Categories
Fréttir Greinar

Jarðvegur fyrir framfarir

Deila grein

30/12/2023

Jarðvegur fyrir framfarir

Kæri lesandi.

Í hillu norður í Reykjadal rakst ég á kvæði eftir Huldu, Unni Benediktsdóttur Bjarklind. Kvæðið heitir Mold og birtist í bókinni Segðu mér að sunnan sem kom út árið 1920. Þetta er afar fallegt kvæði, lofsöngur um mold og líf, sem á vel við að rifja upp á þessum kaldasta tíma ársins þegar sól er byrjuð að hækka á lofti á ný.

Þú dökka, raka, mjúka mold,

sem mildi sólar hefur þítt.

Hve ann ég þér, hve óska ég mér,

að um þig streymi sumar nýtt.

Við þekkjum öll mikilvægi moldarinnar, ekki síst við sem búum í sveitum landsins. Moldin er tákn mildi og umhyggju og um leið tákn um vöxt.

Öflugt starf að umbótum

Hlutverk stjórnvalda er ekki síst fólgið í því að skapa frjóan jarðveg til að upp fólk geti nýtt hæfileika sína til að skapa sér og samfélaginu verðmæti. Þau verðmæti geta bæði verið veraldleg og andleg. Oft eru þau hvort tveggja eins og við sjáum á þeirri miklu sókn sem íslensk list er í, bæði hér á landi og erlendis. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt mikla áherslu á að skapa list og menningu góða umgjörð auk þess sem hún hefur unnið að framtíðarstefnu fyrir ferðaþjónustu og undirstrikað mikilvægi neytendamála. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisherra hefur lagt áherslu á að styrkja heilbrigðiskerfið og meðal annars náð samningum við sérfræðilækna og með aðstoð einkaframtaksins náð að lina þjáningar þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum og aðgerðum vegna endómetríósu. Ásmundur Einar Daðson hefur haldið áfram góðum störfum sínum í þágu barna auk þess að hlúa að íþróttastarfi, ekki síst með nýrri afreksstefnu. Þær umbætur sem orðið hafa á vakt þessara dugmiklu ráðherra eiga það sameiginlegt að skapa aðstæður til aukins vaxtar, aðstæður sem gera fólki kleift að springa út.

Nýtt ráðuneyti sannar sig

Innviðaráðuneytið á tveggja ára afmæli um næstu mánaðamót. Með nýju ráðuneyti voru sameinuð undir einum hatti svið samgangna, sveitarstjórnarmála, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu viðamikla ráðuneyti hefur náðst betri sýn yfir þessa mikilvægu málaflokka og síðast en ekki síst meiri samhæfing. Fyrr í haust lagði ég fyrir þingið stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga sem hefur verið samþykkt. Auk þess lagði ég fyrir þingið samgönguáætlun, landsskipulagsstefnu og húsnæðisstefnu sem allar eru til umfjöllunar í nefndum þingsins. Það sem af er þingi hafa sex frumvörp innviðaráðherra orðið að lögum, þar á meðal lög sem hafa í för með sér nauðsynlega úrbætur í brunavörnum og lög um hagkvæmar íbúðir.

Hlúa þarf að landbúnaði

Landbúnaður er ekki aðeins mikilvæg atvinnugrein fyrir okkur á Íslandi. Landbúnaður er hluti af menningu okkar og varðveitir stofna búfjár og gróðurs og er samtvinnaður menningu okkar frá landnámi. Landbúnaðurinn hefur átt undir högg að sækja vegna aukinnar samkeppni við ódýrar afurðir sem fluttar eru hingað um langan veg frá löndum sem búa oft við lægri laun. Óhagstætt vaxtaumhverfi sem aukin verðbólga hefur leitt af sér hefur einnig lagst þungt á bændur. Ungir bændur hófu upp öfluga raust sína á haustmánuðum til að benda á þessar erfiðu aðstæður. Ríkisstjórnin brást við með aðgerðum sem leggja áherslu á nýliðun og kynslóðaskipti með aðstoð við yngri bændur. Það er þó ekki nóg. Við þurfum að horfa til framtíðar og rífa greinina upp úr hjólförum sem mótuð eru af afskiptaleysi og skort á skilningi á ákveðnum sviðum í íslensku samfélagi.

Lægri vextir eru stórt hagsmunamál

Árið 2023 hefur ekki verið dans á rósum. Við höfum þurft að takast á við verðbólgu sem hefur í för með sér hærri vexti sem leggjast illa á heimili og fyrirtæki. Við sjáum þó að aðgerðir stjórnvalda eru farin að hafa áhrif nú í lok árs. Ábyrg fjárlög skipta þar miklu máli. Einnig er ánægjulegt að sjá að aðilar vinnumarkaðarins ganga fram með það að markmiði að verðbólga lækki. Það er ljóst að stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja er að vextir lækki og gott að náðst hafi samstaða þar um. Ríkisstjórnin mun leggja sitt a f mörkum til að skapa umgjörð sem stuðlar að skynsamlegum kjarasamningum en þó leggja áherslu á að kjarasamningar eru á ábyrgð samningsaðila.

Við stöndum með Grindvíkingum

Þær hamfarir sem dunið hafa yfir í næsta nágrenni Grindavíkur eru þó sá atburður sem er mér efst í huga á þeim tímamótum sem áramót eru. Enginn er ósnortinn af þeirri hugprýði og því æðruleysi sem Grindvíkingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður. Það er erfitt að gera sér í hugarlund tilfinninguna að þurfa að yfirgefa heimili sitt um lengri tíma vegna umbrota í náttúrunni. Oft er sagt að óvissan sé versti óvinurinn og það er svo sannarlega satt þegar horft er til Grindavíkur. Vísindin og okkar öfluga fólk sem þau stunda eru okkur mikil stoð þegar kemur að hamförum eins og þeim sem dunið hafa yfir en meira að segja þau geta ekki sagt með fullri vissu til um hvað framtíðin ber í skauti sér.

Innviðaráðuneytið hefur lagt sitt af mörkum til að tryggja húsnæði fyrir sem flesta Grindvíkinga, meðal annars með kaupum Bríetar leigufélags á 80 íbúðum sem grindvískar fjölskyldur hafa nú þegar fengið lyklana að eða fá á næstu dögum. Samvinna stjórnarráðsins við yfirvöld í Grindavík hefur verið þétt frá byrjun og verður það áfram svo lengi sem þörf er á.

Fimmtíu ár eru síðan íbúar heils byggðarlags þurftu að yfirgefa heimili sín. Við þessar aðstæður er skylda okkar sem samfélags að standa þétt við bakið á Grindvíkingum. Vonandi getum við brátt séð lengra fram í tímann svo daglegt líf lifni að nýju í Grindavík, þessu öfluga bæjarfélagi.

Þörf fyrir græna uppbyggingu

Náttúran getur verið grimm en hún er einnig gjöful. Það vitum við á Íslandi sem byggt höfum velsæld okkar á gæðum náttúrunnar, hvort sem það er í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða með orkunni sem veitir heimilum okkar yl og ljós. Við gerum okkur betur ljós fyrir mikilvægi orkuvinnslu þegar hætta steðjar að. Reistir hafa verið varnargarðar um Svartsengi vegna þeirrar mikilvægu starfsemi þar sem fer fram og tryggir Reykjanesinu öllu hita og birtu. Ísland væri ansi fátækt og mannlífið fátæklegt ef ekki væri fyrir framsýni fyrri kynslóða með raf- og hitaveituvæðingu. Við stöndum framar flestum þjóðum þegar kemur að grænni orku. Það er þó ljóst að ráðast verður í skynsamlega virkjanakosti til að viðhalda lífsgæðum á Íslandi, virkjanakosti sem ganga ekki um of á stórkostlega náttúru okkar. Ábyrg uppbygging verður að eiga sér stað á næstu árum.

Kæri lesandi.

Síðustu áramót voru yfirskyggð af stríði í Úkraínu. Það stríð geisar enn. Ári síðar kveðjum við árið 2023 í skugga annars skelfilegs stríðs fyrir botni Miðjarðarhafs. Hjörtu okkar Íslendinga hafa lengið fundið til með Palestínumönnum. Steingrímur Hermannsson hneykslaði einhverja ráðamenn á Vesturlöndum þegar hann átti fund með Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna, fyrir margt löngu en vakti með því athygli á aðstæðum þeirra. Ísland varð síðar eitt fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstætt ríki Palestínu. Við hljótum öll að sameinast í bæn um frið.

Við sem búum á Íslandi getum verið þakklát fyrir friðinn sem ríkir á Íslandi. Þakklát fyrir þá samheldni sem einkennir okkur þegar á bjátar. Þakklát fyrir þann jarðveg sem við erum sprottin upp úr. Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og farsældar á árinu 2024 og lýk þessum pistli á orðum Huldu:

Þú byrgir hjörtu, hljóð og köld,

við hjarta þitt, sem fallin strá.

Þér fólu eilíf, óþekkt völd

að endurskapa jarðlíf smá.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Kvennakraftur í Framsókn

Deila grein

29/12/2023

Kvennakraftur í Framsókn

Það er ánægjulegt að líta yfir árið sem senn er að líða og sjá og finna hve hópur Kvenna í Framsókn er vel skipaður og öflugur. Fjölbreytt fræðslukvöld og viðburðir á vegum félagsins á árinu 2023 hafa verið vel sóttir, gagnlegir og samveran gefandi. Mikil virkni og kraftur er meðal Kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins og setið í sveitarstjórnum á landsvísu. Þennan góða árangur kvenna sem náðst hefur má þakka góðri liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs fyrir heildina og það skiptir höfuðmáli.

Sameiginleg markmið

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir velferð fólks, betri lífskjörum og öflugu atvinnulífi í samfélögum um allt land. Konur í Framsókn starfa á ólíkum vettvangi um allt land og það er ánægjulegt að verða vitni að því hversu vakandi þær eru gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum og skilja mikilvægi þess að geta sett sig í spor annara. Við hlustum og vinnum málin áfram með það að markmiði að gera gott samfélag betra fyrir alla. Öll höfum við eitthvað fram að færa og þannig höfum við í gegnum tíðina náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust. Getan til þess að hlusta og sjá að við erum ekki einsleitur hópur er gríðarlega mikilvægur þáttur í stjórnmálastarfi.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn aðeins um 20% á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi og mikilvægt er að okkur fari ekki aftur í þeim efnum. Því skiptir máli að raddir kvenna heyrist alla daga. Þá er reynsla kvenna úr stjórnmálum jafnframt besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og dómgreind skapa jarðveg fyrir komandi kynslóðir kvenna.

Það búa ekki allir við sömu forréttindi

Einn eftirminnilegasti dagur ársin var 24. október s.l. þegar um hundraðþúsund manns mættu á Arnarhól og samkomur um allt land til þess að taka þátt í Kvennaverkfallsdeginum. Þar varð þjóðinn og heimurinn vitni að stórkostlegri samstöðu fyrir réttlátu samfélagi á baráttudegi fyrir betra samfélagi. Undirrituð telur afar mikilvægt að fólk í forréttindastöðu gleymi ekki mikilvægi baráttunnar því henni er ekki enn lokið. Enn eru konur sem þurfa að sæta óréttlæti, kynbundnu ofbeldi og smánun á hverjum degi. Líkt og kom fram í kynningu fyrir Kvennaverkfallið þá er staðan enn að „Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið “ Hjörtu okkar slógu í takt þann 24. október 2023. Þvílík stemmning og baráttuandi, höldum áfram að gera betur.

Hvetjum konur til þátttöku í stjórnmálum

Síðust ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn. Konur sem hafa upplifað og vita að rödd þeirra hefur áhrif. Konur í Framsókn takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða. Ég óska ykkur öllum farsældar á komandi ári og hlakka til að ganga inn í nýtt ár með Framsókn.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Fréttir Greinar

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

Deila grein

29/12/2023

Orkuuppbygging er nauðsynleg til framtíðar

„Nú árið er liðið í ald­anna skaut og aldrei það kem­ur til baka“ seg­ir í texta Valdi­mars Briem. Um ára­mót höf­um við til­hneig­ingu til þess að horfa til baka yfir far­inn veg og velta fyr­ir okk­ur hvernig við höf­um staðið okk­ur í leik og starfi. Á sama tíma horf­um við fram á við á þær áskor­an­ir sem blasa við okk­ur. Lífið líður áfram og það verður aldrei þannig að öll­um verk­efn­um sé lokið. Þessi miss­er­in eru áskor­an­ir í orku­mál­um þjóðar­inn­ar eitt af þeim stóru verk­efn­um sem brýn þörf er á að leysa. Það er afar mik­il­vægt að við sem störf­um á Alþingi náum giftu­ríkri niður­stöðu í þeim mál­um á kom­andi mánuðum.

Eft­ir­spurn um­fram fram­boð

Einn af helstu kost­um þess að búa á Íslandi er gott aðgengi að orku­auðlind­inni og höf­um við borið gæfu til þess að vera fram­sýn í fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku. Öll framtíðar­hag­kerfi eru háð góðu aðgengi að orku. Íslensk heim­ili og at­vinnu­líf hafa getað treyst á gott og hag­kvæmt aðgengi orku og hef­ur það verið lyk­ill­inn að góðum lífs­kjör­um á Íslandi.

For­stjóri Lands­virkj­un­ar skrifaði grein í Morg­un­blaðið þann 27.12. 2023 með yf­ir­skrift­inni „Rán­dýr leki fyr­ir (næst­um) alla“. Í grein­inni er farið vel yfir þær áskor­an­ir sem blasa við orku­vinnslu­fyr­ir­tækj­um og neyt­end­um stór­um sem smá­um, á markaði þar sem eft­ir­spurn eft­ir grænni orku vex en því er ekki að heilsa hvað fram­boð varðar. Í grein­inni kem­ur m.a. fram að pant­an­ir á orku fyr­ir heild­sölu­markaðinn (þ.e. fyr­ir heim­ili og smærri fyr­ir­tæki) á næsta ári séu 25% meiri en sem nem­ur al­menn­um vexti í sam­fé­lag­inu og vek­ur það spurn­ing­ar um hvert ork­an sé að fara.

Al­menn­ing­ur og smærri fyr­ir­tæki á Íslandi hafa hingað til búið við þann munað að hafa haft óheft­an aðgang að grænni orku á hóf­legu verði. En nú eru blik­ur á lofti. Með vax­andi eft­ir­spurn stærri not­enda sem eru til­bún­ir að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en geng­ur og ger­ist er hætta á að breyt­ing­ar verði á raf­orku­markaðnum til framtíðar, það er að segja ef ekk­ert verður að gert. Með óbreyttu ástandi skap­ast hætta á að heim­ili í land­inu þurfi að fara að greiða mun hærra verð fyr­ir raf­orku en við höf­um van­ist hingað til. Ég hef litla trú á því að það sé póli­tísk­ur vilji í land­inu að stefna á þá leið að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings með þess­um hætti, það er alla­vega ekki minn vilji né vilji okk­ar í Fram­sókn.

Frum­varp at­vinnu­vega­nefnd­ar

Á nýliðnu haustþingi lagði at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is að beiðni um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra fram frum­varp til laga um breyt­ing­ar á raf­orku­lög­um nr. 65/​2003. Þetta frum­varp varð ekki til í ein­hverju tóma­rúmi held­ur er mark­miðið með því að tryggja raf­orku­ör­yggi heim­ila og minni fyr­ir­tækja í land­inu í sam­ræmi við stefnu stjórn­valda. Nái frum­varpið fram að ganga mun það tryggja að heim­ili og minni fyr­ir­tæki hafi ávallt aðgang að svo­kallaðri for­gangsra­f­orku í kerf­inu. Málið fékk efn­is­lega um­fjöll­un inn­an nefnd­ar­inn­ar og fór í gegn­um aðra umræðu. Við þriðju umræðu var það ein­róma niðurstaða at­vinnu­vega­nefnd­ar að fresta af­greiðslu máls­ins fram á nýtt ár 2024.

Ekki vilji til að hækka raf­orku­verð til al­menn­ings en úr­bóta er þörf

Það er mik­il­vægt að lög­festa aðgang al­menn­ings og smærri not­enda að for­gangsra­f­orku tíma­bundið, meðan leitað er allra leiða til frek­ari orku­öfl­un­ar, ork­u­nýt­ing­ar og efl­ing­ar á flutn­ings- og dreifi­kerfi raf­orku. Annað er ekki í boðlegt. Verk­efn­inu er hvergi nærri lokið.

Við í Fram­sókn leggj­um of­urá­herslu á fjöl­breytta þróun á end­ur­nýj­an­legri orku en að sama skapi að horft verði til hag­kvæmra kosta. Ljóst er að ork­u­nýt­ing hef­ur auk­ist til muna ár frá ári og því miður er staðan sem upp er kom­in fyr­ir­sjá­an­leg. Stjórn­völd verða að vera meira af­ger­andi og fram­sýnni í raf­orku­mál­um og mun at­vinnu­vega­nefnd sann­ar­lega leggja sitt af mörk­um í þeirri veg­ferð. Við í at­vinnu­vega­nefnd höld­um áfram þar sem frá var horfið fyr­ir jól og það er mín trú að við náum sam­an góðri og far­sælli niður­stöðu.

Með von í hjarta óska ég þess að bjart­ir og orku­mikl­ir tím­ar bíði okk­ar á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Orka er vinna, vöxtur og velferð

Deila grein

29/12/2023

Orka er vinna, vöxtur og velferð

Árið 1886 komst Ludwig Boltzmann, einn af stofn­end­um varma­fræðinn­ar, að þeirri niður­stöðu að orka væri hjarta alls. Hann sagði að allt líf væri bar­átta fyr­ir frjálsri orku – orka sem væri til staðar til að snúa fólki til trú­ar. Erw­in Schröd­in­ger, sem hlaut Nó­bels­verðlaun­in í eðlis­fræði 1933, tók í sama streng. Sér­hver líf­vera nær­ist á óheftri orku, skrifaði hann, og þær líf­ver­ur sem vinna best úr þeirri orku hafa for­skot í þró­un­ar­sög­unni. Hvað er orka ann­ars? Orðsifjar orðsins, sem nær aft­ur til Grikk­lands hins forna, eru góður byrj­un­ar­reit­ur. Orðið er komið af nafn­orðinu enér­geia, sem myndað er með orðinu ergon, og merk­ir „vinna“. Og það er nokkuð mikið í staðlaðri vís­inda­legri skil­grein­ingu: „Ork­an er hæfi­leik­inn til að vinna verk.“

Orku­öfl­un hef­ur verið burðarás í ís­lenskri lífs­kjara­sókn en orku­fram­kvæmd­ir fortíðar hafa reynst heilla­drjúg­ar fyr­ir þjóðfé­lagið, en sam­hliða auk­inni orku- og verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu hef­ur ís­lenskt sam­fé­lag farið úr því að vera eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu í eitt það rík­asta. Á þess­um tíma hef­ur einnig ís­lenskt hug­vit orðið til þess að Ísland er í fremstu röð er kem­ur að nýt­ingu end­ur­nýj­an­legr­ar orku, en hingað til lands kem­ur fólk víða að úr heim­in­um til að læra af reynslu okk­ar í orku­mál­um. Þannig er ís­lenskt orku­hug­vit orðið út­flutn­ings­vara til ólíkra horna heims­ins þar sem vatns- og jarðhita­auðlind­ir eru til staðar.

Eitt af keppikefl­um alþjóðastjórn­mál­anna til margra ára hef­ur verið að stemma stigu við lofts­lags­breyt­ing­um. Helstu kröf­ur í því sam­hengi snúa að því að draga veru­lega úr notk­un jarðefna­eldsneyt­is og stuðla að al­vöru orku­skipt­um í lofti, láði og legi. Ljóst er að slíkt um­skipti eru meðal ann­ars háð stór­auk­inni fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku. Þannig hafa fjöl­mörg ríki stór­aukið fjár­fest­ingu í slík­um orku­gjöf­um. Öflug og inn­lend orku­fram­leiðsla er líka eitt stærsta þjóðarör­ygg­is­mál ríkja. Það kom ber­sýni­lega í ljós í kjöl­far ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Orku­skort­ur á meg­in­landi Evr­ópu, með ým­is­kon­ar skerðing­um á af­hend­ingu og mikl­um hækk­un­um á orku­verði í álf­unni, komu ríkj­um henn­ar í koll.

Þessi at­b­urðarás und­ir­strikaði mik­il­vægi þess fyr­ir okk­ur á Íslandi að búa við sjálf­stæði í orku­mál­um. Í ofanálag greiða ís­lensk heim­ili lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska.

Sú stöðnun sem hef­ur orðið í orku­mál­um hér á landi er ekki af hinu góða og það þarf að vinda ofan af henni. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyr­ir því að búa þau til, í sátt við nátt­úru og menn. Á Íslandi hef­ur vinna, vöxt­ur og vel­ferð sam­fé­lags­ins hald­ist hönd í hönd við nýt­ingu orku­auðlinda lands­ins. Okk­ur hef­ur vegnað vel í þeirri sjálf­bærri nýt­ingu og á þeirri braut eig­um við að halda áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Deila grein

28/12/2023

Svar við á­kalli heil­brigðis­starfs­fólks

Það voru ánægjuleg og mikilvæg tímamót fyrir íslenska heilbrigðiskerfið þegar frumvarp um hlutlæga refsiábyrgð var samþykkt samhljóða á Alþingi rétt fyrr jól. Frumvarpið á sér langan aðdraganda og byggir á tillögum sem komu fram í skýrslu starfshóps um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu ásamt tillögum til úrbóta frá árinu 2015. Á vormánuðum 2022 fól ég starfshóp að rýna tillögur skýrslunnar frá 2015 og skoða áhrif þess ef refsiábyrgð yrði breytt í samræmi við tillögur skýrslunnar. Starfshópurinn vann á breiðum samráðsgrunni og skilaði af sér drögum að frumvarpi í febrúar á þessu ári og var það lagt fyrir Alþingi.

Með nýjum lögum erum við að innleiða hlutlæga refsiábyrgð heilbrigðisstofnana í þeim tilgangi að auka öryggi sjúklinga, að efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins, stuðla að umbótum og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi framlínufólks heilbrigðiskerfisins.

Að axla ábyrgð

Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks einkennist oft af miklum hraða og óvæntum aðstæðum. Öll ákvarðanataka og hvert handtak krefst því ekki aðeins reynslu, þjálfunar og þekkingar heldur líka trausts. Það traust á og þarf að vera gagnkvæmt. Rannsóknir sýna að orsakir alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu eru í langflestum tilfellum margir samverkandi og kerfislægir þættir í starfsemi heilbrigðisstofnunar, en sjaldan sök einstaklinga sem vinna verkin.

Með breyttri nálgun laganna verður nú hægt að koma refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunar eða rekstraraðila, fremur en einstaka heilbrigðisstarfsmanni, þegar margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks. Það kallast hlutlæg og uppsöfnuð refsiábyrgð og með henni axlar heilbrigðiskerfið ábyrgð. Breytingarnar eru svar við ákalli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga um umbætur við meðferð og rannsókn alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu.

Upplýsa til umbóta

Með lagabreytingunum verður áfram unnið að því að efla rannsóknir á orsökum alvarlegra atvika, gera þær ítarlegri, bæta verkferla og tryggja betur aðkomu sjúklinga og aðstandanda. Sú vinna mun fara af stað á næstunni.

Að rannsaka orsök og upplýsa um ástæður alvarlegra atvika sem upp geta komið við veitingu heilbrigðisþjónustu er mikilvægt til umbóta og sömuleiðis til að fyrirbyggja að slíkt atvik endurtaki sig. Brýnt er að rannsókn kalli fram tillögur til úrbóta fremur en að ákvarða um sök eða ábyrgð.

Öryggismenningin er heilbrigðiskerfinu okkar mikilvæg, og byggir á gagnkvæmu trausti. Sterk öryggismenning eykur gæði og öryggi þjónustunnar ásamt því að stuðla að framþróun og umbótum í heilbrigðiskerfinu.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loksins kviknað á perunni?

Deila grein

22/12/2023

Loksins kviknað á perunni?

Síðustu daga hafa þingmenn og heilu þingflokkarnir lýst því yfir að þeir ætli að beita sér fyrir aukinni orkuöflun til að mæta yfirvofandi raforkuskorti hér á landi. Ítrekaðar áhyggjur hafa verið hunsaðar og nú, þegar vandinn er farinn að vera virkilega alvarlegur og er orðinn öllum kýrskýr, keppast þingmenn við að koma með háfleygar yfirlýsingar eins og að hulunni hafi verið svipt.

Ég fagna því vissulega að kollegar mínir hafi loksins kveikt á perunni og áttað sig á þeim vanda sem lengi hefur legið í loftinu. Vonandi eru þetta ekki tóm orð í von um aukið fylgi. Því það er ljóst að margir þessara þingmanna þurfa að taka U-beygju á sinni afstöðu t.d. hvað varðar friðun og regluverk.

Takmarkaður áhugi hingað til

Ýmsar aðgerðir hafa verið lagðar til með það að markmiði að geta framleitt meiri orku, nýtt hana betur og efla dreifingu hennar. Lengi hafa sérfræðingar í orkugeiranum bent á yfirvofandi orkuskort og kallað eftir aðgerðum, en undirrituð hefur unnið að því að koma skilaboðum þeirra áleiðis bæði í þingsal, á fundum og í hinum ýmsu fjölmiðlum. Áhugi þingheims fyrir alvöru aðgerðum hefur verið takmarkaður hingað til.

Stjórnkerfið í kringum leyfisveitingar og rannsóknir er óþarflega flókið og hægfara. Það líða jafnvel áratugir frá því að virkjanakostur kemur upp sem hugmynd þar til hann verður að veruleika. Við höfum of lengi beðið eftir aðgerðaráætlun og regluverki í kringum nýtingu nýrra grænna orkukosta eins og vindorku. Friðun vatnasviða og þar með útilokun mögulegra virkjunarframkvæmda er sett á dagskrá þrátt fyrir að þörfin fyrir aukna orku liggur fyrir.

Þörf á hugarfarsbreytingu

Stjórnvöld og samfélagið allt þurfa að horfa á orkumál landsins með öðru viðhorfi. Núverandi hugarfar virkar greinilega ekki og það gengur ekki að seinka mikilvægum fyrirbyggjandi aðgerðum um mörg ár og jafnvel virða þær að vettugi. Við viljum vera sjálfum okkur nóg í orkuöflun og tryggja orkuöryggi hér á landi en við sjáum dæmi erlendis um það hversu mikilvægt það reynist að þurfa ekki að stóla á önnur ríki til að fullnægja grundvallarþörfum samfélagsins.

Standið við stóru orðin

Nú er komið að þingheimi að taka á honum stóra sínum og sýna fram á að yfirlýsingarnar séu ekki bara orðin tóm. Miðað við fjölda yfirlýsinga þingmanna og þingflokka þá ætti það ekki að reynast erfitt að skapa sátt og komast að niðurstöðu.

Ég er, og hef lengi verið, tilbúin í þá vinnu.

Við þurfum að setja okkur markmið; hversu mikla orku þurfum við á að halda til framtíðar? Í kjölfarið getum við sett á laggirnar alvöru aðgerðir til að mæta þeirri framtíðarorkuþörf í stað þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni.

Á meðan er það virkilega óábyrgt að ræða frekari friðun heilu vatnasviðanna. Það er óforsvaranlegt að setja friðun á dagskrá þegar við höfum ekki gert áætlun til framtíðar. Við megum ekki við því að útiloka heilu virkjunarmöguleikana í því ástandi sem við erum.

Á ríkisstjórnarborðinu er það nauðsyn að endurskoða rammaáætlun á nýjan leik með það að leiðarljósi að endurskoða friðlýsingu vatnasviða, nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast og alls ekki útiloka virkjunarmöguleika til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk og snörp

Deila grein

20/12/2023

Sterk og snörp

Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Það getur verið vandasamt á krefjandi tímum, óvissa bæði hér á landi sem og í alþjóðlegu samhengi. Að mörgu þarf að huga, bregðast við ríkjandi þörfum en ekki síður að gera ráð fyrir hinu óvænt. Það ríkir nokkur spenna í hagkerfinu og hefur það verið í nokkurri sveiflu sem birtist í vaxandi verðbólgu. Sumir vilja kalla þá verðbólgu séríslenska líkt og Grýla en við höfum séð að bólgan sú hefur einnig verið vandamál í Evrópu og vestanhafs. Þó ætlar skömmin að vera þrálátari hér á landi og við því verður að bregðast. Við í Framsókn höfum lagt á það ríka áherslu að skapa jafnvægi í efnahagsstjórn, til að sporna við frekari þenslu svo að vaxtarstig geti hjaðnað á nýju ári. Þess vegnar tel ég mikilvægt að þessi fjárlög sem við samþykkjum nú fyrir jólin séu hlutlaus fjárlög og ekki þensluhvetjandi.

Snörp viðbrögð stjórnvalda

Miklar náttúruhamfarir á undanförnum vikum vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga er hvergi nær lokið. Þá ríkir óvissa vegna stríðsástands í heiminum sem varðar íslenskt samfélag eins og aðrar þjóðir. Þrátt fyrir að nýafstaðinn Covid faraldur sem hafði gríðarleg áhrif á efnahagsumhverfið er staða ríkissjóðs sterk. Við getum tekist á við verkefni, sem okkur óraði ekki fyrir í upphafi þessa árs, sem eru flókin en jafnframt áríðandi að leysa með hraði.  Við höfum vissulega ekki stjórn á öllu sem gerist, en höfum að sama skapi val um viðbrögð og aðgerðir, það er mikilvægt að muna þegar við búum í landi þar sem náttúran stjórnar oft för.

Atburðir síðustu þrjú ár á Reykjanesskaga hafa minnt okkur á að Ísland er land elds og ísa, við þekkjum það sem hér búa. Náttúran ríkir og okkar er að læra að lifa við hana, njóta og nýta. Stórir viðburðir eins og snjóflóð, skriðuföll og eldgos eru tíðir og bjóða upp á allskonar áskoranir. Þeir atburðir sem hófust í nóvember hafa valdið því að heilt samfélag þurftu að flýja heimili sín og hefur enn ekki getað snúið aftur. Framhaldið er í óvissu náttúrunnar, þar sem ekki er ljóst hvort eða hvernig framhald verður á hreyfingu landsins. Stjórnvöld vinna nú að ýmsum mótvægisaðgerðum, finna leiðir til aðstoða íbúa og fyrirtæki á svæðinu, vegna tekjuskerðingar, húsnæðis, skóla og ýmiskonar þjónustu en einnig aðstoðar við það fólk til að takast á við óvissuna og áföllin. Það er erfitt að setja sig í þau spor sem íbúar Grindavíkur eru í núna en mikilsvert að hafa hugfast að áfram er óvissa, það snertir okkur öll. Það er gott að finna þann samhug sem ríkir í samfélaginu, þegar kemur að slíkum náttúruhamförum stöndum við saman.

Eitt stórt heimili

Að reka ríkissjóð er eins og að reka stórt heimili, allir á heimilinu skipta máli og allar ákvarðanir koma við íbúa landsins. Kjarasamningar á vinnumarkaði verða lausir á næstu mánuðum. Ríkið er stærsti atvinnurekandi landsins og þar á eftir eru sveitarfélög, launakostnaður eru einn stærsti útgjaldaliður í þeim rekstri. Nú ríður á að allir taki höndum saman til að bæta lífskjör, ná niður verðbólgu til að skapa aukna hagsæld fyrir alla. Það skiptir máli að ná fram langtímakjarasamningum með hógværum hækkunum, Sveitarfélögin verða því að vera með hófstilltar hækkanir á gjaldsskrám hagsmunir allra er að ná niður vaxtastiginu því þar liggur ávinningurinn. Sveitarfélögin hafa lengi barist fyrir því að varanleg lausn verði fundinn á halla sveitarfélaga á málaflokki fatlaðs fólks. Því ber að fagna að með 5. ma kr. framlagi á þessu ári og 6. ma. framlagi á næsta ári með lækkun tekjuskatts á móti hækkun á útsvari. Áfram er mikilvægt að horfa til breytilegra þarfa, halda áfram að efla uppbyggingu þjónustunnar í samtalið allar aðila er málin varða.

Treystum íslenska matvælaframleiðslu

Hér á Íslandi búum við enn þá við þá sérstöðu að matvælaframleiðsla í hefðbundnum búgreinum er rekin sem fjölskyldubú og því mikið undir. Nýliðar hafa staðið í miklum fjárfestingum í greininni síðustu ár til að bregðast við hagræðingu og nýjum reglugerðum. Við í Framsókn viljum ekki segja staðar numið við þessa aðgerð, heldur er mikilvægt að tryggja rekstrargrunn landbúnaðarins svo það sé raunverulegur kostur fyrir ungt fólk að koma inn í greinina og tryggja neytendum hér á landi heilnæma vöru.

Það er afar ánægjulegt að í fjáraukalögum fyrir árið 2023 var samþykkt að 2,1 ma. króna framlag til þeirra sem starfa við landbúnað, að tillögu starfshóps sem skipaður var til að bregðast við erfiðri stöðu bænda. Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að mæti breyttu rekstrarumhverfi í landbúnaði og því ánægjulegt að sjá að hér er verið að bregðast við þessari brýnu þörf. Þá er vert að nefna hversu mikilvert það er að finna vitundarvakningu í samfélaginu um að við þurfum að byggja undir íslenska matvælaframleiðslu. Vandi landbúnaðar varðar okkur öll og því þurfa stjórnvöld áfram að byggja undir greinina og hjálpa þannig til við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 18. desember 2023.

Categories
Fréttir

Tímamót fyrir íþróttir á Íslandi

Deila grein

18/12/2023

Tímamót fyrir íþróttir á Íslandi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ undirrituðu í dag samning um átta nýjar starfsstöðvar til eflingar íþróttastarfs á landsvísu.

Samningurinn markar tímamót fyrir íþróttir á Íslandi en á grundvelli hans mun íþróttahreyfingin koma á fót átta svæðisskrifstofum með stuðningi stjórnvalda. Svæðisskrifstofurnar munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins og ná til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land og allra iðkenda á öllum aldri.

Stofnun starfsstöðvanna átta fellur vel að áherslum og stefnu mennta- og barnamálaráðuneytisins í íþróttamálum til ársins 2030. Horft er til þess að auka íþróttaþátttöku barna og ungmenna, auka áherslu á þátttöku fatlaðra barna í íþróttastarfi, ná betur til barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er jafnframt að ÍSÍ og UMFÍ skilgreini hlutverk íþróttahéraða að nýju og meti starfsemi þeirra með það að leiðarljósi að efla hana enn frekar. Til viðbótar er horft til samlegðaráhrifa við verkefni ríkis og sveitarfélaga, s.s. samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, skólaþjónustu og æskulýðsstarf.

Tillögur um stofnun starfsstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ í haust. Auk þess að setja á laggirnar átta svæðisskrifstofur munu ÍSÍ og UMFÍ samkvæmt samningnum koma á Hvatasjóði, þar sem íþróttahéruð/félög/deildir geta sótt um stuðning við verkefni er miða t.d. að útbreiðslu íþrótta og aukinni þátttöku barna.

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun veita 400 m.kr. til verkefnisins á næstu tveimur árum. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 m.kr. af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðisskrifstofa og 70 m.kr. til Hvatasjóðs. Á hverri svæðisskrifstofu verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ við undirritun samnings

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Framsókn í 107 ár

Deila grein

16/12/2023

Framsókn í 107 ár

Það að ná mjög háum aldri er ekki sjálf­gefið, sér­stak­lega fyr­ir stjórn­mála­flokka. Í dag fögn­um við í Fram­sókn því að 107 ár eru liðin frá stofn­un flokks­ins, en flokk­ur­inn er eini stjórn­mála­flokk­ur­inn sem hef­ur fylgt ís­lensku þjóðinni sam­fleytt í meira en heila öld – og vel það. Þessi vel rúm­lega ald­ar­langa saga Fram­sókn­ar er sam­tvinnuð fram­förum á Íslandi. Heim­ur­inn hef­ur gengið í gegn­um mikl­ar breyt­ing­ar frá stofn­un flokks­ins fyr­ir 107 árum. Þannig hef­ur staða Íslands um­turn­ast til hins betra en á tíma­bil­inu fór Ísland úr því að vera fá­tækt sam­fé­lag und­ir er­lendri stjórn yfir í því að vera sjálf­stætt og full­valda ríki þar sem lífs­kjör eru með því besta sem þekk­ist á byggðu bóli.

Lengst­an part af sögu sinni hef­ur Fram­sókn verið treyst fyr­ir stjórn Íslands. Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn þess lýðræðis­sam­fé­lags sem við búum í en það að búa í frjálsu og opnu lýðræðisþjóðfé­lagi er ekki sjálf­gef­inn hlut­ur eins og fjöl­mörg dæmi í heim­in­um sanna. Það er mik­ill heiður að vera treyst fyr­ir stjórn lands­ins, en því fylg­ir einnig mik­il ábyrgð.

Grasrót flokks­ins hef­ur í gegn­um tíðina sam­an­staðið af öfl­ug­um hópi fólks sem á það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á skyn­sam­leg­ar og raun­sæj­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til að bæta sam­fé­lagið. Hið síðast­nefnda er mik­il­væg­ur eig­in­leiki í heimi þar sem við sjá­um skaut­un í stjórn­mál­um aukast til muna.

Það dylst ekki nein­um að það hef­ur gengið á ýmsu í sam­starfi nú­ver­andi stjórn­ar­flokka. Það vill hins veg­ar oft gleym­ast í umræðunni að mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í fjöl­mörg­um mála­flokk­um. Þannig hafa fjöl­mörg mál fengið fram­gang í þeim mála­flokk­um sem Fram­sókn ber ábyrgð á. Ný hús­næðis­stefna og auk­in fram­lög til mála­flokks­ins munu marka leiðina fram á við. Kröft­ug upp­bygg­ing sam­göngu­innviða, hvort sem um ræðir vegi, flug­velli eða hafn­ir, hef­ur bætt bú­setu­skil­yrði og sam­keppn­is­hæfni lands­ins alls. Rót­tæk­ar um­bæt­ur í mennta­kerf­inu hafa nú þegar og munu til lengri tíma skila ávinn­ingi. Þannig er kenn­ara­nem­um strax tekið að fjölga veru­lega eft­ir fyr­ir­sjá­an­leg­an skort, sem og nem­um í verkiðn og starfs­námi og unnið er eft­ir mennta­stefnu til árs­ins 2023. Um­gjörð menn­ing­ar­mála hef­ur verið efld veru­lega með fjöl­mörg­um aðgerðum. Rót­tæk­ar breyt­ing­ar hafa verið gerðar á mál­efn­um barna sem auka lífs­gæði þeirra og góður ár­ang­ur hef­ur náðst í að efla heil­brigðis­kerfið, til að mynda með sam­vinnu hins op­in­bera og einka­geir­ans með samn­ing­um við sér­greina­lækna sem aukið hafa aðgengi sjúk­linga að heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag svo örfá dæmi séu tek­in.

Það er gam­an og gef­andi að taka þátt í stjórn­mál­um og vinna fyr­ir landið sitt á þeim vett­vangi. Hvort sem er í sveit­ar­stjórn­um eða í lands­mál­un­um mun flokk­ur­inn halda áfram að vinna að því að gera sam­fé­lagið betra en það var í gær, með vinnu­semi og sam­vinnu­hug­sjón­ina að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2023.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Deila grein

15/12/2023

Bréf frá formanni Þingflokks Framsóknar

Kæru flokksfélagar!

Við höfum öll þörf fyrir skjól og öryggi. Að eiga traustan samastað, eiga heimili og geta farið heim. Heimili eru fjölbreytt og margskonar en eiga það sammerkt að vera griðastaður.

Mikilvæg samstaða hefur ríkt á Alþingi um að vinna að farsælum lausnum, til lengri og skemmri tíma, til að tryggja Grindvíkingum lausnir í húsnæðismálum,  afkomutryggingum tengdar svæðinu en þessi mál hafa verið sett í forgang hjá ríkisstjórninni. Mikil áhersla hefur verið lögð á það að tryggja fjölskyldum heimili áður en hátíðirnar ganga í garð.

Alþingi er nú á loka metrunum fyrir jólaleyfi. Þriðja umræða fjárlaga að ljúka, annarri umræðu bandormsins er lokið, en það frumvarp er til breytinga á ýmsum lögum fjárlaga. Þá fór önnur umræða frumvarps um skatta og gjöld fram í gær og eins er handan við hornið þriðja umræða fjáraukalaga 2023.

Af fjölmörgum góðum málum sem áunnist hafa þetta haust, vil ég sérstaklega nefna mikilvæga áfanga sem náðust fram við fjárframlög til landbúnaðar og þá sérstaklega í þá málaflokka sem styðja við nýliðun í greininni.

Við erum sjaldan minnt jafn sterkt á farsæld þess að lifa í friðsælu landi og þegar stríðsátök blossa upp. Það er ekkert sem snertir okkur á sama hátt og það skelfilega ástand og átök sem ríkja í Palestínu. Öll fordæmum við árásir á börn, konur og almenna borgara í Ísrael og Palestínu. Reglulega hafa málefni Palestínu verið rædd á Alþingi, nú síðast í gær í framhaldi af munnlegri skýrslu utanríkisráðherra, um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs.

Formaður Framsóknar, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur verið afdráttarlaus í sínum málflutningi og stefna flokksins er skýr. Við í Framsókn tölum fyrir friðarviðræðum og það gerði Sigurður Ingi þegar hann mælti fyrir hönd þingflokksins á Alþingi í vikunni. Við teljum að Ísland eigi að þrýsta á Evrópuþjóðir og Bandaríkin um að vinna að því að þessum hræðilegu árásum linni. Að stjórnvöld í Ísrael og Palestínu setjist niður og semji um frið á grundvelli tveggja ríkja lausnar. Sigurður Ingi ítrekaði að við Íslendingar getum haft bein áhrif með því að bjóða fram mannúðaraðstoð,  með því að taka á móti kvótaflóttafólki frá Palestínu og með því að bjóða fram fundarstað fyrir friðarviðræður.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi talað fyrir stuðningi í málefnum Palestínu og þar hafa verk Framsóknar verið viðamikil og mikilvæg. Steingrímur Hermannsson, þáverandi formaður Framsóknar, var fyrsti utanríkisráðherra Íslands til að taka undir málstað Palestínumanna með afgerandi hætti og gagnrýni á framkomu Ísraelsmanna.

Mátti sjá þess stað í kjölfar harkalegra viðbragða Ísraela við uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum sem braust út í lok árs 1987. Steingrímur tók þá stefnu að fylgja ekki Bandaríkjunum að öllu leyti og talaði fyrir að Íslendingar ættu að berjast fyrir friði og gegn öllu ofbeldi. Um sögulega afstöðu í utanríkisstefnu þjóðarinnar var að ræða. Enginn utanríkisráðherra Íslands eða annar íslenskur ráðherra hafði áður gagnrýnt Ísraela jafn harkalega. Steingrímur var skýr með að eðlilegt væri að Palestínumenn fengju yfirráð yfir Vesturbakkanum og fengju að stofna þar ríki. Átti hann síðar eftir, eða árið 1990, að eiga tvíhliða fund með leiðtoga PLO, Yasser Arafat, þá í embætti forsætisráðherra.

Síðar átti Halldór Ásgrímsson, þáverandi formaður Framsóknar, eftir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. En eftir að Halldór tók við embætti utanríkisráðherra 1995 greiddu íslensk stjórnvöld á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipti atkvæði með ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna. Halldór talaði hreint út fyrir stofnun ríkis Palestínu, svo að Palestínumenn skyldu öðlast full yfirráð yfir eigin landsvæðum, í því augnamiði að leysa átökin. Halldór tók því í raun fyrsta alvöru skrefið að viðurkenningu Íslands á ríki Palestínumanna sem varð loks raunin árið 2011.

Mér þykir rétt að halda þessum staðreyndum til haga. Forystumenn Framsóknar hafa í gegnum tíðina haft frumkvæði að því að hitta og hlusta á forystumenn Palestínu. Verk og afstaða Framsóknar hafa verið heilladrjúg skref til að draga fram skýr sjónarmið Íslands. Þingflokkurinn hefur síðar áréttað afstöðu sína með yfirlýsingu frá 2021, þar sem árásir ísraelska hersins á Palestínumenn á Gaza ströndinni eru harðlega fordæmd. Þar sem fórnarlömbin eru óbreyttir borgarar, konur og börn. Glæpur gegn mannúð er aldrei réttlætanlegur, það er mannúðarmál að fá að lifa og búa við öryggi, það er forsenda farsældar.

Ég vil að lokum þakka ykkur öllum fyrir viðburðaríkt og skemmtilegt ár í lifandi flokksstarfi Framsóknar. Það er þingflokknum, eins og áður, mjög mikilvægt að eiga í sem bestu sambandi við ykkur í grasrót flokksins. Ég fullyrði enn og aftur að fáir flokkar standa að svo öflugu baklandi eins og við í Framsókn.

Vil ég fyrir hönd þingflokksins óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, 2024!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen