Categories
Greinar

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Deila grein

23/08/2021

Hver er fram­tíð ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu?

Það er sorglegt að flókið regluverk, úr sér gengin löggjöf, steinrunnar stofnanir og skilningsleysi kerfisins sé dragbítur framfara og verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Á sama tíma höfum við fjölmörg sóknarfæri í óbeisluðum krafti, hugviti, auðlindum og dugnaði í íslenskum sveitum og sjávarplássum. Þessi kraftur býður þess að fá að skapa verðmæti og velsæld, þjóðinni til heilla. Skilningsleysi verulegs hluta stjórnmálastéttarinnar, sem kristallast í úreltu regluverki og sorglegri vöntun á metnaðarfullri framtíðarsýn, eru hins vegar eins og myllusteinn sem halda aftur af framförum í íslenskum landbúnaði.

Raddir forneskju

Tveir kórar, skipaðir mismunandi röddum úreltra hugmynda, láta mikið að sér kveða í opinberri umræðu um íslenskan landbúnað. Annars vegar eru það þeir sem telja að lausn allra vandamála í íslenskum landbúnaði felist í því að moka sífellt meiri fjármunum inn í greinina. Slíkt hefur engin áhrif til langframa nema með fylgi breytt viðhorf og vel ígrundaðar kerfisbreytingar. Þá hrópa úr annarri átt þeir sem vilja að Ísland snúi baki við bændum og landsbyggðinni. Oft eru þessi skilaboð klædd í búning skrúðmælgi og því hnýtt við að Evrópusambandsaðild gæti leyst allan vanda. Megin þorri þjóðarinnar vill hins vegar ekki fórna landbúnaði, bændum og landsbyggðinni fyrir hagsmuni fámennar heildsalaklíku. Sem betur fer er staðan ekki svona svarthvít það eru fleiri hliðar á teningnum.

Sanngjörn samkeppni

Í heimi hraðra breytinga þarf að laga starfsskilyrði landbúnaðarins að breyttri heimsmynd og kröfum neytenda um betri vöru sem framleidd er á forsendum umhverfis, velferðar og heilnæmis. Það er forgangsatriði að laga regluverkið þannig að bændur og afurðarfyrirtæki þeirra geti keppt á sanngirnisgrundvelli við innflutning og erlenda verksmiðjuframleiðslu. Það eru engar töfralausnir til en það er ýmislegt sem hægt er að gera til að hjálpa íslenskum landbúnaði að bjarga sér sjálfur. Bændur eru ekki að biðja um ölmusu, heldur einfaldlega að leikreglurnar séu sanngjarnar.

Framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu

Íslenskir bændur standa einstaklega vel að vígi þegar kröfur um umhverfisvænleika, loftslagsábyrgð og dýravelferð eru sífellt að verða háværari. Sjálfur hef ég í áratugi barist fyrir hagsmunum bænda og annarra matvælaframleiðenda á ýmsum vettvangi. Meðal annars lagt til aukna skógrækt, frelsi til samvinnu afurðastöðva, meiri stuðning við nýsköpun og svo mætti áfram telja. Íslenskir bændur og aðrir matvælaframleiðendur standa frammi fyrir fjölda tækifæra í heimi þar sem vaxandi eftirspurn er eftir afurðum sem framleiddar eru á forsendum helstu styrkleika Íslands. Við þurfum að sjá þessa styrkleika og nýta okkur þá. Nú er kominn tími til að láta verkin tala og hefja fyrir alvöru framsókn íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar

Deila grein

20/08/2021

Börnin okkar

Í heimi sem einkennist af síauknum hraða og kapphlaupi við lífsins gæði, hættir okkur til að gleyma því sem mestu máli skiptir. Við gleymum að hugsa um heilsuna og vöknum upp við það einn daginn að við erum komin upp við vegg. Við gleymum að rækta samböndin sem allt í einu eru kulnuð. Við gætum ekki að því að njóta samvista með börnunum okkar sem allt í einu eru orðin fullorðin. Við gerum öll sömu mistökin. Dag eftir dag, ár eftir ár.

Mörg höfum við orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ala upp börn. Börn setja alla hluti í annað samhengi og opna fyrir okkur víddir sem við vissum ekki að væru til. Allt í einu er ekkert eins og áður. Við grátum af gleði. Við óttumst skyndilega hluti sem áður voru sjálfsagðir. Við upplifum tilfinningar af áður óþekktum styrk og það rennur upp fyrir okkur þegar við horfum á börnin að í þeim koma saman allir geislar sólarinnar. Allar gersemar mannlegrar tilvistar.

Framfarir

Mörg helstu framfaraskref sögunnar eiga það sameiginlegt að vera svo augljós, en aðeins þegar einhver annar hefur rutt veginn. Oft af ómældum metnaði sem drifinn er áfram af skýrri sín á markmiðið og tilganginn. Mér varð hugsað til þess þegar ég las viðtal við Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Framsóknarflokksins, þar sem hann lýsti því hvers vegna hann setti málefni barna í algeran forgang, að þarna hefði hann stigið skref af þessu tagi. Augljóst framfaraskref og vakti mann til umhugsunar hvers vegna þetta hafði ekki verið gert fyrir löngu. Hvað gæti eiginlega skipt meira máli?

Vegferð Ásmundar og þess öfluga Framsóknarfólks sem er honum að baki hefur verið aðdáunarverð og á skömmum tíma hefur hann hrundið í framkvæmd kerfisbreytingum sem skipta munu sköpum í lífi barna og aðstandenda þeirra. Í stað þess að börn og aðstandendur þurfi að aðlaga sig að flóknu kerfinu verður kerfið aðlagað til að mæta fjölbreyttum þörfum barnanna. Börnin miðpunkturinn og þarfir þeirra aðalatriðið. Við þurfum nefnilega æði mörg stuðning og aðstoð þegar á reynir og hvert einasta barn sem við náum að styðja til betra lífs er verðmætara en allt gull heimsins. Margt er enn óunnið, en ég vona sannarlega að Ásmundur leiði þá vegferð sem hann hefur komið af stað á komandi kjörtímabili. Það er kjósenda að tryggja að svo verði.

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps og frambjóðandi Framsóknarflokksins í komandi alþingiskosningum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Það sem enginn þorir að ræða!

Deila grein

20/08/2021

Það sem enginn þorir að ræða!

Grænir orkugjafar hafa verið grundvöllur lífsskilyrða í landinu og knúið efnahagslífið áfram. Við Íslendingar höfum náð eftirtektarverðum árangri við útskiptum jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa og nú liggur fyrir að taka þarf enn stærri skref. Stóra áskorunin sem við stöndum frammi fyrir felst í orkuskiptum í samgöngum á landi, lofti og sjó. Flestir virðast vera sammála því að ráðast þurfi í orkuskipti – hins vegar nálgast enginn umræðuna út frá því hvaðan sú græna orka eigi að koma.

Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Þetta er loftlagsvænt og efnahagslegt markmið. Við sem þjóð erum í einstakri stöðu á heimsvísu til að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum til að ná þessu markmiði.

Aukin eftirspurn eftir grænni orku

Ljóst er að orkuþörf heimsins muni aukast á komandi árum. Þjóðir allt í kringum okkur gera ráð fyrir umtalsvert aukinni orkuþörf og áskorunin sem er að tryggja að þessari þörf sé mætt með grænni orku. Því er viðbúið að verðmæti hennar muni vaxa á komandi árum.

Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2050 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.

Græn orka – olía Íslands

Líkt og orkustefnan kemur inn á eykur það hagkvæmni og dregur úr áhættu að hafa fjölbreyttar lausnir í grænni orkuöflun. Vatnsorka, vindorka og jarðvarmi eru orkukostir sem horfa þarf til ef mæta á aukinni orkuþörf á komandi árum, en þessir valkostir eru ein stærsta auðlind Íslendinga. Því skýtur skökku við hvernig ýmsir ráðamenn, sem vilja ýta þessum óumflýjanlegu orkuskiptum hratt og vel í gegnum kerfið, skirrast við að ræða hvaðan hreina orkan á að koma. Vilja jafnvel þrengja að tækifærum þjóðarinnar til grænnar orkuframleiðslu eins og tillögur um Hálendisþjóðgarð sýna glöggt.

Það er ekki bæði haldið og sleppt í þessu samhengi, ef bæði fyrirsjáanleg aukning í orkunotkun Íslendinga og aukin orkuþörf í orkuskiptin eiga að geta átt sér stað er nauðsynlegt að ræða af fullri alvöru hvaðan við eigum að fá innlendu grænu orkuna sem á að koma í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.

Lykillinn að árangri í loftlagsmálum

Íslendingar hafa sýnt það í gegnum árin að við höfum þekkingu og reynslu að virkja náttúruna og á sama tíma umgangast landið okkar af virðing og varfærni.

Ef þjóðin heldur rétt á spilunum eru mikil tækifæri á Íslandi falin í öflun á grænni orku. Fáir eru í betri færum til að taka orkuskipti alla leið, byrja á bílaflotanum, horfa svo til vinnuvéla og skipaflotans og loks til flugsamgangna í framtíðinni, eftir því sem grænni tækni fleygir fram. Traustir orkuinnviðir um land allt eru lykillinn að að þessari umbreytingu og þeim árangri í loftlagsmálum sem við gætum náð. Því er mikilvægt að hugsa og nálgast málin af skynsemi, vega og meta þá kosti sem eru í boði og taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir framtíðarkynslóðir í landinu til lengri tíma. Ef við ætlum að vera forystuþjóð á sviði grænnar orku – þá þurfum við að afla hennar. Það liggur í augum uppi. Skynsemin liggur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi við næstu Alþingiskosningar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Deila grein

20/08/2021

Betri þjónusta og aukin lífsgæði eldra fólks

Á því kjör­tíma­bili sem er að líða lýsti ég því yfir að mín aðaláhersla yrði mál­efni barna. Það væri brýnt að fjár­festa í börn­um sem allra fyrst, það er nefni­lega hag­kvæmt og dreg­ur úr þeim kostnaði sem hlýst síðar meir af því að sinna þeim mála­flokki ekki nægi­lega vel. Bæði fjár­hags­leg­um kostnaði og ekki hvað síst þeim kostnaði, bæði sam­fé­lags­leg­um og efn­is­leg­um, sem hlýst af fyr­ir viðkom­andi barn og fjöl­skyldu þess allt frá upp­hafi og kostnaði sem barnið fær­ir með sér upp á full­orðins­ár. En fyr­ir ligg­ur að börn sem verða fyr­ir áföll­um í æsku, sem ekki eru tækluð snemma og á rétt­an hátt, taka þau áföll með sér áfram í líf­inu og eiga það á hættu að þróa með sér and­leg­an og lík­am­leg­an vanda sem veld­ur því að þau glíma við sjúk­dóma og ann­ars kon­ar erfiðleika, lifa styttra og geta síður gefið til baka til sam­fé­lags­ins á síðari árum. Fjár­fest­ing í börn­um dreg­ur úr fjár­magni sem ríkið þarf að inna af hendi síðar, til dæm­is til heil­brigðis­kerf­is, greiðslu ör­orku­líf­eyr­is, greiðslur sem falla til í refsi­vörslu­kerf­inu og ann­ars staðar.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils fundaði ég með fjöl­mörg­um aðilum sem höfðu reynslu og upp­lýs­ing­ar um hvernig við gæt­um breytt vel­ferðar­kerf­inu fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur þeirra. Börn­in sjálf voru spurð, for­eldr­ar þeirra, aðrir fjöl­skyldumeðlim­ir, fagaðilar og ekki síst þeir ein­stak­ling­ar sem hefði þurft að aðstoða á barns­aldri en eru orðnir full­orðnir nú.

Ein­stak­ling­ur­inn á að vera hjartað í kerf­inu

Upp úr stóð að meiri­hluti lýsti því að kerfið væri flókið. Fjöl­skyld­um fannst að þær þyrftu að eyða mikl­um tíma í það að finna út hvaða þjón­ustu þær þyrftu, hvar slíka þjón­ustu væri að fá og sækja hana, oft til nokk­urra mis­mun­andi aðila. Kerf­inu var lýst sem völ­und­ar­húsi og ljóst að það væri ekki á færi allra að rata gegn­um það.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frum­varp mitt til nýrra laga um samþætt­ingu þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna. Lög­fest­ing skipu­lags samþættr­ar þjón­ustu við börn þvert á alla þjón­ustu­veit­end­ur er ein­hver sú stærsta kerf­is­breyt­ing sem ráðist hef­ur verið í í mál­efn­um barna í seinni tíð. Breyt­ing sem aldrei hefði verið hægt að ná í gegn án gíf­ur­lega um­fangs­mik­ils sam­ráðs og þátt­töku fjöl­margra aðila sem koma að mál­efn­um barna hér á landi. Meira en 1.000 manns komu að vinn­unni með ein­um eða öðrum hætti á þriggja ára tíma­bili, börn, for­eldr­ar og sér­fræðing­ar, þvert á ráðuneyti, kerfi, fag­stétt­ir og póli­tík. Við ákváðum að fjár­festa í fólki vegna þess að það er ein arðbær­asta fjár­fest­ing­in.

Við þurf­um nýja nálg­un

Þessa reynslu má nýta til um­bóta í öðrum mála­flokk­um þar sem þörf er á samþætt­ingu þjón­ustu og betra sam­tali þjón­ustu­veit­enda. Meðal þeirra mála­flokka eru mál­efni eldra fólks.

Íslenska þjóðin er að eld­ast. Nú er sjö­undi hver landsmaður 65 ára eða eldri en árið 2050 verður fjórði hver landsmaður á þeim aldri. Breytt ald­urs­sam­setn­ing þjóðar­inn­ar ger­ir meiri og aðrar kröf­ur til

ým­issa þjón­ustu­veit­enda svo tryggja megi öldruðu fólki hér á landi frelsi, fjár­hags­legt ör­yggi og góð lífs­gæði. Til þess að svo megi vera þarf þjón­usta við eldra fólk að taka mið af þörf­um ein­stak­linga og ganga þvert á kerfi og stofn­an­ir. Með öðrum orðum, við þurf­um að samþætta þjón­ustu við eldra fólk, þvert á kerfi, ráðuneyti og sér­fræðinga og tryggja heild­ræna sýn á mál­efni hvers ein­stak­lings með sam­starfi allra viðeig­andi þjón­ustu­veit­enda. Mik­il­vægt er að hér á landi verði mótuð heild­stæð nálg­un á það hvernig skuli haga slíku sam­starfi í þágu rétt­inda og lífs­gæða eldra fólks.

Þau mál­efni sem eldra fólk lýs­ir hvað helst eru að vissu leyti sam­bæri­leg við þau mál­efni sem lýst var í þeirri vinnu sem snýr að börn­um. Þjón­usta við eldra fólk er á hendi margra mis­mun­andi þjón­ustu­veit­enda sem heyra und­ir mis­mun­andi ráðuneyti. Ekki þarf allt eldra fólk sams kon­ar þjón­ustu – hóp­ur­inn er afar mis­mun­andi inn­byrðis, enda um að ræða fólk á aldr­in­um 67-100 ára, 67 ára ein­stak­ling­ur sem er að láta af störf­um eða minnka við sig hef­ur al­mennt ekki sömu þarf­ir og sá sem er 100 ára gam­all – og einn 75 ára ein­stak­ling­ur hef­ur hreint ekki sömu þjón­ustuþarf­ir og ná­granni hans/​henn­ar sem einnig er 75 ára.

Það er al­gjört lyk­il­atriði að ein­stak­ling­ur­inn sjálf­ur eða aðstand­end­ur hans þurfi ekki að vera sér­fræðing­ar í þjón­ustu til eldra fólks, eða viti strax hvaða þjón­ustu þörf sé á, hvar hana sé að finna og í viss­um til­fell­um tengja sam­an tvo eða fleiri þjón­ustu­veit­end­ur sem veiti heild­ræna þjón­ustu. Þetta er ekki hlut­verk aðstand­enda og ekki eldra fólks­ins sjálfs, ein­stak­ling­ur­inn þarf að vera hjartað í kerf­inu.

Á kom­andi kjör­tíma­bili vil ég setja mál­efni eldra fólks í sama far­veg og mál­efni barna á kjör­tíma­bil­inu sem er að líða. Við höf­um þegar sýnt að það er mögu­legt að fara í stór­ar kerf­is­breyt­ing­ar. Þjón­usta við eldra fólk get­ur verið og á að vera svo miklu ein­fald­ari. Við þurf­um að fjár­festa í fólki vegna þess að það er arðbær­asta fjár­fest­ing­in út frá öll­um hliðum.

Fyr­ir ein­stak­ling­inn og sam­fé­lagið allt. Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra og fram­bjóðandi fyr­ir xB í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Að efna loforð

Deila grein

17/08/2021

Að efna loforð

Þing var rofið í vik­unni og með því hófst í raun kosn­inga­bar­átt­an fyr­ir alþing­is­kosn­ing­arn­ar þann 25. sept­em­ber. Þær munu marka nýtt upp­haf, annað hvort end­ur­nýjað umboð sitj­andi rík­is­stjórn­ar eða færa þjóðinni nýja.

Fleiri flokk­ar en áður munu bjóða fram. Auk­inn áhugi fólks á stjórn­málaþátt­töku er gleðileg­ur, enda eiga fram­bjóðend­ur það sam­eig­in­legt að vilja bæta sam­fé­lagið. Við höf­um ólík­ar skoðanir á leiðum og aðgerðum, en tak­mark okk­ar allra er að vinna til góðs.

Í upp­hafi kjör­tíma­bils­ins setti rík­is­stjórn­in sér metnaðarfull mark­mið. Þau hafa meira og minna náðst, hvort sem horft er til mýkri eða harðari mála. Kerf­is­breyt­ing­ar hafa orðið í mik­il­væg­um mála­flokk­um og ekki síður löngu tíma­bær­ar viðhorfs­breyt­ing­ar. Mála­flokk­ar Fram­sókn­ar­ráðherr­anna hafa blómstrað á kjör­tíma­bil­inu og með um­hyggju fyr­ir fólki í fartesk­inu hef­ur tek­ist að efna svo til öll lof­orð okk­ar úr stjórn­arsátt­mál­an­um. Kjör og lífs­gæði náms­manna hafa stór­breyst til batnaðar, menntuðum kenn­ur­um hef­ur fjölgað, rétt­indi og starfsþró­un­ar­mögu­leik­ar aukn­ir og sam­starf stjórn­valda við lyk­ilfólk í skóla­kerf­inu auk­ist. Jafn­vægi milli bók- og verk­náms hef­ur stór­auk­ist, há­skól­ar hafa verið opnaðir fyr­ir iðnmenntuðum og grund­vall­ar­breyt­ing hef­ur orðið í viðhorf­um til starfs- og tækni­náms. Hola ís­lenskra fræða er nú hús, fjár­veit­ing­ar í lista- og menn­ing­ar­sjóði hafa stór­auk­ist, bóka­út­gáfa stend­ur í blóma vegna op­in­bers stuðnings við út­gáfu bóka á ís­lensku og ís­lensk kvik­mynda­gerð hef­ur verið sett á viðeig­andi stall, með skýrri stefnu og mark­viss­um aðgerðum. Við höf­um skapað spenn­andi um­gjörð fyr­ir sviðslist­ir með nýj­um lög­um, tryggt betri fjár­mögn­un fram­halds- og há­skóla, sett lög um lýðskóla, stækkað bóka­safns­sjóð rit­höf­unda, und­ir­búið menn­ing­ar­hús um allt land og fram­kvæmd­ir af ýms­um toga – nýj­ar skóla­bygg­ing­ar fyr­ir list-, verk- og bók­nám, þjóðarleik­vanga í íþrótt­um o.fl. Við höf­um staðið vörð um skólastarf á tím­um heims­far­ald­urs og stutt mark­visst við íþrótta- og menn­ing­ar­fé­lög, svo þau komi stand­andi út úr kóf­inu.

Af­rekalist­inn er sam­bæri­leg­ur í öðrum ráðuneyt­um Fram­sókn­ar­flokks­ins – þar sem rétt­indi barna hafa t.d. fengið for­dæma­lausa at­hygli og marg­vís­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar hafa skilað frá­bær­um ár­angri og rétt­ar­bót­um. For­eldra­or­lof hef­ur verið lengt, nýj­ar hús­næðis­lausn­ir kynnt­ar til leiks og fé­lags­lega kerfið eflt. Í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­inu hef­ur ráðherra leyst úr flókn­um mál­um, komið langþráðum sam­göngu­bót­um til leiðar stuðlað að auknu jafn­ræði milli lands­byggðar og SV-horns­ins, t.d. með Loft­brúnni svo­nefndu.

Efnd­ir kosn­ingalof­orða er besta vís­bend­ing­in sem kjós­end­ur geta fengið um framtíðina. Á þessu kjör­tíma­bili hef­ur Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vökvað sam­fé­lagið með góðri sam­vinnu við aðra, opn­um hug og hóf­semd. Við höf­um sýnt kjark í verki og sam­fé­lagið hef­ur notið góðs af. Við vilj­um halda áfram okk­ar góða starfi, í sam­vinnu við hvern þann sem deil­ir með okk­ur sýn­inni um gott sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Er þitt blóð verra en mitt?

Deila grein

11/08/2021

Er þitt blóð verra en mitt?

Nú þegar hinsegin dagar ganga í garð er gott að líta aðeins í kringum sig og hugsa. Hugsa afhverju erum við enn að minna á rétt hinsegin fólks og baráttu þeirra? Hugsa hvað viljum við gera betur? Og hvar getum við gert betur?

Við höldum kannski að jafnréttið sé vel á veg komið á sem flestum stöðum hér á litla Íslandi, eða að minnsta kosti á mjög góðri leið þangað. En svo verður manni litið til reglna á borð við þær sem blóðbankinn hefur sett. Banki sem við vitum aldrei hvenær við, eða einhver nákominn okkur, gæti þurft á að halda. Bankinn sem bjargar lífum og við viljum að sé stútfullur og reiðubúinn þegar fólk þarf á að halda. Ég hef ekki mátt gefa blóð síðustu ár þar sem ég fæ mér af og til stöku flúr, en er alltaf á leiðinni eins og svo margir, því ég vil leggja mitt af mörkum. Mér finnst nefnilega mikilvægt að við getum öll lagt okkar af mörkum.

Það er hins vegar þannig að bankinn gerir upp á milli blóðs. Ekki vegna litarháttar, ekki vegna trúar eða kyns heldur vegna kynhneigðar. Grunlaus um fordóma samfélagsins bárust mér fregnir af þessu fyrir stuttu síðan og hef ég eiginlega ekki getað hætt að hugsa um þetta síðan.

Reglur bankans

Reglurnar eru þannig að karlmaður má ekki gefa blóð ef hann hefur stundað kynlíf með öðrum karlmanni, engu skiptir hvort þaðséu skyndikynni eða hann í sambúð. Þannig mega til dæmis tveir karlmenn sem eru par og búnir að vera lengi saman ekki gefa blóð. En kona sem hefur verið með mörgum mismunandi mönnum má hinsvegar gefa nokkra millilítra þegar henni sýnist, svo lengi sem enginn þeirra manna sem hún hefur verið með hafi á sinni ævi stundað kynlíf með öðrum manni. Nú veit ég ekki hvort fólk leggi það í vana sinn að spyrja bólfélaga sína að því en einhvernveginn hljómar það ólíklegt og þ.a.l regla sem erfitt er að framfylgja. Samkynhneigðir menn mega hinsvegar gefa líffæri eins einkennilega og það hljómar.

Tekið frá reglum blóðbankans: Þú mátt ekki gefa blóð ef þú:

  • Ert karlmaður sem hefur einhvern tímann haft kynmök við annan karlmann;
  • Konur: Hefur verið með einhverjum karlmanni sem hefur einhvern tímann haft kynmök við annan karlmann

Hver eru rökin?

Rökin að baki eru þau að karlmenn séu líklegri til þess að bera HIV á milli sín. Þetta kann að vera rétt staðreynd, en stenst sú staðreynd tímans tönn? Er tæknin ekki orðin betri en þetta? Vissulega voru samkynhneigðir menn líklegri til þess að smitast af HIV hér á árum áður og eru það enn. En líkurnar eru ekki sambærilegar þeim sem voru. HIV er ekki lengur sjúkdómur sem fólk getur ekki lifað með. Fólk lifir með honum eins og öðrum sjúkdómum. Allt blóð er skimað fyrir HIV sem og lifrabólgu og fleiru til þess einmitt að ganga úr skugga um að blóðið sé heilbrigt.

Í samtali mínu við hjúkrunarfræðing á göngudeild smitsjúkdóma kom einnig fram að flestir samkynhneigðir menn passa betur uppá kynheilsu sína en flestir aðrir. Margir eru á prep sem er fyrirbyggjandi lyf og á að minnka líkur á HIV smiti. Lítið er um nýjar greiningar á síðustu árum en fjölgun á skráðum einstaklingum er vegna þeirra sem flytja hingað. Þeir aðilar koma frá Bandaríkjunum, evrópu og allsstaðar að. Því hér er gott að vera, þegar þeir skrá sig í heilbrigðiskerfið okkar með þekkt smit er það flokkað sem “nýtt smit”.

Af þessum 300 virku smitum á Íslandi í dag eru samkynhneigðir menn ca þriðjungur þeirra. Það hlufall hefur hækkað, en aftur ekki vegna nýrra smita heldur vegna þess að Ísland er aðdráttarafl fyrir samkynhneigða menn í heiminum.

Bretland hefur afnumið þessa reglu og eins hafa önnur lönd í kringum okkur gert hið sama með einhverjum hætti, og sett þá tímamörk á skírlífi fyrir blóðgjöfina sem hægt er að rökræða endalaust hver eigi að vera og hvort þau eigi þá að ná yfir alla eða ekki.

Þá spyr ég: Hvar er jafnréttið? Ætlum við ekki að standa með fjölbreytileikanum alls staðar? Bara sumstaðar? Eru þetta kannski bara reglurnar því enginn hefur haft orð á þessu eða gleymst hefur verið að leiðrétta þær? Svo ég spyr aftur: Er ekki allt blóð skimað hvort sem er? Er samkynhneigt blóð verra en annað blóð? Er heilbrigt blóð ekki bara heilbrigt blóð eins og ást er ást?

Brynja Dan Gunnarsdóttir, í 2. sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Deila grein

06/08/2021

Styðjum áfram öflugt íþrótta- og frístundastarf

Þátttaka í íþróttum eða öðrum tómstundum hefur almennt reynst einstaklingum til góða m.t.t. heilsu, félagslífs og annarra þátta sem bæta lífsgæði. Vegna þessa er mikil áhersla lögð á að einstaklingar hafi tækifæri til að taka þátt í íþróttum eða öðrum tómstundum. Þetta á sérstaklega við um börn og unglinga, en það hefur góð áhrif á þroska þeirra og heilsu að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Það á við hvort sem þau æfa boltaíþróttir, fimleika, júdó, skák, á fiðlu, rafíþróttir eða hvað annað. Því er mikilvægt að ná að virkja börn og tryggja um leið jöfn tækifæri allra til slíkrar þátttöku, óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Slíkt stuðlar auk þess að aukinni hreyfingu, bættri lýðheilsu og tryggir enn frekar fjölbreytta tómstundaiðkun hér á landi.

Frístundastyrkur

Meðal þeirra aðgerða sem komið hafa til framkvæmda er sérstakur íþrótta- og frístundastyrkur til tekjulágra heimila. Styrkurinn er veittur til barna innan sveitarfélags til niðurgreiðslu eða fullri greiðslu á skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi. Börn og unglingar, sem hefðu mögulega ekki getað stundað þá tómstund sem þau hafa áhuga á vegna efnahags eða félagslegra aðstæðna, hafa nú aukin tækifæri með þessari góðu aðgerð.

Styrkurinn hefur reynst árangursríkur og við höfum séð góðar niðurstöður í sveitarfélögum eins og Hafnarfirði og Kópavogi varðandi þátttöku barna og unglinga í skipulögðu starfi. Sem dæmi um þetta má nefna nýjustu tölur í Hafnarfirði, en þar var frístundastyrkurinn hækkaður nýlega, aldursviðmið hækkuð og reglur um notkun hans rýmkaðar. Tölurnar segja okkur að börnum og unglingum sem iðka íþrótt eða tómstund og nota frístundastyrkinn hefur farið fjölgandi. Meirihluti barna og unglinga í bænum iðka einhverja skipulagða íþrótt eða tómstund. Þetta er jákvæð þróun, styrkir einstaklinginn og samfélagið í heild.

Tækifæri eldri borgara

Kostirnir við iðkun íþrótta eða tómstundar takmarkast þó ekki við börn og ungmenni. Sveitarfélög hafa horft á jákvæð áhrif frístundastyrksins á lýðheilsu. Þá hefur einnig verið horft til eldri borgara í því samhengi, en frístundaiðkun getur leitt til verulegra félagslegra og heilsufarslegra hagsbóta þess hóps einnig. Þarna liggja tækifæri til bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Þess má geta að Hafnafjörður er fyrsta sveitarfélagið hér á landi til að bjóða eldri borgurum frístundastyrk. Mikil ánægja hefur verið með styrkinn, hann vel nýttur og hefur haft jákvæð áhrif á heilsueflingu eldra fólks.

Nú eru tækifæri til að halda áfram, þróa og styðja enn betur við öflugt skipulagt íþrótta- og frístundastarf. Áfram veginn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Framsókn í flugi

Deila grein

05/08/2021

Framsókn í flugi

Mik­il áhersla hef­ur verið lögð á að styðja við upp­bygg­ingu inn­an­lands­flug­valla ásamt því að jafna aðstöðumun íbúa að grunnþjón­ustu lands­manna. Árið 2020 lagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son nýja flug­stefnu fyr­ir Íslands fram til samþykk­is á Alþingi. Mark­mið stefn­unn­ar er m.a. að efla inn­an­lands­flug, sem telst nú hluti af al­menn­ings­sam­göngu­kerf­inu á Íslandi. Með flug­stefn­unni á að tryggja ör­uggt og skil­virkt kerfi um allt land ásamt að því tryggja að ferðafólk dreif­ist jafnt um allt land. Fram­sókn hef­ur lengi talað fyr­ir því að efla fluggátt­ir inn í landið, enda mun það styðja við ferðaþjón­ustu um allt land.

Loft­brú

Einn mik­il­væg­asti hluti stefn­unn­ar er Loft­brú, en slíkt verk­efni hef­ur verið Fram­sókn­ar­mönn­um hug­leikið í langa tíð. Það fékk pláss í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar Fram­sókn­ar, VG og Sjálf­stæðis­flokks og varð að veru­leika með und­ir­skrift Sig­urðar Inga. Til að tryggja blóm­lega byggð í öll­um lands­hlut­um verður jafnt aðgengi að þjón­ustu að vera tryggt. Þegar Loft­brú­in hóf sig til flugs síðasta haust var stigið stórt skref til þess að jafna aðstöðumun þeirra sem búa fjarri höfuðborg­inni. Hér er um að ræða mik­il­vægt skref til þess að bæta aðgengi íbúa lands­byggðar­inn­ar að miðlægri þjón­ustu ásamt því að gera inn­an­lands­flug að hag­kvæm­ari sam­göngu­kosti. Loft­brú veit­ir 40% af­slátt af heild­arfar­gjöld­um fyr­ir all­ar áætl­un­ar­leiðir inn­an­lands til og frá höfuðborg­ar­svæðinu þris­var á ári. Um er að ræða mik­il­væga byggðaaðgerð sem skap­ar tæki­færi fyr­ir ein­stak­linga og sam­fé­lög. Einnig get­um við skapað auk­in tæki­færi með frek­ari efl­ingu á Loft­brú, enda er inn­an­lands­flug hluti af al­menn­ings­sam­göng­um lands­ins.

Ferðaþjón­ust­an tek­ur á loft

Ný sókn hófst í byrj­un sum­ars í ferðaþjón­ustu á Norður- og Aust­ur­landi þegar tek­in var fyrsta skóflu­stung­an að 1.100 fer­metra viðbygg­ingu við flug­stöðina á Ak­ur­eyr­arflug­velli sem og aðgerðir á flug­stöðinni á Eg­ils­stöðum Með efl­ingu flug­stöðvanna opn­ast fleiri tæki­færi fyr­ir ferðaþjón­ustu á svæðinu ásamt mögu­leik­um á fjölg­un starfa og sköp­un tæki­færa. Auk þessa er bein­lín­is um ör­ygg­is­mál að ræða sem huga þarf vel að. Með stærri og betri flug­stöð má taka á móti stærri vél­um og byggja und­ir það sem fyr­ir er. Með auk­inni flug­um­ferð á síðustu árum er mik­il­vægt að flug­vell­irn­ir á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum geti þjónað sem alþjóðaflug­vell­ir meðal ann­ars til að opna fleiri gátt­ir inn í landið og taka virk­an þátt þegar sókn­in hefst og allt fer aft­ur á flug. Stig­in hafa verið stór skref í flug­mál­um und­ir stjórn Sig­urðar Inga á kjör­tíma­bil­inu. Um er að ræða arðbær verk­efni sem hafa mikla þýðingu fyr­ir sam­fé­lög um allt land. Við erum kom­in á flug – höld­um stefn­unni.

Áfram veg­inn.

Ingi­björg Isak­sen, odd­viti Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð

Deila grein

29/07/2021

Íslensk kvikmyndagerð

Í sum­ar­frí­inu get­ur verið freist­andi að slaka á í sóf­an­um með hlýtt ull­arteppi og þá er gott að geta valið sér ís­lenskt efni til áhorfs. Til dæm­is hafa nýir og spenn­andi þætt­ir um Kötlu átt hug minn all­an þessa dag­ana. Slíkt efni verður þó ekki til af sjálfu sér.

Hlúa þarf að kvik­mynda­gerð líkt og mörgu öðru. Ef grein­inni er veitt at­hygli og pláss hef­ur hún mögu­leika að vaxa og dafna okk­ur öll­um til heilla. Mik­il­vægt er að sveigj­an­legt og kraft­mikið stuðnings­kerfi sé til staðar sem ýtir und­ir já­kvæða þróun í kvik­mynda­gerð. Síðastliðið haust markaði tíma­mót í sögu kvik­mynda­gerðar á Íslandi þegar Lilja Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, lagði fram fyrstu heild­stæðu stefnu ís­lenskra stjórn­valda á sviði kvik­mynda. Mark­miðið með stefn­unni er að skapa auðuga kvik­mynda­menn­ingu sem styrk­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar, efl­ir ís­lenska tungu, býður upp á fjöl­breytt­ari og metnaðarfyllri kvik­mynda­mennt­un, styrk­ir sam­keppn­is­stöðu grein­ar­inn­ar og stuðlar að því að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvik­mynda­gerðar. Með kvik­mynda­stefnu hafa ís­lensk stjórn­völd viður­kennt vax­andi hlut­verk menn­ing­ar, lista og skap­andi greina á Íslandi.

Fram­sókn hef­ur lengi talað fyr­ir mik­il­vægi þess að styðja eigi við kvik­mynda­gerð í land­inu ásamt því að hækka end­ur­greiðslur af fram­leiðslu­kostnaði í 35% líkt og gert er í lönd­um sem keppa við Ísland um verk­efni. Kvik­mynda­gerð hef­ur fyr­ir löngu sannað gildi sitt sem list­grein og at­vinnu­grein. Kraft­mik­il kvik­mynda­menn­ing efl­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar. Kvik­mynd­ir og sjón­varpsþætt­ir eru list­grein sem spegl­ar sam­tím­ann og ger­ir sögu og menn­ing­ar­arfi skil. Ýmiss kon­ar efni er fram­leitt sem bæði er afþrey­ing fyr­ir nú­tím­ann ásamt því að segja mik­il­væga sögu til framtíðar. Mik­il­vægi kvik­mynda­gerðar fyr­ir ís­lenska tungu er ómet­an­legt, en kvik­mynda­gerð skip­ar stór­an sess í því að efla og varðveita ís­lenska tungu.

Ferðavenju­könn­un hef­ur sýnt að tæp­lega 40% þeirra ferðamanna sem hingað koma tóku ákvörðun um að ferðast til Íslands eft­ir að hafa séð landið í sjón­varpi eða á hvíta tjald­inu. Heild­ar­velta ferðaþjón­ust­unn­ar af slík­um ferðamönn­um hleyp­ur á mörg­um millj­örðum. Íslensk kvik­mynda­gerð skap­ar á fjórða þúsund beinna og af­leiddra starfa og laðar að er­lenda fjár­fest­ingu. Í því fel­ast gríðarleg verðmæti fyr­ir rík­is­sjóð. Við í Fram­sókn höf­um talað fyr­ir mik­il­vægi þess að skapa fjöl­breytt at­vinnu­tæki­færi. Kvik­mynda­gerð er skap­andi at­vinnu­grein sem fell­ur vel að þeim hug­mynd­um, en mik­il­vægt er að hún fái viðeig­andi stuðning. Fjórða iðnbylt­ing­in kall­ar eft­ir hug­viti, há­tækni, sköp­un og sjálf­bær­um lausn­um og kvik­mynda­gerð er allt þetta.

Lilja Rann­veig Sig­ur­geirs­dótt­ir, varaþingmaður Fram­sókn­ar og sit­ur í 2. sæti á lista flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júlí 2021.

Categories
Greinar

Brúarsmiðurinn Sigurður Ingi

Deila grein

26/07/2021

Brúarsmiðurinn Sigurður Ingi

Hugmyndin að Sundabraut er ekki ný af nálinni og hefur reglulega komið til umræðu síðustu áratugi, helst í kringum kosningar. Sveitarstjórnarfólk og íbúar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar hafa ítrekað bent á mikilvægi þessa samgöngubóta en ekkert hefur þokast áfram í málinu svo heitið getur síðustu áratugi. Það er ekki fyrr en á yfirstandandi kjörtímabili þegar Sigurður Ingi settist í stól samgönguráðherra að verkefnið komst loks á dagskrá með formlegri hætti en áður.

Á dögunum var skrifað undir viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg sem marka tímamót í málinu. Nú mun vinna við Sundabrú hefjast af fullum þunga. Áætlað er að allt ferlið taki um 10 ár. Sigurður Ingi hefur lagt mikinn þunga í að koma þessu verkefni á rekspöl og verið óþreytandi við það frá fyrstu dögum sem samgönguráðherra að tryggja að verkefnið verði að veruleika.

Drifkraftur og vinnusemi

Sá drifkraftur sem hefur einkennt störf Sigurðar Inga á kjörtímabilinu endurspeglar vilja hans og vinnusemi ásamt skilning og heildarsýn á mikilvægi innviðauppbyggingar eins og Sundabrautar í víðu samhengi. Sundabrú mun verða mikilvæg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast til og frá höfuðborginni. Samgöngubót sem mun hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf og búsetuskilyrði á Vesturlandi til framtíðar, ásamt því létta á umferð á öðrum stofnbrautum.

Brúarsmiðurinn Sigurður Ingi setti tóninn strax í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir síðustu kosningar þegar hann byggði brú frá vinstri væng stjórnmálanna, yfir miðjuna og út á hægri vænginn. Brúin er vel byggð á traustum grunni samvinnuhugsjónar Framsóknar og hefur gefið þjóðinni langþráðan stöðugleika. Brú sem hefur lagt veginn að innviðauppbyggingu á kjörtímabilinu og staðið styrkum stoðum samvinnu og stendur enn traust. Núverandi ríkisstjórn er fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin í lýðveldissögunni til að klára heilt kjörtímabil, og það með gríðarlega góðum árangri.

Stöðugleiki er forsenda samfélagslegra framfara. Í þeim stöðuleika gekk brúarsmiðurinn Sigurður Ingi til fundar við sveitafélögin á höfuðborgarsvæðinu og tók samtalið til að leysa úr áratuga langri kyrrstöðu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.

Til árangurs með samvinnu og skynsemi að vopni

Sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með ólíka sýn, nálgun og hagsmuni og voru dregin að borðinu með það að markmiði að ná fram einhverri mestu samgöngubót sem íbúar þessa svæðis hafa séð í áratugi. Með samvinnu og skynsemina að vopni tókst að byggja brú á milli ólíkra sjónarmiða þar sem niðurstaðan er sérstakur samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins. Niðurstaða sem öll sveitafélögin samþykktu. Þar er kveðið á um umfangsmikla uppbyggingu stofnbrauta, innviða, almenningssamganga, göngu- og hjólastíga auk umferðastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulag um aukin lífsgæði og kyrrstaðan loks rofin með afgerandi hætti.

Íbúar landsbyggðarinnar hafa einnig notið drifkrafts ráðherrans, en stór átak í samgöngumálum um allt land var sett af stað þar sem sérstök áhersla var lögð á umferðaröryggi og miðar m.a. að því að fækka einbreiðum brúm á hringveginum um 14 til ársins 2024 ásamt því að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins. Aldrei hefur jafnmiklu fjármagni verið varið til samgönguumbóta um land allt en á þessu kjörtímabili.

Á síðasta ári kynnti Sigurður Ingi til leiks Loftbrú sem brúa á bilið milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar. Loftbrúin niðurgreiðir fargjöld þeirra sem búa á landsbyggðinni og hefur heppnast ákaflega vel sem byggðaaðgerð. Ljóst er að Loftbrúin bætir aðgengi landsbyggðarinnar að mikilvægri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að styrkja stoðir og rekstragrundvöll flugsamgangna innanlands.

Á vettvangi sveitarstjórnarmála hef ég átt samtal um samgöngumál við kjörna fulltrúa sveitarfélaga úr öllum flokkum. Sveitarstjórnarfulltrúar, þvert á flokka hafa haft orð á því við mig að farsælast væri að hafa Sigurð Inga áfram sem ráðherra samgöngumála þegar horft sé til árangurs á yfirstandandi kjörtímabili. Við Framsóknarfólk erum bjartsýn með Sigurð Inga í forystu. Leiðtogi sem byggir brýr og vinnur eftir samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins samfélaginu öllu til hagsbóta.

Guðveig Anna Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst visir.is 26. júlí 2021.