Categories
Greinar

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Deila grein

18/02/2021

Ef við viljum í al­vöru standa með neyt­endum og inn­lendri fram­leiðslu þá er til leið

Í útvarpsþættinum á Sprengisandi fyrr í vikunni var rætt við Pál Gunnar Pálsson forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samkeppnismál. Páll Gunnar ræddi m.a. um mikilvægi þess að samkeppnislögin væru virt, það væri mikilvægt fyrir heildarhagsmuni neytenda. Hann talaði um að það væri lenska í efnahagskreppu að taka samkeppnislögin úr sambandi og grípa til verndartolla sem kæmi síðan niður á nýsköpun, vöruþróun og vöruverði til neytenda.

Undirrituð hafa lagt fram frumvarp til breytinga á búvörulögum þess efnis að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga þá sé afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta frumvarp fæddist ekki í þeirri efnahagslægð sem nú ríkir heldur var það fyrst lagt fram á haustdögum 2018, löngu áður efnahagskreppa af völdum COVID 19 var í kortunum. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt nú sem aldrei fyrr.

Samræmist EES og ESB

Verði tillagan að lögum er fullvíst að mikil hagræðing getur átt sér stað bæði í slátrun sem og vinnslu á kjöti. Allar líkur eru á að hagræðing sem þessi muni skila betri afkomu afurðastöðva, hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda. Það er ekkert í EES rétti sem kemur í veg fyrir að slíka breytingu megi leiða í lög hér á landi og mikilvægt er að hafa í huga að landbúnaður innan ESB er undanþeginn samkeppnislögum að miklu leiti.

Við erum ekki að finna upp hjólið

Árið 2004 var starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins gerbreytt með breytingu á 71. gr. búvörulaga. Sú breyting veitti afmarkaða undanþágu til afurðarstöðva í mjólkuriðnaði frá gildissviði samkeppnislaga. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur orðið mikil nýsköpun og stórfelld hagræðing í söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurvara. Árangurinn sést meðal annars af því að heildarþáttaframleiðni í greininni hefur vaxið um 2,2% á ári frá 2000-2018. Til samanburðar má nefna að í grónum atvinnugreinum er slíkur vöxtur að jafnaði um 1% á ári. Árlegur ávinningur af þessum breytingum er um 3 milljarðar króna á ári á verðlagi ársins 2020. Þessum ábata hefur verið skilað til bænda í gegnum afurðaverð og til neytenda í gegnum heildsöluverð mjólkurvara. Þessi undanþága er þannig forsenda stöðugleika og stórfelldrar hagræðingar sem fylgt hefur verið eftir með vöruþróun og nýsköpun sem aftur er forsenda þess að hafa traustan markað fyrir mjólkurvörur meðal neytenda.

Nærsamfélagsframleiðsla og hagsmunir neytenda.

Síðustu misseri hafa kröfur neytenda tekið verulegum breytingum. Margt kemur þar til s.s. aukin vefverslun, kröfur um að draga úr notkun umbúða, minni matarsóun auk áherslu á að minnka kolefnisspor afurða. Neytendur og bændur eru samstíga að horfa í átt til þess að framleiða heilnæmar og hreinar afurðir í nærumhverfi markaðarins. Þetta á jafnt við þau sem neyta dýraafurða sem og grænkera. Hagsmunir bænda og neytenda fara þannig saman og stjórnvöld verða hlýða því kalli. Innlend framleiðsla á það skilið að staðið sé vörð um um hana til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar, og stjórnvöld geta lagt lið með breyttri löggjöf. Aukin samvinna í afurðavinnslu mun leiða af sér aukna vöruþróun og hagræðingu þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda til framtíðar. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. febrúar 2021.

Categories
Fréttir

Tíu í framboði í póstkosningu Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

18/02/2021

Tíu í framboði í póstkosningu Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Póstkosning Framsóknar í Norðvesturkjördæmi verður haldin dagana 16. febrúar – 13. mars n.k. og kosið verður um 5 efstu sæti á lista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar.

Tíu eru í framboði og sækjast eftir eftirtöldum sætum, þau eru:      

 Stefán Vagn Stefánsson, forseti sveitarstjórnar í Skagafirði, sækist eftir 1. sæti.

 Guðveig Eyglóardóttir, sveitarstjórnarmaður í Borgarbyggð, sækist eftir 1.-2. sæti.

 Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, Holti í Önundarfirði, sækist eftir 1.-2. sæti.

 Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður SUF, sækist eftir 2. sæti.

 Iða Marsibil Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Vesturbyggð, sækist eftir 2.-3. sæti.

 Gunnar Tryggvi Halldórsson, sveitarstjórnarmaður Blönduósi, sækist eftir 3. sæti.

 Friðrik Már Sigurðsson, verkefnastjóri og sveitarstjórnarfulltrúi, Húnaþingi vestra, sækist eftir 3.-4. sæti.

 Tryggvi Gunnarsson, skipsstjóri frá Flatey, sækist eftir 3.-5. sæti.

 Gunnar Ásgrímsson, háskólanemi á Sauðárkróki, sækist eftir 5. sæti.

 Ragnheiður Ingimundardóttir, verslunarmaður í Strandabyggð, sækist eftir 5.-6. sæti.

Categories
Greinar

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Deila grein

17/02/2021

Sam­vinna bænda í sölu bú­vara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun danakonungs á tímabilinu 1602 – 1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðlega þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska Keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376, sjá hér, segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur, lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni.

Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „…vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum. Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítilsháttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2021.

Categories
Fréttir

Kynningarblað um frambjóðendur í Norðvestur

Deila grein

15/02/2021

Kynningarblað um frambjóðendur í Norðvestur

Póstkosning Framsóknar í Norðvesturkjördæmi verður haldin dagana 16. febrúar – 13. mars n.k. og kosið verður um 5 efstu sæti á lista flokksins fyrir næstu alþingiskosningar. Hér fyrir neðan er hægt að nálgast kynningarblað á frambjóðendunum í póstkosningunni.

Smellið á myndina hér fyrir neðan!

Kynningarbæklingur á frambjóðendum í póstkosningu Framsóknar í Norðvesturkjördæmi 16. febrúar – 13. mars 2021.
Categories
Fréttir

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi um lokað prófkjör

Deila grein

15/02/2021

Tilkynning frá kjörstjórn Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi um lokað prófkjör

Kjörstjórn hefur ákveðið vegna Covid-19 heimsfaraldursins sem orsakað hefur erfiðleika við framkvæmd prófkjörs í kjördeildum að fresta kosningunni til 8. maí 2021. Frestunin byggir á heimild í 47. gr. X. kafla í reglum um lokað prófkjör.

Eftirfarandi breytingar verða á dagsetningum:

  • Framboðsfrestur til þátttöku í prófkjörinu rennur út 15 dögum fyrir valdag eða föstudaginn 23. apríl 2021 kl. 12.00 á hádegi.  
  • Kjörskrá verður gerð samkvæmt félagatali 8. apríl 2021, eða 30 dögum fyrir kjördag. (Frestur til skráningar á félagatal er til miðnættis 8. apríl 2021.)

Framboðum skal skila til formanns kjörstjórnar, Helgu Hauksdóttur, á netfangið hauksdottir.helga@gmail.com.  Formaður veitir einnig frekari upplýsingar um prófkjörið.

Kosið verður um 5 efstu sæti listans.  Sjá nánar inn á framsokn.is.

Categories
Greinar

Spennandi atvinnugrein – ein með öllu

Deila grein

15/02/2021

Spennandi atvinnugrein – ein með öllu

Ástæður sum­argleðinn­ar í minni barnæsku voru marg­ar. Sum­ar voru þær sömu og gleðja börn nú­tím­ans, en sér­stak­lega þótti mörg­um krökk­um í mínu hverfi spenn­andi að kom­ast í skólag­arðana! Þar fengu börn að leika sér í mold og drullu, sam­hliða því að læra að rækta græn­meti sem þau færðu stolt heim til for­eldra sinna þegar sumri tók að halla.

Ein­hverra hluta vegna þóttu skólag­arðarn­ir samt ekki töff og mat­ræktaráhug­inn fjaraði jafn­an út þegar unglings­ár­in nálguðust. Á full­orðins­ár­um kviknaði hann þó hjá mörg­um á ný og á und­an­förn­um árum hafa ma­t­jurta­g­arðar sprottið upp í húsa­görðum um allt land.

Að sama skapi hef­ur neysla á græn­meti stór­auk­ist í land­inu. Mataræðið hef­ur orðið fjöl­breytt­ara og sem bet­ur fer hef­ur skiln­ing­ur á mik­il­vægi þess að fram­leiða mat inn­an­lands auk­ist. Þeir sem velja að gera mat­væla­fram­leiðslu að ævi­starfi hafa átt á bratt­ann að sækja. Hefðbund­inn bú­skap­ur hef­ur víða dreg­ist sam­an og orðræðan í garð inn­lendr­ar mat­væla­fram­leiðslu hef­ur stund­um verið nei­kvæð. Sem bet­ur fer hef­ur það snú­ist við og auk­in inn­lend mat­væla­fram­leiðsla er nú tal­in lífs­nauðsyn­leg og ómet­an­leg af mörg­um ástæðum.

Raun­ar kall­ast hún á við mörg af helstu hags­muna­mál­um þjóðar­inn­ar, og jafn­vel alls heims­ins. Þannig eru um­hverf­isáhrif inn­lendr­ar garðyrkju og annarr­ar mat­væla­fram­leiðslu já­kvæð, í sam­an­b­urði við áhrif­in af inn­flutn­ingi mat­væla. Inn­lend mat­væla­fram­leiðsla stuðlar að fæðuör­yggi þjóðar­inn­ar, sem í eina tíð þóttu óþarfar áhyggj­ur en síðari tíma áföll hafa ótví­rætt sýnt að fæðuör­yggi er raun­veru­legt álita­mál. Með auk­inni og nú­tíma­legri garðyrkju er um­hverf­i­s­vænni ís­lenskri orku sáð í frjó­an svörð, þar sem hug­vit skipt­ir sí­fellt meira máli. Ný­sköp­un í garðyrkju hef­ur skapað áhuga­verð störf, þar sem ís­lensk­ar aðstæður eru nýtt­ar til að há­marka afrakst­ur­inn. Nýt­ing á vatni og orku er marg­falt skil­virk­ari og tækninýj­ung­ar fá að blómstra.

Auk­inn áhugi neyt­enda á græn­meti hef­ur birst í aukn­um inn­flutn­ingi. Íslensk­ir fram­leiðend­ur hafa aukið sína fram­leiðslu, en ekki haldið í við eft­ir­spurn­ina og því hef­ur hlut­deild inn­lendr­ar fram­leiðslu minnkað. Hún er nú um 20% en með mark­viss­um aðgerðum og nú­tíma­leg­um fram­leiðsluaðferðum má auka hana til muna. Þannig er raun­hæft að stefna á 40% hlut­deild árið 2030 og 50% inn­an fimmtán ára. Slík­ur ár­ang­ur hefði mik­il sam­fé­lags­leg áhrif, myndi skapa fjölda starfa og spara gjald­eyri sem ann­ars færi til kaupa á er­lendu græn­meti.

Hug­mynd­ir í þessa veru eru bæði raun­hæf­ar og hag­kvæm­ar. Stjórn­völd eiga að und­ir­búa jarðveg­inn og skapa góð rekstr­ar­skil­yrði. Íslensk­ir fram­leiðend­ur fram­leiða hágæðavöru og þess vegna er framtíðin björt!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. febrúar 2021.

Categories
Fréttir

Þessi stóri

Deila grein

12/02/2021

Þessi stóri

Þá er komið að „þessum stóra“. En ráðherrar og þingmenn Framsóknar hafa verið með opna fundi í kjördæmunum á netinu og rætt þau mál sem eru efst á baugi.

Þessi stóri verður í beinu streymi á facebook-síðu Framsóknar á mánudaginn, 15. febrúar, frá Reykjavík kl. 20.00.

Sigurður Ingi Jóhannssonformaður Framsóknar og Lilja Dögg Alfreðsdóttirvaraformaður Framsóknar, munu leiða og vera með 10 mínútna inngang í hvoru holli. Í beinu framhaldi munu þau ásamt öðrum þingmönnum flokksins taka á móti spurningum.

  • Árangur, uppbygging, jákvæð stjórnmál, samgöngur, húsnæðismál, menntamál og atvinna, atvinna, atvinna.
  • Framfarir og umbætur byggja á samvinnu og samtali.
  • Þess vegna ræðst framtíðin á miðjunni.
15. febrúar kl. 20.00 — Þessi stóri með öllu liðinu í beinu streymi frá Reykjavík
Categories
Greinar

Sorp er sexý

Deila grein

12/02/2021

Sorp er sexý

Sorpmyndun er óumflýjanlegur raunveruleiki okkar samfélags. Mikið magn sorps fylgir hverri fjölskyldu, en þess má geta að árið 2018 myndaðist um 1.300 þúsund tonn af sorpi. Aðeins 216 þúsund tonn voru urðuð af þessum 1.300 þúsund tonnum. Á sama ári var losun gróðurhúsalofttegunda frá urðun úrgangs, sorpbrennslu og jarðgerð kringum 5% af heildarlosun hér á landi, en um 95% af þeirri losun má rekja til urðunar úrgangs.

Rétt flokkun nauðsynleg

Síðastliðin ár hefur verið ákall í samfélaginu um að minnka losun gróðurhúsategunda, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Enn í dag sér undirrituð unga einstaklinga standa fyrir framan Alþingi á hverjum föstudegi til að ítreka þetta ákall. Þau eiga lof skilið enda berjast þau fyrir framtíð sinni og framtíðarkynslóða. Ein viðurkennd leið til að minnka umfang sorps og losun gróðurhúsaáhrifa frá sorpi er að endurvinna það. Það verður aldrei hægt nema sorpið sé flokkað. Það er okkur nauðsynlegt að endurvinna eins mikið sorp og mögulegt er og með því gæta þess að sorp sé rétt flokkað.

Vitundarvakning

Undirrituð telur að það sé vilji allra landsmanna að flokka sitt sorp á réttan hátt. Mikil vitundarvakning hefur verið á flokkun sorps, t.d. hvernig pokar eru flokkaðir, endurvinnsla raftækja og hvaða hlutir neysluvara fara í hvaða endurvinnslutunnu. Þessi vitundarvakning stigmagnast ár hvert og þá er fólk einnig að reyna á nægjusemi sína til að minnka neyslu þeirra og með því minnka sorpmyndun.

Ákall um samræmdar flokkunarreglur

Á Íslandi ætti lítið sem ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir því að endurvinnsla sé til fyrirmyndar um allt land, frá Reykjavík og til hinna dreifðu byggða. Grundvallarskref í þá átt væri að samræma flokkun sorps á Íslandi, þ.e. milli allra sveitarfélaganna. Með þessu aukum við vitundarvakningu á flokkun og endurvinnslu sorps enn frekar ásamt því að koma í veg fyrir fljótfærnisvillur og ranga flokkun í góðri trú. Að flokka sorp á réttan hátt gæti orðið svokallað „vöðvaminni“ (e. muscle memory) hjá okkur öllum og með þessu aukum við mögulega nýtingu þeirra verðmæta sem safnast við rétta flokkun sorps.

Það er mín von að samræming sorpflokkunar verði að veruleika innan næstu ára. Við skuldum okkur og framtíðarkynslóðum okkar það að endurvinnsla sorps sé til fyrirmyndar.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Deila grein

12/02/2021

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Íslendingar hafa tækifæri til að byggja upp nýjan grænan iðnað á sviði þörungavinnslu. Hér landi eru kjöraðstæður á heimsvísu, hreinn sjór og stór hafsvæði. Fjárfestar eru áhugasamir en lagaumgjörðin og regluverkið er enn ekki nógu gott. Alþingi þarf að skapa trausta umgjörð um þennan iðnað og skapa skýra stefnu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis frá þingflokki Framsóknarflokksins.

Vaxandi markaður

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Efni úr þeim  má finna í mörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum o.fl. Á Ásbrú er t.a.m. starfandi öflugt og vaxandi fyrirtæki, Algalíf, sem ræktar smáþörunga. Úr þeim er unnið verðmætt efni, astaxanthin, sem notað er í eftirsótt fæðubótarefni. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður Bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf.

Súrefnisframleiðendur og stútfullir of næringarefnum

Þegar rætt er um þörunga þá er ekki bara átt við smáþörunga, eins og Algalíf ræktar, heldur einnig þang og þara sem vex villt allt í kringum landið okkar fagra. Yfirheiti þessara merkilegu lífvera, þ.e. þangs, þara og smáþörunga, eru þörungar. Þörungar eru ekki bara næringarrík fæða fyrir skepnur og mannfólk heldur framleiða þeir líka stóran hluta súrefnis jarðar, allavega helming alls súrefnis og sumir vísindamenn segja um 90%. Þörungar hreinsa sjóinn og þá má einnig nýta sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Það er því ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Við Reykjanesið eru kjöraðstæður fyrir öflun og verkun þangs og þara. Hér eru miklar fjörur, hreinn sjór og mikið pláss. Hér eru svo sannarlega tækifæri fyrir duglegt fólk en löggjafinn þarf að bæta umgjörðina svo að áhugasamir hafi sterkan grunn til að byggja á, ef þeir hyggjast fara út í fjárfestingar á þessu sviði.

Hvernig getum við bætt umgjörðina?

Greinarhöfundur hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingflokki Framsóknar um að umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri aðgerðaáætlun um þörungaræktun sem liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2021. Einnig er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar þörungarækt eigi síðar en 1. maí 2021. Flutningsmenn telja að sá tímarammi ætti að vera nægilegur enda unnt að líta til fordæma nágrannaþjóða okkar, eins og Færeyja og Noregs, þar sem reynsla er þegar komin á framkvæmd sambærilegra lagaákvæða.

Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þangs og þara og ræktunar smáþörunga.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hlekkur á tillöguna: althingi.is/altext/151/s/0049.html

Categories
Fréttir

Framtíð matarnýsköpunar

Deila grein

12/02/2021

Framtíð matarnýsköpunar

Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík hélt opin fund í gærkvöldi um framtíð nýsköpunar í matvælaiðnaði. Á fundinum komu fram Brynja Laxdal, markaðsfræðingur og fyrrum verkefnastjóri Matarauðs Íslands, Finnbogi Magnússon, formaður stjórnar Landbúnaðarklasans, ásamt Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Íris Gísladóttir, formaður Ung Framsókn í Reykjavík stýrði fundinum.

Farið var yfir víðan völl er kemur að tækifærum sem felast í nýrri tækni og nýjum leiðum til framleiðslu matvæla hér á landi. Augljóst var á fyrirlestrum Brynju og Finnboga að gríðarleg vaxtartækifæri væru í matvælaframleiðslu hér á landi. Þar má þakka nýrri tækni og því mikla hugviti sem býr í þeim framúrskarandi frumkvöðlum sem hafa lagt alúð sína í að tryggja Íslendingum hágæða matvöru framleidda úr þeim hágæða hráefnum sem finnast hér á landi.

Töluverð gróska hefur verið á þessu sviði síðustu ár og tilraunir til fjölbreyttari framleiðslu hafa skilað góðum árangri. Mikið er af matarfrumkvöðlum víðsvegar um land sem hafa með einstakri natni hafið fjölbreytta framleiðslu sem eru nú í boði fyrir landsmenn. Þó nokkur fyrirtæki hafa gert sér mat úr kartöflunni, en þar má til að mynda nefna Álfur brugghús og Ljótu kartöflurnar sem framleiða annarsvegar bjór og hinsvegar snakk úr kartöflum sem annars fara til spillis. Connective Collective, Bone & Marrow og North Marine Ingredients hafa einnig fundið leiðir til að nýta hráefni sem annars er hent með góðum árangri. Þá hafa fjölmargir frumkvöðlar hafið notkun á jurtum landsins við framleiðslu á matvörum, áfengi, lyfjum og hágæða snyrtivörur. Þannig mætti lengi telja. 

Ljóst er að mikil tækifæri felast í aukinni fjölbreytni í fullvinnslu matar, ræktun fjölbreyttara grænmetis og matjurta. Í því samhengi hefur verið horft til þess að nýta heita vatnið sem er ein af okkar bestu náttúrulegu auðlindum til þess að stunda útiræktun á ökrum allt árið um kring. Enn fleiri horfa einnig til aukinnar nýtingu á þeim gróðri sem hér vex náttúrulega, s.s. smáþörunga, gras, lúpínu, túnfífil, vallhumal, hvönn, njóla, burnirót, hafþyrni, kúmen, mjaðjurt, hamp, lín ofl. 

Þó svo að töluverð gróska hafi farið af stað mátti heyra að enn stæðu ákveðnar hindranir í vegi fyrir enn meiri grósku í matarnýsköpun. Þar bar hæst erfiðleikar við að fóta sig í frumkvöðlaumhverfinu og að geta aflað fyrirtækjum nauðsynlegt fjármagn til að koma þeim af hugmyndastigi í sölu í búðir. Aukin samheldni og samvinna frumkvöðla á milli gæti hjálpað við það og því væri áhugavert að sjá hvort áform um uppbyggingu frekari klasastarfsemi hér á landi hefði jákvæð áhrif. Markviss innkaup á innlendri framleiðslu ríkis og sveitarfélaga gæti einnig ýtt undir slíka grósku. 

Möguleikarnir í auknum útflutningi matvæla myndi einnig styrkja enn frekari uppbyggingu í matvælaiðnaði. Íslenskir framleiðendur eiga þar mikið af ónýttum tækifærum. Hægt væri að nýta enn frekar ímynd Íslands sem hið hreina, örugga og óspillta land sem hefur byggst upp í tengslum við ferðaþjónustu í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis. Markviss markaðssetning með þeim hætti myndi gera íslenskum matvælaframleiðendum kleift að gera útflutning á fjölbreyttari matvöru jafn arðbæra og útflutningur fisks hefur verið. Þannig væri hægt að skapa fleiri störf og meiri gjaldeyristekjur fyrir land og þjóð.

Mörg tækifæri felast á þessu sviði, bæði við ræktun fjölbreyttari fæðu sem og í frekari fullnýtingu þeirra landbúnaðarvara sem nú þegar eru framleidd hér á landi. Fróðlegt var að heyra svo margar hliðar á þessum spennandi iðnaði sem á framtíðina fyrir sér hér landi.

Ef þú misstir af fundinum þá getur þú séð upptökur af beinu streymi fundarins á fésbókarsíðu UngFramsókn í Reykjavík