Categories
Fréttir

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Deila grein

21/11/2022

Ávarp innviðaráðherra á Skipulagsdeginum

Ávarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra á Skipulagsdeginum 17. nóvember 2022

Kæru gestir!

Það er mér sönn ánægja að flytja opnunarávarp á Skipulagsdeginum.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég flyt ávarp á þessari samkomu sem ráðherra nýs innviðaráðuneytis. Undir það ráðuneyti heyra nú byggðamál, húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur og málefni sveitarstjórna. Sú yfirsýn sem náðst hefur með nýju innviðaráðuneyti felur í sér miklar breytingar og gerir okkur kleift að samhæfa þessa málaflokka, einfalda ferla og gera okkur betur grein fyrir þörfum íbúa um land allt með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.

Með því að færa skipulagsmálin og húsnæðismálin á milli ráðuneyta og samþætta þau við aðra málaflokka í nýju innviðaráðuneyti næst fram betri yfirsýn, áætlunargerð verður markvissari og hagkvæmni eykst, sem til framtíðar mun aftur leiða til aukins stöðugleika. Á þeirri vegferð leika skilvirkir skipulagsferlar stórt hlutverk og að upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á hverjum tíma. Þannig hafa sveitarfélög t.a.m. betri upplýsingar um þörf fyrir byggingarhæfar lóðir til samræmis við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. 

Að mínu mati eru skipulagsmál einn mest spennandi málaflokkur sem ég hef komið að. Málaflokkinn þekki ég vel sem fyrrum sveitarstjórnarmaður og umhverfis- og auðlindaráðherra – og nú á ný sem innviðaráðherra. Og með þessa reynslu veit ég líka að þau geta verið mjög snúin og flókin þar sem þau snerta marga, ef ekki meira og minna flesta málaflokka sem snýr að stjórnsýslunni. Ég hef stundum sagt að í samgöngum séu um 360 þúsund ráðgjafar sem allir hafi eitthvað til málanna að leggja. Skipulagsmál eru um margt flóknari. Því er mikilvægt að skipulagsmálin séu skipuð næst þeim málaflokkum þar sem áskoranirnar eru stærstar á hverjum tíma, núna í samgöngum, húsnæðismálum og sveitarstjórnarmálum.

Góðir gestir

Skipulagsstofnun er um margt einstök stofnun. 

Umgjörð stofnunarinnar er á þann hátt að hún er lögbundin líkt og lægra sett stjórnvald á grundvelli skipulagslaga. Hlutverk stofnunarinnar sem ráðgefandi stofnun er hins vegar meira í ætt við ráðuneytisstofnun gagnvart innviðaráðherra en tekur hins vegar kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli laga á forræði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra líkt og lægra sett stjórnvöld gera.

Eitt af því sem Skipulagsstofnun gerir svo vel er að að veita upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál. Með öðrum orðum að fylgjast með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum og aðstoða þau og leiðbeina þeim við gerð skipulagsáætlana. Ráðherra leggur hins vegar fram tillögu til þingsályktunar um landskipulagsstefnu sem sveitarfélögin taka mið af við gerð skipulagsáætlana.

Það er gaman frá því að segja að gildandi landsskipulagsstefna var að einhverju leyti unnin þegar ég var umhverfis- og auðlindaráðherra. Eftirmaður minn, Sigrún Magnúsdóttir, tók síðan við keflinu og lagði hana fram árið 2015 sem Alþingi samþykkti ári síðar. 

Ég hef nú ákveðið að hefja vinnu við endurskoðun á gildandi landskipulagsstefnu 2015-2026. Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum, til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um þróun byggðar og landnýtingu. Hún setur fram stefnu um skipulag á miðhálendi Íslands, í dreifbýli, um búsetumynstur og dreifingu byggðar og loks um skipulag á haf- og strandsvæðum. 

Leiðarljós stefnunnar verða sem fyrr að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun, auknum lífsgæðum íbúa og samkeppnishæfni landsins og einstakra landshluta.

Það fer vel á því að málaflokkurinn sé kominn til innviðaráðuneytisins þar sem stefnan tekur mið öðrum áætlunum sem varða landnýtingu, t.d. hvað varðar samgöngur, byggðamál og orkunýtingu auk náttúruverndar.

Fyrstu skrefin við undirbúning endurskoðunarinnar hafa verið stigin og samráð verður haft á öllum stigum málsins eins og ávallt. Breytingin verður þó ekki meiri en svo að gerð verður tillaga um að ný viðfangefni fléttist inn í gildandi stefnu.

Sem ráðherra hef ég lagt fram nokkrar áherslur til grundarvallar í þessari endurskoðun.

Sérstök áhersla á skipulag í þágu loftslagsmála og setja fram stefnu um bindingu kolefnis, draga úr losun frá landnotkun og byggð.

Mikilvægt er að skipulag stuðli að jafnvægi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en ég mun koma nánar að húsnæðismálum síðar. 

Þá er áhersla á fjölbreytta ferðamáta og orkuskipti í samgöngum og sett fram stefna sem stuðla að tryggum innviðum fyrir orkuskipti og blöndun byggðar sem stuðlar að tækifærum fyrir fjölbreytta ferðamáta.

Við endurskoðun á landsskipulagsstefnu verði einnig  mótuð nánari stefna um uppbyggingu vegasamgangna á miðhálendinu eins og er skilgreind í gildandi stefnu. Horft verður til þess að skoða útfærslu vega á miðhálendinu með tilliti til orkuskipta í samgöngum og mögulegs öryggishlutverks vega á miðhálendinu sem hjáleiðar vegna náttúruvár.

Lögð verður áhersla á útfærslu úrræða til þess að stuðla að framgangi þjóðhagslega mikilvægrar innviðauppbyggingar. Í skipulagsgerð sveitarfélaga eru teknar ákvarðanir um hvernig uppbyggingu innviða skuli háttað, uppbygging sem í sumum tilvikum hefur áhrif á fleiri en íbúa sveitarfélagsins. Þegar um er að ræða uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða er í sumum tilvikum eins og við gjarnan þekkjum mikilvægt að það sé til staðar farvegur til að móta stefnu sem varðar sameiginlegar skipulagsákvarðanir um þjóðhagslega mikilvæga innviði.

Þá er mikilvægt að huga að skiptingu og útfærslu landbúnaðarlands. Það ríkir samkeppni um land og á það ekki síst við um land í dreifbýli, aukin eftirspurn er eftir landi til skógræktar, undir frístundabyggð, þéttbýlismyndun í dreifbýli og aukinn áhugi á nýtingu vindorku. Það reynir meira á að ná fram sátt í skipulagsgerð og móta þarf stefnur um varðveislu lands sem hentar vel til ræktunar.

Vindorkan og nýting hennar skipar stóran sess í skipulagi og fylgir því nýjar áskoranir, ekki síst vegna sjónrænna áhrifa. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er kveðið á um að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum til þess að tryggja örugga afhendingu orkunnar. Við endurskoðun landsskipulagsstefnu er lögð áhersla á að sett verði sett fram stefna og viðmið fyrir ákvarðanir um nýtingu vindorku.

Loks verður við endurskoðun landsskipulagsstefnu stefna um skipulag haf- og strandsvæða endurskoðuð með hliðsjón af lögum um skipulag haf- og strandsvæða, tillögum svæðisráða um strandsvæðisskipulag á Vestfjörðum og Austfjörðum sem og annarri stefnumörkun stjórnvalda er snýr að nýtingu og vernd haf- og strandsvæða.

Innviðaráðuneytið stóð nýlega fyrir samráðsfundum í öllum landshlutum þar sem fjallað var um stefnur og áætlanir sem heyra undir ráðuneytið. Íbúum og sveitarstjórnarfólki um land allt gafst þar tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins. Þessir fundir voru í anda þeirrar samhæfingar sem ég hef áður lýst þar sem þessar málaflokkar hafa svo mikil hver á annan. Á fundunum var fjallað um nýsamþykkta byggðaáætlun, samgönguáætlun og stefnu í sveitarstjórnarmálum, sem eru í reglubundinni endurskoðun og  nýja húsnæðisstefnu sem er í smíðum. Loks var fjallað um áherslur ráðherra í komandi endurskoðun á landsskipulagsstefnu.

Samnefnari þessara áætlana er það sem við höfum nefnt búsetufrelsi. Skilgreining á búsetufrelsi er á þessa leið: Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er.

Fjölbreytt íbúðasamsetning, grunnþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi.

Góðir gestir – framundan er spennandi dagskrá og viðfangsefnin brýn.

Eitt af viðfangsefnum fundarins hér í dag er fæðuöryggi og orkuskipti. Sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ber ég sterkar taugar til innlendrar matvælaframleiðslu en þessar tvær atvinnugreinar leggja grunninn að fæðuöryggi þjóðarinnar. Hvernig ætlum við að knýja áfram skipaflotann okkar, flugflotann og vinnuvélar í iðnaði og landbúnaði? Hvernig ætlum við að ná og viðhalda orkusjálfstæði sem leggur grunn að fæðuöryggi? Tækifærin eru mörg og þau eru stór. 

Við eigum allt undir því að fiskistofnarnir í sjónum séu heilbrigðir og að til staðar sé gott land til ræktunar, ásamt nýjustu þekkingu á framleiðslu og tækjum.

Við vitum að í matvælaframleiðslu, eins og öðrum mikilvægum sviðum samfélagsins, þarf orku, innlenda græna endurnýjanlega orku. Þar erum við raunar í öfundsverðri stöðu á heimsvísu og verðum að nýta þekkingu okkar og aðstæður eins og kostur er. Og þá sérstaklega að gæta að skipulagi og nýtingu landbúnaðarlands til að tryggja innlenda framleiðslu á matvælum og fæðuöryggi, ekki síst á tímum loftslagsvár og stríðsátaka. Orkuskiptin geta ekki aðeins orðið lykill að kolefnishlutleysi heldur hreinlega styrkt efnahagslega stöðu þjóðarinnar.

Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum samtímans. Loftslagsmálin er verkefni okkar allra, áskorun sem allir þurfa að taka og gera ráð fyrir í atvinnulífinu og daglegu lífi. 

Ríkisstjórnin hefur lagt fram mjög metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum með raunhæfum aðgerðum til að standa við skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum, sem eru í raun skuldbindingar gagnvart okkur sjálfum. 

Og að því sögðu þarf skipulag að taka mið af samfélaginu hverju sinni en einnig og ekki síst að taka mið af breyttum heimi vegna loftslagsbreytinga. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Categories
Greinar

Alþjóðaviðskipti í ólgusjó

Deila grein

21/11/2022

Alþjóðaviðskipti í ólgusjó

Einn helsti drif­kraftur vel­ferðar á heims­vísu á mínu ævi­skeiði hafa verið öflug alþjóða­við­skipti þjóð­ríkja. Hund­ruð millj­ónir manna hafa náð að brjót­ast út úr sárri fátækt á þessum tíma og má full­yrða að aldrei í mann­kyns­sög­unni hafi kaup­máttur almenn­ings auk­ist jafn hratt og þar ekki er síst mik­il­vægt að fæðu­ör­yggi hefur auk­ist veru­lega hjá þeim sem minnst mega sín. Hins vegar erum við að horfa upp ákveðið upp­brot á heims­við­skipt­unum vegna stríðs­átaka, vernd­ar­stefnu og við­skipta­stríða og auknum mætti alræð­is­stjórna. Að auki er tíma­bil ódýrs láns­fjár­magns lík­lega lokið í bili og víða þarf að herða að í rík­is­fjár­mál­um.

Áfram­hald­andi áskor­anir í alþjóða­kerf­inu en farið að birta til í Banda­ríkj­un­um 

Vísi­tala neyslu­verðs í Banda­ríkj­unum hækk­aði um 0,4 pró­sent í októ­ber en það er minnsta árs­hækkun frá því í mars. Mark­aðs­að­ilar gera sér vonir um að þetta marki straum­hvörf í bar­átt­unni við verð­bólg­una og að banda­ríski Seðla­bank­inn þurfi minna að beita stýri­vöxtum en gert var ráð fyr­ir. Fréttir um að Kína kunni að slaka á Covid-að­gerðum voru einnig nýlega talin lyfti­stöng fyrir alþjóða­hag­kerf­ið. Í báðum til­fellum er lík­lega of snemmt að fagna. Horfur fyrir Evr­ópu eru enn dökkar ekki síst í ljósi orku­mála. Sam­drátt­ar­skeið er hafið í Bret­landi, mikil verð­bólga og skatta­hækk­anir virð­ast fram undan og er ljóst að lífs­kjör þar muni versna. Mark­aðs­að­ilar í Evr­ópu eru líka nokkuð svart­sýnir sökum þess að þeir búast við frek­ari stýri­vaxta­hækk­unum vegna vax­andi verð­bólg­u. Eins og víða má búast við að óburðug rík­is­fjár­mál landa innan ESB finni einnig fyrir vaxta­hækk­un­um.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hægum hag­vexti á heims­vísu, úr 6,0 pró­sentum árið 2021 í 3,2 pró­sent árið 2022 og 2,7 pró­sent árið 2023. Við fyrstu sýn gefur 2,7% hag­vöxtur ekki til­efni til svart­sýni. Hins vegar er sam­drátt­ur­inn skarpur og ef þessi hag­vaxt­ar­spá ræt­ist, þá er þetta minnsti hag­vöxtur í tvo ára­tugi fyrir utan alþjóð­legu fjár­málakrepp­una og Covid-19. Spáð er að verð­bólga á heims­vísu fari úr 4,7 pró­sentum árið 2021 í 8,8 pró­sent árið 2022 en lækki í 6,5 pró­sent árið 2023 og í 4,1 pró­sent árið 2024. Að sama skapi er þetta ein versta verð­bólgu­spá í ára­tugi. Þessar versn­andi horfur kalla á afar sam­stillt efna­hags­við­brögð á heims­vísu.

Kerf­isum­bætur hag­kerfa á 8. ára­tugnum og Kína í brennid­epli

Eftir að Bretton-Woods gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega undir lok á átt­unda ára­tugn­um, tók við tíma­bil á sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verð­bólgu. Brugð­ist var við verð­bólg­unni með miklum vaxta­hækk­unum og eru þekkt við­brögð banda­ríska seðla­bank­ans undir stjórn Vol­kers með miklum vaxta­hækk­un­um. Þegar leið á þetta tíma­bil kom jafn­framt fram það mat ýmissa hag­fræð­inga að fyr­ir­ferð rík­is­ins væri orðið óþarf­lega mikil í ýmsum hag­kerf­um. Banda­ríkin og Bret­land réð­ust í umfangs­miklar kerf­is­breyt­ingar sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýmsum þáttum hag­kerf­is­ins, skattar voru lækk­að­ir, rík­is­fyr­ir­tæki einka­vædd og verð­lags­eft­ir­liti hætt. Ein­blínt var á fram­boðs­hlið­ina og létt var á reglu­verki. Eftir gríð­ar­legt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an, þá náð­ist sam­staða um að hefja mikið efna­hags­legt umbóta­skeið. Í fyrstu var ráð­ist var í að veita smá­bændum frjálsan aðgang að rækt­uðu landi ásamt því að opna fyrir utan­rík­is­við­skipti og fjár­fest­ingu. Í kjöl­far þess að Banda­ríkin og Bret­land fara að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína, þá fóru mörg önnur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæmin aukin við­skipti innan EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi innan þeirra vébanda og ekki síst þeirra ríkja sem opn­uð­ust eftir fall ráð­stjórn­ar­ríkj­anna.

Tíma­bil mik­illa efna­hags­um­bóta hófst í Kína eftir að Deng Xia­op­ing komst til valda 1978. Að sama skapi skipti sköpum fyrir þróun heims­við­skipta inn­ganga Kína í Alþjóða­við­skipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið verða breyt­ingar á sam­keppn­is­hæfni og útflutn­ingi Kín­verja. Við­skipta­af­gangur jókst mikið ásamt spar­fé, sem verður þess vald­andi að Kína verður fjár­hags­veldi á heims­vísu og er nú næst stærsta hag­kerfi heims á eftir Banda­ríkj­un­um.

Mynd 1: Tímabil hnattævðingar verður að af-hnattvæðingu. Heimild: Martin Wolf, Financial Times 2022.

Mynd 1: Tímabil hnattævðingar verður að af-hnattvæðingu. Heimild: Martin Wolf, Financial Times 2022.

Verð­bólga á átt­unda ára­tugnum minnk­aði veru­lega í kjöl­far ofan­greindra aðgerða og ekki síst vegna þess að opnað var á alþjóða­við­skipti við Kína. Heim­ur­inn er miklu sam­tengd­ari nú vegna þessa. Þrátt fyrir að nýlega hafi hægst á heims­við­skiptum halda við­skipti við ríki á borð við Kína vísi­tölu neyslu­verðs enn niðri á heims­vís­u. 

Minnk­andi heims­við­skipti og áhrifin á verð­bólgu

Tog­streita á milli hinna efna­hags­legu stór­velda, Banda­ríkj­anna og Kína, leiðir hug­ann að því hvernig alþjóða­við­skipti munu þró­ast á næstu miss­er­um. Ef þessi átök magn­ast þá verður efna­hags­legt tap á heims­vísu mik­ið, sér­stak­lega fyrir Asíu. Til að setja það í sam­hengi, þá kemur um helm­ingur alls inn­flutn­ings til Banda­ríkj­anna frá Asíu og í Evr­ópu er þetta um þriðj­ung­ur.

Ofan á þetta bæt­ist að eftir að stríðið hófst í Úkra­ínu, þá hafa mörg fyr­ir­tæki verið að minnka starf­semi þar sem geópóli­tísk áhætta er mik­il. Afleið­ingar þess má sjá á mynd­inni en alþjóða­við­skipti eru að drag­ast saman sem hlut­fall af heims­fram­leiðsl­unn­i. Það er heldur engin til­viljun að í fyrsta skipti í ára­tugi eru farin að sjást merki þess að fátækt er vaxa og dregið hefur úr fæðu­ör­yggi.

Mynd 2: Stormasamir tímar. Heimild: Ahir, Bloom og Fuceri 2022

Mynd 2: Stormasamir tímar. Heimild: Ahir, Bloom og Fuceri 2022

Sam­kvæmt rann­sóknum Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins eru að koma fram sterkar vís­bend­ingar um að ákveðið upp­brot sé að eiga sér stað í heims­við­skipt­u­m. Ef ein­angrun heims­við­skipt­anna nær aðeins til Rúss­lands, þá er ekki gert ráð fyrir að 

fram­leiðslutapið í heims­hag­kerf­inu verði mik­ið. Hins veg­ar, ef til kemur til mynd­unar við­skipta­blokka og heim­ur­inn skipt­ist í tvær fylk­ingar þar sem við­skipti eru tak­mörkuð á milli ríkja, er talið að meta megi var­an­legt tap á heims­vísu á 1,5 pró­sent af vergri heims­fram­leiðslu og tap á árs­grund­velli verði meira í Asíu eða sem gæti numið yfir 3 pró­sent­um.

Alþjóða­sam­skipti með hags­muni Íslands að leið­ar­ljósi 

Ljóst er að blikur eru á lofti í heims­við­skiptum og það eru margir þættir sem spila þar inn, eins og rakið er í hér að ofan. ­Tíma­bil efna­hags­fram­fara og hag­sældar á Íslandi hafa um áar­hund­ruð fallið saman með tíma­bilum þar sem við­skipti milli þjóða hafa blómstr­að. Því ber einnig að halda til haga að sjálf­stæð­is­bar­átta Íslend­inga átti að mörgu leyti að rekja til ákalls um aukið versl­un­ar­frelsi. Síð­asta tíma­bili hnatt­væð­ingar lauk með fyrri heims­styrj­öld­inni og nýtt skeið fór ekki af stað fyrr en að heims­styrj­öld­inni síð­ari lauk. Þá voru settar á fót stofn­anir til að glæða við­skipti og hafa þau vaxið af miklum þrótti á þeim ára­tugum sem liðið hafa frá þeim tíma. Ís­land hefur notið mik­illa hags­bóta með frá­hvarfi frá hafta­bú­skap, auknu við­skipta­frelsi og þátt­töku í alþjóða­stofn­un­um, við­skipta­sam­tökum og við­skipta­samn­ingum sem tekið hefur verið þátt í á for­sendum Íslands.

Ljóst er að blikur eru á lofti í heims­við­skiptum og það eru margir þættir sem spila þar inn, eins og rakið er í grein­inni. Á nýaf­stöðnum leið­toga­fundi G20 ríkj­anna á Balí kom fram skiln­ingur á mik­il­vægi sam­stöðu og sam­ræmdra aðgerða til að efla alþjóða­við­skipti. Það er afar brýnt að Ísland láti sig alþjóða­við­skipti varða þar sem verslun og við­skipti skipta minni lönd með opin hag­kerfi afar miklu máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og við­skipta­ráð­herra og vara­for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 21. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

Deila grein

19/11/2022

Eflum kvikmyndagerð áfram á Íslandi

„Eitt stærsta kvikmyndaver Evrópu er staðsett hér á landi, nánar tiltekið í Gufunesinu í Reykjavík. Þessa dagana er margt um að vera þar enda er gríðarlegt umfang á svæðinu þar sem m.a. ný sería af hinni margverðlaunuðu þáttaröð True detective er tekin upp. Þar er einnig tekið upp á Norðurlandi en sögusvið seríunnar er Alaska í Bandaríkjunum,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í liðinni viku.

„Með stóru kvikmyndaveri og því sjónarspili sem íslensk náttúra er hefur Ísland lengi verið aðlaðandi starfsumhverfi til kvikmyndagerðar. Tækifærin eru fjölmörg og við í Framsókn vildum grípa þau. Meðal áherslna Framsóknar fyrir síðustu alþingiskosningar var að efla kvikmyndagerð á Íslandi og hækka endurgreiðslur á kostnaði við kvikmyndagerð hérlendis í 35%. Þessar áherslur rötuðu einnig í stjórnarsáttmálann og hafa raungerst í dag og við sjáum þá miklu grósku sem sú ákvörðun leiddi til,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Í öllu þessu felst töluvert aðdráttarafl fyrir erlenda kvikmyndaframleiðendur og ég tek undir það þegar þau orð eru sögð að kvikmyndaiðnaðurinn geti vel verið ein af stoðgreinum íslensks efnahagslífs. Mikið af afleiddum störfum myndast í kringum svona verkefni og það er út af framtaki ríkisstjórnarinnar sem það er möguleiki að taka upp þættina sem ég nefndi áðan hér á landi.“

„Því skiptir miklu máli að styðja áfram vel við kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi. Við sjáum það að kvikmyndaverin hér á landi er uppbókuð fram á vor sem sýnir hversu eftirsóknarvert Ísland er í þessum geira. Í þessu felast endalausir möguleikar og mikill ábati fyrir íslenskt atvinnulíf.“

„Með hæstv. viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í broddi fylkingar getum við margfaldað kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi og framleiðendur á Íslandi telja það vel raunhæft. Við getum með sanni sagt að þetta er frábær viðbót við efnahagslíf á Íslandi og sterk stoð til framtíðar,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.

Categories
Fréttir

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Deila grein

18/11/2022

Almenningur ekki undanskilinn ógnum beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um fjölþáttaógnir og netöryggismál á Alþingi.

Sagði Jóhann Friðrik netöryggi vera einn anga af fjölþáttaógnum er samfélög standi frami fyrir. Herjað sé með samstilltum aðferðum á kerfislega veikleika lýðræðisríkja, stofnana og hópa samfélagsins. Markmiðið er að valda óæskilegum áhrifum og/eða skaða, svo sem með dreifingu falsfrétta, netárása, íhlutun í lýðræðislegt ferli, fjárfestingum í mikilvægum innviðum. Þar liggja að baki annarlegar hvatir og tilraunir til að grafa markvisst undan stjórnvöldum og stofnunum. Farnar eru leiðir sem eru til þess fallnar að valda skaða án þess að beita hefðbundnum hernaði.

„Árásir geta verið fjölbreyttar og hægt er að beita þeim í skjóli leyndar og afdráttarlausar neitunar á ábyrgð, enda virða aðgerðir hvorki landamæri né skil á milli opinberra aðila og einkaaðila,“ sagði Jóhann Friðrik.

Netnotkun á Íslandi er hvergi meiri í heiminum en þegar komi að netöryggi verðum við að gera mun betur að mati Jóhanns Friðriks. „Almenningur er ekki undanskilinn hættunni af fjölþáttaógnum sem kann að vera beitt af óvinveittum ríkjum eða glæpahópum.“

„Við erum í hópi þeirra þjóða þar sem læsi er almennt, menntunarstig hátt og fáar hraðahindranir til staðar til aukinnar og markvissrar fræðslu. Á málþingi þjóðaröryggisráðs um fjölþáttaógnir kom fram að um 70% netsvika og fjölþáttaherferða virka vegna veikleika hjá einstökum notendum. Því er mikilvægt að auka árvekni og þekkingu okkar á hættum sem stafa af fölskum upplýsingum og tryggja örugga netumgengni,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Við höfum á síðustu árum fjölmörg dæmi um fjölþáttaógnir, netárásir á innviði samfélags, svo sem netárásir á stofnanir, orkukerfi og fjármálakerfi, og eru þær staðreyndir, en einnig tilraunir til að hafa óæskileg áhrif á niðurstöður kosninga. Með tilkomu reiknirita eða algóritma má ná til einstaklinga og hópa og beina að þeim upplýsingum án þeirra vitundar sem áhrif hafa á skoðanir þeirra og hegðun.“

Vera á varðbergi og skrefi á undan

„Besta leiðin að mínu mati og margra annarra er að skýr stefna stjórnvalda liggi fyrir með þátttöku alls samfélagsins, m.a. með því að leggja áherslu á lýðræðisleg gildi, upplýsingalæsi og árvekni í skólum og í samfélaginu. Annar veigamikill þáttur í árangri getur falist í því að berjast gegn upplýsingafölsun og þá með sannreyndum og áreiðanlegum opinberum upplýsingum sem öllum eru aðgengilegar. Alþjóðasamstarf er einnig gríðarlega mikilvægt til að tryggja og fyrirbyggja slíkar árásir. Atlantshafsbandalagið hefur lagt áherslu á umrædda þætti sérstaklega og tekur Ísland virkan þátt í þeim.“

„Útgangspunktur minn, virðulegi forseti, er því þessi: Eins og áður sagði eru netárásir aðeins hluti af vopnabúri fjölþáttaógna en sannarlega sá þáttur sem almenningur finnur hvað mest fyrir í sínu daglega lífi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi aukinnar hættu sem samfélaginu kann að stafa af fjölþáttaógnum ásamt hröðum tæknibreytingum sem kunna að auðvelda framkvæmd þeirra, hvort stjórnvöld, atvinnulíf og samfélag séu nógu vel í stakk búin til að mæta þessum áskorunum og hins vegar hver sé framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi fjölþáttaógnir og netöryggismál hér á landi,“ sagði Jóhann Friðrik.

Forsætisráðherra var til andsvara í umræðunni.

Categories
Greinar

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Deila grein

18/11/2022

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Willum Þór Þórsson: „Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.“

Í lífsgæðum eru fólgin verðmæti sem þarf að standa vörð um. Með auknum lífsgæðum og góðu aðgengilegu heilbrigðiskerfi eru lífslíkur við fæðingu á Íslandi orðnar með þeim mestu á heimsvísu. Við getum verið stolt af samfélaginu okkar og því að fá tækifæri til að eldast, en það að eldast vel er langt því frá að vera sjálfsagt.

Lifnaðarhættir Íslendinga hafa breyst og því fylgja nýjar lýðheilsuáskoranir. Óhollt mataræði, of lítil hreyfing, aukin streita og of lítill svefn eru á meðal þessara áskorana. Samfélagslegar breytingar kalla á breytt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem tekur tillit til öldrunar, fjölþættra veikinda, breytts umhverfis og aukinnar sjúkdómsbyrði.

Lýðheilsa er hornsteinn meiri lífsgæða.

Hvernig gerum við sem flestum kleift að lifa lengur við sem mest lífsgæði? Það er stór spurning og eitt veigamesta svarið er efling lýðheilsu. Lýðheilsa er lykill að sjálfbærni heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Líf einstaklings frá vöggu til grafar er jafnverðmætt á öllum lífsskeiðum. Markmið heilbrigðiskerfisins er að allir fái jafna meðferð, af sömu gæðum, alltaf. Við alla ákvarðanatöku má ekki missa sjónar á því að gæði heilbrigðisþjónustu mynda órofa heild með öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, jöfnu aðgengi, þekkingu, nýsköpun og afköstum. Eitt á ekki að útiloka annað. Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Heilbrigðisþing 2022 er helgað lýðheilsu

Heilbrigðisþingið í ár er helgað lýðheilsu. Heilsa eins – hagur allra er yfirskrift þingsins og hún fangar viðfangsefnið vel. Þingið fer fram í dag og það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi er á viðfangsefninu. Það er hægt að fylgjast með þinginu í streymi á vefsíðunni www.heilbrigdisthing.is en það er húsfyllir á viðburðinn.

Heilbrigðisþingið mun slá tóninn fyrir eitt stærsta áherslumál heilbrigðisráðuneytisins næstu árin. Erindi, þátttakendur og fjölbreytt dagskrá þingsins bera það með sér hversu fjölþætta nálgun þarf til að efla lýðheilsu. Við þurfum öll að hjálpast að. Við þurfum að átta okkur á því að heilsa eins einstaklings snertir okkur öll og því er hagur allra að leggja við hlustir, taka þátt, skilja og framkvæma það sem þarf til að efla eigin heilsu. Lýðheilsa er ekki froða eða pólitískur hráskinnaleikur. Betri lýðheilsa gerir heilbrigðiskerfinu kleift að viðhalda gæðum þrátt fyrir áskoranir framtíðarinnar og með því halda uppi lífsgæðum þjóðarinnar til framtíðar.

Áherslur og áskoranir

Margar áskoranir heilbrigðiskerfisins eru teknar fyrir og greindar í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um framtíðarþróun þjónustu Landspítalans sem kom út í desember 2021. Í skýrslunni, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, er á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt rætt um leiðir til að auka afköst, hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins með Landspítalann í forgrunni. Þar eru settar fram margar tillögur að aðgerðum sem styðja þessa vegferð að auknum lífsgæðum og gæðum heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslunni eru meðal annars málefni aldraðra, geðheilbrigði og endurhæfing sérstaklega tekin fyrir. Í þeim málaflokkum mun þjónustuþörfin aukast hratt á næstu árum og mikill hluti umbóta þarf að eiga sér stað utan spítala, á sviði forvarna og heilsueflingar og með fjölbreyttum úrræðum þvert á velferðarkerfið.

Lýðheilsa í forgrunni allra ákvarðana

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett lýðheilsu og forvarnir í forgrunn allrar ákvarðanatöku og hefur lýðheilsuáherslan skilað sér inn í allar nýlega stefnur, aðgerðaáætlanir og áherslumál ráðuneytisins. Það er brýning fyrir önnur ráðuneyti, stofnanir, atvinnulífið og einstaklinga að gera slíkt hið sama.

Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu var lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi fræðslu og forvarna. Þar birtist eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar; að viðhalda færni og virkni einstaklinga. Í nýsamþykktri þingsályktunartillögu um geðheilsustefnu til ársins 2030 lýtur einn af fjórum áhersluþáttum hennar að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Í nýskipaðri verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er aðgerðaáætlun í smíðum sem mun taka mið af samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks. Með verkefnastjórninni er stigið mikilvægt skref í átt að samvinnu og samþættingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.

Lýðheilsa á ábyrgð okkar allra

Eins og stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Fyrir liggur stefna heilbrigðisráðuneytisins í lýðheilsu til ársins 2030 og verður heilbrigðisþingið vel nýtt til að fá innlegg í aðgerðaáætlun í lýðheilsu sem nú er í mótun. Áætlunin verður síðan kynnt í næsta mánuði ásamt röð viðburða helgaðra forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu á næsta ári.

Lýðheilsa verður aftur á móti ekki efld inni á borði eins ráðuneytis eða nokkurra stofnanna. Samvinnu opinberra aðila, einkaaðila og fólksins í landinu þarf til að finna bestu leiðina að markmiðinu. Við þurfum sem samfélag að taka höndum saman um lýðheilsu. Við þurfum öll að átta okkur á því að þær samfélagslegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu leggjast þungt á heilbrigðiskerfið ef við eflum ekki lýðheilsu, forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi. Það þarf enga aðgerðaáætlun eða skýrslu til að sjá það. Við getum byrjað strax í dag.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Deila grein

17/11/2022

Sveitarstjórnaráætlun – nýr starfshópur hefur störf

Nýr starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga hélt sinn fyrsta fund í innviðaráðuneytinu í gær. Hópnum er ætlað að skila tillögu til innviðaráðherra um stefnu stjórnvalda gagnvart sveitarfélögum til fimmtán ára 2024 til 2038 og aðgerðaáætlun til fimm ára 2024 til 2028 í byrjun næsta árs. Stefnumótunin byggir á ákvæði sveitarstjórnarlaga um að ráðherra leggi fram endurskoðaða stefnu í málaflokki sveitarfélaga á þriggja ára fresti. Stefnan tekur við af fyrstu stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna í landinu á næsta ári.

Stefán Vagn Stefánsson veitir starfshópnum formennsku fyrir hönd innviðaráðherra. Annar fulltrúi ráðherra í hópnum er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í Hafnarfirði. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga eru Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður sambandsins og borgarfulltrúi, og Jón Björn Hákonarson, varaformaður sambandsins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Áheyrnarfulltrúar í hópnum eru Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri sveitarfélaga og byggðamála í ráðuneytinu, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins.

Fyrsta stefna og aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum sveitarfélaganna fól m.a. í sér aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga, átak í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga, umbætur á starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og vinnu við fjármálaviðmið og endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga. Endurskoðun stefnumótunarinnar felur m.a. í sér víðtækt samráð við sveitarfélögin í landinu, íbúa og aðra hagsmunaaðila um stöðu sveitarfélaga, áskoranir og tækifæri til framtíðar. Á fyrsta fundi starfshópsins lagði innviðaráðherra áherslu á mikilvægi stefnumótunarinnar, sagðist hlakka til að taka á móti tillögum hópsins og óskaði honum velfarnaðar í vinnunni framundan.

Stefnt er að því að starfshópurinn skili tillögum til ráðherra í mars á næsta ári.

Categories
Fréttir

Farsæld barna

Deila grein

17/11/2022

Farsæld barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti nýlega áform um ný heildarlög um skólaþjónustu og í þeirri vinnu gegnir samráð við hlutaðeigandi lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur birt upptöku af öllum erindum og pallborðsumræðum á ráðstefnu um farsæla skólagöngu allra barna sem haldin var á mánudag, 14. nóvember 2022. Ráðstefnan var vel sótt með 260 ráðstefnugestum og 1.827 í streymi. 

Þeim 500 sem skráðu sig á ráðstefnuna, á staðnum og í streymi, hefur verið boðið að taka þátt í samráðshópum um mótun skólaþjónustu til framtíðar sem munu funda á næstu vikum. Áður höfðu 500 einstaklingar brugðist við auglýsingu ráðuneytisins um samráð og lýst yfir áhuga á þátttöku í samráðshópunum.

Lokaorð Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, með orðaskýi frá ráðstefnugestum í baksýn yfir þau orð sem koma í huga þegar hugsað er um farsæla skólagöngu barna

 „Menntun er algjört lykilatriði til að vera farsæll einstaklingur, alveg eins og það er mikilvægt að búa við góða velferð og fjárhagslegt öryggi,“ sagði Ásmundur í lokaorðum. „Það er það sem við erum að reyna að kalla fram með farsældarlöggjöfinni: Þú getur ekki slitið eitt frá öðru, þetta hangir allt saman á sömu spýtunni.“

Snærós Sindradóttir ráðstefnustjóri tekur við spurningum þátttakenda á Slido og beinir til pallborðs. Í því sátu frá vinstri: Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Helgi Grímsson, sviðsstjóri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri, Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs Árborgar og nýráðinn skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, og Ingvar Sigurgeirsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

Deila grein

17/11/2022

Lilja Dögg Alfreðsdóttir veitir Jónasar verðlaunin á degi íslenskrar tungu

„Í dag kynnast börn, ungmenni, nýir málhafar og aðrir um allt land deginum og tungumálinu á nýjan og ólíkan hátt. Deginum sem fagnar tungumáli okkar allra. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, hvort sem er í lestri bóka, í samfélagsumræðu, á netmiðlum eða í leik og starfi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Íslenskan er í fyrirrúmi í dag, en hún á alltaf að vera það. Við skulum fagna þessum degi saman og standa saman vörð um íslenskuna. Við skulum þróa hana saman og kætast yfir því að hún á bjarta framtíð fyrir sér ef rétt er haldið á spöðunum. Íslenskan er okkar allra. Til hamingju með daginn í dag.“

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og textasmiður, hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin eru veitt árlega, á degi íslenskrar tungu, þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu hlaut að þessu sinni verkefnið Tungumálatöfrar á Ísafirði sem býður upp á upp á málörvandi umhverfi í gegnum skapandi kennsluaðferðir fyrir fjöltyngd börn.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Bragi Valdimar Skúlason hlýtur verðlaunin í þetta skipti. Í rökstuðningi ráðgjafanefndarinnar segir:
Tungumál slitna ekki við notkun heldur styrkjast. Til þess að íslenska haldi velli þarf að pönkast í henni, leika sér með hana, snúa upp á hana og út úr henni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hlýtur að þessu sinni skáld, grínisti, auglýsingamaður og uppfræðari. Textar hans eru sungnir við brúðkaup, jarðarfarir og skírnir, kyrjaðir í tjaldútilegum og eru jafn ómissandi hluti af jólahaldi Íslendinga og ítölsk dægurlög. Hann er eftirlæti unglinga og vinnustaðagrínara, kennara og kaffibrúsakarla.

Um hann má segja að hann sé dúndur, hann sé diskó, það sé mikið í hann lagt! Verðlaunin í ár hlýtur Bragi Valdimar Skúlason sem hefur unnið markvisst að því að vekja áhuga fólks á íslenskri tungu og ræktað hana á óvenjumörgum sviðum. Hann er ekki aðeins skáld, textahöfundur og þýðandi heldur hefur hann gert vinsæla sjónvarpsþætti þar sem viðfangsefnið er tungumálið er sjálft. Að auki hefur hann lagt til efni á vef Baggalúts og unnið að auglýsingagerð.

Viðurkenning Jónasar Hallgrímssonar

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar segir um Tungumálatöfra:

„Tungumálatöfrar, Tungumálatöfrar, í takti tölum við saman,“ má heyra sungið af kór barna og fullorðinna á myndbandi sem finna má á netinu. Það var tekið upp á sumarnámskeiði fyrir börn á Ísafirði en þar saman komu krakkar á aldrinum 5–11 ára til að læra íslensku í gegnum listsköpun og leik. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 2017 og er ætlað íslenskum börnum sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börnum af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi. Börnin eiga það því sameiginlegt að vera fjöltyngd og um leið og þau eru örvuð til að nota íslensku er þeim bent á þann styrk sem felst í því að kunna fleiri tungumál en eitt. Í lok námskeiðsins hefur verið gengin tungumálaskrúðganga á Ísafirði en einnig hafa aðstandendur þess staðið fyrir málþingum. Komið hefur fram að þeir vonist eftir því að Tungumálatöfrar á Ísafirði verði uppspretta þekkingar sem geti nýst við þróun námsefnis víðar á landinu.

Viðurkenningarhafar- Tungumálatöfrar

Tungumálatöfrar hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu vegna frumkvöðlastarfs á sviði íslenskukennslu. Um leið á viðurkenningin að vera Tungumálatöfrum hvatning til frekari rannsókna og uppbyggingarstarfs.https://www.youtube.com/embed/kVShgV4e7C8

Ráðgjafanefnd Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar 2022 skipuðu Haukur Ingvarsson, formaður, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Bergljót Soffía Kristjánsdóttir.

Hlýjar móttökur í Fellaskóla

Börnin í Fellaskóla tóku á móti ráðherra og verðlaunahöfum og voru viðstödd hátíðlega athöfn í dag. Nemendur sýndu verðlaunaatriði sitt af sviðslistahátíðinni Skrekk, en þau urðu í öðru sæti á hátíðinni. 

Börnin í Fellaskóla

Í Fellaskóla hefur verið unnið að fyrirmyndarverkefninu Okkar mál-samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi.
Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti. Leiðarljósið er að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 16. nóvember 2022.

Myndir: stjornarradid.is

Categories
Greinar

Íslenskan er okkar allra

Deila grein

16/11/2022

Íslenskan er okkar allra

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind sem á stóran þátt í að móta okkar sterka samfélag. Tungumálið er tenging við söguna og mikilvægur hluti af menningarlegu fullveldi þjóðarinnar. Upp er runnin dagur íslenskrar tungu þar sem við minnum okkur á það grundvallarhlutverk sem tungumálið okkar gegnir fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili rúmum 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.

Ráðherranefnd um íslensku 

Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar. Í henni eiga fast sæti forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins. 

Áfram íslenska 

Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Sú vinna hefur grundvallast á meðal annars á þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi en hún var samþykkt á Alþingi 2019. Í kjölfarið fylgdi aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2022 undir yfirskriftinni „Áfram íslenska“.

Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Sérstakur barnabókasjóður var settur á laggirnar til þess að fjölga barnabókum á íslensku og einkareknir fjölmiðlar studdir enda gegna þeir mikilvægu hlutverki í að miðla efni á móðurmálinu.

Hugmyndir og samtakamáttur 

Á málþingi um málefni íslenskunnar í upphafi vikunnar, þar sem ráðherranefnd um íslensku var kynnt, voru stjórnvöld brýnd til áframhaldandi aðgerða í þágu íslenskunnar. Þar komu fram margar góðar hugmyndir og gagnlegar vangaveltur – meðal annars frá fulltrúum yngri kynslóða sem meðal annars töluðu ötullega fyrir bættu aðgengi að bæði mynd- og lesefni á íslensku fyrir sinn aldur og áhugasvið. Skýrt ákall mátti finna í erindum á málþinginu að huga þyrfti betur að íslenskukennslu fyrir fullorðna, þá sér í lagi talþjálfun og jafnframt auka almennt umburðarlyndi fyrir íslensku sem töluð er með hreim. Eða líkt og frú Vigdís Finnbogadóttir áréttaði í sinni hugvekju á málþinginu – við erum öll með hreim, öll tölum við tungumálið með okkar eigin blæbrigðum.

Næstu skref

Stjórnvöld eru staðráðin í að halda áfram að efla íslenskuna og verður ný þingsályktunartillaga og uppfærð aðgerðaáætlun þess efnis lögð fram á komandi vorþingi. Í þeim verður meðal annars boðað stóraukið aðgengi að íslenskukennslu fyrir útlendinga, áframhaldandi þróun máltæknilausna sem nýtast fólki á öllum aldri bæði í leik og starfi og vitundarvakning um mikilvægi þess að íslenskan verði sýnilegri í samfélaginu.

Á undanförnum vikum hafa okkur birst ýmsar fréttir um aukna samfélagsvitund í þá veru. Má þar til dæmis nefna stefnubreytingu Isavia um að merkingar í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar verði fyrst á íslensku í stað ensku og fyrirmyndar framtak sama fyrirtækis um að veita erlendu starfsfólki aðgang að íslenskukennslu á vinnutíma.

Ég hvet fólk og fyrirtæki til þess að taka virkan þátt í þessari vegferð. Það er sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags að tryggja að móðurmálið standi tímans tönn og verði á vörum okkar um aldur og ævi – því íslenskan er okkar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Vörðusteinar

Deila grein

16/11/2022

Vörðusteinar

Verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hefur reynst vel, samstarf við fagaðila heftur aukist og þolendum verið tryggð betri þjónusta. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldi enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hvern annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar og lögreglu og kerfin utan um barnið geti miðlað upplýsingum sín á milli til að grípa börnin betur í þeim aðstæðum sem þau eru því miður alltof oft sett í.

Fleiri steinar styrkja vörðuna.

Í lok síðustu viku bárust fréttir frá Heilbrigðisráðuneytinu um að unnið sé að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Markmið þeirrar vinnu er að þolendum heimilisofbeldis verði tryggð sem best þjónusta og þjónustan þróuð og efld til lengri tíma litið. Vinnan er gerð í samstarfi við embætti Landlæknis í kjölfar niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Ein tillagan var ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag. Þjónustan felur m.a. í sér þær breytingar að framvegis geti allir þeir sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar í kjölfar heimilisofbeldis fengið tilvísun til félagsráðgjafa sem hefur sérfræðiþekkingu í málaflokknum. Einnig bætist við boð um þjónustu sálfræðings. Þá er hafin vinna við að setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá sem áætlað er að verði komið inn hjá öllum heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Þar verða skráðar niðurstöður á réttarlæknisfræðilegum skoðunum á þolendum ofbeldis þegar svo ber við og framkvæmdar eru í alvarlegustu tilfellunum.

Hér er um að ræða mikilvægan stein í vörðuna og þetta ýtir áfram þingmáli sem ég lagði fram um að starfshópur yrði settur á fót sem yrði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi á milli kerfa. Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að endurskoðun fari fram á núverandi kerfum með það fyrir augum að einfalda upplýsingamiðlun milli barnaverndaryfirvalda, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda við að miðla upplýsinga milli stofnana og til lögreglu. Skoðanir og skráning áverka í heimilisofbeldismálum og skráning sönnunargagna sem fást hjá heilbrigðisyfirvöldum þurfa að fara fram með óyggjandi hætti svo þær upplýsingar séu nothæfar ef til sakamáls kemur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. nóvember 2022.