Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Fréttir

Varnarlínur sauðfjársjúkdóma

Deila grein

26/05/2023

Varnarlínur sauðfjársjúkdóma

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, segir í yfirlýsingu að mikilvægt sé að hækka eigi fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlóinu og Tvídægurlínu. Eins og kunnugt er, vegna riðutilfella í Miðfirði, skapaðist mikil umræða um varnarlínur sauðfjársjúkdóma og viðhald í vetur.

„Mér fannst nauðsynlegt að fá svör við ýmsum spurningum í tengslum við þessi mál og sendi því fyrirspurn á matvælaráðherra,“ segir Lilja Rannveig.

„Svar ráðherra dregur fram með skýrum hætti hvaða varnarlínur eru á viðhaldsáætlun. Einnig kemur fram að framlög til viðhalds þessara varnarlína hafa lækkað á undanförnum árum.“

„Það er hins vegar mikilvægt að nú hefur verið ákveðið hefur verið að hækka fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlínu og Tvídægrulínu,“ segir Lilja Rannveig.

Yfirlýsingu Lilju Rannveigar í heild sinni má sjá hér að neðan:

– Varnarlínur sauðfjársjúkdóma – Í kjölfar riðutilfella sem komu upp í Miðfirðinum nú í vetur skapaðist mikil umræða um…

Posted by Lilja Rannveig on Föstudagur, 26. maí 2023

***

153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1826  —  1001. mál.

Svar matvælaráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um varnarlínur sauðfjársjúkdóma.

     1.      Hvaða varnarlínum sauðfjársjúkdóma hefur ráðherra ákveðið að skuli viðhalda, sbr. 12. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, og hvernig flokkast þær í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur?
    Ráðherra ákveður viðhald varnarlína að fengnum tillögum Matvælastofnunar þar um. Flokkun varnarlína í aðalvarnarlínur og aukavarnarlínur er skilgreind í auglýsingu nr. 88/2018, um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma.
    Fyrir árið 2023 hefur ráðherra samþykkt tillögur Matvælastofnunar um viðhald á eftirfarandi varnarlínum:

Tafla 1. Línur sem eru á viðhaldsáætlun 2023 og lýsing á staðsetningu þeirra.

LínaLýsing
2. Kalda­dalslína / Sogs- og BláskógalínaSog frá Ölfusá um Þing­valla­vatn og úr því um Ármanns­fell í Hval­fjarðarlínu við Kvíg­ind­is­fell.
4. Hval­fjarðarlínaÚr Hval­f­irði við Múla­fjall um Hval­vatn að Kvíg­ind­is­felli að Brunn­um við Uxa­hryggi í Hrúður­karla við Þórisjök­ul.
5. Snæ­fellslínaÚr Skóg­ar­nesi um Ljósu­fjöll í Álfta­fjörð.
6. Hvamms­fjarðarlínaÚr Hvamms­firði milli Þor­bergs­staða og Hrútsstaða um Laxár­dals­heiði í Hrúta­fjörð sunn­an Fjarðar­horns.
7. Gils­fjarðarlínaÚr Gils­firði um Snart­artungu í Bitru­fjörð.
9. TvídægrulínaÚr Hvamms­fjarðarlínu við Skeggöxl um Kvíslavötn og Arn­ar­vatn stóra í Langjök­ul við Jökulstalla.
10. MiðfjarðarlínaÚr Miðfirði um Miðfjarðar­vatn í Arn­ar­vatn stóra.
12. Kjalar­línaMilli Langjökuls og Hofsjökuls.
13. HéraðsvatnalínaHéraðsvötn og Aust­ari-Jökulsá.
17. Fjalla­línaJökulsá á Fjöll­um.
20. ReyðarfjarðarlínaÚr Reyðarf­irði upp með þjóðvegi og þaðan upp í Áreyjatind. Úr Áreyjat­indi í Sand­fell og þaðan niður í Gilsá í Grímsá. Grímsá í mörk Vaðs og Geirólfsstaða og þaðan yfir í Hall­ormsstaðarg­irðing­ar í Gilsá í Gilsár­dal í Lög­inn.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­línaFrá Botnjökli í Mýr­dalsjökli um Mæli­fellssand í Torfajök­ul, frá Hábarmi um Kirkju­fells­vatn í Tungn­aá og þaðan að Jökul­grind­um í Vatnajökli.
26. Þjórsár­línaÞjórsá.

     2.      Hver hefur kostnaður verið við viðhald varnarlína á landinu á árunum 2018–2022? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum og árum.

Tafla 2. Samþykkt kostnaðaráætlun fyrir viðhald varnarlína árin 2018–2022 eftir einstökum varnarlínum og heildar raunkostnaður við viðhald varnarlína fyrir árin 2018–2022.

Lína20182019202020212022
2. Kalda­dalslína / Sogs- og Bláskógalína0 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.1.700.000 kr.2.000.000 kr.
4. Hval­fjarðarlína12.000.000 kr.11.000.000 kr.0 kr.500.000 kr.500.000 kr.
5. Snæ­fellslína2.700.000 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.4.700.000 kr.3.000.000 kr.
6. Hvamms­fjarðarlína3.800.000 kr.3.700.000 kr.3.700.000 kr.3.000.000 kr.3.000.000 kr.
7. Gils­fjarðarlína850.000 kr.850.000 kr.1.600.000 kr.1.200.000 kr.1.200.000 kr.
9. Tvídægrulína6.700.000 kr.9.000.000 kr.9.000.000 kr.4.500.000 kr.4.500.000 kr.
10. Miðfjarðarlína4.000.000 kr.4.000.000 kr.5.000.000 kr.6.000.000 kr.6.000.000 kr.
11. Vatns­neslína4.000.000 kr.5.000.000 kr.3.300.000 kr.4.200.000 kr.2.000.000 kr.
12. Kjalar­lína4.000.000 kr.4.300.000 kr.5.000.000 kr.4.300.000 kr.4.500.000 kr.
13. Héraðsvatnalína0 kr.0 kr.0 kr.150.000 kr.200.000 kr.
17. Fjalla­lína0 kr.50.000 kr.100.000 kr.100.000 kr.100.000 kr.
20. Reyðarfjarðarlína500.000 kr.500.000 kr.9.250.000 kr.5.000.000 kr.5.000.000 kr.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­lína0 kr.600.000 kr.600.000 kr.600.000 kr.800.000 kr.
26. Þjórsár­lína0 kr.0 kr.50.000 kr.50.000 kr.100.000 kr.
SAMTALS ÁÆTLAÐ38.550.000 kr.46.400.000 kr.45.000.000 kr.36.000.000 kr.32.900.000 kr.
RAUNKOSTNAÐUR40.547.832 kr.59.174.627 kr.52.789.478 kr.38.069.395 kr.33.199.172 kr.

     3.      Hversu margir línubrjótar voru skráðir árið 2022? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum.

Tafla 3. Heildaryfirlit yfir línubrjóta árið 2022 eftir varnarlínum, aldri og kyni línubrjóta.

VarnarlínaÆrVeturgamaltHrútarLömbSamtals
Brú­arár­lína10034
Gils­fjarðarlína620715
Ham­ars­fjarðarlína200810
Héraðsvatnalína20035
Hval­fjarðarlína11226
Hval­fjarðarlína og Sogs- og Bláskógalína30036
Hvamms­fjarðarlína360615
Hvítár­lína13701838
Jökulsár­lína300710
Kjalar­lína6001117
Kjalar­lína og Þjórsár­lína10023
Kjalar­lína, Þjórsár­lína o.fl.10012
Kolla­fjarðarlína10023
Lag­ar­fljótslína410510
Markarfljótslína10012
Miðfjarðarlína9101323
Reyðarfjarðarlína20046
Skjálf­andalína410712
Snæ­fellslína7001219
Tungnár­lína4401220
Tvídægrulína4301017
Úr Húna- og Skaga­hólfi í Vest­ur­lands­hólf00022
Úr Miðfjarðar­hólfi og fór í Vest­ur­lands­hólf11013
Úr Vest­ur­lands­hólfi yfir í Gríms­nes- og Laug­ar­dals­hólf10023
Vatns­neslína02125
Þjórsár­lína410712
Ekki skráð01023
SAMTALS84313153271

     4.      Hver er áætlaður kostnaður vegna fyrirhugaðs viðhalds varnarlína á yfirstandandi ári? Svar óskast sundurliðað eftir einstökum varnarlínum.

Tafla 4. Kostnaðaráætlun vegna viðhalds varnarlína 2023.

LínaKostnaðaráætlun 2023
2. Kalda­dalslína / Sogs- og Bláskógalína2.500.000 kr.
4. Hval­fjarðarlína600.000 kr.
5. Snæ­fellslína3.500.000 kr.
6. Hvamms­fjarðarlína5.000.000 kr.
7. Gils­fjarðarlína1.500.000 kr.
9. Tvídægrulína8.000.000 kr.
10. Miðfjarðarlína7.000.000 kr.
12. Kjalar­lína5.000.000 kr.
13. Héraðsvatnalína250.000 kr.
17. Fjalla­lína150.000 kr.
20. Reyðarfjarðarlína5.500.000 kr.
24. Kýl­ing­ar­lína / Tungn­aár­lína1.000.000 kr.
26. Þjórsár­lína150.000 kr.
SAMTALS40.150.000 kr.

     5.      Hyggst ráðherra grípa til einhverra sérstakra aðgerða varðandi viðhald eða endurnýjun varnarlína milli Miðfjarðarhólfs og aðliggjandi varnarhólfa á yfirstandandi ári?
    Í kjölfar þess að riðutilfelli komu upp í Miðfjarðarhólfi lagði Matvælastofnun fram tillögur um auknar fjárveitingar til viðhalds á Tvídægrulínu og Hvammsfjarðarlínu milli Vesturlandshólfs og Miðfjarðarhólfs svo mögulegt væri að skipta út verst förnu hlutum girðinganna og gera þær vel fjárheldar. Ráðherra samþykkti tillögur Matvælastofnunar um hækkun á fjárveitingu til viðhalds á Hvammsfjarðarlínu úr 3,5 millj. kr. í 5,0 millj. kr. og á Tvídægrulínu úr 5,0 millj. kr. í 8,0 millj. kr.

Categories
Fréttir

Ný stjórn Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

26/05/2023

Ný stjórn Framsóknar í Hveragerði

Aðalfundur Framsóknarfélags Hveragerðis fór fram 24. maí s.l. í Reykjadalsskála í Hveragerði.

Á aðalfundinum var gerð sú lagabreyting að sætum í stjórn var fjölgað úr þremur í fimm. Nýkjörna stjórn skipa, frá vinstri: 

Kolbrún Edda Jensen Björnsdóttir, Sæbjörg Lára Másdóttir, Marta Rut Ólafsdóttir, Lóreley Sigurjónsdóttir og Arnar Ingi Ingólfsson.

Ástæða er til að óska nýkjörinni stjórn til hamingju með kjörið og verður spennandi að fylgjast með áframhaldandi öflugu og kröftugu starfi Framsónarmanna í Hveragerði.

Aðalfundur félags Framsóknar í Hveragerði fór fram í Reykjadalsskála í kvöld. Ný fimm manna stjórn var kosin á…

Posted by Framsókn í Hveragerði on Miðvikudagur, 24. maí 2023
Categories
Greinar

Umferðaröryggi stóreflt!

Deila grein

25/05/2023

Umferðaröryggi stóreflt!

Þann 8. apríl 2020 skrifuðu fulltrúar Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka undir samning um annan áfanga breikkunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Hveragerðis. Verkinu átti skv. þeim samningi að ljúka haustið 2023.

Í dag er Suðurlandsvegur orðinn tvöfaldur að stórum hluta en hér er um að ræða nýbyggingu Hringvegarins að hluta og breikkun og endurgerð að hluta á alls 7,1 km kafla. Á þeim kafla sem um ræðir hafa fjölmörg og alvarleg slys átt sér stað í gegnum tíðina. Umferðarþungi mikill og fjölmargir leggja leið sína um hann á degi hverjum til dæmis til vinnu eða í frí austur fyrir Hellisheiði. Markmið framkvæmdarinnar var að bæta umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur um Suðurlandsveg. Framkvæmdin hefur óneitanlega mikil og jákvæð áhrif á samfélagið í heild á Suðurlandi.

Slysatíðni á Suðurlandsvegi hefur verið mikil undanförnum árum og alvarleg umferðarslys verið fleiri en við kærum okkur um. Ferðamenn leggja leið sína á Suðurlandið og samfélagið austan Hellisheiðar er sívaxandi og tækifærin fjölmörg sem þar eru. Fólksfjölgun mikil og stór hluti þeirra sem hafa flutt þangað m.a. sækja störf á Höfuðborgarsvæðið. Það skiptir fólk máli að upplifa öryggi á vegunum okkar og það hefur verið talið grundvöllur að stækkandi vinnusóknarsvæði víða um land. Þar af leiðandi fagna ég því að þessi framkvæmd sé orðin að veruleika en ekki stóð til að hleypa umferð inn á nýja vegarkaflann fyrr en í haust. Nú er svo komið að vegurinn hefur verið formlega opnaður og er verkefnið því um það bil 3 mánuðum á undan áætlun.

Ölfusárbrúin

Þessu til viðbótar mun ný Ölfusárbrú verða að veruleika því þann 6. mars sl. óskaði Vegagerðin eftir þátttakendum í alútboð vegna byggingar nýrrar brúar á Ölfusá ásamt aðliggjandi vegum, vegamótum, brúm og undirgöngum en stefnt er að því að klára verksamning um verkefnið fyrir lok þessa árs. Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar taki rúmlega tvö ár og því hægt að áætla að öllu óbreyttu að Sunnlendingar fái að keyra um nýja Ölfusárbrú árið 2026. Þar er annar áfangi sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu og því ánægjulegt að það verkefni sé komið af stað.

Umferðaröryggi er forgangsmál

Það er augljóst að frá því að Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tók við samgöngumálunum hér á landi hefur umferðaröryggi aukist til muna en það hefur verið forgangsmál ráðherra og okkar í Framsókn. Við erum hvergi nærri hætt á þessari vegferð og haldið verður stöðugt áfram að bæta samgöngur hér á landi með umferðaröryggi í forgrunni í þeirri vinnu. Ég má til að senda þakkir til Sigurðar Inga, innviðaráðherra, fyrir hans ötulu baráttu í þágu umferðaröryggis og einnig vil ég hrósa öllum þeim sem að verkinu stóðu. Það hefur verið virkilega aðdáunarvert að keyra í gegnum framkvæmdasvæðið á hverjum degi og finna á eigin skinni þær umbætur sem hafa orðið á veginum. Þetta er verkefni sem markar tímamót í vinnu okkar að auknu umferðaröryggi í landinu við finnum öll fyrir umbótum sem þessum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 25. maí 2023.

Categories
Fréttir

Heimahjúkrun er lykillinn

Deila grein

24/05/2023

Heimahjúkrun er lykillinn

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, segir að það verði að styðja við færni eldra fólks til sjálfstæðrar búsetu svo því sé stætt að búa heima hjá sér, eins lengi og hægt sé. „Það eru sjálfsögð mannréttindi.“ Hér skiptir heimahjúkrun lykilmáli.

„Það er því ekki að ástæðulausu að heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað 300 millj. kr. á fjárlögum ársins til að efla heimahjúkrun um allt land.
Auk þess hefur 1,4 milljarði kr. verið bætt inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar til að styrkja enn frekar hlutverk hennar á landsvísu sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Halla Signý.

„Heilsugæslur um landið hafa verið í sérstakri vakt þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2017 og hefur verið bætt verulega við fjárveitingu til þeirra í takt við aukið hlutverk.“

„Í þessu samhengi langar mig að nefna þá þróun sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum varðandi velferðartækni í þjónustu við eldra fólk. Þar hafa ýmiss konar tæknilausnir og nýsköpun sýnt að slíkt eykur líkur á því að fólk geti búið lengur heima, enda fer þeim sífellt fjölgandi í hópi eldra fólks sem geta tileinkað sér þessa nýju stafrænu tækni. Í hópi eldra fólks eru flestir orðnir vel tæknifærir.

Í Finnlandi hefur samþætting í þjónustu við eldra fólk gengið sérstaklega vel og þar hefur verið kynnt ný tækni til að rjúfa félagslega einangrun og ná þannig til stærri hóps fólks, sérstaklega í dreifðari byggðum. Þar vinna saman félagsþjónustan, endurhæfing og heimahjúkrun við að rjúfa einangrun og veita heildstæða nálgun við þjónustu til að byggja upp færni og sjálfstæði eldri borgara,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það eru sjálfsögð mannréttindi að eldra fólki sé gert kleift að búa heima hjá sér eins lengi og stætt er. Svo að það sé mögulegt þarf að styðja við færni fólks til sjálfstæðrar búsetu. Bætt lýðheilsa er mikilvæg og huga þarf að andlegri og líkamlegri færni auk þess sem félagslegi þátturinn þarf alltaf að vera í fyrirrúmi. Til að mæta þörfum fólks sem býr heima en þarfnast aðstoðar til að viðhalda færni skiptir heimahjúkrun lykilmáli. Það er því ekki að ástæðulausu að heilbrigðisráðherra hefur ráðstafað 300 millj. kr. á fjárlögum ársins til að efla heimahjúkrun um allt land. Auk þess hefur 1,4 milljarði kr. verið bætt inn í fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar til að styrkja enn frekar hlutverk hennar á landsvísu sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðiskerfinu. Heilsugæslur um landið hafa verið í sérstakri vakt þessarar ríkisstjórnar frá árinu 2017 og hefur verið bætt verulega við fjárveitingu til þeirra í takt við aukið hlutverk.

Í þessu samhengi langar mig að nefna þá þróun sem hefur átt sér stað á Norðurlöndunum varðandi velferðartækni í þjónustu við eldra fólk. Þar hafa ýmiss konar tæknilausnir og nýsköpun sýnt að slíkt eykur líkur á því að fólk geti búið lengur heima, enda fer þeim sífellt fjölgandi í hópi eldra fólks sem geta tileinkað sér þessa nýju stafrænu tækni. Í hópi eldra fólks eru flestir orðnir vel tæknifærir.

Virðulegi forseti. Í Finnlandi hefur samþætting í þjónustu við eldra fólk gengið sérstaklega vel og þar hefur verið kynnt ný tækni til að rjúfa félagslega einangrun og ná þannig til stærri hóps fólks, sérstaklega í dreifðari byggðum. Þar vinna saman félagsþjónustan, endurhæfing og heimahjúkrun við að rjúfa einangrun og veita heildstæða nálgun við þjónustu til að byggja upp færni og sjálfstæði eldri borgara.“

Categories
Fréttir

„Gjörið svo vel, reddið þessu“

Deila grein

24/05/2023

„Gjörið svo vel, reddið þessu“

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar, var málshefjandi í sérstakri umræðu um styttingu vinnuvikunnar á Alþingi.

Í kjarasamningum stjórnvalda og stéttarfélaga 2019 var gert samkomulag um verkefnið „Betri vinnutími“. Því er ætlað að vera útfærslu vinnutíma, með möguleika á mismunandi styttingu vinnuvikunnar, þannig að mest getur hún styst um allt að fjórar klukkustundir á viku.

Sett voru fram nokkur markmið með verkefninu, s.s. að bæta vinnustaðamenningu og starfsánægju, auka skilvirkni, bæta þjónustu og tryggja sveigjanleika starfsmanna. En forsenda breytinganna var að hvort tveggja þjónustustig og framleiðni yrði sú sama og áður eða betri.

Ingibjörg telur nú er rúm tvö ár eru liðin frá því að styttingin tók gildi, teldi hún „tímabært að staldra aðeins við og skoða hvaða reynslu við höfum af fyrirkomulaginu, útfærslu þess og framtíðaráformum hvað varðar vinnutíma starfsmanna.“

„Í skýrslu KPMG, sem gefin var út í nóvember í fyrra fyrir tilstilli fjármála- og efnahagsráðuneytisins, var staðan á „Betri vinnutíma“ metin og kostir og gallar tilgreindir eftir samtöl, greiningar og kannanir,“ sagði Ingibjörg.

„Af skýrslunni er ljóst að upplýsingar um ýmsa mikilvægi þætti eru enn óljósar hvað varðar afrakstur í kjölfar betri vinnutíma. Illa hefur gengið að greina mælanlegan árangur þar sem engar kröfur þess efnis voru gerðar til stjórnenda og stofnana. Eftirfylgni eða nánari rýni var engin af hálfu ráðuneytanna. Ekki var lögð áhersla á að taka núllpunkt eða greina stöðuna í upphafi styttingarinnar svo hægt væri að greina afköst og gæði starfsemi hverrar stofnunar fyrir sig. Því eru ansi margir þættir hér óljósir.“

„Flestar stofnanir ríkisins tóku þá ákvörðun að fara í hámark styttingar vinnuvikunnar þvert gegn ráðleggingum. Forræði yfir verkefninu og hlutverk aðila var heilt yfir óljóst og undirbúningstíminn var knappur. Það var í höndum hverrar stofnunar fyrir sig, stjórnenda þeirra og starfsmanna, að ákveða hvernig fyrirkomulagið væri. Í raun var það viðamikla verkefni að takast á við þær breytingar sem fólust í innleiðingunni fljótt komið í annarra manna hendur og í raun bara sagt: Gjörið svo vel, reddið þessu. En til að takast á við verkefnið hratt og vel þurfti mannauð, þekkingu og skipulag sem sumar stofnanir glímdu við og því fór mikill tími innan hverrar stofnunar í útfærslu, eins og kemur einmitt fram í skýrslu KPMG,“ sagði Ingibjörg.

„Einu haldbæru gögnin sem við höfum í höndunum eru ánægjukannanir starfsmanna með fyrirkomulagið sem koma jákvætt út. Að sjálfsögðu er ánægjulegt að starfsmenn hafi meiri tíma utan vinnustaðar til að sinna öðrum verkefnum, við sækjumst eftir því; eiga gæðastundir með fjölskyldu og vinum og skapa tækifæri fyrir ungar fjölskyldur til að geta jafnvel sótt börnin sín fyrr á leikskóla eða dagvistun. Hins vegar voru fleiri forsendur tilgreindar í upphafi verkefnisins, t.d. að þjónustustig og framleiðni starfsmanna minnki ekki.“

„Í skýrslu KPMG kemur fram að vísbendingar séu um að þjónustustig hafi heilt yfir lækkað í kjölfar styttingar vinnuvikunnar. Því kemur til álita hvort markmiðum um gagnkvæman ávinning af betri vinnutíma hafi verið náð. Hugmyndin um styttingu vinnuvikunnar er góð og gild en framkvæmdin hefur ekki gengið á öllum starfsstöðvum án þess að hafa áhrif á þjónustustig eða að hún hefur kallað eftir auknu fjármagni. Það á sérstaklega við um stofnanir sem bjóða aðallega upp á vaktavinnu en um þriðjungur ríkisstarfsmanna vinnur vaktavinnu, sem eflaust má einnig heimfæra á sveitarfélög. Á slíkum stöðum myndast mönnunargat í kjölfar betri vinnutíma sem kallar á fleiri stöðugildi til að viðhalda þjónustustigi. Við vitum að launakostnaður hefur hækkað og stöðugildum fjölgað með tilheyrandi áhrifum á fjárhag ríkisins, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar hafa margir þættir áhrif. En þær stofnanir sem báru mestan þunga af þessu voru einmitt þær sem urðu mest fyrir áhrifum af heimsfaraldi Covid-19.“

„Þó má velta fyrir sér hvaða áhrif stytting vinnuvikurnar hefur haft á þessa þróun. Engin opinber gögn sýna bein tengsl, en það væri áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra lumi á slíkum gögnum og þá sérstaklega hvað varðar heilbrigðisstofnanir.“

„Af öllu þessu er skýrt að mörgum spurningum er ósvarað. Stytting vinnuvikunnar hefur leitt til jákvæðrar þróunar á starfsánægju, sem skiptir máli. Hins vegar er nauðsynlegt að við fáum haldbærar upplýsingar um þróun annarra markmiða verkefnisins. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig verkefnið hafi gengið að hans mati með tilliti til þeirra markmiða sem sett voru í upphafi samninga og innleiðingar,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Deila grein

23/05/2023

Tvö­földun Reykja­nes­brautarinnar, takk fyrir!

Það var á sumarmánuðum 2019 sem þáverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hófu viðræður við innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, um að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hvassahrauni að mislægum gatnamótum við Krýsuvík. Þetta krafðist mikillar vinnu og meðal annars góðs samstarfs við Vegagerðina, Carbfix og álverið í Straumsvík um skipulagsmál á svæðinu.

Á sínum tíma voru áform uppi um stækkun álversins í Straumsvík og keypti álverið þá land undir þá fyrirhuguðu stækkun. Á því landi sem álverið keypti liggur núverandi vegstæði Reykjanesbrautarinnar. Vegna þessa var vegstæði Reykjanesbrautarinnar á aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar fært ofar og átti sá flutningur brautarinnar að eiga sér stað um leið og álverið þyrfti landið og lóðina til stækkunar. Áform álversins um stækkun voru hins vegar felld naumlega í vel þekktri íbúakosningu árið 2007 og varð því ekkert af tilfærslu brautarinnar.

Skýrsla Vegagerðarinnar og Mannvits sýndi að hagkvæmast væri að breikka Reykjanesbrautina í núverandi vegstæði í stað þess að færa hana líkt og aðalskipulagið gerði ráð fyrir. Góð og lausnamiðuð samtöl við Sigurð Inga Jóhannsson innviðráðherra, fulltrúa Vegagerðarinnar og álversins í Straumsvík urðu svo til þess að þessari mikilvægu framkvæmd var flýtt og aðalskipulagi bæjarfélagsins breytt. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra vegkafla, en einnig byggingu brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Fyrir alla þessa vinnu og skilning ber að þakka og þar set ég undir alla þá aðila sem að þessum málum komu með einum eða öðrum hætti.

Þann 17. maí skrifuðu Vegagerðin og ÍAV undir verksamning um þessa mikilvægu framkvæmd. ÍAV bauð tæpa fjóra milljarða í verkið sem er talsvert undir þeirri kostnaðaráætlun sem lagt var upp með. Undirbúningur hefst strax og framkvæmdir munu hefjast í sumar. Umferðaröryggi er málefni sem snertir okkur öll og nú hyllir undir að kláraðar verði framkvæmdir við tvo slysamestu vegi landsins, Suðurlandsveg og svo Reykjanesbraut. Þetta eru því mikil gleðitíðindi fyrir okkur Hafnfirðinga og landsmenn alla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

126 milljarða tekjur í menningu

Deila grein

23/05/2023

126 milljarða tekjur í menningu

Ný­verið samþykkti Alþingi til­lög­ur mín­ar til þings­álykt­an­ir um mynd­list­ar­stefnu og tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030 ásamt því að samþykkja frum­varp um fyrstu heild­ar­lög­gjöf um tónlist á Íslandi. Mark­miðið er skýrt; að efla um­gjörð þess­ara list­greina til framtíðar.

Með mynd­list­ar­stefn­unni er sett framtíðar­sýn mynd­list­ar­um­hverf­is­ins til árs­ins 2030 með meg­in­mark­miðum um að á Íslandi ríki kraft­mik­il mynd­list­ar­menn­ing, að stuðnings­kerfi mynd­list­ar á Íslandi verði ein­falt og skil­virkt, að ís­lensk mynd­list verði sýni­leg og vax­andi at­vinnu­grein og að ís­lensk mynd­list skipi alþjóðleg­an sess.

Lagðar eru til mark­viss­ar aðgerðir til að ein­falda en að sama skapi styrkja stofn­ana- og stuðnings­kerfi mynd­list­ar og hlúa mark­viss­ar en áður að innviðum at­vinnu­lífs mynd­list­ar. Með því má bæta sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tækja og efla út­flutn­ing og markaðssetn­ingu á ís­lenskri mynd­list.

Ný tón­list­ar­stefna og heild­ar­lög­gjöf um tónlist er af sama meiði; að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins á Íslandi. Með lög­un­um hill­ir und­ir nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð verður í ár og er ætlað að sinna upp­bygg­ingu og stuðningi við hvers kon­ar tón­list­ar­starf­semi sem og út­flutn­ings­verk­efni allra tón­list­ar­greina. Þar að auki mun miðstöðin sinna skrán­ingu, um­sýslu og miðlun ís­lenskra tón­verka. Með stofn­un Tón­list­armiðstöðvar er stigið stórt skref í átt­ina að því að veita list­grein­inni aukið vægi og til að greiða leið ís­lensks tón­listar­fólks, inn­an lands sem utan. Nýr og stærri Tón­list­ar­sjóður verður einnig að veru­leika. Mun hann sam­eina þrjá sjóði sem fyr­ir eru á sviði tón­list­ar. Lyk­il­hlut­verk hans verður að efla ís­lenska tónlist, hljóðrita­gerð og þró­un­ar­starf í tón­list­ariðnaði. Með til­komu sjóðsins verður styrkjaum­hverfi tón­list­ar ein­faldað til muna og skil­virkni og slag­kraft­ur auk­in veru­lega!

Í lög­un­um er sömu­leiðis að finna ákvæði um sér­stakt tón­list­ar­ráð sem verður stjórn­völd­um og tón­list­armiðstöð til ráðgjaf­ar um mál­efni tón­list­ar. Tón­list­ar­ráði er ætlað að vera öfl­ug­ur sam­ráðsvett­vang­ur milli stjórn­valda, Tón­list­armiðstöðvar og tón­list­ar­geir­ans enda felst í því mik­ill styrk­ur að ólík og fjöl­breytt sjón­ar­mið komi fram við alla stefnu­mót­un­ar­vinnu á sviði tón­list­ar.

Of­an­greint mun skipta miklu máli til að styðja enn frek­ar við menn­ingu og skap­andi grein­ar á land­inu og styðja vöxt þeirra sem at­vinnu­greina. Til marks um um­fang þeirra þá birti Hag­stof­an ný­verið upp­færða Menn­ing­ar­vísa í annað sinn. Sam­kvæmt þeim voru rekstr­ar­tekj­ur í menn­ingu og skap­andi grein­um rúm­lega 126 millj­arðar króna árið 2021 og hækkuðu um 5,6% frá fyrra ári. Þá starfa um 15.400 ein­stak­ling­ar á aldr­in­um 16-74 við menn­ingu, eða um 7,3% af heild­ar­fjölda starf­andi, sam­kvæmt vinnu­markaðsrann­sókn Hag­stof­unn­ar.

Ég er staðráðin í því að halda áfram að tryggja und­ir­stöður þess­ara greina þannig að þær skapi auk­in lífs­gæði og verðmæti fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag til framtíðar. Ég vil einnig þakka þeim kraft­mikla hópi fólks úr gras­rót­inni sem kom að fyrr­nefndri stefnu­mót­un, fram­lag þess skipti veru­legu máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2023.

Categories
Fréttir

Þátttaka barna í innleiðingu barnasáttmálans

Deila grein

22/05/2023

Þátttaka barna í innleiðingu barnasáttmálans

Yfir fjörutíu börn komu saman á þátttökuráðstefnu mennta- og barnamálaráðherra um Barnvænt Ísland og innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hérlendis. Markmiðið ráðstefnunnar var að ræða athugasemdir Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna um innleiðinguna og gefa börnum rödd í ákvörðunum er varða hag þeirra.

Ráðstefnan var haldin í Rósenborg á Akureyri, í samvinnu við Akureyrarbæ og grunnskóla á Norðurlandi. Þar var saman kominn 41 fulltrúi barna á aldrinum 13-15 ára frá tólf mismunandi skólum á svæðinu. Ungu ráðgjöfunum var falið að koma með sínar tillögur varðandi hvernig íslenska ríkið skyldi bregðast við lokaathugasemdum Barnaréttarnefndarinnar í þeim tilgangi að gera Ísland að enn betri stað fyrir öll börn.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði nýlega samning við alþjóðlegu samtökin Child Rights Connect. Samningurinn styður við réttindamiðaða nálgun í málefnum barna á Íslandi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Child Rights Connect eru félagasamtök sem starfa með Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Ráðstefnan hófst á fræðslu frá þátttökusérfræðingi þeirra þar sem rætt var við börnin um mannréttindindi og rétt þeirra til að láta skoðanir sínar í ljós. Útskýrð voru störf Barnaréttarnefndarinnar og fyrirkomulag vinnunar sem leiðir af sér lokaathugasemdirnar, sem hverju landi eru gefnar á 5 ára fresti, eftir úttekt á réttindum barna.

Að fræðslu lokinni var komið að þátttakendum að vinna sínar tillögur. Var þeim skipt upp á sex borð þar sem hvert borð fjallaði um sinn flokk athugasemda undir mismunandi yfirskriftum: Þátttaka barna; vernd gegn ofbeldi og barnvænt dómkerfi; fjölskyldan og fósturkerfið; börn í viðkvæmri stöðu; menntun og tómstundir; heilsa og umhverfið.

Í lok ráðstefnunnar kynnti hvert borð svo sínar tillögur sem teknar verða til greina við frekari úrvinnslu athugasemdanna innan stjórnarráðsins.

Ráðstefnan er liður í samstarfsverkefni ráðuneytisins og Child Rights Connect um leiðbeiningar fyrir önnur lönd varðandi hvernig hægt sé að tryggja og nýta þátttöku barna í úrvinnslu lokaathugasemda Barnaréttarnefndarinnar. Hún var einnig lokahnykkur í tveggja ára verkefni ráðuneytisins og Evrópuráðsins um þátttöku barna, CP4Europe, sem lýkur nú í júní.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Samdráttur í byggingu íbúða – hvað er til ráða?

Deila grein

19/05/2023

Samdráttur í byggingu íbúða – hvað er til ráða?

Mér er hugsað til þeirra orða sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, lét falla á vaxtaákvörðunarfundi bankans í maí 2021. Þar sagði hann að ákvörðun Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að byggja ekki íbúðir og ný hverfi á nýju landi væri meðal annars ástæða þess að fasteignaverð hafi hækkað á þeim tíma. Ég held að þetta hafi verið hárrétt mat hjá seðlabankastjóra þá og við bæði erum og verðum áfram á sama stað ef ekki verður stefnubreyting hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum.

Sífelldar hækkanir eru farnar að hafa veruleg áhrif á fjárhag fólks og gengur þetta ekki til lengdar. Okkar helsta verkefni er því að ná tökum á verðbólgunni sem er of mikil um þessar mundir. Þar er margt sem hefur áhrif, en augljóst er að það ójafnvægi sem hér hefur ríkt á húsnæðismarkaði á undanförnum árum og sú staðreynd að hér hefur ekki verið byggt nægilega mikið af íbúðum hefur haft mikil og neikvæð áhrif á þróun verðbólgunnar.

Vond tíðindi úr nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins

Í byrjun maí kynntu Samtök iðnaðarins greiningu sem unnin var að þeirra frumkvæði um uppbyggingu íbúða, en í henni var gerð könnun meðal verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning. Greiningin gefur til kynna að verulegur samdráttur sé fram undan í byggingu nýrra íbúða næstu tólf mánuði og að fjöldi íbúða í byggingu verði 65% færri en tólf mánuðina þar á undan. Þetta eru tölur sem við viljum ekki sjá og eru algjörlega þvert á það sem þörf er á og nauðsynlegt er. Nokkrar ástæður eru tilgreindar fyrir þessum harkalega samdrætti og má þar meðal annars nefna að fjármagnskostnaður hefur hækkað gríðarlega og að sala eigna hefur gengið erfiðlega upp á síðkastið, sem er bein afleiðing þeirra harkalegu aðgerða sem Seðlabanka Íslands réðst í og snerta lánþegaskilyrðin sérstaklega. Þar voru sett þrengri viðmið fyrir greiðslumat og heimild lækkuð til veðsetningar við kaup á fyrstu íbúð. Þetta er meðal þeirra þjóðhagsvarúðartækja sem Seðlabankinn hefur úr að spila til að takmarka kerfisáhættu og lágmarka hættuna á fjármálaáföllum. Þessi aðgerð hefur hins vegar útilokað fyrstu kaupendur og aðra hópa, svo sem þá sem einstæðir eru og tekjulægri. Skortur á þessum kaupendum inn á markaðinn hefur rofið keðjuna. Hér er að myndast snjóhengja af kynslóðum sem munu á einhverjum tímapunkti ryðjast út á markaðinn með miklum afleiðingum ef ekkert verður að gert. Hér vantar eignir og því eru allar fréttir um samdrátt í uppbyggingu húsnæðis vondar og kalla á raunverulegar aðgerðir sem hafa raunveruleg áhrif.

Leiðin að lausn vandans

  1. Fjölgum lóðum: Tökum upp Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins án kollvörpunar á hugmyndafræði. Með þessum einfalda hætti er hægt að fjölga lóðum og byggja ný hverfi. Slíkt þarf áfram að haldast í hendur við skynsamlega og ekki síður nauðsynlega þéttingu byggðar. Sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu verða öll að hafa svigrúm og getu til að taka þátt í þeirri nauðsynlegu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem þörf er á.
  2. Stígum skref til baka: Nauðsynlegt er að stíga varfærin skref til baka þegar kemur að reglum lánþegaskilyrða. Þar þarf að breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði en samhliða horfa enn frekar á greiðslugetu. Við sjáum marga hafa góða greiðslugetu og vilja komast út á markaðinn og eignast húsnæði. Þetta eru jafnvel hópar sem eru nú þegar að greiða háa húsaleigu. Við höfum ekkert með það að gera að lausar íbúðir endi í höndum fjármagnseigenda með þeim afleiðingum að þeir ríku verði ríkari.
  3. Tímabundnar sértækar aðgerðir: Ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og þar má horfa til sérstakra lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum og/eða undanskilja þá aðila frá fyrirhugaðri lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 35% vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði.
  4. Þátttaka lífeyrissjóða í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar: Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Nauðsynlegar lagabreytingar eru að mínu mati engin fyrirstaða.
  5. Beitum hlutdeildarlánum enn frekar: Tímasetja þarf rýmkun á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Hér erum við með gott úrræði í höndunum sem nauðsynlegt er að beita við núverandi kringumstæður og gagnast vel ákveðnum hópum samfélagsins, sérstaklega þeim sem tekjulægri eru. Þetta mun ýta við framkvæmdaaðilum að byggja hentugar eignir í kerfið.

Öruggt húsnæði fyrir alla

Í einhvers konar hagfræðileik er vel hægt að færa fyrir því rök að þær aðgerðir sem ég legg hér til séu þensluhvetjandi, en líkt og ég hef margoft sagt áður, þá mun núverandi ástand einungis leiða til hærra leiguverðs og ýta undir mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástand líður undir lok. Það mun aftur auka þrýsting á verðbólgu og hærri vexti (vegna skorts á eignum og mikillar eftirspurnar) – ástand sem hægt er að koma í veg fyrir og við viljum ekki sjá raungerast að óþörfu. Húsnæði er óneitanlega ein af grundvallarþörfum mannsins. Það að búa í öruggu húsnæði hefur áhrif á alla þætti okkar daglega lífs; allt frá líkamlegri og andlegri vellíðan til menntunar, efnahagslegs stöðugleika og aukinnar samheldni í samfélaginu.

Það er afar brýnt að tryggja áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis á landinu og það á að vera forgangsverkefni stjórnvalda. Hér þurfa allir að taka þátt og ég hef áður rætt mikilvægi allra þessara aðgerða. Það má líkja þessu við keðju og aðgerðir sem þurfa allar að haldast í hendur. Aðgerð 3. væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja mætti nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun með miklum afleiðingum fyrir samfélagið í heild. Þær aðgerðir sem ég legg hér til eru ekki olía á eldinn heldur eru þær meðal á það ástand sem við erum í og eru leiðin í átt að betri heilsu samfélagsins.

Tökum höndum saman!

Ágúst Bjarni Garðssonar, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 18. maí 2023.