Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um eignarhald í laxeldi og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að:
a. koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum,
b. skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 30. september 2023.“
„Fiskeldi á Íslandi er ung atvinnugrein í örum vexti en mikill uppgangur hefur verið í fiskeldi á heimsvísu undanfarna áratugi. Gríðarleg framþróun hefur einnig orðið í laxeldi í nágrannalöndum okkar í Norður-Atlantshafi; laxeldi er til að mynda umfangsmeira í hagkerfi Noregs en hefðbundinn sjávarútvegur. Mikilvægt er að horfa til þróunar í nágrannalöndum og nýta þá reynslu sem þar hefur orðið til svo að hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.
Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Í þessum rekstri sem öðrum er stærðarhagkvæmni mikilsverð en við ákveðna stærð verða til óæskileg áhrif, m.a. á atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni. Lög um fiskeldi, nr. 71/2008, setja ekki skorður við framsali á rekstrarleyfum í laxeldi, en framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfum er þó háð samþykki Matvælastofnunar. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á sjó og landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Þá ná samkeppnislög, nr. 44/2005, illa utan um samþjöppun í laxeldi á Íslandi þar sem laxeldisfyrirtæki selja meginþorra framleiðslu sinnar úr landi. Flutningsmenn benda á að í fiskeldislögum í Færeyjum er að finna ákvæði sem banna það að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa. Þar er einnig að finna ákvæði um að enginn lögaðili, sem er ekki búsettur í Færeyjum, geti átt meira en 20% af atkvæðisbærum hlutum í fyrirtækjum sem hafa laxeldisleyfi. Rætt er um það í Noregi að leiða sambærileg ákvæði í lög.
Laxeldisfyrirtæki á Íslandi eru í meirihlutaeigu útlendinga og útlit fyrir verulega samþjöppun á því eignarhaldi. Í íslenskum lögum er ekki að finna takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í fiskeldi. Flutningsmenn telja brýnt að athugað verði hvort takmarka beri slíkt eignarhald erlendra aðila. Líta má til þess að í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, er ákvæði um að fiskveiðar í íslenskri efnahagslögsögu séu eingöngu heimilar fyrirtækjum sem eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Flutningsmenn telja mikilvægt að kannað verði hvort setja þarf sambærilegar reglur að því er snertir laxeldi.
Flutningsmönnum þykir áríðandi að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhald verði staðbundið. Miklu varðar að samhliða uppbyggingu laxeldis á Íslandi verði gengið úr skugga um að atvinnulíf og mannlíf á viðkomandi svæðum blómstri. Vissulega er ekki unnt að tryggja með dreifðu eignarhaldi að slátrun eða vinnsla eldisfisks verði á tilteknum stað. Með betri tengingu við byggðina sem í hlut á verða þó auknar líkur til þess að ákvarðanir verði teknar með tilliti til hennar. Við framþróun laxeldisfyrirtækja á Íslandi þarf að horfa til byggðasjónarmiða og sjá til þess að eldið skili tekjum til þess samfélags þar sem fyrirtækin eru staðsett. Flutningsmenn eru hlynntir laxeldi á Íslandi en telja þýðingarmikið að greinin verði ekki í eigu örfárra aðila. Laxeldi á Íslandi verður að vaxa og dafna í sátt við umhverfi og samfélag.“
14/03/2023
Ísland getur skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þaraHalla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:
- Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.
- Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.
- Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.
Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2023.“
„Sjálfbær þróun náttúruauðlinda er eitt af markmiðum stjórnarsáttmálans og fellur þörungaræktun og nýting sjávarþörunga vel þar að. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu sem skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir það til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum undir 2°C. Samfara fjölgun mannkyns, aukinni neyslu og ósjálfbærum aðferðum í ræktun og veiði hefur álag á vistkerfi jarðarinnar aukist gífurlega á undanförnum áratugum.
Íslensk stjórnvöld höfðu forgöngu um NordBio-verkefnið (Nordic Bioeconomy eða Norræna lífhagkerfið) sem stóð yfir í þrjú ár frá 2014 til 2016. NordBio var norræn samstarfsáætlun sem hafði það að markmiði að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda og styrkja norræna samvinnu á því sviði. Áhersla var lögð á að draga úr sóun og álagi á umhverfi og að efla nýsköpun, rannsóknarsamstarf, menntun, atvinnulíf og byggðaþróun, en með lífhagkerfi er í stuttu máli átt við þann hluta hagkerfisins sem byggist á endurnýjanlegum auðlindum til sjós og lands. Sjálfbær nýting þörunga fellur vel að þessu verkefni.
Hafrannsóknastofnun vann árið 2018 rannsókn á útbreiðslu og magni klóþangs í Breiðafirði að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þar sem gera má ráð fyrir að fleiri vilji sækja í þessa auðlind. Á grundvelli þeirrar rannsóknar ráðlagði Hafrannsóknastofnun í samræmi við varúðarsjónarmið að heildartekja klóþangs í Breiðafirði árin 2018–2022 færi ekki yfir 40 þúsund tonn á ári. Frá árinu 1980 hefur uppskera verið á bilinu 10–18 þúsund tonn á ári og hefur nær eingöngu verið á vegum Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.
Bláa hagkerfið
Á íslensku mætti kalla „bláa hagkerfið“ hagkerfi hafsins en hugtakið tekur yfir hvaðeina sem snertir lífríki hafsins og nýtingu þess með einhverjum hætti. Meðal rótgróinna greina bláa hagkerfisins eru fiskveiðar, fiskvinnsla, fiskeldi, hafnir og hafnargerð, skipasmíðar og viðhald skipa, ferðamennska tengd hafi og ströndum, olíu- og gasvinnsla undan ströndum og flutningastarfsemi. Meðal nýgreina eða vaxtarsprota eru vindorkuver undan ströndum, öflun orku úr hafstraumum og bylgjuhreyfingum og ýmiss konar líftæknistarfsemi tengd hafinu eins og öflun og nýting þörunga.
Á vefsvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er yfirlit yfir þá geira bláa hagkerfisins sem taldir eru búa yfir möguleikum til sjálfbærs vaxtar, þ.e. fiskeldi, ferðamennska á strandsvæðum, líftækni tengd hafinu, orkuöflun í hafinu og námuvinnsla á hafsbotni. Þar er einnig getið þeirra sviða sem talið er að best séu fallin til að ná markmiðunum, þ.e. aukin þekking á hafinu og lífverum þess, bætt hafskipulag og samþætt eftirlits- og upplýsingakerfi til að fylgjast með breytingum á hafinu.
Um 300 tegundir af stórþörungum finnast umhverfis Ísland. Mögulegt er að nýta þörunga í margs konar framleiðslu, t.d. sem íblöndunarefni í matvæli, efni í fiskeldi, efni í dýraeldi, náttúrulyf, fæðubótarefni og snyrtivörur auk þess sem horft hefur verið til framleiðslu á bíógasi og etanóli. Matís ohf. hefur á síðustu árum lagt töluverða áherslu á rannsóknir á nýtingu á þangi og þara, m.a. í matvælaframleiðslu og við gerð húðvara. Slík nýsköpun fellur vel að markmiðum hins bláa hagkerfis.
Sá aðili sem helst hefur vakið máls á málefnum bláa hagkerfisins er Sjávarklasinn. Nýlega gaf hann út ritið Bak við ystu sjónarrönd sem styrkt var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Ritið er aðgengilegt á netinu.
Þá má nefna að í júní 2020 var Sjávarakademía Sjávarklasans sett á laggirnar í nánu samstarfi við Fisktækniskóla Íslands en þar gefst nemendum kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi sem tengist hafinu, læra um sjálfbærni og hvernig bæta megi umhverfi og afurðir hafsins. Með tilliti til þess hversu mikla þýðingu hafið og auðlindir hafs og stranda hafa fyrir íslenskan efnahag má ugglaust staðhæfa að vandfundið sé blárra hagkerfi en hið íslenska. Samt sem áður hefur nánast ríkt þögn um bláa hagkerfið á Alþingi undanfarin ár.
Þörungar eru ekki aðeins næringarrík fæðutegund sem framleiðir mikið magn súrefnis heldur má einnig nýta þá til framleiðslu á lífeldsneyti og fóðri og sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Framleiða má lífeldsneyti hérlendis í miklu magni svo að það geti komið í staðinn fyrir innflutt eldsneyti og þannig dregið úr neikvæðum áhrifum eldsneytisnotkunar á umhverfið. Lífeldsneyti getur auk þess orðið verðmæt útflutningsvara en með framleiðslu þess má bæði spara gjaldeyri og auka útflutningstekjur. Þegar búið er að vinna lífeldsneyti úr þörungum er hægt að nýta það sem eftir verður til þess að framleiða verðmætt fóður fyrir fiskeldi sem og fóður fyrir kjúklinga og svín.
Því er ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Möguleikar á frekari nýtingu þörunga til hagsbóta fyrir umhverfið eru þannig miklir og gætu verið lykillinn að því að leysa einhverjar af þeim áskorunum sem við okkur blasa til að tryggja fæðuöryggi kynslóða framtíðarinnar. Þá má sannarlega segja að framtíðin sé núna og því er ekki seinna vænna en að byrja að nota þessa dásamlegu sjálfbæru auðlind sem finna má í fjörum okkar.
Markaður fyrir þörunga
Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá því í júlí 2020 var áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótín 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vaxandi eftirspurn sé eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem innihalda þörunga. Ísframleiðendur eru líka farnir að bæta örþörungum við afurðir sínar til að auka næringargildi vörunnar. Sem stendur framleiða þessi fyrirtæki mikið úrval af vörum úr þörungum. Þar er m.a. að finna andoxunarefni, prótín og bragð- og litarefni. Nú má finna á veitingastöðum um allan heim vörur sem innihalda að einhverju leyti efni úr þörungavinnslu. Efnin er líka að finna í bjór, snyrtivörum, græðandi kremum og mörgum öðrum vörum.
Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá því í nóvember árið 2019. Mörg fyrirtæki eru að taka sín fyrstu spor á þessu sviði og þess má vænta að veltuaukningin í greininni verði allveruleg á næstu árum. Önnur fyrirtæki eru þegar í startholunum og að meðaltali hefur komið fram eitt nýtt fyrirtæki á ári frá 2012. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf. Sum fyrirtækjanna gera ráð fyrir mjög hröðum vexti og samkvæmt Sjávarklasanum er almennt gert ráð fyrir 10% vexti á ári.
Nýting þörunga
Á tímum sem þessum er fæðuöryggi í algleymingi. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunna að vera fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað.
Það fyrirtæki sem á lengsta sögu um nýtingu þörunga hérlendis, og er enn starfandi, er Þörungaverksmiðjan Thorverk á Reykhólum, sem framleiðir gæðamjöl úr þara og þangi. Mörg minni fyrirtæki framleiða ýmis matvæli og krydd úr þara, t.d. Fisherman, Saltverk, Íslensk hollusta og Seaweed Iceland. Þá hafa nokkur fyrirtæki hér, eins og Algae Náttúra, Taramar og Zeto, nýtt þara frá Thorverk til framleiðslu á húð- og heilsuvörum. Einnig hafa Taramar, Zeto og fyrirtækið Marinox öll þróað lífvirk efni úr þara fyrir húðvörur.
Nýsköpun og fyrirtækjarekstur í tengslum við þara hérlendis er að stórum hluta á byrjunar- og vaxtarstigi. Þó er nýsköpun í tengslum við hvers konar þróun á heilsuefnum og lífvirkum efnum úr þessu hráefni þegar komin lengra hér en í nágrannalöndunum. Þá eru einnig tækifæri í þróun þara til að nýta hann í ýmsar umbúðir og fatnað í stað annarra efna sem eru skaðleg fyrir umhverfið. Með því að auka fjárfestingar og rannsóknarstyrki til nýsköpunar við nýtingu þörunga getur Ísland náð enn meiri fótfestu á þessu sviði og skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þara.“
14/03/2023
Virkjun bæjarlæksins verður að uppfylla sömu skilyrði og ef um stórvirkjun væri að ræðaHalla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær. Endurskoðun verði lokið og tillaga um aðgerðaáætlun kynnt Alþingi eigi síðar en í lok árs 2023.“
„Smávirkjanir, þ.e. virkjanir með uppsett rafafl 200 kW til 10 MW, eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í flokki B eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Sama á við um framkvæmdir sem eru að umfangi undir viðmiðunarmörkum í flokki B ef þær eru fyrirhugaðar á verndarsvæði.
Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um hvort virkjanir í flokki B skuli háðar fullu mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaraðila ber því að skila greinargerð um fyrirhugaða framkvæmd til stofnunarinnar sem sker úr um það.
Við mat á umhverfisáhrifum eru tilgreindar fjölmargar viðmiðanir sem líta ber til við mat á framkvæmdum í flokki B. Áhrif framkvæmdar ber t.d. að skoða með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. stærðar svæðis eða fjölda fólks sem verður líklega fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Einnig eru þar taldir þættir eins og fjölbreytileiki áhrifa, tíðni og afturkræfni áhrifa og samlegðaráhrif með áhrifum annarra framkvæmda. Þær kröfur sem gerðar eru til smávirkjana sem falla í flokk B eru íþyngjandi fyrir t.d. bændur sem vilja virkja bæjarlækinn. Er því vert að athuga hvort ekki þyrfti að hækka viðmiðið um vatnsorkuver. Nú er ferlið þannig að hinn venjulegi bóndi hefur ekki bolmagn til þess að ljúka því vegna kostnaðar og flækjustigs.
Reynslan sýnir að kröfur leyfisveitenda vegna framkvæmda í flokki B og flokki C samkvæmt eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum, höfðu þróast í átt að fullu umhverfismati. Ferlið við leyfisveitingar fyrir smávirkjanir hefur því verið kostnaðarsamt, þungt og tímafrekt og ekki í samræmi við framkvæmdir í öðrum geirum sem eru sambærilegar að umfangi, eins og t.d. í landbúnaði og ferðaþjónustu.
Það hefur getað tekið tvö til þrjú ár að fá leyfi til að byggja litla eða meðalstóra virkjun. Undirbúningskostnaður hefur því verið mjög stór hindrun fyrir framkvæmdaraðilann. Dæmi eru um að einstaklingar hafi lagt út í mikinn kostnað til að afla leyfa fyrir smávirkjanir áður en niðurstaða liggur fyrir um hvort leyfi fáist fyrir framkvæmdinni. Bændur sem vilja byggja litla virkjun heima á bænum þurfa því að uppfylla sömu skilyrði og ef um stórvirkjun væri að ræða með tilheyrandi kostnaði.
Smávirkjanir eru t.d. settar undir sama hatt og stórar virkjanir þegar kemur að kröfum um öryggisstjórnunarkerfi sem þýðir að þeir bera hlutfallslega hærri kostnað af þeim. Auk þess rennur sá ábati sem smávirkjanir skapa raforkukerfinu, með því að létta af því álagi vegna lækkaðrar úttektar frá Landsneti, að mestu til dreifiveitna og Landsnets.
Reglugerð um framkvæmd raforkulaga segir m.a. til um skiptingu þess ábata sem smávirkjanir skapa raforkukerfinu og ljóst er að endurskoða þarf reglugerðina með tilliti til smávirkjananna.
Smávirkjanir eru nauðsynlegar fyrir raforkuöryggi
Smávirkjanir eru umhverfisvænir orkugjafar þar sem þær stuðla að minni útblæstri óæskilegra efna sem hafa áhrif á hitastig jarðar. Mannvirki og náttúrurask eru oft að fullu afturkræfar framkvæmdir. Þá er ekki verið að sökkva stórum landsvæðum undir lón eins og með stórvirkjunum. Smávirkjanir tengjast raforkukerfinu um dreifiveitur landsins og styrkja þannig þær flutningsleiðir. Með þeim er því verið að nýta, styrkja og bæta rekstur þess raforkukerfis sem nú þegar hefur verið byggt upp af samfélaginu. Smávirkjanir geta nýst sem varaafl séu dreifiveitur með kerfi sem getur tekið við slíku varaafli. Því geta smávirkjanir bætt varaafl á þeim stöðum þar sem það hefur sárlega vantað. Hefur sérstaklega verið bent á þetta í kjölfar óveðurs sem gekk yfir landið í desember 2019 og olli víðtæku rafmagnsleysi um norðanvert landið.
Orkustofnun hóf í lok árs 2016 smávirkjanaverkefni með það að markmiði að efla raforkuframleiðslu á landsbyggðinni og auka þannig orkuöryggi. Stofnunin birti nýlega sjö skýrslur um möguleika á smærri vatnsaflsvirkjunum víða um land. Í skýrslunni Smávirkjanir: Hugmyndir að smávirkjunum á grundvelli gagna frá Veðurstofu Íslands árið 2018 kemur fram að hugmyndina að smávirkjanaverkefninu megi rekja til alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum. Lítið sé um álitlega virkjunarkosti í þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar og endurbætur á flutningskerfi raforku á milli landshluta hafi gengið erfiðlega.
Uppbygging smávirkjana sé því mikilvæg til að halda í við aukna eftirspurn eftir rafmagni vegna fólksfjölgunar á Íslandi og geti verið liður í að anna eftirspurn eftir aukinni raforku á allra næstu árum. Smávirkjanir séu ekki síst mikilvægar út frá byggðasjónarmiði, sérstaklega á þeim svæðum þar sem flutningskerfið ræður ekki við frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi. Ávinningurinn af uppsetningu þeirra skilar sér í auknum tekjustraumi til landeigenda, bænda og sveitarfélaga og styrkir með því grundvöllinn fyrir búsetu víða um land.
Með því að auðvelda ferlið við uppbyggingu smávirkjana væri einnig unnið í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 sem Alþingi samþykkti sem þingsályktun vorið 2018. Eitt verkefnismarkmiða aðgerðaáætlunar byggðaáætlunarinnar er samkvæmt kafla B.3 þar sem segir eftirfarandi: „Að kanna og styðja möguleika á aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni með smávirkjunum og efla þar með orkuöryggi á landsvísu.“
Norsk fyrirmynd
„Norðmenn hafa náð góðum árangri á sviði smávirkjana en þar hefur ein stofnun, Norges vassdrags- og energidirektorat (NVE), umsjón með leyfisveitingum. NVE hefur kortlagt mögulega virkjunarkosti en norsk stjórnvöld lögðu til fjármagn svo að hægt væri að kortleggja alla virkjunarkosti í vatnsafli og nota reiknilíkön svipuð þeim sem Vatnaskil og Veðurstofan hafa yfir að ráða hér á landi til að spá fyrir um rennsli í vatnsföllum. Fyrirtæki hafa sprottið upp sem taka að sér undirbúning fyrir byggingu virkjunar, fjármögnun, hönnun og leyfi og gera langtímasamninga við bændur um tekjur af virkjununum.
Í skýrslu Orkustofnunar um smávirkjanir í Noregi, sem gefin var út í ágúst 2021, kemur fram að NVE setji almenn skilyrði fyrir leyfunum, t.d. um lágmarksvatnsmagn á yfirfalli. Einnig eru settar fram skilgreiningar um hæsta og lægsta yfirborð á inntakslónum og hvar staðsetja skuli laxastiga. Jafnframt er skilgreint hvernig staðið skuli að því að stöðva virkjun og keyra síðan upp aftur. Allar upplýsingar um leyfin eru opinberar og ekki má byrja að byggja fyrr en NVE hefur veitt leyfi fyrir framkvæmdinni.
Líkt og rakið hefur verið hér að framan er ferlið frá hugmynd að smávirkjun til tengingar við raforkukerfið kostnaðarsamt og tímafrekt. Þrátt fyrir margar jákvæðar breytingar með nýjum lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, eru viðmiðunarmörk virkjana sem falla í B-flokk óbreytt. Flutningsmenn telja því mikilvægt að fram fari endurskoðun á lögum og regluverki í tengslum við leyfisveitingar til uppbyggingar smávirkjana og benda á að t.d. mætti horfa til Noregs í því sambandi,“ sagði Halla Signý að lokum.
14/03/2023
Kraftur samfélagsins skapar aukin lífsgæðiIðnþing eru mikilvæg samkoma. Íslenskur iðnaður er gríðarlega öflugur og þeir kraftar sem búa í greininni eru dýrmætir fyrir íslenskt samfélag. Við höfum á síðustu árum séð aukna fjölbreytni í íslenskum iðnaði sem er mikilvægt til að efla efnahag þjóðarinnar og draga úr sveiflum sem hafa einkennt íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.
Ísland stendur frammi fyrir miklum áskorunum þessa dagana. Verðbólga hefur hækkað á síðustu misserum og ef ekkert verður að gert er hætt við því að við upplifum aftur tíma sem við vonuðum að væru alveg að baki. Ástæður verðbólgunnar eru margar. Við erum tiltölulega nýkomin út úr tímabili heimsfaraldurs þar sem þurfti að ræsa út liðsinni ríkissjóðs til að halda samfélaginu gangandi, fyrirtækjunum starfandi og þar af leiðandi tryggja næga atvinnu fyrir fólk.
Þegar loks fór að léttast á okkur brúnin þá brast á með innrás rússneska hersins í Úkraínu. Afleiðingar þessa stríðs eru gríðarlegar. Stríðið sem geisar í austanverðri Evrópu hefur áhrif á allan heiminn. Útflutningur hrávöru frá Úkraínu er ekki svipur hjá sjón frá því sem áður var og auk þess hefur viðskiptabann við Rússland mikil áhrif, ekki aðeins á orkumarkað Evrópu heldur einnig á aðra þætti evrópsks samfélags. Margföldun orkukostnaðar í Evrópu hefur síðan áhrif á alla viðskiptakeðjuna með tilheyrandi bólgu á verði. Það skilar sér síðan til Íslands í formi hærra vöruverðs og á það jafnt við um matvöru og byggingarefni. Þessu finna allir fyrir, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
Verðbólgan er vágestur
Verkefni næstu mánaða er að ná tökum á verðbólgunni. Á Íslandi ríkir þensla. Hér var 6,4% hagvöxtur á síðasta ári. Hér er atvinnuleysi mjög lágt. Einkaneysla er mikil. Til að slá á verðbólguna hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti verulega á síðustu mánuðum. Áhrifa þeirra hækkana er tekið að gæta. Eftirspurn eftir húsnæði hefur dregist saman og húsnæðisverð staðið í stað eða lækkað.
Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum.
Þær aðstæður sem eru uppi núna eru okkur ekki ókunnugar. Við sjáum á tölum að sveiflur á byggingamarkaði eru miklar. Frostið sem nú ríkir á húsnæðismarkaði og háir vextir munu að öllum líkindum, ef miðað er við söguna, hafa þau áhrif að byggingafyrirtækin halda að sér höndum sem gerir það að verkum að geirinn dregst saman, framboð á nýju húsnæði verður mjög takmarkað og þrýstingurinn frá þeirri kynslóð sem þráir að flytja úr foreldrahúsum og í eigið húsnæði verður gríðarlegur og verð á íbúðarhúsnæði hækkar.
Hvað er þá til ráða?
Bætt yfirsýn og markvissari aðgerðir
Nýtt innviðaráðuneyti varð til eftir kosningar 2021. Nú heyra húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngumál og sveitarstjórnarmál undir sama ráðuneytið. Það hefur gert okkur kleift að öðlast betri yfirsýn og ekki síður safna upplýsingum með víðtækum hætti sem byggir undir markvissar aðgerðir.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur unnið að því í samstarfi við innviðaráðuneytið og sveitarfélögin að búa til rafrænar húsnæðisáætlanir sem gera meiri kröfur til sveitarfélaganna um uppbyggingu í takt við íbúaþróun og eftirspurn. Það er ljóst að til að koma í veg fyrir þær sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn og ná jafnvægi þarf á næstu tíu árum að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir.
Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins.
Tímamótasamningar við sveitarfélög
Í júlí á síðasta ári undirritaði ég fyrir hönd ríkisins rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga um þessa sameiginlegu framtíðarsýn. Hugmyndin er sú að sveitarfélögin skuldbindi sig til að sjá til þess að lóðaframboð sé nægt til að mæta þörfum markaðarins. Ríki og sveitarfélög munu einnig tryggja að 30% sé hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði byggðar með stuðningi ríkis og sveitarfélaga í formi stofnframlaga eða hlutdeildarlána auk þess sem fimm prósent verði húsnæði fyrir fatlað fólk og aðra hópa í viðkvæmri stöðu.
Jafnvægi í húsnæðismálum er forsenda jafnvægis í efnahagsmálum. Þær miklu sveiflur sem hafa einkennt húsnæðismarkaðinn hafa verið áhrifaþáttur í óstöðugleika í efnahagslífi landsins. Meginmarkmið rammasamnings ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru að byggt verði í samræmi við þörf, að framboð íbúða á viðráðanlegu verði sé nægt, að húsnæðisáætlanir haldi utan um og fylgi samningsmarkmiðum og að einn ferill um húsnæðisuppbygginu sé mótaður til að straumlínulaga uppbyggingarferlið sem best má verða.
Nýbyggingar© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Koma verður í veg fyrir tímabundið frost
Í byrjun janúar var undirritaður fyrsti samningur ríkisins við sveitarfélag og var hann við Reykjavíkurborg. Hann markaði tímamót. Markmið samningsins er að í Reykjavík verði á næstu tíu árum byggðar um 16 þúsund íbúðir. Á næstu fimm árum verði takturinn í uppbyggingunni hraðari eða allt að tvö þúsund íbúðir á ári til að mæta uppsafnaðri þörf og mun borgin tryggja framboð byggingarsvæða.
Mikilvægi samningsins við Reykjavík á þessum tímapunkti er gríðarlegt. Við þær aðstæður sem hafa skapast á húsnæðismarkaði er brýnt að ríki og sveitarfélög leggi sitt af mörkum til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði með stofnframlögum. Vaxtastig er hátt og fjármögnun framkvæmda einkaaðila dýr. Til að koma í veg fyrir tímabundið frost í framkvæmdum með tilheyrandi skorti og verðhækkunum þegar birta tekur er það beinlínis skylda stjórnvalda að brúa bilið.
Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land.
Stórkostleg tækifæri í orkugeiranum
Tækifærin sem Ísland hefur á næstu árum eru fjölmörg og leikur íslenskur iðnaður stórt hlutverk í að nýta þau sem best. Orkuskiptin eru í fullum gangi. Ljóst er að til að við getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar og um leið aukið lífsgæði á Íslandi þarf að virkja meira á næstu árum. Ávinningurinn fyrir samfélagið okkar felst ekki aðeins í minni losun. Á ári hverju kaupir íslenskt samfélag jarðefnaeldsneyti fyrir um það bil 120 milljarða króna. Hagur Íslands af því að kaupa innlenda orkugjafa er gríðarlegur. Við öðlumst með því orkusjálfstæði sem er dýrmætt fyrir fullveldi Íslands.
Það er ánægjulegt að fylgjast með stórhuga hugmyndum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkar sem eru uppi víða um land. Við höfum mikla þekkingu og reynslu af orkuöflun sem nýtist okkur vel. Þær hugmyndir sem eru uppi um framleiðslu á rafeldsneyti og lífrænu eldsneyti eru spennandi og gætu ef rétt er á spilum haldið aukið lífsgæði Íslendinga verulega. Stjórnvöld fylgjast vel með þróuninni á þessu sviði.
Hugverkaiðnaðurinn eflist og stækkar
Á síðustu árum hefur hugverkaiðnaðurinn verið í mikilli sókn. Fjölbreytni hans er mikil. Lyfjaiðnaður, tölvuleikjagerð, fjártækni, kvikmyndagerð og fleiri greinar innan hugverkaiðnaðarins hafa sýnt hvers við megum vænta á næstu árum. Framsýni þeirra sem hafa leitt vöxt hugverkaiðnaðarins er lofsverð og mun allt samfélagið njóta ávaxtanna af þessum öfluga iðnaði.
Framtíðin er björt
Það hefur verið frekar dimmt yfir þjóðmálaumræðunni síðustu vikur enda vekur verðbólgan upp slæmar minningar hjá mörgum. Aukið aðhald í ríkisfjármálum, auknar tekjur ríkissjóðs, góðar spár varðandi ferðaþjónustuna á árinu og einkar góð loðnuvertíð ættu þó að gefa fyrirheit um að við náum verðbólgu hratt niður. Íslenskt hagkerfi er öflugt og atvinnuvegirnir verða sífellt kraftmeiri og fjölbreyttari. Íslenskur iðnaður leikur stórt hlutverk í nútíð og mun í framtíðinni leiða íslenskt samfélag til aukinna lífsgæða.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist í sérblaðinu Iðnþing 2023 sem kom út fimmtudaginn 9. mars 2023.
13/03/2023
Aukum aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðumLíneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um fjarnám á háskólastigi og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta á háskólastigi.
Markmið vinnunnar verði að greina hvernig íslenskir háskólar geti ávallt verið í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta og þannig aukið aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskóla eða í fjarnámi.
Í vinnu starfshópsins verði lögð áhersla á eftirfarandi:
a. gæði og þróun stafrænna kennsluhátta,
b. aukið framboð fjarnáms, bæði námsleiða og einstakra námskeiða,
c. allt nám sem mögulegt er að verði fjarnám verði það nema eðli námsins krefjist staðnáms sérstaklega,
d. réttindi og hlutverk nemenda, hvort sem þeir stunda fjar- eða staðnám,
e. samfélagslegt hlutverk háskóla,
f. hlutverk stjórnvalda í stuðningi við fjarnám á háskólastigi.
Starfshópurinn skili niðurstöðu til ráðherra fyrir árslok 2023. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum hópsins.“
Líneik Anna fór yfir að möguleikarnir á að nota stafræna kennsluhætti til að tryggja aðgengi að námi og bestu aðstæður til náms og kennslu hafi aukist stöðugt á liðnum árum, í raun tekið stökk breytingu. „Tæknin hefur líka þróast hratt og viðmót batnað. Það er mikilvægt að við nýtum okkur þessar staðreyndir við aðgang að námi, óháð aðstæðum einstaklinga og að tryggja samfélögum aðgang að nauðsynlegri þekkingu, t.d. til að veita þá þjónustu sem við mælum fyrir um í lögum.“
„Samhliða vex eðlileg krafa samfélagsins um að allt nám á háskólastigi sem mögulegt er að bjóða fram með stafrænum hætti verði í boði. Tillagan er í góðu samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem segir m.a. að gert verði átak í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem eykur aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum,“ sagði Líneik Anna.
Í greinargerð með tillögunni er farið yfir ávinning samfélagsins.
„Samkeppnishæfni byggða og þjóða byggist á menntun íbúa og fjárfesting í menntun er því fjárfesting til framtíðar. Skipulag skólastarfs hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár. Þetta er staðreynd sem ég held að sé oft vanmetin þegar rætt er um nám á háskólastigi,“ sagði Líneik Anna.
„Góð grunnmenntun, læsi og talnaskilningur, samskiptafærni, vellíðan og forvitni er undirstaða náms og grundvöllur þess að einstaklingar geti bætt við sig þekkingu og tekist á við þjóðfélagsbreytingar alla ævi. Grunnurinn nýtist best ef aðgengi einstaklinga, atvinnugreina og byggðarlaga að háskólanámi er tryggt á sem flestum sviðum. Tækifærin til þess hafa aldrei verið betri en nú. Öflugt fjarnám getur auðveldað íslenskum háskólum að koma til móts við kröfur atvinnulífsins, landsbyggðanna og einstaklinga sem búa við ólíkar aðstæður. Á það jafnt við um grunnnám, framhaldsnám og háskólanám sem símenntun,“ sagði Líneik Anna.
„Þá getur aukið framboð fjarnáms gegnt veigamiklu hlutverki í byggðaþróun með almennri hækkun á menntunarstigi og möguleikum til að bregðast við þörf fyrir menntun á ákveðnum sviðum á tilteknum landsvæðum. Aukið aðgengi helst í hendur við 2. gr. laga um háskóla þar sem segir: „Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.“ Í dreifbýlum samfélögum á norðlægum slóðum hefur þróunin víðast orðið sú að háskólar hafa fengið skilgreint hlutverk í þjónustu við dreifbýl svæði. Þetta hlutverk er þá leyst með því að starfrækja net háskólasvæða (e. campuses), útibúa eða námsvera. Má þar benda á Tromsø í Noregi, Oulu í Finnlandi, nokkra skóla í Norður-Kanada og dreifbýli Skotlands. Hér á landi hafa símenntunarmiðstöðvar gegnt mikilvægu hlutverki í þjónustu við fjarnema undanfarin 20 ár. Á síðustu árum hafa náms- og kennsluaðferðir rutt sér til rúms sem nýtast vel bæði í hefðbundnu háskólanámi og fjarnámi, svo sem spegluð kennsla (e. flipped classroom) og ýmsar leiðir við framsetningu vandaðra netfyrirlestra. Hugtökin dreifnám eða sveigjanlegt nám eru einnig notuð um fjarnámið.
Aukið framboð fjarnáms getur líka bætt samkeppnisstöðu landsins með auknum möguleikum til þess að nýta tækifæri sem er að finna á landsbyggðinni og tækifærum til að miðla sérhæfðri þekkingu Íslendinga til alþjóðasamfélagsins, t.d. á sviði sjávarútvegs, siglinga, nýtingar jarðhita og jafnréttismála,“ sagði Líneik Anna.
Í greinargerð með tillögunni má nálgast frekari rökstuðning fyrir tillögunni og eins hefur greinargerðin að geyma svör frá mennta- og menningarmálaráðherra til fyrsta flutningsmanns um sveigjanleika í námi og fjarnám á háskólastigi á 151. löggjafarþingi (854. mál). Kom þar fram að háskólar á Íslandi séu í auknum mæli að huga að sveigjanleika í námi ásamt því að auka aðgengi að námi með stafrænum hætti. Þá er einnig unnið að því að bæta við námsleiðum í fjarnámi.
Útdrátt úr svari háskólanna við fyrirspurninni má og finna í greinargerðinn og koma þar einnig fram mismunandi afstaða háskólanna gagnvart fjarnámi.
13/03/2023
„Klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun“Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Markmið starfshópsins verði að koma opinberum fyrirtækjum og stofnunum fyrir á sama stað til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Unnið verði að uppbyggingu slíks klasa í nánu samstarfi við einkaaðila og sveitarfélög. Starfshópurinn skili tillögu sinni fyrir árslok 2023.“
„Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár því að klasar hafa sannað að þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Nýta má hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana, stuðla að hagræðingu og færa núverandi ástand í þeim málum til betri vegar. Með uppbyggingu opinbers klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum, t.d. í rekstri stofnana. Opinbert klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til verðmætasköpunar,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Gera mætti ráð fyrir 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Með slíkri útfærslu mætti ná fram hagræðingu fyrir þau samlegðaráhrif sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar væru til húsa. Þar má nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis og húsnæðis,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Heppilegast er að klasi sem þessi verði á slóðum þar sem nýta megi umferðarmannvirki betur, í þeim skilningi að umferð að klasanum verði í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga nú svo að takast megi að létta á honum. Þá er rétt að horft verði til staðsetningar þar sem finna megi hágæðaalmenningssamgöngur. Þannig nýttust umferðarmannvirki vel, sem væri stórt umhverfismál. Mælst er til þess að starfshópurinn taki tillit til allra þessara þátta við tillögugerð sína,“ sagði Ágúst Bjarni.
13/03/2023
Bæta má lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrunÁgúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi..
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.“
Í flutningsræðu sinni fór Ágúst Bjarni yfir að einhverfa væri röskun í taugaþroska sem kæmi jafnan fram snemma í barnæsku. Hún væri yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi. Vegna þess með hversu ólíkum hætti einhverfa komi fram allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg væri oft talað um einhverfuróf.
Markmiðið með þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa yrði að draga saman á einn stað alla þá þekkingu sem til sé um einhverfu og að börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga.
Hlutverkið væri að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.
„Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu,“ sagði Ágúst Bjarni.
„Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda,“ sagði Ágúst Bjarni.
Við greiningu einstaklings er mikilvægt að einstaklingnum og fjölskyldu hans sé boðið upp á fræðslu um einhverfurófið og hvaða aðferðir gætu hentað.
„Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð,“ sagði Ágúst Bjarni.
Nokkrar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra.
Segir Ágúst Bjarni nauðsynlegt að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum og að þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa geti verið lið í þeirri vinnu.
„Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.
Það er einlæg von mín að málið fái góða umfjöllun og fari nú til velferðarnefndar til frekari umfjöllunar og verði að lokum samþykkt hér á Alþingi,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
12/03/2023
Efling verknámsLengi hefur verið vöntun á fleiri einstaklingum með iðnmenntun hér á landi og, í kjölfar aðgerða að hálfu ríkisstjórnarinnar, hefur þeim fjölgað verulega sem hafa áhuga á að stunda iðnnám. Talið er að nemendum í starfsnámi fjölgi um 18% næstu árin. Þetta er vissulega ánægjuleg þróun. Hins vegar er nauðsynlegt að við henni verði brugðist hvað varðar námsframboð og fullnægjandi innviði fyrir hverja námsleið.
Meira og betra verknám
Í síðustu viku opinberaði mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, áform innan ráðuneytisins um að efla verknám enn frekar og bregðast við ofangreindri þróun. Ein meginástæða fyrir höfnun í verknám hefur verið skortur á aðstöðu til að taka við. Á síðasta ári sáum við hundruðum einstaklinga synjað um aðgengi að iðnnámi vegna þessa, einmitt þegar vöntunin er mikil. Því er ljóst að byggja þurfi nauðsynlega innviði og stækka ýmsa skóla svo að hægt verði að bregðast við sívaxandi aðsókn í verknámsleiðir. Ljóst er að auka þurfi námsaðstöðuna um allt að 19.500 fermetra svo að hægt sé að mæta þeirri fjölgun sem greiningar fyrir næstu ár sýna fram á.
Vegferðin er hafin
Nú þegar hefur ríkisstjórnin stækkað húsnæði til verknáms í samræmi við markmið ríkisstjórnarsáttmálans. Nýr og stærri Tækniskóli er langt kominn í Hafnarfirði, þar sem aðstaðan verður efld til muna og hægt er að taka á móti fleiri nemendum. Einnig hefur verið gengið frá samningi um stækkun starfsnámsaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Sú stækkun nemur alls 2.400 fermetrum. Auk þessa hafa skref verið tekin í átt að fjölgun námsleiða í Borgarholtsskóla, þá sérstaklega í pípulögnum.
Skref fyrir skref
Iðngreinar hafa lengi verið vanmetnar hér á landi þar sem langflestir velja hina hefðbundnu námsframvindu, þ.e. bóknám að lokinni framhaldsskólagráðu. Það er ekki nema á síðustu árum sem ungt fólk hefur áttað sig á þeim fjölmörgu tækifærum sem felast í iðnnámi. Við sjáum það núna í stórfelldri aukningu aðsóknar í slíkt nám. Því er nauðsynlegt að brugðist verði við og allir hafi tækifæri til að sækja iðnnám rétt eins og bóknám. Mikilvægasti fasinn er að tryggja nauðsynlega innviði.
Svo stórt verkefni þarfnast tíma og verður tekið í skrefum. Um er að ræða talsverða uppbyggingu, sem mun skila sér margfalt til baka að lokum. Þá sérstaklega fyrir nemendur utan höfuðborgarsvæðisins, sem hafa ekki horft upp á mikinn fjölda námstækifæra í iðnnámi nema með því skilyrði að þeir flytji suður. Verkefnið er þarft og það er mikið fagnaðarefni að sjá ríkisstjórnina, og þá sérstaklega mennta- og barnamálaráðherra, bregðast við með þessum hætti.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtists fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2023.
11/03/2023
Spara og spara, oj baraSeðlabankastjóri tilkynnti að finna þyrfti leiðir sem hafa það að markmiði að aðstoða landsmenn við að auka sparnað sinn. Hefur hann því lagt til að afnumdar verði reglur um verðtryggingu inn- og útlána. Þetta þýðir að heimilt verður að verðtryggja innlán án tímatakmarkana frá og með fyrsta júní næstkomandi. Fram hefur komið að raunávöxtun á innlánsreikningum í fyrra var neikvæð í nánast öllum tilfellum. Fé á verðtryggðum reikningum hélt í við verðbólgu en þegar búið er að taka tillit til fjármagnstekjuskatts er raunávöxtun þeirra líka neikvæð.
Þessar reglur eru barn síns tíma og í raun er það ekki eðlilegt að Seðlabankinn hlutist til um hvernig innlán séu í boði á Íslandi. Afnám reglnanna er því jákvætt og tímabær aðgerð. Með breytingu á reglum um verðtryggingu er verið að búa til hvata til aukins sparnaðar og fjölga möguleikum á sparnaði. Markmiðið er því eftir sem áður að auka sparnað og draga úr þenslu í efnahagskerfinu okkar.
Innflutningur og viðskiptahalli
Það er halli á vöruviðskiptum, sem skýrist af öflugri innlendri eftirspurn. Það hefur m.a. keyrt áfram verðbólguna hér á landi og ljóst er að framhald verði á þeirri þróun. Verðbólgan byrjaði að aukast af miklum krafti fyrir rúmu ári síðan og er nú yfir 10%. Við flytjum inn meira en við flytjum út og mikil eftirspurn er eftir bæði vörum og vinnuafli, sem kyndir undir verðbólguna og hefur myndað mikla spennu á vinnumarkaði undanfarna mánuði.
Verðbólga er merki um mikla innlenda eftirspurn og verðhækkanir á innfluttum vörum koma bersýnilega fram í viðskiptahalla. Of mikil innlend eftirspurn myndar innflutningsverðbólgu hér á landi, sem hefur áhrif á verðlag, vísitölu og þar með verðbólguna. Ljóst er að núverandi verðbólga er að mestu leyti innflutt.
Sameina krafta gegn verðbólgu
Í kringum árið 1990 var gerð þjóðarsátt sem tók til allra aðila vinnumarkaðarins og hafði hún það að leiðarljósi að allir settu sér raunhæf markmið um kaupmátt, eyðslu og skynsemi samfélagsins. Ríkisstjórnin þarf að stíga föst skref og byggja þá brú sem til þarf svo eins konar þjóðarsátt náist. Við þurfum að taka saman höndum, spara meira og eyða minna, en þó á þann hátt að tannhjól samfélagsins stöðvist ekki á meðan. Til þess þurfa almenningur, vinnumarkaðurinn, ríkið og sveitarfélögin að ganga öll saman í takt, svo árangur náist í þessari baráttu.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.
11/03/2023
Vinna að jafnréttiAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrr í þessari viku. Þessi dagur gefur ávallt tilefni til að ígrunda stöðu jafnréttismála hér á landi og í heiminum öllum.
Það er sláandi að þessa dagana berast þau tíðindi frá 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna að það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem við eigum hvað lengst í að ná sé markmiðið um jafnrétti kynjanna.
Hér á landi höfum við náð eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum jafnréttis en víða eigum við þó enn langt í land. Vinna að jafnrétti er og verður stöðugt og viðvarandi verkefni. Það verður aldrei þannig að við getum hallað okkur aftur og sagt að öllum markmiðum hafi verið náð, því þá er hætta á að áunnin réttindi tapist og framþróun stöðvist. Okkur ber skylda til að halda vinnunni áfram á öllum sviðum samfélagsins.
Áskoranirnar hér á landi eru margar, launamunur og kynjaskipting starfa á vinnumarkaði og kynbundið námsval sem að mínu áliti tengist kynbundnu námsframboði. Fylgja þarf eftir hvers konar úrbótum í vinnu gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi sem nú er í gangi, eftir að við höfum allt of lengi verið sofandi gagnvart áhrifum ofbeldis á einstaklinga og samfélag. Þá eigum við margt ólært varðandi leiðir til að tryggja konum af erlendum uppruna jafnrétti í íslensku samfélagi.
Þessi misserin sjáum við bakslag á heimsvísu vegna náttúruhamfara, stríðs og pólitískra átaka. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til tafarlausra og samræmdra aðgerða til þess að flýta því að jafnrétti náist á milli kynjanna og um leið er kastljósinu beint að nýsköpun, tæknibreytingum og menntun kvenna á stafrænni öld.
Hjá UN Women er unnið að því alla daga ársins að tryggja réttindi kvenna og stúlkna um allan heim og þrýsta á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að virða sáttmála sem varðar réttindi kvenna og stúlkna. Stríði fylgja auknar líkur á kynbundnu ofbeldi, mansali og almennri neyð. Stóra óskin er að konur fái tækifæri til að vinna að friði. Friður er grundvöllur jafnréttis.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. mars 2023.