Categories
Fréttir

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Deila grein

10/07/2019

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Frumvarpsdrög nýrra laga um námsstyrkjakerfi Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna (SÍN) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu.
„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nýtt námsstyrkjakerfi mun stuðla að bættri námsframvindu háskólanema, og þar með aukinni skilvirkni og betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu. Námsaðstoð ríkisins verður gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verður efld og jafnræði mun aukast milli námsmanna. Þá veitir nýja fyrirkomulagið lánþegum meira frelsi til að velja hvernig þeir haga sínum lánamálum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Meðal helstu breytinga í frumvarpinu:

Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstóli námsláns þeirra. Styrkurinn er í formi niðurfellingar sem kemur til framkvæmda að námi loknu.

Námsstyrkur verður veittur vegna framfærslu barna lánþega.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búa og starfa í brothættum byggðum.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega vegna tiltekinna námsgreina, svo sem starfs- og verknáms eða kennaranáms.

Endurgreiðslutími námslána er almennt háður lántökufjárhæð en námslán skal ávallt vera að fullu greitt á 65. aldursári lánþega. Námslán greiðast með mánaðarlegum afborgunum í stað tveggja afborgana á ári hverju. Ljúki lánþegi námi fyrir 35 ára aldur getur hann valið hvort endurgreiðslan sé tekjutengd eða með jöfnum greiðslum.

Nýmæli er að lánþegar geta valið við námslok um hvort þeir endurgreiði námslán með óverðtryggðu eða verðtryggðu skuldabréfi.

Framfærsla námsmanna verður almennt sú sama á Íslandi og erlendis. Veitt er heimild til stjórnar SÍN um að bæta við staðaruppbót til erlendra lánþega í úthlutunarreglum sjóðsins, þ.e. viðbótarláni sem miðast við kostnað og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.

Frumvarpið mun leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Það er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem lengi hefur staðið yfir. Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, á 141. löggjafarþingi vorið 2013, og 145. löggjafarþingi vorið 2016. Athugasemdir sem bárust við þau frumvörp voru höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps.

***

Nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu:

Róttæk breyting – lægri skuldsetning – bætt námsframvinda – efld staða vegna félagslegra aðstæðna – aukið jafnræði – meira valfrelsi.

Categories
Fréttir

Úthlutun til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum

Deila grein

08/07/2019

Úthlutun til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum

Sigurður Ingi Jóhannssonsamgöngu– og sveitarstjórnarráðherra, hefur úthlutað styrkjum sem er ætlað að efla byggðir landsins. Úthlutað var til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum fyrir árið 2019 í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
Úthlutað var styrkjum að upphæð 71,5 milljónum króna til sjö verkefna á vegum sex landshlutasamtaka sveitarfélaga. Alls bárust 19 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 278 m.kr. fyrir árið 2019. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til ráðherra. Byggðastofnun annast umsýslu verkefnastyrkjanna.
Verkefnin sem hljóta styrk árið 2019 eru:

Gestastofa Snæfellsness. Verkefnið er styrkt um 10.000.000 kr. á árinu 2019, en hlaut 15 m.kr. styrk úr sama sjóði árið 2018.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi fær styrk til að efla Gestastofu Snæfellsness. Gestastofan gegnir lykilhlutverki við eflingu ferðaþjónustu á sunnanverðu nesinu. Þar verður miðlað upplýsingum og þekkingu um svæðið til ferðamanna. Styrkurinn nýtist til endurbóta á húsnæði og lagfæringa á umhverfi þess.
Þekkingarsetur í Skaftárhreppi. Verkefnið er styrkt um 17.500.000 kr. á árinu 2019 og um 25.000.000 kr. árlega árin 2020-2021, samtals kr. 67.500.000 kr.
Samtök sunnlenskra sveitarfélaga fá styrk til að undirbúa hönnun á þekkingarsetri á heimavist Kirkjubæjarskóla. Breyta á heimavistarálmu, ljúka hönnun og gera útboðsgögn fyrir nýbyggingu Erróseturs.
Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði. Verkefnið er styrkt um 17.500.000 kr. á árinu 2019 og 20.000.000 kr. árlega árin 2020-2021, samtals kr. 57.500.000 kr. Verkefnið hlaut 5 m.kr. styrk úr sama sjóði árið 2018.
Samtök sveitarfélaga á Austurlandi hljóta styrk fyrir tilraunaverkefni um byggðaþróun á sviði menningar, menntunar og atvinnusköpunar. Ráðast þarf í endurbætur á húsnæðinu Sköpunarmiðstöðvarinnar og nýtist styrkurinn til þessa þáttar.
Orkuskipti og bætt orkunýting í Grímsey. Verkefnið er styrkt um 5.200.000 kr. á árinu 2019.
Eyþing hlýtur styrk til að skoða fýsileika orkuskipta fyrir Grímsey. Markmiðið er að hætta brennslu jarðefnaeldneytis í Grímsey, framleiða rafmagn og hita með lífdísli, vind- og sólarorku.
Strandakjarni – undirbúningur og verkefnisstjórn. Verkefnið er styrkt um 4.300.000 kr. á árinu 2019.
Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að undirbúa þjónustumiðstöðvarinnar Strandakjarna er hugsuð fyrir fjölbreytta starfsemi undir sama þaki. Markmið verkefnisins er að standa undir þjónustu við íbúa með rekstri verslunar og annarri grunnþjónustu.
Vestfirðir á krossgötum – uppbygging innviða og atvinnulífs. Verkefnið er styrkt um 12.000.000 kr. á árinu 2019.
Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrk til að taka saman gögn til að byggja á ákvarðanatöku og stefnumótun varðandi þær breytingar sem framundan eru vegna samgöngubóta og breytinga í atvinnulífi, t.d. fiskeldi. Gera á viðhorfskönnun og greiningu á samfélagslegum áhrifum samgöngubóta og á áhrifum fiskeldis.
Hitaveituvæðing Óslandshlíðar, Viðvíkursveitar og Hjaltadals. Verkefnið er styrkt um 5.000.000 kr. á árinu 2019.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hlýtur styrk til að leggja stofnlögn hitaveitu og tengja borholu í Fljótum. Þannig verður miðsvæði Skagafjarðar tengt hitaveitu árið 2021, en það er eina svæðið í sveitarfélaginu sem ekki hefur hitaveitu.

Alls hafa 363,5 m.kr. verið ráðstafað til verkefnanna fyrir árin 2018-2021 en markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.
Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.

Categories
Greinar

Afkastamikið vorþing

Deila grein

08/07/2019

Afkastamikið vorþing

Árang­urs­ríkt vorþing er að baki með samþykkt margra fram­fara­mála sem munu hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið okk­ar. Þar af voru sjö frum­vörp samþykkt, ásamt einni þings­álykt­un­ar­til­lögu, sem snerta mennta-, menn­ing­ar- og vís­inda­mál á Íslandi.

Kenn­ara­starfið það mik­il­væg­asta

Kenn­ara­frum­varpið um mennt­un, hæfni og ráðningu kenn­ara og skóla­stjórn­enda við leik-, grunn- og fram­halds­skóla, varð að lög­um. Það er fagnaðarefni en með þeim er lög­fest­ur hæfnirammi um mennt­un og hæfni kenn­ara og skóla­stjórn­enda sem lýs­ir bet­ur þeirri hæfni sem kenn­ar­ar þurfa að búa yfir til sam­ræm­is við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Meg­in­mark­mið nýrra laga er að stuðla að sveigj­an­legra skóla­kerfi, sem verður nem­end­um og kenn­ur­um til hags­bóta. Við vilj­um að all­ir sem leggja stund á kennslu- og upp­eld­is­störf í leik-, grunn-, og fram­halds­skól­um hafi mennt­un í sam­ræmi við störf sín og ábyrgð. Þessi nýju lög eru fram­fara­skref í þá átt og munu þau skapa fleiri tæki­færi fyr­ir kenn­ara til þess að þróa sig í starfi, og stuðla að meiri sam­fellu og sam­starfi skóla­stiga.

Íslensk­an efld

Stjórn­völd hafa sett ís­lensk­una í önd­vegi. Sá ánægju­legi áfangi náðist á liðnu vorþingi að þings­álykt­un­ar­til­laga um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál hér á landi var samþykkt sam­hljóða. Í til­lög­unni er fjallað um alls 22 aðgerðir sem því tengj­ast en meg­in­mark­mið þeirra eru að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Það er mik­il­vægt að styrkja stöðu þjóðtung­unn­ar á tím­um örr­ar alþjóðavæðing­ar og tækni­bylt­inga. Í þessu mik­il­væga máli þurfa all­ir að leggja sitt af mörk­um: stofn­an­ir, at­vinnu­líf og fé­laga­sam­tök – og við öll. Við get­um, hvert og eitt okk­ar, tekið þátt í að þróa tungu­málið, móta það og nýta á skap­andi hátt.

Íþróttaum­hverfið ör­ugg­ara

Í kjöl­far #églíka-yf­ir­lýs­inga íþrótta­kvenna árið 2018 skipaði ég starfs­hóp sem fékk það hlut­verk að koma með til­lög­ur til að auka ör­yggi iðkenda í íþrótta- og æsku­lýðsstarfi. Afrakst­ur þeirr­ar vinnu má meðal ann­ars finna í frum­varpi um sam­skipta­full­trúa íþrótta- og æsku­lýðsstarfs sem var samþykkt sem lög frá Alþingi nú á vor­dög­um. Mark­mið nýju lag­anna er að íþrótta- og æsku­lýðsstarf sé ör­uggt um­hverfi þar sem börn, ung­ling­ar og full­orðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþrótt­ir eða æsku­lýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða rétt­ar síns vegna kyn­ferðis­legr­ar áreitni og of­beld­is sem þar kann að koma upp án ótta við af­leiðing­arn­ar. Það er kapps­mál okk­ar að tryggja ör­yggi iðkenda í íþrótta- og æsku­lýðsstarfi og sjá til þess að um­gjörð og aðstæður á þeim vett­vangi séu sem best­ar fyr­ir þátt­tak­end­ur og starfs­fólk.

Lýðskól­ar

Ný lög um lýðskóla voru samþykkt en hingað til hef­ur ekki verið lög­gjöf í gildi um starf­semi þeirra hér á landi. Lýðskól­ar vinna með lyk­il­hæfni skóla­starfs, líkt og kveðið er á um í aðal­nám­skrá fram­halds­skóla, svo sem náms­hæfni, skap­andi hugs­un, sjálf­bærni og lýðræðis­leg vinnu­brögð en meðal mark­miða þeirra sam­kvæmt frum­varp­inu verður að mæta áhuga og hæfi­leik­um nem­enda sem vilja átta sig bet­ur á mögu­leik­um sín­um og stefnu í lífi og starfi. Í dag starfa LungA-skól­inn og Lýðhá­skól­inn á Flat­eyri eft­ir hug­mynda­fræði lýðskóla og á for­svars­fólk þeirra lof skilið fyr­ir frjótt og gott starf. Við samþykkt frum­varps­ins varð mér hugsað hlý­lega til Jónas­ar Jóns­son­ar frá Hriflu, fyrr­ver­andi mennta­málaráðherra. Hann var talsmaður þess að hér á landi væri öfl­ugt og fjöl­breytt mennta­kerfi, þar sem meðal ann­ars væri lögð áhersla á rækt­un manns­and­ans og að nem­end­ur gætu öðlast aukið sjálfs­traust. Nýtt frum­varp um lýðskóla skap­ar svo sann­ar­lega um­gjörð utan um fjöl­breytt­ari val­kosti í ís­lensku mennta­kerfi og eyk­ur lík­urn­ar á að nem­end­ur finni nám við hæfi.

Vís­indaum­gjörð efld

Tvö frum­vörp urðu að lög­um sem bæta stoðkerfi rann­sókna og vís­inda á Íslandi og auka mögu­leika ís­lenskra vís­inda­manna í alþjóðlegu sam­starfi. Ný lög um op­in­ber­an stuðning við vís­inda­rann­sókn­ir auðvelda meðal ann­ars þátt­töku Rann­sókna­sjóðs í sam­fjár­mögn­un alþjóðlegra rann­sókna­áætl­ana og heim­ila að sér­stök stjórn verði sett yfir Innviðasjóð. Sam­eig­in­leg stjórn hef­ur verið yfir Rann­sókna­sjóði og Innviðasjóði þrátt fyr­ir að eðli sjóðanna sé tals­vert ólíkt. Rann­sókna­sjóður veit­ir styrki til ein­stakra rann­sókna­verk­efna á meðan hlut­verk Innviðasjóðs er að byggja upp rann­sóknainnviði á Íslandi en þeir eru nauðsyn­leg for­senda þess að hægt sé að stunda vís­inda­rann­sókn­ir. Rann­sóknainnviðir eru aðstaða, aðföng og þjón­usta sem vís­inda­menn nýta við rann­sókn­ir og til að stuðla að ný­sköp­un á fagsviðum sín­um. Ný lög um sam­tök um evr­ópska rann­sóknainnviði voru einnig samþykkt en þau munu meðal ann­ars auðvelda ís­lensk­um aðilum að sam­nýta rann­sóknainnviði með öðrum þjóðum, innviði sem ólík­legt væri að ís­lenskt vís­inda­sam­fé­lag gæti fjár­magnað eitt og sér.

Neyt­end­ur fá auk­inn rétt

Frum­varp um breyt­ingu á höf­unda­lög­um náði fram ganga en mark­mið þess er að tryggja að ein­stak­ling­ar sem ferðast milli landa inn­an Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins og dvelja þar tíma­bundið geti þar nýtt sér áskrift að sta­f­rænu efni sem þeir hafa keypt í sínu heimalandi. Þar er rétt­ar­bót og mikið fram­fara­skref fyr­ir neyt­end­ur.

Höf­und­ar­rétt­ur styrkt­ur

Þá voru lög um sam­eig­in­lega um­sýslu höf­und­ar­rétt­ar einnig samþykkt en þau fela meðal ann­ars í sér bætt starfs­um­hverfi rétt­hafa­sam­taka á sviði höf­und­ar­rétt­ar, sem telj­ast sam­eig­in­leg­ar um­sýslu­stofn­an­ir. Sam­eig­in­leg um­sýsla höf­und­ar­rétt­inda er mik­il­vægt úrræði til efna­hags­legr­ar hag­nýt­ing­ar fyr­ir fjölda rétt­hafa, inn­lendra sem er­lendra. Slík­ar stofn­an­ir fara með veru­leg­ar fjár­hæðir fyr­ir hönd rétt­hafa. Því er mik­il­vægt að regl­ur um slíka um­sýslu séu skýr­ar og gagn­sæj­ar og að þátt­taka rétt­hafa sé tryggð í öllu ákv­arðana­ferli.

Fleiri fram­fara­mál í far­vatn­inu

Fram­fylgd rík­is­stjórn­arsátt­mál­ans geng­ur vel. Líkt og yf­ir­ferðin hér að fram­an sann­ar hafa mörg þjóðþrifa­mál orðið að lög­um og fleiri slík eru á leiðinni í sam­ræmi við stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Ég hef nú þegar lagt fram frum­varp um stuðning við einka­rekna fjöl­miðla og frum­varp um sviðlist­ir sem verða kláruð á næsta þingi. Þá verður frum­varp um nýtt styrkja- og náms­lána­kerfi lagt fram á haust­dög­um ásamt nýrri mennta­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030. Ég þakka þeim fjöl­mörg­um aðilum sem komu að und­ir­bún­ingi þess­ara mik­il­vægu mála fyr­ir góða sam­vinnu og far­sælt sam­starf. Afrakst­ur þess­ar­ar góðu vinnu mun skila sér í betra sam­fé­lagi fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.

Categories
Fréttir

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Deila grein

08/07/2019

Hér er verið að brjóta lög um dýravelferð!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, vekur athygli á því að nú sé dýralæknalaust í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum, Súðavík, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð (svæði 3 skv. reglugerð 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum). Dýralæknir sá er hefur sinnt þessu svæði hefur sagt upp eftir farsælt starf um árabil oft við erfiðar aðstæður. Þetta kemur fram í grein Höllu Signýjar í Bæjarins besta 4. júlí sl.
Dýralæknir er forsenda þess að bændur og dýraeigendur geti haldið dýravernd. Eftirliti með dýravelferð og dýralækningum í dreifðum byggðum er sinnt með verktakasamningum. Dýravelferð og eftirlit er á hendi héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir fyrir vesturumdæmi situr í Borgarnesi og sinnir svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafirði að með töldum Vestfjörðum. Dýralæknar er starfa einir á stóru svæði, án afleysinga, allt árið um kring eru undir miklu álagi.
„MAST hefur á liðnum vikum tvívegis auglýst eftir dýralækni til að taka við þjónustusamningi á svæði 3 en engin viðbrögð hafa verið. Segir það kannski mikið um hvernig þessir samningar eru byggðir upp.“
„Það er tímabært að skoða þessi mál heildstætt og um allt land. Dýralækningar og eftirlit með dýravelferð á að vera hægt að vinna saman, skapa þannig eftirsótt störf og ákjósanleg starfsskilyrði fyrir dýralækna að sækja í. Vinna þarf að lausn í þessum málum og tryggja þannig dýravelferð um allt land,“ segir Halla Signý.

 

Categories
Greinar

Dýralæknaþjónusta á Vestfjörðum

Deila grein

05/07/2019

Dýralæknaþjónusta á Vestfjörðum

Nú er svo komið að dýralæknalaust er í fimm sveitarfélögum á Vestfjörðum. Í Súðavík, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð. Þessi svæði eru á þjónustusvæði 3, sem er skilgreining skv. reglugerð 846/2011 og snýr að dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum.

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir sinnti þjónustusamningi við dýraeigendur á þessu svæði, hún hefur sagt honum upp eftir farsælt starf um árabil oft við erfiðar aðstæður. Hafi hún þökk fyrir úthaldið.

Ofangreind reglugerð er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr í dreifðum byggðum og byggir á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

Dýravernd

Ef að bændur og dýraeigendur eigi að halda dýravernd verða þeir að hafa aðgang að dýralækni. Frá árinu 2011 var eftirliti með dýravelferð og dýralækningum skipt upp. Dýralækningar í dreifðum byggðum hefur verð sinnt með verktakasamningum og landinu verið skipt upp í tíu svæði. Dýravelferð og eftirlit er á hendi héraðsdýralæknis. Héraðsdýralæknir fyrir vesturumdæmi situr í Borgarnesi og sinnir svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Hrútafirði að með töldum Vestfjörðum

Það er ljóst að þjónustusamningar við dýralækna gerir vinnuumhverfi þeirra erfitt. Þeir starfa einir á stóru svæði án afleysinga allt árið um kring og gefur það augaleið að álagið er mikið. MAST hefur á liðnum vikum tvívegis auglýst eftir dýralækni til að taka við þjónustusamningi á svæði 3 en engin viðbrögð hafa verið. Segir það kannski mikið um hvernig þessir samningar eru byggðir upp.

Hvert eiga dýraeigendur þá að snúa sér?

Í þriðju grein reglugerðarinnar um dýralækningar í dreifðum byggðum segir að MAST sé heimilt að semja við dýralækna á öðrum svæðum um að sinna bráðaþjónustu á tilteknu þjónustusvæði sem ekki hefur tekist að tryggja almenna dýralæknaþjónustu. Það hefur ekki verið gert og geta því dýraeigendur á svæði 3, því ekki leitað til dýralæknis ef sjúkdómar eða slys ber að höndum. Þetta er ekki ásættanlegar aðstæður enda er hér verið að brjóta lög um dýravelferð.

Héraðsdýralæknar sinna dýraeftirliti og velferð, þeim er óheimilt að sinna dýralækningum. Við erum fámenn þjóð í stóru landi það er óþarfi að haga sér líkt og milljónaþjóð í jafn einföldu máli. Það er tímabært að skoða þessi mál heildstætt og um allt land. Dýralækningar og eftirlit með dýravelferð á að vera hægt að vinna saman, skapa þannig eftirsótt störf og ákjósanleg starfsskilyrði fyrir dýralækna að sækja i. Vinna þarf að lausn í þessum málum og tryggja þannig dýravelferð um allt land.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður 7. þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á Bæjarins besta 4. júlí 2019.

Categories
Fréttir

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Deila grein

05/07/2019

Börn eru í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir það „ánægjulegt að forsætisráðherra muni formlega leggja það fyrir ríkisstjórnina að þingmannanefnd um útlendingamál verði falið víðtækara hlutverk en nú er,“ í yfirlýsingu í dag.
„Þá fagna ég frumkvæði dómsmálaráðherra og tek af heilum hug undir mikilvægi þess að meiri áhersla verði lögð á að skoða framkvæmd laganna með tilliti til barna og að fulltrúi minn fái sæti við það borð,“ segir Ásmundur Einar.
„Undanfarna daga hafa málefni barna á flótta verið mikið til umræðu í þjóðfélaginu og ekki að ástæðulausu. Börn hafa sérstöðu í velflestum málaflokkum og þurfa á því að halda að við, hin fullorðnu, verndum þau svo best sem okkur er mögulegt. Með það að markmiði hef ég einmitt lagt áherslu í embætti á endurskoðun á þjónustu við öll börn á Íslandi. Í því samhengi skiptir uppruni barna ekki máli. Börn eru börn, hvaðan sem þau koma,“ segir Ásmundur Einar.
„Börn á flótta eru sérstaklega viðkvæmur hópur en í síðustu viku afhenti UNICEF á Íslandi mér skýrslu um verkefnið „HEIMA: móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnsins“. Þar koma fram ýmsar athugasemdir um móttöku og þjónustu við börn í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi, m.a. að bæta þurfi verkferla.
Það virðist sem við getum gert betur að þessu leyti og í því, eins og í öllu er varðar börn skal ávallt haft í huga hvað sé barni fyrir bestu.“

Categories
Fréttir

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Deila grein

05/07/2019

Til hamingju Ísland – Vatnajökulsþjóðgarður samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fagnar frábærri viðurkenningu að Vatnajökulsþjóðgarður hafi verið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO í yfirlýsingu í dag.
„Til hamingju Ísland,“ segir Líneik Anna, „þetta er einn af stóru sigrunum og frábær viðurkenning.“
„Vatnajökulsþjóðgarður varð ekki til á einni nóttu – í jafn umfangsmiklu verkefni verða óhjákvæmilega sigrar og töp. Undirbúningur umsóknar til UNESCO hófst á árinu 2016,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Deila grein

04/07/2019

Ekki sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 1 í gær og ræddi þar við Ágúst Ólafsson, fréttamann á Akureyri, m.a. um uppreksturinn en Þórarinn Ingi er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum.
Í viðtalinu var komið inn á umræðu um landgæði og ofbeit á sumum landsvæðum, í kjölfar skýrslu Ólafs G. Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, er ber heitið Á röngunni – alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt.
Ólafur G. Arnalds segir að skoðun gagna um umhverfisáhrif sauðfjárbeitar leiði í ljós að margt hafi farið úrskeiðis um framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt og þá einkum landnýtingarþátt verkefnisins. Gæðastýringin er liður í samningum sauðfjárbænda um stuðning við atvinnugreinina.
Fram kom hjá Þórarin Inga að landgæði væru ljómandi góð heilt yfir í Fjörðum. „Við höfum verið í verkefni í yfir tuttugu ár á heiðinni sem slíkri, á Leirdalsheiðinni, sem hefur skilað miklum árangri, en vissulega er þetta ekki þungamiðja í okkar beitarsvæði. Þarna erum við að græða upp landið, sem er einmitt það sem bændur gera alls staðar hringinn í kringum landið. Bændum er umhugað um það land sem er verið að nýta og gera sér grein fyrir því að ef gengið er of langt í beit eru menn að skerða rétt framtíðarinnar til að nýta landið.“
Þórarinn Ingi segir að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta. „Landið er víða uppblásið af öðrum völdum en vegna sauðkindarinnar. Það eru gríðarlegir hópar af gæsum, það ganga hreindýr laus o.s.frv. Við búum í landi þar sem veður eru válynd, svo ég tali ekki um allar þessar náttúruhamfarir, það er ekki bara sauðkindin sem á sök á því hvernig er fyrir komið. Vissulega var það hér áður fyrr að menn voru ekki að heyja það magn sem gert er í dag, búfjáreign var einnig miklu meiri, fé er núna um 450.000, en það voru milljón kindur hér upp úr 1980. Síðan er beitartími orðinn allt annar og mér gremst yfirleitt þessi umræða hjá þessum mönnum sem ég veit að eiga að vita betur. Staðan er ekki svona og það er á sumum stöðum alltaf farið á þetta svo kallaða „gosbelti“ og þar er verið að ráðast á bændur sem eiga það einfaldlega alls ekki skilið, vegna þess að þetta eru þeir bændur sem hafa staðið sig hvað allra best í að græða upp landið.“
„Það er ekki vænlegt til árangurs að sparka í þann sem hefur hingað til hugsað um landið,“ segir Þórarinn Ingi.
„Við sjáum árangur víða um land þar sem bændur hafa verið að græða upp landið og þeir sem vilja sjá það – sjá það. Það er búið að vinna þrekvirki heilt yfir á vegum bænda hringinn í kringum landið þar sem að á hefur þurft að halda í gegnum árin og fullyrði ég að það er þrekvirki, menn hafa lagt á sig ómældan tíma og vinnu í gegnum árin til þess að endurheimta það sem hefur farið í burtu vegna þeirra áhrifa sem nefnd voru hér að framan. Ekki eingöngu vegna sauðkindarinnar og þetta snýst ekki um það að græða upp fyrir beit – það er alls ekki þannig – menn eru að græða upp landið til þess að reyna að loka því,“ segir Þórarinn Ingi.
Áætlað er að á hverju ári séu 18.000-19.000 hektarar undir í uppgræðsluverkefnum  og eins er búið að friða mikið af landi í gegnum tíðina. „Þannig að menn skulu spara stóru orðin þegar er verið að ráðast á bændur og vinna málin frekar í sátt og samlyndi enda skilar það okkur árangri. Það skilar engum árangri að vera með upphrópanir og læti og dæma síðan heila stétt, heilt yfir um landið. Vissulega er það alltaf þannig að eitthvað má betur fara og við tökum að sjálfsögðu alltaf við ábendingum og viljum gera betur,“ segir Þórarinn Ingi, „og það má ekki gleyma því heldur að sum ár gengur ofboðslega vel, það er þá vegna þess að tíðarfarið hefur verið mjög hagstætt. Svo koma þurrkar, líkt og hefur verið núna og þá gengur þetta hægar og veðurfarið getur jafnvel eyðilagt margra ára starf.“

  • Morgunvaktin — Sauðfjárbændur um allt land eru þessa dagana að reka lambfé sitt á fjall til sumarbeitar. Þá þurfa sumir að fara tugi kílómetra á meðan öðrum dugir að reka kindur og lömb rétt út úr fjárhúsgirðingunni. Það er mikil útgerð sem fylgir upprekstrinum og oft þarf að kalla til auka mannskap, enda taka svona ferðir gjarnan einhverja daga. Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, er einn þeirra sem reka fé sitt úr Höfðahverfi í eyðibyggðina í Fjörðum – viðtalið hefst á 1:24:25 mínútu
Categories
Fréttir

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Deila grein

03/07/2019

Jarðgöng yfir í Gufunes eða lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík?

Starfshópur um Sundabraut á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið störfum og skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sundabraut hefur verið til skoðunar um árabil og í skýrslunni eru nokkrir valkostir vegnir og metnir. Í niðurstöðum hópsins eru tveir valkostir taldir koma til greina; jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík. Hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir.
„Sundabrautin myndi tengja uppsveitir borgarinnar betur saman milli Kjalarnes, greiða fyrir umferð fólks og vöruflutninga í gegnum höfuðborgarsvæðið og vera öryggisatriði ef kæmi til þess að rýma þyrfti stóran hluta borgarinnar á skömmum tíma,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
„Með hliðsjón af öllu ofangreindu leggur starfshópurinn til að unnið verði að frekari undirbúningi Sundabrautar í jarðgöngum. Leitað verði leiða til að lækka kostnað við göngin, endurskoða tengingar þeirra við hafnarsvæðið, Sæbraut og Gufunes til að hámarka þann fjölda sem myndi aka göngin í stað annarra leiða. Jafnframt verði unnið að undirbúningi þess að leggja Sæbraut í stokk við Vogabyggð sem að mati hópsins er eðlilegur undanfari Sundabrautar,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Categories
Greinar

Framtíð fjölmiðlunar

Deila grein

03/07/2019

Framtíð fjölmiðlunar

Í haust mun ég mæla fyrir frumvarpi um breytingu á fjölmiðlalögum. Það frumvarp markar tímamót fyrir einkarekna fjölmiðla hér á landi sem með því geta fengið opinberan fjárstuðning vegna öflunar og miðlunar frétta og fréttatengds efnis. Ljóst er að síðustu ár hafa rekstrarforsendur einkarekinna fjölmiðla hér á landi versnað til muna. Margar ástæður eru fyrir þeirri þróun svo sem örar tæknibreytingar og minnkandi auglýsingatekjur fjölmiðla samhliða breyttri neysluhegðun. Fjölmiðlafrumvarpið gerir ráð fyrir tvíþættum stuðningi til þess að mæta þeirri þróun en með frumvarpinu er leitast við að Ísland skipi sér í hóp hinna Norðurlandanna og fleiri ríkja í Evrópu sem þegar styrkja einkarekna fjölmiðla.

Fjölmiðlar gegna þýðingarmiklu hlutverki við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Markmið þessarar aðgerðar er þannig bæði að efla fjölmiðlun hér á landi vegna mikilvægis hennar fyrir þróun lýðræðis í landinu og þróun tungumálsins. Fjölmiðlar eru lykilþátttakendur í því sameiginlega hagsmunamáli okkar að efla íslenskuna og fá fólk til að fylgjast með samfélagsumræðu á sínu eigin tungumáli. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumsamið, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir höfuðmáli til að viðhalda tungumálinu.

Við viljum skapa frjóan jarðveg fyrir fjölbreytta flóru fjölmiðla hér á landi. Fjölmiðlafrumvarpið byggir á ítarlegri undirbúningsvinnu og var unnið með aðkomu margra sérfræðinga, fulltrúa hagsmunaaðila og annarra flokka. Með nýjum lögum verður til styrkjakerfi sem verður einfalt og fyrirsjáanlegt. Ávinningur þess verður einnig styrkari ritstjórnir og aukið gagnsæi á fjölmiðlamarkaði. Við lifum á spennandi tímum sem einkennast af örum breytingum. Fjölmiðlar verða að hafa tækifæri til þess að mæta þeim breytingum og þróast með þeim. Nýtt fjölmiðlafrumvarp styður við grundvallarstarfsemi þeirra, öflun og miðlun vandaðra frétta og fréttatengds efnis.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júlí 2019.