Categories
Sveitarstjórnarfólk

Hveragerðisbær

Deila grein

08/06/2020

Hveragerðisbær

This image has an empty alt attribute; its file name is Group-270.png

FRJÁLSIR MEÐ FRAMSÓKN Í HVERAGERÐI

Fjölskyldan í fyrirrúmi

Frjáls með Framsókn leggja áherslu á málefni fjölskyldunnar í komandi kosningum. Það er okkur mikilvægt að skapa hér enn betra samfélag fyrir fjölskylduna með áherslum á umhverfismál, öryggi, íþrótta- og tómstundastarf.

Hveragerðisbær
Hveragerðisbær

Umhverfið

  • Við eigum falleg græn svæði eins og t.d Lystigarðinn og aðstöðuna undir Hamrinum. Þessi svæði eiga mikið inni og getum við nýtt þau enn betur með lagfæringum og nýjum tækifærum til leikja og útiveru. Við viljum einnig leita leiða til að útbúa varanlega salernisaðstöðu á þessum svæðum.
  • Við teljum mikilvægt að ljúka við frágang á aðkomu og bílastæði við Hamarshöllina sem og að finna varanlega lausn á búningaaðstöðu en hún er óviðunandi.
  • Hveragerðisbær er eitt af fáum sveitarfélögum landsins sem flokkar í þriggja tunnu kerfi og þar á meðal lífrænt. Við viljum áfram vera leiðandi á þessu sviði og efla flokkun og endurvinnslu úrgangs og stuðla að plastpokalausu Hveragerði.
  • Við viljum útvíkka starf umhverfisnefndar yfir í umhverfis- og ferðamálanefnd sem hefur það markmið að fá ferðamanninn til að dvelja lengur í bænum.

Öryggi

  • Við viljum taka umferðaröryggismál í bænum til endurskoðunar með öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í huga. Einnig viljum við fjölga speglum þar sem skyggni er lítið fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja.
  • Þrátt fyrir að gervigrasið á sparkvellinum við grunnskólann sé tiltölulega nýtt er það iðkendum varasamt. Við teljum nauðsynlegt að laga gervigrasið til að tryggja öryggi iðkenda.

Íþrótta- og tómstundastarf

  • Til að styðja enn betur við fjölskyldur og íþróttaiðkun barna í Hveragerði viljum við hækka frístundastyrkinn í a.m.k. 40.000 kr.  á kjörtímabilinu.
  • Við teljum nauðsynlegt að keyra yngstu iðkendurna á æfingar í Hamarshöllinni eins og verið hefur.  Við viljum útfæra aktsturinn enn frekar, bæði með fjölgun ferða og að aka stuttan hring um bæinn með ákveðnum stoppistöðvum.
  • Við styðjum að komið verði á fót íþróttaskóla í samstarfi við Hamar fyrir yngstu börnin, svo þau fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum.

Byggjum upp enn fjölskylduvænna samfélag í Hveragerði!

Við hvetjum þig til að setja X við B í sveitarstjórnarkosningunum á laugardaginn!

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, skipar 2. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Snorri Þorvaldssonskipar 3. sæti á framboðslista Frjálsra með Framsókn í Hveragerði

* * *

Aukin lífsgæði – heilsueflandi styrkur

Það er margsannað að hreyfing skiptir miklu máli þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Í 5. Kafla starfsmannastefnu Hveragerðisbæjar segir: „Andleg og líkamleg vellíðan starfsmanna er mikilvæg forsenda góðrar vinnu …“.

Frjáls með Framsókn vilja á næsta kjörtímabili koma á heilsueflandi styrk fyrir starfsfólk Hveragerðisbæjar. Til að byrja með fælist styrkurinn í því að starfsmenn Hveragerðisbæjar fái frítt í sund í Sundlauginna Laugaskarð.

Það er hverju fyrirtæki gríðarlega mikilvægt að hafa góðan mannauð og forsenda þess að halda uppi faglegu og metnaðarfullu starfi. Til að hafa góðan mannauð er mikilvægt að starfsfólki líði vel í vinnunni. Í 3. kafla starfsmannastefnu Hveragerðisbæjar segir: “Hveragerðisbær vill að starfsmenn fái notið hæfileika sinna í starfi.”

Hveragerðisbær

Við viljum einnig gera þá tilraun að stytta vinnuviku starfsfólks Hveragerðisbæjar um 3-4 klst. en það hefur reynst vel hjá Reykjavíkurborg. Það eykur starfsmannaánægju, bætt andleg og líkamleg líðan starfsmanna og veikindadögum. Þrátt fyrir styttri vinnutíma nær starfsfólkið að sinna verkefnum sínum til fulls. Þjónustan skerðist ekki við notendur.

Starfsmannastefna Hveragerðisbæjar var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í október 2012 í henni kemur fram að hana eigi að endurskoða á 4 ára fresti. Frjáls með Framsókn leggja til að á næsta kjörtímabili verði farið í endurskoðun á starfsmannastefnunni með velferð starfsmannsins í huga. Hveragerðisbær er stærsti vinnuveitandi bæjarins sýnum því gott fordæmi og leggjum áherslu á að skapa hér sérstaklega fjölskylduvænt starfsumhverfi.

Hlúum vel að starfsfólkinu okkar, sköpum hér góðan vettvang þar sem fólki líkar vel að vinna, sé metnaðarfullt í starfi og hafi svigrúm til að huga vel að heilsunni. Þannig tryggjum við góða þjónustu til íbúa.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
greinarhöfundur er æskulýðsfulltrúi og skipar
2. sæti listans Frjáls með Framsókn í Hveragerði.

* * *

Látum rödd ungmenna heyrast

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti 2010 að stofna unmennaráð í bænum. Í framhaldinu voru sjö fulltrúar skipaðir í ráðið, fjórir þeirra komu úr nemendaráði Grunnskólans og þrír valdir af menningar-, íþrótta- og frístundanefnd. Því miður hefur ungmennaráðið aldrei náð flugi og í samræðum mínum við bæjarbúa hefur komið í ljós að fæstir vita að ungmennaráð sé starfandi í bænum. Þessu þarf að breyta.

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er kveðið á um að sveitarfélög stofni ungmennaráð og eru þau hugsuð til að vera sveitastjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu. Með þessu er m.a. komið til móts við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hveragerðisbær

Ekki er gott að segja til um ástæður þess að ungmennráð Hveragerðisbæjar hafi ekki náð því flugi sem vonast var eftir. Ekki er nóg að stofnsetja ungmennaráð, fleira þarf að koma til. Getur verið að bæjarstjórn hafi ekki staðið sig nógu vel í að virkja ráðið og leita til þess með málefni sem snerta ungt fólk? Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja svo vera og vilja virkja ungmennaráðið mun betur, til að ungmenni hafi þau áhrif sem þau eiga að hafa.

Frjáls með Framsókn í Hveragerði telja grundvöll ungmennaráðsins sé að ungt fólk hafi tækifæri til að vera virkir þátttakendur í samfélagi sínu og fái tækifæri til að koma að ákvörðunum sem snerta líf þeirra. Til að svo megi verða viljum við halda t.d. árlega ungmennaþing, þar sem ungmenni bæjarins geti rætt og ályktað um þau mál sem helst brenna á þeim hverju sinni. Auk þess vilja Frjáls með Framsókn opna stjórnsýslu bæjarins á þann hátt að ungmennaráðið eigi áheyrnafulltrúa í flestum nefndum bæjarins, með málfrelsi og tillögurétti. Hver sá sem uppfyllir kröfur um setu í ungmennaráðinu getur boðið sig fram sem áheyrnafulltrúi og kosið með lýðræðislegum hætti á milli áhugasamra á ungmennaþinginu. Öflugt starf ungmennaráðsins eykur bæði ungmennalýðræði og íbúalýðræði, en til að svo verði er nauðsynlegt að bæjarstjórnin styðji vel við bakið á ungmennaráðinu og taki mark á því. Við teljum að ef virkni og áhrif ungmennaráðsins aukist, þá aukist áhugi ungmenna á starfinu og um leið verða áhrif þeirra meiri.

Garðar R. Árnason

Höfundur skipar 1. sæti Frjáls með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst dfs.is 17. maí 2018.

* * *

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði var samþykktur á félagsfundi sem fram fór á Hótel Örk á sumardaginn fyrsta 19. apríl.

Listann skipar öflugt fólk sem býr að fjölbreyttri menntun og reynslu úr atvinnulífinu, sem og breytt aldursbil.

Garðar R. Árnason, grunnskólakennari og bæjarfulltrúi leiðir lista Frjálsra með Framsókn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Í öðru sæti er Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, guðfræðingur og fyrrv. bæjarfulltrúi, í þriðja sæti er Snorri Þorvaldsson, lögreglunemi, fjórða sætið skipar Sæbjörg Lára Másdóttir, hjúkrunarfræðingur og fimmta sætið skipar Nína Kjartansdóttir, þroskaþjálfi.

Hveragerðisbær

Framboðslisti Frjálsra með Framsókn í Hveragerði:

  1. Garðar R. Árnason, 63 ára grunnskólakennari og bæjarfulltrúi
  2. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, 39 ára æskulýðsfulltrúi og fyrrv. bæjarfulltrúi
  3. Snorri Þorvaldsson, 28 ára lögreglunemi
  4. Sæbjörg Lára Másdóttir, 27 ára hjúkrunarfræðingur
  5. Nína Kjartansdóttir, 34 ára þroskaþjálfi
  6. Örlygur Atli Guðmundsson, 55 ára tónlistamaður, kennari og kórstjóri
  7. Vilborg Eva Björnsdóttir, 43 ára stuðningsfulltrúi
  8. Sigmar Egill Baldursson, 23 ára sölumaður
  9. Steinar Rafn Garðarsson, 35 ára sjúkraflutningamaður
  10. Daði Steinn Arnarsson, 46 ára grunnskólakennari
  11. Adda María Óttarsdóttir, 24 ára hjúkrunarfræðinemi
  12. Herdís Þórðardóttir, 59 ára innkaupastjóri
  13. Guðmundur Guðmundsson, 67 ára bifvélavirki
  14. Garðar Hannesson, 83 ára eldri borgari
Categories
Fréttir

Skuldaviðmiðið brotin – en verða vel fær og viðráðanleg

Deila grein

04/06/2020

Skuldaviðmiðið brotin – en verða vel fær og viðráðanleg

„Sjálfbærni er hugtak sem við notum mikið og er mikilvægt viðmið þegar við tökum ákvarðanir sem óhjákvæmilega hafa afleiðingar til mislangs tíma. Í grunninn má segja að við höfum þann grundvallarskilning að ákvarðanir okkar í dag valdi ekki þannig skaða að skerði nýtingarmöguleika komandi kynslóða.

Þetta á sannarlega við um nýtingu auðlinda en á einnig við um ríkisfjármálin, um þær ákvarðanir sem við höfum verið að taka undanfarnar vikur, hratt, fjárfrekar, við mikla óvissu, bæði til að bregðast við Covid-19 og til að veita viðspyrnu út úr því ástandi,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi Framsóknar, í vikunni, í störfum þingsins á Alþingi.

Willum Þór bendir á að OECD deili ekki á um nauðsyn aðgerða stjórnvalda en vill að gætt sé að gagnsæi og yfirsýn við gríðar mikla innspýtingu fjármuna til þess að verja velferð, afkomu heimila og fyrirtækja. Mikilvægt sé að ríkisfjármálin fari hratt til baka í sjálfbæran farveg þegar sér fyrir endan á ástandinu.

„Við búum, virðulegur forseti, að ábyrgri fjármálastjórn undanfarinna missera, skuldléttum ríkissjóði og traustri umgjörð ríkisfjármála með stefnumótandi grunngildamiðuð lög um opinber fjármál þar sem eitt af lykilgildunum er sjálfbærni,“ sagði Willum Þór.

Sagði Willum Þór að í „samhengi ríkisfjármála felst sjálfbærni í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir.

Það er enn fremur skrifað í lögin skilyrði um að heildarskuldir séu lægri en 30% af vergri landsframleiðslu og sá hluti sem þar er umfram skuli lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á ári.“

„Við förum yfir skuldaviðmiðið, það er ljóst, líklega yfir 40% fyrir hið opinbera í heild, en sjálfbærnifarvegurinn verður vel fær og viðráðanlegur,“ sagði Willum Þór að lokum.

https://vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200603T145433&start=845&duration=151&autoplay=false
Categories
Fréttir

Veljum samvinnu og samstarf í staðinn fyrir stríðsæsing!

Deila grein

04/06/2020

Veljum samvinnu og samstarf í staðinn fyrir stríðsæsing!

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir eitt það áhugaverðasta sem forstýra stofnunar Sameinuðu þjóðanna um landnýtingu hafi séð sé verkefnið „Bændur græða landið“. Þetta kemur fram í færslu hans á Facebook.

Því þyki Sigurði Inga skjóta skökku við að landgræðslustjóri velji að vera í stöðugu stríði við sína bestu liðsmenn, það sé ekki vænlegt til árangurs. „Nær væri að endurnýja kynnin við BGL-verkefnið og nýta sér jákvætt viðhorf bænda til landgræðslu – samvinnu og samstarf við þá í staðinn fyrir stríðsæsing,“ segir Sigurður Ingi.

„Bændur græða landið“ hefur verið í gangi í 30 ár og taka um 600 bændur þátt. Sagði forstýra stofnunar Sameinuðu þjóðanna um landnýtingu að virkni bændanna væri lykilatriði – þeirra samvinna, áhugi og þekking.

Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður og bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi, sagði m.a. í viðtali við RUV í vetur, að sauðfé sé ekki sleppt eitthvað út í buskan og að það sé ekki ofbeit vegna núverandi búskaparhátta.

Sigurður Ingi lætur fylgja með færslu sinni ljósmyndir frá síðasta sumri af heiðum og afréttum.

https://www.facebook.com/plugins/post.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fsigurdingi%2Fposts%2F3663969660284750&show_text=true&width=552&height=887&appId
Categories
Fréttir

Ísland verði búsetukostur vegna starfa hvar sem er í heiminum!

Deila grein

04/06/2020

Ísland verði búsetukostur vegna starfa hvar sem er í heiminum!

„Á síðustu vikum hafa orðið umtalsverðar framfarir í þekkingu og hæfni fólks við notkun fjarfunda og í fjarvinnu hvers konar víðast hvar í samfélaginu, líka hér á þingi. Í framhaldinu þarf að taka meðvitaða ákvörðun um að viðhalda og auka enn frekar færni í notkun fjarvinnu og nota sveigjanlegt vinnufyrirkomulag þar sem það á við. Bæði þarf að viðhalda og auka tæknilega þekkingu og færni, en einnig þarf að þjálfa ýmsa hæfni sem nýtist í fjarvinnu,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

En það er ekki nóg!
Líneik Anna minnti á að lög og reglur megi ekki vera hindra í þessari samfélagsþrónu, því þær fylgi ekki með. Reglur á vinnumarkaði og reglur hins opinbera verða að tryggja enn frekari fjarvinnu og fjarvinnslu fólks.

„Það þarf líka að tryggja að reglur á vinnumarkaði og opinber kerfi, lög og reglur, verði ekki hindrun í þróuninni. Það er að mörgu að hyggja þegar fjarlægðir hætta að vera hindrun og fólk býr t.d. í öðru landi en því sem það starfar í. Þá geta komið upp spurningar eins og: Hvar greiðir sá skatt sem vinnur þvert á landamæri? Hvernig og hvar öðlast hann rétt til opinberrar þjónustu? Hvernig verður vinnumarkaðsréttindum hans háttað, t.d. varðandi fæðingarorlof, atvinnuleysisbætur og aðgang að símenntun?

Fjórða iðnbyltingin, rafræn stjórnsýsla, fjarvinna og fjarnám, gefa okkur frábær verkfæri og tækifæri. Til að nýta þau tækifæri þurfum við að setja af stað formlega vinnu til að tryggja að búseta á Íslandi verði valkostur fyrir fólk sem vill eiga kost á störfum hvar sem er í heiminum, óháð búsetu,“ sagði Líneik Anna.

„Innan lands getum við líka oftar spurt okkur hvernig hægt sé að nýta tækifærin í fjarvinnunni til þess að styrkja starfsemi þar sem ekki er þörf á fjölda fólks í nærþjónustu. Nærþjónusta er samt mikilvæg en skapar t.d. ekki fullt starf. Þar mætti með meðvitaðri stýringu nota rafræna stjórnsýslu og fjarvinnslu til að dreifa störfum um landið, efla starfsstöðvar og heilu stofnanirnar, kerfin eða keðjurnar,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Categories
Greinar

Atvinna um allt land

Deila grein

03/06/2020

Atvinna um allt land

Þau áföll sem við höfum orðið fyrir vegna kórónuveirufaraldursins knýja okkur til að svara mikilvægum spurningum varðandi atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Ekki er langt síðan íslenskt efnahagslíf var borið uppi af fábreyttu atvinnulífi þar sem sjávarútvegurinn var langmikilvægastur og aflaði mikilvægs gjaldeyris fyrir þjóðina. Til að styrkja undirstöður samfélagsins var því á sínum tíma mikilvægt skref stigið þegar álverið í Straumsvík var reist og í kjölfarið fylgdu aðrar álverksmiðjur sem allar studdu við lífsgæði á Íslandi með því að skapa útf lutningsverðmæti og síðast en ekki síst: skapa atvinnu.

Í kjölfar bankahrunsins byrjaði ferðaþjónustan að gera sig gildandi á Íslandi. Eldgosið í Eyjafjallajökli vakti heimsathygli sem ferðaþjónustan náði að nýta sér með markvissum herferðum og hingað byrjuðu að streyma ferðamenn til að njóta landsins okkar. Margir hafa á síðustu vikum dottið í hefðiáttgírinn og gagnrýnt að ekki hefði verið meiri stýring á þeirri hröðu uppbyggingu sem orðið hefur í ferðaþjónustu. Það þykir mér sérkennilegt sjónarhorn því mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Ísland og þá ekki síst landsbyggðirnar hefur verið gífurlegt og bæði skapað miklar útflutningstekjur og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Undanfarin ár hefur verið mikil uppbygging í fiskeldi á Íslandi. Bæði hefur verið um að ræða eldi á landi en mestur hefur vöxturinn verið í sjókvíaeldi. Stjórnvöld hafa sýnt ábyrgð þegar kemur að uppbyggingu sjókvíaeldis svo ekki verði gengið á hinn villta íslenska laxastofn. Strax árið 2004 var ákveðið að sjókvíaeldi yrði aðeins leyft á afmörkuðum svæðum landsins sem afmarkast fyrst og fremst við Vestfirði og Austfirði. Var það gert til að gæta fyllstu varúðar. Vöxtur greinarinnar hefur verið mikill og hefur hún aukið útflutningstekjur Íslands töluvert og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Framþróun í fiskeldi er hröð. Þær þjóðir sem líklega eru fremstar í fiskeldi eru Norðmenn og Færeyingar. Fiskeldið hefur skilað Færeyingum miklum ágóða sem sýnir sig best í því að lífsgæði í Færeyjum eru með því sem best gerist í heiminum. Norðmenn bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir þegar kemur að fiskeldi. Sú staða hefur ekki náðst án vandkvæða en framfarir í greininni, til dæmis hvað varðar umgengni við lífríki sjávar, hafa náðst með þrotlausum rannsóknum og sífellt betri vinnubrögðum í greininni. Hér á landi þurfum við að læra af reynslu Norðmanna og nýta okkur þekkingu þeirra og reynslu til að efla byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum og enn fremur: skapa atvinnu.

Viðspyrna Íslands er meðal annars fólgin í því að styðja við uppbyggingu fiskeldis í sátt við náttúruna. Það er Íslendingum í blóð borið að nýta sjóinn og ná jafnvægi milli náttúru og manns. Það er heldur ekki úr vegi að benda á það stóraukna fjármagn sem sett hefur verið í nýsköpun með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og getur hjálpað til við að auka virði fiskeldisins við strendur Íslands og síðast en ekki síst: skapað atvinnu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2020.

Categories
Greinar

Samstaða um betra námslánakerfi

Deila grein

02/06/2020

Samstaða um betra námslánakerfi

Nú hill­ir und­ir að ný lög um mennta­sjóð náms­manna verði samþykkt á Alþingi. Óhætt er að segja að um stærsta hags­muna­mál stúd­enta síðustu ára­tugi sé að ræða. Í umræðum um málið á Alþingi í vik­unni mátti heyra að þing­menn allra flokka töldu nýja frum­varpið mikið fram­fara­skref í meg­in­at­riðum, þó svo að sum­ir hverj­ir vildu breyta ein­staka liðum þess. Það var ánægju­legt að heyra þá þver­póli­tísku sam­stöðu sem hef­ur skap­ast um málið.

Löng fæðing

Nú­gild­andi lög um LÍN eru frá ár­inu 1992. Frum­varp um mennta­sjóð hef­ur verið lengi í fæðingu en nú­gild­andi lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna eru frá ár­inu 1992. Á und­an­förn­um árum hafa verið lögð fram tvö frum­vörp til heild­ar­laga um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna, vorið 2013, og 2016. Við gerð þessa frum­varps voru at­huga­semd­ir sem bár­ust við bæði frum­vörp­in hafðar til hliðsjón­ar. Leit­ast var við að koma til móts við þau sjón­ar­mið.

Rétt­lát­ara kerfi

Nýr mennta­sjóður náms­manna fel­ur í sér aukið jafn­rétti og gagn­sæi í námsaðstoð rík­is­ins, fjár­hags­staða náms­manna verður betri og skuld­astaða að námi loknu ræðst síður af fjöl­skylduaðstæðum. Náms­lán verða greidd út mánaðarlega, ekki tvisvar á ári eins og nú er og hætt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. End­ur­greiðsla hefst ári eft­ir að námi lýk­ur sem mun minnka greiðslu­byrði lánþega. Rúm­lega 90 pró­sent lánþega munu koma bet­ur eða jafn vel út úr nýja kerf­inu.

Styrk­ur með börn­um

Meðal ný­mæla í frum­varp­inu er að sér­stak­ur stuðning­ur fæst nú með börn­um, skatt­frjáls styrk­ur – ekki lán! Í frá­far­andi kerfi voru sér­stök lán veitt vegna fram­færslu barna og voru for­eldr­ar í námi því skuldugri en barn­laus­ir við náms­lok. Fjöl­skylduaðstæður mega aldrei koma í veg fyr­ir mögu­leika til mennt­un­ar. Sam­bæri­leg­ur stuðning­ur verður fyr­ir meðlags­greiðend­ur. Um gríðarlegt jafn­rétt­is­mál er að ræða. Við gildis­töku verður Ísland fyrsta landið í heim­in­um til þess að viður­kenna for­eldra­jafn­rétti með þess­um hætti og horfa hin nor­rænu lönd­in nú til þess­ara breyt­inga hjá okk­ur.

Eng­ir ábyrgðar­menn

Náms­menn eygja nú langþráða grund­vall­ar­breyt­ingu á stuðnings­kerfi sínu. Ef fólk lýk­ur próf­gráðu á til­greind­um tíma, þá get­ur það fengið styrk í formi 30% niður­færslu höfuðstóls náms­láns við náms­lok. Með þeim kerf­is­breyt­ing­um má gera ráð fyr­ir bættri náms­fram­vindu náms­manna sem mun stuðla að betri nýt­ingu fjár­muna í mennta­kerf­inu og auk­inni skil­virkni í framtíðinni. Við gildis­töku lag­anna falla niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um niður ef lánþegi er í skil­um við LÍN og ekki á van­skila­skrá.

Frum­varp um mennta­sjóð er í sam­ræmi við það sem geng­ur og ger­ist ann­ars staðar á Norður­lönd­um með gegn­sæj­um bein­um styrkj­um og sjálf­bæru lána­kerfi.

Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2020.

Categories
Fréttir

Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað

Deila grein

27/05/2020

Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað

Fréttablaðið greinir frá að þingsályktunartillaga sex þingmanna Framsóknar um „Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað,“ hafi verið tekin fyrir hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær. En með henni yrði þingforseta falið að skipa þverpólitískan starfshóp til að endurskoða þingsköp og skila tillögum um breytingar fyrir árslok.

„Það sem vakti fyrir okkur var að vekja athygli á stöðu einstaklingsins inni á þinginu og vinnulaginu,“ segir Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður og hjúkrunarfræðingur, sem er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. „Alþingi er mjög óútreiknanlegur vinnustaður. Það er mun meira skipulag á þingstörfum víða erlendis og einstaklingar sem þar starfa geta skipulagt sig fram í tímann.“

Þingfundir hefjast gjarnan síðdegis og geta staðið fram á kvöld, fram á nætur í sumum tilvikum. Þingstörf geta farið alveg úr skorðum þegar langar umræður fara fram um einstaka mál. Þá hefur verið mikil umræða um hið svokallaða málþóf, sem notað er til að tefja framgöngu mála.

„Þegar til dæmis orkupakkamálið var til umræðu þá talaði fólk endalaust. Auðvitað þarf fólk að hafa tíma til að koma sínum skoðunum á framfæri, en það er hægt að hafa skipulag í kringum þetta þannig að ekki sé hægt að taka þingið í herkví,“ segir Ásgerður.

Tillagan á rætur sínar í samþykkt Landssambands Framsóknarkvenna. Telja þær að bæði vinnutíminn og ófyrirsjáanleikinn henti konum sérstaklega illa. Aðstæður til þingstarfa séu því letjandi fyrir konur. Ásgerður segir að þetta geti líka átt við unga karlmenn, sem vilji eiga sitt fjölskyldulíf, sem og fólk af landsbyggðinni.

Áratugum saman voru karlar í miklum meirihluta á Alþingi og samfélagið þannig uppbyggt að konurnar voru heima með börnin. Með samfélagslegum breytingum hefur skapast þrýstingur á að færa vinnustaði í fjölskylduvænna horf, líka Alþingi.

Þreifingar í þá átt, áttu sér stað eftir bankahrunið 2008, og árið 2011 var reglum um lengd þingfunda breytt. Ásgerður segir tillöguna áframhald af þessari vinnu.

„Mínar hugmyndir eru þær að horfa til nágrannalandanna og sjá hvernig aðstæður eru á þeirra þingum. Síðan nota það besta sem við sjáum, til þess að byggja okkar eigið kerfi upp. Ég er ekki með fyrir fram mótaðar hugmyndir um hvernig þetta ætti að líta út,“ segir hún.

Ásgerður segir að viðbrögðin við tillögunni hafi verið á ýmsan hátt. „Sumir halda að tillagan snúist um að þingmenn geti fengið frí til að sinna gæluverkefnum. Aðrir taka undir að það þurfi að gera breytingar og við þurfum að stíga í takt til að skapa aðstæður fyrir næstu kynslóðir sem hafa nýja nálgun.“

Hér að neðan eru umsagnir er hafa borist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna þingsályktunarinnar:

https://vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200130T102441&start=13872&duration=314&autoplay=false

Heimild: frettabladid.is

Categories
Fréttir

Aukin tækifæri á Íslandi sem tökustað

Deila grein

27/05/2020

Aukin tækifæri á Íslandi sem tökustað

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í færslu á Facebook að ánægjlegt sé að segja frá því að ríkisstjórnin hafi samþykkt endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, alls 2.120 m.kr. Þetta er niðurstaðan nú er þriðja fjáraukalagafrumvarp er lagt fram á þessu ári, til að bregðast við aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19.

„Endurgreiðslurnar eru tilkomnar vegna vinnu sem hefur orðið til vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og eru nauðsynlegar til að snúa hjólunum í gang og örva kvikmyndageirann til að koma aftur. Með endurgreiðslunum skapast því svigrúm til að taka inn ný verkefni en í ljósi góðs árangurs Íslands í baráttu við Covid hefur áhugi á kvikmyndaframleiðslu á Íslandi sem tökustað aukist,“ segir Sigurður Ingi.

Mikilvægt er að nýta svigrúm til að taka inn ný verkefni og möguleg tækifæri í ljósi góðs árangurs Íslands í baráttu við COVID-19.

„Það er einnig gaman að segja frá því að Framsóknarflokkurinn stóð fyrir því að endurgreiðslukerfið var tekið upp á sínum tíma sem hefur haft í för með sér jákvæða landkynningu,“ segir Sigurður Ingi.

https://www.facebook.com/plugins/post.php?href=https%3A%2F%2Fwww.facebook.com%2Fsigurdingi%2Fposts%2F3640654365949613&width=500

Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar

  • Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum á allt að 25% af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi.
  • Skilyrði er að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að koma íslenskri menningu á framfæri, kynna sögu lands eða náttúru eða að viðkomandi framleiðsla sé til þess fallin að stuðla að aukinni reynslu, þekkingu á listrænum metnaði þeirra sem að framleiðslunni standa.
  • Endurgreiðslur standa bæði innlendum og erlendum aðilum til boða, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hafi meira en 80% af framleiðslukostnaði fallið til hérlendis eru jafnframt endurgreidd 25% af þeim framleiðslukostnaði sem fellur til á hinu evrópska efnahagssvæði, Grænlandi og Færeyjum. Þetta á við um framleiðslu á kvikmyndum, heimildamyndum og sjónvarpsþátta.
  • Endurgreiðslukerfið eru á grundvelli laga nr. 43/1999 með síðari breytingum og reglugerð nr. 450/2017. Það heyrir undir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem hefur falið Kvikmyndamiðstöð Íslands umsjón þess en Íslandsstofu að kynna Ísland sem tökustað gagnvart erlendum aðilum.

Þáverandi, viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, sagði m.a. í framsögu sinni að frumvarpinu, er varð að lögum 43/1999, að á undanförnum árum hafi verið hvatt til sértækra aðgerða stjórnvalda í því skyni að laða hingað erlenda framleiðendur kvikmynda, enda vel þekkt í nágrannaríkjum okkar og reynst vel.

Um væri að ræða „sérstakt hvatakerfi“ til eflingar kvikmyndaiðnaði í landinu, þannig að fyrir fram ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar sem til felli á Íslandi við gerð kvikmyndar verði greitt til baka þegar verkinu lýkur.

„Skýrt verði kveðið á um skilyrði vegna þessa, aðgerðin verði tímabundin og falli úr gildi í árslok 2005. Starfshópurinn telur að kerfi sem þetta hafi þá kosti að vera einfalt og gagnsætt, það þjóni jafnt innlendum sem erlendum kvikmyndaframleiðendum, það hvetji til uppbyggingar atvinnugreinarinnar á allra næstu árum og sé til þess fallið að efla innlenda kvikmyndagerð samfara því að erlend fyrirtæki sjái sér hag í starfsemi hér á landi. Lagt er til að komið verði á fót sérstöku endurgreiðslukerfi sem þykir einfalt í stað ýmiss konar skattaívilnana sem erfitt er að fylgja eftir í framkvæmd og eru til þess fallnar að mismuna atvinnugreinum í skattalegu tilliti.“

„Færa má fyrir því haldbær rök að á endanum renni umtalsverður hluti þeirra fjármuna sem varið er til kvikmyndagerðar á Íslandi í ríkissjóð. Má t.d. nefna beina skatta launafólks og launatengd gjöld, tekjuskatt fyrirtækja, auknar tekjur af sölu á vöru og þjónustu o.fl. Með því að greiða ekki út styrk fyrr en viðkomandi verkefni er lokið er tryggt að ríkissjóður verður ekki fyrir útgjöldum nema með auknum tekjum. Raunar má fyllilega gera ráð fyrir að ef sett verða lög um slíkt hvatakerfi verði það til þess að auka umsvif kvikmyndagerðar á Íslandi og þá mun ríkissjóður njóta þess í auknum tekjum.“

Categories
Greinar

Rannsóknir og nýsköpun til framtíðar

Deila grein

25/05/2020

Rannsóknir og nýsköpun til framtíðar

Störf framtíðar­inn­ar verða í aukn­um mæli byggð á ný­sköp­un í at­vinnu­líf­inu og sam­spili þess við rann­sókn­ar­störf. Þess vegna hafa stjórn­völd stór­aukið fjár­fram­lög sín til rann­sókna og ný­sköp­un­ar. Viðspyrna Íslands er byggð á skýrri framtíðar­sýn um aukna verðmæta­sköp­un. Gott aðgengi að mennt­un og öfl­ugt vís­inda- og rann­sókn­ar­starf um allt land er mik­il­vægt. Með aukn­um áhersl­um á rann­sókn­ir og þekk­ing­ar­starf­semi byggj­um við upp færni til að tak­ast á við þær sam­fé­lags­legu áskor­an­ir sem við okk­ur kunna að blasa, og styrkj­um vel­ferð þjóðar­inn­ar sem og stoðir lýðræðis­legr­ar umræðu.

Stór­auk­in fram­lög til rann­sókna

Eng­inn hef­ur efni á því að láta góð tæki­færi fram hjá sér fara. Það á sér­stak­lega við um þann stuðning sem hægt er að veita við hágæða rann­sókn­ar­starf­semi sem skap­ar ís­lensk­um há­skól­um, stofn­un­um og at­vinnu­lífi nýja þekk­ingu og und­ir­bygg­ir frek­ari þekk­ing­ar­leit hér á landi sem og er­lend­is ásamt því að stuðla að nýliðun ungra vís­inda­manna. Það er ljóst að verk­efni stjórn­valda á næstu miss­er­um er að skapa störf. Því vill rík­is­stjórn­in fjár­festa í hug­viti og rann­sókn­um. Þessi áhersla birt­ist einna helst í aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna COVID-19 með öfl­ugri fjár­fest­ingu í sam­keppn­is­sjóðum í rann­sókn­um; Rann­sókna­sjóður fékk 575 millj­ón­ir kr. viðbótar­fram­lag, Innviðasjóður 125 millj­ón­ir, Tækniþró­un­ar­sjóður fékk út­hlutaðar 700 millj­ón­ir, og síðast en ekki síst hef­ur Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna vaxið úr 55 millj­ón­um í 455 millj­ón­ir í ár. Einnig voru fram­lög hækkuð um 500 millj­ón­ir kr. til að efla ný­sköp­un og þróun í inn­lendri mat­væla­fram­leiðslu með stofn­un Mat­væla­sjóðs. Með stofn­un hans voru Fram­leiðni­sjóður land­búnaðar­ins og AVS-rann­sókna­sjóður til að auka verðmæti sjáv­ar­fangs sam­einaðir. Öll þessi skref sem tek­in hafa verið eru til þess fall­in að auka verðmæta­sköp­un.Með þess­um fjár­fest­ing­um náum við til mannauðs, með aukn­um styrkj­um og at­vinnu­tæki­fær­um. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna styrk­ir verk­efni þar sem ung­ir vís­inda­menn hafa fengið sín fyrstu kynni af þátt­töku í vís­inda­starfi sem kveikt hef­ur áhuga til framtíðar. Þetta er gert til að búa til ný tæki­færi og virkja þekk­ing­ar­sköp­un. Þegar til­kynnt var um auka­fjár­veit­ingu til Ný­sköp­un­ar­sjóðs fimm­földuðust um­sókn­ir í sjóðinn og verður því fjár­magni út­deilt til náms­manna á allra næstu dög­um.

Rann­sókn­ir eru grund­völl­ur ný­sköp­un­ar og fjöl­breytts efna­hags­lífs sem eru þjóðfé­lag­inu nauðsyn­leg til að tryggja hag­vöxt til framtíðar. Sjald­an hef­ur verið skýr­ara en akkúrat nú hve sam­keppn­is­hæfni og styrk­ur ís­lensks þekk­ing­ar­sam­fé­lags skipt­ir okk­ur miklu máli. Heims­far­ald­ur hef­ur sýnt vel hve mikið traust al­menn­ing­ur á Íslandi ber til vís­ind­anna. Slíkt traust er ekki sjálf­gefið og það þarf að styðja með upp­lýstri ákv­arðana­töku á öll­um sviðum. Sam­starf op­in­berra aðila, rann­sókn­ar­stofn­ana og fyr­ir­tækja um viðbrögð vegna þessa ástands hafa skilað okk­ur skjótri og far­sælli niður­stöðu, jafn­framt því að byggja upp þekk­ingu um sjúk­dóm­inn sjálf­an sem þegar hef­ur vakið mikla og verðskuldaða at­hygli á heimsvísu. Íslensk­ir rann­sókn­ar- og vís­inda­menn hafa unnið mikið þrek­virki á síðustu vik­um. Það er ljóst að til að stuðla að hag­vexti til framtíðar þarf að efla tækn­ina með vís­ind­um og ný­sköp­un. Mik­il­vægt er að skapa framúrsk­ar­andi aðstæður til rann­sókn­ar- og ný­sköp­un­ar­starfs til að fyr­ir­tæk­in í land­inu sjái hag sinn í að fjár­festa í þekk­ing­ar­sam­fé­lagi.

Ný­sköp­un

Ný­sköp­un og hvers kon­ar nýt­ing hug­vits er mik­il­væg­ur grunn­ur fjöl­breytts og sjálf­bærs at­vinnu­lífs, sterkr­ar sam­keppn­is­stöðu og hag­vaxt­ar. Ekki síst í ljósi þeirra miklu þjóðfé­lags­umbreyt­inga sem eru og munu eiga sér stað á kom­andi árum. Ungt fólk er frjótt í hugs­un og fyr­ir­tæki hafa verið til­bú­in til að fjár­festa í þeim með aðstoð Ný­sköp­un­ar­sjóðs náms­manna. Vinna á veg­um Ný­sköp­un­ar­sjóðs hef­ur verið vett­vang­ur fyr­ir­tækja til að mynda tengsl við nem­end­ur og oft hafa þau tengsl leitt til at­vinnu­til­boða að námi loknu. Sjóður­inn er því einnig ákjós­an­leg­ur vett­vang­ur fyr­ir nem­end­ur til að kynn­ast fram­sækn­ustu fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um lands­ins.Fjár­mögn­un­ar- og rekstr­ar­um­hverfi ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja hef­ur verið í mik­illi þróun hér á landi síðustu ár. Mörg já­kvæð skref hafa verið stig­in til að efla og styðja við þenn­an geira hér á landi. Rík­is­stjórn­in sýndi vilja í verki þegar 2,3 millj­arðar kr. voru veitt­ir til efl­ing­ar ný­sköp­un­ar og þró­un­ar. Þar mun­ar mest um að lagt er til að fram­lag til Kríu, sprota- og ný­sköp­un­ar­sjóðs, hækki um 1.150 millj. kr. Mark­mið sjóðsins er að efla vöxt og sam­keppn­is­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs með því að stuðla að virku fjár­mögn­un­ar­um­hverfi fyr­ir sprota- og ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki.

Þá hafa fyr­ir­tæk­in í land­inu einnig eflt ný­sköp­un og verið hreyfiafl fram­fara. Því var brýnt að hækka end­ur­greiðslur til þeirra upp í allt að 35% og þak vegna rann­sókn­ar- og þró­un­ar­kostnaðar var hækkað í 1.100 millj­ón­ir króna. Áhersla á þróun og ný­sköp­un skil­ar sér marg­falt til sam­fé­lags­ins. Starfs­um­hverfi fyr­ir­tækja þarf að vera hvetj­andi og þau þurfa að vera í stöðu til að fá öfl­uga ein­stak­linga til liðs við sig.

Mennt­un er und­ir­staðan

Eitt er það sem má ekki gleym­ast: Mennta­kerfið okk­ar hef­ur staðist eina stærstu þolraun sem það hef­ur tek­ist á við. Skól­un­um okk­ar var haldið starf­andi á meðan far­ald­ur­inn náði há­marki. Hlúð var að vel­ferð nem­enda og reynt að tryggja eins vel og unnt var að þeir gætu náð sett­um mark­miðum. Ljóst er að mennta­kerfið okk­ar er afar sterkt.Þrátt fyr­ir að far­ald­ur­inn sé í rén­un hér á landi ætl­um við að halda okk­ar striki, sækja fram og efla alla mennt­un í land­inu. Um­fangs­mik­il vinna í mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­inu hef­ur átt sér stað til að tryggja að mennta­kerfið geti tekið á móti sem flest­um sem vilja auka þekk­ingu sína og mennt­un. Við ætl­um að auka fjár­veit­ing­ar til verk- og tækni­greina og tryggja að há­skóla­stigið geti mætt þeirri eft­ir­spurn sem verður til vegna stöðunn­ar. Það er sann­kallað fagnaðarefni að sjá þenn­an mikla vöxt í verk- og tækni­grein­um enda hef­ur það verið mark­mið í lang­an tíma að gera bet­ur þar og það er að tak­ast. Við mun­um einnig leggja mikla áherslu á fram­halds­fræðslu og styrkja ís­lensku­nám fyr­ir inn­flytj­end­ur.

Mark­mið þess­ara aðgerða er að styrkja færni ís­lensks efna­hags­lífs, sem lengi hef­ur ein­kennst af færni­m­is­ræmi á vinnu­markaði. Þessu ætl­um við að breyta og styrkja vinnu­markaðinn.

Hér á landi eru einnig mörg rann­sókna­set­ur sem vinna með yngri skóla­stig­um. Setr­in hafa lagt ríka áherslu á miðlun rann­sókna með ýms­um hætti fyr­ir utan birt­ingu vís­inda­greina, t.a.m. með fyr­ir­lestra­haldi, viðburðum og út­gáfu fyr­ir al­menn­ing sem er hluti þeirr­ar sam­fé­lag­steng­ing­ar sem setr­in leggja svo ríka áherslu á. Starf­semi setr­anna er lyfti­stöng fyr­ir þau sam­fé­lög sem þau starfa í. Það er ástæða til að fagna auknu tæknilæsi, sem styður við já­kvætt og upp­byggi­legt skólastarf á öll­um skóla­stig­um. Vís­inda­læsi og auk­inn orðaforði ís­lenskra barna er lyk­ill­inn að því að búa til vís­inda­menn framtíðar­inn­ar.

Sam­starf um klasa­stefnu

Brýnt er að móta op­in­bera klasa­stefnu sem fel­ur í sér að efla stoðkerfi at­vinnu­lífs­ins á landsvísu í sam­vinnu við rann­sókn­ar- og mennta­stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög og aðra hags­munaaðila, eins og þings­álykt­un nr. 27/​50 kveður á um. Með klasa­stefnu er fjár­mun­um ráðstafað mark­viss­ar og efl­ir sam­vinnu, ný­sköp­un, hag­sæld og sam­keppn­is­hæfni. Klasa­sam­starf hef­ur í aukn­um mæli verið nýtt til ný­sköp­un­ar og at­vinnu­upp­bygg­ing­ar um all­an heim og til að efla sam­keppn­is­hæfni fyr­ir­tækja, at­vinnu­greina, landsvæða og þjóða. Mik­il áhersla er lögð á ný­sköp­un í nú­tímaklasa­stjórn­un enda skipt­ir ný­sköp­un sköp­um í lang­tíma­upp­bygg­ingu at­vinnu­greina.Íslend­ing­ar hafa ekki látið sitt eft­ir liggja þegar kem­ur að klasa­sam­starfi eða ný­sköp­un. Hér hafa sprottið upp sjáv­ar­klasi, jarðvarmaklasi og ferðaklasi. Fólk um all­an heim nýt­ur góðs af ís­lensku hug­viti, rann­sókn­um, þróun og þekk­ingu. Heilsu­vör­ur sem byggj­ast á nýt­ingu sjáv­ar­af­urða og líf­tækni. Háþróaðir gervi­fæt­ur og há­tækni­gróður­hús. Svo fátt eitt sé nefnt. Mik­il­vægt er að styðja enn frek­ar við ný­sköp­un og fyr­ir­tæk­in. Ný­sköp­un og blóm­legt efna­hags­líf hald­ast í hend­ur og styrkja sam­keppn­is­stöðu lands­ins til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Will­um Þór Þórssson, alþingismaður og formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþingis.

Categories
Greinar

Opinber störf á landsbyggðinni

Deila grein

22/05/2020

Opinber störf á landsbyggðinni

Varnir, vernd og viðspyrna er yfirskrift á aðgerðaáætlun stjórnvalda við þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Það er mikilvægt hverju samfélagi að halda uppi þéttu og fjölbreyttu atvinnulífi. Það er svo sannlega tími til að virkja þann mikla mannauð sem býr í landsmönnum. Við höfum allt til staðar, viljann, mannauðinn og tæknina. Samgöngur fara batnandi og með allt þetta að vopni náum við viðspyrnu um allt land.

Við erum að stefna inn í þyngra efnahagsástand með tilheyrandi uppsögnum og samdrætti á mörgum sviðum vegna COVID-19. Þá hefst slagurinn um að verja störfin. Verja og halda þeim opinberu störfum sem nú þegar eru á landsbyggðinni. Þar þurfa allir að leggjast á eitt. Það hefur því miður verið raunin að fyrir eitt starf sem glatast tekur það 10 ár að fá annað til baka. Það getur líka verið hluti af hagræðingu að verja þau störf sem fyrir eru og hluti af viðspyrnunni að leggja enn meiri áherslu á að skilgreina störf án staðsetningar og dreifa þeim sem best.

Störf án staðsetningar

Opinber störf á vegum ríkisins eru rúm 20.000. Þá eru ekki meðtalin þau störf sem eru á vegum sveitarfélaga. Hér á landi er skipting opinberra útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga 70/30. Það er því ljóst að staðsetning ríkisstarfa skiptir miklu máli og ætti það að vera forgangsmál stjórnvalda að dreifa þeim sem mest um landið. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er að finna áherslu hennar um að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Auk þess styður samþykkt byggðaáætlun við þetta markmið. Með aukinni samskiptatækni, háhraðafjarskiptatengingum um allt land ásamt greiðum samgöngum er nú hægt að dreifa opinberum störfum sem aldrei fyrr. Þeir tímar sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum vikum hafa sýnt að fjarvinna er ekki bara draumsýn, heldur raunverulegur möguleiki. Störf án staðsetningar geta verið jafn vel unnin í Ármúla í Reykjavík og á Hólmavík.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 18. maí 2020.