Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Deila grein

30/08/2023

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, flutti opnunarræðu á fjölmennu húsnæðisþingi sem haldið var í morgun á vegum innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) undir yfirskriftinni „Heimili handa hálfri milljón“. Ráðherra kynnti þar drög að fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Drög að húsnæðisstefnunni og aðgerðaáætlun er nú í samráðsgátt og hægt að senda umsagnir og ábendingar til og með 4. september. Þingsályktun um stefnuna verður lögð fram á haustþingi.

Réttlátari húsnæðismarkaður

Í ræðu sinni sagði Sigurður markmiðið vera að skapa réttlátari húsnæðismarkað. Tryggja þurfi aðgengi að öruggu húsnæði – grundvallarþörf hvers einstaklings. Þá þurfi að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði, að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu og huga að húsnæðisöryggi leigjenda.

„Til lengri tíma þurfum við að fjölga íbúðum af öllum gerðum til að mæta íbúafjölgun og skapa þannig jafnvægi á húsnæðismarkaði. Sú yfirsýn sem við höfum öðlast með þéttara samstarfi ríkis, sveitarfélaga og byggingaraðila er mikilvægur grunnur til að standa á til að ná þessum markmiðum til lengri tíma. Til skemmri tíma að styðja við tekju- og eignaminni, ungt fólk og fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði með ólíkum leiðum, t.d. samkeppnishæfari hlutdeildarlánum til að hjálpa fólki að eignast eigið húsnæði og hækkun stofnframlaga til byggingar hagkvæms leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði. Þannig eflum við almennan leigumarkað og bætum húsnæðisöryggi leigjenda,“ sagði Sigurður Ingi.

Á þinginu fór Sigurður Ingi yfir megindrætti í drögum að nýrri húsnæðisstefnu. „Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál. Því er mikilvægt að stjórnvöld móti skýra langtímastefnu með aðgerðaáætlun. Megininntak stefnunnar er að húsnæði sé hluti af velferð okkar allra. Við þurfum öll þak yfir höfuðið.“

Sjö lykilviðfangsefni

Í drögum að húsnæðisstefnu eru skilgreind sjö lykilviðfangsefni 

  1. Stöðugleiki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf.
  2. Skilvirk stjórnsýsla á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála.
  3. Greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál byggðar á áreiðanlegum tæknilegum innviðum.
  4. Sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni.
  5. Markviss húsnæðisstuðningur sem er afmarkaður við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.
  6. Aukið húsnæðisöryggi leigjenda og bættar rauntímaupplýsingar um leigumarkaðinn.
  7. Sjálfbær þróun, gæði og rekjanleiki í mannvirkjagerð.

Markmið og 44 aðgerðir

Þá hafa verið skilgrein fjögur markmið og 44 aðgerðir sem skiptast niður á markmiðin.

  • Auka jafnvægi á húsnæðismarkaði – 10 aðgerðir 
  • Gera stjórnsýslu skilvirkari og auka gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið – 15 aðgerðir 
  • Bæta húsnæðisöryggi þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði – 13 aðgerðir
  • Stuðla að virkum vinnumarkaði um land allt – 6 aðgerðir

Húsnæðisþingið var sent út í beinu streymi og innan skamms verður hægt að horfa á öll ávörp og kynningar á vef þingsins – husnaedisthing.is

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Að finna besta fyrirkomulagið óháð kostnaði“

Deila grein

30/08/2023

„Að finna besta fyrirkomulagið óháð kostnaði“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók í dag við skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Hlutverk hópsins var að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Honum var falið að endurskoða fyrirkomulag úrræða og þjónustu í þessum málaflokki, með réttindi barna og aðgengi þeirra að fullnægjandi þjónustu að leiðarljósi.

„Við viljum að börn fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda hverju sinni og að þau fái hana hratt. Útgangspunkturinn í þessari vinnu var að finna besta fyrirkomulagið óháð kostnaði. Að því loknu að skoða kostnað og koma með tillögur um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Stýrihópurinn hefur nú skilað inn sínum tillögum að skilvirkari þjónustu sem felur einnig í sér betri nýtingu fjármuna án aukins kostnaðar. Við munum nú vinna áfram með tillögurnar til að bæta þjónustu fyrir þennan viðkvæma hóp barna og vil ég þakka öllum þeim sem komu að vinnunni fyrir sitt framlag,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Stýrihópurinn leggur fram 14 tillögur:

  • Stigskiptur búsetukjarni
  • Styrkja meðferðarfóstur
  • Sérhæfð skammtímadvöl/hvíldarinnlögn
  • Styrkja og skala upp SkaHM (heimili sem býður upp á skammtímadvöl í Reykjavík)
  • Vistheimili/meðferðarheimili
  • Meðferðarheimili fyrir endurteknar meðferðarvistanir
  • Sérhæfð afeitrunardeild
  • Meðferðareining fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda
  • Meðferðareining fyrir börn með alvarlegan geðrænan vanda
  • Móttaka í bráðatilvikum fyrir börn með alvarlegan geð- og/eða hegðunarvanda
  • Teymi sérfræðinga
  • Inntaka og mat á þjónustuþörf
  • Stuðningur við foreldra til að hafa börn lengur heima
  • Fyrirbyggjandi aðgerðir

Gert var ítarlegt kostnaðarmat á tillögunum. Niðurstöður kostnaðarmatsins sýna að hægt er að ná umtalsverðri hagræðingu í rekstri þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Árlegur sparnaður gæti orðið allt að 1 ma. kr. Sparnaðurinn birtist fyrst og fremst í því að einn aðili annist skipulag og framkvæmd þjónustu. Með slíku fyrirkomulagi gefst tækifæri til að nýta mannauð og þekkingu til þjónustunnar með markvissari hætti en áður og fleiri komast að í þjónustu.

Þór Hauksson Reykdal starfsmaður stýrihópsins, Helga Sif Friðjónsdóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, Arnar Haraldsson starfsmaður stýrihópsins, Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, varaformaður og fulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Haraldur L. Haraldsson formaður stýrihóps, Hanna Dóra Hólm Másdóttir fulltrúi innviðaráðuneytisins, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar og fulltrúi Reykjavíkurborgar, Rannveig Einarsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Funi Sigurðsson, fulltrúi Barna- og fjölskyldustofu.

Þann 16. júní 2022 skipaði mennta- og barnamálaráðherra stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Í stýrihópnum voru fulltrúar frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, heilbrigðisráðuneytinu, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu. Stýrihópurinn er framhald af samstarfi félags- og vinnumarkaðsráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra um aðgerðir til að bæta aðgengi að þjónustu fyrir börn. Bið barna og fjölskyldna þeirra eftir fullnægjandi þjónustu og úrræðum getur haft veruleg áhrif á farsæld barna og velsæld fjölskyldna. Fullnægjandi og greiður aðgangur að árangursríkri þjónustu stuðlar að aukinni farsæld, m.a. bættu geðheilbrigði, og dregur úr líkum á þyngri vanda síðar meir.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Bankarnir þurfa auðvitað að taka þessa skýrslu til sín“

Deila grein

30/08/2023

„Bankarnir þurfa auðvitað að taka þessa skýrslu til sín“

Út er komin skýrsla starfshóps Lilju Daggar Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna.

Hópurinn var skipaður haustið 2022 og hafði það hlutverk að kanna og greina arðsemi og gjaldtöku stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja, m.a. í samhengi við aðra norræna banka og með hliðsjón af Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út árið 2018. Hópurinn skilaði skýrslunni af sér nú í sumar.

Vaxtamunur meiri á Íslandi

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur meðal annars fram að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins hefur þó ekki skilað sér í minni vaxtamun heldur í bættri arðsemi.

Vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, er töluvert meiri en á Norðurlöndunum, þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Vaxtamunurinn er svipaður nú og hann var árið 2018.

Vaxtamunur inn- og útlána (húsnæðislán og óbundnir sparnaðarreikningar) er hins vegar næstlægstur hér á landi samanborið við Norðurlöndin.

Verð á bankaþjónustu hefur lækkað að raunvirði síðastliðin ár og er þar að auki mjög lítill hluti af heildarútgjöldum heimilanna eða um 0,4-0,5%. Til samanburðar nema útgjöld vegna matar og drykkjarvara 15,2% af heildarneyslu, húsnæðis, hita og rafmagns 30,2% og ferða og flutninga 15,5%.

Ógagnsæ gjaldtaka

Sum þjónustugjöld bankanna eru ógagnsæ að því leyti að ekki er ljóst hver kostnaður bankans er við að veita þjónustuna, sem oft er rafræn og/eða sjálfvirk. Í skýrslunni kemur fram að gjöld fyrir þjónustu í útibúum hafa hækkað hlutfallslega meira en gjöld fyrir rafræna þjónustu.

Í niðurstöðum skýrslunnar er sérstaklega fjallað um að gengisálag bankanna feli í sér ógagnsæja gjaldtöku. Gengisálag bankanna á kortafærslur í erlendri mynt sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars.

Kostnaður sem neytendum er ekki ljós dregur úr möguleikum þeirra til þess að taka hagstæðar ákvarðanir við val á vörum og þjónustuleiðum.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlunar

Í skýrslunni kemur einnig fram að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hefur í för með sér hærra verð á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn.

Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 milljarðar króna eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 milljarðar króna. Langstærstur hluti af færslunum fer í gegnum innviði erlendra kortafyrirtækja.

Starfshópurinn lagði fram eftirfarandi tillögur til úrbóta í skýrslunni:

  • Sett verði á fót samanburðarvefsjá á verði fjármálaþjónustu að norskri og sænskri fyrirmynd.
  • Gagnsæi við gjaldtöku í greiðslumiðlun við notkun greiðslukorta í erlendri mynt í formi álags á almennt gengi verði aukið.
  • Kannaðir verði möguleikar á að draga úr kostnaði í innlendri greiðslumiðlun í samræmi við ábendingar Seðlabanka Íslands í nýlegum skýrslum.
  • Aukin áhersla verði lögð á fjármálafræðslu fyrir almenning frá hlutlausum aðilum til að efla fjármálalæsi neytenda.
  • Stjórnvöld búi til ramma og skýrar leikreglur og fyrirtæki setji fram upplýsingar og valmöguleika á skiljanlegan hátt.

    Hópinn skipuðu Daníel Svavarsson, skrifstofustjóri í menningar- og viðskiptaráðuneyti (formaður), Gylfi Zoega, tilnefndur af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Tinna Finnbogadóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Auður Alfa Ólafsdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Breki Karlsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum, Kristín Eir Helgadóttir, tilnefnd af Hagsmunasamtökum heimilanna og Yngvi Örn Kristinsson, tilnefndur af Samtökum fjármálafyrirtækja. Einar B. Árnason, sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, var einnig vinnuhópnum til aðstoðar.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Deila grein

28/08/2023

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Meg­in­vext­ir Seðlabanka Íslands eru 9,25% eft­ir síðustu 50 punkta hækk­un. Verðbólga hef­ur farið minnk­andi og mæld­ist 7,6% í júlí. Dregið hef­ur úr alþjóðleg­um verðhækk­un­um ásamt því að gengi krón­unn­ar hef­ur styrkst um­fram spár. Á móti veg­ur að inn­lend­ar verðhækk­an­ir hafa reynst þrálát­ar og eru enn á breiðum grunni.

Síðustu daga hafa sum­ir beint kast­ljós­inu beinst að ferðaþjón­ust­unni. Eft­ir því sem best verður séð af yf­ir­lýs­ing­um Seðlabanka­stjóra og af lestri Pen­inga­mála Seðlabank­ans virðist vera um mis­skiln­ing að ræða hvað snert­ir síðustu vaxta­hækk­un, þar sem ekk­ert kem­ur þar fram sem bend­ir til að ferðaþjón­ust­an sé um­fram aðrar at­vinnu­grein­ar að valda verðbólguþrýst­ingi, enda árar vel í flest­um at­vinnu­grein­um þjóðfé­lags­ins. Í nýj­ustu Pen­inga­mál­um er minnst á ferðaþjón­ust­una í sam­hengi við styrk­ingu krón­unn­ar, sem hef­ur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er gengið nú að meðaltali um 10% hærra en það var lægst í lok janú­ar. Frek­ari staðfest­ingu á fram­lagi ferðaþjón­ust­unn­ar til styrk­ing­ar á krón­unni var að finna í töl­um Hag­stof­unn­ar í vik­unni þar sem fram kem­ur að verðmæti þjón­ustu­út­flutn­ings hef­ur styrkst og nær að greiða mik­inn halla á vöru­skipt­um við út­lönd og er­lend­ar fjár­fest­ing­ar líf­eyr­is­sjóðanna. Færa má sterk rök fyr­ir því að öfl­ug­ur viðsnún­ing­ur ferðaþjón­ust­unn­ar hafi stutt við gengi krón­unn­ar á síðustu mánuðum og í raun frá því að grein­in hóf að rétta úr kútn­um snemma á ár­inu 2022.

Það er ekki þörf á að dvelja lengi við áhrif geng­is­ins á verðlag á Íslandi í gegn­um tíðina, og eru áhrif­in sterk­ari hér á landi en í öðrum lönd­um, enda kem­ur fram í Pen­inga­mál­um að betri skamm­tíma­horf­ur verðbólgu­vænt­inga end­ur­spegli einkum styrk­ingu krón­unn­ar um­fram spár. Í Pen­inga­mál­um er á öðrum stað minnst á ferðaþjón­ust­una þar sem kem­ur fram að horf­ur í ferðaþjón­ustu séu áþekk­ar og í spá bank­ans í maí. Þar seg­ir einnig að horf­ur fyr­ir grein­ina séu svipaðar fyr­ir næsta ár þar sem gert er ráð fyr­ir hóf­legri fjölg­un ferðamanna milli ára. Það virðist því ekki vera nein breyt­ing á áhrif­um ferðaþjón­ust­unn­ar til hækk­un­ar á spá bank­ans. Það má halda því til haga að gert er ráð fyr­ir færri ferðamönn­um í ár en á metár­inu 2018, en það ár var verðbólg­an ekki vanda­mál.

Það eru hins veg­ar aðrir og aug­ljós­ari kraft­ar sem hafa áhrif á verðlag. Verð á mat­vöru og þjón­ustu hef­ur hækkað áfram. Verð á al­mennri þjón­ustu hef­ur hækkað um 6,8% sl. tólf mánuði og verð á inn­lendri vöru um 11,5%. Þá hef­ur dagvara hækkað um 12,2% frá sama tíma í fyrra. Enn er því til staðar nokk­ur verðbólguþrýst­ing­ur þótt dregið hafi lít­il­lega úr hon­um í júlí, en rúm­lega helm­ing­ur af neyslukörf­unni hef­ur hækkað um 5-10% frá fyrra ári og um fjórðung­ur hef­ur hækkað um meira en 10%. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið hyggst taka upp sam­tal við lyk­ilaðila á dag­vörumarkaðnum til að skilja bet­ur þessa hækk­un, sér í lagi vegna þess að krón­an hef­ur verið að styrkj­ast og alþjóðleg verðbólga í rén­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

„Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu“

Deila grein

24/08/2023

„Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Verða reglurnar unnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar sé að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

„Tækninni fleygir fram og ljóst að henni fylgja ekki eingöngu kostir. Vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Við ætlum að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Í nýrri rannsókn Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands kemur fram að næstum öll íslensk börn í grunnskóla eigi eigin farsíma, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Hlutfall barna og ungmenna sem nota netið til að leysa skólaverkefni er lágt í yngstu bekkjunum en eykst með aldrinum, frá því að vera 7% sem gera það daglega í 4.–7. bekk, 38% í 8.–10. bekk og í framhaldsskóla stendur hlutfallið í 74%.

Notkun upplýsinga- og samskiptatækni gegnir mikilvægu hlutverki í skólastarfi en samhliða þarf að vinna markvisst gegn neikvæðum afleiðingum tækninnar á börn og ungmenni í íslensku menntakerfi. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn, andlega og líkamlega heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólum bæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

📲Flest börn á Íslandi eiga snjallsíma og þeim fylgja fjölmörg tækifæri sem við eigum að nýta. En þessari miklu…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Fimmtudagur, 24. ágúst 2023

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Íbúakosningar sveitarfélaga

Deila grein

23/08/2023

Íbúakosningar sveitarfélaga

Drög að reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga á grundvelli 133. gr. sveitarstjórnarlaga hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 1. september nk.

Ný reglugerð fjallar um allar tegundir íbúakosninga sveitarfélaga en markmiðið er að einfalda og minnka umfang íbúakosninga sveitarfélaga og veita sveitarfélögum meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum. Reglugerðinni er jafnframt ætlað að auka lýðræðisþáttöku og sjálfbærni sveitarfélaga og efla þannig sveitarstjórnarstigið. 

Alþingi samþykkti í júní 2022 lög sem fólu í sér breytingar á ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar sveitarfélaga. Lögin fela m.a. í sér að íbúakosningar sveitarfélaga færu ekki lengur fram á grundvelli meginreglna kosningalaga heldur á grundvelli reglna sem sveitarfélög skyldu setja sér sjálf um framkvæmd slíkra kosninga. Ráðherra sveitarstjórnarmála ber samkvæmt lögunum að setja reglugerð um þau lágmarksatriði sem geta þyrfti um í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar til að tryggja örugga framkvæmd þeirra. Breytingarnar höfðu þau markmið að skýra og einfalda framkvæmd íbúakosninga og að minnka umfang þeirra og kostnað án þess að vega að öryggi og vandaðri framkvæmd slíkra kosninga.

Innviðaráðherra staðfesti reglugerð um íbúakosningar nr. 323/2023 þann 14. mars sl. á grundvelli laganna. Vinna við gerð reglugerðarinnar leiddi þó í ljós að til staðar væru ákvæði í sveitarstjórnarlögum sem gerðu það að verkum að framkvæmd íbúakosninga væri enn óþarflega þung í vöfum og takmarkaði möguleika sveitarfélaga á að nýta sér það úrræði að halda íbúakosningar til að leita eftir vilja íbúa í einstöku málum. Af þeirri ástæðu hafði innviðaráðaráðherra frumkvæði að því að í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á kosningalögum, sem lagt var fram á Alþingi á vordögum, voru lagðar til frekari breytingar á þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar.

Frumvarp þess efnis var samþykkt á Alþingi í júní sl. þar sem gerðar voru ýmsar breytingar sem höfðu það markmið að einfalda og minnka umfang íbúakosninga ásamt því að sveitarfélögum var veitt meira vald hvað kosningarrétt varðar í ráðgefandi íbúakosningum og var litið til þess að breytingin væri til þess fallin að auka sjálfbærni sveitarfélaga, auka lýðræðisþátttöku og efla þannig sveitarstjórnarstigið.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Deila grein

21/08/2023

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, var í liðinni viku á ferð um Múlaþing og Fjarðabyggð og átti ánægjuleg samtöl við sveitarstjórnarfólk og aðra fulltrúa byggðarlaganna.

„Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot og aftakaveður koma hér af og til. Landsmenn hafa aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson

Ofanflóðavarnir til að verja íbúðabyggð hafa sannað gildi sitt. Slíkar aðgerðir munu áfram vera í forgangi stjórnvalda. Jafnframt er nú tímabært og nauðsynlegt að huga að undirbúningi á atvinnusvæðum og skipulagi m.t.t. náttúruvá ásamt aukinni vöktun á snjóflóðahættusvæðum.

„Því er mikill fengur að vandaðri samantekt frá Veðurstofunni um þörf fyrir varnir á atvinnusvæðum og eiga fundi með íbúum um niðurstöður hennar. Auk þess gæti eldri þekking sem er við það að falla í gleymskunar dá komið að góðum notum. Útfærslan er eftir, áskorunin stór sem unnin er í samráði við heimamenn,“ segir Sigurður Ingi.

Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar,…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 18. ágúst 2023
Categories
Greinar

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Deila grein

18/08/2023

Áfram Árneshreppur og hvað svo?

Árneshreppur á Ströndum tók þátt í verkefni Byggðastofnunar „Brothættar byggðir“. Um er að ræða verkefni sem byggir á byggðaáætlun og er hluti af áætlun Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. „Áfram Árneshreppur“ en svo kallast verkefnið í Árneshreppi, var hrundið af stað árið 2018 og er nú komið á loka metrana.

Undirrituð sat íbúafund í Árnesi í gær þar sem farið var yfir hvernig verkefnið hefur tekist til og hvernig íbúar sæju fyrir sér þau tækifæri sem komin eru í gang mættu lifa til framtíðar. Það var augljóst á fundinum að íbúar töldu verkefnið hafa heppnast vel og að þeir styrkir sem fengist hafa í tengslum við það hafi ýtt á stað frjóum hugmyndum sem þegar eru farnar að blómstra. Auk þess hefur krafturinn nýst við að ýta á stað ljósleiðaravæðingu í hreppnum og þrífösun rafmagns sem nú er langt á veg komin. Við slíkan innblástur og kraft vaknar bjartsýni og vilji til að viðhalda uppbyggingu. Verkefni brothættra byggða er ætlað að aðstoða byggðarlög sem hafa glímt við viðvarandi fólksfækkun ásamt því að atvinna og þjónusta hafi veikst. Í Árneshreppi hafði verið viðvarandi fækkun síðustu áratugi en frá því að verkefnið hófst árið 2018 hefur þróunin snúist við og aftur fjölgað í hreppnum. Það má því segja að verkefnið hafi farið vel af stað.

Bættar samgöngur

Já markmiðinu er náð. En hvert er þá framhaldið? Líklega að viðhalda því sem náðst hefur og halda svo áfram.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að framlögð samgönguáætlun gerir ráð fyrir að fresta enn frekar framkvæmdum á Veiðileysuhálsi sem hefjast átti á árinu 2024 til ársins 2029. Það er algjörlega taktlaust í kjölfar vel heppnaðra aðgerða hins opinbera á síðustu fimm árum í byggðarlaginu að bregðast svo á ögurstundu. Áfram Árneshreppur hefur skilað tugmilljóna styrkjum frá hinu opinbera í lífvænleg verkefni og gildandi samgönguáætlun algjörlega í takti við það markmið að efla byggðarlagið.

Vetrarþjónusta mikilvæg

Frá Bjarnarfirði norður í Norðurfjörð eru liðlega 75 km. Það er vissulega áskorun að halda uppi öruggri vetrarþjónustu um vegi sem liggja um krappar hlíðar, háls og vegslóða sem liggja með landslaginu en eru ekki uppbyggðir. Hluti leiðarinnar er þó með ágætum og ekki snjóþungur. Nú síðustu tvo vetur hefur vetrarþjónustan verið aukin þegar fallið var frá G-reglu snjómoksturs og hefur það gefist vel. Var um tilraunaverkefni að ræða og mikilvægt er að ekki verið fallið aftur í sama farið heldur frekar horft á þörf og aðstæður. Flug á Gjögur er mikilvægt en getur þó aldrei komið í stað samgangna á landi.

Það er ekki bara vilji íbúa Árneshrepps að halda uppi góðu mannlífi í byggðarlaginu, það hlýtur að vera vilji okkar allra að blása í glæðurnar og efla enn frekar kraftinn sem býr á Ströndum. Því verður áfram að vera Áfram Árneshreppur!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.