Categories
Greinar

Réttindi barna í hávegum höfð

Deila grein

21/11/2019

Réttindi barna í hávegum höfð

Þrjá­tíu ára af­mæli Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna er fagnað um þess­ar mund­ir. Með þeim mik­il­væga sátt­mála sam­mælt­ust þjóðir um að börn nytu á eig­in for­send­um ákveðinna rétt­inda og er hann sá mann­rétt­inda­samn­ing­ur sem hef­ur verið staðfest­ur af flest­um þjóðum heims­ins. Barna­sátt­mál­inn var full­gilt­ur fyr­ir Íslands hönd árið 1992 sem fel­ur í sér að Ísland er skuld­bundið að þjóðarétti til að virða og upp­fylla ákvæði samn­ings­ins.

Stuðning­ur við inn­leiðingu Barna­sátt­mál­ans

Til þess að tryggja að börn njóti þeirra rétt­inda sem sátt­mál­inn kveður á um þarf ekki hvað síst að hafa í huga aðstæður í nærum­hverfi barna á degi hverj­um. Á heim­il­um þeirra, í skól­um og hvar sem þau dvelja. Í ljósi þess hafa fé­lags­málaráðuneytið og UNICEF á Íslandi gert samn­ing með það fyr­ir aug­um að tryggja aðgengi allra sveit­ar­fé­laga að stuðningi við inn­leiðingu Barna­sátt­mál­ans. Þessi stuðning­ur er afar mik­il­væg­ur enda gegna sveit­ar­fé­lög­in mik­il­vægu hlut­verki í lífi barna á Íslandi og ann­ast stærst­an hluta þeirr­ar þjón­ustu sem hef­ur bein áhrif á þeirra dag­lega líf. Íslensk sveit­ar­fé­lög hafa sýnt í verki mik­inn áhuga á að rækja þetta hlut­verk sitt. Það var mér því sönn ánægja að geta í til­efni af þrjá­tíu ára af­mæli Barna­sátt­mál­ans und­ir­ritað sam­komu­lag um auk­inn stuðning við þá góðu vinnu sem þar fer fram. Með slíku sam­stilltu átaki skip­ar Ísland sér í fremstu röð þeirra ríkja sem hvað best standa vörð um rétt­indi barna.

Stjórn­völd taki aukið mið af sjón­ar­miðum barna

Ákvörðun um að inn­leiða Barna­sátt­mál­ann fel­ur í sér viður­kenn­ingu á að þekk­ing og reynsla barna sé verðmæt og að stuðla eigi að því að efla þátt­töku barna og ung­menna í sam­fé­lag­inu og leit­ast eft­ir og nýta reynslu þeirra og viðhorf. En ef við ætl­um okk­ur raun­veru­lega að styrkja hlut­verk barna og ung­menna í sam­fé­lag­inu og tryggja þátt­töku þeirra við stefnu­mót­un og ákv­arðana­töku þurf­um við að ganga lengra en að gefa börn­um orðið við hátíðleg tæki­færi. Við þurf­um skýr­ar breyt­ing­ar sem tryggja sam­starf við börn og að radd­ir þeirra heyr­ist, ekki bara í mál­um er þau varða held­ur öðrum líka. Við þurf­um að hlusta á til­lög­ur þeirra og sjón­ar­mið, taka þær al­var­lega og gera að veru­leika.

Að skapa barn­vænt sam­fé­lag sem ger­ir börn­um kleift að vera raun­veru­leg­ir þátt­tak­end­ur er eitt­hvað sem við hljót­um öll að vera sam­mála um að sé af hinu góða. En að fá börn raun­veru­lega að borðinu er ekki al­veg ein­falt mál. Eins að sjá til þess að við það sitji öll börn, ekki aðeins þau með sterk­ustu radd­irn­ar, og að þau séu þar á eig­in for­send­um en ekki á for­send­um full­orðinna.

Börn búa yfir sér­stakri reynslu og þekk­ingu sem get­ur verið mis­mun­andi eft­ir aldri þeirra og aðstæðum. Á grund­velli þeirr­ar reynslu hafa þau skoðanir og hug­mynd­ir á því hvernig sam­fé­lagið gæti verið betra. Þrátt fyr­ir það er of oft gert lítið úr fram­lagi barna til umræðu og ákv­arðana­töku. Afar margt í stefnu stjórn­valda hef­ur beint eða óbeint áhrif á líf barna. Samt sem áður er hún að mestu leyti þróuð án til­lits til þess hvaða áhrif hún mun hafa á börn og framtíð þeirra. Þátt­taka barna í stefnu­mót­un get­ur leitt til stefnu­breyt­inga og skapað sam­tal á milli ólíkra aðila. En til þess að reynsla og skoðanir barna hafi raun­veru­leg áhrif þurf­um við að vanda til verka.

Meira sam­ráð við börn og ung­menni í mót­un

Rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi í mars síðastliðnum til­lögu mína, byggða á til­lög­um til mín frá stýri­hópi stjórn­ar­ráðsins í mál­efn­um barna, um að stefnt verði að auk­inni þátt­töku barna og ung­menna í stefnu­mót­un stjórn­valda sem og til­lögu sem fel­ur í sér að all­ar stærri ákv­arðana­tök­ur sem og laga­frum­vörp skuli rýnd út frá áhrif­um á stöðu og rétt­indi barna. Þetta var stór ákvörðun og afar mik­il­væg. Í maí síðastliðnum fylgdi ég þess­um til­lög­um eft­ir og skrifaði und­ir samn­ing við umboðsmann barna um að unn­ar yrðu til­lög­ur að því hvernig tryggja mætti að þátt­taka barna og ung­menna í stefnu­mót­un hér á landi yrði mark­viss, reglu­leg og raun­veru­leg og að sér­stak­lega yrði hugað að því að öll­um börn­um og ung­menn­um væru tryggð jöfn tæki­færi til þátt­töku, án mis­mun­un­ar. Fljót­lega för­um við að sjá fyrstu drög að þeim til­lög­um en mik­il­væg­ur þátt­ur í und­ir­bún­ingi þeirra er þing barna sem haldið er á veg­um umboðsmanns barna í Hörpu í dag og á morg­un. Auk barna er þing­mönn­um, full­trú­um sveit­ar­stjórna, stofn­ana rík­is og sveit­ar­fé­laga, aðila vinnu­markaðar­ins og frjálsra fé­laga­sam­taka sem koma að mál­efn­um barna boðið til þings­ins og standa von­ir til þess að það verði öfl­ug­ur vett­vang­ur fyr­ir sam­tal og sam­ráð um mál­efni barna til framtíðar.

Við sem telj­umst full­orðin í dag höf­um afar tak­markaða þekk­ingu á reynslu nú­tíma­barna og áhuga­mál­um þeirra. Það er kom­inn tími til þess að við viður­kenn­um að börn­in eru svo sann­ar­lega sér­fræðing­ar í því að vera börn en ekki við full­orðnu. Okk­ar hlut­verk er að tryggja rödd­um barna far­veg og áhrif og skuld­binda okk­ur til að hlusta á þær.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019.

Categories
Fréttir

Bæta þarf aðgengi að menntun og auka fjölbreytni í atvinnulífinu

Deila grein

21/11/2019

Bæta þarf aðgengi að menntun og auka fjölbreytni í atvinnulífinu

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs, segir frá ráðstefnu í þingmannasamstari Norðlægu víddarinnar, Northern Dimension Parliamentary Forum í Bodö í Norður-Noregi í yfirlýsingu í vikunni. Ræddir voru flutningar og öryggi á hafi, um samvinnu í umhverfismálum, sjálfbæra ferðamennsku og frumkvöðlastarfsemi í menningarmálum, framtíðarstefnumótun samstarfs Norðlægu víddarinnar og fleira.
Silja Dögg stýrði fundi um flutninga og öryggi í hafinu með þátttakendur frá Norðurlöndunum, Rússlandi, Evrópusambandinu og Eystrasalts ríkjum og ýmsum stofnunum m.a. Norræna fjárfestingabankanum NIB.
Fulltrúar ungs fólks taka virkan þátt í ráðstefnunni segir Silja Dögg. En það eru fulltrúar frá Murmansk, Lapplandi og Tromsö. Skilaboð þeirra voru skír, bæta þarf aðgengi að menntun og auka fjölbreytni í atvinnulífinu svo fólk vilji búa í norðrinu, stjórnvöld verða að hlusta á unga fólkið hvað varðar stefnumótun í umhverfismálum.
 

Categories
Greinar

Út­boð á heil­brigðis­þjónustu

Deila grein

20/11/2019

Út­boð á heil­brigðis­þjónustu

Sjúkratryggingar Íslands hafa ákveðið að fela Ríkiskaupum að bjóða út sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu og er það í samræmi við lög um opinber innkaup sem sett voru samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2014. Þessi lög eru mikilvæg því hagkvæm innkaup eru forsenda fyrir góðri nýtingu á almannafé.

En á heilbrigðis- og félagsþjónusta að falla undir þessi lög? Norðurlöndin hafa tekið upp lög um opinber innkaup en þau hafa sett sérstaka umgjörð um heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í Noregi t.a.m. er ákvæði í lögum um opinber innkaup og þar fjallað um útboð á heilbrigðis- og félagsþjónustu sem segir að setja skuli í reglugerð reglur um sérstöðu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Leggja skal áherslu á fjölbreytni, gæði, samfellu og þátttöku notenda í þjónustunni.

Ég tel það vera skynsamlega nálgun og ættum við sem fámenn þjóð að fara sömu leið. Strax eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum var greiðsluþátttökukerfinu breitt þannig að fleirum var gert kleift að nýta sér þjónustu sjúkraþjálfara, sem er mikilvægur þáttur í að bæta virkni og heilsu einstaklinga. Það er líka á stefnuskránni að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Heilbrigðis- og félagsþjónusta er viðkvæmur málaflokkur. Þess vegna getum við ekki nálgast hann á sama hátt og jarðgangaverkefni eða aðrar stórar vegaframkvæmdir. Annað á við um vörukaup til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðis- og félagsþjónustu verður alltaf að nálgast með sérstökum reglum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. nóvember 2019.

Categories
Greinar

Byr í seglin til að bæta frekar réttarstöðu barna

Deila grein

20/11/2019

Byr í seglin til að bæta frekar réttarstöðu barna

Þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fagnað í dag. Sáttmála sem gjörbylti réttarstöðu barna um heim allan. Með honum var ekki aðeins samþykkt að börn ættu ákveðin réttindi sem ríki eru skuldbundin til að tryggja heldur einnig að þau eigi sjálf rétt á því að berjast fyrir þeim réttindum og taka þátt í því að móta umhverfi sitt.

Það eru forréttindi að fá að vera barnamálaráðherra á slíkum tímamótum og skynja um leið að heimurinn allur virðist vera að átta sig á þeim krafti og auði sem býr í börnum og ungu fólki og að þau geti verið raunverulegt breytingarafl. Barnasáttmálinn má ekki vera eitthvað sem gripið er í við hátíðleg tilefni eða þegar okkur fullorðna fólkinu hentar heldur á hann að vera raunverulegur áttaviti og leiðarvísir fyrir samfélagið. Til þess að Barnasáttmálinn gegni því hlutverki sem honum er ætlað þurfa börn að njóta þeirra réttinda sem hann kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum.

Enn í dag eru börn á Íslandi sem búa við ofbeldi og líða skort. Of mörg börn fá ófullnægjandi aðstoð eða aðstoð sem berst of seint eða ekki yfir höfuð. Þá eru of mörg dæmi þess að börn fái ekki tækifæri til að tjá skoðanir og sömuleiðis of mörg dæmi þess að á raddir þeirra sé ekki hlustað. Þó við getum verið stolt af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og því sem áunnist hefur á síðustu þrjátíu árum þá eru svo sannarlega áskoranir fram undan. Þessi tímamót, þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála SÞ, eiga að gefa okkur byr í seglin til þess að bæta enn frekar stöðu barna á Íslandi og í heiminum öllum. Ég mun svo sannarlega gera mitt besta sem ráðherra barna til þess að tryggja að svo verði.

Til hamingju með daginn öll börn og allir þeir sem eitt sinn voru börn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. nóvember 2019.

Categories
Greinar

Skilningur og skólastarf

Deila grein

20/11/2019

Skilningur og skólastarf

Sig­ur­sæll er góður vilji. Þessi máls­hátt­ur er í mikl­um met­um hjá manni sem á dög­un­um hlaut verðlaun Jónas­ar Hall­gríms­son­ar á degi ís­lenskr­ar tungu. Raun­ar má segja að þetta séu hin bestu ein­kunn­ar­orð Jóns G. Friðjóns­son­ar, pró­fess­ors, mál­vís­inda­manns og kenn­ara, sem sann­ar­lega er vel að þeim verðlaun­um kom­inn. Jón hef­ur með ástríðu og hug­sjón unnið ís­lensk­unni ómælt gagn og með miðlun sinni tendrað áhuga annarra á tungu­mál­inu, ekki síst í gegn­um stór­fróðleg­ar bæk­ur sín­ar og kennslu­efni, og fyr­ir það erum við hon­um afar þakk­lát.

Í viðtali við Jón á dög­un­um talaði hann fyr­ir mik­il­vægi þess að efla lesskiln­ing og sagði að móður­mál­inu stæði meiri ógn af því hversu stór hluti nem­enda gæti ekki lesið sér til gagns við lok grunn­skóla­náms, en af er­lend­um tungu­mál­um. Við erum meðvituð um þann vanda og þau miklu áhrif sem hann hef­ur á framtíðarmögu­leika í námi og starfi. Læsi snýst ekki ein­vörðungu um bæk­ur og nám, held­ur aðgengi að upp­lýs­ing­um sinni víðustu mynd, úr­vinnslu á þeim upp­lýs­ing­um og gagn­rýnni hugs­un. Lesskiln­ing­ur legg­ur þannig grunn­inn að öðru námi og er mark­mið okk­ar að leggja meiri áherslu á hann og þjálf­un hans. Það er enda ekki nóg að geta lesið hratt og skýrt, ef skiln­ing­ur­inn á efn­inu er tak­markaður. Þeir sem lesa þurfa að skilja inni­hald efn­is­ins og máta það við hug­ar­heim sinn, um­hverfi og fyrri reynslu til þess að öðlast þekk­ingu á inn­taki þess.

Við les­um ekki lest­urs­ins vegna held­ur vegna áhuga okk­ar á efn­inu. Því eru skemmti­leg­ar bæk­ur og hæfi­lega flókn­ir text­ar ein besta hvatn­ing­in fyr­ir unga les­end­ur. Fyr­ir þau er hver texti tæki­færi; hvort sem hann er í bók, á blaði eða á skjá. Það er fagnaðarefni að vís­bend­ing­ar eru um aukna út­gáfu bóka á Íslandi og herma töl­ur að aukn­ing­in sé 47% milli ára í flokki skáld­verka fyr­ir börn sam­kv. töl­fræði Bókatíðinda. Þá benda nýj­ustu kann­an­ir til þess að lands­menn lesi nú að meðaltali meira en fyr­ir tveim­ur árum.

Merk­ing máls­hátt­ar­ins hér í upp­hafi er að góður vilji skili sigri. Við vinn­um að því nú í góðu sam­starfi að efla móður­málið og tryggja með fjöl­breytt­um leiðum að ís­lensk­an okk­ar þró­ist áfram og sé notuð á öll­um sviðum þjóðlífs­ins. Marg­ar þeirra leiða tengj­ast mennta­kerf­inu með bein­um hætti, s.s. aðgerðir sem miða að því að bæta læsi og lesskiln­ing en einnig því að styðja bet­ur við ís­lensku­kennslu nýrra mál­not­enda og stuðla að já­kvæðri umræðu og fræðslu í sam­fé­lag­inu um fjöl­breyti­leika tungu­máls­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2019.

Categories
Fréttir

Þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum sem nær til allra aldurshópa samfélagsins

Deila grein

13/11/2019

Þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum sem nær til allra aldurshópa samfélagsins

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum á Alþingi á dögunum.
„Offita hefur aukist verulega síðustu fimm ár frá þeim tíma að samræmdar mælingar hófust árið 2014. Það eitt og sér er í raun áhyggjuefni að við höfum ekki mælt þetta betur fyrr. Þetta er einn angi af neikvæðri þróun. Almennt er þjóðin að innbyrða meiri orku en hún hefur þörf fyrir og það er alvarlegt í sjálfu sér. Við höfum náð ákveðnum árangri undanfarna áratugi í baráttu við hjarta- og æðasjúkdóma en þessi þróun og þróun á því sem kallast sykursýki 2 gæti í raun tekið þann ávinning til baka. Þá get ég vísað í grein úr Læknablaðinu frá 2010 þar sem er viðtal við sérfræðing frá Hjartavernd í sykursýkislækningum, Bolla Þórhallsson. Ég ætla að bera hér niður í viðtalið við hann, með leyfi forseta:
„Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er að ávinningurinn af minnkandi tíðni hjarta- og æðasjúkdóma getur hreinlega horfið vegna aukinnar tíðni sykursýki 2 af völdum offitu sem aftur er mjög stór áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma.“
„Þetta mál nær kannski til fleiri þátta en ég hef farið hér yfir og ég ætla, af því að ég mæli fyrir þessu máli í fyrsta sinn, að fara yfir tillögugreinina en hún hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra stefnu og aðgerðaáætlun um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum. Starfshópurinn skili heildstæðri áætlun sem feli m.a. í sér:
a. framtíðarsýn og markmið um að efla og bæta lýðheilsu þjóðarinnar,
b. skilgreinda mælikvarða á forvarnir sem viðmið fyrir alþjóðlegan samanburð,
c. skilgreiningu á þeim sviðum þar sem lýðheilsutengdum forvörnum verður við komið,
d. tímaramma áætlunarinnar, aðgerða, eftirfylgni og endurskoðunar.
Markmið stefnunnar verði m.a.:
a. að Íslendingar verði út frá skilgreindum mælikvörðum ein af heilbrigðustu þjóðum heims,
b. að efla lýðheilsutengdar forvarnir á öllum þeim sviðum sem stefnan tekur til,
c. að efla starf á sviði forvarna og heilsueflingar í skólakerfinu og á vinnustöðum,
d. að efla fræðslu um forvarnir og heilbrigða lífshætti á öllum sviðum íslensks samfélags,
e. að skólakerfið, vinnustaðir og stofnanir verði heilsueflandi.
Heilbrigðisráðherra geri Alþingi grein fyrir aðgerðaáætluninni eigi síðar en haustið 2020.

„Í greinargerð kemur fram að meginbreytingin á málinu frá því síðast er að undirstrika áherslu á lýðheilsutengdar forvarnir. Hér er verið að leggja það til að ríkisstjórninni verði falið að skipa starfshóp til að útfæra stefnu og aðgerðaáætlun um þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum.
Í gildi er lýðheilsustefna til ársins 2030 sem hefur það sem meginmarkmið að Íslendingar verði ein heilbrigðasta þjóð heims árið 2030. Á það hefur þó verið bent að mikilvægt sé að uppfæra gildandi stefnu þannig að hún falli vel að nýrri heilbrigðisstefnu sem Alþingi samþykkti sem ályktun,“ sagði Willum Þór.
„Síðastliðna áratugi hefur þekking almennings á gildum heilbrigðra lífshátta og tengslum þeirra við gott heilsufar aukist til muna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilbrigði sem fullkomna líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og heilsubrest. Heilbrigði er mikilvægt fyrir efnahagslega þróun og samfélagið í heild. Ein helsta ógn við heilbrigði, framfarir og hagvöxt um heim allan eru langvinnir sjúkdómar. Helstu áhættuþættirnir eru hreyfingarleysi, áfengisneysla, reykingar og óheilsusamlegt mataræði.
Sjúkdómar sem rekja má til óheilbrigðra lífshátta valda miklu álagi á heilbrigðiskerfið. Fyrirsjáanlegt er að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála aukist í framtíðinni vegna afleiðinga nútímalífshátta. Rannsóknir sýna að notkun á heilbrigðisþjónustu eykst með hækkandi líkamsþyngdarstuðli og heilbrigðiskostnaður hækkar að meðaltali um 1,9% við hverja viðbótareiningu stuðulsins.
Mikilvægt er að snúa þeirri þróun við með þjóðarátaki í lýðheilsutengdum forvörnum sem nær til allra aldurshópa samfélagsins. Forvarnir miða að því að koma í veg fyrir sjúkdóma og draga úr fylgikvillum þeirra. Sýnt hefur verið fram á að forvarnir geta dregið verulega úr áhættuþáttum langvinnra sjúkdóma.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að hægt sé að fyrirbyggja
80% tilfella hjarta- og æðasjúkdóma,
90% fullorðinssykursýki og
30% allra krabbameinstilfella með hollu mataræði, nægri hreyfingu og reykleysi.
Heilbrigður lífsstíll getur komið í veg fyrir stóran hluta hjartasjúkdóma, heilablóðfalla, sykursýki og fleiri alvarlegra sjúkdóma.

„Í grein eftir Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðing, sem birtist í 4. tbl. 104. árg. Læknablaðsins, kemur fram að 98% útgjalda til heilbrigðismála fari í að meðhöndla sjúkdóma en tæplega 2% fara í forvarnir. Með markvissu átaki í forvörnum er hægt að vinna að því að minnka þörfina fyrir dýra og flókna heilbrigðisþjónustu og létta þannig álagið á heilbrigðiskerfið.
Mikilvægi hreyfingar í forvörnum
Niðurstöður nýrrar rannsóknar menntavísindasviðs Háskóla Íslands á heilsu og lífskjörum grunnskólanemenda sýna að hátt í 40% unglinga í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða oftar og 38% segjast glíma við svefnörðugleika. Fjölmargar rannsóknir staðfesta forvarnargildi íþrótta. Þær sýna að aukin hreyfing dregur úr tilfellum alvarlegra sjúkdóma. Þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi dregur einnig úr líkum á frávikshegðun og hefur margvísleg jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan. Þannig má leiða líkur að því að skipulagt starf íþróttafélaga leiði til þjóðfélagslegs heilsuábata og minnki álag á heilbrigðiskerfið. Einnig hefur verið sýnt fram á að hreyfing hefur jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað í formi færri veikindadaga og aukinnar framleiðni.
Niðurstöður rannsóknar sem gerð var á menntavísindasviði Háskóla Íslands frá 2003–2011 sýna að ungt fólk hreyfir sig álíka mikið og fólk um áttrætt. Það er ótrúlegt að sú sé staðan en kannski er það vegna þess að eldra fólk er farið að hreyfa sig meira. Skýrsla um heilsuhegðun Norðurlandabúa frá 2017 sýnir m.a. að einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum hreyfir sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu og á það líka við um Ísland. Þar kemur einnig fram að hlutfall Íslendinga sem neyta óholls matar jókst úr 19% í 25% frá árinu 2011 til ársins 2014. Hreyfingarleysi er talið jafn mikill áhættuþáttur og reykingar og því mikilvægt að snúa þessari þróun við með markvissri fræðslu um mikilvægi hreyfingar fyrir fólk á öllum aldri. Börn og unglingar sem upplifa jákvæða reynslu af hreyfingu eru líklegri til að velja sér lífshætti sem fela í sér hreyfingu á fullorðinsaldri. Tryggja þarf að öll börn njóti sömu tækifæra til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð efnahag foreldra því slíkt eykur lífsgæði og er mikilvægur liður í heilsusamlegum lífsstíl. Miklu varðar að vekja almenning til umhugsunar um eigið heilbrigði og velferð og beina sjónum að þeim möguleikum sem hver maður hefur til að hafa jákvæð áhrif á eigin heilsu og lífsgæði. Huga þarf sérstaklega að heilsu barna og unglinga því möguleikar á að ná árangri eru mestir hjá þeim aldurshópi.
Hægt á öldrunarferlinu
Doktorsritgerð Janusar Guðlaugssonar, sem ber heitið Fjölþætt heilsurækt: Leið að farsælli öldrun sýnir að virkur lífsstíll, sem felur m.a. í sér fjölbreytta þjálfun, hefur margvíslegan heilsufarslegan ávinning. Þátttakendur rannsóknarinnar voru einstaklingar á aldrinum 71–90 ára. Helstu niðurstöður voru þær að dagleg hreyfing meiri hluta þátttakenda var aðeins brot af ráðleggingum alþjóðlegra heilbrigðisstofnana. Niðurstöðurnar sýndu m.a. að líkamsþyngdarstuðull og fitumassi batnaði að lokinni þjálfun og að jákvæðar breytingar urðu á vöðvamassa að lokinni þjálfun. Rannsóknin sýnir að eldri aldurshópar geta haft margvíslegan ávinning af markvissri hreyfingu, unnið gegn ótímabærri skerðingu á hreyfigetu og viðhaldið lífsgæðum. Öldruðum á Íslandi fer fjölgandi og er því fyrirsjáanlegt að útgjöld til heilbrigðismála aukist verulega í framtíðinni. Markvissar heilsutengdar forvarnir eru liður í því að stemma stigu við þessari þróun.
Heilsueflandi samfélög
Lykillinn að árangri á sviði forvarna og lýðheilsu er samstarf og víðtæk, þverfagleg nálgun sem byggist á þekkingu. Í lýðheilsustefnu til ársins 2030 kemur fram að stefnumótun og ákvarðanir ríkis og sveitarfélaga séu forsenda þess að lýðheilsusjónarmið séu sett í forgrunn og að heilsueflandi samfélag verði innleitt á landsvísu. Þá segir að heilsusjónarmið, þar sem ætíð er gefinn gaumur að áhrifum stefnu á heilsu og líðan allra íbúa í samfélaginu, þurfi að vera lykilstefið í allri stefnumótunarvinnu. Í því samhengi er mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að ná settu marki. Heilsueflandi samfélag er verkefni á vegum embættis landlæknis í samvinnu við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök og fleiri aðila. Meginmarkmiðið er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum og vellíðan allra íbúa.
Á 35. flokksþingi Framsóknarflokksins, 9.–11. mars 2018, var ályktað að vinna þyrfti markvisst eftir settri lýðheilsustefnu og innleiða þyrfti lýðheilsumat þar sem allar stjórnvaldsákvarðanir yrðu metnar út frá áhrifum á heilsu. Jafnframt skyldi bjóða öllum 50 ára einstaklingum í heilbrigðismat í forvarnaskyni og stefnt að því að öll sveitarfélög yrðu heilsueflandi samfélög fyrir árið 2025 og allir skólar, leikskólar og framhaldsskólar virkir þátttakendur í heilsueflandi verkefnum. Einnig skyldi efla heilsueflandi vinnustaði með auknu samstarfi Vinnueftirlitsins og embættis landlæknis.
Forvarnir þurfa að ná til allra þátta samfélagsins er varða heilsu og líðan allra aldurshópa. Nauðsynlegt er að efla það lýðheilsustarf sem fer fram á vegum landlæknis með auknum fjárheimildum til málaflokksins, svo sem til rannsókna, þróunar og eflingar lýðheilsusjóðs. Það má segja að þetta mál taki þessa ályktun Framsóknarflokksins áfram. Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir á sviði lýðheilsu með samvinnu og stuðningi heilbrigðiskerfisins og vinna markvisst eftir settri lýðheilsustefnu. Aukin framlög hins opinbera til forvarna eru mikilvæg til lengri tíma litið svo að hægt sé að vinna að því að auka jafnvægi í útgjöldum til heilbrigðismála í framtíðinni. Og það er klárt mál að með auknum áherslum á forvarnir getum við dregið úr kostnaði við heilbrigðiskerfið til framtíðar,“ sagði Willum Þór.

Categories
Greinar

Smávirkjanir – einföldum kerfið

Deila grein

13/11/2019

Smávirkjanir – einföldum kerfið

Virkj­un­ar­kost­ir fyr­ir smá­virkj­an­ir hér á landi eru marg­ir, en skiplags- og leyf­is­mál smá­virkj­ana eru flók­in og reglu­gerðir íþyngj­andi. Ferlið frá hug­mynd að teng­ingu er kostnaðarsamt og tíma­frekt og langt frá sam­svar­andi ferli fram­kvæmda, t.d. í land­búnaði þar sem fram­kvæmd­ir bæði á landi og mann­virkj­um geta kostað um­tals­vert rask.

Smá­virkj­an­ir, þ.e. virkj­an­ir með upp­sett rafafl 200 kW til 10 MW, eru til­kynn­ing­ar­skyld­ar til Skipu­lags­stofn­un­ar sam­kvæmt lög­um um mat á um­hverf­isáhrif­um. Fram­kvæmd­um er í 1. viðauka við lög­in skipt í flokka A, B og C með hliðsjón af því mati sem skal fara fram.

Ein­falda þarf kerfið

Norðmenn hafa náð góðum ár­angri á sviði smá­virkj­ana, en þar hef­ur ein stofn­un, norska Orku­stofn­un­in (NVE), um­sjón með leyf­is­veit­ing­um. NVE hef­ur kort­lagt mögu­lega virkj­un­ar­kosti. Norsk stjórn­völd lögðu til fjár­magn svo að hægt væri að kort­leggja alla virkj­un­ar­kosti í vatns­afli og nota reiknilíkön svipuð þeim sem Vatna­skil og Veður­stof­an hafa yfir að ráða hér á landi til að spá fyr­ir um rennsli í vatns­föll­um. Fyr­ir­tæki hafa sprottið upp sem taka að sér að sjá um und­ir­bún­ing fyr­ir bygg­ingu virkj­un­ar, fjár­mögn­un, hönn­un og leyfi og gera lang­tíma­samn­inga við bænd­ur um tekj­ur af virkj­un­un­um.

Styrkja dreifi­kerfi raf­orku

Ljóst er að smá­virkj­an­ir eru ein leið til að styrkja dreifi­kerfi lands­ins og lækka kostnað við rekst­urs þess. Ein­föld­un á leyf­is- og skipu­lags­mál­um smá­virkj­ana opn­ar á leið til að ná niður dreif­ing­ar­kostnaði raf­orku í dreif­býli, jafna raf­orku­kostnað, jafna tæki­fær­in til at­vinnu og stuðla að sjálf­bærri þróun byggða um allt land.

Því hef ég lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að Alþingi álykti að fela um­hverf­is- og auðlindaráðherra og at­vinnu- og ný­sköp­un­ar­ráðherra að end­ur­skoða lög og reglu­gerðir er gilda um leyf­is­veit­ing­ar til upp­setn­ing­ar smá­virkj­ana með það að mark­miði að ein­falda um­sókn­ar­ferli í tengsl­um við þær.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019.

Categories
Fréttir

Útboð á sjúkraþjálfun er ekki jarðgangaverkefni

Deila grein

12/11/2019

Útboð á sjúkraþjálfun er ekki jarðgangaverkefni

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að Félag sjúkraþjálfara hafi bent á marga agnúa á þeirri aðferð að bjóða út sjúkraþjálfun án þess að leggja skal áherslu á fjölbreytni, gæði, samfellu og þátttöku notenda í þjónustunni. Þetta kom fram hjá henni í störfum þingsins á Alþingi í dag. Það er ekki hægt að nálgast slíkt útboð á sama hátt og jarðgangaverkefni eða aðrar stórar vegaframkvæmdir á vegum ríkisins. Það er annað er á við um vörukaup til heilbrigðisþjónustu enda viðkvæmur málaflokkur.
„Sjúkratryggingar Íslands hafa ákveðið að fela Ríkiskaupum að bjóða út sjúkraþjálfun á höfuðborgarsvæðinu og er það í samræmi við lög um opinber innkaup sem sett voru samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014. Þessi lög eru mikilvæg því að hagkvæm innkaup eru forsenda fyrir góðri nýtingu á almannafé. Félag sjúkraþjálfara hefur bent á marga agnúa á þessari aðferð. Það sem skiptir mestu máli er náttúrlega fá góða niðurstöðu, bæði fyrir þá sem þjónustuna þiggja og líka fyrir ríkið sem niðurgreiðir hana. En á þá heilbrigðis- og félagsþjónusta að falla undir opinber innkaup og lög um hana? Norðurlöndin hafa tekið upp lög, sömu lög eða sömu tilskipun um opinber innkaup, en þau hafa sett sérstaka umgjörð um heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í Noregi eru til að mynda ákvæði í lögum um opinber innkaup sem fjalla um útboð á heilbrigðis- og félagsþjónustu sem segir að setja skuli í reglugerð reglur um sérstöðu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Leggja skal áherslu á fjölbreytni, gæði, samfellu og þátttöku notenda í þjónustunni.
Virðulegi forseti. Ég tel það vera skynsamlega nálgun og ættum við sem fámenn þjóð að fara sömu leið. Strax eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum var greiðsluþátttökukerfinu breytt þannig að fleirum var gert kleift að nýta sér þjónustu sjúkraþjálfara. Það er líka á stefnuskránni að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu. Heilbrigðis- og félagsþjónusta er viðkvæmur málaflokkur. Þess vegna getum við ekki nálgast hann á sama hátt og jarðgangaverkefni eða aðrar stórar vegaframkvæmdir á vegum ríkisins. Annað á við um vörukaup til heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðis- og félagsþjónustu verður alltaf að nálgast með sérstökum aðferðum og reglum,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin

Deila grein

11/11/2019

Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin

„Það er okkur alltaf hollt að ræða málefni innflytjenda og vil ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir það tækifæri. Við getum þá velt fyrir okkur hvar við viljum standa og hvert við viljum stefna. Heyrst hefur úr þessum stól og í fjölmiðlum að það mál sem var í deiglunni í gær sé á ábyrgð núverandi stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum. Ég vísa slíkum athugasemdum til föðurhúsanna en það er gott að taka samtalið. Þeim hefur vissulega fjölgað sem hér sækja um alþjóðlega vernd og útgefnum leyfum hefur líka fjölgað. Á árinu 2018 voru þau 160 en eru komin upp í 216 á þessu ári.“ Þetta kom fram í ræðu Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum.
„Í sáttmála ríkisstjórnarinnar segir að það eigi að taka á þessu og áhersla er lögð á að lögð verði til grundvallar mannúðarsjónarmið og alþjóðlegar skuldbindingar og áhersla lögð á góða og skilvirka meðhöndlun umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess verður tryggð samfella í þjónustu og aðstoð við þá sem fá slíka vernd.
Í stjórnarsáttmálanum er líka talað um að setja á fót þverpólitíska pólitíska þingmannanefnd til að meta framkvæmd og eftir atvikum endurskoða hana. Þessi nefnd hefur ekki verið sett og er því ekki farin af stað. Þarna þurfum við að girða okkur í brók og setja hana saman til að hún geti farið að vinna.“
„Gestrisni eru okkur Íslendingum í blóð borin. Við setjum reglur og lög og viljum að farið sé eftir þeim. En mannúð og gestrisni þarf ekki að setja í lög. Þegar við framfylgjum reglum og lögum eigum við að hafa mannúð að leiðarljósi. Það má ekki gefa afslátt af henni. Það á við um okkur öll sem meðhöndlum útlendingamál,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Deila grein

11/11/2019

Hver nýtur vafans í kerfinu?

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, fór yfir í umræðu um málefni innflytjenda á Alþingi á dögunum að það væri fjölbreyttur hópurinn er komi til landsins af ýmsum ástæðum, svo sem til að mennta sig, atvinnu, fjölskyldutengsla eða jafnvel á flótta.
„Innflytjendur eiga sér stutta sögu á Íslandi eins og tölurnar segja og á bak við tölurnar er raunverulegt fólk. Kerfin okkar hafa þurft að takast á við miklar breytingar á skömmum tíma og hugsanlega tala kerfin ekki saman. Kerfi sem þjónustar innflytjendur og hælisleitendur beint, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og fleiri. Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 voru innflytjendur um 13% mannfjöldans og þetta fólk er lykilþáttur í hagvexti á Íslandi.“
„Það er ljóst að við getum gert svo miklu betur til þess að virkja þennan hóp í samfélagi okkar til aukinnar þátttöku. Það er nefnilega svo ótal margt sem við, hinir venjulegu Íslendingar, getum lært af fólki með aðra reynslu, annan bakgrunn, aðra hugsun og aðra menningu,“ sagði Hjálmar Bogi.
„Við hljótum flest að vera sammála um að ólíkir menningarstraumar auðgi okkar eigin menningu og geri okkur að betra samfélagi. Það er hins vegar ógjörningur fyrir okkur sem hér störfum að setja okkur í spor fólks á flótta, fólks í leit að betra lífi, og því síður ættum við að slá pólitískar keilur vegna hræðilegra aðstæðna fólks. Það eru nefnilega viðbrögðin sem skipta máli. Hvort ætlum við að standa hér til að komast í fjölmiðla eða leggja til breytingar á kerfi sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við?“
Gerum það að menningu okkar stjórnmálamanna að bæta það sem þarfnast sannarlega endurskoðunar við og fögnum því að hingað til lands vilji fólk koma, dvelja hér, búa, eignast börn, læra og lifa. Ég held að hv. þm. Þórhildur Sunna hafi hitt naglann á höfuðið um gallað kerfi: Hver nýtur vafans í kerfinu? Það er rétt. Og eins og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir orðaði það: Kurteisi og samkennd verða ekki skrifuð í lög,“ sagði Hjálmar Bogi.