Categories
Fréttir Greinar

Nú er komið að okkur

Deila grein

17/02/2023

Nú er komið að okkur

Nýlega birtust fréttir þess efnis að matvælaráðherra hafi ákveðið að sleppa framlagningu frumvarps um sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði og tekið það úr málaskrá ráðuneytisins. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem hagræðing af slíkri sameiningu í þágu matvælaframleiðenda og neytenda hefur fengið mikla umfjöllun, bæði á Alþingi og á vettvangi bænda. Þegar við tölum um þessa hagræðingu þá erum við að tala um milljarða. Upphæðir sem geta skipt sköpum fyrir bændur og framtíð íslensks kjötiðnaðar.

Bóndinn tryggir fæðu

Skilaboð ríkisstjórnarinnar um mikilvægi þess að tryggja fæðu- og matvælaöryggi hér á landi hefur verið skýrt. Mikilvægt er að við getum reitt okkur á íslenska matvælaframleiðslu, og við sjáum á nýliðnum atburðum erlendis að aðstæður heillar þjóðar geta breyst á augnabliki. Að vera sjálfum okkur nóg með nauðsynjar á borð við mat getur skipt sköpum.

Þeir sem tryggja matvæla- og fæðuöryggi landsins eru bændur. Innlendir matvælaframleiðendur, sem hafa tryggt okkur gæða afurð í áranna raðir þrátt fyrir marga erfiða tíma. Í dag, á tímum mikillar samkeppni við erlendar stórverksmiðjur, eykst mikilvægi þess að innlendir framleiðendur, sem uppfylla allar þá kröfur sem við gerum til okkar fæðu hvað varðar öryggi og gæði, hafi ríkisstjórnina með þeim í liði.

Milljarða króna hagræðing

Framsókn hefur lengi talað fyrir að sameining afurðastöðva í kjötiðnaði verði gerð heimil hér á landi. Tölfræðin og framtíðarspár liggja fyrir. Sú hagræðing getur komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs. Í núverandi stöðu geta bændur ekki selt sína vöru á sama verði og innfluttar vörur eru keyptar á. Aðstöðumunurinn er gífurlegur þegar við horfum til erlendra stórverksmiðja, þar sem ekki eru gerðar sömu kröfur til öryggis, staðla og dýraverndar á mörgum stöðum. Framleiðslukostnaður þeirra er, eðli máls samkvæmt, lægri per kíló en hjá íslenskum fjölskyldubónda.

Þeir sem setja fyrirvara á framtíðarspárnar geta horft á þá raunverulegu hagræðingu, sem hefur átt sér stað í kjölfar sameiningar afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þar hafa mjólkurframleiðendur náð að hagræða milljörðum króna, sem skilar sér bæði til framleiðenda og bænda.

Deila um samkeppni

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur gert athugasemdir við veitingu ofangreindrar heimildar, en þar eru gerðar athugasemdir við að sameining afurðastöðva gæti dregið verulega úr samkeppni á þeim markaði, með tilheyrandi áhrifum. Það er vissulega hlutverk SKE að fylgjast með samkeppni hér á landi og tryggja jafnvægi á markaði. Hins vegar þurfum við að geta horft á raunverulegar aðstæður, til dæmis hvað varðar samkeppnisbaráttu innlendrar matvælaframleiðslu við innflutt matvæli. Samkeppni sem má líkja við Davíð og Golíat. Það er komið að okkur að standa með Davíð og rétta honum slöngvuna. Í þessu máli eigum við frekar að líta til búvörulaga en samkeppnislaga, en markmið búvörulaga er einmitt að tryggja innlenda framleiðslu landbúnaðarvara og afkomu íslenskra bænda.

Lög og túlkun þeirra

Í málum sem varða matvælaframleiðslu og landbúnað hefur sú regla almennt gilt að landbúnaðarstefna skuli hafa forgang fram yfir samkeppnisákvæði. Þennan forgang hefur Evrópusambandið m.a. staðfest.

Í umfangsmikilli umsögn SKE, sem margir leggja grundvöll á í þessu máli, er meginþunginn lagður á túlkun samkeppnislaga. Það er skiljanlegt, enda samkeppnislögin þau lög sem stofnunin byggir almennt sínar ákvarðanir og athugasemdir á. Hins vegar gilda sérlög um landbúnað hér á landi, þ.e. búvörulögin, sem eiga að njóta forgangs. Við í Framsókn höfum margsinnis lagt það til að undanþága frá samkeppnisákvæðum verði sett í búvörulög, 71. gr. A búvörulaga sem veitir slíka undanþágu, og með því verði sameining afurðastöðva gerð heimil.

Skjaldborgin

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að styðja við íslenskan landbúnað, neytendur og tryggja fæðuöryggi landsins. Með lagagjöf sem þessari eflum við íslenskan kjötiðnað til muna, gerum hann samkeppnishæfari á innlendum og alþjóðlegum markaði ásamt því að gera íslenskar afurðir aðgengilegri neytendum. Það er skjaldborgin sem við eigum að slá og við höfum engan tíma að missa. Ég vil því hvetja matvæla­ráðherra áfram í að vinna í þágu íslensks landbúnaðar og koma með frumvarp til þingsins um undanþágu frá samkeppnisákvæðum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtis fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sam­mála eða ekki

Deila grein

17/02/2023

Sam­mála eða ekki

Þeir tímar sem við lifum á virðast kalla á það að skoðanir fólks þurfi allar að vera af einum meiði og helst þannig að allir geti fellt sig við þær.

En hvað ef ég er ekki sammála? Heilbrigð skoðanaskipti og rökræður um málefni samfélagsins eru það sem drífur áfram breytingar og snúast um að finna bestu mögulegu niðurstöðuna hverju sinni.

Ef allir væru sammála um eina ríkisskoðun á öllu – myndum við þá vera að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað í hinum ýmsu málefnum?

Tökum samtalið

Við þurfum að eiga þetta samtal og þurfum að þora að eiga þessi skoðanaskipti og rökræður, því að mínu viti er ljóst að ef allir ætla að fella sig við sömu skoðanirnar og sömu sjónarmiðin, þá kaffærum við framþróun í samfélaginu og það viljum við ekki.

Við þurfum að þora að vekja athygli á öðrum hliðum umræðunnar, þora að taka rökræðuna og þora að skiptast á skoðunum um málefnin.

Miðlum málum

Það er ekki til sá einstaklingur sem er sérfræðingur í öllu. Það hefur hingað til reynst ágætlega að miðla málum til að komast að heilbrigðri og skynsamari lausn og við ættum að vera að gera meira af því í staðinn fyrir að hugsa alltaf „mín skoðun er rétt“.

Skoðanaskipti eru góð

Skoðanaskipti og að hlusta á sjónarmið annarra eru alltaf af hinu góða. Með því að taka allar hliðar umræðunnar og mætast á miðri leið tel ég að við komumst að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir heildina.

Fjarlægjum blöðkurnar frá augunum

Við megum ekki eingöngu horfa á verkefnin út frá sjónarhorni vagnhestsins – verum tilbúin að horfa til hliðar og líta á það sem tækifæri til að vera víðsýnni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Umbætur í bráðaþjónustu

Deila grein

15/02/2023

Umbætur í bráðaþjónustu

Viðbragðsteymi um bráðaþjónustu á landsvísu skilaði nýlega af sér skýrslu og tillögum sem hafa verið kynntar í ríkisstjórn og fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Heilbrigðisráðherra skipaði viðbragðsteymið sumarið 2022 og í því sitja fulltrúar aðila sem koma að bráðaþjónustu í landinu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri vera til staðar til að efla, bæta og ekki síst samræma bráðaþjónustuna á landsvísu. Tillögurnar snúast einnig um að auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun, og fleira. Vinnan hefur nú þegar skilað ákveðnum umbótum en í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur.

Tillögur viðbragðsteymis

Umfangsmesta tillagan gengur út á að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði lögð á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, þar á meðal við þá sem sinna sjúkraflutningum og við heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Einnig eru settar fram einfaldari tillögur eins að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu allra hjartastuðtækja í landinu þannig að Neyðarlínan 112 geti alltaf vísað á næsta tæki.

Þó skýrslan sé nýlega komin út var strax farið í ákveðnar umbætur samhliða vinnu teymisins. Heilbrigðisráðherra hefur nú þegar ráðstafað tæpum 330 milljónum króna til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land og farið hefur verið í ýmsar skipulagsbreytingar.

Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hefur tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum í síma. Það sem nefnt er betri vegvísun. Þá standa yfir frekari umbætur á vegvísun í heilbrigðisþjónustu, þar sem stefnt að auknu samræmi í upplýsingagjöf og aukinni samvinnu til að dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Styrking viðbragðs á Austurlandi

Liður í vinnunni var að setja viðmið um búnaðarþörf á mismunandi heilsugæslustöðvum um land allt og gera úttekt á stöðunni. Úttektin leiddi bæði í ljós þörf á að uppfæra búnað og bæta við búnaði á minni og stærri starfsstöðvum. Í kjörfarið var fjármagni ráðstafað til úrbóta. Þannig kom fram að sjúkrahúsið í Neskaupstað vantaði ytri-öndunarvél (BIPAP) og var fjármagni veitt til kaupa á slíku tæki en áður höfðu verið gerðar ráðstafanir til kaupa á nýju sneiðmyndatæki.

Úttekt á heilsugæslustöðvunum á Austurlandi leiddi í ljós þörf fyrir ýmsan búnað til að styrkja bráðaviðbragð, og voru 35 milljónir settar í það verkefni á fjárlögum. Fjármagnið er m.a. ætlað til kaupa á hjartastuðtækjum og hjartalínuritum samkvæmt nánari ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Samræming búnaðar bætir öryggi sjúklinga og vinnuaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks auk þess að stuðla að markvissara samstarfi á milli starfsstöðva.

Rétt þjónusta á réttum stað

Þessi nálgun á verkefnið, þar sem horft er á áskoranir um allt land og brugðist við þeim með umbótum á smáum og stórum heilbrigðisstofnunum, endurspeglar vel áherslur Framsóknar. Þær áherslur birtasta einmitt í stjórnarsáttmálanum þar sem fram kemur að heilbrigðisstofnanir verði styrktar til að veita rétta þjónustu á réttum stað og að jafna skuli aðgengi að heilbrigðisþjónustu um land allt.

Vinnu viðbragðsteymisins verður fylgt eftir enda er hún afskaplega mikilvægt innlegg í viðbragð og þróun heilbrigðiskerfisins, til lengri og skemmri tíma. Ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar COVID með aukinni tíðni óvenjulegra og bráðra sýkinga.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Velferðarnefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 14. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Deila grein

11/02/2023

Nokkrar vangaveltur um tryggingar

Enn og aftur sting ég niður penna og fjalla um hækkun trygginga. Það er ekki að ástæðulausu, því í nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup kemur fram að hlutfall þeirra sem ekki ná endum saman fjárhagslega hafi ekki verið jafn hátt í sjö ár og sögðust átta af hundrað safna skuldum. 

Ég velti því enn og aftur fyrir mér „samfélagslegum skyldum“ tryggingarfélaga, banka og annarra aðila sem geta borið þyngri byrðar eða tekið höggið á tímum sem þessum. Líkt og ég kom að í upphafi hef ég áður fjallað um hækkun trygginga og þau svör sem ég fékk við fyrirspurn minni á sínum tíma. Þær greinar og þau svör má lesa hér.

Ég hef nú sent fjármála- og efnahagsráðherra frekari fyrirspurnir er varða vátryggingamál hér á landi. Fyrirspurnirnar eru tvær. Annars vegar varðandi þróun tjóna í gegnum covid faraldurinn og hins vegar um þróun iðgjalda eftir að tryggingaskylda ökumannatækja á borð við snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla var afnumin á sínum tíma.

Vátryggingaskuld, hvað er það?

En í hvað fara iðgjöldin? Vátryggingaskuld, (eða svokallaður bótasjóður, sem reyndar er hugtak sem ekki er notað lengur í lögum) er myndaður með greiðslu iðgjalda sem tjónaskuld vegna ógreiddra tjóna fyrri ára, það er til að tryggja greiðslugetu bóta í náinni framtíð. Það má vel spyrja sig hvort ekki eigi að nota hagnað af þessari tjónaskuld til lækkunar á iðgjöldum næsta árs eða hvort hann sé reiknaður inn í iðgjaldaþörfina þar sem þetta er arður af skuldinni, alltsvo bótasjóði.

Ég velti því fyrir mér hvort arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar sé talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum sjálfum. Sé svarið „nei“ við þeirri spurningu mætti spyrja sig af hverju arður af fjárfestingartekjum vátryggingaskuldar (bótasjóði) sé ekki talinn vera hluti af vátryggingarekstrinum þar sem hann er myndaður af iðgjöldum vátryggingataka?

Sé niðurstaðan sú að þessu tvennu sé algjörlega haldið aðgreindu, það er vátryggingarekstrum og fjárfestingum félaganna, má halda áfram að spyrja sig hvort eðlilegt sé að halda þessu aðgreindu þar sem um er að ræða tekjur af áður greiddum iðgjöldum vátryggingataka. Já, ég ætla ekki að halda því fram að það sé auðvelt að átta sig á fjárfestingaumhverfi tryggingarfélaga, en það má og verður að spyrja spurninga.

Hvar liggur ákvörðunin um lækkun iðgjalda?

Væntanlega er það einungis og einvörðungu ákvörðun stjórna félaganna hvort hagnaður af fjárfestingastarfsemi sé notaður í þágu viðskiptavina eða ekki. Það sama á svo við um hagnað af vátryggingastarfsemi. Í frétt Fjármálaeftirlitsins sem bar heitið „Til glöggvunar varðandi vátryggingafélög og svokallaða „bótasjóði“” kom fram að það sé á ábyrgð stjórna vátryggingafélaganna „að tryggja orðspor félaganna haldist gott, en það gera þau best með því að huga bæði að hagsmunum viðskiptavina og fjárfesta. Þær þurfa að ákvarða með hvaða hætti vátryggingafélögin láta viðskiptavini sína njóta góðs af hagnaði sínum. Þetta á við hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi“ Sé þetta raunin, þá geta stjórnir félaganna ef þær kjósa svo látið viðskiptavini njóta góðs af hagnaði sínum, hvort sem um er að ræða hagnað af vátryggingastarfsemi eða fjárfestingarstarfsemi. Með öðrum orðum þá geta stjórnir félaganna tekið ákvörðun um að standa með almenningi í landinu.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

Kjördæmavika Framsóknar

Deila grein

10/02/2023

Kjördæmavika Framsóknar

Kjördæmavika þingflokks Framsóknar hefst í næstu viku. Framundan eru áhugaverðir og skemmtilegir dagar þar sem við leggjum upp með metnaðarfulla fundaröð, en fundir þingflokks verða nú í ár um land allt. Í ár munum við koma við og funda á 24 stöðum auk þess sem við nýtum tímann til að heimsækja fyrirtæki og stofnanir þar sem við komum því við.

Við í þingflokknum leggjum ríka áherslu á að ná reglulegu samtali við landsmenn, hlusta á hvað brennur á íbúum og ræða hin ýmsu mál og verkefni sem liggja fyrir á hverju svæði fyrir sig. Samtalið við ykkur er okkur mikilvægt og gefur gott veganesti í áframhaldandi störf okkar. 

Það eru fjölmörg mál sem bíða afgreiðslu þingsins, mál eins og sóttvarnarlög, tónlistar- og myndlistarstefna og íþrótta- og æskulýðslög svo eitthvað sé nefnt.

Efnahagsmálin eru sífellt í umræðu og er hækkandi verðbólga áhyggjuefni.  Ráðist var í aðgerðir á síðasta ári til að mæta þeim er verst standa og til viðbótar var farið í sérstakar aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga. Stóra verkefnið framundan er svo að vinna markvisst að því að ná verðbólgunni niður. 

Heilbrigðismálin eru okkur öllum hugleikin og þar hafa ákveðin skref verið tekin.  Verkefnin þar eru stór og ærin. Landsmönnum fjölgar, komum ferðamanna einnig auk þess sem hlutfall eldri fólks eykst sem skapa áskoranir er tengjast þessari breyttu samfélagsgerð.

Stór og mikilvæg mál eru framundan og verða til umfjöllunar á þinginu. Á vordögum verður ný samgönguáætlun lögð fram, reglugerð í kringum beislun vinds er væntanleg og frumvarp um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála, þar sem lagður er grunnur að mikilvægum innviðum samfélagsins, kemur fljótlega auk annarra áhugaverðra verkefna.

Í húsnæðismálum hefur verið unnið að samkomulagi við sveitarfélög í landinu um uppbyggingu íbúða en um er að ræða tímamót sem fyrsti samningur sinnar tegundar. Náðst hefur samningur við Reykjavíkurborg um að auka framboð á nýjum íbúðum til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins á næstu 10 árum. Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði. Sjáum við fram á að samningar við önnur sveitarfélög muni einnig líta dagsins ljós í framhaldinu.  Meginmarkmiðið er að leitast við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta og húsnæðisöryggi fyrir alla.

Fyrsta ár innleiðingar farsældarlaganna er liðið en reiknað er með að innleiðingin taki 3-5 ár á landsvísu. Fjögur sveitarfélög leiða vagninn í innleiðingunni, Vestmannaeyjar, Akranes, Akureyri og Árborg og hafa þegar sést jákvæð áhrif laganna. Á dögunum var gerður samningur við Sameinuðu þjóðirnar um að flytja út aðferðafræðina við sköpun farsældarlaganna auk efnis þeirra til fleiri landa og deila farsældinni á heimsvísu. Þá stækkar verkefnið um Barnvænt Ísland ört, en meira en helmingur sveitarfélaga er á þeirri vegferð að verða formlega barnvænt sveitarfélag, áfangi sem Kópavogur og Akureyri hafa þegar náð fyrst allra.

Við í Framsókn munum áfram að vinna að því að jafna búsetuskilyrði m.a. með því að byggja upp innviði með betri samgöngum og fjarskiptum. Efla enn frekar og auka fjölbreytileika í menntamálum auk þess sem við vinnum stöðugt að bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Við hlökkum til að koma og eiga gott samtal við ykkur.

Þriðjudagur 14. febrúar:

kl. 12.00 – Reykjavík, Hilton Hótel – Salur B (2. hæð)

kl. 16.00 – Grindavík, Gjánni

kl. 17.00 – Mosfellsbæ, Kjarninn Þverholti 2 (5. hæð)

kl. 20.00 – Akranesi, Gamla Kaupfélagið

kl. 20.00 – Hornafirði, Hótel Höfn

kl. 20.00 – Reykjanesbæ, Framsóknarsalurinn Hafnargötu 62

Miðvikudagur 15. febrúar:

kl. 12.00 – Stykkishólmi, Fosshótel Stykkishólmi

kl. 12.00 – Flúðum, Hótel Flúðir

kl. 17.00 – Norðfirði, Hótel Hildibrand

kl. 17.00 – Hvolsvelli, Félagsheimilið Hvoli

kl. 20.00 – Egilsstöðum, Tehúsinu Kaupvangi 17

kl. 20.00 – Selfossi, Tryggvaskála

kl. 20.30 – Ísafirði, Edinborgarhúsinu

Fimmtudagur – 16. febrúar:

kl. 12.00 – Patreksfirði, Vestur resturant/N1

kl. 12.00 – Hvammstanga, Hótel Laugarbakka

kl. 12.00 – Vopnafirði, Safnaðarheimilinu

kl. 16.30 – Blönduós, Glaðheimum

kl. 16.00 – Laugum – Reykjadal, matsal Framhaldsskólans á Laugum

kl. 17.00 – Búðardal, Vínlandssetrinu – Leifsbúð

kl. 20.00 – Húsavík, Fosshótelinu Húsavík

kl. 20.30 – Borgarnesi, Landnámssetrinu (Arinstofu)

Föstudagur 17. febrúar:

kl. 12.00 – Siglufirði, Torgið resturant (2. hæð)

kl. 12.00 – Dalvíkurbyggð, Menningarhúsinu Berg

kl. 12.00 – Akureyri, Greifanum (2. hæð)

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og aðrir uppvakningar

Deila grein

10/02/2023

Verðbólga og aðrir uppvakningar

Verðbólga á Íslandi er of mikil og er nýjasta mæling hennar 9,9%. Hækkunin milli mánaða hefur ekki verið meiri frá árinu 2002. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig og mældist 8,3% og hefur ekki verið meiri síðan í maí 2010. Hækkun húsnæðisverðs var áfram megindrifkraftur verðbólgu á fjórða ársfjórðungi, þrátt fyrir að hægst hafi á verðhækkunum. Vísbendingar eru um að verðbólga sé byrjuð að hjaðna í Bandaríkjunum og Evrópu. Atvinnutölur í Bandaríkjunum sem birtust í síðustu viku benda til þess að þrótturinn í því hagkerfi er enn mikill. Hagsagan kennir okkur að of há verðbólga til lengri tíma rústar kaupmætti fólks.

Batnandi efnahagshorfur á heimsvísu

Uppfærð hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var birt nýlega og gefur tilefni til vænta þess að hagvöxtur á heimsvísu verði meiri en væntingar stóðu til. Breytingarnar má fyrst og fremst rekja til Kína, vegna þess að lyft hefur verið af öllum aðgerðum til að sporna gegn Covid-19. Hagspáin býst við 3,2% hagvexti á heimsvísu í ár og þykir nokkuð gott miðað við þau áföll sem heimsbúskapurinn hefur þurft að kljást við. Gert er ráð fyrir að dragi úr verðbólgu og að hún fari á heimsvísu úr 8,8% árið 2022 í 6,6% árið 2023 og 4,3% árið 2024. 

Hagsagan kennir okkur að of há verðbólga til lengri tíma rústar kaupmætti fólks.

Þessi verðbólguspá er farin að raungerast, bæði vegna þess að farið er að draga úr framleiðsluhnökrum í Kína og svo hefur dregið úr eftirspurn. Hærri stýrivextir seðlabanka hefur dregið úr fasteignaviðskiptum og umsvifum byggingaiðnaðarins. Hærra verðlag á vörum- og þjónustu hefur áhrif á heimilisbókhaldið og minnkað einkaneyslu á heimsvísu. Óvissan er þó mest einkennandi fyrir stöðuna og horfurnar og þá er ég að vísa til stríðsins í Evrópu og þess viðskiptastríðs sem geisar nú á milli Bandaríkjanna og Kína, ásamt þeirri hættu að aðrar þjóðir gætu dregist inn í þá deilu.

Verðbólgan er stóra viðfangsefnið á Íslandi og hagstjórnin tekur mið af því

Þróun verðbólgunnar eru vonbrigði. Margt kemur til eins og hækkanir á vöru- og þjónustuverði. Mestu áhyggjurnar lúta þó að því verðbólguvæntingar hafa verið að hækka. Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila í lok janúar og helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að gert er ráð fyrir að verðbólga minnki þegar líður á árið og verði 5,4% að ári liðnu og 4% eftir tvö ár.

Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld kynnt ýmsar aðgerðir til þess að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Má þar nefna hækkun bóta almannatrygginga, hærri húsnæðisbætur, sérstakur barnabótaauki, aukinn slagkraftur í húsnæðismál og fleira. 

Niðurstöður rannsókna hagfræðingsins Bobeica benda t.d. til þess að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga leiki lykilhlutverk í því að skýra minnkandi tengsl milli launahækkana og verðbólgu í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi.

Í mínu ráðuneyti á sér stað mikilvæg vinna er snýr að samkeppnis- og neytendamálum, en heilbrigð samkeppni grundvallaratriði í verðmyndun. Í þeim málum er meðal annars unnið að endurskoðun stofnanaumgjarðar samkeppnis- og neytendamála með það að markmiði að efla slagkraft í þágu neytenda. Fjármunir hafa verið auknir til neytendasamtakanna til að efla þeirra góða starf í þágu neytenda, og á næstu vikum mun ráðuneyti mitt styðja við nýtt verkefni, Matvörugáttina, sem mun stuðla að betri upplýsingamiðlum um verðlagningu til neytenda. Þá skipaði ég vinnuhóp sem hefur það hlutverk að rýna hagnað bankanna til að kanna hvort neytendur hér á landi borgi meira fyrir fjármálaþjónustu en neytendur á hinum Norðurlöndunum. Að auki hefur stjórn ríkisfjármála haft við al­menna aðhalds­kröfu, frest­að út­gjalda­svig­rúmi, kynnt var­an­lega lækk­un ferðakostnaðar hjá rík­inu og lækk­að fram­lög til stjórnmálaflokka.

Þróun verðbólgu á heimsvísu tekur breytingum … 

Samband verðbólgu og atvinnustigs hefur minnkað síðustu þrjá áratugi, þ.e. verðbólga hefur ekki verið eins næm fyrir slaka eða þenslu á vinnumarkaðnum. Ýmsar hagrannsóknir sýna að skammtímasamband verðbólgu og atvinnuleysis hefur verið að fletjast út, eins og það birtist í svokallaðri Phillips-kúrfu. Tvennt kemur til: Annars vegar aukin alþjóðavæðing, þar sem veröldin er að einhverju leyti orðin að einum markaði. Fyrirtæki sem selja vörur sínar alþjóðlega eru í mikilli samkeppni og eru því ólíklegri til að hækka verð sem byggist eingöngu á innlendum efnahagsaðstæðum. Að auki hefur framleiðslukostnaður lækkað verulega með alþjóðavæddum vinnumarkaði. 

Það eru blikur á lofti um að sambandið milli verðbólgu og atvinnustigs sé að styrkjast að nýju og að Philips-kúrfa sé að endurfæddast.

Tæknin spilar einnig stórt hlutverk í þessu samhengi. Ein helsta birtingarmynd þessa er fyrirtæki eins og Amazon er selur vörur sínar um heim allan. Hins vegar hefur framkvæmd peningastefnu styrkst verulega á síðustu áratugum. Talið er að forysta Pauls Volckers, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, hafi skipt mestu máli, en þá tókst að festa verðbólguvæntingar almennings. Niðurstöður rannsókna hagfræðingsins Bobeica benda t.d. til þess að traustari kjölfesta verðbólguvæntinga leiki lykilhlutverk í því að skýra minnkandi tengsl milli launahækkana og verðbólgu í Bandaríkjunum undanfarna þrjá áratugi. Alþjóðagreiðslubankinn er sama sinnis, þ.e. áhrif launahækkana á verðbólgu eru minni í löndum þar sem verðstöðugleika hefur verið náð en í löndum þar sem verðbólga er jafnan meiri.

… og mun vaxandi skortur á vinnuafli breyta því?

Það eru hins vegar blikur á lofti um að sambandið milli verðbólgu og atvinnustigs sé að styrkjast að nýju og að Philips-kúrfa sé að endurfæddast. Þrennt kemur til: Í fyrsta lagi virðist vinnumarkaðurinn breyttur í Bandaríkjunum eftir farsóttina. Hagtölur gefa til kynna að margir hafi ekki skilað sér aftur inn á vinnumarkaðinn eða ákveðið að breyta um starfsvettvang. Að sama skapi eru stórir árgangar að detta út af vinnumarkaðnum sökum aldurs. Þá hefur einnig verið bent á að innflytjendastefna undanfarinna ára þar í landi hafi ekki hjálpað í þessum efnum. Fram undan gæti verið verulegur skortur á vinnuafli sem muni leiða til launahækkana og svo kostnaðarhækkana. 

Þegar þetta þrennt, bæði skammtíma- og langtímavandamál, kemur saman gæti orðið snúnara að ná tökum á verðbólgunni í 2% verðbólgumarkmiðið.

Framleiðni, samkvæmt nýjustu tölum, hefur einnig minnkað verulega í Bandaríkjunum. Í öðru lagi, þá hefur um nokkurra ára skeið verið viðskipta- og tæknistríð á milli Bandaríkjanna og Kína. Það, ásamt viðvarandi framboðshnökrum sem komu fyrst upp þegar farsóttin skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að færast aftur til Bandaríkjanna og kostnaður fer hækkandi samfara því. Í þriðja lagi hafa verðbólguvæntingar versnað verulega. Þegar þetta þrennt, bæði skammtíma- og langtímavandamál, kemur saman gæti orðið snúnara að ná tökum á verðbólgunni í 2% verðbólgumarkmiðið.

Að lokum

Eitt helsta verkefni stjórnvalda á næstu misserum verður að takast á við verðbólguna. Mikilvægt er að ríkisfjármál og peningamál spili áfram saman. Kerfisumbætur eru einnig á forræði hins opinbera og gætu lagt lóð á vogarskálarnar til að ná tökum á verðbólgunni. Á alþjóðavettvangi hefur verið vaxandi umræða um kerfisumbætur á framboðshliðinni til að leysa úr læðingi krafta hagkerfisins. Markmið nýrrar framboðsstefnu beinist að því að sameina hina hefðbundnu áherslu á að draga úr hömlum á atvinnulífinu, en leggja á sama tíma kraft í félagslega þætti vinnumarkaðarins til að efla atvinnu og atvinnuöryggi, en það felst meðal annars í því landið geti boðið öfluga innviði, menntun, starfsþjálfun, heilbrigði og húsnæði. Eins eigum við að horfa til þess að bjóða upp á að hækka starfsaldur en þó valfrjálst.

Á alþjóðavettvangi hefur verið vaxandi umræða um kerfisumbætur á framboðshliðinni til að leysa úr læðingi krafta hagkerfisins.

Horfur íslenska hagkerfisins eru bjartar. Hagvöxtur er kröftugur, atvinnuleysi er lítið, útflutningsgreinum vegnar vel og skuldastaða ríkissjóðs er hagfelld. Skapandi greinar og ferðaþjónusta eru í stórsókn og munu auka verðmætasköpun til lengri tíma litið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is/innherji 9. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eyja í raf­orku­vanda

Deila grein

09/02/2023

Eyja í raf­orku­vanda

Í síðustu viku kom upp bilun í rafstreng VM 3, sæstrengnum sem flytur rafmagn á milli lands og Vestmannaeyja. Þetta gerir það að verkum að nú í miðri lægðarhrinu og í upphafi öflugrar loðnuvertíðar er staðan sú að Vestmannaeyjar þurfa að stóla á 60 ára gamlan streng, VM 1 sem var tekinn úr notkun fyrir nokkrum árum síðan. Þar að auki reiða Eyjamenn sig á varaaflsvélar Landsnets og HS veitna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem upp kemur bilun í þessum streng. Vorið 2017 kom upp bilun í strengnum að vori sem mátti rekja til veikleika í einangrun strengsins. Viðgerðir á honum voru flóknar og umfangsmiklar en það tók 3 mánuði að lagfæra strenginn. Þá var uppi sama staða uppi og nú þegar varaaflsvélar sáu samfélaginu fyrir hluta þess rafmagns sem þarf til. Nú aftur 5 árum seinna erum við enn í sömu stöðu og segir Landsnet að það sé klárt að þetta verði flókin og tímafrek aðgerð.

Nýr strengur núna – ekki á eftir

Nýverið gaf stjórn SASS gaf frá sér ályktun að málið er litið alvarlegum augum og skora því á stjórnvöld að ráðast í hið fyrsta að leggja nýjan rafstreng til Vestmannaeyja svo unnt sé að tryggja afhendingaröryggi rafmagns í Vestmannaeyjum. Samkvæmt framkvæmdaráætlun Landsnets þá var áætlað var að nýr strengur ætti að vera lagður sumarið 2027, sú bið er óásættanleg enda gaf Landsnet frá sér í byrjun þessarar viku tilkynningu um að lagningu nýs strengs yrði flýtt og verði lagður sumarið 2025. Það er of seint, nú þegar hefur þetta mikil áhrif á samfélagið í eyjum og ljóst er að ráðast þyrfti í lagningu nýs sæstrengs tafarlaust, helst strax í sumar.

Landsnet áætlar að nýr strengur kosti um 2-2,5 milljarða og segja að undirbúningur og innkaup taki langan tíma og reikna þar með tveimur árum en kanna það jafnframt hvort hægt sé að stytta þann tíma enn meira. Því ber að fagna því afhendingaröryggi raforku þarf að vera tryggt og stöðugt því það er óásættanleg staða að eiga von á því á hverjum vetri að raforka verði ótrygg og að stóla þurfi á úreltan streng og varaaflsvélar sem lifa á jarðefnaeldsneyti. Þegar ekki er varatenging sem getur annað allri orkuþörf í Vestmannaeyjum er kostnaðarsamt fyrir samfélagið en samkvæmt greiningu EFLU frá 2022 kostar það samfélagið um 100 milljónir á hverju ári.

Að auki má nefna að flaggskip framtíðarinnar í orkuskiptum, Vestmannaeyjaferjan Herjólfur, hefur ekki fengið afhent rafmagn frá því að strengurinn gaf sig. Ekki aðeins hefur það í för með sér gríðarlegan olíukostnað fyrir félagið heldur er kolefnisspor Herjólfs á siglingu til Þorlákshafnar og til baka jafn stórt og tíu meðal fólksbíla yfir heilt ár!

Raforka á ekki að vera munaður heldur sjálfsögð réttindi samfélaga að hafa trygga og að innviðir til afhendingar séu bæði gallalausir og öruggir. Því vil ég hvetja Landsnet til að leita allra leiða til að flýta því enn frekar að leggja streng til Vestmannaeyja svo þessi staða þurfi ekki að endurtaka sig í framtíðinni.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Margar hliðar fiskeldis

Deila grein

09/02/2023

Margar hliðar fiskeldis

Út er komin skýrsla sem hefur að geyma stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðanda á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti á sjókvíaeldi hér við land en stjórnsýsluúttektin var gerð að beiðni matvælaráðherra. Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart en það eru þó um leið ákveðin vonbrigði að fá það staðfest hversu illa hefur gengið við að byggja upp umgjörð og stjórnsýslu utan um greinina.

Á vorþingi 2019 var lagaramminn uppfærður og var lagt upp með að efla frekari umgjörð um sjálfbært fiskeldi til framtíðar. Þegar frumvarpið var lagt fram var það byggt á vinnu stefnumótunarhóps sjávarútvegsráðherra sem skilaði af sér skýrslu haustið 2017. Í meðferð þingsins var byggt enn betur undir kröfur um vernd villtra nytjastofna ásamt því að gætt yrði að umhverfisverndarsjónarmiðum, heilbrigði og umhverfisvernd með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti.

Eftirlit fest í sessi

Í lögunum var fest í sess áhættumat erfðablöndunar. Meðal þeirra breytinga var að lögfesta mótvægisaðgerðir sem stofnanir sem vinna að leyfisveitingum verða að taka tillit til. Það er mat Ríkisendurskoðunar að mótvægisaðgerðirnar hafi ekki verið nýttar sem skyldi en að mínu mati var vilji löggjafans skýr um að nýta mótvægisaðgerðir sem meðal annars hafa reynst vel í Noregi. Á sama hátt þarf áhættumat erfðablöndunar að endurspegla notkun þessara mótvægisaðgerða.

Það var líka skýrt í lögum að Hafrannsóknarstofnun var gert að fylgjast með lífríkinu, ástandi þess fyrir upphaf eldis og breytingum á því meðan eldi stendur með það að markmiði að standast viðmið á burðarþoli svæðanna og hefur Hafrannsóknastofnun unnið í vöktunarverkefni samkvæmt því síðastliðin ár.

Öflug atvinnugrein sem skilar milljörðum í þjóðarbúið

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem getur skipt sköpum fyrir okkur sem þjóð í framtíðinni en mikilvægt er að setja skýrt og sanngjarnt regluverk í kringum það. Aðeins þannig náum við fram markmiðum um að greinin verði sterk og öflug á sama tíma og við tryggjum sjálfbæra þróun og vernd lífríkisins. En þau markmið þurfum við ávallt að hafa að leiðarljósi. Þá eiga nýleg lög um gjaldtöku í fiskeldi að tryggja vaxandi tekjur með vaxandi eldi.

Útflutningur og útflutningsverðmæti laxeldisafurða hefur aukist í samræmi við aukna framleiðslu og var nærri 30 ma. kr. árið 2021 og var alls slátrað 53,1 þúsund tonnum af fiski úr eldi á því ári. Uppbygging sjókvíaeldis hefur farið fram á Vestfjörðum og Austfjörðum og hefur breytt samfélögum á þessum svæðum til betri vega og það má svo sannarlega þakkað sjókvíaeldinu fyrir gríðarlega öfluga uppbygging á landsbyggðinni.

En öllum greinum í örum vexti fylgja vaxtarverkir, því miður hefur eftirliti verið ábótavant þrátt fyrir að aukið eftirlit og aðhald hafi verið undirstrikað í lagasetningu á fiskeldislögunum 2019. Fiskeldið er að skila milljörðum í þjóðarbúið og því er það góð brýning hjá ríkisendurskoðun að stjórnvöld tryggi eftirlitsstofnunum þær heimildir og aðstöðu sem þær þurfa til að sinna nauðsynlegu eftirliti.

Endurskoða þarf laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis

Undirrituð hefur ítrekað lagt fram þingsályktunartillögur sem snúa að fiskeldi í þá átt að bæta laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis. Annars vegar tillögu um að endurskoða þurfi laga- og reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Endurskoðun sem felur í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi. Í skýrslu Ríkisendurskoðanda eru sterkar ábendingar um mikilvægi þess að þessi endurskoðun þurfi að fara fram.

Hins vegar hef ég einnig lagt fram tillögu um eignarhald í fiskeldi sem hefur það að markmiði að koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum og takmarka eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum líkt og gert er í sjávarútvegi.

Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur átt sé stað, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á sjó og landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Í skýrslu ríkisendurskoðanda má finna áhyggjur af mikilli samþjöppun í fiskeldinu, þar kemur fram að þrjú ráðandi félög, 14 af 16 rekstrarleyfum sjókvíaeldis, eru á hendi félaga undir yfirráðum þriggja norskra fyrirtækja.

Stjórnsýslan má ekki sofa á verðinum

Til þess að hægt sé að reka og stunda fiskeldi til framtíðar á sjálfbærum grunni þurfa kröfur er varða sjúkdóma og heilbrigðismál að vera skýrar og byggja á bestu mögulegri þekkingu. Tekjur af fiskeldinu eru okkur mikilvægar og nú sem aldrei fyrr, því er gríðarlega mikilvægt að eftirlit með greininni sé traust, ekki bara vegna umhverfisáhrifa heldur einnig fyrir vöxt greinarinnar og fyrir samfélagið.

Þörf er á að einfalda og samþætta eftirlitið líkt og gert er í Færeyjum þar sem ein stofnun fer með málefni fiskeldisins og samþættir bæði eftirlit með eldinu og einnig leyfisveitingum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

Niðurstöður rannsóknar á einkennum íslensks vinnumarkaðar

Deila grein

08/02/2023

Niðurstöður rannsóknar á einkennum íslensks vinnumarkaðar

Niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á stöðu fólks á íslenskum vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði hafa verið birtar.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið fólu Félagsvísindastofnun að framkvæma rannsóknina og var hún gerð í nóvember 2021 og fram í maí 2022. Niðurstöðurnar sýna meðal annars að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur og að konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að fást við krefjandi einstaklinga í starfi, erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur. Upplifunin var algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun en næst á eftir fylgdi starfsfólk í kennslu og uppeldisfræði og þar á eftir sérfræðingar í heilbrigðisvísindum. Rannsóknin gefur jafnframt sterkar vísbendingar um að almennt sé hægt að draga úr brotthvarfi af vinnumarkaði með því að bæta aðstæður og samskipti á vinnustöðum.

Vinnueftirlitinu hefur verið falið að vinna áfram með niðurstöðurnar og hefur undirritað samning um þriggja ára samstarfsverkefni þessu tengt. Verkefnið gengur út á að greina með hagaðilum áhættuþætti í vinnuumhverfi þeirra starfsstétta sem verst komu út í niðurstöðum rannsóknarinnar, þar á meðal áhrif vinnustaðamenningar, skipulags og samskipta sem geta orsakað að starfsfólk upplifi meira andlegt áreiti en starfsfólk innan annarra starfsstétta.

Niðurstöður framangreindrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar munu enn fremur nýtast vel inn í þá umfangsmiklu vinnu sem nú á sér stað í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og felst í að reyna að draga úr ótímabæru brotthvarfi fólks af vinnumarkaði, fjölga þeim sem snúa aftur til starfa og fyrirbyggja ótímabæra örorku fólks.

Helstu niðurstöður rannsóknar Félagsvísindastofnunar

Rannsókn Félagsvísindastofnunar var annars vegar lögð fyrir almennt úrtak fólks á aldrinum 25-67 ára, sem verið hafði á vinnumarkaði undangengin fimm ár, og hins vegar fólk sem fengið hafði greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti eitt ár. Svör einstaklinga sem metnir höfðu verið til örorku og fólks sem verið hafði án atvinnu í minna en eitt ár komu úr almenna úrtakinu.

Sem fyrr segir sýnir rannsóknin með skýrum hætti að íslenskur vinnumarkaður er mjög kynjaskiptur. Konur starfa frekar hjá hinu opinbera en meirihluti karla í einkageiranum. Konur eru síður sjálfstætt starfandi eða með eigið fyrirtæki og gegna síður stjórnunarstöðum en karlar.

Álag í starfi reyndist töluvert ólíkt eftir því hvort um konur eða karla var að ræða og hvort fólk starfaði á dæmigerðum kvenna- eða karlavinnustað. Konur voru til dæmis líklegri en karlar til að þurfa að kljást við erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur í starfi. Þegar litið er til ólíkra starfahópa var þessi upplifun algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun (55%), sérfræðinga í kennslu og uppeldisfræði (43%) og sérfræðinga í heilbrigðisvísindum (37%). Sömu hópar voru líklegri til að segjast vera í tilfinningalega erfiðum aðstæðum í vinnunni.

Tæplega 40% allra svarenda töldu að þeir hefðu alltaf eða oft of mikið að gera í vinnunni og átti það frekar við um konur en karla. Þá var meira um að konur segðust þurfa að vinna á miklum hraða. Konur og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem kvennastéttir voru líklegri en karlar og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem karlastéttir til að hafa einhvern tímann verið frá vinnu í tvo mánuði eða meira vegna veikinda.

Þriðjungur svarenda sagðist oft eða alltaf vera andlega úrvinda eftir vinnudaginn og 22% svarenda taldi sig líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn. Hlutfall kvenna var hærra en hlutfall karla hvað báða þætti snertir en minni kynjamunur var meðal svarenda sem töldu sig líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn.

Konur og starfsfólk innan starfsstétta sem almennt er litið á sem kvennastéttir lýstu verri afleiðingum af Covid-19. Mikið mæddi á kennurum, leikskólakennurum, heilbrigðisstarfsfólki og starfsfólki í umönnun á meðan faraldurinn geisaði og sýna niðurstöður að áhrifanna gætti enn eftir að samkomutakmörkunum létti.

Hunsun og afskiptaleysi: Munur eftir ríkisfangi

Tæplega fjórðungur svarenda höfðu orðið fyrir hunsun eða afskiptaleysi á vinnustað sínum en þar var nokkur munur eftir ríkisfangi. 40% erlendra ríkisborgara taldi sig hafa orðið fyrir hunsun og afskiptaleysi en 24% fólks sem verið hafði íslenskir ríkisborgarar alla ævi. Enn fremur höfðu 11% svarenda upplifað eða orðið vitni að kynbundnum fordómum og 13% höfðu orðið fyrir eða upplifað aldursfordóma. Hlutfall þeirra sem hafði orðið fyrir aldursfordómum var hæst í elsta aldurshópnum.

Konur töldu sig frekar en karlar hafa orðið fyrir orðbundinni áreitni, niðurlægingu, einelti, kynferðislegri áreitni/ofbeldi og líkamlegu ofbeldi á vinnustað.

Algengustu ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði var samdráttur á vinnustað eða að starfsmaðurinn sagði sjálfur upp. Hjá einstaklingum sem metnir höfðu verið til örorku var það langoftast vegna heilsubrests. Mikill munur var á svörum annars vegar vinnandi fólks og hins vegar fólks í atvinnuleit og innan almannatryggingakerfisins varðandi viðhorf í garð starfs eða fyrra starfs. Fólk sem var í starfi var mun jákvæðara gagnvart vinnustaðnum, álagi og stjórnendum en fólk utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt skýrsluhöfundum er hugsanlegt að brotthvarf af vinnumarkaði liti sýn þeirra sem eru án atvinnu og þeirra sem metnir höfðu verið til örorku á fyrrverandi starf og samstarfsfólk. Niðurstöðurnar gefa jafnframt sterkar vísbendingar um að almennt sé hægt að draga úr brotthvarfi með því að bæta aðstæður og samskipti starfsfólks á vinnustöðum.

Um rannsóknina

Samstarfshópur vann að undirbúningi rannsóknarinnar en í honum í áttu sæti auk ráðuneytisins og Vinnueftirlitsins fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Framkvæmd rannsóknarinnar var frestað vegna Covid-19 en fór sem fyrr segir fram í nóvember 2021 til maí 2022.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Deila grein

08/02/2023

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Mannamót, ferðakaupstefnu Markaðsstofa landshlutanna, sem haldið var í Kórnum í Kópavogi á dögunum. Viðburðurinn er sá stærsti sem haldinn er í íslenskri ferðaþjónustu en á annað þúsund manns sótti kaupstefnuna í ár, sem er metfjöldi.

Mannamót markaðsstofanna eru hugsuð sem kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og veitir landsbyggðarfyrirtækjum færi á að kynna starfsemi sína fyrir ferðaþjónustuaðilum sem eru staðsettir víðs vegar um landið. Um 250 fyrirtæki frá öllum landshlutum kynntu starfsemi sína á Mannamótum í ár.

„Það er ánægjulegt að sjá hve margir voru mættir á Mannamót ferðaþjónustunnar í ár og ljóst að það er mikill hugur í fólki. Ísland hefur upp á mikið að bjóða um allt land, allt árið um kring og gaman að sjá hve spennandi og fjölbreyttar leiðir hafa skapast í vetrarferðaþjónustu um allt land síðustu misseri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. - mynd

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Á viðburðinum hitti Lilja meðal annars Cleu Braun, viðskiptastjóra hjá þýska flugfélaginu Condor sem er fyrsta erlenda flugfélagið sem hefur tilkynnt um reglubundið beint flug frá Frankfurt til bæði Egilsstaða og Akureyrar. Flugþróunarsjóður hefur gert samning um að styrkja Condor í því verkefni en markmið sjóðsins er að byggja nýjar flugleiðir til Íslands í gegn um aðra flugvelli en Leifsstöð. Condor mun fljúga beint til Egilsstaða og Akureyrar frá maí til október 2023.

Þá mun svissneska flugfélagið Edelweiss Air fljúga beint til Akureyrar frá Zurich í sumar og hyggur á aukið flug þangað í framtíðinni. Félögin bætast við þau sem fljúga þangað fyrir en hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur verið með leiguflug frá Hollandi til Akureyrar frá árinu 2019 og þá hóf flugfélagið Niceair beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife sumarið 2022.

Markaðsstofur landshlutanna eru sex talsins, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi og á Suðurlandi. Hlutverk þeirra er að samræma markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu og sinna vinnu við vöruþróun í ferðaþjónustu. Þær starfa með um 900 fyrirtækjum og sveitarfélögum um land allt.

Heimild: stjr.is