Categories
Greinar

Hæst hlutfall háskólamenntaðra

Deila grein

25/10/2018

Hæst hlutfall háskólamenntaðra

Samkvæmt nýjustu skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um menntatölfræði eru meginstyrkleikar íslenska menntakerfisins gott aðgengi að menntun og góð samskipti nemenda og kennara. Skýrslan »Menntun í brennidepli« tekur nú í fyrsta sinn mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og er því sérstaklega fjallað þar um jöfn tækifæri til náms og hvernig félagslegar aðstæður, uppruni og kyn hafa áhrif á skólasókn og menntunarstig.

Fram kemur í skýrslunni að fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist og að hér sé mjög hátt hlutfall háskólamenntaðra í alþjóðlegum samanburði sem og mikil atvinnuþátttaka. Hlutfall háskólamenntaðra á aldrinum 25-64 ára er einna hæst hér og í Danmörku af Norðurlöndum. Í aldurshópnum 25-64 ára hafði 21% Íslendinga og Dana lokið grunnnámi á háskólastigi árið 2017 en það hlutfall er 17% í Svíþjóð og Finnlandi og 19% í Noregi. Þegar horft er á hlutfall kynjanna og þróunina síðustu 10 ár má sjá hversu hratt menntunarstig þjóðarinnar hefur vaxið. Hlutfall háskólamenntaðra karla á aldrinum 25-34 ára á Íslandi hefur aukist um 10 prósentustig á 10 árum meðan hlutfall háskólamenntaðra kvenna hefur aukist um 20 prósentustig. Þetta er umtalsverð aukning á svo skömmum tíma og ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þrátt fyrir hana telst atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum mjög lítið hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Ein áskorun sem mörg ríki stríða við er mikið atvinnuleysi meðal ungs fólks sem hverfur frá námi og fær ekki vinnu. Ísland stendur áberandi vel að vígi að þessu leyti, þrátt fyrir að brotthvarf úr námi hafi verið viðvarandi á framhaldsskólastigi. Ef litið er á aldursbilið 18 til 24 ára eru aðeins 5% íslenskra ungmenna hvorki í skóla né vinnu og er það lægsta hlutfall meðal ríkja OECD.

Skólasókn dreifist líka yfir lengra tímabil hér á landi, algengt er í samanburðarlöndum okkar að skólasókn sé mikil á aldrinum 15-19 ára en minnki svo en hér er mjög hátt hlutfall ungs fólks á aldrinum 25-29 ára í skóla. Ungt fólk notfærir sér í auknum mæli tækifæri í atvinnulífinu og frestar skólagöngu en snýr aftur eftir að hafa náð sér í starfsreynslu. Hvort þetta er jákvætt eða neikvætt er matsatriði, en sú hætta er fyrir hendi að hópar hverfi alfarið frá námi og ljúki ekki skólagöngu á framhaldsskólastigi.Menntatölfræði skiptir okkur miklu við stefnumótun og ákvarðanatöku og samfella í þeim mælingum er afar mikilvæg. Tekið verður mið af skýrslum og greiningarvinnu sem fyrir liggja og sjónum beint að þessum áskorunum í yfirstandandi vinnu við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030. Um leið og við fögnum fjölgun háskólamenntaðra á Íslandi vil ég einnig óska Bandalagi háskólamanna til hamingju með 60 ára starfsafmæli félagsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2018.

Categories
Greinar

Rætur menningarinnar

Deila grein

24/10/2018

Rætur menningarinnar

Bækur hafa fylgt íslensku þjóðinni alla tíð og hafa að geyma okkar helstu menningarverðmæti. Menningarlegt mikilvægi þeirra er ótvírætt og gildi þeirra fyrir íslenska tungu sömuleiðis. Samkvæmt Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) er íslenska eitt þeirra tungumála sem eru í hættu að glatast og því mikilvægt að hlúa að tungunni eins og frekast er unnt.

Á þriðjudaginn var mælti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fyrir frumvarpi um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Íslensk bókaútgáfa hefur átt í vök að verjast en undanfarin tíu ár hefur bóksala dregist saman um 36% meðal annars vegna tæknibreytinga og örrar samfélagsþróunar.

Það er brýnt fyrir fámenna þjóð eins og okkar að takast á við áskoranir sem þessar og snúa vörn í sókn. Frumvarpið sem um ræðir er stuðningur við útgáfu bóka á íslensku, sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu þeirra. Ráðgert er að verja til verkefnisins um 400 milljónum kr. frá og með árinu 2019 og gildir þá einu um hvort bókin er gefin út á prenti eða rafrænu formi. Þessi stuðningur er í takt við það endurgreiðslukerfi sem kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn nýtur og hefur það gefið góða raun.

Íslenskan í öndvegi

Ríkisstjórnin hefur sett íslenskuna í öndvegi á þessu kjörtímabili. Til viðbótar við nýtt stuðningskerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku má nefna máltækniverkefnið, sem mun gera íslenskuna gildandi í stafrænum heimi til framtíðar og gera komandi kynslóðum kleift að eiga samskipi við snjalltækin sín á íslensku. Þá hafa verið kynntar tillögur til þess að efla einkarekna fjölmiðla en enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Til allrar menningar þarf ræktun og allrar ræktunar þarf tíma. Fámenn þjóð sem okkar verður að hafa slíkt hugfast og vinna stöðugt að því að skapa hagfelld skilyrði fyrir blómlegt menningarlíf þar sem íslenskan er í brennidepli. Frumvarpið um stuðning við útgáfu bóka á íslensku er mikilvæg varða á þeirri leið og hvetur okkur áfram til dáða við að hlúa betur að rótum menningar okkar, sjálfu tungumálinu.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjödæmi

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykanesbæ

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 21. október 2018.

Categories
Greinar

Jafnréttismenning

Deila grein

24/10/2018

Jafnréttismenning

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi árið 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir jöfnum réttindum á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Saga kvennafrídagsins er flestum kunn en á þessum degi fyrir 43 árum síðan bentu konur á mikilvægi starfa sinna og vinnuframlags með því að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Eðli málsins samkvæmt var samfélagið í lamasessi. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar hér á landi.

Undanfarin ár hefur 24. október verið nýttur til að benda á það sem betur má fara hérlendis, ekki síst þá staðreynd að enn mælist kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði. Lög um jafnlaunavottun tóku gildi í upphafi þessa árs. Þau kveða á um skyldu fyrirtækja og stofnana að undirgangast formlega úttekt og vottun sem staðfestir að stjórnunarkerfi þeirra uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunavottun getur þannig endurspeglað metnað fyrirtækja og stofnana sem vilja vera eftirsóttir vinnustaðir og sjá sér hag í að sýna fram á að þau reki launastefnu sem byggist á markvissum og faglegum aðferðum. Jafnlaunastaðallinn er eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð hans var að þróa leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið hefur verið á um í lögum í áratugi. Þetta verkefni hefur hlotið mikla athygli út fyrir landsteinana og litið er til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar aðgerðir og þróun málaflokksins. Árangur okkar byggist á víðtæku samráði og fyrir það ber að þakka.

Í dag stendur kvennahreyfingin í samstarfi við samtök launafólks fyrir baráttufundi þar sem sjónum er beint að launajafnrétti og öryggi kvenna á vinnustöðum. Stjórnvöld hafa brugðist við #ég líka hreyfingunni með margvíslegum hætti. Verkefnin miða að fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum en ekki síst að því hvernig megi skapa raunverulega jafnréttismenningu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að lög og regluverk um viðbrögð og skyldur atvinnurekenda vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum séu fyrir hendi sýna #ég líka frásagnirnar gríðarlegt umfang vandans sem enn fær að viðgangast. Gallup-könnun sem gerð var í nóvember í fyrra sýnir að nærri helmingur allra kvenna, eða 45%, hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 15% karla. #Ég líka frásagnir kvenna af erlendum uppruna um andlegt og líkamlegt ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði voru mjög þörf áminning um að hin svokallaða jafnréttismenning hefur ekki náð til allra hópa í okkar samfélagi. Við þurfum að vera meðvituð og vakandi fyrir birtingarmyndum margþættrar mismununar og skoða áhrif stjórnvaldsaðgerða út frá kyni en einnig öðrum þáttum eins og uppruna, kynvitund og kynhneigð.

Í samræmi við þær áherslur fer nú fram vinna innan Stjórnarráðsins sem miðar að frekari útvíkkun jafnréttishugtaksins í íslenskri löggjöf og mótun  heildstæðrar stefnu í jafnréttismálum sem ætlað er að tryggja framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð einstaklinga.

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að auka á jafnréttismenningu og marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherrs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, jafnrétti kynningarblaði, 24. október 2018.

Categories
Greinar

Réttu barni bók

Deila grein

24/10/2018

Réttu barni bók

Nú er tími vetrarfríanna hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er kærkomin tilbreyting að líta upp úr námsefninu bæði fyrir nemendur og kennara og vonandi gefst sem flestum færi á að njóta samverustunda í fríinu. Öll viljum við að börnin okkar njóti þeirra möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Mikilvægt er að þau fái tækifæri til þess að þroskast og blómstra í fjölbreyttum verkefnum.

Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum okkar og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Við vitum að þeirri færni hefur farið hrakandi og ýmislegt hefur þegar verið gert til þess að snúa þeirri þróun við og efla læsi barna og unglinga.

Á dögunum kynntum við aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Í liðinni viku mælti ég fyrir frumvarpi sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Þeirri aðgerð er ætlað að hvetja til aukinnar útgáfu bóka, á prenti og rafrænum miðlum og auka þannig framboð og fjölbreytni efnis fyrir íslenska lesendur.

Til þess að stuðla að bættu læsi þurfa allir aldurshópar, og ekki síst börn og ungmenni, að geta nálgast áhugavert og fjölbreytt lesefni á íslensku.

Gildi bókaútgáfu fyrir þróun tungumálsins okkar er óumdeilt. Útgáfa bóka er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar.

Frá því að land var numið á Íslandi höfum við skrifað og lesið til að skilja okkur sjálf. Það er tungumálið okkar sem geymir þann galdur.

Íslenskan er okkar þjóðtunga og opinbert mál, og okkur ber að tryggja að hægt sé að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Til þess eru margar leiðir, sumar umfangsmiklar eins og sú innspýting fyrir íslenska útgáfu sem frumvarpið boðar. Aðrar eru einfaldari og kalla á hugarfarsbreytingu eða aukna meðvitund hjá okkur öllum, eins og að velja oftar að rétta barni bók.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 22. október 2018.

Categories
Greinar

Bækurnar, málið og lesskilningurinn

Deila grein

18/10/2018

Bækurnar, málið og lesskilningurinn

Í vikunni mælti mennta- og menningarmálaráðherra fyrir frumvarpi á Alþingi sem hefur það að markmiði að efla útgáfu bóka á íslensku. Bókaútgáfa hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og því mikilvægt að spyrna við fótum með markvissum aðgerðum. Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku er liður í heildstæðri nálgun til eflingar íslenskunni. Þar er verið að mæta áskorunum úr mörgum áttum. Meðal aðgerða til að styrkja stöðu íslenskunnar, eru auk stuðnings við útgáfu bóka á íslensku fyrirhugaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla, aukin áhersla á íslensku í menntakerfinu og umfangsmikið átaksverkefni á sviði máltækni. Þetta eru fjölþættar aðgerðir en hér dugir heldur ekki annað. Ef takast á að tryggja að íslenskan verði áfram aðalmálið þarf samstillta vinnu margra aðila víða í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að grundvöllur aðgerðanna er eindreginn vilji stjórnvalda til að tryggja framgang, þróun og framtíð íslenskrar tungu.

Læsi og lesskilningur hafa mikil áhrif á lífsgæði einstaklinga og um leið á samfélagið og samkeppnishæfni þess til framtíðar. Með aðgerðunum nú er verið að fylgja eftir þeirri vinnu sem lögð hefur verið á læsi í skólum. Vísbendingar eru um að sú vinna sé farin að skila árangri eins og sást í niðurstöðum Lesfimiprófanna núna í september, það er frábært.

Aðgengi að fjölbreyttu og áhugaverðu lesefni er grundvallaratriði fyrir þjóð sem ætlar sér að bæta læsi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur einnig boðað stofnun nýjan barna- og unglingabókasjóðs sem hefji starfsemi á næsta ári enda hefur yngri kynslóðin bent á að auka þurfi framboð af góðum bókum.

Við erum sannfærðar um að heildstæð nálgun til eflingar íslenskunni og nýtt stuðningskerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku verður hvatning fyrir útgefendur og rithöfunda. Þá gleðjast bókaorma sem njóta góðs af, en umfram allt bindum við vonir við að aðgerðirnar muni skila auknum áhuga barna- og ungmenna á bókalestri og betra læsi þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismenn.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 17. október 2018.

Categories
Greinar

Hversu mikilvægur er landbúnaður fyrir sveitarfélagið mitt?

Deila grein

16/10/2018

Hversu mikilvægur er landbúnaður fyrir sveitarfélagið mitt?

Ein af grunnstoðum íslensks atvinnu­lífs er landbúnaður. Eyja­­fjörður er rótgróið land­bún­aðar­­hérað með blómlegum byggðum og stórum þjónustu- og úrvinnslufyrirtækjum á sviði landbúnaðar.

Líta má á nýjar og breyttar áherslur t.d. tengdar ESB, niðurfellingu tolla, meiri sveigjanleika við innflutning á fersku kjöti o.fl. þætti sem töluverða ógn við bændur og þeirra starfsemi. En sú ógn einskorðast alls ekki við þá sem vinna í frumgreininni og ætla ég að varpa smá ljósi á mikilvægi landbúnaðar fyrir sveitarfélagið mitt, Dalvíkurbyggð.

Í tölum sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar tók saman um landbúnaðarmál byggðum á Hagstofutölum ársins 2016 kemur fram að í Dalvíkurbyggð eru 39 rekstraraðilar í landbúnaði og er ársvelta bújarðanna rúmlega 900 milljónir króna samtals. Ætla má að hjá hverjum þessara 39 aðila séu að jafnaði 1–3 störf sem skila útsvarstekjum inn í sveitarfélagið. Mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu þjónusta landbúnaðinn t.d. í byggingariðnaði, vélaverkstæðin og verslanirnar. Þá kaupa bændur þjónustu og vöru af veitum sveitarfélagsins og greiða fasteignagjöld af byggingum á jörðunum. Eyjafjarðarsvæðið í heild nýtur góðs af og mörg stór úrvinnslufyrirtæki skapa störf og hafa tekjur af landbúnaði.

En það er svo mikið meira en tölur og peningaleg áhrif. Á jörð­unum býr fólk, heldur sín húsdýr og ræktar sína jörð. Þar eru allt upp í þrjár kynslóðir á sama bænum að skapa verðmæti. Og verðmætin mælast ekki síður í félagslífi, samvinnu milli bæja og samkennd með nágrönnunum. Á meðan jarðirnar haldast í byggð og búskap er ásýnd sveitanna fögur og áður nefnd verðmæti til staðar. Það ríkir bjartsýni og trú á framtíðina. Um leið og búskapur leggst af og jarðir fara í eyði eða undir frístundabúsetu þá er erfiðara fyrir þá sem eftir standa að halda úti margvíslegum samfélagsverkefnum. Þess vegna er svo mikilvægt á landsvísu að standa vörð um landið og landbúnaðinn og koma lögum yfir uppkaup auðmanna á heilu sveitunum.

Við í Dalvíkurbyggð erum stolt af okkar bændum og þeirra metnaðarfullu starfsemi sem er mjög mikilvæg fyrir sveitarfélagið. Undanfarin ár hefur verið gaman að fylgjast með hvernig þeir hafa margir hverjir byggt upp og fært vinnsluhætti til nútímans. Ég vona að skilyrði, regluverk og umgjörð um landbúnaðinn verði með þeim hætti í framtíðinni að nýjar kynslóðir sjái áfram tækifæri í að helga sig þessari grundvallar atvinnugrein í okkar þjóðfélagi.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð.

Greinin birtist fyrst á www.bbl.is 16. október 2018

Categories
Greinar

Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Deila grein

08/10/2018

Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur síðastliðið þriðjudagskvöld sýndi slæman aðbúnað erlends verkafólks hér á landi og margvísleg brot gegn því og lét örugglega engan ósnortinn. Hver sem stundar atvinnurekstur á þeim forsendum að brjóta á vinnandi fólki, búa því slæmar aðstæður og svíkja það um kaup og kjör kemur óorði á heilar atvinnugreinar og skaðar orðspor Íslands sem þjóðar meðal þjóða. Slík háttsemi er vandamál allra, grefur undan heiðarlegri atvinnustarfsemi og ýtir undir tortryggni á vinnumarkaði. Það þarf að efla eftirlit, auka samvinnu til að taka heildstætt á þessum málum og herða viðurlög gagnvart þeim sem ábyrgir eru.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi lög sem varða erlendar starfsmannaleigur og fela í sér auknar heimildir Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar til eftirlits, auk víðtækari heimilda til upplýsingamiðlunar til ríkisskattstjóra og lögreglu. Lögin eru afrakstur samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Markmiðið er að tryggja að l starfskjör starfsmanna sem sendir eru tímabundið hingað til lands séu í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga og að bæta yfirsýn stjórnvalda yfir eðli og umfang þessara mála. Skammt er liðið frá gildistöku laganna en þeim er ætlað að torvelda brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Meðal þess sem mér fannst sláandi í þættinum var hvað þeir aðilar sem hafa skýran ásetning um að brjóta á vinnandi fólki virðast beita til þess margvíslegum aðferðum. Til að upplýsa og fyrirbyggja brot þarf virkt samstarf margra aðila. Fulltrúar atvinnurekenda og launafólks eru á einu máli um að brot eins og hér um ræðir verða ekki liðin og ég veit að vilji allra aðila sem þurfa að vinna saman til að uppræta þennan vanda er fyrir hendi.

Nýlega kynnti ég fyrir ríkisstjórn ákvörðun mína um aukna samvinnu til að sporna gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Í framhaldinu kallaði ég til samstarfs fulltrúa verkalýðsfélaga, atvinnurekenda, skattayfirvalda, lögreglu og fleiri stofnana sem og fleiri ráðuneyta til að efla samstarf um aukið eftirlit og meta þörf á lagabreytingum. Háttsemi af þeim toga sem þarna kom fram á ekki að líðast.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október 2018.

Categories
Greinar

Sendiherrar íslenskunnar

Deila grein

05/10/2018

Sendiherrar íslenskunnar

Alþjóðlegur dagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni var haldið skólamálaþing á vegum Kennarasambands Íslands í gær undir yfirskriftinni »Íslenska er stórmál«. Eftir veruna þar fyllist ég enn meiri bjartsýni fyrir hönd íslenskrar tungu, þar kom fram mikill einhugur og ástríða fyrir framtíð íslenskunnar og þeim möguleikum sem í henni felast. Á málþinginu var skrifað undir viljayfirlýsingu um mikilvægi íslensks máls en að henni standa auk Kennarasambandsins, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtökin Heimili og skóli. Markmið þessarar yfirlýsingar er að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslenskunni, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðari viðhorfum, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu.

Á málþinginu voru einnig kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar á stafrænum áhrifum alþjóðamáls á íslensku. Þar er meðal annars fjallað um net- og snjalltækjanotkun barna, viðhorf þeirra og áhuga á ensku, málkunnáttu og málumhverfi. Þær tölur sem kynntar voru eru úr netkönnun meðal barna á aldrinum 3-12 ára og veita þær afar forvitnilegar vísbendingar um þá hröðu þróun sem nú á sér stað í málumhverfi okkar. Það vakti athygli mína að samkvæmt þeim tölum nota 19% þriggja til fimm ára barna netið á hverjum degi, og 8% þeirra barna byrjuðu að nota snjalltæki fyrir eins árs aldur. Þetta er tímamótarannsókn en henni er ekki lokið og úrvinnsla gagna raunar nýhafin en þessar fyrstu niðurstöður eru sannarlega umhugsunarverðar. Það bendir ýmislegt til þess að viðhorf barna og ungmenna til íslensku sé að breytast og því er mikilvægt að gefa gaum.

Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og það eru kennarar einnig. Kennarar eru einir af mikilvægustu áhrifavöldum sem unga fólkið okkar kemst í tæri við. Þeir skipta sköpum fyrir framtíð íslenskunnar og góð þekking þeirra, áhugi og ástríða fyrir tungumálinu getur svo auðveldlega smitast til nemenda. Þeir geta verið, svo vísað sé til orða frú Vigdísar Finnbogadóttur, sendiherrar íslenskunnar. Það er dýrmætt að kennarar taki virkan þátt í því að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið okkar. Við höfum greint frá fjölþættum aðgerðum stjórnvalda er einmitt miða að því og þar gegnir menntakerfið og kennarar lykilhlutverki.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2018.

Categories
Greinar

Upp úr skotgröfunum

Deila grein

03/10/2018

Upp úr skotgröfunum

Umræður um laxeldi á Íslandi hafa náð hápunkti sínum síðustu vikur. Það er eins og maður hafi verið að fylgjast með dramatískum framhaldsþætti frá unglingaskóla í Bandaríkjunum. Hver þáttur hefur einkennst af upphrópunum, og atburðarásin snýst alltaf um það sama, en maður horfir samt. Laxeldi er atvinnugrein sem hefur verið stunduð víða um heim í mörg ár. Í nágrannalöndum okkar Noregi og Færeyjum hefur hún náð að þróast í að vera umhverfisvæn matvælaframleiðsla þar sem miklar kröfur eru gerðar.

Ný atvinnugrein

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þar sem ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærstum hluta strandlengjunnar þannig að eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, Vestfjörðum og í Eyjafirði. Það var gert til að vernda þær ár þar sem stundaðar eru veiðar á villtum laxastofni landsins. Einnig til að passa upp á hagsmuni veiðiréttarhafa en fyrst og fremst til þess að vernda viðkvæman laxastofn sem hér lifir.

Síðan þá hafa stjórnvöld innleitt strangari reglur í takt við það sem tíðkast erlendis. Enn má gera betur og herða umhverfiskröfur og efla eftirlit, eitthvað sem sum fiskeldisfyrirtæki hafa kallað eftir sjálf. Það er því grátlegt að þegar vilji bæði stjórnvalda og fyrirtækjanna sem stunda þessa framleiðslu er að halda allar ströngustu reglur, skuli uppbyggingin ganga svo brösuglega. Efnahagslegur ábati fyrir þjóðina er svo gríðarlegur, talinn í tugum milljarða þegar þessi framleiðsla verður komin á fullan skrið.

Vestfirðingar hafa löngum verið duglegir við að bjarga sér. Sem betur fer var kerfið ekki komið til sögunnar þegar þeir ýttu úr vör og sóttu björg í bú. Nú ætlar kerfið og hin óskiljanlega umræða að setja strik í reikninginn.

Raunveruleikaþáttur

Það er okkur nauðsynlegt að skipta um í gír í umræðunni úr dramatíkinni í raunveruleikaþátt. Þegar um jafnstóra atvinnugrein er að ræða verðum við að leyfa henni að njóta sannmælis. Umræðan þarf að komast upp úr skotgröfunum og í eðlilegan farveg.

Stjórnvöld eiga að tryggja umgjörð sem byggir á ströngum umhverfisreglum og heilbrigðisstuðlum og tryggja að þegar fyrirtæki hafa uppfyllt allar kröfur stjórnvalda, haldi þau leyfi sem gefin eru út. Með ströngu en skilvirku lagaumhverfi getum við skapað framtíðaratvinnugrein grundvöll öllum til ábata.

Halla Kristín Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. október 2018.

Categories
Greinar

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Deila grein

03/10/2018

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Í gær, 1. október, tóku gildi ný heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk. Eitt ber tvímælalaust hæst en það er lögleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Þessi dagur á því án efa eftir að festa sig í huga þeirra fjölmörgu sem hafa til margra ára barist fyrir því að þetta fyrirkomulag þjónustu yrði sjálfsagður réttur fatlaðs fólks sem þarf á miklum stuðningi að halda til að fá notið sín í samfélaginu og tekið í því virkan þátt og sem mest á jafnréttisgrundvelli.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2007, hefur haft mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks á liðnum árum og ýtt undir margvíslegar úrbætur, bæði til að efla og bæta þjónustu en ekki síður að efla mannréttindi og auka vernd fólks með fötlun. Í samningnum eru tilgreindar almennar meginreglur um túlkun og framkvæmd hans. Þar má nefna áhersluna á frelsið til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði einstaklinga, fulla þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika, áhersluna á jöfn tækifæri fólks og jafnrétti kynjanna.

Hugmyndafræðin að baki NPA á rætur að rekja til viðhorfsbreytinga sem leitt hafa af samningi Sameinuðu þjóðanna. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar og með hverjum það býr, viðkomandi stýrir sjálfur hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún er veitt og af hverjum. Kveðið er á um rétt til aðstoðar við skipulag þjónustunnar þurfi fatlaður einstaklingur á slíkri aðstoð að halda.

Þjónusta við fatlað fólk er á hendi sveitarfélaganna og hefur svo verið frá árinu 2011. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að innleiðingu NPA þjónustuformsins með tilraunaverkefni um framkvæmdina. Sveitarfélögin hafa því umtalsverða þekkingu og reynslu á að byggja og ég er sannfærður um að þeim sé ekkert að vanbúnaði að veita þessa þjónustu, fötluðum og samfélaginu til gagns og góðs.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. október 2018.