Categories
Greinar

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Deila grein

17/10/2019

Nýir tímar boðaðir í samgönguáætlun

Fyrr á þessu ári var samþykkt að auka fram­lög til vega­gerðar um­tals­vert sem end­ur­spegl­ast í fjár­mála­áætl­un. Aukið fjár­magn verður sett í viðhald vega, ný­fram­kvæmd­um verður flýtt og þörf er á að byggja upp tengi­vegi og bæta þjón­ustu vegna auk­ins álags á vega­kerf­inu. Á næstu sjö árum verður vega­fram­kvæmd­um, sem kosta um 130 millj­arða króna, flýtt utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ný­lega var skrifað und­ir sam­göngusátt­mála rík­is og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu. Sátt­mál­inn staðfest­ir sam­eig­in­lega sýn og heild­ar­hugs­un fyr­ir fjöl­breytt­ar sam­göng­ur á svæðinu. Mark­miðið er að auka lífs­gæði íbúa og leysa aðkallandi um­ferðar­vanda á höfuðborg­ar­svæðinu. Í sam­göngu­áætlun­inni er bein fjár­mögn­un rík­is­ins staðfest. End­ur­skoðuð sam­göngu­áætlun verður lögð fram í nóv­em­ber og munu drög að henni fyr­ir 2020-2034 birt­ast í sam­ráðsgátt stjórn­valda í dag. Áætl­un­in er upp­færsla á þeirri áætl­un sem samþykkt var á Alþingi síðasta vet­ur, með viðbót­um sem unnið hef­ur verið að síðustu mánuði. Stig­in eru stór skref í átt að betri sam­göng­um á Íslandi og á flest­um sviðum er þetta sam­göngu­áætlun nýrra tíma.

Stefnu­mót­un fyr­ir flug og al­menn­ings­sam­göng­ur

Sam­hliða sam­göngu­áætlun­inni eru í fyrsta sinn kynnt drög að flug­stefnu Íslands ann­ars veg­ar og stefna í al­menn­ings­sam­göng­um milli byggða hins veg­ar. Í báðum þess­um stefn­um birt­ast áhersl­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að byggja upp al­menn­ings­sam­göng­ur um land allt, á landi, sjó og í lofti. Mark­miðið er að styrkja sam­fé­lagið með því að jafna aðgang að þjón­ustu, at­vinnu­tæki­fær­um og lífs­kjör­um, eitt­hvað sem skipt­ir þjóðina alla miklu máli.

Til­gang­ur með mót­un flug­stefnu er að skapa um­hverfi sem viðheld­ur grunni fyr­ir flugrekst­ur og flug­tengda starf­semi á Íslandi og styður vöxt henn­ar.

Í stefnu um al­menn­ings­sam­göng­ur milli byggða er lagt til að flug, ferj­ur og al­menn­ings­vagn­ar myndi eina sterka heild og boðið verði upp á eitt leiðar­kerfi fyr­ir allt landið.

Sam­vinnu­verk­efni til að flýta fram­kvæmd­um

Í sam­göngu­áætlun­inni sem nú birt­ist al­menn­ingi er einnig lögð áhersla á að auka sam­vinnu milli hins op­in­bera og einkaaðila við að hraða upp­bygg­ingu fram­kvæmda sem í senn auka um­ferðarör­yggi og eru þjóðhags­lega hag­kvæm­ar. Öryggi er leiðarljósið við all­ar ákv­arðanir og mark­mið allra ör­yggisaðgerða að vernda manns­líf.

Nýj­ar fram­kvæmd­ir sem bjóða upp á vegstytt­ingu og val um aðra leið verða kynnt­ar til sög­unn­ar eins og ný brú yfir Ölfusá, jarðgöng um Reyn­is­fjall og lág­lendis­veg um Mýr­dal. Þá er stefnt að því að ein­staka fram­kvæmd­ir verði fjár­magnaðar að hluta með þess­um hætti eins og ný brú yfir Horna­fjarðarfljót og veg­ur yfir Öxi.

Sér­stök jarðganga­áætl­un birt­ist nú í sam­göngu­áætlun. Stærstu tíðind­in eru að stefnt er að því að fram­kvæmd­ir við Fjarðar­heiðargöng geti haf­ist árið 2022 eða tals­vert fyrr en áður hef­ur verið ráðgert. Gert er ráð fyr­ir að bein fram­lög af sam­göngu­áætlun og jarðganga­áætl­un standi und­ir helm­ingi fram­kvæmda­kostnaðar jarðganga. Stefnt er að gjald­töku af um­ferð í jarðgöng­um og að sú inn­heimta muni fjár­magna rekst­ur og viðhald gang­anna, sem og að standa und­ir því sem upp á vant­ar í fram­kvæmda­kostnað.

Í end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun eru slegn­ar upp­hafsnót­ur þeirr­ar næstu. Á það sér­stak­lega við um mál­efni barna og ung­menna og aðgerða til að auka jafn­rétti í at­vinnu­greind­um tengd­um sam­göng­um. Vinna við und­ir­bún­ing þeirr­ar um­fjöll­un­ar er þegar haf­in en ljóst er að auk­in þekk­ing á þeim sviðum er bæði rétt­læt­is- og fram­fara­mál. Jafn­framt eru góð gögn und­ir­staða góðra áætl­ana og mun ferðavenju­könn­un sem nú er í gangi gefa gleggri mynd af því hvernig lands­menn fara á milli staða. Ég hvet ykk­ur ein­dregið til að kynna ykk­ur drög að end­ur­skoðaðri sam­göngu­áætlun á vefn­um samrads­gatt.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2019.

Categories
Greinar

Þungi hagstjórnar færist frá peningamálum til ríkisfjármála

Deila grein

16/10/2019

Þungi hagstjórnar færist frá peningamálum til ríkisfjármála

Lágvaxtaumhverfi hagkerfa er staðreynd á alþjóðavísu. Staðan sem uppi er í alþjóðakerfinu er án fordæma í nútímahagsögunni, þar sem hátt atvinnustig hefur jafnan verið ávísun á aukna verðbólgu. Sú hefur þó ekki verið raunin síðustu árin. Til dæmis er atvinnuleysi í Bandaríkjunum nú um 3,5% en verðbólga aðeins 1,4%. Þar, líkt og víða annars staðar, bendir ýmislegt til að á næstunni verði hagstjórnin í auknum mæli í höndum hins opinbera, sem taki að sér að örva hagkerfið í niðursveiflu. Minni verðbólga í hagkerfum heimsins á sér einkum þrjár skýringar. Í fyrsta lagi hefur þeim hagkerfum sem settu sér verðbólgumarkmið í kringum árið 2000 tekist að stýra verðbólguvæntingum. Í öðru lagi hefur hið opna hagkerfi, þar sem vörur, þjónusta og fjármagn flyst á milli hagkerfa, aukið hagkvæmni í viðskiptum. Í þriðja lagi hafa tækniframfarir og sjálfvirknivæðing lækkað framleiðslukostnað.

Hagvöxtur og atvinnulífið

Mikill hagvöxtur hefur einkennt íslenskt efnahagslíf síðustu misseri. Horfur hafa þó versnað tímabundið, meðal annars vegna minnkandi umsvifa í ferðaþjónustu og loðnubrests. Hægst hefur á hagvexti og spár gera ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar á fyrsta fjórðungi var hins vegar jákvætt um sem nemur 4,4%. Áfram er vöxtur í einkaneyslu og samneyslu, þrátt fyrir að hann sé hægari en áður. Spár gera ráð fyrir að fjárfesting minnki um 5%. Atvinnuleysi er enn lágt í alþjóðlegu samhengi eða um 3,5%. Brýnt er að efnahagsaðgerðir nú aðstoði þjóðarbúið við að ná viðspyrnu.

Sjálfstæð peningastefna stendur vaktina og veitir svigrúm

Á þessu ári hefur verðbólga hjaðnað milli ársfjórðunga og nýjustu mælingar sýna 3,1% verðbólgu á þriðja fjórðungi. Verðstöðugleiki hefur aukist og verðbólga verið um 3% síðustu þrjú ár, en var að meðaltali um 8% á árunum 2006-2008. Langtímaverðbólguvæntingar hafa verið lægri undanfarin ár og nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Undanfarið hafa vextir verið lægri en þeir voru fyrir fjármálakreppuna, hvort sem litið er til meginvaxta Seðlabankans eða langtímavaxta á skuldabréfamarkaði. Þrátt fyrir spennu í þjóðarbúinu hefur verðbólga verið töluvert minni síðustu ár en við lok síðasta þensluskeiðs. Þessi staða hefur gefið Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti. Gengisþróun er í ríkari mæli grundvölluð á undirliggjandi efnahagsþáttum og því hefur verðbólguþróun verið stöðug.

Bolmagn heimila og fyrirtækja

Skuldir heimila og fyrirtækja hafa minnkað mikið síðastliðinn áratug. Skuldir heimilanna námu í árslok 2018 um 75% af landsframleiðslu og höfðu lækkað um 45% frá árslokum 2008. Ástæður þessarar lækkunar eru meðal annars aðgerðir stjórnvalda í skuldamálum heimilanna, eins og Leiðréttingin og fleiri aðgerðir, auk þess sem ráðstöfunartekjur hafa aukist verulega. Kaupmáttur launa hefur aukist um 24% frá árinu 2007, þannig að hagur heimilanna hefur styrkst mikið. Skuldalækkun fyrirtækja er enn meiri, en í fyrra námu skuldir þeirra um 88% af landsframleiðslu en voru mestar 228% af landsframleiðslu árið 2008. Ánægjulegt er líka að sjá skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera í erlendri mynt hafa lækkað verulega og því eru áhrif gengislækkunar mun minni nú en fyrir áratug. Þessi hagfellda staða heimilanna og fyrirtækjanna gerir þeim betur kleift að mæta niðursveiflu hagkerfisins en ella.

Fjárfestingar hins opinbera sveiflist á móti hagsveiflunni

Staða ríkissjóðs Íslands er sterk. Heildarskuldir hafa lækkað mjög hratt frá fjármálahruni, farið úr 90% af landsframleiðslu í 23%. Stöðugleikaframlög og aðferðafræðin við uppgjör föllnu bankanna hafa átt ríkan þátt í því að þessi hagfellda staða er uppi í ríkisfjármálum. Staðan gerir stjórnvöldum kleift að koma til móts við hagsveifluna og búa til svigrúm. Vegna þessa er stefnt að því að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði að lágmarki í jafnvægi árin 2020 og 2021, en afgangur verði um 0,3% árið 2022. Afkoman mætir því þörfum efnahagslífsins til samræmis við breyttar horfur án þess þó að vikið verði tímabundið frá fjármálareglum um afkomu og skuldir eins og lög um opinber fjármál heimila. Rétt er að nefna, að ríkissjóði hafa aldrei áður boðist jafngóð kjör á skuldabréfamörkuðum og nú.

Ljóst er að þróttur íslenska hagkerfisins er umtalsverður og hið opinbera mótar stefnu sína út frá breyttum forsendum til að koma til móts við hagsveifluna. Íslenska hagkerfið er undirbúið fyrir niðursveiflu og hið opinbera kemur til móts við hana með skattalækkunum og auknum opinberum framkvæmdum.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins.

Greinin birtist fyrst í Markaðinum fylgiriti Fréttablaðsins 16. október 2019.

Categories
Fréttir

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Deila grein

15/10/2019

15. október helgaður konum búsettum í dreifbýli

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, minnti þingheim í störfum Alþingis í dag að 15. október hafi ,,lengi helgaður konum búsettum í dreifbýli hjá Sameinuðu þjóðunum, þ.e. 1/5 af íbúum jarðar. Í tilefni dagsins vöktu framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna oftar en einu sinni athygli á því að á heimsvísu hafni konur og stúlkur í dreifbýli oft neðst þegar litið er til hagfræðilegra, félagslegra og pólitískra þátta, allt frá tekjum og menntun til heilbrigðis og ákvarðanatöku.”
,,Ef þessi hópur hefði gott aðgengi að menntun og þekkingu um nýsköpun og auðlindanýtingu myndi framleiðni í landbúnaði aukast, matvæla- og fæðuöryggi batna og hægt væri að bjarga fleirum frá hungri. Þessi vinna fellur nú undir vinnu að heimsmarkmiðunum hjá Sameinuðu þjóðunum,” sagði Líneik Anna.
En hver er staðan hér?

Konur í dreifbýli hér á landi búa í sveitum og minni þéttbýliskjörnum. Yfirleitt búa færri konur en karlar í dreifbýlustu samfélögunum og rannsóknir sýna að í sumum þeirra er launamunur kynjanna áberandi meiri en að landsmeðaltali.
Vitum við hvort þær hafa jafnan aðgang að menntun, þjálfun í vísindum og tækni á við aðra íbúa þessa lands?
Er aðgengi að atvinnu sambærilegt?
Hver er staða þeirra í fæðingarorlofskerfinu?
Hvað keyra konur í sveitum marga kílómetra á holóttum malarvegum daglega?
Hvert er aðgengi innflytjenda í þessum hópi að þekkingu?

,,Til er skýrsla um stöðu kvenna í landbúnaði og tengdum greinum sem var unnin af Byggðastofnun 2015. Þar kemur fram að fleiri konur en karlar stunda aðra vinnu með búrekstri og að vinnuframlag kvenna sé skilgreint sem hluti af heimilisstörfum en ekki sem bústörf. Hvaða áhrif hefur það? Það skortir a.m.k. verulega á tölfræði um stöðuna. Við þurfum að beina sjónum að þessum hópi. Jafnrétti næst ekki ef konur í dreifbýli gleymast og það er sérstaklega mikilvægt í byggðaþróunarverkefnum eins og Brothættum byggðum,” sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Látum okkur unga fólkið varða og gerum betur

Deila grein

15/10/2019

Látum okkur unga fólkið varða og gerum betur

Hjálmar Bogi Hafliðason, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir íslenskt samfélag hafa ,,náð stórkostlegum árangri varðandi vímuefnaneyslu ungs fólks með markvissum hætti. Árið 1998 höfðu 48% ungmenna í 10. bekk neytt áfengis síðastliðna 30 daga. Sú tala stendur nú í 5%. Sömuleiðis hefur dregið verulega úr reykingum á sígarettum.” Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Frá árinu 1995 hefur með markvissum hætti verið rannsakaðir hagir ungs fólks. Rannsóknir og greining heldur utan um þessa könnun og grunnskólar landsins framkvæmir hana en rannsóknin er unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti.
,,Nýlega birtust okkur niðurstöður könnunarinnar Ungt fólk 2018 sem varðar hagi nemenda í 8., 9. og 10. bekk. Ég vil hvetja ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúa til þess að nýta þessar niðurstöður og horfa til þeirra þegar kemur að ákvarðanatöku en í skýrslunni er samanburður frá árinu 2000,” sagði Hjálmar Bogi.
Skoðum helstu niðurstöður:

Almennt dregur úr skipulegu félags- og tómstundastarfi.
Hlutfallslegur fjöldi ungmenna sem fara í partí hefur dregist saman.
Á sama tíma hefur dregið úr aðsókn í félagsmiðstöðvar.
Um fjórði hver nemandi í 9. og 10. bekk ver engum tíma í lestur utan skóla. Samvera með foreldrum eykst.
Hlutfall foreldra sem fylgjast með því hvar börnin þeirra eru hefur hækkað.
Ungmennum sem fara út eftir kl. tíu á kvöldin fækkar verulega.
Sömuleiðis fækkar ungmennum sem fara út eftir miðnætti.
Koffínneysla hefur aukist talsvert.
Ungmennum, sérstaklega drengjum, sem finnst námið sitt tilgangslaust fjölgar og sömuleiðis fjölgar ungmennum sem leggja minni rækt við nám sitt.
Og ungmenni vinna mjög mikið með náminu.

,,Þetta er hægt. Það er hægt að ná árangri ef við látum okkur unga fólkið varða og viljum gera betur. Langflest ungmenni í samfélaginu okkar eru okkur til mikils sóma. Höldum því á lofti og gerum enn betur,” sagði Hjálmar Bogi.

Categories
Fréttir

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Deila grein

15/10/2019

Óvissa og erfiðleikar hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir óvissu og erfiðleika vera hjá nautgripabændum vegna stefnuleysis Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ekki hefur enn borið á á viðbrögðum stjórnvalda frá því að samráðshópur Kristján Þórs skilaði af sér tillögum í febrúar eða fyrir átta mánuðum. Þetta kom fram í störfum þingsins á Alþingi í dag.
,,Þetta hefur skapað óvissu hjá bændum og frost hefur ríkt á mjólkurkvótamarkaðnum. Þetta hefur valdið erfiðleikum, m.a. við nýliðun. Þeir sem hafa verið í uppbyggingu með aukningu í huga geta ekki nálgast framleiðslurétt til þess. Segja má að bændur hafi lokast inni í þessum aðstæðum,” sagði Halla Signý.
,,Könnun var gerð meðal bænda og þá voru 90% á því að halda óbreyttu ástandi áfram, þ.e. að halda í greiðslumarkið í mjólk. Sú niðurstaða ber auðvitað keim af því að ekki er komin fram nein önnur stefna sem er betri eða valkostur við núverandi kerfi heldur dvelja þeir áfram í óvissunni,” sagði Halla Signý.
Í gildandi búvörusamningum er samningur um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 2016. Sá samningur felur í sér stefnumörkun um breytingar á því kerfi sem hefur verið við lýði síðasta aldarfjórðung.

Meginstefið er að greiðslumark í mjólk ætti að fjara út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang á innanlandsmarkaði.
Önnur markmið samningsins eru að efla íslenska nautgriparækt, skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri og búa hana undir áskoranir næstu ára.
Samningnum er ætlað að hvetja til þróunar og nýsköpunar í greininni með heilnæmi og gæði afurða, velferð dýra og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Á þessu ári á að endurskoða hvort markmiðum samningsins hafi verið náð og hvort ástæða sé til að gera á þeim breytingar og að sú ákvörðun sem stefnt var að um afnám kvótans árið 2021 verði tekin til endurskoðunar.

,,Þess vegna skora ég á ráðherra að gera skurk í þessum málum og leysa þennan hnút,” sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Deila grein

15/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi haldið 12.-13. október 2019 að Holti í Önundarfirði.

Kjördæmisþingið lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Ríkisstjórnin hefur með áherslum sínum í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, tekist að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem var orðið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk mátti sitja eftir. Með þessu náðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.

Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.

Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í öllu kjördæminu og því hefur viðgangur greinarinnar mikil áhrif á flest öll sveitarfélög á svæðinu. Kjördæmisþingið ítrekar mikilvægi þess að sá kvóti sem ríkið hefur ráðstöfunarrétt yfir eða 5.3% aflaheimilda á hverja fisktegund, verði nýttur til byggðafestu og til að byggja undir fjölbreytni sjávarútvegs hringinn í kringum landið.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður af sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri uppbyggingu sem hefur orðið á fiskeldi og telur það vera einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar. Þingið hvetur stjórnvöld til að byggja undir sterkt lagaumhverfi fyrir þessa nýju atvinnugrein. Mikilvægt er að mótvægisaðgerðum verði beitt og stuðla að umhverfisvænum rekstri til hagsbóta fyrir samfélagið.

Nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins njóti þeirrar grunnþjónustu sem gerð er krafa um í nútímasamfélagi. Nauðsynlegt er að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.

Undir forystu Framsóknar hefur verið unnið að jöfnu aðgengi landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu með eflingu fjarheilbrigðisþjónstu. Þingið bendir á mikilvægi þess að samningar við sérfræðilækna náist.

Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.

Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu við íbúa er aðgengi að menntastofnunum. Kjördæmisþingið leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð mennta- og menningarstofnana í kjördæminu.

Þingið leggur áherslu á að flutnings- og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi afhendingaröryggi raforku um landið. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið leggur áherslu á við stjórnvöld að núverandi rammaáætlun verði virt og lýsir stuðningi sínum við gerð Hvalárvirkjunar.

Orkustofnun hefur bent á að mikil eftirspurn sé eftir raforku á Íslandi og að brýnt sé að huga sérstaklega að lagarammanum um nýtingu vindorku þar sem hagsmunir samfélagsins og sjálfbærni eru hafðir að leiðarljósi. Smávirkjanir eru liður í uppbyggingu dreifikerfis raforku og telur þingið að kanna þurfi betur virkjunarkosti víða um land og einfalda umsagnaferlið þeirra.

Dreifingarkostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og telur þingið brýnt að stjórnvöld hraði vinnu við jöfnun raforkukostnaðar. Hár raforkukostnaður dregur úr hvata til uppbyggingar í hinum dreifðu byggðum og minnkar samkeppnishæfni dreifbýlisins.

Kjördæmisþingið hafnar alfarið raforkusölu um sæstreng til annarra landa.

Þingið hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Endurskoða þarf skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu innviða.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi skorar á stjórnvöld að nýtingar- og/eða búsetuskylda á bújörðum í landinu verði tryggð með lagasetningu, þannig að með eignarhaldi á bújörð fylgi ákveðnar skyldur. Mikilvægt er að horft sé til þess landgæði á hverjum stað stuðli að aukinni atvinnusköpun, matvælaframleiðslu og eflingu byggðar í landinu.

Íslenskur landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land. Óásættanlegt er að fluttar séu inn búvörur sem framleiddar eru við minni kröfur um aðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi. Þingið fagnar góðum árangri við ljósleiðaravæðingu í kjördæminu.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hafnar framkomnum hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þingið leggur áherslu á að fyrirliggjandi tillaga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands felur í sér skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga, réttindum íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.

Fyrirliggjandi tillaga hvað varðar mörk þjóðgarðs á miðhálendinu virðist fyrst og fremst tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi í hálendi Íslands.

Kjördæmisþingið hvetur stjórnvöld til þess að bregðast hratt við ótryggu og hættulegu ástandi vega í kjördæminu.

***

Categories
Fréttir

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Deila grein

15/10/2019

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Silja Dögg Gunnarsdóttiralþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál“. „Hugmyndin að þessu máli kviknaði þegar ég hlustaði á Kverkatak, útvarpsþátt á Rás 1, sem útvarpsmaðurinn Viktoría Hermannsdóttir gerði. Í þáttunum eru viðtöl við þolendur heimilisofbeldis og sérfræðinga sem sinna slíkum málum. Það var augljóst að gera mætti betur í þessum málaflokki og tryggja betur með lögum öryggi þolenda,“ sagði Silja Dögg.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

„Ég fór að skoða málið og fékk álit hjá fjölmörgum sérfróðum aðilum. Þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir núna er niðurstaða þess samtals. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda er gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum,“ sagði Silja Dögg.
„Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu,“ sagði Silja Dögg.

Categories
Greinar

Ótímabærar og óhóflegar friðlýsingar umhverfisráðherra

Deila grein

15/10/2019

Ótímabærar og óhóflegar friðlýsingar umhverfisráðherra

Það hefur ekki dulist nokkrum sem hefur fylgst með gangi þjóðfélagsmála að umhverfisráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson er í friðunarherferð langt umfram meðalhóf og nauðsyn. Friðlýsingar þessar þarf ekki að bera undir Alþingi eða ríkisstjórn, heldur er þetta vald eingöngu í höndum ráðherra sjálfs að því er virðist. Ráðherra er m.a. að friða orkukosti sem voru í verndarflokki í Rammaáætlun II. Nú friðar ráðherrann ekki bara orkukostina sem voru metnir í verndarflokk heldur að auki áhrifasvæði þeirra í heild sinni.

Velta má því fyrir sér út frá umfangi verkefnisins hjá honum, hvort ekki væri skynsamlegt að staldra aðeins við og fá álit fleiri aðila. Því hvað er verið að gera? Oft á tíðum og út frá boðuðum hugmyndum ráðherrans er verið að friðlýsa svæði sem eru til þess fallin að hægt sé að nýta þau með sjálfbærum hætti í framtíðinni til dæmis til orkuvinnslu eða lagningu lína til að flytja raforku. Það er morgunljóst að þær áætlanir sem uppi eru um friðlýsingu einstakra svæða og hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð munu koma í veg fyrir frekari framþróun á sviði orkunýtingar víða um land og ekki síður enn mikilvægari þætti sem er lagning flutningslína milli þéttbýlissvæða og landshluta.

Loftslagsmál eru „global en ekki local“
Íbúar á norðausturhluta landsins hafa ekki farið varhluta af óþægindum þeim sem skapast hafa vegna þess að línur Landsnets hafa ekki flutningsgetu til þess að flytja orku á milli staða og ekki er framleidd nægilega mikil orka á viðkomandi svæðum til að anna eftirspurn. Hefur þetta valdið því að spennufall verður í þéttbýlisstöðum, með tilheyrandi tjóni fyrir íbúa og atvinnulíf. Þar sem tæki skemmast og framleiðsla stöðvast. Einnig hefur ekki verið hægt að keyra fiskbræðslur Austanlands á rafmagni af eins miklum mætti og hægt hefði verið ef flutningskerfið væri sterkt og magn raforku í kerfinu væri nægjanlegt. Það er all sérstakt á tímum loftslagsbreytinga að ekki sé unnið að því hörðum höndum að auðvelda lagningu lína og nýta sjálfbæra orkukosti til þess að takast á við þennan alheimsvanda.

Loftslagsmál eru nefnilega ekki „local mál“ okkar Íslendinga heldur „global mál“ heimsins og það má ætla að betra sé að framleiða vörur með sjálfbærri orku á Íslandi en kolum í Kína eða gasi í Sádi-Arabíu. Með framleiðslu sjálfbærrar orku er hægt að búa til störf fyrir fólkið í landinu og hagvöxt fyrir efnahaginn.

Göngum hægt um gleðinnar dyr
Ef við Íslendingar ætlum að vera leiðandi á heimsvísu þegar kemur að loftslagsmálum þurfum við að hugsa fram í tímann og huga að þeim kynslóðum sem á eftir okkur koma.

Við þurfum að hugsa til þess að eiga nægt rafmagn til að knýja samgönguflotann í þeim orkuskiptum sem þar munu fara fram. Nægjanleg orka þarf að vera til staðar fyrir atvinnulífið í landinu. Það er mikilvægt, sérstaklega með tilliti til þess að við getum lagt okkar af mörkum í þeirri stóru mynd sem snýr að framleiðslu vara með endurnýjanlegri orku. Ef fram heldur sem horfir mun það hins vegar verða mjög erfitt því unnið er að því markvisst að friða alla vænlegustu virkjanakosti landsins og ekki síður vegna þess að lagaumhverfið gerir það erfitt að leggja línur án margra ára baráttu við landeigendur og þrýstihópa. Það er spurning hvenær verið er að taka meiri hagsmuni fyrir minni, því það er ekki alltaf víst að náttúruvernd og loftslagsmál fari saman.

Ingibjörg Ísaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri, formaður stjórnar Norðurorku og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. október 2019.

Categories
Greinar

Fruman sem varð fullorðin

Deila grein

14/10/2019

Fruman sem varð fullorðin

Börnum eiga að vera tryggð mannréttindi með lögum, en svo er ekki í öllum tilfellum. Kynfrumugjafi getur í dag óskað eftir nafnleynd og börn hafa því ekki sjálfstæðan rétt til að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Uppfæra þarf íslensk lög svo réttindi barna verði tryggð til að þekkja uppruna sinn, ef þau óska þess.

Nú eru til sýninga á Stöð 2 þættir sem heita Leitin að upprunanum. Þar eru sjónvarpsáhorfendur kynntir fyrir fólki sem leitar að líffræðilegum foreldrum sýnum. Í þáttunum fær áhorfandinn innsýn í hversu djúpstæð þráin eftir því að finna líffræðilegan skyldleika getur verið. Þeir sem getnir eru með tæknifrjóvgun með aðstoð kynfrumugjafa, kunna að hafa sömu þrá eftir því að þekkja uppruna sinn og einnig vilja til að fá vitneskju um arfgenga sjúkdóma.

Nágrannaríkin komin lengra

Tæknifrjóvganir eru nýtt fyrirbæri í sögulegu samhengi. Því hefur umræðan um kynfrumugjafir ekki verið áberandi í íslenskri umræðu. Rökin sem færð hafa verið fyrir því að leyfa nafnleynd kynfrumugjafa hafa til dæmis verið þau að ef nafnleynd yrði afnumin væri ólíklegra að fólk gæfi kynfrumur til tæknifrjóvgunar og fólk sem þyrfti á þjónustunni að halda hefði því ekki aðgengi að henni vegna ónógs framboðs. Trompar lögmálið um framboð og eftirspurn á kynfrumum réttindi barns til að þekkja uppruna sinn? Ég tel svo ekki vera. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð fullgildur árið 1992 og lögfestur 2013. Í sáttmálanum felst viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi óháð réttindum fullorðinna.

Það er tími til kominn að löggjafinn hér fylgi fordæmi nágrannaríkja okkar og tryggi réttindi allra barna á Íslandi til að þekkja uppruna sinn. Undirrituð hefur lagt fram tillögu ásamt fleiri þingmönnum, um að dómsmálaráðherra setji slíka vinnu af stað og að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í janúar 2020.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. október 2019.

Categories
Greinar

Framtíðarsýn um starfsþróun kennara

Deila grein

12/10/2019

Framtíðarsýn um starfsþróun kennara

Störf kenn­ara og skóla­stjórn­enda eru margþætt og í skóla­starfi er stöðugt unnið með nýj­ar hug­mynd­ir og áskor­an­ir. Við vit­um að öfl­ug mennta­kerfi á alþjóðavísu hafa keppt að því að gera starfs­um­hverfi sinna kenn­ara framúrsk­ar­andi en liður í því er öfl­ug framtíðar­sýn fyr­ir starfsþróun stétt­ar­inn­ar.Á dög­un­um skilaði sam­starfs­ráð um starfsþróun kenn­ara og skóla­stjórn­enda til­lög­um að slíkri framtíðar­sýn. Til­lög­ur þess­ar eru ný­mæli þar sem ekki hef­ur legið fyr­ir sam­eig­in­leg sýn á mál­efni starfsþró­un­ar, t.d. milli ólíkra skóla­stiga og rekstr­araðila skóla. Þetta er að mörgu leyti tíma­móta­skref sem ég tel að muni leiða til skýr­ari stefnu og stuðla að metnaðarfullu skóla­starfi. Ég fagna til­lög­um ráðsins og þeim sam­hljómi sem ein­kenn­ir vinnu þess en í því sátu full­trú­ar Kenn­ara­sam­bands Íslands, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, há­skóla og mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is. Til­lög­urn­ar eru fjöl­breytt­ar og tengj­ast m.a. ráðuneyt­inu, sveit­ar­fé­lög­um, mennt­un kenn­ara og skól­un­um sjálf­um. Það er mjög dýr­mætt að fá þær til um­fjöll­un­ar og út­færslu, ekki síst í sam­hengi við ný lög um mennt­un og hæfni kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem taka munu gildi í árs­byrj­un 2020.

Starfsþróun kenn­ara get­ur m.a. falið í sér form­legt nám og end­ur­mennt­un, nám­skeið, þátt­töku í þró­un­ar­verk­efn­um, ráðgjöf, ráðstefn­ur og heim­sókn­ir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að auk­inni starfs­ánægju kenn­ara og hef­ur já­kvæð áhrif á ár­ang­ur þeirra í starfi. Niður­stöður út­tekta og mennt­a­rann­sókna gefa okk­ur góðar vís­bend­ing­ar um hvar mik­il­væg­ast er að efla starfsþróun og fjölga tæki­fær­um í símennt­un fyr­ir kenn­ara. Sam­kvæmt alþjóðlegu TAL­IS-mennt­a­rann­sókn­inni telja ís­lensk­ir kenn­ar­ar á ung­linga­stigi mesta þörf nú vera fyr­ir starfsþróun um hegðun nem­enda og stjórn­un í kennslu­stof­um, ásamt starfsþróun í kennslu fyr­ir börn með annað móður­mál en ís­lensku. At­hygli­vert er einnig að sam­kvæmt TAL­IS er al­geng­ara í sam­an­b­urðarríkj­um Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar (e. OECD) að kenn­ar­ar þjálfi eða fylg­ist með kennslu sam­kenn­ara eða greini eig­in kennslu, en hér á landi.

Það fel­ast mörg tæki­færi í öfl­ugri sam­vinnu og skýrri heild­ar­sýn þegar kem­ur að starfsþróun kenn­ara í leik-, grunn-, fram­halds- og tón­list­ar­skól­um. Ég vil þakka þeim fjöl­mörgu sem lagt hafa hönd á plóg í því verk­efni sem býr að baki til­lög­un­um, þær eru okk­ur gott leiðarljós í þeirri vinnu sem nú stend­ur yfir við mót­un nýrr­ar mennta­stefnu til árs­ins 2030.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2019