Categories
Fréttir

Unnur Þöll endurkjörin formaður SUF

Deila grein

31/08/2022

Unnur Þöll endurkjörin formaður SUF

47. Sambandsþing ungra Framsóknarmanna var haldið í Kópavogi um helgina.

Unnur Þöll Benediktsdóttir var endurkjörin formaður sambandsins. Unnur Þöll hefur gegnt embættinu í eitt ár en hún er varaborgarfulltrúi Framsóknar og var kosningastjóri B-listans í Reykjavík í síðustu sveitastjórnakosningum þar sem þau unnu stóran sigur.

Ný stjórn og varastjórn var kosin á þinginu og samanstanda þær af 24 ungum einstaklingum alls staðar að af landinu.

Þingið samþykkti í heildina fjórtán ályktanir. Ein af þeim fjallaði um hækkun fæðingarstyrks til námsmanna. Einnig var ályktað um aukið fjármagn til forvarna gegn sjálfsvígum, að lækka eigi fasteignaskatta og að 1. desember verið gerður að opinberum frídegi, ásamt fleirum.

Ályktanir þingsins

Sigurður Ingi Jóhannsson, Unnur Þöll Benedikstdóttir og Ásmundur Einar Daðason.

Myndir: Samband ungra Framsóknarmanna

Orri Hlöðversson, Halla Karen Kristjánsdóttir, Valdimar Víðisson, Brynja Dan og Willum Þór Þórsson.
Categories
Fréttir

Lilja fundaði með Douglas Jones

Deila grein

30/08/2022

Lilja fundaði með Douglas Jones

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Douglas Jones undirráðherra Bandaríkjanna í málefnum Evrópu og Evrasíu, funduðu um málefni norðurslóða og samstarf landanna ásamt Geir Oddssyni ræðismanni Íslands í Grænlandi. Fundurinn var hluti af ferð ráðherra á Grænlandsþing Hringborðs norðurslóða sem fór fram um helgina í Nuuk á Grænlandi. 

Á fundinum var ræddu þau um mikilvægi áframhaldandi góðrar samvinnu þjóðanna, um tækifæri á Norðurslóðum og í því samhengi hvernig þjóðirnar geta stutt við sjálfbæra uppbyggingu í Grænlandi. Þá var innrás Rússa í Úkraínu einnig rædd. 

,,Ísland og Bandaríkin hafa átt farsælt viðskipta- og stjórnmálasamband í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að auka samvinnu okkar á alþjóðavettvangi á grundvelli sameiginlegra hagsmuna og gilda,” sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra eftir fundinn.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 29. ágúst 2022.

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Deila grein

29/08/2022

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs norðurslóða sem fór fram um helgina í Nuuk á Grænlandi um helgina. Um 400 þátttakendur frá 25 löndum komu saman til þess að ræða loftslagsvána og málefni norðurslóða. 

Alls voru um 50 málstofur á þinginu þar sem meðal annars var fjallað um viðskipti, ferðaþjónustu, námuvinnslu, matvælavinnslu, vöruflutninga og framtíðarsýn út frá loftslagsbreytingum og grænum lausnum. 

Ráðherra var með framsögu og tók þátt í umræðum um viðskipti og fjárfestingar á Norðurslóðum ásamt Naaja Nathanielsen fjármála- og jafnréttisráðherra Grænlands, Dr. Thani bin Ahmed Al Zeyoudi, ráðherra erlendra viðskipta hjá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka, Verner Hammeken framkvæmdastjóra Royal Arctic Line og Hugh Short framkvæmdastjóra PT Capital. 

Lilja lagði áherslu á mikilvægi þess að samtíminn lærði af þeim mistökum sem norrænt fólk gerði á Grænlandi á 13-14. öldinni þegar gengið var of nærri viðkvæmu umhverfi með ofbeit og ofnýtingu náttúruauðlinda, sem meðal annars er talið hafa valdið því að á endanum að norrænt fólk hafi gefist upp á Grænlandsbúsetunni.  

„Sjálfbærni á að vera meginstef í öllum aðgerðum á Norðurslóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylgir hlýnun jarðar og afleiðinga loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að auka samvinnu og samstarf ríkja á Norðurslóðum þegar kemur að sjálfbærum viðskiptum og fjárfestingum. Það væri gagnlegt að stofna vettvang sem leiðir saman ríki í þeim tilgangi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra. 

Mynd: Artic Circle

Þá tók ráðherra þátt í málstofu Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands og stjórnarformanns Hringborðs norðurslóða um Norðurslóðasetur, um framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða og safns um norðurslóðir.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 29. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Deila grein

26/08/2022

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, undirrituðu í dag endurnýjað og uppfært samkomulag um samstarf á vettvangi faggildingar. Samkomulagið styður við sameiginlega sýn Norðurlandanna á vegum norrænum ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Faggilding gegnir í því sambandi lykilatriði við að efla samkeppnishæfni og efla traust og fagþekkingu innan norrænu hagkerfanna.

,,Faggilding eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og því er afar ánægjulegt að þessi samningur sé loksins kominn í höfn. Margir hafa komið að undirbúningum og þakka ég þeim sérstaklega fyrir,“ segir Lilja Dögg. 

Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats.

Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu og gerir samstarfssamningurinn íslensku faggildingarstofunni ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu. Aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sem og öðrum mun efla tengsl og styrkja faglegan grundvöll fyrir starfsemi stjórnvalda.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

25/08/2022

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Vinnufundur þingflokks Framsóknar fór fram í Veisluhöllinni í Hvergerði fimmtudaginn 25. ágúst. Eftir hádegismat í Gróðurhúsinu, Mathöll Sunnlendinga, heimsótti þingflokkurinn bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar. Helga Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri tók á móti hópnum og fór yfir sögu bæjarins. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði fór yfir verkefnin framundan. Í lok vinnufundar kynnti Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ starfsemi stofnunarinnar og framtíðarform um uppbyggingu á svæðinu.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Deila grein

25/08/2022

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra undirritaði í gær samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss. Ráðherra segir þetta enn einn ánægjulegan áfanga í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsfólk Grensáss og þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að því loknu verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Nordic Office of Architecture og EFLA urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunarinnar þar sem byggt var á matslíkani og verði. Nýbyggingin mun rísa vestan við núverandi aðalbyggingu endurhæfingardeildarinnar. Með henni munu aðstæður til endurhæfingar gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi í ljósi framfara í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Þannig hefur þeim fjölgað mikið sem nú lifa með fötlun af völdum sjúkdóma og slysa og þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu fer vaxandi.

Fjölmenni var við undirritun samningsins og gleðin lá í loftinu yfir þessum tímamótum. Heilbrigðisráðherra færði þakkir þeim fjölmörgu sem sýnt hafa í verki öflugan stuðning við starfsemi Grensáss og nefndi sérstaklega Hollvinasamtök Grensáss sem hafa frá stofnun samtakanna árið 2006 reynst starfseminni ómetanlegur bakhjarl.

Samninginn undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir hönd Nýs Landspítala ohf.,  Hallgrímur Þór Sigurðsson fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU. Vottar að undirskrift voru Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar Hollvina Grensáss og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. ágúst 2022.

Myndir: Heilbrigðisráðuneytið

Categories
Fréttir

35 milljónum króna veitt í gæða- og nýsköpunarstyrki

Deila grein

23/08/2022

35 milljónum króna veitt í gæða- og nýsköpunarstyrki

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað tæpum 35 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til 12 verkefna. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á heilsueflingu og nýtingu nýrra lausna til að auka gæði, þjónustu og hagkvæmni. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Frestur til að sækja um styrki rann út 1. maí síðastliðinn og bárust 32 umsóknir um fjölbreytt verkefni. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar. 

Mynd: stjornarradid.is

Prófun á fjarheilbrigðislausn fyrir lungnasjúkdóma og sykursýki

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Öryggismiðstöðin fengu hæsta styrkinn sem nemur 6 milljónum króna  til að aðlaga, innleiða og prófa fjarheilbrigðishugbúnað frá norsku heilbrigðistæknifyrirtæki í eitt ár. Hugbúnaðurinn tengir saman ýmsar heilbrigðistæknilausnir, s.s. lyfjaskammtara, mælitæki, fræðsluefni og myndsamtöl. Sjúklingar verða með eitt samræmt notendaviðmót þar sem þeir hafa yfirsýn yfir sínar mælingar og upplýsingar. 

Fjarendurhæfing einstaklinga með hálsáverka

NeckCare Holding ehf.  Fékk 4 milljóna króna styrk til að útvíkka kerfi sem felur í sér hreyfifræðileg próf til að meta ástand einstaklinga sem hafa orðið fyrir hálsskaða. Prófin aðstoða lækna og sjúkraþjálfara í að greina skaðann, komast að rótum hans og sérsníða meðferð fyrir sjúklinginn. Markmið verkefnisins felst í því að sjúklingurinn geti notað kerfið heima og framkvæmt sérsniðnar æfingar. Meðferðaraðili getur stýrt gerð æfinga, erfiðleikastigi og hvaða daga eigi að framkvæma þær. Niðurstöðum æfinganna er hlaðið upp í gagnagrunn til að auðvelda eftirfyld og áframhaldandi meðferð. 

Önnur verkefni

Nokkur verkefni fengu 3 milljóna króna styrki. Þar á meðal er verkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilsueflingu kvenna á breytingaskeiði sem ætlað að bæta þekkingu bæði almennings og heilbrigðisstarfsfólks á breytingaskeiði kvenna.

Landspítali fær einnig 3 milljóna króna styrk til reksturs bifreiðar Laufeyjar nærþjónustu. Laufey nærþjónusta hjá geðþjónustu Landspítala þjónar einstaklingum með langvarandi alvarlegan samslátt geð- og fíknisjúkdóma sem hefur veruleg áhrif á heilsu og lífsgæði þar sem starfað er eftir markmiðum batamiðaðrar hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals, geðlæknisfræði og skaðaminnkunar. Bifreiðinni er ætlað að nýtast starfsfólki til að fara í vitjanir og veita með því skjólstæðingum teymisins heilbrigðis- og félagsþjónustu í öruggu og hreinu umhverfi.

Heilbrigðisráðuneytið óskar styrkhöfum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í framtíðinni.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 22. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Deila grein

22/08/2022

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), fundaði með framkvæmdastjórninni, kynnti sér starfsemi stofnunarinnar og skoðaði nýja hjúkrunarheimilið Móberg sem verður tekið í notkun innan skamms. Heimsóknin markar upphafið að hringferð ráðherra um landið sem mun á næstunni heimsækja heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Á fundi ráðherra með framkvæmdastjórn kynnti Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU helstu stærðir í rekstri stofnunarinnar, þróun starfseminnar og starfsáætlun þessa árs, áherslur í mannauðsmálum og ýmsar nýjungar sem unnið er að meðal annars á sviði heilbrigðistækni og fjarheilbrigðisþjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja þjónustu sérgreinalækna við stofnunina undanfarið með áherslu á aukna þjónustu við íbúa í heimabyggð og verður áfram haldið á þeirri braut.

Víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í núverandi mynd varð til við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja árið 2015 og er þetta víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins. Íbúar á þjónustusvæði HSU eru rúmlega 32.000 en í umdæminu eru einnig fjölmennar sumarhúsabyggðir og fjölsóttir ferðamannastaðir sem setur mark sitt á starfsemi stofnunarinnar, einkum yfir sumartímann. Starfsmenn HSU eru um 650 í 420 stöðugildum.

HSU starfrækir níu heilsugæslustöðvar í umdæminu, sjúkrahús á Selfossi og í Vestmannaeyjum og á Selfossi er opin bráðamóttaka allan sólarhringinn árið um kring. Á Selfossi er ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta og voru fæðingar 70 á síðasta ári. Þar er einnig miðstöð meðgönguverndar og göngudeildarþjónustu við barnshafandi fjölskyldur. Á heilsugæslustöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu. Þar er móttaka sjúklinga, bráða- og slysaþjónusta, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun, meðgöngu- og ungbarnavernd og sálfræðiþjónusta. Á öllum heilsugæslustöðvunum er bráðavakt læknis vegna neyðartilfella og stofnunin annast jafnframt alla sjúkraflutninga á starfssvæði sínu. Geðheilsuteymi HSU tók til starfa árið 2019 og sinnir það einstaklingum 18 ára og eldri sem þurfa á sérhæfðri og þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Hjúkrunarheimilið Móberg

Við HSU á Selfossi eru rekin 42 hjúkrunarrými fyrir aldraða og stofnunin rekur einnig hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með 32 íbúa. Í lok árs 2019 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Árborg á bökkum Ölfusár við hlið HSU á Selfossi. Heimilið sem er fyrir 60 íbúa er nánast tilbúið til notkunar og munu fyrstu íbúarnir flytja þangað inn á næstunni. Hjúkrunarheimilið hefur fengið nafnið Móberg og mun HSU annast rekstur þess.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 19. ágúst 2022.

Ljósmyndir: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Ingvar Gíslason látinn

Deila grein

19/08/2022

Ingvar Gíslason látinn

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er látinn. Ingvar lést sl. miðvikudag á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, 96 ára að aldri.

Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956. Héraðsdómslögmaður varð hann 1962.

Ingvar gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.

Ingvar var árið 1961 kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1979-1980.

Ingvar sat um árabil í stjórn atvinnubótasjóðs, síðar atvinnujöfnunarsjóðs. Hann átti m.a. sæti í rannsóknaráði, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og sat í húsafriðunarnefnd 1974-1983.

Ingvar átti sæti í Kröflunefnd 1974-1980. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Hann var í útvarpsréttarnefnd og í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í mörg ár.

Þá var Ingvar um skeið í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Ingvar var einnig ritstjóri tímarita og blaða, m.a. Stúdentablaðsins, Vikutíðinda og var ritstjóri Tímans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og birt voru eftir hann nokkur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasamkeppni á vegum menningarmálanefndar Akureyrar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Úr lausblaðabók – Ljóðævi.

Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, dáin 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.

Við Framsóknarfólk minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.

Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.

Categories
Fréttir

Fyrsta íslenska tónlistarstefnan og frumvarp til heildarlaga um tónlist kynnt í Samráðsgátt

Deila grein

18/08/2022

Fyrsta íslenska tónlistarstefnan og frumvarp til heildarlaga um tónlist kynnt í Samráðsgátt

Drög að stefnu í málefnum tónlistar og frumvarp til laga um tónlist eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og stendur samráðið til 31. ágúst nk.

Um er að ræða fyrstu heildarlöggjöf um tónlist á Íslandi.

„Þetta eru mikil tímamót, en með stefnunni og lögum um tónlist vinnum við að því að efla tónlist á landinu öllu og mörkum í fyrsta sinn heildarramma fyrir málefni tónlistar sem lengi hefur vantað. Með þessu viljum við búa tónlistinni hagstæð skilyrði til að vaxa og dafna um ókomna tíð,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Mynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson



Frumvarpið byggir á nýrri tónlistarstefnu en grunnur að henni var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Á grunni þeirrar skýrslu hefur verið unnið að frekari mótun tónlistarstefnu og samhliða hafa verkefni Tónlistarmiðstöðvar verið skilgreind og útfærð. Við mótun stefnunnar var samráð haft við helstu hagaðila innan tónlistar en einnig við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið um þætti tengda tónlistarnámi.

Mikilvægt er að almenn sátt ríki um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið. Með birtingu í samráðsgátt gefst tækifæri til enn breiðara samráðs og því er  kallað er eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir þær sem lagðar eru til í þessum drögum.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradis.is 17. ágúst 2022.