Categories
Greinar

127 milljarða sókn í mennta- og menningarmálum

Deila grein

26/10/2020

127 milljarða sókn í mennta- og menningarmálum

Heims­far­ald­ur­inn hef­ur haft veru­leg áhrif á mennta­kerfið okk­ar. Unnið er að því dag og nótt að koma skóla­starfi í sem best­an far­veg. All­ir eru að leggja sig fram um að svo megi verða sem fyrst og for­gang­ur stjórn­valda er mennt­un. Framúrsk­ar­andi mennt­un er ein meg­in­for­senda þess að Ísland verði sam­keppn­is­hæft í alþjóðleg­um sam­an­b­urði. Verðmæta­sköp­un næstu ára­tuga mun í aukn­um mæli byggj­ast á hæfni, hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un. Þær öru tækni­breyt­ing­ar sem orðið hafa síðustu ár og kennd­ar eru við fjórðu iðnbylt­ing­una munu hafa áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag og efna­hags­líf á næstu ára­tug­um. Tækni­fram­far­ir hafa vakið von­ir um að tæki­fær­um til að skapa ný og betri störf muni fjölga ört og lífs­gæði geti auk­ist á mörg­um sviðum sam­fé­lags­ins. Gjald­eyr­is­sköp­un þjóðarbús­ins hef­ur verið mikið auðlinda­drif­in. Skyn­sam­legt er að fjölga út­flutn­ings­stoðunum.

Verðmæta­sköp­un þarf í aukn­um mæli að byggj­ast á hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un til að styrkja stoðir hag­vaxt­ar til lang­frama. Mennt­un og auk­in hæfni er und­ir­staða sjálf­bærni, fram­fara og auk­inna lífs­gæða. Rík­is­stjórn sýn­ir vilja í verki í fjár­laga­frum­varp­inu og fjár­veit­ing­ar til mál­efna sem falla und­ir mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið hækka um 11% milli ára og verða 127,2 millj­arðar kr. á næsta ári.

Auk­in fjár­fest­ing í mennt­un og vís­ind­um

Um 40% af fjár­veit­ing­um ráðuneyt­is­ins renna til há­skóla­starf­semi, sem er stærsti ein­staki mála­flokk­ur ráðuneyt­is­ins. Fram­lög til há­skóla- og rann­sókn­a­starf­semi hækka um 7% milli ára, þar sem bæði er um að ræða auk­inn bein­an stuðning við skóla­starfið og fjár­veit­ing­ar til ein­stakra verk­efna. Eitt af fyr­ir­heit­um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að fram­lög til há­skóla­stigs­ins næðu meðaltali ríkja Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar. Það hef­ur tek­ist og er það fagnaðarefni.

Auk­in fram­lög í Ný­sköp­un­ar­sjóð náms­manna nema 300 millj­ón­um kr. og 159 millj­ón­ir kr. fara í fjölg­un námsplássa í hjúkr­un­ar­fræði og fagnám fyr­ir sjúkra­liða. Þá er gert ráð fyr­ir veru­lega aukn­um fjár­veit­ing­um vegna stuðnings við náms­menn, þar sem 2021 verður fyrsta heila starfs­ár nýs Mennta­sjóðs náms­manna.

Fjár­veit­ing­ar til fram­halds­skól­anna aukast um 3,6% milli ára og verða 36,2 millj­arðar kr. Fjár­fest verður í marg­vís­leg­um menntaum­bót­um sem eiga að nýt­ast öll­um skóla­stig­un­um og fram­lög í rann­sókna- og vís­inda­sjóði hækka um 67% milli ára, úr 6,2 millj­örðum kr. í 10,3 millj­arða kr.

Auk­in viður­kenn­ing á gildi menn­ing­ar

Um­svif­in á sviði menn­ing­ar­mála aukast veru­lega milli ára. Fjár­veit­ing­ar til safna­mála hækka um 11%, þá nem­ur hækk­un til menn­ing­ar­stofn­ana 9% og menn­ing­ar­sjóðir stækka einnig um 9%. Meðal ein­stakra liða má nefna 300 millj­óna kr. fjár­veit­ingu vegna hús­næðismála Nátt­úru­m­inja­safns Íslands, 200 millj­ón­ir kr. til und­ir­bún­ings vís­inda- og upp­lif­un­ar­sýn­ing­ar fyr­ir börn og ung­menni og 225 millj­óna kr. aukn­ingu vegna tíma­bund­inn­ar fjölg­un­ar lista­manna­launa. Þessi tíma­bund­in hækk­un er ígildi auka­út­hlut­un­ar um 550 mánuði sem kem­ur til viðbót­ar við 1.600 mánuði sem al­mennt er út­hlutað skv. lög­um. Eyrna­merkt fjár­magn vegna lista­manna­launa verður því 905,6 millj­ón­ir kr. á næsta ári sam­kvæmt frum­varp­inu. Þá eru 550 millj­ón­ir kr. eyrna­merkt­ar mark­miðum og aðgerðum í nýrri kvik­mynda­stefnu sem kynnt verður á næstu dög­um.

Áfram er haldið að efla bóka­safna­sjóð höf­unda, sem greiðir höf­unda­rétt­höf­um fyr­ir af­not verka sinna, og eru fjár­heim­ild­ir hans aukn­ar um 75 millj­ón­ir kr. Þá er ráðgert að verja 25 millj­ón­um kr. til að efla starf­semi bóka­safna, og rann­sókn­ir og þró­un­ar- og sam­starfs­verk­efni á sviði bóka­safna- og upp­lýs­inga­mála. Á ár­inu 2021 verður unnið að aðgerðaáætl­un nýrr­ar menn­ing­ar­stefnu. Ég von­ast til þess að hún verði hvatn­ing og inn­blást­ur til þeirra fjöl­mörgu sem vinna á sviði ís­lenskr­ar menn­ing­ar til að halda áfram sínu góða starfi.

Fjár­laga­frum­varpið í ár sýn­ir glögg­lega mik­il­vægi mennta- og menn­ing­ar og hvernig er for­gangsraðað í þágu þessa. Hug­verka­drifið hag­kerfi reiðir sig á framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Við erum að fjár­festa í framtíðinni með því að for­gangsraða í þágu mennt­un­ar. Mennt­un er eitt mesta hreyfiaflið fyr­ir ein­stak­linga, þar sem tæki­fær­in verða til í gegn­um mennta­kerfið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2020.

Categories
Fréttir

Sveitarfélögin eru ekki að sækja í lánasjóð sveitarfélaga

Deila grein

23/10/2020

Sveitarfélögin eru ekki að sækja í lánasjóð sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði nálgun Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns, vera mjög ómálefnalega þegar hann segði að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að stefna sveitarfélögunum í einhvern vanda, þegar allir vita við hvað sé að fást í þessu samfélagi, sem er heimsfaraldur, Covid. Þetta koma fram í óundirfyrirspurnum á Alþingi í dag.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, spurði Sigurð Inga hvernig það megi vera að hann hafi varið jafn glæfralega og ábyrgðarlausa stefnu gagnvart sveitarfélögum landsins. Þingmaðurinn sagði stöðu sveitarfélaga geta orðið alvarlega ef stefna ríkisstjórnarinnar næði fram að ganga. Vitnaði hann til þess að rekstur sveitarfélaga hafi ekki verið losaralegur á undanförnum árum og það samkvæmt mati aðalhagfræðings Kviku. Sveitarfélögin hafi skilað álíka rekstrarjöfnuði og ríkissjóður ef frá eru taldar einskiptistekjur ríkissjóðs vegna slitabúa föllnu bankanna.

„Það er markmið stjórnvalda að gefa í upp úr niðursveiflunni, að koma með innspýtingu og drífa allt af stað aftur,“ sagði þingmaðurinn og í framhaldi, „en á sama tíma sýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sveitarfélaga verður langt undir sögulegu meðaltali. Niðurstaðan er að þótt fjárfestingar ríkisins tvöfaldist á næsta ári miðað við árið 2019 minnkar fjárfesting bæði sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja“.

Sigurður Ingi sagði fullyrðingar þingmannsins um að hér væru öll sveitarfélög vel rekin ekki vera rétta, heldur standi sveitarfélögin mjög misjafnlega. „Sum sveitarfélög gætu staðið sig mun betur og jafnvel stærsta sveitarfélag landsins sem ætti þó að hafa mestu hagræðingarmöguleikana í krafti stærðar,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við, „margt bendir til þess að ef það sveitarfélag eitt og sér þarf að treysta á byggingarréttartekjur til þess að vera í plús þá sé eitthvað verulega að í þeim rekstri“.

Sagðist Sigurður Ingi vera tilbúin í umræðu hvernig megi auka opinberar fjárfestingar, á málefnalegan hátt. „Við gætum aukið þær og að því hefur ríkisstjórnin stefnt. Ég veit að slíkur áhugi er til staðar, ég heyri það alla vega hjá einstökum þingmönnum fjárlaganefndar,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að hvetja eigi til fjárfestinga sveitarfélaganna og sagði ekki rétt að þau geti ekki nálgast lánsfé.

„Það eru 75 milljarðar í lánasjóði sveitarfélaga á mjög góðum kjörum sem sveitarfélögin geta sótt í en sækja ekki í,“ sagði Sigurður Ingi.

Categories
Greinar

Meira en bara lífstíll

Deila grein

23/10/2020

Meira en bara lífstíll

Fyrstu helgina í október kom ungt Framsóknarfólk saman í Reykjavík og hélt sitt árlega sambandsþing. Á þinginu var rætt um allt milli himins og jarðar en þó mest um stjórnmál. Eitt sem stóð þar upp úr var umræða um störf núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar. Greinilegt var að mikil óánægja var í hópnum vegna starfa hans og þegar fram kom tillaga að lýsa yfir vantrausti á ráðherrann var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ungu Framsóknarfólki finnst að málaflokkur landbúnaðar hafi verið afskiptur í of langan tíma og það sé farið að hafa mikil áhrif á framtíðarsýn í íslenskum landbúnaði. Það kom bersýnilega fram aðeins tveimur dögum seinna en þá lét ráðherrann þessi ummæli falla í ræðustól á Alþingi, þegar hann var spurður út í tækifæri og frelsi bænda: „Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtal við þá þar sem þeir segja að þetta sé meiri lífsstíll en spurning um afkomu.“

Ummæli hans um að bændur teldu sauðfjárbúskap frekar vera lífsstíl heldur en spurning um afkomu vakti athygli fólks um allt land. Rík ástæða er til þess að hafa áhyggjur af stöðu landbúnaðar á Íslandi þegar að ráðherra lætur slík orð falla í ræðustól Alþingis. Það er því kannski ekki nema von að maður velti því upp hvort að bændur, í samtölum sínum við ráðherrann, hafi ekki einmitt verið að nota þetta orðalag til að reyna að fá ráðherra til að átta sig á þeirri slæmu stöðu sem íslenskur landbúnaður er kominn í. Fólk sem starfar í landbúnaði á ekki að hafa það á tilfinningunni að þetta sé aukavinna.

Sérstakt ráðuneyti landbúnaðar

Stjórn SUF vill að aftur verði komið á fót sérstöku landbúnaðarráðuneyti. Síðastliðin ár hefur landbúnaður á Íslandi átt undir högg að sækja vegna aukins innflutnings, tollasvindla og áhuga-, eftirlits- og afskiptaleysis ráðherra.

Þegar rýnt er í innflutning á matvælum síðastliðin ár vakna upp margar spurningar. Sérstaklega er hægt að velta því fyrir sér hvort að nú sé kominn nýr Messías sem vinnur við innflutning, nema í staðinn fyrir að breyta vatni í vín þá breytir hann mjólk í jurt, eins og gerist við þá osta sem ferðast yfir Atlantshafið. Það sama má segja um kjötið sem flutt er til landsins, en stór hluti af því virðist hverfa á leiðinni yfir Atlantshafið þegar innflutningstölur milli Íslands og Evrópu eru bornar saman.

Íslenskur landbúnaður hefur frábær tækifæri til þess að vera í fyrsta flokki á nær öllum sviðum. Landbúnaður, sjávarútvegur, ferðamál, iðnaður og nýsköpun eru nú öll sett undir sama ráðuneytið og hefur sú sambúð gengið misvel. Öll málin skipta íslenskt samfélag gríðarlega miklu máli en það standa sterk rök fyrir sérstöku ráðuneyti landbúnaðarmála. Í ráðuneytinu starfar enginn með sérfræðimenntun á sviði landbúnaðarmála og stofnanir sem áður heyrðu undir landbúnaðarráðuneytið eru nú komnar í önnur ráðuneyti, eins og Landgræðsla ríkisins og Skógræktin. Eflaust gæti verið að fólk telji mikilvægi sérstaks landbúnaðarráðuneytis ekki vera það sama og fyrrum, þar sem mun færri starfa í þeim geira en áður vegna aukinnar tækniþróunar en mikilvægi landbúnaðar hefur ekki minnkað.

Einangrun Íslands hefur þau áhrif að sjúkdómsstaða landsins er mjög góð, lyfjanotkun í landbúnaði er ein sú minnsta í heiminum og tækifæri til nýsköpunar mikil. En einangrunin hefur líka þau áhrif að það er ákveðin sóun fólgin í að flytja inn matvæli langar leiðir sem gætu auðveldlega, og eru jafnvel, framleidd við kjöraðstæður á Íslandi.

Einnig virðist oft gleymast í umræðunni hvað það er sem landbúnaður raunverulega færir okkur. Án landbúnaðar væri daglegt líf okkar mjög dauft og heldur næringarsnautt. Við vöknum á morgnana og gerum hafragrautinn hálfsofandi, förum í vinnuna og grípum okkur salat í hádeginu, stökkvum í bakaríið í kaffinu og grillum kjöt og grænmeti á kvöldin með bjór í hendinni. Allar máltíðir okkar yfir daginn eru komnar frá þeim sem búa matvælin til.

Fæðuöryggi á Íslandi hefur verið gott. Það getur þó fljótt orðið að viðkvæmri stöðu. Til dæmis hefur innflutningur aukist á vörum sem hægt er að fá á Íslandi sem hefur orðið til þess að sumir bændur hafa hætt störfum. Síðan eru matvörurnar illa merktar í verslunum og erfitt fyrir neytanda að taka upplýsta ákvörðun um vörurnar sem hann kaupir. Merkingar í veitingaþjónustu eru enn verri. Dæmi er um drykki sem eru auglýstir sem íslensk vara en í þeim tilvikum er pakkningin íslensk en innihaldið erlent. Innfluttu vörurnar eru oft ódýrari vegna meiri sýklalyfjanotkunar, ódýrara vinnuafls og í sumum tilvikum eru ekki gerðar sömu gæðakröfur.

Hvað ef öll landamæri lokast?

Áhrif heimfaraldurs COVID-19 sýna það glöggt að það getur tekið örstutta stund að loka löndum heimsins. Þrátt fyrir að ákvörðun hafi verið tekin um að leyfa vöruflutninga milli landa þegar landamæri voru lokuð hefði einnig verið möguleiki á því að innflutningur til landsins hefði stöðvast algjörlega. Þá hefðu Íslendingar þurft að reiða sig alfarið á íslenskar vörur. Við þurfum að vera með tryggar undirstöður. Íslenskur landbúnaður er ein mikilvægasta stoð samfélagsins en svo virðist sem það hafi gleymst á nokkrum stöðum í stjórnsýslunni.

Ungt fólk á að sjá tækifæri í því að starfa í landbúnaði og eiga möguleika á því að prófa sig áfram án þess að steypa sér í of miklar skuldir. Enn fremur á fólk skilið virðingu fyrir þá vinnu sem þau leggja í að tryggja að nóg sé til af heilnæmum mat í landinu fyrir sig og samlanda sína. Nú er ár í kosningar. Ég vona að sú ríkisstjórn, sem tekur við, sýni það í verki að þau hafi framtíðarsýn og áhuga á landbúnaði og gefi þeirri atvinnugrein möguleika á að blómstra

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. október 2020.

Categories
Greinar

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Deila grein

22/10/2020

Rann­saka þarf inn­flutning land­búnaðar­vara

Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd hefur fjallað um misræmi í tölum ESB um útflutning á landbúnaðarvörum til Íslands og innflutningstölum Hagstofu Íslands á tveimur fundum, að frumkvæði þingmanna Framsóknarflokksins. Undirrituð situr í nefndinni fyrir hönd Framsóknarflokks og er verulega umhugað um þessi mál.

Umfjöllun nefndarinnar hefur nú þegar sýnt fram á að það þarf að bæta verklag við tollafgreiðslu matvöru, það þarf að yfirfara alla tollskrána fyrir matvæli og gæta betur að samræmi við alþjóðatollskrá því það er allra hagur að tollflokkun sé rétt. Allir tollasamningar byggja á því að alþjóðleg tollskrá tryggi samræmi milli landa. Það ætti því ekki að vera flókið að bæta verklag. Nefndin mun halda áfram umfjöllun um málið og kalla eftir frekari upplýsingum frá tollayfirvöldum um verklag og framkvæmd.

Ostur tollaður sem jurtaostur

Nefndinni barst minnisblað frá Bændasamtökum Íslands, þar kemur fram að árið 2019 hafi verið flutt inn mikið af jurtaosti og grunsemdir vöknuðu um að það væri vara þar sem uppistaðan væri mozarella ostur úr kúamjólk. Bændasamtök Íslands hafa snúið sér til fjármálaráðuneytisins sem nú hefur brugðist við. Fram til þessa hefur þessi ostur verið fluttur inn án tolla, en fjármálaráðuneytið hefur nú tekið af allan vafa um að ostur af þessu tagi fellur í tollflokk sem ber toll hér á landi.

Árið 2019 nam innflutningur á þessum osti 299 tonnum, til framleiðslunnar þarf um 3.000.000 lítra af mjólk en það svarar til ársframleiðslu 8-10 íslenskra kúabúa. Tollur af þessum osti gæti numið 200- 300 milljón kr. það árið þ.e. tekjur sem ættu að renna í ríkissjóð. Það hefur líka komið fram að yfirvöld tollamála hafa heimild til endurákvörðunar tolla allt að 6 ár aftur í tímann ef vara reynist hafa verið ranglega afgreidd. Ekki hefur verið staðfest hvað veldur þessu misræmi.

Yfirvöld tollamála þurfa að bregðast við

Skýringar geta vissulega legið í ýmsu, en ég legg mikla áherslu á yfirvöld tollamála bregðist við, rannsaki málin aftur í tímann og tryggi að hér eftir verði þessi ostur og önnur matvara sem flutt er til Íslands flokkuð í réttan tollflokk í samræmi við alþjóðlega tollskrá. Það verður að bregðast hratt við.

Áfram veginn og veljum íslenskt.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. október 2020.

Categories
Greinar

Skapandi þjóð

Deila grein

20/10/2020

Skapandi þjóð

Við þurf­um að skara fram úr. Vel­meg­un og ör­yggi okk­ar þjóðar ræðst af getu okk­ar til að keppa við aðrar þjóðir um lífs­gæði. Við þurf­um að setja markið hátt og vera reiðubú­in að keppa við þá sem lengst hafa náð. Slíkt ger­ist ekki sjálf­krafa, en með hug­rekki, hug­vit og þraut­seigju að vopni get­um við keppt við þróuðustu hag­kerfi heims­ins.

Við tök­umst nú á við eina al­var­leg­ustu efna­hagskreppu nú­tíma­sög­unn­ar. Í kjöl­far heims­far­ald­urs standa þjóðir heims frammi fyr­ir mikl­um þreng­ing­um og er Ísland þar eng­in und­an­tekn­ing. Ábyrgðar­hlut­verk stjórn­valda er stórt og okk­ur ber að grípa til marg­háttaðra varn­araðgerða til að vernda heim­ili og at­vinnu­líf fyr­ir verstu áhrif­um krepp­unn­ar. Við eig­um þó ekki að gleyma okk­ur í vörn­inni held­ur þora að sækja fram. Mark­viss efl­ing hug­vits, tækni og skap­andi greina get­ur leikið stórt hlut­verk í þeim efn­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un og fjár­laga­frum­varpið bera þess skýr merki.

Við þurf­um ekki að líta langt, því bestu tæki­fær­in búa í okk­ur sjálf­um! Við höf­um byggt upp at­vinnu­líf á auðlind­um ís­lenskr­ar nátt­úru; fiski­miðum, fall­vötn­um og feg­urð lands­ins. Við höf­um líka litið til okk­ar sjálfra, en þurf­um að gera meira því tæki­færi framtíðar­inn­ar liggja ekki síst í menn­ing­unni sem hér hef­ur þró­ast.

Þar geta runnið sam­an sterk­ir alþjóðleg­ir straum­ar og sérstaða Íslands og þegar er haf­in vinna við efl­ingu skap­andi greina; þar sem menn­ing, list­ir, hug­vit og iðnaður renna sam­an í eitt. Skap­andi grein­ar eru þannig svar við áskor­un­um og tæki­fær­um sem fylgja fjórðu iðnbylt­ing­unni, þar sem skil milli efn­is­legra, sta­f­rænna og líf­fræðilegra kerfa mást út. Sjálf­virkni­væðing og marg­vís­leg há­tækni sýna okk­ur eina hlið á nýj­um veru­leika. Þar verða tæki­fær­in best nýtt með sköp­un­ar­gáfu, gagn­rýnni hugs­un og getu til að horfa á hlut­ina með nýj­um hætti.

Við nýt­um nú þegar þá miklu auðlind sem er að finna í kraft­miklu menn­ing­ar- og list­a­lífi. Sú auðlind skil­ar nú þegar mikl­um efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu. Þessi öfl­uga at­vinnu­grein veit­ir ekki aðeins tæp­lega 8% vinnu­afls­ins beina at­vinnu, held­ur hef­ur rík áhrif á ferðaþjón­ustu og fleiri at­vinnu­grein­ar. Skap­andi grein­ar eru sveigj­an­legri og vaxa hraðar en aðrar at­vinnu­grein­ar, en til að stand­ast sam­keppni við aðrar þjóðir þurf­um við að greiða leið frum­kvöðla og skap­andi fyr­ir­tækja með hvetj­andi aðgerðum.

Mik­il tæki­færi eru til vaxt­ar á öll­um sviðum hug­vits­drif­inna at­vinnu­greina á Íslandi. Ný kvik­mynda­stefna sem lögð var fram fyr­ir fáum dög­um er dæmi um þær aðgerðir sem op­in­ber­ir aðilar þurfa að grípa til ef við ætl­um að nýta okk­ur tæki­færi framtíðar­inn­ar. Aðrar grein­ar eins og leikja­fram­leiðsla, tón­list­ariðnaður, hönn­un og arki­tekt­úr, mynd­list, bók­mennt­ir og sviðslist­ir þarf að styðja með lík­um hætti með því að tryggja þeim bestu mögu­legu skil­yrði til að blómstra í þágu okk­ar allra.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. október 2020.

Categories
Greinar

Hlut­deildar­lán auð­velda ein­stak­lingum að eignast sína fyrstu íbúð

Deila grein

19/10/2020

Hlut­deildar­lán auð­velda ein­stak­lingum að eignast sína fyrstu íbúð

Frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán, sem samþykkt var á Alþingi í byrjun september, mun auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hér er um að ræða mikilvæga aðgerð í því verkefni að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á íbúðamarkaðinn. Hlutdeildarlánin eru ólík þeim hefðbundnu fasteignalánum sem við flest þekkjum, að því leyti að nú lánar ríkið ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem tekju- og eignalitlir fyrstu kaupendur hyggjast kaupa. Lántakendur munu síðan endurgreiða lánið þegar íbúðin er seld og er hámarkstími lánanna 25 ár. Lánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og mun hækka og lækka í samræmi við þá þróun.

Hafnarfjörður hefur strax brugðist við

Nokkur umræða hefur skapast um ströng skilyrði varðandi verð og stærð íbúða. Í umræðunni hafa skapast áhyggjur af því að vegna markaðsaðstæðna muni fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið. Nýlega var tekin skóflustunga fyrir 65 nýjar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í Gufunesi. Ráðherra hefur sagt það skýrt að bæði sveitarfélög og verktakar þurfi að bregðast við frumvarpinu um hlutdeildarlán með auknu framboði lóða og íbúða. Við finnum strax fyrir því að framsýnir verktakar hafa brugðist við með mjög jákvæðum hætti og það sama gildir um skipulagsyfirvöld hér í Hafnarfirði. Nú þegar hefur verið samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að ráðast í aðalskipulagsbreytingu á svæði sem getur vel svarað þessu ákalli og þörf fyrir litlar, góðar og ódýrar eignir. Sú vinna mun halda áfram á næstu vikum og mánuðum.

Við erum sterkari saman

Það er alveg ljóst í mínum huga að með þessari aðgerð og þessari tegund lána, hlutdeildarlána, er verið að gera tekjulágum einstaklingum og þeim einstaklingum sem jafnvel hafa verið fastir á leigumarkaði mögulegt að eignast sína fyrstu íbúð. Líkt og fram hefur komið er verið að bregðast við og lækka þröskuld þess hóps sem hefur verið að greiða leigu en lítið náð að leggja til hliðar og jafnvel þurft að treysta á öflugt bakland sem í flestum tilfellum er ekki til staðar. Það er því sérstaklega mikilvægt að við séum öll saman í þessum báti og að við séum öll að róa í sömu átt. Ríkið hefur nú stigið þetta myndarlega fyrsta skref með því að setja fjögur þúsund milljónir árlega í þessa aðgerð. Fordæmi annarra landa ásamt því sem er að gerast í Gufunesi sýna, svo ekki verði um villst, að þetta er vel hægt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2020.

Categories
Greinar

Braggamál í Borgarbyggð

Deila grein

19/10/2020

Braggamál í Borgarbyggð

Meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri-grænna í Borgarbyggð er farinn að minna um margt á borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík. Stjórnun og ábyrgð í stjórnsýslunni er aukaatriði nema þegar um að er ræða mál sem henta meirihlutanum. Það fer mikill tími í að móta stefnur, búa til ferla, halda fundi og gera úttektir á hinu og þessu. Þessar úttektir og innri skoðun ásamt ferlum og stefnum virðast hins vegar ekki pappírsins virði. Mál enda út og suður og svo norður og niður eins og dæmið sem farið er yfir hér á eftir sýnir. Ryki er kastað í augu íbúa með því að vitna í stefnur og ferla en staðreyndin er sú að það stendur ekki steinn yfir steini. Jón og séra Jón er orðatiltæki sem á vel við hjá þessum meirihluta.

27 milljóna lóðahönnunarbíó

Eitt nærtækasta dæmið er hönnun leiksvæða við skólahúsnæði sveitarfélagsins. Þar má sjá framúrkeyrslur á framúrkeyrslur ofan. Hönnunarkostnaður við útisvæði grunnskólans í Borgarnesi er kominn í rúmlega 15,3 milljónir króna. Já, þið lásuð rétt; 15,3 milljónir króna. Þetta er bara kostnaður við hönnun útisvæðis. Inn í þessari tölu er hvorki efni, vinna eða tæki. Bara teikningar á blaði og ekki nóg með það heldur afhenti meirihlutinn þetta allt til hönnunaraðila án útboðs eða verðkönnunar þrátt fyrir að byggingarnefnd skólans hafi ákveðið og bókað að slíkt ferli yrði viðhaft. Sem er líka lögbrot þar sem samkvæmt innkaupareglum sveitarfélagsins á að bjóða öll þjónustukaup út sem fara yfir 10 milljónir króna. Til vara er hægt að gera formlegar verðkannanir með forvali. Þetta er ekki allt og bíóið heldur áfram. Á Kleppjárnsreykjum er verið að byggja 30 barna leikskóla sem þörf var á fyrir okkur íbúa uppsveitanna. En þar eins og í Borgarnesi þarf leiksvæði fyrir börnin og það þarf að sjálfsögðu að vera vandað. En er það virkilega þess virði að hanna leiksvæði þar sem kostnaðurinn við einungis hönnunina er kominn í 11,8 milljónir króna? Aftur eins og í Borgarnesi er ekki neitt efni, vinna eða tæki inn í þessari tölu. En eins og þetta sé ekki nóg þá átti nú heldur betur að vanda til verka uppi á Kleppjárnsreykjum og sleppa við framúrkeyrslu eins og áttu sér stað í kringum alla framkvæmd Grunnskólans í Borgarnesi og samið var við arkitekt um alla hönnunarvinnu leiksvæðisins. Samningurinn var undirritaður í nóvember 2018 og hljóðaði uppá 2 milljónir króna! Hvað gerðist?  Þetta er bara hönnun, nú má ekki misskilja mig á þann veg að mér finnist ekki mikilvægt að hafa fallega hönnuð svæði við menntastofnanir sveitarfélagsins en fyrr má nú vera. Til að setja málið í samhengi við eitthvað sem að við öll þekkjum þá var kostnaður per. íbúa (1. jan. 2020) í Reykjavík vegna Braggamálsins 3.164 kr. en lóðahönnunarfíaskóið í Borgarbyggð er nú þegar búið að kosta hvern íbúa sveitarfélagsins (1. jan. 2020) 7.009 kr. og er þeirri hönnun ekki allri lokið enn. Braggamálið í Reykjavík var gott dæmi um stórkostlega óstjórn, en það er nú sennilega barnaleikur miðað við framúrkeyrsluna í þeim verkefnum sem meirihlutinn hefur farið af stað með í Borgarbyggð. Hönnun leiksvæðis á Kleppjárnsreykjum er komin 490% fram úr áætlun og í Borgarnesi 337% fram úr áætlun. En Bragginn frægi í Reykjavík fór einungis um 160% fram úr áætlun.

Slönguspil í boði meirihlutans

Erfiðir tímar eru framundan í rekstri Borgarbyggðar og er meirhlutinn eins og vant er á hröðu undanhaldi frá raunveruleikanum og staðreyndum um rekstur. Ekki á að skera niður í rekstri eða staldra við í framkvæmdagleðinni og draga andann djúpt og átta sig betur á hvaða afleiðingar þessi tekjumissir sem hefur orðið af völdum Covid-19 muni hafa á fjárfestingagetu sveitarfélagsins, heldur á að taka lán ofan á lán til þess að borga óráðsíuna. Hvernig á svo að borga af þeim lánum? Á kannski bara að setja okkur í þá stöðu að neyðast til þess að hækka álögur á íbúa enn frekar? Loksins þegar búið var að ná tökum á rekstri Borgarbyggðar sem hófst með vegferðinni „Brúin til framtíðar“ árið 2014 og búið var að greiða niður mikið af skuldum þá er eins og setja eigi fólk aftur á byrjunarreit. Þetta er eins og að vera að koma í mark í slönguspili en lenda á næstsíðasta reit á slöngunni og fljúga aftur niður á upphafsreit. Það er allavega morgunljóst að það er íbúum Borgarbyggðar fyrir bestu að núverandi meirihluti láti það bara vera að framkvæma meira. Meirihlutinn virðist bara ekki hafa yfirsýn yfir verkefnin sem hann fer í og kostnaðurinn fer ekki bara út og suður heldur líka norður og niður, eins og sést glögglega á þessum hönnunarkostnaði og það væri óskandi að þetta væri það versta en því fer fjarri, yfirferð á öðrum framkvæmdum sveitarfélagsins bíður betri tíma.

Davíð Sigurðsson, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 19. október 2020.

Categories
Greinar

Verðmæti menningar og lista er mikið

Deila grein

18/10/2020

Verðmæti menningar og lista er mikið

Heims­byggðin hef­ur ekki tek­ist á við sam­bæri­leg­an far­ald­ur og kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn í heila öld. Viðbrögð til þess að hefta út­breiðslu far­ald­urs­ins eiga sér ekki sam­svör­un og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru tald­ar verða meiri en sést hafa frá krepp­unni miklu sem hófst árið 1929.

Far­ald­ur­inn hef­ur mis­mun­andi áhrif á þjóðfé­lags­hópa og ljóst er að menn­ing og list­ir munu koma sér­stak­lega illa und­an þess­um óvissu­tím­um. Sam­komu­bönn og tak­mark­an­ir setja þess­um grein­um mikl­ar skorður og því eru tekju­mögu­leik­ar nær eng­ir.

Sam­kvæmt gögn­um Banda­lags há­skóla­manna frá því í júlí hef­ur at­vinnu­leysi auk­ist mikið inn­an aðild­ar­fé­laga banda­lags­ins í list- og menn­ing­ar­grein­um. Sé horft til hlut­falls bótaþega af heild­ar­fjölda fé­lags­manna má sjá að um­sókn­ir hafa átt­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra hljómlist­ar­manna, þre­fald­ast inn­an Fé­lags ís­lenskra leik­stjóra og fer­fald­ast í Leik­ara­fé­lagi Íslands. Þá sýna gögn BHM og Vinnu­mála­stofn­un­ar að fjöldi at­vinnu­lausra ein­stak­linga með list­mennt­un á há­skóla­stigi hafi auk­ist um 164% milli ára, og sé því um 30% meira en á at­vinnu­markaðnum í heild.

Niður­stöður úr könn­un­inni benda til þess að ein­ung­is einn af hverj­um fjór­um hafi fengið úrræði sinna mála þrátt fyr­ir mik­inn tekju­sam­drátt. Ástæður þessa eru marg­vís­leg­ar, en helst má nefna mikl­ar tekju­sveifl­ur hóps­ins í hefðbundnu ár­ferði og hindr­an­ir sem hóp­ur­inn hef­ur mætt sök­um sam­setts rekstr­ar­forms.

Stærst­ur hluti menn­ing­ar- og list­greina á Íslandi sam­an­stend­ur af minni fyr­ir­tækj­um og sjálf­stætt starf­andi lista­mönn­um. Því þurfti að finna leiðir til að mæta þess­um hópi. Ákveðið var að fara í tíu aðgerðir, sem eru bæði um­fangs­mikl­ar og fjölþætt­ar. Það sem veg­ur þyngst í þeim aðgerðum eru tekju­falls­styrk­ir sem ein­yrkj­ar og smærri rekstr­araðilar munu geta sótt um. Ráðgert er að heild­ar­fjármun­ir sem varið verður til al­menns tekju­fallsstuðnings stjórn­valda geti numið rúm­um 14 millj­örðum kr.

Aðgerðirn­ar tíu sem voru kynnt­ar í gær eru afrakst­ur vinnu sam­ráðshóps sem sett­ur var á lagg­irn­ar í ág­úst. Ég vil þakka BHM, Banda­lagi ís­lenskra lista­manna, ÚTÓN, fé­lags­málaráðuneyt­inu og Vinnu­mála­stofn­un fyr­ir þeirra fram­lag.

Öflugt menn­ing­ar­líf hef­ur ein­kennt ís­lenska þjóð frá upp­hafi. Við erum söngva-, sagna- og bókaþjóð. List­sköp­un Íslend­inga hef­ur ít­rekað vakið at­hygli á alþjóðleg­um vett­vangi. Ég tel að við get­um öll verið stolt af aðgerðum okk­ar í þágu menn­ing­ar og lista, enda vit­um við að efna­hags­leg og fé­lags­leg áhrif af lömuðu menn­ing­ar­lífi mun kosta sam­fé­lagið marg­falt meira, til framtíðar litið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. október 2020.

Categories
Greinar

Styrkjum stöðu aldraðra og drögum úr einmanaleika

Deila grein

16/10/2020

Styrkjum stöðu aldraðra og drögum úr einmanaleika

Frá upp­hafi Covid-19-far­ald­urs­ins hef ég og starfs­fólk fé­lags­málaráðuneyt­is­ins lagt áherslu á að styðja við ýmsa viðkvæma hópa, en það eru þeir hóp­ar sem verða fyr­ir hvað mest­um áhrif­um af far­aldr­in­um. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að við verðum að hafa þessa hópa áfram í for­gangi og við vilj­um alls ekki að þeir þurfi aft­ur að loka sig af til lengri tíma með til­heyr­andi áhrif­um á and­lega líðan.

Und­an­farið höf­um við í fé­lags­málaráðuneyt­inu styrkt fjöl­mörg verk­efni sem miðast að því að vinna gegn fé­lags­legri ein­angr­un og ein­mana­leika aldraðra. Ein­mana­leiki og fé­lags­leg ein­angr­un er al­geng hjá öldruðum og er styrkj­un­um ætlað að bregðast við þeirri stöðu og styðja við fjölþætt­ar aðgerðir til að draga úr fé­lags­legri ein­angr­un og ein­mana­leika þessa hóps. Aðgerðunum er bæði ætlað að bregðast við þeim áhrif­um sem Covid-19-far­ald­ur­inn hef­ur haft á hóp­inn en einnig að styrkja stöðu aldraðra og draga úr ein­mana­leika til lengri tíma.

Meðal verk­efna sem við höf­um stutt má nefna styrki til sveit­ar­fé­laga lands­ins til að efla fé­lags­starf full­orðinna í sum­ar vegna Covid-19. Rík­is­stjórn­in ákvað að verja um 75 millj­ón­um króna í átaks­verk­efni til að efla fé­lags­starf full­orðinna í sum­ar en marg­ir aldraðir hafa upp­lifað mikla fé­lags­lega ein­angr­un í far­aldr­in­um. Það er mik­il­vægt að sporna gegn því með því að bjóða upp á frí­stundaiðkun, geðrækt og hreyf­ingu meðal ann­ars og hvatti ég sveit­ar­fé­lög­in sér­stak­lega til að efla fé­lags­starf full­orðinna enn frek­ar í sum­ar.

Rauði kross­inn á Íslandi hlaut styrk til að efla hjálp­arsím­ann og net­spjall 1717, en þau gegna mik­il­vægu hlut­verki við að veita virka hlust­un og ráðgjöf um sam­fé­lags­leg úrræði til fólks á öll­um aldri sem þarf á stuðningi að halda og sér­stak­lega á tím­um sem þess­um. Alzheimer­sam­tök­in hlutu styrk til þess að geta brugðist við auknu álagi í þjón­ustu sam­tak­anna við viðkvæma hópa sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um vegna Covid-19. Sam­tök­in fengu einnig styrk vegna verk­efn­is­ins Styðjandi sam­fé­lag, þar sem mark­miðið er að gera fólki með heila­bil­un kleift að lifa í sam­fé­lagi sem skil­ur aðstæður þess, mæt­ir því af virðingu og aðstoðar eft­ir þörf­um.

Þá hlaut Lands­sam­band eldri borg­ara fjár­fram­lag sem ann­ars veg­ar er ætlað að styrkja sam­tök­in í því að bregðast við auknu álagi í þjón­ustu við viðkvæma hópa sem far­ald­ur­inn hef­ur haft áhrif á og berj­ast gegn ein­mana­leika og ein­angr­un eldri borg­ara. Hins veg­ar fengu sam­tök­in styrk í tengsl­um við gerð upp­lýs­ingasíðu fyr­ir eldri borg­ara. Verk­efnið Ald­ur er bara tala hlaut styrk, en það miðar að því að opna upp­lýs­inga­veitu á vefn­um þar sem stefnt er að því að ná til fólks sem er eldra en 60 ára auk starfs­fólks í öldrun­arþjón­ustu. Er vef­ur­inn liður í því að inn­leiða vel­ferðar­tækni bet­ur inn í þjón­ustu við elstu ald­urs­hóp­ana.

Aldraðir og aðrir viðkvæm­ir hóp­ar upp­lifa marg­ir hverj­ir mikla fé­lags­lega ein­angr­un og Covid-19-far­ald­ur­inn hef­ur aukið fé­lags­lega ein­angr­un þess­ara hópa. Það er því gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir okk­ur sem sam­fé­lag að styðja við fjöl­breytt­ar aðgerðir til þess að vega á móti ein­mana­leika og fé­lags­legri ein­angr­un og það er ánægju­legt að fá að styðja við bakið á fjöl­mörg­um góðum verk­efn­um sem gera ná­kvæm­lega það. Þær ákv­arðanir sem við tök­um til að bregðast við far­aldr­in­um verða alltaf að miðast að því að vernda viðkvæma hópa í sam­fé­lag­inu. Annað er ekki í boði að mínu mati.

Ásmundur Einar Daðason, fé­lags- og barna­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2020.

Categories
Greinar

Með ást og kærleik

Deila grein

16/10/2020

Með ást og kærleik

Í þessu því ólíkindina ástandi sem nú ríkir hefur Þríeykið okkar sinnt sínu starfi af kærleik og trausti og hefur gert í marga mánuði. Hálft ár í hringiðju heimsfaraldurs er farið að taka á. Því skiptir traustið miklu máli, hvernig skilaboðunum er komið á framfæri og hvernig við tölum hvert við annað. Traust er byggt upp meðal annars á kærleik og umhyggju.

Ástarvika

Nú stendur yfir ástarvika í Bolungarvík, ein vika á ári sem áhersla er lögð á kærleik og ást. Þessi vika hefur átt sér stað og stund í Bolungarvík síðan árið 2004. Hún byggir á hugmynd sem kemur frá Soffíu Vagnsdóttur. Í gegnum árin hefur þessari viku fylgt menningardagskrá með tónleikum, ljóðalestri og góðum mat því það er svo auðveld leið að flytja kærleik áfram með þeim hætti. Markmiðið með því að leggja áherslu á kærleikann í eina viku er einfalt og því auðvelt að tileinka sér það.

Ástarvikan ætti að vera haldin á landsvísu á þessum skrýtnu tímum. Það er nefnilega hægt að sýna fólki kærleika þrátt fyrir að það standi að lágmarki í tveggja metra fjarlægð því hann á sér ekki landamæri.

Hamingjunefnd

Í Skútustaðahreppi við Mývatn starfar hamingjunefnd á vegum sveitarfélagsins, nefnd sem sveitastjórnin ákvað að setja á fót með það að markmiði að auka vellíðan og hamingju íbúa með stefnumiðuðum hætti. Það eitt að setja af stað nefnd gerir okkur ekki hamingjusöm en hún beinir athygli okkar að því að það er skylda samfélagsins að sinna lýðheilsu og geðheilbrigði íbúanna.

Í Reykjavík var tendrað ljós á friðarsúlunni í sl. viku, ljós friðar og líka tákn vonar eins og borgarstjóri kom inn á þegar hann kveikti og því mjög viðeigandi á þessum tímum. Það eru því tákn um allt land sem minnir okkur á að sýna hvert öðru kærleika og friðarsúlan og ástarvikan er tákn sem telur. Kærleikurinn birtist með ýmsum hætti en talar alltaf sama tungumáli.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2020.