Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins fyrirkomulag tilvísana frá heimilislækni vegna heimsókna til sérgreinalækna.
„Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla: Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa,“ sagði Ágúst Bjarni.
Reglur kveða á um að tilvísanir fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri sé áskilið að heilsugæslulæknir skrifi þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Að öðrum kosti er þjónusta sérgreinalæknis ekki gjaldfrjáls.
Breyting á þessu fyrirkomulagi hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er áætlað að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis geti vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar.
„Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Þann 22. janúar 2020 skrifa ég eftirfarandi orð á samfélagsmiðla:
„Fór nýverið með litla drenginn til taugalæknis á LSH. Heimsókn sem er hluti af öllu hans ferli og verður áfram. Næsti tími bókaður í byrjun apríl að beiðni sama taugalæknis og verið hefur með hann. Ég sest upp í bíl og fæ um leið símtal frá LSH um að nú sé drengurinn minn að verða tveggja ára og því þurfi ég að fá tilvísun frá heimilislækni áður en ég kem með hann aftur. Ég skil þetta allt mjög illa.“
Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknir skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára aldri að 18 ára aldri þurfi þau á þjónustu sérgreinalækna að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Þessu stendur nú til að breyta með reglugerðarbreytingum sem hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda en það verður m.a. gert með því að sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis getur vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því án aðkomu heilsugæslunnar. Ákvæði gildandi reglugerðar um að barn þurfi nýja tilvísun frá heilsugæslulækni verður fellt brott. Læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsum getur vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Krafa um tilvísun heilsugæslulæknis í slíkum tilvikum verður felld brott. Rannsóknar- og myndgreiningarþjónusta barna verður gjaldfrjáls þótt ekki liggi fyrir tilvísun frá heilsugæslulækni. Gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun, sem nú er tíu ár, verður lengdur og getur gilt allt þar til barnið nær 18 ára aldri. Hér má svo taka meira til en hægt er að kynna sér reglugerðarbreytinguna í heild í fyrrnefndri samráðsgátt. Ég segi: Bravó, Willum Þór Þórsson, hæstv. heilbrigðisráðherra.“

15/05/2024
FjarheilbrigðisþjónustaFjarheilbrigðisþjónusta er heilbrigðisþjónusta sem nýtir stafræna samskipta- og upplýsingatækni þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Sem dæmi má nefna myndsímtöl og netspjall. Í dag var samþykkt mikilvægt frumvarp heilbrigðisráðherra sem gekk út á að skilgreina fjarheilbrigðisþjónustu í lögum og styrkja stöðu hennar í nútímasamfélagi. Málið er þýðingarmikið þar sem í fjarheilbrigðisþjónusta er klárlega ein þeirra tæknilausna sem geta umbylt heilbrigðisþjónustu fyrir fólk um allt land. Til eru mörg dæmi um einstaklinga sem ferðast langt og taka sér frí frá vinnu, stundum í fleiri daga, til þess að hitta lækna og sérfræðinga. Sérstaklega í ljósi þess að meirihluti sérfræðinga í heilbrigðisgeiranum er staðsettur á suðvesturhorni landsins.
Í sumum tilvikum er ferðin nauðsynleg, en oft er möguleiki á því að samskipti læknis og skjólstæðings eigi sér stað með fjarheilbrigðislausnum eins og viðtöl við sálfræðinga eða talmeinafræðinga. Með þessu þá erum við að opna frekar á þann möguleika í fjarheilbrigðislausnum.
Fjarheilbrigðisþjónusta getur nýst við heimahjúkrun, þá sérstaklega í dreifbýli. Einnig getur hún aukið og auðveldað teymisvinnu fagfólks, sem er búsett um allt land og sum þeirra mögulega erlendis. Þetta getur fækkað óþörfum og oft dýrum ferðalögum ásamt því að vera til þess fallið að auka hagkvæmni. Það er ljóst að á síðastliðnu ári hefur hröð þróun átt sér stað hvað varðar tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum.
Frumvarpið er skref í átt að því að vinna að sameiginlegum skilningi á því hvað felst í þeim tæknilausnum sem við höfum og grunnreglur um notkun þeirra. Fjarheilbrigðisþjónustan er liður að því að jafna aðgengi að þjónustu óháð búsetu eða annarra aðstæðna og er yfirlýst aðgerð, sbr. A.5 lið í byggðaáætlun. Markmiðið er að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði jafnað eins og hægt er og bætt með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu. Í byggðaáætlun kemur fram að með innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu, og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi, og með þeim hætti verði teymisvinna innan heilbrigðisþjónustu auðvelduð.
Fjarheilbrigðisþjónusta er enn eitt verkfærið sem við fáum í hendurnar til þess að auka jafnrétti og færa sérhæfða heilbrigðisþjónustu nær fólki um allt land og því fagna ég því að frumvarpið hafi verið samþykkt á Alþingi.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar og framsögumaður málsins í velferðarnefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

15/05/2024
Einfaldara fyrirkomulag tilvísanaÍ gær kom inn lítill og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Það má með sanni segja að tilvísanakerfið hafi sætt nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem hafa talið það taka frá þeim dýrmætan tíma og valdi óþarfa skriffinnsku. Það verður ekki af hæstvirtum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkin.
Núverandi kerfi
Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í Samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna.
Góðar breytingar
Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þessa verður gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögunum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.
Með þessum breytingum er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna sem kallað hefur verið eftir. Þessar breytingar eru einn hluti af þeirri vegferð að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Vel gert!
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

14/05/2024
Fjórða læknaferðin endurgreiddSíðustu mánuði hafa margar jákvæðar fréttir borist frá heilbrigðisráðuneytinu. Markvisst er unnið eftir stefnunni jafnt aðgengi, óháð efnahag og búsetu, um það ríkir samstaða í samfélaginu. Það er því fagnaðarefni að nú er verið að fjölga ferðum sem fást endurgreiddar frá Sjúkratryggingum vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem sótt er utan heimabyggðar. Um síðustu áramót fjölgaði endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár og nú styttist í að fjórða ferðin bætist við.
Jafnt aðgengi
Í fjáraukalögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er tillaga um sérstaka fjárveitingu til að mæta kostnaðinum við fjórðu ferðina og er það liður í aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Gert er ráð fyrir 50 m.kr. til þess að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu með því að draga úr kostnaði einstaklinga við að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Fjölgun ferða innanlands sem fást endurgreiddar falla að þeim markmiðum og heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Um er að ræða aðgerð sem er í samræmi og samhengi við samninga við sérfræðilækna sem gengið var frá síðastliðið sumar eftir samningsleysi allt frá árinu 2019.
Samningar bæta stöðu almennings
Meðan ekki voru til staðar samningar við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Samningsleysið dró fram ójafnræði í aðgengi. Með nýjum samningum við sérgreinalækna lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga en þjónusta sérfræðilækna hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Frá gildistöku samningsins 1. september síðastliðinn til febrúarloka hafa um 102 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu þeirra. Þessir einstaklingar spöruðu sér nærri 1,3 milljarð króna í komugjöld á grundvelli hins nýja samnings.
Þróun heilbrigðisþjónustu
Þá styður samningurinn við framþróun í þjónustu með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu. Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem ætlað er að skýra umgjörð og nýtingarmöguleika fjarheilbrigðisþjónustu auk nokkurra frumvarpa sem styðja við stafræna þróun í heilbrigðiskerfinu. Þannig styður ein aðgerð aðra til að ná fram umgjörð sem tryggir jafnara aðgengi. Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í samningi við sérfræðilækna er sérstakt ákvæði um að leitað verði leiða til að auka viðveru sérfræðilækna á landsbyggðinni.
Þannig er stöðugt unnið að útfærslu stefnu stjórnvalda til að þjónustan nýtist fólkinu sem þarf á henni að halda.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

13/05/2024
Tæknin sem breytir heiminumTæknibreytingarnar sem eru að eiga sér stað í gegnum gervigreind og máltækni eru þær mestu í áratugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinnur, lærir, ferðast, nálgast heilbrigðisþjónustu og hefur samskipti sín á milli.
Eins og flestum er kunnugt hafa miklar breytingar orðið á stöðu tungumála með tilkomu gervigreindar, alþjóðavæðingar og aukinna fólksflutninga. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum sett málefni íslenskunnar í öndvegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslendinga í síðustu viku aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu til ársins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta. Stjórnvöld hafa undanfarin ár einnig fjárfest í máltækni fyrir íslensku með verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 og náð góðum árangri. Markmiðið með henni er skýrt: að gera íslenskuna gildandi í hinum stafræna heimi til framtíðar. Í heimi tækninnar þarf að tala máli íslenskunnar gagnvart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heiminum. Það þarf að minna á mikilvægi minni tungumála og koma á framfæri þeim íslensku máltæknilausnum sem smíðaðar hafa verið hér á landi á undanförnum árum sem erlend tæknifyrirtæki geta innleitt í vörur sínar með nokkuð greiðum hætti. Það var mikil viðurkenning fyrir vegferð íslenskra stjórnvalda í málefnum íslenskunnar þegar bandaríska tæknifyrirtækið OpenAI gaf út nýja uppfærslu á gervigreindar-mállíkaninu GPT í fyrra þar sem íslenska var valin fyrst tungumála, utan ensku, í þróunarfasa þess. Var það afrakstur samtala og funda við fulltrúa fyrirtækisins.
Í vikunni leiddi ég sendinefnd til Bandaríkjanna sem fundaði með stórum tæknifyrirtækjum til að ræða stöðu smærri tungumála, sérstaklega íslensku, í stafrænum heimi. Fyrirtækin voru Microsoft, Allen Instittu4e for AI, Anthropic, Google og OpenAI. Er það meðal annars í samræmi við nýja máltækniáætlun þar sem lagt er til að aukinn þungi verði settur í að kynna íslenska máltækni á erlendri grundu. Jafnframt er verið að kanna hug þessara fyrirtækja til að koma á fót alþjóðlegum samstarfsvettvangi fyrir smærri tungumál heims. Skemmst er frá því að segja að okkur var vel tekið og áhugi er fyrir hendi á að auka veg íslenskunnar enn frekar. Microsoft hefur til dæmis hefur sýnt íslensku mikinn áhuga og má nefna að ýmis forrit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota alfarið á íslensku. Eftir heimsókn íslenskrar sendinefndar árið 2022, sem forseti Íslands ásamt mér og fleirum fór í, hefur Microsoft nú þegar innleitt íslenska máltækni í tæknilausnir sínar til að auka gæði íslenskunnar. Meðal þess sem við rætt var við fyrirtækið í þessari umferð var íslenska forritið Copilot, sem vel var tekið í. Það skiptir framtíð íslenskunnar öllu máli að hún sé aðgengileg og nýtileg í tækjum sem við notum. Okkur hefur auðnast að vinna heimavinnuna okkar vel hingað til í þessum efnum svo eftir sé tekið og það er að skila sér. Hins vegar er verkefnið langt í frá klárað og ljóst að frekari árangur kallar á breiða samvinnu með virkri þátttöku almennings, vísindafólks, fræðasamfélagsins, fyrirtækja og frumkvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hagsmunir íslenskunnar víða sem mikilvægt er að huga að.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2024.

13/05/2024
Búum til börnLög um fæðingarorlof tryggja foreldrum rétt til þess að hlúa að nýfæddu barni sínu, í dag lítur fólk á þennan rétt sem sjálfsagðan hlut en hann hefur svo sannarlega ekki alltaf verið það. Fyrir þessum rétti hefur verið barist og þar hefur Framsókn staðið vaktina í gegnum tíðina og tryggt réttindi fyrir foreldra og börn þeirra. Páll Pétursson kom með frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000 og Ásmundur Einar Daðason fylgdi því eftir með frumvarpi að nýjum heildarlögum um fæðingarorlof árið 2020.
Aukið jafnrétti
Frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið töluverðum breytingum í takt við auknar kröfur í samfélaginu um að koma til móts við fjölskyldur í landinu. Það má með sanni segja að lög um fæðingarorlof hafi verið besta tækið til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og í fjölskyldulífi. Merkja má áhrif laganna á stöðu kvenna á vinnumarkað og þá má segja að fáar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til meira jafnréttis kynjanna en þegar komið var á sjálfstæðum rétti foreldra til orlofs. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er í dag 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Í dag taka feður fullan þátt í lífi og uppeldi barna sinna og gera má ráð fyrir því að lög um fæðingarorlof eigi ríkan þátt í því.
Hærri greiðslur
Launamunur kynjanna á vinnumarkaði er þó engu að síður staðreynd og hefur haft afleiðingar á jafnrétti kynjanna og töku feðra á fæðingarorlofi. Kallað hefur verið eftir að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækki svo hægt sé í raun að tryggja jafnan rétt kynjanna til orlofs. Því kalli hefur nú verið svarað og er sú aðgerð einn liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Greiðslurnar verða hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr. m.v. þann 1. apríl síðastliðinn, aftur verður upphæðin hækkuð 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og svo frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.
Brjótum múrinn
Ríkisstjórnin hefur með þessum aðgerðum tryggt umgjörð sem tryggir barni samvistir við báða foreldra sína og gera þeim kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með betri hætti. Nú er það landsmanna að búa til börn. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands erum við Íslendingar rétt tæplega 380 þúsund. Það er verðugt markmið að stefna að því að ná að brjóta 400.000 mannfjölda múrinn sem fyrst.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2024.

11/05/2024
Ákall um aðgerðir í mansalsmálumMansal er alvarleg meinsemd og mannréttindabrot sem skotið hefur rótum í íslenskt samfélag líkt og víða annars staðar. Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem hafa það að markmiði að berjast með markvissum og árangursríkum hætti gegn hvers kyns mansali. En hvernig gengur okkur að koma í veg fyrir mansal hér á landi? Í haust sendi undirrituð fyrirspurn á dómsmálaráðherra um mansal á Íslandi með það að markmiði að fá upplýsingar um stöðu mansals mála hér á landi. Almenningur á Íslandi verður kannski lítið var við mansal hér á landi en úr svari ráðherra má þó lesa að það sé engu að síður raunveruleikinn hér á landi.
Fjölgun mansalsmála
Samkvæmt svörum frá ráðherra hafa mansalsmál verið í rannsókn hjá lögreglu síðastliðin ár og hafa fjölgað ef eitthvað er.Algengasta birtingarmynd mansals hér á landi undanfarin ár hefur verið kynlífs- og vinnumansal. Karlmenn hafa verið þolendur í um 60% mannsalsmálanna á móti 40% kvenna. Í svarinu kemur fram að í apríl á síðasta ári hafi verið 15 opin mál í rannsókn hjá lögreglu á tímabilinu 1. apríl 2022 til 31. mars 2023. Þar af voru sjö þeirra ný mál á skýrslutímabilinu en átta þeirra höfðu byrjað í rannsókn fyrir þann tíma. Á sama tímabili voru 38 mál skráð sem „grunur um mansal“ í málaskrárkerfi lögreglunnar.
Betur má ef duga skal
Árið 2018 var stofnsettur samstarfshópur eftirlitsaðila um brotastarfsemi á vinnumarkaði (SEB) sem er samstarfsvettvangur lögreglu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar í þeim tilgangi að greiða fyrir upplýsingagjöf milli Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og auka heimildir þeirra til að miðla upplýsingum til ríkisskattstjóra og lögreglu þegar grunur leikur á vinnumarkaðsbrotum, félagslegum undirboðum og hugsanlega mansali. En betur má ef duga skal. Sem liður í forvörnum skiptir einnig máli að fræða launþega, sér í lagi þá sem koma erlendis frá um lögbundin réttindi þeirra og skyldur atvinnuveitenda. Þess utan er einnig mikilvægt að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn eftir þjónustu sem þrífst oft á mansali ásamt því að efla sérkunnáttu og færni fagstétta sem koma að mansalsmálum á eðli og einkennum hinna ýmsu birtingamyndir mansals.
Endurskoðun á aðgerðaráætlun
Í þriðju skýrslu GRETA eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, kemur fram að GRETA hafi áhyggjur af þeim takmarkaða árangri sem Ísland hefur náð frá síðustu úttekt í baráttunni gegn vinnumansali. GRETA brýnir íslensk yfirvöld til þess að hvetja lögreglumenn, vinnueftirlitsmenn, félagasamtök og aðra viðeigandi aðila til að sýna aukið frumkvæði í að finna þolendur vinnumansals og tryggja að heimildir og úrræði vinnueftirlits standi undir því að leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir og upplýsa mansalsmál á vinnumarkaði. Janframt kemur fram að enn skorti formlegar verklagsreglur sem skilgreina hlutverk og ábyrgð allra viðkomandi faghópa. Sú sem hér skrifar telur afar brýnt að farið verði í endurskoðun á aðgerðaráætlun gegn mansali. Í dag er í gildi aðgerðaráætlun frá árinu 2019 og er því löngu orðin úreld þar sem íslenskt samfélag hefur tekið töluverðum breytingum á síðustu árum. Aðgerðir sem snúa að því að uppræta mansal þurfa reglubundna endurskoðun, mikilvægt er í því samhengi að nýta ábendingar, reynslu, athugasemdir og leiðbeiningar frá GRETA. Gott samstarf og samvinnu þarf til í baráttunni gegn mansali þvert á samfélagið, verkalýðshreyfingar, löggæslan, félagsyfirvöld og svo lengi mætti telja. Það er og verður alltaf viðvarandi verkefni hverrar þjóðar að berjast gegn mansali. Megum ekki sofna ekki á verðinum!
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.

11/05/2024
Holan í kerfinuHjól samfélagsins snúast aðeins með sanngjörnum framlögum allra til samneyslunnar. Stærsti hluti almennings greiðir skatta af launum sínum, sem fara svo til ríkis og sveitarfélaga, sem starfrækja þau grunnkerfi sem við ætlumst til að séu til staðar í samfélaginu. Allir vilja að kerfin sem við treystum á virki hnökralaust og að allir leggi sitt af mörkum til samfélagsins, það finnst okkur flestum sanngjarnt.
Að taka ekki þátt
Skýrar vísbendingar eru um að hérlendis sé fólk sem sniðgengur skattgreiðslur með því að skrá launatekjur ranglega sem fjármagnstekjur. Þó flestir Íslendingar afli launatekna þá eru sumir sem afla einungis fjármagnstekna, má þar nefna vaxtatekjur, arð, söluhagnað, leigutekjur og fleira. Af fjármagnstekjum er innheimt lægri skattprósenta auk þess sem ekki er innheimt útsvar til þess sveitarfélags sem viðkomandi er búsettur í.
Innan sveitarfélaga er því fólk sem nýtir sér þjónustu þeirra án þess þó að greiða krónu fyrir. Það er því eðlilegt og sjálfsagt að sveitarfélög fái útsvar frá öllum þeim sem nýta þjónustu en sú þjónusta er annars vegna lögbundin og hins vegar ólögbundin en þykir þó í flestum tilfellum sjálfsögð.
Stoppum í gatið
Það að skapa velferðarsamfélag krefst þess að allir taki þátt og leggi sitt á vogarskálarnar. Lengi hefur verið varað við þessu ósamræmi og hvernig ákveðin hópur fólks kemst hjá réttlátum skattgreiðslum. Árlega er talið að ríkissjóður verði af mörgum milljörðum króna í núverandi fyrirkomulagi. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið í stjórnarsáttmála að endurskoða regluverk í kringum tekjutilflutning og tryggja að þau sem hafa eingöngu fjármagnstekjur reikni sér endurgjald og greiði þannig útsvar. Í september 2022 hóf starfshópur störf á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skattlagningu launa og reiknuð laun og skilaði hópurinn skýrslu til ráðherra í september 2023 og var hún kynnt í ríkisstjórn í desember sama ár. Lagði hópurinn m.a. til að strax yrði farið í breytingar sem ekki kölluðu á lagabreytingar auk tillagna sem þarfnast aðkomu löggjafans. Undirritaður vonast til að frumvarp þess efnis rati bráðlega inn til Alþingis. Það er sanngirnismál að klára slíka löggjöf sem allra fyrst og vonast ég til þess að um það ríki þverpólitísk samstaða á Alþingi.
Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd.
Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.
Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

10/05/2024
Bréf frá formanni Þingflokks FramsóknarKæru flokksfélagar!
Í upphafi vil ég byrja á að þakka ykkur innilega fyrir hönd þingflokksins fyrir einstaklega flott og kraftmikið Flokksþing Framsóknar í síðasta mánuði. Að okkar mati tókst þingið vel og mun nú strax eftir helgi verða hægt að nálgast flokksþingsályktanirnar á heimasíðu flokksins.
Nú þegar líður að lokum þessa þingvetrar þéttist dagskrá okkar þingmanna, leitast er við að nýta þingfundi og nefndarfundi sem best. Mörg mál eru á dagskránni og til umræðu inn í nefndum. Þrátt fyrir þessa stöðu verður gert hlé á þingstörfum föstudaginn 24. maí fram yfir forsetakosningar. Er það gert með sama hætti og fyrir sveitarstjórnarkosningar en tilgangurinn er að þingstörfin trufli ekki eða hafi áhrif á umræðu og umfjöllun vegna forsetakosninganna.
Á síðasta rafræna fundi þingflokksins með ykkur kom fram ósk um yfirlit yfir samþykkt stjórnarmál frá okkar ráðherrum. Við höfum tekið málin saman og má nálgast þau hér.
Við í þingflokknum viljum halda áfram virku samtali og boðum hér með til fundar með flokksfólki á Teams nk. mánudag, 13. maí, kl. 20.00. Á dagskrá fundarins eru tvö stór mál, frumvarp um lagareldi og þingsályktun um samgönguáætlun til ársins 2038.
Þeir sem hafa ekki áður tekið þátt í STÖRFUM ÞINGSINS – Samtal þingflokksins við grasrótina verða nauðsynlega að skrá sig hér:
Störf þingsins – Rafrænn fundur
Hlekkur á fundinn verður sendur út skömmu fyrir fund.
Lög um lagareldi
Markmið laga um lagareldi er ætlað að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Leitast skal við að fyrirbyggja hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og vistkerfi þeirra ásamt því að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta villta nytjastofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í lagareldi standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðir eru til lagareldis.
Umræðan hefur verið mikil í kringum málið en þá aðallega hvað varðar tímalengd leyfisins, hvort það skuli vera tímabundið eða ótímabundið. Þingmenn hafa komið áherslum Framsóknar skýrt fram í umfjöllun um málið þar sem því hefur verið komið við en við munum fara betur yfir málið á fundinum.
Samgönguáætlun
Samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028 er lögð fram með hliðsjón af fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Áætlað er að fram til ársins 2038 skuli unnið að samgöngumálum í samræmi við:
a. stefnu í samgöngumálum og helstu markmið sem vinna skuli að,
b. skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til alls landsins og verði ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur,
c. áætlun um fjáröflun til samgöngumála,
d. yfirlit um útgjöld til allra helstu þátta í rekstri samgöngustofnana, svo og viðhalds, öryggismála og nýframkvæmda á sviði flugmála, siglingamála og vegamála.
Áætlunin taki mið af og verði hluti af heildstæðri samþættri stefnu í samgöngumálum, húsnæðismálum, skipulagsmálum, byggðamálum og málefnum sveitarfélaga og gerð í samræmi við samþykktar áætlanir á vegum Alþingis og ríkisstjórnar.
Þingsályktunin er til umfjöllunar í umhverfis og samgöngunefnd en stefnt er að því að hafa drög að nefndaráliti klárt þegar þing kemur aftur saman eftir þinghlé vegna forsetakosninga.
Við munum fara yfir stöðu verkefnisins og svara spurningum eftir bestu getu.
Vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta fyrir framan skjáinn nk. mánudagskvöld og taka þátt í samtalinu en þessi og mögulega fleiri mál munum við ræða á fundinum.
Hlakka til að sjá ykkur og hvet ykkur í leiðinni til að hnippa í aðra félaga okkar í Framsókn og minna á fundinn.
Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen

10/05/2024
LeynihótelÍ síðustu viku samþykkti Alþingi frumvarp sem hefur áhrif á þann fjölda íbúða sem eru í skammtímaleigu til lengri tíma. Lagabreyting þessi var gerð með það að markmiði að auka framboð íbúðarhúsnæðis og með því stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Í dag getur hver sem er sett íbúð í sinni eigu í útleigu í allt að 90 daga. Ef eigandi hyggst leigja út íbúð sína til lengri tíma í skammtímaleigu hefur hann þurft að sækja um rekstrarleyfi gististaða. Við sjáum mörg dæmi þess að einstaklingar og fyrirtæki kaupi íbúðir til að setja þær í heilsársleigu á airbnb eða hjá sambærilegum milligönguaðila. Í sumum tilvikum má sjá að það eru margar íbúðir í sömu blokk í skammtímaleigu fyrir eitt fyrirtæki allt árið og því má segja að það sé leynihótel í miðju íbúðahverfi án þess að á því séu þær öryggiskröfur og gjöld sem við setjum á hótel. Frumvarpið bannar rekstrarleyfi gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli og því er heilsársleigan ekki lengur möguleiki.
Misjöfn staða dreifbýlis og þéttbýlis
Fólki hefur orðið tíðrætt um framboðsskort á íbúðarhúsnæði á þéttbýlum svæðum landsins. Tölfræðin sýnir okkur að talsverður fjöldi íbúða á þéttbýlum svæðum er nýttur í skammtímaleigu til ferðamanna. Þessi mikla nýting íbúðarhúsnæðis er ein ástæða framboðsskorts á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld hafa ákveðið að bregðast við þessu á þann veg að takmarka heimildir til slíkrar útleigu. En skammtímaleigan hefur mismunandi áhrif á svæði landsins. Því taldi atvinnuveganefnd Alþingis mikilvægt að takmörkun þessi ætti ekki við gistingu í dreifbýli, eins og smáhýsi á sveitabæjum og frístundahús í útleigu. Takmörkunin var því einskorðuð við þéttbýl svæði. Það var gert til að tryggja að gististarfsemi utan þéttbýliskjarna, einkum í sveitum, geti áfram notið sérstöðu og stuðlað að bættum kjörum íbúa þeirra svæða.
Við erum að ganga í aðgerðir til að ná betri tökum á húsnæðismarkaðnum.
Þegar húsnæðisþörf er eins mikil og raun ber vitni, sérstaklega meðal ungs fólks, geta stjórnvöld ekki setið á höndunum og leyft aðilum að kaupa fjölda íbúða einungis í þeim tilgangi að leigja út til ferðamanna. Sú þróun hefur haft þau áhrif að fjölmargar íbúðir hafa horfið af almennum húsnæðismarkaði, með tilheyrandi áhrifum á framboð, húsnæðisverð og jafnvel leiguverð. Þetta eru íbúðir sem eru margar í hentugri stærð fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Því eru það gleðifréttir að þetta frumvarp hafi verið samþykkt.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar og var framsögumaður málsins í atvinnuveganefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024.