Categories
Uncategorized

Framsókn í verðmætasköpun

Deila grein

11/04/2022

Framsókn í verðmætasköpun

Kröftugt atvinnulíf er forsenda þess að við eflum okkar bæ, löðum að nýja íbúa og tryggjum að unga fólkið okkar geti snúið heim aftur eftir nám. Við í Framsókn leggjum áherslu á gott samstarf við atvinnulífið og að við tölum okkur upp sem öflugt atvinnusvæði. 

Hlutverk sveitarfélagsins er að markaðssetja bæinn sem öflugt atvinnusvæði, móta skipulag sem býður upp á atvinnuþróun, vera vakandi fyrir tækifærum í ytra umhverfi, styrkja við nýsköpun, tryggja raforku og í samstarfi við atvinnulífið kynna fyrir nemendum störf tengd verk- og tæknigreinum. 

Hömpum því sem vel er gert

Sem dæmi kom fram á opnum fundi um sjávarútveg á Akureyri á dögunum að aðeins 7% fiskafla er fluttur óunninn úr landi, rest er unnið hér innanlands. Þannig skapast störf.  Á sama tíma flytur Noregur helming síns afla óunninn úr landi.

Á ársfundi Norðurorku var erindi sem fjallaði um uppbyggingu Skógarbaðanna og magnað að sjá þann metnað sem lagður var í að leggja lagnir og hjóla- og göngustíg á mettíma. Hömpum því sem vel er gert. 

Verðmætasköpun og velferð er sitthvor hliðin á sama peningnum  

Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Af því hafa skapast fjöldi afleiddra starfa og skipt sköpum í verkefnastöðu margra fyrirtækja í bænum, svo sem Frost, Vélfag, Slippurinn, verkfræðistofur eins og Mannvit, Efla og Raftákn og lengi mætti telja. 

Það er mikill gróska í byggingariðnaði og fyrirtæki eins og SS Byggir, BE Húsbyggingar, Húsheild, Trétak, BB Byggingar blómstra sem aldrei fyrr ásamt fleiri fyrirtækjum. Verktakar í mannvirkjageiranum eru margir hverjir öflugir eins og Áveitan, Bútur, Rafeyri, Rafmenn, Múrey, Blikkrás og Blikk og tækni. Það er gaman að sjá verktakafyrirtæki eins og Nesbræður vaxa hratt á öflugum verktakamarkaði ásamt Finni ehf, GV Gröfum og G. Hjálmarssyni. 

Kynnumst atvinnulífinu

Við í Framsókn hlökkum til að heimsækja fyrirtæki á Akureyri á næstu vikum og fræðast enn frekar um starfsemi þeirra því við trúum á framsókn í verðmætasköpun. Það er nefnilega þannig að við byggjum ekki upp það velferðarsamfélag sem við viljum búa í nema vegna þeirra öflugu fyrirtækja sem starfa í bænum. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 11. apríl 2022.

Categories
Greinar

Drifkraftur verðmætasköpunar

Deila grein

09/04/2022

Drifkraftur verðmætasköpunar

Hönn­un og arki­tekt­úr snerta dag­legt líf okk­ar á ótal vegu. Í vik­unni heim­sótti ég bæði Nor­eg og Dan­mörku ásamt full­trú­um ís­lensks at­vinnu­lífs til þess að kynna mér hvernig bæði lönd hafa hlúð að og stutt við hönn­un og arki­tekt­úr. Þarlend stjórn­völd í góðu sam­starfi við at­vinnu­líf hafa á und­an­förn­um árum lagt aukna áherslu á að styðja við þess­ar grein­ar með það að mark­miði að auka verðmæta­sköp­un og lífs­gæði með mark­viss­um hætti.

Í Dan­mörku hef­ur til að mynda um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina farið vax­andi í dönsku hag­kerfi und­an­far­in ár. Tug­ir þúsunda starfa inn­an skap­andi greina þar í landi og hef­ur vöxt­ur í út­flutn­ingi grein­anna verið um 4,8% ár­lega síðan 2011. Árið 2020 fóru út­flutn­ings­verðmæti skap­andi greina yfir 14 millj­arða evra en tísku­varn­ing­ur er til að mynda fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur. Dönsk stjórn­völd hafa lagt auk­inn þunga í stefnu­mót­un fyr­ir skap­andi grein­ar með sér­stök­um sókn­aráætl­un­um.

Það var einnig lær­dóms­ríkt að heyra hvernig norsk stjórn­völd hafa séð tæki­fær­in í að styðja við og efla hönn­un til þess tak­ast á við sam­fé­lags­leg­ar áskor­an­ir og auka lífs­gæði. Lögð er áhersla á að fá hönnuði að borðinu strax í upp­hafi verk­efna til þess bæta loka­út­komu verk­efna, hvort sem um er að ræða í op­in­berri þjón­ustu eða ann­ars staðar.

Með nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti verður skap­andi grein­um sem þess­um gert hærra und­ir höfði enda tæki­fær­in í slíku ótví­ræð. Það er mik­il­vægt að auka skiln­ing á mik­il­vægi hönn­un­ar og arki­tekt­úrs fyr­ir þjóðfé­lagið og kynna ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr hér á landi og er­lend­is. Þar gegna bæði stjórn­völd og at­vinnu­líf mik­il­vægu hlut­verki til þess að auka vægi hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í verk­efn­um sín­um og auka virði og gæði vöru og þjón­ustu sem fram­leidd er í land­inu og leiða þannig til bættr­ar sam­keppn­is­stöðu Íslands.

Í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru þess­ar áhersl­ur und­ir­strikaðar með af­ger­andi hætti. Gert er ráð fyr­ir að fram­lög til mál­efna hönn­un­ar, þar með talið Hönn­un­ar­sjóðs og Hönn­un­ar­miðstöðvar, og stofn­un­ar og rekst­urs Rann­sókna­set­urs skap­andi greina, hækki var­an­lega um sam­tals 75 millj­ón­ir króna frá og með 2023. Mark­miðið með stofn­un Rann­sókna­set­urs skap­andi greina er að efla fræðileg­ar og hag­nýt­ar rann­sókn­ir í þeim ört vax­andi at­vinnu­vegi sem skap­andi grein­ar eru. Slíkt eyk­ur getu okk­ar til að ná ár­angri með mark­viss­ari hætti til framtíðar. Þá verður ný og metnaðarfull hönn­un­ar­stefna fyr­ir Ísland kynnt á næstu vik­um sem mun varða leiðina fram á við til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl. 2022.

Categories
Fréttir

Aukið fjármagn til hjúkrunarheimila

Deila grein

08/04/2022

Aukið fjármagn til hjúkrunarheimila

Kynnt voru í dag nýgerðir samningar Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningarnir eru til þriggja ára og nemur heildarfjármagn til þeirra tæpum 130 milljörðum króna. Á samningstímanum verður unnið að verkefnum sem miða að bættu rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auknum gæðum þjónustu þeirra.

„Þetta eru mikilvæg tímamót. Nú eru gildir samningar til lengri tíma við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðsvegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru samningar gerðir í góðri sátt. Tímann framundan munum við nýta vel til skilgreindra verkefna sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna og efla gæðastarf, m.a. með endurskoðun núverandi greiðslukerfis“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Categories
Greinar

Aldrei fór ég suður

Deila grein

08/04/2022

Aldrei fór ég suður

Við getum örugglega öll verið sammála um mikilvægi þess að um allt land séu blómlegar byggðir með hamingjusömum íbúum. Á landsbyggðinni eru starfandi öflug fyrirtæki sem skapa tekjur inn í þjóðarbúið. Lífið á landsbyggðinni er allskonar og kallar á mismunandi nálganir. En ekkert gerist af sjálfu sér, svo við getum haldið öflugum byggðum allt í kringum landið er nauðsynlegt að hafa raunhæfa byggðaáætlun.

Hvað er byggðaáætlun?

Byggðaáætlun leggur grunn að aðgerðum til að jafna búsetuskilyrði hvað varðar húsnæðismál, heilbrigðisþjónustu, fjarskipta, menntunar og jafnari tækifæri til atvinnu svo fátt eitt sé nefnt. Með byggðaáætlun má lesa stefna stjórnvalda hverju sinni í byggðamálum. Er hún samhæfing við aðra stefnumótun og áætlunargerð hins opinbera og samráð við ráðuneyti, sveitarfélög og landshlutasamtök. Samvinna er lykilinn í að viðhalda sjálfbærni byggða um land allt.

Innviðaráðaherra hefur lagt fram á Alþingi stefnu í byggðamálum til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára. Byggðaáætlunin er lögð til grundvallar við gerð fjárlaga og í henni má finna metnaðarfull markmið að því marki að landsbyggðin vaxi og dafni.

Heimsmarkmiðin í byggðaáætlun

Sú byggðastefna sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi styðst við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, enda eru þau mikilvægur vegvísir samfélagsþróunar næstu ára. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þau fela einnig í sér fimm meginþemu sem er mannkyn, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sem leiða okkur að aðalinntakinu sem er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir.

Það er þess vegna sem þau falla svo sérstaklega vel við byggðaáætlun. Því það er mikilvægt að þessar stoðir séu virtar sem leiðarljós til að nálgast jafnrétti til búsetu út frá kröfum okkar og viðmiðum við þau byggðarlög sem við berum okkur saman við.

Vegvísir

Að lokum langaði mig að koma inn á sérstaklega skemmtilega nýjung. En fylgjast má með metnaðarfullum markmiðum íslenskra stjórnvalda í byggða- fjarskipta og samgönguáætlunum á nýrri heimasíðu sem haldið er úti af innviðaráðuneytinu.  Vefurinn er undir léninu vegvisir.is og er gagnvirkur upplýsingarvefur þar sem hægt er að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri verkefna og árangursmælikvarða.  

Á vefnum er hægt að skoða allar áætlanir í einu, einstaka áætlun eða tiltekinn hluta af áætlun. Sem dæmi er hægt að skoða allar aðgerðir byggðaáætlunar á landsvísu, eða aðgerðir byggðaáætlunar eftir landshlutum og til að mynda styrki til verslana eða fjarheilbrigðisþjónustu. Fyrir áhugafólk um stöðu á  byggðastefnu og aðgerða stjórnvalda í þeim efnum er upplagt að nýta sér þennan vef.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á bb.is 8. apríl 2022.

Categories
Greinar

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Deila grein

08/04/2022

Ný­sköpun – Sleppum te­skeiðinni og mundum skófluna

Ísland er eitt mesta velsældarríki heims. Þrátt fyrir góða stöðu landsins þá eigum við alltaf að bæta okkur til aukinnar velsældar. Það hefur sýnt sig á síðustu árum að margt er hægt að bæta, til dæmis í heilbrigðiskerfinu og samgöngumálum (sérstaklega í höfuðborginni) til að mæta væntingum almennings.

Til þess að við getum tryggt áframhaldandi uppbyggingu og bættri velferð þá þurfum við einnig að tryggja langtímasjálfbærni. Það er gert með því að stækka hagkerfið okkar m.a. með því að hlúa að vænlegustu vaxtasprotum þess.

Hagstætt veðmál

Okkar vænlegustu vaxtasprotar eru ung tæknifyrirtæki. Þau skapa góð og fjölbreytt störf ásamt því að auka útflutnings- og skatttekjur. Við eigum að gefa rækilega í til uppbyggingar á tækniiðnaði hér á landi. Það er til hagsbóta samfélagsins alls og skilar sér í auknum tekjum ríkissjóðs til langs tíma.

Með slíkri uppbyggingu værum við ekki að finna upp hjólið. Í mörgum af auðugustu þjóðum heims má finna mýmörg dæmi um ágæti þess að styðja þétt við bakið á tæknifyrirtækjum. Í þessu samhengi er sérstaklega litið til Ísrael, en ísraelska hagkerfið var tiltölulega veikt fyrir nokkrum áratugum. Þar byrjuðu þarlend stjórnvöld að styðja tækniiðnað með ráðum og dáð. Í kjölfarið hefur iðnaðurinn vaxið hratt og örugglega. Við sjáum jákvæðu áhrifin sem það hefur haft á ísraelskan atvinnumarkað, ríkissjóð þeirra og samfélag.

Árið 2021 var það besta í ísraelskum tækniiðnaði frá upphafi frá en þarlend tæknifyrirtæki sóttu sér 25,4 milljarða dala vaxtafjármagn, sem er 136% vöxtur frá 2020. Ísraelskum einhyrningum, þ.e. tæknifyrirtæki sem metin eru á meira en milljarð dala, fjölgaði um 33 á árinu 2021 og eru núna orðin samtals 53. Þetta er öfundsverð staða, en fjárfestingar og stuðningur ísraelska ríkisins er núna að skila sér margfalt til baka og hefur umbyltað hagkerfi landsins. Gjöf sem heldur áfram að gefa.

Veðjum á tæknifyrirtæki

Það sama getur gerst hér á landi. Við höfum nú þegar byggt grundvöllinn og búum yfir kröftugum iðnaði sem bíður spenntur eftir tækifæri. Margt hefur verið gert hér á landi samanber aukin endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði og skattalegir hvatar til einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Það er hægt að gera svo margt fleira í kjölfarið. Til dæmis þarf að mæta skorti á tæknimenntuðum sérfræðingum. Við þurfum að geta verið samkeppnishæf á atvinnumarkaði og laðað að erlenda sérfræðinga til starfa svo að íslenskur tækniiðnaður vaxi og dafni enn meir.

Í því sambandi er nauðsynlegt fyrir hið opinbera að fara í gagngera endurskoðun á lögum um innflytjendur og atvinnuleyfi svo að núverandi regluverk fyrir erlenda sérfræðinga sem koma utan ESB verði mun skilvirkara en það er í dag. Ásamt þessu getum við aukið skattalega hvata til að gera Ísland meira aðlagandi. Árið 2016 var opnað fyrir að erlendir sérfræðingar gætu fengið 25% lækkun á tekjuskattsstofni í þrjú ár. Ég tel að við eigum bæði að hækka þetta hlutfall og lengja tímann.

Núna er kominn tími til að hugsa stórt. Við höfum innviðina og fjármunina en okkur sárvantar fólk. Ráðumst í aðgerðir til að ná í þann fjölda erlendra tæknimenntaðra sérfræðinga sem þarf.

Sleppum teskeiðinni og mundum skófluna.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, varaþingmaður Framsóknar og situr í 4. sæti á lista flokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Fréttir

Katrín sveitarstjóri, leiðir lista Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

Deila grein

08/04/2022

Katrín sveitarstjóri, leiðir lista Framsóknar og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð

Framboðslisti Framsóknar og félagshyggjufólks var samþykktur samhljóða á fundi félagsins í Safnaðarheimilinu í dag.

Gaman er að sjá ungt fólk gefa kost á sér til framtíðarstarfa fyrir sveitarfélagið en yngsti maður á B-listanum verður 22 ára á árinu 👏

Listann skipa einstaklingar alls staðar að úr sveitarfélaginu með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og er kynjahlutfall jafnt á listanum. Málefnavinna fer í gang á næstu dögum og verður nánar upplýst um þann undirbúning síðar. Mikil tilhlökkun og gleði er ríkjandi í hópnum og vilji til gera gott byggðarlag enn betra.

Áfram veginn!

Categories
Fréttir

Brynja Dan Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og varaþingmaður leiðir lista Framsóknar í Garðabæ

Deila grein

08/04/2022

Brynja Dan Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og varaþingmaður leiðir lista Framsóknar í Garðabæ

Framboðslistinn var samþykktur á félagsfundi Framsóknar í Garðabæ í 7. apríl. Í öðru sæti er Hlynur Bæringsson íþrótta- og rekstrarstjóri, Rakel Norðfjörð Vilhjálmsdóttir fjármálaráðgjafi og fjármálaverkfræðingur er í þriðja sæti. 

Haft er eftir Brynju í tilkynningu að hún sé spennt fyrir komandi tímum með framúrskarandi fólki. Hún spyr hvort ekki sé kominn tími á grænt í Garðarbæ. 

Framboðslistinn í heild sinni er hér að neðan. 

  1. Brynja Dan Gunnardóttir, framkvæmdastjóri
  2. Hlynur Bæringsson, Íþrótta og rekstrarstjóri
  3. Rakel Norðfjörð Villhjálmsdóttir, fjármálaráðgjafi
  4. Einar Örn Ævarsson, framkvæmdastjóri
  5. Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, deildarstjóri
  6. Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri
  7. Elín Jóhannsdóttir, sérfræðingur í þjónustueftirliti
  8. Einar Þór Einarsson, deildarstjóri
  9. Urður Bjög Gísladóttir, heyrnarráðgjafi
  10. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og f.v bæjarfulltrúi
  11. Anna Gréta Hafsteinsdóttir, hótelstjóri
  12. Páll Viðar Hafsteinsson, nemi
  13. Sveinn Gauti Einarsson, umhverfisverkfræðingur
  14. Stefánía Ólöf Reynisdóttir, leikskólakennari
  15. Úlfar Ármannsson, framkvæmdastjór
  16. Sverrir Björn Björnsson, slökkviliðsmaður
  17. Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock, verslunareigandi
  18. Harpa Ingólfsdóttir, fjármálastjóri
  19. Halldóra Norðfjörð Villhjálmsdóttir, verslunarstjóri
  20. Gunnsteinn Karlsson, eldri borgari
  21. Halldór Guðbjarnason, viðskiptafræðingur
  22. Elín Jóhannsdóttir, f.v kennari
Categories
Fréttir

Björn Þór leiðir B-lista Framsóknar og óháðra í Mýrdalshreppi

Deila grein

08/04/2022

Björn Þór leiðir B-lista Framsóknar og óháðra í Mýrdalshreppi

Categories
Greinar

Að vera vinur í raun

Deila grein

07/04/2022

Að vera vinur í raun

Fæst okkar hefðu trúað því að árið 2022 væri stríð í Evrópu og undirbúa þyrfti komu flóttamanna frá Úkraínu til landsins. Í einum vettvangi er lífi fjölda fólks snúið á hvolf. Í upphafi árs áttu þau venjulegt líf, keyptu í matinn, mættu í skóla og vinnu, héldu barnaafmæli, elskuðu og voru elskuð. Hversdagurinn í reynd en nú tilheyrir hann annarri vídd. Í dag eru þau á flótta frá heimalandinu með ekkert nema handfarangur og sorg í hjarta. Borgir hafa verið lagðar í rúst og saklaust fólk tapað lífinu. Á meðan stjórnvöld bregðast við í alþjóðasamvinnu hefur almenningur á Íslandi fylgist sorgmæddur á þróun mála og fyllst vanmætti. Það er erfitt að fylgjast með úr fjarlægð og geta lítið gert.

Stjórnvöld þurfa að bregðast hratt við

Íslensk stjórnvöld tóku strax ákvörðun um að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu, fyrstu hóparnir eru þessar vikurnar að koma til landsins. 4,6 milljónir barna eru á flótta vegna stríðsins í Úkraínu, þessi börn verða fyrir miklu áfalli og óvíst er hvaða áhrif stríðið kemur til með að hafa á þessi börn og þeirra fjölskyldur, hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra hefur sett á laggirnar sérstakt viðbragðsteymi ásamt sérstöku vöktunarteymi vegna þess fjölda barna sem komin er og væntanleg eru til landsins. Mikilvægt er að þær fjölskyldur sem hingað koma geti leitað á einn staða varðandi þjónustu við börn. Þau þurfa að finna að tekið sé utan um þau með öllum mögulegum hætti.

Íslenska þjóðin er með stórt hjarta

Þá fyllist ég stolti þegar ég sé viðbrögð fyrirtækja og almennings á Íslandi. Fljótt var ljóst að útvega þyrfti húsnæði fyrir allan þann fjölda fólks sem væntanlegur er til landsins. Nú þegar er búið er að semja um pláss fyrir tvö þúsund einstaklinga á mismunandi stigum dvalar flóttamanna. Er það vel gert á svo stuttum tíma, en enn er þó þörf fyrir meira húsnæði. Þá er það sérstaklega ánægjulegt að nokkrir aðilar, fyrirtæki, einstaklingar og stofnanir hafa tekið ákvörðun um að innheimta ekki leigu fyrir húsnæðið sitt.

Síðustu daga hef ég séð inn á hópum á Facebook þar sem unnið er að undirbúningi komu flóttamanna til landsins. Sjálfboðaliðar eru að safna saman fötum, húsgögnum og leikföngum fyrir börn. Allskonar húsbúnaði til þess að búa flóttamönnum fallegt heimili. Þá sá ég að starfsfólk Háskólans á Bifröst ásamt fleiri sjálfboðaliðum gengu úr vinnu til þess að bera inn húsgögn, dusta sængur og búa um rúm. Lítill bangsi var settur ofan á sæng.

Þessi samstaða kemur mér ekki á óvart, en samt sem áður fyllist ég þakklæti að búa í landi sem tekur opnum örmum á móti fólki á flótta og er tilbúið að leggja á sig auka vinnu fyrir aðra. Við erum öll ein stór fjölskylda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2022.

Categories
Greinar

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Deila grein

06/04/2022

Askur – fram­tíðin á sviði mann­virkja­gerðar

Nýlega voru styrkir veittir í fyrsta sinn úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði. Sjóðurinn hefur bæði það hlutverk og þá áherslu að auka þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á sviði mannvirkjagerðar. Alls var 95 milljónum króna veitt til 23 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefna á sviði mannvirkjagerðar.

Sjóðurinn er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Sjóðurinn var stofnaður árið 2021 og rann umsóknarfrestur fyrir fyrstu úthlutun rann út 9. desember síðastliðinn. Alls bárust fjörutíu umsóknir og var heildaupphæð umsókna 452 milljónir króna. Til að meta umsóknir var sett á fót sérstakt fagráð sem gerir tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem síðan veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

Það er mikilvægt að sjóðurinn sé farinn að virka og fjármagn byrjað að streyma í hin ýmsu verkefni. Það er alveg ljóst að það er bæði þjóðfélagslega hagkvæmt og mikilvægt að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjagerðar. Nauðsynlegt er að efla íslenskt hugvit og kalla fram hugmyndir um notkun á íslensku hráefni í byggingariðnaði. Um leið og slíkt er gert er mikilvægt er að leita leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Það verður einungis gert með aukinni nýsköpun á þessu sviði og frekari rannsóknum hér á landi.

Stóra myndin segir okkur það að byggingariðnaðurinn er talinn bera ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu. Það er því alveg ljóst að það er til mikils að vinna og þessi stóri iðnaður sem byggingariðnaðurinn er mun geta spilað stórt hlutverk þegar kemur að úrbótum í loftslagsmálum.

Ég er því mjög ánægður að sjá að áherslur sjóðsins í úthlutuninni hafi snúið að þeim samfélagslegu áskorunum sem við höfum staðið frammi fyrir í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors. Vistvænt steinsteypa með minna sementi, vistbók – gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi, fyrsta hampsteypuhús á Íslandi og hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegrar og vistvænni steypu eru meðal verkefna sem öll fá styrk úr sjóðnum við fyrstu úthlutun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. apríl 2022.