Categories
Greinar

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Deila grein

06/03/2022

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Þann 1. mars sl. á 33 ára afmæli bjórsins á Íslandi skrifaði Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður áhugaverða grein á svæði Innherja á Vísi.is þar sem hann hefur tekið að sér hlutverk sagnfræðings og rekur sögu verslunar á Íslandi. Söguskýringar sagnfræðingsins eru býsna einhliða, en það er svo sem ekki nýtt af nálinni að sá ágæti maður feti veg hinnar fullkomnu frjálshyggju. Í grein þessari gerir hann frumvarp mitt um breyttan opnunartíma Vínbúðarinnar að umtalsefni. Það ber að þakka, enda er frumvarpið til bóta og til þess fallið að auka þjónustu við neytendur, sem reynist eitt af helstu hugarefnum hans. Það sem hann skautar hins vegar fimlega fram hjá er akkúrat sú staðreynd að markmið frumvarpsins er að auka þjónustu í fyrirkomulagi þar sem eftirlit með aldri er viðhaft og lýðheilsusjónarmið ráða för. Vínbúðin sýnir þá samfélagslegu ábyrgð sem henni ber og tekur þátt í mikilvægu forvarnarstarfi. Það er vel hægt að auka þjónustu til neytenda til að mynda með því að opna Vínbúðina á sunnudögum án þess að gefa áfengisverslun frjálsa.

Stýrt aðgengi

Á Íslandi höfum við rekið ríkissútsölu á áfengi líkt og í Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum meðan frjálsara er um söluna í Danmörku. Það er ekki af ástæðulausu sem við viljum halda sölunni í stýrðu umhverfi, sérstaklega þegar við horfum til lýðheilsusjónarmiða. Reynslan hefur sýnt okkur að það reynist vel, ekki eingöngu hér á landi heldur einnig í Svíþjóð en árið 2018 var fýsileiki þess að gera áfengissölu frjálsa skoðaður og niðurstaðan reyndist sú að gallarnir voru fleiri en kostirnir. Það er það sem við viljum – hafa aðgengi og geta verslað áfengi í öruggu umhverfi sem núverandi fyrirkomulagi hefur upp á að bjóða. Með því að rýmka opnunartíma erum við að auka þjónustu verslana Vínbúðarinnar og aðlögum okkur að breyttum tíðaranda og verslunarhegðun en á sama erum við að koma til móts við frjálslyndari sjónarmið án þess að galopna allt upp á gátt og gefa sölu áfengis frjálsa með ófyrirséðum afleiðingum. Fyrrum dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp haustið 2020 sem m.a. kvað á um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi í smásölu til neytenda og heimilaði netverslun á áfengi í smásölu. Það frumvarp var ekki samþykkt af ríkisstjórn og var því lagt fram að nýju að framangreindu ákvæði frátöldu. Augljóst er að ekki er pólitískur vilji til að stíga það skref til fulls og því er hér komin málamiðlun sem flestir ættu að geta fellt sig við.

Slá hugmyndir um vín í matvöruverslanir út af borðinu

Það virðist gæta einhvers misskilnings hjá fólki hvert markmiðið er með frumvarpi mínu. Það er lagt fram sem tilraun til sáttar milli öfgapóla svo við þurfum ekki ítrekað að takast á um sömu sjónarmiðin, en hér er komið fram nýtt sjónarmið sem flestir ættu að geta fellt sig við. Verði frumvarpið að lögum þurfum við ekki að fylgjast með boðberum hinnar fullkomnu frjálshyggju brotlenda enn og aftur með áform sín um vín í matvöruverslanir því enn er ljóst að ekki er sátt um þá nálgun. Þá verður að huga að lýðheilsusjónarmiðum þegar við tökum þessa umræðu og aukið aðgengi og minna eftirlit er líklegra til að auka neyslu áfengis. Það má einnig færa sterk rök fyrir því að betri bragur er á að hafa þetta í sérverslun þar sem fólk þarf að gera sér ferð í búð til að versla sér áfengi þó það væri ekki nema bara til að nefna af tillitssemi við fólk sem á við áfengisvanda að stríða og er í baráttu við þann sjúkdóm og freistingar í matvöruverslun algjörlega óþarfi. Á Norðurlöndunum er álitið að hömlur á sölu áfengra drykkja séu áhrifarík aðferð til að draga úr þeim skaða sem hlýst af áfengisneyslu og áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Slíkt gerum við með ábyrgum hætti í gegnum núverandi fyrirkomulag og mikilvægt að við séum með öflugar forvarnir og lýðheilsufræðslu.

Þar að auki höldum við uppi heilbrigðri endurnýjun og styðjum við lítil brugghús hér á landi með því að hafa þetta í höndum ríkisins, sem ber að tryggja heilbrigða samkeppni allra sem kjósa að koma vörum sínum á markað hér á landi. Þannig tryggjum við íslenska framleiðslu og okkur í Framsókn leiðist það ekki. Vöðum ekki í villu og svima hinnar „fullkomnu frjálshyggju“. Aukum þjónustu undir tryggu eftirliti, sameinumst um þessa raunhæfu og skynsömu lausn sem mætir ólíkum hagsmunum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. mars 2022.

Categories
Fréttir

Jón Björn leiðir lista Framsóknar í Fjarðabyggð

Deila grein

04/03/2022

Jón Björn leiðir lista Framsóknar í Fjarðabyggð

Framboðslisti Framsóknar í Fjarðabyggð samþykktur

Framboðslisti Framsóknarfélags Fjarðabyggðar var samþykktur á fjölmennum félagsfundi í Þórðarbúð á Reyðarfirði í kvöld.

Uppstillingarnefnd, undir forystu Lars Gunnarssonar,  hefur unnið að því undanfarnar vikur að stilla upp listanum og á fundinum í kvöld var tillaga hennar lögð fram og samþykkt einróma.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar skipar fyrsta sæti listans, í öðru sæti er Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bóndi á Sléttu, í þriðja sæti er Birgir Jónsson, framhaldsskólakennari , fjórða sætið skipar Arnfríður Eide Hafþórsdóttir, mannauðs- og öryggisstjóri og það fimmta Elís Pétur Elísson, framkvæmdastjóri.

“Framboðslisti Framsóknarflokksins í Fjarðabyggð er skipaður kraftmiklu  fólki á öllum aldri með fjölbreyttan bakgrunn, sem kemur úr öllum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Á listanum fer saman víðtæk þekking, reynsla, kraftur og vilji til að vinna að eflingu samfélagsins í Fjarðabyggð, með öruggar grunnstoðir og fjölbreytt atvinnulíf í forgrunni. Ég er spenntur fyrir kosningabaráttunni og þeirri vinnu sem framundan er með þeim öfluga hópi sem hér var kynntur í kvöld” sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti listans eftir að listinn var samþykktur í kvöld.

Framboðslisti Framsóknar í Fjarðabyggð fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 er þannig skipaður.

1.         Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri, Norðfirði

2.         Þuríður Lillý Sigurðardóttir bóndi, Reyðarfirði

3.         Birgir Jónsson framhaldsskólakennari Eskifirði

4.         Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri, Fáskrúðsfirði

5.         Elís Pétur Elísson framkvæmdastjóri, Breiðdal

6.         Pálína Margeirsdóttir bæjarfulltrúi og ritari, Reyðarfirði

7.         Bjarni Stefán Vilhjálmsson verkstjóri, Stöðvarfirði

8.         Karen Ragnarsdóttir skólastýra, Norðfirði

9.         Kristinn Magnússon rafvirki og íþróttafræðingur, Breiðdal

10.       Margrét Sigfúsdóttir grunnskólakennari, Mjóafirði

11.       Ívar Dan Arnarsson tæknistjóri, Reyðarfirði

12.       Tinna Hrönn Smáradóttir iðjuþjálfi, Fáskrúðsfirði

13.       Þórhallur Árnason aðalvarðstjóri, Eskifirði

14.       Guðfinna Erlín Stefánsdóttir forstöðumaður og stuðningsfulltrúi, Fáskrúðsfirði

15.       Bjarki Ingason rafvirkjanemi, Norðfirði

16.       Bjarney Hallgrímsdóttir grunnskólakennari, Eskifirði

17.       Jón Kristinn Arngrímsson matráður, Reyðarfirði

18.       Elsa Guðjónsdóttir sundlaugavörður, Fáskrúðsfirði

Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.

Categories
Greinar

Sanngjörn samkeppni

Deila grein

01/03/2022

Sanngjörn samkeppni

Fyrr í vetur fór fram sérstök umræða um innlenda matvælaframleiðslu að minni beiðni. Þar lagði ég megináherslu á þrjú atriði; sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði, tollasamninginn við Evrópusambandið og endurskoðun hans og aðgerðaáætlunin um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Undanfarin misseri hefur innlend kjötframleiðsla átt í harðri og ósanngjarnari samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hér heima. Við vitum að staðan í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega þung og komin að þolmörkum. Ef ekki á illa að fara þá er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðgerða sem við vitum að skili árangri. Þingflokkur Framsóknar hefur lengi talað fyrir því að kjötframleiðslan fari sömu leið og mjólkuriðnaðurinn. Þá er átt við að nýta heimild 71. gr. búvörulaga, sem kveður á um undanþágu frá samkeppnislögum og heimilar sameiningu afurðastöðva.

Nauðsynlegt er að hagræða

Fyrir liggja ýmsar greiningar á hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Þær benda til þess að allt að 1,5 milljarða hagræðing gæti átt sér stað innan sauðfjárræktarinnar og nautgripaframleiðslunnar. Ef svína- og alifuglarækt væru tekin með yrði talan enn hærri, þ.e. um 2-3 milljarða hagræðing af sameiningu á ári.

Bændur eru orðnir langþreyttir á viðvarandi ástandi og ef ekkert verður gert er mikil hætta á því að fjöldi þeirra dragi úr eða jafnvel hætti framleiðslu. Það er ekki boðlegt að reka fyrirtæki í því umhverfi sem bændum er boðið upp á í dag.

Við eigum að skapa þessum greinum viðunandi starfsumhverfi og tryggja samkeppnishæfni. Þar er algjört frumskilyrði að bændur og aðrir kjötframleiðendur hafi viðundandi afkomu af framleiðslu sinni. Við höfum tækin og tólin til að grípa inn í og það er tilefni til að nota þau. Við í Framsókn erum óhrædd við að styðja og vernda íslenska matvælaframleiðslu.

Það eru 17 ár síðan ofangreind undanþága frá samkeppnislögum var gerð í mjólkuriðnaðinum og má með sanni segja að það hafi tekist ágætlega til. Unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun, verkaskipting er skýr og allt gengur út á að ná fram hagræðingu innan iðnaðarins. Hagræðingin innan mjólkuriðnaðarins nemur allt að 3 milljörðum á hverju ári.

Við umfjöllun á þessu er grundvallaratriðið að ná fram hagræðingu og lækka framleiðslukostnað. Í því samhengi er ekki einungis verið að hugsa um hag frumframleiðandans heldur alla virðiskeðjuna. Markmiðið er að tryggja hag allra, ekki síst neytenda.

Endurskoðun á tollasamningi

Annað atriði sem leggja þarf áherslu á snýr að tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Höfuðmarkmið samningsins verður að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við. Það er vandasamt að keppa við innflutning matvöru þar sem allt önnur lögmál gilda, t.d. löggjöf um aðbúnað dýra, staðlar og kröfur eru ekki í samræmi við íslenskar reglur og kjör landbúnaðarverkamanna eru allt önnur. Tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki.

Nýtum verkfærin

Við Íslendingar eigum mikil sóknarfæri í landbúnaði, en tími aðgerða er núna! Við eigum að nýta heimildina í 71. gr. búvörulaga og endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið. Þetta eru forgangsmál.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2022.

Categories
Fréttir

Blikur á lofti í Evrópu – staða Íslands

Deila grein

01/03/2022

Blikur á lofti í Evrópu – staða Íslands

Fimmtudagur 3. mars

Þingflokkur Framsóknar heldur áfram að funda víðsvegar um landið í kjördæmavikum. Nú er komið að höfuðborginni og gefst tækifæri til að ræða stóru myndina í heimsmálunum.

Fundurinn fer fram í Hvammi á Grand hótel kl. 20:00.

Categories
Greinar

Áfram á vaktinni

Deila grein

28/02/2022

Áfram á vaktinni

Öllum tak­mörk­un­um hef­ur verið aflétt á Íslandi eft­ir tveggja ára bar­áttu við far­sótt­ina ill­ræmdu. Ver­öld­in hef­ur þurft að tak­ast á við marg­slungn­ar af­leiðing­ar far­sótt­ar­inn­ar sem hafa birst með ýms­um hætti. Það tíma­bil sem nú sér fyr­ir end­ann á hef­ur reynst mik­ill próf­steinn á innviði fjöl­margra ríkja. Þannig hef­ur reynt veru­lega á heil­brigðis­kerfi, styrk hag­stjórn­ar ríkja sem og alþjóðlega sam­vinnu.

Fram­kvæmd aðgerða og ár­ang­ur Íslands

Á heimsvísu er hægt að full­yrða að einkar vel hafi tek­ist til við stjórn efna­hags­mála en mann­fall var mjög mis­mun­andi eft­ir ríkj­um heims­ins. Hægt er að full­yrða að á Íslandi hafi tek­ist vel til við að verja líf og heilsu fólks en dán­artíðni á hvern íbúa er sú lægsta í ver­öld­inni. Allt það frá­bæra fag­fólk sem staðið hef­ur vakt­ina í heil­brigðis­kerf­inu á mikl­ar þakk­ir skild­ar fyr­ir fram­lag sitt í far­aldr­in­um. Þá tókst okk­ur einnig að halda skóla­kerf­inu gang­andi í gegn­um far­sótt­ina og er það mik­illi þraut­seigju okk­ar skóla­fólks að þakka. Reglu­lega sýndi það mikla aðlög­un­ar­hæfni í skól­um lands­ins til þess að glíma við breyti­leg­ar aðstæður sem tak­mark­an­ir tengd­ar far­aldr­in­um leiddu af sér. Að sama skapi má segja að efna­hagsaðgerðir séu vel heppnaðar. Lands­fram­leiðsla hef­ur verið að sækja í sig veðrið og jókst um 4,1% á fyrstu þrem­ur fjórðung­um síðasta árs og er áætlað að hag­vöxt­ur árs­ins 2021 verði um 5%. At­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt og slak­inn í þjóðarbú­inu minnk­ar ört. Að sama skapi hef­ur verðbólga auk­ist í 6,2% í fe­brú­ar og hef­ur ekki verið hærri í tæp­an ára­tug. Skýrist þessi mikla verðbólga að stór­um hluta af mik­illi hækk­un hús­næðis­verðs ásamt um­fangs­mikl­um hækk­un­um alþjóðlegs hrávöru­verðs og flutn­ings­kostnaðar. Afar brýnt er að ná tök­um á verðbólg­unni án þess þó að aðgerðirn­ar skaði efna­hags­bat­ann. Það kann að vera að þessi háa verðbólga verði tíma­bund­in, þar sem eft­ir­spurn á heimsvísu mun minnka um leið og áhrif efna­hagsaðgerðanna dvína. Það má einnig fast­lega bú­ast við því að óverj­an­leg inn­rás Rúss­lands inn í Úkraínu muni hafa áhrif á verðlagn­ingu ým­issa vöru­flokka sem og eft­ir­spurn. Þannig má gera ráð fyr­ir að verðbólga auk­ist tíma­bundið vegna hærra olíu­verðs og annarr­ar hrávöru.

Sam­an sem sam­fé­lag

Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svo­kallaðri efna­hags­legri loft­brú. Sú brú var stór og er heild­ar­um­fang efna­hags­ráðstaf­ana árin 2020 og 2021 um 215 millj­arðar króna svo dæmi sé tekið. Lögð var áhersla á að koma til móts við fólk og fyr­ir­tæki sem urðu illa fyr­ir barðinu á veirunni. Fyr­ir stjórn­völd var það sann­girn­is­mál að beita rík­is­fjár­mál­un­um með þeim hætti og tryggja að við fær­um sam­an sem sam­fé­lag í gegn­um kófið.

Það sem Thatcher gerði

Fyrr í mánuðinum viðraði ég hug­mynd­ir í þess­um anda um aukna aðkomu bank­anna að fjöl­skyld­um og fyr­ir­tækj­um, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, sem til að mynda vaxta­hækk­an­ir snerta með þyngri hætti en aðra. Til að ná slík­um mark­miðum nefndi ég einnig í því sam­hengi svo­kallaðan hval­reka­skatt í anda Mar­grét­ar Thatcher, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, á of­ur­hagnað bank­anna sem nem­ur yfir 80 millj­örðum króna árið 2022. Fór hægri kon­an Thatcher þessa leið árið 1981 þegar bresk­ir bank­ar högnuðust veru­lega vegna hækk­un­ar stýri­vaxta þar í landi. Bú­ast má við því að sama verði upp á ten­ingn­um í af­komu banka hér á landi þar sem vaxtamun­ur mun aukast í kjöl­far hærri stýri­vaxta. Und­an­farið hef­ur margt fólk þurft að ráðast í dýr­ar fjár­fest­ing­ar til að tryggja sér og sín­um þak yfir höfuðið á fast­eigna­markaði sem ein­kenn­ist af mikl­um skorti á íbúðum vegna langvar­andi lóðaskorts. Þenn­an hóp þarf að styðja við strax í upp­hafi þreng­inga til að draga úr lík­um á greiðslu­vanda seinna meir. Þar skipt­ir sam­vinna stjórn­valda, fjár­mála­fyr­ir­tækja og fjöl­skyldna máli.

Lands­virkj­un áfram í eigu okk­ar allra

Það hug­ar­far að við séum öll í þessu sam­an hef­ur reynst okk­ur vel í gegn­um far­ald­ur­inn. Á sama tíma er ljóst að við blasa áskor­an­ir í rík­is­fjár­mál­um til að vinda ofan af þeim halla sem mynd­ast hef­ur vegna heims­far­ald­urs og viðspyrnuaðgerða sem hon­um tengj­ast. Við ætl­um okk­ur að vaxa út úr þeim halla með auk­inni verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu. Þar munu stjórn­völd halda áfram að skapa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um hag­fellt og hvetj­andi um­hverfi til að sækja fram. Hug­mynd­ir um að selja allt að 40% hlut al­menn­ings í Lands­virkj­un eiga ekki að vera leiðin til að fjár­magna rík­is­sjóð til skamms tíma og get ég slegið því föstu að slík sala mun aldrei eiga sér stað á meðan Fram­sókn á sæti í rík­is­stjórn Íslands. Við vilj­um að Lands­virkj­un verði áfram í eigu allra Íslend­inga, sem burðarás fyr­ir ís­lensk heim­ili og fyr­ir­tæki. Ég tel mjög breiða sam­fé­lags­lega sátt ríkja um slíkt og það eig­um við að virða.

Þrátt fyr­ir krefj­andi tíma und­an­far­in ár vegna veirunn­ar og góðan ár­ang­ur sem náðst hef­ur í gegn­um þann tíma er mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum. Við lif­um enn á viðsjár­verðum tím­um vegna óafsak­an­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu, sem hef­ur áhrif á stöðu mála hér í Evr­ópu. Við mun­um tak­ast á við þær áskor­an­ir af festu og með sam­vinnu til að tryggja að Ísland verði áfram í sterkri stöðu til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar-, ferða- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Deila grein

28/02/2022

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á innflutningi landbúnaðarafurða síðustu ára, sérstaklega mjólkurafurða, hefur eftirlit með innflutningi ekki aukist að sama skapi, því miður. Þó þessi mál hafi verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Ríkisendurskoðandi birti á mánudaginn skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða þar sem segja má að eftirlit með tollaframkvæmd landbúnaðarafurða hafi fengið falleinkunn. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við tollaframkvæmd hér á landi. Úttektin staðfestir því sem haldið hefur verið fram um allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara.

Staðfest misræmi

Í grein hér á Vísi fer formaður Félags atvinnurekanda mikinn og talar um að ásakanir Bændasamtaka Íslands og MS á hendur innflutningsfyrirtækjum um stórfellt svindl við innflutning og að úttekt Ríkisendurskoðanda hafi hrakið það þær ásakanir. Ég veit ekki með hvaða gleraugum hann las skýrsluna en í raun staðfestir hún það misræmi sem Bændasamtökin og fleiri hafa haldið fram og misræmið er verulegt. Hver ber ábyrgðina ? Framkvæmd tollflokkunar er að Tollurinn eða Skatturinn núna, tollflokkar vöruna í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum. Í skýrslu Ríkisendurskoðenda kemur fram að Tollurinn hafi farið í sérstakt verkefni að greina áreiðanleika tollskýrslna og í ljós kom að í 23% tollskrýslna finnast misræmi eða villur og þá er ekki laust við að það vakni grunur um að einbeittur brotavilji sé hér um að ræða. Það þarf ekki fleiri vitnanna við, og nægir að vísa í dóma Landsréttar og Hæstaréttar og bindandi álit um þessi mál. Innflutningsaðili ber ábyrgð á tollskýrslu sem skilað er inn til Skattsins þar sem hann hefur leyfi til rafrænna tollflokkunnar.

Undanskot við innflutning

Ríkisendurskoðun fullyrðir að möguleg misflokkun eða undanskot á landbúnaðarafurðum geti numið háaum fjárhæðum sem ríkissjóður verður af auk þess að með misflokkun varðað mikilvæga hagsmuni um heilbrigði manna, dýra og plantna.

Samræmt flokkunarkerfi

Nú vinnum við eftiralþjóðlegu flokkunarkerfi yfir vörur sem samin er af Tollasamvinnuráðinu í Brussel, því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þá komum við að mikilvægi eftirlitsins. Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollaframkvæmd, sé í betri samvinnu við aðrar tollastofnanir erlendis. Eftirgrennslan Ríkisendurskoðenda leiddi af sér niðurstöður um að setja þurfi gæði gagna í forgrunn þar sem áræðanleiki og nákvæmni tollskrýslna sé enn ábótavant. Eftirlit og tollendurskoðun þurfi að efla því endurskoðun á innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Ríkisendurskoðun telur að endurskipuleggja og efla þurfi tollsvið Skattsins svo unnt sé að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað. Þangað til að úr því verður bætt munu áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagstap fyrir ríkissjóð

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2022.

Categories
Fréttir

„Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa“

Deila grein

24/02/2022

„Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, sagði á Alþingi í dag:

„Það sem við höfum mörg hver óttast og fylgst með á síðustu dögum og vikum hefur verið að raungerast á síðasta sólarhring. Við hljótum að fordæma harðlega þá framkomu og þær ákvarðanir sem forseti Rússlands og yfirvöld í Rússlandi hafa tekið með því að ráðast inn í frjálst og fullvalda nágrannaríki sitt, lýðræðisríki, og brjóta þar með landamæri og alþjóðleg lög. Við hljótum að skipa okkur í sama lið og allar aðrar lýðræðisþjóðir í heimi, vestrænar þjóðir, bandalagsþjóðir okkar, hvort sem þær eru innan NATO eða innan Evrópu. Ég fagna því og vil reyndar lýsa því yfir, svo að á því sé enginn vafi, að ríkisstjórnin er einhuga í þeirri yfirlýsingu sem forsætisráðherra fór með í upphafi þessarar umræðu. Ég er líka ánægður að heyra að þau skilaboð sem koma frá þinginu eru skýr.

Skilaboð okkar frá Íslandi, frá ríkisstjórn, frá Alþingi, frá þjóðinni eru einfaldlega þessi:

Við fordæmum þessar aðgerðir Rússa og við stöndum með fólkinu í Úkraínu. Hugur okkar hlýtur að vera hjá almenningi þar, þar sem þeirra venjulega, daglega lífi er ógnað. Við munum gera allt sem við getum gert. Við þurfum að axla þá ábyrgð sem við höfum í því varnarbandalagi sem við erum í og í þeirri bandalagsstarfsemi sem þar er til að gagnast í þessu verkefni. Við þurfum líka að reyna að gera það sem við mögulega getum til að hjálpa fólkinu í Úkraínu.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg og það er mikilvægt að við sýnum samstöðu frá Íslandi. Ég vona að allur heimurinn geri slíkt hið sama.“

Categories
Fréttir

Innrás í frjálst og fullvalda ríki hefur afleiðingar

Deila grein

24/02/2022

Innrás í frjálst og fullvalda ríki hefur afleiðingar

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, sagði í störfum þingsins á Alþingi, að öryggi Íslands byggist á sterkum gagnkvæmum vörnum bandalagsríkja NATO, með sameiginlegum vörnum og samvinnu. En jafnframt á trú okkar á frið, mannréttindum og lýðræði, og að leikreglum alþjóðasamfélagsins séu virtar.

„Frá lýðveldisstofnun hefur velgengni okkar grundvallast á sjálfsákvörðunarrétti okkar til athafna og ákvarðana um eigin örlög. Blessunarlega hefur stríð ekki ógnað okkar tilveru né fullveldi frá seinni heimsstyrjöld,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Innrás í frjálst og fullvalda ríki má aldrei og á aldrei að verða án afleiðinga fyrir þann sem valdi beitir.“

„Við Íslendingar erum fámenn, herlaus þjóð í gjöfulu landi. Það rof sem blasir við í öryggismálum í okkar heimsálfu er grafalvarlegt og kallar á sameiginleg viðbrögð. Staðan kennir okkur einnig mikilvægi þess að landið sé sjálfbært, fæðuöryggi okkar sé tryggt, samningar okkar á alþjóðavettvangi séu virtir og varnir okkar traustar. Það er og verður ávallt siðferðisleg skylda okkar að hvetja til friðsamlegra lausna og standa gegn stríðsátökum sem einna helst bitna á saklausum borgurum,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Ég trúi því að stjórnvöld og Alþingi tali skýrt fyrir þeim gildum sem skilað hafa friði og velsæld í Evrópu í áratugi og að enginn afsláttur verði gefinn þar á,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.

Categories
Fréttir

Falleinkunn í tollframkvæmd landbúnaðarafurða

Deila grein

24/02/2022

Falleinkunn í tollframkvæmd landbúnaðarafurða

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni falleinkunn þá er kemur fram í skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða í störfum þingsins á Alþingi. Ríkisendurskoðandi birti skýrslu þessa í vikunni.

Alvarlegar athugasemdir við tollframkvæmdinni eru endurtekið efni frá því fyrir níu árum. „Þetta sætir furðu,“ sagði Halla Signý. „Margir af þeim annmörkum sem komu fram þá eiga enn við í dag. Þrátt fyrir gríðarlega aukningu síðustu ára á innflutningi landbúnaðarvara, sérstaklega mjólkurafurða, hefur mikilvægi eftirlits ekki aukist að sama skapi, því miður.“

„Það sætir furðu að þrátt fyrir að tollframkvæmd á innfluttum vörum hafi verið þó nokkuð í kastljósinu undanfarin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Úttektin staðfestir það sem haldið hefur verið fram, að allnokkurt misræmi er á útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara,“ sagði Halla Signý.

„Nú vinnum við eftir alþjóðlegu flokkunarkerfi yfir flytjanlegar vörur sem samið er af tollsamvinnuráði í Brussel. Því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þrátt fyrir það virðist ekki vera hægt að tolla rétt vörur hér á landi,“ sagði Halla Signý.

Tollurinn flokkar vörur í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum og virðist treysta þeim upplýsingum í blindni í stað þess að bera þær saman við skráð flokkanúmer frá útflytjanda.

„Það er athyglisvert að þarna eru íslenskir innflytjendur frjálsir að flokka sínar vörur að vild og þegar maður horfir á misræmið er ekki laust við að maður haldi að þarna sé um einbeittan brotavilja að ræða,“ sagði Halla Signý.

„Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollframkvæmd sé í betri samvinnu við aðra tollstofnarnir erlendis. Þangað til úr því verður bætt mun áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagslegt tap fyrir ríkissjóð,“ sagði Halla Signý að lokum.