Categories
Greinar

HEILUN SAMFÉLAGSINS

Deila grein

07/04/2020

HEILUN SAMFÉLAGSINS

Nú er sannarlega viðkvæm staða hér á Vestfjörðum þegar smit hafa verið að berast með hraða um samfélagið. Þá sýnir það sig best að hver og einn skiptir máli; viðhorf einstaklingsins hefur aldrei skipt eins miklu máli og nú og Við slíkar aðstæður reynir virkilega á samvinnu í litlum samfélögum og reynir á stoðir þess og á sér ýmsar birtingamyndir. Heimasíminn gengur í endurnýjun líftíma og nágranninn verður hluti af fjölskyldunni. Heima með Helga verður að Juróvision landans og allir taka undir.

Allir í almannavörnum

Öflugt heilbrigðiskerfi ásamt almannavörnum takast nú á með öllu afli við veiruna og til þess að það náist þarf hver og einn að taka þátt, ekki bara Jón og Gunna á móti. Það er mikilvægt að allir hagi sér samkvæmt því sem ráðlegt er. Þannig léttum við byrði fólks sem heldur heilbrigðiskerfinu gangandi. Mikið álag hvílir á þeim sem sinna umönnun  innan heilbrigðisstofnana og þeim sem starfa hjá fólki með fötlun og sinna heimahjúkrun. Fólk í viðkvæmri stöðu á erfitt þegar hversdeginum er kippt úr sambandi. Því skiptir máli að gerast viðbragðsaðili í heilbrigðis-og félagsþjónustu þótt maður geti ekki lagt fram nema fáeinar klukkustundir í viku.

Það er traustvekjandi að sjá viðbrögð heilbrigðis- og almannavarnaryfirvalda hér á svæðinu og allir hlýða kalli, bæði fólk hér innan svæðis og utan. Stórtæk söfnun þriggja kvenna gerir það að verkum að hægt verður að kaupa öndunarvélar til Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Þetta segir til um þann hug sem við sameinumst í líkt og áður þegar áföll hafa dunið yfir.

Það vorar

Við erum komin nokkrum dögum frá jafndægri á vori; birtan varir lengur en myrkrið og enn vex hún. Stjórnvöld gera meira og  nærsamfélögin eru að gera meira. Þannig náum við þeirri viðspyrnu sem þarf til að ná okkur á strik aftur. En það verður ekki gert nema við berum traust hver til annars og sýnum umhyggju. Þannig heilum við samfélagið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 7. apríl 2020.

Categories
Greinar

Próf­steinn á okkur og sam­fé­lagið okkar

Deila grein

03/04/2020

Próf­steinn á okkur og sam­fé­lagið okkar

Starfsfólk bæjarfélagsins hefur staðið vaktina síðustu daga og vikur við mjög svo óvenjulegar og krefjandi aðstæður. Það hefur staðið vörð um grunnstoðir samfélagsins okkar í Hafnarfirði – leyst úr flóknum viðfangsefnum og verkefnum á undraskömmum tíma – og séð til þess að það gangi eins vel fyrir sig og mögulegt er við erfiðar aðstæður. Fyrir það ber að þakka.

COVID-19 er ákveðinn prófsteinn á okkur sem einstaklinga og samfélagið okkar í heild; hvernig við bregðumst við, stöndum saman og virðum og skiljum hvert annað. Með slíkri samstöðu munum við vinna okkur úr þeim erfiðleikum sem þessu fylgir.

Aðgerðaáætlun samþykkt í bæjarstjórn

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar taldi brýnt að bregðast við þeirri krefjandi stöðu sem samfélagið okkar stendur nú frammi fyrir með hröðum og markvissum aðgerðum. Á fundi bæjarstjórnar þann 1. apríl var samþykkt aðgerðaáætlun í 11 liðum til að bregðast við afleiðingum faraldursins. Hér er um að ræða fyrstu aðgerðir Hafnarfjarðarbæjar, sem ætlað er að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við íbúa, atvinnulíf og félagasamtök. Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt, tekur til margra sviða og hefur það að markmiði að lágmarka þá niðursveiflu sem óumflýjanleg er og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins.

Um aðgerðir þessar hefur ríkt þverpólitísk samstaða innan bæjarstjórnar sem hefur jafnframt gefið það út að ef þörf reynist á frekari aðgerðum sé ekkert því til fyrirstöðu að aðgerðaáætlunin verði tekin til endurskoðunar.

Hér má nánar lesa um aðgerðaáætlunina í heild og einstaka aðgerðir.

Sterkari saman

Þetta er tímabundið ástand, en því er ekki að leyna að í hönd fara erfiðir tímar í samfélaginu okkar og um heim allan. Við erum að upplifa tíma sem hafa áhrif á okkar daglega líf um stund og þeir reyna á okkur öll. Það hefur vakið eftirtekt mína hversu mikil samstaða og skilningur er á þessum tímum og mikið traust er til þeirra sem helstu ákvarðanir taka. Við erum í þessu saman. Með hækkandi sól mun aftur birta til.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2020.

Categories
Greinar

Nú er tíminn til að lesa

Deila grein

02/04/2020

Nú er tíminn til að lesa

Íslensk heim­ili tak­ast nú á við breytt­an veru­leika. Marg­ir hinna full­orðnu vinna heima sam­hliða því að sinna börn­um sem dauðlang­ar aft­ur í skól­ann og á íþróttaæf­ing­ar. Sjald­an hef­ur verið eins mik­il­vægt að rækta lík­ama og sál, fara út að hlaupa, taka veiru­frí­an klukku­tíma eða lesa.Það er nefni­lega sumt sem breyt­ist ekki og hef­ur fylgt þjóðinni frá ör­ófi alda. Við erum bókaþjóð. Við skrif­um, les­um og syngj­um, oft til að kom­ast í gegn um erfiðleika sem að okk­ur steðja. Við vit­um hversu miklu máli skipt­ir að rækta þessa hefð, ekki síst í ljósi þess að lesskiln­ing­ur er sér­stak­lega mik­il­væg­ur fyr­ir börn. Náms­ár­ang­ur þeirra til lengri tíma ræðst að miklu leyti af lesskiln­ingi þeirra, sem eykst með ástund­um. Hér gild­ir hið fornkveðna, að æf­ing­in skapi meist­ar­ann.

Með lestri rækt­ar þjóðin einnig menn­ing­ar­arf sinn. Hver bók tek­ur mann í manns eigið æv­in­týri. Hver blaðsíða efl­ir orðaforðann, kveik­ir nýj­ar hug­mynd­ir, eyk­ur skiln­ing og veit­ir þannig betri aðgang að heim­in­um öll­um. Þannig gegna ís­lensk­ir rit­höf­und­ar og þýðend­ur gríðarlega mik­il­vægu sam­fé­lags­hlut­verki. Það eru þeir sem bjóða okk­ur að ferðast um heim­inn þar sem sitj­um á sama stað með bók í hendi, í sótt­kví eða sam­komu­banni. Það er þeim og blóm­legri bóka­út­gáfu að þakka, að á mörg­um heim­il­um eru bóka­hill­ur full­ar af kræs­ing­um fyr­ir les­end­ur á öll­um aldri. Þar ægir sam­an Jóni Kalm­an, Ævari vís­inda­manni, Stein­unni Sig­urðardótt­ur, Hall­dóri Lax­ness yngri og eldri, Guðrúnu Helga­dótt­ur og öll­um hinum frá­bæru rit­höf­und­un­um og skáld­un­um. Hvort sem lög­reglumaður­inn Er­lend­ur, grall­ar­inn Fía­sól, Bjart­ur í Sum­ar­hús­um eða ung­frú­in Hekla hafa fangað at­hygli okk­ar, þá veita þau frels­andi hvíld frá amstri og áhyggj­um hvers­dags­ins. Við þurf­um á því að halda ein­mitt nú.

Allt of­an­greint var hvat­inn að nýju þjóðarátaki, sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið hleypti af stokk­un­um í gær und­ir heit­inu Tími til að lesa. Heitið er dregið af þeirri staðreynd, að nú hafi marg­ir meiri tíma en áður til að lesa og þörf­in hafi sjald­an verið meiri á að rækta hug­ann með lestri af öllu mögu­legu tagi. Við ætl­um að lesa meira en nokkru sinni áður og skrá lest­ur­inn á vefsíðuna tim­itila­dlesa.is á hverj­um degi til 30. apríl. Að átak­inu loknu ætl­um við að freista þess að fá ár­ang­ur­inn skráðan í heims­meta­bók Guinn­ess, líkt og sæm­ir bóka- og lestr­arþjóðinni í norðri.

Nú þarf að virkja keppn­is­skapið, og ef vel tekst til gæti verk­efnið orðið góður vitn­is­b­urður bókaþjóðar­inn­ar Íslend­inga um all­an heim. Og nú, eft­ir lest­ur þessa pist­ils, get­ur þú bætt fimm mín­út­um inn á þitt nafn á vefn­um tim­itila­dlesa.is! Mun­um að þrátt fyr­ir frostið, þá er samt að koma vor – það birt­ir til. Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2020.

Categories
Greinar

Takk fyrir matinn!

Deila grein

02/04/2020

Takk fyrir matinn!

Fyrr í vetur fékk ég til mín gesti frá Bandaríkjunum. Bar ég fram það fínasta úr búrinu á borðin og kynnti fyrir þeim íslenskan mat. Þar mátti finna skyr, osta, lax og lamb. Áður en sest var að snæðingi fóru þau með sína borðbæn: „God bless the food.“ Já, já, ég hnikaði höfði kurteislega til samþykkis, sinn er hver siðurinn og allt það.

Núna síðustu vikur hef ég verið að hugsa um þennan sið sem líklega er til á öllum tungumálum og í öllum trúarbrögðum. ´Guð laun fyrir matinn‘, var sagt og var þá verið að vísa til þess að ekki er það sjálfsagt að eiga til hnífs og skeiðar og auðvitað ætti maður að drjúpa höfði í auðmýkt að geta borið næringu á borð fyrir sig og sína.

Okkar öryggi

Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu í almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016.  Í stefnu fyrir árin 2015-2017 segir að matvælaöryggi felist í aðgangi að nægum, öruggum og næringarríkum matvælum. Settar eru fram aðgerðir og verkefni til að tryggja að til sé áætlun um að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í að minnsta kosti sex mánuði og áætlun um heilnæmi og gæði matvæla til vernda heilsu fólks.  Meðal tilgreinda verkefna til að ná markmiðunum er að að setja þyrfti lög um matvælageymslur, dreifingu matar, orku og eftirlit, gera þyrfti viðbragðsáætlun við matvælaskorti í samráði við helstu birgja og gera neyðaráætlun um hagvarnir, birgðir og neyðarflutninga til og frá landinu.

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi í sl. viku um uppfærslu á stefnu í almannavarna- og öryggismálum kemur fram að unnið sé að stefnumótun varðandi fæðuöryggi samhliða mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með samningi sem undirritaður var í febrúar 2020 falið Landbúnaðarháskóla Íslands að vinna greiningu á fæðuöryggi. En sumt getum við sagt okkur sjálf.

Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir

Þeir tímar sem við lifum á núna minna okkur á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggið í landinu, þó ekki væri nema vegna legu landsins. Farsælasta leiðin til þess er að framleiða næg matvæli innanlands, svo við verðum að mestu leyti sjálfum okkur nóg um matvæli. Innlend matvælaframleiðsla á að geta fullnægt frumþörfum okkar, þó hún muni seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem við viljum búa við hér á landi. Engu að síður er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum.

Framsóknarflokkurinn hefur ávallt verið óhræddur við að benda á það augljósa, að það þurfi að styðja og vernda íslenska landbúnaðinn. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum við einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytni atvinnulífsins. Við viljum geta boðið upp á hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður á sama tíma og við sköpum störf fyrir fólkið í landinu. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Þetta fólk borgar hér skatta og skyldur sem og fyrirtækin sem stunda sína framleiðslu. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflunni í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 2. apríl 2020.

Categories
Greinar

Fljúgum hærra

Deila grein

31/03/2020

Fljúgum hærra

Ferðaþjónustan á norður og austurlandi hefur lengi glímt við þann vanda að ferðamenn koma ekki þangað í eins ríkum mæli og á suðvesturhorn landsins. Má leiða það því líkum að það hafi töluvert að gera með þá staðreynd að lang stærsti komustaður ferðamanna til landsins er í Keflavík. Hafa ferðaþjónustuaðilar ásamt landshlutasamtökum og sveitarfélögum barist hetjulega fyrir því í langan tíma að koma á reglubundnu millilandaflugi á Akureyri. En ýmislegt hefur verið í veginum fyrir því að það gengi fullkomlega upp. Má þar nefna að bæta þurfti aðflugsbúnað til að hægt væri að tryggja lendingaröryggi með sem bestum hætti, flughlað flugvallarins var of lítið og síðast en ekki síst þá þurfti að stækka flugstöðina. Hafa stuðningsmenn flugs á Akureyri haft djúpa og einlæga sannfæringu fyrir því að ef þetta allt gengi upp væru allir vegir færir til þess að efla heilsársferðaþjónustu á svæðinu.

Allt í holu

Nú má segja að allt það sem nefnt er hér að ofan sé að verða komið í höfn. ILS aðflugsbúnaðurinn var gangsettur á síðasta ári og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, er búinn að tilkynna að ráðist verði í uppbyggingu á flughlaði og flugstöð hið fyrsta. Er það partur af fjárfestingaáætlun ríkisttjórnarinnar til að bregðast við Covid 19 faraldrinum. Því má segja að nú sé okkur ekkert að vanbúnaði að blása í lúðra og undirbúa með stæl enn frekari uppbyggingu farþegaflugs til Akureyrar. Þessi mikilvægu skref eru til þess fallin að efla stoðir atvinnulífsins á Norðurlandi og er það vel. Samtakamáttur og samvinna geta skilað miklu. Það sést glögglega á þessu verkefni, margir hafa lagt hönd á plóg á undanförnum árum til að skila þessu verkefni í höfn. Fleiri verkefni sem þetta bíða eftir því að stjórnvöld byggi upp og efli landsbyggðina, göngum saman fram með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi. Áfram veginn!

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2020.

Categories
Greinar

Fjárfestum í flugvöllum

Deila grein

31/03/2020

Fjárfestum í flugvöllum

Nú þegar aðeins er boðið upp á eitt flug á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur og flugumferð í heiminum dregst saman dag frá degi, skýtur kannski skökku við að skrifa um flugvelli.

Á tímum samdráttar og óvissu er nauðsynlegt að horfa til framtíðar og mikilvægt að opinberir aðilar fjárfesti í verkefnum sem geta ýtt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Áætlun ríkisstjórnarinnar um sérstakt fjárfestingarátak fyrir árið 2020 til viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf vegna veirufaraldursins liggur nú fyrir Alþingi.

Meðal verkefna sem lögð er áhersla á að hefjist strax er stækkun flugstöðvar á Akureyri, vinna við flughlað á Akureyri og gerð akbrautar á Egilsstaðaflugvelli. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða.

Þar er lagt til að hafist verði handa við undirbúning nýrrar akbrautar fyrir flugvélar meðfram Egilsstaðaflugvelli, til að tryggja öryggi og styrkja varaflugvallarhlutverkið. Gert er ráð fyrir að undirbúningur fari fram í ár og þá liggur beint við að fjármagn til framkvæmda skili sér í fjárfestingaátaki næstu ára. Einnig er áríðandi að fara í yfirlagningu á flugbrautinni á Egilsstöðum og hagkvæmt væri að tengja þessar framkvæmdir saman.

Akbrautin meðfram flugvellinum er mikilvæg til þess að hægt sé að lenda sem flestum flugvélum á sem skemmstum tíma. Hægt væri að útfæra hana þannig að hluti hennar þjóni jafnframt hlutverki flughlaðs. Við undirbúning verksins er mikilvægt að meta hvernig akbraut og flughlöð henta best framtíðarþróun vallarins. Með framkvæmdum á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi.

Í desember 2019 var skipaður aðgerðahópur til að vinna tillögur um endurbætur á flugvellinum á Akureyri til framtíðar. Honum er ætlað að vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastaðar og gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur á mannvirkjum og þjónustu. Nú liggja tillögur hópsins um stækkun flugstöðvar fyrir og því er hægt að hefjast handa við viðbyggingu vestur af norðurenda núverandi flugstöðvar.

Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Hægt væri að bjóða verkið út á vormánuðum sem gæti skapað um 50 ársverk hjá verktökum á svæðinu. Í ársbyrjun var ILS aðflugsbúnaður tekinn í notkun á Akureyrarflugvelli, í kjölfar þess að Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra tók af skarið og tryggði fjármagn í búnaðinn á árinu 2018. Búnaðurinn hefur nú þegar sannað gildi sitt. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli getur svo aukið enn frekar umsvif og öryggi flugvallarins.

Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum

Framangreind verkefni eru atvinnuskapandi í bráð og lengd. Verkefnin byggja á öflugri stefnumótun í samgöngum, þ.e. samgönguáætlun sem samþykkt var á vorþingi 2019 og uppfærðri áætlun sem Alþingi vinnur nú með. Flugstefna hefur verið mótuð í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriði hennar er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem taki ábyrgð á varaflugvöllunum.

Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvæg til að tryggja flugöryggi fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi. Isavia hefur tekið við rekstri, viðhaldi og uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar af ríkinu frá síðustu áramótum Á sama tíma lækkuðu þjónustugreiðslur ríkisins til Isavia sem nýtast nú í innanlandsflugvelli um land allt og til að efla innanlandsflugið.

Nú er verið að fylgja eftir skýrri stefnu um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu og innanlandshlutverkinu. Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál, hluti af almenningssamgöngum og öryggi byggðanna. Flugið er einn lykillinn að jafnræði byggðanna og nú er ákveðið er að skoska leiðin komi til framkvæmda seinnihluta ársins, sem er mikilvægt skref til að jafna aðstöðumun íbúa landsins.

Samvinna er lykill að árangri

Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum og fleiri hlið inn til landsins eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Ég álít mjög mikilvægt að fylgja nýrri flugstefnu og aukinni fjárfestingu í flugvöllum eftir með öflugri samvinnu um markaðssetningu nýrra fluggátta og þar er samstarf um markaðsetningu og samvinna sveitarfélaga á Norður- og Austurlandi lykillatriði.

Notum tímann vel – Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmki og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst í austurfrett.is

Categories
Greinar

Þjónusta við viðkvæma hópa samfélagsins

Deila grein

31/03/2020

Þjónusta við viðkvæma hópa samfélagsins

Undanfarnar vikur hafa verið með öðru sniði en við erum vön. COVID-19 faraldurinn sem nú geisar hefur fært okkur fjölda áskorana og við höfum haft stuttan tíma til að bregðast við. Þegar tíminn er knappur er mikilvægt að forgangsraða og vinna skipulega. Í félagsmálaráðuneytinu hefur hefðbundin vinnuáætlun vikið að stórum hluta fyrir því að grípa viðkvæma hópa samfélagsins sem á því þurfa að halda vegna núverandi aðstæðna.

Víðtækt samráð

Í síðustu viku boðuðum ég, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land í þessum tilgangi. Í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur verið stofnað viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem safnar og miðlar upplýsingum, metur stöðu sem upp getur komið og bregst, eftir atvikum, við áhrifum faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu.

Markmið viðbragðsteymisins er að tryggja að þeir sem þurfa fái stuðning og þjónustu og vil ég hvetja þá, sem á þurfa að halda, að hafa samband gegnum netfang viðbragðsteymisins, vidbragd@frn.is. Þangað geta allir leitað sem hafa áhyggjur af framkvæmd þjónustu, hafa ábendingar um það sem betur má fara í velferðarþjónustu hvers konar, auk þess sem einstaklingar og aðrir geta haft þar samband til að leita ráðgjafar og aðstoðar. Nú þegar hefur teymið komið því til leiðar að upplýsingar á vefnum um faraldurinn og hérlend viðbrögð hafa verið gerðar aðgengilegar á fjölda tungumála, vegna góðra ábendinga frá fulltrúum innflytjenda á Íslandi.

Aukin hætta á ofbeldi inni á heimilum

Á fundi teymisins í síðustu viku ræddum við sérstaklega aukna hættu á ofbeldi inni á heimilum í þeim aðstæðum sem nú eru uppi en samkvæmt upplýsingum sem teymið aflaði eru nú merkjanlega færri tilkynningar að berast inn í kerfið, meðal annars til barnaverndar. Börn sækja ekki skóla eins og áður og hefur yfirsýn yfir velferð þeirra versnað. Það þarf vitundarvakningu um þessa stöðu og ég hvet fólk til að vera vakandi fyrir umhverfi sínu þó mikið gangi á hjá okkur öllum. Í þessu árferði er einmitt hvað mikilvægast að muna að við stöndum öll í þessu saman. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að ofbeldi eða vanræksla sé til staðar inni á heimili ber þér skylda til þess að vera í sambandi við þar til bæra aðila gegnum símanúmerið 112. Við erum öll barnavernd!

Við höfum nú þegar gripið til aðgerða til þess að bregðast við þessum aðstæðum og verður gripið til fleiri aðgerða á komandi dögum og vikum. Hjálparsími Rauða kross Íslands, bæði símanúmerið 1717 og vefurinn 1717.is, hefur verið efldur og getur fólk þar nú nálgast mun sérhæfðari ráðgjöf en áður. Markmiðið er að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa vegna álags, streitu, ofbeldis, vanlíðanar eða annarra orsaka. Hjálparsíminn er opinn fyrir alla, börn og fullorðna, fatlað fólk, aldraða, fólk af erlendum uppruna, allan sólarhringinn.

Bakvarðasveit í velferðarþjónustu

Ég vil í lokin minna á að mönnun í velferðarþjónustu er orðin flókin á vissum stöðum og ég hvet alla þá sem geta að skrá sig í bakvarðasveit í velferðarþjónustu. Skráning fer fram á vef félagsmálaráðuneytisins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2020.

Categories
Greinar

Vores nordiske venner

Deila grein

30/03/2020

Vores nordiske venner

Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar sendu Íslendingar matarböggla til bágstaddra barna í Noregi. Eftir Vestmannaeyjagosið 1973 sendu önnur Norðurlönd margvíslega aðstoð til Íslands. Seint gleymist rausnarskapur Færeyinga eftir snjóflóðin árið 1995. Norðurlöndin aðstoðuðu okkur eftir efnahagshrunið 2008 þegar flest önnur ríki neituðu hjálparbeiðnum okkar. Árið 2009 þegar hamfaraflóðin gengu yfir Asíu sendu Íslendingar flugvél til Taílands til að sækja slasaða Svía. Þetta eru aðeins örfá dæmi um norrænt samstarf og vináttu síðustu áratugi.

Yfirstandandi COVID-19 faraldur hefur undan-farið sett einstaklinga, fyrirtæki, ríki og allt alþjóða-samfélagið í óþekkta stöðu. Ljóst er að faraldurinn bitnar ekki einungis á heilsu fólks heldur einnig á atvinnulífinu og fjármálakerfinu öllu. Enginn veit hvernig best er að reyna að draga úr áhrifum faraldursins en ljóst er að ekkert land getur staðið eitt frammi fyrir þessari ógn því veiran virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt og alþjóðlegt samstarf opnar á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna. Við þurfum á nágrönnum okkar að halda til að miðla upplýsingum og þekkingu sem er sérstaklega mikilvæg á tímum sem þessum. Nágrannar okkar í norðri eru, nú sem fyrr, okkar mikilvægustu bandamenn. Ekki bara meðan COVID-19 veiran gengur yfir, heldur ekki síður þegar við hefjumst handa við að endurreisa þá samfélagslegu burðarstólpa sem sköðuðust á þessum einkennilegu tímum.

Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Þar er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.

Categories
Greinar

Tími fyrir samfélag

Deila grein

30/03/2020

Tími fyrir samfélag

Tímar sem þessir sýna svo ekki verður um villst hvernig grunnstoðir samfélagsins eru á sig komnar. Við Íslendingar getum verið tiltölulega ánægðir. Öflugt heilbrigðiskerfi tekst á við veiruna ásamt almannavörnum, skólastarf heldur áfram við breyttar og erfiðar aðstæður og atvinnuleysistryggingasjóður tekur við þeim sem missa vinnuna – svo nokkur kerfi séu nefnd. Allar áætlanir og spár breytast frá degi til dags og ljóst að næstu mánuði og ár munu gjörðir helstu viðskiptaþjóða okkar hafa mikil áhrif hér á landi. Skylda stjórnvalda er að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í gegnum þennan öldusjó þannig að samfélagið verði tilbúið í kröftuga viðspyrnu þegar léttir til.

Viðskiptaráð var helst til snöggt að leggja til niðurskurð hjá hinu opinbera og skerðingu á starfshlutfalli hjá opinberum starfsmönnum. Þetta kom auðvitað illa við það fólk sem nú stendur í eldlínunni við að berjast gegn útbreiðslu veirunnar á heilbrigðisstofnunum. Eru viðbrögð ráðsins í hróplegu ósamræmi við þá samstöðu og samvinnu sem ríkjandi er í samfélaginu.

Ég er stoltur af íslensku samfélagi og samheldni þjóðarinnar. Samstaðan laskaðist í hruninu og það er mikilvægt að við vinnum okkur núna saman í gegnum erfitt tímabil. Og þegar við höfum náð viðspyrnu og erum búin að ná okkur á strik verða allir að sýna samfélagslega ábyrgð. Þess vegna verða þeir sem geta að halda áfram að greiða til samneyslunnar. Það gengur auð-vitað ekki að einhverjum öflum innan viðskiptalífsins þyki sjálfsagt að koma hlaupandi í skjól ríkisins, umfram þörf, og nýta sér kraft og samstöðu samfélagsins. Krafa almennings er krafa Framsóknar. Samvinna í þágu samfélagsins alls. Sem betur fer eru flestir þar.

Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.

Categories
Greinar

Efnahagsleg loftbrú

Deila grein

30/03/2020

Efnahagsleg loftbrú

Í fe­brú­ar 1936 birt­ist bylt­ing­ar­kennd hag­fræðikenn­ing fyrst á prenti. John M. Keynes hafði legið und­ir feldi við rann­sókn­ir á krepp­unni miklu, þar sem nei­kvæður spírall dró kraft­inn úr hag­kerf­um um all­an heim. Niður­sveifla og markaðsbrest­ur snar­fækkaði störf­um, minnkaði kaup­mátt og í leiðinni tekj­ur hins op­in­bera, sem hélt að sér hönd­um til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórn­völd dýpkað krepp­una og valdið óbæt­an­legu tjóni. Þvert á móti hefði hið op­in­bera átt að örva hag­kerfið með öll­um til­tæk­um ráðum, ráðast í op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir og eyða tíma­bundið um efni fram. Þannig væru ákveðin um­svif í hag­kerf­inu tryggð, þar til kerfið yrði sjálf­bært að nýju. Þegar þeim áfanga yrði náð ætti hið op­in­bera að draga sam­an segl­in og safna í sjóði, svo hag­kerfið of­hitnaði ekki. Í stuttu máli; ríkið á að eyða pen­ing­um í kreppu, en halda að sér hönd­um í góðæri til að vega á móti hagsveifl­unni á hverj­um tíma

Fólkið

Efna­hagsaðgerðir stjórn­valda vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru eru for­dæma­laus­ar. Mark­mið aðgerðanna er fyrst og fremst að styðja við grunnstoðir sam­fé­lags­ins, vernda af­komu fólks og fyr­ir­tækja og veita öfl­uga viðspyrnu fyr­ir ís­lenskt efna­hags­líf á óvissu­tím­um. Íslenska þjóðarbúið er í góðri stöðu til að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem eru fram und­an. Þrótt­ur þess er um­tals­verður, skuld­astaða rík­is­sjóðs er góð og er­lend staða þjóðarbús­ins já­kvæð. Það er ekki ein­ung­is staða rík­is­sjóðs sem er sterk held­ur standa heim­ili og fyr­ir­tæki lands­ins nokkuð vel auk þess sem kaup­mátt­ur heim­il­anna hef­ur auk­ist mikið. Engu að síður hafði at­vinnu­leysi vaxið í aðdrag­anda Covid-19. Vinnu­markaður­inn, og þar af leiðandi mörg heim­ili í land­inu, er því í viðkvæmri stöðu. Aðgerðir stjórn­valda miða að fólk­inu í land­inu og því hafa greiðslur verið tryggðar til fólks í sótt­kví. Hlutastar­fa­leið stjórn­valda er ætlað að verja störf og af­komu fólks við þreng­ing­ar á vinnu­markaði. Þessi leið mun styðja við áfram­hald­andi vinnu tugþúsunda ein­stak­linga og verða at­vinnu­leys­is­bæt­ur því greidd­ar til þeirra sem lækka tíma­bundið í starfs­hlut­falli. Þetta á við um sjálf­stætt starf­andi ein­stak­linga og launþega. End­ur­greiðsla virðis­auka­skatts vegna viðhalds­vinnu við heim­ili verður hækkuð úr 60% í 100%. Loks verður greidd­ur út sér­stak­ur barna­bóta­auki 1. júní 2020 með öll­um börn­um und­ir 18 ára aldri.

Fyr­ir­tæki

At­vinnu­leysi óx nokkuð í aðdrag­anda far­ald­urs­ins. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru út­færðar sér­stak­lega með það í huga að koma í veg fyr­ir var­an­leg­an at­vinnum­issi fjölda fólks og að fjöldi fyr­ir­tækja fari í þrot. Frest­un á gjald­dög­um staðgreiðslu, trygg­inga­gjalds og fyr­ir­fram­greidds tekju­skatts fyr­ir­tækja kem­ur til móts við þá stöðu sem upp er kom­in. Þá er tryggð full end­ur­greiðsla á virðis­auka­skatti vegna vinnu við end­ur­bæt­ur, viðhald og ný­bygg­ing­ar. Stjórn­völd munu einnig ábyrgj­ast helm­ing brú­ar­lána, sem er ætlað að styðja fyr­ir­tæki í rekstr­ar­vanda og þannig styðja þau til að greiða laun og ann­an rekstr­ar­kostnað. Aðgerðirn­ar miða að því að efla einka­neyslu, fjár­fest­ing­ar og sam­neyslu. Vöru­viðskipti skipta mjög miklu máli þessa dag­ana og því vilja stjórn­völd auðvelda inn­flutn­ing með niður­fell­ingu tollaf­greiðslu­gjalda og frest­un aðflutn­ings­gjalda. Þá verður farið í sér­stakt tug millj­arða kr. fjár­fest­ingar­átak, þar sem hið op­in­bera og fé­lög þess setja auk­inn kraft í sam­göngu­bæt­ur, fast­eigna­fram­kvæmd­ir og upp­lýs­inga­tækni, auk þess sem fram­lög verða auk­in í vís­inda- og ný­sköp­un­ar­sjóði. Stefnt er að því að fjölga störf­um, efla ný­sköp­un og fjár­festa til framtíðar. Þar af verður veru­leg­um fjár­hæðum varið í að efla menn­ingu, íþrótt­astarf og rann­sókn­ir.

Með þess­um aðgerðum eru stjórn­völd að stíga mik­il­vægt skref til að veita viðspyrnu og mynda efna­hags­lega loft­brú. Á sín­um tíma sá loft­brú Berlín­ar­bú­um fyr­ir nauðsynja­vör­um á erfiðum tíma í sögu Evr­ópu. Sú loft­brú sýndi sam­stöðu og sam­vinnu fólks þegar á reyndi. Ljóst er að verk­efnið er stórt en grunnstoðir ís­lensks sam­fé­lags eru sterk­ar og því mun birta til.

Hag­fræðikenn­ing John M. Keynes, sem í fyrstu þótti bylt­ing­ar­kennd, er óum­deild í dag. Fræðilega geng­ur hún upp, en krefst aga af stjórn­völd­um og sam­fé­lög­um á hverj­um tíma. Ætlan ís­lenskra stjórn­valda er að sýna þann sveigj­an­leika sem nauðsyn­leg­ur er til að tryggja hag fólks­ins í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2020.