Categories
Greinar

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Deila grein

17/08/2023

Hóla­skóli – Há­skóli lands­byggðanna?

Framtíð háskólamenntunar felst ekki í nafnlausum nemendum sem einangrast bak við skjáinn. Framtíð háskólamenntunar utan höfuðborgarsvæðisins verður ekki tryggð nema með því að nýta tæknina og bjóða upp á öflugt og fjölbreytt fjarnám. Þessar tvær fullyrðingar eru ekki í trássi hver við aðra en við þurfum að finna stofnunum okkar form þar sem sá sannleikur sem er fólginn í þeim báðum nær að raungerast og, allt í senn, treysta búsetu, efla samfélög og auka lífsgæði yngri kynslóða.

Horfum til reynslunnar

Ein best heppnaða tilraun síðustu ára til að skapa lifandi náms- og rannsóknarumhverfi á forsendum nærsamfélagsins er í mínum huga Háskólasetur Vestfjarða. Setrið er markverð miðstöð fyrir fjölda nemenda og starfsmanna, er segull fyrir erlenda gesti frá háskólasamfélögum víða um heim, sinnir áríðandi rannsóknum í samstarfi við stofnanir innan og utan Vestfjarða, og stendur fyrir merkilegri húsnæðisuppbyggingu heima í héraði í formi stúdentagarða. Háskólinn á Akureyri er að sjálfsögðu dæmi um aðra framúrskarandi vel heppnaða byggðaaðgerð, enda var skólinn brautryðjandi í að færa námstækifæri nær íbúum landsbyggðanna. Skólinn hefur haft afgerandi áhrif á framtíðarbúsetu og búsetuþróun í krafti þeirra tækniframfara sem hafa gert fjarnám mögulegt. Ekki aðeins á Akureyri heldur mun víðar. Þannig naut Austurland t.a.m. góðs af vaxandi fjölda hjúkrunarfræðinga og kennara sem voru staðráðin í að lifa, læra og starfa í sinni heimabyggð. Það er mikilvægt að halda upp á þessa sögu, horfa til reynslunnar og byggja á henni til framtíðar.

Vert er að geta þess að fyrrnefndar stofnanir eiga í gjöfulu samstarfi um sjávartengt meistaranám á Vestfjörðum. Fjölmargar aðrar mennta- og rannsóknastofnanir víða um land koma með einum eða öðrum hætti að námi á háskólastigi. Við eigum að leiða krafta þeirra saman undir því sameiginlega markmiði að fjölga tækifærum til náms, og því höfuðmarkmiði að gera ungu fólki um allt land kleift að starfa í lifandi, frjóu og skemmtilegu námsumhverfi. Okkur sem þjóð hefur hingað ekki borið sú gæfa að ná þessu markmiði nema að takmörkuðu leyti, enda hafa tilraunir til þess verið brotakenndar enn sem komið er. Háskóli Íslands hefur ekki sinnt þessu hlutverki og ef til vill eigum við ekki að gera slíka kröfu til stofnunarinnar. Þau verkefni, og með þeim það hlutverk, sem við ætlum Háskóla Íslands eru ærin og má vel vera að byggðaleg sjónarmið samræmist ekki að öllu leyti starfsemi skólans. Stofnun rannsóknasetra HÍ um allt land er sannarlega viðleitni í þá átt en þrátt fyrir gott starf er ljóst að tækifæri hafa líka glatast allt of víða.

Landsbyggðarháskóli með víðfeðmt starfssvæði

Það er af þessari ástæðu sem ég fagna ekki að öllu leyti nýjustu fregnum af hugsanlegri sameiningu Háskóla Íslands og Hólaskóla, þótt eflaust megi finna í því skrefi samlegð og tækifæri til eflingar. Og af þessari ástæðu sömuleiðis sem ég spyr mig, hvort ekki hefði verið nær að fela stjórnendum Hólaskóla táknrænt umboð þess efnis að leiða samtal mennta- og rannsóknastofnana sem flestra landshluta utan höfuðborgarsvæðisins? Stofnun sérstaks landsbyggðarháskóla myndi skerpa á markmiðum sem eru, eða ættu að vera, sameiginleg. Háskóli sem hefði víðfeðmt starfssvæði og tengdi saman starfsemi fjölbreyttra stofnana, stuðlaði að auknu framboði fjarnáms, gerði það aðgengilegra og ýtti undir virkara rannsóknasamstarf.

Hólaskóli – Háskóli landsbyggðanna er ef til vill ekki verra nafn en hvað annað, með vísan í merka sögu sem hægt er að sameinast um. Leiðandi og framsækin stofnun, drifkraftur heima í héraði – sem víðast!

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og sérfræðingur á sviði byggðaþróunar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Deila grein

17/08/2023

Nýr tónn sleginn með nýrri miðstöð

Tíma­mót urðu fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf í vik­unni þegar ný Tón­list­armiðstöð var form­lega stofnuð. Stofnaðilar henn­ar eru menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið f.h. rík­is­sjóðs, STEF, Fé­lag hljóm­plötu­fram­leiðenda, Fé­lag ís­lenskra hljómlist­ar­manna, Fé­lag kenn­ara og stjórn­enda í tón­list­ar­skól­um og Tón­skálda­fé­lag Íslands.

Hlut­verk Tón­list­armiðstöðvar er fjöl­breytt en mun hún bæði sinna fræðslu og stuðningi við tón­listar­fólk og tón­list­artengd fyr­ir­tæki, styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar­ins, kynna ís­lenska tónlist og tón­listar­fólk á er­lendri grundu og vera nótna­veita fyr­ir ís­lensk tón­verk. Tón­list­armiðstöð mun styðja við upp­bygg­ingu sprota og hlúa að ferli lista­fólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjöl­breytni og grósku og að starfs­um­hverfið verði nú­tíma­legt og hvetj­andi fyr­ir ís­lenskt tón­list­ar­líf. Með til­komu miðstöðvar­inn­ar mun tón­list­ar­lífið eign­ast sína eig­in kynn­ing­armiðstöð líkt og aðrar list­grein­ar.

Tón­list­armiðstöð er sjálf­seign­ar­stofn­un sem rek­in er á einka­rétt­ar­leg­um grunni með sjálf­stæðri fjár­hags­ábyrgð og starfar sam­kvæmt sér­stakri skipu­lags­skrá sem stjórn set­ur og staðfest­ir.

Stofn­un Tón­list­armiðstöðvar var ein af til­lög­um starfs­hóps sem ég skipaði á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar, hinn 1. des­em­ber 2020. Hlut­verk hóps­ins var að rýna um­hverfi tón­list­ar­geir­ans á Íslandi, skoða hvernig stuðnings- og sjóðakerfi tón­list­ar yrði best skipu­lagt, vinna drög að tón­list­ar­stefnu og skil­greina hlut­verk og ramma Tón­list­armiðstöðvar. Það er óneit­an­lega skemmti­legt að sjá þann mikla ár­ang­ur sem náðst hef­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu frá 1. des­em­ber 2020. Síðastliðið vor var þings­álykt­un­ar­til­laga um tón­list­ar­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 samþykkt á Alþingi ásamt fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist. Á þeim grunni rís hin nýja Tón­list­armiðstöð sem stofnuð var í gær.

Ég vil þakka starfs­hópn­um fyr­ir sína frá­bæru vinnu en hann skipuðu Jakob Frí­mann Magnús­son, Bald­ur Þórir Guðmunds­son, Bragi Valdi­mar Skúla­son, Bryn­dís Jónatans­dótt­ir, Eiður Arn­ars­son, Gunn­ar Hrafns­son, María Rut Reyn­is­dótt­ir, Sól­rún Sum­arliðadótt­ir og Val­gerður Guðrún Hall­dórs­dótt­ir.

Ég legg á það þunga áherslu að styrkja um­gjörð menn­ing­ar í land­inu og stuðla að aukn­um at­vinnu­tæki­fær­um og verðmæta­sköp­un henni tengdri. Til marks um það er ráðgert að sam­tals 600 millj­ón­ir renni af fjár­lög­um 2023-2025 til stofn­un­ar Tón­list­armiðstöðvar og til efl­ing­ar sjóða tón­list­ar til viðbót­ar við þau fram­lög sem renna nú þegar til tón­list­ar.

Við fyll­umst öll stolti þegar sam­lönd­um okk­ar vegn­ar vel á þessu sviði og ná langt meðal ann­ars á er­lendri grundu. Þeir nýju tón­ar sem við slá­um nú fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu munu skila sér marg­falt til baka. Ég óska tón­listar­fólk­inu okk­ar inni­lega til ham­ingju með þenn­an áfanga, og hlakka til að hlusta á afrakst­ur­inn í framtíðinni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Afl til allra átta

Deila grein

16/08/2023

Afl til allra átta

Margs konar tækifæri og áskoranir fylgja aukinni ferðaþjónustu. Áherslur hafa breyst og uppbygging hefur á sér ýmsar myndir líkt og fjölbreytt verkefni hringinn í kringum landið bera með sér. Við getum nú skoðað fleiri minjar, höfum aðgengi að nýjum stöðum og aðkoma að dýrmætum náttúruperlum hefur bæst til muna. Ásamt þessu hefur aðstaða fyrir gesti aldrei verið betri.

Mikilvægt er að brugðist sé við óskum um innspýtingu vegna uppbyggingar efnislegra innviða á ferðamannastöðum í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna. Frá árinu 2018 hefur yfir 4,7 milljörðum verið veitt úr landsáætlun til uppbyggingar í fjölmörgum verkefnum. Því fjármagni hefur verið skipt á um 170 staði um allt land. Umsjónaraðilar hafa unnið vel að því undirbúa svæðin betur svo þau geti tekið á móti þeim aukna gestafjölda sem framtíðin ber í skauti sér. Það er því gott að sjá að gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára, en betur má ef duga skal.

Mikilvægt fjármagn

Þann 11. ágúst sl. bárust fréttir frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu um að 908 milljónum króna yrði úthlutað úr Landsáætlun til uppbyggingar innviða á þessu ári skv. úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Fjármagnið veitir mikilvæg tækifæri til að setja fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, eflingu öryggis, skipulag og hönnun við ferðamannastaði. Hins vegar er þörf á endurskoðun á skiptingu þess milli landshluta.

Þörf á jafnri skiptingu

Þegar litið er til úthlutunar fjármagns úr Landsáætlun eftir landshlutum kemur í ljós að veruleg misskipting er milli landsvæða. Bróðurpartur fjármagnsins, 71%, hefur farið í eina átt, þ.e. til Suðurlands. Þetta er annað árið í röð sem meirihluti fjármagnsins er úthlutað til Suðurlands. Árið 2022 fór rétt um 50% af 908 milljónum króna í verkefni tengd uppbygginu innviða á Suðurlandi.

Barist er fyrir stöndugri ferðaþjónustu um allt land, en á mörgum stöðum er nauðsynlegt að frekari uppbygging innviða eigi sér stað á fjölförnum stöðum svo að það gangi upp. Það á við á allri landsbyggðinni þar sem auðlindir eru víða og tækifæri í ferðaþjónustu eru fjölmörg en að mörgu leyti vanýtt. Tenging milli úthlutunarinnar og stefnu stjórnvalda um dreifingu ferðamanna er ekki auðsýnileg. Sérstaklega ekki þegar kemur að þeim verkefnum, sem finnast um land allt og kalla á frekari uppbyggingu. Fjölmörg verkefni bíða okkar og ákallið kemur úr öllum áttum. Það skiptir sköpum að fjármunir séu nýttir með þeim hætti að þeir efli spennandi uppbyggingu í öllum landshlutum á jafnan máta.

Samfélagið, þingmenn og ráðherrar þurfa að átta sig á að misskipting fjármagns á milli landshluta af þessu tagi ýtir sannarlega ekki undir það markmið að allir hafi jöfn tækifæri óháð búsetu.

Þarna þurfum við að gera betur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Ný Tónlistarmiðstöð!

Deila grein

16/08/2023

Ný Tónlistarmiðstöð!

Tónlistarmiðstöðin mun verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og tónlistariðnaðar, sinna bæði fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Til hamingju með daginn íslenskt tónlistarfólk – og við öll!

Í dag fór fram stofnfundur Tónlistarmiðstöðvar í Hörpu. Stjórn Tónlistarmiðstöðvar var kynnt á fundinum en formaður stjórnar miðstöðvarinnar er Einar Bárðarson.

Stjórnina skipa auk Einars þau Sólrún Sumarliðadóttir, Ásmundur Jónsson, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal. Varamenn í stjórn verða Arna Kristín Einarsdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Sölvi Blöndal, Bragi Valdimar Skúlason, Margrét Eir Hönnudóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir og Aron Örn Óskarsson.

Á viðburðinum í Hörpu tóku meðal annars til máls Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Steindór Dan Jensen formaður bráðabirgðastjórnar og Einar Bárðarson nýr formaður Tónlistarmiðstöðvar. Einnig ávarpaði Jakob Frímann Magnússon gesti fyrir hönd starfshópsins sem vann að nýsamþykktri tónlistarstefnu og stofnun Tónlistarmiðstöðvar.

„Þetta er mikill gleðidagur og einstaklega mikilvægur áfangi fyrir tónlist og tónlistarfólk hér á landi. Þetta er löngu tímabært skref sem mun styrkja tónlistargeirann til framtíðar. Tónlistarmiðstöðin getur orðið einn af hornsteinum tónlistarlífs og -iðnaðar og það er mín von og trú að tónlistarsenan hér á landi muni blómstra sem aldrei fyrr,“ sagði menningar- og viðskiptaráðherra í Hörpu í dag.

Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk menningar- og viðskiptaráðherra f.h. ríkissjóðs. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni. Tónlistarmiðstöð starfar samkvæmt nýjum tónlistarlögum, nr. 33/2023.

Hornsteinn í íslensku tónlistarlífi

Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Á árunum 2023-2025 er ráðgert að samtals 600 milljónir renni af fjárlögum til stofnunar Tónlistarmiðstöðvar og til eflingar sjóða tónlistar til viðbótar við þau framlög sem renna nú þegar til tónlistar.

„Ég þakka starfshópnum og bráðabirgðastjórninni fyrir vel unnið starf. Tónlistarmiðstöð er afrakstur samstarfs tónlistargeirans og ráðuneytisins og byggir á tillögum grasrótarinnar. Með góðu samstarfi má svo sannarlega hrinda stórum hugmyndum í framkvæmd á tiltölulega skömmum tíma,“ sagði ráðherra meðal annars í ávarpi sínu í dag.

Ný stjórn Tónlistarmiðstöðvar tekur við af bráðabirgðastjórn en hana skipuðu Steindór Dan Jensen, Guðrún Björk Bjarnadóttir, Gunnar Hrafnsson, Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.

Starfshópinn sem vann að undirbúningi stofnunar Tónlistarmiðstöðvar skipuðu Jakob Frímann Magnússon, Baldur Þórir Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason, Bryndís Jónatansdóttir, Eiður Arnarsson, Gunnar Hrafnsson, María Rut Reynisdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir,

Uppbygging tónlistariðnaðar

Tónlistarmiðstöðin mun bæði sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð mun styðja við uppbyggingu sprota og hlúa að ferli listafólks og verður áhersla lögð á að tryggja fjölbreytni og grósku og að starfsumhverfið verði nútímalegt og hvetjandi fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Með stofnun Tónlistarmiðstöðvar er stigið stórt skref í áttina að því að veita listgreininni aukið vægi og til að greiða leið íslensks tónlistarfólks, innan lands sem utan.

Tónlistarmiðstöð er sjálfseignarstofnun sem rekin er á einkaréttarlegum grunni með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð og starfar samkvæmt sérstakri skipulagsskrá sem stjórn setur og staðfestir.

Gleðidagur! 🎶🎼🎵 Ný Tónlistarmiðstöð var formlega stofnuð í dag. Tilkoma hennar mun marka vatnaskil í stuðningi við…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Fréttir

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

Deila grein

16/08/2023

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd!

„Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar breytingar eru mikilvægt framhald af vinnu sem nú er í gangi og  byggja á þeim grunni sem lagður er með niðurlagningu pólitískra barnaverndarnefnda og þeim áhrifum sem lög um farsæld barna eru byrjuð að hafa.

Það er ánægjulegt að í fyrsta skipti var haft sérstakt samráð við börn sem hafa reynslu af barnaverndarkerfinu og þeirra innlegg voru mjög mikilvæg,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Morgunverðarfundur mennta- og barnamálaráðuneytisins um nýja framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar fyrir árin 2023 til 2027 fór fram í vikunni og voru á fundinum kynntar tillögur að aðgerðum og fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Upptöku frá fundinum má nálgast hér.

Ný framkvæmdaráætlun felur m.a. í sér:

  • Fjölgun úrræða fyrir börn og fjölskyldur þeirra þar sem m.a. verða sett upp ný meðferðarúrræði.
  • Öll alvarleg atvik í lífi barna verði könnuð í þeim tilgangi að koma auga á tækifæri til úrbóta í þjónustu við börn.
  • Heildarendurskoðun barnaverndarlaga þar sem sérstaklega verði endurskipulögð öll úrræði í málefnum barna og settur verði hámarksbiðtími eftir nauðsynlegri þjónustu.
  • Samhæfing í vinnslu allra barnaverndarmála verður aukin.
  • Endurskipulagningu verklags í þjónustu við fylgdarlaus börn.
  • Umhverfi barnaverndarstarfsmanna verði bætt með ýmsum aðgerðum.
  • Unnið verði að því að stofnanir og þjónustuaðilar í málefnum barna sameinist á einum stað með það að markmiði að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.
  • Samstarf verði aukið við fjölskyldur, börn, nærumhverfi barna og kerfa sem hafa aðkomu að málefnum barna.

„Takk allir sem komu að þessari vinnu – Saman erum við að breyta kerfinu fyrir okkar mikilvægustu borgara.“

Ný framkvæmdaráætlun í barnavernd! Er ótrúlega ánægður með áframhaldandi róttækar breytingar í málefnum barna. Þessar…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Categories
Greinar

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Deila grein

15/08/2023

Blómlegum bæ í uppbyggingu fylgir alls konar rask

Við í Framsókn Akureyri viljum sjá bæinn okkar blómstra og þeirri uppbyggingu fylgir eðlilega alls konar tæki og tól. Það getur verið kostnaðarsamt fyrir t.d. minni fyrirtæki að koma sér upp lóðum/stæðum fyrir þau tæki sem fylgja starfseminni, enda gera gatnagerðargjöld ráð fyrir miklu byggingarmagni og gjaldskráin eftir því. Þá þarf að leita annarra lausna sem eru sniðnar að mismunandi þörfum.

Ég hef talað fyrir því að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga með því að bjóða upp á vaktað geymslusvæði eins og tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Á síðasta skipulagsráðsfundi var samþykkt þessi tillaga mín: Haldinn verður opinn fundur með verktökum, atvinnurekendum og félagasamtökum þar sem rætt verður um hvort grundvöllur sé fyrir því að koma upp vöktuðu geymslusvæði í bæjarlandinu þar sem einstaklingar og fyrirtæki geti leigt pláss fyrir svo sem ökutæki, gáma, hjólhýsi og vinnuvélar.

Það er von mín að fyrirtæki og einstaklingar í bænum taki vel í þessar hugmyndir og mæti í samtalið svo við getum í sameiningu fundið lausn á málum. Hvort sem þetta verður niðurstaðan, eða ef önnur betri finnst, þá getum við ekki látið stöðuna óáreitta.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 14. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára

Deila grein

14/08/2023

Endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hyggst á komandi haustþingi leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára og er hægt að nálgast hana í samráðsgátt stjórnvalda. Grænbókin er liður í endurskoðun á landsskipulagsstefnu 2015-2026. Hægt er að senda inn umsagnir eða ábendingar til og með 24. ágúst nk.

Í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010 og lög nr. 30/2023 um stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála, samgangna og byggðamála leggur ráðherra fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu til fimmtán ára. Í tillögunni skal felast endurskoðun á gildandi landsskipulagsstefnu þegar þörf er á, ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og nýtingu og vernd auðlinda haf- og strandsvæða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Grænbókin byggir m.a. á fyrirliggjandi gögnum frá Skipulagsstofnun og öðrum opinberum aðilum, vinnu starfshópa, rafrænni spurningakönnun meðal sveitarfélaga, opnu samráði við almenning og aðra hagaðila, m.a. með fundaröðinni „Vörðum leiðina saman“ sem haldin var í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, sem og rafrænni spurningakönnun meðal ungs fólks.

Grænbókin leggur grunn að endurskoðun landsskipulagsstefnu til næstu ára. Í henni er stöðumat og drög að lykilviðfangsefnum, framtíðarsýn og áherslum, sem og nálgun við mat á umhverfisáhrifum. Samhliða grænbók eru drög að greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála í landinu í kynningu sem viðauki.

Mikilvægt er að fá fram skoðanir og álit almennings og annarra hagaðila og eru því öll hvött til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Á grundvelli hennar verður unnið stefnuskjal eða svokölluð hvítbók og í framhaldinu þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu til 15 ára og fimm ára aðgerðaáætlun.

Stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt greinargerð um stöðu og þróun skipulagsmála verði lögð fram á haustþingi. 

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Skýrsla um hlutverk veitenda geðheilbrigðisþjónustu

Deila grein

14/08/2023

Skýrsla um hlutverk veitenda geðheilbrigðisþjónustu

Starfshópur sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, fól að skilgreina hlutverk og verkefni þeirra aðila sem veita fyrsta, annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu hefur skilað skýrslu með niðurstöðum sínum.

Verkefnið er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum til ársins 2027 sem samþykkt var á Alþingi í júní sl.

Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í júní í fyrra og aðgerðaáætlun um framkvæmd hennar síðastliðið vor.

Ein þeirra aðgerða sem ákveðið var að setja í forgang (2.C.1) felst í því að skilgreina hlutverk og verkefni þeirra sem veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum, greina samvinnu og samfellu þjónustunnar og hvað skorti þar á og koma með áætlun til úrbóta. Aðgerð 2.C.1 er tvíþætt og var starfshópi heilbrigðisráðherra falið að vinna þann hluta hennar sem felst í því að skilgreina hlutverk og verkefni þjónustuveitenda.

Niðurstöður starfshópsins koma fram í meðfylgjandi skýrslu.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Deila grein

08/08/2023

Öflug ferðaþjónusta á forsendum samfélagsins

Eld­gosið í Eyja­fjalla­jökli árið 2010 markaði ákveðin vatna­skil fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu. Með þessu út­spili sínu kom móðir nátt­úra land­inu ræki­lega á kort er­lendra fréttamiðla um langt skeið með til­heyr­andi aukn­um áhuga á að ferðast til lands­ins. Þannig óx fjöldi ferðamanna úr tæp­lega 500 þúsund árið 2010 í rúm­ar 2,3 millj­ón­ir árið 2018 þegar mest var.

Sam­hliða þessu hef­ur hlut­ur ferðaþjón­ust­unn­ar í lands­fram­leiðslu vaxið mjög en árið 2022 nam hann 7,8% og út­gjöld er­lendra ferðamanna námu 390,4 millj­örðum króna. Áætlað er að rúm­lega 18 þúsund ein­stak­ling­ar hafi starfað við ferðaþjón­ustu hér á landi í fyrra og síðustu fjóra árs­fjórðunga skilaði grein­in 411 millj­örðum króna í út­flutn­ings­tekj­ur eða tæp­um fjórðungi heild­ar­út­flutn­ingstekna þjóðarbús­ins. Það ger­ir grein­ina stærstu gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­grein lands­ins, með til­heyr­andi stuðningi við gengi krón­unn­ar og styrk­ari óskuld­sett­um gjald­eyr­is­forða fyr­ir þjóðarbúið. Þetta skipt­ir miklu máli fyr­ir Ísland.

Það hef­ur hins veg­ar eng­um dulist að vöxt­ur sem þessi reyn­ir á ýmsa þætti sam­fé­lags­ins og öll­um ljóst að Ísland get­ur ekki tekið við enda­laus­um fjölda ferðamanna á hverju ári. Í embætti mínu sem ferðamálaráðherra finn ég sam­eig­in­leg­an skiln­ing á þessu sjón­ar­miði inn­an ferðaþjón­ust­unn­ar. Það er í lagi að vera upp­seld­ur áfangastaður og að færri kom­ist að en vilja. Frá ár­inu 2010 hef­ur mikið vatn runnið til sjáv­ar þegar kem­ur að ferðaþjón­ust­unni. Geta lands­ins til að taka á móti er­lend­um ferðamönn­um hef­ur batnað veru­lega og mik­il­væg reynsla og þekk­ing hef­ur byggst upp í grein­inni. Fjár­fest hef­ur verið af mikl­um metnaði hring­inn í kring­um landið í upp­bygg­ingu áfangastaða og innviða, úr­val af afþrey­ingu og ým­iss kon­ar þjón­ustu hef­ur stór­auk­ist, at­vinnu­líf og bú­setu­skil­yrði batnað um allt land á sama tíma og hingað koma verðmæt­ari ferðamenn. Mæl­ing­ar sýna að ánægja er­lendra ferðamanna með Ísland sem áfangastað er mik­il í er­lend­um sam­an­b­urði. Það er vitn­is­b­urður um að ís­lensk ferðaþjón­usta sé á heims­mæli­kv­arða.

Í upp­gangi og vel­gengni sem þess­ari er hins veg­ar mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum, að týna ekki sjálf­um sér; að huga að mörk­um. Það er óbilandi skoðun mín að liður í því að Ísland haldi sjarma sín­um sé að við stönd­um með sér­kenn­um lands og þjóðar, þar með talið tungu­mál­inu. Ég tel til að mynda að all­ar merk­ing­ar eigi að vera fyrst á ís­lensku, og svo á öðru tungu­máli, hvort sem það er í Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar eða ann­ars staðar. Fyr­ir dyr­um stend­ur að gera ís­lensk­una miklu sýni­legri en hún hef­ur verið með sam­starfi við ferðaþjón­ust­una og at­vinnu­lífið. Tek­in verða mun ákveðnari skref til þess að gera ís­lensk­unni hærra und­ir höfði. Þetta og meira til verður ein­mitt und­ir í mót­un nýrr­ar aðgerðaáætl­un­ar á sviði ferðamála á grunni sem unnið er að. Það er framtíðar­sýn mín að ís­lensk ferðaþjón­usta eigi að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is; öfl­ug ferðaþjón­usta á for­send­um sam­fé­lags­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2023.

Categories
Greinar

Vegir liggja til allra átta

Deila grein

28/07/2023

Vegir liggja til allra átta

Atvinnumálanefnd Dalabyggðar gerði í vor úttekt á þeim rúmlega 400 km sem vegakerfi sveitarfélagsins samanstendur af og vann upp úr henni forgangsröðun. Þess ber að geta og þurfti ekki fyrrnefnda úttekt til að komast að þeirri niðurstöðu, að alltof stór hluti þeirra kílómetra eru malarvegir. Það vildi svo til að drög að nýrri samgönguáætlun komu inn á Samráðsgátt stjórnvalda þegar verið var að leggja lokahönd á úttekt og forgangsröðun og því ákvað Dalabyggð að auk umsagnar um samgönguáætlun myndi fyrrnefnd úttekt fylgja með sem fylgigagn.

Eitt stærsta og brýnasta vegamál í Dalabyggð er Skógarstrandarvegur (Snæfellsnesvegur 54), en hann er eini stofnvegur á Vesturlandi sem ekki er bundinn slitlagi og sá lengsti á láglendi sem en er án slitlags. Mikilvægt er að halda því til haga í allri umræðu að Skógarstrandavegurinn er stofnvegur, ekki tengivegur eða önnur vegtegund, það vill of oft gleymast í umræðum og greinaskrifum hins mætasta fólks. Í gildandi samgönguáætlun sem og drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 kemur fram að eitt af markmiðum um framkvæmdir í vegamálum sé að byggja upp grunnet stofnvega með fullu burðarþoli og bundnu slitlagi. Það vakti því furðu við lestur á drögum að nýrri samgönguáætlun þegar ljóst varð að ekki er gert ráð fyrir áframhaldi á framkvæmdum við Skógarstrandarveg fyrr en 2027. Tenging Dalabyggðar við Snæfellsnes er mikilvæg fyrir samfélag Dalamanna og uppbyggingu þjónustu við ferðamenn til framtíðar en einnig með tilliti til atvinnu- og skólasóknar þeirra sem í Dalabyggð búa og þurfa að ferðast um veginn mikilvæga flesta daga ársins. Tilvonandi seinkun á framkvæmdum við veginn er algjörlega ótæk og ljóst að halda verður vel á spöðunum til að svo viðamikið verk haldi áfram án meiri seinkunar en orðið hefur.

Vestfjarðarvegur sunnan Búðardals er einnig stofnvegur sem þó er með bundnu slitlagi. Vegurinn er bæði svo mjór og illa farinn að hann er engan veginn tilbúin fyrir þá þungaumferð sem um hann fer. Mikil umferðaraukning hefur orðið á Vestfjarðarvegi um Dalabyggð sl. ár, meðal annars vegna aukinna þungaflutninga vestan af fjörðum og með tilkomu vegabóta yfir Þröskulda. Þar þarf að ráðast í endurbætur hið snarasta svo mannsæmandi sé. Vitnast þá aftur í markmið um framkvæmdir í vegamálum í samgönguáætlun þar sem fram kemur markmið um breikkun vega þar sem umferð er svo mikil að flutningsgeta og umferðaröryggi verða vandamál.

Við skoðun á framkvæmdum við héraðsvegi kom það nefndinni mjög á óvart að engir sérstakir fjármunir hafa verið settir með vegaáætlun í uppbyggingu þeirra frá hruni. Því verður ekki hægt að una lengur og þarf að gera bætur þar á. Héraðsvegir eiga að geta verið mun léttbyggðari en stofn- og tengivegir og því hægt að komast mun fleiri kílómetra fyrir sambærilega fjárhæð.

Alls eru 77% tengivega á starfssvæði Vegagerðarinnar í Búðardal malarvegir og segir það meira en mörg orð um framgang í uppbyggingu þeirra vega á svæðinu. Bæta þarf verulega úr fjármögnun þar á, því viðhaldsfé á þeim vegum hefur einnig verið í miklu lágmarki síðustu ár og vegirnir því margir í mjög slæmu ásigkomulagi. Sjá verður til þess að framkvæmdir við loka kafla Laxárdalsheiðar fari í útboð á árinu 2024 og verði þá kominn tenging með bundnu slitlagi beint yfir í Hrútafjörð.

Þegar litið er á tengi- og stofnvegi sem liggja um Dalina þá liggja þeir vegir til allra átta og gerir það Dalina að miðpunkti sem mikilvægt er að horfa til þegar staðsetningar þjónustu fyrir víðfeðmt svæði er skoðuð. Vegamál eru því mikilvægt atvinnu- og byggðamál í Dalabyggð sem og aðliggjandi sveitarfélögum.

Það er gríðarlega mikilvægt að vegayfirvöld og þeir sem um fjármagnið halda og stýra fjármögnun til vegaframkvæmda taki tillit til þeirra tillagna sem heimafólk gerir á hverjum stað. Mitt mat og okkar í Dalabyggð er að við séum að setja fram okkar tillögur á málefnalegan hátt, styrktar góðum og faglegum rökum sem óskandi er að alþingismenn okkar í kjördæminu og aðrir sem að koma geti notað til gagns í sinni vinnu.

Ég vil að lokum þakka þau góðu viðbrögð sem skýrsla um forgangsröðun vegaframkvæmda í sveitarfélaginu Dalabyggð hefur fengið og vona að sá hjómgrunnur sýni sig í framkvæmdum komandi ára.

Garðar Freyr Vilhjálmsson, formaður atvinnumálanefndar Dalabyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júlí 2023.