Categories
Fréttir Greinar

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Deila grein

05/09/2023

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Ný­verið var kynnt skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna sem er afrakst­ur vinnu starfs­hóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neyt­enda og sam­keppn­isaðstæður á inn­lend­um banka­markaði þar sem m.a. yrði litið til gagn­sæi þókn­ana, vaxta­kostnaðar, gjald­töku og annarra kostnaðarliða sem neyt­end­ur bera. Þá vann hóp­ur­inn einnig grein­ingu á tekju­mynd­un stóru viðskipta­bank­anna þriggja ásamt því að gera sam­an­b­urð á starfs­hátt­um viðskipta­banka á Norður­lönd­un­um með til­liti til tekju­mynd­un­ar, einkum vaxtamun­ar.

Það eru áhuga­verðar niður­stöður sem koma fram í skýrsl­unni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðar­hlut­föll bank­anna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sam­bæri­leg og hjá svipuðum bönk­um á hinum Norður­lönd­un­um. Hins veg­ar hef­ur auk­in hag­kvæmni í rekstri bank­anna og lækk­un sér­staka banka­skatts­ins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neyt­enda, en hins veg­ar komið fram í bættri arðsemi bank­anna. Þá dró skýrsl­an einnig fram að sum þjón­ustu­gjöld eru ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Í því ljósi er meðal ann­ars vert að benda á gjald­töku ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sem er dul­in en veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Geng­isálag bank­anna á korta­færsl­ur sker sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Með ein­földuðum hætti má áætla að heim­il­in hafi greitt bönk­un­um um 6,6 ma.kr. í geng­isálag ofan á al­mennt gengi árið 2022 fyr­ir það að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um. Það sem kom mest á óvart var að korta­gengið er óhag­stæðara en svo­kallað seðlag­engi sem al­mennt er óhag­stæðasta gengið hjá bönk­um.

Tals­verð umræða hef­ur spunn­ist um niður­stöður skýrsl­unn­ar og hef­ur meðal ann­ars verið bent á það að vaxtamun­ur heim­ila hafi aldrei verið lægri. Á móti kem­ur hins veg­ar að vaxtamun­ur á fyr­ir­tæki er í há­marki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem al­menn­ing­ur borg­ar.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að hér sé starf­rækt öfl­ugt banka­kerfi enda er hlut­verk banka veiga­mikið í að styðja við aukna verðmæta­sköp­un í land­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur mik­ill hagnaður bank­anna komið til umræðu og hef­ur vakið spurn­ing­ar um jafn­vægi í grein­inni og stöðu neyt­enda. Ég stend við það sem kem­ur fram í skýrsl­unni og tel að bank­arn­ir hafi rými til þess að gera bet­ur við neyt­end­ur, hvort sem það er fólk eða fyr­ir­tæki. Sú arðsemi sem birt­ist í upp­gjör­um bank­anna er mik­il og í ofanálag sýna töl­ur að vaxtamun­ur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hags­muna­mál sam­fé­lags­ins er að ná verðbólg­unni niður og þar verða all­ir að leggja sitt af mörk­um og er banka­kerfið ekki und­an­skilið því. Sú upp­byggi­lega umræða sem hef­ur átt sér stað í kjöl­far skýrsl­unn­ar er af hinu góða enda snerta neyt­enda­mál okk­ur öll. Sem ráðherra neyt­enda­mála mun ég láta upp­færa skýrsl­una ár­lega til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál, sam­fé­lag­inu til hags­bóta.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Deila grein

04/09/2023

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Í öllum þjóðfélögum er mikilvægt að allir standi neytendavaktina, ekki síst á verðbólgutímum. Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá fól ég hópnum að gera greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar, og hvers kyns þóknana og gjaldtöku af almenningi, sem meðal annars horfði til Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Hópnum var einnig falið að vinna tillögur.

Bankar eru samfélagslega mikilvægar stofnanir og sterkt bankakerfi er nauðsynlegt til að viðhalda öflugu hagkerfi og atvinnulífi. Það er mikilvægt að bankar njóti almenns trausts í samfélaginu svo þeir geti stuðlað að heilbrigðu viðskiptalífi og þar af leiðandi aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið hafa upp spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég tel að þessi nýja skýrsla sé upplýsandi innlegg í þá umræðu.

Meiri vaxtamunur og aukin arðsemi

Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þannig er vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, töluvert meiri en á Norðurlöndunum þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Árin 2021 og 2022 náðu bankarnir arðsemismarkmiði sínu eftir að hafa verið undir því í mörg ár þar á undan og var hún svipuð og hjá norrænum bönkum af samfélagslegri stærð.

47 milljarðar í erlendra greiðslumiðlun

Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar, sem má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur, er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Sökum mikillar notkunar alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi er kostnaður við greiðslumiðlun sem hlutfall af landsframleiðslu mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Greiðslumiðlunin er að miklu leyti á ábyrgð færsluhirða en ekki bankanna, og stærstu færsluhirðar landsins eru í erlendri eigu.

Þörf á meira gegnsæi í verðlagningu

Það kemur fram að útgjöld vegna fjármálaþjónustu (að vaxtagjöldum undanskildum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimilanna skv. útgjaldarannsókn Hagstofunnar en þau hafa lækkað að raunvirði. Er áætlað að þau séu áætluð 0,4% af heildarneysluútgjöldum meðalheimilis á Íslandi. Hins vegar eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Hjá dæmigerðu ungu pari getur kostnaður við gengisálag bankanna numið um 30% af heildarkostnaði við bankaþjónustu á ári. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.

Stóru málin og næstu skref

Eins og fram kom að ofan hefur vaxtamunur verið að aukast. Þegar uppgjör bankanna það sem af eru ári eru skoðuð er hann enn að aukast. Ég tel eðlilegt að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningum með neytendum á sanngjarnari hátt. Sér í lagi þegar að vaxtamunurinn er enn þá að aukast en í árshlutauppgjörum fyrir árið 2023 má sjá hann aukast enn frekar. Það á ekki að vera náttúrulögmál að það halli á neytendur með þessum hætti. Þá er jafnframt mikilvægt að bankarnir bæti gagnsæi í gjaldtöku sinni hjá viðskiptavinum.

Kostnaður við erlendra greiðslumiðlun er of hár, en það er einnig þjóðaröryggismál að Ísland búi að innlendri greiðslumiðlun líkt og önnur ríki. Hefur forsætisráðherra meðal annars boðað frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væri umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti á skila sér í lægra vöruverði til neytenda.

Aukið aðhald í þágu neytenda

Það er samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Þessi skýrsla er liður í því, en sem ráðherra neytendamála hyggst ég láta uppfæra hana árlega í þágu heimila og fyrirtækja í landinu og stuðla þannig að auknu aðhaldi og umræðu um þau kjör sem bjóðast hjá viðskiptabönkunum.

Ég vil þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf en hann skipuðu fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna, Hagsmunasamtaka heimilanna, Alþýðusambands Íslands, Samstaka fjármálafyrirtækja og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nánari niðurstöður og tillögur er að finna í skýrslunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Deila grein

28/08/2023

Verðbólgan knúin áfram af innlendum verðhækkunum

Meg­in­vext­ir Seðlabanka Íslands eru 9,25% eft­ir síðustu 50 punkta hækk­un. Verðbólga hef­ur farið minnk­andi og mæld­ist 7,6% í júlí. Dregið hef­ur úr alþjóðleg­um verðhækk­un­um ásamt því að gengi krón­unn­ar hef­ur styrkst um­fram spár. Á móti veg­ur að inn­lend­ar verðhækk­an­ir hafa reynst þrálát­ar og eru enn á breiðum grunni.

Síðustu daga hafa sum­ir beint kast­ljós­inu beinst að ferðaþjón­ust­unni. Eft­ir því sem best verður séð af yf­ir­lýs­ing­um Seðlabanka­stjóra og af lestri Pen­inga­mála Seðlabank­ans virðist vera um mis­skiln­ing að ræða hvað snert­ir síðustu vaxta­hækk­un, þar sem ekk­ert kem­ur þar fram sem bend­ir til að ferðaþjón­ust­an sé um­fram aðrar at­vinnu­grein­ar að valda verðbólguþrýst­ingi, enda árar vel í flest­um at­vinnu­grein­um þjóðfé­lags­ins. Í nýj­ustu Pen­inga­mál­um er minnst á ferðaþjón­ust­una í sam­hengi við styrk­ingu krón­unn­ar, sem hef­ur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er gengið nú að meðaltali um 10% hærra en það var lægst í lok janú­ar. Frek­ari staðfest­ingu á fram­lagi ferðaþjón­ust­unn­ar til styrk­ing­ar á krón­unni var að finna í töl­um Hag­stof­unn­ar í vik­unni þar sem fram kem­ur að verðmæti þjón­ustu­út­flutn­ings hef­ur styrkst og nær að greiða mik­inn halla á vöru­skipt­um við út­lönd og er­lend­ar fjár­fest­ing­ar líf­eyr­is­sjóðanna. Færa má sterk rök fyr­ir því að öfl­ug­ur viðsnún­ing­ur ferðaþjón­ust­unn­ar hafi stutt við gengi krón­unn­ar á síðustu mánuðum og í raun frá því að grein­in hóf að rétta úr kútn­um snemma á ár­inu 2022.

Það er ekki þörf á að dvelja lengi við áhrif geng­is­ins á verðlag á Íslandi í gegn­um tíðina, og eru áhrif­in sterk­ari hér á landi en í öðrum lönd­um, enda kem­ur fram í Pen­inga­mál­um að betri skamm­tíma­horf­ur verðbólgu­vænt­inga end­ur­spegli einkum styrk­ingu krón­unn­ar um­fram spár. Í Pen­inga­mál­um er á öðrum stað minnst á ferðaþjón­ust­una þar sem kem­ur fram að horf­ur í ferðaþjón­ustu séu áþekk­ar og í spá bank­ans í maí. Þar seg­ir einnig að horf­ur fyr­ir grein­ina séu svipaðar fyr­ir næsta ár þar sem gert er ráð fyr­ir hóf­legri fjölg­un ferðamanna milli ára. Það virðist því ekki vera nein breyt­ing á áhrif­um ferðaþjón­ust­unn­ar til hækk­un­ar á spá bank­ans. Það má halda því til haga að gert er ráð fyr­ir færri ferðamönn­um í ár en á metár­inu 2018, en það ár var verðbólg­an ekki vanda­mál.

Það eru hins veg­ar aðrir og aug­ljós­ari kraft­ar sem hafa áhrif á verðlag. Verð á mat­vöru og þjón­ustu hef­ur hækkað áfram. Verð á al­mennri þjón­ustu hef­ur hækkað um 6,8% sl. tólf mánuði og verð á inn­lendri vöru um 11,5%. Þá hef­ur dagvara hækkað um 12,2% frá sama tíma í fyrra. Enn er því til staðar nokk­ur verðbólguþrýst­ing­ur þótt dregið hafi lít­il­lega úr hon­um í júlí, en rúm­lega helm­ing­ur af neyslukörf­unni hef­ur hækkað um 5-10% frá fyrra ári og um fjórðung­ur hef­ur hækkað um meira en 10%. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið hyggst taka upp sam­tal við lyk­ilaðila á dag­vörumarkaðnum til að skilja bet­ur þessa hækk­un, sér í lagi vegna þess að krón­an hef­ur verið að styrkj­ast og alþjóðleg verðbólga í rén­un.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Deila grein

17/08/2023

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Deila grein

08/08/2023

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Eld­gosið í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 markaði ákveðin vatna­skil fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Með þessu út­spili sínu kom móðir nátt­úra land­inu ræki­lega á kort er­lendra fréttamiðla um langt skeið með til­heyr­andi aukn­um áhuga á að ferðast til lands­ins. Þannig óx fjöldi ferðamanna úr tæp­lega 500 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,3 millj­ón­ir árið 2018 þegar mest var.

Sam­hliða þessu hef­ur hlut­ur ferðaþjón­ust­unn­ar í lands­fram­leiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna. Áætlað er að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu hér á landi í fyrra og síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, með til­heyr­andi stuðningi við gengi krón­unn­ar og styrk­ari óskuld­sett­um gjald­eyr­is­forða fyr­ir þjóðarbúið. Þetta skipt­ir miklu máli fyr­ir Ísland.

Það hef­ur hins veg­ar eng­um dulist að vöxt­ur sem þessi reyn­ir á ýmsa þætti sam­fé­lags­ins og öll­um ljóst að Ísland get­ur ekki tekið við enda­laus­um fjölda ferðamanna á hverju ári. Í embætti mínu sem ferðamálaráðherra finn ég sam­eig­in­leg­an skiln­ing á þessu sjón­ar­miði inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar. Það er í lagi að vera upp­seld­ur áfangastaður og að færri kom­ist að en vilja. Frá ár­inu 2010 hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar þegar kem­ur að ferðaþjón­ust­unni. Geta lands­ins til að taka á móti er­lend­um ferðamönn­um hef­ur batnað veru­lega og mik­il­væg reynsla og þekk­ing hef­ur byggst upp í grein­inni. Fjár­fest hef­ur verið af mikl­um metnaði hring­inn í kring­um landið í upp­bygg­ingu áfangastaða og innviða, úr­val af afþrey­ingu og ým­iss kon­ar þjón­ustu hef­ur stór­auk­ist, at­vinnu­líf og bú­setu­skil­yrði batnað um allt land á sama tíma og hingað koma verðmæt­ari ferðamenn. Mæl­ing­ar sýna að ánægja er­lendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað er mik­il í er­lend­um sam­an­b­urði. Það er vitn­is­b­urður um að ís­lensk ferðaþjón­usta sé á heims­mæli­kv­arða.

Í upp­gangi og vel­gengni sem þess­ari er hins veg­ar mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum, að týna ekki sjálf­um sér; að huga að mörk­um. Það er óbilandi skoðun mín að liður í því að Ísland haldi sjarma sín­um sé að við stönd­um með sér­kenn­um lands og þjóðar, þar með talið tungu­mál­inu. Ég tel til að mynda að all­ar merk­ing­ar eigi að vera fyrst á ís­lensku, og svo á öðru tungu­máli, hvort sem það er í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða ann­ars staðar. Fyr­ir dyr­um stend­ur að gera ís­lensk­una miklu sýni­legri en hún hef­ur verið með sam­starfi við ferðaþjón­ust­una og at­vinnu­lífið. Tek­in verða mun ákveðnari skref til þess að gera ís­lensk­unni hærra und­ir höfði. Þetta og meira til verður ein­mitt und­ir í mót­un nýrr­ar aðgerðaáætl­un­ar á sviði ferðamála á grunni sem unnið er að. Það er framtíðar­sýn mín að ís­lensk ferðaþjón­usta eigi að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is; öfl­ug ferðaþjón­usta á for­send­um sam­fé­lags­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Deila grein

22/07/2023

Efnahagsaðgerðir skila árangri

Stærsta verkefni hagstjórnarinnar er að ná verðbólgunni í markmið peningastefnunnar. Verðbólgumælingar gærdagsins gefa ákveðin fyrirheit um að efnahagsstjórnin sé á réttri leið og að allar líkur séu á að hagkerfið nái mjúkri lendingu. Hins vegar er afar brýnt að lýsa ekki yfir sigri fyrr en við sjáum verðbólguna komna enn frekar niður, því þarf áframhaldandi festu við stjórn efnahagsmála.

Þróunin jákvæð

Ársverðbólga mælist 7,6% og hefur lækkað töluvert frá júnímánuði en þá var hún 8,9%. Þessi þróun er afar jákvæð og sýnir svart á hvítu að hagkerfið er á réttri leið. Aðgerðir Seðlabanka Íslands eru farnar að hafa mikil áhrif og sjáum við það á því að húsnæðismarkaður er að ná betra jafnvægi. Ný útlán hafa einnig dregist saman. Samhliða aðhaldi í peningamálum sendir ný ríkisfjármálaáætlun skýr skilaboð um að meginverkefni stjórnvalda er að ná tökum á verðbólgunni og draga úr þenslu en á sama tíma standa vörð um velferðarkerfið og þá sem standa höllustum fæti í samfélaginu okkar. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna hefur verið aukið og gert er ráð fyrir bættri afkomu árið 2024. Skuldir ríkissjóðs eiga að hafa náð hámarki eða sem nemur 33% af landsframleiðslu.

Horfurnar eru góðar

Horfur íslenska ríkissjóðsins eru metnar jákvæðar af hinum alþjóðlegu matsfyrirtækjum Moody’s og Standard & Poor’s. Það mat byggist á verulega bættum horfum ríkissjóðs um afkomu og skuldir, ásamt kröftugum efnahagsbata og því að Ísland býr að öflugum stofnunum og stjórnfestu. Gert er ráð fyrir 4% hagvexti í ár og 2,5% árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands og kemur í kjölfar 6,4% hagvaxtar á síðasta ári. Mikill útflutningur í öllum helstu atvinnugreinunum mun drífa áfram hagvöxt, og þar heldur ferðaþjónustan áfram að setja sitt lóð á vogarskálar ásamt einkaneyslu. Í baráttunni við verðbólguna munar jafnframt um öflugt gjaldeyrisinnstreymi frá þessum stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar. Það eru fáar þjóðir sem hafa náð að koma jafn kröftuglega út úr Covid-19-kreppunni og Ísland. Ánægjulegt er að sjá að afkoma ríkissjóðs hefur ítrekað verið umfram væntingar frá því heimsfaraldurinn skall á. Gert er ráð fyrir í ár að tekjur ríkissjóðs verði nærri 50 ma.kr. hærri en útgjöld ef frá eru talin vaxtatekjur og –gjöld. Þessi jákvæða þróun á lánshæfismatinu mun stuðla að aukinni hagsæld Íslands með lægri fjármögnunarkostnaði ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu.

Áhættuþættir eru þó margir

Til að verðbólgan haldi áfram að lækka þarf allt efnahagslífið að vinna að því sameiginlega markmiði. Vinnumarkaðurinn er lykilbreyta í þeirri þróun og ljóst að launahækkanir verða að taka mið af því að verðbólga lækki. Launahækkanir æðstu embættismanna ríkisins hækkuðu því um 2,5%, sem er í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Sveitarstjórnarstigið hefur einnig ákveðið að hækkanir kjörinna fulltrúa taki mið af þessu. Þessar ráðstafanir eru afar mikilvægar til að ná tökum á verðbólguvæntingum og að víxlverkun launa og verðlags verði sjálfbær.

Verðbólgan er enn langt yfir markmiði og verðbólguvæntingar of háar. Það munar þó um að raunstýrivextir eru nú jákvæðir, sem minnkar heildareftirspurn og eykur sparnað í hagkerfinu. Hagstæðar verðbólgumælingar og sterkt gengi munu hafa jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar þegar fram líða stundir. Ríkisfjármálin eru þó enn rekin með halla og því fyrr sem ríkisfjármálin snúast í afgang því betra. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru umtalsverðar og hafa ríkisfjármálin fundið fyrir því á neikvæðan hátt eins og heimili landsins.

Verðbólga á heimsvísu hefur verið á niðurleið og afar brýnt að sú þróun haldi áfram. Allir óvissuþættir hafa auðvitað neikvæð áhrif og er stríðið í Úkraínu einn þáttur í því. Nýverið hafa rússnesk stjórnvöld rift samkomulaginu um útflutning á kornafurðum frá Úkraínu, en það þýddi að verðið hækkaði tímabundið. Öll óvissa er neikvæð í alþjóðaviðskiptum og því ómögulegt að segja hvort alþjóðlegt verðlag verði stöðugt eður ei. Því er afar brýnt fyrir Ísland að afgangur fari að myndast á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins til að draga úr óvissunni. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa verið afar hagkvæm undanfarin misseri og er ekki ávallt á vísan að róa í þeim efnum.

Lokaorð

Þótt öll helstu teikn séu jákvæð um þessar mundir er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Aðgerðir í peninga- og ríkisfjármálum eru að skila raunverulegum árangri og mikilvægt að missa þá þróun ekki frá sér. Árangur í efnahagsmálum er langhlaup og snýr að trúverðugleika. Ég hef fulla trú á því að komandi kjarasamningar taki mið af því að ná verðbólgunni enn frekar niður. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur það að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst 22. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Notum ís­lensku

Deila grein

05/07/2023

Notum ís­lensku

Ef þér er almennt sama hvort þjónustan sem þú færð er á íslensku eða ensku eru allar líkur á að hún verði til framtíðar á ensku. Við skulum samt hafa það á hreinu að ensk tunga er ekki óvinur íslenskunnar, heldur er það doðinn og andvaraleysið sem skapa ógn við samtíð og framtíð tungumálsins okkar.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og mikilvægi íslenskunnar, hún er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Kunnátta og færni í tungumálinu ákvarða oft þau tækifæri og framgang sem börn og ungmenni njóta til framtíðar.

Í ráðherratíð minni hef ég sett málefni íslenskunnar í öndvegi og leitast við að auka samvinnu og samstöðu um aðgerðir sem stuðla að verndun og þróun tungumálsins. Íslenskan er ekkert venjulegt málefni og þróun hennar verður ekki stýrt með ríkisafskiptum. Tungumál eru í senn verk okkar allra og verkfæri, þau hverfast ekki um afskipti – heldur samskipti.

Andófið eykst

Við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar. Við verðum í sameiningu að vinda ofan af þeim doða og misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Þeim fjölgar stöðugt sem stíga fram og andæfa þessari þróun; benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan sé þar í öðru sæti.

Þetta er líka slæm þróun, sem þarf að stöðva. Þessi framvinda á sér ýmsar skýringar og afsakanir en að mínu mati kristallast í henni blanda af metnaðar- og andvaraleysi varðandi stöðu íslenskunnar. Og mögulega smá Indriði líka, hver á annars að passa upp á íslenskuna? Á ég að gera það?

Brú fortíðar og framtíðar

Tungumálið geymir sjálfsskilning okkar og sögu. Okkur hefur verið treyst fyrir einstakri menningararfleifð og við verðum að standa okkur betur í að varðveita hana og færa áfram til komandi kynslóða. Sá þráður er einna skýrastur í bókmenntunum – frá norrænu goðafræðinni til Njálu og Hávamála – að Ferðalokum, Svartfugli, Sjálfstæðu fólki, Sálminum um blómið, Karitas án titils, Kleifarvatni, Mánasteini, Draumalandinu, Sextíu kílóum af sólskini og Hamingju þessa heims. Við eigum fjársjóð af sögum og heimsmynd í þessu tungumáli. Hefur þú leitt hugann að því hvernig sú heimsmynd liti út ef við hættum að hugsa á íslensku?

Þróun má snúa við

Staðan er flókin en hún er ekki alslæm. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að auka veg tungumálsins og árétta mikilvægi þess. Undanfarin misseri hef ég átt ótal uppbyggileg samtöl við fólk úr atvinnulífinu, skólasamfélaginu, stjórnkerfinu, rannsakendur og frumkvöðla um áskoranir íslenskunnar og leiðir til úrbóta – þetta er fólk af ólíkum uppruna og á mismunandi aldri en rauði þráðurinn er sá sami – það er samfélagslegt verkefni að tryggja framtíð íslenskunnar og þar er ekki í boði að skila auðu.

Fyrirtæki í landinu eru afar mikilvæg í því samhengi – þeirra miðlun og samskipti móta samfélag okkar á svo mörgum sviðum og því er ein þeirra 18 aðgerða í þágu tungumálsins sem við kynnum nú til umsagna í Samráðsgátt sérstaklega miðuð að þeim. Ég vonast til góðrar samvinnu við atvinnulíf, sveitarfélög og þriðja geirann í því verkefni sem ber vinnuheitið „Íslenska er sjálfsagt mál“ en markmið þess er að auka sýni- og heyranleika íslensku í almannarýmum í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda.

Verkefni sem þetta vinnst með seiglu, ástríðu og því að vera opin fyrir hugmyndum og samvinnu. Í menningar- og viðskiptaráðuneytinu höfum við haft ýmsar hugmyndir til skoðunar í vetur, m.a. möguleika þess að hvetja rekstraraðila til þess að skrá heiti sín á íslensku.

Orð til alls fyrst

Umsagnafrestur vegna aðgerðanna 18 er til 10. júlí nk. Drög þeirra eru mótuð samstarfi fimm ráðuneyta en markmið aðgerðaáætlunarinnar er forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins næstu þrjú ár. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér málið og miðla sínum hugmyndum til okkar. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka.

Fyrir þau sem ekki hafa tíma fyrir Samráðsgáttir og umsagnaskrif vil ég ennfremur árétta: Við höfum val um það á hverjum degi að nota tungumálið okkar og forgangsraða í þágu þess; njótum á íslensku, mótum og nýtum tungumálið á skapandi hátt. Einfaldlega – notum íslenskuna. Og sýnum með því að okkur sé ekki sama.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. júlí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Skarpleikur hugsunar

Deila grein

30/06/2023

Skarpleikur hugsunar

Það er göm­ul saga og ný að veðurguðirn­ir eigi það til að stríða okk­ur að sum­ar­lagi, þvert á vænt­ing­ar okk­ar um sól­ríka tíð um allt land. Sum­arið 2023 hef­ur ekki skorið sig úr hvað þetta varðar fyr­ir stór­an hluta lands­manna, en þeirr­ar gulu hef­ur verið saknað af mörg­um. Það þýðir þó ekki að láta deig­an síga enda ým­is­legt hægt að gera hér á landi óháð því hvernig viðrar. Á sól­rík­um jafnt sem vot­um degi er til­valið að kíkja á eitt af þeim fjöl­mörgu söfn­um og sýn­ing­um sem eru í land­inu. Heim­sókn á safn eyk­ur skarp­leika hugs­un­ar og and­lega auðlegð.

Á Íslandi eru hátt í 50 viður­kennd söfn starf­rækt, að sýn­ing­um frá­töld­um sem skipta mörg­um tug­um. Í ár höf­um við verið minnt á það hversu sam­gró­in safna­menn­ing er ís­lensku þjóðinni, en fyrr á ár­inu var haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 og hef­ur í fyll­ingu tím­ans vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar, með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn.

Um liðna helgi náði annað safn merk­is­áfanga, þegar Lista­safn Ein­ars Jóns­son­ar fagnaði því að 100 ár voru frá opn­un þess, en það var fyrsta lista­safnið sem opnað var al­menn­ingi hér á landi. All­ar göt­ur síðan hef­ur það sett mark sitt á borg­ar­brag­inn og hleypt gest­um inn í undra­ver­öld Ein­ars.

Söfn eru minni þjóða þar sem nú­tím­inn get­ur speglað sig í fortíðinni og stuðlað þannig að fræðslu, skiln­ingi og vit­und um menn­ing­ar- og nátt­úruarf­inn. Þannig leggja söfn sitt af mörk­um til sam­fé­lags­legr­ar umræðu en sterk tengsl safna, safn­kosts of sam­fé­lags fela í sér drif­kraft og verðmæta­sköp­un. Það er mik­il­vægt að tryggja gott aðgengi fólks að söfn­um og stuðla að því að miðla sög­unni til kom­andi kyn­slóða með skil­merki­leg­um hætti. Á þetta er meðal ann­ars lögð áhersla í stjórn­arsátt­mála rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar þar sem fram kem­ur að aðgengi að menn­ingu óháð bú­setu sé lyk­il­atriði og und­ir­strikað að hlut­verk stjórn­valda sé að skapa skil­yrði fyr­ir fjöl­breytni, sköp­un og frum­kvæði á sviði lista og menn­ing­ar­arfs.

Sem mik­il­væg­ir innviðir hafa söfn einnig stutt við ferðaþjón­ust­una og aukið þá afþrey­ingu sem er í boði fyr­ir alla þá er­lendu gesti sem heim­sækja landið okk­ar – og miðlað þannig sögu okk­ar og menn­ingu út fyr­ir land­stein­ana. Það skipt­ir máli fyr­ir okk­ur sem þjóð.

Stjórn­völd eru staðráðin í að halda áfram að stuðla að sterk­ari um­gjörð safn­a­starfs í land­inu, meðal ann­ars með því að fylgja eft­ir stefnu­mörk­un um safn­astarf.

Ég hvet lands­menn til að kíkja við á söfn­un­um okk­ar í sum­ar og njóta þannig þeirr­ar merki­legu menn­ing­ar sem þau hafa að geyma.

Höf­und­ur er menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir

Categories
Fréttir Greinar

Björg í þjóðarbú

Deila grein

21/06/2023

Björg í þjóðarbú

Það mun­ar um ferðaþjón­ust­una. Hlut­ur ferðaþjón­ustu í lands­fram­leiðslu árs­ins 2022 nem­ur 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna og er áætlað að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu í fyrra. Það gef­ur auga­leið að fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa öfl­ug­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una. Eft­ir mik­inn sam­drátt er ferðaþjón­ust­an aft­ur orðin sú at­vinnu­grein sem skap­ar mest­an er­lend­an gjald­eyri fyr­ir þjóðarbúið. Síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina að stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins.

Ferðaþjón­ust­an er ein ár­ang­urs­rík­asta byggðaaðgerð Íslands­sög­unn­ar – sjálfsprott­in at­vinnu­upp­bygg­ing um allt land. Á ár­un­um 2009-2019 skapaði ferðaþjón­usta að jafnaði 500 ný störf á ári á lands­byggðinni. Það er gríðarlega mik­il­vægt að þessi þróun tap­ist ekki. Ferðaþjón­ust­an hef­ur einnig átt stór­an þátt í að auka lífs­gæði okk­ar með ríku­legra mann­lífi, ný­stár­legu fram­boði af afþrey­ingu og góðum mat og gefið Íslend­ing­um tæki­færi til að víkka út tengslanet sín svo dæmi séu tek­in. Sá aukni áhugi á Íslandi sem fylg­ir ferðaþjón­ust­unni hef­ur einnig aukið skiln­ing lands­manna á eig­in landi – og varpað ljósi á hversu sér­stakt það er fyr­ir margra hluta sak­ir. Það er ánægju­legt að geta tekið á móti fjölda gesta og deilt með þeim nátt­úru okk­ar, sögu og menn­ingu. Það er mik­il­vægt að ferðaþjón­ust­an fái svig­rúm og tæki­færi til að vaxa enn frek­ar en mark­miðið er sjálf­bær upp­bygg­ing ferðaþjón­ustu til lengri tíma í sátt við nátt­úr­una og menn, sem áfram­hald­andi lyk­il­stoð í okk­ar efna­hags­lífi. Sam­hliða end­ur­reisn ferðaþjón­ust­unn­ar hef­ur fyr­ir­komu­lag gjald­töku í grein­inni verið skoðað með það að mark­miði breikka skatt­stofn­inn og tryggja jafn­ræði aðila á markaði, meðal ann­ars fyr­ir­komu­lag gistinátta­gjalds í sam­vinnu við ferðaþjón­ust­una og sveit­ar­fé­lög­in með það að mark­miði að sveit­ar­fé­lög­in njóti góðs af gjald­tök­unni.

Ýmsir í sam­fé­lag­inu hafa talið að allt það sem ferðaþjón­ust­an legg­ur til sam­fé­lags­legr­ar upp­bygg­ing­ar sé ekki um­tals­vert og líta svo á að vas­ar at­vinnu­grein­ar­inn­ar séu óþrjót­andi. Þeir hinir sömu eru jafn­vel til­bún­ir að stíga skref sem ógna sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar og átta sig ekki á hinni þjóðhags­legu heild­ar­mynd. Það er úti­lokað í mín­um huga að samþykkja til­lög­ur um aukna gjald­heimtu eins og OECD legg­ur til í nýrri skýrslu, séu þær þess eðlis að þær stefni í hættu sam­keppn­is­hæfni ferðaþjón­ust­unn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júní 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðveldið og framtíðin

Deila grein

17/06/2023

Lýðveldið og framtíðin

Það var fram­sýnt og þýðing­ar­mikið skref sem Alþingi Íslend­inga steig fyr­ir 79 árum, þegar tek­in var ákvörðun um stofn­un lýðveld­is­ins Íslands. Þar með lauk bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir fullu frelsi og nýr kafli í sögu henn­ar hófst. Það er enn rík ástæða til þess að fagna þess­um tíma­mót­um. Við fögn­um þess­um áfanga í dag en hverj­um þjóðhátíðar­degi má líkja við vörðu á veg­ferð frels­is og fram­fara til þess að gera ís­lenskt þjóðfé­lag betra í dag en það var í gær.

Saga fram­fara

Sum­um þótti það svaðilför og fjar­stæðukennt á sín­um tíma að þjóð sem taldi inn­an við 130 þúsund manns í svo stóru og víðfeðmu landi gæti dafnað og vaxið sem sjálf­stæð þjóð. Þegar litið er yfir tíma­bilið frá lýðveldis­töku þá er niðurstaðan skýr og ótví­ræð. Íslend­ing­um hef­ur farn­ast vel við að reisa þrótt­mikið og öfl­ugt sam­fé­lag sem þykir einkar far­sælt til bú­setu. All­ar göt­ur frá lýðveld­is­stofn­un hafa alþjóðateng­ing­ar verið sterk­ar og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni og lífs­kjör mjög góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Staða Íslands er sterk í sögu­legu sam­hengi þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir og skap­andi grein­ar blómastra. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn held­ur ligg­ur að baki þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið.

Ábyrgð stjórn­mál­anna

Stjórn­mála­mönn­um hvers tíma er fal­in mik­il ábyrgð að halda á því fjör­eggi sem stjórn lands­ins er. Her­mann Jónas­son, fyrr­ver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, komst vel að orði í blaðagrein sinni Lýðveldið og framtíðin í 17. júní út­gáfu Tím­ans árið 1944. Þar rit­ar Her­mann; „Í stað bar­átt­unn­ar fyr­ir því að öðlast sjálf­stæðið, hefst ný bar­átta því til varn­ar. Það er sá þátt­ur, sem nú er að hefjast. Það verður meg­in­hlut­verk okk­ar, er nú lif­um, – að tryggja hinu fengna frelsi ör­ugg­an, efna­leg­an og menn­ing­ar­leg­an grund­völl og skila því síðan óskertu til óbor­inna kyn­slóða“. Þetta eru orð að sönnu sem ávallt eiga er­indi við stjórn­mál­in. Að und­an­förnu höf­um við verið minnt á að frjáls sam­fé­lags­gerð er ekki sjálf­gef­in, meðal ann­ars með ófyr­ir­leit­inni og ólög­legri inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Árás­in vek­ur upp ófriðardrauga fortíðar frá tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar og kalda stríðsins. Þessi ógn­vekj­andi at­b­urðarás alþjóðamál­anna hef­ur sýnt enn frek­ar fram á mik­il­vægi breiðrar sam­vinnu þjóða til að rækta þau grunn­gildi sem mestu máli skipta: Frelsi, lýðræði og mann­rétt­indi.

Aðals­merki þjóðar­inn­ar

Tveir af horn­stein­um lýðræðis­sam­fé­lags­ins eru frjáls­ar kosn­ing­ar og öfl­ug­ir fjöl­miðlar. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að öfl­ug­ir fjöl­miðlar skiptu sköp­um í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar. Miðlun frétta á þjóðtung­unni okk­ar, ís­lensku, var ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og að sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar væru rétt­mæt­ar. Vék Her­mann Jónas­son einnig að þessu í fyrr­nefndri þjóðhátíðarút­gáfu Tím­ans árið 1944: „Eitt er víst. Blaðakost­ur á Íslandi er til­tölu­lega sterk­ur. Hann mót­ar móður­málið okk­ar, sem er aðals­merki þjóðar­inn­ar og grund­vall­ar­rétt­ur henn­ar til sjálf­stæðis. Það eru og blöðin sem ráða lang­mestu um góðvilja milli manna og flokka. Blöðin ráða miklu um það, hvaða stefnu áhuga­mál al­menn­ings taka. Þau hafa eins, eins og nú er komið, mik­il áhrif á hugs­an­ir alls al­menn­ings, móta þær eða setja á þær sinn blæ viðkom­andi mönn­um og mál­efn­um. Þau eru skóli og upp­eld­is­stofn­un þjóðar – góður eða vond­ur.“ Það er áhuga­vert að lesa þessi orð Her­manns, 79 árum eft­ir að hann ritaði þau, og heim­færa upp á sam­tím­ann þar sem örar tækni­breyt­ing­ar, eins og í gervi­greind, hafa leitt af sér stór­ar áskor­an­ir fyr­ir fjöl­miðla hér á landi sem og tungu­málið okk­ar.

Stærsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða

Það er mik­il­vægt fyr­ir grund­völl lýðræðis­ins að tak­ast á við slík­ar áskor­an­ir af festu. Her­mann Jónas­son gerði sér grein fyr­ir nauðsyn þess að sjá fyr­ir hætt­ur og tak­ast á við þær frá fyrsta degi. Með það fyr­ir aug­um ritaði hann eft­ir­far­andi: „Það er ekki vanda­laust svo fá­mennri þjóð að vernda sjálf­stæði sitt og lifa menn­ing­ar­lífi sem sjálf­stæð þjóð. Þess­um vanda vilj­um við gera okk­ur grein fyr­ir þegar í upp­hafi. Hætt­urn­ar hverfa því aðeins að menn sjái þær nógu snemma til að af­stýra þeim.“ Í þess­um anda hafa þýðing­ar­mik­il skref verið tek­in á und­an­förn­um árum til þess að styðja við rit­stýrða einka­rekna fjöl­miðla til þess að gera þá bet­ur í stakk búna til þess að tak­ast á við hið breytta lands­lag, sinna lýðræðis­legu hlut­verki sínu og miðla efni á ís­lenskri tungu. Fjöl­miðlastefna og aðgerðir henni tengd­ar verða kynnt­ar í haust. Að sama skapi hef­ur ís­lensk tunga verið sett í önd­vegi með marg­háttuðum aðgerðum til þess að snúa vörn í sókn í henn­ar nafni, meðal ann­ars með mál­tækni­áætl­un stjórn­valda sem stuðlar að því að ís­lensk­an verði gerð gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Viðhald og vöxt­ur ís­lensk­unn­ar er um­fangs­mikið verk­efni sem er mik­il­vægt að heppn­ist vel. Ljóst er að það er ekki á færi ör­fárra ein­stak­linga að vinna slíkt verk, held­ur er um að ræða helsta sam­vinnu­verk­efni okk­ar kyn­slóða. Það er mik­il­vægt að vel tak­ist til enda geym­ir ís­lensk tunga sjálfs­mynd okk­ar sem þjóðar og er und­ir­staða lýðræðis­legr­ar umræðu hér á landi.

Lær­dóm­ar forfeðranna

Til­koma lýðveld­is­ins fyr­ir 79 árum síðan var heilla­drjúgt skref og aflvaki fram­fara. Sú staðreynd, að við get­um fjöl­mennt í hátíðarskapi til þess að fagna þess­um merka áfanga í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­sögð. Það bar­áttuþrek, sú þraut­seigja og bjart­sýni á framtíð Íslands, sem end­ur­speglaðist í orðum og gjörðum forfeðra okk­ar í sjálf­stæðis­bar­átt­unni, geym­ir mik­il­væga lær­dóma. Þar voru öfl­ug­ir fjöl­miðlarn­ir og þjóðtung­an í lyk­il­hlut­verki. Með sam­vinn­una að leiðarljósi ætl­um við í Fram­sókn að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til þess að treysta stoðir Íslands, líkt og flokk­ur­inn hef­ur gert í tæp 107 ár, enda skipt­ir lýðveldið og framtíðin okk­ur öll miklu máli. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir og Ásmund­ur Ein­ar Daðason.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júní 2023.