Categories
Greinar

Sanngjörn samkeppni

Deila grein

01/03/2022

Sanngjörn samkeppni

Fyrr í vetur fór fram sérstök umræða um innlenda matvælaframleiðslu að minni beiðni. Þar lagði ég megináherslu á þrjú atriði; sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði, tollasamninginn við Evrópusambandið og endurskoðun hans og aðgerðaáætlunin um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Undanfarin misseri hefur innlend kjötframleiðsla átt í harðri og ósanngjarnari samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hér heima. Við vitum að staðan í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega þung og komin að þolmörkum. Ef ekki á illa að fara þá er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðgerða sem við vitum að skili árangri. Þingflokkur Framsóknar hefur lengi talað fyrir því að kjötframleiðslan fari sömu leið og mjólkuriðnaðurinn. Þá er átt við að nýta heimild 71. gr. búvörulaga, sem kveður á um undanþágu frá samkeppnislögum og heimilar sameiningu afurðastöðva.

Nauðsynlegt er að hagræða

Fyrir liggja ýmsar greiningar á hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Þær benda til þess að allt að 1,5 milljarða hagræðing gæti átt sér stað innan sauðfjárræktarinnar og nautgripaframleiðslunnar. Ef svína- og alifuglarækt væru tekin með yrði talan enn hærri, þ.e. um 2-3 milljarða hagræðing af sameiningu á ári.

Bændur eru orðnir langþreyttir á viðvarandi ástandi og ef ekkert verður gert er mikil hætta á því að fjöldi þeirra dragi úr eða jafnvel hætti framleiðslu. Það er ekki boðlegt að reka fyrirtæki í því umhverfi sem bændum er boðið upp á í dag.

Við eigum að skapa þessum greinum viðunandi starfsumhverfi og tryggja samkeppnishæfni. Þar er algjört frumskilyrði að bændur og aðrir kjötframleiðendur hafi viðundandi afkomu af framleiðslu sinni. Við höfum tækin og tólin til að grípa inn í og það er tilefni til að nota þau. Við í Framsókn erum óhrædd við að styðja og vernda íslenska matvælaframleiðslu.

Það eru 17 ár síðan ofangreind undanþága frá samkeppnislögum var gerð í mjólkuriðnaðinum og má með sanni segja að það hafi tekist ágætlega til. Unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun, verkaskipting er skýr og allt gengur út á að ná fram hagræðingu innan iðnaðarins. Hagræðingin innan mjólkuriðnaðarins nemur allt að 3 milljörðum á hverju ári.

Við umfjöllun á þessu er grundvallaratriðið að ná fram hagræðingu og lækka framleiðslukostnað. Í því samhengi er ekki einungis verið að hugsa um hag frumframleiðandans heldur alla virðiskeðjuna. Markmiðið er að tryggja hag allra, ekki síst neytenda.

Endurskoðun á tollasamningi

Annað atriði sem leggja þarf áherslu á snýr að tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Höfuðmarkmið samningsins verður að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við. Það er vandasamt að keppa við innflutning matvöru þar sem allt önnur lögmál gilda, t.d. löggjöf um aðbúnað dýra, staðlar og kröfur eru ekki í samræmi við íslenskar reglur og kjör landbúnaðarverkamanna eru allt önnur. Tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki.

Nýtum verkfærin

Við Íslendingar eigum mikil sóknarfæri í landbúnaði, en tími aðgerða er núna! Við eigum að nýta heimildina í 71. gr. búvörulaga og endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið. Þetta eru forgangsmál.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2022.

Categories
Greinar

Áfram á vaktinni

Deila grein

28/02/2022

Áfram á vaktinni

Öllum tak­mörk­un­um hef­ur verið aflétt á Íslandi eft­ir tveggja ára bar­áttu við far­sótt­ina ill­ræmdu. Ver­öld­in hef­ur þurft að tak­ast á við marg­slungn­ar af­leiðing­ar far­sótt­ar­inn­ar sem hafa birst með ýms­um hætti. Það tíma­bil sem nú sér fyr­ir end­ann á hef­ur reynst mik­ill próf­steinn á innviði fjöl­margra ríkja. Þannig hef­ur reynt veru­lega á heil­brigðis­kerfi, styrk hag­stjórn­ar ríkja sem og alþjóðlega sam­vinnu.

Fram­kvæmd aðgerða og ár­ang­ur Íslands

Á heimsvísu er hægt að full­yrða að einkar vel hafi tek­ist til við stjórn efna­hags­mála en mann­fall var mjög mis­mun­andi eft­ir ríkj­um heims­ins. Hægt er að full­yrða að á Íslandi hafi tek­ist vel til við að verja líf og heilsu fólks en dán­artíðni á hvern íbúa er sú lægsta í ver­öld­inni. Allt það frá­bæra fag­fólk sem staðið hef­ur vakt­ina í heil­brigðis­kerf­inu á mikl­ar þakk­ir skild­ar fyr­ir fram­lag sitt í far­aldr­in­um. Þá tókst okk­ur einnig að halda skóla­kerf­inu gang­andi í gegn­um far­sótt­ina og er það mik­illi þraut­seigju okk­ar skóla­fólks að þakka. Reglu­lega sýndi það mikla aðlög­un­ar­hæfni í skól­um lands­ins til þess að glíma við breyti­leg­ar aðstæður sem tak­mark­an­ir tengd­ar far­aldr­in­um leiddu af sér. Að sama skapi má segja að efna­hagsaðgerðir séu vel heppnaðar. Lands­fram­leiðsla hef­ur verið að sækja í sig veðrið og jókst um 4,1% á fyrstu þrem­ur fjórðung­um síðasta árs og er áætlað að hag­vöxt­ur árs­ins 2021 verði um 5%. At­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt og slak­inn í þjóðarbú­inu minnk­ar ört. Að sama skapi hef­ur verðbólga auk­ist í 6,2% í fe­brú­ar og hef­ur ekki verið hærri í tæp­an ára­tug. Skýrist þessi mikla verðbólga að stór­um hluta af mik­illi hækk­un hús­næðis­verðs ásamt um­fangs­mikl­um hækk­un­um alþjóðlegs hrávöru­verðs og flutn­ings­kostnaðar. Afar brýnt er að ná tök­um á verðbólg­unni án þess þó að aðgerðirn­ar skaði efna­hags­bat­ann. Það kann að vera að þessi háa verðbólga verði tíma­bund­in, þar sem eft­ir­spurn á heimsvísu mun minnka um leið og áhrif efna­hagsaðgerðanna dvína. Það má einnig fast­lega bú­ast við því að óverj­an­leg inn­rás Rúss­lands inn í Úkraínu muni hafa áhrif á verðlagn­ingu ým­issa vöru­flokka sem og eft­ir­spurn. Þannig má gera ráð fyr­ir að verðbólga auk­ist tíma­bundið vegna hærra olíu­verðs og annarr­ar hrávöru.

Sam­an sem sam­fé­lag

Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svo­kallaðri efna­hags­legri loft­brú. Sú brú var stór og er heild­ar­um­fang efna­hags­ráðstaf­ana árin 2020 og 2021 um 215 millj­arðar króna svo dæmi sé tekið. Lögð var áhersla á að koma til móts við fólk og fyr­ir­tæki sem urðu illa fyr­ir barðinu á veirunni. Fyr­ir stjórn­völd var það sann­girn­is­mál að beita rík­is­fjár­mál­un­um með þeim hætti og tryggja að við fær­um sam­an sem sam­fé­lag í gegn­um kófið.

Það sem Thatcher gerði

Fyrr í mánuðinum viðraði ég hug­mynd­ir í þess­um anda um aukna aðkomu bank­anna að fjöl­skyld­um og fyr­ir­tækj­um, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, sem til að mynda vaxta­hækk­an­ir snerta með þyngri hætti en aðra. Til að ná slík­um mark­miðum nefndi ég einnig í því sam­hengi svo­kallaðan hval­reka­skatt í anda Mar­grét­ar Thatcher, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, á of­ur­hagnað bank­anna sem nem­ur yfir 80 millj­örðum króna árið 2022. Fór hægri kon­an Thatcher þessa leið árið 1981 þegar bresk­ir bank­ar högnuðust veru­lega vegna hækk­un­ar stýri­vaxta þar í landi. Bú­ast má við því að sama verði upp á ten­ingn­um í af­komu banka hér á landi þar sem vaxtamun­ur mun aukast í kjöl­far hærri stýri­vaxta. Und­an­farið hef­ur margt fólk þurft að ráðast í dýr­ar fjár­fest­ing­ar til að tryggja sér og sín­um þak yfir höfuðið á fast­eigna­markaði sem ein­kenn­ist af mikl­um skorti á íbúðum vegna langvar­andi lóðaskorts. Þenn­an hóp þarf að styðja við strax í upp­hafi þreng­inga til að draga úr lík­um á greiðslu­vanda seinna meir. Þar skipt­ir sam­vinna stjórn­valda, fjár­mála­fyr­ir­tækja og fjöl­skyldna máli.

Lands­virkj­un áfram í eigu okk­ar allra

Það hug­ar­far að við séum öll í þessu sam­an hef­ur reynst okk­ur vel í gegn­um far­ald­ur­inn. Á sama tíma er ljóst að við blasa áskor­an­ir í rík­is­fjár­mál­um til að vinda ofan af þeim halla sem mynd­ast hef­ur vegna heims­far­ald­urs og viðspyrnuaðgerða sem hon­um tengj­ast. Við ætl­um okk­ur að vaxa út úr þeim halla með auk­inni verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu. Þar munu stjórn­völd halda áfram að skapa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um hag­fellt og hvetj­andi um­hverfi til að sækja fram. Hug­mynd­ir um að selja allt að 40% hlut al­menn­ings í Lands­virkj­un eiga ekki að vera leiðin til að fjár­magna rík­is­sjóð til skamms tíma og get ég slegið því föstu að slík sala mun aldrei eiga sér stað á meðan Fram­sókn á sæti í rík­is­stjórn Íslands. Við vilj­um að Lands­virkj­un verði áfram í eigu allra Íslend­inga, sem burðarás fyr­ir ís­lensk heim­ili og fyr­ir­tæki. Ég tel mjög breiða sam­fé­lags­lega sátt ríkja um slíkt og það eig­um við að virða.

Þrátt fyr­ir krefj­andi tíma und­an­far­in ár vegna veirunn­ar og góðan ár­ang­ur sem náðst hef­ur í gegn­um þann tíma er mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum. Við lif­um enn á viðsjár­verðum tím­um vegna óafsak­an­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu, sem hef­ur áhrif á stöðu mála hér í Evr­ópu. Við mun­um tak­ast á við þær áskor­an­ir af festu og með sam­vinnu til að tryggja að Ísland verði áfram í sterkri stöðu til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar-, ferða- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Deila grein

28/02/2022

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á innflutningi landbúnaðarafurða síðustu ára, sérstaklega mjólkurafurða, hefur eftirlit með innflutningi ekki aukist að sama skapi, því miður. Þó þessi mál hafi verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Ríkisendurskoðandi birti á mánudaginn skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða þar sem segja má að eftirlit með tollaframkvæmd landbúnaðarafurða hafi fengið falleinkunn. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við tollaframkvæmd hér á landi. Úttektin staðfestir því sem haldið hefur verið fram um allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara.

Staðfest misræmi

Í grein hér á Vísi fer formaður Félags atvinnurekanda mikinn og talar um að ásakanir Bændasamtaka Íslands og MS á hendur innflutningsfyrirtækjum um stórfellt svindl við innflutning og að úttekt Ríkisendurskoðanda hafi hrakið það þær ásakanir. Ég veit ekki með hvaða gleraugum hann las skýrsluna en í raun staðfestir hún það misræmi sem Bændasamtökin og fleiri hafa haldið fram og misræmið er verulegt. Hver ber ábyrgðina ? Framkvæmd tollflokkunar er að Tollurinn eða Skatturinn núna, tollflokkar vöruna í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum. Í skýrslu Ríkisendurskoðenda kemur fram að Tollurinn hafi farið í sérstakt verkefni að greina áreiðanleika tollskýrslna og í ljós kom að í 23% tollskrýslna finnast misræmi eða villur og þá er ekki laust við að það vakni grunur um að einbeittur brotavilji sé hér um að ræða. Það þarf ekki fleiri vitnanna við, og nægir að vísa í dóma Landsréttar og Hæstaréttar og bindandi álit um þessi mál. Innflutningsaðili ber ábyrgð á tollskýrslu sem skilað er inn til Skattsins þar sem hann hefur leyfi til rafrænna tollflokkunnar.

Undanskot við innflutning

Ríkisendurskoðun fullyrðir að möguleg misflokkun eða undanskot á landbúnaðarafurðum geti numið háaum fjárhæðum sem ríkissjóður verður af auk þess að með misflokkun varðað mikilvæga hagsmuni um heilbrigði manna, dýra og plantna.

Samræmt flokkunarkerfi

Nú vinnum við eftiralþjóðlegu flokkunarkerfi yfir vörur sem samin er af Tollasamvinnuráðinu í Brussel, því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þá komum við að mikilvægi eftirlitsins. Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollaframkvæmd, sé í betri samvinnu við aðrar tollastofnanir erlendis. Eftirgrennslan Ríkisendurskoðenda leiddi af sér niðurstöður um að setja þurfi gæði gagna í forgrunn þar sem áræðanleiki og nákvæmni tollskrýslna sé enn ábótavant. Eftirlit og tollendurskoðun þurfi að efla því endurskoðun á innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Ríkisendurskoðun telur að endurskipuleggja og efla þurfi tollsvið Skattsins svo unnt sé að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað. Þangað til að úr því verður bætt munu áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagstap fyrir ríkissjóð

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Deila grein

23/02/2022

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár. Klasar hafa víða sannað gildi sitt; þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun almennt. Ég hef því lagt fram þingsályktunartillögu um að nýta skuli hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana, stuðla að hagræðingu og færa núverandi ástand í þeim málum til betri vegar.

Margvísleg hagræðing fylgir skynsamlegu vali á staðsetningu ríkisstofnana og fyrirtækja

Með uppbyggingu opinberra klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum. Opinbert klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til verðmætasköpunar. Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Gera mætti ráð fyrir 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Með slíkri útfærslu mætti ná fram hagræðingu með þeim samlegðaráhrifum sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar væru til húsa. Þar má helst nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis og húsnæðisins sjálfs.

Risa samgöngubót fyrir höfuðborgarsvæðið nái tillagan fram að ganga

Flestar þessara stofnana og fyrirtækja eru í Reykjavík. Við höfum séð opinberar stofnanir og fyrirtæki flytja í nýtt húsnæði og getur það verið af hinum ýmsu ástæðum. Hins vegar er það mat mitt að þegar slíkir flutningar eiga sér stað, sé það ekki gert með nægilega skynsömum hætti. Horfa þarf frekar til rekstrarlegra áhrifa líkt og lagt er upp með í tillögunni. Nái þingsályktunartillagan fram að ganga er mikilvægt að klasi sem þessi verði á slóðum þar sem nýta megi umferðarmannvirki betur. Það má gera með þeim hætti að staðsetja klasann á svæði þar sem umferð að klasanum verði í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga þá tíma dags sem við þekkjum öll; að morgni og seinni part dags þegar fólk fer í og úr vinnu og skóla. Af þeirri ástæðu þurfa einnig hágæða almenningssamgöngur að vera til staðar í nágrenni.

Stundum eru lausnirnar svo einfaldar. Það eina sem þarf er vilji til góðra verka. Með tillögunni er hægt að ná fram betri nýting á umferðarmannvirkjum og minnka sóun í kerfinu, sóun m.a. á opinberum fjármunum og tíma fólks. Að þessu sögðu tel ég að þetta geti verið ein ódýrasta, besta og skilvirkasta samgöngubót sem íbúar höfuðborgarsvæðisins geta fengið.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.

Categories
Greinar

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Deila grein

22/02/2022

 Vín­búðir opnar á sunnu­dögum?

Um áralangt skeið hafa frjálshyggjan og íhaldssemin tekist á um aðgengi neytenda að áfengi. Málefni sem við fyrstu sýn er ekki það stórt, en hefur orðið einn holdgervinga reipitogsins milli tveggja póla. Því miður hefur lítið breyting orðið í þessum málum þrátt fyrir breyttan tíðaranda. Það má líklega rekja til þess að fólk tekst á um málið með öfgahugmyndum bæði til hægri og vinstri. Eins og oft áður, þá er það skynsemin sem ætti að ráða för. Samvinna allra aðila við leit að lausn sem mætir sjónarmiðum heildarinnar.

Matvöruverslanir eða pöntunarfélög

Frjálshyggjan hefur lengi viljað koma víni í matvöruverslanir og á frjálsan markað. Sem betur fer hefur það ekki gengið eftir. Á sama tíma hafa íhaldsamari öfl viljað óbreytt fyrirkomulag eða jafnvel leita aftur til tíma frekari takmarkana á útsölustöðum og opnunartíma. Eiga þessi sjónarmið bæði rétt á sér en hvorugt kannski í takt við nútímann og skynsemi. Aukið frelsi til verslunar á hverskyns varningi er sú þróun sem við höfum séð á undanförnum áratugum í verslun hér á landi. Á það líka við um verslun með vín sem og annan munað. Pöntunarfélögin heyra sem betur fer sögunni til. Breyttur tíðarandi kallar hins vegar á nýjar nálganir. Breytt neyslumynstur og aukið frelsi í verslun kallar á breytingar. En breytingarnar þurfa ekki endilega að felast í 100% frelsi.

Er til önnur lausn?

Hins vegar spyr maður sig hvort rétt lausn sé að leysa upp ÁTVR og heimila sölu áfengis í næstu búð, næstu bensínstöð eða nánast hvaða verslun sem er? Það er vitað að tækninýjungar hafa leitt til þess að starfsfólki, sem gæti fylgst með hvort einstaklingar séu með aldur til þess að kaupa vín, fækkar í almennum verslunum. Þeir sem eftir eru hafa ekki allir náð 20 ára aldri, en samkvæmt lögum má enginn yngri en 20 ára afgreiða áfengi.

Á meðan er strangt eftirlit til staðar hjá Vínbúðinni þar sem starfsmenn eru bæði með aldur og þekkingu á þeim reglum sem ber að fylgja. Þá fyrst og fremst reglum um aldur. Við viljum ekki auka aðgengi barna að áfengi þó svo að við viljum gera markaðinn þægilegri fyrir neytendur.

Eitt stærsta sjónarmiðið fyrir „vín í búðir“ er það að opnunartími Vínbúðarinnar henti neytendum ekki sérlega vel. Verslunin er ávallt lokuð á sunnudögum og öðrum helgidögum Þjóðkirkjunnar. Þennan hnút getum við auðveldlega leyst.

Já hún er til!

Ég hef lagt fram frumvarp til Alþingis þess efnis að afnema bann á því að áfengisútsölustaðir hafi sínar hurðir opnar á helgidögum. Það eru m.a. allir sunnudagar. Með þessu aukum við þjónustu Vínbúðarinnar enn meir og getum lagt hugmyndina um vín í búðir til hliðar, sú hugmynd um hið fullkomna frelsi er þreytt og skortir ábyrgð. Þarna er komið til móts við frjálslyndari sjónarmið en einnig hugsað til forvarna og eftirlits með áfengissölu. Það er brýnt að við stígum ekki skref aftur á bak í þessum málaflokki. Gerum frjálslyndar breytingar á skynsaman hátt.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Glæsilegur árangur

Deila grein

21/02/2022

Glæsilegur árangur

Um helg­ina lauk 72. alþjóðlegu kvik­mynda­hátíðinni í Berlín. Hátíðin er með þeim virt­ari í heimi kvik­mynd­anna en mik­ill heiður fylg­ir því að eiga þar til­nefnt verk. Óhætt er að segja að ár­ang­ur Íslands á hátíðinni sé glæsi­leg­ur en list­ræn­ir stjórn­end­ur henn­ar völdu fjór­ar ís­lensk­ar mynd­ir í aðaldag­skrá hátíðar­inn­ar. Aldrei hafa jafn marg­ar ís­lensk­ar mynd­ir tekið þátt í dag­skránni og átti Ísland flest fram­lög allra Norður­landa í ár. Þannig fengu gest­ir hátíðar­inn­ar að njóta kvik­mynd­anna Ber­d­reymi og Against the Ice, stutt­mynd­ar­inn­ar Hreiðurs og sjón­varpsþátt­anna Svörtu sanda við góðan orðstír.

Árang­ur þessi er enn ein staðfest­ing á þeim mikla krafti sem býr í ís­lenski kvik­mynd­mynda­gerð. Ljóst er að slíkt ger­ist ekki að sjálfu sér. Allt það hæfi­leika­ríka fólk sem starfar í kvik­mynda­gerð á Íslandi á mikl­ar þakk­ir skild­ar fyr­ir frumsköp­un sína, elju og dugnað við fram­leiðslu og miðlun verka sinna. Þá skipt­ir einnig miklu máli að því fag­fólki og fyr­ir­tækj­um sem starfa í kvik­mynda­gerð sé sköpuð traust og sam­keppn­is­hæf um­gjörð utan um störf sín.

Vatna­skil urðu í um­hverfi kvik­mynda­gerða árið 1999 þegar að lög um end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstr­ar­um­hverfi kvik­mynda­geir­ans styrkt og sam­keppn­is­hæfni auk­in til mun­ar. All­ar göt­ur síðan hef­ur ár­ang­ur­inn birst okk­ur með skýr­um hætti. Kvik­mynda­gerð hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi og hef­ur velta grein­ar­inn­ar þre­fald­ast und­an­far­inn ára­tug og nem­ur nú um 30 millj­örðum króna á árs­grund­velli en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð.

Meðbyr­inn er mik­ill og til að mynda vill sí­fellt fleira ungt fólk starfa við skap­andi grein­ar, eins og kvik­mynda­gerðina. Starfs­um­hverfið er spenn­andi en óþarft er að telja upp öll þau stór­verk sem tek­in hafa verið upp á hér á landi með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á ferðaþjón­ust­una og ímynd lands­ins. Af of­an­greindu má álykta að með auk­inni fjár­fest­ingu muni grein­in geta skilað þjóðarbú­inu tals­vert meiri verðmæt­um en hún ger­ir nú. Með þetta í huga kynntu stjórn­völd nýja kvik­mynda­stefnu til árs­ins 2030 en hún var afrakst­ur góðrar sam­vinnu stjórn­valda og at­vinnu­lífs.

Stjórn­völd hafa ein­hent sér í að fylgja hinni nýju stefnu eft­ir af full­um krafti. Þannig voru til dæm­is fjár­mun­ir strax tryggðir til þess að koma á lagg­irn­ar há­skóla­námi í kvik­mynda­gerð við Lista­há­skóla Íslands og á fjár­lög­um þessa árs má finna rúm­lega 500 m.kr hækk­un til kvik­mynda­mála – sem að stærst­um hluta renn­ur til fram­leiðslu á kvik­mynda- og sjón­varps­efni. Þá er vinna þegar haf­in í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti sem miðar að því auka alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­gerðar hér á landi með hærri end­ur­greiðslum til að laða að stór kvik­mynda­verk­efni til Íslands.

Ljóst er að ár­ang­ur líkt og birt­ist okk­ur í Berlín hvet­ur okk­ur enn frek­ar til dáða við að stuðla að enn öfl­ugra um­hverfi kvik­mynda­gerðar hér á landi. Tæki­fær­in eru mý­mörg og þau ætl­um við að grípa.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 21. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Komdu inn úr kuldanum

Deila grein

17/02/2022

Komdu inn úr kuldanum

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar mun eins og und­an­far­in ár leggja upp með metnaðarfulla fundaröð í kjör­dæm­a­viku. Við verðum með opna fundi Fram­sókn­ar í kjör­dæm­a­viku um land allt. Það er okk­ur mik­il­vægt að ná að nálg­ast og hlusta á radd­ir kjós­enda, ekki aðeins á fjög­urra ára fresti, held­ur með reglu­bundn­um hætti. Þannig leggj­um við okk­ar af mörk­um til að hlusta á fólkið okk­ar og skapa okk­ur öll­um sam­fé­lag sem við erum stolt af, tryggja fólki góð lífs­kjör og treysta bú­setu í land­inu. Það er og verður meg­in­verk­efni okk­ar í þing­flokki Fram­sókn­ar nú sem endra­nær.

Í kosn­inga­bar­átt­unni síðasta haust fund­um við vel að fólk vill sjá alþing­is­menn sinna brýn­um hags­mun­um sam­fé­lags­ins. Kjós­end­ur vildu heyra að við ynn­um að lausn­um, um­bót­um og jafn­vel rót­tæk­um kerf­is­breyt­ing­um. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar hef­ur sýnt fram á að hann er hóp­ur fólks er hef­ur fólk í fyr­ir­rúmi, við fjár­fest­um í fólki og mun­um halda því áfram. Við fór­um m.a. í rót­tæk­ar kerf­is­breyt­ing­ar á mál­efn­um barna. Slík­ar breyt­ing­ar og fleiri til hafa og munu skipta fólk máli, um land allt.

Í grunn­stef­inu Fram­sókn­ar seg­ir að við aðhyll­umst frjáls­lynda hug­mynda­fræði og að far­sæl­ast sé að ná fram niður­stöðu með sam­vinnu ólíkra afla og hags­muna sem byggð er á hóf­semi og heiðarleika. Það er aldrei mik­il­væg­ara en nú að hlusta vel á ólík­ar radd­ir og leiða mál til lykta með sam­vinnu. Við tryggj­um öfl­ugri og sterk­ari þing­flokk Fram­sókn­ar með því að hlusta á þarf­ir og vænt­ing­ar fólks á brýn­um hags­muna­mál­um.

Við erum nefni­lega rétt að byrja!

Okk­ur alþing­is­mönn­um er kjör­dæm­a­vika sér­stak­lega mik­il­væg. Okk­ur gefst tími og ráðrúm til að sinna hags­mun­um kjör­dæm­anna, það þarf sterka full­trúa með skýra sýn til að styðja og styrkja það val fólks að halda byggð í land­inu. Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar vill áfram vera for­ystu­afl í brýn­um hags­mun­um lands­byggðar. Við vilj­um tryggja áfram að sam­göng­ur, mennt­un, menn­ing og síðast en ekki síst fjöl­breytt tæki­færi á at­vinnu­markaði séu fyr­ir hendi.

Ég vil nefna sér­stak­lega gríðarlega mik­il­vægt tæki­færi er við upp­götvuðum í heims­far­aldr­in­um; að fólk gat unnið heim­an frá sér, og þetta eig­um við að nýta og skapa já­kvæðan hvata til að fram­kvæma í frek­ari mæli. Nýta okk­ur þekk­ing­una og tækn­ina og skapa um leið sterk­ari byggðir. Fram­sókn er stjórn­mála­aflið til að standa við orð sín og gerðir.

Skyn­sem­in ligg­ur á miðjunni.

Ingibjörg Isaksen, formaður þing­flokks Fram­sókn­ar.

ingi­bjorg.isak­sen@alt­hingi.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Deila grein

11/02/2022

Muggur, myndlistin og menningararfurinn

Und­an­farna mánuði hef­ur sýn­ing­in MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son staðið yfir í Lista­safni Íslands. Guðmund­ur (1891-1924), eða Mugg­ur, er einn merk­asti og af­kasta­mesti mynd­listamaður þjóðar­inn­ar – og í raun okk­ar fyrsti fjöll­istamaður. Ung­ur að árum flutt­ist hann til Kaup­manna­hafn­ar árið 1903 ásamt fjöl­skyldu sinni þar sem hann nam mynd­list við Kon­ung­lega lista­há­skól­ann á ár­un­um 1911-1915. Þrátt fyr­ir stutta ævi skildi Mugg­ur eft­ir sig nokkuð fjöl­breytt safn verka sem bera þess glöggt merki að hæfi­leik­um hans voru fá tak­mörk sett eins og rakið er í veg­legri bók sem Lista­safn Íslands gaf út hon­um til heiðurs árið 2021.

Mugg­ur, ásamt fleiri merk­um mynd­list­ar­mönn­um þjóðar­inn­ar, hef­ur und­ir­byggt sterk­an grunn fyr­ir menn­ing­ar­líf sam­tím­ans. Á Íslandi rík­ir kraft­mik­il og lif­andi mynd­list­ar­menn­ing og mynd­list­ar­starf­semi. Mynd­list leik­ur stórt hlut­verk í sam­fé­lag­inu. Hún er órjúf­an­leg­ur hluti af mennt­un, þroska og dag­legu lífi fólks um allt land. Mynd­listar­fólk er metið að verðleik­um og áhersla er á kennslu og nám í mynd­list og lista­sögu á öll­um skóla­stig­um. Mynd­list á vax­andi sam­fé­lags­legu hlut­verki að gegna og stuðlar að gagn­rýnni og skap­andi hugs­un og umræðu.

Fram und­an er til­efni til að beina sjón­um að frek­ari tæki­fær­um til vaxt­ar. Sköp­un ís­lenska lista­manna fang­ar at­hygli fólks hér á landi sem og er­lend­is. Árang­ur­inn birt­ist í fleiri tæki­fær­um ís­lenskra lista­manna til þátt­töku í kraft­mik­illi safn­a­starf­semi og vönduðum sýn­ing­um um allt land. Einnig end­ur­spegl­ast ár­ang­ur­inn í þátt­töku á virt­um alþjóðleg­um viðburðum og sýn­ing­um. Eft­ir­spurn eft­ir kaup­um á ís­lensk­um lista­verk­um er um­tals­verð.

Mynd­list verður eitt af áherslu­mál­um mín­um í ný­stofnuðu menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti og hef ég boðað að ný mynd­list­ar­stefna verði kynnt á fyrstu 100 starfs­dög­um ráðuneyt­is­ins og að inn­leiðing henn­ar verði í for­grunni á næstu árum.

Stefn­an mun kalla á fjöl­breytt­an stuðning við list­sköp­un, mennt­un, mynd- og miðlalæsi sem styðji við kraft­mikla mynd­list­ar­menn­ingu og vit­und­ar­vakn­ingu á meðal al­menn­ings. All­ar for­send­ur eru til þess að efla mynd­list sem enn sýni­legri og öfl­ugri at­vinnu­grein sem að varp­ar já­kvæðu ljósi á landið okk­ar.

Ég hvet alla áhuga­sama til að heim­sækja Lista­safn Íslands um helg­ina, sem verður síðasta sýn­inga­helgi „MUGG­UR – Guðmund­ur Thor­steins­son“, og virða fyr­ir sér fjöl­breytt fram­lag hans til ís­lensks menn­ing­ar­arfs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. febrúar 2022

Categories
Greinar

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Deila grein

10/02/2022

Raun­hæfar að­gerðir til handa heimilum

Vaxandi verðbólga veldur eðlilega ákveðnum áhyggjum og það mun skipta máli hvernig brugðist verður við þeirri stöðu. Það er því rétt að fara yfir stöðuna eins og hún er. Það er ljóst að kaupmáttur launa hefur ekki verið hærri í mjög langan tíma. Sú staða er tilkomin vegna þess að efnahagsstjórn landsins hefur verið traust á undanförnum árum sem dregur að einhverju marki úr nauðsyn þess að grípa þurfi til sértækra aðgerða. Af því sögðu er rétt að taka fram að við í Framsókn munum áfram standa vörð um hagsmuni tekjulægstu hópana og þá sem finna munu hvað mest fyrir þessu tímabundna ástandi og vaxtahækkun Seðlabankans.

Húsnæðisverð

Hér á Íslandi er það húsnæðisverð sem knýr verðbólguna áfram. Staðan er einfaldlega tilkomin vegna íbúðaskorts, m.a. vegna þéttingarstefnu borgarinnar, sem hefur leitt til talsverðar hækkunar á húsnæðisverði. Það er verið að byggja dýrt húsnæði á dýrum svæðum í stað þess að mynda ný og spennandi hverfi og auka framboð lóða. Afleiðingarnar eru augljósar og áberandi; hátt húsnæðisverð. Nú á markmið næstu mánaða að vera að tryggja viðunandi framboð lóða ásamt því að auka áherslu á byggingu hagkvæms húsnæðis. Í því sambandi liggur beinast við að ráðast tafarlaust í endurskoðun á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Að því sögðu, þá fagna ég nýju innviðaráðuneyti sem er mjög gott skref, tímabær þróun og mikilvægt innlegg í það verkefni að fá heildarsýn á skipulags- og húsnæðismálin almennt. Ég hef trú á því að þetta muni skila okkur því að allir ferlar verði betrumbættir og að öll skipulagsvinnan verði skilvirkari allt frá upphafi þar til hægt er að hefja framkvæmdir af krafti. Með þessu munum við ná ofangreindum markmiðum um að byggja meira og hraðar af góðu og hagkvæmu húsnæði.

Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs

Varðandi umræðu um stuðning til tekjulægstu hópa samfélagsins vil ég minnast á umræður milli mín og fjármálaráðherra á Alþingi í vikunni. Þar spurðist ég fyrir um húsnæðisliðinn og hvort til stæði að taka húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, jafnvel tímabundið á meðan við erum að komast yfir erfiðasta hjallann. Ráðherra fór vel yfir stöðuna og þá vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili varðandi húsnæðisliðinn en var verið sett á bið ef svo má segja. Þeirri vinnu er því ekki lokið.

Að mínu mati væri afnám húsnæðisliðsins, jafnvel tímabundið, vænlegt til árangurs í núverandi stöðu og myndi styðja best við þau heimili sem nú standa frammi fyrir talsverðri hækkun á lánum. Í dag mælist verðbólgan 5,7%, en án húsnæðisliðar stæði hún í 3,7%. Til lengri tíma gæfi það líklega réttari mynd að horfa til greiddrar húsaleigu, sem hefur verið stöðugri og ekki elt þær hækkanir að fullu leyti sem verið hafa á fasteignamarkaði undanfarið. Við þetta má bæta, og ég tel það bæði rétt og sanngjarnt, að nýta arðgreiðslur bankanna til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum landsins sem munu finna fyrir hærra vaxtabyrði eftir vaxtahækkun Seðlabankans. Þetta hefur viðskiptaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, nú þegar haft orð á.

Varasamar vaxtahækkanir

Að lokum er mikilvægt að horfa til stýrivaxta. Þeir eru hagstjórnartæki Seðlabankans þegar hann telur nauðsyn vera á að grípa inn í sveiflur. Verðbólgan í dag er kostnaðarverðbólga. Því tel ég að SÍ eigi ekki að auka taumhald peningastefnunnar of hratt og mikilvægara sé að fara hægt í vaxtahækkanir og sjá hvort sú kostnaðarverðbólga sem við sjáum í dag sé ekki tímabundin og muni jafna sig um leið og við komumst í það horf sem við þekktum fyrir faraldurinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. febrúar 2022.

Categories
Greinar Sveitarstjórnarfólk

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Deila grein

07/02/2022

Hafnar­fjörður til fram­tíðar

Markvisst hefur verið unnið að því á kjörtímabilinu að halda álögum á íbúum í lágmarki og sérstaklega hefur verið horft til barnafjölskyldna með það að markmiði að létta þeim róðurinn. Það hefur tekist og er óumdeilt. Í upphafi kjörtímabils var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum hækkaður verulega og nýjum systkinaafslætti var komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Þar viljum við í Framsókn stíga enn frekari skref á næsta kjörtímabili og halda áfram á þeirri vegferð að lækka kostnað fjölskyldufólks með skynsamlegum hætti og um leið tryggja og treysta þjónustu við íbúa hér í bæ, unga sem aldna.

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er hafin

Kröftug uppbygging íbúðarhúsnæðis er nú hafin víðs vegar um bæinn. Frá upphafi kjörtímabilsins hefur verið mikil uppbygging í Skarðshlíð og hefur kraftur uppbyggingarinnar aukist umtalsvert á undanförnu einu og hálfu ári. Íbúðir í Hamranesi, sem er okkar nýjasta byggingarland, eru nú byrjaðar að rísa en þar verða um 1700 íbúðir þegar hverfið verður að fullu byggt með öllum nauðsynlegum innviðum sem fylgja uppbyggingu nýrra hverfa.

Samhliða uppbyggingu á nýjum byggingarsvæðum hefur þéttingu byggðar miðað vel áfram. Þar má nefna að framkvæmdir eru hafnar á Dvergsreitnum svokallaða, Hrauntungu, Stekkjarbergi og við Hjallabraut. Hús eru eru byrjuð að rísa á Dvergsreitnum, Hrauntungu og Stekkjarbergi og þá er jarðvegsvinna í fullum gangi við Hjallabraut. Lóðarhafar áætla að framkvæmdir hefjist nú á vormánuðum í Hraunum vestur-Gjótur, en þar liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir 490 íbúðir auk verslunar og þjónustu. Deiliskipulag fyrir Ásland 4 hefur verið afgreitt úr skipulags- og byggingarráði, en þar má gera ráð fyrir um 500 íbúðum í heildina; mest sérbýli í bland við lítil fjölbýlishús.

Tækniskólinn, byggð við höfnina og miðbærinn

Það er ánægjulegt að segja frá því að mikil ásókn hefur verið í atvinnuhúsalóðir sem rokið hafa út á kjörtímabilinu. Þá hafa jafnframt stór og öflug fyrirtæki ákveðið að reisa höfuðstöðvar sínar í bæjarfélaginu, og má þar nefna fyrirtæki eins og Icelandair sem vinnur nú að því að flytja alla sína starfsemi til Hafnafjarðar. Það er ekkert launungarmál að slík fyrirtæki skila miklum tekjum til bæjarfélagsins, bæði beinum og óbeinum.

Nýr Tækniskóli mun rísa á Suðurhöfninni og ég vil leyfa mér að segja það hreint út að sá áfangi og sú ákvörðun sé ein sú stærsta á kjörtímabilinu. Hér er um að ræða gríðarstóra framkvæmd sem mun hafa jákvæð áhrif á bæjarfélagið allt; styrkja og styðja við miðbæinn okkar og þá starfsemi sem fyrir er. Framkvæmdin kemur einnig til með að efla og styðja enn frekar við þá miklu uppbyggingu sem fram undan er á Óseyrarsvæðinu og við Flensborgarhöfn.

Verkefni sem þessi eru af þeirri stærðargráðu að þau klárast ekki á einum degi, eða jafnvel á einu kjörtímabili. Hér er um að ræða samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélags og einkaaðila. Grunnurinn hefur hins vegar verið lagður og nú þarf að halda áfram veginn, vera með augun á boltanum eins og sagt er og fylgja málum vel eftir. Þetta er spennandi verkefni fyrir Hafnarfjörð og íbúa bæjarfélagsins.

Miðbærinn okkar mun einnig taka jákvæðum breytingum á næstu árum. Þar má nefna tvær samþykktar deiliskipulagstillögur, annars vegar stækkun Fjarðar og hins vegar reit 1 sem afmarkast af Strandgötu, Reykjavíkurvegi, Austurgötu og Linnetsstíg. Tillögurnar gera það að verkum að verslunar- og veitingarrýmum mun fjölga umtalsvert í miðbænum á næstu árum, sem mun bæta við þá líflegu flóru verslana og veitingastaða sem fyrir eru í hjarta Hafnarfjarðar. Auk þess gera tillögurnar bæði ráð fyrir skynsamlegri blöndu hótelíbúða og nýrra íbúða. Allt ofangreint mun styðja við það sem fyrir er og gera miðbæ Hafnarfjarðar að enn eftirsóknarverðari stað til að sækja og reka verslun og þjónustu til framtíðar.

Snyrtilegur bær – átaksverkefni

Í upphafi síðasta sumars var samþykkt að bæta 340 milljónum króna í framkvæmdir í bæjarfélaginu. Þar var sérstaklega horft til uppsafnaðar fjárfestingaþarfar á endurnýjun gangstétta í eldri hverfum bæjarins auk nauðsynlegs frágangs í þeim hverfum sem nýrri eru. Við sjáum það nú að þessum fjármunum var vel varið og átakið vel heppnað en merki þess sjást um allan bæ. Snyrtilegur og aðgengilegur bær fyrir alla á að vera okkar helsta keppikefli. Við þurfum að horfa heildstætt á þessi mál og tryggja að bærinn sé snyrtilegur og vel þrifinn; götur sópaðar, rusl tekið, grasblettir slegnir og götur mokaðar. Snyrtilegur og aðgengilegur bær er öruggur bær. Það er Hafnarfjörður og hann verður það áfram.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist á visir.is 5. febrúar 2022