Categories
Greinar

Nú er öldin önnur

Deila grein

20/11/2020

Nú er öldin önnur

Við megum vera þakklát fyrir að lifa á árinu 2020, einhverjir eru ekki sammála mér um að árið 2020 sé endilega gott ár og það er ég heldur ekki að segja. En farsóttir hafa áður gengið yfir heimsbyggðina, við getum verið þakklát fyrir að það sé ekki árið 1918 þegar spænska veikinn gekk yfir Ísland. Í spænsku veikinni létust um 490 Íslendingar fólk á öllum aldri. Vanmáttugt heilbrigðiskerfi ásamt því að lyf og sóttvarnarráðstafanir voru að skornum skammti.

Sóttvörnum sem þá var beitt var meðal annars að setja á samgöngubann milli landshluta, bæði þekking og úrræði voru veik. Þegar leið á farsóttina var það gagnrýnt að almennir samkomustaðir hafi ekki verið lokaðir þegar í byrjun farsóttarinnar. Í dag árið 2020 höfum við meiri þekkingu og reynslu, ásamt tækninýjungum sem hjálpar okkur að berjast við hinn ósýnilega vágest.

Tækninýjungar og þétt samfélag

Fyrir réttri öld var auðvelt að beita þeirri aðferð að stöðva ferðir fólks milli landshluta og einhver samfélög fóru í sjálfskipaða sóttkví til að varna því að sjúkdómurinn næði inn. Í dag er erfiðra að nota þá aðferð þar sem samfélagsgerðin er ólík. En hún kallar á aðrar leiðir.

Smitrakningarappið er ein af þeim tækninýjungum sem við höfum nýtt okkur í baráttunni við dreifingu kórónuverunnar. Það voru íslensk fyrirtæki og forritarar frá íslenskri erfðagreiningu sem buðu fram aðstoð sýna við uppbyggingu forritsins án endurgjalds. Það ber að þakka. Þessi íslenska uppfinning hefur komið sér vel við að rekja smitleiðir og mögulega komið í veg fyrir einhver hópsmit sem og varpað ljósi á þá snertifleti veirunnar sem annars hefði tekið drjúgan tíma að finna.

Smitrakningarteymi almannavarna hefur unnið mikið og þarft verk við að greina og finna ferðir veirunnar um samfélagið og stjórnvöld hafa brugðist við með snöggum hætti með að setja upp varnir sem hafa sýnt að duga. Þó er það alltaf einstaklingurinn sem ber mesta ábyrgð við að halda niðri útbreiðslu sjúkdómsins. Það hefur gengið alla vega að fara eftir tilmælum en heilt yfir stöndum við okkur vel.

Við skrifum söguna

Atferli okkar og viðbrögð skrifa söguna og með hverjum degi aukum við þekkingabrunninn sem kynslóðir framtíðar leita í, í sínum verkefnum. Það er erfitt að segja nákvæmlega til um hvort við höfum brugðist rétt við í öllum þeim áskorunum sem við höfum staðið fyrir í þessu faraldri. En við erum að gera okkar besta.

Sóttvarnir og einstaklingsfrelsið

Nokkrir hafa stigið fram og mótmælt sóttvarnarráðstöfum stjórnvalda. Telja það sé verið að hefta einstaklingsfrelsið og það sé einfaldlega hægt að beina vörnum einungis að viðkvæmum hópum en aðrir geti um frjálst höfuð strokið í samfélaginu. Frelsið er yndislegt en því fylgir ábyrgð. Hvað með frelsi þess hóps sem telja má til viðkvæmra hópa í samfélaginu? Því hafa frjálshyggjupostularnir ekki svarað. Með þeirra hugmyndum yrði frelsi þess hóps ekkert auk þess sem líkur eru á að okkar góða heilbrigðiskerfi standist ekki þá raun og þá á eftir að sinna öðrum sjúkdómum og slys sem tíðkast samhliða heimsfaraldrinum.

Hvernig við högum okkur hvert og eitt í sóttvörnum er mikilvægt í þessari baráttu. En ábyrgð okkar í stjórnsýslunni er ekki síður mikilvæg og því ættum við haga orðræða okkar í samræmi við það.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Minnumst myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens

Deila grein

19/11/2020

Minnumst myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens

Íslensk-danski mynd­höggv­ar­inn Bertel Thor­vald­sen var einn þekkt­asti listamaður Evr­ópu um sína daga og hlotnaðist á langri ævi nán­ast hver sá heiður sem lista­manni get­ur fallið í skaut. Í dag, 19. nóv­em­ber, eru 250 ár liðin frá fæðingu hans. Af því til­efni er ærin ástæða til að minn­ast veg­lega þessa stór­merka mynd­höggv­ara hér á landi bæði vegna upp­runa hans og rækt­ar­semi sem hann sjálf­ur sýndi „Íslandi, ætt­ar­landi sínu“.

Bertel sótti inn­blást­ur til klass­ískr­ar mynd­list­ar Forn-Grikkja og Róm­verja og er tal­inn einn helsti full­trúi nýklass­íska stíls­ins í högg­myndal­ist ásamt hinum ít­alska Ant­onio Canova. Thor­vald­sen var lengst af bú­sett­ur í Róm og vann þar meðal ann­ars verk fyr­ir páfann, Napó­leon og marg­ar af kon­ungs­fjöl­skyld­um álf­unn­ar. Er hann eini mynd­höggv­ar­inn sem á verk í Pét­urs­kirkj­unni í Róm sem er ekki kaþólsk­ur. Finna má verk Thor­vald­sens um all­an heim, ým­ist í söfn­um, kirkj­um eða ut­an­dyra. Thor­vald­sen-safnið í Kaup­manna­höfn varðveit­ir verk Bertels Thor­vald­sens og held­ur minn­ingu hans á lofti. Er listamaður­inn jarðsett­ur í garði safns­ins.

Fagnað sem þjóðhetju

Bertel Thor­vald­sen fædd­ist í Kaup­manna­höfn árið 1770 og ólst þar upp. Faðir hans, Gott­skálk Þor­valds­son, prests­son­ur úr Skagaf­irði, var fædd­ur árið 1741. Fór hann ung­ur til iðnnáms í Kaup­manna­höfn og lærði myndsk­urð í tré og vann síðar við að skera út stafn­mynd­ir á skip og höggva í stein. Móðir Bertels hét Kar­en Dagnes, fædd á Jótlandi 1735 þar sem faðir henn­ar var djákni. Þau hjón­in bjuggu við frek­ar þröng­an kost en snemma komu list­ræn­ir hæfi­leik­ar einka­son­ar­ins í ljós og hóf hann nám við Kunstaka­demiet eða Kon­ung­lega lista­há­skól­ann í Kaup­manna­höfn árið 1781, aðeins 11 ára að aldri, og lauk þar námi árið 1793. Hlaut hann fjölda verðlauna og viður­kenn­inga fyr­ir verk sín, meðal ann­ars ferðastyrk sem gerði hon­um kleift að fara til Róm­ar árið 1796. Borg­in var þá há­borg menn­ing­ar og lista og bjó Thor­vald­sen þar við góðan orðstír allt til árs­ins 1838 er hann flutti aft­ur til Dan­merk­ur og var hon­um þá fagnað sem þjóðhetju.

Eft­ir­sótt­asti mynd­höggv­ari Evr­ópu

Bertel Thor­vald­sen gerði rúm­lega 90 frístand­andi högg­mynd­ir, tæp­lega 300 lág­mynd­ir og yfir 150 brjóst­mynd­ir auk mik­ils fjölda af teikn­ing­um, skiss­um og mód­el­um. Í safni Thor­vald­sens eru varðveitt­ar upp­runa­leg­ar gifs­mynd­ir af flest­um verka hans, en þar má einnig sjá mörg verk hans höggv­in í marm­ara eða steypt í brons. Thor­vald­sen varð á sín­um tíma einn eft­ir­sótt­asti mynd­höggv­ari Evr­ópu og fékk pant­an­ir frá kon­ungs­hirðum og aðals­fólki víðs veg­ar að. Mörg helstu verka hans sækja efnivið sinn og fyr­ir­mynd­ir í grísk-róm­verska goðafræði og kenn­ing­ar Winckel­manns og Less­ings um yf­ir­burði grískr­ar klass­ískr­ar högg­myndal­ist­ar þar sem lögð var áhersla á hrein­leika marm­ar­ans og full­komn­un forms­ins.

Fjöldi verka á Íslandi

Í Reykja­vík eru þrjár bronsaf­steyp­ur af verk­um Thor­vald­sens í al­manna­rými auk þess sem þrjú verka Thor­vald­sens höggv­in í marm­ara eru í op­in­berri eigu. Í kirkju­görðum lands­ins má sjá lág­mynd­ir Thor­vald­sens á fjöl­mörg­um leg­stein­um og í söfn­um lands­ins eru varðveitt­ar ýms­ar eft­ir­gerðir af vin­sæl­ustu verk­um hans. Nálg­ast má upp­lýs­ing­ar um verk Bertels Thor­vald­sens á ís­lensk­um söfn­um á vefn­um sarp­ur.is. Ekk­ert verk Thor­vald­sens hef­ur enn verið sett upp úti við á slóðum ætt­menna hans í Skagaf­irði þó að sú til­laga hafi verið bor­in upp. Til að heiðra minn­ingu hins mikla lista­manns væri ekki úr vegi að koma því í verk, „í rækt­ar­skyni“ eins og hann sjálf­ur orðaði það þegar hann gaf Dóm­kirkj­unni í Reykja­vík skírn­ar­font eft­ir sig árið 1827. Það má líka með sanni segja að rekja megi hina list­rænu æð Thor­vald­sens til Íslands að hluta en ævi­starf hans varpaði skær­um ljóma á danska kon­ungs­ríkið.

Höf­und­ur er for­seti Norður­landaráðs og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins. silja­dogg@alt­hingi.is

Categories
Greinar

Fjár­fest í heilsu íbúa Norður­landanna

Deila grein

18/11/2020

Fjár­fest í heilsu íbúa Norður­landanna

Fyrr á árinu birti norræna rannsóknastofnunin NordForsk skýrsluna The Nordic Commons, sem er sýn um örugga stafræna innviði heilsufarsgagna. Í skýrslunni er lögð til innleiðing í skrefum við að safna saman heilsufarsgögnum í hverju landanna fyrir sig. Það myndi síðan opna á stækkunarmöguleika fyrir Norðurlöndin sem heild, þar sem auðveldara væri að greina og deila gögnum sem tekin yrðu saman og þau greind sameiginlega til að gera Norðurlöndin samkeppnishæfari á þessu sviði.

Skilvirkt og gegnsætt ferli

Norræna rannsóknastofnunin NordForsk, styrkir rannsóknarsamstarf á landsbundnum áherslusviðum þar sem norrænir rannsóknarhópar starfa saman til að ná sameiginlegum virðisauka. NordForsk vinnur náið með alþjóða rannsóknarfjárfestum við útboð á rannsóknarsamvinnuverkefnum. Til þess að bjóða út rannsóknarstyrki verður alltaf að vera aukafjárfesting frá að lágmarki þremur norrænum löndum eða tveimur löndum og eitt af sjálfstjórnarsvæðunum Færeyjum, Grænlandi eða Álandseyjum. NordForsk getur aldrei lagt meira en 1/3 til af fjárhagsáætlun í hverju útboði. Það sem upp á vantar, 2/3 koma frá þjóðarframlagi. Árangur NordForsk fer eftir góðri samvinnu milli stofnunarinnar og þjóðarfjárfestum ásamt því að þeir hafi áhuga á samvinnu þvert á Norðurlöndin. Til þess að svo sé verður NordForsk að vera viðeigandi á hverjum tíma ásamt því að vera skilvirkt og gegnsætt í sínum ferlum.

Ryðja þarf hindrunum úr vegi

Norðurlöndin eru framarlega á heimsvísu á sviði heilbrigðisrannsókna og hafa möguleika á að verða leiðandi á ákveðnum sviðum eins og í sérsniðnum lyfjum. Í slíkum rannsóknum er nýst við heilsufars- og lífsýnagögn sem mikið er til af í norrænu löndunum. Samt sem áður eru hindranir sem gera norrænum vísindamönnum erfitt fyrir að nýta sér þennan möguleika til fullnustu til þess að geta orðið leiðandi á heimsvísu. Reyndin er sú að það er erfitt að fá heilsufarsupplýsingar út úr skrám í hverju landi og það er erfitt að nota gögn þvert á landamæri. Heilsufarsupplýsingar eru mjög viðkvæmar og því er mikilvægt að tryggja persónuverndina. Öll norrænu löndin hafa löggjöf og vinnureglur sem gera rannsóknarfólki erfitt fyrir að nálgast þessar upplýsingar, deila þeim eða stunda samstarf þvert á landamæri.

Stjórnmálamenn þurfa að stíga skrefið

Stjórnmálamenn og gagnaeigendur á Norðurlöndunum ættu að vinna betur saman við að gera notkun heilsufarsupplýsinga auðveldari í norrænum verkefnum. Í dag eru til góðar tæknilausnir sem gerir samstarfið vel gerlegt án þess að persónuverndinni sé ógnað. Það er þetta viðfangsefni sem Nordic Commons-skýrslan, sem kom út fyrr á árinu, setur fram í dagsljósið. Norræna ráðherranefndin hefur nú veitt í kringum 300 milljónum íslenskra króna til að fylgja skýrslunni eftir og er okkar von að í kjölfarið verðum við duglegri á Norðurlöndunum við að vinna saman með heilsufarsupplýsingar. Til þess að við náum árangri með það verða stjórnmálamenn í norrænu löndunum að stíga skrefið og sýna vilja til samstarfs með því að taka ákvarðanir sem gerir það löglegt og einfalt að deila og vinna saman með heilsufarsupplýsingar til að stunda rannsóknir sem gagnast öllum íbúum landanna.

Silja Dögg Gunnarsdóttir og Arne Flåøyen

Höfundar eru forseti Norðurlandaráðs og framkvæmdastjóri NordForsk.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Deila grein

17/11/2020

Þrautseigja og þekking, hugrekki og hamingja

Eng­inn kemst á áfangastað nema vita hvert ferðinni er heitið! Skýr mark­mið eru for­senda þess að ár­ang­ur ná­ist. Við gerð nýrr­ar mennta­stefnu hafa þau sann­indi verið höfð að leiðarljósi. Ég mun í dag mæla fyr­ir þings­álykt­un um mennta­stefnu til árs­ins 2030. Það er mín von að þing­heim­ur verði sam­stiga í því brýna sam­fé­lags­verk­efni að varða mennta­veg­inn inn í framtíðina.

Meg­in­mark­miðið er að tryggja Íslend­ing­um framúrsk­ar­andi mennt­un alla ævi. Stefn­an bygg­ist á fimm stoðum, sem sam­an mynda traust­an grunn til að byggja á. Við vilj­um 1) jöfn tæki­færi fyr­ir alla, 2) að kennsla verði í fremstu röð, 3) að nem­end­ur öðlist hæfni fyr­ir framtíðina, 4) að vellíðan verði í önd­vegi í öllu skóla­starfi og 5) gæði í for­grunni. Und­ir stoðunum fimm hafa 30 áhersluþætt­ir verið skil­greind­ir, sem eiga að skapa öfl­ugt og sveigj­an­legt mennta­kerfi – kerfi sem stuðlar að jöfn­um tæki­fær­um til náms, enda geta all­ir lært og all­ir skipta máli. Verði þings­álykt­un­ar­til­lag­an samþykkt verður unn­in aðgerðaáætl­un með ár­ang­urs­mæli­kvörðum til þriggja ára í senn, sem met­in verður ár­lega.

Mennta­stefn­an var unn­in í víðtæku sam­ráði, með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu. Stefnu­mót­un­in byggðist m.a. á efni og umræðum á fund­um með skóla­fólki og full­trú­um sveit­ar­fé­laga um allt land, sam­ræðum á svæðisþing­um tón­list­ar­skóla, sam­starfi við for­eldra, börn og ung­menni, at­vinnu­líf, Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ina (e. OECD) og fleiri hags­munaaðila. Stefnu­drög fengu já­kvæð viðbrögð í sam­ráðsgátt stjórn­valda, þaðan sem gagn­leg­ar ábend­ing­ar bár­ust og voru þær m.a. notaðar til að þétta stefn­una og ein­falda fram­setn­ing­una. Fyr­ir vikið er text­inn aðgengi­leg­ur og skýr, sem er ein af for­send­um þess að all­ir hlutaðeig­andi skilji hann á sama hátt og sam­mæl­ist um mark­miðin.

Mennt­un er lyk­ill­inn að tæki­fær­um framtíðar­inn­ar. Hún er eitt helsta hreyfiafl sam­fé­laga og á tím­um fá­dæma um­skipta, óvissu og örra tækni­bylt­inga verða þjóðir heims að búa sig und­ir auk­inn breyti­leika og sí­fellt flókn­ari áskor­an­ir. Framtíðar­horf­ur ís­lensku þjóðar­inn­ar velta á sam­keppn­is­hæfni og sjálf­bærni ís­lenska mennta­kerf­is­ins. Vel­gengni bygg­ist á vel menntuðum ein­stak­ling­um með skap­andi og gagn­rýna hugs­un, fé­lags­færni og góð tök á ís­lensku og er­lend­um tungu­mál­um til að tak­ast á við hnatt­ræn­ar áskor­an­ir.

Mennt­un styrk­ir, vernd­ar og efl­ir viðnámsþrótt ein­stak­linga og sam­fé­laga. Með mennta­stefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslend­inga til eig­in mennt­un­ar með vaxt­ar­hug­ar­far að leiðarljósi. Þekk­ing­ar­leit­inni lýk­ur aldrei og mennt­un, form­leg sem óform­leg, er viðfangs­efni okk­ar allra, alla ævi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Von kviknar með bóluefni

Deila grein

15/11/2020

Von kviknar með bóluefni

Það tók fær­ustu vís­inda­menn heims níu ár að þróa bólu­efni gegn misl­ing­um, eft­ir að veir­an sem olli sjúk­dómn­um var ein­angruð um miðja síðustu öld. Til­raun­ir og rann­sókn­ir með bólu­efni gegn löm­un­ar­veiki stóðu í 20 ár, áður en fyrsta leyfið var gefið út í Banda­ríkj­un­um árið 1955. Í því sam­hengi þykir krafta­verki lík­ast að bólu­efni gegn Covid-19 sé vænt­an­legt inn­an fárra vikna, rúm­lega ári eft­ir að fyrstu frétt­ir bár­ust af dul­ar­full­um veiru­sjúk­dómi sem síðar varð að heims­far­aldri. Bólu­efnið virðist jafn­framt vera óvenju öfl­ugt og rann­sókn­ir sýna virkni langt um­fram vænt­ing­ar.

Eng­inn hef­ur áður bólu­sett heims­byggðina

Frétt­irn­ar hafa sann­ar­lega blásið heims­byggðinni bjart­sýni í brjóst og nú þykir raun­hæft að sigr­ast á sjúk­dómn­um sem kostað hef­ur 1,3 millj­ón­ir manns­lífa. Sig­ur í þeirri bar­áttu er þó ekki unn­inn og næstu mánuðir verða erfiðir. Frek­ari rann­sókn­ir og gagna­söfn­un er nauðsyn­leg, sem von­andi styður við fyrstu niður­stöður af töfra­efn­inu góða. Í fram­hald­inu þarf að fram­leiða efnið í mikl­um mæli, dreifa því og bólu­setja svo til sam­tím­is heims­byggðina alla. Slíkt hef­ur ekki verið gert áður.

Var­fær­in bjart­sýni en mik­il áhrif á fjár­mála­markaði

Viðbrögðin við bólu­efna-frétt­un­um voru mik­il, þótt ýms­ir hafi hvatt til var­fær­inn­ar bjart­sýni. Þýsk-tyrk­nesku hjón­in sem leiða vís­inda­starfið fögnuðu frétt­un­um með bolla af tyrk­nesku tei og áréttuðu af yf­ir­veg­un, að enn væri mikið starf óunnið. Fjár­mála­markaðir tóku hins veg­ar hressi­lega við sér og verðbréfa­vísi­töl­ur sveigðust bratt upp á við. Hluta­bréf hækkuðu mikið í fyr­ir­tækj­um sem verst hafa orðið úti í heims­far­aldr­in­um – t.d. flug- og ferðafé­lög­um – og já­kvæðir straum­ar kvísluðust um allt sam­fé­lagið, meðal ann­ars inn í hag­vaxt­ar­spá Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD). Nú spá­ir stofn­un­in því að hag­vöxt­ur á næsta ári verði 7%, eða 2% hærri vegna til­komu bólu­efn­is­ins, eft­ir sögu­leg­an sam­drátt, með til­heyr­andi at­vinnum­issi sem von­andi snýst við á ár­inu 2021.

Mark­viss viðbrögð og varn­ar­sig­ur

Þegar óheilla­ald­an skall á Íslandi sl. vet­ur mátti öll­um vera ljóst að framund­an væru mikl­ir erfiðleik­ar. Þúsund­ir starfa töpuðust og stönd­ug­ur rík­is­sjóður þurfti að taka á sig dæma­laus­ar byrðar til að tryggja inn­lenda hag­kerf­inu súr­efni. Sum­ir báru þá fals­von í brjósti að ástandið myndi aðeins vara í nokkr­ar vik­ur, en eins og ég nefndi í sam­tali við Morg­un­blaðið í byrj­un apríl hlaut bólu­efni að vera for­senda þess að opnað væri fyr­ir flæði fólks til og frá land­inu. Viðbrögðin við viðtal­inu voru sterk og ein­hverj­um þótti óvar­lega talað af minni hálfu, þótt veru­leik­inn blasti við öll­um og spá­in hefði síðar raun­gerst.

Til­raun­ir stjórn­valda til að örva ís­lenska hag­kerfið hafa heppn­ast vel. Um­fangs­mik­ill stuðning­ur við fólk og fyr­ir­tæki hef­ur minnkað höggið af niður­sveifl­unni og fjár­mun­ir sem áður fóru úr landi verið notaðir inn­an­lands. Versl­un af ýmsu tagi hef­ur blómstrað, spurn eft­ir þjón­ustu iðnaðarmanna verið sögu­lega há og hreyf­ing á fast­eigna­markaði mik­il. Inn­lend fram­leiðsla hef­ur gengið vel og með aukn­um op­in­ber­um fjár­veit­ing­um til ný­sköp­un­ar­verk­efna, menn­ing­ar og lista hef­ur fræi verið sáð í frjó­an svörð til framtíðar. Krefj­andi og for­dæma­laus­ir tím­ar hafa því ekki ein­göngu verið nei­kvæðir, þótt vissu­lega eigi marg­ir um sárt að binda vegna at­vinnum­issis, veik­inda og jafn­vel dauðsfalla af völd­um veirunn­ar. Hug­ur minn er hjá þeim og ég vona að viðsnún­ing­ur­inn sem blas­ir nú við færi þeim gæfu.

Ísland hef­ur tryggt sér bólu­efni

Bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna er ekki lokið. Öll hag­kerfi heims­ins eru löskuð eft­ir ár mik­illa efna­hags­áfalla. Þjóðir heims munu því keppa sem aldrei fyrr um hylli frum­kvöðla, fjár­festa og ferðamanna, þar sem mark­miðið er að skapa vel­sæld fyr­ir þegn­ana. Fremst í verk­efnaröðinni er þó að tryggja heil­brigði fólks, sem er for­senda þess að líf fær­ist aft­ur í fyrri skorður. Líkt og ann­ars staðar er und­ir­bún­ing­ur bólu­setn­ing­ar haf­inn hér­lend­is, þar sem for­gangs­hóp­ar hafa verið skil­greind­ir og skipu­lag er í vinnslu. Ísland hef­ur tryggt sér aðgang að of­an­greindu bólu­efni, en jafn­framt verður áhuga­vert að fylgj­ast með þróun tveggja til þriggja annarra bólu­efna sem eru álíka langt kom­in í þró­un­ar­ferl­inu og efnið sem vakið hef­ur at­hygli und­an­farna daga.

Mesta öldu­rótið er næst landi

Á und­an­förn­um níu mánuðum hef­ur þjóðin sýnt mikla seiglu og sam­hug. Sigl­ing­in hef­ur verið löng og ströng, en nú sjá­um við til lands og get­um leyft okk­ur að líta björt­um aug­um fram á við. Við slík­ar aðstæður er brýnna en orð fá lýst að halda ein­beit­ing­unni, enda veit fiskiþjóðin að brimið er mest næst landi – þar sem blindsker geta gatað þjóðarskút­una og valdið ómældu tjóni ef ekki er farið var­lega. Það lát­um við ekki ger­ast, held­ur ætl­um við að standa sam­an og muna að leik­inn þarf að spila til enda.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Loksins, loksins!

Deila grein

12/11/2020

Loksins, loksins!

Það er tákn­rænt að á­kvörðun um mikil­væg skref við upp­byggingu nýs þjóðar­leik­vangs skuli liggja fyrir á sama tíma og þjóðin heldur í sér andanum vegna stór­leiksins í Ung­verja­landi í kvöld. Hvort tveggja markar tíma­mót – vatna­skil sem í­þrótta­fólk og -unn­endur hafa beðið eftir.

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja formlegar viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref í undirbúningsferlinu. Meðal annars þarf að semja um fyrirkomulag útboðs á helstu verkþáttum, verkefnisstjórn, hönnun, eignarhald og fjármögnun. Ég er bjartsýn á góða lendingu og að leikvangur 21. aldarinnar rísi innan fárra ára.

Lengi hefur verið ljóst að reisa þyrfti keppnisaðstöðu sem stæðist alþjóðlegar kröfur. Undanfarin 63 ár hefur Laugardalsvöllur fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og þar hafa landsliðin okkar náð undraverðum árangri. Um árabil hefur völlurinn hins vegar þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum, með ærnum tilkostnaði. Völlurinn uppfyllir til dæmis ekki viðmið um aðgengi fatlaðs fólks, aðstöðu og öryggi vallargesta, leikmanna, dómara og fjölmiðla. Hann er barn síns tíma og það er tímabært að blása til sóknar.

Það er fagnaðarefni að málið sé loksins komið á hreyfingu og nú skuli hilla undir nýjan leikvang. Starfshópur hefur skilað greiningu á ólíkum sviðsmyndum, kostum, göllum, ávinningi og áhættu af ólíkum leiðum. Niðurstaðan er sú að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni með tilliti til nýtingar og fleiri þátta. Nú þurfa stjórnvöld og Reykjavíkurborg að tækla verkefnið með ákveðni og af stórhug, spila sóknarleik og klára færið.

Tími innviðafjárfestinga er runninn upp og því eru spennandi tímar fram undan. Við blásum til stórsóknar! Nýr þjóðarleikvangur mun ekki einungis þjóna landsliðum okkar heldur einnig íslenskum félagsliðum og samfélaginu öllu. Við sjáum fyrir okkur nýjan og glæsilegan vettvang fyrir fótboltaleiki, sýningar, viðburði og tónleikahald. Áfram Ísland!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birist fyrst í Fréttablaðinu 12. nóvember 2020.

Categories
Greinar

For­sendu­brestur tolla­samninga

Deila grein

09/11/2020

For­sendu­brestur tolla­samninga

Ferðamönnum til Íslands hefur fækkað stórlega með tilkomu Covid 19. Hótel og matsölustaðir standa tómir, samdráttur í ferðaþjónustu hefur víða áhrif. Blikur eru á lofti í íslenskum landbúnaði, mun minni sala hefur verið á íslenskum landbúnaðarvörum en í venjulegu árferði. Um er að ræða gríðarlegan samdrátt á markaði en það að er ekki það eina, fyrirséð útganga Breta úr Evrópusambandinu mun hafa áhrif á inn- og útflutning á landbúnaðarvörum sem leiðir til forsendubrests tollasamninga við Evrópusambandið.

Tollasamningur við ESB

Tollasamningur Íslands við ESB hefur stóraukið framboð á innfluttum landbúnaðarvörum, afleiðingar af því hefur verið lækkandi verð til bænda ásamt því að biðtími eftir slátrun hefur aukist þar sem of mikið magn af kjöti hefur verið flutt inn. Því miður hefur lækkandi verð til bænda ekki skilað sér til neytenda í formi lægra vöruverðs. Ísland veitir tollfrjálsa kvóta fyrir um 11-12 kg pr. íbúa af landbúnaðarvörum, en á móti fær Ísland ca. 0.02 kg pr. íbúa Evrópusambandsins. Ekki er hægt að sjá að þessi samningur mjög hagstæður fyrir íslenskan landbúnað. Gríðarleg aukning hefur verið á tollkvótum fyrir ferskt og frosið nauta-, svína, og alifuglakjöt eða úr 650 tonnum í 2600 tonn, á móti hefur tollkvóti Íslands til ESB fyrir lambakjöt aukist úr 1850 tonnum í 3000 tonn.

Áhrif Brexit á samninginn

Síðastliðin ár hefur verið meiri útflutningur á lambakjöti og ostum til Bretlands en allra annara landa innan ESB. Meira en helmingur alls útflutnings á kindakjöti til ESB hefur farið á Bretlandsmarkað. Með útgöngu Breta af Evrópumarkaði þá eru samningsforsendur algjörlega brostnar. Þeir takmörkuðu tollkvótar sem samið var um fyrir íslenskar vörur á Evrópumarkaði munu ekki nýtast eins og til stóð, það hlýtur að teljast sem alvarlegur forsendubrestur. Það verður að endurskoða tollasamninga, ekki er hægt að hafa þá óbreytta samhliða því að þurfum svo að semja aukalega við Bretland til viðbótar við þá tollkvóta sem nú eru til staðar.

Afkomubrestur ef ekki er brugðist við

Ef ekkert er að gert þá er nokkuð víst að samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu muni versna ásamt því að innlend framleiðsla mun dragast saman. Fyrirséð er að afkomubrestur í greininni muni hafa mikil og varanleg áhrif á íslenskan landbúnað. Það er því brýn nauðsyn að endurskoða tollasamninga við Evrópusambandið ásamt því að grípa til annara nauðsynlegra aðgerða. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem afurðarstöðvum í kjötiðnaði er veitt undanþága frá samkeppnislögum og þeim heimilað að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu ásamt því að hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Í Noregi eru bændur og afurðarstöðvar með undanþágur frá samkeppnislögum, það ætti því að vera sjálfsagt að veita þessar undanþágur hérlendis.

Það er nauðsynlegt í ljósi aðstæðna að grípa til aðgerða strax til þess að koma í veg fyrir tjón og tryggja hagsmuni íslenskra bænda. Þá þurfum við ávallt og alla daga að vinna að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar, með því erum við einnig að teysta atvinnu í landinu. Það hlýtur að vera markmið í sjálfur sér að tryggja fæðuöryggi og skapa atvinnu, þannig vinnum við saman. Áfram veginn.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Þingflokks Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Nýtum tímann og finnum leiðir

Deila grein

08/11/2020

Nýtum tímann og finnum leiðir

Fram­halds­skól­ar hafa starfað með óhefðbundnu sniði frá því sam­komutak­mark­an­ir voru fyrst boðaðar í mars. Fjöl­breytni skól­anna krist­all­ast í áskor­un­um sem skóla­stjórn­end­ur, kenn­ar­ar og nem­end­ur mæta á hverj­um stað, allt eft­ir því hvort um bók- eða verk­náms­skóla er að ræða, fjöl­brauta­skóla eða mennta­skóla með bekkja­kerfi. Aðstæður eru mis­mun­andi, en í gróf­um drátt­um hef­ur verk­legt nám farið fram í staðkennslu en bók­legt nám al­mennt í formi fjar­kennslu. Marg­ir skól­anna hafa breytt náms­mati sínu, með auk­inni áherslu á símat en minna vægi loka­prófa, og sýnt mikla aðlög­un­ar­hæfni. Með henni hef­ur tek­ist að tryggja mennt­un og halda nem­end­um við efnið, þótt aðstæður séu svo sann­ar­lega óhefðbundn­ar.

Allt frá því að far­ald­ur­inn braust út hef ég verið í mikl­um sam­skipt­um við skóla­stjórn­end­ur, full­trúa kenn­ara og ekki síst fram­halds­skóla­nema. Af sam­töl­um við nem­end­ur má ráða að þeirra heit­asta ósk sé að kom­ast í skól­ann sinn og efla sinn vits­muna- og fé­lagsþroska sam­hliða nám­inu. Hér skal tekið fram, að marg­ir hafa náð góðum tök­um á fjar­nám­inu og því ekki farið á mis við náms­efnið sjálft, en fé­lags­lega hliðin hef­ur visnað og nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag er að mínu mati ekki sjálf­bært. Það tek­ur hressi­leg­an takt­inn úr dag­legu lífi unga fólks­ins, eyk­ur lík­urn­ar á fé­lags­legri ein­angr­un, and­legri van­líðan og skap­ar jafn­vel spennu í sam­skipt­um þeirra við for­eldra.

Sótt­varn­a­regl­ur veita skóla­stjórn­end­um lítið svig­rúm, en við ætl­um að nýta tím­ann vel og lenda hlaup­andi um leið og tæki­færi gefst til auk­ins staðnáms. Í því sam­hengi höf­um við skoðað ýms­ar leiðir, fundað með land­lækni og sótt­varna­lækni um horf­ur og mögu­leg­ar lausn­ir, kannað hvort leiga á viðbót­ar­hús­næði myndi nýt­ast skól­un­um – t.d. ráðstefnu­sal­ir, kvik­mynda- og íþrótta­hús sem nú standa tóm – og hvernig megi tryggja stöðug­leika í skóla­starf­inu óháð Covid-sveifl­um í sam­fé­lag­inu. Þeirri vinnu ætl­um við að hraða og styðja skóla­stjórn­end­ur með ráðum og dáð. Öllum hug­vekj­andi til­lög­um má velta upp, hvort sem þær snúa að tví­setn­ingu fram­halds­skól­anna, vakta­fyr­ir­komu­lagi í kennslu eða nýt­ingu grunn­skóla­hús­næðis sem er vannýtt hluta dags­ins.

Í gömlu lagi seg­ir að fátt sé svo með öllu illt að ei boði gott – að finna megi út úr öllu ánægju­vott. Þannig sýna mæl­ing­ar fram­halds­skól­anna að brott­hvarf sé minna nú en oft áður. Að verk­efna­skil og und­ir­bún­ing­ur fyr­ir próf gangi vel. Að nem­end­ur sem ekki kom­ast úr húsi sofi meira og hvíl­ist bet­ur en fé­lags­lynd­ir fram­halds­skóla­nem­ar gera að öllu jöfnu. Slík­ar frétt­ir eru góðar en breyta ekki þeirri staðreynd að fé­lags­starf og sam­skipti við aðra er órjúf­an­leg­ur þátt­ur í góðri mennt­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. – liljaa@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Kristallar norrænan virðisauka

Deila grein

06/11/2020

Kristallar norrænan virðisauka

Það var veru­lega ánægju­legt að frétta af því á dög­un­um að rann­sókn­ar­hóp­ur und­ir for­ystu Unn­ar Önnu Valdi­mars­dótt­ur, pró­fess­ors í lýðheilsu­vís­ind­um við Há­skóla Íslands, hlaut 150 millj­óna króna styrk frá nor­rænu rann­sókna­stofn­un­inni Nor­d­Forsk, til rann­sókn­ar sem teng­ist áhrif­um kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins á geðheilsu í hinum fjór­um nor­rænu ríkj­un­um og Eistlandi.

Verk­efnið var eitt af fimm nor­ræn­um rann­sókn­ar­verk­efn­um sem tengd­ust heims­far­aldr­in­um sem fengu styrk en mark­mið þeirra er að auka þekk­ingu í þágu heims­ins alls á áhrif­um þessa skæða sjúk­dóms. Rann­sókn­ar­verk­efn­in fimm snerta fjöl­breytt rann­sókn­ar­svið geðrænna þátta í or­sök­um og af­leiðing­um Covid-19-sjúk­dóms­ins. Von­ast er til að hin nýja þekk­ing sem hlýst út úr rann­sókn­un­um geri nor­rænu lönd­un­um kleift að tak­ast bet­ur á við nýj­ar áskor­an­ir inn­an heil­brigðis­kerfa land­anna í kjöl­far far­ald­urs­ins og far­aldra framtíðar­inn­ar.

Skrá yfir 27 millj­ón­ir íbúa

Þegar kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn reið yfir nor­rænu lönd­in í mars samþykkti stjórn Nor­d­Forsk án taf­ar að aug­lýsa útboð til rann­sókna á Norður­lönd­un­um á Covid-19. Rann­sókn­ar­ráð í hverju landi lagði inn pen­inga í sam­eig­in­leg­an sjóð til að raun­gera stöðuna og tók Rannís þátt í þeirri fjár­mögn­un. Smám sam­an bætt­ust Eist­land og Lett­land inn í sam­starfið. Frá því far­ald­ur­inn hófst hafa heil­brigðis­yf­ir­völd á Norður­lönd­un­um safnað kunn­áttu og gögn­um sem vistuð eru í heilsu­fars­skrám. Á Norður­lönd­un­um eru 27 millj­ón­ir íbúa og því er nú þegar til nægt magn rann­sókn­ar­gagna um Covid-19-sjúk­linga og með sam­starfi land­anna í milli eru til nægi­leg gögn til að út­færa góðar rann­sókn­ir.

Sam­vinna og vís­inda­leg gæði

Það er eng­um blöðum um það að fletta að slík­ur styrk­ur sem barst ís­lenska rann­sókn­art­eym­inu á dög­un­um hef­ur gríðar­mikla þýðingu, ekki ein­ung­is hér­lend­is, held­ur fyr­ir Norður­lönd­in í heild og hefði ekki orðið að veru­leika nema fyr­ir til­stuðlan nor­rænu rann­sókna­stof­unn­ar Nor­d­Forsk. Hún var stofnuð árið 2005 af Nor­rænu ráðherra­nefnd­inni og er aðal­mark­miðið að gera rann­sókn­ar­sam­vinnu á Norður­lönd­un­um skil­virk­ari og að hún byggi á trausti. Ákveðinn gæðastimp­ill á alþjóðavísu er á rann­sókn­um sem fjár­magnaðar eru af Nor­d­Forsk sem krist­all­ar nor­ræn­an virðis­auka. Við val á verk­efn­um sem fjár­mögnuð eru legg­ur Nor­d­Forsk ætíð áherslu á vís­inda­leg gæði og mögu­leik­ann á að skapa aukið virði fyr­ir Norður­lönd­in.

Virðið er fengið með því að krafa er um að rann­sókn­araðilar frá að lág­marki þrem­ur lönd­um starfi sam­an að hverju verk­efni og þegar unnið er með ákveðin viðfangs­efni, fyr­ir­bæri eða álita­mál sem eiga sér ein­ung­is stað á Norður­lönd­un­um eins og til dæm­is nor­ræna vel­ferðarlíkanið, sér­stak­ar lofts­lagsaðstæður, áskor­an­ir varðandi sam­fé­lags­ör­yggi og við notk­un á skrám sem eru ein­göngu fengn­ar á Norður­lönd­un­um. Aukna nor­ræna virðið verður einnig til þegar sam­vinna rann­sókna leiðir til þess að mik­il­væg þekk­ing bygg­ist upp inn­an ákveðins sviðs. Þetta ger­ist þegar gögn eru fram­kölluð sem hægt er að nota til stefnu­mót­un­ar og til bættr­ar op­in­berr­ar stjórn­sýslu eða að rann­sókn­arniður­stöður leiða til þess að nor­rænt at­vinnu­líf verður sjálf­bær­ara og sam­keppn­is­hæf­ara.

Silja Dögg Guunarsdóttir, for­seti Norður­landaráðs og Arne er fram­kvæmda­stjóri Nor­d­Forsk.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Deila grein

06/11/2020

Lifandi vísinda­skáld­saga og við­brögð við henni

Um þessar mundir eru um þrjú ár síðan sitjandi ríkistjórn tók við völdum. Þetta hafa verið þrjú viðburðarík ár. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á gott jafnvægi í ríkisfjármálum, að efnahagur vænkist hratt og að gæta þurfi að jafnvægi meðal allra sem landið byggja. Auk þess að þar kemur fram að óvenjulegar aðstæður kalli á breytt vinnubrögð, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum.

Breytt sviðsmynd

Við upphaf ríkisstjórnarsamstarfsins hefði engin getað gert sér í hugarlund hvað myndi bíða okkar á árinu 2020, enda hefur árið verið líkt og vísindaskáldsaga. Covid 19 skall á okkur með gríðarlegum verkefnum og breytti heildar myndinni. Sú framtíð sem við okkur blasir er líkt og 5000 mynda púsluspil sem ekki hefur verið raðað saman og enginn fyrirmynd gefin til að byggja á. Enginn sá fyrir þetta ástand, en það var sem og hugað fyrir þeim. Nú er gott að hafa breiddina við ríkistjórnarborðið og víðan sjóndeildarhring. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið margvísleg, unnið hefur verið að mörgum stórum og óvæntum verkefnum ávallt með það að leiðarljósi að tryggja afkomu fólks, og sérstaklega hefur verið horft til viðkvæmra hópa í samfélaginu.

Aðgerðir til þess að halda samfélaginu gangandi

Það reynir á sveitafélög í þessum aðstæðum og grunnþjónustu sem þau þurfa að veita. Sveitarfélög eru misvel undir það búnir að taka á sig þann kostnað sem þessar breyttu aðstæður valda. Því skipta þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í miklu máli fyrir rekstur sveitarfélaga um allt land. Nú þegar eru félagslegar aðgerðir einar metnar á 24 milljarða kr. Í þeim felast m.a. úrræði á vegum stjórnvalda til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þá hefur um 1,6 milljarður kr. runnið til beinna félagslegra aðgerða til að tryggja þjónustu og stuðning til viðkvæmra hópa. Ef litið er til þeirra aðgerða sem eru á ábyrgð félagsmálaráðuneytisins er að finna gríðarmargar aðgerðir sem stuðla að því að halda atvinnulífinu gangandi. Aðgerðir sem skila sér til baka með útsvari og sköttum sem halda svo hjólum samfélagsins gangandi.

Beinir félagslegir styrkir

Undir félagslegum aðgerðum er líka að finna beina styrki fyrir hópa sem eru sérstaklega viðkvæmir í þessari stöðu sem nú hefur skapast, þar má til dæmis nefna að sveitarfélögum gafst í sumar kostur á að sækja um styrk vegna viðbótarverkefna sem tengdust frístundastarfi barna í viðkvæmri stöðu. Þá var einnig möguleiki að sækja um fjárframlag vegna sérstakra viðbótarverkefna í félagsstarfi fullorðinna. Alls 39 sveitarfélög, sem í búa 93% allra 67 ára og eldri á landinu, fengu úthlutað 75 m.kr. til fjölbreyttra verkefna. Einnig var veitt fjármagn í verkefni handa börnum og ungmennum með fötlun og/eða sérþarfir svo hægt væri að bjóða upp á afþreyingu og rjúfa félagslega einangrun þeirra.

Aðgerðir skila árangri

Þeir styrkir og þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í skipta gríðarlega miklu máli, með þeim er fólki haldið í virkni sem og þær auka umsvif í nærsamfélaginu. Staðan er enn óljós og enginn veit hversu lengi við þurfum að lifa á þessum vísindaskáldsögulega tíma. Því verða stjórnvöld áfram að standa vaktina og á því er enginn bilbugur. Nú þegar hefur verið ákveðið að lengja hlutabótaleiðina og á Alþingi er verið að vinna að frumvarpi um tekjufallsstyrki. Allt þetta hjálpar til við að skerpa á framtíðar myndinni og styrkir þá vissu að við komum standandi niður úr þessum aðstæðum. Sumar aðgerðir taka lengri tíma en aðrar en eitt er víst að allri eru að reyna að vinna eins hratt og mögulegt er í þeim aðstæðum sem eru uppi, þjóðinni allri til heilla. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. nóvember 2020.