Categories
Uncategorized

Að kjósa utan kjörfundar

Deila grein

05/05/2022

Að kjósa utan kjörfundar

Allir þeir sem ekki komast á kjörstað þann 14. maí nk. geta kosið utankjörfundar. Dómsmálaráðuneytið hefur undirbúið leiðbeiningarmyndbönd á íslensku og ensku um hvernig er kosið utan kjörfundar í sveitarstjórnarkosningum.

Hægt er að kjósa hjá sýslumönnum um land allt. Á vefsíðu sýslumanna má sjá hvar og hvenær hægt er að kjósa. Á höfuðborgarsvæðinu fer utankjörfundaratkvæðagreiðsla fram í Holtagörðum á 2. hæð.

Opnunartími í Holtagörðum er:
  • 2. maí – 13. maí, kl. 10:00-22:00.

Á kjördag laugardaginn 14. maí verður opið frá kl. 10:00-17:00 fyrir kjósendur sem eru á kjörskrá utan höfuðborgarsvæðisins.

Kjörstaðir erlendis:

Þau sem eru erlendis geta kosið á  skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns. Á vef utanríkisráðuneytisins eru að finna frekari upplýsingar.

Kjörstaðir á stofnunum:

Hægt er að kjósa á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum. Tilkynnt verður um slíka kosningu á hverju heimili, sjúkrahúsi eða stofnun fyrir sig.

Kjósandi, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann geti kosið á sjúkrahúsi, dvalarheimili, fangelsi eða á stofnun. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og bera fram við sýslumann eigi síðar en kl. 10. tveimur dögum fyrir kjördag.

Categories
Greinar

Ég vil hlakka til að eldast með reisn í Kópavogi

Deila grein

05/05/2022

Ég vil hlakka til að eldast með reisn í Kópavogi

Eldri íbúar Kópavogs hafa aldrei verið fleiri en akkúrat núna, þau eru rúmlega 5000 talsins og þessi hópur kemur aðeins til með að stækka á komandi árum. Sem er vel og hafa skal í huga að þessi sístækkandi hópur, nær yfir fólk sem er eins mismunandi og þau eru mörg. Aldursbreidd aldraðra í Kópavogi spannar 36 ár, eða frá 67 til 103 ára. Það liggur því í augum uppi að hópurinn hefur ólíkar þarfir og ótækt að ætla að setja þetta fólk allt saman undir einn hatt. Það þýðir meðal annars að við getum alls ekki gert ráð fyrir að þau þurfi einsleita þjónustu. Einhverjir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, læknisaðstoð og aðhlynningu meðan aðrir eru mjög frískir og fjörugir og vilja ólíkt meiri afþreyingu, fjölbreytta hreyfingu og mögulega heimaþjónustu. Við þurfum að mæta öllu þessu fólki og gera það vel.

Það eru forréttindi að fá að eldast og sveitarfélög eiga og mega setja það í forgang að hlúa vel að eldra fólki sem vill sækja þá þjónustu sem því hugnast innan síns sveitarfélags. Við hljótum öll að geta verið sammála um að vilja stuðla að því að fólki líði sem best, það haldi góðri heilsu og geti verið heima hjá sér í öryggi eins lengi og þau vilja. Fólk verður að hafa val og það verður að geta sótt þá þjónustu sem hentar hverjum og einum. Gleymum því heldur ekki að sumir njóta þess að búa heima hjá sér en vilja gjarnan eiga kost á því að fara í þjálfun eða dagdvöl á daginn.

Framsókn telur sérlega mikilvægt að bæta við dagþjálfunardeildum í bænum. Þar verðum við að gera betur! Að gera eldra fólki kleift að eldast með reisn á að vera forgangsatriði hjá okkur. Við í Framsókn viljum brúa bilið milli þess að búa heima og flytja á hjúkrunarheimili með því að stuðla að byggingu minni íbúða sem tengjast þjónustukjarna sem ætlaður er eldri borgurum. Það hefur sýnt sig að það er form sem hentar eldri borgurum vel. Við viljum hjálpa eldra fólki að styrkja félagsnet sitt og vinna að forvörnum gegn félagslegri einangrun og einmannaleika með eflingu félagsmiðstöðvanna í bænum.

Fjölbreytni, framboð og val er lykillinn að góðri lýðheilsu eldra fólksins okkar og með þau gildi að leiðarljósi, getum við öll hlakkað til að eldast í Kópavogi.

Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla skipar 3.sæti á lista Framsóknar í Kópavogi..

Greinin birtist fyrst á kgp.is 5. maí 2022.

Categories
Fréttir

Ný öflug stjórn — samvinnan sterkasta tólið sem við höfum

Deila grein

05/05/2022

Ný öflug stjórn — samvinnan sterkasta tólið sem við höfum

Miðvikudaginn 27. apríl var haldinn aðalfundur Framsóknarfélagsins í Árborg. Fyrir fundinn var ljóst að þrír aðalmenn myndu víkja úr stjórn. Það voru þau Björn Harðarson formaður, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir gjaldkeri og Vilhjálmur Sörli Pétursson meðstjórnandi.

Björn Harðarson hefur verið formaður félagsins undanfarin átta ár og verið formaður kjördæmaráðs Suðurlands síðastliðin 6 ár. Undir stjórn Bjarnar komst Framsókn í meirihluta í bæjarstjórn árið 2018 með Helga Sigurð Haraldsson sem oddvita flokksins. Listinn bauð þá fram undir nafninu „Framsókn og óháðir“. Síðastliðið ár átti stjórnin og félag Framsóknar í Árborg hlut í því að Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir var tilnefnd í prófkjör fyrir alþingiskosningarnar 2021 sem endaði með því að hún var kjörinn á þing sem þriðji þingmaður Framsóknar og 7. þingmaður Suðurkjördæmis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir víkur úr stjórn sem gjaldkeri og meðstjórnandi félagsins. Hafdís kom inn í stjórn félagsins árið 2019 eftir að hafa aðstoðað með sveitarstjórnarkosningarnar 2018, þar sem hún sá meðal annars um samfélagsmiðla framboðsins. Eins og öllu Framsóknarfólki er kunnugt um þá var  Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir kjörin á Alþingi síðastliðið haust.

Vilhjálmur Sörli Pétursson hefur verið meðstjórnandi félagsins síðastliðin í 7 ár og hefur meðal annars gengt stöðu ritara stjórnar. Hann hefur komið að kosningastjórn í sveitastjórnarkosningum og hefur ásamt konu sinni Fjólu Ingimundardóttur séð um vöfflukaffið í Árborg til fjölda ára. Vöfflukaffið hefur verið helsta límið í félagsstarfsemi Framsóknar í Árborg og eiga þau stóran þátt í að halda grasrótinni virkri undanfarin ár. Hjónin hafa sinnt þessu óeigingjarna starfi af ást og alúð.

Þrátt fyrir að framangreindir aðilar eru farin úr stjórn félagsins er fullvíst að þau munu taka þátt í félagsstarfsemi Framsóknar, munu hafa aðhald að nýkjörinni stjórn og leggja sitt að mörkum í að endurvekja öflugt Framsóknarvígi í Árborg.  

Á aðalfundinum var kosið um nýjan formann og stóð kjörið milli Andra Björgvins Arnþórssonar og Valgeirs Ómars Jónssonar. Niðurstaða kosningarinnar var sú að Andri Björgvin Arnþórsson hlaut meirihluta greiddra atkvæða og úr varð að hann er nýkjörinn formaður Framsóknarfélagsins í Árborg. Andri Björgvin er lögfræðingur og starfar hjá Lögvernd lögmannsstofu og er kosningastjóri Framsóknar í Árborg í yfirstandandi kosningum.

Eins og við Framsóknarfólk vitum best er samvinnan sterkasta tólið sem við höfum og því skiptir teymið mestu máli. Auk formannsins er var öflug stjórn kosin og hana skipa þau:

Anný Björk Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Johan Rönning á Selfossi,
Kolbrún Júlía Erlendsdóttir, sérfræðingur á sviði kjaramála hjá VR,
Páll Sigurðsson, skógfræðingur, og
Stefán Gunnar Stefánsson, iðnfræðingur og fageftirlitsmaður fjárfestingarverkefna hjá Veitum.

Varamenn eru þau:
Ingibjörg Jóhannesdóttir,
Fjóla Ingimundardóttir, hjúkrunarfræðingur, og
Valgeir Ómar Jónsson, vélfræðingur og sagnfræðingur.

Categories
Fréttir Greinar

Þannig stjórn­mála­fólk ætlum við að vera

Deila grein

05/05/2022

Þannig stjórn­mála­fólk ætlum við að vera

Kosningabaráttan er komin á fullt. Út um allt land er öflugt fólk sem vill vinna vel fyrir sín bæjarfélög. Við höfum tekist á við það skemmtilega en um leið krefjandi verkefni að leiða lista Framsóknar í Garðabæ og Hafnarfirði. Við erum bæði tiltölulega ný í stjórnmálum, Brynja varaþingmaður frá því í haust og Valdimar varabæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs á þessum kjörtímabili. Það má því með sanni segja að við höfum stokkið ofan í djúpu laugina þegar við ákváðum að gefa kost á okkur í þessi oddvitasæti.

Kosningarnar þann 14. maí næstkomandi snúast að stórum hluta um það hverjum kjósendur treysta til að fara með stjórn bæjarfélagsins. Þessa dagana keppast frambjóðendur við að kynna sig og stefnumál sinna flokka. Okkar leiðarljós í þessari kosningabaráttu er heiðarleiki, fagmennska, samvinna og gleði. Þannig höfum við hagað okkar baráttu og þannig munum við vinna eftir kosningar. Við ætlum ekki að gera lítið úr skoðunum annarra eða tala aðra niður til þess eins að reyna lyfta okkur á einhvern hærri stall. Það eru því miður alltof margir í því að gagnrýna aðra og hvað allt sé ómögulegt án þess að koma með lausnir. Þegar stjórnmálin eru hvað verst þá er hjólað í einstaklinga og þeir talaðir niður. Þannig stjórnmál viljum við ekki.

Framsókn er miðjuflokkur. Flokkur samvinnu og sátta. Við getum unnið með öllum. Hlustum á hugmyndir og rök. Leggjum svo mat á bestu mögulegu leiðina í samvinnu allra aðila.

Við sem störfum í sveitarstjórnum erum þar í umboði íbúa. Þurfum að gæta þeirra hagsmuna í hvívetna. Við kunnum að tala við fólk og hlusta. Við erum heiðarleg og einlæg. Við gerum mistök eins og aðrir og þá skiptir mestu máli að viðurkenna mistökin, læra af þeim og leiðrétta. Við höfum brennandi áhuga á samfélagsmálum og fólki. Tölum bæjarfélögin okkar upp. Hlustum á ólík sjónarmið og skoðanir.

Þannig stjórnmálafólk ætlum við að vera.

Framtíðin ræðst á miðjunni.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknar í Garðabæ.

Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. maí 2022.

Categories
Greinar

Múlaþing – gæfuspor

Deila grein

05/05/2022

Múlaþing – gæfuspor

Eins og flest­ar sam­ein­ing­ar sveit­ar­fé­laga átti sam­ein­ing­in í Múlaþing árið 2020 sér tölu­verðan aðdrag­anda. Grein­ar­höf­und­ur var bæj­ar­stjóri á Seyðis­firði árin 2011-2018 og á þeim árum var málið nokkuð til umræðu eins og sjá má í tíma­rit­inu Sveit­ar­stjórn­ar­mál­um frá í maí 2014. Þar var fjallað um umræðu sem varð um mögu­lega sam­ein­ingu Fljóts­dals­héraðs og Seyðis­fjarðar­kaupstaðar í aðdrag­anda sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga það ár.

Í grein­inni kem­ur fram að bæj­ar­ráð Seyðis­fjarðar­kaupstaðar og bæj­ar­stjórn Fljóts­dals­héraðs samþykktu bæði bók­un um kosti þess að sam­eina sveit­ar­fé­lög­in. Í bók­un bæj­ar­stjórn­ar Fljóts­dals­héraðs kom m.a. fram að mikl­ir mögu­leik­ar gætu fal­ist í frek­ari sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga á Aust­ur­landi og að með trygg­um vetr­ar­sam­göng­um milli sveit­ar­fé­lag­anna mætti telja lík­legt að all­ar for­send­ur væru til slíkr­ar sam­ein­ing­ar. Í bók­un bæj­ar­ráðs Seyðis­fjarðar­kaupstaðar kom m.a. fram að með tryggðum vetr­ar­sam­göng­um milli Seyðis­fjarðar og Fljóts­dals­héraðs yrðu til mik­il tæki­færi á Aust­ur­landi til enn frek­ari sam­vinnu og mögu­legr­ar sam­ein­ing­ar, stæði hug­ur íbúa á Aust­ur­landi til þess.

Seyðfirðing­ar hafa, ásamt fleir­um, lengi bar­ist fyr­ir jarðgöng­um und­ir Fjarðar­heiði til Héraðs. Í fyrr­nefndri grein er haft eft­ir þáver­andi bæj­ar­stjóra á Seyðis­firði að ef stytt­ist í göng­in verði for­send­ur fyr­ir því að kanna viðhorf íbú­anna. Þá gætu sveit­ar­fé­lög­in aukið sam­starf sín á milli og þá yrði sam­ein­ing greiðari síðar ef menn kysu hana.

Síðla árs 2017 þróuðust mál á þann veg að í sveit­ar­fé­lög­un­um sem sam­einuðust í Múlaþing, auk Vopna­fjarðar­hrepps og Fljóts­dals­hrepps, var ákveðið að láta fara fram könn­un um hug íbúa til sam­ein­ing­ar, en þessi sveit­ar­fé­lög höfðu lengi haft með sér sam­starf, m.a. um fé­lagsþjón­ustu og bruna­varn­ir. Niðurstaða þess­ar­ar könn­un­ar var nokkuð af­ger­andi já­kvæð hjá þeim sveit­ar­fé­lög­um sem síðan sam­einuðust en einnig skýr afstaða á ann­an veg í hinum.

Haustið efir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar 2018 hófst síðan sú veg­ferð sem leiddi á end­an­um til sam­ein­ing­ar í Múlaþing. Þeirri vinnu verða ekki gerð sér­stak­lega skil hér enda er það efni í aðra grein. Óhætt er þó að segja að vandað var til verka, sem full­yrða má að létti mjög sam­ein­ing­una og starfið við stofn­un hins nýja sveit­ar­fé­lags. Mark­miðið með sam­ein­ing­unni var skýrt: að bæta þjón­ustu, efla stjórn­sýslu og styrkja innviði. Sér­stök áhersla var lögð á sam­göng­ur milli byggðarlag­anna og að varðveita sér­stöðu byggðakjarn­anna og tryggja áhrif íbúa nærsam­fé­lags­ins inn­an þeirra.

Við upp­haf Múlaþings voru inn­leidd­ar nýj­ung­ar hvað varðar stjórn­sýslu sveit­ar­fé­laga, s.s. með til­komu heima­stjórna sem er mál manna að hafi gef­ist vel og haft já­kvæð áhrif á virkni íbúa og áhuga á mál­efn­um nærsam­fé­lags­ins. Einnig hef­ur vel tek­ist til með ra­f­ræn­ar lausn­ir, s.s. hvað fjar­fundi varðar, sem jafn­ar aðstöðu íbúa í afar víðfeðmu sveit­ar­fé­lagi til að taka þátt í störf­um á vett­vangi þess. Áhersla var lögð á að áfram yrðu skrif­stof­ur í hverju byggðarlagi eins og verið hafði. Þannig verða störf í stjórn­sýslu sveit­ar­fé­lags­ins a.m.k. að hluta ekki háð staðsetn­ingu og íbú­ar hafa aðgang að stjórn­sýslu sveit­ar­fé­lags­ins í sín­um byggðakjörn­um.

Það hef­ur verið góð sam­vinna og sam­starf í sveit­ar­stjórn, ráðum og heima­stjórn­um sem hef­ur gert starfið ár­ang­urs­rík­ara, sem ætíð skipt­ir miklu máli, en sér­stak­lega á tím­um um­fangs­mik­illa breyt­inga. Þannig vilj­um við Fram­sókn­ar­fólk í Múlaþingi starfa áfram í þágu íbúa sveit­ar­fé­lags­ins og ósk­um eft­ir stuðningi kjós­enda hinn 14. maí nk. til þess.

Vilhjálmur Jónsson

Höf­und­ur er sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi og skip­ar 2. sæti á lista Fram­sókn­ar­fé­lags Múlaþings fyr­ir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar. jons­son.vil­hjalm­ur@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. maí 2022

Categories
Greinar

Hækkum hvata­greiðslur í 60.000 krónur

Deila grein

04/05/2022

Hækkum hvata­greiðslur í 60.000 krónur

„Góðan dag, ég heiti Sighvatur og er nýfluttur í Innri-Njarðvík,“ sagði ég hátt og snjallt við starfsmann í byggingavöruverslun í Reykjanesbæ sumarið 2018. Hann svaraði brosandi: „Ég votta þér samúð.“ Með frábærum húmor sem minnti mig á heimahagana í Vestmannaeyjum kom maðurinn því vel til skila með þessum orðum að hann væri Keflavíkurmegin í lífinu.

Ég sprakk úr hlátri sem varð til þess að afgreiðslumaðurinn baðst afsökunar á þessu góðlátlega gríni. „Ef þú vilt losna við svona brandara þá skaltu bara segjast vera nýfluttur í Reykjanesbæ. Þá vitum við að þú ert aðkomumaður,“ sagði hann vinalegri og ráðgefandi röddu.

Íþróttir, menntun, menning og markaðsmál

Maður þarf að hafa húmor fyrir ríg sem ríkir á milli nágrannaliða eins og Keflavíkur og Njarðvíkur. Ég spilaði fótbolta í Eyjum lengst af með Þór. Ég fór reyndar yfir í Tý í 3. flokki og hef því reynslu af því að spila með bláa liðinu og því græna.

Ég hef kynnst ýmsum hliðum samfélagsins í Reykjanesbæ eftir búsetu í Innri-Njarðvík þetta kjörtímabil. Konan mín kennir á svæðinu, börnin æfa fótbolta með Njarðvík og ég er í Barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar Njarðvíkur ásamt því að syngja með Sönghópi Suðurnesja. Íþrótta- og menntamál standa mér nærri. Einnig menningar- og markaðsmál eftir áralanga reynslu af fjölmiðlum, dagskrárgerð, framleiðslu heimildarmynda og vinnslu ýmis konar kynningarefnis til stafrænnar markaðssetningar.

Hvatagreiðslur fyrir 4-18 ára

Sem ég er kallaður Hvati hef ég séð hversu mikilvægar svokallaðar hvatagreiðslur eru fyrir iðkendur íþrótta í Reykjanesbæ. Ég og félagar mínir í Framsókn erum sammála um hversu áríðandi það er að berjast fyrir því strax að öll börn á aldrinum 4-18 ára njóti þessarar niðurgreiðslu frá sveitarfélaginu. Við munum jafnframt beita okkur fyrir því á komandi kjörtímabili að hvatagreiðslurnar verði hækkaðar í 60.000 krónur.

Reykjanesbær styður vel við íþróttafélögin í sveitarfélaginu. Fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar leggjum við í Framsókn áherslu á að bæta við þann stuðning. Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka var hafist handa við byggingu nýs íþróttahúss við Stapaskóla í Innri-Njarðvík sem á eftir að bæta enn frekar umgjörð körfuboltans í Reykjanesbæ. Ný Ljónagryfja verður eitt af glæsilegum höfuðvígum körfuboltans á landinu.

Tryggjum íbúum Reykjanesbæjar jöfn tækifæri.

Sighvatur Jónsson, skipar 6. sæti á B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Er eitt­hvað til í frí­skápnum?

Deila grein

04/05/2022

Er eitt­hvað til í frí­skápnum?

Við Bergþórugötu 20 er að finna heldur meinlausan ísskáp, hann lætur ekki mikið fyrir sér fara, bara stendur þarna í rólegheitunum. Hann, líkt og Clark Kent áður en hann tekur niður gleraugun, á sér leyndarmál. Hann er nefnilega enginn venjulegur ísskápur!

Téður ísskápur er svokallaður frískápur sem líkt og áður nefnt ofurmenni berst linnulaust gegn illum öflum. Það er sorgleg staðreynd að á meðan sífellt vaxandi hópur fólks á ekki nægan mat fyrir sjálft sig og börnin sín þá fer vaxandi hluti þess matar sem framleiddur er í ruslið. Og þrátt fyrir mikla eftirspurn gengur illa að endurvinna allt það lífræna sorp sem af þessu sprettur í nothæfa moltu.

Frískápurinn á Bergþórugötunni var settur upp af framsæknum aðilum sem vissu af samskonar verkefnum erlendis í heimalöndum sínum og ákváðu að láta reyna á verkefnið hérlendis. Þangað getur hver sem er komið með mat sem það sér ekki fram á að nota og hver sem er farið með mat sem hann vantar. Og verkefnið hefur slegið í gegn!

Allt að vinna, allir græða – umhverfið, fólkið sem gefur og fólkið sem þiggur.

Það var mér kappsmál að koma því í stefnu Framsóknar í Reykjavík að koma fyrir frískáp í öllum hverfum borgarinnar. Þar var tekið vel með málaflokknum og öll boðin og búin til þess að aðstoða eins og kostur gafst. Frá því í janúar á þessu ári hefur farið fram leit í Smáíbúðahverfinu að góðum stað fyrir frískáp. Að endingu var það Hjálpræðisherinn sem tók að sér að hýsa skápinn í fallega nýja húsinu sínu og undirbúningur á opnun hans er á lokastigi.

Í Breiðholtinu tók það bara nokkra daga að finna stað fyrir frískáp, það var hann Valdi sem skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík og stjórnar Brúnni í Völvufelli sem tók að sér að hýsa hann. Frískápurinn hefur verið opinn fyrir matargjafir og þiggjendur í bráðum mánuð núna. Þangað fara afgangar frá heimilum, veitingahúsum, jafnvel fermingarveislu og hverfa jafnóðum.

Fleiri staðir eru í undirbúningi, misjafnlega langt komnir. Allt þetta er unnið í sjálfboðavinnu enda er þetta sjálfsprottin samvinna af umhyggju fyrir umhverfinu og náunganum. Ein getum við litlu breytt, en saman getum við breytt heiminum.

Er ekki kominn tími á meiri samvinnu í borginni?

Inga Þyrí Kjartansdóttir

Höfundur skipar 17. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Deila grein

04/05/2022

Er ekki bara best að vera hundur í Hafnarfirði?

Sagt er að hundar séu bestu vinir mannanna og í flestum tilfellum er það dagsatt.

Í  Hafnarfirði eru skráðir um 800 hundar og eflaust eru þeir nokkrir sem eru óskráðir. Það er þó erfitt að átta sig á fjölda hunda í Hafnarfirði en við göngur um bæinn má sjá að fjöldinn er nokkuð mikill.

Við í Framsókn viljum efla og byggja upp hundasvæðið sem staðsett er við Hvaleyrarvatnsveg.

Við viljum setja upp hundaleiktæki, þrautabraut og skolunarbúnað ásamt því að lagfæra og viðhalda hundasvæðinu. Þá viljum við einnig leggja áherslu á að hundasvæðinu yrði sinnt betur og nýjum ruslatunnum með hundpokum verði komið fyrir.

Það hefur verið ákall frá hundaeigendum að koma upp góðu hundasvæði í Hafnarfirði þar sem lausaganga er leyfð. Á kjörtímabilinu sem senn er að enda var sett upp gott hundagerði við kirkjugarðinn í suðurbænum. Það er vel nýtt og því nauðsynlegt að halda áfram að sinna stórum hópi hundaeigenda í Hafnarfirði vel.

„Ég er glaðasti, glaðasti, glaðasti hundur í heimi. Mér er klappað á hverjum degi og ég er að  fíla‘ða,“ segir í laginu glaðasti hundur í heimi eftir Friðrik Dór.

Er ekki bara best að botna lagið og syngja um glöðustu hundana í Hafnarfirði sem fá að hlaupa um frjálsir á hundasvæði, hitta vini sína, hnusa, hlaupa og digg‘aða?

Er ekki bara best að eiga hund í Hafnarfirði? Það verður það þegar upp er komið flott opið hundasvæði í heimabænum okkar þar sem við getum meira segja skolað bestu vini okkar áður en við höldum heim á leið. Það yrði líka kærkomið fyrir hafnfirska hundaeigendur að þurfa ekki að fara úr sveitarfélaginu til að komast á gott og opið hundasvæði.

Margrét Vala Marteinsdóttir,
skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Hafnarfirði og hundaeigandi.

Greinin birtist fyrst á fjardarfrettir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Það má ekki verða of dýrt að spara

Deila grein

04/05/2022

Það má ekki verða of dýrt að spara

Fjármál sveitarfélaga fá ekki endilega mesta plássið í umræðunni fyrir kosningar. Flest vitum við þó að sterkur fjárhagur er nokkuð augljós og mikilvægur undirliggjandi þáttur allra málaflokka. Vissulega eru til undantekningar, en almennt séð er fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi ekki sterk. Hún einkennist oft af hárri skuldsetningu og litlum afgangi þegar búið er að greiða af lánum og ráðstafa fjármunum til lögbundinna verkefna.

Í Kópavogi hefur aðhalds verið gætt undanfarin ár í rekstri og skuldsetningu bæjarins. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á að lækka skuldir sem hlutfall af umfangi rekstrar og hefur það gengið vel á meirihluta vakt Framsóknar í bænum.

Minni lántökur hafa eðlilega leitt til þess að fjárfestingar hafa verið fjármagnaðar úr rekstrinum án þess að bætt sé í heildarskuldir. Það er mjög jákvæð þróun sem mörg sveitarfélög mættu taka sér til eftirbreytni.

En stöldrum aðeins við. Getum við ef til vill verið skynsamari í fjárfestingum? Vissulega. Því sú hætta sem skapast þegar of mikillar íhaldssemi er gætt á skuldahliðinni, er að ef reksturinn skilar ekki nægjanlega miklum arði þá verður ekki aflögu nægt fjármagn til viðhalds og framkvæmda innviða. Færa má rök fyrir að þessi staða sé uppi hjá Kópavogsbæ núna því það vantar nokkuð upp á að veltufé frá rekstri bæjarins standi undir nýframkvæmdum og viðhaldi eigna bæjarins.

Þessi staða er mjög varasöm til lengri tíma, einkum er varðar viðhaldsþætti mannvirkja. Þar er bærinn í sömu stöðu og við í okkar heimilisrekstri. Ef við vanrækjum viðhald á okkar eigum þá safnast þörfin upp og hittir okkur fyrir af margföldum þunga síðar meir. Því miður eru allt of mörg dæmi um það á undanförnum árum að mannvirki sveitarfélaga hafi verið vanrækt þangað til þau verða ónýt og kostnaður við endurbyggingu margfaldur á við það sem væri ef jöfnu og kerfisbundnu viðhaldi er sinnt. Í því samhengi má segja að stundum geti verið dýrt að spara og að lántaka geti verið skynsamleg í arðsöm og verkefni sem tryggja gott ástand eigna og gæði þeirra sem íverustaður fyrir þá sem þar dvelja.

Mætumst á miðjunni í Kópavogi og leggjum aukna áherslu á arðsemi af rekstri Kópavogsbæjar til að efla getu hans til framkvæmda og viðhalds fyrir eigin afli. Það margborgar sig.

Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Gerum góðan bæ enn betri

Deila grein

04/05/2022

Gerum góðan bæ enn betri

Grindavík! Sjávarbærinn sem nær ekki að bjóða sjómönnum sínum örugga innsiglingu á erfiðum vetrardögum þegar öldurnar láta til sín taka. Íþróttabærinn sem bíður sínum iðkendum upp á heimaleiki í meira en 40 km fjarlægð þar sem fótboltavellir bæjarins eru undir ákveðnum regluviðmiðum. Fjölskyldubærinn sem fælir fjölskyldur til nærliggjandi sveitarfélaga til þess að eiga notalega stund saman í barnvænu, öruggu og hlýju sundumhverfi. 

Ársreikningar Grindavikurbæjar árið 2021 sýnir glögglega hagstæðu afkomu bæjarins enn eitt árið. Nokkrir bæjarstjórnarmenn gengu nýlega í pontuna og lýstu yfir stolti sínu á ársreikningnum – réttilega að mínu mati. En það eigum við einnig, kæru Grindvíkingar, að vera og það af okkur sjálfum og starfsmönnum bæjarins sem láta verkin tala og sýna aðgát í rekstri með okkar framlagi til Grindavíkurbæjar.

Grindavíkurbær er fjölmennasti  atvinnurekandi í Grindavík og það án þess að vera með starfsgildið mannauðsstjóra. Því þurfum við að breyta, við þurfum sviðstjóra sem sýnir mannauðsmálum bæjarins jafn mikla athygli og fjármálastjóri sýnir kostnaðarliðum. Það eru starfsmenn bæjarins sem tryggja og framkvæma m.a. lögbundinni þjónustu til bæjarbúa. Við þurfum að hlúa betur að starfsmönnum bæjarins með því að auka fjárfestingu í þeirra starfsumhverfi, starfsþróun og starfsgildum. 

Ég trúi að fjárfestingarnar í mannauð Grindavíkurbæjar sé lykillinn í að bæta þjónustu og innviði bæjarins. Við erum með örugga höfn sem veitir framúrskarandi þjónustu til stærstu atvinnugreinar Grindavíkur en með aðstoð ríkisins er nauðsynlegt að við séum að skoða leiðir sem tryggir öruggari innsiglingu fyrir alla báta og skip sem vilja sækja höfnina í Grindavík. Við höfum verið að fjárfesta í íþróttamannvirkjum á svæðinu en það er ljóst að það er enn verk að vinna svo allir heimaleikir séu leiknir í Grindavík og sundlaugarsvæðið samræmist væntingum bæjarbúa.  

Samfélagið okkar samanstendur af mörgum ólíkum einstaklingum sem allir hafa sína sögu að segja en það er einmitt þessi fjölbreytileiki sem gerir okkar samfélag bara litríkara. Margir af þessum einstaklingum kjósa að standa á hliðarlínunni á meðan aðrir gefa kost á sér í verkin. Þrátt fyrir það er mikilvægt að við tryggjum að við virðum hvoru tveggja og sýnum hvert öðru virðingu. Þó svo að okkar hugmyndir, skoðanir og/eða aðferðir séu ólíkar er ég viss um við eigum sameiginlega sýn og það er að bæta Grindavíkurbæ. 

Framundan eru breytingar á bæjarstjórninni og langar mig að þakka þeim sem frá hverfa fyrir sitt framlag, þið eigið hrós skilið fyrir vel unnin störf. Takk! Ef ég er svo lánsamur að taka sæti í bæjarstjórn fyrir hönd Framsóknar mun ég þurfa aðstoð. Ég mun biðja um hjálp, ég vona að hjálparhönd verði mér veitt þegar ég bið um hana. Ef ég er ekki að skilja málefnið nógu vel má útskýra það aftur fyrir mér svo ég geti öðlast betri skilning. Við munum ekki alltaf vera sammála en ég mun bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Þegar góðir hlutir gerast mun ég hrósa þeim sem koma að málinu og jafnframt veita uppbyggilega endurgjöf til þeirra þegar hlutirnir ganga hægt eða hreinlega ekki upp. Ég hleyp ekki frá ábyrgð, ég hef og er ávallt tilbúinn að axla og fagna ábyrgð. Mig langar að vera virkur og taka þátt í að bæta okkar samfélag, verum saman í liði, það þarf heilt samfélag til að gera Grindavík að enn betri bæ.

Sverrir Auðunssonskipar 2. sæti á lista Framsóknar í Grindavík.

Greinin birtist fyrst á vf.is 4. maí 2022.