Categories
Fréttir Greinar

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Deila grein

25/09/2025

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Á Íslandi eru engar kröfur um lágmarksbirgðir eldsneytis. Þetta er alvarlegt mál.

Alþjóðaorkumálastofnunin mælist til að ríki hafi ávallt yfir að ráða 90 daga olíubirgðum. Evrópusambandið leggur slíka kröfu á aðildarríki sín.

Augljósasta viðbragðið við stöðunni í dag

Í dag bólar hins vegar ekki á umbótum þrátt fyrir að óvissa í alþjóðamálum hafi aukist verulega og öryggi og alþjóðasamvinna séu kynnt sem efstu mál ríkisstjórnarinnar. Þetta ætti þó að vera eitt augljósasta og mikilvægasta viðbragð við óvissu í öryggismálum Íslands í dag.

Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um birgðastöðu eldsneytis og segir m.a. í matskýrslu þeirra frá 2022: Eldsneytismarkaðurinn á Íslandi er rekinn á samkeppnisgrunni þar sem engar kvaðir gilda um að fyrirtækin sem þar starfa viðhaldi lágmarksbirgðum af eldsneyti í landinu. Þannig eru oft takmarkaðar olíubirgðir til innanlands og hafa jafnvel farið niður í nokkurra daga birgðir.

Dýrkeypt að gera ekki neitt

Það blasir við að það felur í sér kostnað að tryggja neyðarbirgðir eldsneytis sem vonandi þarf aldrei að nýta.

Það getur þó líka verið dýrkeypt fyrir eyríkið Ísland að gera ekki neitt því allar okkar samgöngur, landbúnaður, fiskveiðar og millilandasiglingar krefjast eldsneytis. Ef aðfangakeðjur brotna og skortur verður á eldsneyti lamast samfélagið hratt. Það getur tekið allt að sex vikur að bregðast við eftirspurn umfram sveigjanleika birgða sem eru til staðar hverju sinni og hér er ekki gert ráð fyrir mögulegum áhrifum alþjóðlegra átaka.

Fleiri áskoranir geta aukið olíuþörf hratt hér á landi. Eldgosin á Reykjanesi ógnuðu til dæmis hitaveituinnviðum sem hefði getað snögglega aukið þörf á olíukyndingu. Neyðarbirgðir eldsneytis eiga því alltaf við og gildir þá einu hvort allt er með kyrrum kjörum hér heima eða erlendis.

Hvaða leiðir eru í boði?

Neyðarbirgðir eldsneytis eru kostnaðarsamar. Góðu fréttirnar eru að ákveðið birgðapláss er til staðar í landinu, olíufélögin eru öflugir samstarfsaðilar og vinveittir olíuframleiðendur, líkt og Noregur, eru fyrir hendi sömuleiðis. Í þessu ljósi mætti hugsa sér blandaða leið til að tryggja neyðarbirgðir, annars vegar með raunbirgðum sem væru staðsettar á Íslandi og hins vegar með samningum við tiltekin ríki sem virkjaðir væru í neyð. Útfærsla viðbragsðáætlunar væri sömuleiðis nauðsynleg og væntanlega á hendi Almannavarna.

Getur olíuleit á Íslandi eða rafeldsneyti leyst málið?

Getur olíuleit við Ísland eða rafeldsneyti sem framleitt væri hér á landi ekki leyst málið, kann einhver að spyrja? Svarið er fræðilega já. En sá tími sem þarf í að þróa slík verkefni er ekki án óvissu og spannar mörg ár eða áratugi.

Þó er vert að nefna að við erum einstaklega heppin að hafa farið í umhverfisvæna jarðhitaleit og rafvætt okkar samfélag, sem gerir okkur óháð innfluttri orku fyrir húshitun og rafmagn í dag. Áframhaldandi jarðhitaleit sem boðuð hefur verið er dæmi um öryggisverkefni næstu ára sem ber að fagna og það sama á við um orkuskiptaverkefni í víðara samhengi.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar: Gangið í málið

Málefni orkuöryggis hafa ekkert með stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir að gera. Við verðum að ganga í takt fyrir Ísland. Við verðum að bæta orkuöryggi á óvissutímum með því að innleiða birgðarskyldu á eldsneyti. Slíkt er skynsamlegt viðbragð við aukinni óvissu í alþjóðamálum og með því fylgjum við ráðleggingum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Allt leikur í um­burðar­lyndi – eða hvað?

Deila grein

25/09/2025

Allt leikur í um­burðar­lyndi – eða hvað?

Umburðarlyndi hefur mér alltaf fundist einstaklega fallegt orð í íslensku máli. Orð sem við ættum öll að tileinka okkur og merking þess ætti alltaf að vera ríkjandi í samfélaginu okkar. Flest höfum við heyrt talað um að „sýna umburðarlyndi.“ En hvað þýðir þetta orð í raun og veru? Ef við flettum því upp á vef Árnastofnunnar segir „það að virða skoðanir, gildi og hegðun annara“. Gervigreindin segir mér „Umburðarlyndi er íslenskt orð sem merkir þolinmæði, víðsýni og það að sýna öðrum skilning eða þola skoðanir og lífshætti annarra, jafnvel þótt maður sé ekki sammála þeim.“

Þó ég þekki merkingu orðsins finnst mér vert að taka saman þessar skýringar. Enda ná þær svo ótrúlega vel utan um það sem samfélaginu okkar skortir að einhverju leyti um þessar mundir. Á tímum þar sem aukin heift hefur færst í umræðuna. Við getum víða staldrað við og velt fyrir okkur hvar þetta orð þarf að vera meira ríkjandi í samfélaginu okkar.

Því er ekki að neita að það hefur verið sérstaklega erfitt að fylgjast með þeirri þróun undanfarnar vikur og mánuði þar sem umræðan hefur oft á tíðum litast af mikilli heift og fordómum. Umræða sem á ekkert skylt við málfrelsi og umburðarlyndi þar sem við höfum t.d. séð sótt að einstaklingum og minnihlutahópum með hatursfullum ummælum.

Hvað hugsar þú þegar þú heyrir þetta orð, umburðarlyndi? Ég hugsa um íslenskt samfélag eins og það á að vera og við eigum alltaf að stefna á að vera. Þar sem við virðum skoðanir annara og lífshætti, sýnum þolinmæði, virðingu og skilning þó við séum ekki sammála.

Staðreyndin er sú að við öll höfum rétt á okkar skoðun en það er svo sannarlega ekki sama hvernig við setjum hana fram, vöndum okkur í umræðunni og ræðum hlutina á málefnalegan hátt. Þannig mun samfélagið okkar allt leika í umburðarlyndi.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, 25 ára nemi og situr í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Því­líkt „plan“ fyrir ís­lensk heimili

Deila grein

25/09/2025

Því­líkt „plan“ fyrir ís­lensk heimili

Ríkisstjórnin heldur því fram að afnám samsköttunar snerti aðeins fámennan hóp. Þessi „fámenni“ hópur er reyndar 6% allra fjölskyldna í landinu.

Flest tengja hjónaband við hjartnæma og táknræna athöfn þar sem ást tveggja aðila er innsigluð. Hjónabandið er þó meira en hátíðleg stund og falleg fyrirheit. Það er lagalegt samkomulag tveggja einstaklinga um ákveðin réttindi og skyldur gagnvart hvort öðru. Löggjafinn hefur einnig ákveðið að í hjónabandi felist hagræði og öryggi sem ætlað er að styðja við fjölskyldur og sameiginlega ábyrgð þeirra. Samsköttun hjóna er dæmi um það.

Framfærsluskylda

Ein helsta skylda giftra einstaklinga er framfærsluskylda sem felur í sér að gift fólk er framfærsluskylt gagnvart hvort öðru. Víða í löggjöf og reglum er komið inn á þessa skyldu t.a.m. í hjúskaparlögum en þar stendur skýrt að „hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.“ Framfærsluframlagið samkvæmt sömu lögum getur verið í formi perningagreiðslna, vinnu á heimili eða öðrum stuðningi við fjölskyldu og skiptist það á milli hjóna eftir getu og aðstæðum.

Samsköttun

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur nú boðað breytingar á skattalöggjöfinni með það fyrir augum að afnema samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Samsköttun felst í því að einstaklingar í hjónabandi eða sambúð geta deilt skattalegu svigrúmi sínu. Ef annar aðilinn er með tekjur í efsta skattþrepi en hinn með engar eða lægri tekjur, getur fjölskyldan þannig lækkað samanlagða skattbyrði sína, en þó aðeins að ákveðnu hámarki.

Samkvæmt ríkisstjórninni snýst þessi breyting um að „bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum“ í skattkerfinu. Ríkisstjórnin heldur því jafnframt fram að afnámið snerti aðeins fámennan hóp. Þessi „fámenni“ hópur er reyndar 6% allra fjölskyldna í landinu. Afnám samsköttunar hefur því bein áhrif á fjölda íslenskra heimila. Það þýðir að tekjulægri aðilinn getur ekki lengur nýtt skattaleg réttindi sín til að bæta fjárhagsstöðu fjölskyldunnar með auknum ráðstöfunartekjum. Sú glufa sem ríkisstjórnin ætlar að loka er því í raun ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu sem verið er að skerða. Tökum dæmi:

Fyrsta dæmið eru hjón með lítil börn. Annað foreldrið starfar á togara, fer í langa túra á sjó og er með tekjur í efsta skattþrepi. Hitt foreldrið er heima með börnin, tekjulaust, þar sem yngsta barnið er ekki komið með dagvistun og fæðingarorlofsrétti beggja foreldra er lokið. Ef samsköttunin verður afnumin missa hjónin skattalegt hagræði af því að vera gift en eru engu að síður enn framfærsluskyld samkvæmt lögum

Annað dæmið eru tvær fjölskyldur sem báðar saman standa af sambúðarfólki og tveimur börnum. Báðar fjölskyldurnar eru með sömu heildartekjur fyrir skatt. Í fyrri fjölskyldunni eru tekjur foreldranna svipaðar. Í þeirri síðari er annar aðilinn með mun lægri tekjur en hinn með tekjur í efsta skattþrepi. Með afnámi samsköttunar hækkar skattbyrði síðari fjölskyldunnar þrátt fyrir sömu heildartekjur beggja fjölskyldna. Hversu sanngjarnt er það að sambærilegar fjölskyldur sitji uppi með ólíka skattbyrði?

Þriðja dæmið eru hjón á miðjum aldri með einn ungling á heimilinu. Annar einstaklingurinn hefur nýlega veikst alvarlega, er frá vinnu og með nánast engar tekjur. Hinn einstaklingurinn rekur eigið fyrirtæki og er með tekjur sem rétt ná yfir efsta skattþrepið. Með afnám samsköttunar skerðast tekjur heimilisins um að lágmarki 100.000 krónur á ársgrundvelli. Það munar um minna í þrálátri verðbólgu.

Skattar munu „ekki“ hækka á einstaklinga

„Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk. [….] Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimila […]“ skrifaði Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar í aðdraganda alþingiskosningana 2024. Raunin virðist hins vegar vera önnur. Skattalegt hagræði hjóna og sambúðarfólks með ólíkar tekjur skerðist verulega með afnámi samsköttunar, á sama tíma og hjón bera áfram sameiginlega ábyrgð á skattaskuldum. Þá er ekkert sem bendir til þess að kostnaður heimilanna í landinu fari lækkandi. Sleggjan hefur ekki virkað á vextina, verðbólgan er þrálát og nú liggur fyrir að ráðstöfunartekjur 6% heimila í landinu lækka vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar! Þvílíkt „plan“ fyrir íslensk heimili.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrir hvern er borgin?

Deila grein

24/09/2025

Fyrir hvern er borgin?

Traust almennings til borgarstjórnar er lítið – bæði til meirihlutans og minnihlutans. Það er staðreynd sem allir borgarfulltrúar verða að taka til sín og taka alvarlega.

Svarið við spurningunni „hvers vegna“ er ekki einfalt. Það er ekki ein ákvörðun sem hefur grafið undan trausti heldur samspil margra ákvarðana og stefnu sem hefur um árabil verið sett fram án þess að taka nægilega mikið mið af vilja og þörfum íbúa. Tökum dæmi:

Bílastæðamálin

Flestir íbúar nota fjölskyldubílinn til að komast á milli staða. Þrátt fyrir það var ákveðið á síðasta kjörtímabili að setja afar ströng skilyrði um fjölda bílastæða við nýbyggingar. Á stóru svæði borgarinnar er aðeins heimilt að byggja að hámarki 0,75 stæði fyrir tveggja herbergja íbúð en almenna viðmiðið er 0,25 stæði á íbúð.

Þetta hefur skapað mikla óánægju, sérstaklega í nýjum hverfum sem byggst hafa upp á svæðum sem almenningssamgöngur ná ekki til eða eru lélegar og því ekki raunverulegur kostur. Borgin virðist oft byrja á öfugum enda: stæðum er fækkað áður en almenningssamgöngur eru bættar. Markmiðið kann að vera göfugt, þ.e. að minnka umferð og mengun, en útfærslan hefur ekki verið hugsuð til enda og gengur því ekki upp fyrir hversdagslegt líf fólks. Fyrir utan það að of fá bílastæði gera fjölskyldum með ung börn og fólki með skerta hreyfigetu sem reiða sig á bíl til að komast á milli staða erfiðara fyrir að ferðast, einkum á veturna.

Við í Framsókn leggjum til að meginreglan verði eitt stæði á íbúð nema sérstakar skipulagsaðstæður kalli á annað. Bílastæði þurfa þó ekki öll að vera ofanjarðar. Hægt er að byggja bílakjallara í nýjum hverfum til að nýta land betur. Til að gera slíkar lausnir raunhæfar höfum við lagt til að gatnagerðargjald vegna bílastæðakjallara verði lækkað.

Leikskólamálin

Staða leikskólamála í Reykjavík er öllum kunn. Ítrekað hefur verið lofað að öll börn, 12 mánaða og eldri, fái leikskólapláss. Raunveruleikinn er annar. Hundruð barna bíða á biðlistum.

Þegar komið er að lausnaleit er öllum nýjum hugmyndum vísað á bug ef þær falla ekki að ríkjandi pólitískum viðhorfum ákveðinna flokka jafnvel þótt meirihluti sé fyrir þeim í borgarstjórn. Hvorki vinnustaðaleikskólar, sem vinnustaðir hafa sýnt áhuga á að setja á laggirnar, né tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir plássi fá hljómgrunn. Afleiðingin er að fjölskyldur lenda í ómögulegri stöðu að loknu fæðingarorlofi vegna þess að enga dagvistun er að fá og óljóst hvenær barn getur hafið vistun.

Húsnæðismálin

Það er húsnæðiskrísa á Íslandi. Hún hefur þrýst fasteignaverði upp og viðhaldið verðbólgu og háum vöxtum. Sem stærsta sveitarfélagið ber Reykjavíkurborg ríka ábyrgð á að tryggja að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði og ber að leggja sig alla fram við að tryggja sjálfbært framboð fjölbreyttra lóða. Borgin hefur þó nær eingöngu lagt áherslu á þéttingu byggðar og þótt þétting hafi sums staðar gengið vel hefur hún líka skapað mikla óánægju, meðal annars vegna skuggavarps, fækkunar grænna svæða og of hás fasteignaverðs. Þétting ein og sér mætir þá heldur ekki uppbyggingarþörfinni.

Skortur á byggingarhæfum lóðum í nýjum hverfum viðheldur háu fasteignaverði sem bitnar verst á ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum í lífinu. Fyrir utan þá staðreynd að ekki allir vilja búa í þéttri byggð. Að eiga öruggt heimili er grundvallarþörf, og það er á ábyrgð borgarinnar að tryggja framboð lóða.

Hugsjónir og raunveruleiki

Ofangreind dæmi sýna ákveðið mynstur. Ákvarðanir borgarinnar hafa verið svo fastar í útópískri framtíðarhugsjón að það fórst fyrir að takast á við daglegar þarfir fólks í dag. Hugsjónir eru góðar og nauðsynlegar, en þær mega ekki blinda fyrir raunveruleikanum.

Við þurfum skynsamlegar lausnir sem taka mið af fjölbreyttum þörfum borgarbúa. Því samfélagið er ekki svart og hvítt heldur marglitt, rétt eins og þarfir íbúa, sem passa ekki allar í einn kassa heldur krefjast fjölbreyttra lausna.

Spurningin sem eftir situr fyrir borgarstjórn að svara er því einföld: Fyrir hvern er borgin?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

„Eigi skal höggva“!

Deila grein

23/09/2025

„Eigi skal höggva“!

Aðfaranótt 23. september 1241 riðu sjötíu menn Gissurar Þorvaldssonar ásamt Oddaverjum og konungsmönnum að Reykholti, heimili Snorra Sturlusonar. Samkvæmt frásögn Sturlungu kom fram í bréfi nokkru sem Gissur hafði undir höndum frá Hákoni konungi að hann skyldi láta Snorra fara til Noregs aftur, hvort sem honum líkaði það eður ei. Að öðrum kosti skyldi Gissur tryggja dráp hans. Meginástæða þessarar tilskipunar Hákonar konungs var sú að Snorri hefði farið til Íslands í trássi við vilja hans árið 1239 og því væri hann landráðamaður. Snorri vildi halda heim til Íslands eftir að hann frétti af miklu falli skyldmenna sinna í Örlygsstaðabardaganum árið 1238. Að auki gekk Snorri til liðs við Skúla jarl, sem var óvinveittur konungi. Hákon konungur var staðráðinn í að refsa Snorra fyrir þessi svik. Gissur og menn hans komu Snorra að óvörum og fundu hann í kjallaranum í Reykholti. Í Sturlungu er þessu lýst svo: „Eftir það urðu þeir varir við hvar Snorri var og gengu þeir í kjallarann Markús Marðarson, Símon knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðinason, Þórarinn Ásgrímsson. Símon knútur bað Árna höggva hann. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. „Högg þú,“ sagði Símon. „Eigi skal höggva,“ sagði Snorri. Eftir það veitti Árni honum banasár og báðir þeir Þorsteinn unnu á honum.“

Þarna var framið eitt mesta ódæðisverk í sögu þjóðarinnar. Snorri Sturluson var mesta sagnaskáldið í Evrópu og stórbrotinn pólitískur hugmyndafræðingur. Eins og flestir þekkja liggja eftir hann Snorra-Edda og Heimskringla og honum er líka eignuð Egils saga Skallagrímssonar.

Í tilefni dagsins kemur út endurprentun ritsins Stjórnspeki Snorra Sturlusonar í Heimskringlu eftir Sigurð Líndal, gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi, og stendur Miðaldastofa í samstarfi við Lagastofnun HÍ, Bókmenntafélagið og RSE fyrir málstofu í fundarsal Eddu kl. 16.30 í dag. Erindi flytja Ditlev Tamm, prófessor emeritus í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla, og dr. Tom G. Palmer, alþjóðafulltrúi Atlas Network.

Að mínu mati eigum við að halda enn frekar á loft bókmenntasögu miðalda, þar sem hún er eitt það dýrmætasta sem þjóðin hefur skapað. Bókmenntirnar sameina okkur og veita einstaka sýn inn í hugarþel þessa tíma. Því er það vel til fundið að í tilefni dagsins sé verka Snorra Sturlusonar minnst með þessum hætti í Eddu. Húsið er reist til að varðveita þessa merku bókmenntasögu, miðla henni og efla íslensk fræði. Vel hefur tekist til og ánægjulegt að sjá veglega dagskrá vetrarins, sem mun efla vitund landsmanna um hinn merka bókmenntaarf. Mestu skiptir fyrir framtíðina að honum sé miðlað til yngstu kynslóðarinnar og bókmenntirnar haldi áfram að vera ljóslifandi í huga þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við vorum líka með plan

Deila grein

22/09/2025

Við vorum líka með plan

Húsnæðismál eldri borgara á Akureyri hafa kallað á frekari athygli og úrbætur og ekki síst eftir að upp kom mygla á Hlíð haustið 2022. Endurbætur hafa enn ekki hafist á þeim 22 hjúkrunarrýmum sem tekin voru úr notkun og ekki hefur heldur verið tekin ákvörðun um framtíð austurálmu Hlíðar sem er illa farin. Þetta hefur valdið fráflæðisvanda á SAk, aukið álag á stuðningsþjónustu og aðstandendur og ekki síst íbúa okkar sem svo nauðsynlega þurfa á þessari þjónustu að halda.

Ekki einungis hefur tafist að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á húsnæði Hlíðar, heldur hefur uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri einnig dregist á langinn. Fyrst átti nýtt hjúkrunarheimili að rísa við Lögmannshlíð en svo var ákveðið, í samráði við ríkið, að stefnt yrði að uppbyggingu í Þursaholti og ráðast í leiðinni í heilmikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir eldri borgara. Með því gafst tækifæri til að flýta uppbyggingu lífsgæðakjarna, þar sem hvorki var rými fyrir slíka uppbyggingu við Lögmannshlíð né fyrirsjáanlegt að skipulag vegna stækkunar Hagahverfis yrði tilbúið á næstunni. Sú stækkun var ekki einu á aðalskipulagi. Eitt þurfti ekki að útiloka annað.

Í nokkurn tíma hafa farið fram viðræður við ríkið um útfærslu lífsgæðakjarna í Þursaholti og hvernig væri best að haga útboði til að einfalda alla skipulagsvinnu. Þannig lægju fyrir skýrar forsendur til að hefja umfangsmikla uppbyggingu hjúkrunarheimilis og íbúða fyrir eldri borgara. Í vor kom Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, norður og skrifaði undir samning um uppbyggingu 80 hjúkrunarrýma í Þursaholti og stefnt að útboði án frekari tafa. Það verður svo einkennileg vending í málinu í sumar þegar okkur að óvörum kemur sú beiðni frá ríkinu að taka frá 40 rými til viðbótar fyrir mögulega framtíðarviðbyggingu í Þursaholti, án þess að fyrir liggi hvenær slík framkvæmd gæti orðið að veruleika. Þar með urðu að engu fyrirætlanir um lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Hvað þýðingu hefur þetta? Næsta uppbygging hjúkrunarrýma verður mögulega annað hvort í nýrri álmu við Hlíð og/eða viðbyggingu í Þursaholti og við sjáum mögulega ekki lífsgæðakjarna rísa á Akureyri í fyrirhugaðri framtíð.

Hvað vilja íbúar?

Undirrituð furðar sig á því að skipulagsráð hafi samþykkt þessa breytingu án frekari umræðu og lagt til við bæjarstjórn að auglýsa breytt skipulag, sem í reynd felur í sér að ekkert verði af sameiginlegri uppbyggingu á lífsgæðakjarna. Þá var málinu ekki vísað til umræðu í bæjarráði, þar sem áður hafði farið fram umræða um mögulegt samkomulag við ríkið um uppbyggingu lífsgæðakjarna í Þursaholti.

Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum fram eftirfarandi bókun á bæjarstjórnarfundi við afgreiðslu þessa máls og viljum um leið leggja áherslu á að íbúar geta enn haft áhrif á endanlega afgreiðslu málsins:

Lýsum yfir vonbrigðum með breytt fyrirkomulag á skipulagi hjúkrunarheimilis í Þursaholti, enda teljum við það tefja fyrir uppbyggingu lífsgæðakjarna á Akureyri. Áður lá fyrir samkomulag við ríkið um 80 hjúkrunarrými og uppbyggingu lífsgæðakjarna með íbúðum fyrir eldri borgara og viðræður staðið í nokkra mánuði hvernig ætti að haga því útboði. Nú er hins vegar gert ráð fyrir 40 rýmum til viðbótar fyrir framtíðarviðbyggingu, sem tefur og torveldar framgang lífsgæðakjarna og gerir út um þær hugmyndir í Þursaholti. Tafir sem munu valda því að á þessu kjörtímabili hefst engin uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Jafnframt hefur endurbótum á Hlíð seinkað og útboð á nýju hjúkrunarheimili dregist, sem hefur haft neikvæð áhrif á þjónustu við eldra fólk og aukið álag á heilbrigðis- og stuðningsþjónustu. Þrátt fyrir vonbrigði, þá samþykkjum við að auglýsa breytt skipulag, enda ekki ætlunin að standa í vegi fyrir nauðsynlegri uppbyggingu hjúkrunarrýma. Við ítrekum þó gagnrýni okkar á að fyrra samkomulag hafi verið virt að vettugi og teljum að farsælast hefði verið að vinna samkvæmt fyrirliggjandi stefnumótun, enda liggur mjög á uppbyggingu hjúkrunarrýma og íbúða fyrir eldri borgara.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 22. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Deila grein

22/09/2025

Fjárlög 2026: Missum ekki tækifærið

Það er stundum sagt að vextir séu eins og þyngdarafl. Þeir toga alla niður á við, bæði heimili og ríkissjóð. Ríkið ver tugum milljarða í vaxtagreiðslur á hverju ári, um 125 milljarða árið 2026, og ekki er útlit fyrir að þessar greiðslur lækki á næstu árum.

Fjölskyldur búa við svimandi vaxtabyrði af húsnæðislánum sínum og fyrirtæki standa frammi fyrir fjármögnunarkostnaði sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þetta dregur þróttinn úr hagkerfinu og skerðir möguleika okkar til að hraða t.a.m. innviðauppbyggingu og byggja upp sjálfbæra framtíð.

Veruleg tekjuaukning skapar sögulegt svigrúm

Hallinn árið 2026 er áætlaður um 15 milljarðar, sem er minna en eitt prósent af heildarútgjöldum ríkisins. Þetta er tiltölulega lítill halli en hann er táknrænn. Tækifærið sem við höfum til að ná jafnvægi tekna og gjalda er stórt.

Áætlað er að tekjur ríkisins muni aukast um 80 milljarða umfram áætlun árið 2025 og verða 27 milljörðum meiri árið 2026 en gert var ráð fyrir. Þetta eru jákvæðar fréttir. Þessi tekjuauki jafngildir rekstri heilbrigðisstofnana, menntaskóla eða viðbót við innviðauppbyggingu í nokkur ár.

Aðalatriði er þó að þessi tekjuaukning veitir einstakt svigrúm til að koma í veg fyrir hallarekstur strax á árinu 2026 án þess að skerða grunnþjónustu.

Hallalaus fjárlög skipta okkur öll máli

Hallalaus fjárlög 2026 væru ekki bara jákvæðar fréttir fyrir þá sem skulda, sem við flest gerum. Þau væru ein sterkustu skilaboð um aga og ráðdeild sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér í áraraðir á sviði efnahagsmála. Þau myndu styrkja trúverðugleika ríkisfjármála, bæta verðbólguhorfur og flýta verulega fyrir vaxtalækkunum Seðlabankans.

Fyrir heimilin og fyrirtækin myndi þetta þýða lægri vexti, bætt lánskjör og aukið svigrúm til fjárfestinga. Þetta er verkefni sem allir ættu að sameinast um.

Raunhæfar leiðir

Það þarf ekki róttækan niðurskurð til að ná hallalausum fjárlögum. Hægt er að fresta framkvæmdum sem ekki eru brýnustu forgangsmál e.t.v. um eitt ár. Þá má velta fyrir sér þeim möguleika að endurskoða skattkerfið til skemmri og lengri tíma og draga úr undanþágum. Það er svo mikið í húfi að við verðum að gera betur. Vafalaust mun þetta verða rætt ásamt öðru fram að 2. umræðu frumvarps til fjárlaga.

Svo má ekki gleyma því að fjármögnunarkostnaður ríkisins myndi lækka verulega við endurfjármögnun lána og skuldbindinga um leið og verðbólguvæntingar batna. Í því felst milljarða sparnaður fyrir ríkissjóð.

Nýtum tækifærið

Fjárlög 2026 geta orðið hallalaus. Það væri ekki aðeins hagræn niðurstaða heldur söguleg yfirlýsing um aga, stöðugleika og ábyrgð gagnvart framtíðarkynslóðum. Slík niðurstaða væri til marks um að þjóðin geti staðið saman þegar mest á reynir líkt og gert var í þjóðarsáttinni á níunda áratugnum.

Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri. Spurningin er hvort stjórnvöld og stjórnarandstaða, atvinnulíf og verkalýðshreyfing, fjölskyldur og fyrirtæki taki höndum saman. Ef allir leggja sitt af mörkum getum við tryggt hallalaus fjárlög 2026 og skapað traustari framtíð fyrir Ísland.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Endur­skoðun vaxtar­marka for­senda frekari upp­byggingar

Deila grein

19/09/2025

Endur­skoðun vaxtar­marka for­senda frekari upp­byggingar

Höfuðborgarsvæðið stendur á krossgötum. Ef við ætlum að tryggja uppbyggingu næstu áratuga þurfum við að endurskoða vaxtarmörkin í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Í dag eru þau of þröng og setja okkur skorður sem ganga ekki upp til lengri tíma.

Í Hafnarfirði er staðan mjög skýr: við erum að verða uppseld með land. Næsta stóra uppbyggingarsvæðið er Vatnshlíðin, auk nokkurra þéttingarreita sem eru þegar í vinnslu. En þegar sú uppbygging er farin af stað eða lokið, um 2030, verður ekkert land eftir til frekari framkvæmda. Það er stuttur tími þegar horft er til skipulags sem þarf að ná áratugi fram í tímann.

Tryggjum ungu fólki þak yfir höfuðið

Þess vegna segi ég skýrt: vaxtarmörkin verða að breytast. Þetta er ekki bara hagsmunamál Hafnarfjarðar, heldur alls höfuðborgarsvæðisins. Ungt fólk sem vill koma sér upp heimili þarf að vita að það sé hægt. Fyrirtæki sem vilja fjárfesta og vaxa þurfa land til að starfa á. Sveitarfélögin þurfa svigrúm til að byggja upp innviði eins og skóla, samgöngur og þjónustu. Ef við sköpum ekki þennan fyrirsjáanleika, þá stöðnum við.

Ég fagna því að félagsmálaráðherra, Inga Sæland, skuli vera jákvæð fyrir slíkum breytingum, en við hér í Hafnarfirði höfum bent á þessa þörf árum saman. Því miður fyrir daufum eyrum. Það er staðreynd að Reykjavíkurborg hefur barist hvað harðast gegn breytingum á vaxtarmörkum sem tafið hefur fyrir allri umræðu um lausnir. Nú heyrist þó nýr tónn úr þeim herbúðum, sem er jákvætt. Ég vona að það sé merki um að Reykjavík sé loksins tilbúin að horfa til framtíðar með okkur hinum. Á síðustu árum hafa verið lögð fram frumvörp, m.a. af hálfu Ágústar Bjarna, frv. þingmanns Framsóknar, sem hafa það að markmiði að tryggja að sveitarfélög, eins og Hafnarfjörður, hafi það svigrúm innan svæðisskipulagsins sem nauðsynlegt er til að geta haldið áfram að byggja upp með því að brjóta nýtt land samhliða því að þétta byggð með skynsamlegum hætti. Það er það sem við höfum kallað „hafnfirsku leiðina“ í uppbyggingu íbúða.

Lausnin er einföld

Við þurfum bæði þéttingu og ný svæði. Það er ekki annaðhvort eða, heldur jafnvægi. Með því tryggjum við nægt framboð af íbúðar- og atvinnusvæðum og getum byggt sterkt og fjölbreytt samfélag. Það er forsenda þess að höfuðborgarsvæðið geti vaxið og dafnað og verið raunverulegur kostur fyrir komandi kynslóðir.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aga­leysi bítur

Deila grein

19/09/2025

Aga­leysi bítur

„Það er mikilvægt að barn komi vel sofið, búið að borða og í ró í skólann.“ Þetta sagði við mig kennari sem hefur langa reynslu af skólastofunni. Þetta er forsenda þess að hægt sé að hefja kennslu og nýta tímann til náms. Þegar ró næst fer ekki dýrmætur tími forgörðum. Ætla má að þetta sé það sem við köllum almenna skynsemi og má fullyrða að flestir foreldrar sinna þessu hlutverki vel. Bæta má hins vegar við að foreldrar þjálfi með börnum sínum jákvæðan aga. Íslenskir kennarar eru ellefu mínútum lengur að ná aga eða ró í bekkjastarfi sínu, að meðaltali, miðað við rannsóknir á Norðurlöndunum. Agi er orð sem oft hefur verið misskilið. Fólk hræðist oft að ræða aga eða réttara sagt hvað agaleysi felur í sér. Þegar skoðaðar eru rannsóknir á skaðlegu umhverfi, bæði í uppeldi og á vinnustöðum, er agaleysi flokkuð sem vanræksla. Áhrifin af vanrækslu í uppeldi eru ákaflega skaðleg. Foreldrum ber skylda til að börn sín séu vel undirbúin til skólagöngunnar en með réttu má segja að leikskólar aðstoði foreldra við aðlögun barna að grunnskólanámi. Í stærri samhengi hlutanna bera foreldrar einnig ábyrgð á því að börnin vaxi úr grasi og verði virkir þátttakendur samfélagsins. Þetta er verkefni sem skólinn og foreldar skipta sín á milli, hvor liður mikilvægur í uppvextinum. En þá spyr maður sig, hvað kemur fyrir barn sem aldrei hefur fengið þjálfun í að fara eftir settum reglum, alist upp án aga og marka? Eða unglingar? Hvað gerist þegar einstaklingurinn verður fullorðinn? Það skín í gegn að agaleysi er vandamál sem er viðvarandi. Það kallar á samfélagsleg viðbrögð og við þufum því að velta því fyrir okkur hvernig við getum náð ró í skólastarfinu. Agaleysi er ekki bara áskorun fyrir skólann heldur samfélagslegt vandamál sem hefur afleiðingar langt fram á fullorðins ár.

Ró í skólastofunni.

Ró í skólastofunni miðast að sjálfsögðu við hvern árgang, hvert barn og þann stuðning sem þarf til að halda uppi skipulögðu starfi. Ró næst líka með því að foreldrar sinni samstarfi við skóla, fylgist með daglegu skólastarfi og taki virkan þátt í foreldrasamstarfi. Ali upp virðingu fyrir kennurum, skólastarfi og menntun. Styðji við barnið sitt svo það geti verið í bekkjar umhverfi frá upphafi. Styðji það til jákvæðrar hegðunar, sýni því fram á að óæskileg hegðun hafi afleiðingar og beiti leiðandi uppeldisaðferðum. Árangur í að koma í veg fyrir einelti, sem dæmi, byggir á að barn geti sett sig í spor annarra. Til þess þarf samstarf heimila og skóla og í raun alls samfélagsins. Rannsóknir sýna að sá hæfileiki, sem er grundvallar hluti af hópstarfi, er á niðurleið. Foreldrar þurfa að leggja sig fram um að barni sé leiðbeint þannig í samskiptum að það geti átt í jákvæðum samskiptum við önnur börn og fullorðið fólk. Það er að sjálfsögðu ekki allir sem getað náð þeirri færni í samskiptum. Þeir sem eru með þroska- og hegðunarraskanir þurfa oftar en ekki aðstoð sem skólanum ber að veita.

Hvernig næst ró í skólakerfinu?

Munum að ró í skólastofu hefst heima, þar er lagður grunnur að þeirri færni sem hvert og eitt barn þarf að búa yfir til að ró náist. Ró í skólastofu næst betur t.d. með því að vera ekki með símana til að trufla athygli. Ró næst t.d. þegar virðing er borin fyrir samnemendum og kennurum.

Pólitísk ró?

Einn af þeim þáttum sem hafa gleymst í þeirri umræðu er að samfélagið hefur breyst hratt á undanförnum árum. Samfélagið innan hvers bekkjar, samfélagið utan bekkjar. Fjölbreytni og þarfir ólíkra hópa hefur vaxið til muna. Skólarnir hafa tekist á við samfélagsbreytingar á aðdáunarverðan máta. Ég hef haft þann heiður að heimsækja marga skóla í Reykjavíkurborg. Þar er unnið fagmannlegt starf. Tími er komin til að við tökum saman höndum um hvernig skólakerfi við viljum. Vandi menntakerfisins liggur í að póltíkin þvælist fyrir. Það er að segja á fjögurra ára fresti er skipt um ráðherra og pólitískt kjörna fulltrúa og þar með stefnumótun í menntakerfinu. Við þurfum að halda okkur við langtímastefnumótun. Þar þarf aga og úthald eins og í uppeldi. Hvolpur sem ekki fær aga í uppeldi getur bitið.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík og situr í Skóla- og frístundarráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grímu­laus að­för að lands­byggðinni

Deila grein

18/09/2025

Grímu­laus að­för að lands­byggðinni

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu boðað breytingar sem munu markvisst fækka störfum æðstu embættismanna á landsbyggðinni. Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni er nú þegar lægra en á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurlagning sýslumannsembættanna, afnám sex svæðisbundinna heilbrigðiseftirlita, fækkun héraðsdómstóla og nú áform um að miðstýra fjármálum framhaldsskólanna allt ber þetta að sama brunni.

Breytingar sem veikja innviði héraðsins

Í heildina er með þessum aðgerðum verið að flytja eða veikja 40–50 opinber störf á landsbyggðinni. Þetta eru ekki hvers kyns störf heldur stöður menntaðra sérfræðinga sem hafa haft raunverulegt umboð til að forgangsraða fjármagni og móta starfsemi á sínu svæði.

Þegar þessi opinberu störf eru flutt frá héraði tapast ekki bara atvinnutækifæri heldur líka vald til ákvarðanatöku á staðnum. Innviðir sem áður þjónuðu byggðunum með styrk og sjálfstæði eru þannig bitlausir gerðir. Þess í stað verða eftir útibú sem missa áhrif sín og geta lítið annað en fylgt fyrirmælum frá miðlægum skrifstofum.

Sagan sýnir að þegar kemur að niðurskurði er mun auðveldara fyrir embættismenn fjarri viðkomandi starfsstöð að beita niðurskurðarhnífnum þar sem þeir standa ekki í djúpum tengslum við samfélagið sem þjónustan á að þjóna.

Sýslumannsembættin lögð niður

Sýslumannsembættin voru í áratugi burðarás í þjónustu við almenning um land allt. Með niðurlagningu þeirra mun aðgengi að grunnþjónustu veikjast, sérstaklega í dreifðum byggðum. Fólk þarf nú að sækja þjónustu lengra að, sem skapar bæði kostnað og óhagræði.

Heilbrigðiseftirlitin lögð niður

Með því að leggja niður átta svæðisbundin heilbrigðiseftirlit á landsbyggðinni er framkvæmdastjórum fækkað um átta. Það er ekki aðeins spurning um starfsmenn heldur spurning um gæði eftirlits og öryggi íbúa.

Þetta eru opinber störf menntaðra sérfræðinga með staðbundna þekkingu og djúp tengsl við nærumhverfið, fólk sem hefur haft umboð til að forgangsraða fjármagni og tryggja öflugt eftirlit í sínum heimahéruðum. Með breytingunum er þessi vernd veikluð og valdinu kippt til fjarlægra skrifstofa.

Framhaldsskólarnir – sjálfstæðinu ógnað

Nýjasta dæmið er áform um að setja miðlægar fjármálaskrifstofur yfir framhaldsskólana. Með því er sjálfstæði skólastjórnenda skert og sveigjanleiki til að mæta þörfum hvers menntasamfélags minnkar. Skólarnir eiga að vera drifnir áfram af nærumhverfinu, ekki fjarlægum skrifstofum.

Ábyrgð stjórnvalda

Ég innti Ingu Sæland eftir þessu á Alþingi í dag í fyrirspurnartíma. Hún vísaði ábyrgðinni frá sér með þeim rökum að málin heyrðu ekki undir hennar ráðuneyti. En sem oddviti stjórnmálaflokks í ríkisstjórn ber hún fulla pólitíska ábyrgð. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við formsatriði.

Aðför að landsbyggðinni

Hvort sem þetta er hluti af svokallaðri tiltekt ríkisstjórnarinnar eða ekki, þá blasir hitt við: uppsafnað eru þessi áform ekkert annað en grimmileg aðför að landsbyggðinni. Með þessum aðgerðum er vegið að mikilvægum innviðum sem skipta byggðirnar utan höfuðborgarsvæðisins sköpum.

Felst í tiltekt ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur í að brjóta og bramla hryggjarstykkið í hinum dreifðu byggðum?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. september 2025.