Categories
Fréttir

Kerfisbundin veiking landsbyggðarinnar: Tíu aðgerðir bitna á atvinnulífi og íbúum

Deila grein

04/11/2025

Kerfisbundin veiking landsbyggðarinnar: Tíu aðgerðir bitna á atvinnulífi og íbúum

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins sífellt skýrari stefnu stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni. Hann sagði ríkisstjórnina hafa „komið hreint fram“ með afstöðu sína og taldi upp tíu atriði sem að veikja stoðir atvinnulífs og þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

„Sú mynd sem er að teiknast upp gagnvart landsbyggðinni er að verða skýrari og skýrari með hverjum deginum,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að afleiðingarnar næðu bæði til atvinnulífs og íbúa.

Tíu atriði sem Stefán Vagn nefndi:

  1. Hærra vöruverð og flutningskostnaður: Breytingar á kílómetragjaldi á vörubifreiðar hækki kostnað og verði til þess að vörur á landsbyggðinni verði dýrari.
  2. Áhrif á ferðaþjónustu: Hærra kílómetragjald á bílaleigur dragi úr lengri ferðum um landið, með minna tekjuflæði til landshluta utan höfuðborgar.
  3. Veiðigjöld: Hækkun veiðigjalda sé farin að skila sér í uppsögnum og minni fjárfestingargetu útgerða á landsbyggðinni.
  4. Vörugjöld á bensín- og dísilbíla: Hækkunin bitni sérstaklega á landsbyggðarfólki sem reiði sig frekar á slíka bíla, líkt og fram komi í áhrifamati frumvarps um kílómetragjald.
  5. Búvörulög: Boðaðar breytingar muni hafa veruleg áhrif á mjólkurbændur og umbylta tveggja áratuga kerfi sem hingað til hafi ríkt sátt um.
  6. Sameining sýslumanna: Fulltrúar ríkisins í héraði verði færðir burt, með mögulegri skerðingu á nálægri þjónustu.
  7. Breytingar á framhaldsskólum: Lagt sé til að leggja niður stöður skólameistara, færa vald til miðlægra stofnana og veikja fjárhagslegt sjálfstæði skólanna.
  8. Frumvarp um jöfnun atkvæða: Áhrif þess geta bitnað á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.
  9. Sameining heilbrigðisfulltrúa: Samþjöppun eftirlits og þjónustu fjarri notendum á landsbyggðinni.
  10. Skert starfsemi Vinnumálastofnunar: Þjónusta stofnunarinnar verði rýrð á landsbyggðinni.

Auk þess nefndi hann að rekstur meðferðarheimila utan höfuðborgarsvæðisins væri orðinn erfiður „því að of langt er í þjónustu að mati ráðuneytisins“.

„Of langt er í þjónustu því að ríkið er að taka hana alla í burtu,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Categories
Fréttir

„Ríkisstjórn sem þorir?”

Deila grein

04/11/2025

„Ríkisstjórn sem þorir?”

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi óvissu um svonefnt vaxtaviðmið í tengslum við nýjan húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og hvatti ráðherra að skýra næstu skref.

„Engin af þessum hugmyndum sem voru kynntar hefur nein áhrif á núverandi stöðu uppnáms á fasteignalánamarkaði, annað en það sem kynnt hefur verið sem vaxtaviðmið,” sagði Sigurður Ingi og spurði hvaða útfærsla væri fyrirhuguð, hvort um væri að ræða viðmið í samráði við Seðlabankann eða frumvarp frá ríkinu sjálfu. „Ég held að það séu mjög margir að bíða eftir skýrari svörum um þennan þátt,” bætti hann við.

Sigurður Ingi fagnaði jafnframt fjölmörgum atriðum í pakkanum og sagði hann „meira og minna byggðan á húsnæðisstefnu sem var samþykkt hér í júní árið 2024,” sem hann taldi gleðilegt. „Þetta voru margar góðar hugmyndir og ég hvet ríkisstjórnina til að halda áfram á þeirri braut,” sagði hann og nefndi að meðal annars væri fjallað ítarlega um byggingarreglugerð.

Vék hann að því að Viðreisn og Flokkur fólksins hefðu ekki stutt húsnæðisstefnuna á sínum tíma, en lagði áherslu á að „öllu batnandi fólki er best að lifa.”

Sigurður Ingi vísaði til þess að markmiðssetningin næði til ársins 2038 með aðgerðaáætlun til 2028. Hann hafði þó áhyggjur af því að breytingar á reglum um gistingu í gegnum Airbnb gætu bitnað á landsbyggðinni: „Airbnb-breytingin er auðvitað gegn fólki úti á landi að hluta,” sagði hann. Þá varaði hann við að hækkandi leiga gæti „auðvitað dregið úr framboði á leiguhúsnæði og unnið gegn þessum hugmyndum.”

Að sama skapi lýsti hann jákvæðu viðhorfi til aukningar í hlutdeildarlánum, en spurði hvernig slík úrræði dreifðust milli landshluta: „Fer hún líka á önnur svæði en til Reykjavíkur?” spurði hann. Þá óskaði hann eftir skýringum á hvort fyrirhuguð sala eigna hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gæti rýrt getu stofnunarinnar til að styðja uppbyggingu í tryggðri byggð: „Hefur [salan] áhrif á þá getu sem verið hefur undirstaða þess að það hefur verið byggt mjög mikið úti á landi á síðustu árum?”

„Ríkisstjórn sem þorir,” sagði Sigurður Ingi, en ítrekaði að skýrar svör um vaxtaviðmið væru lykilatriði þar sem þau gætu haft áhrif á lánamarkað heimilanna til skemmri tíma.

Categories
Fréttir Greinar

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Deila grein

04/11/2025

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Upptaka evru sem gjaldmiðils þýðir ekki að sömu húsnæðisvextir séu á öllu evrusvæðinu. Þrátt fyrir meira en tuttugu ára myntbandalag standa íbúðakaupendur á evrusvæðinu enn frammi fyrir mjög mismunandi íbúðalánsvöxtum.

Seðlabanki Evrópu (e. ECB) setur stýrivexti fyrir allt evrusvæðið, sem ákvarða vaxtakjör lána hjá ECB. Hins vegar þegar kemur að íbúðalánum, þá eru það viðskiptabankarnir, ekki ECB, sem ákveða raunverulega vexti sem heimilin greiða. Bankarnir taka mið af sínum eigin fjármögnunarkostnaði, samkeppni á heimamarkaði, mati sínu á áhættu í viðkomandi landi og síðast en ekki síst langtímavöxtum ríkisskuldabréfa viðkomandi ríkis.

Efnahagskerfi evrusvæðisins eru gjörólík. Banki í Þýskalandi býr oft við lægri fjármagnskostnað og stöðugra umhverfi en banki í Grikklandi. Þess vegna þurfa lántakendur í Suður-Evrópu oft að greiða hærri vexti, ekki vegna þess að evran sé öðruvísi þar, heldur vegna þess að bankarnir starfa við erfiðari skilyrði og meiri áhættu. Síðan er það húsnæðismarkaðurinn sjálfur. Eftirspurn og fasteignaverð eru afar ólík eftir löndum. Ofhitnaður spænskur markaður í kringum 2005 var allt annar markaður en hinn varfærni og stöðugi þýski markaður. Þegar eftirspurn eykst eða hætta á vanskilum vex, bregðast bankar við með því að hækka vexti.

Evran er vissulega sameiginlegur gjaldmiðill, en hún býr ekki til sameiginlegan húsnæðismarkað. Jafnvel með sömu stýrivexti frá ECB geta íbúðalánsvextir verið afar mismunandi. Allar líkur eru á því að fjölskylda sem kaupir heimili í München fái betri kjör en sú sem kaupir í Aþenu.

Sá mikli galli er á málflutningi þeirra sem vilja að Ísland taki upp evruna að ekki er rætt um ókostina og heildaráhrifin á hagstjórn. Þetta minnir á grísku goðsögnina um Mídas konung en hann óskaði sér þess að hann gæti breytt öllu í gull sem hann snerti. Guðinn Díonýsos uppfyllti ósk Mídasar og allt varð að gulli sem hann snerti. Hann faðmaði dóttur og hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heilla. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur. Mídas grátbað því Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Það sama á við um íslenska evrusinna, þeir átta sig ekki á því að það eru líka ókostir sem fylgja því að afnema sjálfstæða og sveigjanlega peningastefnu, eins og aukið atvinnuleysi.

Er ég að segja að húsnæðislánakerfið á Íslandi sé í lagi? Nei. Við þurfum að fara í kerfisbreytingar á því sem hafa það að markmiði að lækka langtímahúsnæðisvexti heimilanna og að þeir endurspegli betur sterkan efnahag og langtímahorfur Íslands. Þetta er hægt! Vilji er allt sem þarf!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

„Sofðu rótt í alla nótt“ – Um stöðu ís­lenskunnar, lestrarmenningu og á­kall til okkar sjálfra

Deila grein

03/11/2025

„Sofðu rótt í alla nótt“ – Um stöðu ís­lenskunnar, lestrarmenningu og á­kall til okkar sjálfra

Hvenær verður vandi að krísu?

Að íslensk leikskólabörn séu æ oftar farin að spjalla sín á milli á ensku, telja á ensku, þekkja litina á ensku: Vandi eða krísa? Að nærri helmingur drengja geti ekki lesið sér til gagns: Vandi eða krísa? Að Ísland sé neðst Norðurlanda þegar kemur að lesskilningi nemenda, og að staðan sé sú að fá þátttökuríki PISA hafi lækkað jafnmikið frá síðustu aldamótum: Vandi eða krísa?

Menntakerfið getur tekist á við vanda, en það þarf að virkja samfélag til að takast á við krísu.

Getur íslensk tunga dáið út á næstu fimmtíu árum? Já, nei, kannski? Íslenskan er ekki dauðadæmd en staða hennar er að veikjast. Stjórnvöld þurfa sannarlega að bregðast við, til dæmis með því að tryggja íslenskunni samastað í stafrænni veröld. Hins vegar, þegar öllu er á botninn hvolft, þá er enginn sem getur tryggt framtíð íslenskunnar nema við sjálf.

Þau vandamál sem við töldum upp tengjast öll orðaforða, málþroska, og læsi á einn eða annan hátt. Skólarnir hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna en samt er það svo að nám barna í skólum er aðeins brot af öllu þeirra námi. Börn læra af fjölskyldu sinni og þau læra af samfélaginu. Foreldrar eru fyrstu kennararnir og því mjög mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hlutverk sitt í þroska og námi barna sinna.

Lestrarmenning á heimilum skiptir sköpum fyrir viðgang og viðhald íslenskunnar, og er lykillinn að bættum árangri íslenskra barna í námi, óháð móðurmáli þeirra. Það er dýrmætt á svo margan hátt þegar foreldrar setja niður á kvöldin, slökkva á farsímanum, og lesa kvöldsöguna.

Að við gefum okkur góðan tíma og tölum við börnin okkar; spyrjum, ræðum, notum fjölbreyttan orðaforða – þannig tryggjum við sem best að börnin okkar nái þeim málþroska sem getur orðið undirstaðan fyrir allt þeirra nám í framtíðinni.

Þess vegna hef ég lagt það til að Akureyrarbær fari í sérstakt átaksverkefni um hlutverk heimilanna þegar kemur að málþroska og læsi barna.

Sveitarfélagið getur svarað kallinu, og gerir það í gegnum öflugt starf leik- og grunnskóla, en fleiri verða að leggja hönd á plóg. Þetta er verkefni sem við þurfum að vinna samhent. Við þurfum á vitundarvakningu að halda.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og MA í íslenskum fræðum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Deila grein

01/11/2025

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Umræða um breytingar á kosningakerfi landsins og jöfnun atkvæðavægis hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu í kjölfar þess að dómsmálaráðherra skipaði sérstakan starfshóp til að endurskoða þessi mál.

Margt þarf að hafa í huga við endurskoðun kosningakerfisins og mikilvægt er að nálgast verkefnið af yfirvegun og ábyrgð, því hér er um að ræða flókið viðfangsefni þar sem vegast á ólík sjónarmið um lýðræði, stjórnsýslu og lífsskilyrði fólks – í landi þar sem nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík.

Ekki séríslenskt fyrirbrigði

Vert er að hafa í huga að misvægi atkvæða milli kjördæma er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Í mörgum lýðræðisríkjum, til dæmis í Noregi, Finnlandi og í Kanada er meðvitað tekið tillit til byggðasjónarmiða. Í Noregi hefur flatarmál fylkjanna áhrif á fjölda þingsæta, í Finnlandi er tryggður ákveðinn lágmarksfjöldi fulltrúa fyrir strjálbýl kjördæmi og í Kanada hafa fámenn og víðfeðm héruð sína fulltrúa. Þannig er viðurkennt að lýðræði felst ekki einvörðungu í jöfnu vægi atkvæða, heldur líka í því að tryggja að landfræðileg og samfélagsleg fjölbreytni komi fram.

Nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík

Þingmönnum ber skylda til að sækja þingfundi og af því leiðir að þeir hafa allir aðsetur í nágrenni Alþingishússins stærstan hluta ársins. Öll ráðuneyti og helstu stofnanir eru staðsettar í Reykjavík, þar sem teknar eru stórar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf og afkomu fólks um allt land. Það er því brýnt að gæta þess að rödd landsbyggðarinnar veikist ekki enn frekar með breytingum á kosningakerfinu.

Ef ríkisstjórninni er raunverulega alvara með þessum fyrirætlunum, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki eigi jafnframt að flytja hluta ráðuneyta og ríkisstofnana út á land, til að tryggja raunverulegt jafnvægi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.

Sterk landsbyggð er styrkur þjóðarinnar

Landsbyggðin þarf að eiga sínar raddir á Alþingi – fulltrúa sem hafa þekkingu og tengsl við viðkomandi svæði og skilja hagsmuni og tækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Mörg byggðarlög hafa háð mikla varnarbaráttu á undanförnum áratugum, en gleðilegt er að sjá að víða um land blæs nú byrlega til framfara. Þó megum við ekki gleyma þeim svæðum sem enn heyja sitt varnarstríð – þar sem fólk vinnur dag hvern að því að viðhalda lífi, þjónustu og starfsemi í sinni heimabyggð.

Rekstur stjórnsýslu og lýðræðis kostar sitt. Stærstur hluti útflutningstekna Íslands kemur frá atvinnugreinum sem byggja á auðlindum landsins – sjávarútvegi, landbúnaði, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu – og þær greinar eru að stærstum hluta á landsbyggðinni. Það væri hvorki rétt né sanngjarnt að færa ákvörðunartöku í meira mæli frá þeim svæðum sem skapa þessi verðmæti.

Hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins byggjast einmitt á því að byggðir um land allt dafni og að þær undirstöðuatvinnugreinar sem skapa þjóðarbúinu gjaldeyri standi sterkar. Í þessari umræðu ættum við að horfa frekar á það sem sameinar landshlutana og styrkir tengsl þeirra með því að byggja brýr og efla samvinnu. Það er vilji flestra landsmanna að halda landinu öllu í byggð – ekki aðeins vegna menningar og sjálfsmyndar, heldur einfaldlega vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt.

Pólitísk viðbrögð vekja spurningar

Það vekur athygli að Samfylkingin og Flokkur fólksins skuli blessa þetta verklag Viðreisnar og dómsmálaráðherra en það kemur kannski síður á óvart að Viðreisn haldi þessari línu. Það má hins vegar efast um að þessi nálgun, ásamt orðræðu sumra ráðherra ríkisstjórnarinnar, muni leiða til aukins trausts eða stuðla að samheldni þjóðarinnar. Þvert á móti gæti hún grafið undan tiltrú fólks á Alþingi, okkar grundvallarstofnunar, þar sem umræða og ákvarðanataka á að endurspegla allt landið og fólkið sem það byggir.

Það eru því margar hliðar á þessu flókna viðfangsefni og ráðherra hefði mátt hafa það í huga þegar hún skipaði starfshópinn – að tryggt væri að fjölbreytt sjónarmið kæmust að í umræðu og vinnu hópsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Eyðum ó­vissunni

Deila grein

31/10/2025

Eyðum ó­vissunni

Nýleg ákvörðun Landsbankans um að hætta að veita verðtryggð lán nema til fyrstu kaupenda hefur haft í för með sér meiri háttar áhrif á fasteignamarkaðinn. Markaðurinn hefur kólnað á örfáum dögum og óvissan magnast.

Fólk er óöruggt. Keðjur fasteignakaupa rakna upp. Hvað aðrar fjármálastofnanir gera er enn ekki ljóst.

Það getur enginn verið á þeirri skoðun að ástandi sé boðlegt. Engu máli skiptir hvaða stjórnmálaflokki menn tilheyra. Árið er 2025, ekki 1975.

Áratuga umræða tekin af borðinu á einni nóttu

Í áratugi hefur verið rætt fram og til baka hvort og hvernig draga megi úr vægi verðtryggingar. Vissulega er ákvörðun Landsbankans og eftir atvikum ákvarðanir Arion og Íslandsbanka um framboð verðtryggðra lána bein afleiðing af nýföllnum dómi Hæstaréttar. En þrátt fyrir augljósa annmarka verðtryggingar hefur hún gert þúsundum Íslendinga kleift að eignast heimili.

Verðtryggingin, með öllum sínum göllum, er einfaldlega ein af grunnstoðum íslensks fjármagnsmarkaðar. Slík grundvallarstoð fjármögnunar getur ekki breyst á svipstundu, á sama tíma og þjóðin býr eitt hæsta vaxtastig í heimi.

Tímasetningin getur ekki verið verri. Allt hagkerfið verður fyrir áhrifum.

Greiðslubyrðin orðin óbærileg

Fyrir þá lántaka sem ekki falla undir skilgreiningu fyrstu kaupenda blasir við harður veruleiki.

Óverðtryggð lán Landsbankans, svo dæmi sé tekið, bera nú um 10 prósenta vexti. Þetta er ekki prentvilla.

Ef vextir eru festir til eins, þriggja eða fimm ára eru þeir á bilinu 8,15 til 9,10 prósent.

Það þýðir að nánast allir þurfa að festa vexti, a.m.k. til skamms tíma, en greiðslubyrðin er engu að síður gríðarleg.

Fyrir venjulegar fjölskyldur og ungt fólk sem vill stækka við sig getur brotthvarf verðtryggðra lána þýtt tugþúsunda króna hærri greiðslubyrði á mánuði.

Alþingi þarf að leggja línurnar

Sl. fimmtudag var haldinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að minni beiðni.

Þar var ákvörðun Landsbankans rædd og áhrif hennar metin. Gott var að heyra sjónarmið bæði ráðherra og fulltrúa bankans enda snertir þetta mál þjóðina alla. Það eru allir meðvitaðir um alvarleika stöðunnar.

En staðan er enn óljós.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum veit enginn hvort og hvernig aðrar fjármálastofnanir muni fylgja í kjölfar Landsbankans, eða t.d. hvort verðtryggð lán verði einungis með föstum vöxtum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að almenningi og fyrirtækjum er ekki fyllilega ljóst hvaða kjör munu gilda á íslenskum lánamarkaði.

Alþingi, stjórnvöld auk Seðlabanka þurfa að bregðast við af festu án tafar. Í því felst t.d. að meta hvort og hvernig lög og reglur um verðtryggingu, þ.m.t. um viðmið fyrir verðtryggð lán með breytilega vexti, þurfi að breytast.

Snúum við – strax

Við verðum að snúa af þessari leið og tryggja fyrirsjáanleika um framboð verðtryggðra lána með skýrum viðmiðum um vexti. Það blasir við að eigi að gera verulegar breytingar á framboði verðtryggðra lána verður slíkt að gerast í áföngum og á grunni samráðs allra hagaðila til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Eignir og eigið fé almennings eru í húfi. Við megum ekki fá þessar endalausu dýfur og breytingar á lána- og fasteignamarkaði sem valda nánast jarðskjálftum í efnahagslífinu.

Við í Framsókn höfum lengi talað fyrir því að draga úr vægi verðtryggingar, enda eru verðtryggð lán ein og sér ekki framtíðin. En meiri háttar breytingar á lánakjörum almennings verða að vera í takt við stöðu heimilanna, vel undirbúnar og fyrirsjáanlegar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Kirkjurnar standa en stoðirnar eru sveltar

Deila grein

31/10/2025

Kirkjurnar standa en stoðirnar eru sveltar

Það er til marks um sérkennilega forgangsröðun stjórnvalda að á sama tíma og mikið er talað um að styrkja innviði samfélagsins, sé stöðugt þrengt að tekjulindum þeirra stofnana sem gegna mikilvægu menningar-, félags- og samfélagshlutverki. Þegar kemur að sóknargjöldum virðist ríkisstjórnin telja að hægt sé að svelta grunnþjónustukerfi kirkjunnar án þess að samfélagið beri afleiðingar. Sú ályktun stenst ekki. Alvarleg staða blasir við í starfi safnaða þjóðkirkjunnar vítt og breitt um landið.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs mun sóknargjald á hvern einstakling, sem lög kveða á um að sé 2.765 krónur, lækka í 1.133 krónur. Þetta er niðurskurður upp á um 59% miðað við lögbundinn grunn. Kirkjuþing þjóðkirkjunnar bendir réttilega á að niðurskurður frá 2009 hafi nú þegar haft „veruleg áhrif á starfsemi safnaða og á viðhald kirkjubygginga vítt og breitt um landið“.

Kirkjan – stoð samfélagsins í gleði og sorg

Margir virðast halda að þetta snúist aðeins um helgihald. Það er fjarri sannleikanum. Safnaðarstarf er hluti af félagslífi hvers sveitarfélags – stuðningsnet, samverustaður og menningarvettvangur. Það styður við syrgjendur, fjölskyldur í erfiðleikum, ungmenni sem þurfa rými og rótgróin samfélög sem mynda tengsl.

Í flestum sveitarfélögum landsins er kirkjan ekki aðeins helgihaldsstaður, heldur einnig samkomustaður, menningarvettvangur, staður fyrir sorgar- og stuðningsstarf, rými fyrir unglinga- og fjölskyldustarf og stuðningur í erfiðleikum – hvort sem um ræðir veikindi, missi eða félagslega einangrun.

Þarna eru líka margar gleðistundir eins og við þekkjum, þegar börn eru borin til skírnar og hjón gefin saman.

Einnig standa kirkjur vörð um stóran hluta sögulegra bygginga þjóðarinnar, kirkjurnar safna og varðveita minjar sem eru lífæð okkar menningararfs. Þetta eru verkefni sem engin ríkisstofnun mun taka við ef safnaðarlíf lamast eða húsnæði fer í niðurníðslu vegna fjárskorts.

Skerðing sóknargjalda heldur áfram að grafa undan rekstrargrundvelli kirkjunnar

Kirkjubyggingar geta staðið án fjármögnunar, þær munu skemmast með tímanum ef þær fá ekki nægilegt fé til viðhalds. Mikið er undir í varðveislu minja í þeim efnum, en margar kirkjur hér á landi eru byggðar á 18. og 19. öld.

Það er starfsemin sem gerir þær lifandi og samfélagslega mikilvægar í hverju sveitarfélagi. Að svelta fjármögnun kirkjunnar í gegnum sóknargjaldakerfið er ekki sparnaður, það er uppsafnaður kostnaður framtíðarinnar — veikara samfélag, minna félagslegt öryggisnet og rýrara menningarumhverfi. Við sem þjóð höfum alltaf metið menningu og samfélagslegar rætur okkar mikils. Ef stjórnvöld halda áfram á þeirri braut að fjarlægja stoðirnar undir þeim stofnunum sem bera uppi þessi gildi, þá er ekki spurning hvort það bíti — heldur aðeins hvenær.

Stöndum með þjóðkirkjunni

Það sem enn eykur undrunina er að nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins vinnur nú að heildarendurskoðun kerfisins. Samt kom fram í máli dómsmálaráðherra við setningu kirkjuþings að ólíklegt sé að horfið verði frá skerðingu — áður en endurskoðunin er kynnt.

Því má með réttu spyrja: Til hvers er verið að vinna nefndarstörf ef niðurstaðan er fyrirfram ákveðin?

Kirkjubyggingar munu standa áfram, en samfélagslegt hlutverk þeirra mun dofna ef stoðirnar eru sveltar enn frekar.

Það sem hér stendur undir er ekki aðeins húsnæði, heldur félagslegt net, og menningarlegur arfur og mannleg nærvera sem hefur staðið Íslendingum nær í meira en þúsund ár.

Ef við viljum samfélag sem byggir á samkennd, rótum og menningu, þurfum við að rækta þær stoðir – ekki rjúfa þær.

Að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll safnaða er því grundvallaratriði. Við sem þjóð hljótum að gera þá kröfu að við stöndum vörð um innviði sem hafa þjónað þjóðinni í gleði og sorg kynslóð eftir kynslóð.

Það var mikil afturför þegar kristinfræði var afnumin úr námskrá grunnskóla. Þar lærðu börn undirstöðugildi okkar samfélags, meðal annars boðorðin tíu, sem eru listi yfir trúarlegar og siðferðilegar reglur samkvæmt Biblíu kristinna manna. Þau eru grundvallaratriði í kristinni trú og hafa mótað siðferðisvitund og samfélag okkar.

Nú á að veikja það kirkjustarf sem eftir er í landinu með skerðingum í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Ég biðla til ríkisstjórnarinnar og þingmanna, hvar sem í flokki menn standa, að standa vörð um þjóðkirkju okkar Íslendinga. Það skiptir máli að við sem þjóð getum leitað í okkar nærsamfélag eftir þeirri þjónustu sem þjóðkirkjan veitir.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Rýr húsnæðispakki

Deila grein

31/10/2025

Rýr húsnæðispakki

Gera má ráð fyrir að um 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði og þeim gæti fjölgað um 4–6 þúsund á næstu fimm árum.

Samkvæmt Húsnæðis og mannvirkjastofnun eru 74% aðfluttra á leigumarkaði, en aðeins 15% innfæddra. Það þýðir að stór hópur fólks af erlendum uppruna býr við minna húsnæðisöryggi og hefur minni möguleika á að eignast húsnæði.

Þó gera megi ráð fyrir að hluti fólks af erlendum uppruna komi hingað tímabundið hefur stór hluti sest hér að til framtíðar. Ljóst er að þetta felur í sér að íbúar af erlendum uppruna eiga erfiðara uppdráttar á húsnæðismarkaði og huga þarf að þessum hópi sérstaklega ásamt ungu fólki sem á erfitt með að koma yfir sig þaki.

Til langs tíma mun þetta skapa verulegan aðstöðumun milli þeirra sem eiga eignir og þeirra sem gera það ekki. Hættan er að fest verði í sessi efnahagsleg gjá milli innfæddra og innflytjenda og milli kynslóða sem gátu keypt eignir áður en vaxtastigið rauk upp og þeirra sem nú standa utan markaðar.

Ekki er hægt að sjá hvernig húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar mætir þessari þróun af einhverri alvöru.

Húsnæðispakkinn

Í frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) frá því í lok september var sérstaklega vísað til orða formanns fjárlaganefndar sem sagði að markmiðið húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar væri að rjúfa kyrrstöðu í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Þegar pakkinn var loks kynntur reyndist hins vegar lítið í honum sem gefur tilefni til að ætla að kyrrstaða í uppbyggingu verði rofin á næstunni.

Húsnæðispakkinn virðist í raun ætla að þrengja að fjölskyldum sem hafa fjárfest í íbúðum fyrir eða með börnum sínum, oft til að auka tækifæri þeirra til náms fjarri heimabyggð, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem hefur ríkt á leigumarkaði. Vegna takmarkana á fjölda eigna í þéttbýli, geta þessar fjölskyldur og einstaklingar ekki lengur leigt út íbúðina í skammtímaleigu, til dæmis í gegnum Airbnb yfir sumarmánuðina, til að létta undir lánagreiðslum. Skammtíma útleiga þessara íbúða, samkvæmt 90 daga reglunni, hefur ekki verið að þrengja að húsnæðismarkaðnum.

Það hefði svo sannarlega verið gott að sjá alvöru aðgerðapakka frá ríkisstjórninni. Pakka sem tæki raunverulega á húsnæðisvandanum í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Ljóst er að sveitarfélög, ekki síst Reykjavíkurborg, þurfa að stíga inn af auknum krafti og skipuleggja fleiri lóðir til uppbyggingar. Uppbygging á 4000 íbúðum í nýju hverfi í Úlfarsárdal er ágætt skref en betur má ef duga skal og velta má fyrir sér hversu oft er hægt að nota Úlfarsárdal sem augnablik í pólitískum tilgangi áður en skóflu er stungið þar niður. Þessi uppbygging mun þá ekki leysa neinn bráðavanda á húsnæðismarkaðnum og draumórar félags- og húsnæðismálaráðherra um að þar verði byggingarkrani á næsta ári verða sennilega bara draumórar. Staðreyndin er sú að það á enn eftir að stofna boðað innviðafélag, skipuleggja svæðið og byggja íbúðirnar. Þá er vert að taka fram að 4000 íbúða byggð á þessu svæði gæti orðið ansi þétt byggð og núverandi borgarmeirihluti lofaði áður 10 þúsund íbúðum í Úlfarsárdal. Ekkert er þó að frétta af þeim áformum.

Ef hraða á uppbyggingu og byggja mörg ný hverfi þarf ríkið að mæta sveitarfélögunum sem þurfa að standa undir miklum kostnaði við innviðauppbyggingu þegar ný hverfi eru byggð. Kostnaði sem hleypur á milljörðum. Eftirgjöf á virðisaukaskatti vegna uppbyggingar á leik- og grunnskólum gæti til að mynda skipt sköpum fyrir sveitarfélögin.

Jákvæðast við pakkann er kannski að ríkisstjórnin ætlar að festa í sessi leiðir sem Framsókn hefur nú þegar komið á eins og hlutdeildarlánakerfinu og almennu heimildinni til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól íbúðalána í 10 ár.

Að þekkja aðalatriðin frá aukatriðunum

Háir vextir gera bæði einstaklingum og byggingaraðilum erfitt fyrir að fjármagna kaup og uppbyggingu húsnæðis. Það leiðir til skorts á íbúðum sem þrýstir á hækkun fasteignaverðs og hækkun vaxta. Þannig hefur myndast vítahringur þar sem hátt vaxtastig dregur úr framboði, hækkar verð og heldur áfram að ýta vöxtum upp á við

Megináherslan verður að vera á að lækka vexti og tryggja fyrirsjáanleg lánakjör, þar sem lán eru með föstum vöxtum til langs tíma. Það er forsenda þess að bæði einstaklingar og verktakar geti ráðist í uppbyggingu og kaup á húsnæði. Staðan sem nú er uppi er ekki viðunandi fyrir ungt fólk og fólk sem hefur ákveðið að setjast hér að og er að reyna koma undir sig fótunum.

Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sjá til að hér sé sterkt atvinnulíf og ásættanleg vaxtarskilyrði. Þannig að fólk hafi atvinnu og greiðslubyrði lána sé viðráðanleg. En ríkisstjórnin ræðst hins vegar gegn grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, á sama tíma og við sjáum fram á helmings lækkun á hagvexti og hækkun verðbólgu. Þetta mun gera stöðu flestra enn verri en nú er.

Við þurfum Plan B í húsnæðismálum. Aðgerðir sem tryggja lán með langtíma föstum vöxtum, alvöru uppbyggingu til að mæta þeim bráðavanda sem er á húsnæðismarkaðnum, uppbyggingu til langs tíma og aðgerðir sem stuðla að lækkun stýrivaxta.

Ungt fólk á skilið betur en þennan rýra húsnæðispakka.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og ung manneskja með áhyggjur af stöðunni á húsnæðis- og fasteignamarkaði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Deila grein

29/10/2025

Til hamingju Víkingur Heiðar!

Árið 2008 hitti ég Víking Heiðar í fyrsta sinn. Hann tók þátt í tónleikaröð fyrir rísandi stjörnur í klassískri tónlist, en viðburðurinn var hluti af sérstakri menningarhátíð sem ég átti þátt í að undirbúa í Brussel. Þarna birtist þessi hógværi hlýlegi maður og spilaði einstaklega fallega fyrir nokkuð stóran hóp í sal eins helsta menningarhúss Brussel, Palais de Bozar.

Nú, tæpum 18 árum síðar, var ég viðstödd þegar Víkingur Heiðar hlaut verðlaun Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Hann er ekki lengur rísandi stjarna, hans stjarna skín skærar sem aldrei fyrr eins og birtist nú með viðurkenningu Norðurlandaráðs en ekki síður í gullverðlaunum Konunglega fílharmóníufélagsins í London og Grammy verðlaunum; en þetta eru aðeins dæmi um þær mörgu alþjóðlegu viðurkenningar sem Víkingur Heiðar hefur hlotið. Hann fyllir tónleikasali hvar sem er í veröldinni, allt frá Belgíu yfir til Bandaríkjanna og Japan og þúsundir hrífast með.

Saga Víkings Heiðars minnir okkur á mikilvægi tónlistarnáms og aðgengi þess fyrir alla óháð efnahag. Hún minnir okkur líka á þá gjöf sem felst í því að búa í samfélagi þar sem við getum ræktað ólík áhugasvið sem oft eru ekki endilega fjárhagslega arðbær eða örugg leið. Síðast en ekki síst minnir saga Víkings okkur á mikilvægi þess að hafa ástríðu og metnað fyrir því sem við vinnum að.

Í ræðu Víkings Heiðars, sem flutt var af sendiherra Íslands í Svíþjóð þar sem Víkingur Heiðar er við tónleikahald í Bandaríkjunum, kom sérstaklega fram mikið þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað honum að ná árangri í gegnum tíðina. Með þeim ársngri hefur Víkingur Heiðar svo sannarlega lýst upp íslenskt tónlistarlíf og orðið öðrum hvatning og innblástur.

Til hamingju Víkingur Heiðar. Þú ert þjóðinni til sóma.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Deila grein

29/10/2025

Fyrir­myndar for­varnar­stefna í Mos­fells­bæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun. Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar” og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:

  • Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
  • Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
  • Hækka frístundastyrki.
  • Styrkja starf félagsmiðstöðva.
  • Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
  • Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
  • Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
  • Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla. Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.

Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru. Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.

Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð. Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.

Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu. Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.

Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.

Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. október 2025.