Categories
Fréttir Greinar

Stærsta kjara­bót ör­yrkja í ára­tugi

Deila grein

01/09/2025

Stærsta kjara­bót ör­yrkja í ára­tugi

Í dag taka gildi umfangsmiklar breytingar á örorku- og endurhæfingarkerfi almannatrygginga. Þetta er stórt skref sem markar þáttaskil fyrir fólk með skerta starfsgetu, breyting sem byggir á margra ára vinnu, samráði við fagfólk og ekki síst á ábendingum og baráttu Öryrkjabandalags Íslands. Lagabreytingin var samþykkt í júní 2024 af þáverandi ríkisstjórn. Það er ánægjulegt að sjá að breið sátt hefur náðst um þessa kerfisbreytingu, enda hefur ákall um umbætur verið hávær í áratugi.

Markmið nýja kerfisins er einfalt en skýrt: að tryggja manneskjulegri og sanngjarnari þjónustu, bæta kjör lífeyrisþega, draga úr tekjutengingum og skapa raunverulega hvata til þátttöku á vinnumarkaði. Um leið er lögð áhersla á betri endurhæfingu, samfellu í þjónustu og að enginn falli lengur á milli kerfa.

Breytt viðhorf í nýju hlutverki

Það er athyglisvert að sjá hversu breið sátt hefur myndast um þessar breytingar. Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, sem lengi hafði lýst yfir áhyggjum af breytingunum, hefur nú tekið heilshugar undir mikilvægi þeirra. Hún kallar þær 18 milljarða króna árlegu kjarabætur sem nýja kerfið felur í sér „mestu kjarabætur sem þessi hópur hefur fengið í áratugi.“

Þessi viðhorfsbreyting undirstrikar að stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkar standa saman um að hrinda þessum lausnamiðuðu breytingum í framkvæmd. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að margir komu að mótun kerfisins. Framsóknarflokkurinn á hér sína sögu; félagsmálaráðherrar úr okkar röðum hófu undirbúning að heildarendurskoðun kerfisins, lögðu grunn að samþættingu þjónustu og nýju matskerfi og nú hefur sú vinna skilað sér í breiðri sátt um úrbætur.

Heildstætt stuðningskerfi til menntunar og þátttöku

Þrátt fyrir jákvæðar breytingar er ljóst að enn er verk að vinna. Nýja kerfið tryggir öryggi og afkomu, en við þurfum líka að byggja upp fleiri tækifæri. Undirrituð hefur lagt fram tillögu um að koma á fót heildstæðu stuðningskerfi sem auðveldar öryrkjum að stunda menntun og endurmenntun.

Menntun er lykill að þátttöku og nýjum tækifærum. Hún skapar sjálfstæði, eykur lífsgæði og gerir fleirum kleift að nýta getu sína til fulls. Stuðningskerfið sem tillagan leggur til myndi tryggja fjárhagslegt öryggi á meðan fólk er í námi, veita ráðgjöf og eftirfylgni og skapa sveigjanleika á milli menntunar, endurhæfingar og atvinnuþátttöku.

Með slíku kerfi gætum við byggt ofan á þær umbætur sem nú taka gildi og gert þær enn áhrifaríkari. Þannig tryggjum við að fólk með einhverja starfsgetu hafi raunveruleg tækifæri til að nýta hana, með öryggi og sveigjanleika.

Allir með í samfélaginu

Lengi má gott bæta og ljóst er að kerfi eins og örorkulífeyriskerfið er gott dæmi um eitthvað sem verður ekki fullkomið. Það er í höndum okkar stjórnmálamanna að tryggja það að kerfið verði stöðugt í endurskoðun því það er nauðsynlegt að fólk sem er á örorkulífeyri hafi trygga afkomu. Í heildina litið eru breytingarnar jákvæðar og lausnamiðaðar. Þær bæta kjör langstærsta hluta lífeyrisþega og tryggja að fólk fái þann stuðning sem það þarfnast á hverjum tímapunkti. Þær eru líka vitnisburður um að hægt er að ná breiðri pólitískri sátt þegar markmiðið er skýrt og allir leggja sitt af mörkum.

Það er okkar sameiginlega ábyrgð að fylgja þessum breytingum eftir, svo kerfið mæti þörfum einstaklingsins og virki í framkvæmd.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Deila grein

01/09/2025

Sam­gönguáætlun – skuld­binding, ekki kosninga­lof­orð

Samgönguáætlun er lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og fjarskipti og er samþykkt af Alþingi. Hún skiptist í annars vegar tólf ára stefnumarkandi áætlun, þar sem sett eru fram markmið og áherslur stjórnvalda, og hins vegar fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Markmið hennar er að tryggja að uppbygging innviða sé markviss, samræmd og fjármögnuð. Hún er þannig grundvallartæki til að tengja saman framtíðarsýn, stefnumótun og fjármögnun í innviðauppbyggingu.

Það hlýtur því að teljast ámælisvert þegar ráðherra gefur í skyn að samgönguáætlun sé fyrst og fremst pólitískt plagg sem megi breyta eftir hentugleikum eða jafnvel nota sem verkfæri í kjördæmapoti. Með slíkum málflutningi er dregið í efa að verkefnum sé raðað eftir faglegri og ígrundaðri forgangsröðun og gefið til kynna að fyrri ákvarðanir Alþingis skipti ekki máli þegar nýir ráðherrar kjósa að fara aðra leið.

Dæmi um þetta má sjá í umræðunni um Fjarðarheiðargöng. Þau hafa verið hluti af samgönguáætlun frá árinu 2011, voru jafnframt inni í áætluninni árið 2016 og eru nú á gildandi samgönguáætlun, sem var samþykkt samhljóða á Alþingi með stuðningi allra flokka. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar með þeim hætti hlýtur almenningur og sveitarfélög að mega vænta þess að aðgerðir fylgi í kjölfarið.

Það hlýtur einnig að vekja spurningar um traust sveitarfélaga gagnvart ríkinu þegar stjórnvöld sýna slíkan sveigjanleika í afstöðu sinni. Það er ekki trúverðugt að hrósa Múlaþingi fyrir farsæla sameiningu og lýsa henni sem fyrirmynd annarra, en ætla síðan ekki að standa við þau loforð sem voru grundvallarforsenda sameiningarinnar og staðfest í samgönguáætlun.

Frá árinu 2013 hafa bókanir Sambands sveitarfélaga á Austurlandi verið skýrar: næstu jarðgöng á Austurlandi skulu verða Fjarðarheiðargöng. Þau eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands – innviðaverkefni sem sambandið hefur kallað eftir í áratugi. Það er óásættanlegt að sveitarstjórnarráðherra, sem ber ábyrgð á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sýni sveitarstjórnum þá óvirðingu að hunsa samhljóða og langvarandi kröfur um forgangsröðun framkvæmda.

Samgönguáætlun er ekki hugmyndaskjal sem má víkja til hliðar að hentugleikum. Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins. Það er því lágmarkskrafa að hún sé virt og framkvæmd í samræmi við þann trúnað sem liggur til grundvallar.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Deila grein

29/08/2025

Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga, og hvernig?

Góð spurning! Þarf að laga eitthvað? Já ⎼ við getum í það minnsta bætt okkur í því hvernig við stundum og tölum um sveitarstjórnarpólitík. Þessi umbótaþörf birtist okkur kannski skýrast í þeirri staðreynd að endurnýjun í sveitarstjórnum hefur verið hröð síðustu ár. Of margir, hver sem ástæðan er, gefa ekki kost á sér aftur eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.

Þetta er því sameiginlegt verkefni, á landsvísu, en ég ætla hins vegar að einblína á það sem ég þekki best: Mína heimabyggð.

Umræðan

Ég vil byrja á atriði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Það er: Við verðum að hætta að láta eins og allir kjörnir fulltrúar, alltaf, séu hálfvitar. Það er bæði ósennilegt að aldrei veljist neinn í bæjarstjórn sem ekki er hálfviti ⎼ og þó svo væri, þá er þetta ekki uppbyggileg nálgun. Í bæjarstjórn situr einfaldlega fólkið sem gaf kost á sér og var kosið af samborgurum sínum. Ertu ósammála ákvörðunum? Láttu í þér heyra! Geturðu gert betur? Bjóddu þig fram! Það er alveg ábyggilegt að fleiri þurfa að bjóða fram krafta sína, svo við fáum tækifæri til að velja besta fólkið hverju sinni.

Samræður

Ég get ekki fullyrt neitt um aðrar sveitarstjórnir, en ég get fullyrt þetta um mína eigin sveitarstjórn: Við þurfum að ræða meira saman. Það sitja jú ellefu fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar, öll með sama umboð, til þess að tryggja að ólík sjónarmið komi fram og hafi áhrif á ákvarðanatöku og ákvarðanaferlið. Ég fullyrði að þetta er vannýtt auðlind í dag, og það á margvíslegan hátt. Rótin er hins vegar í öllum tilvikum skortur á samræðum. Næsta bæjarstjórn verður að gera betur.

Öflugri stjórnmál

Ég er orðinn þeirrar skoðunar að það sé tímabært að gera þá kröfu til í það minnsta leiðtoganna innan bæjarstjórnar, að þeir sinni þeim verkefnum sem við viljum að sé sinnt í fullu starfi. Leiðtogarnir þurfa að hafa tíma til að fylgja verkefnum eftir og sinna stefnumótun, eftirliti og aðhaldi. Þetta er held ég erfitt að gera, svo vel sé, meðfram annarri vinnu. Á sama tíma er ljóst að við getum tæplega fylgt fordæmi Reykjavíkurborgar, þar sem allir borgarfulltrúar sinna sínum verkefnum í fullu starfi. Til þess er sveitarfélagið ekki nógu stórt. Við þurfum því að finna okkur eigin leiðir, til að tryggja að öflug stjórnsýsla fái nægjanlegan stuðning og nægjanlegt aðhald frá öflugum kjörnum fulltrúum.

Sameinuð

Hér er ég kominn inn á hála braut, og kannski út fyrir efnið, en ætla samt að láta vaða. Sameinaður Eyjafjörður væri sveitarfélag með tæplega 30.000 íbúa. Sveitarfélag sem býr yfir háskóla, alþjóðaflugvelli, þremur stórum höfnum, spennandi iðnaðarsvæðum ⎼ auk minni hafna, öflugra framhaldsskóla, og svo framvegis, o.s.frv. Sameinaður Eyjafjörður væri fjórða stærsta sveitarfélag landsins, með aukin vaxtartækifæri, og sem slíkt með áhrifamátt og slagkraft sem ekkert sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins hefur í dag. Sameinað sveitarfélag getur unnið með markvissari hætti að því að sækja hingað tækifæri til atvinnuuppbyggingar, laust undan hreppamörkum sem hafa litla merkingu í augum fjárfesta. Sameinað sveitarfélag hefur sömuleiðis sterkari rödd gagnvart stjórnvöldum. Ég held að flestir kjörnir fulltrúar í Eyjafirði sjái tækifærin í slíkri mynd, og auðvitað vankantana líka. Við verðum að fara að ræða þessi mál af alvöru, bæði kosti og galla.

Þetta voru aurarnir mínir tveir, eins og Kaninn segir.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 28. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Deila grein

28/08/2025

Ný sókn í mennta­málum – tæki­færi eða hliðar­skref?

Grein Guðmundar Ara Sigurjónssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, um „nýja sókn í menntamálum“ í síðustu viku vakti athygli mína. Það er jákvætt að menntamál séu sett í forgrunn og rætt um sókn á þessu mikilvæga sviði. Til að hún verði að veruleika þarf hún þó að standa undir nafni, vera raunverulegt framfaraskref og umfram allt nægilega fjármögnuð.

Endurnýting eða nýsköpun?

Tvö frumvörp eru einkum sögð hornsteinar „nýju sóknarinnar“: annars vegar frumvarp sem varð að lögum sl. vor um samræmt námsmat og hins vegar frumvarp um heildarlög um gerð námsgagna. Bæði frumvörpin lágu hins vegar fullmótuð fyrir hjá fyrri ríkisstjórn. Það er vissulega jákvætt að þau komi nú til framkvæmda, en erfitt er að tala um „nýja sókn“ ef engin ný sýn er til staðar.

Sókn án fjármögnunar?

Stærri spurningin er þó hvort þessi boðaða sókn sé yfirleitt fjármögnuð. Í fjármálaáætlun 2026–2030 er gert ráð fyrir að fjárheimildir til menntamála (málefnasvið 22, stjórnsýsla menntamála o.fl.) lækki ár frá ári, alls um 1,5 milljarða á tímabili áætlunarinnar, þar af um einn milljarð strax árið 2026. Vissulega hækka framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga næstu ár, en nauðsynlegt er að efla faglega stoðþjónustu, styrkja stjórnsýslu og auka eftirfylgni markmiða og aðgerða.

Það er eðlilegt að krefjast aðhalds í ríkisfjármálum, en það fer illa saman við stór orð um sókn í menntamálum, sem óhjákvæmilega krefst aukinna fjárveitinga.

Að takast á við samfélagsbreytingar

Raunveruleg sókn í menntamálum snýst enn fremur ekki aðeins um að bæta mælingar eða taka upp samræmt námsmat, sem hvort tveggja er vissulega jákvætt. Hún snýst um að tryggja að skólakerfið ráði m.a. við þær samfélagsbreytingar sem þegar eiga sér stað. Í mörgum grunnskólum landsins er hlutfall innflytjenda orðið mjög hátt og raunar svo hátt að hraði breytinganna er nánast án hliðstæðu á Norðurlöndum.

Við stöndum einfaldlega frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Mikilvægt er að kenna börnum með erlendan bakgrunn íslensku á árangursríkan hátt, og um leið að tryggja að íslensk börn nái góðum tökum á móðurmálinu. Þegar stór hluti bekkja hefur annað móðurmál en íslensku verður þessi áskorun enn stærri. Að takast á við þessar áskoranir mun kosta sitt, en leiða til aukinnar verðmætasköpunar og velmegunar til lengri tíma.

Sameiginleg áskorun – sameiginlegt verkefni

Breytt samfélagsmynstur er áskorun sem snertir okkur öll. Við þurfum heiðarlegt samtal um hvert stefnir og hvað gera þarf öllum til hagsbóta. Hvernig tryggjum við að börn með erlendan bakgrunn fái raunhæfan stuðning án þess að það komi niður á tungumálakunnáttu íslenskra barna? Hvernig tryggjum við að íslenskt skólakerfi verði áfram burðarás samfélags sem er í örum breytingum? Þetta eru ekki spurningar sem leystar verða með endurunnu frumvarpi, heldur með markvissum aðgerðum og fjárfestingu í kennurum, stuðningsúrræðum, bættu eftirliti og faglegu starfi.

Samræmdur matsferill og betri námsgögn eru jákvæð skref, en við þurfum að taka fleiri skref. Sókn í menntamálum verður að fela í sér raunhæf markmið, tryggða fjármögnun og hugrekki til að mæta samfélagsbreytingum. Hún þarf að tryggja að íslenskan blómstri sem móðurmál, að skólarnir okkar ráði við breytta samsetningu samfélagsins og að börn fái sem bestan grunn til framtíðar.

Í skólum landsins starfar frábært fagfólk sem á skilið traustan stuðning til að sinna sínu mikilvæga starfi. Spurningin er því einföld: ætlum við að nýta tækifærið og byggja upp menntakerfi sem þjónar öllum börnum í breyttu samfélagi eða látum við „nýju sóknina“ verða að litlu hliðarskrefi?

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nú er ekki tími til að kljúfa þjóðina

Deila grein

28/08/2025

Nú er ekki tími til að kljúfa þjóðina

Íslend­ing­ar búa við öf­undsverða stöðu í sam­an­b­urði við marg­ar aðrar Evr­ópuþjóðir. At­vinnu­leysi hef­ur ekki verið þjóðarmein hér á landi, eins og sums staðar ann­ars staðar í Evr­ópu. Sér­stak­lega ber að nefna stöðu ungs fólks í álf­unni þar sem at­vinnu­leysi mæl­ist sums staðar mjög hátt og hef­ur verið viðvar­andi vanda­mál í ára­tugi. Einnig blas­ir við að hag­vöxt­ur er hverf­andi í mörg­um þess­ara ríkja og sam­fé­lög þeirra glíma við al­var­leg­ar áskor­an­ir í rekstri og upp­bygg­ingu vel­ferðar.

Í þessu ljósi er mik­il­vægt að staldra við þegar rætt er um að hefja veg­ferð inn í Evr­ópu­sam­bandið. Slík veg­ferð mun óhjá­kvæmi­lega kljúfa þjóðina í and­stæðar fylk­ing­ar og færa fókus­inn frá því sem er brýn­asta verk­efni okk­ar allra: að ná tök­um á efna­hags­mál­um þjóðar­inn­ar.

Umræða um aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið virðist nú, að minnsta kosti að hluta, til­raun til að beina at­hygl­inni frá þeim áskor­un­um sem stjórn­völd glíma við í efna­hags­mál­um. Þjóðin finn­ur fyr­ir þrýst­ingi vegna hárra vaxta, viðvar­andi verðbólgu og – þess vegna – óvissu í dag­legu lífi. Við vit­um að lausn­in felst ekki í því að hefja langvar­andi og erfiða veg­ferð sem krefst mik­ils tíma, fjár­magns og póli­tísks þunga, held­ur í því að stjórn­völd standi sig í grunn­verk­efn­un­um heima fyr­ir.

Við í Fram­sókn leggj­um ríka áherslu á að sýna þjóðinni traust í jafn stóru álita­efni líkt og aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið eru. Það hef­ur áður sýnt sig að þjóðin get­ur tekið af­ger­andi ákv­arðanir um stór mál sem varða framtíð henn­ar. Í Ices­a­ve-mál­inu hrakti þjóðin áætlan­ir Jó­hönnu­stjórn­ar­inn­ar 2009-2013 í þjóðar­at­kvæðagreiðslum, meðal ann­ars fyr­ir til­stilli öfl­ugs mál­flutn­ings okk­ar í Fram­sókn á Alþingi. Sum­ir kölluðu það málþóf, en sag­an hef­ur sýnt að mál­flutn­ing­ur­inn var rétt­læt­an­leg­ur og að niðurstaðan var þjóðinni til heilla. Af þeirri reynslu má draga skýra álykt­un: ef rætt er um að hefja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið er eðli­leg­ast að þjóðin sjálf hafi upp­hafs­orðið um hvort farið sé í þá veg­ferð.

Við í Fram­sókn stönd­um vörð um þá ein­földu en mik­il­vægu staðreynd að Ísland hef­ur alla burði til að móta sína eig­in framtíð. Við búum yfir mikl­um auðlind­um, sterkri stöðu í at­vinnu­mál­um og sam­fé­lagi sem hef­ur margoft sýnt getu til að mæta áskor­un­um. Þess vegna segj­um við: Þetta er ekki rétti tím­inn til að etja þjóðinni í inn­byrðis deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Kosningar í septem­ber

Deila grein

27/08/2025

Kosningar í septem­ber

Íbúar Skorradalshrepps og Borgarbyggðar kjósa í september með eða á móti sameiningu.

Skorradalshreppur óskaði snemma á yfirstandandi kjörtímabili eftir samtali við Borgarbyggð með það að markmiði að skoða tækifæri sveitarfélaganna til sameiningar.

Sveitarfélögin áttu í óformlegum viðræðum frá febrúar til júlí 2024. Verkefnishópur á vegum sveitarfélaganna lagði svo til í framhaldi af því samtali við sveitarstjórnirnar að ráðist yrði í formlegar viðræður og íbúum gefinn kostur á að kjósa um sameiningu.

Samstarfsnefnd sem skipuð var fulltrúum beggja sveitarfélaga hefur m.a. nýtt þær upplýsingar sem fram hafa komið á íbúafundum og vinnustofum með lykilsstarfsmönnum og kjörnum fulltrúum og nefndarfólki til að kortleggja styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri í starfsemi sveitarfélaganna.

Í tengslum við óformlegu viðræðurnar voru teknar saman upplýsingar um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, skipurit, fyrirkomulag þjónustu, samstarfsverkefni, íbúafjölda, mannfjöldaspá, álagningu og fleira.

Í júní 2025 skilaði samstarfsnefnd áliti sínu til sveitarstjórna og lagði til að kosningar yrðu á tímabilinu 5. september til 20. september 2025. Jafnframt lagði samstarfsnefnd til að heimild til að lækka kosningaaldurinn í 16 ár yrði nýttur. Báðar tillögur voru samþykktar.

Það liggur því fyrir að íbúar Skorradalshrepps og Borgarbyggðar mun kjósa með eða á móti sameiningu í September og taka þar með ákvörðun um hvort verður að áframhaldandi samstarfi sveitarfélaganna. En sveitarfélögin hafa átt í góðu og farsælu samstarfi síðustu ár um flesta þætti er koma að lögbundinni þjónustu við íbúa.

Mannlegar tilfinningar

Umræðan um sameiningu sveitarfélaga er og hefur alltaf verið meira en bara samtal um stjórnsýsluna því mannlegar tilfinningar hafa ávallt leikið stóran þátt og ekki ástæða til að gera lítið úr slíkri upplifun. Þá er eðlilegt að íbúar almennt velti fyrir sér tilgangi, ávinning og göllum þess að sameinast öðru sveitarfélaga. Sitt sýnist hverjum og nauðsynlegt að velta við öllum steinum. Í tengslum við þær kosningar sem fram undan eru langar mig að nota tækifærið til sjóða niður í einfaldri útgáfu nokkur sjónarmið. Þessar hugleiðingar tengjast ekki með beinum hætti þeim sameiningakosningum sem fram undan, heldur eru til þess að varpa ljósi á hlutverk, verkefni og áskoranir sveitarfélaganna í stærra samhengis í umræðunni um sameiningar sveitarfélaga í bráð og lengd.

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í þjónustu við íbúa

Lagaleg skylda sveitarfélaga er að sinna rekstri grunnskóla, félagsþjónustu og umhverfis- og skipulagsmálum og fleiri verkefnum sem varða daglegt líf fólks. Sveitarfélögin hér á landi eru misjöfn að stærð, bæði hvað varðar íbúafjölda, innviði og fjárhagslegan styrk. Þessi mikli breytileiki hefur vakið spurningar um hvort sameining sveitarfélaga geti verið leið til að bæta þjónustu, nýta mannauð, styrkja stjórnsýsluna, auka hagkvæmni og efla lýðræðislega þátttöku íbúa.

Hagkvæmari rekstur og sparnaður

Ein helsta röksemdin sem bent hefur verið á fyrir sameiningu sveitarfélaga lítur að hagkvæmari rekstri og sparnaði á fjármagni, að með stærri einingum nýtist fjármunir , innviði og mannauður betur. Með stærra skattstofni og sameinuðum rekstri minnkar tvíverknaður, skriffinnska og yfirbygging í stjórnsýslunni. Fjármunum sé þá frekar streymt í átt að þjónustu við íbúa og uppbyggingu innviða.

Ljóst er að mörg smærri sveitarfélög eiga erfitt með að veita alla þá þjónustu sem lög gera ráð fyrir, í félagsþjónustu, skólaþjónustu, skipulagsmálum og þurfa alfarið eða að hluta til að reiða sig á þjónustusamninga við nágranna sveitarfélög til að uppfylla lagalega skildu sína gagnvart íbúum.

Mannauður er takmörkuð auðlind

Sveitarfélögin og hið opinbera er í samkeppni við einkageirann um sérfræðinga með þekkingu og reynslu. Í stærra sveitarfélagi er oft auðveldara að ráða til starfa reynslumikla sérfræðinga á ólíkum sviðum, til dæmis í skipulags -og umhverfismálum, félagsþjónustu, fræðslumálum og stjórnun skólastofnananna. fagmennska í ákvörðunartöku eykst og minni hætta er á að stjórnsýslan byggi á veikri stoð. Stærri einingar þar sem sérfræðingar hafa tækifæri til að vinna í þverfaglegu teymi fólks með breiða þekkingu gengur einfaldlega oft betur að laða til sín mannauð þar sem fagfólk dregur almennt að sér fagfólk.

Með sameiningu sveitarfélaga geta fjárhagslegir burðir til að standa að uppbyggingu innviða aukist. Samkeppnishæfni sveitarfélagsins eykst og tækifæri skapast til að byggja á sterkari grunni fyrir atvinnulíf og búsetu.

Í umræðunni um sameiningu sveitarfélaga kemur stundum upp sú umræða að sameining dragi úr nánd milli íbúa og fulltrúa. Stækkandi sveitarfélögum er þó í lófa lagt að efla lýðræði með fjölbreyttari kosningum og öflugri stjórnmálaumræðu. Þá eru fordæmi fyrir því að við sameiningar taki til starfa nefndir og ráð sem gera stjórnsýsluna gegnsærri og lýðræðislegri. En sveigjanleiki og þol gagnvart breytingum í smærri sveitarfélögum getur orðið brothættur þegar íbúum fækkar eða þegar tekjur sveiflast vegna atvinnulífs eða breytinga í opinberri stefnu.

Stærri sveitarfélag hafa oft á tíðum meiri sveigjanleika til að bregðast við breytingum og jafna út sveiflur.

Sameining sveitarfélaga á Íslandi hefur marga kosti, bæði fyrir stjórnsýslu og íbúa. Hún getur stuðlað að sterkari rekstri, hagkvæmari nýtingu fjármuna, betri þjónustu og auknum möguleikum til uppbyggingar í samfélaginu. Mikilvægt verður eftir sem áður óháð stærð sveitarfélaga að huga að lýðræðislegum þáttum, þannig að íbúar finni áfram fyrir tengslum við sitt nærsamfélag og að ákvarðanir séu teknar með þeirra hagsmuni að leiðarljósi.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður Samstarfsnefndar um sameiningu Borgarbyggðar og Skorradalshrepps.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

Deila grein

26/08/2025

Tæknikapphlaupið og staða Íslands

All­ar þjóðir heims eru í óðaönn að und­ir­búa sig und­ir gjör­breytt lands­lag efna­hags­mála með til­komu gervi­greind­ar. Leiðandi ríki á þess­um vett­vangi eru Banda­rík­in, Kína og Bret­land. For­ystu­fólk hjá Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur haft mikl­ar áhyggj­ur af því að sam­bandið væri að drag­ast aft­ur úr í tæknikapp­hlaup­inu. Þess vegna var fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Evr­ópska seðlabank­ans, Mario Drag­hi, feng­inn til að gera út­tekt á sam­keppn­is­hæfni álf­unn­ar. Fram kom í út­tekt Drag­his að á sviði tækni og ný­sköp­un­ar væri bilið milli Evr­ópu og Banda­ríkj­anna orðið sér­stak­lega áber­andi. Aðeins fjög­ur af 50 stærstu tæknifyr­ir­tækj­um heims eru evr­ópsk. Ekk­ert fyr­ir­tæki sem stofnað hef­ur verið á síðustu 50 árum og starfað í Evr­ópu hef­ur náð yfir 100 millj­arða evra markaðsvirði. Árið 2021 fjár­festu evr­ópsk fyr­ir­tæki um 270 millj­örðum evra minna í rann­sókn­um og þróun en banda­rísk fyr­ir­tæki. Vand­inn að mati Drag­his er ekki skort­ur á frum­kvöðlum eða getu inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins held­ur frem­ur að innri markaður­inn sé ekki nægi­lega sam­keppn­is­hæf­ur. Nefn­ir hann nokkra þætti máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi er orku­kostnaður þre­falt hærri hjá ríkj­um ESB en í Banda­ríkj­un­um og Kína. Í öðru lagi er skort­ur á fjár­fest­ingu í ný­sköp­un og tækni. Á ár­un­um 2008-2021 fluttu nærri 30 pró­sent evr­ópskra sprota­fyr­ir­tækja höfuðstöðvar sín­ar til Banda­ríkj­anna vegna þessa. Í þriðja lagi hef­ur mik­ill fjöldi af­bragðsnem­enda haldið til Banda­ríkj­anna og stofnað þar fyr­ir­tæki. Hag­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins hef­ur því orðið fyr­ir ákveðnum spekileka. Vöxt­ur fram­leiðni í Evr­ópu hef­ur því ekki verið eins mik­ill og von­ir stóðu til.

Á sama tíma hafa orðið al­gjör um­skipti í há­tækni- og hug­verkaiðnaði á Íslandi. Útflutn­ings­tekj­urn­ar nema 17% af heild­ar­út­flutn­ingi og hafa vaxið um 190% á tíu árum. Stjórn­völd mörkuðu afar skýra stefnu í þess­um mál­um og unnu þétt með at­vinnu­líf­inu. Fjár­fest­ing­ar í ný­sköp­un juk­ust mikið með bein­um stuðningi og skattafrá­drætti. Ísland er vegna þessa mun bet­ur í stakk búið til að tak­ast á við þær miklu breyt­ing­ar sem við stönd­um frammi fyr­ir í tækni og gervi­greind.

Ísland þarf ekki að ger­ast aðili að Evr­ópu­sam­band­inu til þess að vaxa og dafna. Eyðum tím­an­um frek­ar í að gera Ísland sam­keppn­is­hæf­ara. Leiðandi fyr­ir­tæki í gervi­greind hafa í aukn­um mæli sýnt Íslandi áhuga vegna hag­felldra skil­yrða fyr­ir gagna­ver. Við eig­um að sækja fram og nýta okk­ur hag­stætt orku­verð og góða legu lands­ins. Tími er tak­mörkuð auðlind og því mik­il­vægt að hann sé nýtt­ur vel. Í þeirri óvissu sem rík­ir í alþjóðaviðskipt­um er afar brýnt að sú leið sem Ísland vel­ur sé vel vörðuð. Ákvarðanir í ut­an­rík­is­mál­um þurfa að byggj­ast á staðreynd­um en ekki ósk­hyggju um ver­öld sem aldrei varð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2025.

Categories
Fréttir

Að finna Njálu renna í æðum sér!

Deila grein

25/08/2025

Að finna Njálu renna í æðum sér!

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, lýsir í nýrri Facebook-færslu frá upplifun sinni af Njáluvöku um helgina. Þakkar hún Njálufélaginu fyrir þrekvirki við allt skipulag, fróðleik sérfræðinga, leikþætti úrvals leikara og hópreið á Rangárbökkum.

Takk fyrir mig Guðni!

„Takk fyrir mig Guðni og þið öll sem ýttu þessu úr vör. Ég hlakka til næst!“

***

„Hátíðin er þrekvirki Njálufélagsins sem ég vona að sé rétt að byrja! Á fimmtudaginn fór ég líka opnunarviðburðinn íþróttahúsinu á Hvolsvelli þar sem 600 manns komu saman og hlýddu á vel fluttan fróðleik sérfræðinga.

Hápunktur dagskrárnar voru án efa leikþættir um Hallgerði, Gunnar, Njál og Bergþóru. Þar tókst að fá söguna til að lifna við.

Mér var svo hugsað til þess af hverju sýning eða uppsetningar um Njálu og Íslendingasögurnar almennt væri ekki hluti af námi ungmenna. Þannig verður lesturinn ljóslifandi, ástríðan á efninu kviknar og við finnum svo sterkt hvar rætur menningar okkar liggja.“

  • Sjá má myndagallerý hér að neðan:

Er eitthvað betra en að ríða um sveitir landsins og finna Njálu renna í æðum sér! Og það með skikkju takk fyrir! Já það…

Posted by Halla Hrund Logadóttir on Sunnudagur, 24. ágúst 2025
Categories
Fréttir

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

Deila grein

25/08/2025

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

„Það er ánægjulegt að sjá áhuga landsmanna á hlutdeildarlánunum. Fjöldi umsókna sýnir að þetta úrræði skiptir máli og hefur raunverulega þýðingu fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) bárust alls 33 umsóknir um hlutdeildarlán í ágúst, að andvirði um 513 milljóna króna. Til úthlutunar fyrir tímabilið eru hins vegar aðeins 333 milljónir króna. HMS stefnir að því að ljúka afgreiðslu umsókna í síðari hluta næstu viku.

Af umsóknunum 33 voru 28 með samþykkt kauptilboð, samtals að andvirði 429 milljóna króna. Aðeins fjórar umsóknir bárust vegna kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

„Ég tel mikilvægt að við lærum af reynslunni og skoðum hvort og hvernig hægt sé að útvíkka hlutdeildarlánin svo fleiri geti nýtt sér þau. Sérstaklega þurfum við að huga að því hvernig þau nýtast betur utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem hlutfall umsókna hefur farið lækkandi. Við eigum að byggja á því sem hefur reynst vel og skapa fleiri tækifæri fyrir fólk til að eignast eigið heimili,“ segir Ingibjörg.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár, að uppfylltum tekjumörkum.

Categories
Fréttir

Sleggja Samfylkingarinnar

Deila grein

25/08/2025

Sleggja Samfylkingarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ekki hafa náð að lækka verðbólgu þrátt fyrir að það sé hennar stærsta verkefni. Traust markaðarins á aðgerðum er horfið. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti fimm sinnum vegna fyrri jákvæðrar þróunar, en skortur á samstilltum aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnar síðastliðið vor hefur gert stöðuna erfiðari.

„Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar er að ná verðbólgunni niður og þar hefur henni mistekist. Sleggja Samfylkingarinnar, sem átti að lemja niður verðbólgu og vexti, hefur reynst innantómt slagorð.

Frá því í október hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti fimm sinnum, úr 9,25% niður í 7,5%. Sú lækkun byggðist svo sannarlega ekki á verkum núverandi ríkisstjórnar – heldur á því að við vorum á réttri leið og þá var almenn bjartsýni um að hægt væri að ná tökum á verðbólgunni.

Ég kallaði eftir því á Alþingi í vor, þegar óveðurskýin birtust, að ríkisstjórnin fundaði án tafar með hagsmunaaðilum um stöðu og horfur í baráttunni við verðbólguna. Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til þess. Við þurfum í sameiningu að ráðast gegn þeirri vá sem verðbólgan er. Staðan sýnir okkur að hyggilegt hefði verið að blása til sóknar síðastliðið vor – þá værum við betur í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Nú blasir við að stefna ríkisstjórnarinnar sem m.a. kemur fram í ríkisfjármálaáætlun og öðrum aðgerðum – eða aðgerðaleysi. Verðbólguvæntingar og traust markaðarins á því að hún ráði við verkefnið er einfaldlega ekki til staðar. Við því þarf að bregðast.“