Categories
Fréttir

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Deila grein

16/09/2019

Leiðarljósið verður samvinna og samfélagsleg ábyrgð

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir leiðarljósið vera samvinnu og samfélagslega ábyrgð í verkum Þingflokks Framsóknarmanna á Alþingi í vetur. Unnið verði að bættum hag fjölskyldna af festu svo þær njóti skilvirkari þjónustu og farsælla samfélags. Lykillinn að árangri sé samvinna. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu á dögunum.
„Fé­lags- og barna­málaráðherra vinn­ur að um­bót­um á fæðing­ar­or­lofs­kerf­inu til að auka rétt for­eldra með leng­ingu or­lofs, hækk­un á mánaðarleg­um há­marks­greiðslum og end­ur­skoðun á for­send­um greiðslna,“ segir Líneik Anna.
„Heild­stæðar aðgerðir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hafa skilað sér í stór­auk­inni aðsókn að kenn­ara­námi sem und­ir­bygg­ir enn öfl­ugra mennta­kerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frum­varp sem mun um­bylta lánaum­hverfi náms­manna.“

Categories
Fréttir

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Deila grein

16/09/2019

„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um að mótaðir verði efnahagslegir hvatar til ræktunar orkujurta á Íslandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
„Við höfum tækifæri til að verða sjálfbærari með orku. Gætum jafnvel knúið stóran hluta fiskiskipaflotans með lífdíselolíu unna úr íslenskum orkujurtum. Einnig verða til hliðarafurði af jurtunum sem nýtast sem fóður og áburður. Umhverfisáhrif af ræktun orkujurta er einnig verulega jákvæð, ekki síst vegna þess að með ræktun þeirra gætum við fækkað kolefnisfótsporum með því að minnka innflutning á fóðri, díselolíu og áburði,“ segir Silja Dögg.

Categories
Fréttir

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að verkefni fjölskyldna hafi breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, en að heimilislífið hafi leitast við að aðlaga sig að flóknu samfélagi. Langur vinnudagur foreldra hafi orðið til þess að skólarnir taki orðið við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. En Ásmundur Einar minnti á að fjölskyldan sé enn mikilvægasti aðilinn er kemur að umönnun og uppeldi barna.
„Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.“
„Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka,“ sagði Ásmundur Einar.

***

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegur forseti. Góðir landsmenn.

Mig langar að ræða um grunneiningu og mikilvægustu einingu samfélagsins, fjölskylduna. Verkefni fjölskyldna hafa breyst mikið samfara breyttum lífsháttum, ekki síst á síðustu árum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að þessum breytingum. Breytt verkefni fjölskyldna stafa m.a. af löngum vinnudegi beggja foreldra utan heimilis. Því hafa skólarnir orðið að taka við auknu hlutverki í uppeldi barnanna. Þrátt fyrir þetta er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni hverrar fjölskyldu.
Kæru landsmenn. Staða íslensku fjölskyldunnar í dag er að mörgu leyti mjög góð en því miður berast okkur fregnir og við sjáum tölur um að staða fjölskyldunnar sé að verða erfiðari vegna hraðra og breyttra þjóðfélagshátta. Verkefni stjórnvalda á hverjum tíma eiga og þurfa að lúta í meira mæli að því að bæta aðbúnað og hag fjölskyldna í landinu. Kulnun, langur vinnudagur, mönnunarvandi, aukinn kvíði barna og ungmenna, fjölgun ungra einstaklinga á örorku, bágur efnahagur og skortur á viðeigandi húsnæði eru því miður dæmi um áskoranir sem íslenskt samfélag og stjórnvöld þurfa að horfast í augu við. Að hlúa að fjölskyldunni er fjárfesting til framtíðar og sterk og heilbrigð fjölskyldueining myndar sterkt íslenskt samfélag.
Núverandi ríkisstjórn er að vinna að mörgum aðgerðum og kerfisbreytingum til að styrkja stöðu fjölskyldna á Íslandi. Við erum að vinna að því að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því m.a. að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs í 12 mánuði og hækka greiðslur í fæðingarorlofi. Þessi aðgerð ein og sér mun þýða 10 milljarða aukningu til fjölskyldna landsins á ársgrunni í lok þessa kjörtímabils. Við erum líka að vinna að mjög róttækum breytingum í málefnum barna sem miða að því að grípa unga einstaklinga fyrr á lífsleiðinni. Þar vinnum við í góðu samstarfi þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnmálaflokka.
Eitt af grundvallaratriðum hvers samfélags er húsnæðismál. Það á að vera sjálfsögð krafa, eins og krafan sem við gerum um aðgengi í mennta- og heilbrigðismálum, að hver og einn geti komið sér þaki yfir höfuðið. Þarna er ríkisstjórnin að vinna að margvíslegum aðgerðum og m.a. munu á næsta ári 3,7 milljarðar renna til þess að fjölga almennum íbúðum á leigumarkaði, m.a. í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.
Virðulegur forseti. Við erum að stíga gríðarlega stór skref þegar kemur að afnámi verðtryggingar í íslensku samfélagi. Það er svo sannarlega kerfisbreyting sem er í undirbúningi og mun frumvarp koma fram á þessu þingi. Við erum líka að vinna að kerfisbreytingum sem miða að því að styðja ungt fólk, tekjulágt fólk og fólk sem missti eignir sínar í hruninu, við það að geta keypt sér íbúð á nýjan leik.
Virðulegur forseti. Við erum að vinna að aðgerðum í húsnæðismálum gagnvart landsbyggðinni. Nýlega undirritaði ég reglugerð sem setur af stað nýjan lánaflokk til handa landsbyggðinni, til kaldra markaðssvæða, en kallað hefur verið eftir slíkri kerfisbreytingu í mjög langan tíma.
Góðir landsmenn. Við getum rifist og stundað málþóf út í hið óendanlega í þessum sal, t.d. um þriðja orkupakkann, en tölum um það sem raunverulega skiptir máli. Hvenær hefur verið málþóf um stöðu fjölskyldunnar í íslensku samfélagi? Ég er tilbúinn til að taka þátt í slíku málþófi með þeim sem hafa verið í því.
En, virðulegi forseti, þeir sem stunda slíkt málþóf koma síðan hér og gagnrýna það að við séum að auka fjármagn til fæðingarorlofs til fjölskyldna í landinu og kalla það óeðlilegan vöxt eða að báknið sé að vaxa.
Virðulegur forseti. Ef það er raunin þá er ég mjög stoltur af því að báknið sé að vaxa. Ég mun í vetur leggja mig allan fram við að ýta fyrrnefndum verkefnum úr vör vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að við stöndum vel við bakið á fjölskyldum þessa lands. Þær eru grunneining samfélagsins. — Góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Lilju Alfreðsdóttur – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að öll viljum við Ísland sé í fremstu röð, að unga fólkið hafi aðgang að bestu skólum veraldar og að atvinnulífið nái árangri á heimsvísu með réttum rekstrarskilyrðum. Þetta sé mögulegt með samkeppnishæfu menntakerfi og atvinnulífi.
„Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd.“
„Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn,“ sagði Lilja.

***

Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn.

Við viljum öll að Ísland sé í fremstu röð og að samkeppnishæfni menntakerfisins og atvinnulífsins sé þannig að unga fólkið okkar hafi aðgengi í bestu skólum veraldar og að atvinnulífið okkar búi við þannig rekstrarskilyrði að það nái árangri á heimsvísu.
Góðir landsmenn. Í upphafi kjörtímabilsins boðaði ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Ljóst var að ýmsar áskoranir biðu okkar á því sviði en sú allra stærsta sneri að mikilvægasta starfi samfélagsins, því sem leggur grunninn að öllum öðrum störfum, sjálfu kennarastarfinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er afar skýr í þessum efnum. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara. Jafnframt kemur fram að bregðast þurfi við yfirvofandi kennaraþörf. Stjórnvöld hafa ásamt lykilfólki í menntamálum og atvinnulífinu unnið að því að mæta þessari áskorun og fyrr á árinu kynntum við tillögur og hrintum þeim í framkvæmd. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og það er mikið fagnaðarefni. Afar ánægjulegt að umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Gaman er líka frá því að segja fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er frábær þróun, góðir landsmenn. Verkefnin á komandi þingvetri snúa m.a. að því að efla starfsnám í landinu, róttækum kerfisbreytingum á Lánasjóði íslenskra námsmanna, aðgerðum á fjölmiðlamarkaði, því að hrinda í framkvæmd þingsályktun um að efla íslensku á öllum sviðum samfélagsins og mótun nýrrar menntastefnu. Markmið nýrrar menntastefnu er einfalt, það er að íslenska menntakerfið verði framúrskarandi.
Í fjárlagafrumvarpinu er 36 milljörðum varið til framhaldsskólastigsins og sérstakt áherslumál verður að efla starfsnám í landinu. Því erum við að forgangsraða tíma og fjármunum í það verðuga verkefni. Við höfum séð aukningu í tækni- og starfsnám og sérstaklega ánægjulegt var að sjá aukningu hjá Tækniskóla Íslands um 32%.
Fyrirhugaðar eru róttækar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem fela í sér 30% niðurfellingu á lánum ásamt sérstökum stuðningi fyrir barnafólk. Um er að ræða mestu breytingar sem hafa verið gerðar á lánasjóðnum í 30 ár. Tímamót eru að eiga sér stað, ágætu landsmenn. Ég vil taka fram að að þessari vinnu kemur fjöldi fólks og vil ég þakka stúdentum sérstaklega afar gott og uppbyggilegt samstarf.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að styðja eigi betur við rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Ég hef unnið að metnaðarfullu frumvarpi í þá veru ásamt því að vinna að því með fjármála- og efnahagsráðherra að samræma skattlagningu á auglýsingum milli innlendra aðila og alþjóðlegra efnisveita eins og Google og Facebook. Ljóst er að rekstrarumhverfið er erfitt og við viljum öll hafa öfluga fjölmiðla á Íslandi, bæði ríkisútvarp og einkarekna fjölmiðla.
Góðir landsmenn. Á vorþingi var samþykkt þingsályktun í 22 liðum um að efla stöðu íslenskunnar á öllum sviðum samfélagsins. Sumarið hefur farið í að útfæra aðgerðaáætlunina og verður sérstaklega ánægjulegt að kynna hana á degi íslenskrar tungu 16. nóvember nk. Tungumálið forsenda hugsunar og án þess verður engin hugsun til. Án góðrar þekkingar á tungumálinu komum við hugmyndum okkar ekki í orð, hættum að fá nýjar hugmyndir og drögum úr færni okkar til að hafa áhrif. Af því má leiða að lestur sé ein mikilvægasta breytan í skapandi hugsun. Þess vegna eigum við að gera allt sem við getum til að tryggja læsi allra barna sem grundvallarforsendu fyrir jöfnum tækifærum. Við erum stöðugt að vinna að framgangi íslenskunnar og erum að ráðast í framkvæmdir við Hús íslenskunnar og vinna að því að fá handritin heim sem eru ein merkustu menningarverðmæti þjóðarinnar.
Góðir landsmenn. Við berum öll ábyrgð á því að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar og sem mun á næstu áratugum ráðast af hæfni og færni fólksins. Þess vegna erum við að fjárfesta í fólki og færni þess.
Mig langar að lokum, góðir landsmenn, að vitna í John Stuart Mill heimspeking og brýna okkur öll í því að sinna þessari speki en þar segir:
„Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði því að menntunin selur alla undir sömu áhrif og veitir þeim aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðana.“
Ég þakka áheyrnina. — Góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

12/09/2019

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar – umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að Framsókn hafi alltaf verið framsækinn samvinnuflokkur sem hafi með afgerandi hætti haft áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því í meira en hundrað ár. Að saga Framsóknar væri samofin sögu þjóðarinnar og hafi leitt í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar, ekki síst á sviði atvinnu, menntunar og heilbrigðismála. Að hlutverk Framsóknar hafi verið að leiða saman ólík öfl til samvinnu fyrir land og þjóð.
„Hagsæld Íslendinga hefur ekki síst sprottið af landinu og hagnýtingu þess. Því er mikilvægt, og stendur hjarta mínu nærri, að styðja dyggilega við íslenska bændur og landbúnað þeirra. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá baráttumál Framsóknar staðfesta um að standa vörð um lýðheilsu Íslendinga og heilbrigði dýra með því að koma í veg fyrir innflutning á sýktum matvælum, auk þess er kolefnisspor þess er stórt. Þannig að Ísland verði í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum sem er að mati vísindamanna ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag,“ sagði Sigurður Ingi.

***

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknar – í umræða um stefnuræðu forsætisráðherra

Herra forseti, góðir landsmenn.

„Framsókn hefur í gegnum tíðina verið framsækinn samvinnuflokkur sem hefur með afgerandi hætti haft áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því í meira en hundrað ár, saga flokksins samofin sögu þjóðarinnar. Framsókn hefur leitt í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar, ekki síst á sviði atvinnu, menntunar og heilbrigðismála. Framsókn hefur líka leitt saman ólík öfl til samvinnu fyrir land og þjóð.
Á miðju kjörtímabili er tækifæri til að líta um öxl og velta fyrir sér árangri ríkisstjórnar Framsóknar, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokksins undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Strax síðasta vetur skilaði þessi einstaka pólitíska samsetning gríðarlegum árangri þegar aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir lífskjarasamningana þar sem aðkoma ríkisstjórnarinnar skipti höfuðmáli til þess að ná niðurstöðu sem tryggði stöðugleika. Ávinningurinn sést ekki hvað síst í því að vextir hafa jafnt og þétt lækkað sem er eitt helsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja á Íslandi.
Á næstu mánuðum sjá landsmenn ríkisstjórnina standa við sinn hluta samninganna þegar á borð Alþingis kemur lækkun tekjuskatts, sérstaklega hjá lág- og millitekjuhópum, frumvörp um stuðning við leigjendur og aukinn stuðning við kaup á fasteignum svo eitthvað sé nefnt.
Ráðherrar Framsóknar hafa unnið gott starf. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur eflt kennslu, kennara og kennaranám og árangurinn sést ekki hvað síst í stóraukinni aðsókn að kennaranámi. Í vetur munum við sjá afrakstur ráðherrans í algjörri umbreytingu Lánasjóðskerfisins sem mun þýða meiri stuðning og meiri jöfnuð og tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og búsetu.
Barnamálaráðherrann leggur auk húsnæðismála ofuráherslu á að bæta aðstæður barna og foreldra sem sést best á því að innan skamms verður stigið það mikilvæga skref að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Í því sambandi er rétt að minna á að það var einmitt ráðherra Framsóknar sem á sínum tíma gerði fæðingarorlof feðra að veruleika. Ráðherrann vinnur einnig að lausnum sem eiga að taka á húsnæðisskorti á landsbyggðinni.
Af því sem ríkisstjórnin hefur áorkað er það ekki síst ánægjulegt að heilbrigðisstefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á sér aðdraganda frá þar síðasta kjörtímabili undir forystu Framsóknar. Það eru sjálfsögð mannréttindi að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu.
Hagsæld Íslendinga hefur ekki síst sprottið af landinu og hagnýtingu þess. Því er mikilvægt, og stendur hjarta mínu nærri, að styðja dyggilega við íslenska bændur og landbúnað þeirra. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá baráttumál Framsóknar staðfesta um að standa vörð um lýðheilsu Íslendinga og heilbrigði dýra með því að koma í veg fyrir innflutning á sýktum matvælum, auk þess er kolefnisspor þess er stórt. Þannig að Ísland verði í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum sem er að mati vísindamanna ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag.
Jarðamálin verða í brennidepli á næstu mánuðum en brýnt er að setja skýrar reglur um kaup og sölu á jörðum. Þróun síðustu ára er algjörlega óviðunandi. Land er ekki eins og hver önnur fasteign. Við verðum að horfa til nágrannaþjóða okkar um það hvernig jarðamálum er best búin umgjörð. Vil ég þeim efnum sérstaklega horfa til Danmerkur og Noregs sem hafa stífa umgjörð um jarðamál.
Lífsgæði og tækifæri þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins byggjast á skynsamri nýtingu landsins og samspili við verndun. Það má ekki búa svo um hnúta að engin þróun geti orðið í atvinnumálum út um land. Íslendingar eru að sönnu góðir gestgjafar en landið og náttúran er ekki aðeins til fyrir gesti, innlenda og erlenda, heldur fyrir þá sem kjósa að búa sér heimili og byggja upp starfsemi vítt um landið.
Samgöngumálin hafa frá upphafi kjörtímabilsins verið tekin föstum tökum, verulegur viðsnúningur hefur orðið og er blásið til stórsóknar á öllum sviðum, víðsvegar um landið. Við erum að sjá að markmiðið sem sett var í stjórnarsáttmálanum um að hraða uppbyggingu sé að verða að veruleika, hvort sem litið er til landsbyggðar eða höfuðborgarsvæðisins. Með auknum orkuskiptum í samgöngum horfum við fram á nýja tíma í fjármögnun til vegakerfisins. Leiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum. Þá er unnið að lausnum til að styrkja uppbyggingu innanlandsflugs.

Herra forseti og landsmenn góðir.

Ísland er um margt fyrirmyndarsamfélag sem er jafnan ofarlega á listum um hagsæld og lífsgæði í heiminum, deilir toppsætunum með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Góð heilsa, góð samskipti, húsnæði, öryggi og atvinna eru öllum mikilvæg og þá ekki síður menntun, lýðræði og jöfnuður manna á milli.
Ríkisstjórnin hefur skýra sýn hvað varðar lífsgæði og tækifæri á Íslandi og metnað til að gera stöðugt betur. Það er gott að búa á Íslandi.“

***

Categories
Fréttir

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Deila grein

06/09/2019

Leiðsöguhundaverkefnið hefur að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra og sjónskertra

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja leiðsöguhundaverkefninu til þriggja milljóna króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Tilefnið er að Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
Blindrafélagið hefur frá upphafi unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.
Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum leiðsöguhundaverkefnið á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi.
„Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.“
„Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu,“ segir Ásmundur Einar, og bætir við „Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.“

Categories
Fréttir

„Gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana“

Deila grein

06/09/2019

„Gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir tækifæri framtíðarinnar á sveitarstjórnarstiginu sé „að pólitísk forysta er efld í sveitarfélögum um allt land, til hagsbóta fyrir einstök byggðarlög og íbúana. Ákvæði um íbúamark felur ekki í sér sameiningu byggðarlaga, að þeim þarf að hlúa áfram með ráðum og dáð. Hins vegar er pólitíska forystan sameinuð, stjórnsýslan gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu hans í dag.
„Ég hef trú á að þessi stefna leiði sveitarstjórnarstigið vel til móts við framtíðina – til að nýta tækifærin og til að takast á við áskoranir,“ segir Sigurður Ingi.
Aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga stendur nú yfir. Þar er rætt um stefnumótun sveitarstjórnarstigsins en þingsályktunartillaga verður lögð fram á Alþingi í haust.

Categories
Fréttir

„Að standa við bakið á heimamönnum“

Deila grein

06/09/2019

„Að standa við bakið á heimamönnum“

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálráðherra, segir að aukið jafnvægi verði að vera milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins í húsnæðismálum og að dæmi séu „um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. Þetta kemur fram í grein hans í Morgunblaðinu á dögunum.
„Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land.“
„Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.“
„Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Fréttir

Skoska leiðin styður atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis

Deila grein

04/09/2019

Skoska leiðin styður atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, bendir á ummæli höfð eftir samgönguráðherra Skotlands að greiðsluþátttöku stjórnvalda á völdum flugleiðum hafi reynst vel. Í Skotlandi hafa um 75.000 íbúar skráð sig í afsláttarkerfið og nýtt sér það tvisvar til þrisvar á ári. Upphaflega hafi greiðsluþátttaka numið 40% af andvirði fargjalda en hafi síðar verið aukin í 50%. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, átti fund með Michael Matheson samgönguráðherra Skotlands í gær í Edinborg. Ræddu þeir m.a. stuðning skoskra stjórnvalda við íbúa afskekktari byggða og eyjar m.a. í þeim tilgangi að jafna aðgang þeirra að opinberri þjónustu. Þessi aðgerð er nefnd „skoska leiðin“.
Í ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna, 9.-11. mars 2018, segir að innanlandsflug sé ekki raunhæfur kostur fyrir almenning í landinu vegna hárra flugfargjalda. „Framsóknarflokkurinn vill taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd.“
Markmið skoskra stjórnvalda með greiðsluþátttöku er að styðja við íbúa afskekktari byggða en um leið atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hófst árið 2006 og hefur verið framlengd reglulega, nú síðast um fjögur ár. Það er lítil samkeppni á flugleiðum til afskekktari svæða Skotlands, sætanýting er um 50% og eru flugfargjöld há í samanburði við það sem byðist til stærri og fjölfarnari áfangastaða sem geta staðið undir stærri flugvélum. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.

Categories
Fréttir

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Deila grein

04/09/2019

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir það undra sig að kalla vegabætur í Árneshreppi náttúruspjöll þegar verið sé að bæta vegi sem fyrir voru. Rask sem fylgir framkvæmdum á svæðinu grær svo með tímanum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, voru á dögunum í Árneshreppi og skoðuðu vegaframkvæmdirnar í Ingólfs- og Ófeigsfirði og aðstæður við fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Hreppsnefndin hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Ingólfsfirði vegna uppbyggingar vegarins um Ófeigsfjörð segir í frétt á visir.is.
„Við Ásmundur brugðum okkur í Árneshrepp um daginn. Kíktum m.a. á þær vegabætur sem er verið að gera þar. Bæði í Norðurfirði og á kaflanum þaðan og í Ófeigsfjörð. Það undrar mig að kalla þessar vegabætur náttúruspjöll, hér er verið að bæta vegi sem fyrir voru og það rask sem verður við þetta græðir tíminn og er fljótur að því. Sýnist mér að deilurnar um vegabæturnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý.
Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur. Þetta er bara jákvæð þróun fyrir samfélagið og kemur alltaf til bóta en ég held að deilurnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý í samtali við visir.is.
„Vonandi eigum við eftir að sjá meira af bættum samgöngum um Árneshreppinn og tek ég þá undir ákall hreppsbúa að koma á góðum vegi sem hægt er að halda meira opnum yfir árið,“ segir Halla Signý.