Categories
Greinar

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Deila grein

21/01/2021

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Í upphafi kjörtímabilsins einsetti ég mér að móta sterkari umgjörð í skólakerfinu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Við höfum sterkar vísbendingar um að hægt sé að gera betur og þegar er í gangi markviss vinna í þá veru. Ástæðan er einföld: Öll börn eiga jafnan rétt á tækifærum til að blómstra í leik og starfi og það er skylda samfélagsins að veita þeim stuðning sem þurfa. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu og þeir sem ekki ná tökum á því eru í lakari samfélagsstöðu en hinir. Þess vegna þarf að tryggja með öllum tiltækum ráðum góða íslenskukunnáttu allra barna.

Fögnum fjölbreytni í nemendahópum

Á liðnu ári voru kynnt drög að heildstæðri stefnu og tillögur að markvissum aðgerðum til að styrkja stöðu barna með annað móðurmál en íslensku. Þar er meginhugsunin sú, að fjölbreytni í nemendahópum skuli fagna enda efli hún skólastarfi og ólíkir styrkleikar barna skapi margvísleg tækifæri til framþróunar. Slíkt leiði á endanum til betri menntunar fyrir alla. Rík áhersla er á þennan þátt í nýrri menntastefnu fyrir árin 2020-2030.

Nýverið var ýtt úr vör metnaðarfullu verkefni í þessum anda fyrir börn í Fellahverfi í Breiðholti. Þar búa börn með mjög fjölbreyttan bakgrunn og það segir sitt um fjölbreytileikann, að í leik- og grunnskólum eru jafnan töluð um 30 mismunandi tungumál. Um er að ræða þriggja ára samstarfsverkefni lykilaðila; nemenda, skólafólks og -stofnana í hverfinu, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félags- og barnamálaráðuneytisins, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Markmið verkefnisins er að auka hæfni í íslensku, efla málþroska og styrkja sjálfsmynd barnanna sem um ræðir. Stuðla að aukinni málörvun, meiri orðaforða og betri lesskilningi. Þá á að tryggja betur en áður snemmbæran stuðning við börn, samstarf skóla og frístundaheimila og samfellu í stuðningi milli skólastiga. Þannig á að stuðla að því, að börn í Fellahverfi njóti sömu tækfæra og önnur til menntunar. Verkefnið á að verða fyrirmynd sambærilegra verkefna um allt land og stefnt er að því að nýta reynsluna til að fræða kennara og starfsfólk skóla og frístundaheimila um þær aðferðir sem nýtast best börnum með annað móðurmál en íslensku.

Ný hugsun í málefnum barna

Félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að tímamóta aðgerðum í þágu barna, þar sem þjónusta við börn verður stóraukinn og ný hugsun innleidd. Vilji ráðherra stendur til þess að börn njóti fyrsta flokks þjónustu og stuðnings, þar sem ólík kerfi vinni saman með skilvirkum hætti að velferð barnsins. Menntakerfið er einn þeirra hornsteina sem leggja grunninn að framtíð barna og því er brýnt að skólarnir taki mið af ólíkum þörfum í samfélaginu. Að öðrum kosti gætu stórir hópa barna orðið útundan, með neikvæðum afleiðingum fyrir þau sjálf og samfélagið allt. Það er skylda stjórnvalda að laða fram hæfileika allra barna í samfélaginu og finna fjölbreyttum eiginleikum þeirra farveg.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2021.

Categories
Fréttir

„Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli“

Deila grein

21/01/2021

„Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, segir öfluga forystu í menntamálum og í málefnum barna skipti máli til að koma þróunarverkefnum til framkvæmda. Í störfum þingsins á Alþingi í gær nefndi hún sem dæmi annars vegar stöðumat fyrir nemendur af erlendum uppruna og hins vegar verkefnið Tækifæri fyrir alla: Frábært skólastarf í Fellahverfi. Líneik Anna segir þessi verkefni munu skipta gríðarmiklu máli fyrir þróun íslensks samfélags og aðgang nemenda af erlendum uppruna að menntun og tækifærum hér á landi.

„Stöðumatið er verkfæri sem skólakerfið hefur lengi kallað eftir til að kortleggja námsstöðu nemenda sem koma inn í íslenskt skólakerfi á mismunandi tímum skólagöngunnar. Stýrihópur hefur unnið stöðumatið að sænskri fyrirmynd og mun fylgja innleiðingu eftir með kynningu, leiðsögn og áframhaldandi þróun. Matið getur nýst grunnskólum og framhaldsskólum og unnið er að útfærslu fyrir leikskóla. Verkefnið miðar að því að bregðast sem fyrst við námsþörfum nýrra nemenda, byggja á styrkleikum þeirra og efla námshæfni með markvissri íhlutun á fyrstu stigum í skólagöngu í nýju landi. Stöðumatið er fyrir einstaklinga og skólasamfélagið í heild og er nú aðgengilegt á 40 tungumálum á vef Menntamálastofnunar. Hitt verkefnið er samstarfsverkefni til þriggja ára um að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi,“ segir Líneik Anna.

„Þessi verkefni sýna hvernig ríki og sveitarfélög geta unnið saman að skólamálum þó að ábyrgðinni á verkefninu sé deilt milli stjórnsýslustiga. Verkefnin eiga eftir að nýtast öllum skólum landsins. Öflug forysta í menntamálum og málefnum barna skiptir máli til að koma þróunarverkefnum af þessu tagi til framkvæmda. Ég fagna þessari vinnu mjög. Við svona fréttir klæjar mig eiginlega í puttana að fá tækifæri til að vinna með þessi tæki í skólastarfi,“ sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

Deila grein

20/01/2021

„Stórar kerfisbreytingar“ segir Ásmundur Einar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur fengið samþykki Alþingis fyrir auknu fjármagni svo að þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verði bætt.

Veita á 80 milljónum króna til Greiningarstöðvar til þess að vinna á biðlistum. Sérstök áhersla verður lögð á að stytta biðtíma barna á aldrinum 2-6 ára eftir þjónustu.

Ásmundur Einar boðar stórar kerfisbreytingar

„Það er mikilvægt að þessi fjárveiting hafi verið samþykkt enda eiga börn ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra. Við þurfum líka að vera meðvituð um að samhliða þessu munum við innleiða stórar kerfisbreytingar á næstu árum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf,“ segir Ásmundur Einar. Með breytingunum verði hægt að setja aukinn kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning. Tryggja á börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran og samþættan stuðning þvert á kerfi og tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni saman til að tryggja farsæld barna.

Með því að bjóða snemmtækan stuðning á fyrri þjónustustigum megi draga úr þörf fyrir þjónustu Greiningarstöðvarinnar. Þannig skapist svigrúm til að sinna þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa miklar stuðningsþarfir.

Biðlistar lengst á síðustu árum

Biðlistar hjá Greiningarstöðinni hafa lengst smátt og smátt á síðustu þremur árum. Bið eftir greiningu er nú 13-24 mánuðir en var 10-17 mánuðir árið 2017. Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður GRR, sagði í samtali við fréttastofu RUV um miðjan desember að tilvísunum til stöðvarinnar hefði fjölgað mikið á undanförnum árum enda vantaði betri samhæfingu milli þeirra kerfa sem ættu að mæta þörfum barna. Hún sagði að biðin væri lengst hjá börnum á aldrinum 2-6 ára.

Soffía sagði að ástæðan fyrir mikilli eftirspurn væri margþátta. Vandi barna hefði aukist, ekki síst vegna þess að kerfunum hefði ekki tekist nógu vel að mæta þörfum þeirra. Það þyrfti markvissari vinnubrögð og að kerfin ynnu betur saman svo börn væru gripin fyrr. Hún sagðist binda vonir við að biðin eftir greiningu myndi styttast með fyrirhugaðri lagasetningu um samþættingu þjónustu í þágu barna. Með henni yrði gerð skýrari grein fyrir því hvaða hópur ætti erindi á GRR og þannig ættu biðlistarnir að styttast.

Soffía sagði að hér á landi hefði aldrei jafnmikið gerst í málefnum barna eins og einmitt nú, og vísaði til greiningarvinnu innan stjórnsýslunnar og frumvarps félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna, sem nú hefur verið samþykkt. „Nú loks eru börn sett á dagskrá og það er mikið fagnaðarefni,“ sagði hún.

Categories
Greinar

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Deila grein

20/01/2021

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Áhrif heims­far­ald­urs á menn­ingu og skap­andi grein­ar um heim all­an hafa verið gríðarleg. Aðstæðurn­ar hafa dregið fram styrk og veik­leika ólíkra greina, en jafn­framt gert fleir­um ljóst hversu efna­hags­legt fót­spor þeirra er stórt.

Mörg ríki leita nú leiða til að efla hug­vits­grein­ar á borð við kvik­mynda-, tón­list­ar- og leikjaiðnað og aðrar list­grein­ar. Tekj­ur þess­ara greina á heimsvísu nema hundraðföld­um þjóðar­tekj­um Íslend­inga, eða um 2 trilljón­um Banda­ríkja­dala á ári. Að auki knýja þær áfram ný­sköp­un og skapa virðis­auka inn­an annarra greina.

Sum­ar skap­andi grein­ar hafa blómstrað í heims­far­aldr­in­um. Þar má nefna leikjaiðnað og aukna alþjóðlega eft­ir­spurn eft­ir kvik­mynduðu efni og tónlist, gegn­um streym­isveit­ur af ýms­um toga. Mis­jafnt er hve mikl­ar tekj­ur skila sér til rétt­hafa, en öll­um er ljóst að mik­il tæki­færi eru til staðar. Þannig er því spáð að tón­list­ar­geir­inn muni tvö­fald­ast að efna­legu verðmæti á næstu árum og á Íslandi hef­ur kvik­myndaiðnaður aldrei verið jafn um­svifa­mik­ill og í fyrra. Þar kom margt til, því auk fag­legra þátta voru ytri aðstæður hag­stæðar fyr­ir er­lenda fram­leiðend­ur. End­ur­greiðslu­kerfið er gott og geng­isþróun var þeim hag­stæð. Ísland var jafn­framt eitt fárra landa sem buðu fulla þjón­ustu, á meðan sum voru nán­ast lokuð vegna heims­far­ald­urs. Hér tókst grein­inni að þróa og tryggja fram­kvæmd á skýr­um sótt­varn­a­regl­um á kvik­mynda­tökustað, halda verk­efn­um gang­andi og laða til lands­ins ný – t.d. banda­rísku MasterClass-net­nám­skeiðsröðina sem ís­lensk­ir kvik­mynda­gerðar­menn hafa unnið og tekið upp í tón­list­ar­hús­inu Hörpu.

Það er mik­il­vægt að Ísland styrki stöðu sína á vax­andi kvik­mynda­markaði. Efli um­gjörð kvik­mynda­fram­leiðslu, byggi á sömu prinsipp­um og áður en taki virk­an þátt í alþjóðlegri sam­keppni um kvik­mynda­verk­efni. Ein­falt end­ur­greiðslu­kerfi er meðal þess sem við eig­um að rækta enn frek­ar. Við ætt­um að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið, eða nota það sem sveiflu­jafn­ara á móti geng­isþróun. Hlut­fallið gæti orðið allt að 35% þegar staða krón­unn­ar er sterk en að lág­marki 25% þegar krón­an er veik­ari. Einnig mætti hugsa sér stig­hækk­andi end­ur­greiðslur eft­ir stærð verk­efna til að laða stærri verk­efni til lands­ins. Mik­il­vægt er þó að end­ur­greiðslu­kerfið sé sjálf­bært. Þá er brýnt að hraða af­greiðslu mála, til að lág­marka kostnað fram­leiðenda við brú­ar­fjármögn­un sem stend­ur verk­efn­um fyr­ir þrif­um.

Marg­ir alþjóðleg­ir kvik­mynda­fram­leiðend­ur hafa einnig kallað eft­ir betri aðstöðu til upp­töku inn­an­húss árið um kring – kvik­mynda­veri sem í bland við sterk­ara end­ur­greiðslu­kerfi myndi styrkja sam­keppn­is­stöðu Íslands og tryggja okk­ur stærri hlut en áður í tekju- og at­vinnu­skap­andi verk­efn­um. Það er ekki eft­ir neinu að bíða – byrj­um strax.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.

Categories
Fréttir

Byggðamál til 15 ára!

Deila grein

20/01/2021

Byggðamál til 15 ára!

Grænbók um byggðamál, sem ætlað er að meta stöðu byggðamála og vera grundvöllur fyrir nýja stefnumótun í byggðamálum til fimmtán ára, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar um grænbókina en frestur til að skila umsögn er til og með 25. janúar 2021.

Um er að ræða fyrstu grænbók, sem tekin hefur verið saman um byggðamál í takt við stefnumótunarferli Stjórnarráðsins og samræmingu áætlana á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Í grænbókinni er leitast við að svara því hvernig núgildandi byggðaáætlun hafi reynst og hverjar séu helstu áskoranir næstu fimmtán ára. Þá eru sett fram lykilviðfangsefni og áherslur og lagðar til leiðir til að fylgja þeim eftir. 

Grænbókin er umræðuskjal og er almenningi og haghöfum boðið að leggja fram sín sjónarmið sem nýst gætu í stefnumótuninni. Að loknu samráði eru niðurstöður dregnar saman (hvítbók) og mótuð stefna til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Grænbók byggir á samráði

Grænbókin byggir á miklu samráði við endurskoðun núgildandi byggðaáætlunar. Samráðið hófst með fundi með ýmsum haghöfum þann 11. júní sl. og sama dag var opnuð samráðsgátt á vef Byggðastofnunar. Í haust voru haldnir samráðsfundir með fulltrúum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga, alþingismönnum og stýrihópi Stjórnarráðsins um byggðamál, alls 11 fundir. Tilgangur fundanna var fyrst og fremst að leita eftir skoðunum og sjónarmiðum á gildandi byggðaáætlun og áskorunum komandi ára. Fundirnir voru vel sóttir, umræður virkar og nýttust vel við gerð grænbókar.

Á samráðsfundum kom fram almenn ánægja með form og inntak gildandi byggðaáætlunar. Lykilviðfangsefni og áherslur, sem settar eru fram í grænbókinni, byggja að miklu leyti á samráðinu. Sem dæmi má nefna að gæta þurfi að samspili þéttbýlis og dreifbýlis til uppbyggingar sjálfbærra byggðarlaga, vinna með fjölbreytileikann og lýðfræðilega þætti á borð við kyn og aldur og loks nýta tækifæri sem felast í mannauðnum í hverju byggðarlagi, sérstaklega þeim sem fólgin eru í fjölmenningarlegu samfélagi.

Samhliða endurskoðun byggðaáætlunar verður unnið tilraunaverkefni þar sem kynja- og jafnréttissjónarmið verða skoðuð sérstaklega. Sú vinna fer fram undir leiðsögn forsætisráðuneytisins, en stefnt er að því að innan skamms tíma verði það meginregla að samhæfa kynja- og jafnréttissjónarmið allri opinberri áætlanagerð. Byggðaáætlun mun þannig ríða á vaðið.

Í júní 2018 samþykkti Alþingi einróma stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Skömmu síðar voru gerðar breytingar á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála sem fólu meðal annars í sér að ráðherra skyldi á að minnsta kosti þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til fimmtán ára í senn. Þar skyldi jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Vorið 2021 verða þrjú ár liðin frá samþykkt byggðaáætlunar og því er hafin vinna við gerð nýrrar tillögu til þingsályktunar.

Categories
Fréttir

„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs“

Deila grein

13/01/2021

„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs“

Skólafólk og nemendur í Fellahverfi í Breiðholti munu vinna saman að því að efla íslenskukunnáttu og styrkja sjálfsmynd barna í Fellahverfi. Um er að ræða samstarfsverkefni til þriggja ára sem miðar að því að efla málþroska og læsi og breyta starfsháttum í leik- og grunnskólum og frístundaheimili hverfisins. Verkefnið er nú þegar komið á fullt skrið en að verkefninu koma félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og skrifstofa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri heimsóttu Fellaskóla í gær og kynntu sér áherslur verkefnisins og hittu aðstandendur þess.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Menntun stuðlar að jöfnuði og er eitt mikilvægasta hreyfiaflið til framfara og betra lífs. Að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar er viðvarandi verkefni, og eitt af leiðarljósum nýrrar menntastefnu. Það öfluga fagfólk sem hefur hrundið verkefninu í Fellahverfi af stað þekkir mátt samvinnu og gagnreyndra aðferða og starfar að skýrum markmiðum. Ég hlakka til að fylgjast með þessu verkefni dafna og bind vonir við að margir munu njóta góðs af því.“

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra:
„Menntun er lykill til betri framtíðar og við viljum að öll börn hafi jöfn tækifæri til þess að mennta sig. Eftir því sem bakgrunnur barna í leik- og grunnskólum verður fjölbreyttari er mikilvægt að við leggjum áherslu á það að öllum nemendum líði vel í skólanum og skilji það sem þar fer fram. Þetta verkefni er gríðarlega spennandi og það verður gaman að fylgjast með framvindu þess.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:
„Þetta er jákvætt og gott verkefni sem við fórum af stað í með ráðuneytunum til þess að efla enn frekar íslenska málvitund og málþroska hjá krökkunum í Fellaskóla. Við höfum verið með sérstakan fókus á skólann á undanförnum árum og fjöldi góðra verkefna þar í gangi sem lýtur að málþroska, læsi og eflingu móðurmáls og íslenskrar málvitundar. Það er því fagnaðarefni að fá ráðuneytin að borðinu ásamt Menntavísindasviði Háskóla Íslands.“

Starfsfólk leikskólanna Aspar og Holts, Fellaskóla og frístundaheimilisins Vinafells vinna saman að því að bæta námsárangur og líðan nemenda en markmið verkefnisins eru meðal annars:

  • Auka hæfni leik- og grunnskólanemenda í íslensku.
  • Efla læsi, sérstaklega málörvun, málþroska, orðaforða og lesskilning nemenda með annað móðurmál en íslensku.
  • Efla snemmbæran stuðning, samstarf og samfellu milli leik- og grunnskóla og frístundaheimila.
  • Stuðla að bættri líðan nemenda og virkni í námi.
  • Efla þekkingu starfsfólks leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt á þessu sviði.

Til þessa fær starfsfólkið fjölbreyttan stuðning og liðsinni, m.a. frá Menntavísindasviði H.Í. með faglegri ráðgjöf lestrarfræðings og aðkomu að mati á verkefninu.

Verkefninu er ætlað að stuðla að jöfnum tækfærum barna Fellahverfis og annarra barna á Íslandi til menntunar en gert er ráð fyrir að á síðasta ári verkefnis verði haldin starfsþróunarnámskeið fyrir kennara og starfsfólk leik- og grunnskóla og frístundaheimila um land allt, sem byggja á niðurstöðum og reynslu af verkefninu.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Hin venjulega skynsama rödd þarf einnig svigrúm

Deila grein

11/01/2021

Hin venjulega skynsama rödd þarf einnig svigrúm

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Öfgar hægri og vinstri eru að valda árásum á lýðræðið, að þá er auðvitað betra að vera miðjumaður. Miðjumaður lýsir því yfir að hann sé gegn öfgum.

Það er auðvitað þannig að við eigum mjög auðvelt með að hoppa í skotgrafir – það eru auðvitað hlutverk fjölmiðla að draga fram þá sem æpa hæst, og þannig fá þeir oft meiri hljómgrunn heldur en hin venjulega, skynsama rödd sem að ég held að flestir aðhyllist, líka í Bandaríkjunum.

Ég var að lesa bókina „Konan sem elskaði fossinn“ um Sigríði í Bratthotli í gær. Hún beitti nú ekki miklu ofbeldi, hún tók einhverja girðingarstaura, því hún var á móti gaddavír. Það var að ég held eina ofbeldið sem hún stundaði. Annars notaðir hún rök og sannfæringar máttinn.

Samgöngumálin

„Við erum svo sannarlega að nota tímann til að bæta samgöngumál. Eftir þetta kjörtímabil erum við með gríðarleg  sterk plön um uppbyggingu vegna, hafna, flugvalla, fjarskipta, flugstefnu, sú fyrsta er hefur verið samin á Íslandi, fystu almenningssamgöngustefnu sem samin hefur verið á Íslandi og við verum að vinna eftir þessu öllu saman. Við erum að tala um umfang aðgerða í samgöngum upp á einhverja 900 milljarða. Ég held einmitt að við séum komin á réttan stað hvað það varðar, við erum að nota vel tímann þar sem er minni umferð á vegunum. Held við séum að byggja undir framtíðina og hafnirnar og flugvellina.

Hafnir

Við erum að tala um umtalsverðar framkvæmdir við hafnir, við getum verið að tala um nokkrar hafnir sem eru að stækka sem nauðsynlegar fiski- og flutningshafnir, eins og við höfum séð á Dalvík og mun gerast á Sauðárkróki. Við höfum verið að sjá fiskeldishafnir bæði á Djúpavogi og Bíldudal og víðar, við höfum sé Ísafjörð vaxa, við höfum séð byltingu í Þorlákshöfn og þar erum við að setja inn verulega fjármuni á næstu árum til að byggja upp þá viðbótar gátt inn í landið. Þar eru fyrst og fremst fragtflutningar en mér skilst að hugmyndir séu um að sigla með ferju til Skotlands á næstu árum þegar höfnin er undir það búin.

Þarf þá ekki að laga veginn á milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur?

Jú, í framhaldinu þá kallar það alltaf á eitthvað nýtt. Við erum með eitthvað plan, en svo sjáum við fiskeldið og þungaflutningana á Vestfjörðum, suðurfjörðunum og á Austurlandi, sem mun vaxa alveg gríðarlega á næstu árum. Þess vegna verðum við að hafa plön fyrir það. En eins er ætlunin að flytja eitthvað af laxinum beint, ferskt, hugsanlega frá Egilsstaðaflugvelli. Þá þarf auðvitað að stækka hann enn frekar. 

Við munum þurfa að koma hlutunum betur í gegn frá Vestfjörðunum. Vegirnir hafa ekki verið byggðir upp fyrir jafn mikla þungaflutninga.

Verkefnum er ekki lokið. Við sjáum t.d. allan Suðurlandsveginn, þar sem hvort tveggja flutningarnir að austan, frá Hornafirði og frá fjörðunum, Austfjörðunum, og núna fiskeldið, sem keyra vegina auðvitað mjög mikið. En þar fyrir utan allar rúturnar og einkabílarnir sem þarna voru og bílaleigubílarnir.

Verður meira um stóru þungaflutningana á vegum landsins í náinni framtíð?

Ég sé að það er óhjákvæmilegt, nema að okkur takist áfram að gera þetta samtvinnað, þ.e.a.s. að byggja upp hafnirnar þannig að það geti orðið fleiri útflutningshafnir á fleiri stöðum og hugsanlega flug. Við sjáum ekki fyrir okkur að sjófrakt á milli staða, nema að einhverju leiti að fraktflutningaskip geti farið á milli tveggja, þriggja staða og geti tekið með sér vörur á milli hafna.

Vegirnir eru ekki að þola þessa þungaflutninga og því viðvarandi verkefni að bæta vegina. Vegagerðin er með einhverja 13.000 km. og eitt af því sem við þurfum að gera, er að malbika fleiri kílómetra og þá minna slitlag á vegakerfinu. Við erum að hækka standardinn hjá okkur, við   erum að koma grunnkerfinu í þokkalegt ástand. Þar er eitt að fækka einbreiðum brúm, erum að gera verulegt átak á hringveginum, þeim fækkar mjög stóru einbreiðu brúnum á Suðurlandi á næsta ári. Á stóru brúnum erum við komin með plan alveg til næstu 15 ára. Hvort sem er yfir Jökulsá á Fjöllum eða yfir Lagarfljótið og víðar. Okkur hefur gengið alveg prýðilega á þessu kjörtímabili en við þurfum að halda áfram.

Sundabraut

Við erum núna með starfshóp að störfum sem að vinnur með Faxaflóahöfnum og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg og á að skila af sér núna í þessum mánuði. Þá erum við komin væntanleg á þann stað að búið sé að ákveða eina leið, einn valkost, yfir Kleppsvíkina. Sem gerir það að verkum að næsta skref er þá að ljúka við skipulag, sem þarf þá að uppfæra, deiliskipulag inni á aðalskipulagi, það þarf að uppfæra tengingarnar og síðan að setja verkefnið í umhverfismat. Þá í framhaldinu að koma verkinu af stað.

Sveitarstjórnarmál – staða sveitarfélaga

Horfur um fjárhagsstöðu sveitarfélaga þessa árs eru auðvitað mjög erfið. Og mörg sveitarfélög taka þá skynsamlegu ákvörðun um að viðhalda allri grunnþjónustu og jafnvel að bæta í fjárfestingar og að taka lán fyrir þessu ári. Það eru nokkur sveitarfélög sem standa mjög illa. Og við höfum verið að gera ýmislegt á síðasta ári og þess vegna hafa sveitarfélögin komist í gegnum 2020 býsna bærilega. En gleymum því ekki að auðvitað er ríkið að taka nokkur hundruð milljarða að láni til þess m.a. halda uppi alls konar störfum og starfsemi, sem m.a. nýtist sveitarfélögunum mjög vel.

Staða landbúnaðarmála – hvernig horfir þú til þeirra?

Staða landbúnaðarmála er erfið, mjög erfið. Það stafar af ýmsu og Covid-19 spilar þar auðvitað inn í. Það eru ekki 2 milljónir ferðamanna að borða íslenskan mat, það munar ansi mikið um það að úti í hinum stóra heimi er, eins og á Íslandi, að það er minni eftirspurn eftir okkar fiski og okkar matvælum. Síðan hefur ýmislegt þróast upp á verri veg. Þannig að það er eitthvað sem að við erum reyndar með augun á hjá ríkisstjórninni og við munum þurfa að gera ýmislegt á þessu kjörtímabili áður en við göngum til kosninga, en eitt af þeim verkefnum er þarf að laga. Það er ekki í lagi hvernig tollaumhverfi okkar er, sem dæmi, það er ekki í lagi hvernig íslenskar afurðastöðvar eru reknar litlar í samanburði og samkeppni við bæði alheiminn, mjög stórar afurðastöðvar og síðan innilokaðar hér á Íslandi. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að lagfæra. Ég held að það sé eitt sem eigi að koma til skoðunar, s.s. aukið samstarf þar á milli og þar af leiðandi hagræðing sem gæti orðið þar. Annað sem ég hef nefnt, er að mér finnst fullkomlega eðlilegt að í þessari nýsköpun, er að ör sláturhús eða minni sláturhús, að þau eigi líka rétt á sér og eiga að finna sér stað. Það hef ég stutt og talað fyrir því og skrifað um það greinar.

Miðhálendisþjóðgarður

Við Framsóknarmenn segjum hugmyndina sem slíka sé ágæt, en við þurfum að spyrja okkur til hvers við erum að þessu. Er það gert til þess að nýta hálendið fyrir ferðamenn. Þau rök hafa stundum verið notuð, að það sé helsta söluvaran. Það er ekki vandamál á Suðurlandi að nýta hálendið í þágu ferðamennsku. Þurfum við að bæta landverndina og umsjónina, skipulagið. Ég held að það komi vel til greina, getum við gert það innan núverandi þjóðlenda með sveitarfélögunum, það er ekki spurning í mínum huga. Ég hef af magan hátt sagt Hálendisþjóðgarður þurfi lengri tíma. Við þurfum að sjá svæðisskipulag sveitarfélaganna, eins og er verið að vinna á Suðurlandi. Það þarf að ljúka við það fyrst. Ég held að vinna verði hugmyndinni betri farveg og svo er eitt sem er alveg klárt að Vatnajökulsþjóðgarður hefur á margan hátt gert mjög gott, en þar er enn mörgum hlutum þar en ólokið. Við eigum að einbeita okkur að því á næstu fimm árum og við munum ekki hafa neitt umfram fjármagn í einhver önnur verkefni á næstu fimm árum og því eigum við að gefa okkur tíma til að sinna því sem þegar er. Ég hef verið þeirrar skoðunar. Við getum einnig stækkað þjóðgarðinn, Vatnajökulsþjóðgarð og taka einhver skref í átt að Miðhálendisþjóðgarði. En ég held að við verðum að vanda okkur, við eigum að hafa fólkið í landinu með okkur. Við höfum sett eina sjö megin fyrirvara Þingflokkur Framsóknarmanna þegar við afgreiddum frumvarpið.

Mjög mörg sveitarfélög er liggja að hálendinu í dag, og eru þá að tala fyrir hönd sinna samfélaga, vilja bíða, vilja taka hægfara skref. Það er ekki lengur en fyrir 10-15 ár síðan sem þjóðlendumálið hófst og það byrjaði mjög illa. Það byrjaði á Suðurlandi, það byrjaði á því að ríkið kom og sagði, „Heyrðu við ætlum að halda því fram að við eigum þetta land. Ef þú getur ekki sýnt fram annað með löggiltum pappírum, þá tökum við það“. Þetta eru auðvitað ósvífni, svo var reyndar þessum rökstuðningi snúið við og ríkið varð að sýna fram á að það ætti landið sem það var að reyna að sölsa undir sig. En því verkefni er lokið og væri rétt að ljúka við það verkefni áður en að við tökum næsta slag. Þá væri orðið ljóst hvað skilji þarna á milli, hvaða þjóðlendur væru sannanlega eign þjóðarinnar, að hluta til er skipulagsvaldið hjá viðkomandi sveitarfélagi en þeir verða að gera það í samstarfi við forsætisráðuneytið. Er það ekki ágætt milli stig eins og staðan er núna. Síðan erum við að vinna út frá því hvort að skynsamlegt sé að búa til þjóðgarð. Ég segi aftur, er það gert til þess að draga að fleiri ferðamenn inn á hálendið, á sama tíma og við erum að tala um að vernda. Er búið að ganga nægjanlega frá þessum hlutum. Það er ekki vandamál að nýta hálendið, a.m.k. Suðurlands megin.

Categories
Fréttir

Taka þátt!

Deila grein

09/01/2021

Taka þátt!

Spennandi tímar eru handan við hornið! Mikilvægt er að sem flestir taki þátt í kröftugu og skemmtilegu flokksstarfi Framsóknar. Svo að nýir félagar geti gengið fljótt og vel frá nýskráningu, þá er það hægðarleikur með rafrænum skilríkjum á slóðinni:

https://framsokn.is/ganga-i-flokkin/

Hvort sem þú ert í tölvu eða í farsíma er nóg að slá inn þessari slóð og þú skráir þig í Framsóknarflokkinn með rafrænum skilríkum.

Hlökkum til að taka þátt með þér í uppbyggilegu, spennandi og skemmtilegu flokksstarfi!

FRAMSÓKN

Categories
Greinar

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Deila grein

07/01/2021

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Á dögunum rakst ég á grein sem ber heitið „Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.” eftir Guðmund Hafþórsson. Í grófum dráttum fjallar greinin um hversu mikilvæg og góð hreyfing sundið er. Þetta er hreyfing sem þú getur stundað alla ævina, hreyfing sem eykur liðleika og bætir líkamsstöðununa.

Ég tengdi vel við þessa grein enda æfði ég sund á árum áður og bý enn að þeirri frábæru þjálfun. Eftir að hafa lesið greinina rifjaðist upp fyrir mér hugmynd sem ég fékk fyrir nokkru um að gera sundkort í sundlaugar landsins miðlæg. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að nágrannasveitarfélög tækju sig saman og biðu upp á sundkort svæðisbundið. En hvers vegna ekki að taka þetta lengra og bjóða upp á sundkort sem nær yfir allt landið?

Eins og kemur fram í greinninni sem vitnað er til hér að ofan er sund ákaflega góð hreyfing sem hentar fjölbreyttum aldurshópi alla ævi. Sundlaugarnar hafa líka upp á svo margt að bjóða, hvort sem það er sundlaugin sjálf til að synda í, heitu pottarnir, gufan eða rennibrautin. Ekki síst er það félagslegi þátturinn. Samverustund fjölskyldunnar, hitta fólk í pottinum og eiga þar góðar samræður eða bara að njóta kyrrðarinnar þegar enginn annar er.

En hvert væri markmið miðlægs sundkorts? Markmið miðlægs sundkorts væri að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, stuðla að heilsubót og afþreyingu á hagkvæmari máta. Margir hverjir sem sundstaðina sækja reglulega eiga sundkort í fjölmörgum sundlaugum jafnvel víðsvegar um landið. Hver og einn á eflaust sína uppáhalds hverfislaug eða bæjarlaug en með miðlægu sundkorti eykst fjölbreytnin til heilsubótar og afþreyingar. Með aukinni rafrænni þjónustu væri hægt að losa okkur við samanvöðluð pappírskortin úr veskinu og eiga eitt kort í allar laugar með appi í símanum.

Eflaust höfum við áttað okkur enn betur á því hversu mikilvægar sundlaugarnar eru okkur eftir að þær lokuðu tímabundið vegna Covid. Ég mun áfram bíða eftir að mín uppáhalds sundlaug opni en nú er unnið að endurbótum búningsklefa Sundlaugarinnar Laugaskarði í Hveragerði. Það verða eflaust fagnarðarfundir þegar fastagestir hennar geta farið að mæta aftur að framkvæmdum loknum í apríl. Heppilegt væri að geta notað sundkortið sitt á meðan í t.d nágrannasveitarfélaginu Ölfusi. Það væri nú reyndar líka heppilegt ef Hveragerði og Ölfus væru eitt og sama sveitarfélagið en það er efni í aðra grein.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2021.

Categories
Greinar

Heimsborg við hafið

Deila grein

07/01/2021

Heimsborg við hafið

Sam­fé­lög verða til úr mörg­um ólík­um þátt­um. Aðstæður eru mót­andi þátt­ur, ekki síst þar sem lands­lag ramm­ar inn bæj­ar­stæði á stór­feng­leg­an en jafn­framt ráðandi hátt. Menn­ing og at­vinnu­hætt­ir ráðast líka af legu sam­fé­laga, í okk­ar til­viki aðgengi að lands­ins gæðum – fiski­miðum, vatni, orku og á síðari tím­um at­vinnu­skap­andi nátt­úru – og sam­göng­um á hverj­um tíma.

Fáir bæir eru feg­urri eða eiga merk­ari sögu en Seyðis­fjörður. Milli him­in­hárra fjalla hef­ur byggst upp öfl­ugt sam­fé­lag, menn­ing­ar­leg­ur horn­steinn og sögu­fræg­ur staður. Þar kom í land fyrsti síma­streng­ur­inn sem tengdi Ísland við um­heim­inn og þaðan hafa ferðalang­ar lengi lagt yfir hafið og gera enn. Teng­ing­in við um­heim­inn er þar sterk og í raun má segja að Seyðis­fjörður sé heims­borg í dul­ar­gervi. Fjöldi er­lendra lista­manna hef­ur dvalið við list­sköp­un í lengri eða skemmri tíma, þar eru veit­ingastaðir á heims­mæli­kv­arða, mann­lífið er blóm­legt og Seyðis­fjörður geym­ir sögu­fræg­ar bygg­ing­ar af er­lend­um upp­runa – lit­rík, nor­skættuð timb­ur­hús frá fyrstu ára­tug­um 20. ald­ar­inn­ar gera Seyðis­fjörð ein­stak­an meðal bæja á Íslandi. Mörg þeirra hafa mikið menn­ing­ar­sögu­legt gildi og njóta friðunar í sam­ræmi við það. Sum hafa fengið glæsi­lega and­lits­lyft­ingu á und­an­förn­um árum og eig­end­ur varið ómæld­um tíma og fé í varðveislu þeirra.

Aur­skriðurn­ar sem féllu á bæ­inn skömmu fyr­ir jól skutu Íslend­ing­um öll­um skelk í bringu og þjóðin fylgd­ist agndofa með frétt­um. Ótrú­leg mildi var að ekki yrði mann­tjón í ham­förun­um og engu lík­ara en al­mættið hafi staðið vörð um bæj­ar­búa. Þeirra bíður nú það verk­efni að bæta hið ver­ald­lega og menn­ing­ar­lega tjón sem varð, græða sár­in og standa sam­an. Stjórn­völd hafa heitið því að styðja Seyðfirðinga og vinna við hreins­un og end­ur­reisn er haf­in.

Brýnt er að bjarga sem mestu af per­sónu­leg­um verðmæt­um íbúa, og jafn­framt er mik­il­vægt fyr­ir sam­fé­lagið að menn­ing­ar­arf­ur­inn glat­ist ekki. Þúsund­ir sögu­legra ljós­mynda í eigu Tækni­m­inja­safns­ins fund­ust heil­ar í aurn­um og vinna við björg­un úr safn­kost­in­um hef­ur gengið vel. Það er menn­ing­in sem ger­ir okk­ur mennsk og hana ber okk­ur að varðveita.

Í dag sæki ég Seyðfirðinga heim, ásamt þjóðminja­verði og for­stjóra Minja­stofn­un­ar, til að sjá aðstæður með eig­in aug­um. Ég er full eft­ir­vænt­ing­ar að hitta kraft­mikið heima­fólk, en kvíði því jafn­framt ör­lítið að standa frammi fyr­ir eyðilegg­ing­unni sem hef­ur orðið. Við vit­um að hús­in geyma merka sögu, bæði fjöl­skyldna og sam­fé­lags­ins alls og það er okk­ar skylda að sýna aðstæðunum áfram virðingu. Það hafa all­ir hlutaðeig­end­ur sann­ar­lega gert hingað til og svo verður áfram. Það mun Þjóðminja­safnið gera sem og Minja­stofn­un, en báðar stofn­an­irn­ar gegna lyk­il­hlut­verki við viðgerð húsa og safn­gripa.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. janúar 2021.