 12 mánaða og eldri, verði sannarlega tryggð leikskóladvöl. Þetta hljómar vissulega vel og það er akkúrat tilgangurinn, þau eiga að laða að. Stundum gleymist að hugsa um hvernig eigi svo að efna þessi loforð, en þar stendur hnífurinn í kúnni, það er ekki auðvelt að efna þessi loforð, ef það er yfir höfuð hægt. Aðalástæða þess er í grunninn einföld og hún er sú að leikskólakerfið hefur vaxið allt of hratt með þeim afleiðingum að það heldur ekki lengur í við þörfina. Kröfurnar eru þar af leiðandi langt umfram raunverulega getu leikskólanna.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og þar ber fagfólki að gæta þess að börn fái gæða nám og umönnun við hæfi samkvæmt aðalnámskrá leikskóla. Lög um leikskóla kveða á um að 2/3 hlutar starfsfólks skuli hafa leikskólakennaramenntun og eigum við langt í land með að ná því. Í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu er um 25% starfsfólks með tilskylda menntun en Kópavogur stendur betur að vígi þar með um það bil 35% starfsmanna með leikskólakennaramenntun. Það segir sig sjálft að ef við ætlum að fjölga leikskólarýmum minnkar faghlutfall starfsfólks þar sem vöntun er á leikskólakennurum í landinu. Því er nauðsynlegt að brúa bilið frá fæðingarorlofi með fleiri valkostum á meðan unnið er að því að mennta fleiri kennara til starfa í leikskólum.

Við í Framsókn í Kópavogi leggjum til lausn í þessu máli og viljum að ríkið komi inn í þetta með lengingu fæðingarorlofs til 18 mánaða og sveitarfélög taki svo boltann og bjóði dagvistun eða leikskólarými í kjölfarið. Með þeirri nálgun væri vandi leikskólanna leystur að hluta og álag á foreldra og fjölskyldur minna. Eins væri hægt að sjá fyrir sér möguleikann á að bjóða foreldrum heimgreiðslur sem nema niðurgreiðslu sveitarfélagsins þar til barnið nær tveggja ára aldri. Þetta minnkar ekki aðeins álag á foreldra og fjölskyldur, heldur gefur foreldrum tækifæri til að nýta þennan dýrmæta tíma og styrkja tengslamyndun við barnið, sem það mun búa að í framtíðinni. Þetta er kostur sem margir foreldrar myndu vilja að væri til staðar. Sveitarfélög greiða nú þegar um 300 þúsund krónur með hverju leikskólarými og hluti foreldra er rétt rúmlega 12 % af heildarkostnaði.

Mikilvægur hluti jafnréttisbaráttunnar er að foreldrar hafi jöfn tækifæri til að vinna fullan vinnudag. Til þess að mæta því þurfum við þá að koma til móts við fjölskylduna og brúa bilið frá fæðingarorlofi. Börn á Íslandi eru með lengstan dvalartíma, flesta daga ársins í minnsta rýminu ef við berum okkur saman við önnur lönd innan OECD. Foreldrar vinna yfirleitt báðir fullan vinnudag og oftar en ekki eyðir barnið lengri vökutíma hjá dagforeldrum og í leikskóla en hjá foreldrum. Þarna þurfum við að staldra aðeins við og velta fyrir okkur forgangsröðuninni og hvernig við getum í alvöru mætt þörfum barna og foreldra.

Samtökin Fyrstu fimm hafa t.a.m. vakið umræðuna um að samfélagið þurfi að styðja betur við unga foreldra svo þau hafi tækifæri til að verja meiri tíma með börnum sínum. Það er göfug umræða að mínu mati þar sem verið er að huga að geðtengslamyndun foreldra og barna sem er grunnur að góðri geðheilsu einstaklingsins síðar meir. Með því að skoða möguleika á lengingu fæðingarorlofs og svo heimgreiðslu, er verið að stíga gríðarlega mikilvæg og raunhæf skref í átt að vænlegra umhverfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra.

Lofum ekki upp í ermina á okkur, tölum um raunhæfa kosti. Forgangsröðum og leggjum áherslu á geðheilsu og vellíðan barna á fyrstu æviárunum því þegar á heildina verður litið, er það mun arðbærara fyrir samfélagið í heild sinni.

Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri Heilsuleikskólans Urðarhóls og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Kópavogi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. apríl 2022.

Categories
Fréttir

Eindreginn vilji til að halda íþróttastarfinu gangandi

Deila grein

13/04/2022

Eindreginn vilji til að halda íþróttastarfinu gangandi

Íþróttahreyfingin fær 500 m.kr. fjárframlag frá stjórnvöldum sem mótvægisaðgerð gegn tekjutapi af völdum heimsfaraldurs. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnar á föstudag.

Samkomutakmarkanir af völdum heimsfaraldurs COVID-19 hafa sett verulegan svip á íþróttastarfið undanfarin misseri og hefur íþróttahreyfingin orðið af verulegum fjármunum vegna áhrifa þeirra á íþróttaviðburði. Einnig hefur umtalsverður kostnaðarauki fylgt þátttöku í keppnisstarfi sem sætt hefur samkomutakmörkunum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á að styðja við íþróttahreyfinguna og gera henni kleift að sigla í gegnum ólgusjó heimsfaraldurs. Með þessum aðgerðum sýna stjórnvöld eindreginn vilja til að halda íþróttastarfinu gangandi, stóru jafnt sem smáu, með þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur á allt samfélagið.“

Útfærsla úthlutunar og framkvæmdar verður unnin í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). ÍSÍ verður falið að óska eftir umsóknum um stuðning vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirunnar á einingar íþróttahreyfingarinnar. Sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga geta sótt um stuðning.

Umsækjendur þurfa að hafa orðið fyrir tekjutapi eða kostnaðarauka vegna íþróttaviðburða sem þurfti að fella niður eða breyta verulega vegna samkomutakmarkana af völdum COVID-19. Sýna þarf fram á veruleg áhrif á rekstur og starf. Við úthlutun styrkja verður tekið tillit til annars stuðnings sem umsækjendur hafa notið. Kröfur til umsókna verða sambærilegar og voru við úthlutun stuðnings með sértækum hætti á árinu 2020.

Sjötíu prósent fjármagnsins rennur til sérsambanda, héraðssambanda og íþróttabandalaga og 30% til íþróttafélaga þar sem sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög hafa ekki fengið bætt tjón með sama hætti og íþróttafélög.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Um­bætur og fram­farir; ekkert plat

Deila grein

13/04/2022

Um­bætur og fram­farir; ekkert plat

Það styttist í sveitarstjórnarkosningar sem fram fara þann 14. maí næstkomandi. Það verður því tvöföld spenna og gleði það laugardagskvöldið, en auk kosningakvölds fer úrslitakvöld Eurovision fram þar sem við vonum að lagið „Með hækkandi sól“ veiti okkur ómælda gleði, tilefni til að fagna og að gott sumar sé framundan.

Höfum við gengið götuna til góðs fram eftir veg?

Á þessum tímapunkti eru flokkarnir að setja sig í kosningagír og nú ganga ýmsir fram með digurbarkalegar yfirlýsingar um allt og ekki neitt. Þó einna helst hvað allt sé ómögulegt sem sitjandi meirihluti hefur áorkað á yfirstandi kjörtímabili. Það er nú svo gott sem alltof sumt og öll pólitíkin sem sumir hafa fram að færa. Jafnvel þeir sem skildu bæjarsjóð eftir í gríðarlegu tapi fyrir áratugum síðan en vilja nú koma til baka, taka við völdum og færa okkur aftur til fortíðar. Nú skal sá leikur endurtekinn. En hvað um það. Það er öllum hollt þegar kjörtímabilið er senn á enda að nema staðar, líta yfir farinn veg og meta hvað áunnist hefur á tímabilinu.

  • Við höfum fjölgað hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu. Þann 4. október 2018 var tilkynnt um fjölgun hjúkrunarrýma úr 60 í 93, sem nú hefur raungerst í nýrri glæsilegri byggingu á Sólvangsreitnum.
  • Við réðumst í umfangsmiklar endurbætur á húsnæði St. Jósefsspítala, nú Lífsgæðasetur St. Jó., sem hefur fengið endurnýjun lífdaga.
  • Við festum heilsueflingu Janusar í sessi.
  • Við úthlutuðum Bjargi íbúðafélagi lóð fyrir 148 leiguíbúðir í Hamranesi, erum farin af stað í samstarf við Brynju hússjóð og höfum þegar samþykkt stofnframlög til þeirra vegna kaupa á húsnæði.
  • Við höfum leyst uppbyggingu íbúðarhúsnæðis úr klakaböndum. Kraftmikil uppbygging er hafin í Hafnarfirði.
  • Við höfum lækkað álögur á atvinnulíf sem hefur skilað sér í mikilli ásókn í atvinnulóðir og flutningi stærri fyrirtækja til bæjarfélagsins.
  • Við höfum lækkað kostnað fjölskyldufólks með stórauknum systkinaafslætti á leikskólagjöldum, innleiddum nýjan systkinaafslátt á skólamáltíðir grunnskólabarna og hækkuðum frístundastyrk.
  • Við höfum byggt þrjá nýja búsetukjarna fyrir fatlað fólk.
  • Við byggðum Skessuna, knatthús FH, þrátt fyrir mikil mótmæli og kærur frá minnihluta bæjarstjórnar. Þar fóru fremst í flokki Samfylkingin og Viðreisn sem gátu með engu móti stutt við þessa mikilvægu framkvæmd sem bætt hefur aðstöðu félagsins til mikilla muna.
  • Við höfum undirbúið mjög markvisst uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá Haukum og Sörla. Nú þegar er búið að framkvæma knattspyrnuvöll úti hjá Haukum, sambærilgar framkvæmdir eru í gangi hjá FH og fjárfest hefur verið í sérstöku félagshesthúsi fyrir Sörla.
  • Við fjárfestum fyrir hundruði milljóna í innviðum bæjarfélagsins, svo sem endurnýjun gangstétta og viðhaldi mannvirkja.
  • Við komum á fót nýsköpunarstofu fyrir ungt fólk.
  • Við höfum fest NPA samninga í sessi.
  • Við hófum gott samtal við íbúa varðandi útivistarsvæði, komum svokölluðum hoppudýnum fyrir víða um bæinn, fjárfestum í skautasvelli og lýsum Hellisgerði upp í aðdraganda jóla.
  • Við höfum nú tryggt að öllum nýbúum Hafnarfjarðar standi til boða sérstök Krúttkarfa. Við viljum bjóða nýja íbúa velkomna í okkar góða bæjarfélag.

Höldum áfram

Áfram mætti auðvitað telja. Við hlustum, skoðum aðstæður og látum verkin tala. Samhliða þessu höfum við sýnt ábyrgð í fjármálastjórnun bæjarfélagsins þrátt fyrir mjög miklar og erfiðar áskoranir í kjölfar alheimsfaraldurs sem við sjáum nú loks fyrir endann á. Við viljum halda áfram góðu starfi fyrir Hafnfirðinga. Við viljum halda áfram á þeirri vegferð að framkvæma það sem við segjumst ætla að gera. Við viljum halda áfram að vera ábyrg, styðja við góð verkefni hvaðan sem þau koma. Við ætlum að halda áfram að auðga bæinn lífi með því að styðja við fólk, fyrirtæki og menningarlíf í Hafnarfirði. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. apríl 2022.

Categories
Greinar

Snúum land­búnaði til betri vegar í Fjarða­byggð

Deila grein

12/04/2022

Snúum land­búnaði til betri vegar í Fjarða­byggð

Landbúnaður hefur lengi verið mér kær enda var ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að alast upp á sauðfjárbúi þar sem ég var alin upp við það að vinna fyrir hlutunum og taka engu sem sjálfsögðu. Landbúnaði hefur því miður hnignað mikið á austfjörðum og ófáar jarðir farið í eyði síðustu áratugi. Það mikla landbúnaðarsvæði sem farið er í eyði gerir öðrum bændum í nágrenninu oft erfitt fyrir. Þar má t.d. sérstaklega nefna sauðfjárbændur því gangnasvæði þeirra stækkar ört meðan gangnamönnum fækkar. Þá er nýliðun í bændastétt því miður afskaplega döpur, ég tel þó ekki of seint að snúa þessari þróun til betri vegar. Það hefur nefnilega aldrei verið mikilvægara en nú að standa vörð um íslenskan landbúnað og tryggja bændum bætt kjör og betra utanumhald. Það er ekkert sjálfgefið á þeim óvissutímum sem við lifum við í dag sem snertir jafnt bændur sem og neytendur. Þó ég tali hér í þessari grein fyrst og fremst til bænda tel ég mig samt um leið snerta taugar ansi margra íbúa. Mörgum þykir gaman að keyra um sveitir Fjarðabyggðar á fallegum sumardögum og finna ilminn af nýslegnu grasi, sjá kýr á beit og sauðfé í haga.

Nýtum aukin sóknarfæri í landbúnaði

Landbúnaður er þó ekki bara kýr og sauðfé og vonast ég til þess að sjá mikið fjölbreyttari landbúnað í Fjarðabyggð á næstu árum. Það eru mörg sóknarfæri í landbúnaði og það er okkar að nýta þau og auka fjölbreytnina. Í þeim efnum má m.a. nefna ræktun á ýmsum nytjaplöntum, bæði fyrir framleiðslu á dýrafóðri og beint til neytanda í ýmsum myndum. Þá eru mikil tækifæri í aukinni kornrækt, sem vonandi á eftir að aukast til muna. Íslendingar hafa oft talað um fæðuöryggi sem eitthvert tískuorð þar til nýverið þegar orðið fékk meiri og dýpri skilning. Með aukinni kornrækt getum við stígið stórt skref fram á við til að tryggja sjálfbærni í íslenskri matvælaframleiðslu, og þannig aukið fæðuöryggi Íslendinga til mikilla muna..

Undanfarið hefur landbúnaði oft verið tekið sem sjálfsögðum hlut. Staðreyndin er þó sú að ekki er sjálfgefið að geta keypt mjólk, egg, grænmeti og lambalæri út í búð, ræktað og alið af innlendum bændum. Það liggur mikil vinna að baki alls þess sem framleitt er og oft á tíðum margra ára kynbætur og þróun. Afurðir framleiddar hér á landi eru einstakar á heimsmælikvarða, sýklalyfjaónæmi er til að mynda stórt vandamál víða um heim en þekkist ekki hér á landi sem er ótrúlega dýrmætt. Það er Íslendingum því afar mikilvægt að treysta grundvöll íslensks landbúnaðar og þar getur Fjarðabyggð svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar.

Ég vil auka þjónustu við bændur í sveitarfélaginu Fjarðabyggð, ýta undir nýliðun í greininni og efla samstarf bænda við sveitarfélagið, fyrirtæki og íbúa á svæðinu. Það er minn draumur að með tímanum verði hægt að bjóða íbúum sveitarfélagsins að versla landbúnaðarvörur framleiddar í Fjarðabyggð. Það er trú mín að með því að hlúa vel að þessum málaflokk þá muni okkur takast að gera landbúnað að enn öflugri atvinnugrein í Fjarðabyggð, og búa þannig um hnútana að fýsilegra sé fyrir unga bændur að hasla sér völl í greininni. Ég tel nefnilega að íbúar Fjarðabyggðar vilji neyta afurða sem þeir geta treyst að séu framleiddar séu við frábærar aðstæður í sinni heimabyggð.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, er menntuð í búvísindum, situr í stjórn sauðfjárbænda á suðurfjörðum, situr í varastjórn Bændasamtaka Íslands og skipar 2. sætið á framboðslista Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. apríl 2022.

Categories
Fréttir

Axel Örn, vélstjóri leiðir lista Framsóknar og óháðra í Vopnafjarðarhreppi

Deila grein

11/04/2022

Axel Örn, vélstjóri leiðir lista Framsóknar og óháðra í Vopnafjarðarhreppi

Framsóknarfélag Vopnafjarðar kynnti á dögunum lista Framsóknar og óháðra fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022.

Þetta er öflugur hópur sem hefur brennandi áhuga á því að efla Vopnafjörð á næsta kjörtímabili.