Categories
Fréttir Greinar

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Deila grein

11/01/2024

Venjulegt fólk og afborgun lána við núverandi aðstæður

Verðbólga og háir vextir hafa áhrif á samfélagið allt þar sem byrðar fólks og fyrirtækja þyngjast með hverjum deginum. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá nokkrum að stjórnmálin um heim allan eru með vindinn í fangið þessi misserin. Hækkanir á hækkanir ofan dynja á almenningi víða um heim og við hér á Íslandi erum ekki undanskilin og finnum fyrir þeim. Þá gildir einu hvort við séum að horfa á húsnæðislánin okkar, matarkörfuna, tryggingarnar eða hvað eina annað. Afleiðingar af þessum hækkunum eru að almenningur í landinu fær minna fyrir krónurnar sínar.

Við höfum oft og tíðum rætt um „venjulegt“ fólk og hina „venjulegu“ fjölskyldu; fólkið sem af einhverjum ástæðum fellur oft á milli skips og bryggju í hinni daglegu umræðu. Hér er um að ræða hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli, hver sem ástæðan er fyrir því, hvort sem það er vegna þess að sá hópur telst ekki vera í viðkvæmri stöðu eða til minnihlutahóps. Hann hefur ekki hátt og er í raun nokkuð ósýnilegur ef svo má segja. Hann mætir til vinnu, hugsar um fjölskylduna, eldar matinn og borgar reikninga. Þessa hversdagslegu hluti og lífið gengur sinn vanagang dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Líkt og hamstur í hjóli.

Við teljum að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta haft hátt um stöðuna eða telja sig jafnvel ekki eiga rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki meðal þeirra tekjulægstu, en eru ólík og bera oft mikið álag. Þetta er hópurinn sem heldur samfélaginu á gangandi og það er því til mikils að vinna að grípa inn í og létta undir þeim sem þyngstar bera byrðarnar í því árferði sem nú geisar.

Hvalrekaskattur – „við og þið“ eða „við og hinir“

Okkur hefur verið það tíðrætt síðustu mánuði að ef við ætlum okkur að ná tökum á ástandinu þurfa allir að taka þátt í því verkefni. Að taka þátt þýðir m.a. að stíga ölduna með fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Við erum að sjá mikinn hagnað viðskiptabankanna þriggja þar sem bæði þjónustutekjur og vaxtatekjur þeirra eru að hækka umtalsvert. Þetta er tilkomið vegna þess að vaxtabyrði „venjulegs“ fólks er að aukast. Það er ekki annað að skynja á umræðunni að upplifun fólks sé sú að hér á landi sé að skapast samfélag sem megi kalla „við og þið“ eða „við og hinir“. Við fréttir sem þessar verður það upplifun fólks, sem alls ekki má vanmeta, að hér séu ekki allir að taka þátt og leggja sitt að mörkum til að rétta skútuna og það er vont að finna fyrir þeirri tilfinningu. Almenningur er að taka á sig auknar byrðar með ýmsum hætti og það gengur ekki að hér séu aðilar, stórfyrirtæki og aðrir, sem halda að þeir séu eyland í þessu samfélagi sem við byggjum saman. Við erum í tímabundnu ástandi, sem kallar á óvenjulegar tímabundnar aðgerðir. Af þessari ástæðu teljum við það koma vel til greina að skattleggja hagnað og arðgreiðslur alveg sérstaklega og styðja enn markvissari hætti við þá hópa sem nú standa í miðjum ólgusjó. Annað er hreinlega ósanngjarnt.

Gerð langtíma kjarasamninga

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu til lengri tíma er óumdeilanlega að ná niður vöxtum.

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Þar teljum við meðal annars nauðsynlegt að rýna í stöðu barnafjölskyldna á Íslandi með það að markmið að skoða með hvaða hætti og hvaða aðgerðum er hægt að beita til að koma enn betur til móts við þann þunga róður sem margar fjölskyldur standa frammi fyrir þessa stundina. Það er staðreynd að við þurfum að einbeita okkur betur að barnafjölskyldum. Það er hreinlega lýðheilsumál, því ekki viljum við sjá þennan aldurshóp brenna upp í báða enda fyrir fimmtugt sem yrði samfélagslega mjög dýrt.

Húsnæðismarkaður í jafnvægi

Líkt og fyrr segir þá heldur enginn hér á fríspili; ekki ríkið, ekki sveitarfélög, ekki Seðlabankinn og ekki fyrirtækin í landinu. Ábyrgðin er okkar allra. Rörsýn Seðlabankans hefur verið of mikil og of mikill skortur er á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og þora að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár. Vaxtahækkanir Seðlabankans hafa haft verulega neikvæð áhrif á framboðshlið húsnæðis og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á öðrum enda. Annars vegar er dýrt að byggja íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er erfitt að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og hefur letjandi áhrif á uppbyggingaraðila og þar með fasteignamarkaðinn sem er alls ekki það sem við þurfum núna. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

Snjóhengja kynslóða er að myndast sem mun svo á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn, stíflan mun bresta og þá, ef ekki verður gefið vel í með annars vegar opinberum aðgerðum líkt og innviðaráðherra hefur ráðist í með aðgerðum í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin, og hins vegar á almennum byggingamarkaði. Þurfum að þora að taka ákvarðanir sem byggja á framtíðarsýn því ef við stígum ekki þessi nauðsynlegu skref þá munum við sjá skarpari sveiflu með tilheyrandi neikvæðum áhrif á landsmenn en þær sem við þegar þekkjum og erum að reyna að komast út úr.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar  
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 10. janúar 2024.

Categories
Greinar

Vilja Íslendingar vera upp á aðra komnir í matvælaframleiðslu?

Deila grein

11/01/2024

Vilja Íslendingar vera upp á aðra komnir í matvælaframleiðslu?

Landbúnaður hefur fylgt íslensku þjóðinni í örófi alda, Ísland er eyríki í Norður-Atlantshafi og er um 103.000 km² að stærð, næststærsta eyja Evrópu á eftir Bretlandi og sú átjánda stærsta í heimi. Á Íslandi búa tæp 400.000 mann. Nú blasir við að ófriður hefur brotist út í Evrópu sem sér ekki fyrir endann á. Ef til frekari átaka kemur getur það skeð að viðskiptarhöft og flutningar hingað til lands geta raskast, einnig ber að nefna það að í gegnum stríðstíma hafa þjóðir flutt minna út af vörum til að tryggja byrgðir sinnar þjóðar á slíkum tímum.

Undanfarin ár hefur íslenskur landbúnaður átt undir högg að sækja og er í raun sótt að honum úr mörgum áttum. Meðalaldur íslenskra bænda er um 60 ár og nýliðun í bændastéttinni lítil, þungt rekstar umhverfi og aukinn innflutningur á kjöti erlendis frá gerir bændum mjög erfitt fyrir.

Tölurnar tala sínu máli
Árið 2022 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 7.408 tonn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í framleiðslu á þessu ári 2023 og að framleiðslan fari niður í 7.205 tonn.

Árið 2017 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 9.206 tonn. Frá þeim tíma hefur framleiðsla dregist saman um nær 1.986 tonn, eða 22%. Yfir sama tímabil hefur sauðfé fækkað um 108.000 vetrar fóðraðir ær, eða 23%.

Á sama tíma hefur innflutningur á lambakjöti færst í mikinn vöxt hérlendis. Fjögur fyrirtæki skiptu með sér tollkvóta fyrir innflutning á 345.000 kg af kinda- eða geita- kjöti á tímabilinu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023.

Meðalverð tollkvótans var ein króna. Stjörnugrís ehf. fékk úthlutað 280.929 kg, Ekran ehf. fékk 40.000 kg, Innnes ehf. 20.000 kg og Samkaup 4.071 kg.

Á tímabilinu frá júlí 2022 til og með febrúar 2023 hafa 14.606 kg af kinda- eða geitakjöti verið flutt hingað til lands, langmest, eða 14.209 kg, frá Spáni. Frá árinu 2016 hefur framleiðsla á dilkakjöti á íslandi dregist saman um 20%

Brostið fæðuöryggi
Gunnar Þorgeirsson, Formaður Bændasamtakanna hefur bent á brostið fæðuöryggi þjóðarinnar á stríðstímum hann talar um að það séu til matvæli sem myndu duga í níu daga komi eitthvað alvarlegt ástand upp í landinu.

Graf alvarleg staða blasir við í þessum efnum, við þurfum með miklu sterkari hætti að stuðla að eflingu íslensk landbúnaðar.  Þingmenn þessarar þjóðar þurfa að setja málefni sem snerta fæðuöryggi og hagsæld bænda á dagskrá og standa vörð um sérstöðu landbúnaðar hérlendis, þannig má tryggja dreifða búsetu um land allt og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist í Bændablaðinu 11.janúar 2024.

Categories
Fréttir

Ný þjóðarhöll

Deila grein

10/01/2024

Ný þjóðarhöll

Stofnað hefur verið félag sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, Þjóðarhöll ehf.

„Í dag áttu sér stað mikil tímamót þegar formlega var stofnað til félags sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar. Með byggingu nýrrar þjóðarhallar stórbætum við aðstöðu fyrir afreksíþróttafólk okkar og notendur auk þess sem við aukum samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Fyrsta verk Þjóðarhallar ehf. er að efna til forvals og  samkeppni um hönnun og byggingu þjóðarhallarinnar. Auk þess  tekur félagið við verkefnum framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem lætur af störfum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um stofnun félagsins í dag.

Stórbætt aðstaða fyrir alþjóðlega keppnisviðburði, íþróttafélög og skólabörn

Í samningnum er byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000m2 að stærð. Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika. Til samanburðar rúmar Laugardalshöll 5.500 gesti hið mesta.

Einhugur ríkir um að mannvirkið muni nýtast vel sem þjóðarhöll í íþróttum og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra keppnisviðburða. Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstöðu fyrir íþróttafélög og skóla í nágrenni Laugardals fyrir kennslu, skólaíþróttir, æfingar og keppni. Þá verður þjóðarhöllin mikilvæg miðstöð fyrir afreks- og almenningsíþróttir og mun nýtast fyrir viðburði tengdum menningu og atvinnulífi.

Kostnaður í samræmi við notkun

Eignarhlutur ríkisins við stofnun félagsins er 55% og eignarhlutur Reykjavíkurborgar er 45%. Kostnaðarskiptingin byggist á úttekt á þörfum hvors aðila fyrir sig á notkun þjóðarhallarinnar.

Stofnun félagsins um byggingu þjóðarhallar byggist á viljayfirlýsingu milli ríkis og Reykjavíkurborgar frá 6. maí 2022, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar. Hann byggist einnig á heimild í fjárlögum fyrir 2024 um stofnun félags um þjóðarhöll og upplýsingum úr frumathugun framkvæmdanefndar um þjóðarhöll í Laugardal sem kynnt var þann 16. janúar 2023.  

Mikilvæg uppbygging til framtíðar

Laugardalshöll hefur þjónað þjóðinni vel en uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Tímabært er að ráðast í hönnun á nýju mannvirki, uppbyggingu til framtíðar sem eykur samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu. Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður áfram í Laugardalnum með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru.

Ný þjóðarhöll Tímamót í sögu íþrótta á Íslandi áttu sér stað í dag þegar við Katrín Jakobsdóttir, Þórdís Kolbrún…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 10. janúar 2024
Categories
Fréttir

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Deila grein

10/01/2024

Börn búi við öryggi án ofbeldis og ógnar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldi.

Markmið tillögunnar er að ganga enn frekar í miðlun upplýsinga. Að „núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum og heilbrigðisyfirvöldum sem og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu, ávallt með það að leiðarljósi að tryggja persónuverndarsjónarmið hvað miðlunina varðar“.

Tillögugreinin hljóðar svo:

    „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í desember 2023.

Tilkynningar þolenda til lögreglu um heimilisofbeldi koma síður fram enda gerandinn oft nákominn. Eins á það við í smærri samfélögum þar sem allir þekkja alla og verið þungbært fyrir þolenda að tilkynna um heimilisofbeldi. Mikilvægt er að stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð.

„Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. Til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Það er breið pólitísk samstaða um málið og við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að við grípum styrkum höndum utan um þennan viðkvæma hóp og brjótum upp ákveðinn vítahring sem myndast hefur í þessum málum. Við höfum verið að stíga stór og stöndug skref í áttina að því að bæta verkferla hjá lögreglu og þá hefur einnig verið gripið til mikilvægra réttarúrbóta fyrir þolendur ofbeldis. Baráttunni er þó ekki lokið og við erum enn að sjá allt of háar tölur um tíðni heimilisofbeldis,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Ég bind miklar vonir við að við getum tryggt þessu máli framgang og auðveldað þá upplýsingamiðlun sem hér um ræðir því að við verðum að skapa þær forsendur í okkar samfélagi fyrir fjölskyldur og fyrir börnin okkar að þau búi við öryggi. Þau eiga að njóta þeirra grundvallarréttinda að búa við öryggi án ofbeldis og ógnar á þeim stað sem á að vera friðhelgur griðastaður. Við eigum öll þann skilyrðislausa rétt skilið,“ sagði Hafdís Hrönn.


Categories
Fréttir Greinar

Dreifingu fjölpósts hætt

Deila grein

09/01/2024

Dreifingu fjölpósts hætt

Íslandspóstur ákvað að hætta alfarið að dreifa fjölpósti við upphaf árs 2024. Fyrir fjórum árum var hætt að dreifa fjölpósti á suðvesturhorni landsins. Íbúar á því svæði urðu þó ekki varir við það enda er þar virk samkeppni um verkefnið og önnur fyrirtæki tóku að sér að dreifa fjölpósti. Það má hins vegar ætla að víða í dreifbýli og á minni þéttbýlisstöðum muni enginn grípa boltann. Því muni íbúum ekki lengur berast fjölbreytt efni sem hingað til hefur verið dreift með fjölpósti.

Pósturinn segir í tilkynningu að þessi ákvörðun sé í takt við umhverfisstefnu Póstsins og þar með sé verið að draga úr sóun og losun koltvísýrings. Vissulega er það þannig að þeim fækkar sem senda frá sér fjölpóst en nýta þess í stað rafræna miðla til að koma upplýsingum á framfæri. Það er þó erfitt að koma auga á umhverfisábata þar sem landpóstar munu eftir sem áður keyra um dreifbýlið tvisvar í viku.

Sparnaður á kostnað íbúa í dreifbýli eða tekjutap póstsins?

Það er ekki nóg að vísa til umhverfisstefnu þegar kemur að slíkri þjónustuskerðingu á landsbyggðinni. Í nóvember fóru fulltrúar Framsóknar í umhverfis og samgöngunefnd Alþings fram á að nefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um forsendur ákvörðunar Íslandspóst, um að hætta alfarið dreifingu fjölpósts þann 1. janúar 2024. Nefndin óskaði í framhaldi eftir upplýsingum um hvað þessi ákvörðum myndi spara félaginu, annars vegar við að hætta dreifingu fjölpósts í dreifbýli og hins vegar í þéttbýli með 1000 eða færri íbúum. Svarið sem barst var að fyrirtækið sjái ekki ástæðu til að taka saman þær upplýsingar sem beðið var um og vísar til þess að um sé að ræða upplýsingar sem Alþingi eigi ekki rétt á þar sem fyrirtækið væri nú opinbert hlutafélag.

Í tengslum við fyrirspurnina bendir Íslandpóstur á að dreifing fjölpósts fellur ekki undir alþjónustu, sem Íslandspósti er skylt að veita um land allt skv. lögum. Ákvörðun um hvort dreifa eigi fjölpósti eða ekki, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu, þéttbýli eða dreifbýli á landsbyggðinni er því í öllum tilvikum rekstrarleg ákvörðun sem tekin er af stjórn og stjórnendum félagsins. Þessi ákvörðun félagsins sætir því engri sérstakri ytri skoðun, og gildir þá einu hvort um er að ræða Byggðastofnun eða Alþingi.

Dreifum gleðinni

Eitt að slagorðum Íslandspósts er „Dreifum gleðinni“ og hlutverk hans er að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög. Samkvæmt lögum veitir Íslandspóstur viðskiptavinum alhliða póstþjónustu, óháð staðsetningu og framtíðarsýnin er að vera fyrsta val viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu. Íslandspóstur er opinbert fyrirtæki og starfar undir lögum um póstþjónustu. Skylda Póstsins er að veita alþjónustu sem nær til bréfa allt að 2 kg og pakka allt að 10 kg innan lands. Þannig að dreifing fjölpósts fellur ekki þar undir. Eftir breytingarnar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingarefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu og kostar því bæði meira að undirbúa sendingar og dreifa þeim. Íslandspóstur dreifir því „fjölpósti“ en gjaldskráin hefur hækkað að því marki að það borgar sig varla að nýta sér þá þjónustu þar sem kostnaðurinn eykst um allt að 600%.

Gleðin daprast þegar ákvörðunin kemur sannarlega niður á þeirri þjónustu sem Pósturinn hefur veitt s.s. við dreifingu héraðsfréttamiðla og Bændablaðsins. Það fer að þrengjast um rekstur slíkra miðla þegar það svarar engan veginn kostnaði að dreifa þeim til lesenda og ólíklegt að þeir nýti póstinn til þess áfram. Hvort skyldi ríkisjóður nú þurfa að greiða minna eða meira með rekstri Íslandspósts eftir þessa ákvörðun?

Dreifum menningu og upplýsingum

Það er staðreynd að bréfapósti hefur fækkað mikið en það má ekki koma niður á þeirri þjónustu sem er þó enn nýtt. Það er mikilvægt hlutverk póstsins að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög og veita þjónustu óháð staðsetningu. Að tengja saman fólk og samfélög er að miðla upplýsingum og fréttum það er m.a. gert með svæðisbundnum miðlum. Félagssamtök gefa einnig út blöð og bæklinga og svo ekki sé talað um blöðunga sem er dreift fyrir kosningar. Þar eru mikilvægar upplýsingar sem þurfa að komast til fólks.

Það er mikilvæg að dreifa gleðinni, upplýsingum og fréttum. Pósturinn hefur staðið sig vel í því hlutverki í aldir og það er mikilvægt að missa ekki sjónar af því. Pósturinn þarf líka að svara því hvað þessi ákvörðun skiptir miklu í rekstrarlegu tilliti og hvað sparast í útblæstri við ákvörðunina. Við hin getum alveg reiknað út hvað þetta þýðir í þjónustuskerðingu fyrir hinar dreifðu byggðir.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Deila grein

09/01/2024

Lægri vextir eru stærsta kjarabótin

Það hef­ur ekki dulist nein­um að há verðbólga og vext­ir hafa komið illa við fólk og fyr­ir­tæki á síðustu miss­er­um. Það er því til mik­ils að vinna að ná verðbólg­unni niður og skapa þannig skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Há verðbólga gerði vart við sig í kjöl­far heims­far­ald­urs­ins í fjöl­mörg­um ríkj­um með til­heyr­andi áskor­un­um fyr­ir hag­stjórn. Ísland fór ekki var­hluta af þeirri þróun í heims­bú­skapn­um þar sem hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa fram­kallað mikl­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn sér ekki fyr­ir end­ann á þeim.

Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu.

Það er göm­ul saga en ekki ný að há verðbólga bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Helsta keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar hér­lend­is er að ná tök­um á verðbólg­unni. Hún hef­ur vissu­lega lækkað frá því að hún mæld­ist hæst 10,2% í fe­brú­ar­mánuði 2023, en í dag mæl­ist hún 7,7%. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að háir stýri­vext­ir Seðlabank­ans séu farn­ir að bíta en á ár­inu 2023 slógu þeir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama tíma og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Þá var sam­drátt­ur í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Hag­kerfið kom af mikl­um krafti út úr far­aldr­in­um og mæld­ist hag­vöxt­ur ríf­lega 7% á ár­inu 2022 og fór viðskipta­jöfnuður úr skorðum. Á þessu ári er spáð meira jafn­vægi í þess­um efn­um með tæp­lega 3% hag­vexti og já­kvæðum viðskipta­jöfnuði.

Næstu vik­ur skipta höfuðmáli í glím­unni við verðbólg­una en ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar eru nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar er stóra breyt­an kom­andi kjara­samn­ing­ar sem nú er unnið að. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um. Rík­is­stjórn­in stóð fyr­ir aðhalds­söm­um fjár­lög­um, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir taka­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Það hef­ur einnig verið já­kvætt að sjá fleiri sveit­ar­fé­lög draga úr boðuðum gjald­skrár­hækk­un­um, nú síðast Hvera­gerðis­bær sem mun hækka gjald­skrár um 2,5% í stað 8% eins og boðað hafði verið.

Í þessu verk­efni verða all­ir að leggja sitt af mörk­um enda mikið í húfi. Það er samt sem áður til­efni til bjart­sýni í ljósi þess já­kvæða tóns sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins. Það er mik­il­vægt að vinna áfram í þeim anda og stuðla að því að skrifað verði und­ir lang­tíma­kjara­samn­inga sem skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta, en í því felst stærsta kjara­bót­in fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2024.

Categories
Fréttir

Þingstörf á haustþingi

Deila grein

08/01/2024

Þingstörf á haustþingi

Þingfundum Alþingis, 154. löggjafarþings, var frestað 16. desember en það hóf störf 12. september sl.. Þingfundir voru samtals 55 og stóðu í rúmar 247 klst. og voru þingfundadagar alls 46.

Þinghaldi Alþingis er skipt í þrjú tímabil, haustþing, vetrarþing og vorþing. Haustþing er frá því að þing kemur saman aðra vikuna í september og stendur fram að jólum. Vetrarþing hefur verið frá miðjum janúar og fram að páskum. Vorþing hefst eftir páska og er fram í júní.

Hér að neðan er samantekt á þingstörfum þingmanna Framsóknar á þessu haustþingi.

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður,

á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd, framtíðarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hefur hann flutt alls 35 ræður á þessu þingi og talað í 3,5 klst.

Ágúst Bjarni hefur lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar, um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks, um að koma upp klasa opinberra fyrirtækja og stofnanna og um að kom á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.

  • Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.
    Tillagan gengur út á að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðanda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
  • Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana.
    Tillagan gengur út á að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögu að uppbyggingu klasa opinberra fyrirtækja og stofnana. Markmið starfshópsins verði að koma opinberum fyrirtækjum og stofnunum fyrir á sama stað til þess að ná fram rekstrarlegri hagræðingu og öðrum samlegðaráhrifum. Unnið verði að uppbyggingu slíks klasa í nánu samstarfi við einkaaðila og sveitarfélög.
  • Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.
    Tillagan gengur út á að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa. Markmiðið er að kom á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þarfir þeirra í huga.

Yfirlit yfir greinarskrif Ágústs Bjarna frá því í haust:


Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður,

á sæti í utanríkismálanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2021. Hefur hún flutt alls 14 ræður á þessu þingi og talað í 47,05 mínútur.

Hafdís Hrönn hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á lögum um ættleiðingar (ættleiðendur) og þrjár tillögur til þingsályktunar, um bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði, um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD og um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.

  • Breyting á lögum um ættleiðingar (ættleiðendur).
    Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það, geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá. Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.
  • Bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði.
    Tillagan gengur út á að fela innviðaráðherra að stofna starfshóp sem hafi það að markmiði að greina og koma með tillögur um hvernig bæta megi vegasamgöngur yfir Hellisheiði svo að ekki þurfi að koma til ítrekaðra lokana yfir vetrarmánuði.
  • Ókeypis fræðsla og þjálfun foreldra barna með ADHD.
    Tilllagan gengur út á að fela mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á fót fræðslu og þjálfun foreldra barna, allt að 16 ára, með ADHD strax við greiningu. Fræðslan og námskeiðin standi til boða þeim að kostnaðarlausu.
  • Upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál.
    Tillagan gengur út á að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Yfirlit yfir greinarskrif Hafdísar Hrannar frá því í haust:


Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður,

á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Hún hefur flutt alls 26 ræður á þessu þingi og talað í 2 klst.

Halla Signý hefur lagt fram sex tillögur til þingsályktunar, um aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga, um eignarhald í laxeldi, um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis, um endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir, um flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og um miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.

  • Aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga.
    Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga.
  • Eignarhald í laxeldi.
    Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að: a. koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum, b. skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
  • Endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis.
    Tillagan gengur út á að fela innviðaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og matvælaráðherra að skipa starfshóp til þess að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi.
  • Endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.
    Tillagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir sem gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær.
  • Flutningur höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina.
    Tillagan gengur út á að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kanna á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.
  • Miðstöð íslenskrar þjóðtrúar á Ströndum.
    Tillagan gengur út á að fela menningar- og viðskiptaráðherra að beita sér fyrir því að stofnuð verði miðstöð íslenskrar þjóðtrúar í Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum. Stofnun miðstöðvar um íslenska þjóðtrú myndi efla vinnu við grunnrannsóknir í bland við markvissa miðlun með fjölbreyttum leiðum og jafnframt upplýsingaþjónustu á þessu sviði menningararfsins.

Yfirlit yfir greinarskrif Höllu Signýjar frá því í haust:


Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar,

á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd, Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES (formaður) og þingmannanefnd Íslands og ESB. Hún hefur flutt alls 24 ræður á þessu þingi og talað í 1,5 klst.

Ingibjörg hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (vernd gegn uppsögn vegna tæknifrjóvgunar) og þrjár tillögur til þingsályktunar, um aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri, um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld og um rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.

  • Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (vernd gegn uppsögn vegna tæknifrjóvgunar).
    Í breytingunni felst að það sé skýrt í íslenskum lögum að óheimilt sé að segja starfsmanni upp á því tímabili sem hann undirgengst tæknifrjóvgun og meðferðir þeim tengdar þar sem oft getur verið um að ræða langt og erfitt ferli. Frjósemismeðferðir geta tekið á bæði andlega og líkamlega og starfsmenn sem þurfa að undirgangast slíkar meðferðir hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda fyrir sig áformum sínum um að eignast barn og standa því höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem þeir freista þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.
  • Aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.
    Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að móta stefnu og aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri með tilliti til vísinda og mennta. Samhliða því markmiði verði stuðlað að bættri heilbrigðisþjónustu á upptökusvæði sjúkrahússins ásamt því að laða að sérhæft heilbrigðisstarfsfólk.
  • Einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld.
    Tillagan gengur út á að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.
  • Rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.
    Tilllagan gengur út á að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem rannsaki afturvirkt mögulegt orsakaferli, áföll, lýðfræðilegar breytur, komur/innlagnir á heilbrigðisstofnanir og breytingar í lífi einstaklinga í undanfara sjálfsvígs. Starfshópurinn skili skýrslu með tölfræði og tillögum að aðgerðum, bæði fyrirbyggjandi og í forvarnarstarfi til framtíðar. Tillagan er sett fram í kjölfar samtala við heilbrigðisstarfsfólk, m.a. við verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis.

Yfirlit yfir greinarskrif Ingibjargar frá því í haust:


Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður,

á sæti í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins og Íslandsdeild NATO-þingsins. Hann hefur flutt alls 42 ræður á þessu þingi og talað í 2 klst.

Jóhann Friðrik hefur lagt fram tvær tillögur til þingsályktunar, um heilsugæslusel í Suðurnesjabæ og um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf.

  • Heilsugæslusel í Suðurnesjabæ.
    Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að klára vinnu við að festa í sessi lýðheilsumat hér á landi. Sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis er leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.
  • Innleiðing lýðheilsumats í íslenska löggjöf.
    Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að hefja vinnu við að opna heilsugæslusel í Suðurnesjabæ í takt við stefnu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 2020–2023. Fjárframlög til stofnunarinnar taki mið af því verkefni svo að þjónustan geti hafist sem fyrst.

Yfirlit yfir greinarskrif Jóhanns Friðriks frá því í haust:


Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður,

á sæti í framtíðarnefnd (formaður), velferðarnefnd, atvinnuveganefnd og í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Hún hefur flutt alls 16 ræður á þessu þingi og talað í 43,34 mín.

Lilja Rannveig hefur lagt fram eina tillögu til þingsályktunar, um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára.

  • Ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára.
    Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að gera getnaðarvarnir aðgengilegar einstaklingum undir 25 ára þeim að kostnaðarlausu. Markmiðið er að ungt fólk verði gripið með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á almennt kynheilbrigði og lýðheilsu þjóðarinnar.

Lilja Rannveig var málshefjandi í sérstakri umræðu um slysasleppingar í sjókvíaeldi og var matvælaráðherra til andsvara.

Yfirlit yfir greinarskrif Lilju Rannveigar frá því í haust:


Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður,

á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál (formaður). Hún hefur flutt alls 60 ræður á þessu þingi og talað í 3,9 klst.

Líneik Anna hefur lagt fram þrjár tillögur til þingsályktunar, um fjarnám á háskólastigi, um nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóð ferðaþjónustunnar og um skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi.

  • Fjarnám á háskólastigi.
    Tillagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um frekari eflingu fjarnáms með áherslu á þróun stafrænna kennsluhátta á háskólastigi.
    Markmið vinnunnar verði að greina hvernig íslenskir háskólar geti ávallt verið í fremstu röð í notkun stafrænna kennsluhátta og þannig aukið aðgengi að námi og gæði alls náms, hvort sem nemandi stundar námið innan veggja háskóla eða í fjarnámi.
  • Nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.
    Tillagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að undirbúa stofnun nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóðs í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðherra.
    Markmið þingsályktunartillögunnar er að koma á fót nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóði til eflingar ferðaþjónustu. Tilgangur sjóðsins væri að efla íslenska ferðaþjónustu með því að tryggja fjármagn til rannsókna, og hagnýtingar rannsókna, með nýsköpun og þróun.
  • Skráning og bókhald vegna kolefnisbindingar í landi.
    Tillagan gengur út á að fela matvælaráðherra, í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að taka saman upplýsingar og skýra verklag við skráningu og bókhald kolefnisbindingar í landi sem umráðamenn lands þurfa að taka tillit til þegar þeir selja kolefniseiningar eða nýta þær til kolefnisjöfnunar í eigin rekstri.

Yfirlit yfir greinarskrif Líneikar Önnu frá því í haust:


Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður,

á sæti í fjárlaganefnd (formaður). Hann hefur flutt alls 46 ræður á þessu þingi og talað í 3 klst.

Stefán Vagn hefur lagt fram tvær tillögur til þingsályktunar, um stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi og um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

  • Stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi.
    Tillagan gengur út á að fela ríkisstjórninni að taka til frumathugunar stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi. Litið verði við þessa frumathugun til starfsemi Equinor í Noregi, fyrrum Statoil.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður,

á sæti í atvinnuveganefnd (formaður) og Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins. Hann hefur flutt alls 32 ræður á þessu þingi og talað í 2,7 klst.

Þórarinn Ingi hefur lagt fram frumvarp, um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (afurðastöðvar í kjötiðnaði) og fimm tillögur til þingsályktunar, um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða, um heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna, um leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitímabils, um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi og um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt.

  • Búvörulög (afurðastöðvar í kjötiðnaði).
    Í breytingunni felst að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar. Markmiðið með frumvarpinu er að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni að utan. Í alþjóðlegum samanburði eru innlendar afurðastöðvar í kjötiðnaði örsmáar og því ekki samkeppnishæfar við afurðastöðvar á erlendum mörkuðum sem eru mun stærri og hagkvæmari rekstrareiningar. Innlendur kjötiðnaður er engu síður í vaxandi samkeppni við afurðir af erlendum mörkuðum. Afurðastöðvum í kjötiðnaði er mjög óhægt um vik að sameinast þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lágu afurðaverði til bænda. Miðar frumvarpið að því að breyta því þannig að unnt sé að hafa yfirsýn yfir birgðastöðu og afurðastöðvar geti hagað framleiðslu sinni í samræmi við þarfir markaðarins.
  • Fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.
    Tilllagan gengur út á að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.
  • Heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna.
    Tilllagan gengur út á að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu við heildarendurskoðun á þjónustu og vaktakerfi dýralækna.
  • Leyfi til að veiða álft o.fl. utan hefðbundins veiðitíma.
    Tilllagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að útbúa tillögur um heimild til tímabundinna og skilyrtra veiða á eftirfarandi tegundum fugla utan hefðbundins veiðitíma þeirra.
    Leyfin verði veitt á þeim svæðum þar sem þörf er talin á aðgerðum vegna verulegs ágangs fugla á tún og kornakra.
    Ráðherra geri einnig stjórnunar- og verndaráætlun fyrir álftir og gæsastofna á Íslandi í samvinnu við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila.
  • Sérstök tímabundin ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.
    Tilllagan gengur út á að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi.
  • Þjóðarátak í landgræðslu.
    Tilllagan gengur út á að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráði við matvælaráðherra að koma fyrir lok árs 2023 á samstarfi stjórnvalda, bænda, Landgræðslunnar, atvinnulífs og almennings sem miði að því að auka þátttöku almennings í kolefnisbindingu með landgræðslu og hefja þar með þjóðarátak í landgræðslu.

Yfirlit yfir greinarskrif Þórarins Inga frá því í haust:

Categories
Fréttir Greinar

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Deila grein

08/01/2024

Sam­vinnu­verk­efni um lægri verð­bólgu og vexti

Jákvæður tónn var sleginn í kjaraviðræðum Samtaka atvinnulífsins og stærstu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði þegar sameiginleg yfirlýsing var send út nú rétt fyrir áramót. Í yfirlýsingunni er sérstaklega tiltekið mikilvægi þess að semja til lengri tíma svo auka megi fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þessi yfirlýsing er skynsamlegt innlegg í okkar mikilvægasta verkefni sem er að ná niður verðbólgu og háum vöxtum og hefur hvarvetna fengið jákvæð viðbrögð. Mesta kjarabótin fyrir fólk og fyrirtæki í landinu er óumdeilt að ná niður vöxtum.

Það er svo sannarlega ánægjulegt að finna hversu rík samstaða er á meðal aðila vinnumarkaðsins í þessu stóra verkefni því hér er enginn eyland ef svo má segja, heldur þurfa allir aðilar að taka þátt, allt samfélagið og þá gildir einu hvort horft sé til aðildarfyrirtækja SA, ríkis eða sveitarfélaga; allir þurfa að ganga í takt og sameinast um þetta mikilvæga verkefni svo vel takist til. Þetta finna allir og með jákvæðu viðhorfi til verkefnisins eru auknar líkur á að markmið okkar takist. Haldi þessi taktur áfram er nokkuð víst að við munum ná tökum á vöxtum og verðbólgu á þessu ári.

Hvað þarf til?

Það er til mikils að vinna að lenda farsælum langtímakjarasamningum. Þó svo að ríkisstjórnin eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni hafa aðilar vinnumarkaðarins kallað eftir því að stjórnvöld liðki fyrir gerð kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin krefst þess að ríkið auki útgjöld sín til barna-, húsnæðis- og vaxtabóta um 20-25 milljarða króna. Stjórnvöld hafa líkt og áður ríkan vilja til þess að koma að kjaraviðræðum með einhverjum hætti. Horfa má til þess að ríkisstjórnin hefur nú þegar komið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þegar kemur að almennum íbúðum og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmu húsnæði, en aðra hópa þarf nú að taka inn. Stjórnvöld hafa markvisst verið að auka framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga ásamt því að hækka húsaleigubætur. Þá hafa barnabætur hækkað og unnið er að fyrirkomulagi á greiðslu samtíma barnabóta.

Þessu til viðbótar er nauðsyn á samstilltu átaki þegar kemur að verð- og gjaldskrárhækkunum í samfélaginu en þar hefur ríkið stigið nokkuð varfærin skref á meðan sveitarfélögin mörg hver stigu stærri og verri skref. Það er þó jákvætt að heyra síðustu daga forystufólk hinna ýmsu sveitarfélaga taka jákvætt í þátttöku í þessu mikilvæga samvinnuverkefni og boða gjaldskrárlækkanir sem innlegg í gerð skynsamlegra langtímakjarasamninga. Gerum þetta saman, það er allra hagur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Deila grein

06/01/2024

Horfur í heimsbúskapnum 2024 og íslenska hagkerfið

Heims­bú­skap­ur­inn stend­ur á mik­il­væg­um tíma­mót­um um þess­ar mund­ir eft­ir tals­verðan darraðardans und­an­far­in fjög­ur ár. Mikl­ar vend­ing­ar hafa orðið í alþjóðahag­kerf­inu á þeim tíma sem á einn eða ann­an hátt hafa snert öll ríki í heim­in­um. Heims­far­ald­ur, hnökr­ar í aðfanga­keðjum, aukn­ar höml­ur og viðskipta­hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um ásamt stríðsátök­um hafa þannig fram­kallað stór­ar áskor­an­ir fyr­ir stjórn efna­hags­mála og enn er ekki séð fyr­ir end­ann á þeim. Þrátt fyr­ir þetta eru góð teikn á lofti með hækk­andi sól.

Já­kvæð þróun í heims­bú­skapn­um …

Það er ánægju­legt að sjá vís­bend­ing­ar um að áhrif fyrr­nefndra at­b­urða séu í rén­un. Þannig hef­ur verg heims­fram­leiðsla tekið bet­ur við sér en bú­ist var við og mæld­ist á þriðja árs­fjórðungi 2023 rúm­lega 9% meiri en fyr­ir heims­far­ald­ur, sam­kvæmt alþjóðlegri sam­an­tekt Fitch Rat­ings.

Það er einkum þrennt sem skýr­ir þessa þróun. Í fyrsta lagi hef­ur hin alþjóðlega aðfanga­keðja náð betra jafn­vægi eft­ir heims­far­ald­ur­inn, ásamt því að fyr­ir­tæki í Evr­ópu hafa getað brugðist bet­ur við verðhækk­un­um á orku frá Rússlandi en leit út fyr­ir í fyrstu.

Í öðru lagi hef­ur verðbólga hjaðnað hraðar en fyrstu spár bentu til. Verðbólga á heimsvísu var 8,9% í fyrra og spáð er að hún verði kom­in niður í 5,1% í árs­lok 2024. Hrávara hef­ur verið að lækka en óstöðugt orku­verð held­ur áfram að vera áskor­un. Verðbólga í mat­væl­um, allt frá hveiti til eld­unar­ol­íu, hef­ur hjaðnað.

Í þriðja lagi hafa vænt­ing­ar markaðsaðila verið mikl­ar um að alþjóðleg­ir vext­ir fari að lækka, sem myndi óneit­an­lega létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um. Þetta er að ger­ast þrátt fyr­ir fall svæðis­bund­inna banka í Banda­ríkj­un­um og fall Cred­it Suis­se sem vakti áhyggj­ur um fjár­mála­stöðug­leika. Á und­an­förn­um vik­um hafa fjár­mála­markaðir tekið veru­lega við sér. Þannig voru helstu vísi­töl­ur ná­lægt eða náðu nýj­um met­hæðum í lok árs 2023 og birt­ist það jafn­framt í sterkri stöðu skulda­bréfa­markaða.

Í Banda­ríkj­un­um eru all­ar lík­ur á að hag­kerfið nái mjúkri lend­ingu á þessu ári. Þannig tók banda­ríska hag­kerfið kröft­ug­lega við sér og virðist lítið lát þar á þrátt fyr­ir um­tals­verðar vaxta­hækk­an­ir, en vinnu­markaður og eft­ir­spurn í land­inu fór fram úr vænt­ing­um. Þannig voru hag­töl­ur fyr­ir þriðja árs­fjórðung vest­an­hafs mun sterk­ari en flest­ir markaðsaðilar gerðu var ráð fyr­ir, en um mitt síðasta ár var það ein­róma skoðun sér­fræðinga að vaxta­hækk­an­ir myndu leiða til stöðnun­ar á þessu ári.

Í Evr­ópu hef­ur vöxt­ur­inn verið minni, en þar setti orkukreppa strik í reikn­ing­inn. Þar hef­ur þó ríkt nokk­ur upp­gang­ur þrátt fyr­ir vaxta­hækk­an­ir. Hins veg­ar hafa ný­leg­ar töl­ur bent til stöðnun­ar eða sam­drátt­ar m.a. í Þýskalandi og er það áhyggju­efni fyr­ir evru­svæðið. Ný­markaðsríki og fá­tæk­ari lönd virðast koma bet­ur und­an áföll­um síðustu ára en nokk­ur þorði að vona, en bú­ist var við greiðslu­erfiðleik­um í kjöl­far far­ald­urs­ins og vaxta­hækk­ana í Banda­ríkj­un­um.

… en blik­ur halda áfram að vera á lofti

Alþjóðlega efna­hags­kerfið stend­ur engu að síður á mik­il­væg­um tíma­mót­um. Heims­bú­skap­ur­inn mót­ast af sam­spili stjórn­mála­legra og efna­hags­legra áhrifa. Síðustu miss­eri hafa ein­kennst af spennu á milli stór­velda og al­var­leg­um svæðis­bundn­um átök­um í Úkraínu, Mið-Aust­ur­lönd­um og Afr­íku. Í sam­skipt­um stór­velda skap­ar umrót á banda­lög­um áhættu fyr­ir heims­bú­skap­inn. Meðal helstu svæða sem horft er til eru Aust­ur-Evr­ópa, Mið-Aust­ur­lönd og Suður-Kína­haf, þar sem at­b­urðir á þess­um svæðum gætu mögu­lega raskað aðfanga­keðjum á ný, haft áhrif á viðskipta­stefnu og grafið und­an efna­hags­leg­um stöðug­leika í heims­bú­skapn­um.

Hag­vöxt­ur í Kína hef­ur verið und­ir vænt­ing­um eft­ir los­un covid-hafta og kunna þar að vera á ferðinni kerf­is­læg vanda­mál eft­ir mik­inn vöxt und­an­farna ára­tugi. Það er áhyggju­efni fyr­ir heims­bú­skap­inn þar sem Kína er með stærstu ríkj­um. Á sama tíma þarf að fást við lýðfræðileg­ar breyt­ing­ar í stór­um lönd­um þar sem ald­ur íbúa fer vax­andi. Á síðasta ári spratt fjórða iðnbylt­ing­in fram í öllu sínu veldi meðal ann­ars með gervi­greind­inni. Í því fel­ast gríðarleg tæki­færi en að sama skapi áskor­an­ir sem ríki heims verða að ná utan um í sam­ein­ingu. Þessu tengt er staða fjöl­miðla áfram erfið og hætta á að upp­lýs­inga­óreiða kunni að hafa áhrif á fram­vindu stjórn­mála og lýðræðis.

Síðustu vik­ur hafði ríkt bjart­sýni um að verðbólga væri í rén­un og að vext­ir yrðu lækkaðir hratt beggja vegna Atlantsála sem eins og áður seg­ir mátti greina á mikl­um upp­gangi skulda- og hluta­bréfa­markaða. Á allra síðustu dög­um hafa von­ir um hraða lækk­un vaxta hins veg­ar dvínað og má bú­ast við því að ekki hafi verið full inn­stæða fyr­ir þeirri bjart­sýni sem ríkt hef­ur á mörkuðum og lengri tíma gæti tekið að ná verðbólg­unni í mark­mið en markaðsaðilar hafa reiknað með, og gæti það sett strik í reikn­ing­inn varðandi hag­vöxt á þessu ári. Stjórn­völd og seðlabank­ar standa því enn frammi fyr­ir þeirri áskor­un að tak­ast á við að skapa jafn­vægi í ein­stök­um lönd­um í kjöl­far far­ald­urs­ins.

Þró­un­in hér­lend­is í okk­ar eig­in hönd­um

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af fyrr­nefnd­um darraðardansi í heims­bú­skapn­um. Hér hef­ur há verðbólga hins veg­ar reynst þrálát­ari en í lönd­un­um í kring­um okk­ur, þó svo að hún hafi fram­an af mælst sú næst­lægsta í Evr­ópu. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst okk­ur í hækk­andi stýri­vöxt­um sem eru helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands gagn­vart verðbólgu.

Á ár­inu 2023 slógu hækk­andi stýri­vext­ir á inn­lenda eft­ir­spurn á sama og mik­ill kraft­ur var í þjón­ustu­út­flutn­ingi, sem skýrðist aðallega af um­svif­um í ferðaþjón­ustu. Sam­drátt­ur varð í einka­neyslu á þriðja árs­fjórðungi eft­ir nokkuð kröft­ug­an vöxt árs­fjórðung­ana þar á und­an. Spáð er að jafn­vægi ná­ist í viðskipt­um við út­lönd sem sag­an kenn­ir okk­ur að sé mik­il­vægt fyr­ir þjóðarbúið. Það skipt­ir miklu máli að út­flutn­ings­grein­arn­ar verði ekki fyr­ir frek­ari áföll­um, en jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesskaga fela vissu­lega í sér áskor­un. Gríðarleg­ar út­flutn­ings­tekj­ur eru skapaðar í Grinda­vík og ná­grenni! Hag­vaxt­ar­horf­ur sam­kvæmt spám eru ásætt­an­leg­ar eft­ir mik­inn vöxt 2022 og 2023. Brýn­asta hags­muna­mál þjóðfé­lags­ins er að ná niður verðbólgu og vöxt­um en það er mesta kjara­bót­in fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki í land­inu. Þó svo að Ísland sé ekki ónæmt eyríki í alþjóðahag­kerf­inu hvíla ör­lög verðbólguþró­un­ar­inn­ar nú að stór­um hluta í okk­ar eig­in hönd­um. Þar mun ábyrgð, raun­sæi og góð sam­vinna rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins ráða úr­slit­um.

Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp, þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem lækkuð var niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi. Hag­felld­ir kjara­samn­ing­ar til langs tíma munu ráða miklu um þróun verðbólg­unn­ar.

Það gleður mig að sjá þá breiðu sam­stöðu og þann já­kvæða tón sem kveður við í samn­ingaviðræðum aðila vinnu­markaðar­ins, enda er mikið í húfi fyr­ir okk­ur öll. Sé rétt haldið á spil­un­um er ég bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólgu og vexti lækka tals­vert á ár­inu 2024, sem mun gera okk­ur bet­ur í stakk búin til þess að halda áfram þeirri lífs­kjara­sókn sem við vilj­um sjá í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. janúar 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við höfum öll þörf fyrir að tjá okkur

Deila grein

05/01/2024

Við höfum öll þörf fyrir að tjá okkur

Táknmál er talað af fólki um víða veröld og er mál þeirra sem heyra illa eða ekkert og geta þess vegna ekki átt í samskiptum með hljóðum.

Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur eru mörg táknmal til í heiminum. Þau eru mjög lifandi og hafa þróast hvert og eitt með sínum hætti rétt eins og raddmál hafa gert.

Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Þannig er íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina málið sem á sér lagalega stöðu utan íslenskrar tungu, líkt og kemur fram í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál, en það að vera döff er það að er að líta á táknmál sem sitt fyrsta mál og tilheyra samfélagi heyrnarlausra.

Það er skylda íslenskra stjórnvalda að hlúa að íslensku táknmáli og styðja við það, en hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi eða heyrnarskerðing hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Í gær kynnti ég þingsályktun og aðgerðaáætlun í málstefnu íslensks táknmáls sem unnið hefur verið að í ráðuneyti menningarmála og boðuð var í þingsályktun frá árinu 2019 um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Málstefnan, sem er sú fyrsta fyrir íslenskt táknmál, tekur til sex meginstoða sem skipta máli fyrir málstefnu minnihlutamálsins og áhersluþætti innan hverrar meginstoðar, en þær eru: máltaka táknmálsbarna, rannsóknir og varðveisla, jákvætt viðhorf, fjölgun umdæma íslensks táknmáls og lagaumhverfi. Meðfylgjandi aðgerðaáætlun inniheldur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til framkvæmda á næstu þremur árum og hafa stjórnvöld nú þegar tryggt fjármuni til að fylgja þeirri áherslu eftir.

Ég er stolt af þessum áfanga og þakklát öllum þeim sem tóku þátt í vinnunni, en í starfshóp sem vann drög að málstefnu íslensks táknmáls áttu sæti áttu sæti fulltrúar Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem áttu í samráði við táknmálssamfélagið. Íslenskt táknmál er órjúfanlegur hluti af samfélaginu okkar enda höfum við öll þörf fyrir að eiga í samskiptum og tjá okkur um lífið og tilveruna, hvort sem um er að ræða heyrnarlausa eða heyrandi. Ég hlakka til að vinna enn frekar að því að efla íslenskt táknmál og tryggja stöðu þess til framtíðar.

Hér má finna táknmálstúlkun á þingsályktun um málstefnu íslensks táknmáls 2024-2027 og aðgerðaáætlun henni tengdri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2024.