Íslensk heimili takast nú á við breyttan veruleika. Margir hinna fullorðnu vinna heima samhliða því að sinna börnum sem dauðlangar aftur í skólann og á íþróttaæfingar. Sjaldan hefur verið eins mikilvægt að rækta líkama og sál, fara út að hlaupa, taka veirufrían klukkutíma eða lesa.Það er nefnilega sumt sem breytist ekki og hefur fylgt þjóðinni frá örófi alda. Við erum bókaþjóð. Við skrifum, lesum og syngjum, oft til að komast í gegn um erfiðleika sem að okkur steðja. Við vitum hversu miklu máli skiptir að rækta þessa hefð, ekki síst í ljósi þess að lesskilningur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn. Námsárangur þeirra til lengri tíma ræðst að miklu leyti af lesskilningi þeirra, sem eykst með ástundum. Hér gildir hið fornkveðna, að æfingin skapi meistarann.
Með lestri ræktar þjóðin einnig menningararf sinn. Hver bók tekur mann í manns eigið ævintýri. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir, eykur skilning og veitir þannig betri aðgang að heiminum öllum. Þannig gegna íslenskir rithöfundar og þýðendur gríðarlega mikilvægu samfélagshlutverki. Það eru þeir sem bjóða okkur að ferðast um heiminn þar sem sitjum á sama stað með bók í hendi, í sóttkví eða samkomubanni. Það er þeim og blómlegri bókaútgáfu að þakka, að á mörgum heimilum eru bókahillur fullar af kræsingum fyrir lesendur á öllum aldri. Þar ægir saman Jóni Kalman, Ævari vísindamanni, Steinunni Sigurðardóttur, Halldóri Laxness yngri og eldri, Guðrúnu Helgadóttur og öllum hinum frábæru rithöfundunum og skáldunum. Hvort sem lögreglumaðurinn Erlendur, grallarinn Fíasól, Bjartur í Sumarhúsum eða ungfrúin Hekla hafa fangað athygli okkar, þá veita þau frelsandi hvíld frá amstri og áhyggjum hversdagsins. Við þurfum á því að halda einmitt nú.
Allt ofangreint var hvatinn að nýju þjóðarátaki, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti af stokkunum í gær undir heitinu Tími til að lesa. Heitið er dregið af þeirri staðreynd, að nú hafi margir meiri tíma en áður til að lesa og þörfin hafi sjaldan verið meiri á að rækta hugann með lestri af öllu mögulegu tagi. Við ætlum að lesa meira en nokkru sinni áður og skrá lesturinn á vefsíðuna timitiladlesa.is á hverjum degi til 30. apríl. Að átakinu loknu ætlum við að freista þess að fá árangurinn skráðan í heimsmetabók Guinness, líkt og sæmir bóka- og lestrarþjóðinni í norðri.
Nú þarf að virkja keppnisskapið, og ef vel tekst til gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim. Og nú, eftir lestur þessa pistils, getur þú bætt fimm mínútum inn á þitt nafn á vefnum timitiladlesa.is! Munum að þrátt fyrir frostið, þá er samt að koma vor – það birtir til. Áfram Ísland!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir,mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2020.
Fyrr í vetur fékk ég til mín gesti frá Bandaríkjunum. Bar ég fram það fínasta úr búrinu á borðin og kynnti fyrir þeim íslenskan mat. Þar mátti finna skyr, osta, lax og lamb. Áður en sest var að snæðingi fóru þau með sína borðbæn: „God bless the food.“ Já, já, ég hnikaði höfði kurteislega til samþykkis, sinn er hver siðurinn og allt það.
Núna síðustu vikur hef ég verið að hugsa um þennan sið sem líklega er til á öllum tungumálum og í öllum trúarbrögðum. ´Guð laun fyrir matinn‘, var sagt og var þá verið að vísa til þess að ekki er það sjálfsagt að eiga til hnífs og skeiðar og auðvitað ætti maður að drjúpa höfði í auðmýkt að geta borið næringu á borð fyrir sig og sína.
Okkar öryggi
Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu í almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016. Í stefnu fyrir árin 2015-2017 segir að matvælaöryggi felist í aðgangi að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum. Settar eru fram aðgerðir og verkefni til að tryggja að til sé áætlun um að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í að minnsta kosti sex mánuði og áætlun um heilnæmi og gæði matvæla til vernda heilsu fólks. Meðal tilgreinda verkefna til að ná markmiðunum er að að setja þyrfti lög um matvælageymslur, dreifingu matar, orku og eftirlit, gera þyrfti viðbragðsáætlun við matvælaskorti í samráði við helstu birgja og gera neyðaráætlun um hagvarnir, birgðir og neyðarflutninga til og frá landinu.
Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í sl. viku um uppfærslu á stefnu í almannavarna- og öryggismálum kemur fram að unnið sé að stefnumótun varðandi fæðuöryggi samhliða mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með samningi sem undirritaður var í febrúar 2020 falið Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna greiningu á fæðuöryggi. En sumt getum við sagt okkur sjálf.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir
Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggið í landinu, þó ekki væri nema vegna legu landsins. Farsælasta leiðin til þess er að framleiða næg matvæli innanlands, svo við verðum að mestu leyti sjálfum okkur nóg um matvæli. Innlend matvælaframleiðsla á að geta fullnægt frumþörfum okkar, þó hún muni seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem við viljum búa við hér á landi. Engu að síður er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum.
Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið óhræddur við að benda á það augljósa, að það þurfi að styðja og vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Við viljum geta boðið upp á hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður á sama tíma og við sköpum störf fyrir fólkið í landinu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Þetta fólk borgar hér skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda sína framleiðslu. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. apríl 2020.
Ferðaþjónustan á norður og austurlandi hefur lengi glímt við þann vanda að ferðamenn koma ekki þangað í eins ríkum mæli og á suðvesturhorn landsins. Má leiða það því líkum að það hafi töluvert að gera með þá staðreynd að lang stærsti komustaður ferðamanna til landsins er í Keflavík. Hafa ferðaþjónustuaðilar ásamt landshlutasamtökum og sveitarfélögum barist hetjulega fyrir því í langan tíma að koma á reglubundnu millilandaflugi á Akureyri. En ýmislegt hefur verið í veginum fyrir því að það gengi fullkomlega upp. Má þar nefna að bæta þurfti aðflugsbúnað til að hægt væri að tryggja lendingaröryggi með sem bestum hætti, flughlað flugvallarins var of lítið og síðast en ekki síst þá þurfti að stækka flugstöðina. Hafa stuðningsmenn flugs á Akureyri haft djúpa og einlæga sannfæringu fyrir því að ef þetta allt gengi upp væru allir vegir færir til þess að efla heilsársferðaþjónustu á svæðinu.
Allt í holu
Nú má segja að allt það sem nefnt er hér að ofan sé að verða komið í höfn. ILS aðflugsbúnaðurinn var gangsettur á síðasta ári og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er búinn að tilkynna að ráðist verði í uppbyggingu á flughlaði og flugstöð hið fyrsta. Er það partur af fjárfestingaáætlun ríkisttjórnarinnar til að bregðast við Covid 19 faraldrinum. Því má segja að nú sé okkur ekkert að vanbúnaði að blása í lúðra og undirbúa með stæl enn frekari uppbyggingu farþegaflugs til Akureyrar. Þessi mikilvægu skref eru til þess fallin að efla stoðir atvinnulífsins á Norðurlandi og er það vel. Samtakamáttur og samvinna geta skilað miklu. Það sést glögglega á þessu verkefni, margir hafa lagt hönd á plóg á undanförnum árum til að skila þessu verkefni í höfn. Fleiri verkefni sem þetta bíða eftir því að stjórnvöld byggi upp og efli landsbyggðina, göngum saman fram með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Áfram veginn!
Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.
Nú þegar aðeins er boðið upp á eitt flug á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur og flugumferð í heiminum dregst saman dag frá degi, skýtur kannski skökku við að skrifa um flugvelli.
Á tímum samdráttar og óvissu er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og mikilvægt að opinberir aðilar fjárfesti í verkefnum sem geta ýtt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Áætlun ríkisstjórnarinnar um sérstakt fjárfestingarátak fyrir árið 2020 til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf vegna veirufaraldursins liggur nú fyrir Alþingi.
Meðal verkefna sem lögð er áhersla á að hefjist strax er stækkun flugstöðvar á Akureyri, vinna við flughlað á Akureyri og gerð akbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða.
Þar er lagt til að hafist verði handa við undirbúning nýrrar akbrautar fyrir flugvélar meðfram Egilsstaðaflugvelli, til að tryggja öryggi og styrkja varaflugvallarhlutverkið. Gert er ráð fyrir að undirbúningur fari fram í ár og þá liggur beint við að fjármagn til framkvæmda skili sér í fjárfestingaátaki næstu ára. Einnig er áríðandi að fara í yfirlagningu á flugbrautinni á Egilsstöðum og hagkvæmt væri að tengja þessar framkvæmdir saman.
Akbrautin meðfram flugvellinum er mikilvæg til þess að hægt sé að lenda sem flestum flugvélum á sem skemmstum tíma. Hægt væri að útfæra hana þannig að hluti hennar þjóni jafnframt hlutverki flughlaðs. Við undirbúning verksins er mikilvægt að meta hvernig akbraut og flughlöð henta best framtíðarþróun vallarins. Með framkvæmdum á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi.
Í desember 2019 var skipaður aðgerðahópur til að vinna tillögur um endurbætur á flugvellinum á Akureyri til framtíðar. Honum er ætlað að vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastaðar og gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur á mannvirkjum og þjónustu. Nú liggja tillögur hópsins um stækkun flugstöðvar fyrir og því er hægt að hefjast handa við viðbyggingu vestur af norðurenda núverandi flugstöðvar.
Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Hægt væri að bjóða verkið út á vormánuðum sem gæti skapað um 50 ársverk hjá verktökum á svæðinu. Í ársbyrjun var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli, í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tók af skarið og tryggði fjármagn í búnaðinn á árinu 2018. Búnaðurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli getur svo aukið enn frekar umsvif og öryggi flugvallarins.
Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum
Framangreind verkefni eru atvinnuskapandi í bráð og lengd. Verkefnin byggja á öflugri stefnumótun í samgöngum, þ.e. samgönguáætlun sem samþykkt var á vorþingi 2019 og uppfærðri áætlun sem Alþingi vinnur nú með. Flugstefna hefur verið mótuð í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriði hennar er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem taki ábyrgð á varaflugvöllunum.
Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvæg til að tryggja flugöryggi fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi. Isavia hefur tekið við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar af ríkinu frá síðustu áramótum Á sama tíma lækkuðu þjónustugreiðslur ríkisins til Isavia sem nýtast nú í innanlandsflugvelli um land allt og til að efla innanlandsflugið.
Nú er verið að fylgja eftir skýrri stefnu um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu og innanlandshlutverkinu. Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál, hluti af almenningssamgöngum og öryggi byggðanna. Flugið er einn lykillinn að jafnræði byggðanna og nú er ákveðið er að skoska leiðin komi til framkvæmda seinnihluta ársins, sem er mikilvægt skref til að jafna aðstöðumun íbúa landsins.
Samvinna er lykill að árangri
Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum og fleiri hlið inn til landsins eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Ég álít mjög mikilvægt að fylgja nýrri flugstefnu og aukinni fjárfestingu í flugvöllum eftir með öflugri samvinnu um markaðssetningu nýrra fluggátta og þar er samstarf um markaðsetningu og samvinna sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi lykillatriði.
Notum tímann vel – Áfram veginn.
Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmki og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.
Undanfarnar vikur hafa verið með öðru sniði en við erum vön. COVID-19 faraldurinn sem nú geisar hefur fært okkur fjölda áskorana og við höfum haft stuttan tíma til að bregðast við. Þegar tíminn er knappur er mikilvægt að forgangsraða og vinna skipulega. Í félagsmálaráðuneytinu hefur hefðbundin vinnuáætlun vikið að stórum hluta fyrir því að grípa viðkvæma hópa samfélagsins sem á því þurfa að halda vegna núverandi aðstæðna.
Víðtækt samráð
Í síðustu viku boðuðum ég, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land í þessum tilgangi. Í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur verið stofnað viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem safnar og miðlar upplýsingum, metur stöðu sem upp getur komið og bregst, eftir atvikum, við áhrifum faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu.
Markmið viðbragðsteymisins er að tryggja að þeir sem þurfa fái stuðning og þjónustu og vil ég hvetja þá, sem á þurfa að halda, að hafa samband gegnum netfang viðbragðsteymisins, vidbragd@frn.is. Þangað geta allir leitað sem hafa áhyggjur af framkvæmd þjónustu, hafa ábendingar um það sem betur má fara í velferðarþjónustu hvers konar, auk þess sem einstaklingar og aðrir geta haft þar samband til að leita ráðgjafar og aðstoðar. Nú þegar hefur teymið komið því til leiðar að upplýsingar á vefnum um faraldurinn og hérlend viðbrögð hafa verið gerðar aðgengilegar á fjölda tungumála, vegna góðra ábendinga frá fulltrúum innflytjenda á Íslandi.
Aukin hætta á ofbeldi inni á heimilum
Á fundi teymisins í síðustu viku ræddum við sérstaklega aukna hættu á ofbeldi inni á heimilum í þeim aðstæðum sem nú eru uppi en samkvæmt upplýsingum sem teymið aflaði eru nú merkjanlega færri tilkynningar að berast inn í kerfið, meðal annars til barnaverndar. Börn sækja ekki skóla eins og áður og hefur yfirsýn yfir velferð þeirra versnað. Það þarf vitundarvakningu um þessa stöðu og ég hvet fólk til að vera vakandi fyrir umhverfi sínu þó mikið gangi á hjá okkur öllum. Í þessu árferði er einmitt hvað mikilvægast að muna að við stöndum öll í þessu saman. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að ofbeldi eða vanræksla sé til staðar inni á heimili ber þér skylda til þess að vera í sambandi við þar til bæra aðila gegnum símanúmerið 112. Við erum öll barnavernd!
Við höfum nú þegar gripið til aðgerða til þess að bregðast við þessum aðstæðum og verður gripið til fleiri aðgerða á komandi dögum og vikum. Hjálparsími Rauða kross Íslands, bæði símanúmerið 1717 og vefurinn 1717.is, hefur verið efldur og getur fólk þar nú nálgast mun sérhæfðari ráðgjöf en áður. Markmiðið er að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa vegna álags, streitu, ofbeldis, vanlíðanar eða annarra orsaka. Hjálparsíminn er opinn fyrir alla, börn og fullorðna, fatlað fólk, aldraða, fólk af erlendum uppruna, allan sólarhringinn.
Bakvarðasveit í velferðarþjónustu
Ég vil í lokin minna á að mönnun í velferðarþjónustu er orðin flókin á vissum stöðum og ég hvet alla þá sem geta að skrá sig í bakvarðasveit í velferðarþjónustu. Skráning fer fram á vef félagsmálaráðuneytisins.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2020.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar sendu Íslendingar matarböggla til bágstaddra barna í Noregi. Eftir Vestmannaeyjagosið 1973 sendu önnur Norðurlönd margvíslega aðstoð til Íslands. Seint gleymist rausnarskapur Færeyinga eftir snjóflóðin árið 1995. Norðurlöndin aðstoðuðu okkur eftir efnahagshrunið 2008 þegar flest önnur ríki neituðu hjálparbeiðnum okkar. Árið 2009 þegar hamfaraflóðin gengu yfir Asíu sendu Íslendingar flugvél til Taílands til að sækja slasaða Svía. Þetta eru aðeins örfá dæmi um norrænt samstarf og vináttu síðustu áratugi.
Yfirstandandi COVID-19 faraldur hefur undan-farið sett einstaklinga, fyrirtæki, ríki og allt alþjóða-samfélagið í óþekkta stöðu. Ljóst er að faraldurinn bitnar ekki einungis á heilsu fólks heldur einnig á atvinnulífinu og fjármálakerfinu öllu. Enginn veit hvernig best er að reyna að draga úr áhrifum faraldursins en ljóst er að ekkert land getur staðið eitt frammi fyrir þessari ógn því veiran virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt og alþjóðlegt samstarf opnar á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna. Við þurfum á nágrönnum okkar að halda til að miðla upplýsingum og þekkingu sem er sérstaklega mikilvæg á tímum sem þessum. Nágrannar okkar í norðri eru, nú sem fyrr, okkar mikilvægustu bandamenn. Ekki bara meðan COVID-19 veiran gengur yfir, heldur ekki síður þegar við hefjumst handa við að endurreisa þá samfélagslegu burðarstólpa sem sköðuðust á þessum einkennilegu tímum.
Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Þar er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.
Tímar sem þessir sýna svo ekki verður um villst hvernig grunnstoðir samfélagsins eru á sig komnar. Við Íslendingar getum verið tiltölulega ánægðir. Öflugt heilbrigðiskerfi tekst á við veiruna ásamt almannavörnum, skólastarf heldur áfram við breyttar og erfiðar aðstæður og atvinnuleysistryggingasjóður tekur við þeim sem missa vinnuna – svo nokkur kerfi séu nefnd. Allar áætlanir og spár breytast frá degi til dags og ljóst að næstu mánuði og ár munu gjörðir helstu viðskiptaþjóða okkar hafa mikil áhrif hér á landi. Skylda stjórnvalda er að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í gegnum þennan öldusjó þannig að samfélagið verði tilbúið í kröftuga viðspyrnu þegar léttir til.
Viðskiptaráð var helst til snöggt að leggja til niðurskurð hjá hinu opinbera og skerðingu á starfshlutfalli hjá opinberum starfsmönnum. Þetta kom auðvitað illa við það fólk sem nú stendur í eldlínunni við að berjast gegn útbreiðslu veirunnar á heilbrigðisstofnunum. Eru viðbrögð ráðsins í hróplegu ósamræmi við þá samstöðu og samvinnu sem ríkjandi er í samfélaginu.
Ég er stoltur af íslensku samfélagi og samheldni þjóðarinnar. Samstaðan laskaðist í hruninu og það er mikilvægt að við vinnum okkur núna saman í gegnum erfitt tímabil. Og þegar við höfum náð viðspyrnu og erum búin að ná okkur á strik verða allir að sýna samfélagslega ábyrgð. Þess vegna verða þeir sem geta að halda áfram að greiða til samneyslunnar. Það gengur auð-vitað ekki að einhverjum öflum innan viðskiptalífsins þyki sjálfsagt að koma hlaupandi í skjól ríkisins, umfram þörf, og nýta sér kraft og samstöðu samfélagsins. Krafa almennings er krafa Framsóknar. Samvinna í þágu samfélagsins alls. Sem betur fer eru flestir þar.
Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.
Í febrúar 1936 birtist byltingarkennd hagfræðikenning fyrst á prenti. John M. Keynes hafði legið undir feldi við rannsóknir á kreppunni miklu, þar sem neikvæður spírall dró kraftinn úr hagkerfum um allan heim. Niðursveifla og markaðsbrestur snarfækkaði störfum, minnkaði kaupmátt og í leiðinni tekjur hins opinbera, sem hélt að sér höndum til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórnvöld dýpkað kreppuna og valdið óbætanlegu tjóni. Þvert á móti hefði hið opinbera átt að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum, ráðast í opinberar framkvæmdir og eyða tímabundið um efni fram. Þannig væru ákveðin umsvif í hagkerfinu tryggð, þar til kerfið yrði sjálfbært að nýju. Þegar þeim áfanga yrði náð ætti hið opinbera að draga saman seglin og safna í sjóði, svo hagkerfið ofhitnaði ekki. Í stuttu máli; ríkið á að eyða peningum í kreppu, en halda að sér höndum í góðæri til að vega á móti hagsveiflunni á hverjum tíma
Fólkið
Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eru fordæmalausar. Markmið aðgerðanna er fyrst og fremst að styðja við grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja og veita öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf á óvissutímum. Íslenska þjóðarbúið er í góðri stöðu til að takast á við þær áskoranir sem eru fram undan. Þróttur þess er umtalsverður, skuldastaða ríkissjóðs er góð og erlend staða þjóðarbúsins jákvæð. Það er ekki einungis staða ríkissjóðs sem er sterk heldur standa heimili og fyrirtæki landsins nokkuð vel auk þess sem kaupmáttur heimilanna hefur aukist mikið. Engu að síður hafði atvinnuleysi vaxið í aðdraganda Covid-19. Vinnumarkaðurinn, og þar af leiðandi mörg heimili í landinu, er því í viðkvæmri stöðu. Aðgerðir stjórnvalda miða að fólkinu í landinu og því hafa greiðslur verið tryggðar til fólks í sóttkví. Hlutastarfaleið stjórnvalda er ætlað að verja störf og afkomu fólks við þrengingar á vinnumarkaði. Þessi leið mun styðja við áframhaldandi vinnu tugþúsunda einstaklinga og verða atvinnuleysisbætur því greiddar til þeirra sem lækka tímabundið í starfshlutfalli. Þetta á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga og launþega. Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna viðhaldsvinnu við heimili verður hækkuð úr 60% í 100%. Loks verður greiddur út sérstakur barnabótaauki 1. júní 2020 með öllum börnum undir 18 ára aldri.
Fyrirtæki
Atvinnuleysi óx nokkuð í aðdraganda faraldursins. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru útfærðar sérstaklega með það í huga að koma í veg fyrir varanlegan atvinnumissi fjölda fólks og að fjöldi fyrirtækja fari í þrot. Frestun á gjalddögum staðgreiðslu, tryggingagjalds og fyrirframgreidds tekjuskatts fyrirtækja kemur til móts við þá stöðu sem upp er komin. Þá er tryggð full endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við endurbætur, viðhald og nýbyggingar. Stjórnvöld munu einnig ábyrgjast helming brúarlána, sem er ætlað að styðja fyrirtæki í rekstrarvanda og þannig styðja þau til að greiða laun og annan rekstrarkostnað. Aðgerðirnar miða að því að efla einkaneyslu, fjárfestingar og samneyslu. Vöruviðskipti skipta mjög miklu máli þessa dagana og því vilja stjórnvöld auðvelda innflutning með niðurfellingu tollafgreiðslugjalda og frestun aðflutningsgjalda. Þá verður farið í sérstakt tug milljarða kr. fjárfestingarátak, þar sem hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði. Stefnt er að því að fjölga störfum, efla nýsköpun og fjárfesta til framtíðar. Þar af verður verulegum fjárhæðum varið í að efla menningu, íþróttastarf og rannsóknir.
Með þessum aðgerðum eru stjórnvöld að stíga mikilvægt skref til að veita viðspyrnu og mynda efnahagslega loftbrú. Á sínum tíma sá loftbrú Berlínarbúum fyrir nauðsynjavörum á erfiðum tíma í sögu Evrópu. Sú loftbrú sýndi samstöðu og samvinnu fólks þegar á reyndi. Ljóst er að verkefnið er stórt en grunnstoðir íslensks samfélags eru sterkar og því mun birta til.
Hagfræðikenning John M. Keynes, sem í fyrstu þótti byltingarkennd, er óumdeild í dag. Fræðilega gengur hún upp, en krefst aga af stjórnvöldum og samfélögum á hverjum tíma. Ætlan íslenskra stjórnvalda er að sýna þann sveigjanleika sem nauðsynlegur er til að tryggja hag fólksins í landinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2020.
Þessi vetur mun seint renna okkur Íslendingum úr minni. Fannfergi, tíður lægðagangur, rafmagnsleysi, snjóflóð á Vestfjörðum og landris í Grindavík. Veturinn hefur svo sannarlega minnt okkur á hvar á jarðarkringlunni við búum. Í efnahagsmálum vorum við að sigla inn í samdráttarskeið eftir átta ára samfellt hagvaxtarskeið og staðan á síðustu tveimur vikum hefur síðan gjörbreyst með tilkomu Covid-19 (kórónuveirunnar). Stjórnvöld eru vel í stakk búin til að bregðast við enda staða þjóðarbúsins sterk.
Tekjur fyrirtækja þurrkast út
Mikil óvissa ríkir á vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Við erum að horfa fram á nánast hrun í ferðaþjónustu næstu mánuðina og ljóst að áhrifin verða einnig mikil á aðrar atvinnugreinar, bæði hér á landi og erlendis. Bein störf við ferðaþjónustu eru um 25 þúsund á Íslandi og má ætla að hlutur erlendra ferðamanna í verðmætasköpun ferðaþjónustu sé hlutfallslega um 70%. Afleiðing þessa getur með beinum hætti haft áhrif á um 18 þúsund störf hér á landi. Ef ekkert er gert má gera má því ráð fyrir að atvinnuleysi vaxi mikið með tilheyrandi áhrifum á allt þjóðfélagið.Við höfum kynnt fyrsta áfanga umfangsmikilla aðgerða með það að markmiði að verja efnahagslífið eins og hægt er. Aðgerðirnar eru fjölbreyttar og lúta meðal annars að sérstökum hlutaatvinnuleysisbótum, frestun og afnámi opinberra gjalda, sérstökum barnabótaauka með öllum börnum og endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda.
Við þessar aðstæður er markmiðið skýrt; að verja heimilin, fyrirtækin og störfin í landinu.
Hlutabætur eru hryggjarstykkið í aðgerðapakkanum
Fyrir nokkrum dögum samþykkti Alþingi frumvarp mitt um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, svokallaða hlutastarfaleið. Markmiðið með lagasetningunni er einfalt; að stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt. Mikil verðmæti eru fólgin í því fyrir samfélagið allt að sem flestir haldi virku ráðningarsambandi við vinnuveitanda og hér verði kröftug viðspyrna þegar faraldurinn hefur gengið yfir.Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
• Allt að 75% hlutabætur – Atvinnurekandi lækkar starfshlutfall starfsmanns niður í að minnsta kosti 80% miðað við fullt starf, en þó ekki neðar en í 75% starfshlutfall, og þá kemur ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags umfram nýtt starfshlutfall.
• Allt að 90% heildarlauna – Greiðslur atvinnuleysisbóta skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns miðað við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta.
• Þak á samanlagðar bætur og laun 700.000 kr. – Laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur geta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði.
• Laun allt að 400.000 kr. að fullu tryggð – Einstaklingar með 400.000 kr. eða minna í laun á mánuði geta fengið greidd 100% af meðaltali launa.
• Námsmenn heyra undir lögin – Námsmenn geta átt rétt á bótum samkvæmt frumvarpinu uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði ákvæðisins. Hvet ég námsmenn til að kynna sér skilyrðin á vef Vinnumálastofnunar.
• Starfsmenn íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka heyra undir lögin – Starfsmenn og verktakar íþróttafélaga og frjálsra félagasamtaka eiga rétt á hlutagreiðslu samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda.
• Sjálfstætt starfandi einstaklingar heyra undir lögin – Aðgerðir ríkisins eiga einnig við um sjálfstætt starfandi einstaklinga og gilda sömu skilyrði um þá og starfsfólk fyrirtækja.
Lögin eru tímabundin og gilda út maí en við erum tilbúin að bregðast við ef þess verður þörf. Nú þegar er búið að opna fyrir umsóknir um slíkar bætur á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Ég hvet atvinnurekendur til þess að minnka frekar starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna. Störfin ætlum við að verja með öllum tiltækum ráðum og með hlutastarfaleiðinni tryggjum við að viðspyrnan verður miklu kraftmeiri og snarpari þegar faraldrinum lýkur.
Förum saman gegnum skaflinn!
Öll él styttir upp um síðir og þegar birta tekur munum við þurfa alla þá viðspyrnu sem við náum til að ná fyrri styrk og vonandi gott betur. Með æðruleysi, kjarki og dugnaði komumst við gegnum þessa tímabundnu erfiðleika. Pössum upp á þá sem standa okkur næst, nýtum tæknina til samskipta og ræktum líkama og sál eins og við getum. Samstaða þjóðarinnar hefur sjaldan verið mikilvægari og allir þurfa að leggja hönd á plóg. Saman förum við í gegnum skaflinn.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2020.
Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á að efla og fjárfesta í innviðum samfélagsins. Nú á að gera enn betur og hefja sérstakt 15 milljarða króna flýtifjárfestingarátak sem kynnt var í Hörpu sl. laugardag. Mikilvægt er að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við. Halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins. Notum tímann vel og höldum áfram.
Akureyri og Egilsstaðir
Stækkun við flugstöð á Akureyri, flughlað á Akureyri og yfirlögn/malbik á Egilsstaðaflugvelli eru meðal fjölbreytta verkefna sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði hafist handa við strax. Áformað er að verja milli 500 til 600 milljónum í ár til undirbúnings. Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi þegar allt fer í gang aftur. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli eykur öryggi flugvallarins. Hægt er að bjóða verkið út á vormánuðum og má áætla að um 40 ársverk skapist hjá verktökum á svæðinu. Á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðaflugvallar og flugöryggi á Íslandi almennt. Hægt verður að taka á móti stærri flugvélum sem skapa auka þess atvinnu á svæðinu.
Verkefnin eru arðbær. Þeim er hægt að flýta og þau skapa fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara. Samgönguáætlun hefur gefið tóninn að þeim verkefnum sem munu líta dagsins ljós og munu auknir fjármunir verða settir í verkefni um allt land. Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum en fleiri hlið inn til landsins hafa verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Í nýrri flugstefnu sem ég mælti fyrir í samgönguáætlun er horft til lengri tíma og er rík áhersla lögð á að alþjóðaflugvellir landsins mæti sem best þörfum flugrekanda fyrir varaflugvelli og fleiri hliðum inn til landsins verði fjölgað sem geta notið góðs af ferðaþjónustu. Hjá ríkisstjórninni er síðan annað átak í undirbúningi sem tekur við á árunum 2021-2023 og mun flýting þessara framkvæmda sem og annarra samgönguframkvæmda birtast þar. Gerum það sem gera þarf og verum skynsöm.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.