Út er komin skýrsla sem hefur að geyma stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti á sjókvíaeldi hér við land en stjórnsýsluúttektin var gerð að beiðni matvælaráðherra. Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart en það eru þó um leið ákveðin vonbrigði að fá það staðfest hversu illa hefur gengið við að byggja upp umgjörð og stjórnsýslu utan um greinina.
Á vorþingi 2019 var lagaramminn uppfærður og var lagt upp með að efla frekari umgjörð um sjálfbært fiskeldi til framtíðar. Þegar frumvarpið var lagt fram var það byggt á vinnu stefnumótunarhóps sjávarútvegsráðherra sem skilaði af sér skýrslu haustið 2017. Í meðferð þingsins var byggt enn betur undir kröfur um vernd villtra nytjastofna ásamt því að gætt yrði að umhverfisverndarsjónarmiðum, heilbrigði og umhverfisvernd með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti.
Eftirlit fest í sessi
Í lögunum var fest í sess áhættumat erfðablöndunar. Meðal þeirra breytinga var að lögfesta mótvægisaðgerðir sem stofnanir sem vinna að leyfisveitingum verða að taka tillit til. Það er mat Ríkisendurskoðunar að mótvægisaðgerðirnar hafi ekki verið nýttar sem skyldi en að mínu mati var vilji löggjafans skýr um að nýta mótvægisaðgerðir sem meðal annars hafa reynst vel í Noregi. Á sama hátt þarf áhættumat erfðablöndunar að endurspegla notkun þessara mótvægisaðgerða.
Það var líka skýrt í lögum að Hafrannsóknarstofnun var gert að fylgjast með lífríkinu, ástandi þess fyrir upphaf eldis og breytingum á því meðan eldi stendur með það að markmiði að standast viðmið á burðarþoli svæðanna og hefur Hafrannsóknastofnun unnið í vöktunarverkefni samkvæmt því síðastliðin ár.
Öflug atvinnugrein sem skilar milljörðum í þjóðarbúið
Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem getur skipt sköpum fyrir okkur sem þjóð í framtíðinni en mikilvægt er að setja skýrt og sanngjarnt regluverk í kringum það. Aðeins þannig náum við fram markmiðum um að greinin verði sterk og öflug á sama tíma og við tryggjum sjálfbæra þróun og vernd lífríkisins. En þau markmið þurfum við ávallt að hafa að leiðarljósi. Þá eiga nýleg lög um gjaldtöku í fiskeldi að tryggja vaxandi tekjur með vaxandi eldi.
Útflutningur og útflutningsverðmæti laxeldisafurða hefur aukist í samræmi við aukna framleiðslu og var nærri 30 ma. kr. árið 2021 og var alls slátrað 53,1 þúsund tonnum af fiski úr eldi á því ári. Uppbygging sjókvíaeldis hefur farið fram á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur breytt samfélögum á þessum svæðum til betri vega og það má svo sannarlega þakkað sjókvíaeldinu fyrir gríðarlega öfluga uppbygging á landsbyggðinni.
En öllum greinum í örum vexti fylgja vaxtarverkir, því miður hefur eftirliti verið ábótavant þrátt fyrir að aukið eftirlit og aðhald hafi verið undirstrikað í lagasetningu á fiskeldislögunum 2019. Fiskeldið er að skila milljörðum í þjóðarbúið og því er það góð brýning hjá ríkisendurskoðun að stjórnvöld tryggi eftirlitsstofnunum þær heimildir og aðstöðu sem þær þurfa til að sinna nauðsynlegu eftirliti.
Endurskoða þarf laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis
Undirrituð hefur ítrekað lagt fram þingsályktunartillögur sem snúa að fiskeldi í þá átt að bæta laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis. Annars vegar tillögu um að endurskoða þurfi laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi. Í skýrslu Ríkisendurskoðanda eru sterkar ábendingar um mikilvægi þess að þessi endurskoðun þurfi að fara fram.
Hins vegar hef ég einnig lagt fram tillögu um eignarhald í fiskeldi sem hefur það að markmiði að koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum og takmarka eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum líkt og gert er í sjávarútvegi.
Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur átt sé stað, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á sjó og landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Í skýrslu ríkisendurskoðanda má finna áhyggjur af mikilli samþjöppun í fiskeldinu, þar kemur fram að þrjú ráðandi félög, 14 af 16 rekstrarleyfum sjókvíaeldis, eru á hendi félaga undir yfirráðum þriggja norskra fyrirtækja.
Stjórnsýslan má ekki sofa á verðinum
Til þess að hægt sé að reka og stunda fiskeldi til framtíðar á sjálfbærum grunni þurfa kröfur er varða sjúkdóma og heilbrigðismál að vera skýrar og byggja á bestu mögulegri þekkingu. Tekjur af fiskeldinu eru okkur mikilvægar og nú sem aldrei fyrr, því er gríðarlega mikilvægt að eftirlit með greininni sé traust, ekki bara vegna umhverfisáhrifa heldur einnig fyrir vöxt greinarinnar og fyrir samfélagið.
Þörf er á að einfalda og samþætta eftirlitið líkt og gert er í Færeyjum þar sem ein stofnun fer með málefni fiskeldisins og samþættir bæði eftirlit með eldinu og einnig leyfisveitingum.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. febrúar 2023.