Categories
Fréttir Greinar

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Deila grein

19/04/2023

Staða heimila á húsnæðismarkaði

Undanfarið hefur borið á gagnrýni á Framsókn vegna aðgerðaleysis eins og það er orðað í húsnæðismálum. Það er eðlilegt að Framsókn sé gagnrýnd því flokkurinn hefur farið með húsnæðismálin síðustu 10 ár en staðreyndin er sú að Framsókn hefur virkilega látið sig húsnæðismál varða því þau eru grundvöllurinn sem heimili landsins byggja sig í kringum.

Þessi grein er ekki til þess falinn að slá út af borðinu að það séu erfiðleikar á húsnæðismarkaði í dag, við gerum okkur fulla grein fyrir því og unnið er hörðum höndum að því að tryggja eðlilega húsnæðisuppbyggingu. En til að við getum metið aðgerðir og aðgerðarleysi þá er mikilvægt að draga saman heildarmyndina og sjá hvort við séum á réttri leið.

Gríðarleg fjölgun íbúa

Við berum okkur jafnan saman við Evrópu og viljum hafa húsnæðismálin í sama ef ekki betra horfi en þar. En til að sjá hvernig við erum að standa okkur er mikilvægt að bera saman rauntölur. Ef við byrjum á íbúaþróun þá þarf ekki að skoða lengi til að sjá að íbúaþróun á Íslandi er í engu samhengi við íbúaþróun í Evrópu. Íbúum Evrópu hefur fjölgað um 2,8% frá aldamótum á meðan íbúum á Íslandi hefur fjölgað um nærri 40% (ca. 50.000 erlendir ríkisborgarar og 58.000 íslenskir ríkisborgarar) og ef einungis eru skoðuð síðustu ár þá er fækkun í Evrópu, fækkun meðan hraðinn í fjölgun eykst á Íslandi. Ísland er því á allt öðrum stað en þau lönd sem við berum okkur helst saman við, en þar eru tölur um fjölgun eftirfarandi; Danmörk (9,8% fjölgun), Þýskaland (3% fjölgun), Noregur (24,4%), Finnland (8,4%), Bretland (17,3%) og Svíþjóð (16,2%).

Vinsældum og vexti í íbúafjölda fylgja vissulega áskoranir og ein þeim er að tryggja nægilegan fjölda íbúða á hverjum tíma. Hér í töflu frá HMS og Hagstofunni sést hvernig íbúðauppbyggingin síðustu ára hefur verið. Þetta eru íbúðir sem tekur að jafnaði 2 ár að skila fullbúnum frá því að sótt er um byggingarleyfi. Það er allavega ljóst að í tíð þeirra ríkisstjórna sem sátu á árunum 2007 til 2013 varð til gríðarleg snjóhengja í húsnæðismálum sem við erum enn að glíma við. Ef við hliðrum því tímabili um 2 ár (Sem tekur að byggja) þá sjáum við að tímabilið frá 2009 til 2015 eru met ár í skorti á íbúðum. Aðgerðir síðustu ára hafa því fyrst og fremst miðað að því að mæta þessari uppsöfnuðu þörf til að tryggja nægilegt húsnæði.

Fleiri eignast húsnæði

Gagnrýnt hefur verið að stór hlut þeirra íbúða sem byggðar hafa verið hafi endað hjá eignafólki og leigufélögum í einkaeigu og þannig hafi ávinningurinn í aukinni húsnæðis uppbyggingu fyrst og fremst farið í að okra á leigjendum. Staðreyndir vísa í aðra átt líkt og þessi mynd sýnir, en hér hefur verið tekin saman þróun á eigin húsnæði, einkareknu leiguhúsnæði (einstaklingar, ættingjar og vinir, einkarekin leigufélög, vinnuveitendur og aðrir) og opinberu/félögum (Sveitarfélög, óhagnaðardrifið leiguhúsnæði, búseturéttur og stúdentagarðar).

Þessi mynd sýnir okkur hver þróunin hefur verið í heimilum landsins á árunum 2015-2022 (ath. gögn frá 2016 skortir). Þá sýnir líkindalínan hvert við stefnum, það er í rétta átt. Því miður eru ávallt einhverjir sem reyna að nýta sér erfiða stöðu annarra en grafið sýnir augljóslega að einkaaðilum á leigumarkaði hefur fækkað mikið síðustu ár öfugt við það sem einhverjir halda fram og varanlegt húsnæði í eigu hins opinbera og félaga hefur aukist. Það segir okkur að markaðurinn hefur hægt og rólega verið að lagast og þróast í þá átt sem við viljum sjá.

Aðgerðir í þágu heimila

Margvíslegar breytingar hafa verið gerðir síðustu ár með það að markmiðið að auka framboð á íbúðum og bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Má þar nefna lög um almennar íbúðir sem tóku gildi 15. júní 2016 en með þeim var sett á fót nýtt kerfi húsnæðisstuðnings með það að markmiði að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignaminni leigjenda. Árið 2020 komu síðan inn í lögin breytingar til batnaðar varðandi stofnframlög. Þá voru sett árið 2016 lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og tóku þau í gildi 1. júlí 2017. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í að kortleggja markaðinn ásamt því að einfalda reglugerðir og auka samvinnu við sveitarfélögin í sambandi við lóðaúthlutun.

Ef við skoðum hvað þessi lög hafa gert fyrir markaðinn er nokkuð ljóst að þau hafa haft gríðarleg áhrif, sérstaklega hvað varðar leigumarkaðinn. Leigumarkaðurinn náði hámarki árið 2018 þegar 32,2% heimila á Íslandi var á leigumarkaði eða 47.900 heimili. Í fyrra var þetta hlutfall komið niður í 21% og heimilin einungis 34.100. 

Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem farið hefur verið í til að fjölga íbúðum, hjálpa fólki að komast í eigið húsnæði og byggja fleiri leiguíbúðir í óhagnaðardrifnu eða samvinnuformi hafa tekist vel. En þá er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Við erum enn að ráða niður afleiðingar á skorti á stefnu í húsnæðismálum í tíð fyrri ríkisstjórna sem komið var inn á hér að framan. Því til viðbótar erum við að glíma við alþjóðlega verðbólgu sem klárlega mun hafa áhrif á markaðinn til styttri tíma, en okkar markmið ætti núna að vera fyrst og fremst að tryggja við séum ekki að safna í aðra snjóhengju með frekari skort í framtíðinni. Mikilvægast núna er að halda áfram að byggja nægilegt húsnæði yfir höfuð og halda áfram að fjölga íbúðum í óhagnaðardrifnu leigukerfi.

Uppbygging um land allt

Að lokum verðum einnig að ræða um mikilvægi þess að byggja upp íbúðir á sem flestum stöðum á landinu. Við sjáum sveitarfélag eins og Árborg og áður Reykjanesbæ sem hafa glímt við þann vanda að byggja upp nauðsynlega innviði í kjölfarið á fjölgun íbúa, sem dæmi þá hefur frá aldamótum íbúum Árborgar fjölgað um 100% og í Reykjanesbæ um 110% á meðan íbúum Íslands hefur fjölgað um 40%. Víða um land eru nægir innviðir til að taka á móti fleiri íbúum og sum staðar þarf kannski einungis að byggja upp eða við hluta af innviðunum en ekki alla innviði eins og í þeim sveitarfélögum sem vaxið hafa hvað hraðast. Víða um land eru fyrir götur, vatnsveitur, fráveitur, leikskólar, grunnskólar, íþróttamannvirki og önnur þjónusta og það er hagkvæmt að byggja þar upp og fjölga íbúum um allt land. Fyrir utan að nýta þá innviði sem þegar eru til staðar mun það skila sér í bættri þjónusta fyrir þá íbúa sem fyrir eru.

Eitt af því sem hægt væri að bæta við þær aðgerðir sem eru nú þegar komnar í gang er að kortleggja hvaða sveitarfélög eða byggðakjarnar geta tekið við fleiri íbúum án þess að leggja í mikla innviðauppbyggingu. Sem dæmi má taka að nú er verið að byggja stúdentagarða á Flateyri fyrir lýðskólann. Þar er verið að tryggja leiguhúsnæði á góðum kjörum, við gamla götu með alla innviði, þar er vannýtt pláss bæði á leikskóla og í grunnskóla og þar er sundlaug og íþróttahús til staðar.

Framsókn hefur staðið fyrir öflugum aðgerðum í húsnæðismálum sem skilað hafa árangri, en það er þó nóg eftir, við getum öll verið sammála því að við séum ekki komin á áfangastað og árið 2023 verður erfitt í kjölfar alþjóðlegrar verðbólgu. Það sem þjóðin þarf að spyrja sig er hvort hún sé tilbúin að kjósa yfir sig aðgerðaleysi líkt og var árin 2007-2013 eða halda áfram með þær aðgerðir sem nú eru í gangi, bæta frekar í og tryggja að ekki verði stopp í húsnæðisuppbyggingu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Deila grein

18/04/2023

Verjumst riðu! Ný nálgun við 100 ára gamalt verkefni

Á dögunum bárust okkur þær hræðilegu fréttir að riðusmit hafi greinst Miðfjarðarhólfi, en það svæði hefur verið talið musteri sauðfjárræktar í landinu. Það er ávallt áfall þegar riða greinist í sauðfé og aflífa þarf allan stofninn, áfall sem ekki nokkur bóndi á að þurfa að ganga í gegnum. Miðfjarðarhólf var fram að þessu talið hreint svæði og því er erfitt að kyngja þessum nýju tíðindum og hugur okkar er hjá bændum sem nú þurfa að drepa allt sitt fé nokkrum dögum fyrir sauðburð.

Riða hefur verið greind hér á landi í sauðfé í meira en öld, um er að ræða banvænan og ólæknandi sjúkdóm sem ekki hefur fundist lækning við. Því þarf þegar riða greinist á býli að fella allan stofninn auk þess sem mikillar varúðar þarf að gæta í mörg ár því smit getur dvalið í umhverfi og legið sem falin eldur í áratugi.

Á sama tíma er förgun á dýrahræjum í ólestri og einungis ein brennslustöð til taks á landinu til að taka við dýrahræjum til brennslu. Brennsla er nauðsynleg þegar um sýktar afurðir er að ræða. Þá er heldur ekki ásættanlegt að flytja sýkt dýrahræ milli varnarhólfa til förgunar með tilheyrandi áhættu.

Hin verndandi arfgerð

Þau tímamót urðu á síðasta ári að verndandi arfgerð gegn riðu var fundin í kind hér landi, það er að fundist hafa kindur hér á landi með ákveðnar stökkbreytingar sem eru ónæmar fyrir sjúkdómnum. Þessi breytileiki erfist og því væri hægt að rækta riðu úr íslenska sauðfjárstofninum á nokkrum árum. Til þess að það geti talist raunveruleg lausn þarf að setja á stað öflugt verkefni við að kortleggja stofninn og vinna sig þannig upp frá grunni. Því eru það ánægjulegar fréttir að Kári Stefánsson og Íslensk erfðagreining hafa sýnt því áhuga að leita að hinni verndandi arfgerð gegn riðu í öllu íslensku sauðfé. Íslensk erfðagreining er öflugt fyrirtæki með færa sérfræðinga og tæki og tól til að vinna að slíku verkefni.

Íslenski sauðfjárstofninn er nærri 100 % skrásettur og því hægt að vinna hratt og örugglega við að rækta upp riðþolinn stofn hér á landi. Öflug greining gæti líka komið í veg fyrir að það þyrfti að farga heilbrigðu fé og eins og nú er gert. Hægt yrði að grisja úr sýkt fé og koma þannig í veg fyrir sársaukafullar aðgerðir.

Mikilvægt frumkvæði

Fyrir tveimur árum síðan var farið í að safna sýnum úr kindum. Þetta er vinna sem bændur sjálfir hrundu á stað og kostuðu að frumkvæði og forystu Karólínu Elísabetardóttur sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð. Þróunarsjóður sauðfjárræktarinnar styrkti verkefnið og tekin voru sýni úr tæplega 30.000 kindum víða um land. Með Karólínu hafa unnið fulltrúar frá þýskri rannsóknarmiðstöð, riðusérfræðingar frá Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins auk þess sem fleiri erlendir sérfræðingar hafa komið að verkefninu. Um er að ræða frumkvöðlastarf sem getur verið upphafið að breytingu sem beðið hefur verið eftir í áratugi við að útrýma riðu í sauðfé hér á landi.

Verkefni sem skiptir máli

Riðutilfelli hér á landi eru ávallt alvarleg, sérstaklega nú þegar sauðfjárræktun stendur höllum fæti vegna annarra ytri komandi þátta. Síðasta áratug hefur verið erfiður rekstrargrundvöllur í sauðfjárrækt og þær aðstæður sem eru nú uppi í efnahagsmálum hvetja bændur enn frekar til að bregða búi og leita á önnur mið. Riðusmit á öflugustu sauðfjársvæðum landsins er fráhrindandi raunveruleiki fyrir unga bændur að búa við.

Undirrituð telja að ríkið verði því að stiga inn með fjármagn í arfgerðargreingar. Við búum við þá góðu stöðu að hér á landi er til staðar þekking og vilji til þess að vinna á þessum vanda. Það er arðsamt verkefni fyrir ríkið að fara í slíkt verkefni enda fylgir því nokkur kostnaður að fara í niðurskurð á þúsundum kinda á nokkrum árum ásamt því að greiða tilheyrandi bætur.

Íslenska lambakjötið er dýrmæt afurð

Íslenska lambakjötið er merkileg vara og það hefur nýlega verið staðfest en í síðasta mánuði fékk íslenska lambakjötið, fyrst íslenskra afurða, upprunatilvísun og er eina matvaran á landinu sem hlotið hefur slíka merkingu. Um er að ræða PDO-merkingu (e. Protected designation of origin), sem er hæsta stig verndaðra upprunatilvísana í Evrópu og er íslenska lambakjötið er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum líkt og parmaskinku, parmesanosti, kampavíni og fetaosti. Hér er um að ræða gríðarlega stóra viðurkenningu sem kemur til með að skapa aukin verðmæti íslensk lambakjöts ásamt því að festa í sessi stöðu þess á erlendum mörkuðum.

Viðurkenningin er afrakstur mikillar vinnu sem hófst hjá Bændasamtökunum fyrir sex árum og hún kemur til með að auka virði lambakjötsins og eftirspurn. Hér er um að ræða gríðarmikla sönnun á því sem við þó vissum fyrir, að við erum með dýrmæta afurð hérlendis sem við verðum með öllu hætti að vernda. Þessi viðurkenning blæs okkur vonandi byr í seglin við að styðja frekar við og auka framleiðslu á íslensku lambakjöti til þess að standast aukinni eftirspurn. Ásamt því að leita allra leiða til þess að uppræta riðu hérlendis í eitt skipti fyrir öll.

Þórarinn Ingi Pétursson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Uppbygging um allt land

Deila grein

15/04/2023

Uppbygging um allt land

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um innviðum tengdri ferðaþjón­ustu í gegn­um Fram­kvæmda­sjóð ferðamannastaða. Á tíu árum hafa 849 verk­efni hlotið styrk úr sjóðnum og í gær kynnti ég nýj­ustu út­hlut­un sjóðsins, að upp­hæð 550 m.kr. Verk­efn­in sem hljóta styrk eru að vanda afar fjöl­breytt en hverf­ast öll um ör­yggi ferðamanna, bætt aðgengi, bætta innviði, nátt­úru­vernd og sjálf­bærni. Styrk­irn­ir fara til verk­efna hring­inn í kring­um landið, stórra sem smárra, sem öll skipta máli. Upp­bygg­ing­in er grund­völluð á heild­ar­sýn fyr­ir hvern lands­hluta og áfangastaðaáætlan­ir.

101 um­sókn barst í sjóðinn í þetta skipti sem sýn­ir fram á þá miklu hug­mynda­auðgi og kraft sem býr í ís­lenskri ferðaþjón­ustu og þann metnað sem heima­menn í hverj­um lands­hluta fyr­ir sig hafa til þess að byggja upp góða áfangastaði. Marg­ir Íslend­ing­ar urðu þess ein­mitt áskynja þegar þeir ferðuðust mikið um eigið land á tím­um heims­far­ald­urs­ins. Fram­kvæmda­sjóður ferðamannastaða hef­ur skipt sköp­um við að styðja við upp­bygg­ingu góðra áfangastaða. Sem dæmi um nokk­ur vel heppnuð verk­efni eru upp­bygg­ing „svíf­andi“ sjálf­ber­andi göngu­stíga úr áli í Hvera­döl­um sem lág­marka snert­ingu við jörðina og hlífa þannig hinu viðkvæma hvera­svæði sem er vin­sæll áfangastaður ferðamanna. Útsýn­ispall­ur­inn á Bola­fjalli er annað frá­bært verk­efni sem vert er að nefna, en pall­ur­inn hang­ir utan í þver­hnípt­um stórstuðluðum klett­um með stór­brotið út­sýni yfir Ísa­fjarðar­djúp, inn Jök­ulf­irði og út yfir sjón­deild­ar­hring í átt til Græn­lands. Innviðaupp­bygg­ing við Goðafoss er einnig dæmi um vel heppnað verk­efni þar sem hugað er að ör­yggi og nátt­úru­vernd með ráðgjöf fag­fólks.

Í út­hlut­un gær­dags­ins fengu 28 verk­efni í öll­um lands­hlut­um styrk. Hæsta styrk­inn að þessu sinni, 158 m.kr., fékk verk­efnið Baug­ur Bjólfs á Seyðis­firði, en um er að ræða hring­laga út­sýn­ispall sem sit­ur á fjalls­brún með ein­stöku út­sýni yfir Seyðis­fjörð. Þá hlaut Stuðlagil næst­hæsta styrk­inn, að upp­hæð 81 m.kr., til að stuðla að auknu ör­yggi og nátt­úru­vernd við þenn­an afar vin­sæla ferðamannastað. Þá fékk út­sýn­ispall­ur við Reyn­is­fjall 72 m.kr. styrk sem eyk­ur ör­yggi þeirra sem ferðast um hlíðar fjalls­ins.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma orðið einn af grunn­atvinnu­veg­um þjóðar­inn­ar, og get­ur skapað mikl­ar gjald­eyris­tekj­ur á til­tölu­lega skömm­um tíma. Við þurf­um því að halda áfram að treysta þá innviði sem nauðsyn­leg­ir eru til þess að taka vel á móti þeim ferðamönn­um sem hingað koma. Styrk­ur úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða stuðlar að bættri upp­lif­un og aðgengi ferðamanna, meira ör­yggi og við styðjum við viðkvæma nátt­úru lands­ins. Með þessu stuðlum við að sjálf­bærni og tryggj­um framtíð svæðanna sem áfangastaða um ókomna tíð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslensk matvara á páskum 2024

Deila grein

12/04/2023

Íslensk matvara á páskum 2024

Formaður Viðreisnar er framsýn kona og hugsar til framtíðar, þar viljum við öll vera. Hún undirstrikar það í grein sinni á Vísi í gær. Viðreisn horfir stíft til Evrópusambandsins þar sem sólin virðist skína skærar og verndartollar eru ekki til, eða hvað?

Evrópusambandið er tollabandalag og var stofnað sem slíkt, sem lýsir sér í niðurfellingu tolla milli ESB ríkja og sameiginlegum ytri tollum gagnvart ríkjum utan sambandsins. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri eins og Grýla og Leppalúði en það er oft látið að því liggja í umfjöllun þeirra sem virðast þjást af einskærri þrá og löngun til að leggja af tolla.

Það er kannski ástæða fyrir því að gula góða Cheerios fæst ekki í mörgum löndum ESB. Það er framleitt í Bandaríkjunum og er það líklega vegna hárra innflutningstolla ESB að það er bara of dýrt til að setja á markað í Evrópu.

Gott ef ekki er þá ekki líklega framleitt enn betra morgunkorn innan sambandsins og þau vilja styðja við sína matvöruframleiðendur.

Tollar eru og verða til staðar á meðan við lifum ekki í hinum fullkomna heimi frjálsra viðskipta. Sá tími mun seint koma því að samkeppnishæfni þjóða og hlutfallslegir yfirburðir þeirra eru mjög ólíkir. Þjóðir munu að sjálfsögðu áfram vernda framleiðslu sína og störf fólks.

Hafa það sem sannara reynist

Formaður Viðreisnar fullyrðir að verndartollar séu hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Að langstærstum hluta bera innfluttar matvörur ekki verndartolla. Ef rýnt er í íslensku tollskránna og hún borin sama við önnur lönd sem við svo oft berum okkur saman við, má sjá að Ísland leggur ekki á hærri tolla og tollskráin íslenska inniheldur ekki fleiri tollnúmer en hjá löndum sem við berum okkur saman við og er í mörgum tilfellum búið að gera tvíhliða samninga um viðskipti á matvöru sem ekki er lagt á tollar.

Betri er heimafenginn baggi

Formaður Viðreisnar er annt um íslenska matvælaframleiðslu, þar þekki ég hana. Þar er ég líka. Hún nefnir sérstaklega öfluga mjólkurvinnsluna Örnu í Bolungarvík sem við á Vestfjörðum erum virkilega stolt að. Þrátt fyrir ungt fyrirtæki eru þau búin að koma sér vel fyrir á markaði með öflugt þróunarstarf og nýsköpun að vopni.

Þjóðir leggja á verndartolla til að jafna samkeppnisstöðu innlends landbúnaðar gagnvart innflutningi á sambærilegri vöru. Það þykir sanngjarnt. Það þyrfti ekki að spyrja að framtíðarmöguleikum lítillar mjólkurvinnslu í Bolungarvík ef hún þyrfti að keppa óhindrað við innflutta verksmiðjuframleiðslu frá útlöndum. Við Íslendingar eru heppnir að því leyti að hér ríkir velmegun í samfélaginu. Við viljum horfa til framtíðar og hafa matvælaframleiðslu hér á landi. Við viljum hafa hana til þess að við getum keypt hágæðavöru sem framleidd er við bestu mögulegu aðstæður og skapa á sama tíma vinnu fyrir fólkið í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Viðspyrna gegn verðbólgu

Deila grein

04/04/2023

Viðspyrna gegn verðbólgu

Það er afar já­kvætt að vext­ir á rík­is­skulda­bréf­um hafi lækkað veru­lega í kjöl­far auk­ins taum­halds pen­inga­stefnu sam­hliða nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un. Til­trú fjár­festa á aðgerðum stjórn­valda er að aukast. Aðhald og skýr for­gangs­röðun er meg­in­stef í nýkynntri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar ásamt því að styðja við brýn verk­efni og standa vörð um al­mannaþjón­ust­una. Rík­is­fjár­mál­in þurfa að vinna með pen­inga­stefnu Seðlabank­ans til að ná jafn­vægi í efna­hags­líf­inu og ná verðbólg­unni niður. Fjár­mála­áætl­un til næstu fimm ára sýn­ir þá stefnu stjórn­valda að beita rík­is­fjár­mál­un­um með mark­viss­um hætti til að ná niður verðbólgu og frek­ari hækk­un vaxta með auknu aðhaldi, tekju­öfl­un og frest­un fram­kvæmda.

Á sama tíma er lögð áhersla á að verja grunnþjón­ust­una, styðja áfram við viðkvæma hópa og vernda lífs­kjör al­menn­ings. Skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lækka á tíma­bil­inu og af­koma batn­ar. Lagður verður á 1% tíma­bund­inn viðbót­ar­skatt­ur á lögaðila á ár­inu 2024 til að sporna gegn þenslu. Auk þess er gert ráð fyr­ir aukn­um tekj­um af ferðaþjón­ustu með skatt­lagn­ingu á skemmti­ferðaskip sam­bæri­legri við gistinátta­gjald sem og aukn­um tekj­um af fisk­eldi og sjáv­ar­út­vegi ásamt breyt­ing­um á skatt­lagn­ingu öku­tækja og eldsneyt­is.

Á umliðnum árum hef­ur verið fjár­fest mynd­ar­lega í ýms­um mála­flokk­um á mál­efna­sviðum menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins sem hef­ur skilað sér í betra sam­fé­lagi og staðinn verður vörður um. Í nýkynntri fjár­mála­áætl­un er að finna ýms­ar áhersl­ur kom­andi ára í þeim mála­flokk­um. Má þar nefna hið mjög svo brýna verk­efni að bæta rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla með skatta­leg­um stuðningi til að tryggja fjöl­breytni á fjöl­miðlamarkaði í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála. Með nýj­um aðgerðum vilj­um við skapa hvata og auka sam­keppni á fjöl­miðlamarkaði.

Stefnt er að því að leggja fram nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi 2023. Áfram verður lögð áhersla á öfl­un áreiðan­legra gagna og innviðaupp­bygg­ingu ásamt aðgerðum sem miða að því að dreifa ferðamönn­um víðar um landið og yfir allt árið.

Þá er gert ráð fyr­ir að 50 m.kr. verði varið í að auka aðgengi að túlkaþjón­ustu til að auka lífs­gæði heyrn­ar­skertra og heyrn­ar­lausra. Lögð verður fram til­laga til þings­álykt­un­ar um ís­lenskt tákn­mál og aðgerðaáætl­un vegna henn­ar. Barna­menn­ing­ar­sjóður verður fest­ur í sessi með 100 m.kr. ár­legu fram­lagi ásamt verk­efn­inu List fyr­ir alla og auk­inn þungi verður sett­ur í neyt­enda­vernd og unnið að heild­ar­stefnu­mót­un sem áætlað er að ljúki fyr­ir árs­lok 2024.

Starfs­um­hverfi lista­manna og um­gjörð starfs­launa lista­manna verður bætt á tíma­bil­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur verið unnið að til­lög­um í þá veru og nú er komið að því að hrinda fyrsta fasa þeirra í fram­kvæmd. Mark­mið stjórn­valda er að starfs­launa- og verk­efna­sjóðir tryggi bet­ur af­komu þeirra sem starfa í list­um eða við skap­andi grein­ar, stuðli að meiri fjöl­breytni í út­hlut­un­um, auknu og jöfnu aðgengi mis­mun­andi list­greina og raun­særri viðmiðum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar. lda@mvf.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Deila grein

04/04/2023

Hver á að borga fyrir ferminguna?

Það getur verið flókið að ganga í gegnum skilnað, sér í lagi þegar fólk á börn saman. Í daglegu lífi þegar sérstök útgjöld tengdu barni eru framundan líkt og til dæmis vegna fermingar getur ágreiningur skapast milli foreldra. Í slíkum tilvikum getur lögheimilisforeldri óskað eftir úrskurði sýslumanns til að umgengnisforeldri greiði framlag þegar kemur að sérstökum útgjöldum s.s. vegna skírnar, ferminga, tannréttinga, gleraugnakaupa, sjúkdóma, greftrunar o.s.frv.

En umsóknir vegna sérstakra útgjalda geta verið bæði krefjandi og erfiðar ásamt því að vera flókið ferli fyrir foreldra sem jafnvel á sama tíma eru að ganga í gegnum erfið samskipti við fyrrverandi maka.

Óþarflega flókið ferli

Í síðasta mánuði mælti sú sem hér skrifar fyrir tillögu sem hefur það að markmiði að einfalda ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns. Í tillögunni er lögð áhersla á að auðvelda aðgengi milli aðila ríkisins að upplýsingum og gögnum, en foreldri þarf við umsókn um sérstök útgjöld að leggja fram ýmis fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við hvert tilefni fyrir sig. Má þar nefna skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

Allt eru þetta gögn sem nú þegar liggja fyrir hjá hinu opinbera og því væri nærtækara að sýslumaður hefði lagaheimild kalla eftir þessum gögnum í stað þess að foreldri fari á milli kóngs og prests við að týna saman upplýsingar. Undirrituð telur að skoða verði af fullri alvöru hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu foreldris við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Tryggja þarf að sýslumannsembættunum sé kleift að afla nauðsynlegra gagna með stafrænum hætti.

Nýtum framvindu tækninnar

Í samræmi við þær tækniframfarir sem hafa átt sér stað á undanförnum árum ætti auðveldlega að vera hægt að einfalda ferli um sérstök útgjöld verulega. Við gerð greiðslumats hökum við í boxið um upplýsingaöflun um tekjur okkar og skuldir og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja upp slíkt kerfi við umsóknarferli um sérstök útgjöld. Undirrituð telur að með sambærilegum hætti væri auðveldlega hægt að veita heimild til gagnaöflunar hjá stjórnvöldum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Ef við höfum tök á að bæta þjónustuna á þessum vettvangi og einfalda um leið ferlið bæði fyrir foreldrið og úrvinnsluaðilann, ættum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að lausnin geti orðið að veruleika.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Samstaða samfélagsins aðdáunarverð

Deila grein

04/04/2023

Samstaða samfélagsins aðdáunarverð

Í ljósi atburða síðustu daga er vert að huga vel að hvort öðru og þakka fyrir að ekki fór verr. Það var dýrmætt að sjá þann mikla styrk sem býr í samfélaginu okkar, náunga kærleikinn og greiðasemina.

Eftir slíkan veðurofsa eru mörg verkefni sem bíða og það mun taka tíma að koma byggðarkjörnunum okkar í samt horf. Jafnframt þarf að meta það tjón sem orðið hefur og þá sérstaklega á Norðfirði.

Þar sönnuðu snjóflóðavarnargarðar gildi sitt og vil ég ekki hugsa til þess sem orðið hefði ef þeirra nyti ekki við. Síðustu dagar ýta enn frekar undir mikilvægi þess að koma upp fjórða og síðasta varnargarðinum en hönnun hans er nú þegar lokið.

Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa verið til staðar og aðstoðað samfélagið okkar síðustu daga, það er ómetanlegt að finna allan þann stuðning og kraft sem okkur barst allsstaðar að af landinu. Ég er ofboðslega stolt af því öfluga viðbragðsteymi sem hefur verið til staðar síðustu viku, það hefur verið vakið og sofið við það að tryggja öryggi íbúa, veita aðstoð og vera til staðar sem er ómetanlegt. Einnig ber að þakka starfsfólki og verktökum sveitarfélagsins, fyrirtækjum og stofnunum í Fjarðabyggð og svo ótal mörgum öðrum sem unnu mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður.

Eitt er víst að alltaf má draga lærdóm af slíkum atburðum og munum við fara yfir alla þá verkferla sem farið var í, rýna þá og meta. Það er alltaf eitthvað sem betur má fara en samstillt átak allra og gott samstarf við lögregluna á Austurlandi, Almannavarnir, Veðurstofuna og fleiri tryggði okkur góða yfirsýn í okkar víðfeðma sveitarfélagi.

Hlúum að andlegu heilsunni og verum vakandi fyrir einkennum áfalla og streitu hjá okkur sjálfum og öðrum nákomnum. Nýtum okkur þau úrræði sem eru til staðar, þjónustumiðstöð Almannavarna, Rauða krossinn, starfsmenn sveitarfélagsins, kjörna fulltrúa og fleiri. Það á enginn að standa einn í þeim verkefnum sem framundan eru. Að þessu sögðu vona ég að vorið og sumarið verði okkur hliðhollt og óska ykkur öllum gleðilegrar páskahátíðar.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. apríl 2023.

Categories
Greinar

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Deila grein

03/04/2023

Tíma­móta­samningur um lið­skipta­að­gerðir og loksins jafnt að­gengi

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu er kjarninn í stefnu Framsóknar í heilbrigðismálum. Þær áherslur birtast sömuleiðis í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál.

Blandað rekstrarform

Við eigum öflugt heilbrigðiskerfi sem byggir á blönduðu rekstrarformi þar sem hið opinbera bæði veitir þjónustu og kaupir af öðrum aðilum. Þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð með opinberu fé er áhersla lögð á að þjónustan sé veitt tímanlega, af gæðum og á hagkvæman hátt. Í litlu þjóðfélagi þarf að gæta að jafnvægi og forgangsröðun þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki. Með samningum Sjúkratrygginga Íslands um kaup á heilbrigðisþjónustu er hægt að stuðla að betri nýtingu fjár og mannauðs. Forsenda þess að blandað heilbrigðiskerfi gangi upp er samvinna og samspil kerfisins í heild þannig að hægt sé að fullnýta afkastagetu þess í þágu fólksins í landinu.

700 liðskiptaaðgerðir á þessu ári

Við þekkjum vel umræðuna í tengslum við liðskipaaðgerðir sem hefur fylgt þjóðinni undanfarna áratugi. Ófá biðlistaátök hafa verið sett af stað með ágætis tímabundnum árangri en skömmu síðar höfum við ratað aftur í sama farið. Opinberar stofnanir þurfa að forgangsraða þjónustu sinni til að geta tekist á við lögbundið hlutverk sitt er varðar bráð veikindi, farsóttir og annað. Því sitja stundum á hakanum aðgerðir sem þessar. Fjöldi sjúkratryggða einstaklinga hefur einnig nýtt sér heimildir EES regla um heilbrigðisþjónustu erlendis vegna langrar biðar eftir aðgerð. Er það gert með fullri greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands, með tilheyrandi viðbótarkostnaði, óþægindum og óhagræði.

Frá árinu 2016 hefur Klínikin boðið upp á liðskiptaaðgerðir án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sem hefur vissulega hjálpað mörgum. En tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem efnameiri einstaklingar hafa tækifæri til að borga sig fram fyrir röðina, er eitthvað sem okkur í Framsókn hugnast ekki. Það verður að gæta jafnræðis í nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þannig að allir geti gengið að góðri og tímanlegri þjónustu þegar á þarf að halda. Það er farsælast að allir þjónustuveitendur heilbrigðiskerfisins geti unnið saman að sameiginlegu markmiði á sömu forsendum. Þannig næst árangur til lengri tíma og tímabundinn á.

Það er því afar ánægjulegt að sjá áherslur Framsóknar setja mark sitt á heilbrigðismál undir öflugri forystu Willums Þórs, heilbrigðisráðherra. Í vikunni staðfesti hann samning Sjúkratrygginga Íslands um kaup á 700 liðskiptaaðgerðum á þessu ári. Samningurinn markar tímamót og stuðlar að auknu og umfram allt jöfnu aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Sömuleiðis hefur heilbrigðisráðherra tryggt aðgengi kvenna að endómetríósuaðgerðum með samskonar samningi í upphafi árs.

Tryggjum gæði og förum vel með fé

Sérhæft heilbrigðisstarfsfólk er takmörkuð auðlind í fámennu samfélagi og skipulag þjónustunar þarf að taka mið af því. Höfum hagsmuni einstaklingsins sem þarf á þjónustunni að halda að leiðarljósi. Með kaupum Sjúkratryggingar Íslands á nauðsynlegri heilbirðgisþjónustu tryggjum við jafnt aðgengi, samvinnu, réttláta forgangsröðun, skynsama nýtingu á almanna fé og fullnýtum afkastagetuna í heilbrigðiskerfinu.

Ágúst Bjarni Garðsson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Til varnar lýðræðinu

Deila grein

02/04/2023

Til varnar lýðræðinu

Fall Berlín­ar­múrs­ins er ein sterk­asta minn­ing mín úr æsku. Ég man það eins og í gær þegar hundruð Aust­ur-Þjóðverja þyrpt­ust að tákn­mynd ein­ræðis­ins og Berlín­ar­múr­inn var mölvaður niður. Ég sat með pabba og horfði á þenn­an sögu­lega viðburð í beinni út­send­ingu og geðshrær­ing­in var mik­il. Sov­ét­rík­in voru fall­in og með þeim þeir ein­ræðis­stjórn­ar­hætt­ir sem ráðið höfðu ríkj­um hand­an járntjalds­ins. Fólkið braust út úr fjötr­um hræðilegs stjórn­ar­fars, sem elur ekk­ert af sér annað en ótta og kúg­un. Ekki bjóst ég við því að um rúm­um ald­ar­fjórðungi síðar væri Evr­ópa að fást við fas­isma í tún­fæti sín­um.

Ræt­ur ein­ræðis

„Ein­ræðis­hyggja er ekki póli­tísk hug­mynda­fræði held­ur aðferð til hrifsa til sín völd og halda þeim,“ þannig skil­greindi fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna og pró­fess­or­inn Madeleine Al­bright viðfangs­efnið. Þessi póli­tíska aðferðafræði er að vísu leyti frem­ur óljós en hef­ur verið beitt bæði af stjórn­mála­mönn­um lengst til hægri og vinstri. Upp­sprettu ein­ræðis­hyggju má oft rekja til óánægju eða reiði al­menn­ings, hvort held­ur vegna tapaðs stríðs, glataðra landsvæða, at­vinnum­issis eða ein­hverr­ar blöndu þess­ara þátta. Þekkt­ustu leiðtog­ar ein­ræðis­hyggju hafa oft búið yfir ákveðum per­sónutöfr­um sem gera þeim kleift að tengj­ast fjöld­an­um til­finn­inga­bönd­um, breyta reiði al­menn­ings í hug­læga sam­stöðu og til­gang. Ásamt því hafa leiðtog­ar þeirra lagt of­ur­vald á að hafa stjórn á upp­lýs­ing­um í ríkj­um sín­um. Hvort held­ur með um­fangs­mikl­um áróðri, upp­lýs­inga­óreiðu eða fals­frétt­um. Mark­miðið er í raun að bæla frjálsa hugs­un.

Hrika­leg­ar af­leiðing­ar ein­ræðis­hyggju 20. ald­ar­inn­ar

Sag­an hef­ur sýnt okk­ur að fas­ist­ar kom­ast sjaldn­ast til valda með vald­aránstilraun held­ur taka þeir eitt skref í einu og fylgja oft leik­regl­um lýðræðis­ins. Eft­ir mis­heppnað vald­arán í Bæj­aralandi árið 1923 í suður­hluta Þýska­lands ein­beitti Nas­ista­flokk­ur­inn sér að því að kom­ast lög­legu leiðina að völd­um en tók þátt í kosn­inga­s­vindli sem leiddi að lok­um til þess að Ad­olf Hitler var skipaður kansl­ari. Í kjöl­farið réðst hann gegn stofn­un­um rík­is­ins, ógnaði póli­tísk­um and­stæðing­um og kom á alræðis­stjórn. Ítal­ía var und­ir fasískri stjórn í rúma tvo ára­tugi, þar sem Benito Mus­sol­ini réð ríkj­um. Af­leiðing­ar stjórn­ar­fars­ins í Þýskalandi og Ítal­íu voru hrika­leg­ar. Þýska­land hóf seinni heims­styrj­öld­ina og þegar yfir lauk er talið að um 80 millj­ón­ir manna hafi lát­ist í átök­un­um, sem náðu alla leið til Asíu, og þar af að minnsta kosti sex millj­ón­ir Gyðinga og aðrir minni­hluta­hóp­ar sem voru skipu­lega myrt­ir í hel­för­inni.

Lýðræði er far­sæl­asta stjórn­ar­farið en stuðning­ur minnk­ar

Lýðræði er horn­steinn far­sæld­ar í vest­ræn­um sam­fé­lög­um. Stjórn­ar­fyr­ir­komu­lagið er ekki galla­laust. Hins veg­ar hef­ur ekk­ert stjórn­ar­far reynst betra enda bygg­ist það á skýr­um lög­um, frelsi ein­stak­linga til at­hafna og tján­ing­ar, vald­dreif­ingu og sjálf­stæðum dóm­stól­um ásamt reglu­bundn­um kosn­ing­um. Þessi grund­vall­ar­atriði stjórn­ar­fars hafa skapað mik­il auðæfi og vel­sæld í þeim sam­fé­lög­um sem hafa virt og hlúð að lýðræðinu. Staða lýðræðis á heimsvísu er þó brot­hætt. Mik­il eft­ir­vænt­ing og bjart­sýni greip um sig við fall Berlín­ar­múrs­ins og þá til­finn­ingu að lýðræði væri að ná yf­ir­hönd­inni. Því miður er vax­andi skoðun að annað stjórn­ar­far en lýðræði geti búið til betri lífs­kjör. Lýðræðis­vís­ir tíma­rits­ins „The Econom­ist“, sem fylg­ist með lýðræði um all­an heim og bygg­ir á mæli­kvörðum á borð við virðingu fyr­ir réttri málsmeðferð og trúfrelsi, gef­ur til kynna að heilsu lýðræðis hafi farið hrak­andi í 70 lönd­um frá ár­inu 2017. Sam­hliða því hafa skoðanakann­an­ir sýnt að þótt flest­ir trúi á full­trúa­lýðræði tel­ur einn af hverj­um fjór­um já­kvætt að leyfa leiðtoga að stjórna án aðkomu þings eða dóms­kerf­is. Einn af hverj­um fimm er hlynnt­ur her­stjórn. Að sama skapi kom fram í nýj­ustu grein­ingu Lýðræðis marg­breyti­leik­ans að um 72% íbúa heims­ins búa við ein­ræði, sam­an­borið við 50% fyr­ir ára­tug. Í fyrsta sinn í meira en tvo ára­tugi eru fleiri ein­ræðis­rík­is­stjórn­ir en lýðræðis­rík­is­stjórn­ir.

Or­sak­ir dvín­andi til­trú­ar á lýðræði á 21. öld­inni

Það er öf­ug­snúið að eina skýr­ingu á þess­ari þróun í sam­tím­an­um má rekja til þeirra um­fangs­miklu tækni­fram­fara sem við njót­um á hverj­um degi. Segja má að sjald­an hafi ein­stak­ling­ur­inn upp­lifað eins mikl­ar fram­far­ir á jafn skömm­um tíma. Gervi­greind­in, sem tröllríður öllu um þess­ar mund­ir, er einnig spenn­andi en marg­ar áskor­an­ir munu fylgja þess­um breyt­ing­um sem hún hef­ur í för með sér. Það er þó einkum tvennt sem fylg­ir þessu tækniumbreyt­inga­skeiði sem minnk­ar til­trúna á lýðræðið. Í fyrsta lagi þró­un­in á vinnu­markaðnum. Mik­il til­færsla er að eiga sér stað í hag­kerf­inu með nýrri tækni. Hefðbund­in störf líkt og í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, leigu­bíl­stjór­ar, prent­ar­ar og fleiri hafa upp­lifað að störf­in séu úr­elt eða mikl­ar breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi sínu í fjórðu iðnbylt­ing­unni. Þessi þróun er ekki ný af nál­inni og ekki svo ólík þeirri sem var uppi í kjöl­far iðnaðar- og tækni­bylt­inga á fyrri tím­um. Í sum­um ríkj­um í Evr­ópu er eitt af hverj­um fjór­um ung­menn­um án at­vinnu og hlut­fallið er enn hærra hjá inn­flytj­end­um. Það er því skilj­an­legt að efi geti farið að mynd­ast gagn­vart lýðræðinu, sem virðist ekki finna þess­um ein­stak­ling­um stað í til­ver­unni. Í öðru lagi mikið magn af upp­lýs­inga­óreiðu og fals­frétt­um og verri staða rit­stýrðra fjöl­miðla. Þessi fyr­ir­bæri eru þó ekki ný af nál­inni. Frægt er í sjálf­stæðis­stríði Banda­ríkj­anna, þegar sjálf­ur Benja­mín Frank­lín notaði prentvél­ina til að dreifa „fals­frétt­um“ um voðaverk Breta. Í þá daga var það mik­il fyr­ir­höfn að koma slík­um sög­um af stað og náði til tak­markaðs fjölda. Annað dæmi er hvernig nas­ist­ar í Þýskalandi gáfu hverju heim­ili út­varp til að breiða út áróður. Á öld sam­fé­lags­miðla er staðan hins veg­ar allt önn­ur. Í dag er auðvelt og ódýrt að dreifa „fals­frétt­um“ til breiðs hóps ein­stak­linga. Nán­ast ómögu­legt er að átta sig á því hvort frétt­ir á Face­book komi frá ábyrg­um blaðamanni, áhrifa­valdi, er­lendri rík­is­stjórn eða er fram­leidd af gervi­greind. Sam­bland efna­hags­legr­ar óvissu og skorts á úrræðum í þeim efn­um frá lýðræðis­lega kjörn­um stjórn­mála­mönn­um get­ur verið gróðrar­stía fyr­ir fas­isma. Efna­hags­leg­ur og póli­tísk­ur óstöðug­leiki óx í fram­haldi af fjár­málakrepp­unni 2008. Auk­in óánægja hef­ur þó víða kraumað und­ir frá því fyr­ir alda­mót þar sem ýtt hef­ur verið und­ir þá skoðun að hnatt­væðing hafi leitt til auk­ins efna­hags­legs ójafnaðar og flutn­ings á hefðbundn­um störf­um. Slík­ar skoðanir hafa víða kynt und­ir gremju og óánægju.

Hlut­verk fjöl­miðla stórt í lýðræðis­legri umræðu

Frjáls­ir fjöl­miðlar veita stjórn­völd­um, stofn­un­um og at­vinnu­líf­inu nauðsyn­legt aðhald. Án traustra og óhlut­drægra fjöl­miðla minnka lík­urn­ar á að fram­kvæmd lýðræðis­legra kosn­inga sé traust og þá dreg­ur jafn­framt úr póli­tískri ábyrgð. Tekju­öfl­un þeirra hef­ur átt veru­lega und­ir högg að sækja vegna sam­fé­lags­miðla og stórra efn­isveitna, þar sem aug­lýs­inga­tekj­ur hafa í vax­andi mæli farið til þess­ara fyr­ir­tækja. Að mínu mati eru berg­máls­hell­ar sam­tím­ans og al­grím­ar ekki til þess falln­ir að styðja við lýðræðis­lega umræðu.

Til að styðja við frjálsa fjöl­miðla á Íslandi er unnið að nýrri fjöl­miðlastefnu til árs­ins 2030 sem ætlað er að styrkja og styðja við rekstr­ar­um­hverfi fjöl­miðla. Frum­varp um rekstr­ar­styrki til fjöl­miðla ligg­ur fyr­ir Alþingi og gert er ráð fyr­ir aukn­um stuðningi í formi skatta­legra íviln­ana í nýrri rík­is­fjár­mála­áætl­un, sem nem­ur tæp­um 2 mö. kr. á tíma­bil­inu. Auk þess sem unnið verður að því að draga úr um­svif­um Rík­is­út­varps­ins á sam­keppn­ismarkaði. Köld rök­vísi seg­ir okk­ur að nú­ver­andi staða á fjöl­miðlum er ekki sjálf­bær.

Loka­orð

Tíu vik­um eft­ir dauða Frank­lins Roosevelts og tæp­um tveim­ur mánuðum eft­ir upp­gjöf Þjóðverja flaug Harry Trum­an for­seti Banda­ríkj­anna til San Francisco til að ávarpa full­trúa hinna ný­stofnuðu Sam­einuðu þjóða. Ræða hans ein­kennd­ist af mik­illi bjart­sýni og von­ar­neista um bjart­ari tíma en að sama skapi hafði hann uppi sterk varnaðarorð: „Ein­ræðis­hyggja dó ekki með Mus­sol­ini“ varaði hann við og hann hélt áfram: „Hitler kann að vera dauður, en fræ­in sem hans sjúki heili sáði náðu því miður fót­festu í hug­um of margra. Staðreynd­in er sú að auðveld­ara er að losa sig við harðstjóra og eyðileggja fanga­búðir held­ur en að drepa hug­mynd­irn­ar sem urðu kveikj­an að þeim.“ Harry Trum­an var einkum að vísa til þeirr­ar hug­mynda­fræði að eig­in þjóð byggi yfir eig­in­leik­um og rétt­ind­um um­fram alla aðra. Seinni heims­styrj­öld­in var hug­mynda­fræðilegt stríð, þar sem lýðræðisöfl­in börðust við fas­ista. Næsta stríð sem háð var, kalda stríðið, var einnig stríð hug­mynda, þ.e. lýðræði gegn komm­ún­isma. Þriðja hug­mynda­fræðilega stríðið er hafið með inn­rás Rússa í Úkraínu.

Það kem­ur óþægi­lega á óvart að sjá upp­gang fasískr­ar hug­mynda­fræði og hreyf­inga á 21. öld­inni í ljósi þeirra hörmu­legu af­leiðinga sem slík­ar stjórn­ir höfðu á 20 öld­inni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Jafnræði landsbyggðar – Tryggjum öllum grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð

Deila grein

02/04/2023

Jafnræði landsbyggðar – Tryggjum öllum grunnheilbrigðisþjónustu í heimabyggð

Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur öfluga og blómlega starfsemi um allt Suðurland og heldur úti níu starfsstöðvum víðs vegar um Suðurlandið. aðalstarfsemi stofnunarinnar er á Selfossi þar sem sjúkrahúsið er staðsett. Stofnunin er m.a. með starfsemi í Hveragerði sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi. Í Hveragerði búa nú um 3.000 manns. Það þykir eðlilegt að slík starfsstöð sé til staðar þrátt fyrir að ekki sé um langan veg að fara á milli Hveragerðis og Selfoss.

Suðurnesjabær, sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hýsir nú tæplega 4.000 íbúa. Þar er hins vegar ekki um neina heilsugæslu að ræða né hjúkrunarheimili og þurfa því íbúar að leita til annarra sveitarfélaga eftir heilbrigðisþjónustu. Gríðarleg fjölgun hefur verið í sveitarfélaginu á undanförnum árum og er sveitarfélagið með stórt og mikið verkefni í fanginu sem snýr að vegalausum börnum þar sem flugstöðin er í Suðurnesjabæ og fellur því þessi málaflokkur sjálfkrafa á barnavernd sveitarfélagsins með tilheyrandi kostnaði sem það hefur í för með sér. Gera má ráð fyrir að það taki u.þ.b. 12 mínútur að aka á milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar sem er rétt tæplega sá tími sem það tekur að aka á milli Hveragerðis og Selfoss. Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur ítrekað óskað eftir lagfæringu á þessu ófremdarástandi og aukinn þrýstingur verið settur á ríkið eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.

Ríkið hefur gert Heilbrigðisstofnun Suðurlands kleift að reka sínar starfsstöðvar af miklum myndarskap en einhverra hluta vegna hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki séð sér fært að gera slíkt hið sama. Það eykur auðvitað álagið á stofnunina í Reykjanesbæ sem á, eins og allir vita, í verulegu basli með að sinna því sem henni ber. Ég vill einnig benda á það að það eru þrír byggðarkjarnar á íslandi sem hafa enga heilbrigðisþjónustu, þeir eru Garður, Sandgerði og Hellissandur. Íbúar landsbyggðar eiga rétt á að fá heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Og gæta verður jafnræðis óháð búsetu í landinu

Anton Guðmundsson
Oddviti framsóknar og formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ