Categories
Greinar

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Deila grein

09/06/2021

Prúðbúin ungmenni eru tímanna tákn

Prúðbúin ung­menni, með bros á vör, skjal í hendi og jafn­vel húfu á höfði, hafa und­an­farið sett svip sinn á borg og bæ. Tíma­mót unga fólks­ins eru sér­lega tákn­ræn í þetta skiptið, því skóla­slit og út­skrift­ir eru staðfest­ing á sigri and­ans yfir efn­inu. Staðfest­ing á sam­stöðu skóla­fólks, kenn­ara, skóla­stjórn­enda, nem­enda og kenn­ara í ein­hverri mestu sam­fé­lagskreppu síðari tíma. Á sama tíma ber­ast góðar frétt­ir af bólu­setn­ing­um, at­vinnu­stigið hækk­ar, íþrótta- og menn­ing­ar­líf er komið á skrið og ferðaþjón­ust­an lifn­ar við. Og þegar litið er um öxl rifjast upp vetr­arkveðja Páls Ólafs­son­ar, sem auðveld­lega má yfir færa á Covid-vet­ur­inn sem nú er að baki:

Margt er gott að muna þér

þó mér þú fynd­ist lang­ur.

Farðu vel, þú færðir mér

fögnuð bæði og ang­ur.

Fram und­an er sum­arið í allri sinni dýrð, tími hlýju, birtu og upp­skeru. Og það er óhætt að segja að á hinum póli­tíska vett­vangi séu tún­in græn og upp­sker­an góð. Verk­efna­listi rík­is­stjórn­ar­inn­ar er svo til tæmd­ur. Fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar­flokks­ins eru skipaðir kraft­miklu fólki, þar sem bland­ast sam­an í rétt­um hlut­föll­um fólk úr ólík­um átt­um. Reynslu­bolt­ar úr lands­mál­un­um, dug­mikl­ir sveit­ar­stjórn­ar­menn og ungt fólk með sterk­ar hug­sjón­ir. Við mun­um áfram vinna að fram­förum, berj­ast fyr­ir hags­mun­um fjöl­skyldna af öll­um stærðum og gerðum, og jafna tæki­færi barna til mennt­un­ar.

Barna­mál­in hafa svo sann­ar­lega verið okk­ur hug­leik­in á kjör­tíma­tíma­bil­inu. Barna­málaráðherra hef­ur lyft grett­i­staki og m.a. gert kerf­is­breyt­ing­ar svo hags­mun­ir barna séu í for­gangi, en ekki þarf­ir kerf­is­ins. Í skóla­mál­um hafa skýr­ar lín­ur verið markaðar, þar sem áhersl­an er lögð á ólík­ar þarf­ir barna og stuðning við þá sem þurfa á hon­um að halda. Við vilj­um sjá framúrsk­ar­andi mennta­kerfi og með nýrri mennta­stefnu höf­um við lagt veg­inn í átt að ár­angri.

Þessi vet­ur sem nú er liðinn minnti okk­ur hins veg­ar á að til að ná ár­angri þarf að berj­ast með kjafti og klóm. Við lögðum gríðarlega áherslu á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif­in á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Þessi vet­ur kenndi okk­ur að þegar all­ir leggj­ast á eitt, þá er mennta­kerfið okk­ar gríðarlega sterkt afl sem stend­ur vörð um hags­muni barn­anna á hverj­um ein­asta degi.

Það er því ekki að ástæðulausu að um mann fer gleðistraum­ur, þegar maður sér leik-, grunn-, fram­halds- og há­skóla­út­skrift­ar­mynd­ir á sam­fé­lags­miðlum. Stolt­ir for­eldr­ar og frels­inu fegn­ir ung­ling­ar. Ung­menni sem eiga framtíðina fyr­ir sér, horfa stolt í mynda­vél­ina. Eft­ir erfiðan vet­ur er þetta af­rek okk­ar allra – sam­fé­lags­ins alls – og því má aldrei gleyma.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2021.

Categories
Greinar

Börnin okkar og betra samfélag

Deila grein

31/05/2021

Börnin okkar og betra samfélag

Ekk­ert í heim­in­um er mik­il­væg­ara en börn­in okk­ar – vellíðan þeirra, ham­ingja og framtíðar­tæki­færi. Það er skylda stjórn­valda að gera allt hvað þau geta svo öll börn vaxi og dafni. Finni sig í skóla og tóm­stund­a­starfi, njóti jafnra tæki­færa óháð bak­grunni og fé­lags­leg­um aðstæðum. Við vilj­um að öll börn fái örvun við hæfi, hvatn­ingu og mennt­un sem legg­ur grunn­inn að framtíð þeirra. Stuðning í erfiðum aðstæðum og hjálp hvenær sem þau þurfa á henni að halda.

Það er leiðarljós Fram­sókn­ar­flokks­ins eins og verk­in sýna, bæði fyrr og síðar. Á þessu kjör­tíma­bili höf­um við breytt fé­lags­kerf­inu og lagað að hags­mun­um barna. Við höf­um eflt og ein­faldað þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur þeirra, lengt fæðing­ar­or­lof, ráðist í kerf­is­breyt­ing­ar í skóla­kerf­inu, stutt sér­stak­lega við fá­tæk börn og ráðist í mik­il­væg verk­efni til að styrkja stöðu barna af er­lend­um upp­runa. Ný­samþykkt mennta­stefna tek­ur fyrst og fremst mið af þörf­um barna og vinna er haf­in við breyt­ing­ar á sam­ræmdu náms­mati, þar sem hags­mun­ir stofn­ana munu víkja fyr­ir hags­mun­um barna. Í Covid var gríðarleg áhersla lögð á að halda skól­un­um opn­um, til að tryggja mennt­un barna og lág­marka áhrif heims­far­ald­urs á líf þeirra. Það tókst og sam­an­b­urður við önn­ur lönd sýn­ir glögg­lega að ár­ang­ur­inn er merki­leg­ur, því víða voru skól­ar lokaðir með ófyr­ir­séðum lang­tíma­áhrif­um á börn. Við höf­um sagt lestr­ar­vanda barna stríð á hend­ur og gripið til aðgerða til að efla lesskiln­ing. Útgáfa nýrra barna- og ung­linga­bóka hef­ur stór­auk­ist vegna póli­tískr­ar stefnu um stuðning við ís­lenska bóka­út­gáfu.

Það eru ekki nýj­ar frétt­ir að Fram­sókn­ar­flokkn­um sé um­hugað um börn og fjöl­skyld­ur lands­ins. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn inn­leiddi á sín­um tíma feðra­or­lof, rétt­ar­bót sem þótti frum­leg í fyrstu en öll­um þykir sjálf­sögð í dag. Ávinn­ing­ur barna og for­eldra af breyt­ing­unni er ómæld­ur og fjöl­skyldu­tengsl­in sterk­ari.

En við vilj­um gera enn bet­ur, fyr­ir börn úr öll­um átt­um. Búa svo um hnút­ana að öll börn fái jöfn tæki­færi og þjón­ustu við hæfi, til dæm­is sál­fræðiþjón­ustu sem nú er bæði af skorn­um skammti og kostnaðar­söm fyr­ir for­eldra. Slík þjón­usta á að vera eins og önn­ur heil­brigðisþjón­usta; aðgengi­leg fyr­ir alla enda brýnt að leysa úr vanda á fyrstu stig­um hans, en ekki bíða eft­ir því að barnið vaxi og vand­inn með.

Full­orðið fólk, bæði í fjöl­skyld­um og flokk­um, á að kenna börn­um á lífið. Vekja for­vitni þeirra og áhuga á heim­in­um, sjálf­um sér og öðrum. Hjálpa þeim að finna sína styrk­leika, tjá sig, leika sér og læra. Í því verk­efni ætl­ar Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn ekki að láta sitt eft­ir liggja og við vilj­um að Ísland verði barn­vænsta sam­fé­lag í heimi. Taktu þátt í því með okk­ur.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2021.

Categories
Greinar

Endurreisn hafin!

Deila grein

11/05/2021

Endurreisn hafin!

Grund­vall­ar­breyt­ing hef­ur orðið á viðhorf­um til starfs­mennt­un­ar á und­an­förn­um árum og áhug­inn á starfs­námi hef­ur auk­ist. Fag­stétt­ir sem glímdu við mikla mann­eklu horfa fram á breytt­an veru­leika og færniþarf­ir sam­fé­lags­ins eru bet­ur upp­fyllt­ar en áður. Í dag eru verk- og tækni­mennta­skól­ar meðal vin­sæl­ustu fram­halds­skóla lands­ins og laða í mikl­um mæli til sín hæfi­leika­fólk á öll­um aldri. Ég er því gríðarlega ánægð í hvert sinn sem við tök­um fleiri skref í átt­ina að bættu um­hverfi starfs- og iðnnema hér á landi.

Eitt slíkt skref verður tekið von bráðar á Alþingi Íslend­inga. Frum­varp mitt um breyt­ing­ar á inn­töku­skil­yrðum há­skóla er langt komið í meðför­um þings­ins. Þetta frum­varp er mikið rétt­læt­is­mál og fagnaðarefni fyr­ir allt mennta­kerfið, sér­stak­lega nem­end­ur. Mark­mið frum­varps­ins er að jafna mögu­leika fram­halds­skóla­nema sem ljúka prófi af þriðja hæfniþrepi sam­kvæmt aðal­nám­skrá fram­halds­skóla til frek­ara náms. Mik­il­vægt er að há­skól­arn­ir móti skýr og gegn­sæ viðmið fyr­ir nám, sem tek­ur mið af hæfni, færni og þekk­ingu nem­enda. Slík viðmið eru jafn­framt til þess fall­in að vera leiðbein­andi fyr­ir fram­halds­skól­ana við skipu­lag og fram­setn­ingu náms­brauta, ásamt því að nem­end­ur eru bet­ur upp­lýst­ir um inn­töku­skil­yrði í há­skól­um. Frum­varpið fel­ur því í sér aukið jafn­ræði til náms á há­skóla­stigi.

Frum­varpið er liður í aðgerðaáætl­un til að efla starfs- og tækni­mennt­un í land­inu sem unnið er að í sam­starfi við fjölda hagaðila. Í mín­um huga er end­ur­reisn iðnnáms haf­in hér á landi. Þrennt kem­ur til.

Í fyrsta lagi, aukið jafn­ræði á milli bók­náms og starfs­náms eins og fram kem­ur í þessu frum­varpi. Í öðru lagi eru breyt­ing­ar á vinnustaðanámi, sem styrk­ir það veru­lega og eyk­ur fyr­ir­sjá­an­leika. Í þriðja lagi hafa fram­lög til fram­halds­skóla­stigs­ins stór­auk­ist – tækja­kost­ur end­ur­nýjaður og svo er búið að tryggja fjár­mögn­un í ný­bygg­ingu við Fjöl­brauta­skól­ann í Breiðholti fyr­ir starfs- og list­nám – einnig er vinna haf­in við nýj­an Tækni­skóla.

Íslenskt iðnnám stend­ur mjög vel í sam­an­b­urði við er­lent, kenn­ar­ar vel menntaðir, þeir búa að fjöl­breyttri reynslu og náms­braut­irn­ar metnaðarfull­ar. Við erum því vel í stakk búin til að taka á móti gríðarleg­um fjölda nem­enda á næstu árum. Aðsókn hef­ur auk­ist mikið á síðustu árum og fyrstu vís­bend­ing­ar um inn­rit­un í fram­halds­skól­anna fyr­ir næsta skóla­ár gefa til kynna aðsókn­ar­met í verk­nám.

Það er mitt hjart­ans mál að við efl­um iðn- og starfs­mennt­un í land­inu og til þess þurf­um við góða aðstöðu og skýra sýn til framtíðar. End­ur­reisn iðnnáms hér á landi er sam­vinnu­verk­efni fjöl­margra. Ég þakka öll­um þeim sem leggja mál­inu lið!

Við erum klár­lega á réttri leið!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2021.

Categories
Greinar

Gleðilegt sumar!

Deila grein

22/04/2021

Gleðilegt sumar!

Fyr­ir 50 árum stóð mik­ill mann­fjöldi á miðbakk­an­um í Reykja­vík. Sól­in skein og eft­ir­vænt­ing­in í loft­inu var áþreif­an­leg. Lúðrasveit Reykja­vík­ur lék á als oddi, og tón­list­in gladdi hvers manns hjarta enn meir. Skát­ar og lög­regluþjón­ar stóðu heiðursvörð og lands­menn í sínu fín­asta pússi. Varðskipið Ægir fylgdi danska varðskip­inu Vædd­eren til hafn­ar. Hand­rit­in voru kom­in!

Áhugi þjóðar­inn­ar kom eng­um á óvart, enda farm­ur­inn í Vædd­eren ómet­an­leg­ur; Flat­eyj­ar­bók, feg­urst og glæsi­leg­ust allra bóka, og Kon­ungs­bók Eddu­kvæða sem er fræg­ust fyr­ir inni­hald sitt, frek­ar en um­gjörðina.

Und­ir lok 16. ald­ar upp­götvuðu fræðimenn í Dan­mörku og Svíþjóð að á Íslandi væri að finna hand­rit að forn­um sög­um sem vörðuðu fortíð land­anna. Áhugi þeirra var mik­ill og smám sam­an komust frændþjóðir okk­ar yfir fjölda dýr­gripa. Er­ind­rek­ar þeirra fluttu suma úr landi, en krúnu­djásn­in – Flat­eyj­ar­bók og Kon­ungs­bók eddu­kvæða – færði Brynj­ólf­ur bisk­up Sveins­son Dana­kon­ungi að gjöf í þeirri von að rit­smíðarn­ar yrðu þýdd­ar og gefn­ar út. Sú varð ekki raun­in fyrr en löngu síðar en það má halda því fram, að gjöf­in hafi orðið hand­rit­un­um til bjarg­ar enda aðstæður til varðveislu ekki góðar á þeim tíma hér­lend­is.

Það var mik­ill áfangi þegar hand­rit­in komu heim, og 21. apríl 1971 er einn af mik­il­væg­ustu dög­un­um í okk­ar menn­ing­ar­sögu.

Í dag stönd­um við aft­ur á tíma­mót­um. Við lögðum horn­stein í Hús ís­lensk­unn­ar og kynnt­um sam­eig­in­lega nefnd Íslands og Dan­merk­ur í gær. Nefnd­in fær það hlut­verk að semja um nán­ara hand­rita­sam­starf Dana og Íslend­inga. Mark­miðið er að auka veg þessa fjár­sjóðs sem þjóðunum tveim­ur er treyst fyr­ir, efla rann­sókn­ir á hon­um og bæta miðlun menn­ing­ar­arfs­ins.

Þótt margt hafi breyst frá því eddu­kvæðin voru rituð á inn­takið enn brýnt er­indi við okk­ur. Mik­il­vægi vinátt­unn­ar, heiðarleika og trausts er vand­lega rammað inn í Há­va­mál og Völu­spá birt­ir í skáld­leg­um leift­ur­sýn­um heims­mynd og heims­sögu hinn­ar fornu trú­ar, sem í dag er inn­blást­ur lista­manna um all­an heim – rit­höf­unda, kvik­mynda­gerðarmanna og tölvu­leikja­fram­leiðenda.

Skila­boð eddu­kvæðanna eru heim­ild sem á brýnt er­indi við börn og ung­linga, upp­spretta hug­mynda og ímynd­un­ar – eig­in­leika sem hafa lík­lega aldrei verið mik­il­væg­ari en nú. Framtíðar­hag­kerfi munu ráðast að miklu leyti af þess­um þátt­um og það er stór­kost­legt að menn­ing­ar­arf­ur þjóðar­inn­ar rími eins vel og raun ber vitni við framtíðina.

Í dag er sum­ar­dag­ur­inn fyrsti. Við skul­um njóta þess að ís­lenska sum­arið er fram und­an. Hús ís­lensk­unn­ar rís og ég er vongóð um að já­kvæð niðurstaða komi út úr dansk/​ís­lensku sam­starfs­nefnd­inni. Við sjá­um fyr­ir end­ann á bar­átt­unni við far­ald­ur­inn, bólu­setn­ing­ar ganga vel og sam­an klár­um við þetta á loka­sprett­in­um.

Gleðilegt sum­ar!

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 22. apríl 2021.

Categories
Greinar

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Deila grein

15/04/2021

Nám verður raunhæfur kostur fyrir alla

Þau ríki sem ætla sér stóra sigra í sam­keppni þjóðanna á kom­andi árum þurfa að tryggja góða mennt­un. Mennt­un legg­ur grunn að hag­sæld og vel­ferð ein­stak­linga og jafnt aðgengi að námi er ein af stoðum vel­ferðarsam­fé­lags­ins. Þess vegna er stjórn­völd­um skylt að skapa stuðnings­kerfi sem hjálp­ar fólki að sækja sér mennt­un – kerfi sem er gagn­sætt, hvetj­andi og sann­gjarnt. Kerfi sem trygg­ir að náms­menn geti fram­fleytt sér og sín­um á náms­tím­an­um, án þess að stefna fjöl­skyldu-, fé­lags­lífi, heils­unni eða náms­ár­angr­in­um í hættu!

Á síðasta ári vannst mik­ill áfanga­sig­ur, þegar ný lög um mennta­sjóð náms­manna voru samþykkt. Mennta­sjóður gjör­breyt­ir stöðu náms­manna, betri fjár­hags­stöðu við náms­lok og lægri end­ur­greiðslur lána. Höfuðstóll náms­lána lækk­ar nú um 30% við náms­lok á rétt­um tíma og beinn stuðning­ur er nú veitt­ur til fram­færslu barna, en ekki lán eins og áður.

Bar­átt­unni fyr­ir náms­menn er þó ekki lokið, því enn á eft­ir að breyta fram­færslu­viðmiðum fyr­ir náms­menn. Þau viðmið liggja til grund­vall­ar lán­veit­ing­um og eiga að duga náms­mönn­um til að fram­fleyta sér; kaupa klæði og mat, greiða fyr­ir hús­næði og aðrar grunnþarf­ir. Fram­færslu­viðmið náms­manna eru hins veg­ar lægri en önn­ur neyslu­viðmið, hvort sem horft er til at­vinnu­leys­is­bóta, neyslu­viðmiða fé­lags­málaráðuneyt­is­ins eða þeirra sem umboðsmaður skuld­ara miðar við. Sam­kvæmt sam­eig­in­legri könn­un Maskínu, ráðuneyt­is­ins og LÍS vinna um 64% náms­manna með námi. Fyr­ir marga náms­menn dug­ar því grunn­fram­færsla ekki til að ná end­um sam­an og ein­hverj­ir þurfa ein­fald­lega að loka skóla­tösk­unni í eitt skipti fyr­ir öll.

Rík­is­stjórn­in er meðvituð um þessa mik­il­vægu áskor­un og ný­verið lagði ég til að grunn­fram­færsla mennta­sjóðs yrði hækkuð. Til­lög­unni var vel tekið og var hópi ráðuneyt­is­stjóra falið að út­færa til­lög­una nán­ar.

Sum­arið fram und­an mun lit­ast af heims­far­aldr­in­um, þar sem at­vinnu­tæki­færi verða færri en í venju­legu ár­ferði. Stjórn­völd hafa út­fært ýms­ar sum­araðgerðir fyr­ir náms­menn, sem miða að því að skapa sum­arstörf eða náms­tæki­færi fyr­ir fram­halds­skóla- og há­skóla­nema. Við byggj­um m.a. á reynsl­unni frá síðasta sumri þegar 5.600 manns stunduðu sum­ar­nám í fram­halds- og há­skól­um og nú verður 650 millj­ón­um varið til að tryggja fjöl­breytt náms­fram­boð; stutt­ar og hag­nýt­ar náms­leiðir, sér­sniðna verk­lega kynn­ingaráfanga og ís­lensku­áfanga fyr­ir nem­end­ur með annað móður­mál en ís­lensku. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna mun styrkja 351 nem­anda til sum­ar­vinnu við rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efni. Þá er ótal­in 2,4 millj­arða fjár­veit­ing til að skapa 2.500 sum­arstörf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri.

Stjórn­völd vilja virkja krafta náms­manna, skapa tæki­færi til náms og virðis­auk­andi at­vinnu fyr­ir ungt fólk. Það er hag­ur okk­ar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. apríl 2021.

Categories
Greinar

Góður kennari skiptir sköpum!

Deila grein

06/04/2021

Góður kennari skiptir sköpum!

Oft og tíðum eru fjöl­mörg mál sem bíða úr­lausnar mennta- og menningar­mála­ráð­herra, enda sinnir ráðu­neytið mikil­vægum mála­flokkum. Í störfum mínum sem ráð­herra legg ég ætíð á­herslu á stóru sam­fé­lags­myndina. Ég velti því fyrir mér hvernig sam­fé­lag við viljum sem þjóð og hvernig fram­tíð við óskum okkur.

Stóra myndin er sú að við erum sam­fé­lag sem leggur sig fram við að veita fram­úr­skarandi menntun. Rann­sóknir sýna okkur t.d. að góður náms­orða­forði og hug­taka­skilningur, á­lyktunar­hæfni, á­nægja af lestri og fjöl­breytni les­efnis vega mjög þungt í því að nem­endur nái tökum á náms­efni. Við vitum það einnig að góður kennari skiptir sköpum, og því tel ég kennara sinna einu mikil­vægasta starfinu í okkar sam­fé­lagi. Eitt það fyrsta sem blasti við mér í mennta- og menningar­mála­ráðu­neytinu var yfir­vofandi kennara­skortur. Þess vegna er mikil á­hersla lögð á kennara­menntun og ný­liðun í nýrri mennta­stefnu sem sam­þykkt var ný­lega á Al­þingi.

Við höfum þegar markað stefnuna og sjáum árangurinn strax. Ný lög um menntun og hæfi kennara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika. Við höfum ráðist í um­fangs­miklar og mark­vissar að­gerðir til að fjölga kennurum, t.d. með því að bjóða nem­endum á loka­ári meistara­náms til kennslu­réttinda á leik- og grunn­skóla­stigi launað starfs­nám. Annað sem við gerðum var að bjóða nem­endum á loka­ári að sækja um náms­styrk sem gæti skapað hvata til að klára námið. Eftir að þetta á­taks­verk­efni hófst árið 2018 fjölgaði um­sóknum í kennara­nám á grunn- og meistara­stigi árin 2018 og 2019 um 454 um­sóknir. Fjölgunin hélt á­fram árin 2019 og 2020 en þá sóttu 585 fleiri um nám. Tölurnar sýna al­gjöran við­snúning. Heildar­fjölgun um­sókna frá árinu 2018 er 153%. Mark­vissar að­gerðir skila árangri til fram­tíðar.

Þessi þróun er ein­stak­lega á­nægju­leg. Ég fagna því á hverjum degi að við erum skrefi nær því að ná mark­miðum okkar um fram­úr­skarandi mennta­kerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2021.

Categories
Greinar

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Deila grein

23/03/2021

Reykir verða áfram miðstöð garðyrkjunáms

Garðyrkju­skól­inn á Reykj­um hef­ur í rúm 80 ár verið bak­beinið í ís­lensku garðyrkju­námi. Skól­inn hef­ur menntað fólk til starfa í garðyrkju­tengd­um at­vinnu­grein­um og skapað þekk­ingu sem hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ari en nú.

Þegar Land­búnaðar­há­skóli Íslands tók til starfa árið 2005 var starf­semi Garðyrkju­skól­ans færð und­ir hinn nýja skóla, að frum­kvæði Garðyrkju­skóla rík­is­ins. Starf­sem­in hélt áfram á Reykj­um, en yf­ir­stjórn skól­ans færðist til Hvann­eyr­ar. Ætluð sam­legð af há­skóla­starf­semi LBHÍ og fram­halds­skóla­starf­semi Reykja hef­ur hins veg­ar ekki raun­gerst, enda hef­ur komið á dag­inn að þarf­irn­ar eru ólík­ar. Lyk­ilfólk hef­ur talið að skól­arn­ir eigi ekki leng­ur sam­leið og ætlaður ávinn­ing­ur af nánu sam­starfi hef­ur því ekki gengið eft­ir að öllu leyti.

Full­trú­ar garðyrkj­unn­ar hafa kallað eft­ir breyt­ing­um á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi og því fól ég sér­fræðing­um ráðuneyt­is­ins að kanna málið vand­lega og gera til­lög­ur, ef slíkra reynd­ist þörf. Útgangspunkt­ur­inn var að tryggja sem best starf­sem­ina á Reykj­um, starfs­ör­yggi þeirra sem þar starfa og hags­muni nem­enda. Að vel at­huguðu máli var ákveðið að efla námið á Reykj­um, skilja það frá LBHÍ og vinna með Fjöl­brauta­skóla Suður­lands – ein­um öfl­ug­asta starfs­mennta­skóla lands­ins. Við þá breyt­ingu þarf að huga vel að stjórn­sýslu­regl­um, fag­leg­um kröf­um til mennta­stofn­ana, fjár­veit­ing­um til starf­sem­inn­ar og rétt­ind­um starfs­fólks og nem­enda.

Við und­ir­bún­ing breyt­ing­anna þarf að huga að starfs­ör­yggi og fjölda stöðugilda á Reykj­um og vissa að skap­ast um fjár­mögn­un garðyrkju­náms­ins. Tryggja þarf af­not af jarðnæði og eign­um, bæta aðgengi nem­enda að aðstöðu til verk­legr­ar kennslu og fjár­festa til framtíðar. Þá fel­ast ótelj­andi tæki­færi í sam­starf­inu við aðrar deild­ir Fjöl­brauta­skól­ans, þar sem garðyrkju­nem­ar geta stundað viðbót­ar­nám í öðrum grein­um og öf­ugt. Sam­band Fjöl­brauta­skól­ans við at­vinnu­líf á Suður­landi er sterkt og við blas­ir að nem­end­ur á Reykj­um njóti góðs af frá­bæru starfi og ný­sköp­un einka­rek­inna gróðrar­stöðva á Suður­landi. Und­ir­bún­ing­ur breyt­inga geng­ur vel og þarfagrein­ing­ar skól­anna liggja fyr­ir, en þær hafa m.a. verið unn­ar með full­trú­um Garðyrkju­skól­ans og at­vinnu­lífi garðyrkj­unn­ar.

Nokk­ur umræða hef­ur skap­ast um Reyki á und­an­förn­um miss­er­um og m.a. hafa stjórn­mála­menn kvatt sér hljóðs með greina­skrif­um og fyr­ir­spurn­um. Ég fagna aukn­um áhuga á mál­inu, enda er það mark­mið allra málsaðila að tryggja viðveru og vöxt hins glæsi­lega mennt­a­starfs sem fram fer á Reykj­um. Ábend­ing­ar nem­enda og kenn­ara eru jafn­framt gott inn­legg í sam­vinn­una, sem er í full­um gangi, svo hinir sögu­frægu Reyk­ir muni blómstra um ókomna tíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. mars 2021.

Categories
Greinar

Fræðilega er allt ómögulegt þar til það hefur verið gert

Deila grein

22/03/2021

Fræðilega er allt ómögulegt þar til það hefur verið gert

Íslenska þjóðin hef­ur um nokk­urt skeið verið þátt­tak­andi í stóru og fjöl­breyttu grunn­nám­skeiði í vís­ind­um. Þar er m.a. fjallað um hvernig vís­inda­menn nýta vís­inda­leg­ar niður­stöður og aukna þekk­ingu til að byggja und­ir stöðumat og mögu­lega þróun. Þeir hika ekki við að skipta um skoðun eða breyta mati sínu ef vís­inda­leg­ar mæl­ing­ar gefa til­efni til, eða til að mæta ófyr­ir­sjá­an­legri þróun.

Loðna, jarðhrær­ing­ar og far­sótt

Vís­indi og rann­sókn­ir tengj­ast með bein­um hætti mörg­um af stóru spurn­ing­un­um sem Íslend­ing­ar leita svara við. Stofn­stærðarmæl­ing­um á fiski­stofn­um og afla­heim­ild­um, jarðskjálfta­virkni á Reykja­nesi og lík­um á eld­gosi. Aðgerðum sótt­varna­lækn­is vegna Covid-19, vökt­un og viðbrögðum við snjóflóðum og skriðuföll­um, hag­nýt­ingu upp­lýs­inga­tækni og fjar­skipta til að halda sam­fé­lag­inu gang­andi í miðjum heims­far­aldri o.s.frv.

Öllum ætti því að vera ljóst að rann­sókn­ir og hag­nýt­ing vís­inda­starfs er mik­il­væg for­senda fyr­ir þróun sam­fé­lags­ins og er þá eng­inn hluti þess und­an­skil­inn. Kennslu­dæm­in í nám­skeiðinu sem við sitj­um nú hafa einnig leitt hug­ann að því frá­bæra og öfl­uga vís­inda­fólki og stofn­un­um sem við eig­um.

Í áætl­un vís­inda- og tækni­ráðs eru m.a. til­greind­ar aðgerðir sem eru á ábyrgð mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is. „Mik­il­vægt er að vís­indastarf nýt­ist ís­lensku sam­fé­lagi í stefnu­mót­un og lýðræðis­leg­um ákvörðunum. Ekki verður unnt að ná tök­um á sam­fé­lags­leg­um áskor­un­um, svo sem lýðheilsu­vanda­mál­um og lofts­lags­vá, nema stefnu­mót­andi aðilar og al­menn­ing­ur hafi greiðan aðgang að áreiðan­legri þekk­ingu.“ Með þessu er ætl­un­in að skapa um­gjörð sem trygg­ir sýni­leika vís­inda, stuðlar að auk­inni þekk­ingu á aðferðum vís­inda, eyk­ur skiln­ing, traust og virðingu fyr­ir niður­stöðum vís­inda og sér­fræðiþekk­ing­ar, trygg­ir aðgang að gagn­reynd­um upp­lýs­ing­um og vinn­ur mark­visst gegn áhrif­um fals­frétta og rangra upp­lýs­inga í sam­fé­lag­inu.

Stærsta út­hlut­un Rann­sókna­sjóðs frá upp­hafi

Rann­sókna­sjóður gegn­ir lyk­il­hlut­verki við fjár­mögn­un vís­inda­verk­efna hér á landi. Hann styður verk­efni á öll­um sviðum vís­inda og veit­ir fjór­ar teg­und­ir styrkja til doktorsnema, nýdok­tora, rann­sókn­ar­verk­efna og önd­veg­is­styrki til stórra verk­efna sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega teng­ingu.

Úthlut­un styrkja úr sjóðnum hef­ur aldrei verið hærri en nú og fleiri ný verk­efni njóta stuðnings en áður – alls 82 tals­ins. Sjóður­inn hef­ur frá ár­inu 2004 verið leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi, en hlut­verk hans er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en á síðasta ári bætt­ist við 776 millj­óna Covid-fram­lag. Á þessu ári voru fjár­veit­ing­ar hins veg­ar hækkaðar í 3,7 millj­arða, í sam­ræmi við stefnu vís­inda- og tækni­ráðs frá síðasta ári.

Um 2 millj­arðar kr. renna til eldri verk­efna en styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á 1,3 millj­örðum kr. á ár­inu. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um.

Bú­ast má við að heild­ar­fram­lag vegna nýju verk­efn­anna verði um 4 millj­arðar áður en yfir lýk­ur, enda ná verk­efn­in yf­ir­leitt yfir þriggja ára tíma­bil. Á grund­velli þess­ara rann­sókna, og annarra sem sjóður­inn hef­ur stutt, skap­ast þekk­ing sem hjálp­ar okk­ur að þróa sam­fé­lagið okk­ar og bæta lífs­gæðin.

Skýrt merki um öfl­ugt vís­indastarf

Um­sókn­um í Rann­sókna­sjóð hef­ur fjölgað und­an­far­in ár og ár­ang­urs­hlut­fallið hafði lækkað stöðugt þar til nú. Með stækk­un sjóðsins hef­ur þró­un­inni verið snúið við, því þrátt fyr­ir 402 um­sókn­ir var ár­ang­urs­hlut­fallið nú rúm 20% og hef­ur ekki verið hærra síðan 2017. Þessi mikla eft­ir­spurn er til marks um öfl­ugt vís­indastarf á Íslandi, metnað vís­inda­fólks og vís­bend­ing um framtíðarávinn­ing fyr­ir okk­ur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2021.

Categories
Greinar

Handverk þjóðanna

Deila grein

14/03/2021

Handverk þjóðanna

Ef hand­verk iðnmenntaðra væri fjar­lægt úr ís­lensku sam­fé­lagi væri tóm­legt um að lit­ast. Sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á iðnnám og rétt­indi þeirra sem velja þá náms­leið. Þess vegna hef ég gert grund­vall­ar­breyt­ing­ar á skipu­lagi iðnnáms. Umræða um iðnnám hef­ur breyst og ásókn­in stór­auk­ist á ör­fá­um árum. Fag­stétt­ir sem glímdu við mikla mann­eklu horfa fram á breytt­an veru­leika og færniþarf­ir sam­fé­lags­ins eru bet­ur upp­fyllt­ar en áður.

Íslenskt iðnnám stend­ur mjög vel í sam­an­b­urði við er­lent, enda kenn­ar­ar vel menntaðir, þeir búa að fjöl­breyttri reynslu og náms­braut­irn­ar metnaðarfull­ar. Gerðar eru rík­ar kröf­ur til nema um aga, iðni og fag­mennsku í vinnu­brögðum og tengsl iðnnáms­ins við at­vinnu­lífið hafa ávallt verið sterk.

Hingað til hafa þeir ein­ir lokið iðnnámi sem hafa út­vegað sér náms­samn­ing hjá meist­ara í sínu fagi. Fyr­ir­komu­lagið hef­ur um margt gengið vel, en hitt er ein­kenni­legt að skól­inn hafi ekki ábyrgst að all­ir iðnnem­ar hafi jöfn tæki­færi til að ljúka námi. Ótal dæmi eru til um nem­end­ur sem hafa horfið frá iðnnámi að lokn­um bók­lega hlut­an­um, þar sem þeir hafa ekki kom­ist á samn­ing, og leitað á önn­ur mið þótt hjartað hafi slegið með iðninni.

Slíkt er óviðun­andi og því hef ég gefið út nýja reglu­gerð sem fær­ir ábyrgðina á vinnustaðanámi yfir á skól­ana sjálfa. Nem­end­um verður að sjálf­sögðu áfram heim­ilt að leita sér að samn­ingi, í sam­ráði við sinn skóla, en skól­inn mun tryggja að all­ir nem­end­ur hljóti þjálf­un og leiðsögn við raunaðstæður, ým­ist á ein­um vinnustað eða mörg­um og í skól­an­um sjálf­um ef ekki tekst að bjóða hefðbundið vinnustaðanám. Sam­hliða hætt­ir skól­inn að meta nem­end­ur út frá samn­ings­tíma þeirra, og horf­ir fyrst og fremst til skil­greindra hæfniþátta við mat á færni þeirra og hand­bragði. Með þeim hætti verður námið mark­viss­ara og nem­end­ur hafa mögu­leika á að út­skrif­ast fyrr.

Önnur stór kerf­is­breyt­ing er til meðferðar á Alþingi, en þar mælti ég ný­verið fyr­ir frum­varpi um breyt­ing­ar á aðgangs­skil­yrðum í há­skóla. Minn vilji er sá, að í stað þess að hand­haf­ar stúd­ents­prófa fái ein­ir aðgang að há­skól­um standi þeir opn­ir fyr­ir öll­um sem lokið hafa prófi á þriðja hæfniþrepi í fram­halds­skóla – þ.m.t. þeim sem hafa tekið loka­próf í iðnnámi. Slík breyt­ing er ekki bara rétt­læt­is­mál, held­ur lík­leg til að efla há­skól­ana, sem fá til sín nem­end­ur með frá­bær­an und­ir­bún­ing fyr­ir há­skóla­nám.

Breyt­ing­in mun von­andi líka hafa já­kvæð áhrif á viðhorf for­eldra sem áður hvöttu frek­ar börn­in sín í hefðbundið bók­nám, ekki síst vegna þess að bók­námið tryggði aðgang að fjöl­breytt­ari mögu­leik­um en hand­verkið. Þess­ar breyt­ing­ar munu verða til þess að all­ir fái tæki­færi til að fylgja hjart­anu þegar kem­ur að námsvali.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.

Categories
Greinar

Björt og litrík framtíð myndlistar á Íslandi

Deila grein

04/03/2021

Björt og litrík framtíð myndlistar á Íslandi

Með hækk­andi sól mun fyrsta heild­stæða mynd­list­ar­stefna Íslands líta dags­ins ljós sem mótuð hef­ur verið í nánu sam­starfi við helstu hagaðila í mynd­list á land­inu. Stefn­an mun setja fram heild­stæða sýn fyr­ir mynd­list­ar­líf að vaxa og dafna til árs­ins 2030. Mynd­list hef­ur leikið mik­il­vægt hlut­verk inn­an ís­lensks sam­fé­lags allt frá því snemma á 20. öld og er hratt vax­andi list- og at­vinnu­grein á Íslandi í dag. Á liðinni öld hafa þúsund­ir Íslend­inga numið mynd­list að ein­hverju marki þótt ein­ung­is lítið brot þeirra, eða nokk­ur hundruð, starfi við grein­ina í dag og ein­ung­is hluti þeirra í fullu starfi.

Áhersla í nýrri stefnu verður á fjöl­breytt­an stuðning við list­sköp­un, kennslu í mynd­list og al­menna vit­und­ar­vakn­ingu al­menn­ings um að mynd­list sé fyr­ir alla að njóta. Þá verður stjórn­sýsla og stuðnings­kerfi mynd­list­ar eflt en um leið ein­faldað í þágu ár­ang­urs. Við vilj­um að á Íslandi starfi öfl­ug­ar og sam­stillt­ar mynd­list­ar­stofn­an­ir með þjóðarlista­safn á heims­mæli­kv­arða sem styður með já­kvæðum hætti við alla aðra þætti kraft­mik­ils mynd­list­ar­lífs um allt land og alþjóðlegt orðspor ís­lenskr­ar mynd­list­ar. Mynd­list­armiðstöð tek­ur við hlut­verki Kynn­ing­armiðstöðvar ís­lenskr­ar mynd­list­ar og verður kraft­mik­il miðja stuðnings­kerf­is mynd­list­ar­manna sem vinn­ur með mynd­list­ar­líf­inu. Ný mynd­list­ar­stefna set­ur fram sýn og aðgerðir sem hafa í för með sér hvata til efl­ing­ar á alþjóðlegu mynd­list­ar­starfi hér heima og er­lend­is.

Mynd­list sem at­vinnu­grein á Íslandi stend­ur nú á ákveðnum tíma­mót­um. Ungu fólki fjölg­ar sem kýs að starfa við list­sköp­un, eins og mynd­list­ina, sem er í eðli sínu grein framtíðar, alþjóðleg og sjálf­bær í senn. Stefn­an set­ur fram aðgerðir sem munu auka sýni­leika grein­ar­inn­ar gegn­um mæl­ingu á hag­vís­um henn­ar, ýta úr vegi hindr­un­um og inn­leiða hvata og íviln­an­ir sem styðja við mynd­list­ar­markað. Í ljósi stærðar alþjóðamarkaðar með mynd­list og eft­ir­tekt­ar­verðs ár­ang­urs ís­lenskra mynd­list­ar­manna má ætla að vaxta­tæki­færi mynd­list­ar séu veru­leg. Með auk­inni fjár­fest­ingu hins op­in­bera og einka­geira mun grein­in geta skilað þjóðarbú­inu tals­vert meiri verðmæt­um en hún ger­ir nú. Með fyrstu mynd­list­ar­stefnu Íslands er mótuð framtíðar­sýn sem styðja við já­kvæða sam­fé­lagsþróun auk þess að styðja við mynd­list­ar­líf á Íslandi til framtíðar.

Menn­ing og list­ir hafa gætt líf okk­ar þýðingu á erfiðum tím­um. Mörg stærstu tæki­færa ís­lensks sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fel­ast ein­mitt þar. Mynd­list­in er ein þeirra greina sem hef­ur tek­ist á við áskor­an­ir heims­far­ald­urs­ins með aðdá­un­ar­verðum hætti. Söfn, galle­rí og lista­manna­rek­in rými hafa að mestu verið opin og staðið fyr­ir sýn­ing­ar­haldi. Það er löngu tíma­bært að stjórn­völd horfi til framtíðar í mynd­list­ar­mál­um þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. mars 2021.