Categories
Greinar

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Deila grein

17/12/2020

Heims­mark­miðin og Fram­sókn eiga sam­leið

Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Heimsmarkmiðin eru algild og aðildarríkin hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra sem er árið 2030. Ísland er þar ekki undanskilið og hafa sífellt fleiri fyrirtæki, samtök og stofnanir innleitt Heimsmarkmiðin í sinni starfsemi. Það hefur hins vegar ekki borið á því að stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi á markvissan hátt innleitt Heimsmarkmiðin. Samt sem áður er eðli málsins samkvæmt gríðarlega mikilvægt að stjórnmálaflokkar séu fremstir í flokki við að tileinka sér Heimsmarkmiðin þar sem áhrif þeirra sem gegna pólitískum embættum á bæði landsvísu og á sveitarstjórnarstigi eru mikil eins og stjórnsýslulög gefa til kynna.

Framsóknarflokkurinn hefur tekið þessari mikilvægu áskorun og hófst undirbúningur að innleiðingu Heimsmarkmiðanna innan flokksins í kjölfar haustfundar miðstjórnar flokksins sem fram fór á Akureyri í nóvember 2019 þar sem undirrituð bar upp þá tillögu að flokkurinn myndi hafa Heimsmarkmiðin að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Það var samþykkt samhljóða að hefja þessa vinnu og í kjölfarið voru tveir starfshópar skipaðir innan flokksins, annars vegar um hvort og þá hvernig grundvallarstefnuskrá flokksins samræmdist Heimsmarkmiðunum og svo hins vegar um innleiðingu markmiðanna í starfshætti innan flokksins svo þau verði til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku, stefnumótun og framkvæmd innan flokksins sem utan. Hóparnir hafa skilað af sér sinni vinnu sem kynnt var ári eftir að tillagan var samþykkt, á haustfundi miðstjórnar í nóvember sl.

Þegar grunnstefna Framsóknarflokksins er borin saman við Heimsmarkmiðin kemur ekki á óvart að mikill samhljómur er þar á milli og tengsl eru þar nú þegar við öll Heimsmarkmiðin á einn eða annan máta. Í 104 ára tilverutíð Framsóknar hafa umhverfis- og jafnréttismál verið í forgrunni og grunnstefin Vinna – Vöxtur – Velferð eiga vel við. Í grundvallarstefnuskrá Framsóknar kemur m.a. fram að Framsókn berst fyrir mannréttindum og virðingu fyrir einstaklingnum og hafnar allri mismunun sem gerir greinarmun á fólki. Það samræmist Heimsmarkmiðum nr. 1-6, 10 og 16. Þá kemur fram í stefnuskránni að Framsókn vill skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaðar ekki hagsmuni komandi kynslóða og að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta innlendri stjórn. Það samræmist markmiðum nr. 6-9 og 11–15.

Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill samhljómur er nú þegar á milli nýstárlegra Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og grunngilda þessa rótgróna stjórnmálaflokks sem hefur þrátt fyrir háan aldur verið ávallt í takt við tímann og aldrei skorast undan að takast á við þær áskoranir sem eru hverju sinni í samfélaginu. Með samvinnuhugsjónina að leiðarljósi í fortíð, nútíð og framtíð mun Framsókn áfram vera í fararbroddi til að leita ávallt nýrra leiða til að koma á móts við þær aðstæður sem við búum við hverju sinni með framsækni og lausnamiðaða hugsun að vopni.

Linda Hrönn Þórisdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. desember 2020.

Categories
Greinar

Verjum störf og sköpum ný

Deila grein

15/12/2020

Verjum störf og sköpum ný

Framsóknarflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á að atvinna sé undirstaða velferðar. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Vaxandi atvinnuleysi, samdráttur í landsframleiðslu, versnandi hagvaxtarhorfur og samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu kalla á skjót viðbrögð stjórnvalda. Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar. Þá hefur verið farið í ýmsar aðgerðir til stuðnings atvinnulífinu, til að viðhalda störfum, verkefnum og fyrirtækjum sem eiga framtíð fyrir sér. Þrátt fyrir ofangreindar aðgerðir er þörf á frekari hvötum til tekju- og atvinnuskapandi verkefna sem komast hratt til framkvæmda.

Samdráttur í atvinnuvegafjárfestinga

Það liggur fyrir að verulegur samdráttur hefur orðið í atvinnuvegafjárfestingu. Verulega hefur dregið úr útlánum til fyrirtækja vegna minnkandi efnahagsumsvifa og arðsemiskröfu fjármálastofnanna til fyrirtækjalána. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdráttur atvinnuvegafjárfestinga haldi áfram á komandi ári. Af þessu má daga þá ályktun að einkaaðilar glími við skort á fjármagni til atvinnuþróunar og tregða sé í lánveitingum fjármálastofna til atvinnulífsins. Því liggur atvinnuþróun á Íslandi í dái eins og er.

Ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar

Stjórnvöld verða að bregðast við og hvetja fjármálastofnanir og lífeyrissjóði til útlána. Það má gera með aðgerðum sem senda skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og skynsamlegt sé að nota það fjármagn sem til staðar er í landinu til atvinnuþróunar. Í þessum tilgangi hafa þingmenn Framsóknarflokksins lagt fram tillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar.

Aðgerðin gengur út að auka möguleika einkaaðila sem hyggjast fara í nýungar í sínum rekstri við að nálgast lánsfjármagn með ríkisábyrgðum á lánum til atvinnuþróunarverkefna. Atvinnuþróunarverkefni þyrftu að vera skýr og afmörkuð verkefni til þróunar á vöru, þjónustu eða framleiðsluaðferð, geta skapað störf og aukið gjaldeyristekjur. Þannig myndu stjórnvöld deila áhættu af atvinnuþróun á óvissutímum með fjármálastofnunum og atvinnurekendum.

Allar líkur eru á því að aðgerðin hefði jákvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs til lengri tíma litið. Beinar og óbeinar tekjur af þeim atvinnuþróunarverkefnum sem vaxa og dafna í kjölfar viðspyrnuláns ættu að verða vel umfram þann kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna verkefna sem ekki heppnast. Áfram veginn.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokkins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Sælustund á aðfangadagskvöld

Deila grein

15/12/2020

Sælustund á aðfangadagskvöld

Íslend­ing­ar búa að ríku­legri menn­ingu sem hef­ur fylgt okk­ur um alda­bil. Þjóðlög og rím­ur hafa ómað síðan á 12. öld og hug­vit þjóðar­inn­ar á sviði tón­list­ar er botn­laust. Tón­list­in vek­ur at­hygli um víða ver­öld, safn­ar verðlaun­um og viður­kenn­ing­um. Þátta- og kvik­mynda­fram­leiðend­ur flykkj­ast til lands­ins og all­ir vilja upp­lifa andagift­ina sem Íslandi fylg­ir. Með mik­illi fag­mennsku hef­ur tón­list­ar­mönn­um tek­ist að koma Íslandi á kortið sem tón­list­ar­landi – eitt­hvað sem við Íslend­ing­ar viss­um auðvitað fyr­ir löngu.

Við erum einnig mik­il bóka- og sagnaþjóð. Íslend­inga­sög­urn­ar, Hall­dór Lax­ness og hið ár­lega jóla­bóka­flóð er ein­stakt fyr­ir­bæri og raun­ar hef­ur jóla­bóka­flóðið aldrei verið stærra en nú! Ef­laust eru marg­ir sem finna fyr­ir val­kvíða enda munu jól­in ekki duga til að lesa allt sem okk­ur lang­ar. Fyr­ir tveim­ur árum samþykkti Alþingi frum­varp mitt um stuðnings­kerfi við út­gáfu bóka á ís­lensku. Ákvörðunin markaði þátta­skil í ís­lenskri bók­mennta­sögu og töl­urn­ar tala sínu máli. Útgefn­um titl­um fjölg­ar – sér­stak­lega í flokki barna­bóka – og bók­sala fyr­ir jól­in er um 30% meiri en á sama tíma í fyrra.

Á ár­inu hafa marg­ir lista­menn orðið fyr­ir miklu tekjutapi, enda listviðburðir bannaðir meira og minna síðan í mars. Stjórn­völd hafa stutt við lista­fólk með ýms­um hætti, t.d. með 10 stuðningsaðgerðum sem kynnt­ar voru í októ­ber. Ein þeirra var vit­und­ar­vakn­ing um mik­il­vægi menn­ing­ar og lista og um helg­ina var kynnt áhuga­vert verk­efni í þá veru, sem miðar að því færa þjóðinni listviðburði heim að dyr­um!

Al­menn­ingi um allt land býðst að senda vina­fólki eða ætt­ingj­um sín­um landsþekkt lista­fólk, sem bank­ar upp á 19. og 20. des­em­ber til að skemmta þeim opn­ar. Alls verða heim­sókn­irn­ar 750 tals­ins og yfir 100 lista­menn taka þátt í verk­efn­inu. Það er unnið í sam­starfi við Lista­hátíð í Reykja­vík og ég vona að sem flest­ir fái notið þess­ar­ar glæsi­legu gjaf­ar.

Við erum lukku­leg þjóð. Við meg­um ekki gleyma því að við eig­um of­gnótt af bók­um, hríf­andi tónlist, mynd­list og hönn­un sem hlýj­ar þegar frostið bít­ur í kinn­ar. Við eig­um að standa vörð um ís­lenska menn­ingu og list­ir, styðja við lista­menn­ina okk­ar og setja ís­lenska list í jólapakk­ana. Miðstöð hönn­un­ar og arki­tekt­úrs hef­ur birt yf­ir­lit á vefsíðu sinni yfir versl­an­ir sem selja ís­lenska hönn­un, og þar er sko af nægu að taka. Bæk­ur og leik­húsmiðar eru ekki ama­leg gjöf held­ur, ekki síst þegar viðburðaþyrst þjóðin losn­ar úr Covid-klón­um!

Það bær­ist eitt­hvað innra með manni þegar ró leggst yfir heim­ilið á aðfanga­dags­kvöld, allt heim­il­is­fólk satt og sælt, ljúf­ir jólatón­ar óma og maður kúr­ir með jóla­bók í hönd. Þessi stund ramm­ar inn ham­ingj­una hjá mér um jól­in. Ég segi því hik­laust – ís­lensk menn­ing og list­ir eru jóla­gjöf­in í ár!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2020.

Categories
Greinar

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Deila grein

14/12/2020

Jöfn skipting fæðinga­or­lofs – Jafn­réttis­mál

Fæðingaorlofsfrumvarp félagsmálaráðherra liggur fyrir Alþingi. Frumvarpið boðar 12 mánaða fæðingaorlof með jafna skiptinu milli foreldra og rétturinn skiptist þannig að sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verði sex mánuðir. Hvort foreldri um sig getur svo framselt einn mánuð af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins. Eitt ár í lífi barns er mikilvægt og fyrsta árið lang mikilvægast. Það er því stórt skref fyrir börn og foreldra að ná þessu marki. Meginmarkmið frumvarpsins er að ryðja úr vegi eldri viðhorfum um að faðirinn beri meginábyrgð á efnahag heimilisins með tekjuöflun sinni. Niðurstöður rannsókna á íslenska fæðingarorlofskerfinu benda meðal annars til að „feðrakvótinn“ svokallaði, eða fæðingarorlofsréttur sem einungis feður geta nýtt, sé rétt stefna til að ná fram markmiðum laganna um fæðingar- og foreldraorlof að tryggja réttindi barna til samvista við báða foreldra og að gera þannig foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Vinnumarkaðsúrræði

Meginmarkmið frumvarpsins er tvíþætt. Annars vegar skal tryggja barni samvistum við foreldra sína í 12 mánuði, og allir eru sammála um það. Svo er það hins vegar að jafna rétt foreldra við töku á fæðingaorlofi. Við eigum auðvelt með að sjá fyrir okkur yndislegar samverustundir foreldra og barna, draga að sér ilm af hvítvoðungnum og styrkja tilfinningatengslin sem lifir út ævina. Við viljum börnum okkar það besta og að einstaklingar af öllum kynjum beri sama rétt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Fæðingaorlofsrétturinn er mikilvægur fyrir jafnréttisbaráttu á vinnumarkaði. Meðan jafnri skiptingu er ekki náð þá náum við ekki jafnlaunarétti milli kynjanna. Við skulum líka tala um jafnrétti í lífeyrismálum, en þar spilar jafn réttur fæðingaorlofs stóran þátt. Þegar barátta fyrir fæðingaorlofi hófst voru þessir þættir hafðir að leiðarljósi.

Tímamótaáfangi

Að jafna rétt foreldra til töku á fæðingaorlofi er tímamótaáfangi og stórt jafnréttismál. Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur meðal annars fram að lengingin á rétti foreldra til fæðingarorlofs sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Þar af leiðir að með jafnri skiptingu á fæðingaorlofi komumst við skrefi nær jafnrétti kynja á vinnumarkaði, bæði hvað varðar laun og lífeyrisréttindi. Við eigum ekki að gefa eftir í þeirri baráttu.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2020.

Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.

Categories
Greinar

Einmanaleiki er vandamál

Deila grein

10/12/2020

Einmanaleiki er vandamál

Einmanaleiki er skilgreindur sem hin óþægilega tilfinning sem fylgir því að upplifa að félagsþörf manns er ekki mætt. Rannsóknir hafa sýnt að eldra fólk er oftar einmana en einmanaleiki hefur aukist í öllum aldurshópum. Rannsóknir sýna að vaxandi einmanaleiki er hjá ungu fólki á aldrinum 16-24 ára. Kostnaður samfélagsins og einstaklinga er hár vegna einmanaleika og af margvíslegum hætti. Í nýútkominni skýrslu Rannsóknar og Greiningar um ungt fólk frá október síðastliðnum kemur í ljós að meðal nemenda í 8, 9, 10 bekk hefðu að 39% þeirra upplifað meiri eða aðeins meiri einmanaleika á þessu ári sem nú er að kveðja.

Áhrifin eru margvísleg

Heilsufarsleg áhrif einmanaleika eru mikil en vaxandi fjöldi rannsókna bendir til að einmanaleiki auki líkur á alvarlegum sjúkdómum. Einmanaleiki flýtir fyrir öldrun, tengsl eru við hjarta- og æðasjúkdóma en einnig við vissar tegundir geðsjúkdóma, sjálfsvíga og minni vitsmunalegri getu. Einmanleiki eykur líkur á elliglöpum og Alzheimer. Í einverunni geta ýmsir draugar verið á kreiki. Þeir sem eru einmanna eru líklegri til að verða reiðari, bregðast við erfiðleikum með neikvæðni og kvíða og jafnvel í verstu tilfellum verða jaðarsett í samfélaginu. Því eru þessir einstaklingar líklegri til að styðja íhaldssamari eða öfgakenndar skoðanir í samfélaginu. Þeir sem eru einmanna upplifa samfélagið sem ógnandi og eru því mun stressaðri en aðrir og eiga erfiðara með svefn. Á heildina geta því einstaklingar sem eru einmana upplifað samfélagið sem hættulegt og ógnandi í einangrun sinni. Tækninýjungar og samfélagsmiðlanotkun eykur tilfinningu fólks fyrir því að það sé eitt og ýtir undir að líf þeirra sé ekki eins gott eins og annarra. Félagslegur samanburður og samkeppni hafa aukist sem heftir og kemur í veg fyrir samkennd fólks

Hvað er til ráða?

Hvernig getum við brugðist við þessu vandamáli, nú á aðventunni er auðvelt fyrir þá sem upplifa sig einmana að finnast jólaljósin hjá nágrannanum vera heldur skærari en hann upplifir í eigin ranni, jafnvel svo skær að þau særa. Við sem samfélag getum gert betur með að efla félagslega hæfni fólks með stuðningi og gefa þessu vandamáli athygli.

Árið 2018 var sett á laggirnar í Bretlandi sérstakt ráðuneyti einmanaleika. Þar er félagsleg einangrun umtalsvert vandamál. Talið er að einn af hverju sjö íbúum landsins telja sig vera einmana. Það þýðir að tæplega 10 milljónir manna í Bretlandi upplifi sig einmana. Það er líklega of stuttur tími liðin til að meta áhrif þessar aðgerðar en það er öruggt að slík viðurkenning á vandamálinu skipti miklu máli.

Árið og faraldur hverfur í aldanna skaut

Senn líður þessi erfiði tími undir lok ,en verkefnin eru ærin sem eftir standa við að rétta úr kútnum. Kannski er ekki best að komast á sama stað og áður, heldur á betri stað. Ef okkur tekst að nálgast þetta vandamál þá erum við á betri stað. Við eigum von um aukin samskipti en þeir sem upplifa einmanaleika ganga lengri og þrengri stíg að ná því. Það er þjóðhagslegur ávinningur að ná til þeirra sem upplifa sig einmana því við erum saman en ein í sitt hvoru horninu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2020.

Categories
Greinar

Ólafur, ertu að grínast?

Deila grein

06/12/2020

Ólafur, ertu að grínast?

Þótt heims­far­ald­ur kór­ónu­veiru hafi í und­an­tekn­ing­ar­til­fell­um haft áhrif á dag­legt líf bænda stefn­ir í af­komu­brest í land­búnaði. Það mun hafa lang­tíma­áhrif á ís­lensk­an land­búnað verði ekk­ert að gert. Íslensk­ur land­búnaður er ekki bara kjöt í búð. Ein­stak­ling­ar, fjöl­skyld­ur og heilu byggðarlög­in byggja af­komu sína á land­búnaði. Öflug­ur ís­lensk­ur land­búnaður er verðmæti.

Áhrif far­ald­urs­ins á af­komu bænda og afurðastöðva staf­ar af hruni í komu ferðamanna og breyt­inga á mörkuðum vegna sótt­varnaaðgerða. Þannig dróst sala á kjöti (ali­fugla-, hrossa-, svína-, naut­gripa- og lamba­kjöti) sam­an um 9,1% á tíma­bil­inu ág­úst til októ­ber. Sam­spil auk­ins inn­flutn­ings er­lendra búvara og hruns í komu ferðamanna skap­ar eitrað sam­spil á kjöt­markaði. Auk þess hef­ur komið upp ágalli í toll­fram­kvæmd.

Vill ein­hver að ís­lensk­um land­búnaði blæði út?

Nei, ekki á okk­ar vakt. Þær al­mennu aðgerðir sem stjórn­völd hafa þegar farið í nýt­ast bænd­um og afurðastöðvum að tak­mörkuðu leyti. Enda ekki mögu­legt að leggja rekst­ur sem bygg­ist á bú­vöru­fram­leiðslu í tíma­bund­inn dvala. Stjórn­völd verða að bregðast við og þá blasa við tvær meg­in­leiðir; bæta starfs­um­hverfið eða bæta í bein­an stuðning rík­is­ins við bænd­ur.

Það eru tæki­færi til um­bóta í tolla­mál­um sem má skipta í þrennt.

1. Fyr­ir­komu­lag útboða þarf að vera skýrt en jafn­framt þurfa að vera til staðar heim­ild­ir til að bregðast við tíma­bundnu ójafn­vægi og fresta útboðum. Inn­flutn­ing­ur á sam­bæri­legu magni á mat­vöru er­lend­is frá í ár og síðasta ár leiðir ein­fald­lega til mat­ar­sóun­ar og enn verri af­komu bænda og taps á störf­um hjá afurðastöðvum.

2. Toll­skrá þarf að vera í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Það er hag­ur jafnt inn­flytj­enda og bænda að hún sé skýr. Þannig er hægt að kom­ast bæði hjá mis­tök­um og ásök­un­um um vís­vit­andi svindl. Þetta er ekki flókið, ost og aðra mat­vöru sem flutt er til Íslands á að flokka í rétt­an toll­flokk í sam­ræmi við alþjóðlega toll­skrá. Öllu skipt­ir að toll­fram­kvæmd sé rétt þannig að raun­veru­leg toll­vernd sé til staðar í sam­ræmi við ákvæði tolla­laga og milli­ríkja­samn­inga. Þá hef­ur rétt tollaf­greiðsla áhrif á skrán­ingu hagtalna og ákveðna þætti mat­væla­eft­ir­lits.

3. End­ur­skoða þarf tolla­samn­inga við ESB í kjöl­far Brex­it. Það er satt að þegar bráðabirgðafr­íversl­un­ar­samn­ing­ur Íslands og Bret­lands tek­ur gildi munu rík­in veita hvort öðru gagn­kvæma toll­kvóta. Áfram standa samt tolla­samn­ing­ar við ESB, en helm­ing­ur alls kinda­kjöts sem flutt hef­ur verið út fór á Bret­lands­markað og toll­kvót­ar fyr­ir skyr voru fyrst og fremst hugsaðir fyr­ir Bret­land. Með til­komu Brex­it munu þeir tak­mörkuðu toll­kvót­ar sem samið var um fyr­ir ís­lensk­ar bú­vör­ur á Evr­ópu­markaði ekki nýt­ast eins og til stóð. Það er for­sendu­brest­ur.

Ná­granna­lönd­in styðja við land­búnað í far­aldr­in­um

Staða bænda í ná­granna­lönd­un­um er á marg­an hátt betri en á Íslandi, einkum í Nor­egi og aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Stjórn­völd þar hafa mun meiri heim­ild­ir til að grípa til aðgerða vegna tíma­bund­ins ójafn­væg­is á markaði, auk þess sem gripið hef­ur verið til viðamik­illa stuðningsaðgerða.

Þessi aðstöðumun­ur birt­ist með al­menn­um hætti í Nor­egi þar sem bænd­ur og afurðasölu­fyr­ir­tæki eru und­anþegin gild­is­sviði sam­keppn­islaga. Þá hef­ur verið gripið til um­fangs­mik­illa stuðningsaðgerða á meg­in­landi Evr­ópu þar sem bein­ir fjár­styrk­ir og hag­stæð lána­fyr­ir­greiðsla stend­ur bænd­um til boða. Vegna ójafn­væg­is á mörkuðum með land­búnaðar­vör­ur hef­ur verið inn­leidd tíma­bund­in und­anþága frá evr­ópsk­um sam­keppn­is­regl­um fyr­ir land­búnaðinn.

Ganga þyrfti miklu lengra hér á landi

Nú ligg­ur frum­varp land­búnaðarráðherra um tíma­bundn­ar breyt­ing­ar á lagaum­hverfi við út­hlut­un samn­ings­bund­inna toll­kvóta fyr­ir Alþingi. Það er sagt eiga að lág­marka áhrif far­ald­urs­ins á inn­lenda fram­leiðslu land­búnaðar­af­urða og draga úr því tjóni sem inn­lend­ir fram­leiðend­ur hafa nú þegar orðið fyr­ir. Það er vissu­lega skref í rétta átt og viður­kenn­ing á stöðunni en það verður að ganga lengra.

Væri ekki áhrifa­rík­ara að fresta öll­um útboðum toll­kvóta meðan þessi al­var­lega staða er uppi? Til þess þarf vissu­lega laga­breyt­ingu en það mun varla vefjast fyr­ir Alþingi. Þá er ekki eft­ir neinu að bíða með að koma á heim­ild til sam­vinnu á kjöt­markaði eins og þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ít­rekað lagt til. Eða drífa í að kanna sér­stak­lega hag­kvæmni og skil­virkni í mat­væla­fram­leiðslu eins og boðað var í yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í til­efni af viðræðum um for­send­ur lífs­kjara­samn­ings­ins í haust.

Þannig væri hægt að bæta stöðuna veru­lega og auðvelda bænd­um sjálf­um að bregðast við, koma í veg fyr­ir mat­ar­sóun og fækk­un starfa í land­inu. Það gæti sparað sam­fé­lag­inu millj­arða. Ef ekki verða um­bæt­ur á starfs­um­hverf­inu þyrfti að stór­auka bein­an rík­is­stuðning til bænda. Varla ætl­umst við til að bænd­ur eigi ein­ir stétta að bera all­an skaðann sem þeir verða fyr­ir vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

Ein af já­kvæðum áhrif­um ástands­ins er að versl­un í land­inu hef­ur auk­ist. Ætla Sam­tök at­vinnu­lífs­ins virki­lega að leggj­ast gegn því að brugðist verði við vanda bænda í heims­far­aldri?

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, alþingismenn Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2020.

Categories
Greinar

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Deila grein

05/12/2020

Við gefumst aldrei upp þótt móti blási

Af öll­um þeim gild­um sem mér voru inn­rætt í æsku hef­ur þraut­seigj­an lík­lega reynst mér best. Sá eig­in­leiki að gef­ast ekki upp þótt móti blási, að standa aft­ur upp þegar maður miss­ir fót­anna og trúa því að drop­inn holi stein­inn. Að lær­dóm­ur­inn sem við drög­um af mis­tök­um styrki okk­ur og auki lík­urn­ar á að sett mark ná­ist. Þannig hef ég kom­ist gegn­um áskor­an­ir í lífi og starfi og stund­um náð ár­angri sem mér þótti fjar­læg­ur í upp­hafi.

Seigla hef­ur frá aldaöðli þótt mik­il dyggð. Til henn­ar er vísað með bein­um og óbein­um hætti í helstu trú­ar­rit­um heims­ins, heim­speki og stjórn­mál­um. Jesús Krist­ur og Búdda töluðu um þraut­seigju, John Stu­art Mill um seiglu og Mart­in Lúther King sagði fólki að hlaupa ef það gæti ekki flogið, ganga ef það gæti ekki hlaupið og skríða ef það gæti ekki gengið. Lyk­il­atriði væri, að hreyf­ast fram á við hversu hratt sem maður færi!

Í gömlu mál­tæki seg­ir að þol­in­mæði vinni all­ar þraut­ir, en hitt er nær sanni að þraut­seigj­an geri það. Það dug­ar ekki alltaf að anda ró­lega þegar eitt­hvað bját­ar á, held­ur þarf að bretta upp erm­ar. „Trúðu á sjálfs þíns hönd, en und­ur eigi – upp með plóg­inn, hér er þúfa í vegi,“ orti Ein­ar Ben í hvatn­ing­ar­ljóði til þjóðar­inn­ar fyr­ir 120 árum og þau skila­boð eiga enn við. Þannig mun slag­ur­inn við heims­far­ald­ur aðeins vinn­ast ef við tök­um sam­an hönd­um. Vinn­um sem einn maður að því að tryggja heilsu al­menn­ings, vel­ferð, at­vinnu­stig og mennt­un þeirra sem erfa landið. Það síðast­nefnda hef­ur tek­ist ótrú­lega vel, enda hafa hagaðilar í mennta­kerf­inu unnið náið sam­an, sýnt mikið út­hald og þraut­seigju. Það er því viðeig­andi að þraut­seigj­an sé til­greind sem eitt af gild­um nýrr­ar mennta­stefnu sem nú er rædd á Alþingi.

Meg­in­inn­tak mennta­stefn­unn­ar er að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Þar gild­ir einu bak­grunn­ur fólks, fé­lags­leg­ar aðstæður og meðfædd­ir eig­in­leik­ar, því sam­an ætl­um við að stuðla að jöfn­um tæki­fær­um allra nem­enda. Skipu­leggja mennt­un og skólastarf út frá ólík­um þörf­um fólks og gef­ast ekki upp þótt móti blási. Það er nefni­lega ekki vöggu­gjöf­in sem skýr­ir náms­ár­ang­ur held­ur viðhorfið til mennt­un­ar, vinnusiðferðið og til­trú­in á að náms­geta sé ekki fasti held­ur vaxi þegar hlúð er að henni. Á sama hátt ræðst ár­ang­ur okk­ar í líf­inu ekki af forskrifuðum ör­lög­um, held­ur líka vinn­unni sem við leggj­um á okk­ur, af­stöðu okk­ar til mál­efna og siðferðinu sem við rækt­um með okk­ur.

Stund­um er sagt að seigla sé þjóðarein­kenni Íslend­inga. Hún hafi haldið líf­inu í okk­ur í þúsund ár, á meðan við kúrðum í torf­bæj­um fyrri alda. Vafa­laust er margt til í því, þótt Íslend­ing­ar ein­ir geti tæp­ast slegið eign sinni á seigl­una. Þvert á móti hef­ur hún verið upp­spretta fram­fara um all­an heim og verður það áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2020.

Categories
Greinar

Íslenskt eða hvað?

Deila grein

04/12/2020

Íslenskt eða hvað?

Við erum að verða of sein á æfingu. Það er búið að vera brjálað að gera í vinnunni og þegar við áttum okkur á því að það eru 20 mín í æfingu stökkvum við af stað. En þegar við erum að bruna af stað byrjar garnirnar að gaula en matartíminn fór eitthvað fram hjá okkur. Við hoppum í búð á leiðinni. Daði grípur próteindrykk, gulrætur og skyr og Jóhanna dós af sódavatni og samloku. Við teljum okkur bæði meðvituð um okkar mat og viljum kaupa íslenskt og gripum því vörur sem voru kirfilegar merktar á íslensku. Svo er haldið á æfingu og maturinn hámaður í sig á leiðinni. Að æfingu lokinni förum við að skoða umbúðirnar af nestinu sem við höfðum hesthúsað í okkur á núll einni þá kom ýmislegt í ljós. Eða kannski réttara sagt kom ekki í ljós.

Það var nefnilega ekkert skýrt hvort um íslenska vöru væri um að ræða. Umbúðirnar voru allar á íslensku en það kom alls ekki alls staðar fram hvaðan megin innihaldið væri. Jú gulræturnar voru vel merktar að um íslenska ræktun væri að ræða enda eru á Íslandi gerðar kröfur um upprunamerkingar á matjurtum, nautgripakjöti, kjöti af svínum, sauðfé, geitum, alifuglum og á hunangi. Aðrar matvörur þurfa því ekki að tilgreina uppruna á aðal hráefnum eða framleiðslustað.

Þá hófst rannsóknar leiðangurinn um uppruna varanna sem var ekki endilega mjög skýr. Skyrið reyndist íslenskt úr íslenskri mjólk og framleitt hér á landi. Próteindrykkurinn sem var við hliðina á skyrinu í kælinum, merktur íslenskum slagorðum í bak og fyrir reyndist hins vegar framleiddur erlendis og sömu sögu var að segja um sódavatnið. Samlokuna var hins vegar ógerningur að greina. Á öllum vörum voru mismunandi merkingar og sumar hverjar ekki mjög skýrar.

Er ásættanlegt að leggja þurfi upp í slíka greiningarvinnu til að fá réttmætar upplýsingar um vöru sem maður ætlar að leggja sér til munns? Af hverju er ekki kveðið skýrt á um uppruna og framleiðslustað á umbúðum?

Í janúar 2014 skrifuðu Samtök atvinnulífsins, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin undir sáttmála um upprunamerkingar matvæla. Enn í dag er að finna brotalöm á upplýsingum til neytenda er varða uppruna matvæla. Í könnun sem var gerð sama ár kom fram að rúmlega tveir þriðju landsmanna teldu það óásættanlegt að upprunalands hráefnis sé ekki getið á umbúðum unninna matvæla. Könnunin sýndi einnig að áhersla Íslendinga á upprunamerkingar hafði aukist umtalsvert frá fyrri könnunum.

Því miður eru margir enn að einblína á hvernig þeir geta komist hjá því að upplýsa neytendur um réttan uppruna og láta þannig reyna á ýmis lýsingarorð sem geta verið villandi. Ásamt notkun umbúða eða merkja sem líkjast þeim sem eru á vörum sem neytendur bera traust til. Þá ber framleiðendum heldur ekki skylda til að upplýsa neytendur ef framleiðslulandi eða innihaldi er breytt, þannig geta neytendur lagt traust á vöru úr íslenskum hráefnum sem síðan er breytt án sérstakra tilkynninga þar um.

Þegar kemur að upprunamerkingum eru margir hagaðilar sem njóta þess ef að þær merkingar eru réttar og skýrar. Skýr framsetning á uppruna matvæla eykur traust neytenda til framleiðenda, vinnsluaðila og söluaðila. Því ber að fagna frumkvæði þeirra sem hafa merkt vörur skilmerkilega með uppruna matvæla þegar að slíkt er ekki endilega bundið í lög og reglur.

Á sambandsþingi ungra framsóknarmann sem haldið var í október var samþykkt ályktun þar sem krafa var gerð um að matvæli og drykkjarvörur sem seldar eru á Íslandi skuli vera með öruggri og skýrri upprunamerkingu.

Upprunamerkingar eru hagsmunamál allra Íslendinga sem stuðlar að innlendir verðmætasköpun. Þegar þú velur íslenska vöru og þjónustu skilar það sér aftur til þín. Svo við tökum undir það góða slagorð: íslenskt láttu það ganga.

Daði Geir Samúelsson, verkfræðingur og í stjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri og í varastjórn SUF, Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2020.

Categories
Greinar

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Deila grein

04/12/2020

Fjár­hags­á­ætlun Fjarða­byggðar 2021 – Með fjöl­skyldur í fyrir­rúmi

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021, ásamt þriggja ára áætlun 2021 – 2024, var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 3.desember. Eins og gefur að skilja liggur alltaf mikil vinna að baki gerðar fjárhagsáætlunar hvers árs og koma þar að bæði starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins og vil ég hér í byrjun þakka þeim góð störf.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2021 ber þess að vissu leyti merki að Covid-19 faraldurinn, sem tekist hefur verið á við frá upphafi ársins, hefur haft og mun hafa mikil efnahagsleg áhrif á samfélagið allt. Þannig er áætlað að niðurstaða ársins 2020 verði um 150 milljón krónum lakari í rekstri sveitarfélagsins en gert var ráð fyrir. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnaðarauka sem tilkominn er vegna viðbragða sveitarfélagsins við faraldrinum á árinu sem nú er að verða liðið. Stærsti liðurinn var fjölgun sumarstarfa fyrir námsmenn og atvinnulausa, sem tókst afar vel, og skipti sveitarfélagið miklu máli í ýmsum verkefnum á liðnu sumri. Auk þessa þurfti að fara í kaup á ýmsum búnaði til að gera starfsemi sveitarfélagsins mögulega í samkomutakmörkunum, auka sóttvarnir í stofnunum ásamt því að launakostnaður jókst óhjákvæmilega á meðan mestu takmarkanirnar gengu yfir. Engu að síður er það til fyrirmyndar hvernig starfsfólk sveitarfélagsins hefur gengið að sínum störfum í þessu ástandi, og leyst þau af hendi, þrátt fyrir að áskoranirnar hafi verið margar. Færi ég þeim hér með bestu þakkir bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

En vegna þeirrar óvissu sem uppi er í efnahagsmálum var lagt upp með að stíga varlega til jarðar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2021. Gert er ráð fyrir að hækkun útsvars verði talsvert lægri en spá um almenna launaþróun segir til um og er það gert til að til að borð sé fyrir báru í tekjum sveitarfélagsins. Þá er spá um tekjur hafnarsjóðs varfærin og m.a. ekki gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021, vegna þeirrar óvissu sem uppi er í þeim efnum. Engu að síður tel ég vera ástæðu til bjartsýni miðað við fyrstu niðurstöður úr loðnuleit sem fram hafa farið síðustu daga.

Öflugt fjölskyldusamfélag

Líkt og undanfarin ár leggur fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar áherslu á að viðhalda, og bæta það öfluga fjölskyldusamfélag sem Fjarðabyggð er. Áfram halda gjöld fyrir skólamáltíðir að lækka og stefna okkar er sú að þær verði gjaldfrjálsar frá og með haustinu 2021. Við erum afar stolt af því aðgjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast mjög vel samanburð við önnur sveitarfélög og eru þær með þeim hagstæðari sem gerast á landinu.

Á árinu 2021 verður lokið við innleiðingu á Sprett, en það er verkefni sem fjölskyldusvið Fjarðabyggðar hefur unnið við að undanförnu. Með Spretti verður stoðkerfi fjölskyldusviðs stóreflt þar sem snemmtæk íhlutun er markmiðið með hag barna að leiðarljósi. Með þessu verður utanumhald um þá sem þurfa á aðstoð að halda öflugra og um leið gert ráð fyrir að kostnaður muni lækka til framtíðar.

Umfangsmiklar framkvæmdir í þágu fjölskyldna og atvinnulífs

Í Fjarðabyggð hefur fólki fjölgað á undanförnum árum og því fylgir aukinn krafa og þörf í framkvæmdum sem snúa að skólum og íþrótta- og æskulýðsmálum. Líkt og verið hefur síðustu ár gerir fjárhagsáætlun ársins 2021 ráð fyrir umtalsverðum fjárfestingum með þetta að leiðarljósi.

Þannig er gert ráð fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði en fjármagn til þess verkefnis kemur frá sölu Rafveitu Reyðarfjarðar sem samþykkt var í árslok 2019. Samhliða byggingunni verður einnig farið í viðgerðir á sundlauginni á Reyðarfirði þannig að hún geti þjónað Grunnskóla Reyðarfjarðar sem skólasundlaug. Er þarna um að ræða fjárfestingar í íþróttamannvirkjum á Reyðarfirði fyrir rúmlega 400 milljónir króna.

Einnig er gert ráð fyrir að farið verði í framkvæmdir í Félagslundi á Reyðarfirði með það í huga að félagsmiðstöðinni Zveskjan verði flutt þangað, ásamt því sem húsnæðið verði nýtt sem salur fyrir leikskólann Lyngholt. Er þetta í samræmi við stefnu bæjarstjórnar um bætta nýtingu eigna sveitarfélagsins, og verður gaman sjá Félagslund glæðast lífi að nýju. Er þetta í samræmi við þau skref sem stigin hafa verið með fjölnýtingu húsnæðis Egilsbúðar á Norðfirði á þessu ári.

Þá verður hafinn vinna við lokahönnun og gerð útboðsgagna vegna stækkunar leikskólans Dalborgar á Eskifirði og munu framkvæmdir hefjast í framhaldi af því. Það verkefni er langþráð, en lengi hefur legið fyrir að húsnæði leikskólans sé of lítið og starfsmannaaðstaða ekki viðundandi.

Einnig er gert ráð fyrir fjárfestingu í nýju skjalasafni Fjarðabyggðar sem kemur til með að vera í Lúðvíkshúsi í Neskaupstað, en skjalasafn Fjarðabyggðar hefur hingað til verið vistað í geymslum á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu sem ekki getur gengið til framtíðar. Jafnframt verður Skjala- og myndasafn Norðfjarðar samþætt skjalasafninu sem verið hefur í leiguhúsnæði frá upphafi.

Áframhald verður á fjárfestingum í ofanflóðavörnum. Unnið verður áfram við þriðja varnargarðinn á Norðfirði og varnir við Lambeyrará á Eskifirði. Fjarðabyggð hefur lagt á það höfuðáherslu að haldið verðu áfram við gerð ofanflóðavarna í sveitarfélaginu og að þeim verði að fullu lokið á næstu árum.

En gott fjölskyldusamfélag mætti sín lítils ef ekki kæmi til hið kraftmikla atvinnulíf sem hér er. Öflugur sjávarútvegur er einn af máttarstólpum atvinnulífsins í Fjarðabyggð og með sanni má segja að Fjarðabyggð sé miðstöð sjávarútvegs á Íslandi. Fjarðabyggðarhafnir hafa á undanförnum árum fjárfest mikið í bættri hafnaðstöðu. Á árinu 2021 er gert ráð fyrir að það haldi áfram og heildarfjárfesting Fjarðabyggðarhafna verði um 450 milljónir króna. Er þar stærst áframhald uppbyggingu á hafnaraðstöðu við nýtt fiskiðjuver og frystigeymslu Eskju á Eskifirði upp á 330 milljónir króna.

Samtals nema fjárfestingar A- og B hluta rúmlega 1 milljarði króna sem sýna vel þann kraft og þörf sem er í okkar öfluga sveitarfélagi.

Framtíðin er björt!

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar er metnaðarfullt plagg sem sýnir svo ekki verður um villst að Fjarðabyggð er framsækið fjölskyldusamfélag þar sem lögð er áhersla á veita íbúum framúrskarandi þjónustu og um leið að hlúð sé vel að atvinnulífinu.

Í heildina er gert ráð fyrir að rekstur A-hluta skili um 40 milljón króna afgangi, sem er jákvæð niðurstaða miðað við þær efnahagslegu aðstæður sem nú eru uppi. En eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra og liggja fyrir markmið í þeim efnum sem unnið verður með á næsta ári. Ávallt verður þó haft að leiðarljósi hagur íbúa í slíkri vinnu, um leið og horft er til þess að rekstur sveitarfélagsins sé sem hagstæðastur. Þannig gerum við gott samfélag enn betra.

Að lokum vil ég þakka starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins kærlega fyrir vel unnin störf í fjárhagsáætlunargerð sem og í öðrum störfum sínum fyrir sveitarfélagið. Ég er þess fullviss að þrátt fyrir að nú syrti í álinn um stund í efnahagsmálum sé framtíð Fjarðabyggðar björt.

Með aðventukveðju.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2020.