LFK hvetur konur áfram!
21/02/2014
LFK hvetur konur áfram!21/02/2014
LFK hvetur konur áfram!20/02/2014
Gagnaver á BlönduósiAlþingi ályktaði 15. janúar sl að fela stjórnvöldum að koma á samstilltu átaki með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu um eflingu atvinnulífs og sköpun nýrra starfa á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun. Jafnframt ber að vinna að markaðssetningu svæðisins sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.
Með þessari ákvörðun Alþingis er stigið stefnumarkandi skref til þess að gagnaver rísi á Blönduósi. Forráðamenn sveitarfélagsins hafa undirbúið málið með því að bjóða fram mjög hentugt landsvæði í eigu sveitarfélagsins og komið því á aðalskipulag. Staðhættir bjóða þar upp á flesta hugsanlega kosti til starfrækslu gagnavers. Þar er mjög vítt og hentugt landrými, orkuflutningur frá Blönduvirkjun mjög öruggur og um skamma leið að fara svo orkutap er lágmarkað. Engin hætta er af eldgosum, jarðskjálftum eða annarri náttúruvá. Þá er veðrátta svo sem ákjósanlegust er, köld en ekki stórviðrasöm. Ljósleiðaratengingar auðveldar, samgöngur greiðar bæði norður og suður. Lítill flugvöllur er á Blönduósi sem með litlum endurbótum gæti greitt enn betur fyrir samgöngum.
Svo háttar til að Landsnet vill leggja nýja orkuflutningslínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar. Gert er ráð fyrir 220 volta línu á möstrum. Íbúar þeirra sveita sem fyrir mestri röskun yrðu eru þessum áformum mjög andvígir. Þegar af þeirri ástæðu er einboðið að nýta fremur orku Blönduvirkjunar á heimaslóð en að standa í stórdeilum við íbúa annarra sveita. Blöndulínu þrjú þarf því ekki að reisa í bráð og sparast við það ríkisfé sem kemur að góðum notum við atvinnuuppbygginguna í Austur-Hún.
Íslendingar hafa varið geipifé til lagningar sæstrengjanna Farice og Danice. Þeir eru mjög vannýttir og rekstur þeirra er mikill baggi. Gagnaflutningar sem verða með tilkomu gagnavers/gagnavera myndu skipta þar sköpum.
Stjórnvöld hafa það á valdi sínu hvar þau kjósa að iðnaðaruppbygging verði sem og hvar iðjuver rísa í landinu og nægir að benda á álver í Reyðarfirði. Því ber stjórnvöldum nú að beita sér af alefli við að laða þá sem fjárfesta vilja í gagnaverum hingað til lands og fá því stað á Blönduósi, öllum til hagsbóta.
Sigrún Magnúsdóttir
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2014)
19/02/2014
Fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðumGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hafði framsögu á Alþingi í dag um skýrslu óháðs fagaðila, Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á fræðilegu mati á aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Gunnar Bragi sagðist „vonast til þess í dag að umræðan muni meira og minna beinast að skýrslunni sem hér liggur fyrir og efnisatriðum hennar og því mati sem þar er að finna á einstökum þáttum. Við eigum að horfa fram á veginn í þessu máli, sem og reyndar öllum öðrum ef við mögulega getum. Ég treysti því að með þessa úttekt í farteskinu farnist okkur það.“
Hann telur skýrsluna skýra vel „galla sem eru á því ferli sem viðhaft er í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er Evrópusambandið sem er við stjórnvölinn. Þannig er það. Sambandið stýrir ferlinu, m.a. með setningu skilyrða fyrir framvindu þess í formi opnunar- og lokunarviðmiða á einstaka samningskafla.“
„En það er annar stór galli á þessu ferli. Það er sú staðreynd að öll þessi skilyrðasetning fyrir framgangi viðræðna í formi viðmiða gefur einstökum aðildarríkjum enn ríkari tækifæri en fyrr til að láta sérhagsmuni sína ráða för. Þannig getur algerlega óskyld mál verið spyrt saman við bæði ferlið sjálft og framgang umsóknarríkja og þannig geta þeir sem fyrir liggja á fleti tekið varðstöðu um þrönga hagsmuni sína. Slíkt dregur auðvitað úr trúverðugleika ferlisins og trúverðugleika ESB almennt“, sagði Gunnar Bragi.
Gunnar Bragi segir skýrsluna draga „upp mynd af ESB sem framfylgir stækkunarstefnu sem er föst á klafa viðmiða og skilyrða og gefur núverandi aðildarríkjum tæki til eigin hagsmunagæslu. Stækkunarstefnan er í eðli sínu óbilgjörn. Hún er ekki framkvæmd á jafningjagrundvelli. Þessi stækkunarstefna hentar ekki Íslandi. Það var ábyrgðarhluti að hrinda í framkvæmd aðildarviðræðum þegar þannig háttar til.
Að þessum forsendum gefnum er það að mínu mati fullkomlega óábyrgt að halda áfram þessum viðræðum.”
„Ég er sannfærður um“, segir Gunnar Bragi, „að af gefnum þeim forsendum sem blasa við okkur í skýrslu Hagfræðistofnunar sé óábyrgt að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið um aðild. Þetta met ég með hliðsjón af þremur meginþáttum sem í skýrslunni eru dregnir fram og ég hef tæpt á.
„Við þurfum að taka í sameiningu á þeim atriðum sem snúa að okkur sjálfum en ekki úthýsa málinu til ESB til lausnar. Við erum að gera það nú þegar. Í níu mánuði hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs unnið í og tekið á stærri vandamálunum sem liggja fyrir þjóðinni, skuldaleiðréttingu, fjármálum ríkissjóðs, eflingu heilbrigðisstofnana og löggæslu svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Gunnar Bragi.
Hér er hægt að lesa ræðu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra í heild sinni.
18/02/2014
Suðurnesin eru besti staðurinn-stöndum saman!Framundan eru spennandi tímar. Norðurslóðamálin eru í brennidepli en þegar siglingar um Norðurslóðir hefjast fyrir alvöru og þegar umsvif vegna olíuleitar og –vinnslu aukast við Grænland og á Drekasvæðinu þá þarf ýmis konar þjónusta að vera til staðar. Tækifærin fyrir okkur Íslendinga eru því mikil á þessu sviði enda lega landsins mjög hentug og innviðirnir sterkir.
Miðstöð leitar og björgunar
Hér á Suðurnesjum er gríðarlega góð aðstaða fyrir hendi á Ásbrú. Þar eru hentugar byggingar og annað sem til þarf, til að byggja upp miðstöð leitar og björgunar á Norðurslóðum. Utanríkisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að hann telji að rétta staðsetningin fyrir slíka starfsemi væri á Suðurnesjum, ef til kemur. Ef Íslendingar ætla að verða miðstöð fyrir Norðurslóðasiglingar þá verðum við að standa saman. Samstaða og samvinna er lykillinn að svo mörgu. Ef við förum að togast á um hver fær hvaða bita af kökunni, þá verður kannski ekkert af neinu. Þess vegna verðum við að undirbúa okkur vel og sýna skynsemi og samstöðu.
Andstaða við flutning Landhelgisgæslunnar
Hið sama gildir um flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þingmál fyrir jól um að hafin yrði undirbúningur að flutningi gæslunnar til Suðurnesja. Ég flutti þetta mál vegna þess að ég veit að á Suðurnesjum eru bestu aðstæður til staðar fyrir starfsemi Landhelgisgæslunnar og starfsemi henni tengdri. Auk þess þá væri það hagkvæmara fyrir ríkið til lengri tíma að hafa hana einum stað, á Suðurnesjum. Yfirmenn gæslunnar hafa tjáð mér að þeir vilji að starfsemin flytjist til Suðurnesja. Sýnum nú samstöðu og tölum einu máli fyrir flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.
Lögregluskólinn til Keilis?
Þessi tvö verkefni, þ.e. uppbygging leitar og björgunarmiðstöðvar og færsla Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja myndi vera mikið gæfuspor fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og auk þess eru þarna talsverð samlegðaráhrif. Þessi starfsemi styður hvor aðra tvímælalaust. Annað þessu tengt er stofnun Öryggisakademíu hjá Keili. Skólameistarinn og starfsmenn Keilis hafa unnið lengi að undirbúningi Öryggisakademíu og meðal hugmynda er að Lögregluskóli ríkisins færist þar inn. Nú þegar æfa lögreglunemar og sérsveit lögreglunnar á gamla varnarsvæðinu. Ég vona að Öryggisakademían verði að veruleika og mun styðja það verkefni af öllum mætti sem og önnur góð verkefni sem ég tel vera til hagsbóta fyrir svæðið.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
(Greinin birtist í Víkurfréttum 13. febrúar 2014.)
17/02/2014
Fjölgum körlum í áhrifastöðumLengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum? Báðar þessar fyllyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða. Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að viðskiptalífinu.
Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna. Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, leikskólakennara er ætlað að vera leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd og hann á að vera samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.
Einnig má segja að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum. Hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum þeirra að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum. Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.
Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja. Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum. Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins. Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf. Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.
Þessum skrifum er ætlað að opna augu fólks fyrir því að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum.
Anna Kolbrún Árnadóttir, jafnréttisfulltrúi
17/02/2014
Bætt umræða – aukin virðingUndanfarið hefur nokkuð verið drepið á nauðsyn þess að bæta yfirbragð opinberrar umræðu, sérstaklega í netheimum. Sannarlega er ekki vanþörf á vakningu í þessum efnum því margir orðaleppar sem látnir eru falla eru engum sæmandi. Verst er þó þegar fólk sem vill væntanlega láta taka sig alvarlega lætur ummæli falla sem ganga þvert á allt velsæmi.
Þeir sem vinna opinber störf þurfa að vera við því búnir að finna til tevatnsins vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis. Allir hafa fullan rétt á að gagnrýna og benda á það sem betur má fara. Ég skal samt viðurkenna að með fullu tilliti til þess sem áður er sagt eru atriði sem ég felli mig ekki við að sé beint að mér og þeim stjórnmálasamtökum sem ég var kosinn á þing fyrir.
Ég felli mig til dæmis ekki við að vera kallaður fasisti eða að ég eða stjórnmálasamtök þau sem ég tilheyri búi yfir slíkum tilhneigingum. Að vísu er það svo að flestar ávirðingar í þessa átt hafa undanfarið borist frá einstaklingum sem eru lítt traustvekjandi og njóta reyndar ekki almenns trausts.
Nú rétt fyrir áramótin var birt viðtal í Fréttatímanum um atburði nýliðins árs. Þar lét annar viðmælandinn hafa eftir sér ummæli um síðustu kosningabaráttu sem gengu gersamlega fram af mér.
Meðal annars sagði viðkomandi: „…að í aðdraganda kosninganna, þegar skoðanakannanir sýndu í hvað stefndi og við sáum fylgi Framsóknar stíga, leið mér eins og ég væri að horfa á hryllingsmynd með raðmorðingja sem gengur laus.“ Og litlu síðar: „…ég held við séum á vissan hátt í gini morðingjans núna og erum að súpa seyðið af þessu.“
Ekki sæmandi
Nú er ekki eins og sá sem lét ummælin falla sé einhver skynskiptingur. Þvert á móti á viðkomandi að heita bókmenntafræðingur og ætti því að þekkja merkingu þeirra orða sem hún lætur falla.
Ekki lítur samt út fyrir að viðkomandi hafi verið á kafi í fagurbókmenntunum. Hvað sem því líður eru ummæli bókmenntafræðingsins náttúrulega ekki sæmandi og bera vitni um litla sjálfsvirðingu því sá sem ekki ber virðingu fyrir sjálfum sér er ekki fær um að bera virðingu fyrir öðrum.
Auðvitað á maður ekki að skensa svona fólk heldur vorkenna því en sá sem hér skrifar er ekki nógu langt kominn á þroskabrautinni til að láta svona ummæli sem vind um eyrun þjóta. Nú er nefnilega kominn tími til að spyrna við fótum.
Opinber umræða á ekki að vera á þessum nótum. Það á ekki að þola að stór hluti þjóðarinnar sé dreginn niður með þessum hætti. Brýn nauðsyn er á því að opinber umræða sé dregin upp úr þessum förum. Vinnum það áramótaheit að bæta opinbera umræðu og hætta slíkum endemis sleggjudómum heimsku og niðurlægingar.
Þorsteinn Sæmundsson
(Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. febrúar 2014.)
17/02/2014
Hriktir í stoðum EvrópusamstarfsinsMikil togstreita er innan Evrópu um þessar mundir. Það endurspeglaðist í ræðu Thorbjörns Jaglands, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, á fundi ráðsins fyrir skömmu. Þar lýsti hann yfir miklum áhyggjum af stöðu mála og hver þróunin yrði. Hann benti á að mikil ólga væri innan Evrópusambandsins, spenna milli sambandsins og annarra valdamikilla ríkja og jafnvel spenna innan Evrópuráðsins, sem samanstendur af 47 ríkjum sem eru bæði innan og utan ESB. Ástæðan er ekki síst sú að félagslegt misrétti hefur aukist til muna í aðildarríkjunum. Þá eiga öfgastefnur vaxandi fylgi að fagna og telja margir að það muni endurspeglast í kosningum til Evrópuþingsins í vor. Spyrja verður hvaða áhrif það muni mögulega hafa á Evrópusambandið á næstu árum. Óljóst er hvert sambandið stefnir og margir eru þeirrar skoðunar að evrusamstarfið geti ekki haldið nema til komi sérstakt sambandsríki Evrópu. Mikil andstaða er hins vegar við þá hugmynd innan aðildarríkjanna.
Jagland benti á að sú mikla óþolinmæði sem vart hefði orðið í Evrópu endurspeglaðist síðan í auknu kynþáttahatri og öfgaskoðunum. Minnihlutahópar ættu í vök að verjast, ný félagsleg vandamál væru að koma í ljós, og ofbeldi gegn konum og börnum hefði aukist. Þá væri peningaþvottur alþjóðlegt vandamál. Undirliggjandi væri andstaða við ríkjandi stjórnvöld vegna aukins misréttis. Fólk sættir sig ekki lengur við að sigurvegarinn hirði allt og að stórir hópar sitji eftir.
Mannréttindasáttmáli Evrópu hafi aldrei verið eins mikilvægur og nú. Á sama tíma er hins vegar nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Mannréttindadómstóls Evrópu, þar sem þúsundir mála bíða afgreiðslu. Nauðsynlegt er að styrkja til muna lagaverk einstakra þjóða þannig að þau geti leitt til lykta flest mál sem lúta að mannréttindum. Jagland bendir á að einungis stærstu málin ættu að koma inn á borð Mannréttindadómstólsins. Taka verður undir þetta. Hlutverk Evrópuráðsins er ekki síst að standa vörð um mannréttindi og lýðræði í aðildarríkjunum. Þannig er framtíð Evrópuríkja best borgið.
Karl Garðarsson
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2014.)
13/02/2014
Afnám verðtryggingar – opinn fundurOpinn fundur um niðurstöður verðtryggingarnefndar í Framsóknar-salnum í Kópavogi Digranesvegi 12 laugardaginn 15. febrúar kl. 11.00. Frummælendur verða Ingibjörg Ingvadóttir og Vilhjálmur Birgisson. Auk þeirra verða þeir Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson alþingismenn í pallborði að loknum framsögum.
13/02/2014
„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“Í störfum þingsins í gær, miðvikudag, tóku Jóhanna María, Willum og Vigdís til máls. Vigdís fór m.a. yfir hvað það eru orðnar „óheyrilegar upphæðir sem lífeyrissjóðirnir taka í rekstrarkostnað, sérstaklega í ljósi þess að launþegar eiga sjóðina“ og ekki eru þeir ofaldnir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: ræddi framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og áhyggjur fólks af framtíðarskipan hans. Ekki er hægt að skera meira niður innan stofnunarinnar án þess að það komi niður á náminu eða komi til algjörrar uppstokkunar á starfsemi skólans. „Við sem sinnum hlutverki stjórnvalda þurfum að svara kalli starfsmanna og nemenda skólans, byggðarinnar á Hvanneyri og fólksins í Borgarfirði. Við þurfum að taka af vafann með hag Landbúnaðarháskólans fyrir brjósti og sækja fram.“
Willum Þór Þórsson: ræddi fyrirhugað afnám verðtryggingar á neytendalánum. „Verðtryggð neytendalán eru hluti af tilbúnu kerfi þar sem neytendur taka langvarandi kostnað á sig tengdan almennum verðlagsbreytingum í skiptum fyrir lægri greiðslubyrði en borga á endanum fasteignir sínar of dýru verði.“ Og síðar sagði hann: „Tækifærið er núna. Það er einsýnt þessu samkvæmt að fara verður í skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar samhliða.“
Vigdís Hauksdóttir: fór yfir ævintýralegar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna. Á fundi þingmanna með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða „kom fram að 0,26% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru rekstrarkostnaður. Heildareignir lífeyrissjóðanna er 2.656 milljarðar og gerir því rekstrarkostnaðurinn 6,9 milljarða, tæpar 7 þús. milljónir.“ Síðar sagði hún: „Vilhjálmur Birgisson, sem minnst var á hér áðan, verkalýðsforingi af Akranesi, hefur sett fram á bloggsíðu sinni að þetta sé samanlögð sú upphæð sem fer í lögreglu og landhelgisgæslu samkvæmt fjárlögum 2014.“
13/02/2014
Formaður Framsóknar tekur á móti háskólanemum frá AkureyriSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, tók á móti yfir 100 nemendum frá Háskólanum á Akureyri (HA) í vísindaferð s.l. laugardag. Móttakan fór fram í Framsóknarhúsinu við Hverfisgötu og eru myndir frá móttökunni hér.