Þær fréttir bárust í dag að innviðaráðuneytið hefði náð samkomulagi við Flugfélagið Erni um áætlunarflug til Vestmannaeyja þrisvar sinnum í viku. Lengi hefur verið ákall frá íbúum í Vestmannaeyjum um að bæta samgöngur til og frá eyjum og er framangreint samkomulag við Flugfélagið Erni liður í því að efla samgöngur að mati ráðuneytisins. Þá er það einnig afar mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf í Eyjum, að tryggja lágmarksþjónustu í vetur.
Aðdragandinn
Á árunum 2010-2020 var áætlunarflug til Vestmannaeyja í höndum Flugfélagsins Ernis og í september 2020 þótti ástæða til að leggja flugið niður vegna minnkandi eftirspurnar í kjölfar Cov-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið samdi við flugfélagið í desember 2021 um svokallað lágmarksflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem var í gildi fram til 1. júní 2022. Reglulegt flug hefur verið í miklu uppnámi frá því það lagðist af.
Flugfélagið Ernir sinnti áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá árinu 2010 til í september 2020 þegar ekki var annað í stöðunni en að leggja niður flug sökum minnkandi eftirspurnar. Það er því mikið fagnaðarefni að félagið hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar og með fleiri flugferðum í viku hverri.
Öryggismál
Þó að hér sé um tímabundið samkomulag að ræða þá megum við ekki gleyma því að við þurfum að leita leiða til að koma þessum málum í réttan farveg, þetta er fyrsta skrefið. Ef það er fullreynt að flug til eyja á markaðslegum forsendum geti gengið upp þá þarf strax að líta til þess hver séu næstu skref um framhaldið.
Það er í grunninn öryggismál að það séu tvær samgönguleiðir til Eyja og er gríðarlega mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Margir þeirra hafa kosið að nýta sér áætlunarflug yfir vetrartímann þegar það hefur verið í boði vegna óvissu í áætlunarferðum Herjólfs. Við þurfum svo til framtíðar að finna varanlega lausn á þessum málum en hér er engu að síður um að ræða mikilvægt skref í þá átt.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Barnaheill. Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi í þágu farsældar barna.
Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einkum er ætlað að styðja við verkefnin Verndarar barna og Vináttu – forvarnarverkefni gegn einelti.
Verndarar barna snýr að vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum til verndar barna gegn ofbeldi. Verkefnið var fyrst sett á laggirnar árið 2006 á vegum samtakanna Blátt áfram, sem sameinaði krafta sína við Barnaheill árið 2019.
Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.–4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vináttu er ætlað að þjálfa félagsfærni og samskipti og stuðla að góðum skólabrag.
Í lok nóvember var gengið frá samningi til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun, um stuðning við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.
Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. desember 2022.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Eru aðgerðirnar til þess fallnar að styðja við markmið samninganna um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta.
Áhersla er lögð á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.
Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðningur aukinn verulega en með breytingunum fjölgar fjölskyldum sem fá barnabætur. Stjórnvöld munu einnig á samningstímabilinu vinna að ýmsum umbótum, m.a. er varða heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, afkomutryggingu í fæðingarorlofi, atvinnuleysistryggingum og ábyrgðarsjóði launa auk málefna vinnustaðanámssjóðs.
Þá verður stuðningur veittur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.
Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 lagði ríkisstjórnin einnig fram sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara en þar vega þyngst yfir 12 milljarða aukning til heilbrigðismála og hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna í 200.000 krónur á mánuði.
Nánar um aðgerðirnar
Húsnæðismál
Fjölgun nýrra íbúða. Stjórnvöld munu í samningum við sveitarfélög á grundvelli rammasamkomulags um uppbyggingu íbúða næstu 10 árin hafa að markmiði að auka lóðaframboð og veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.
Fjölgun almennra íbúða. Áfram verður unnið að öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða 4 milljarðar króna á árinu 2023.
Endurbætur verða gerðar á húsnæðisstuðningi.
Húsnæðisbætur leigjenda hækka um 13,8% í upphafi næsta árs og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%.
Eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi næsta árs.
Almenn heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verður framlengd til ársloka 2024.
Fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda verður tekið til endurskoðunar á samningstímanum með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.
Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda:
Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi um endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöð og húsnæðisöryggi leigjenda.
Barnabætur
Barnabótakerfið verður einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur og fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað.
Dregið verður úr skerðingum í barnabótakerfinu, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni og tímanleiki bótanna aukinn.
Teknar verða upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir bótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns.
Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í núverandi kerfi á næstu tveimur árum.
Önnur mál
Veittur verður 10 m.kr. viðbótarstuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði.
Skoðaðar verða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga leigufélögum.
Lagt verður mat á greiðslur og hámarksfjárhæðir í Fæðingarorlofssjóði og ábyrgðasjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjalds með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
Nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023. Unnið verður að innleiðingu á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu á samningstímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar.
Málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.
Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinna vegna afgreiðslu fjárlaga
Ríkisstjórnin lagði á dögunum til sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara. Heilbrigðismál vega þar þyngst en lögð er til yfir 12 milljarða aukning í þeim málaflokki. Er gert ráð fyrir að framlögin renni bæði til rekstrar sjúkrahúsa og heilsugæslunnar, eða um 4,3 milljarðar króna. Einnig er rík áhersla á að framlögin nýtist í beina þjónustu við sjúklinga, svo sem með því að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og með auknum framlögum til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.
Meðal annarra mikilvægra mála má nefna að lagður er til rúmur milljarður til hækkunar frítekjumarks öryrkja í 200.000 krónur á mánuði og að gefnir verði eftir 5 milljarðar króna af tekjuskatti einstaklinga en útsvarstekjur sveitarfélaga hækkaðar á móti til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks.
Þá er gert ráð fyrir stórauknum framlögum á sviði almanna- og réttaröryggis, þar á meðal um 900 milljónum króna til lögreglunnar og hálfs milljarðs hækkun í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, var með óundirbúna fyrirspurn fyrir matvælaráðherra á Alþingi um greiðslumark sauðfjárbænda.
Minnti hún matvælaráðherra á að greiðslumarkið væri eini öryggi greiðslugrunnurinn sem sauðfjárbændur hljóta sama hvort ári vel eða illa. Því komi það á óvart að ætlan ráðherra væri að hefja að nýju niðurtröppun á greiðslumarkinu.
„Árið 2019 var ákveðið að stöðva niðurtröppun greiðslumarks vegna slæmrar afkomu í stéttinni. Það var án efa rétt skref á sínum tíma en staða sauðfjárbænda í dag er því miður engu skárri en þá. Það vekur því furðu að hefja eigi niðurtröppun að nýju þegar staðan hefur ekki batnað síðan árið 2019 og nýliðun er því miður í lágmarki,“ sagði Ingibjörg.
„Sauðfjárbændur á Norðvestur- og Norðausturlandi horfa áhyggjufullir á áframhaldið, skyldi umrædd niðurtröppun verða að veruleika, enda þau svæði landsins sem verst verða úti ef þetta gengur eftir. Sauðfjárbændur hafa ítrekað ávarpað fyrirhugaða niðurtröppun og deilt áhyggjum sínum af stöðunni, bæði opinberlega og innan sinna raða.“
Á síðustu tveimur aðalfundum sauðfjárbænda hefur niðurstaðan verið samhljóma um að niðurtröppun skuli ekki taka gildi um áramótin. Augljóst sé að sauðfjárbændur standa saman í þessu hagsmunamáli.
„Að auki vekja þessi áform sérstakan óhug meðal yngri sauðfjárbænda sem margir hafa fjárfest í greiðslumarki. Þessi óvissa er alls ekki til þess fallin að auka nýliðun innan stéttarinnar. Þetta er skýr vilji bænda og hann byggir ekki á óskhyggju heldur nauðsyn.“
„Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggst halda niðri niðurtröppun á greiðslumarki til sauðfjárbænda áfram í lok ársins þrátt fyrir ákall sauðfjárbænda og þann mikla sameiningarmátt sem loksins er innan greinarinnar,“ sagði Ingibjörg.
„Ekki þeir er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri“
Matvælaráðherra segir að bændur hefðu enga eina skoðun á kerfinu, það hafi komið fram í svörum bænda í könnunum og eins í samtölum bænda er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri, eru ólík.
„Þegar sauðfjárbændur eru spurðir hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt þeim finnist greiðslumarkskerfið vera þá er afstaða sauðfjárbænda klofin. Sá hluti sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark vill halda í það kerfi og finnst það sanngjarnt. Þeir bændur sem eiga lítið greiðslumark og sjá að þangað flytjast fjármunir finnst þetta kerfi ósanngjarnt.“
„Raunar er kerfið svo umdeilt að meira að segja fimmtungur þess hluta sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark telur að kerfið sé ósanngjarnt þrátt fyrir það. Þessi spurning var lögð fyrir sauðfjárbændur sumarið 2021 í könnun á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og könnuninni svöruðu 770 sauðfjárbændur,“ sagði matvælaráðherra.
„Aðalatriðið er það, virðulegi forseti, að halda því til haga að á mínum tíma í embætti hefur svo sannarlega verið hlustað á bændur,“ sagði matvælaráðherra.
Vilji sauðfjárbænda sjaldan verið jafn skýr
Ingibjörg sagði það „afar ánægjulegt að heyra að það sé verið að hlusta á sauðfjárbændur. Það er varla hægt að ítreka nógu oft hversu mikilvægt það er að taka samtalið og það sé hlustað, því að sjaldan hefur vilji sauðfjárbænda verið jafn skýr og núna.“
„Við eigum að koma í veg fyrir að rekstrargrundvöllur sauðfjárbænda sem stendur höllum fæti í dag fari versnandi. Með leyfi forseta, vitna ég hér til samningsins:
„Á grundvelli upplýsinga skv. 1. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirrar fjárhæðar sem ætluð er til hvers verkefnis.“
„Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta ekki leið sem er hugsanlega fær þar sem kveðið er á um þetta í samningnum sjálfum?“
Matvælaráðherra svarði því til að ef fallast ætti á beiðnina myndi rúmlega helmingur bænda fá hærri greiðslur en helmingur bænda fá lægri greiðslur.
„Heildarumfangið er upp á rúmar 110 millj. kr. sem myndi flytjast milli bænda, en þetta eru 2,3% af heildarumfangi sauðfjársamningsins. Það er rétt að árétta að við þessa breytingu lækkar ekki stuðningurinn við sauðfjárrækt heldur færist, bara þannig að það sé sagt,“ sagði matvælaráðherra.
VERJA ÞARF STERKA STÖÐU RÍKISSJÓÐS Í FJÁRLÖGUM 2023
Það er fastur liður í aðventudagskrá Alþingis að fjalla um og samþykkja fjárlög fyrir komandi ár. Í upphafi kjörtímabils voru krefjandi tímar fram undan, heimsfaraldur stóð yfir og sama dag og takmörkunum var aflétt hér á landi réðust Rússar inn í Úkraínu. Þessir þættir hafa skapað óvissu bæði hér innanlands sem og í Evrópu. Eðli málsins samkvæmt er það ekki óeðlilegt í ástandi sem þessu að verðbólga og hækkun á aðföngum taki sér pláss í fjárlögum líkt og í heimilisrekstri landsmanna. Staðan í efnahagsmálum í Evrópu er erfiðari en lengi hefur verið.
Skýr afkomubati
Þrátt fyrir þessar staðreyndir er það markmið ríkisstjórnarinnar að verja sterka stöðu ríkissjóðs með því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári. Í framlögðum fjárlögum má finna skynsamleg skef framávið sem lúta að því að styrkja áfram innviði og grunnþjónustu í landinu en það er sterkur leikur til að verja kaupmátt landsmanna. Þá má einnig finna að dregið er úr útgjöldum enda var verulega bætt í útgjöld til að verja störf og heimili í gegnum heimsfaraldurinn. Það er mikilvægt skref til að vinna gegn verðbólgu þegar horft er til næstu missera í þjóðarbúskapnum. Í fjárlögum næsta árs eru þó jákvæð teikn á lofti um að við séum að vaxa út úr þeim stóru verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir og að viðsnúningur geti orðið hraður ef rétt er haldið á spöðunum.
Treystum heilbrigðisþjónustu
Heilbrigðiskerfið með öllu sínu frábæra starfsfólki hefur staðið sem klettur í gegnum heimsfaraldur þrátt fyrir mikla ágjöf. En svo það geti staðið sterkt áfram þarf að bæta verulega í málaflokkinn. Við erum enn að glíma við eftirköstin eftir faraldurinn og þá þurfum við einnig að mæta næstu áskorun sem er fjölgun landsmanna og stækkandi hópur eldra fólks. Auk þess er til staðar uppsöfnuð þjónustuþörf eftir COVID. Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu en framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 ma.kr. á næsta ári. Þar vegur þyngst 6.8 ma.kr raunhækkun til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Þá verður áfram haldið við að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2. ma. viðbótarframlagi auk þess sem horft er til þess að efla heimahjúkrun.
Framlag til jarðhitaleitarátaks
Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í því að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.
Ferjurekstur tryggður
Það er örugglega öllum enn í fersku minni þegar Breiðafjarðarferjan Baldur bilaði í siglingu sinni yfir fjörðinn og minnti okkur rækilega á mikilvægi þess að þeir farþegar sem nýta sér þennan samgöngumáta geti treyst á öryggi skipsins. Sveitarfélög beggja megin Breiðafjarðar telja mikilvægt að tryggja þennan samgöngumáta, þrátt fyrir að bættar samgöngur á vegum stæði fyrir dyrum.
Í fjárlögum næsta árs má nú finna 210 m.kr. til þess að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð. Þá er það fyrirséð að núverandi rekstraraðili ferjunnar Baldurs mun hætta siglingum um Breiðafjörð. Þess í stað er gert ráð fyrir því að leigja eða kaupa aðra ferju og hefur eitt skip komið til álita, Röst, sem er nú í siglingum í Norður – Noregi.
Löggæsla efld
Áform eru uppi um að styrkja lögregluna um allt land með því að dreifa verkefnum á lögregluembættin út um landið og dreifa þannig álaginu. Á sama tíma á að styrkja grunnviðbragð lögregluembættanna á landsbyggðunum. Auk þess sem meirihluti fjárlaganefndar lagði til aukna fjárheimild upp á 200 milljónir til að draga úr aðhaldskröfu á lögregluna.
Velferðarfjárlög
Heilt yfir getum við horft til þess að fjárlög fyrir árið 2023 séu velferðarfjárlög, þar má m.a. finna hækkun á frítekjumarki atvinnutekna örorku og endurhæfingalífeyrisþegar í 200 þús , aukið kastljós á heilbrigðiskerfið, tímabundið framlag til sveitarfélaga vegna samræmda móttöku flóttamanna og ásamt sérstöku úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.
Sterk landsbyggð tekur á móti nýjum áskorunum
Við horfum fram á veginn inn í nýja framtíð. Við sjáum það nú að stuðningur stjórnvalda í gegnum heimsfaraldur við atvinnulífið og fjölskyldur í landinu skilaði því að við komum standandi niður eftir heimsfaraldur og stöndum mun betur en margar aðrar þjóðir. Með mörgum ákveðnum og markvissum skrefum voru settir saman aðgerðarpakkar til að verja fólk og fyrirtæki. Áfram verða þó til staðar áskoranir sem takast þarf á við, en þetta ár hefur sýnt að byggðarlög um land allt eru tilbúin í að nýta sér þau tækifæri og sérstöðu sem þau búa við, til að vaxa áfram og dafna.
Kastljós kvikmyndaheimsins beinast nú að Íslandi þegar Evrópsku kvikmyndaverðlaunin (e. European Film Awards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mikill heiður fyrir Ísland að Reykjavík hafi orðið fyrir valinu sem vettvangur verðlaunanna en hátíðin er haldin annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skiptis í öðrum borgum Evrópu en íslenska ríkið og Reykjavíkurborg halda hátíðina í samstarfi við Evrópsku kvikmyndaakademíuna.
Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rósin í hnappagat íslenskrar kvikmyndamenningar sem hefur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gestir verða viðstaddir hana, þar af um 700 erlendir gestir frá yfir 40 löndum auk yfir 100 blaðamanna og áhrifavalda sem munu gera hátíðinni skil.
Á umliðnum árum hafa stór skref verið tekin til þess að efla íslenska kvikmyndagerð. Fyrsta heildstæða kvikmyndastefnan fyrir Ísland, Kvikmyndastefna til ársins 2030 – Listgrein á tímamótum, var kynnt fyrir tveimur árum sem markaði ákveðin vatnaskil. Í henni eru útlistuð ýmis markmið og fjölþættar aðgerðir til þess að efla umgjörð kvikmyndagerðar hér á landi, til að mynda í menntamálum, betri samkeppnisstöðu, aukinni sjálfbærni og markvissu alþjóðlegu kynningarstarfi.
Mikill metnaður hefur verið lagður í framfylgd stefnunnar á skömmum tíma. Þannig fékk Kvikmyndasjóður aukainnspýtingu upp á tæpan milljarð króna vegna heimsfaraldursins. Í gær var tilkynnt um áætlaða viðbótarfjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breytingar í ríkisfjármálaáætlun frá því í sumar. Endurgreiðsluhlutfall í kvikmyndagerð á Íslandi hefur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en framlag til endurgreiðslna í kvikmyndagerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 milljarða króna, sem er veruleg hækkun. Fjármunir til kvikmyndamenntunar á framhaldsskólastigi voru auknir og langþráðu kvikmyndanámi á háskólastigi komið á laggirnar svo dæmi séu tekin.
Allt þetta skiptir máli fyrir þann öfluga hóp fólks sem hefur helgað sig íslenskri kvikmyndagerð, en án hans væri kvikmyndaiðnaðurinn fátæklegur hér á landi. Íslensk kvikmyndamenning er orðin samofin þjóðarsálinni og menningu landsins. Sá ríki vilji stjórnvalda til þess að sækja um að halda Evrópsku kvikmyndaverðlaunin hér á landi var meðal annars með ofangreint í huga, að tileinka hátíðina grasrótinni í íslenskri kvikmyndagerð og undirstrika það, með veglegum kastljósum, hversu framarlega Ísland stendur í heimi kvikmyndanna. Ég óska öllum til hamingju með hátíð dagsins, sem verður landi, þjóð og menningu til sóma.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlýfeyrisþega
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar mælti fyrir nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar um eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlýfeyrisþega í desember að fjárhæð 60.300 kr. sem á að greiðast eigi síðar en 31. desember 2022.
Jólakveðja frá bæjarfulltrúum Framsóknar í Suðurnesjabæ
Jólahátíðin nálgast enn á ný og allt sem henni fylgir. Íbúar og fyrirtæki skreyta hátt og lágt, jólatónlistin ómar, ungum sem öldnum fer að hlakka til að opna pakka og borða góðan mat með fjöldskyldu og vinum.
Það er því við hæfi að líta yfir farinn veg en árið hefur verið viðburðaríkt ogþar má nefna sveitastjórnarkosningar sem fóru fram þann 14. maí 2022. Árangurinn sem við í Framsókn náðum í Suðurnesjabæ var sá sem stefnt var að í upphafi og erum við öllum ævinlega þakklát fyrir góða hvatningu og stuðning. Án þess værum við einfaldlega ekki bæjarfulltrúarnir ykkar í Suðurnesjabæ. Markmið okkar er og hefur alltaf verið skýrt og það er að vera öflugir bæjarfulltrúar í Suðurnesjabæ ásamt því að vera hreyfiafl framfara í samfélaginu.
Eftir kosningar mynduðu svo B listi og D listi meirihluta í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar. Meirihlutinn hefur mótað stefnu með málefnasamningi næstu fjögur árin þar sem leiðarstefið er að efla samfélag í sókn, byggja upp innviði og tryggja lóðarframboð í Suðurnesjabæ. Ásamt því að stuðla að góðum rekstri sveitarfélagsins og tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Suðurnesjabæjar. Þjóðin er að koma mun betur út úr efnahagsáfallinu sem tengt er heimsfaraldri Covid19 en gert var ráð fyrir, það eru þó krefjandi tímar þessa stundina þar sem verðbólga er um 10% og stýrivextir hafa ekki verið hærri í 12 ár. Einnig má nefna óvissuna tengda kjarasamningum. Við munum þó ávallt horfa bjartsýn á framtíðina, með það á leiðarljósi að við horfum á það sem samfélagslegt verkefni saman að kveða niður verðbólgu og horfum björt fram á veginn.
Það er friðsælt og fallegt á Íslandi og fátt fallegra en desemberkvöld í froststillum eins og hafa verið á undanförnu, að horfa á stjörnubjartan himinn og sjá jafnvel norðurljósin skína.
Kæru íbúar, nú gengur í garð tími kærleikarog vináttu. Njótum hans saman, við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Anton Guðmundsson og Úrsúla María Guðjónsdóttir,bæjarfulltrúar Framsóknar í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2022.
Síðastliðin ár höfum við séð mikla fjölgun heimsókna ferðamanna til Íslands. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll, en með tilkomu nýrra flugfélaga í millilandaflug hafa nýjar gáttir opnast inn í landið. Félögin fljúga bæði frá Akureyri og Egilsstöðum, sem skapar mikil tækifæri í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Einnig höfum við séð stóraukningu í framboði á veitingastöðum, gistirýmum, afþreyingu og verslunum á svæðinu okkar. Þessi stóraukning hefur vissulega orðið vegna mikils áhuga ferðamanna á svæðinu. Staðreyndin er að Norðausturland hefur mikið aðdráttarafl, býr yfir mikilli fegurð og það er frábært að vera þar. Það er nefnilega ekki bara fólkið á hverjum stað fyrir sig sem hefur ávinninginn af fjölgun ferðamanna á landsbyggðinni því þjónustustig á landsbyggðinni eflist með sterkari innviðum. Við þurfum að grípa tækifærin þegar þau birtast okkur, finna leiðir að betri og sanngjarnari dreifingu ferðamanna á milli landshluta og efla á sama tíma samgöngur um svæðið okkar. Það er okkur öllum og samfélaginu til heilla.
Aðstöðumunur flugvalla
Í kjölfarið sjáum við aðstöðumun millilandaflugvalla landsins á skýrari máta. Hann er margvíslegur, en nýlegar greiningar sýna fram á töluverðan kostnaðarmun á flugvélaeldsneyti milli flugvalla. Þar er flugvélaeldsneyti áberandi ódýrara á Keflavíkurflugvelli. Þá sérstaklega ef miðað er við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Þessi munur felst helst í stórauknum flutningskostnaði þegar eldsneytið er flutt á Norðausturland. Sérfræðingar hafa bent á ýmsar mögulegar leiðir til að jafna kostnaðarmuninn. Allt frá niðurgreiðslu kostnaðar að hálfu ríkisins, fjárfestingu í betri innviðum fyrir afgreiðslu og geymslu birgða til stofnunar óhagnaðardrifna afgreiðslufélaga.
Jöfnun kostnaðar og neyðarvörn
Ljóst er að ýmsar leiðir eru til staðar svo hægt sé að ná því markmiði að jafna kostnað á flugsteinolíu og afgreiðslu hennar á milli millilandaflugvalla hérlendis. Hér væri einnig um að ræða mikilvæga aðgerð til jöfnunar atvinnutækifæra á Akureyri og Egilsstöðum. Það er mikilvægt að við finnum leið til jafna kostnað á flugvélaeldsneyti og með því gera flugvellina okkar á Akureyri og Egilsstöðum samkeppnishæfari í móttöku ferðamanna.
Í því samhengi er einnig talið mikilvægt að komið verði fyrir neyðarbirgðum af flugvélaeldsneyti meðfram lausnum á ofangreindum aðstöðumuni, sem gætu verið geymdar á fleiri en einum stað. Slík fyrirbyggjandi aðgerð getur skipt sköpum ef nauðsynlegt væri að grípa til neyðarráðstafana.
Finnum leið
Undirrituð hefur lagt fram beiðni um skýrslu frá innviðaráðherra um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum í samanburði við Keflavíkurflugvöll. Óskað er þess að í skýrslunni verði kveðið á um hugsanlegar aðgerðir sem hægt er að grípa til svo möguleiki sé á að ná framangreindum markmiðum á sem hagkvæmasta máta.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.
Greinin birtist fyrst á akureyri.net 10. desember 2022.
Það virðist vera lítill áhugi hjá meirihlutanum á Akureyri að vinna að framtíðarsýn sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun og í tekjum sveitarfélagsins til lengri tíma. Í seinni umræðum um fjárhagsáætlun lögðu bæjarfulltrúar Framsóknar eftirfarandi tillögu fram til afgreiðslu:
Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu.
Þessari tillögu var hafnað. Rökin sem voru gefin fyrir því að hafna þessari tillögu voru að taka ætti upp aðalskipulagið og fara í vinnu við svæðisskipulag. Þetta eru sannarlega mikilvæg verkefni en stefna sem þessi ætti einmitt að vera undirbúningur fyrir slíka vinnu.
Það er á starfsáætlun Akureyrarbæjar að fara í endurskoðun á síðustu atvinnumálastefnu, sem er runnin út, en við viljum útvíkka vinnuna. Í samtölum okkar við áhugasama bæjarbúa um aukna verðmætasköpun í bænum höfum við fundið fyrir því að það vantar sárlega þennan sameiginlega samræðugrundvöll sem við teljum að sveitarfélagið eigi að hafa forystu um að koma af stað. Auk þess teljum við mikilvægt að gera unga fólkinu okkar kleift að setjast hér að í framtíðinni og þá þarf að huga sérstaklega að fjölbreytni í atvinnulífi og aðstöðu til fjarvinnu.
Það eru einkum þrír þættir sem kalla á nýja atvinnustefnu Akureyrar og að vinna að mótun hennar hefjist án tafar.
Fyrir það fyrsta, ferðaþjónustan og þróun mála í flugsamgöngum
Okkur miðar vel áfram við að markaðssetja Akureyrarflugvöll fyrir beint flug og Norðurland er að verða sífellt eftirsóknarverðari áfangastaður erlendra ferðamanna. Það er hins vegar alls ekki ljóst að við séum í stakk búin til að taka á móti þessum vaxandi fjölda ferðamanna – og við verðum að geta gert okkur betur grein fyrir því hvað vöxtur þessarar atvinnugreinar getur þýtt fyrir almennan vöxt bæjarins og skipulag allrar þjónustu. Í þessu tilliti má einnig nefna íþróttatengda ferðamennsku.
Annar þáttur eru orkumálin
Með endurnýjun byggðarlínunnar er að verða til mjög frjór jarðvegur fyrir orkutengdan iðnað og starfsemi, og eru aðstæður hvað orkuafhendingu varðar að verða betri hér í Eyjafirðinum en víða annars staðar. Þessi staða varir hins vegar ekki að eilífu og mikilvægt að bregðast hratt og örugglega við. Auk þess þarf að vinna að framgangi Blöndulínu 3 hratt og örugglega.
Fyrirtæki eru í auknum mæli að velja sér staðsetningu út frá forsendum sjálfbærni og nýjar atvinnugreinar eru að verða til á þeim sömu forsendum. Atvinnuvegir sem eru nú þegar í vexti víða um land eru m.a.:
● Ýmis konar grænn iðnaður sem er háður orkunýtingu, t.d. framleiðsla rafeldsneytis sem margir sjá sem lykilinn að því að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti.
● Umhverfisvæn gagnaver sem ýta undir aukna stafsemi upplýsinga- og hátæknifyrirtækja á svæðinu.
● Og síðast en ekki síst matvælanýsköpun, þar sem við erum að sjá nýjar framleiðsluaðferðir sem miða að minnkandi kolefnisspori, svo sem þörungaræktun o.s.frv.
Það er nauðsynlegt að vera búin að greina þessi tækifæri til hlítar og jafnvel vera tilbúin með tillögu að forgangsröðun á nýtingu orkunnar – í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.
Þeim mun betur undirbúin sem við erum, þeim mun betur erum við líka í stakk búin til að keppa um og draga að þau fyrirtæki sem við höfum áhuga á að komi hingað. Oft þurfa fyrirtæki að hreyfa sig hratt og geta ekki beðið eftir löngum og þyngslalegum úrvinnslutíma, ekki síst minni- eða meðalstóru fyrirtækin eða fyrirtæki á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.
Þriðji þátturinn er vaxandi hlutverk Akureyrar sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð fyrir stóran landshluta
Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ný, metnaðarfull atvinnustefna er okkar framlag inn í það samtal og sýnir að við erum tilbúin í aukinn vöxt og verðmætasköpun á svæðinu til framtíðar.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.
Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 9. desember 2022.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.