Categories
Greinar

Áfram gakk!

Deila grein

19/09/2022

Áfram gakk!

Í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er lögð áhersla á að skapa menn­ing­ar­starfi, viðskipta­lífi og ferðaþjón­ustu um­hverfi sem stuðlar að vel­sæld og verðmæta­sköp­un fyr­ir sam­fé­lagið. Það eru mörg sókn­ar­færi í sam­legð þess­ara þriggja stoða en alls er fram­lag þeirra um 40% til lands­fram­leiðslu. Tugþúsund­ir starfa við grein­arn­ar sem flétt­ast sam­an með ýmsu móti en ekki síst auka aðdrátt­ar­afl Íslands og auðga sam­fé­lagið okk­ar. Við vilj­um há­marka þau áhrif á sama tíma og við stönd­um vörð um sér­stöðu hverr­ar grein­ar. Virk sam­keppni, traust­ur fjár­mála­markaður og mark­viss neyt­enda­vernd er for­senda heil­brigðs at­vinnu­lífs og styður við sam­keppn­is­hæfni Íslands. Í fjár­lög­um fyr­ir árið 2023 eru áætlaðir rúm­ir 28,8 millj­arðar til mál­efna­sviða ráðuneyt­is­ins og er það aukn­ing um 6% milli ára. Þá hafa fram­lög­in hækkað um tæpa 10 millj­arða frá ár­inu 2017.

Menn­ing­ar­sókn og ís­lensk­an í for­grunni

Á síðasta kjör­tíma­bili var lagt af stað í þá veg­ferð að stór­efla menn­ingu og list­ir. Á síðustu árum hafa fram­lög til mála­flokks­ins auk­ist veru­lega eða úr 10,7 millj­örðum árið 2017 í 17,7 millj­arða með þessu fjár­laga­frum­varpi. Unnið hef­ur verið að stefnu­mót­un til framtíðar á sviðum skap­andi greina í góðri sam­vinnu við gras­rót­ina. Og við erum hvergi nærri hætt.

Meðal áherslu­verk­efna kom­andi árs er stofn­un tón­list­armiðstöðvar ásamt gerð tón­list­ar­stefnu, hönn­un­ar­stefnu, mynd­list­ar­stefnu og efl­ingu sviðslista. Áfram er unnið eft­ir fram­sæk­inni kvik­mynda­stefnu til 2030. Ný­lega voru end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar hækkaðar úr 25% í 35% fyr­ir stærri verk­efni og fyr­ir­hugaðar eru breyt­ing­ar á lög­um um kvik­mynda­sjóð. Rúm­um millj­arði hef­ur þegar verið varið í nýja kvik­mynda­stefnu á síðustu tveim­ur árum. Þá er lögð áhersla á varðveislu, aðgengi og miðlun menn­ing­ar­arfs þjóðar­inn­ar með því að styðja við höfuðsöfn­in okk­ar og blóm­legt safn­astarf um allt land.

Það er gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir okk­ur sem þjóð að hlúa vel að tungu­mál­inu okk­ar en ekki síður tákn­mál­inu. Mark­miðið er að tryggja ís­lensk­unni sess í sta­f­ræn­um heimi með áfram­hald­andi fjár­fest­ingu í mál­tækni.

Ferðaþjón­ust­an drif­kraft­ur verðmæta­sköp­un­ar

Þeir fjár­mun­ir sem voru sett­ir í stuðningsaðgerðir stjórn­valda í far­aldr­in­um lögðu grunn að kröft­ugri viðspyrnu ferðaþjón­ust­unn­ar. Ferðaþjón­ust­an hef­ur að nýju náð að verða burðarás í gjald­eyr­is­sköp­un þjóðar­inn­ar, stuðlað að stöðugra gengi krón­unn­ar og aukn­um lífs­gæðum fólks­ins í land­inu. Okk­ar hlut­verk er að tryggja að svo verði áfram. Helstu áskor­an­ir og tæki­færi á næsta ári fel­ast í gerð aðgerðaáætl­un­ar á grunni framtíðar­sýn­ar ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030 með sjálf­bærni að leiðarljósi og í góðri sam­vinnu við grein­ina og heima­fólk.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. september 2022.

Categories
Greinar

Innlend orka er gulls ígildi

Deila grein

09/09/2022

Innlend orka er gulls ígildi

Há verðbólga er ein helsta áskor­un flestra hag­kerfa heims um þess­ar mund­ir. Ástæður henn­ar er einna helst að finna í nauðsyn­leg­um efna­hagsaðgerðum vegna Covid-heims­far­ald­urs­ins, óafsak­an­legri inn­rás Rúss­lands inn í Úkraínu og sumpart í hinni alþjóðlegu pen­inga­stefnu frá 2008. Verðbólga víða í Evr­ópu birt­ist ekki síst í him­in­háu orku­verði sem er farið að sliga fjár­hag fjöl­skyldna og fyr­ir­tækja í álf­unni. Stjórn­völd í ýms­um lönd­um hafa þegar til­kynnt um aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þess­ara hækk­ana, til dæm­is með lánalín­um, bein­greiðslum til heim­ila og hval­reka­skött­um á orku­fyr­ir­tæki til þess að fjár­magna mót­vægisaðgerðir.

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af alþjóðlegri verðbólgu en spár hér­lend­is gera áfram ráð fyr­ir hárri verðbólgu, þrátt fyr­ir að hún hafi minnkað ör­lítið í síðasta mánuði er hún mæld­ist 9,7%. Stór stýri­breyta í þróun henn­ar hér­lend­is er mik­il hækk­un á hús­næðis­verði ásamt mik­illi einka­neyslu. Það er göm­ul saga en ekki ný að lang­tíma­áhrif verðbólgu eru slæm fyr­ir sam­fé­lög. Þau, sem hafa minnst milli hand­anna, eru ber­skjölduðust fyr­ir áhrif­um henn­ar, sem og fjöl­skyld­ur sem hafa ný­lega fjár­fest í eig­in hús­næði og sjá hús­næðislán sín hækka veru­lega í kjöl­far vaxta­hækk­ana. Það er mik­il­vægt að styðja við þessa hópa.

Í sögu­legu sam­hengi hef­ur verðbólga átt sinn þátt í heims­sögu­leg­um at­b­urðum. Þannig átti hækk­andi verð á hveiti og korni til að mynda sinn þátt í falli komm­ún­ism­ans í Sov­ét­ríkj­un­um 1989. Fræðimenn hafa rýnt í sam­hengið á milli hærra mat­væla­verðs og óstöðug­leika í ýms­um ríkj­um. Þannig sýndi til dæm­is hag­fræðing­ur­inn Marc Bell­emare, pró­fess­or við Há­skól­ann í Minnesota, fram á sterk tengsl milli ófriðar og mat­væla­verðs í hinum ýmsu lönd­um á ár­un­um 1990-2011.

Ísland er að mörgu leyti í sterkri stöðu til þess að tak­ast á við háa verðbólgu. Und­ir­liggj­andi staða þjóðarbús­ins er sterk. Stjórn­völd og Seðlabank­inn róa í sömu átt og landið er ríkt af auðlind­um. Ísland býr við mikið sjálf­stæði í orku­mál­um miðað við ýms­ar aðrar þjóðir og fram­leiðir mikla end­ur­nýj­an­lega orku fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki. Íslensk heim­ili greiða lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska. Slíkt hjálp­ar óneit­an­lega við að halda aft­ur af verðbólgu. Þá bygg­ist efna­hags­lífið á öfl­ug­um stoðum eins og gjöf­ul­um fiski­miðum, heil­næm­um land­búnaði og öfl­ugri ferðaþjón­ustu. Allt eru þetta þætt­ir sem styðja við að ná verðbólg­unni niður til lengri og skemmri tíma. Það verk­efni er stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar þegar að fram í sæk­ir enda ógn­ar há verðbólga vel­sæld, bæði beint og óbeint, og dreg­ur þannig úr sam­stöðu í sam­fé­lag­inu. Mik­il­vægt er að stjórn­völd standi áfram vakt­ina og verði til­bú­in að grípa inn í, eft­ir því sem þurfa þykir, til að verja þann efna­hags­lega ár­ang­ur sem náðst hef­ur á und­an­förn­um árum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 8. sept. 2022.

Categories
Greinar

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Deila grein

06/09/2022

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Flest hagkerfi heims eru að kljást við of háa verðbólgu um þessar mundir. Meginorsakir hennar má rekja til nauðsynlegra efnahagsaðgerða vegna Covid-19, innrásar Rússlands í Úkraínu og að einhverju leyti hinnar alþjóðlegu peningastefnu frá 2008. Orkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum og hafa ýmis ríki í álfunni gripið til neyðaraðgerða til að létta undir með orkukerfum. Spár hérlendis gera áfram ráð fyrir hárri verðbólgu, þrátt fyrir að hún hafi minnkað örlítið í síðasta mánuði er hún mældist 9,7%. Mikil hækkun á húsnæðisverði hefur drifið verðbólguna áfram ásamt einkaneyslu. Langtímaafleiðingar hárrar verðbólgu eru afar slæmar fyrir samfélög og það er gamall sannleikur að verðbólga hittir einkum fyrir þá sem minnst hafa. Ljóst er að hópurinn sem fer verst út úr þessum verðbólguhremmingum eru heimilin sem nýverið hafa komið inn á húsnæðismarkaðinn og sjá lánin hækka. Afar brýnt er að lánveitendur og stjórnvöld sinni þessum hóp.

Staða heimsmála er jafnframt viðkvæm vegna hárrar alþjóðlegrar verðbólgu. Hækkandi verð á hveiti og öðru korni átti sinn þátt í falli kommúnismans í Sovétríkjunum 1989. Hagfræðingurinn Marc Bellemare við Minnesota-háskóla sýndi fram á sterk tengsl á milli matvælaverðs og ófriðar í mörgum löndum á árunum 1990 til 2011. Verðbólga olli t.a.m. stjórnarskiptum í Brasilíu, Tyrklandi og Rússlandi í lok 10. áratugarins.

Staða Íslands er að mörgu leyti góð til að fást við verðbólguógnina, þar sem auðlindir okkar eru miklar. Orka í þágu heimilanna er ódýr en hún lýtur ekki sömu reglum verðlagningar og á meginlandi Evrópu, fiskimið okkar eru gjöful og óendanlegir möguleikar eru í landbúnaði ásamt sterkri ferðaþjónustu og vaxandi hugvitsdrifnu hagkerfi. Íslenska hagkerfið hefur alla möguleika á að ná verðbólgunni niður. Það er kappsmál enda ógnar hækkandi verðbólga velsæld með beinum og óbeinum hætti og dregur úr samfélagslegri samstöðu. Því er afar mikilvægt að greina hvernig áhrif verðbólgunnar koma við mismunandi hópa samfélagsins og grípa til viðeigandi aðgerða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta-, og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 6. sept. 2022.

Categories
Greinar

Norðurslóðir á krossgötum

Deila grein

30/08/2022

Norðurslóðir á krossgötum

Mál­efni norður­slóða skipta Ísland höfuðmáli en mál­efni svæðis­ins hafa á und­an­förn­um árum notið sí­vax­andi at­hygli ríkja heims­ins. Ísland hef­ur gert sig gild­andi í norður­slóðamál­efn­um. Þannig veitti Ísland Norður­skauts­ráðinu for­ystu á ár­un­um 2019-2021 og Hring­borð norður­slóða (e. Arctic Circle) hef­ur und­ir for­ystu fyrr­ver­andi for­seta Íslands, herra Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fest sig í sessi sem alþjóðleg­ur vett­vang­ur norður­slóðamála með þátt­töku fjöl­margra ríkja. Um liðna helgi tók ég þátt í sér­stöku Græn­landsþingi Hring­borðs norður­slóða þar sem um 400 þátt­tak­end­ur frá 25 lönd­um komu sam­an til þess að ræða lofts­lags­vána og mál­efni norður­slóða.

Alls voru um 50 mál­stof­ur á þing­inu þar sem meðal ann­ars var fjallað um viðskipti, ferðaþjón­ustu, námu­vinnslu, mat­væla­vinnslu, vöru­flutn­inga og framtíðar­sýn út frá lofts­lags­breyt­ing­um og græn­um lausn­um. Í ræðu minni lagði ég meðal ann­ars áherslu á mik­il­vægi þess að sam­tím­inn lærði af þeim mis­tök­um sem nor­rænt fólk gerði á Græn­landi á 13.-14. öld­inni þegar gengið var of nærri viðkvæmu um­hverfi með of­beit og of­nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, sem meðal ann­ars er talið hafa valdið því á end­an­um að nor­rænt fólk gafst upp á Græn­lands­bú­set­unni.

Á norður­slóðum búa alls um fjór­ar millj­ón­ir manna í átta ríkj­um en um tí­undi hluti þeirra eru frum­byggj­ar. Flest­ir lifa í nokkuð miklu ná­vígi við nátt­úr­una líkt og við Íslend­ing­ar þekkj­um vel af eig­in raun. Sam­fé­lög­in hafa að miklu leyti byggt af­komu sína á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, allt frá sjáv­ar­fangi og fugl­um til jarðefna­eldsneyt­is og málma. Þær um­hverf­is­breyt­ing­ar sem eiga sér stað hafa í för með sér viðamikl­ar áskor­an­ir fyr­ir sam­fé­lög á norður­slóðum, þar sem sum sam­fé­lög hafa minni viðnámsþrótt en önn­ur til þess að tak­ast á við þær.

Það er mik­il­vægt að spornað sé við nei­kvæðum áhrif­um þess­ara breyt­inga en að sama skapi tryggt að þau tæki­færi sem geta fal­ist í þeim verði nýtt með sjálf­bær­um hætti þar sem huga þarf að um­hverf­is- og ör­ygg­isþátt­um sem og fé­lags­leg­um og efna­hags­leg­um þátt­um. Sjálf­bærni verður að vera meg­in­stef í öll­um aðgerðum á norður­slóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylg­ir hlýn­un jarðar og af­leiðing­um lofts­lags­breyt­inga – og þar gegn­ir auk­in sam­vinna og sam­starf ríkja á norður­slóðum lyk­il­hlut­verki. Fjár­fest­ing­ar og viðskipti eru þar mik­il­væg verk­færi til þess að tak­ast á við áhrif lofts­lags­breyt­inga og þar get­ur Ísland beitt sér með góðum ár­angri og miðlað af þekk­ingu sinni og reynslu til annarra ríkja á svæðinu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 30. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

Deila grein

29/08/2022

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

„Ekki þarf nein­um blöðum um það að fletta, að frá lands­ins hálfu eru skil­yrði svo góð, sem hugs­ast get­ur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju ein­asta sumri. Hér er ein­kenni­leg og marg­háttuð nátt­úru­feg­urð, sem flest­ir hafa heill­ast af er hingað hafa komið. Íslend­ing­ar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamanna­land eða ekki.“Þessi brýn­ing var rituð í leiðara Morg­un­blaðsins 19. ág­úst árið 1920 eða fyr­ir rúm­um 100 árum.

Staðreynd­in í dag er sú að ferðaþjón­ust­an er einn af burðarás­um í ís­lensku efna­hags­lífi.

Staða og horf­ur ferðaþjón­ustu

Hag­vaxt­ar­horf­ur á Íslandi hafa verið að styrkj­ast og þjóðhags­spá­in ger­ir ráð fyr­ir 5,9% hag­vexti í ár. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heim­sótt landið og þá voru kom­ur þeirra í júlí­mánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyr­ir kröft­ug­um bata ferðaþjón­ust­unn­ar, út­flutn­ings­tekj­ur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi ís­lensku krón­unn­ar. Bók­un­arstaða er al­mennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sum­ar. Það eru vissu­lega áskor­an­ir í haust og vet­ur sem snúa m.a. að verðlags­hækk­un­um og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslönd­um okk­ar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.

Ytri staða þjóðarbús­ins sterk

Sjálf­bær ytri staða þjóðarbúa skipt­ir höfuðmáli í hag­stjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskipta­jöfnuðinn í jafn­vægi til lengri tíma. Lyk­il­breyt­ur eru okk­ar hag­kerfi hag­stæðar um þessi miss­eri. Hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu, gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% og á sama tíma eru er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs inn­an við 5%. Þetta er gjör­breytt staða frá því sem áður var. Gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins hef­ur vaxið veru­lega í kjöl­far þess af­gangs sem hef­ur verið á viðskipta­jöfnuðinum í kjöl­far vaxt­ar ferðaþjón­ustu ásamt því að aðrar lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjald­eyr­is­forðinn var á bil­inu 5-10% lengst af og oft skuld­sett­ur.

Árið 2012 fór Seðlabank­inn að kaupa gjald­eyri til að byggja upp óskuld­sett­an gjald­eyr­is­forða til að bæta viðnámsþrótt hag­kerf­is­ins. Gjald­eyr­is­forðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuld­sett­ur með neyðarlán­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Norður­lönd­un­um í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins. Alls ekki ákjós­an­leg staða. Viðmiðin sem Seðlabank­inn not­ar við ákvörðun á lág­marks­stærð forða byggj­ast á sögu­leg­um for­send­um, sem taka meðal ann­ars mið af því að skapa trú­verðug­leika um pen­inga­stefnu og til að mæta ör­ygg­is­sjón­ar­miðum í ut­an­rík­is­viðskipt­um og horfa til þátta er varða fjár­mála­stöðug­leika og láns­hæfi rík­is­sjóðs.

Straum­hvörf í ytri jöfnuði vegna út­flutn­ings á ferðaþjón­ustu

Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tíðum tæpt. Fyr­ir tíu árum áttu sér stað straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar var hag­fellt að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur. Stefna stjórn­valda er að um­gjörð hag­kerf­is­ins sé sem sterk­ust og stöðug til að Ísland sé sam­keppn­is­hæft um fólk og að það sé eft­ir­sókn­ar­verður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum.

Stefn­an og áskor­an­ir í ferðaþjón­ustu

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri og þýska flug­fé­lagið Condor mun hefja viku­legt flug frá Frankfurt til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða frá maí til októ­ber á næsta ári. Það eru ýms­ar áskor­an­ir sem at­vinnu­lífið og stjórn­völd þurfa að ráðast í í sam­ein­ingu til að styrkja innviði og um­gjörð grein­ar­inn­ar, meðal ann­ars mennt­un og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í þess­ari at­vinnu­grein.

Loka­orð leiðarans góða frá ár­inu 1920 eru eft­ir­far­andi: „Íslend­ing­ar þurfa einnig sjálf­ir að læra að meta bet­ur land sitt og þá feg­urð, sem það hef­ir að bjóða.“ Þarna hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar og hef­ur ásókn Íslend­inga í að ferðast um sitt eigið land auk­ist mikið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Deila grein

22/08/2022

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Í vik­unni voru drög að fyrstu op­in­beru stefn­unni á sviði tón­list­ar á Íslandi, ásamt frum­varps­drög­um um heild­ar­lög­gjöf um tónlist, sett í opið sam­ráð. Mik­il vinna hef­ur verið lögð í að kort­leggja um­hverfi tón­list­ar í land­inu und­an­far­in miss­eri og því virki­lega ánægju­legt að geta kynnt afrakst­ur þeirr­ar vinnu.

Með nýrri lög­gjöf og stefnu verður um­gjörð tón­list­ar styrkt veru­lega. Mark­mið lag­anna verður að efla tón­list­ar­líf um land allt, bæta starfs­um­hverfi tón­listar­fólks og styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar hér á landi. Með laga­setn­ing­unni verður sett­ur heildarrammi utan um aðkomu hins op­in­bera að tónlist og um­gjörð sett utan um rekst­ur og hlut­verk nýrr­ar Tón­list­armiðstöðvar, nýs Tón­list­ar­sjóðs og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands. Í lög­un­um er einnig ákvæði um nýtt tón­list­ar­ráð.

Lög­in byggj­ast á drög­um að tón­list­ar­stefnu sem er fyrsta op­in­bera stefn­an um mál­efni tón­list­ar á Íslandi. Stefn­an inni­held­ur framtíðar­sýn og mark­mið tón­list­ar til árs­ins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná til­sett­um mark­miðum. Aðgerðaáætl­un stefn­unn­ar verður í tveim­ur hlut­um. Fyrri hluti gild­ir fyr­ir árin 2023-2026 og síðar verður mótuð aðgerðaáætl­un fyr­ir árin 2027-2030. Sér­stök áhersla verður lögð á tón­list­ar­menn­ingu og -mennt­un, tónlist sem skap­andi at­vinnu­grein sem og út­flutn­ing á ís­lenskri tónlist.

Þá tek­ur ný Tón­list­armiðstöð við hlut­verk­um Útflutn­ings­skrif­stofu ís­lenskr­ar tón­list­ar (ÚTÓN) og Íslenskr­ar tón­verka­miðstöðvar og nýr Tón­list­ar­sjóður verður til með sam­ein­ingu nú­ver­andi Tón­list­ar­sjóðs, Hljóðrita­sjóðs og Útflutn­ings­sjóðs ís­lenskr­ar tón­list­ar. Þetta mun ein­falda sjóðafyr­ir­komu­lag tón­list­ar og auka skil­virkni og slag­kraft í stuðningi við ís­lenska tónlist.

Strax á næsta ári verða fjár­fram­lög til tón­list­ar auk­in um 150 m.kr. til að fram­fylgja nýrri stefnu og árið 2025 er stefnt að því að fram­lög til tón­list­ar verði 250 m.kr. hærri en þau eru í ár.

Of­an­greint er í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem fram kem­ur að ætl­un­in sé að tryggja und­ir­stöður ís­lensks menn­ing­ar- og list­a­lífs og skapa ný tæki­færi fyr­ir ís­lenska lista­menn. Aðgengi að menn­ingu er mik­il­væg­ur þátt­ur þess og máli skipt­ir að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið þátt í slíku starfi. Íslenskt tón­listar­fólk hef­ur tekið virk­an þátt í að móta dag­legt líf okk­ar með verk­um sín­um. Ég er stolt og þakk­lát fyr­ir fram­lag þeirra til ís­lenskr­ar menn­ing­ar og er sann­færð um að þau skref sem tek­in verða með nýrri stefnu og lög­um verði til þess að blása enn frek­ari vindi í segl ís­lenskr­ar tón­list­ar, stuðla að því að fleiri geti starfað við tónlist í fullu starfi og auðgað líf okk­ar enn frek­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Framtíðin ræðst af menntun

Deila grein

08/08/2022

Framtíðin ræðst af menntun

Ein mik­il­væg­asta fjár­fest­ing hvers sam­fé­lags er í mennt­un. Rann­sókn­ir sýna að með auk­inni mennt­un eykst ný­sköp­un og tækniþróun, sem leiðir til auk­inn­ar hlut­deild­ar í heimsviðskipt­um, meiri fram­leiðni og auk­ins gjald­eyr­is­forða! Frá iðnbylt­ing­unni hef­ur verðmæta­sköp­un fyrst og fremst verið drif­in áfram af mennt­un, ný­sköp­un, tækni­leg­um fram­förum og sann­gjörnu markaðshag­kerfi.

Því bár­ust ís­lensku sam­fé­lagi sér­stak­lega já­kvæðar frétt­ir í liðinni viku, um að brott­hvarf á fram­halds­skóla­stigi hafi ekki mælst minna og braut­skrán­ing­ar­hlut­fall ekki hærra í töl­um Hag­stof­unn­ar, sem ná aft­ur til ný­nema árs­ins 1995! Þannig höfðu nærri 62% þeirra tæp­lega 4.500 ný­nema sem hófu nám árið 2016 út­skrif­ast árið 2020. Rúm 18% voru enn í námi, án þess að hafa út­skrif­ast. 19,9% ný­nema hausts­ins 2016 hafa hætt námi á sama tíma­bili. Til sam­an­b­urðar nam þetta hlut­fall 29,6% árið 2007 hjá ný­nem­um hjá þeim sem hófu nám 2003. Auk­in­held­ur mæld­ist brott­hvarf á meðal inn­flytj­enda á fram­halds­skóla­stig­inu það minnsta frá því mæl­ing­ar hóf­ust, sem eru einnig virki­lega já­kvæðar frétt­ir, þótt enn sé tals­vert starf óunnið í þeim efn­um. Um 46% inn­flytj­enda sem hófu nám í dag­skóla á fram­halds­skóla­stigi haustið 2016 höfðu hætt námi án þess að út­skrif­ast fjór­um árum síðar.

Þetta er þróun í rétta átt sem ég gleðst mikið yfir, en bar­átt­an gegn brott­hvarfi var eitt af helstu áherslu­mál­um mín­um í tíð minni sem mennta­málaráðherra á síðasta kjör­tíma­bili. Með marg­háttuðum aðgerðum var þess­ari áskor­un mætt. Meðal ann­ars var 800 millj­ón­um króna for­gangsraðað í þágu nem­enda í brott­hvarfs­hættu. Framúrsk­ar­andi sam­starf við skóla­stjórn­end­ur, kenn­ara og nem­end­ur er stór breyta í þess­ari þróun. Þá var mark­visst unnið að því að auka aðgengi fram­halds­skóla­nem­enda að geðheil­brigðisþjón­ustu og fjár­fram­lög til fram­halds­skól­anna auk­in, þannig að fram­lög á hvern nem­anda höfðu aldrei verið jafn há.

Það skipt­ir máli að nem­end­ur finni sína fjöl og finni löng­un til þess að velja sér áhuga­vert nám við hæfi og klára það. Fjöl­breytni náms á fram­halds­skóla­stigi hef­ur auk­ist jafnt og þétt en yfir hundrað náms­braut­ir eru í boði við fram­halds­skóla lands­ins.

Á síðasta kjör­tíma­bili tókst einnig sér­lega vel til að snúa vörn í sókn fyr­ir verk-, iðn- og starfs­nám með aðgerðaáætl­un mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins, Sam­taka iðnaðar­ins og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Mark­mið áætl­un­ar­inn­ar er að auka áhuga ung­menna á starfs- og tækni­mennt­un og þar með fjölga ein­stak­ling­um með slíka mennt­un á vinnu­markaði. Í aðgerðaáætl­un­inni var meðal ann­ars lögð áhersla á að efla kennslu grunn­skóla­nema í verk-, tækni- og list­grein­um; jafna stöðu iðnmenntaðra í fram­halds­námi; ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms; bæta aðgengi á lands­byggðinni og styrkja náms- og starfs­ráðgjöf. Skemmst er frá því að segja að al­gjör aðsókn­ar­spreng­ing hef­ur orðið í námið og færri kom­ast að en vilja – sem nú er orðið eitt helsta viðfangs­efni fram­halds­skóla­stigs­ins. Það er af sem áður var, þegar vanda­málið var að ná í nægj­an­lega stóra nem­enda­hópa í námið.

Ánægðum nem­end­um vegn­ar bet­ur, sem styrk­ir sam­fé­lagið okk­ar til langs tíma og um leið sam­keppn­is­hæfni Íslands á alþjóðavísu. Mennt­un er mátt­ur!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 2. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Á­gætt skyggni á Ís­lands­miðum

Deila grein

08/08/2022

Á­gætt skyggni á Ís­lands­miðum

Það eru blik­ur á lofti í alþjóðahag­kerf­inu vegna verðbólguþrýstings og stríðsátaka. Ísland fer ekki varhluta af þessari stöðu og helsta viðfangsefni hagstjórnarinnar er að vinna bug á verðbólgunni og verja kaupmáttinn. Þrátt fyrir að óveðursský séu handan sjóndeildarhringsins, þá er engu að síður ágætt skyggni á Íslandsmiðum, þar sem nokkrar hagstærðir vinna með okkur. En lítum fyrst á stöðu og horfur alþjóðahagkerfisins:

Seðlabankar hækka vexti og hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lækkar

Seðlabankar heimsins hafa hækkað sína stýrivexti, líkt og sá íslenski en hér hafa vextir farið úr 0,75% í 4,75% í nokkrum skrefum frá maí 2021. Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti nýverið um 0,75% og standa þeir í um 2,5%. Á sama tíma hefur landsframleiðsla Bandaríkjanna dregist saman um 0,9% á öðrum ársfjórðungi ársins og er þetta annar ársfjórðungurinn þar sem mælist samdráttur. Þrátt fyrir það mælist atvinnuleysi í landinu aðeins 3,6% og því telur seðlabankastjórinn hagkerfið ekki komið í kreppu. Tiltrú þýska viðskiptalífsins á hagkerfinu þeirra hefur versnað talsvert vegna vaxandi ótta við verðbólgu og orkuskort. Þar sem framboð af orku og afhendingar hennar frá Rússlandi er ófyrirséð, skapar það mikla óvissu og dregur úr fjárfestingum og minnkar hagvöxt. Þetta getur leitt til alvarlegrar kreppu í Evrópu á næstu misserum. Ný hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom út í vikunni en þar var hagvaxtarspáin lækkuð. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að hagvöxturinn í ár verði 3,2 prósent og 2,9 prósent á næsta ári. Meginorsakirnar eru vaxandi verðbólga á heimsvísu og hægagangur í efnahagslífinu í Kína og Bandaríkjunum. Þó er vert að benda á að verð á hveiti hefur lækkað um nærri 40% frá hámarki sínu í maí. Olíuverð hefur einnig lækkað að undanförnu ásamt því að aðfangakeðjur eru að jafna sig.

Þróttur í íslenska hagkerfinu

Efnahagskerfið á Íslandi hefur tekið vel við sér eftir farsóttina. Drifkraftur hagkerfisins er góður og spár gera ráð fyrir miklum hagvexti í ár eða 5,1% og tæpum 3% árið 2023. Lausafjárstaða þjóðarbúsins er sterk og verulega hefur dregið úr atvinnuleysi. Ferðaþjónustan er mikilvægur þáttur í að drífa hagvöxtinn áfram en gert er ráð fyrir um 1,6 milljón ferðamanna heimsæki Ísland á þessu ári. Aðrar útflutningsgreinar hafa einnig dafnað vel eins og sjávarútvegur og stóriðja vegna mikilla verðhækkana á afurðum þessara atvinnugreina. Að sama skapi er einnig ánægjulegt að sjá að útflutningstekjur af hugverkaiðnaðnum hafa aukist eða farið úr því að nema tæpum 8% af gjaldeyristekjum í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mikilvæg og fjölgar stoðunum undir utanríkisviðskiptum landsins.

Kaupmáttur launa allra á Íslandi hækkaði á árinu 2021 og þær skattalegu aðgerðir sem hefur verið hrint í framkvæmd miða allar að því að draga úr skattbyrði hjá þeim sem lægstar tekjur hafa. Á Covid-tímanum jókst kaupmáttur um 4,4% að raunvirði og var það í samræmi við fyrirætlanir stjórnvalda að verja efnahag heimila og fyrirtækja við upphaf farsóttarinnar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tekist til. Atvinnuleysi mælist nú um 3,8% og skuldir heimilanna hafa lækkað. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an.

Þættir sem vinna með Íslandi

Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on). Sem stendur eru eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu. Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins erlendis. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021. Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna, hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni og hefur verið stöðugur. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri.

Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um. Nú þarf að draga úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni. Þannig að segja má að staðan sé nokkuð ásættanleg. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­na og ef all­ir leggjast á árarnar í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel. Hins vegar er það alveg ljóst í mínum huga að byrðarnar þurfa að dreifast jafnt í samfélaginu. Heimili landsins eru hornsteinn samfélagsins og því verður að vera í forgangi að verja þau.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. júlí 2022.

Categories
Greinar

Stærsta verk­efnið: Verð­bólga

Deila grein

08/08/2022

Stærsta verk­efnið: Verð­bólga

Óumflýjanlegar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19 tím­an­um sem snéru að aukn­um umsvifum hins opinbera og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjónustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur innrás Rúss­lands í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu. Verð á nauðsynlegum hrávörum, orku og matvöru hef­ur hækkað veru­lega og eru afleiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins. Þetta er staðan sem við glímum við.

Seðlabankar víða um heiminn hafa hækkað stýri­vexti sína með það fyrir augum að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 9,1% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%. Þá hefur verð á helíum hækkað um 135% á síðustu tveimur árum vegna erfiðleika í verksmiðjum í Rússlandi og Bandaríkjunum. Frumefnið er til að mynda mikilvægur þáttur í framleiðslu ljósleiðaraglers og skortur á því ógnar framþróun stafræna hagkerfisins.

Verðbólgan á evrusvæðinu mældist 8,6% í júní. Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,5% í gær í fyrsta sinn frá árinu 2011. Eftir hækkunina eru stýrivextir bankans komnir í 0%. Vísbendingar er þó um það á evrusvæðinu að snarpur samdráttur sé í vændum þar sem framleiðsla og nýjar pantanir drógust saman í fyrsta sinn eftir Covid-19. Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun. Verðbólg­an mæl­ist 9,9% en án hús­næðisliðar­ins er hún 7,5%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri.

Meg­in­verk­efni allra hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma verði búið að ná verðbólg­unni niður. Seðlabanki Íslands hefur hækkað stýrivexti í nokkrum skrefum frá maí 2021 eða úr 0,75% í 4,75%.

Íslensk stjórnvöld hafa þegar ráðist í mót­vægisaðgerðir sem felast í því að bæt­ur al­manna­trygginga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Farið verður í 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir hjá ríkissjóði til að draga úr verðbólguþrýst­ingi. Sam­keppnis­eftirlitið hóf upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum í apríl til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um samkeppnisbresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta- og þjón­ustu­gjalda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu.

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una til heilla fyrir allt samfélagið. Brýnt er að sjá hvernig þessar aðgerðir stjórnvalda koma til með að hafa áhrif. Ljóst er þó að lækki verðbólgan ekki nokkuð á næstu mánuðum, þá er aðkallandi að fara í frekari aðgerðir til að kveða verðbólgudrauginn í kútinn. Ávallt verða stjórnvöld að huga mest að þeim sem eru í viðkvæmri efnahagslegri stöðu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin byrtist fyrst á visir.is 25. júlí 2022.

Categories
Greinar

Áfram Ísland!

Deila grein

13/07/2022

Áfram Ísland!

Það er eft­ir­vænt­ing í sam­fé­lag­inu nú þegar stelp­urn­ar okk­ar spila sinn ann­an leik gegn Ítal­íu á Evr­ópu­meist­ara­móti kvenna í knatt­spyrnu á Englandi í dag. Sam­ein­ing­araflið og kraft­ur­inn sem fylg­ir stelp­un­um smit­ar út frá sér. Fjöldi ís­lenskra stuðnings­manna hef­ur gert sér ferð á móti til að styðja dyggi­lega við bakið á ís­lenska landsliðinu og fjöl­skyld­ur og vin­ir koma sam­an á Íslandi til þess að horfa á leik­inn og senda hlýja strauma út.

Vel­gengni ís­lensku landsliðanna í knatt­spyrnu hef­ur fyllt okk­ur stolti, gleði og til­hlökk­un. Árang­ur­inn blæs líka bar­áttu­anda og krafti í fjölda barna og ung­linga sem fylgj­ast spennt með sín­um fyr­ir­mynd­um. Vegna þessa er hlaupið hraðar, sparkað fast­ar og stefnt hærra. Íþrótta­fólkið okk­ar býr yfir metnaði, dugnaði og vinnu­semi. Það hef­ur sett sér mark­mið, keppt að þeim sama hvað dyn­ur á og haldið í gleðina yfir stór­um sem smá­um sigr­um.

Það að kom­ast á stór­mót sem þetta er ekki sjálfsagt. Að baki slík­um ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna stelpn­anna okk­ar og þeirra sem standa þeim næst. Þessi ár­ang­ur bygg­ist einnig á óeig­ingjarnri vinnu sam­fé­lags­ins í gegn­um tíðina. Ber þar fyrst að nefna baklandið, en það er fólkið sem legg­ur sitt af mörk­um með stuðningi sín­um, elju og ástríðu. Þetta eru fjöl­skyld­urn­ar, starfs­fólkið í íþrótta­hús­un­um, sjálf­boðaliðarn­ir og aðrir vel­unn­ar­ar. Þau eru að upp­skera ríku­lega þessa dag­ana. Annað sem breyt­ir höfuð máli er jafn aðgang­ur að íþrótta og tóm­stund­a­starfi á land­inu okk­ar. Það er okk­ar sem sam­fé­lags að tryggja að öll börn hafi jöfn tæki­færi til þess að ná langt í því sem þau vilja taka sér fyr­ir hend­ur.

Fram und­an eru spenn­andi og skemmti­leg­ir tím­ar og ég trúi því að æv­in­týrið á Englandi sé er rétt að byrja. Til þess að gera um­gjörð móts­ins enn glæsi­legri ákváðu ís­lensk stjórn­völd að blása til menn­ing­arkynn­inga í tengsl­um við leiki stelpn­anna á móti. Að þeim koma öfl­ug­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna sem koma fram fyr­ir hvern leik. Auk­in­held­ur hafa menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina sett á lagg­irn­ar lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem að stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna inná vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Það er gam­an að geta samþætt íþrótt­ir og menn­ingu með þess­um hætti til þess að auka hróður lands­ins og hvetja stelp­urn­ar okk­ar enn frek­ar til dáða. Sem ráðherra menn­ing­ar­mála sendi ég stelp­un­um okk­ar bar­áttu­kveðjur fyr­ir leik­inn í dag og óska öll­um lands­mönn­um gleðilegr­ar fót­bolta­hátíðar þar sem slag­orðið verður tví­mæla­laust: Áfram Ísland!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 13. júlí 2022.