Categories
Fréttir

Ófremdarástand hefur skapast á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Deila grein

24/11/2025

Ófremdarástand hefur skapast á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, krafðist þess, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, að heilbrigðisráðherra grípi þegar í stað til aðgerða til að tryggja bráðaþjónustu fyrir íbúa Norðurlands og allt landið.

Ingibjörg sagði verstu sviðsmyndina vera að raungerast, „[e]ftir 22. desember er búið að gefa það út að það verði enginn sérfræðingur, enginn lyflæknir, á vakt og því verður mikilvægur hluti bráðaþjónustu og lyflækninga ómannaður á Sjúkrahúsinu á Akureyri.“

„Hornsteinn heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi“

Ingibjörg minnti á að lögbundið hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri væri að veita almenna og sérhæfða þjónustu í nær öllum sérgreinum, auk þess að vera varasjúkrahús landsmanna þegar Landspítalinn stendur höllum fæti. Sjúkrahúsið er jafnframt miðstöð sérhæfðrar þjónustu fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi og lykilaðili í sjúkraflugi landsins.

„Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlandi og eitt af grundvallaröryggistækjum heilbrigðiskerfisins,“ sagði Ingibjörg meðal annars og ítrekaði að hvorki stjórn sjúkrahússins né starfsfólkið bæri ábyrgð á ástandinu; þar hafi fólk unnið „þrekvirki við ómögulegar aðstæður“ til að halda þjónustunni gangandi.

Ingibjörg beindi spurningum til heilbrigðisráðherra: Hvernig hyggist ráðherra bregðast við ástandinu? Hver eru raunveruleg áform um að tryggja mönnun bæði til skamms tíma og lengri framtíðar?

Categories
Fréttir

„Hvar eru aðgerðirnar í húsnæðismálum?“

Deila grein

24/11/2025

„Hvar eru aðgerðirnar í húsnæðismálum?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi harðri gagnrýni að ríkisstjórninni, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, vegna stöðu mála í húsnæðismálum. Hann rifjaði upp að fyrir um mánuði síðan hefði verið kynntur svokallaður fyrsti húsnæðispakki þar sem hæstv. forsætisráðherra hefði lýst því yfir að ríkisstjórnin „bæði þyrði og framkvæmdi“ og að nú væri loksins verið að grípa til aðgerða sem „hefði verið talað um svo árum skiptir“. Þá hefði forsætisráðherra jafnframt sagt að ef þyrfti að gera meira hraðar, þá yrði einfaldlega gert meira hraðar.

Sigurður Ingi sagði lítið hafa sést til þessara fyrirheita í framkvæmd. Í fyrirspurn til félags- og húsnæðismálaráðherra vakti hann sérstaklega athygli á hlutdeildarlánunum sem kynnt var að breyta ætti. Þar á meðal að hækka framlög úr 4 milljörðum í 5,5 milljarða, úthluta slíku fé mánaðarlega, gera samninga við byggingaraðila um hagkvæmar íbúðir og rýmka lántökuskilyrði þannig að fleiri ættu kost á að nýta úrræðið.

Sigurður Ingi sagði hins vegar engar slíkar breytingar hafa birst á Alþingi og ekkert borið á þeim aðgerðum sem boðaðar hefðu verið með tilheyrandi „flugeldasýningu“ um meira og hraðar aðgerðir. „Við höfum ekki séð neinar breytingar á því, engar aðgerðir, engar framkvæmdir, ekki meira og ekki hraðar,“ sagði hann og spurði hreint út hvort ekkert væri að frétta af húsnæðispakkanum.

Sigurður Ingi velti því jafnframt upp hvort ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar stæði í vegi fyrir því að ljúka málinu með þeim hætti sem kynntur var, eða hvort vandræði við að ná fram hallalausum fjárlögum árið 2027 kæmu nú niður á húsnæðismarkaðnum. Ítrekaði hann að það væri brýnt að koma byggingu hagkvæmra íbúða af stað, lækka húsnæðiskostnað og standa við gefin loforð um að gera meira – og gera það hraðar.

„Mig langar líka að spyrja, það voru fleiri tillögur um tiltekt í stjórnsýslu: Hvernig styrkir það HMS að taka tugmilljarða af eignum Húsnæðissjóðs og selja? Ég skil það, það er verið að lækka skuldir ríkissjóðs, það getur verið skynsamlegt, en hvernig styrkir það HMS til að mynda að standa við Tryggða byggð sem hefur verið gríðarlega jákvætt verkefni hringinn í kringum landið og komið mörgum húsnæðisuppbyggingarverkefnum af stað?

Svo langar mig að lokum að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hraðaspurningar: Stórfelld einföldun á regluverki byggingarreglugerðar — hvaða ákvæði nákvæmlega í nýrri byggingarreglugerð munu lækka byggingarkostnað?“

Categories
Fréttir Greinar

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Deila grein

24/11/2025

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Rangfærsla í fréttum RÚV um helgina

Í fréttum RÚV um helgina sagði Eyjólfur Ármannsson að útboð á hönnun Fljótaganga væri eðlileg enda væru göngin númer 2 á samgönguáætlun. Þetta er alrangt. Samgönguáætlun var síðast samþykkt árið 2020. Þau jarðgöng sem eru þar tilgreind eru Fjarðarheiðargöng, hér er bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. 

Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur göng eru tilgreind í gildandi samgönguáætlun önnur en Fjarðarheiðargöng. Samgönguáætlun var samþykkt samhljóða á Alþingi 2020 eftir ítarlega umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar. Ráðherrann var um helgina að vísa í samgönguáætlun sem síðasta ríkisstjórn lagði fram en var aldrei samþykkt. Það er grundvallarmunur á málum sem fá þinglega meðferð og þeim sem gera það ekki.

Fljótagöng hafa ekki hlotið þinglega meðferð né nokkur önnur göng á Íslandi.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki fjallað um framkvæmd við Fljótagöng, engin umsögn hefur verið gefin, engin nefndarálit liggja fyrir og engin samþykkt Alþingis um forgangsröðun jarðganga. Sveitarfélög og hagsmunaaðilar hafa ekki fengið að tjá sig. Það er því rangt, og í raun hættulegt, að ráðherra fari fram með þeim villandi málflutningi að hægt sé að skipa Fljótagöngum í röð jarðganga sem Alþingi hefur fjallað um, eða þess þá ákveðið. Fljótagöng eru ástfóstur ráðherrans enda er honum umhugað um sitt eigið kjördæmi, hann fer því hér fram með miklum einræðistilburðum og sýnir starfi Alþingis litla virðingu.

Á Alþingi sitja nú fjöldi þingmanna sem hafa ekki áður komið að gerð samgönguáætlunar og annarra stórra áætlana ríksins, til að mynda fjárlög. Við ykkur segi ég, látið ekki glepjast, ráðherrar eru ekki einráðir. Oddvitar allra flokka nema Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng í aðdraganda síðustu kosninga.

Vonir mínar um að samgönguráðherra sætti sig við staðreyndir eða jafnvel hlusti á okkur eru að engu orðnar og því biðla ég til forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur að bera virðingu fyrir samþykktum framkvæmdaáætlunum ríkisins sem samgönguáætlun. Samgönguáætlun er löggilt stefnumótun sem á að tryggja að uppbygging samgöngukerfisins sé skipulögð, gagnsæ og byggð á faglegum forgangsröðunum. Hún er grundvallartæki Alþingis til að tryggja að fjármunir ríkisins nýtist þar sem samfélagslegur ávinningur er mestur og að stórar framkvæmdir hljóti vandaða og lýðræðislega meðferð. Kæri forsætisráðherra við krefjumst þess að hlustað sé á SSA sem hefur bókað hefur hringtengingu Austaralands árum og áratugum saman.

Kæri forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, er framganga innviðaráðherra þér og þínu ráðuneyti sæmandi? Ég krefst þess fyrir hönd allra landshluta að okkur sé sýnd sú lágmarksvirðing að Alþing fjalli um stórar framkvæmdir líkt og jarðgöng frekar en að ráðherrar með einræðistilburði í kjördæmapoti fái sínu fram.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Deila grein

24/11/2025

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Íslenska þjóðin stendur á hátíðardegi sínum, 1. desember, og minnist þess að árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Þótt rúm heil öld sé liðin frá þeim tímamótum er nauðsynlegt að rifja upp þessi sögulegu tímamót og við gerum okkur grein fyrir því sem þjóð að fullveldi verður aldrei tekið sem gefnu. Þjóð sem gleymir uppruna sínum og því hvernig hún vann rétt sinn getur misst sjónar á því sem mestu skiptir.

Aðdragandi fullveldisins var afrakstur áratuga ósveigjanlegrar baráttu fyrir því að stjórn landsins væri á íslenskum forsendum. Stjórnarskráin 1874 markaði fyrstu stóru breytinguna, þótt hún væri sett af danska þinginu án samþykkis Íslendinga. Þjóðin fékk fjárstjórnarvald og mótaði þannig eigin stöðu innan ríkjasambandsins. Þjóðfundurinn 1851 hafði áður sýnt að Íslendingar ætluðu ekki að láta af hendi rétt sinn til sjálfstæðrar tilveru. Þar var grunnurinn lagður að þeirri samstöðu sem síðar varð lykillinn að sjálfstæðismálunum.

Árin fyrir aldamótin 1900 jukust kröfurnar um skýrari aðgreiningu Íslands og Danmerkur. Heimastjórnin 1904 var loks staðfesting á því að Íslendingar gætu og vildu stjórna eigin málum. Íslenskur ráðherra í Reykjavík var ekki bara táknrænn sigur heldur raunverulegt valdaskref sem færði þjóðina nær markinu.

Stjórnarskrárbreytingarnar 1915 styrktu grundvöll lýðræðis enn frekar, þingræðið varð skýrara. Alþingi var orðið miðja íslenskrar valdsmyndunar – þar var þjóðin stödd þegar sambandslögin voru samþykkt árið 1918.

Sambandslögin voru í senn niðurstaða og upphaf. Þar var Ísland viðurkennt sem fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Íslendingar fengu fulla stjórn í eigin málum, sjálfstæða stöðu í þjóðarétti og rétt til að ráða framtíð sinni. Í kjölfarið tók ný stjórnarskrá gildi árið 1920, og hún varð burðarás íslenskrar stjórnskipunar fram til lýðveldisstofnunar 1944.

Ákvæði sambandslaganna um mögulega endurskoðun eftir 1940 var lykilatriði. Þegar heimsstyrjöld skók Evrópu ákvað Alþingi árið 1941 að leið þjóðarinnar skyldi ekki liggja aftur í sameiginlegar samningaviðræður við Dani. Íslendingar ætluðu sér að verða sjálfstætt fullvalda lýðveldi – og svo varð árið 1944 á Lögbergi við Öxará.

Þetta er sagan sem 1. desember á að minna okkur á. Saga um þjóð sem stóð saman, treysti á eigið afl og vann frelsi sitt með einhug og þrautseigju. Það er því óskynsamlegt að láta þann dag líða hjá án þess að gera honum hærra undir höfði. Fullveldið er hornsteinn íslenskrar tilveru – og slíka hornsteina á ekki að veikja með afsali á fullveldis til valdstofnunar í Evrópu.

Í samtímanum, þar sem ákveðin stjórnmálaöfl færast sífellt nær fjölþjóðlegum stofnunum og landamæri valds verða óljós, skiptir íslenskt fullveldi meira máli en oft áður. Við ráðum okkar auðlindum, okkar löggjöf, okkar menningu og okkar landi sjálf. Það er réttur sem forfeður okkar börðust fyrir – og ábyrgð sem við verðum að axla.

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt. Það er verkefni sem kallar á samstöðu, sjálfsvirðingu og þjóðlega stefnu sem hvílir á íslenskum forsendum.

Kæru Íslendingar – til hamingju með fullveldisdaginn.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Deila grein

23/11/2025

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Þrátt fyrir mótbyr í samfélaginu eru tækifærin til byggja upp bæði augljós og skýr. Sterkir innviðir, öflugt samfélag og auðlindir í Þingeyjarsýslum. Trú á eigin getu og samfélag er lykilatriði. Betri tímar koma ekki af sjálfu sér heldur með markvissum aðgerðum, heimavinnu og sameiginlegri framtíðarsýn. Á þessu kjörtímabili hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu, sérstaklega iðnaðarsvæðið á Bakka með nægu landrými, aðgengi að höfn og orku. Þó við séum langt frá höfuðborgarsvæðinu hvar mestan og sjálfsagðan vöxt má finna er ljóst að uppbygging í Þingeyjarsýslum í námunda við Akureyrarborg er bæði hagkvæm og skynsamleg fyrir land og þjóð. Að skapa tekjur, störf og treysta búsetu.

Núna á Bakka

Efnahagslegar aðstæður fyrir starfsemi PCC á Bakka eru sannarlega krefjandi en um leið er mikilvægt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er á Bakka. Þar er möguleiki á hágæða framleiðslu á kísilmálmi með umhverfisvænni orku. Iðnaðurinn með kísilmálm gegnir lykilhlutverki í efna- og plastiðnaði á heimsvísu og sömuleiðis sem íblöndun í ál. Það er því fagnaðarefni að fjármálaráðuneytið íhugar að setja jöfnunartolla á innfluttan kísilmálm. Í stóra samhenginu er miklu meira undir en framleiðsla á kísiljárni og -málmi á Íslandi heldur sameppnishæfni Evrópu sem heimshluta á þessum nauðsynlegu vörum.

Næstu skref

Iðnaðarsvæðið á Bakka er þegar skipulagt svæði fyrir atvinnustarfsemi. Til stendur að breyta spennivirkinu fyrir svæðið svo fjölbreyttari atvinnustarfsemi sé möguleg. Sveitarfélagið Norðurþing er með viljayfirlýsingu við fyrirtæki um uppbyggingu gagnavers, niðurdælingu á kolefni og landeldi. Raunhæf verkefni sem unnið er að kanna fýsileika til að byggja á Bakka og víðar í sveitarfélaginu og í Þingeyjarsýslum. Þá eru sömuleiðis í athugun námuvinnsla á móbergi bæði í Grísatungufjöllum og Jökulsá á Fjöllum, álúrvinnsluverkefni, próteinframleiðsla og önnur matvælatengd starfsemi og fleiri verkefni. Öll verkefnin lúta að nýtingu auðlinda, aðgangs að orku og innviðum.

Tímabil

Nú þegar rekstrarstöðvun PCC liggur fyrir þurfa sveitarfélagið Norðurþing, fyrirtæki, stofnanir og íbúar að brúa bilið frá deginum í dag til þess dags að atvinnuuppbygging hefjist aftur á Bakka. Þá er mikilvægt að rýna inn á við og sjá alla þá öflugu starfsemi sem fyrir er; fyrirmyndarfyrirtæki, framleiðslu á vörum á heimsvísu og mannauð sem halda þarf í. Auk þess hefur undirbúningur sveitarstjórnar falist í skipulagsvinnu í þéttbýli bæði á Húsavík og á Kópaskeri. Það er alltaf vilji til að gera meira og ekkert að missa. Í því felst vonin og væntingar. Samhliða allri umræðunni um viljayfirlýsingar, auðlindanýtingu og möguleikann að skapa störf þarf að finna jafnvægið milli raunhæfra væntinga og veruleikans. Staðreyndin er að atvinnuuppbygging er möguleg og heimavinnunni lokið. Nýjum verkefnastjóra atvinnuuppbyggingar er ætlað að samræma skilaboð, sækja verkefni og ná samningum svo verkefni hljóti framgang.

Stóð alltaf til

Það stóð alltaf til að halda áfram atvinnuuppbyggingu þegar farið var í orkuvinnslu, hafnar- og gangnagerð. Við þurfum sjálf berjast fyrir atvinnuuppbyggingu. Það krefst samstöðu og trú á að skapa tækifærin sjálf. Það er okkar hlutverk að sækja spennandi verkefni, rýna í uppbyggingarmöguleika og hvernig þau geta skapað störf, fjárfestingar og tekjur fyrir samfélagið. Samfélag þarf vinnu, vöxt og velsæld. Það gerir þetta enginn fyrir okkur.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

Deila grein

21/11/2025

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

„Við búum svo vel á Íslandi að flest börn hafa það gott,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi á Alþjóðadegi barnsins. Hún sagði þó alvarleg mein leynast undir yfirborðinu og nefndi sérstaklega vímuefnanotkun ungmenna, slæma stöðu drengja í námi, kynbundið ofbeldi og áhrif símanotkunar og samfélagsmiðla á börn.

Halla Hrund vísaði í nýlegt dæmi af tveimur 14 ára drengjum sem fóru í meðferð til Suður-Afríku vegna alvarlegs vímuefnavanda. Mæður drengjanna hafi lýst úrræðaleysi hér á landi og þurft að leita lausna erlendis á miklum kostnaði. Sagði hún óásættanlegt að foreldrar í slíkri stöðu standi ein uppi með reikninginn.

„Við verðum að láta fjármagn fylgja barni óháð því hvar meðferð fer fram. Við myndum ekki mismuna í öðrum veikindum,“ sagði hún og spurði mennta- og barnamálaráðherra hvort hann væri sammála því að tryggja að fjármunir fylgi börnum í meðferð vegna fíknivanda, líkt og í öðrum alvarlegum veikindum.

Alvarleg staða drengja í námi

Halla Hrund lagði mikla áherslu á stöðu drengja í skólakerfinu. Hún benti á að samkvæmt PISA-rannsókninni 2022 geti um 47% drengja ekki lesið sér til gagns við lok 10. bekkjar og að þriðjungur nái ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum.

Hún spurði hvort bakgrunnur og félagslegar aðstæður nemenda hefðu verið greindar nægilega í tengslum við þessa þróun, meðal annars í ljósi aukins fjölda innflytjenda í skólakerfinu.

„Hér verðum við að kafa á dýptina svo við getum tekið góðar ákvarðanir og skilið hver er rót vandans.“

Halla Hrund spurði jafnframt hvort gripið hefði verið til sértækra aðgerða í kennaranámi og kennslu, í ljósi stöðunnar. Hún minnti á að brottfall drengja úr framhaldsskólum væri mest á Íslandi í Evrópu og að einungis um þriðjungur nýnema í háskóla væru drengir.

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar.“

Kynbundið ofbeldi gegn börnum

Þriðji málaflokkurinn sem Halla Hrund nefndi var ofbeldi, einkum kynbundið ofbeldi gegn börnum og ungmennum. Hún vísaði í gögn Barnaheilla og niðurstöður íslenskrar æskulýðsrannsóknar frá 2024 sem sýna alvarlega stöðu.

Samkvæmt þeim gögnum segja um 700 börn í 8.-10. bekk að annar unglingur hafi átt við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra og um 250 börn að fullorðinn hafi haft við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra. Samt sem áður komi aðeins hluti málanna til kasta lögreglu, þó hátt í tvö mál á viku séu tilkynnt.

Halla Hrund sagði þessar tölur sláandi og óskaði eftir því að ráðherra skýrði hvaða aðgerðir væru í gangi til að bregðast við kynbundnu ofbeldi gegn börnum.

Símanotkun, samfélagsmiðlar og markaðssetning að börnum

Halla Hrund sagði óhjákvæmilegt að ræða áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla á degi barnsins, enda hafi áhrif þeirra á líðan og nám barna verið mikið til umræðu undanfarið. Of mikil notkun tengist m.a. kvíða, félagslegri einangrun og slakari námsárangri.

Hún sagði að lögð hefði verið fram þingsályktunartillögu um hækkun lágmarksaldurs fyrir samfélagsmiðla og skýrari skorður á markaðssetningu og auglýsingar sem beinast að börnum. Þá þyrfti að huga sérstaklega að ramma utan skólakerfisins, hvernig samfélagið í heild sinni passi upp á börn og ungmenni í stafrænu umhverfi.

Kallar eftir aðgerðum fyrir fötluð börn og börn með einhverfu

Halla Hrund minnti á að staða fatlaðra barna og barna með einhverfu þyrfti einnig að vera í forgangi. Hún sagði ekki nóg að ræða þessi mál ítrekað, koma yrði raunverulegum aðgerðum í framkvæmd og sameinast um þá forgangsröðun á Alþingi.

Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna. Rannsóknir bendi til þess að meðganga og fyrstu 1.000 dagarnir hafi mikið að segja um það hvernig börnum vegni síðar á lífsleiðinni.

„Hverri krónu sem við fjárfestum í þessum málaflokki er vel varið,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir

Tollar ESB og hagsmunagæsla Íslands: „Hvar var plan B?“

Deila grein

21/11/2025

Tollar ESB og hagsmunagæsla Íslands: „Hvar var plan B?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gerði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi að umtalsefni ákvörðun Evrópusambandsins um að setja verndartolla á járnblendi, meðal annars frá Íslandi, og varpaði fram hvort „þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil“.

Hann gagnrýndi viðbrögð íslenskra stjórnvalda og spurði hvort ríkisstjórnin hefði nokkurn tímann verið með varaplan til að verja hagsmuni landsins. Ríkisstjórnin hefði virst gera sér vonir um að hægt yrði að snúa Evrópusambandinu af þeirri leið að setja verndartolla á járnblendi, en sú von hefði brugðist.

„Mig langar að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, m.a. í ljósi þess sem gerðist hér fyrir nokkrum dögum er Evrópusambandið ákvað að setja verndartolla á járnblendi. Ríkisstjórnin virðist hafa haft þá trú að þau myndu geta snúið Evrópusambandsríkjunum. Ég spyr því þegar í ljós kemur að það tókst ekki: Var ekkert plan B? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við núna?“

Sigurður Ingi rifjaði jafnframt upp að Ísland hefði gert sérstakan tollasamning við ESB um matvæli fyrir nokkrum árum, samning sem byggðist á forsendum sem hefðu gjörbreyst. Bretland hefði gengið úr Evrópusambandinu og tekið með sér sinn hluta samningsins, en ESB hafi ekki verið tilbúið til að endurskoða samninginn þrátt fyrir breyttar aðstæður.

Í ljósi þess, sagði hann, væri eðlilegt að spyrja hvort ekki væri tímabært að endurmeta stöðuna og nýta þann varnagli sem felist í EES-samningnum.

„Við höfum ekki getað nýtt okkur þær útflutningsheimildir sem fólust í þeim tollasamningi. Bretar gengu úr Evrópusambandinu og tóku með sér þann hluta. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið tilbúið til að aðlaga samninginn að þessum breyttu forsendum. Það er líka ljóst að við getum augljóslega notað þau rök sem Evrópusambandið notar, að tollfrjáls innflutningur á matvælum frá Evrópusambandinu hafi umtalsverð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu. Við þekkjum lífskjör sauðfjárbænda og alls konar aðra hluti,“ sagði hann.

Að mati Sigurðar Inga eru áhrif innflutnings á íslenska framleiðslu orðin slíkt að ekki sé lengur unnt að horfa fram hjá þeim.

Vill nota sama lagagrundvöll

Sigurður Ingi lagði áherslu á að Framsókn væri ekki að kalla eftir hefndaraðgerðum gagnvart ESB heldur eðlilegri hagsmunagæslu Íslands á sömu forsendum og Evrópusambandið gengi sjálft út frá.

„Nú var það ekki tillaga mín að við værum að svara í sömu mynt heldur værum við einfaldlega að nota sömu rök og Evrópusambandið notar, að það sé fullgilt og EES-samningurinn standi eftir sem áður og það sé bara eðlilegt að þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil.“

Hann gagnrýndi jafnframt svör fjármálaráðherra og sagðist ekki sannfærður um að ráðherra hefði haft raunverulegt varaplan þegar fyrirséð var að aðgerðir ESB myndu ná fram að ganga.

„Við í Framsókn hyggjumst nú engu að síður, þó að viðbrögð ráðherrans séu frekar neikvæð og plan B hafi bara verið að reyna að fresta ákvörðun Evrópusambandsins nógu lengi – það plan B hljómar ekki mjög sannfærandi – leggja fram þingsályktunartillögu um þetta efni, að hækka tolla,“ sagði Sigurður Ingi.

Vill hækka tolla og lækka VSK til að verja heimilin

Sigurður Ingi sagði að annars vegar þyrfti að verja innlenda matvælaframleiðslu með hærri tollum, en hins vegar að vernda heimilin fyrir mögulegri verðhækkun með því að lækka tímabundið virðisaukaskatt á matvæli.

„Samhliða því, vegna þess að ég veit að fjármálaráðherra vill ná niður verðbólgunni, gæti auðvitað verið skynsamlegt að boða á sama tíma tímabundna lækkun á virðisaukaskatti á matvælum til að koma til móts við þá hækkun sem hugsanlega gæti orðið vegna hækkunar á tollum og þannig slá tvær flugur í einu höggi, koma til móts við tekjulág heimili og koma með alvörusleggju á verðbólguna. Bara gera eins og Svíar gerðu, tímabundna lækkun á virðisaukaskatti,“ sagði hann.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Deila grein

21/11/2025

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ferðaþjónustan á Norðurlandi stendur á tímamótum. Aldrei áður hafa tækifærin verið jafn augljós og raunhæf. Ný hótel rísa, fjölbreytt afþreying vex, og heilsársferðaþjónusta er orðin að veruleika. Staðan er gjörbreytt frá því fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur þegar opnað dyr að nýjum tækifærum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi þróun haldi áfram og nái einnig til Egilsstaða.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að beint flug til Akureyrar verði sjálfbært og Egilsstaðir fylgi hratt á eftir. Flugþróunarsjóður, sem hefur styrkt flugfélög og ferðaþjónustuaðila til að taka áhættu og hefja beint flug til Norðurlands, hefur sýnt gildi sitt. En sjóðurinn þarf að fá aukinn slagkraft til að fylgja þessu flugi eftir og fjármagna aukna markaðssetningu á Egilsstöðum sem áfangastað.

Beint flug – beint í betri lífsgæði

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur breytt miklu fyrir svæðið. Nú er hægt að ferðast án þess að leggja í langan og kostnaðarsaman legg til Keflavíkur. Með millilandafluginu er svæðið orðið aðgengilegra fyrir ferðamenn, en ekki síður hefur það aukið lífsgæði heimamanna. Það sparar tíma, eykur öryggi, og styrkir fyrirtæki á öllum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning við millilandaflug til Akureyrar því slík fjárfesting eru fjárfesting í framtíðinni.

Þúsundir starfa

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum orðið einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs. Hún hefur skapað þúsundir starfa, aukið tekjur heimila og veitt landsbyggðinni ný og öflugri tækifæri.

Árið 2023 námu gjaldeyristekjur greinarinnar um 600 milljörðum króna og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga námu 200 milljörðum króna. Þetta eru tölur sem skipta máli fyrir alla landsmenn því velgengni ferðaþjónustunnar er velgengni samfélagsins í heild.

Sem þingmaður Norðausturkjördæmis sé ég daglega hve jákvæð áhrif öflug ferðaþjónusta hefur á líf fólks. Hún gefur ungu fólki tækifæri til að byggja framtíð sína heima, styrkir atvinnulífið og heldur samfélögum lifandi.

Fjárfestum í innviðum

Ný flugstöð á Akureyri, stærra flughlað og nýr aðflugsbúnaður eru dæmi um fjárfestingar sem efla ekki aðeins ferðaþjónustu heldur allt samfélagið.

Svo er rétt að hafa í huga niðurstöður áhugaverðrar skýrslu Jóns Þorvalds Heiðarssonar hagfræðings um áhrif beins millilandaflugs til Akureyrar. Skýrslan sýnir svart á hvítu að flug EasyJet til Akureyrar frá bæði London og nú Manchester var ekki fjarlægur draumur heldur arðbært fyrir samfélagið allt. Það sýnir hversu mikill kraftur býr í landsbyggðinni ef tækifærin eru nýtt.

Kraftur landsbyggðarinnar

Fyrir stuttu síðan fór fram VestNorden sýningin á Akureyri, þar sem um 550 aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum komu saman til að skapa ný tækifæri og tengsl.

Þar sýndi Norðurland að landsbyggðin getur verið miðpunktur alþjóðlegrar ferðaþjónustu og uppbyggingar. Með góðri skipulagningu, sterkum innviðum og samstilltu átaki fjölda fólks er allt hægt. VestNorden var ekki eingöngu ráðstefna. Hún fól í sér tákn um bjartsýni og mikilvægi samstarfs til að bæta hag landsbyggðarinnar og kom okkur þingmönnunum sem mættum skemmtilega á óvart.

Ferðaþjónustan er auka egg í körfu landsbyggðanna

Ferðaþjónustan er ekki bara atvinnugrein. Hún er lífæð margra samfélaga og lykillinn að framtíð landsbyggðarinnar. Þegar ferðamenn dreifast um landið skapast meira jafnvægi: ný störf, fjölbreytt atvinnulíf og tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í heimabyggð.

Til þess þarf að huga að innviðum s.s. vegum, flugvöllum, orkuframboði, stafrænni þjónustu og menntun með framtíðarsýn að leiðarljósi. Þannig byggjum við upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem eykur lífsgæði og dregur úr ósjálfbærri miðstýringu.

Fyrir framtíðina

Framsókn hefur ávallt staðið vörð um jafnvægi og jöfn tækifæri um land allt.

Öflug ferðaþjónusta á landsbyggðinni er ekki aðeins stefnumál heldur er hún grundvallarmál fyrir fólkið í landinu bæði með tilliti til atvinnu, lífsgæða og öryggis.

Þó blikur séu á lofti í pólitísku andrúmslofti þessa dagana, munum við í Framsókn standa vörð um þá framtíðarsýn. Við viljum land þar sem lífsgæði, tækifæri og von dreifast jafnt, þar er ferðaþjónustan brú milli fólks, byggða og framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Deila grein

21/11/2025

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Fæðingarorlof er í heildina 12 mánuðir, eftir það á leikskólinn að taka við en víðast er lengri bið eftir leikskólaplássi. Ég og mín fjölskylda erum heppin og með frábært bakland, við eigum 14 mánaða gutta og ömmur og afar sjá um drenginn fyrir okkur þegar við þurfum að vinna upp í útgjöld heimilisins. Það eru ekki allir svo heppnir, ég veit að það er fullt af fólki sem hefur ekki öflugt bakland. Foreldrar sem sinna börnum sínum og komast ekki til vinnu á meðan, búnir með sinn rétt til fæðingarorlofs (þar sem fólk er að fá töluvert skert laun) og er því oft annar aðilinn launalaus í heilt ár, ef ekki lengur.

Þegar maður skoðar sveitarfélög út frá barnafjölskyldum er áhugavert að bera Árborg saman við nágrannasveitarfélögin í Árnessýslu. Oft hafa sveitarfélög auglýst sig sem barnvæn samfélög, það er þó gríðarlegur munur á milli sveitarfélaga. Ætli sér einhver að byggja sér heimili eru byggingarréttar- og gatnagerðargjöld í Árborg einhver þau hæstu sem þekkjast á Suðurlandi. Sem dæmi er einbýlishúsalóð í Móstekk með heimild til byggingar rúmlega 290fm hús að kosta um 13,7 m.kr. í gatnagerðargjöld og 10,7 m.kr. í byggingarréttargjald. Samtals rúmar 24 m.kr. áður en fyrsta skóflustunga er tekin. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er einbýlishúsalóð í Brautarholti með heimild til byggingar 250fm hús að kosta um 7 m.kr. í heildina og önnur sveitarfélög Uppsveita virðast vera með svipað verðlag. Í Hveragerði eru lóðir sem heimila um 550 fm byggingu á rúmar 27 m.kr., sem er sambærilegt verð en fyrir tæplega tvöfalt stærri lóð.

Þetta skilar sér inn í fasteignaverð, sem er hærra í Árborg, þá sérstaklega á Selfossi, en annars staðar í sýslunni. Þegar einstaklingur hefur byggt eða fest kaup á húsi þarf hann að greiða fasteignagjöld sem eru einnig hærri í Árborg en í nágrannasveitarfélögum og raunar með þeim hæstu á landinu, eins og sjá má á mælaborði Byggðastofnunar.

Svo bætist við að börn fá leikskólapláss seinna í Árborg en víða annars staðar. Jafnvel er mismunað eftir fæðingarmánuði, barn fætt snemma á árinu er líklegra til að fá pláss við 16 mánaða aldur, en barn fætt seint á árinu gæti þurft að bíða fram yfir 24 mánaða aldur. Sem betur fer á ég von á næsta barni í mars sem er prýðis mánuður ef horft er til inntöku í leikskóla. Mörg sveitarfélög brúa þetta bil með heimgreiðslum til foreldra, sem gæti verið raunhæf lausn fyrir Árborg, lausn sem er ekki svo dýr en getur skipt miklu máli fyrir þá sem þurfa á að halda. Þar að auki eru leikskólagjöldin hærri í Árborg en annars staðar í sýslunni. Ég gæti haldið áfram og nefnt æfingagjöld, gjöld fyrir tómstundir og önnur gjöld sem snerta barnafjölskyldur.

Ég er ekki að segja að allt sé ómögulegt, flest sem tengist barnafjölskyldum er gert af miklum glæsibrag í Árborg. Við höfum glæsilega leik- og grunnskóla, fjölbreytt framboð íþrótta og tómstunda og frístundastarfið er í hæsta gæðaflokki, eitthvað fyrir alla! En við getum alltaf gert betur og ég er að benda á það sem mér og öðrum finnst að mætti betur fara. Barnvænt samfélag snýr bæði að því sem er í boði, aðgengi að þeirri þjónustu og kostnaði.

Fjárhagsáætlunin er í sjálfu sér góð, það er ekki hægt að óska eftir öllu fyrir alla þegar horfa þarf til aðhalds og hagræðingar hjá sveitarfélaginu. Verið er að vinna upp skuldir og bæta rekstur. Sum gjöld lækka hlutfallslega, fasteignagjöld eru að lækka, þ.e.a.s. hlutfallslega, það skilar sér í lækkun eða hækkun eftir því hvar í sveitarfélaginu þú býrð sökum hækkandi fasteignamats. Heilt yfir er um ábyrgan rekstur að ræða og því ber að hrósa kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf. Sérstaklega ber að þakka íbúum, þeir hafa tekið hvað mest á sig fjárhagslega á síðastliðnum árum. Það eru fyrst og fremst skattahækkanir sem eru að skila bættum rekstri ásamt uppsögnum og hagræðingu. Fjárfesta á fyrir 2-3 milljarða á ári sem er vel, mér sýnist hins vegar fjárfestingar næstu ára snúa að því að mæta núverandi þörf. Á sama tíma horfum við á áframhaldandi fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Því velti ég fyrir mér hvort við gætum aftur lent í innviðaskuld, við vitum hvernig það endaði síðast. Þetta eru þó aðeins vangaveltur eftir stutta yfirferð síðastliðna daga.

Þetta er umfjöllun um afmarkaðan hóp íbúa í sveitarfélaginu, en þetta eru allt saman hlutir sem skipta máli. Það þarf sömuleiðis að ræða þátt ríkisins þegar kemur að barnafjölskyldum, þar er ýmislegt sem má bæta, t.d. fæðingarorlofskerfið. Þó engan bilbug á mér sé að finna í barneignum þá kemur mér ekki á óvart að fæðingartíðni sé lág á Íslandi.

Matthías Bjarnason, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 20. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Þurfum skýra forystu um innleiðingu orkulöggjafar ESB

Deila grein

20/11/2025

Þurfum skýra forystu um innleiðingu orkulöggjafar ESB

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fjallaði í störfum þingsins um innleiðingu orkulöggjafar Evrópusambandsins og mögulegar afleiðingar hennar fyrir orkuöryggi heimila og atvinnulífs. Hún sagði lykilhagsmuni Íslendinga í húfi og kallaði eftir skýrri pólitískri forystu í málinu.

Halla Hrund vísaði meðal annars til umræðu á haustfundi Landsvirkjunar þar sem spurt hafi verið hvort fyrirtækinu sé heimilt að halda eftir orku fyrir heimili ef aðrir aðilar, til dæmis aðilar í rafmyntagröftum, séu tilbúnir að greiða hærra verð.

„Í huga okkar flestra er svarið við þessari spurningu vonandi já,“ sagði hún, en benti á að ekki væri skýrt kveðið á um slíkt í lögum eftir innleiðingu orkupakka Evrópusambandsins.

Halla Hrund minnti á að sögulega hefði orkumarkaður á Íslandi verið tvískiptur; annars vegar heimili og fyrirtæki landsins og hins vegar stóriðja. Sú nálgun hafi tryggt öfluga umgjörð raforkumála og fyrirsjáanleika fyrir bæði almenning og stórnotendur. Að hennar mati grefur innleiðing orkupakka, með áherslu á „fullkomið markaðsfyrirkomulag“, undan þessari stöðu.

Halla Hrund sagði að óvissa um framtíarfyrirkomulag orkumarkaðar snerti bæði heimili og iðnað sem reiði sig á langtímasamninga og stöðugleika, en ekki sveiflukenndan orkumarkað. „Það er lykilhagsmunamál, bæði fyrir almenning í landinu og fyrir samkeppnishæfni iðnaðar,“ sagði hún.

Hún gagnrýndi einnig ábendingar Samkeppniseftirlitsins um að stóriðja geti selt ónýtta orku aftur inn á kerfið. Að óbreyttu gæti slík breyting, að hennar mati, hvatt fyrirtæki til að draga úr framleiðslu og verða fremur raforkusalar á samningstíma. Hún spurði hvort það væri raunverulega stefna sem stjórnmálamenn vildu sjá, sérstaklega í ljósi hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands sem kynnt var í dag og gerir aðeins ráð fyrir 0,9% hagvexti á árinu.

„Hér verður pólitík að skilja hvað það þýðir, hvað slík breyting þýðir ef hún er ekki hugsuð vandlega. Hún getur hvatt til þess að fyrirtæki dragi úr framleiðslu en gerist heldur raforkusalar á samningstíma. Er slíkt ráðlegt? Er það eitthvað sem við viljum sjá raungerast? Er það ráðlegt í samhengi við hagvaxtarspá Seðlabankans sem birt var í dag? Þar hefur hagvaxtarspáin fallið niður í 0,9% á þessu ári.“

„Það þarf skýra pólitíska forystu um það hvernig við innleiðum orkumarkaðslöggjöf Evrópusambandsins,“ sagði Halla Hrund að lokum og tók fram að um væri að ræða grunnstoðir íslensks efnahagslífs og orkuöryggi almennings.