Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi stöðu ungs fólks og annarra fyrstu kaupenda sem sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði, í störfum þingsins. Segi hann þessa þróun hafa verið að raungerast á síðustu 12 mánuðum og muni að óbreyttu halda áfram. Segir Ágúst Bjarni að aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði skipta hér öllu máli. „Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki.“
Bendir Ágúst Bjarni á að bregðast verði við ástandinu, fyrstu kaupendur og aðrir sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði lenda í rofinni keðjuverkun sem frostið veldur.
„Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin,“ sagði Ágúst Bjarni.
Alþingi hefur þau verkfæri er þarf til s.s., „að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði.
Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi
„Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að koma hingað upp og ræða ástandið á húsnæðismarkaði. Aðgerðir Seðlabankans varðandi lánþegaskilyrði hafa orðið til þess að algjört frost er á markaðnum um þessar mundir. Ungt fólk og aðrir fyrstu kaupendur sjá sér ekki fært að kaupa fasteign á algerlega frosnum markaði. Þessi þróun hefur verið að raungerast síðustu 12 mánuði og mun að óbreyttu halda áfram.
Við sjáum þá keðjuverkun sem frostið veldur. Nú berast okkur fréttir af því að keðjan sé rofin og fáum takist að kaupa eða selja eignir í núverandi ástandi. Almennt gerir fólk tilboð í fasteign með fyrirvara um sölu en það sem hefur færst í aukana er að veita þurfi lengri frest, með fyrirvara, eða hætta þurfi við viðskipti sökum þess að í núverandi ástandi er eftirspurnin lítil sem engin.
Við sjáum það að einstaklingum sem eru að stækka við sig og ætla að selja sína fyrstu eign reynist það oft ómögulegt þar sem kaupendahópur fyrstu eigna er horfinn af markaðnum. Það skiptir engu máli hversu vel eignir eru auglýstar og hversu oft er opið hús, eignin hreinlega selst ekki. Eins og ég segi getur þetta t.d. verið fjölskylda sem þarf að stækka við sig í samræmi við fjölgun.
Virðulegi forseti. Enn og aftur sjáum við að bregðast þarf við ástandinu á fasteignamarkaði. Það eru ekki einungis fyrstu kaupendur sem bíta í það súra, heldur á það við um alla sem vilja kaupa eða selja í núverandi árferði. Nauðsynlegt er að nýta þau verkfæri sem við hér á Alþingi höfum og ég hef oft nefnt, t.d. að rýmka reglur og kröfur um veitingu hlutdeildarlána, breyta reglum um veðsetningu lána til fyrstu kaupenda og ráðast í framkvæmdir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði sem hentar fyrstu kaupendum, í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóði. Við getum stuðlað að því, með hækkandi sól, að frostið sem einkennir fasteignamarkaðinn um þessar mundir fari að þiðna.“

18/04/2023
Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefniÁ dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.
Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.
Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.
Hin verndandi arfgerð
Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.
Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.
Mikilvægt frumkvæði
Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.
Verkefni sem skiptir máli
Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.
Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.
Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð
Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.
Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.
Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.

15/04/2023
Uppbygging um allt landÁ undanförnum árum hafa stjórnvöld fjárfest myndarlega í ýmsum innviðum tengdri ferðaþjónustu í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Á tíu árum hafa 849 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum og í gær kynnti ég nýjustu úthlutun sjóðsins, að upphæð 550 m.kr. Verkefnin sem hljóta styrk eru að vanda afar fjölbreytt en hverfast öll um öryggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, náttúruvernd og sjálfbærni. Styrkirnir fara til verkefna hringinn í kringum landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Uppbyggingin er grundvölluð á heildarsýn fyrir hvern landshluta og áfangastaðaáætlanir.
101 umsókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýnir fram á þá miklu hugmyndaauðgi og kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu og þann metnað sem heimamenn í hverjum landshluta fyrir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Margir Íslendingar urðu þess einmitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tímum heimsfaraldursins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur skipt sköpum við að styðja við uppbyggingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokkur vel heppnuð verkefni eru uppbygging „svífandi“ sjálfberandi göngustíga úr áli í Hveradölum sem lágmarka snertingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hverasvæði sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Útsýnispallurinn á Bolafjalli er annað frábært verkefni sem vert er að nefna, en pallurinn hangir utan í þverhníptum stórstuðluðum klettum með stórbrotið útsýni yfir Ísafjarðardjúp, inn Jökulfirði og út yfir sjóndeildarhring í átt til Grænlands. Innviðauppbygging við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verkefni þar sem hugað er að öryggi og náttúruvernd með ráðgjöf fagfólks.
Í úthlutun gærdagsins fengu 28 verkefni í öllum landshlutum styrk. Hæsta styrkinn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verkefnið Baugur Bjólfs á Seyðisfirði, en um er að ræða hringlaga útsýnispall sem situr á fjallsbrún með einstöku útsýni yfir Seyðisfjörð. Þá hlaut Stuðlagil næsthæsta styrkinn, að upphæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu öryggi og náttúruvernd við þennan afar vinsæla ferðamannastað. Þá fékk útsýnispallur við Reynisfjall 72 m.kr. styrk sem eykur öryggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjallsins.
Ferðaþjónustan hefur á tiltölulega skömmum tíma orðið einn af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, og getur skapað miklar gjaldeyristekjur á tiltölulega skömmum tíma. Við þurfum því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsynlegir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönnum sem hingað koma. Styrkur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upplifun og aðgengi ferðamanna, meira öryggi og við styðjum við viðkvæma náttúru landsins. Með þessu stuðlum við að sjálfbærni og tryggjum framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.

12/04/2023
Íslensk matvara á páskum 2024Formaður Viðreisnar er framsýn kona og hugsar til framtíðar, þar viljum við öll vera. Hún undirstrikar það í grein sinni á Vísi í gær. Viðreisn horfir stíft til Evrópusambandsins þar sem sólin virðist skína skærar og verndartollar eru ekki til, eða hvað?
Evrópusambandið er tollabandalag og var stofnað sem slíkt, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri eins og Grýla og Leppalúði en það er oft látið að því liggja í umfjöllun þeirra sem virðast þjást af einskærri þrá og löngun til að leggja af tolla.
Það er kannski ástæða fyrir því að gula góða Cheerios fæst ekki í mörgum löndum ESB. Það er framleitt í Bandaríkjunum og er það líklega vegna hárra innflutningstolla ESB að það er bara of dýrt til að setja á markað í Evrópu.
Gott ef ekki er þá ekki líklega framleitt enn betra morgunkorn innan sambandsins og þau vilja styðja við sína matvöruframleiðendur.
Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra eru mjög ólíkir. Þjóðir munu að sjálfsögðu áfram vernda framleiðslu sína og störf fólks.
Hafa það sem sannara reynist
Formaður Viðreisnar fullyrðir að verndartollar séu hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Að langstærstum hluta bera innfluttar matvörur ekki verndartolla. Ef rýnt er í íslensku tollskránna og hún borin sama við önnur lönd sem við svo oft berum okkur saman við, má sjá að Ísland leggur ekki á hærri tolla og tollskráin íslenska inniheldur ekki fleiri tollnúmer en hjá löndum sem við berum okkur saman við og er í mörgum tilfellum búið að gera tvíhliða samninga um viðskipti á matvöru sem ekki er lagt á tollar.
Betri er heimafenginn baggi
Formaður Viðreisnar er annt um íslenska matvælaframleiðslu, þar þekki ég hana. Þar er ég líka. Hún nefnir sérstaklega öfluga mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík sem við á Vestfjörðum erum virkilega stolt að. Þrátt fyrir ungt fyrirtæki eru þau búin að koma sér vel fyrir á markaði með öflugt þróunarstarf og nýsköpun að vopni.
Þjóðir leggja á verndartolla til að jafna samkeppnisstöðu innlends landbúnaðar gagnvart innflutningi á sambærilegri vöru. Það þykir sanngjarnt. Það þyrfti ekki að spyrja að framtíðarmöguleikum lítillar mjólkurvinnslu í Bolungarvík ef hún þyrfti að keppa óhindrað við innflutta verksmiðjuframleiðslu frá útlöndum. Við Íslendingar eru heppnir að því leyti að hér ríkir velmegun í samfélaginu. Við viljum horfa til framtíðar og hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum hafa hana til þess að við getum keypt hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður og skapa á sama tíma vinnu fyrir fólkið í landinu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 11. apríl 2023.
Áframhaldandi vinna við áskoranir!

08/04/2023
Áframhaldandi vinna við áskoranir!Þær hafa verið viðburðaríkar vikurnar frá síðasta bréfi. Vil ég byrja á að þakka innilega fyrir hönd þingflokksins góð samtöl við ykkur í mjög vel heppnaðri kjördæmaviku. Þið náðuð að nesta okkur af mikilvægum ábendingum sem úrlausna þarf við og eins að hvetja okkur áfram, fyrir það erum við þakklát.
Í liðinni viku kynntu formenn stjórnarflokkanna fjármálaáætlun, fyrir árin 2024-2028, þar sem koma fram áherslur og markmið til næstu fimm ára um tekjur og gjöld hins opinbera og þróun þeirra. Áætlunin er mikilvægt tæki til að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti. Það mátti greina góð fyrstu viðbrögð markaða við framlagningu fjármálaáætlunarinnar, vextir á ríkisskuldabréfum lækkuðu verulega og samhliða lækkaði verðbólga á milli mánaða.

Þingflokkur Framsóknar og ríkisstjórnin eru skýr með að sýna trúverðugt aðhald, en forgangsröðun brýnna verkefna og að bjóða áfram upp á góða almannaþjónusta. Þórarinn Ingi var talsmaður þingflokksins við fyrri umræðu fjármálaáætlunarinnar á Alþingi. Verður umræðunni framhaldið strax að loknu páskafríi Alþingis, þar sem ráðherrar munu m.a. fara yfir málaflokka sinna ráðuneyta.
Fjölskyldan snertir beint allt í okkar samfélagi og því er svo mikilvægt að gæta að og halda málefnum hennar á efst á blaði við alla ákvarðanatöku. Við ætlum okkur áfram að byggja gott samfélag og bjóða upp á jöfn tækifæri.
- Við ætlum áfram að nýta barnabótakerfið til að auka ráðstöfunartekjur tekjulægri fjölskyldna.
- Staða fjölskyldna langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verður bætt með nýju fyrirkomulagi umönnunarstyrks og umönnunargreiðslna. Aðbúnaður og réttindi barna eru ávallt í fyrirrúmi, börn eru hjartað í kerfinu.
- Áfram verður stutt við foreldra með öflugu fæðingarorlofskerfi.
- Við veitum börnum og barnafjölskyldum þjónustu við hæfi án hindrana og stuðlum þannig að góðum lífsgæðum, sem er ávinningur samfélagsins alls.
Farsældarlögin, samþætting þjónustu í þágu farsældar barna eru umgjörð barna og foreldra, sem á þurfa að halda og veita aðgang að þjónustu þvert á kerfi, án hindrana.

Fjárframlögin til heilbrigðismála hafa aukist verulega og endurspegla forgangsröðun og áherslur ríkisstjórnarinnar um að standa með íslensku heilbrigðiskerfi.
- Bætt var við 12 milljörðum króna í viðbótarframlag til heilbrigðismála í síðustu fjárlögum (2023) til þess að styrkja heilbrigðiskerfið og engin aðhaldskrafa er á heilbrigðisstofnanir í fjármálaáætluninni.
- Stærsta verkefnið framundan í geðheilbrigðismálum er samþætting og samvinna milli þjónustustiga geðheilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum notenda um allt land með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi á réttum tíma. Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni er í forgangi. Aðgerðaráætlun í geðheilbrigðisþjónustu til næstu 5 ára hefur verið lögð fram á Alþingi.
- Samningar milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári voru undirritaðir á dögunum. Samningarnir munu stuðla að jöfnu aðgengi einstaklinga að þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.
Stóra áskorunin okkar í húsnæðismálum er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og að skipulag sveitarfélaga horfi markvisst til framboðs á fjölbreyttri nýtingu lands. Við í Framsókn leggjum mikla áherslu á að ná þeirri stöðu á húsnæðismarkaði að framboð íbúða mæti undirliggjandi þörf mismunandi hópa fólks á öllum tímum, óháð efnahag og búsetu.
- Það þarf að byggja þrjátíu og fimm þúsund íbúðir hér á landi á næstu tíu árum og hefur ríkið gert samninga við sveitarfélög til að ná því markmiði.
Ákveðið hefur verið að leggja á 1% tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024. Lagt er upp með að atvinnulífið komi þannig til móts við stuðning ríkissjóðs í gegnum Covid-19.
Áætlað er að ferðaþjónustan muni koma sterkt inn með auknum tekjum.
- Tekin verður upp skattlagning á komu skemmtiferðaskipa sambærilegri og gistináttagjaldinu.
- Jafnframt er horft til aukna tekna af greinum eins og af fiskeldi og sjávarútvegi.
- Breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis skipta eins máli.
Lilja Dögg gerði vel á dögunum er hún fagnaði með forystu Neytendasamtakanna, á 70 ára afmæli þeirra og afhenti þeim styrk frá ríkisstjórninni og ráðuneyti hennar til að hefja úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum. Vil ég taka undir með Lilju Dögg hvað það er brýnt og mikilvægt að í núverandi efnahagsástandi sé hugað vel að neytendamálum. Ráðuneyti hennar mun setja aukinn þung í neytendavernd og unnið er að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024.
Sigurður Ingi sagði á kynningarfundi formanna ríkisstjórnarflokkanna um fjármálaáætlunina að áfram verði hægt að takast á við arðsamar fjárfestingar í samgöngum. Framkvæmdir sem þegar eru hafnar verði ekki frestað. Í umfjöllun fjármálaáætlunar um samgöngumál er m.a. gert ráð fyrir:
- Að hægt verði að leggja á sérstakt varaflugvallargjald, 200 kr. á farþega sem skili um 1,3 milljörðum kr. á ári til uppbyggingar innviða á innanlandsflugvöllum.
- Að í húsnæðismálum verður stuðlað að stöðugleika með sameiginlegri sýn ríkis og sveitarfélaga til næstu 10 ára um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins. Helstu breytingar á útgjaldaramma vegna þessa málaflokks á tímabili fjármálaáætlunar er 10 milljarða kr. aukning á stofnframlögum.
- Að um sveitarfélög og byggðamál er m.a. vakin athygli á að útgjaldarammi hækki um 5,2 milljörðum kr. á tímabilinu sem skýrist af auknu lögboðnu framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Vil ég að lokum óska landsmönnum öllum gleðilegra páska.
Framtíðin er björt með Framsókn!
Með kveðju frá Austurvelli,
Ingibjörg Isaksen
Áhugaverðir hlekkir:

04/04/2023
Viðspyrna gegn verðbólguÞað er afar jákvætt að vextir á ríkisskuldabréfum hafi lækkað verulega í kjölfar aukins taumhalds peningastefnu samhliða nýrri ríkisfjármálaáætlun. Tiltrú fjárfesta á aðgerðum stjórnvalda er að aukast. Aðhald og skýr forgangsröðun er meginstef í nýkynntri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar ásamt því að styðja við brýn verkefni og standa vörð um almannaþjónustuna. Ríkisfjármálin þurfa að vinna með peningastefnu Seðlabankans til að ná jafnvægi í efnahagslífinu og ná verðbólgunni niður. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára sýnir þá stefnu stjórnvalda að beita ríkisfjármálunum með markvissum hætti til að ná niður verðbólgu og frekari hækkun vaxta með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda.
Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjónustuna, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífskjör almennings. Skuldahlutföll ríkissjóðs lækka á tímabilinu og afkoma batnar. Lagður verður á 1% tímabundinn viðbótarskattur á lögaðila á árinu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyrir auknum tekjum af ferðaþjónustu með skattlagningu á skemmtiferðaskip sambærilegri við gistináttagjald sem og auknum tekjum af fiskeldi og sjávarútvegi ásamt breytingum á skattlagningu ökutækja og eldsneytis.
Á umliðnum árum hefur verið fjárfest myndarlega í ýmsum málaflokkum á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins sem hefur skilað sér í betra samfélagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjármálaáætlun er að finna ýmsar áherslur komandi ára í þeim málaflokkum. Má þar nefna hið mjög svo brýna verkefni að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla með skattalegum stuðningi til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði í samræmi við stjórnarsáttmála. Með nýjum aðgerðum viljum við skapa hvata og auka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamálastefnu til ársins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öflun áreiðanlegra gagna og innviðauppbyggingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið.
Þá er gert ráð fyrir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjónustu til að auka lífsgæði heyrnarskertra og heyrnarlausra. Lögð verður fram tillaga til þingsályktunar um íslenskt táknmál og aðgerðaáætlun vegna hennar. Barnamenningarsjóður verður festur í sessi með 100 m.kr. árlegu framlagi ásamt verkefninu List fyrir alla og aukinn þungi verður settur í neytendavernd og unnið að heildarstefnumótun sem áætlað er að ljúki fyrir árslok 2024.
Starfsumhverfi listamanna og umgjörð starfslauna listamanna verður bætt á tímabilinu. Á undanförnum misserum hefur verið unnið að tillögum í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í framkvæmd. Markmið stjórnvalda er að starfslauna- og verkefnasjóðir tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar, stuðli að meiri fjölbreytni í úthlutunum, auknu og jöfnu aðgengi mismunandi listgreina og raunsærri viðmiðum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar. lda@mvf.is
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2023.

04/04/2023
Hver á að borga fyrir ferminguna?Það getur verið flókið að ganga í gegnum skilnað, sér í lagi þegar fólk á börn saman. Í daglegu lífi þegar sérstök útgjöld tengdu barni eru framundan líkt og til dæmis vegna fermingar getur ágreiningur skapast milli foreldra. Í slíkum tilvikum getur lögheimilisforeldri óskað eftir úrskurði sýslumanns til að umgengnisforeldri greiði framlag þegar kemur að sérstökum útgjöldum s.s. vegna skírnar, ferminga, tannréttinga, gleraugnakaupa, sjúkdóma, greftrunar o.s.frv.
En umsóknir vegna sérstakra útgjalda geta verið bæði krefjandi og erfiðar ásamt því að vera flókið ferli fyrir foreldra sem jafnvel á sama tíma eru að ganga í gegnum erfið samskipti við fyrrverandi maka.
Óþarflega flókið ferli
Í síðasta mánuði mælti sú sem hér skrifar fyrir tillögu sem hefur það að markmiði að einfalda ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns. Í tillögunni er lögð áhersla á að auðvelda aðgengi milli aðila ríkisins að upplýsingum og gögnum, en foreldri þarf við umsókn um sérstök útgjöld að leggja fram ýmis fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við hvert tilefni fyrir sig. Má þar nefna skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.
Allt eru þetta gögn sem nú þegar liggja fyrir hjá hinu opinbera og því væri nærtækara að sýslumaður hefði lagaheimild kalla eftir þessum gögnum í stað þess að foreldri fari á milli kóngs og prests við að týna saman upplýsingar. Undirrituð telur að skoða verði af fullri alvöru hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu foreldris við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Tryggja þarf að sýslumannsembættunum sé kleift að afla nauðsynlegra gagna með stafrænum hætti.
Nýtum framvindu tækninnar
Í samræmi við þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum ætti auðveldlega að vera hægt að einfalda ferli um sérstök útgjöld verulega. Við gerð greiðslumats hökum við í boxið um upplýsingaöflun um tekjur okkar og skuldir og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja upp slíkt kerfi við umsóknarferli um sérstök útgjöld. Undirrituð telur að með sambærilegum hætti væri auðveldlega hægt að veita heimild til gagnaöflunar hjá stjórnvöldum vegna umsókna um sérstök útgjöld.
Ef við höfum tök á að bæta þjónustuna á þessum vettvangi og einfalda um leið ferlið bæði fyrir foreldrið og úrvinnsluaðilann, ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lausnin geti orðið að veruleika.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2023.

04/04/2023
Samstaða samfélagsins aðdáunarverðÍ ljósi atburða síðustu daga er vert að huga vel að hvort öðru og þakka fyrir að ekki fór verr. Það var dýrmætt að sjá þann mikla styrk sem býr í samfélaginu okkar, náunga kærleikinn og greiðasemina.
Eftir slíkan veðurofsa eru mörg verkefni sem bíða og það mun taka tíma að koma byggðarkjörnunum okkar í samt horf. Jafnframt þarf að meta það tjón sem orðið hefur og þá sérstaklega á Norðfirði.
Þar sönnuðu snjóflóðavarnargarðar gildi sitt og vil ég ekki hugsa til þess sem orðið hefði ef þeirra nyti ekki við. Síðustu dagar ýta enn frekar undir mikilvægi þess að koma upp fjórða og síðasta varnargarðinum en hönnun hans er nú þegar lokið.
Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa verið til staðar og aðstoðað samfélagið okkar síðustu daga, það er ómetanlegt að finna allan þann stuðning og kraft sem okkur barst allsstaðar að af landinu. Ég er ofboðslega stolt af því öfluga viðbragðsteymi sem hefur verið til staðar síðustu viku, það hefur verið vakið og sofið við það að tryggja öryggi íbúa, veita aðstoð og vera til staðar sem er ómetanlegt. Einnig ber að þakka starfsfólki og verktökum sveitarfélagsins, fyrirtækjum og stofnunum í Fjarðabyggð og svo ótal mörgum öðrum sem unnu mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður.
Eitt er víst að alltaf má draga lærdóm af slíkum atburðum og munum við fara yfir alla þá verkferla sem farið var í, rýna þá og meta. Það er alltaf eitthvað sem betur má fara en samstillt átak allra og gott samstarf við lögregluna á Austurlandi, Almannavarnir, Veðurstofuna og fleiri tryggði okkur góða yfirsýn í okkar víðfeðma sveitarfélagi.
Hlúum að andlegu heilsunni og verum vakandi fyrir einkennum áfalla og streitu hjá okkur sjálfum og öðrum nákomnum. Nýtum okkur þau úrræði sem eru til staðar, þjónustumiðstöð Almannavarna, Rauða krossinn, starfsmenn sveitarfélagsins, kjörna fulltrúa og fleiri. Það á enginn að standa einn í þeim verkefnum sem framundan eru. Að þessu sögðu vona ég að vorið og sumarið verði okkur hliðhollt og óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð
Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. apríl 2023.

03/04/2023
Tímamótasamningur um liðskiptaaðgerðir og loksins jafnt aðgengiJafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er kjarninn í stefnu Framsóknar í heilbrigðismálum. Þær áherslur birtast sömuleiðis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál.
Blandað rekstrarform
Við eigum öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á blönduðu rekstrarformi þar sem hið opinbera bæði veitir þjónustu og kaupir af öðrum aðilum. Þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð með opinberu fé er áhersla lögð á að þjónustan sé veitt tímanlega, af gæðum og á hagkvæman hátt. Í litlu þjóðfélagi þarf að gæta að jafnvægi og forgangsröðun þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Með samningum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu er hægt að stuðla að betri nýtingu fjár og mannauðs. Forsenda þess að blandað heilbrigðiskerfi gangi upp er samvinna og samspil kerfisins í heild þannig að hægt sé að fullnýta afkastagetu þess í þágu fólksins í landinu.
700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári
Við þekkjum vel umræðuna í tengslum við liðskipaaðgerðir sem hefur fylgt þjóðinni undanfarna áratugi. Ófá biðlistaátök hafa verið sett af stað með ágætis tímabundnum árangri en skömmu síðar höfum við ratað aftur í sama farið. Opinberar stofnanir þurfa að forgangsraða þjónustu sinni til að geta tekist á við lögbundið hlutverk sitt er varðar bráð veikindi, farsóttir og annað. Því sitja stundum á hakanum aðgerðir sem þessar. Fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hefur einnig nýtt sér heimildir EES regla um heilbrigðisþjónustu erlendis vegna langrar biðar eftir aðgerð. Er það gert með fullri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, óþægindum og óhagræði.
Frá árinu 2016 hefur Klínikin boðið upp á liðskiptaaðgerðir án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sem hefur vissulega hjálpað mörgum. En tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnameiri einstaklingar hafa tækifæri til að borga sig fram fyrir röðina, er eitthvað sem okkur í Framsókn hugnast ekki. Það verður að gæta jafnræðis í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þannig að allir geti gengið að góðri og tímanlegri þjónustu þegar á þarf að halda. Það er farsælast að allir þjónustuveitendur heilbrigðiskerfisins geti unnið saman að sameiginlegu markmiði á sömu forsendum. Þannig næst árangur til lengri tíma og tímabundinn á.
Það er því afar ánægjulegt að sjá áherslur Framsóknar setja mark sitt á heilbrigðismál undir öflugri forystu Willums Þórs, heilbrigðisráðherra. Í vikunni staðfesti hann samning Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 700 liðskiptaaðgerðum á þessu ári. Samningurinn markar tímamót og stuðlar að auknu og umfram allt jöfnu aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra tryggt aðgengi kvenna að endómetríósuaðgerðum með samskonar samningi í upphafi árs.
Tryggjum gæði og förum vel með fé
Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind í fámennu samfélagi og skipulag þjónustunar þarf að taka mið af því. Höfum hagsmuni einstaklingsins sem þarf á þjónustunni að halda að leiðarljósi. Með kaupum Sjúkratryggingar Íslands á nauðsynlegri heilbirðgisþjónustu tryggjum við jafnt aðgengi, samvinnu, réttláta forgangsröðun, skynsama nýtingu á almanna fé og fullnýtum afkastagetuna í heilbrigðiskerfinu.
Ágúst Bjarni Garðsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2023.
Njóta innlendir framleiðendur sanngirni?

03/04/2023
Njóta innlendir framleiðendur sanngirni?Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til matvælaráðherra um samanburð á framleiðslu á innlendu og innfluttu kjöti.
Ingibjörg spyr matvælaráðherra hvort sambærilegar kröfur og reglur um aðbúnaðvið og framleiðslu séu gerðar um heilbrigði og velferð dýra? Ef svo sé ekki, hverjar séu þá umfram kröfurnar og reglurnar sem innlendir framleiðendur verði að lúta í þeim efnum.
Eins spyr Ingibjörg hvort, ef svo sé að strangari kröfur séu gerðar hér á landi, greint hafi verið hver sé umfram kostnaðurinn við innlenda kjötframleiðslu í samanburði við framleiðslu á innfluttu kjöti vegna strangari krafna hérlendis.
Ingibjörg spyr einnig matvælaráðherra hvort það séu gerðar mismunandi kröfur varðandi sýklalyfjanotkun við framleiðslu á innlendu og innfluttu kjöti og þá hverjar, ef svo sé. Þá kallar hún eftir að fá upplýst hversu mikið magn sé notað af sýklalyfjum við framleiðsluna.
Í framhaldi spyr Ingibjörg um afstöðu matvælaráðherra til þess hvort áform séu um að merkja kjöt sérstaklega sem sé meðhöndlað með sýklalyfjum með fyrirbyggjandi hætti eða hvort upplýsa eigi neytendur um slíka sýklalyfjanotkun með einhverjum hætti. Þá er lagt fyrir ráðherra að svara hvort geti komið til þess að takmarka eða banna innflutning eða dreifingu dýraafurða sem eru framleiddar í andstöðu við lög um velferð dýra.
Þá spyr Ingibjörg hvort fylgst hafi verið með og skráð hvort innlend framleiðsla á kjöti hafi dregist saman samhliða auknum innflutningi á kjöti síðustu 10 ár. Ef ekki, sé matvælaráðherra umhugað að halda utan um slíkar upplýsingar með einhverjum hætti?
Það verður fróðlegt að rýna svör matvælaráðherra þegar þau berast, það er mikið í húfi fyrir land og þjóð, þó sé ekki nema það að vera á sömu blaðsíðunni.
Framsókn hefur barist fyrir því að banna dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum.
Heiminum öllum stafar ógn af sýklalyfjaónæmi og eru spár vísindamanna ógnvænlegar, ef ekki verði brugðist við af mikilli festu, enda muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.
***