Categories
Fréttir Greinar

Leggjumst öll á árarnar

Deila grein

07/02/2023

Leggjumst öll á árarnar

Verðbólga hef­ur markað umræðu um efna­hags­mál á Íslandi um ára­bil og glímdi Ísland lengi við verðbólgu sem mæld­ist langt um­fram það sem tíðkaðist í lönd­um í kring­um okk­ur.

Und­an­far­in 30 ár eða svo náðist að tempra verðbólg­una meðal ann­ars með þjóðarsátt­inni þegar all­ir lögðust á ár­arn­ar og meiri agi náðist í hag­stjórn, rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um. Þótt verðbólg­an væri stund­um um­fram það sem tíðkaðist í ná­granna­lönd­un­um var hún þó ekki langt um­fram.

Á síðasta ári voru verðbólgu­mæl­ing­ar hér þó ekki um­fram ná­granna­lönd­in og var Ísland á fyrri hluta árs­ins yf­ir­leitt í lægri kant­in­um miðað við sam­an­b­urðarlönd okk­ar. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd vísi­tala neyslu­verðs í Evr­ópu næst­lægst á Íslandi. Mæld­ist vísi­tal­an aðeins neðar í Sviss. Á síðasta ári urðu veru­leg­ar hækk­an­ir á alþjóðamörkuðum sem staf­ar af berg­máli vegna fram­leiðslu­hnökra frá þeim tíma að far­sótt­in stóð sem hæst og skelfi­legu stríði sem ekki hef­ur þekkst í marg­ar kyn­slóðir og skapað það sem kallað hef­ur verið lífs­kjara­kreppa á Vest­ur­lönd­um. Þannig má segja að verðbólga hafi því miður orðið að inn­flutn­ings­vöru, en á sama tíma hafa áfram orðið inn­lend­ar kostnaðar­hækk­an­ir og gengi krón­unn­ar gefið eft­ir. Það er gam­all sann­leik­ur í hag­fræðinni að verðbólga er af hinu illa og kem­ur verst niður á þeim sem viðkvæm­ast­ir eru, bæði þeim sem minnst hafa á milli hand­anna og þeim sem standa frammi fyr­ir fjár­fest­ingu eins og ungt fólk og fjöl­skyldu­fólk að koma sér upp hús­næði.

Á und­an­förn­um miss­er­um hafa stjórn­völd kynnt ýms­ar aðgerðir til þess að draga úr áhrif­um verðbólgu á lífs­kjör viðkvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins. Má þar nefna hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, hærri hús­næðis­bæt­ur, sér­stak­an barna­bóta­auka, auk­inn slag­kraft í hús­næðismál og fleira. Í mínu ráðuneyti á sér stað mik­il­væg vinna er snýr að sam­keppn­is- og neyt­enda­mál­um, en heil­brigð sam­keppni er grund­vall­ar­atriði í verðmynd­un. Í þeim mál­um er meðal ann­ars unnið að end­ur­skoðun stofnanaum­gj­arðar sam­keppn­is- og neyt­enda­mála með það að mark­miði að efla slag­kraft í þágu neyt­enda. Fjár­mun­ir hafa verið aukn­ir til Neyt­enda­sam­tak­anna til að efla þeirra ágæta starf í þágu neyt­enda, og á næstu vik­um mun ráðuneyti mitt kynna nýtt verk­efni sem mun stuðla að betri upp­lýs­inga­miðlum um verðlagn­ingu til neyt­enda. Þá skipaði ég vinnu­hóp sem hef­ur það hlut­verk að rýna hagnað bank­anna til að kanna hvort neyt­end­ur hér á landi borgi meira fyr­ir fjár­málaþjón­ustu en neyt­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Það er gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir þjóðfé­lagið að halda verðbólgu í skefj­um og það verk­efni þarf að nálg­ast úr ýms­um átt­um. Ég hef þá trú að ár­ang­ur ná­ist þegar við öll leggj­umst sam­an á ár­arn­ar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mik­il­vægt að neyt­end­ur séu á tán­um gagn­vart verðlagn­ingu á vöru og þjón­ustu og fyr­ir­tæki hækki ekki verð um­fram það sem eðli­legt get­ur tal­ist. Slíkt skipt­ir máli fyr­ir lífs­kjör­in í okk­ar góða landi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Deila grein

30/01/2023

160 prósent fjölgun útskrifaðra kennara

Þegar ég gekk inn í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið í des­em­ber­mánuði 2017 blasti við að öllu óbreyttu yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort­ur á Íslandi, en al­gjört hrun hafði orðið í braut­skrán­ing­um frá 2008; 80% í leik­skóla­kenn­ara­námi og 67% í grunn­skóla­kenn­ara­námi.

Sam­fé­lag án kenn­ara er ekki sam­keppn­is­hæft enda er kenn­ara­starfið mik­il­væg­asta starf sam­fé­lags­ins þar sem það legg­ur grunn­inn að öll­um öðrum störf­um. Kenn­ar­ar hafa leikið stórt hlut­verk í lífi okk­ar allra þar sem fyrstu tveir ára­tug­ir hverj­ar mann­eskju fara að tals­verðum hluta fram í kennslu­stofu. Við mun­um öll eft­ir kenn­ur­um sem höfðu mik­il áhrif á okk­ur sem ein­stak­linga, námsval og líðan í skóla. Góður kenn­ari skipt­ir sköp­um. Góður kenn­ari mót­ar framtíðina. Góður kenn­ari dýpk­ar skiln­ing á mál­efn­um og fær nem­andann til að hugsa af­stætt í leit að lausn­um á viðfangs­efn­um. Góður kenn­ari opn­ar augu nem­enda fyr­ir nýj­um hlut­um, hjálp­ar þeim áfram á beinu braut­inni og stend­ur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda.

Það var því ekk­ert mik­il­væg­ara en að snúa þess­ari nei­kvæðu þróun við, tak­ast á við yf­ir­vof­andi kenn­ara­skort og sækja fram af full­um krafti fyr­ir kenn­ara­starfið. Strax í byrj­un síðasta kjör­tíma­bils var málið sett í for­gang í þáver­andi mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti og voru aðgerðir kynnt­ar á fyrsta árs­fjórðungi 2019. Þær fólu í sér:

Launað starfs­nám fyr­ir nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi.

Náms­styrk til nem­enda á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi til að auðvelda nem­end­um að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi og skapa hvata til þess að nem­end­ur klári nám sitt á til­sett­um tíma.

Styrki til starf­andi kenn­ara til náms í starfstengdri leiðsögn til að fjölga kenn­ur­um í ís­lensk­um skól­um sem hafa þekk­ingu á mót­töku nýliða í kennslu.

Sam­hliða var kenn­ara­frum­varp lagt fram og samþykkt af Alþingi til að leiða til meiri sveigj­an­leika og flæðis kenn­ara milli skóla­stiga til þess að auka starfs­mögu­leika þeirra.

Ég er stolt og glöð nú fjór­um árum síðar að sjá frétt­ir þess efn­is að út­skrifuðum kenn­ur­um hafi fjölgað um 160% sé miðað við meðaltal ár­anna 2015-2019 sem var 174. 454 út­skrifuðust sem kenn­ar­ar árið 2022!

Þetta er stór­sig­ur fyr­ir sam­fé­lagið okk­ar og hefði aldrei tek­ist nema fyr­ir frá­bæra sam­vinnu mennta­mála­yf­ir­valda, Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­bands Íslands, Há­skól­ans á Ak­ur­eyri, Menntavís­inda­sviðs Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Sam­taka iðnaðar­ins og sam­tak­anna Heim­ili og skóli.

Þetta sýn­ir svart á hvítu að aðgerðir dags­ins í dag skipta sköp­um fyr­ir framtíðina og það er vel hægt að tak­ast vel á við stór­ar áskor­an­ir á til­tölu­lega stutt­um tíma þegar all­ir róa í sömu átt með sam­vinn­una að leiðarljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2023.

Categories
Greinar

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Deila grein

19/01/2023

Vaxandi vegur hönnunar og arkitektúrs

Á þessu kjör­tíma­bili verða mál­efni hönn­un­ar og arki­tekt­úrs í önd­vegi í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í góðri sam­vinnu við hagaðila. Mark­mið þeirr­ar vinnu er skýrt; við ætl­um að kynna stefnu og aðgerðir sem skila ár­angri, fag­mennsku og gæðum til hags­bóta fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag. Ný hönn­un­ar­stefna verður mótuð og kynnt en henni er ætlað að virkja mannauð í hönn­un­ar­grein­um til þess að leysa brýn verk­efni sam­tím­ans, auka lífs­gæði og stuðla að sjálf­bærri verðmæta­sköp­un. Meðal lyk­ilaðgerða eru setn­ing laga um hönn­un og arki­tekt­úr, efl­ing Hönn­un­ar­sjóðs, bætt aðgengi ný­skap­andi hönn­un­ar­verk­efna að sam­keppn­is­sjóðum, end­ur­skoðun menn­ing­ar­stefnu í mann­virkja­gerð og að tryggja þátt­töku Íslands í Fen­eyjat­víær­ingn­um í arki­tekt­úr.

Í ár munu fram­lög til Hönn­un­ar­sjóðs hækka um 30 millj­ón­ir króna og um­fang sjóðsins því aukast í 80 m.kr. Sjóður­inn út­hlut­ar styrkj­um til marg­vís­legra verk­efna á sviði hönn­un­ar og arki­tekt­úrs en hlut­verk hans er að efla þekk­ingu, at­vinnu- og verðmæta­sköp­un og að stuðla að aukn­um út­flutn­ingi ís­lenskr­ar hönn­un­ar með því að styrkja kynn­ing­ar- og markaðsstarf er­lend­is.

Fyr­ir til­stilli fram­laga sjóðsins hef­ur mörg­um spenn­andi ný­skap­andi verk­efn­um verið hrint í fram­kvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snú­ast af krafti, en sam­tals hafa 386 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum frá upp­hafi. Stuðning­ur úr Hönn­un­ar­sjóði er mik­il­væg lyfti­stöng og viður­kenn­ing, og oft fyrsta skref að ein­hverju stærra.

Það eru stór efna­hags­leg tæki­færi fólg­in í því að styðja við skap­andi grein­ar líkt og hönn­un og arki­tekt­úr með skipu­lögðum hætti. Næg­ir þar að líta til Dan­merk­ur þar sem um­fang hönn­un­ar, arki­tekt­úrs og annarra skap­andi greina hef­ur farið vax­andi í hag­kerf­inu und­an­far­in ár. Tug­ir þúsunda starfa eru inn­an slíkra greina þar í landi og hef­ur vöxt­ur í út­flutn­ingi þeirra verið um 4,8% ár­lega síðan 2011. Árið 2020 fóru út­flutn­ings­verðmæti skap­andi greina yfir 14 millj­arða evra en tísku­varn­ing­ur er til að mynda fjórða stærsta út­flutn­ings­stoð Dan­merk­ur.

Hönn­un og arki­tekt­úr snerta dag­legt líf okk­ar á ótal vegu og flest höf­um við skoðanir á hönn­un og arki­tekt­úr í ein­hverju formi. Ég hef sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að leggja áherslu á að efla ís­lenska hönn­un og arki­tekt­úr, sem fag- og at­vinnu­grein, út­flutn­ings­grein og mik­il­væga aðferðafræði – sem mun á end­an­um leiða til auk­inna lífs­gæða fyr­ir sam­fé­lagið. Með hækk­un fram­laga í Hönn­un­ar­sjóð er stigið skref á þess­ari veg­ferð, slag­kraft­ur sjóðsins mun aukast og von­ir standa til þess að áhrifa hans gæti enn víðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.

Categories
Greinar

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Deila grein

12/01/2023

Hlúð að framboðshlið hagkerfisins til að leysa krafta úr læðingi

Verðbólga mæld­ist 9,7% á þriðja árs­fjórðungi og hækk­un hús­næðisliðar­ins var áfram sá þátt­ur sem hafði mest áhrif. Hins veg­ar varð líka nokk­ur hækk­un á verði ým­iss kon­ar þjón­ustu og mat­vöru. Af­leiðing­ar auk­inn­ar verðbólgu eru versn­andi lífs­kjör, auk­inn ójöfnuður og fjár­magns­kostnaður ásamt óróa í fjár­mála­kerf­inu. Það sem er merki­legt við þróun verðbólg­unn­ar er ekki aðeins að hún hafi auk­ist um heim all­an held­ur eru und­ir­liggj­andi or­sak­ir henn­ar, að und­an­skildu hús­næðis­verði hér á landi, af svipuðum toga: Hækk­un alþjóðlegs hrá­ol­íu- og olíu­verðs, fram­boðshnökr­ar ásamt auk­inni eft­ir­spurn í kjöl­far þrótt­mik­illa stuðningsaðgerða í rík­is- og pen­inga­mál­um til að vinna gegn efna­hags­sam­drætt­in­um í tengsl­um við far­sótt­ina. Þróun verðbólg­unn­ar er þó að breyt­ast ef við lít­um á stærstu hag­kerf­in. Verðbólga virðist vera á niður­leið í Evr­ópu, þar sem orku­verð hef­ur hjaðnað, en verðbólguþró­un­in í Banda­ríkj­um virðist áfram vera þrálát og það sama má segja um Ísland. Þessi tvö síðast­nefndu lönd eiga það sam­eig­in­legt að vinnu­markaður­inn er kröft­ug­ur. En hvað veld­ur og hvað er til ráða?

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur verið að veikj­ast en…

Sam­band verðbólgu og at­vinnu­stigs hef­ur farið þverr­andi síðustu þrjá ára­tugi, þ.e. verðbólga hef­ur ekki verið eins næm fyr­ir slaka eða þenslu á vinnu­markaðnum. Marg­ar hagrann­sókn­ir benda til þess að skamm­tíma­sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is hafi verið að fletj­ast út eins og það birt­ist í hag­fræðinni í svo­kallaðri Phillips-kúrfu. Líta má á tvær meg­in­skýr­ing­ar að mínu mati. Ann­ars veg­ar: Auk­in alþjóðavæðing, þar sem ver­öld­in er að ein­hverju leyti orðin að ein­um markaði. Fyr­ir­tæki sem selja vör­ur sín­ar í mörg­um lönd­um og mæta sam­keppni frá er­lend­um fyr­ir­tækj­um séu ólík­legri til að hækka verð sem bygg­ist ein­göngu á inn­lend­um efna­hagsaðstæðum og fram­leiðslu­kostnaður­inn hef­ur lækkað veru­lega með alþjóðavædd­um vinnu­markaði. Tækn­in spil­ar stórt hlut­verk í þessu sam­hengi, eins og fyr­ir­tækið Amazon. Hins veg­ar hef­ur fram­kvæmd pen­inga­stefnu styrkst veru­lega á síðustu ára­tug­um. Ben Bern­ar­ke, fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri Banda­ríkj­anna, held­ur því fram að for­ysta Pauls Volckers hafi gert þar gæfumun, en þá tókst að festa verðbólgu­vænt­ing­ar al­menn­ings gagn­vart verðbólgu. Niður­stöður rann­sókna Bo­beica o.fl. benda t.d. til þess að traust­ari kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga leiki lyk­il­hlut­verk í því að skýra minnk­andi tengsl milli launa­hækk­ana og verðbólgu í Banda­ríkj­un­um und­an­farna þrjá ára­tugi. Að sama skapi kemst Alþjóðagreiðslu­bank­inn að þess­ari niður­stöðu, þ.e. áhrif launa­hækk­ana á verðbólgu eru minni í lönd­um þar sem verðstöðug­leika hef­ur verið náð en í lönd­um þar sem verðbólga er jafn­an meiri.

…munu vax­andi skort­ur á vinnu­afli og versn­andi verðbólgu­horf­ur breyta því?

Það eru hins veg­ar blik­ur á lofti um að sam­bandið milli verðbólgu og at­vinnu­stigs sé að styrkj­ast að nýju og hin hefðbundna Phil­ips-kúrfa end­ur­fædd. Þrennt kem­ur til: Í fyrsta lagi virðist vinnu­markaður­inn breytt­ur í Banda­ríkj­un­um eft­ir far­sótt­ina. Hag­töl­ur gefa til kynna að marg­ir hafi ekki skilað sér aft­ur inn á vinnu­markaðinn eða ákveðið að breyta um starfs­vett­vang. Að sama skapi eru stór­ir ár­gang­ar að detta út af vinnu­markaðnum sök­um ald­urs. Kenn­ing­ar eru uppi um að fram und­an gæti verið veru­leg­ur skort­ur á vinnu­afli sem muni leiða til launa­hækk­ana og svo kostnaðar­hækk­ana. Fram­leiðni, sam­kvæmt nýj­ustu töl­um, hef­ur einnig minnkað veru­lega. Í öðru lagi, þá hef­ur um nokk­urra ára skeið verið viðskipta- og tækn­i­stríð á milli Banda­ríkj­anna og Kína. Það, ásamt viðvar­andi fram­boðshnökr­um sem komu fyrst upp þegar far­sótt­in skall á, leiðir til þess að ákveðin störf hafa verið að fær­ast aft­ur til Banda­ríkj­anna og kostnaður fer hækk­andi sam­fara því. Í þriðja lagi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Þegar þetta þrennt, bæði skamm­tíma- og lang­tíma­vanda­mál, kem­ur sam­an gæti orðið snún­ara fyr­ir banda­ríska seðlabank­ann að koma bönd­um á verðbólgu.

Ef við lít­um á ís­lenska hag­kerfið í þessu sam­hengi, þá er það sama upp á ten­ingn­um. Mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi lítið. Að sama skapi hafa verðbólgu­vænt­ing­ar versnað veru­lega. Sam­kvæmt síðustu Pen­inga­mál­um Seðlabanka Íslands hef­ur hlut­fall þeirra sem bú­ast við að verðbólga verði meiri en 5% á næstu fimm árum hækkað tölu­vert á þessu ári. Það er ný saga og göm­ul að þegar verðbólga er yfir mark­miði í lang­an tíma eykst hætt­an á að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga veikist og það get­ur tekið lang­an tíma að ná þeim aft­ur niður í mark­mið. Til að koma bönd­um á verðbólg­una þarf að viðhalda góðu sam­ræmi á milli rík­is­fjár­mála og pen­inga­mála. Að sama skapi er mik­il­vægt að tryggja öfl­ugt fjár­mála­kerfi sem tek­ist get­ur á við óróa á fjár­mála­mörkuðum og viðhaldið viðun­andi kjör­um. Það má jafn­framt ekki missa sjón­ar á mik­il­vægi þess að tryggja jafn­vægi í ut­an­rík­is­viðskipt­um og koma þar marg­ir þætt­ir að. Enn frem­ur verður það verk­efni að sjá til þess að fram­boðshlið hag­kerf­is­ins verði ekki hamlandi þátt­ur fyr­ir al­menn­ing og at­vinnu­lífið, en fram­boðshliðin er alltumlykj­andi og skoða verður gaum­gæfi­lega hvar fram­boðshnökra er að finna í hag­kerf­inu til að leysa krafta úr læðingi án þess að það hafi áhrif á verðlagið.

„Eigi skal gráta Björn bónda, held­ur skal safna liði,“ sagði Ólöf Lofts­dótt­ir, kona Björns Þor­leifs­son­ar hirðstjóra, þegar hún frétti að ensk­ir sjó­ræn­ingj­ar hefðu vegið mann sinn vest­ur á Rifi á Snæ­fellsnesi árið 1467. Þessa hvatn­ingu má heim­færa á verðbólguógn­ina og að halda verði áfram að grípa til aðgerða til að hamla því að hún nái fót­festu í ís­lensku efna­hags­lífi með skelfi­leg­um af­leiðing­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. janúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Brúin milli heimsálfanna

Deila grein

10/01/2023

Brúin milli heimsálfanna

Winst­on Churchill, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, hitti nagl­ann á höfuðið þegar hann sagði að hver sá sem hef­ur yf­ir­ráð yfir Íslandi held­ur á byssu miðaðri á Eng­land, Am­er­íku og Kan­ada. Þannig kjarnaði hann hernaðarlegt mik­il­vægi Íslands út frá land­fræðilegri legu þess. Þessi skoðun hef­ur staðist tím­ans tönn og skip­ar land­fræðileg lega lands­ins enn mik­il­væg­an þátt í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um í heims­hlut­an­um.

Á und­an­förn­um ára­tug­um hef­ur Íslend­ing­um tek­ist að nýta legu lands­ins sér sjálf­um sem og er­lend­um ferðalöng­um enn frek­ar til fram­drátt­ar. Ný­verið kynnti ég mér starf­semi ISA­VIA á Kefla­vík­ur­flug­velli, mann­virki sem hef­ur þjónað sí­vax­andi ör­ygg­is- og efna­hags­leg­um til­gangi fyr­ir Ísland.

Það hef­ur tals­vert vatn runnið til sjáv­ar frá því Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar var opnuð árið 1987, þá 23 þúsund fer­metr­ar að stærð sem um fóru 750 þúsund farþegar. Frá opn­un henn­ar hafa um­svif alþjóðaflugs auk­ist veru­lega sam­hliða því að ís­lensk flug­fé­lög hafa nýtt sér land­fræðilega legu lands­ins til þess að byggja upp viðskiptalíkön sín. Tengimiðstöðin Kefla­vík þjón­ar nú millj­ón­um farþega sem ferðast yfir hafið með viðkomu í Leifs­stöð, en í ár í gert ráð fyr­ir að 7,8 millj­ón­ir fari um flug­völl­inn. Þétt net áfangastaða og auk­in flugtíðni til og frá Kefla­vík hef­ur opnað Íslend­ing­um nýja mögu­leika í leik og starfi. Þannig er flogið til 75 áfangastaða frá Kefla­vík. Til sam­an­b­urðar eru 127 skráðir frá Kast­rup-flug­velli í Kaup­manna­höfn.

Greiðar sam­göng­ur líkt og þess­ar og ná­lægð við lyk­il­markaði þar sem kaup­mátt­ur er sterk­ur skipta sam­keppn­is­hæfni landa miklu máli og skapa skil­yrði fyr­ir góðan ár­ang­ur í ut­an­rík­is­versl­un. Íslenskt efna­hags­líf hef­ur ekki farið var­hluta af þessu, næg­ir þar að nefna að ferðaþjón­usta hef­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma orðið að þeirri at­vinnu­grein sem skap­ar mest­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir þjóðarbúið. Fjöl­mörg tæki­færi fylgja því að styðja áfram við alþjóðaflugið og skapa ný tæki­færi, til að mynda með auknu frakt­flugi til, frá og í gegn­um Ísland.

Stjórn­völd gera sér grein fyr­ir þýðingu þess að hlúa vel að alþjóðaflugi. Stór­ar fjár­fest­ing­ar í flug­vall­ar­innviðum und­ir­strika það. Þannig standa um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir yfir á Kefla­vík­ur­flug­velli en um­fang þeirra mun nema um 100 millj­örðum króna. Þá er unnið að stækk­un flug­stöðvar­inn­ar á Ak­ur­eyri, meðal ann­ars með milli­landa­flug í huga. End­ur­bæt­ur hafa einnig átt sér stað á Eg­ilsstaðaflug­velli en árið 2021 var nýtt mal­bik lagt á flug­braut­ina og unnið er að til­lög­um um stækk­un flug­hlaðs og lagn­ingu ak­brauta. Einnig hef­ur fjár­mun­um verið varið í styðja flug­fé­lög til að þróa og markaðssetja beint flug til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða sem skilað hef­ur góðum ár­angri og mun skipta máli fyr­ir at­vinnu­líf og íbúa þeirra svæða.

Það hef­ur þjónað hags­mun­um lands­ins vel að vera brú­in milli Evr­ópu og Norður-Am­er­íku. Við þurf­um að halda áfram að nýta þau tæki­færi sem land­fræðileg lega lands­ins skap­ar okk­ur og byggja þannig und­ir enn betri lífs­kjör á land­inu okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. janúar 2023.

Categories
Greinar

Heimurinn versnandi fer … en það er ljós við enda ganganna

Deila grein

02/01/2023

Heimurinn versnandi fer … en það er ljós við enda ganganna

Heim­ur­inn versn­andi fer! Orðin end­ur­óma gamla heims­á­deilu og koma fyrst fyrir í Pass­íu­sálmum Hall­gríms Pét­urs­sonar og eiga að ein­hverju leyti við árið 2022 en hins vegar er alltaf ljós við enda gang­anna.

Árið 2022 verður eft­ir­minni­legt fyrir margar sakir enda ár nokk­urra stórra áskor­ana sem legið hafa eins og rauðir þræðir í gegnum allt árið með snert­ingu við flest horn heims­ins. Stríð í Evr­ópu er stað­reynd eftir inn­rás Rúss­lands í Úkra­ínu, verð­bólga hefur ekki verið hærri í fjóra ára­tugi á heims­vísu, lífs­kjara­kreppa er skollin á og nið­ur­sveifla er óum­flýj­an­leg víða. Vextir hafa hækkað veru­lega, við­skipta­stríð Banda­ríkj­anna og Kína stig­magn­ast og að lokum olli lofts­lags­ráð­stefna Sam­ein­uðu þjóð­anna COP27 von­brigð­um. Hins vegar þá hafa við­brögð við þessum áskor­unum fyllt okkur von­ar­glætu. Vest­ur­lönd með Atl­ants­hafs­banda­lagið að vopni hafa sam­ein­ast gegn árás Rúss­lands, seðla­bankar heims­ins átta sig á efna­hags­hætt­unni sem verð­bólgan veldur og hafa sýnt sjálf­stæði sitt og hækkað vexti og alþjóða­við­skipti halda áfram að aukast, hægar þó en fyrr, þrátt fyrir erfið sam­skipti Banda­ríkj­anna og Kína. Fyrrum for­seti Banda­ríkj­anna, Trump, virð­ist hafa misst flugið og rann­sókn­ar­nefnd full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings sem skoð­aði árás­ina á þing­húsið í Was­hington DC 6. jan­úar 2021 er afger­andi í nið­ur­stöðu sinni að meg­in­or­sökin fyrir 6. jan­úar er einn mað­ur, Don­ald Trump, fyrr­ver­andi for­seti, sem margir fylgdu. Engin árás hefði átt sér stað án hans. Að lok­um, þá hefur heims­byggðin aldrei séð jafn­mik­inn kraft settan í að flýta fyrir grænum orku­skiptum og fyrir örfáum dögum birt­ust jákvæðar fréttir af kjarna­sam­runa.

Lok Kalda stríðs­ins virt­ust vera frið­söm í fyrstu

Síð­ustu þrír ára­tugir eftir að járn­tjaldið féll hafa verið frið­samir og ein­kennst af auk­inni vel­sæld á heims­vísu. Feiki­legar tækni­fram­farir hafa lagt grunn­inn að auk­inni nýsköpun og sam­vinnu. Aukin alþjóða­við­skipti og verð­mæta­sköpun hafa lyft um millj­arði fólks úr fátækt um heim­inn all­an. Mikil sam­vinna þjóð­ríkja hefur verið ein­kenn­andi fyrir þennan tíma. Við­skipti við Asíu hafa stór­auk­ist og segja má að Kína hafa virkað sem alheims­verk­smiðja. Vegna þess að kostn­aður við fram­leiðslu hefur verið mun lægri í Kína en á Vest­ur­lönd­um, þá má skýra út verð­hjöðnun á Vest­ur­löndum í tengslum við þessa þró­un. Evr­ópu­sam­run­inn var á fullu í byrjun 9. ára­tug­ar­ins og vall­ar­sýnin sú að Evr­ópa yrði öll sam­einuð innan skamms. Sam­eig­in­legi gjald­mið­il­inn var kynntur til sög­unn­ar. Sví­þjóð og Finn­land gengu í Evr­ópu­sam­bandið ásamt mörgum Aust­ur-­Evr­ópu­ríkj­um. Fyrrum Var­sjár­ríkin sóttu ýmis um aðild að Atl­antshafs­banda­lag­inu og það ríkti mikil bjart­sýni um að fram undan væri tími mik­ils upp­gangs og sam­vinnu. Sov­ét­ríkin lið­ast í sundur eitt af öðru. Atburða­rásin var mun hrað­ari en flestir sér­fræð­ingar gerðu grein fyr­ir. Á tíma­bili leit jafn­vel út fyrir að Rúss­land hefði áhuga á því að ger­ast aðili að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu!

Vest­ur­lönd ítrekað vöruð við Rúss­landi Pútíns …

Hinn 24. febr­úar síð­ast­lið­inn breytt­ist veru­leik­inn eins og við höfum þekkt hann um ára­tuga­skeið í Evr­ópu er Rússar hófu grimmi­lega inn­rás inn Úkra­ínu. Rússar höfðu áður tekið Krím­skaga yfir árið 2014 og það hefði átt að vera ljóst þá að þeir ætl­uðu sér meira. Því miður töldu Vest­ur­lönd að efna­hags­refsi­að­gerð­irnar myndu duga til að koma í veg fyrir frek­ari átök. Vest­ur­lönd voru marg­ít­rekað vöruð við að Rúss­land Pútíns ein­kennd­ist af ofbeldi og grimmd. Bók blaða­kon­unnar Önnu Polit­kovskayu um Rúss­land Pútíns og gefin var út árið 2004, fjallar mjög ítar­lega um ein­ræð­is­stjórn­hætti Pútíns. Bókin Önnu fékk verð­skuld­aða athygli og í kjöl­farið var hún myrt 7. októ­ber, 2006 á afmæl­is­degi Pútíns. Hann fékk til­kynn­ing­una um morðið þegar þau Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, fund­uðu í Kreml. Haft hefur verið eftir Merkel að Pútin hafi vilj­andi látið hvísla þessu að sér í þeim til­gangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu sam­hengi eins og bar­átta fjár­fest­is­ins Bill Browder fyrir rétt­læti vegna Sergei Magnit­sky, en sá síð­ar­nefndi var sam­starfs­að­ili Browder og lést í fang­elsi í Rúss­landi. Í fram­hald­inu voru Magnit­sky-lögin sam­þykkt af banda­ríska þing­inu, en þau fela í sér fjár­hags­legar refsi­að­gerðir gagn­vart rúss­neskum við­skipta­jöfr­um. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vest­ur­lönd voru ítrekað vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rúss­landi Pútíns.

… og Rússar fara í stríð í Evr­ópu og áfram ræðst fram­vindan af Banda­ríkj­unum

Stríð var hafið af fullum þunga í Evr­ópu. Á svip­stundu blasti nýr veru­leiki fyrir þjóðum álf­unnar í örygg­is- og varn­ar­mál­um. Mála­flokk­ur­inn hafði fengið lítið vægi í opin­berri umræðu, sam­dráttur í fram­lögum marga Evr­ópu­ríkja til varn­ar­mála hafði verið tals­verður og Evr­ópa orðin of háð Rúss­landi um orku. Allir helstu sér­fræð­ingar töldu að Rússar yrðu komnir inn í Kænu­garð á þremur dög­um. Það varð hins vegar ekki raunin og segja má að Rússar hafi mis­reiknað sig hrapal­lega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröftug mót­spyrna Úkra­ínu­manna neyddi Rússa á end­anum til að hörfa frá stórum land­svæðum en stríðið geisar nú í suð­ur- og suð­aust­ur­hluta lands­ins. Við­brögð alþjóða­sam­fé­lags­ins hafa verið afger­andi með for­dæma­lausum við­skipta­þving­unum á Rúss­land og umfangs­miklum hern­að­ar­stuðn­ingi við Úkra­ínu. Vel­vild og dyggur stuðn­ingur banda­rískra stjórn­valda skipta höfuð máli í gangi stríðs­ins. Evrópa er enn og aftur algjör­lega háð stefnu Banda­ríkj­anna.

… og Þýska­land finnur til ábyrgðar

Kansl­ari Þýska­lands Olaf Scholz skrif­aði grein í byrjun des­em­ber og bar heitið „The Global Zeit­enwende“ og þar boðar hann nýja tíma í utan­rík­is­málum Þýska­lands. Meg­in­skila­boðin í grein­inni er að alþjóða­sam­fé­lagið geti aldrei látið Pútin ráða för og að tími sé kom­inn að Þjóð­verjar gegni lyk­il­hlut­verki í örygg­is- og varn­ar­málum í Evr­ópu. Í því felst að fjár­festa þurfi í her­afla, styrkja sam­eig­in­legar varnir Evr­ópu og efla þrótt Atl­ants­hafs­banda­lags­ins ásamt því að styðja dyggi­lega við Úkra­ínu. Nýtt hlut­verk Þýska­lands kallar á nýja þjóðar­ör­ygg­is­stefnu. Þessi stefnu­breyt­ing þýðir að búið er að leyfa útflutn­ing á vopnum í fyrsta sinn í eft­ir­stríðs­sögu Þýska­lands og það er til Úkra­ínu. Þýska­land hefur heitið því að styðja Úkra­ínu eins lengi og þörf kref­ur. Jafn­framt kemur fram í grein Olaf Scholz að aðgerðir Atl­ants­hafs­banda­lags­ins megi ekki verða til beinna hern­að­ar­á­taka við Rússland en koma verður í veg fyrir stig­mögnun stríðs­ins. Í því skyni hefur Þýska­land aukið veru­lega við­veru sína á aust­ur­víg­stöðvum og eflt alla við­veru sína í Aust­ur-­Evr­ópu. Þessi skýru skila­boð frá kansl­ara Þýska­land marka nýja tíma í Evr­ópu. Segja má að þessi sögu­legu umskipti í utan­rík­is­stefnu Þýska­lands minni á þegar Willy Brandt, kansl­ari, hóf „Öst­politik“ stefn­una, sem gekk út á að opna Aust­ur-Þýska­land en að tryggja gott sam­band við Banda­rík­in. Afar brýnt er að Ísland fylgist vel með fram­vindu mála í Þýska­landi.

Þjóðar­ör­ygg­is­stefna Ísland öflug og byggir á traustum stoðum

Ísland hefur tekið þátt af fullum þunga í aðgerðum banda­lags­ríkj­anna og stutt mynd­ar­lega við Úkra­ínu með ýmsum móti, meðal ann­ars með mót­töku flótta­fólks sem hingað hefur leitað í öruggt skjól. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýð­ræði og mann­rétt­ind­um, er ekki sjálf­sögð. Inn­rás Rússa er grimmi­leg áminn­ing um það. Fram­sýn skref íslenskra stjórn­mála­manna um að taka stöðu með lýð­ræð­is­ríkjum og að gera Ísland að stofn­að­ila að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu árið 1949 og und­ir­ritun tví­hliða varn­ar­samn­ings við Banda­ríkin 1951 voru heilla­drjúg skref fyrir íslenska hags­muni sem enn mynda hryggjar­stykkið í utan­rík­is­stefnu okk­ar. Ísland á áfram að taka virkan þátt í varn­ar- og örygg­is­sam­starfi með banda­lags­þjóðum sínum og standa vörð um þau gildi sem við reisum sam­fé­lag okkar á. Þjóðar­ör­ygg­is­stefna Íslands frá árinu 2016 hefur þjónað okkur vel. Meg­in­á­herslan er sem fyrr á aðild okkar að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu, tví­hliða­varn­ar­samn­ingur við Banda­ríkin ásamt aðild okkar að Sam­ein­uðu þjóð­unum og miklu sam­starfi Norð­ur­land­anna. Land­fræði­leg staða Íslands heldur áfram að skipta sköpum í Norð­ur­-Atl­ants­haf­inu og við eigum að halda áfram að styrkja þjóðar­ör­ygg­is­stefn­una.

Stríðsknúin orku­kreppa kveikir verð­bólgu­bál

Vonir um að alþjóða­hag­kerfið og aðfanga­keðjur þess myndu taka fljótt við sér sam­hliða aflétt­ingu sótt­varna­ráð­staf­ana dvín­uðu hratt við fyrr­nefnda inn­rás Rússa. Í stað þess spruttu upp nýjar áskor­anir fyrir alþjóða­hag­kerfið sem enn sér ekki fyrir end­ann á. Miklar hækk­anir á hrá­vöru og orku hafa leikið fólk og fyr­ir­tæki grátt og hefur hug­takið Lífs­kjara­kreppan verið notað til að lýsa ástand­inu. Skömmtun á raf­orku og kostn­að­ar­söm sturtu­stund á heim­ilum fólks í Evr­ópu hljóm­aði fjar­stæðu­kennt fyrir nokkrum mán­uðum en er nú veru­leik­inn. Stjórn­völd hafa víða stigið inn í ástandið með stuðn­ings­að­gerðum til handa sam­fé­lögum sínum í glímunni við verð­bólg­una. Stýri­vextir hafa hækkað um allan heim til þess að reyna að slá á verð­bólg­una en sum staðar hafa ekki sést við­líka verð­bólgu­tölur í ára­tugi. Allt þetta ástand hefur varpað ljósi á kerf­is­lega veik­leika Evr­ópu sem mik­il­vægt er að horfast í augu við og takast á við; heims­hlut­inn verður meðal ann­ars að vera betur í stakk búinn til þess að sjá sjálfum sér fyrir orku og tryggja þannig efna­hags- og þjóðar­ör­yggi ríkja sinna. Það verður jafn­framt upp­lýsandi á næstu miss­erum að skoða með gagn­rýnum augum á þá pen­inga- og fjár­mála­stefnu sem rekin hefur verið beggja vegna Atl­antsála og leita svara við því hvaða áhrif slaki í þeim efnum um ára­bil hefur mögu­lega haft á verð­bólgu­skot­ið.

Í mínum huga er það tvennt sem stendur upp úr á árinu. Ann­ars vegar er það stríðið í Úkra­ínu og hins vegar orku­kreppan sem fylgdi í kjöl­farið ásamt hárri verð­bólgu. Ísland hefur verið í nokkuð góðri stöðu, þar sem staða okkar í örygg­is- og varn­ar­málum er traust og að auki erum við ekki háð þriðja aðila um lyk­il­orku. Þrátt fyrir að árið 2022 hafi verið krefj­andi á margan hátt og fái okkur til að rifja upp Pass­íu­sálma Hall­gríms Pét­urs­son­ar, þá er ég sann­færð um að von­ar­neist­inn er sam­staða Vest­ur­land­anna, sem muni á end­anum skila okkur betri stöðu í Evr­ópu. Allar þjóðir skipa máli þar og hefur rík­is­stjórn Íslands stutt dyggi­lega við Úkra­ínu og þétt enn frekar rað­irnar innan Atl­ants­hafs­banda­lags­ins. Fram­ganga utan­rík­is­ráð­herra hefur verið til fyr­ir­myndar og vel studd af rík­is­stjórn­inni. Framundan er tími ljóss og frið­ar. Njótum þess að vera með fólk­inu okkar og huga vel að því.

Gleði­leg jól.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og við­skipta­ráð­herra og vara­for­maður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 27. desember 2022.

Categories
Greinar

Ómetanlegt starf í þágu þjóðar

Deila grein

02/01/2023

Ómetanlegt starf í þágu þjóðar

Eitt af því sem ís­lenskt sam­fé­lag get­ur verið hvað stolt­ast af eru björg­un­ar­sveit­ir lands­ins. Allt frá því að fyrsta björg­un­ar­sveit­in var stofnuð árið 1918 í Vest­manna­eyj­um í kjöl­far tíðra sjó­slysa hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar í starf­semi sveit­anna, en nú rúmri öld síðar starfa um 100 sveit­ir á land­inu. Það er óeig­ingjarnt starf sem þær þúsund­ir ein­stak­linga sem manna björg­un­ar­sveit­irn­ar inna af hendi en það er sann­kölluð dyggð að henda öllu frá sér þegar kallið kem­ur og halda af stað í allra veðra von til þess að tryggja ör­yggi annarr­ar mann­eskju.

Allt þetta fólk er til­búið að leggja mikið sjálf­boðastarf á sig til þess að láta gott af sér leiða, stuðla að auknu ör­yggi og bæta sam­fé­lagið á Íslandi. Aðstæðurn­ar sem björg­un­ar­sveitar­fólk stend­ur frammi fyr­ir eru oft­ar en ekki krefj­andi og reyna bæði á lík­ama og sál. Á þetta erum við reglu­lega minnt þegar okk­ur ber­ast til dæm­is frétt­ir af vonsku­veðrum sem ganga yfir landið með til­heyr­andi áskor­un­um, nú síðast í kring­um hátíðirn­ar.

Björg­un­ar­sveit­irn­ar eru sann­kölluð grunnstoð í sam­býli okk­ar Íslend­inga við óblíð nátt­úru­öfl­in sem móta líf okk­ar hér norður í Atlants­hafi. Sag­an geym­ir mörg dæmi þess. Það sem vek­ur gjarn­an at­hygli er­lend­is þegar talið berst að björg­un­ar­starfi er sú staðreynd að þetta öfl­uga björg­un­ar­kerfi er byggt upp af sjálf­boðaliðum. Fag­mennsk­an, þekk­ing­in og reynsl­an sem björg­un­ar­sveit­irn­ar sýna í störf­um sín­um eru jafn­góð ef ekki betri í sam­an­b­urði við þrautþjálfaðar at­vinnu­björg­un­ar­sveit­ir er­lend­is.

Er­lend­ir ferðamenn sem hafa þurft á aðstoð björg­un­ar­sveita að halda hér á landi hafa ein­mitt lýst hrifn­ingu sinni á þeim. Veru­leik­inn hef­ur vissu­lega breyst með til­komu þess mikla fjölda ferðamanna sem heim­sæk­ir landið á ári hverju. Þrátt fyr­ir að út­köll vegna ferðamanna séu hlut­falls­lega fá miðað við þann mikla fjölda ferðamanna sem kem­ur til lands­ins hef­ur verk­efn­um vegna er­lendra ferðamanna vissu­lega fjölgað und­an­far­inn ára­tug. Á umliðnum árum hef­ur Slysa­varna­fé­lagið Lands­björg, í sam­starfi við stjórn­völd og at­vinnu­lífið, hrundið af stað mik­il­væg­um fræðslu­verk­efn­um sem miða að því að fyr­ir­byggja slys og auka þannig ör­yggi. Má þar helst nefna verk­efnið Sa­fetra­vel sem miðlar upp­lýs­ing­um um aðstæður til ferðalaga á fimm tungu­mál­um. Jafn­framt eru um 1.000 upp­lýs­inga­skjá­ir um allt land sem ætlað er að koma upp­lýs­ing­um til skila. Sem ráðherra ferðamála mun ég leggja áfram­hald­andi áherslu á fyr­ir­byggj­andi ör­ygg­is­fræðslu fyr­ir ferðamenn til þess að draga úr lík­um þess að kalla þurfi út björg­un­ar­sveit­ir.

Að lok­um við ég þakka öllu því framúrsk­ar­andi fólki sem tek­ur þátt í starfi björg­un­ar­sveit­anna. Ykk­ur á þjóðin mikið að þakka. Ég vil jafn­framt hvetja alla til þess að leggja sveit­un­um lið nú um ára­mót­in en það sem ger­ir starf þeirra svo sér­stakt um­fram allt er hug­sjón­in um ör­ugg­ara sam­fé­lag; ómet­an­legt starf í þágu þjóðar. Ég óska lands­mönn­um öll­um gleðilegs nýs árs og þakka fyr­ir árið sem er að líða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 31. desember 2022.

Categories
Greinar

Bók í hendi um jólin

Deila grein

21/12/2022

Bók í hendi um jólin

Nú þegar stytt­ist í að jól­in verði hringd inn er áhuga­vert að hugsa til tvennra síðustu jóla sem lituðust af jóla­búbbl­um og sótt­varn­ar­regl­um vegna heims­far­ald­urs. Sá veru­leiki virk­ar nú eins og fjar­læg minn­ing og lands­menn nú á fullu að und­ir­búa hefðbund­in jól. Eitt af því sem fylg­ir okk­ur ávallt um jól­in, óháð því hvernig árar, eru bók­mennt­ir. Lest­ur góðrar bók­ar er orðinn órjúf­an­leg­ur hluti jóla­halds­ins á mörg­um heim­il­um, enda fjöldi góðra titla sem skol­ast á nátt­borð lands­manna með hinu ár­lega jóla­bóka­flóði.

Miðstöð ís­lenskra bók­mennta lét ný­lega gera könn­un á viðhorfi þjóðar­inn­ar til bók­lestr­ar en niður­stöðurn­ar gefa sterk­ar vís­bend­ing­ar um að lest­ur sé enn sem fyrr mik­il­væg­ur þátt­ur í lífi lands­manna og að viðhorf fólks sé já­kvætt í garð bók­mennta og lestr­ar. Þannig kom fram að 32% þjóðar­inn­ar lesa einu sinni eða oft­ar á dag og að meðal­fjöldi les­inna bóka var 2,4 bæk­ur á mánuði í sam­an­b­urði við 2,3 bæk­ur að meðaltali í lestr­ar­könn­un árið 2021.

Und­an­far­in ár hef­ur ís­lensk bóka­út­gáfa tekið hressi­lega við sér eft­ir um­tals­vert sam­drátt­ar­skeið. Sú þróun var óæski­leg af mörg­um ástæðum enda er bók­lest­ur upp­spretta þekk­ing­ar og færni, ekki síst barna. Það er óum­deilt að bók­lest­ur eyk­ur lesskiln­ing og þjálf­ar grein­ing­ar­hæfi­leika þeirra, ein­beit­ingu og örv­ar ímynd­un­ar­aflið. Það að gefa hug­an­um greiða leið að undra­heim­um bók­anna er ferðalag sem ger­ir lífið skemmti­legra.

Það hef­ur verið ánægju­legt að fylgj­ast með þeirri kröft­ugu viðspyrnu sem hef­ur átt sér stað í ís­lenskri bóka­út­gáfu og sjá að all­ar þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa ráðist í á umliðnum árum séu að skila sér. Má þar nefna 25% end­ur­greiðslu vegna bóka­út­gáfu á ís­lensku, styrk­ingu lista­manna­launa, hærri höf­unda­greiðslur fyr­ir af­not á bóka­söfn­um, efl­ingu bóka­safna og stofn­un barna- og ung­menna­bóka­sjóðsins Auðar.

Þess­ar aðgerðir spretta ekki úr tóm­inu einu sam­an enda eru bók­mennt­ir samofn­ar sögu okk­ar sem þjóðar og ekki að ástæðulausu að Íslend­ing­ar eru kallaðir bókaþjóð. Sér­hver jól minna okk­ur á þessa staðreynd með svo hlý­leg­um hætti; þegar heim­il­is­fólk er satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og fjöl­skyld­an kúr­ir með jóla­bók í hendi. Fyr­ir mér er þetta ómet­an­leg hátíðar­stund.

Ég óska lands­mönn­um öll­um gleðilegra jóla og hvet þá til þess að njóta alls þess frá­bæra sem bók­mennt­irn­ar hafa fram að færa þessi jól­in. All­ir ættu að geta tekið sér bók í hönd við hæfi um jól­in og gert þau þannig enn hátíðlegri.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. desember 2022.

Categories
Greinar

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Deila grein

15/12/2022

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Mik­il ókyrrð hef­ur verið á alþjóðamörkuðum síðustu ár. Verðbólga á heimsvísu hef­ur ekki mælst jafn­há í fjóra ára­tugi. Meg­in­or­sak­ir henn­ar eru heims­far­ald­ur­inn og rösk­un á aðfanga­keðju vegna hans, stríðið í Úkraínu og orkukrepp­an í Evr­ópu. Að auki lít­ur út fyr­ir áfram­hald­andi póli­tíska spennu milli Banda­ríkj­anna og Kína. Stýri­vext­ir halda áfram að hækka og lík­urn­ar aukast veru­lega á að efna­hagsniður­sveifla hefj­ist á heimsvísu. Tími ódýrs láns­fjár­magns er liðinn í bili. Ein­hver glæta er þó að birt­ast eft­ir að verðbólga er far­in að hjaðna í Banda­ríkj­un­um.

Minnk­andi alþjóðaviðskipti

Mikl­ar breyt­ing­ar virðast vera í far­vatn­inu í alþjóðahag­kerf­inu, sem snúa einkum að minnk­andi alþjóðaviðskipt­um og fjár­fest­ingu. Í þessu um­hverfi er sér­stak­lega mik­il­vægt að stefna í rík­is­fjár­mál­um sé traust og að þau séu sjálf­bær hjá ríkj­um. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Liz Truss, og fjár­málaráðherra Bret­lands, Kwasi Kw­arteng, fundu held­ur bet­ur fyr­ir því að hafa ekki hugað að trú­verðugri rík­is­fjár­mála­stefnu. Frá því að „Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt af þáver­andi for­ystu Íhalds­flokks­ins leið ekki nema um vika þar til þau neydd­ust til að segja af sér. En hvað þýða þess­ir svipti­vind­ar alþjóðafjár­mála­kerf­is­ins og hver er þýðing þeirra hér á landi?

Lygi­leg at­b­urðarás í Bretlandi

Í kjöl­far þess að ,,Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt fór af stað mjög hröð at­b­urðarás á fjár­mála­mörkuðum. Veðköll hóf­ust vegna af­leiðuskuld­bind­inga líf­eyr­is­sjóðakerf­is­ins í bresk­um skulda­bréf­um. Það leiddi til þess að Seðlabanki Eng­lands þurfti að auka laust fé í um­ferð til að hægt væri að mæta veðköll­un­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in tapaði sam­stund­is öll­um trú­verðug­leika og í fram­hald­inu urðu stjórn­ar­skipti. Nýr fjár­málaráðherra, James Hunt, hef­ur kynnt fjár­mála­áætl­un sem miðar að því að skulda­lækk­un sé í aug­sýn og skatt­ar voru meðal ann­ars hækkaðir á þá tekju­mestu. Undið var ofan af fyrri áætl­un­um á mettíma. Til­trú og traust hef­ur minnkað vegna þess­ar­ar fram­göngu í rík­is­fjár­mál­um.

Rík­is­út­gjöld aukast í Evr­ópu og Ítal­ía áfram í hættu

Seðlabank­ar heims­ins hafa verið að hækka stýri­vexti og sam­hliða hef­ur fjár­mögn­un­ar­kostnaður verið að aukast. Að sama skapi sjá­um við ekki fyr­ir end­ann á stríðinu í Úkraínu og orkukreppu margra Evr­ópu­ríkja. Þýska­land hef­ur þegar riðið á vaðið til að styðja bet­ur við fyr­ir­tæk­in og heim­il­in í land­inu vegna hækk­andi orku­verðs og settu rúma 200 millj­arða evra til þess. Fjár­málaráðherra Þýska­lands, Christian Lindner, hafnaði því að aðgerðapakk­inn væri verðbólgu­hvetj­andi en engu að síður hef­ur verðbólga ekki mælst hærri í 70 ár og ávöxt­un­ar­krafa þýskra rík­is­skulda hækkað. Annað ríki í Evr­ópu, Ítal­ía, er enn viðkvæm­ara fyr­ir þreng­ing­um. Ítal­ía er háð rúss­nesku gasi og hef­ur lítið svig­rúm í rík­is­fjár­mál­un­um í ljósi mik­illa skulda og hækk­andi vaxta­greiðslna til að koma til móts við hækk­andi orku­verð. Ávöxt­un­ar­kraf­an á rík­is­skulda­bréf­in hef­ur verið að hækka veru­lega. Ófyr­ir­sjá­an­leiki í orku­öfl­un í Evr­ópu veld­ur því að fjár­fest­ar gera ráð fyr­ir að erfiðara verði að koma bönd­um á verðbólg­una.

Tauga­veiklaðir markaðir

Við sjá­um ekki fyr­ir end­ann á vaxta­hækk­un­um seðlabanka og því mun mynd­ast álag á helstu fjár­mála­mörkuðum. Vegna þessa er búið að herða tök­in á öll­um mörkuðum og lausa­fjárstaða þjóða og fyr­ir­tækja hef­ur versnað. Það má færa sann­fær­andi rök fyr­ir því að við mun­um sjá mikl­ar verðbreyt­ing­ar á mörkuðum og meiri óstöðug­leika á næsta ári. Gjá mynd­ast meðal þjóða sem hafa trú­verðug rík­is­fjár­mál og sjálf­bær­an greiðslu­jöfnuð ann­ars veg­ar og hins veg­ar þeirra þar sem grunnstoðir hag­kerfa eru veik­ar líkt og á Ítal­íu, í Tyrklandi og Arg­entínu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur hækkað vexti hraðar en aðrir seðlabank­ar að und­an­skild­um Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir að gengi Banda­ríkja­dals hef­ur hækkað veru­lega eða um rúm 17% frá árs­byrj­un. Banda­rík­in hafa því verið að flytja verðbólg­una til annarra ríkja og því hafa aðrar þjóðir þurft að hækka vexti hraðar en ella.

Fjár­lög rík­is­sjóðs Íslands 2023 sýna af­komu­bata

Hag­vaxt­ar­horf­ur hafa styrkst á Íslandi og hag­vöxt­ur er óvíða meiri og mæl­ist 7,3% á 3. árs­fjórðungi sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Hann er drif­inn áfram af mikl­um vexti í út­flutn­ingi, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, og kröft­ugri einka­neyslu. Hlut­ur hins op­in­bera er að minnka í fjár­fest­ing­um og vöxt­ur sam­neyslu er hóf­leg­ur. Þrátt fyr­ir auk­in út­gjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu rík­is­fjár­mál­anna og hvika ekki frá því meg­in­mark­miði að lækka skuld­ir á næstu árum. Í ár hef­ur dregið hratt úr mikl­um halla­rekstri rík­is­sjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á fjár­hag heim­ila og fyr­ir­tækja. Efna­hags­bat­inn hef­ur leitt til mik­ill­ar tekju­aukn­ing­ar rík­is­sjóðs og þess að skulda­hlut­föll hins op­in­bera eru mun lægri en gert var ráð fyr­ir. Þessi efna­hags­bati er kröft­ug­ur og því hef­ur mynd­ast spenna í þjóðarbú­inu. Fjár­mál hins op­in­bera þurfa að róa í sömu átt og stefna Seðlabanka Íslands. Halli á rekstri rík­is­sjóðs verður því tæp­lega 3% af lands­fram­leiðslu. Útlit er fyr­ir að skulda­hlut­föll verði að sama skapi nær óbreytt frá samþykktri fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar, eða um 33% af VLF. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að afar brýnt er að rík­is­sjóður nái tök­um á þess­um halla á næstu árum. Ísland er í kjöraðstöðu til að sýna fram á sjálf­bær rík­is­fjár­mál vegna af­komu­bata og framtíðar­horf­ur eru því bjart­ar.

Gera má ráð fyr­ir að þró­un­in verði sú að ríki séu í aukn­um mæli að fást við vax­andi rík­is­út­gjöld, erfiðari bar­áttu við verðbólgu og að hinir alþjóðlegu fjár­mála­markaðir muni veita aðhald vegna þeirra þreng­inga sem eru á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Við eig­um að taka þessa at­b­urðarás al­var­lega, þar sem kröf­ur um trú­verðuga rík­is­fjár­mála­stefnu eru að aukast ásamt því að alþjóðaviðskipti eru að drag­ast sam­an. Smærri ríki þurfa því að vanda sig enn frek­ar. Horf­ur ís­lensks efna­hags eru bjart­ar, hag­vöxt­ur er mik­ill og bygg­ist á auk­inni verðmæta­sköp­un. Að sama skapi halda skuld­ir áfram að lækka og er skuld­astaða rík­is­sjóðs ein sú besta í Evr­ópu. Þrátt fyr­ir þessa stöðu ber okk­ur að vera ætíð á tán­um til þess að auka kaup­mátt og vel­ferð í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. desember 2022.

Categories
Greinar

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Deila grein

12/12/2022

Kastljós kvikmyndaheimsins á Íslandi

Kast­ljós kvik­mynda­heims­ins bein­ast nú að Íslandi þegar Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in (e. Europe­an Film Aw­ards) fara fram í Hörpu í kvöld. Það er mik­ill heiður fyr­ir Ísland að Reykja­vík hafi orðið fyr­ir val­inu sem vett­vang­ur verðlaun­anna en hátíðin er hald­in annað hvert ár í Berlín en þess á milli til skipt­is í öðrum borg­um Evr­ópu en ís­lenska ríkið og Reykja­vík­ur­borg halda hátíðina í sam­starfi við Evr­ópsku kvik­mynda­aka­demí­una.

Það að halda hátíð sem þessa hér á landi er enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar kvik­mynda­menn­ing­ar sem hef­ur eflst mjög á umliðnum árum. Miklu er til tjaldað við að halda hátíðina en um 1.200 gest­ir verða viðstadd­ir hana, þar af um 700 er­lend­ir gest­ir frá yfir 40 lönd­um auk yfir 100 blaðamanna og áhrifa­valda sem munu gera hátíðinni skil.

Á umliðnum árum hafa stór skref verið tek­in til þess að efla ís­lenska kvik­mynda­gerð. Fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefn­an fyr­ir Ísland, Kvik­mynda­stefna til árs­ins 2030 – List­grein á tíma­mót­um, var kynnt fyr­ir tveim­ur árum sem markaði ákveðin vatna­skil. Í henni eru út­l­istuð ýmis mark­mið og fjölþætt­ar aðgerðir til þess að efla um­gjörð kvik­mynda­gerðar hér á landi, til að mynda í mennta­mál­um, betri sam­keppn­is­stöðu, auk­inni sjálf­bærni og mark­vissu alþjóðlegu kynn­ing­ar­starfi.

Mik­ill metnaður hef­ur verið lagður í fram­fylgd stefn­unn­ar á skömm­um tíma. Þannig fékk Kvik­mynda­sjóður aukainn­spýt­ingu upp á tæp­an millj­arð króna vegna heims­far­ald­urs­ins. Í gær var til­kynnt um áætlaða viðbótar­fjármuni á næsta ári til þess að koma til móts við breyt­ing­ar í rík­is­fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar. End­ur­greiðslu­hlut­fall í kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur verið hækkað í vor úr 25% í 35% en fram­lag til end­ur­greiðslna í kvik­mynda­gerð á næsta ári er áætlað upp á 5,7 millj­arða króna, sem er veru­leg hækk­un. Fjár­mun­ir til kvik­mynda­mennt­un­ar á fram­halds­skóla­stigi voru aukn­ir og langþráðu kvik­mynda­námi á há­skóla­stigi komið á lagg­irn­ar svo dæmi séu tek­in.

Allt þetta skipt­ir máli fyr­ir þann öfl­uga hóp fólks sem hef­ur helgað sig ís­lenskri kvik­mynda­gerð, en án hans væri kvik­myndaiðnaður­inn fá­tæk­leg­ur hér á landi. Íslensk kvik­mynda­menn­ing er orðin samof­in þjóðarsál­inni og menn­ingu lands­ins. Sá ríki vilji stjórn­valda til þess að sækja um að halda Evr­ópsku kvik­mynda­verðlaun­in hér á landi var meðal ann­ars með of­an­greint í huga, að til­einka hátíðina gras­rót­inni í ís­lenskri kvik­mynda­gerð og und­ir­strika það, með veg­leg­um kast­ljós­um, hversu framar­lega Ísland stend­ur í heimi kvik­mynd­anna. Ég óska öll­um til ham­ingju með hátíð dags­ins, sem verður landi, þjóð og menn­ingu til sóma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. desember 2022.