Categories
Fréttir Greinar

Viðspyrna gegn verðbólgu

Deila grein

04/04/2023

Viðspyrna gegn verðbólgu

Það er afar já­kvætt að vext­ir á rík­is­skulda­bréf­um hafi lækkað veru­lega í kjöl­far auk­ins taum­halds pen­inga­stefnu sam­hliða nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un. Til­trú fjár­festa á aðgerðum stjórn­valda er að aukast. Aðhald og skýr for­gangs­röðun er meg­in­stef í nýkynntri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ásamt því að styðja við brýn verk­efni og standa vörð um al­mannaþjón­ust­una. Rík­is­fjár­mál­in þurfa að vinna með pen­inga­stefnu Seðlabank­ans til að ná jafn­vægi í efna­hags­líf­inu og ná verðbólg­unni niður. Fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára sýn­ir þá stefnu stjórn­valda að beita rík­is­fjár­mál­un­um með mark­viss­um hætti til að ná niður verðbólgu og frek­ari hækk­un vaxta með auknu aðhaldi, tekju­öfl­un og frest­un fram­kvæmda.

Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjón­ust­una, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífs­kjör al­menn­ings. Skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lækka á tíma­bil­inu og af­koma batn­ar. Lagður verður á 1% tíma­bund­inn viðbót­ar­skatt­ur á lögaðila á ár­inu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyr­ir aukn­um tekj­um af ferðaþjón­ustu með skatt­lagn­ingu á skemmti­ferðaskip sam­bæri­legri við gistinátta­gjald sem og aukn­um tekj­um af fisk­eldi og sjáv­ar­út­vegi ásamt breyt­ing­um á skatt­lagn­ingu öku­tækja og eldsneyt­is.

Á umliðnum árum hef­ur verið fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um mála­flokk­um á mál­efna­sviðum menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins sem hef­ur skilað sér í betra sam­fé­lagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjár­mála­áætl­un er að finna ýms­ar áhersl­ur kom­andi ára í þeim mála­flokk­um. Má þar nefna hið mjög svo brýna verk­efni að bæta rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með skatta­leg­um stuðningi til að tryggja fjöl­breytni á fjöl­miðlamarkaði í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála. Með nýj­um aðgerðum vilj­um við skapa hvata og auka sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði.

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öfl­un áreiðan­legra gagna og innviðaupp­bygg­ingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönn­um víðar um landið og yfir allt árið.

Þá er gert ráð fyr­ir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjón­ustu til að auka lífs­gæði heyrn­ar­skertra og heyrn­ar­lausra. Lögð verður fram til­laga til þings­álykt­un­ar um ís­lenskt tákn­mál og aðgerðaáætl­un vegna henn­ar. Barna­menn­ing­ar­sjóður verður fest­ur í sessi með 100 m.kr. ár­legu fram­lagi ásamt verk­efn­inu List fyr­ir alla og auk­inn þungi verður sett­ur í neyt­enda­vernd og unnið að heild­ar­stefnu­mót­un sem áætlað er að ljúki fyr­ir árs­lok 2024.

Starfs­um­hverfi lista­manna og um­gjörð starfs­launa lista­manna verður bætt á tíma­bil­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur verið unnið að til­lög­um í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í fram­kvæmd. Mark­mið stjórn­valda er að starfs­launa- og verk­efna­sjóðir tryggi bet­ur af­komu þeirra sem starfa í list­um eða við skap­andi grein­ar, stuðli að meiri fjöl­breytni í út­hlut­un­um, auknu og jöfnu aðgengi mis­mun­andi list­greina og raun­særri viðmiðum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar. lda@mvf.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Til varnar lýðræðinu

Deila grein

02/04/2023

Til varnar lýðræðinu

Fall Berlín­ar­múrs­ins er ein sterk­asta minn­ing mín úr æsku. Ég man það eins og í gær þegar hundruð Aust­ur-Þjóðverja þyrpt­ust að tákn­mynd ein­ræðis­ins og Berlín­ar­múr­inn var mölvaður niður. Ég sat með pabba og horfði á þenn­an sögu­lega viðburð í beinni út­send­ingu og geðshrær­ing­in var mik­il. Sov­ét­rík­in voru fall­in og með þeim þeir ein­ræðis­stjórn­ar­hætt­ir sem ráðið höfðu ríkj­um hand­an járntjalds­ins. Fólkið braust út úr fjötr­um hræðilegs stjórn­ar­fars, sem elur ekk­ert af sér annað en ótta og kúg­un. Ekki bjóst ég við því að um rúm­um ald­ar­fjórðungi síðar væri Evr­ópa að fást við fas­isma í tún­fæti sín­um.

Ræt­ur ein­ræðis

„Ein­ræðis­hyggja er ekki póli­tísk hug­mynda­fræði held­ur aðferð til hrifsa til sín völd og halda þeim,“ þannig skil­greindi fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna og pró­fess­or­inn Madeleine Al­bright viðfangs­efnið. Þessi póli­tíska aðferðafræði er að vísu leyti frem­ur óljós en hef­ur verið beitt bæði af stjórn­mála­mönn­um lengst til hægri og vinstri. Upp­sprettu ein­ræðis­hyggju má oft rekja til óánægju eða reiði al­menn­ings, hvort held­ur vegna tapaðs stríðs, glataðra landsvæða, at­vinnum­issis eða ein­hverr­ar blöndu þess­ara þátta. Þekkt­ustu leiðtog­ar ein­ræðis­hyggju hafa oft búið yfir ákveðum per­sónutöfr­um sem gera þeim kleift að tengj­ast fjöld­an­um til­finn­inga­bönd­um, breyta reiði al­menn­ings í hug­læga sam­stöðu og til­gang. Ásamt því hafa leiðtog­ar þeirra lagt of­ur­vald á að hafa stjórn á upp­lýs­ing­um í ríkj­um sín­um. Hvort held­ur með um­fangs­mikl­um áróðri, upp­lýs­inga­óreiðu eða fals­frétt­um. Mark­miðið er í raun að bæla frjálsa hugs­un.

Hrika­leg­ar af­leiðing­ar ein­ræðis­hyggju 20. ald­ar­inn­ar

Sag­an hef­ur sýnt okk­ur að fas­ist­ar kom­ast sjaldn­ast til valda með vald­aránstilraun held­ur taka þeir eitt skref í einu og fylgja oft leik­regl­um lýðræðis­ins. Eft­ir mis­heppnað vald­arán í Bæj­aralandi árið 1923 í suður­hluta Þýska­lands ein­beitti Nas­ista­flokk­ur­inn sér að því að kom­ast lög­legu leiðina að völd­um en tók þátt í kosn­inga­s­vindli sem leiddi að lok­um til þess að Ad­olf Hitler var skipaður kansl­ari. Í kjöl­farið réðst hann gegn stofn­un­um rík­is­ins, ógnaði póli­tísk­um and­stæðing­um og kom á alræðis­stjórn. Ítal­ía var und­ir fasískri stjórn í rúma tvo ára­tugi, þar sem Benito Mus­sol­ini réð ríkj­um. Af­leiðing­ar stjórn­ar­fars­ins í Þýskalandi og Ítal­íu voru hrika­leg­ar. Þýska­land hóf seinni heims­styrj­öld­ina og þegar yfir lauk er talið að um 80 millj­ón­ir manna hafi lát­ist í átök­un­um, sem náðu alla leið til Asíu, og þar af að minnsta kosti sex millj­ón­ir Gyðinga og aðrir minni­hluta­hóp­ar sem voru skipu­lega myrt­ir í hel­för­inni.

Lýðræði er far­sæl­asta stjórn­ar­farið en stuðning­ur minnk­ar

Lýðræði er horn­steinn far­sæld­ar í vest­ræn­um sam­fé­lög­um. Stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagið er ekki galla­laust. Hins veg­ar hef­ur ekk­ert stjórn­ar­far reynst betra enda bygg­ist það á skýr­um lög­um, frelsi ein­stak­linga til at­hafna og tján­ing­ar, vald­dreif­ingu og sjálf­stæðum dóm­stól­um ásamt reglu­bundn­um kosn­ing­um. Þessi grund­vall­ar­atriði stjórn­ar­fars hafa skapað mik­il auðæfi og vel­sæld í þeim sam­fé­lög­um sem hafa virt og hlúð að lýðræðinu. Staða lýðræðis á heimsvísu er þó brot­hætt. Mik­il eft­ir­vænt­ing og bjart­sýni greip um sig við fall Berlín­ar­múrs­ins og þá til­finn­ingu að lýðræði væri að ná yf­ir­hönd­inni. Því miður er vax­andi skoðun að annað stjórn­ar­far en lýðræði geti búið til betri lífs­kjör. Lýðræðis­vís­ir tíma­rits­ins „The Econom­ist“, sem fylg­ist með lýðræði um all­an heim og bygg­ir á mæli­kvörðum á borð við virðingu fyr­ir réttri málsmeðferð og trúfrelsi, gef­ur til kynna að heilsu lýðræðis hafi farið hrak­andi í 70 lönd­um frá ár­inu 2017. Sam­hliða því hafa skoðanakann­an­ir sýnt að þótt flest­ir trúi á full­trúa­lýðræði tel­ur einn af hverj­um fjór­um já­kvætt að leyfa leiðtoga að stjórna án aðkomu þings eða dóms­kerf­is. Einn af hverj­um fimm er hlynnt­ur her­stjórn. Að sama skapi kom fram í nýj­ustu grein­ingu Lýðræðis marg­breyti­leik­ans að um 72% íbúa heims­ins búa við ein­ræði, sam­an­borið við 50% fyr­ir ára­tug. Í fyrsta sinn í meira en tvo ára­tugi eru fleiri ein­ræðis­rík­is­stjórn­ir en lýðræðis­rík­is­stjórn­ir.

Or­sak­ir dvín­andi til­trú­ar á lýðræði á 21. öld­inni

Það er öf­ug­snúið að eina skýr­ingu á þess­ari þróun í sam­tím­an­um má rekja til þeirra um­fangs­miklu tækni­fram­fara sem við njót­um á hverj­um degi. Segja má að sjald­an hafi ein­stak­ling­ur­inn upp­lifað eins mikl­ar fram­far­ir á jafn skömm­um tíma. Gervi­greind­in, sem tröllríður öllu um þess­ar mund­ir, er einnig spenn­andi en marg­ar áskor­an­ir munu fylgja þess­um breyt­ing­um sem hún hef­ur í för með sér. Það er þó einkum tvennt sem fylg­ir þessu tækniumbreyt­inga­skeiði sem minnk­ar til­trúna á lýðræðið. Í fyrsta lagi þró­un­in á vinnu­markaðnum. Mik­il til­færsla er að eiga sér stað í hag­kerf­inu með nýrri tækni. Hefðbund­in störf líkt og í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, leigu­bíl­stjór­ar, prent­ar­ar og fleiri hafa upp­lifað að störf­in séu úr­elt eða mikl­ar breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi sínu í fjórðu iðnbylt­ing­unni. Þessi þróun er ekki ný af nál­inni og ekki svo ólík þeirri sem var uppi í kjöl­far iðnaðar- og tækni­bylt­inga á fyrri tím­um. Í sum­um ríkj­um í Evr­ópu er eitt af hverj­um fjór­um ung­menn­um án at­vinnu og hlut­fallið er enn hærra hjá inn­flytj­end­um. Það er því skilj­an­legt að efi geti farið að mynd­ast gagn­vart lýðræðinu, sem virðist ekki finna þess­um ein­stak­ling­um stað í til­ver­unni. Í öðru lagi mikið magn af upp­lýs­inga­óreiðu og fals­frétt­um og verri staða rit­stýrðra fjöl­miðla. Þessi fyr­ir­bæri eru þó ekki ný af nál­inni. Frægt er í sjálf­stæðis­stríði Banda­ríkj­anna, þegar sjálf­ur Benja­mín Frank­lín notaði prentvél­ina til að dreifa „fals­frétt­um“ um voðaverk Breta. Í þá daga var það mik­il fyr­ir­höfn að koma slík­um sög­um af stað og náði til tak­markaðs fjölda. Annað dæmi er hvernig nas­ist­ar í Þýskalandi gáfu hverju heim­ili út­varp til að breiða út áróður. Á öld sam­fé­lags­miðla er staðan hins veg­ar allt önn­ur. Í dag er auðvelt og ódýrt að dreifa „fals­frétt­um“ til breiðs hóps ein­stak­linga. Nán­ast ómögu­legt er að átta sig á því hvort frétt­ir á Face­book komi frá ábyrg­um blaðamanni, áhrifa­valdi, er­lendri rík­is­stjórn eða er fram­leidd af gervi­greind. Sam­bland efna­hags­legr­ar óvissu og skorts á úrræðum í þeim efn­um frá lýðræðis­lega kjörn­um stjórn­mála­mönn­um get­ur verið gróðrar­stía fyr­ir fas­isma. Efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur óstöðug­leiki óx í fram­haldi af fjár­málakrepp­unni 2008. Auk­in óánægja hef­ur þó víða kraumað und­ir frá því fyr­ir alda­mót þar sem ýtt hef­ur verið und­ir þá skoðun að hnatt­væðing hafi leitt til auk­ins efna­hags­legs ójafnaðar og flutn­ings á hefðbundn­um störf­um. Slík­ar skoðanir hafa víða kynt und­ir gremju og óánægju.

Hlut­verk fjöl­miðla stórt í lýðræðis­legri umræðu

Frjáls­ir fjöl­miðlar veita stjórn­völd­um, stofn­un­um og at­vinnu­líf­inu nauðsyn­legt aðhald. Án traustra og óhlut­drægra fjöl­miðla minnka lík­urn­ar á að fram­kvæmd lýðræðis­legra kosn­inga sé traust og þá dreg­ur jafn­framt úr póli­tískri ábyrgð. Tekju­öfl­un þeirra hef­ur átt veru­lega und­ir högg að sækja vegna sam­fé­lags­miðla og stórra efn­isveitna, þar sem aug­lýs­inga­tekj­ur hafa í vax­andi mæli farið til þess­ara fyr­ir­tækja. Að mínu mati eru berg­máls­hell­ar sam­tím­ans og al­grím­ar ekki til þess falln­ir að styðja við lýðræðis­lega umræðu.

Til að styðja við frjálsa fjöl­miðla á Íslandi er unnið að nýrri fjöl­miðlastefnu til árs­ins 2030 sem ætlað er að styrkja og styðja við rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Frum­varp um rekstr­ar­styrki til fjöl­miðla ligg­ur fyr­ir Alþingi og gert er ráð fyr­ir aukn­um stuðningi í formi skatta­legra íviln­ana í nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un, sem nem­ur tæp­um 2 mö. kr. á tíma­bil­inu. Auk þess sem unnið verður að því að draga úr um­svif­um Rík­is­út­varps­ins á sam­keppn­ismarkaði. Köld rök­vísi seg­ir okk­ur að nú­ver­andi staða á fjöl­miðlum er ekki sjálf­bær.

Loka­orð

Tíu vik­um eft­ir dauða Frank­lins Roosevelts og tæp­um tveim­ur mánuðum eft­ir upp­gjöf Þjóðverja flaug Harry Trum­an for­seti Banda­ríkj­anna til San Francisco til að ávarpa full­trúa hinna ný­stofnuðu Sam­einuðu þjóða. Ræða hans ein­kennd­ist af mik­illi bjart­sýni og von­ar­neista um bjart­ari tíma en að sama skapi hafði hann uppi sterk varnaðarorð: „Ein­ræðis­hyggja dó ekki með Mus­sol­ini“ varaði hann við og hann hélt áfram: „Hitler kann að vera dauður, en fræ­in sem hans sjúki heili sáði náðu því miður fót­festu í hug­um of margra. Staðreynd­in er sú að auðveld­ara er að losa sig við harðstjóra og eyðileggja fanga­búðir held­ur en að drepa hug­mynd­irn­ar sem urðu kveikj­an að þeim.“ Harry Trum­an var einkum að vísa til þeirr­ar hug­mynda­fræði að eig­in þjóð byggi yfir eig­in­leik­um og rétt­ind­um um­fram alla aðra. Seinni heims­styrj­öld­in var hug­mynda­fræðilegt stríð, þar sem lýðræðisöfl­in börðust við fas­ista. Næsta stríð sem háð var, kalda stríðið, var einnig stríð hug­mynda, þ.e. lýðræði gegn komm­ún­isma. Þriðja hug­mynda­fræðilega stríðið er hafið með inn­rás Rússa í Úkraínu.

Það kem­ur óþægi­lega á óvart að sjá upp­gang fasískr­ar hug­mynda­fræði og hreyf­inga á 21. öld­inni í ljósi þeirra hörmu­legu af­leiðinga sem slík­ar stjórn­ir höfðu á 20 öld­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Deila grein

27/03/2023

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Mál­efni gervi­greind­ar hafa verið tals­vert í þjóðfé­lagsum­ræðunni hér í landi í kjöl­far þess að banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI, eða Opin gervi­greind á ís­lensku, til­kynnti að tungu­málið okk­ar hefði verið valið í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta þýðir að við get­um átt sam­ræður við líkanið á ís­lensku og spurt það spjör­un­um úr um hin ýmsu mál­efni og fengið svör á ís­lensku. Þessi ákvörðun fyr­ir­tæk­is­ins var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir menn­ingu okk­ar og þá miklu heima­vinnu sem lagst hef­ur verið í hér á landi til að gera þetta mögu­legt.

Ný­verið ritaði Bill Gates, einn stofn­enda Microsoft, grein þar sem hann fer yfir að öld gervi­greind­ar­inn­ar sé runn­in upp og að tækn­in eigi eft­ir að hafa mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar í för með sér. Þannig rek­ur hann hvernig gervi­greind­in eigi eft­ir að breyta störf­um fólks, námi, ferðalög­um, heil­brigðisþjón­ustu og sam­skipt­um svo dæmi séu tek­in. Hann nefn­ir meðal ann­ars að til­koma gervi­greind­ar­inn­ar sé jafn bylt­ing­ar­kennd og til­koma farsím­ans, al­nets­ins og einka­tölv­unn­ar.

Það skipt­ir máli að Ísland verði ger­andi og taki virk­an þátt í þróun og inn­leiðingu yf­ir­stand­andi tækni­breyt­inga til þess að bæta sam­fé­lagið en á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór og fram­sæk­in skref til þess að huga að þess­um breyt­ing­um með ein­mitt það í huga. Má þar til að mynda nefna stefnu Íslands um gervi­greind sem var unn­in árið 2021 að beiðni for­sæt­is­ráðherra. Þar var mótuð skýr framtíðar­sýn um hvernig ís­lenskt sam­fé­lag geti unnið með gervi­greind, öll­um til hags­bóta. Í stefn­unni er meðal ann­ars farið yfir ýmsa snertifleti gervi­greind­ar við ís­lenskt sam­fé­lag, til að mynda rétt­indi Íslend­inga gagn­vart nýrri tækni, þau gildi sem hafa þarf til hliðsjón­ar við inn­leiðingu henn­ar og hvernig leysa beri úr álita­mál­um henni tengdri.

Það skipt­ir höfuðmáli að mann­fólkið stjórni tækn­inni en ekki öf­ugt. Eitt af þeim stóru atriðum sem Bill Gates ræðir meðal ann­ars í grein sinni er mik­il­vægi þess að gervi­greind­in sé nýtt til góðs en ekki til ill­virkja. Þar hef­ur hann svo sann­ar­lega lög að mæla.

Segja má að eitt fram­sækn­asta skref sem stjórn­völd hafa stigið í seinni tíð hafi verið að fjár­festa í mik­il­væg­um innviðum á sviðum mál­tækni í gegn­um fyrstu mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og und­ir­byggja þannig að ís­lensk­an gæti orðið gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Þannig var Ísland virk­ur ger­andi í því að þróa tækni til hags­bóta fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki hér á landi sem og er­lend­is og leggja sitt af mörk­um til þess að auka nota­gildi gervi­greind­ar á okk­ar eig­in for­send­um. Eft­ir þessu var meðal ann­ars tekið þegar ég, ásamt for­seta Íslands og sendi­nefnd, heim­sótt­um OpenAI í fyrra og töluðum máli ís­lensk­unn­ar. Það er sann­ar­lega ánægju­legt að sjá ár­ang­ur vinnu und­an­far­inna ára skila sér með fyrr­nefnd­um hætti. Við þurf­um hins veg­ar að halda áfram að standa vakt­ina og tryggja að tækn­in skili okk­ur bætt­um lífs­kjör­um á okk­ar for­send­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Á vaktinni í sjötíu ár

Deila grein

23/03/2023

Á vaktinni í sjötíu ár

Í 70 ár hafa Neytendasamtökin unnið einarðlega í þágu neytenda á Íslandi. Fjölmargt hefur breyst á þessum tíma og hafa Neytendasamtökin gegnt mikilvægu hlutverki sem áhrifaafl í þágu bættrar neytendaverndar. Ég vil nýta þetta tækifæri og óska Neytendasamtökunum innilega til hamingju með stórafmælið sem haldið er sérstaklega upp á í dag.

Samstaða er mikilvæg

Það er brýnt að við stöndum saman vaktina í neytendamálum, ekki síst í ljósi þeirrar verðbólguþróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum. Neytendamál eru sígilt viðfangsefni og alltaf er rými til að gera betur. Á kjörtímabilinu gerum við ráð fyrir metnaðarfullum umbótum á sviði neytendaverndar. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu stendur nú yfir vinna við heildarendurskoðun á stofnanaumgjörð og nokkrum af mikilvægustu lagabálkum á sviði neytendaverndar ásamt vinnu við stefnumótun í neytendamálum. Liður í því er að styðja betur við starf Neytendasamtakanna en með nýjum samningi voru framlög til þeirra aukin. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Samvinna er mikilvæg

Markmiðum um umbætur í neytendavernd verður ekki náð nema með náinni og góðri samvinnu stjórnvalda og Neytendasamtakanna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðfélagið að halda verðbólgu í skefjum og það verkefni þarf að nálgast úr ýmsum áttum. Ég hef þá bjargföstu trú að árangur náist þegar við öll leggjumst saman á árarnar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mikilvægt að neytendur séu á tánum gagnvart verðlagningu á vöru og þjónustu og fyrirtæki hækki ekki verð umfram það sem eðlilegt getur talist. Slíkt skiptir máli fyrir lífskjörin í okkar góða landi.

Það er mín von að Neytendasamtökin haldi áfram að vera það frumkvæðisafl í neytendamálum sem samtökin hafa verið og haldi atvinnurekendum og stjórnvöldum við efnið til langrar framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. mars 2023.

Categories
Greinar

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Deila grein

18/03/2023

Alþjóðlegir fjármálamarkaðir vestanhafs titra

Því hef­ur stund­um verið fleygt að vika sé lang­ur tími í póli­tík, en það á ekki síður við á fjár­mála­markaði. Í byrj­un síðustu viku grunaði fáa að mikl­ar uppá­kom­ur væru í vænd­um í banda­ríska banka­kerf­inu vegna falls Silicon Valley Bank (SV-bank­inn), sem reynd­ust af þeirri stærðargráðu að ljós voru log­andi alla síðustu helgi í banda­ríska seðlabank­an­um og fjár­málaráðuneyt­inu. Banda­ríkja­for­seti birt­ist síðan nokkuð óvænt á mánu­dag­inn á sjón­varps­skján­um til að til­kynna neyðaraðgerðir sem voru af þeirri gerð að þeim svipaði til þeirra aðgerða sem hér var gripið til á ár­inu 2008. Banka­kerfið hér var svipað að stærð og SV-bank­inn, en hér varð kerf­is­áfall. Í Banda­ríkj­un­um var hins veg­ar ein­ung­is um að ræða sextánda stærsta banka Banda­ríkj­anna, en þó var hér á ferðinni þriðja stærsta banka­gjaldþrot banda­rískr­ar sögu og stærsta banka­áfallið frá 2008. Það að for­set­inn var dreg­inn fram til að róa markaði benti til þess að sér­fræðing­ar höfðu veru­leg­ar áhyggj­ur af ástand­inu og lík­legt að hér væri á ferðinni viðleitni til að koma í veg fyr­ir að krísa næði að breiða úr sér.

Hvað gerðist hjá bank­an­um?

Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið þrálát­ari en pen­inga­yf­ir­völd gerðu ráð fyr­ir og mæld­ist ný­lega 6%. Spenn­an á vinnu­markaði hef­ur verið mik­il og víða skort­ur á vinnu­afli eft­ir Covid-19. Or­sök falls SV-bank­ans má að ein­hverju leyti rekja til mik­illa hækk­ana á stýri­vöxt­um banda­ríska seðlabank­ans. Í byrj­un árs benti margt til þess að tök­um hefði verið náð í glím­unni við verðbólg­una. Töl­ur um verðbólgu í Banda­ríkj­un­um sem birt­ust fyr­ir um mánuði gáfu hins veg­ar til kynna að enn væri verk að vinna og við það breytt­ust vænt­ing­ar sem leiddi til verðfalls á markaði. Eins og venj­an er þegar slíkt ger­ist fóru markaðsaðilar að líta í kring­um sig að leita uppi veik­leika í kerf­inu. Þegar farið var að rýna í hvað lægi að baki því að SV-bank­inn birt­ist með óvænta fjár­mögn­un­arþörf kom í ljós að bank­inn reynd­ist afar ber­skjaldaður fyr­ir vaxta­áhættu. SV-bank­inn var þar með kom­inn í gin ljóns­ins og um miðja síðustu viku fór að breiðast út orðróm­ur á sam­fé­lags­miðlum um lausa­fjár­vand­ræði bank­ans eft­ir bruna­sölu á rík­is­bréf­um. SV-bank­inn hafði vaxið afar hratt á síðustu árum en hann er með höfuðstöðvar í Kís­ildaln­um og voru helstu viðskipta­menn hans sterk­efnaðir ein­stak­ling­ar úr tækni­geir­an­um og marg­ir þeirra með veru­leg­ar inn­stæður. Þegar orðróm­ur fór að breiðast úr á sam­skiptamiðlum um vand­ræði bank­ans varð hann fyr­ir gam­aldags banka­áhlaupi þar sem viðskipta­vin­ir hans tóku út inn­stæður fyr­ir á fimmta tug millj­arða. Áhlaupið var það öfl­ugt að stjórn­völd þurftu að bregðast skjótt við og taka yfir bank­ann.

Viðbrögð stjórn­valda í Banda­ríkj­un­um

Um síðustu helgi var mik­ill handa­gang­ur í öskj­unni inn­an stjórn­ar­ráðs Banda­ríkj­anna. Það var greini­legt að yf­ir­völd voru ekki ró­leg yfir ástand­inu enda þurfti að taka til­lit til margra þátta. Á sama tíma mátu menn það svo að ekki kæmi til greina að bjarga bank­an­um. Það var þó einnig of­ar­lega í huga manna að vand­ræði vegna vaxta­áhættu væri lík­lega víða að finna í banka­kerf­inu og þörf væri á stuðningsaðgerðum til að koma í veg fyr­ir frek­ari áhlaup. Um helg­ina var því ákveðið að Banda­ríkja­for­seti kæmi strax á mánu­dag­inn fram með fjög­urra liða áætl­un. Áætl­un­in fólst í því að ekk­ert þak yrði á tryggðum inn­stæðum. Bönk­un­um tveim­ur yrði ekki bjargað með skatt­fé, en trygg­ing­ar­sjóður inn­stæðna tæki að sér að tryggja all­ar inn­stæður. Stjórn­völd myndu kom­ast til botns í því sem gerðist og menn yrðu látn­ir sæta ábyrgð. Reglu­verki yrði breytt og banda­ríski seðlabank­inn myndi opna fyr­ir greiðari lausa­fjár­fyr­ir­greiðslu til að koma í veg fyr­ir bruna­út­söl­ur. Þessi ráð virðast hafa dugað til að róa markaðinn í bili þótt enn verði vart við titr­ing á mörkuðum og nú er horft til staðbund­inna banka. Með þess­ari aðgerð var lögð þung byrði á inn­stæðutrygg­ing­ar í Banda­ríkj­un­um. Leik­ur­inn að finna veik­asta hlekk­inn hófst hinum meg­in Atlantsála og fannst hann í formi Cred­it Suis­se, sem lengi hafði legið und­ir ámæli. Í Sviss voru sjón­ar­mið um freistni­vanda ekki að trufla menn í björg­un­araðgerðum í vik­unni og horfðu lík­lega til kerf­isáhættu.

Áhrif­in á pen­inga­stefn­una og á heimsvísu

Í seðlabönk­um er stund­um sagt að verðstöðug­leiki og fjár­mála­stöðug­leiki vegi salt. Þessi at­b­urðarás SV-bank­ans kann að þýða að það muni hægj­ast á vaxta­hækk­un­ar­ferl­inu, þar sem stjórn­völd vilja full­vissa sig um að það ógni ekki fjár­mála­stöðug­leika í land­inu. Þetta get­ur þýtt að ef ekki losn­ar um spennu á vinnu­markaði, þá verður verðbólga í Banda­ríkj­un­um lang­vinn­ari en ella og óvissa meiri. Áhrif­in á heims­hag­kerfið eru þau sömu enda hef­ur ávöxt­un­ar­krafa rík­is­skulda­bréfa lækkað hratt í kjöl­farið. Það er jafn­framt gjarn­an sagt að seðlabank­ar hækki vexti þar til eitt­hvað gef­ur eft­ir. Það má þegar sjá merki þess bæði á fjár­mála­mörkuðum og í raun­hag­kerf­inu, t.d. tækni­geir­an­um, að vænt­an­lega leyn­ast ein­hver vanda­mál und­ir yf­ir­borðinu.

Á síðasta ald­ar­fjórðungi hafa hag­kerfi heims­ins að mestu búið við lág­vaxtaum­hverfi og greitt aðgengi að láns­fé og því afar illa búin und­ir það aðhald sem seðlabank­ar hafa þurft að beita und­an­farið til að ná tök­um á verðbólg­unni. Auk vaxta­lækk­ana hafa björg­unar­úr­ræðin frá alda­mót­um jafn­framt fal­ist í því að kasta pen­ing­um að vand­an­um með svo­kallaðri magn­bund­inni íhlut­un. Nú eru góð ráð dýr þar sem þessi úrræði eru ekki í boði á verðbólgu­tím­um. Banda­rík­in voru fyrr á ferðinni með vaxta­hækk­an­ir og því lík­legt að eitt­hvað muni jafn­framt gefa eft­ir í öðrum lönd­um, t.d. á evru­svæðinu þar sem vext­ir voru hækkaðir í vik­unni og þar sem er lík­lega að finna staðbundna veik­leika.

Staða mála á Íslandi

Þær aðgerðir sem Banda­ríkja­for­seti kynnti á mánu­dag­inn eru Íslend­ing­um því miður vel kunn­ar. Á ár­inu 2008 leituðu markaðir uppi veik­ustu hlekk­ina og fundu þá í ís­lensku bönk­un­um. Þá voru svipuð sjón­ar­mið uppi varðandi lausn­ir hér á ár­inu 2008. Hér var þak numið af inn­lend­um inn­stæðutrygg­ing­um, skatt­fé var ekki notað til að bjarga bönk­un­um, farið var í rann­sókn á því sem hér gerðist og lög­gjöf um fjár­mála­markaði var breytt til að koma í veg fyr­ir að áfall sem þetta end­ur­tæki sig.

Mun­ur­inn hér var hins veg­ar sá að ís­lensk stjórn­völd horfðu fram á kerf­is­áfall. Vegna þess að byggja þurfti kerfið upp úr öskustónni var mögu­legt að ganga í veru­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar og búum við því við ban­kaum­hverfi sem bygg­ist m.a.á öfl­ugu þjóðhags­varúðar­um­hverfi. Fram­kvæmd pen­inga­stefn­unn­ar hef­ur verið með öðrum hætti hér enda magn­bund­in íhlut­un afar tak­mörkuð.

Í kjöl­far banka­áfalls­ins hér hef­ur verið byggt upp afar öfl­ugt fjár­mála­kerfi, en þó er mik­il­vægt er að bank­arn­ir stígi var­lega til jarðar þar sem bú­ast má við að láns­fé verði af skorn­um skammti á helstu mörkuðum á næstu miss­er­um. Áhrif­in hér heima fyr­ir af þess­ari uppá­komu á banda­ríska markaðnum eru þau að ef það rík­ir áfram mik­il óvissa, þá hækk­ar kostnaður við alla fjár­mögn­un. Að sama skapi þarf að hafa í huga að það ríki sem skil­ar mestu til ís­lenska þjón­ustu­jafnaðar­ins eru Banda­rík­in, þannig að viðskipta­kjör gætu versnað í kjöl­farið. Þá er enn verið að hækka vexti í Evr­ópu og má bú­ast við að ein­hver frek­ari vanda­mál skjóti þar upp koll­in­um. Hins veg­ar er staða ís­lenska hag­kerf­is­ins sterk enda kröft­ug­ur hag­vöxt­ur, lítið at­vinnu­leysi, mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, lækk­andi skuld­ir rík­is­sjóðs og frum­jöfnuður rík­is­fjár­mála næst von bráðar. Verðbólg­an á Íslandi er þó enn líf­seig­ari og kröft­ugri en æski­legt væri. Þess þá held­ur eru verðbólgu­vænt­ing­ar of háar. Verðbólg­an verður stærsta viðfangs­efni hag­stjórn­ar­inn­ar næstu miss­eri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. mars 2023.

Categories
Greinar

Forskot fyrir íslenskuna

Deila grein

16/03/2023

Forskot fyrir íslenskuna

Sann­kölluð stórtíðindi voru op­in­beruð fyr­ir tungu­málið okk­ar, ís­lensk­una, í vik­unni þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI kynnti að hún hefði verið val­in í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta er stór áfangi fyr­ir tungu­málið okk­ar en um er að ræða stærsta gervi­greind­ar­net heims sem nú er fínþjálfað til þess að skilja og miðla upp­lýs­ing­um á ís­lensku. Tækn­in bygg­ir á ógrynni texta af vefn­um sem gervi­greind­in er þjálfuð á til þess að rýna, greina og byggja svör sín á og nýta í texta­smið og sam­tals­tæki sem not­end­ur geta spurt næst­um hvers sem er.

Það er ánægju­legt að sjá ár­ang­ur vinnu und­an­far­inna ára vera að skila sér með hætti sem þess­um en stjórn­völd hafa fjár­fest mynd­ar­lega í mál­efn­um tungu­máls­ins; til að mynda hef­ur yfir tveim­ur millj­örðum króna verið varið til mál­tækni­verk­efnisáætl­un­ar stjórn­valda, sem snýr að því að byggja upp tækni­lausn­ir til þess að nýta tungu­málið okk­ar í þeim tækni­heimi sem við búum í. Um 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði til þess að koma þess­um tækni­lausn­um á kopp­inn og gera ís­lensk­una í stakk búna svo hægt sé að nýta hana í snjall­tækj­um.

Fyrr­nefnd tíma­mót eru afrakst­ur af heim­sókn sendi­nefnd­ar for­seta Íslands og ráðherra í maí sl. þar sem við heim­sótt­um meðal ann­ars höfuðstöðvar OpenAI í San Francisco. Fyr­ir­tækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervi­greind­ar­tækni og ábyrga og ör­ugga þróun henn­ar fyr­ir heims­byggðina alla. Það sem vakti meðal ann­ars aðdáun ytra var sú staðreynd að Ísland kem­ur með heil­mikið að borðinu í sam­tali og sam­starfi við er­lend stór­fyr­ir­tæki á sviði gervi­greind­ar. Íslensk­ar kjarna­lausn­ir á sviðum mál­tækni eru aðgengi­leg­ar í opn­um aðgangi, m.a. fyr­ir frum­kvöðla, fólk í ný­sköp­un og fyr­ir­tæki í fjöl­breytt­um rekstri sem geta þróað not­enda­lausn­ir út frá þeim. Það má full­yrða að afrakst­ur þess­ar­ar vinnu sé forskort fyr­ir ís­lensk­una miðað við mörg önn­ur tungu­mál í sí­breyti­leg­um heimi tækn­inn­ar.

Ég er virki­lega stolt yfir þeim ár­angri sem við erum að ná fyr­ir ís­lensk­una, hryggj­ar­stykkið í sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar. Ég vil þakka þeim fjöl­mörgu sem komið hafa að þess­um spenn­andi verk­efn­um, ekki síst for­seta Íslands sem lagt hef­ur sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar við að tala máli ís­lensk­unn­ar í alþjóðlegu sam­hengi – og annarra tungu­mála fá­menn­ari ríkja – sam­starfs­fólki hjá Al­mannarómi og SÍM-hópn­um, og sjálf­boðaliðunum sem fyr­ir til­stilli mál­tæknifyr­ir­tæk­is­ins Miðeind­ar komu að þjálf­un gervi­greind­ar­inn­ar síðustu miss­er­in. Við ætl­um að tryggja bjarta framtíð fyr­ir ís­lensk­una og búa þannig um hnút­ana að sag­an verði áfram skrifuð á ís­lensku um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Deila grein

15/03/2023

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Það er sannarlega magnaður áfangi fyrir íslenskuna að tungumálið okkar hafi verið valið í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarfsverkefni með fyrirtækinu OpenAI hefur komið því til leiðar að stærsta gervigreindarnet heims er nú fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er sannarlega stórmál fyrir mál málanna – íslenska tungu. Ör þróun gervigreindartækni er afar mikilvæg fyrir tungumál eins og okkar og þar felast mörg sóknarfæri sem flest eru ókönnuð enn– en með samstarfinu fáum við ákveðið forskot til þess. Við viljum jú að framtíðin geti svarað okkur á íslensku.

Orð til alls fyrst

Samstarf þetta er afrakstur af heimsókn sendinefndar forseta Íslands í maí sl. þar sem við heimsóttum meðal annars höfuðstöðvar OpenAI í San Fransisco. Fyrirtækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Hægt var að nýta íslensku að takmörkuðu leyti í fyrri útgáfu mállíkansins en með þessari nýju uppfærslu er árangurinn margfalt betri og möguleikar gervigreindarinnar til þess að læra hraðar og miðla betur á íslensku hafa aukist verulega.

Samstarfið um íslenska virkni tækninnar er eitt af sex þróunarverkefnum sem OpenAI stendur að í tengslum við útgáfu GPT-4 og það eina af þeim sem tengist annarri þjóðtungu en ensku. Til skoðunar er í framhaldinu hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og því er íslenskan ákveðinn brautryðjandi að þessu leyti.

Dýrmæt þekking

Samvinna skilar okkur árangri. Við komum með heilmikið að borðinu í samtali okkar við erlend tæknifyrirtæki – Íslendingar hafa fjárfest í mikilvægu innviðum á sviðum máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019 og lýkur nú í ár.

Um 60 manns hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og hér á landi hefur byggst upp dýrmæt fagþekking á þessu spennandi sviði vísinda og nýsköpunar sem eftir er tekið. Íslenskar kjarnalausnir á sviðum máltækni eru aðgengilegar í opnum aðgangi, m.a. fyrir frumkvöðla, fólk í nýsköpun og fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem geta þróað notendalausnir út frá þeim. Hagnýting slíkra lausna fyrir almenning verður ein megináhersla í áframhaldandi máltækniverkefnum en brátt hefst vinna við að undirbúning og skrif næstu áætlunar.

Þakkir og stolt

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessum spennandi verkefnum, ekki síst forseta Íslands sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar við að tala máli íslenskunnar í alþjóðlegu samhengi – og annarra tungumála fámennari ríkja – samstarfsfólki hjá Almannarómi og SÍM-hópnum, og sjálfboðaliðunum sem fyrir tilstilli máltæknifyrirtækisins Miðeindar komu að þjálfun gervigreindarinnar síðustu misserin.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og íslenskan, tungumálið er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Við höfum ríkum skyldum að gegna við að tryggja aðgengi að íslensku og notkun hennar til framtíðar. Íslenskt hugvit og ástríða munu stuðla að því að það verði gerlegt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.

Categories
Greinar

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Deila grein

08/03/2023

Nýr kafli í flugsögu Íslands

Mik­ill ár­ang­ur hef­ur náðst í því að styðja við upp­bygg­ingu beins milli­landa­flugs á lands­byggðinni. Líkt og greint var frá í frétt­um ný­verið verður met­fjöldi er­lendra áfangastaða í boði á lands­byggðinni í ár en hægt verður að fljúga beint frá Ak­ur­eyri til Kaup­manna­hafn­ar, Düs­seldorf, Teneri­fe, Alican­te, Zürich og Frankfurt – sem einnig verður í boði frá Eg­ils­stöðum.

Þetta er ánægju­leg þróun sem skipt­ir máli fyr­ir þjóðarbúið allt og staðfest­ing á því að stefna stjórn­valda sé að virka. Mark­visst hef­ur verið unnið að því að styðja við upp­bygg­ingu milli­landa­flugs á lands­byggðinni og opna þannig fleiri gátt­ir inn í landið. Flugþró­un­ar­sjóður var sett­ur á lagg­irn­ar til þess að styðja flug­fé­lög í að þróa og markaðssetja beint alþjóðaflug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Þá tók ég ákvörðun um að veita sér­stak­lega fjár­mun­um til Markaðsstofu Norður­lands og Aust­ur­brú­ar til þess að efla kynn­ingu á flug­völl­un­um á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum sem alþjóðaflug­völl­um og setja auk­inn slag­kraft í markaðssetn­ingu á Norður- og Aust­ur­landi sem væn­leg­um áfanga­stöðum með beinu milli­landa­flugi. Sam­hliða þessu hafa stjórn­völd fjár­fest í upp­bygg­ingu flug­innviða á svæðunum, til að mynda stækk­un flug­stöðvar­inn­ar á Ak­ur­eyri, sem ger­ir flug­völl­inn bet­ur í stakk bú­inn til þess að þjón­usta milli­landa­flug. Þá var einnig ráðist í end­ur­bæt­ur á Eg­ilsstaðaflug­velli en árið 2021 var nýtt mal­bik lagt á flug­braut­ina og unnið er að til­lög­um um að stækka flug­hlað og leggja ak­braut­ir.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að opna fleiri gátt­ir inn í landið og nýta þau tæki­færi sem því fylgja. Flug­saga Íslands er far­sæl og sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur í að byggja upp greiðar og tíðar flug­sam­göng­ur til og frá land­inu hef­ur aukið sam­keppn­is­hæfni þess veru­lega. Það er til mik­ils að vinna að styðja við upp­bygg­ingu alþjóðaflugs á lands­byggðinni. Beint milli­landa­flug virk­ar sem víta­mínsprauta fyr­ir at­vinnuþróun á Norður- og Aust­ur­landi og eyk­ur veru­lega mögu­leika á að styrkja ferðaþjón­ustu á svæðunum; lengja ferðatíma­bil er­lendra ferðamanna og minnka árstíðasveifl­ur, stuðla að betri dreif­ingu ferðamanna um landið og skapa tæki­færi til þess að nýta bet­ur fjár­fest­ing­ar í innviðum og afþrey­ingu í ferðaþjón­ustu en nú þekk­ist. Auk­in­held­ur eyk­ur þetta lífs­gæði íbú­anna á svæðunum sem geta nýtt sér þess­ar greiðari sam­göng­ur – en hundruð tengiflugs­mögu­leika eru í boði frá þeim áfanga­stöðum sem flogið verður til.

Þessi já­kvæða þróun skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið allt og tryggja verður að hún verði viðvar­andi. Með það fyr­ir aug­um hafa stjórn­völd ákveðið að festa Flugþró­un­ar­sjóð í sessi til þess að skapa hvata til áfram­hald­andi leiðarþró­un­ar til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða. Ég bind von­ir við að þessi nýi og spenn­andi kafli í flug­sögu Íslands verði land­inu gæfu­rík­ur og skapi ný tæki­færi fyr­ir land og þjóð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2023.

Categories
Greinar

Þjóðminjasafn í 160 ár

Deila grein

26/02/2023

Þjóðminjasafn í 160 ár

Um helg­ina verður haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 þegar Jón Árna­son, þá stifts­bóka­vörður, færði stifts­yf­ir­völd­um bréf frá Helga Sig­urðssyni á Jörfa í Kol­beinsstaðahreppi þess efn­is að hann vilji gefa Íslandi 15 gripi með því for­orði að þeir marki upp­hafið að safni ís­lenskra forn­minja. Á þess­um tíma hafði varðveisla á ís­lensk­um grip­um einkum farið fram í dönsk­um söfn­um, því var vissu­lega um tíma­mót að ræða.

Í fyll­ingu tím­ans hef­ur safnið vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þannig var safnið til að mynda yf­ir­leitt nefnt Forn­gripa­safnið fram til 1911 þegar það hlaut lög­form­lega nafnið Þjóðminja­safn Íslands, sem það hef­ur heitið all­ar göt­ur síðan. Safnið hef­ur komið víða við og verið til húsa á ýms­um stöðum, má þar nefna Dóm­kirkj­una, gamla Tugt­húsið við Skóla­vörðustíg, Alþing­is­húsið og Lands­banka­húsið við Aust­ur­stræti þar til safnið fékk aðstöðu á lofti Lands­bóka­safns­ins við Hverf­is­götu árið 1908. Þar átti það eft­ir að vera til húsa í rúm 40 ár. Það var svo við lýðveld­is­stofn­un árið 1944 að Alþingi Íslend­inga ákvað að reisa Þjóðminja­safn­inu eigið hús við Suður­götu í Reykja­vík og flutti safnið þangað árið 1950.

Nýja hús­næðið markaði vatna­skil í starf­semi safns­ins en með því gafst kost­ur á að út­víka starf­semi þess. Fram að þeim tíma­punkti sam­an­stóð safn­kost­ur­inn mest­megn­is af jarðfundn­um forn­grip­um, kirkju­grip­um og list­mun­um frá fyrri öld­um. Eft­ir flutn­ing­ana á Suður­göt­um gafst safn­inu kost­ur á að hefja einnig söfn­un á al­menn­um nytja­hlut­um sem ekki voru list­grip­ir, svo sem verk­fær­um og búsáhöld­um af ýmsu tagi sem end­ur­spegluðu dag­legt líf fólks hér á landi og tækni­m­inj­um síðar meir.

Árið 2004 var svo ný­upp­gert Þjóðminja­safn opnað á ný eft­ir gagn­ger­ar end­ur­bæt­ur á hús­næði safns­ins við Suður­götu, hús­næðið eins og við þekkj­um það í dag.

Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn. Á sama tíma hef­ur safnið aukið og miðlað þekk­ingu á menn­ing­ar­arfi og sögu þjóðar­inn­ar og gert hana aðgengi­legri fyr­ir gesti og gang­andi með áhuga­verðum hætti. Í dag teyg­ir starf­semi safns­ins sig um allt land, meðal ann­ars með Húsa­safni Þjóðminja­safns Íslands sem veit­ir inn­sýn í húsa­kost þjóðar­inn­ar á seinni öld­um og þróun húsa­gerðar. Það er eng­inn vafi í huga mér að við vær­um fá­tæk­ari sem þjóð ef ekki hefði verið fyr­ir fram­sýni Helga og fleiri um að hefja söfn­un forn­gripa fyr­ir 160 árum. Ég hvet því sem flesta til þess að leggja leið sína í Þjóðminja­safnið um helg­ina þar sem þess­um merk­is­áfanga verður fagnað með fjöl­breyttri dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Anastasia og Borysko

Deila grein

24/02/2023

Anastasia og Borysko

Ár er liðið í dag síðan veru­leik­inn breytt­ist hjá systkin­un­um An­astasiu, átta ára og Bor­ysko, tíu ára. Fyr­ir rétt rúmu ári sóttu þau grunn­skól­ann sinn í Kænug­arði, áhyggju­laus um framtíðina, eins og börn á þess­um aldri eiga skilið. Það mesta sem var að plaga þau var að An­astasia var nán­ast búin að ná full­um tök­um á Für Elise og pí­anó­tím­inn var næsta dag og Bor­ysko var ekki sátt­ur við sitt lið í ensku deild­inni. Hann batt von­ir við leik helgar­inn­ar sem fram und­an var. Hinn 24. fe­brú­ar breytt­ist líf fjöl­skyldu þeirra að ei­lífu. Móðir þeirra flúði með þau en faðir þeirra berst nú í stríðinu.

Von­brigði í Kreml

Árás­ar­stríð Vla­dimírs Pútíns í Úkraínu átti að sýna heim­in­um sterka stöðu her­veld­is Rúss­lands og hversu öfl­ugt hag­kerfið væri, þrátt fyr­ir fall Sov­ét­ríkj­anna árið 1991. Liður í að styrkja rúss­neska heimsveldið var að ná aft­ur Úkraínu. Ræður Pútíns síðustu ár hafa ein­kennst af þess­um heimsveld­is­draum­um hans og gagn­rýni á útþenslu­stefnu Banda­ríkj­anna. Þróun stríðsins í Úkraínu hef­ur verið niður­lægj­andi fyr­ir Pútín að sama skapi og ljóst að Kreml hafði ekki bú­ist við svona kröft­ug­um stuðningi vest­rænna þjóða. All­ir helstu sér­fræðing­ar töldu að Rúss­ar yrðu komn­ir inn í Kænug­arð á þrem­ur dög­um. Það varð hins veg­ar ekki raun­in og segja má að Rúss­ar hafi mis­reiknað sig hrap­al­lega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröft­ug mót­spyrna Úkraínu­manna neyddi Rússa á end­an­um til að hörfa frá stór­um landsvæðum en stríðið geis­ar nú í suður- og suðaust­ur­hluta lands­ins. Volodimír Selenskí for­seti Úkraínu ít­rekaði, á ör­ygg­is­ráðstefn­unni í München í síðustu viku, að það væri eng­inn ann­ar val­kost­ur í boði en fullnaðarsig­ur.

Stuðning­ur við Úkraínu mik­il­væg­ur gild­um okk­ar

Vegna inn­rás­ar­inn­ar blas­ir nýr veru­leiki við Evr­ópuþjóðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Mála­flokk­ur­inn hafði fengið lítið vægi í op­in­berri umræðu og sam­drátt­ur í fram­lög­um marga Evr­ópu­ríkja til varn­ar­mála hafði verið tals­verður. Að sama skapi hafa lyk­il­ríki verið háð Rússlandi um orku­öfl­un. Viðbrögð alþjóðasam­fé­lags­ins hafa verið for­dæma­laus og stuðning­ur við Úkraínu veru­leg­ur. Vel­vild og dygg­ur stuðning­ur banda­rískra stjórn­valda skipta höfuðmáli um gang stríðsins. Evr­ópa er enn og aft­ur al­gjör­lega háð stefnu Banda­ríkj­anna í varn­ar­mál­um. Varn­ar­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um end­ur­meta her­gögn og birgðir og gera ráð fyr­ir að út­gjöld til varn­ar­mála auk­ist vegna þess kostnaðar sem fylg­ir land­hernaði.

Vest­ur­lönd voru ít­rekað vöruð við þess­ari þróun

Vest­ur­lönd voru margoft vöruð við stjórn­ar­hátt­um Pútíns. Eft­ir að Rúss­ar yf­ir­tóku Krímskaga var gripið til aðgerða. Því miður töldu Vest­ur­lönd að efna­hags­refsiaðgerðirn­ar myndu duga til að koma í veg fyr­ir frek­ari átök, en þær voru veik­ar og dugðu skammt. Bók blaðakon­unn­ar Önnu Polit­kovskayu um Rúss­land Pútíns sem var gef­in út árið 2004, fjall­ar mjög ít­ar­lega um ein­ræðis­stjórn­hætti Pútíns. Bók Önnu fékk verðskuldaða at­hygli en í kjöl­farið var Anna myrt 7. októ­ber, 2006 á af­mæl­is­degi Pútíns. Hann fékk til­kynn­ing­una um morðið þegar þau Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, funduðu í Kreml. Haft hef­ur verið eft­ir Merkel að Pút­in hafi vilj­andi látið hvísla þessu að sér í þeim til­gangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu sam­hengi, eins og bar­áttu fjár­fest­is­ins Bills Browders fyr­ir rétt­læti vegna Ser­geis Magnit­skys, en sá síðar­nefndi var ná­inn sam­starfsmaður Browders og lést í fang­elsi í Rússlandi. Í fram­hald­inu samþykkti banda­ríska þingið Magnit­sky-lög­in, en þau fela í sér fjár­hags­leg­ar refsiaðgerðir gagn­vart rúss­nesk­um viðskipta­jöfr­um. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vest­ur­lönd voru vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rússlandi Pútíns.

Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands bygg­ist á traust­um stoðum

Ísland hef­ur tekið þátt af full­um þunga í aðgerðum banda­lags­ríkj­anna og stutt mynd­ar­lega við Úkraínu með ýms­um móti, meðal ann­ars með mót­töku flótta­fólks sem hingað hef­ur leitað í ör­uggt skjól. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um, er ekki sjálf­sögð. Inn­rás Rússa er grimmi­leg áminn­ing um það. Fram­sýn­ar ákv­arðanir ís­lenskra stjórn­mála­manna, um að taka sér stöðu með lýðræðis­ríkj­um með því að gera Ísland að stofn­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins árið 1949 og und­ir­rita tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in 1951, voru heilla­drjúg skref fyr­ir ís­lenska hags­muni. Þau mynda enn hryggj­ar­stykkið í ut­an­rík­is­stefnu okk­ar. Íslend­ing­ar eiga áfram að taka virk­an þátt í varn­ar- og ör­ygg­is­sam­starfi með banda­lagsþjóðum sín­um og standa vörð um þau gildi sem við reis­um sam­fé­lag okk­ar á. Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands frá ár­inu 2016 hef­ur þjónað okk­ur vel. Megin­áhersl­an er sem fyrr á aðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu, tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in ásamt aðild okk­ar að Sam­einuðu þjóðunum og nánu sam­starfi Norður­land­anna. Land­fræðileg staða Íslands held­ur áfram að skipta sköp­um í Norður-Atlants­haf­inu og við eig­um að halda áfram að styrkja þjóðarör­ygg­is­stefn­una.

Loka­orð

Þúsund­ir barna á borð við An­astasiu og Bor­ysko hafa leitað skjóls um all­an heim. Við eig­um að vera stolt af því að hafa veitt yfir 2500 kon­um og börn­um skjól frá þessu grimmi­lega árás­ar­stríði Pútíns. Við eig­um að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til að lina þján­ing­ar þeirra sem eru á flótta. Gera má ráð fyr­ir að stríðið verði lang­vinnt og það reyni á þraut­seigju Vest­ur­landa. Höf­um ætíð í heiðri frelsi og lýðræði en stríðið snýst um þau gildi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2023.