„Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru, ásamt þeim sem hér stendur, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðbrandur Einarsson, Eyjólfur Ármannsson, Ásmundur Friðriksson og Gísli Rafn Ólafsson.
Þingsályktunartillaga þessi miðar að því að fela heilbrigðisráðherra að klára vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og embættis landlæknis og sá hópur leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar. Að vinnu lokinni skal hópurinn skila stöðuskýrslu.
Lýðheilsa er þverfagleg enda tengjast nær allir helstu málaflokkar í daglegu lífi fólks heilsufarslegri útkomu þess. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar telja nauðsynlegt að lýðheilsumat verið fest í sessi hér á landi og gert að föstum hluta stjórnsýslunnar. Slíkt lýðheilsumat er til þess ætlað að fá betri upplýsingar fyrir þá sem taka ákvarðanir hér á þingi. Þannig getum við öll fengið frekari upplýsingar sem gagnast okkur við ákvarðanatöku með lýðheilsusjónarmið að leiðarljósi.
Á síðustu áratugum hafa lífslíkur aukist verulega hér á landi og aldurssamsetning þjóðarinnar tekur einnig breytingum. Þannig gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir að 65 ára og eldri verði 20% mannfjöldans á Íslandi árið 2037 og yfir 25% árið 2064. Þetta þýðir að sífellt færri verða á vinnufærum aldri á bak við hvern 65 ára og eldri. Byrði langvinnra sjúkdóma kemur einnig til með að aukast samkvæmt rannsóknum ásamt ýmsum áskorunum sem munu herja á samfélagið. Ef ekki er brugðist við þessari stöðu með markvissum hætti er ljóst að kostnaður og þjónustuþörf mun aukast talsvert innan heilbrigðiskerfisins sem og í öðrum þáttum stjórnsýslunnar.
Virðulegi forseti. Heilsuleysi hefur neikvæð áhrif á samfélagið í heild. Því fylgir kostnaður, þörf á frekari mannauði og þjónustu o.fl. Því telja flutningsmenn mikilvægt að lýðheilsumat sé innleitt í íslenska löggjöf sem fyrst svo hægt sé að bregðast við framtíðaráskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir.
Heilsu má greina niður í líkamlega, andlega og félagslega líðan. Einn megintilgangur stjórnvalda er að tryggja velsæld landsmanna, m.a. út frá framangreindum þáttum. Stjórnvöld vinna að því markmiði með öllum þeim kerfum sem einkenna velferðarsamfélag. Skipta má áhrifum á heilsu niður í fimm meginþætti og greinast þeir frá víðum áhrifum niður í sértæk áhrif. Fyrst skal nefna áhrif löggjafar af hálfu stjórnvalda, næst áhrif samfélagsins, áhrif stofnana, áhrif ýmissa hópa í samfélaginu og síðast en ekki síst áhrifa persónulegra þátta sem þá flokkast undir sértæk áhrif. Ef horft er til arðsemissjónarmiða og sannreyndra fyrirbyggjandi aðgerða skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata fyrir heildina. Því er talið að mikilvægt sé að stjórnvöld meti áhrif löggjafar út frá lýðheilsusjónarmiðum á sama hátt og mat er lagt á löggjöf út frá jafnréttissjónarmiðum, umhverfisáhrifum, kostnaði og fleiri þáttum. Í þessu samhengi er sérstaklega vert að nefna umhverfismat en því ferli hefur verið settur skýr rammi með lögum. Tvær mismunandi leiðir eru farnar varðandi mat á áhrifum löggjafar sem nefndar hafa verið hér að framan. Varðandi jafnréttissjónarmið hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um að öll stjórnarfrumvörp skuli metin út frá áhrifum þeirra á jafnrétti kynjanna. Hins vegar liggur fyrir viðamikill lagarammi er snýr að umhverfismati og ljóst að löggjafinn telur mikilvægt að tryggja skýrt ferli varðandi þá greiningu, m.a. annars með þar til bærri stofnun, Umhverfisstofnun.
Góð heilsa er með því mikilvægasta sem samfélagið á og því telja flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar það vera lykilatriði að stjórnvaldsaðgerðir og löggjöf af hálfu stjórnvalda verði metin með þann veigamikla þátt í huga.
Í þingsályktunartillögu þessari er ekki lagt til hvernig ákjósanlegast sé að tryggja lýðheilsumat stjórnvalda. Hins vegar höfum við löggjöf í öðrum ríkjum sem hægt er að taka til fyrirmyndar. Nærtækast er að horfa til Finnlands varðandi löggjöf af þessu tagi og framkvæmd hennar en þar eru lagafrumvörp sérstaklega metin út frá áhrifum þeirra á lýðheilsu. Í lýðheilsustefnu til 2030 kemur fram að stjórnvöldum beri að hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og stefnumótun í heilbrigðismálum, félagsmálum og menntamálum, skipulags- og samgöngumálum, umhverfismálum, málum sem tengjast nýsköpun og vísindarannsóknum og skatta- og efnahagsmálum. Þá þurfi löggjöf vera skýr og kveða afdráttarlaust á um hlutverk heilbrigðisstofnana, sveitarfélaga og annarra sem sinna lýðheilsustarfi. Þá segir að markmið lýðheilsustarfs þurfi að vera öllum ljós og upplýsingar um árangur þess aðgengilegar almenningi. Tilgangurinn er að skýra hlutverk og vinnu að bættri stjórnun og samhæfingu í lýðheilsustarfi. Grundvöllur þess er fyrst og fremst aukið upplýsingagildi sem aftur skila sér í betri ákvarðanatöku stjórnvalda. Nauðsynlegt er að tryggja kjörnum fulltrúum og almenningi bestu mögulegu upplýsingar um áhrif ákvarðanatöku og löggjafar af hálfu stjórnvalda. Slíkt mat verður að vera framkvæmt á skilvirkan, skýran og upplýsandi máta, m.a. með notkun rannsókna. Framkvæmd lýðheilsumats er byggð á sannreyndum aðferðum og liggja því til grundvallar fjöldi fræðigreina og leiða er tryggja vandaða úttekt. Embætti landlæknis býr nú þegar yfir mikilli þekkingu á sviði lýðheilsu og forvarna og því einsýnt að stofnunin komi að útfærslu á lýðheilsumati er snýr að löggjöf hér á landi.
Lengi hafa ríki heims verði hvött til að innleiða lýðheilsumat í sína löggjöf. Hér á landi hefur embætti landlæknis kallað eftir slíkri innleiðingu. Einnig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ásamt Sameinuðu þjóðunum gert hið sama. Ef marka má umræðu og aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum má ætla að breið samstaða sé um að Ísland taki Finnland sér til fyrirmyndar og innleiði lýðheilsumat. Í ár hefur hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, lagt mikla áherslu á málaflokkinn og helgað heilbrigðisþingi 2022 lýðheilsu, heilsueflingu, forvörnum og heilsulæsi. Í drögum að aðgerðaáætlun um lýðheilsustefnu sem kynnt var á þinginu var innleiðing á lýðheilsumati ein af aðaláherslunum.
Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Í tengslum við þróun á velsældarmælikvörðum var gerð könnun meðal landsmanna á því hvaða þættir það væru sem landsmenn teldu mikilvægasta fyrir lífsgæði og kom skýrt fram að landsmenn mátu heilsuna þar langmikilvægasta þáttinn.
Forseti. Tillaga þessi er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Í sáttmálanum er kveðið á um aukna áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Með þingsályktunartillögu þessari er leitast við að tryggja faglega og gerlega útfærslu á lýðheilsumati hér á landi sem þátt í vegferð okkar í átt að bættri heilsu og vellíðan landsmanna og komandi kynslóða,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.