Categories
Greinar

Landsvirkjun er ekki til sölu

Deila grein

09/03/2022

Landsvirkjun er ekki til sölu

Undanfarna daga hefur sú umræða sprottið upp hvort íslenska ríkið eigi að selja hluti sína í Landsvirkjun til að bregðast við halla á ríkissjóði sem tilkominn er vegna kórónuveirufaraldursins. Einstaka þingmenn hafa viðrað hugmyndir um að selja hluti í Landsvirkjun en þingmenn Framsóknar eru alfarið á móti þessum hugmyndum og koma ekki til með að breyta þeirri afstöðu.

Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og mun halda því áfram með aukinni eftirspurn eftir grænni orku á komandi árum. Landsvirkjun hefur verið að greiða upp skuldir sínar og mun því geta á næstu árum farið að skila ríkissjóði arði árlega. Sá hagnaður getur skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, sem þarf traustan og tryggan hagnað næstu áratugi, sérstaklega eftir efnahagslegar aðgerðir ríkisins vegna Covid-19. Fjölbreyttur kaupendahópur mun smám saman styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma.

Framsókn tekur afstöðu með almenningi

Það er skýrt að samfélagið allt á að njóta arðsins sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Áframhaldandi eignarhald íslenska ríkisins í Landsvirkjun getur leitt til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Við stjórnmálamenn allra flokka þurfum að hlusta á og vinna að vilja almennings, enda er vilji hans skýr að orkumál verði ekki færð í hendur einkaaðila. Áskorunin er að sigra þann freistnivanda sem myndast við skjótan gróða af einkavæðingu. Einkavæðing getur lagað fjárhag ríkisins í nokkur ár, en í stóru myndinni er langtímahagnaður af áframhaldandi eignarhaldi í Landsvirkjun töluvert meira aðlaðandi. Það hefur aldrei talist góð hugmynd að slátra mjólkurkúnni fyrir skjótfenginn gróða.

Við eigum að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Nýting þeirra á að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Arðurinn á að vera til uppbyggingar og velferðar. Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Því kemur ekki til greina að einkavæða félagið, selja í því hluti eða framkvæmdir. Ekki á okkar vakt.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2022.

Categories
Greinar

Að­gengi allra, líka þegar snjóar

Deila grein

08/03/2022

Að­gengi allra, líka þegar snjóar

Síðustu vikur hefur færð á landinu verið mörgum erfið. Við heyrum fréttir af því að fatlað fólk, sem nú þegar glímir oft við erfitt aðgengi almennt, hefur þurft að hætta við læknisheimsóknir og að sækja aðra grunnþjónustu þar sem erfitt hefur verið, ef ekki ómögulegt, að komast úr húsi. Nú gerum við ríkar kröfur til framkvæmdaaðila um að hanna skuli og byggja á grundvelli algildrar hönnunar. Það þýðir einfaldlega að byggingar og aðkomu að þeim skuli nýtast öllum. Í ljósi færðar á landinu er vert að benda á það að aðgengi að samfélaginu má ekki binda við veðráttu. Aðgengi þarf einnig að vera tryggt að vetri til þegar snjó kyngir niður og hefur áhrif á færð.

Bandarísk löggjöf til fyrirmyndar?

Í þessu sambandi má nefna að innan ADA, bandarísku löggjafarinnar um bann á mismunun á grundvelli fötlunar, er að finna sérstakt ákvæði sem krefur bæði opinbera aðila og einkaaðila um að gera viðeigandi ráðstafanir til að göngustígar, bílastæði, inngangar og almenningssamgöngur séu aðgengilegir fötluðu fólki, líka þegar snjóar og færð verður erfið. Snjór skal hreinsaður af bílastæðum, ryðja þarf við rampa hjá kantsteinum og aldrei má hlaða snjó í stæði fyrir fatlaða. Einnig skal tryggja að gangstígar og gangbrautir skuli vera stöðugt aðgengilegar og allar inn- og útgönguleiðir verði að vera snjólausir og tryggja öruggan og greiðan aðgang að og úr byggingu. Þarna er auðvitað að finna ýmislegt meira og annað.

Gerum nauðsynlegar úrbætur

Ég held að öllum okkar þyki þetta nokkuð sjálfsagt og gerist jafnvel að sjálfu sér. En því miður er það ekki svo. Með sambærilegri löggjöf og þeirri bandarísku opnast kæruleið fyrir fatlað fólk telji það sig vera mismunað um aðgengi vegna athafnaleysis við að ryðja frá snjó. Á þetta hefur verið bent síðustu daga. Skoðun mín er því sú að slík löggjöf væri til bóta. Í raun yrði hún hvati og myndi stuðla að frumkvæði hins opinbera og einkaaðila við að tryggja aðgengi fyrir alla í öllum veðrum og aðstæðum, allt árið um kring. Ég mun vinna málið áfram og vona að þetta sé eitthvað sem við getum sameinast um á þingi.

Ágústs Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. mars 2022.

Categories
Greinar

Martröð í Úkraínu og biðraðir frá Múrmansk til Moskvu

Deila grein

07/03/2022

Martröð í Úkraínu og biðraðir frá Múrmansk til Moskvu

Á mín­um upp­vaxt­ar­ár­um var kalda stríðið í al­gleym­ingi og heims­stjórn­mál­in gengu út á það. Ég, líkt og önn­ur börn, hafði mikl­ar áhyggj­ur af kjarn­orkukapp­hlaupi Banda­ríkj­anna og Sov­ét­ríkj­anna. Eins und­ar­legt og það kann að hljóma, þá var ég mjög meðvituð um 5. gr. Stofn­sátt­mála Atlants­hafs­banda­lags­ins um að árás á eitt ríki væri árás á þau öll. Þetta létti ekki á öll­um áhyggj­um en í því var ein­hver hugg­un að Ísland stæði ekki eitt úti á ball­ar­hafi. Því miður hafa ör­ygg­is- og varn­ar­mál­in aft­ur orðið meg­in­viðfangs­efni heims­mál­anna eft­ir að Rúss­land réðst á Úkraínu. Það er þyngra en tár­um taki að fylgj­ast með at­b­urðarás­inni og horfa á blóðugt mann­fall og hundruð þúsunda flótta­manna yf­ir­gefa ástkæra fóst­ur­jörð sína. Vest­ur­lönd­in hafa í sam­ein­ingu brugðist við með því að beita Rúss­land þyngstu efna­hagsþving­un­um sem gripið hef­ur verið til í nú­tíma­hag­sögu.

Efna­hagsþving­an­ir og áhrif­in

Efna­hagsaðgerðirn­ar sem gripið hef­ur verið til ná til um fimm­tíu ríkja sem standa und­ir stór­um hluta af heims­fram­leiðslunni. Rúss­neska hag­kerfið er 11. stærsta hag­kerfi ver­ald­ar­inn­ar. Lokað hef­ur verið á greiðslumiðlun­ar­kerfi heims­ins gagn­vart rúss­nesk­um viðskipt­um, sem hef­ur mik­il áhrif á alla þá aðila sem stunda viðskipti við Rúss­land og fryst­ir greiðslur til og frá land­inu. Að auki ná aðgerðirn­ar til hins um­fangs­mikla gjald­eyr­is­forða Rúss­lands, sem nem­ur um 630 ma.kr. banda­ríkja­dala. Stærsti hluti forðans er í reynd fryst­ur. Þessi aðgerð er tal­in vega þyngst og áhrif­anna gætti strax þar sem gjald­miðill­inn féll um 30% og verð á hluta­bréfa­mörkuðum hríðféll á fyrsta viðskipta­degi eft­ir að aðgerðirn­ar tóku gildi. Seðlabanki Rúss­lands var knú­inn til að hækka stýri­vexti sína úr 9,5% í 20%. Al­menn­ing­ur finn­ur strax fyr­ir þessu í minni kaup­mætti og vöru­skorti. Frek­ari af­leiðing­ar eru að sett hafa verið ströng gjald­eyr­is­höft og biðraðir mynd­ast í banka­úti­bú­um og í mat­vöru­versl­un­um. Áhrif­in á aðra markaði eru þau að olíu­verð hef­ur hækkað mikið ásamt ann­arri hrávöru. Þrátt fyr­ir að Rúss­land fram­leiði um þriðjung alls þess jarðgass sem nýtt er í Evr­ópu og að það sé ann­ar stærsti olíu­fram­leiðandi heims er hlut­ur Rússa á hrávörumarkaðnum á heimsvísu aðeins um 3%, en á móti kem­ur að 85% af út­flutn­ingsaf­urðum Rússa eru hrávör­ur. Það þýðir að áhrif­in af efna­hagsþving­un­um verða mun meiri á rúss­neska hag­kerfið en á heimsvísu. Lands­fram­leiðsla í Rússlandi er tal­in munu drag­ast sam­an um a.m.k. 11% og lík­lega verður sam­drátt­ur­inn meiri en í krepp­unni 1998. Öll þessi þróun mun leiða til hækk­un­ar á verðbólgu til skamms tíma.

Staða Íslands

Hin efna­hags­legu áhrif eru þó létt­væg í sam­an­b­urði við þann mann­lega harm­leik sem á sér stað. Gæfa Íslands í ut­an­rík­is­mál­um þjóðar­inn­ar er að í ný­stofnuðu lýðveldi var tek­in ákvörðun um ann­ars veg­ar að ger­ast stofnaðild­ar­ríki að Atlants­hafs­banda­lag­inu árið 1949 og hins veg­ar að gera varn­ing­ar­samn­ing við Banda­rík­in árið 1951. Þetta eru meg­in­stoðir í þjóðarör­ygg­is­stefn­unni og hafa tryggt ör­yggi Íslands í ára­tugi. Það var fram­sýn þjóð sem valdi rétt á sín­um tíma og hef­ur í krafti friðar og ör­ygg­is náð að blómstra sem eitt öfl­ug­asta lýðræðis­sam­fé­lag ver­ald­ar. Mér þótti sem lít­illi telpu ágætt að vita til þess að við ætt­um sterka banda­menn. Á móti nýt­ur Úkraína þess ekki að vera aðild­ar­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins og því eru varn­ir rík­is­ins litl­ar við hliðina á Rússlandi. Okk­ur ber skylda til þess að styðja við Úkraínu og að vinna að því að þess­um hild­ar­leik ljúki sem fyrst!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­-ókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. mars 2022.

Categories
Greinar

Mikilvægi samstöðu

Deila grein

07/03/2022

Mikilvægi samstöðu

Að morgni 24. fe­brú­ar síðastliðins vaknaði heims­byggðin upp við frétt­ir sem settu hug­mynd­ir okk­ar um ör­uggt líf í Evr­ópu til hliðar. Hug­mynd­ir og von­ir um að mann­rétt­indi og lýðræði séu virt í milli­ríkja­sam­skipt­um. Við urðum vör við það að ein­ræðis­herra sem dul­býr sig sem lýðræðis­leg­an leiðtoga stærstu þjóðar Evr­ópu virðist vera al­veg sama um rétt­indi og sjálf­stæði ríkja og hvað þá grund­vall­ar­mann­rétt­indi fólks, hvort sem það séu hans eig­in þegna eða annarra ríkja.

Sátt­máli hinna Sam­einuðu þjóða

Þann 26. júní árið 1945, í kjöl­far seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar var stofn­sátt­máli Sam­einuðu þjóðanna und­ir­ritaður.

Þar seg­ir: „Vér, hinar sam­einuðu þjóðir, staðráðnar í að bjarga kom­andi kyn­slóðum und­an hörm­ung­um ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hef­ur leitt ósegj­an­leg­ar þján­ing­ar yfir mann­kynið, að staðfesta að nýju trú á grund­vall­ar­rétt­indi manna, virðingu þeirra og gildi, jafn­rétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stór­ar eru eða smá­ar, að skapa skil­yrði fyr­ir því, að hægt sé að halda uppi rétt­læti og virðingu fyr­ir skyld­um þeim, er af samn­ingn­um leiðir og öðrum heim­ild­um þjóðarrétt­ar, að stuðla að fé­lags­leg­um fram­förum og bætt­um lífs­kjör­um án frels­is­skerðing­ar og ætl­um í þessu skyni að sýna umb­urðarlyndi og lifa sam­an í friði, svo sem góðum ná­grönn­um sæm­ir, að sam­eina mátt vorn til að varðveita heims­frið og ör­yggi.“

Nóg komið!

Yf­ir­stand­andi hernaðaraðgerðir rúss­nesku rík­is­stjórn­ar­inn­ar gagn­vart úkraínsku þjóðinni stríðir gegn öllu því sem Sam­einuðu þjóðirn­ar standa fyr­ir og stofn­sátt­mál­ans. Of­beldið verður að stöðva og mann­rétt­inda­lög­gjöf og alþjóðleg mann­rétt­indi verða að vera virt, lýðræði og sam­tal sé í for­grunni. António Guter­res, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, seg­ir að rúss­nesk yf­ir­völd verði að draga herlið sitt út úr Úkraínu án taf­ar og leiðtog­ar þjóðanna beiti sér fyr­ir því að friður verði í Evr­ópu á ný. Það er ekki í boði að gera ekk­ert og með því mynd­um við grafa und­an því sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru stofnaðar utan um í upp­hafi.

Mik­il­vægi sam­stöðunn­ar

Samstaða vest­rænna þjóða á fyrstu dög­um þess­ara átaka og af­drátt­ar­laus stuðning­ur við úkraínsku þjóðina. Íslensk stjórn­völd hafa sýnt það af­drátt­ar­laust vilja sinn til að aðstoða úkraínsku þjóðina og hafa gripið til aðgerða með skýr­um hætti. Það skipt­ir máli í sam­fé­lagi þjóða að við stönd­um sam­an gegn hvers kon­ar ógn gagn­vart ein­staka þjóðum og að við leggj­um okk­ur fram við það að tryggja ör­yggi og frið í alþjóðasam­fé­lag­inu.

Fé­lag Sam­einuðu þjóðanna á Íslandi stend­ur með úkraínsku þjóðinni og for­dæm­ir harðlega árás rúss­neskra yf­ir­valda. Við eig­um öll þann skil­yrðis­lausa grund­vall­ar­rétt að lifa ör­uggu lífi, án áreit­is og að mann­rétt­indi okk­ar séu virt til hlít­ar!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður Félags UN á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. mars 2022.

Categories
Greinar

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Deila grein

06/03/2022

Sunnudagarnir þurfa ekki að vera santé

Þann 1. mars sl. á 33 ára afmæli bjórsins á Íslandi skrifaði Arnar Sigurðsson, vínkaupmaður áhugaverða grein á svæði Innherja á Vísi.is þar sem hann hefur tekið að sér hlutverk sagnfræðings og rekur sögu verslunar á Íslandi. Söguskýringar sagnfræðingsins eru býsna einhliða, en það er svo sem ekki nýtt af nálinni að sá ágæti maður feti veg hinnar fullkomnu frjálshyggju. Í grein þessari gerir hann frumvarp mitt um breyttan opnunartíma Vínbúðarinnar að umtalsefni. Það ber að þakka, enda er frumvarpið til bóta og til þess fallið að auka þjónustu við neytendur, sem reynist eitt af helstu hugarefnum hans. Það sem hann skautar hins vegar fimlega fram hjá er akkúrat sú staðreynd að markmið frumvarpsins er að auka þjónustu í fyrirkomulagi þar sem eftirlit með aldri er viðhaft og lýðheilsusjónarmið ráða för. Vínbúðin sýnir þá samfélagslegu ábyrgð sem henni ber og tekur þátt í mikilvægu forvarnarstarfi. Það er vel hægt að auka þjónustu til neytenda til að mynda með því að opna Vínbúðina á sunnudögum án þess að gefa áfengisverslun frjálsa.

Stýrt aðgengi

Á Íslandi höfum við rekið ríkissútsölu á áfengi líkt og í Svíþjóð, Finnlandi og fleiri löndum meðan frjálsara er um söluna í Danmörku. Það er ekki af ástæðulausu sem við viljum halda sölunni í stýrðu umhverfi, sérstaklega þegar við horfum til lýðheilsusjónarmiða. Reynslan hefur sýnt okkur að það reynist vel, ekki eingöngu hér á landi heldur einnig í Svíþjóð en árið 2018 var fýsileiki þess að gera áfengissölu frjálsa skoðaður og niðurstaðan reyndist sú að gallarnir voru fleiri en kostirnir. Það er það sem við viljum – hafa aðgengi og geta verslað áfengi í öruggu umhverfi sem núverandi fyrirkomulagi hefur upp á að bjóða. Með því að rýmka opnunartíma erum við að auka þjónustu verslana Vínbúðarinnar og aðlögum okkur að breyttum tíðaranda og verslunarhegðun en á sama erum við að koma til móts við frjálslyndari sjónarmið án þess að galopna allt upp á gátt og gefa sölu áfengis frjálsa með ófyrirséðum afleiðingum. Fyrrum dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp haustið 2020 sem m.a. kvað á um undanþágu frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi í smásölu til neytenda og heimilaði netverslun á áfengi í smásölu. Það frumvarp var ekki samþykkt af ríkisstjórn og var því lagt fram að nýju að framangreindu ákvæði frátöldu. Augljóst er að ekki er pólitískur vilji til að stíga það skref til fulls og því er hér komin málamiðlun sem flestir ættu að geta fellt sig við.

Slá hugmyndir um vín í matvöruverslanir út af borðinu

Það virðist gæta einhvers misskilnings hjá fólki hvert markmiðið er með frumvarpi mínu. Það er lagt fram sem tilraun til sáttar milli öfgapóla svo við þurfum ekki ítrekað að takast á um sömu sjónarmiðin, en hér er komið fram nýtt sjónarmið sem flestir ættu að geta fellt sig við. Verði frumvarpið að lögum þurfum við ekki að fylgjast með boðberum hinnar fullkomnu frjálshyggju brotlenda enn og aftur með áform sín um vín í matvöruverslanir því enn er ljóst að ekki er sátt um þá nálgun. Þá verður að huga að lýðheilsusjónarmiðum þegar við tökum þessa umræðu og aukið aðgengi og minna eftirlit er líklegra til að auka neyslu áfengis. Það má einnig færa sterk rök fyrir því að betri bragur er á að hafa þetta í sérverslun þar sem fólk þarf að gera sér ferð í búð til að versla sér áfengi þó það væri ekki nema bara til að nefna af tillitssemi við fólk sem á við áfengisvanda að stríða og er í baráttu við þann sjúkdóm og freistingar í matvöruverslun algjörlega óþarfi. Á Norðurlöndunum er álitið að hömlur á sölu áfengra drykkja séu áhrifarík aðferð til að draga úr þeim skaða sem hlýst af áfengisneyslu og áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Slíkt gerum við með ábyrgum hætti í gegnum núverandi fyrirkomulag og mikilvægt að við séum með öflugar forvarnir og lýðheilsufræðslu.

Þar að auki höldum við uppi heilbrigðri endurnýjun og styðjum við lítil brugghús hér á landi með því að hafa þetta í höndum ríkisins, sem ber að tryggja heilbrigða samkeppni allra sem kjósa að koma vörum sínum á markað hér á landi. Þannig tryggjum við íslenska framleiðslu og okkur í Framsókn leiðist það ekki. Vöðum ekki í villu og svima hinnar „fullkomnu frjálshyggju“. Aukum þjónustu undir tryggu eftirliti, sameinumst um þessa raunhæfu og skynsömu lausn sem mætir ólíkum hagsmunum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. mars 2022.

Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.

Categories
Greinar

Sanngjörn samkeppni

Deila grein

01/03/2022

Sanngjörn samkeppni

Fyrr í vetur fór fram sérstök umræða um innlenda matvælaframleiðslu að minni beiðni. Þar lagði ég megináherslu á þrjú atriði; sameiningu afurðastöðva í kjötiðnaði, tollasamninginn við Evrópusambandið og endurskoðun hans og aðgerðaáætlunin um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna.

Undanfarin misseri hefur innlend kjötframleiðsla átt í harðri og ósanngjarnari samkeppni við erlenda framleiðslu í smásölu hér heima. Við vitum að staðan í sauðfjárrækt og nautgriparækt er verulega þung og komin að þolmörkum. Ef ekki á illa að fara þá er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðgerða sem við vitum að skili árangri. Þingflokkur Framsóknar hefur lengi talað fyrir því að kjötframleiðslan fari sömu leið og mjólkuriðnaðurinn. Þá er átt við að nýta heimild 71. gr. búvörulaga, sem kveður á um undanþágu frá samkeppnislögum og heimilar sameiningu afurðastöðva.

Nauðsynlegt er að hagræða

Fyrir liggja ýmsar greiningar á hver hagræðingin gæti orðið innan þessa geira. Þær benda til þess að allt að 1,5 milljarða hagræðing gæti átt sér stað innan sauðfjárræktarinnar og nautgripaframleiðslunnar. Ef svína- og alifuglarækt væru tekin með yrði talan enn hærri, þ.e. um 2-3 milljarða hagræðing af sameiningu á ári.

Bændur eru orðnir langþreyttir á viðvarandi ástandi og ef ekkert verður gert er mikil hætta á því að fjöldi þeirra dragi úr eða jafnvel hætti framleiðslu. Það er ekki boðlegt að reka fyrirtæki í því umhverfi sem bændum er boðið upp á í dag.

Við eigum að skapa þessum greinum viðunandi starfsumhverfi og tryggja samkeppnishæfni. Þar er algjört frumskilyrði að bændur og aðrir kjötframleiðendur hafi viðundandi afkomu af framleiðslu sinni. Við höfum tækin og tólin til að grípa inn í og það er tilefni til að nota þau. Við í Framsókn erum óhrædd við að styðja og vernda íslenska matvælaframleiðslu.

Það eru 17 ár síðan ofangreind undanþága frá samkeppnislögum var gerð í mjólkuriðnaðinum og má með sanni segja að það hafi tekist ágætlega til. Unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun, verkaskipting er skýr og allt gengur út á að ná fram hagræðingu innan iðnaðarins. Hagræðingin innan mjólkuriðnaðarins nemur allt að 3 milljörðum á hverju ári.

Við umfjöllun á þessu er grundvallaratriðið að ná fram hagræðingu og lækka framleiðslukostnað. Í því samhengi er ekki einungis verið að hugsa um hag frumframleiðandans heldur alla virðiskeðjuna. Markmiðið er að tryggja hag allra, ekki síst neytenda.

Endurskoðun á tollasamningi

Annað atriði sem leggja þarf áherslu á snýr að tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og endurskoðun á honum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa Bretar gengið þar út. Höfuðmarkmið samningsins verður að vera að skapa íslenskum landbúnaði eðlileg og sambærileg samkeppnisskilyrði gagnvart þeim landbúnaði sem hann á að keppa við. Það er vandasamt að keppa við innflutning matvöru þar sem allt önnur lögmál gilda, t.d. löggjöf um aðbúnað dýra, staðlar og kröfur eru ekki í samræmi við íslenskar reglur og kjör landbúnaðarverkamanna eru allt önnur. Tollar á innflutta matvöru eru eitt öflugasta verkfærið við eflingu innlendrar matvælaframleiðslu og við eigum að vera ófeimin við að nota það, líkt og önnur ríki.

Nýtum verkfærin

Við Íslendingar eigum mikil sóknarfæri í landbúnaði, en tími aðgerða er núna! Við eigum að nýta heimildina í 71. gr. búvörulaga og endurskoða tollasamninginn við Evrópusambandið. Þetta eru forgangsmál.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2022.

Categories
Greinar

Áfram á vaktinni

Deila grein

28/02/2022

Áfram á vaktinni

Öllum tak­mörk­un­um hef­ur verið aflétt á Íslandi eft­ir tveggja ára bar­áttu við far­sótt­ina ill­ræmdu. Ver­öld­in hef­ur þurft að tak­ast á við marg­slungn­ar af­leiðing­ar far­sótt­ar­inn­ar sem hafa birst með ýms­um hætti. Það tíma­bil sem nú sér fyr­ir end­ann á hef­ur reynst mik­ill próf­steinn á innviði fjöl­margra ríkja. Þannig hef­ur reynt veru­lega á heil­brigðis­kerfi, styrk hag­stjórn­ar ríkja sem og alþjóðlega sam­vinnu.

Fram­kvæmd aðgerða og ár­ang­ur Íslands

Á heimsvísu er hægt að full­yrða að einkar vel hafi tek­ist til við stjórn efna­hags­mála en mann­fall var mjög mis­mun­andi eft­ir ríkj­um heims­ins. Hægt er að full­yrða að á Íslandi hafi tek­ist vel til við að verja líf og heilsu fólks en dán­artíðni á hvern íbúa er sú lægsta í ver­öld­inni. Allt það frá­bæra fag­fólk sem staðið hef­ur vakt­ina í heil­brigðis­kerf­inu á mikl­ar þakk­ir skild­ar fyr­ir fram­lag sitt í far­aldr­in­um. Þá tókst okk­ur einnig að halda skóla­kerf­inu gang­andi í gegn­um far­sótt­ina og er það mik­illi þraut­seigju okk­ar skóla­fólks að þakka. Reglu­lega sýndi það mikla aðlög­un­ar­hæfni í skól­um lands­ins til þess að glíma við breyti­leg­ar aðstæður sem tak­mark­an­ir tengd­ar far­aldr­in­um leiddu af sér. Að sama skapi má segja að efna­hagsaðgerðir séu vel heppnaðar. Lands­fram­leiðsla hef­ur verið að sækja í sig veðrið og jókst um 4,1% á fyrstu þrem­ur fjórðung­um síðasta árs og er áætlað að hag­vöxt­ur árs­ins 2021 verði um 5%. At­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt og slak­inn í þjóðarbú­inu minnk­ar ört. Að sama skapi hef­ur verðbólga auk­ist í 6,2% í fe­brú­ar og hef­ur ekki verið hærri í tæp­an ára­tug. Skýrist þessi mikla verðbólga að stór­um hluta af mik­illi hækk­un hús­næðis­verðs ásamt um­fangs­mikl­um hækk­un­um alþjóðlegs hrávöru­verðs og flutn­ings­kostnaðar. Afar brýnt er að ná tök­um á verðbólg­unni án þess þó að aðgerðirn­ar skaði efna­hags­bat­ann. Það kann að vera að þessi háa verðbólga verði tíma­bund­in, þar sem eft­ir­spurn á heimsvísu mun minnka um leið og áhrif efna­hagsaðgerðanna dvína. Það má einnig fast­lega bú­ast við því að óverj­an­leg inn­rás Rúss­lands inn í Úkraínu muni hafa áhrif á verðlagn­ingu ým­issa vöru­flokka sem og eft­ir­spurn. Þannig má gera ráð fyr­ir að verðbólga auk­ist tíma­bundið vegna hærra olíu­verðs og annarr­ar hrávöru.

Sam­an sem sam­fé­lag

Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svo­kallaðri efna­hags­legri loft­brú. Sú brú var stór og er heild­ar­um­fang efna­hags­ráðstaf­ana árin 2020 og 2021 um 215 millj­arðar króna svo dæmi sé tekið. Lögð var áhersla á að koma til móts við fólk og fyr­ir­tæki sem urðu illa fyr­ir barðinu á veirunni. Fyr­ir stjórn­völd var það sann­girn­is­mál að beita rík­is­fjár­mál­un­um með þeim hætti og tryggja að við fær­um sam­an sem sam­fé­lag í gegn­um kófið.

Það sem Thatcher gerði

Fyrr í mánuðinum viðraði ég hug­mynd­ir í þess­um anda um aukna aðkomu bank­anna að fjöl­skyld­um og fyr­ir­tækj­um, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, sem til að mynda vaxta­hækk­an­ir snerta með þyngri hætti en aðra. Til að ná slík­um mark­miðum nefndi ég einnig í því sam­hengi svo­kallaðan hval­reka­skatt í anda Mar­grét­ar Thatcher, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, á of­ur­hagnað bank­anna sem nem­ur yfir 80 millj­örðum króna árið 2022. Fór hægri kon­an Thatcher þessa leið árið 1981 þegar bresk­ir bank­ar högnuðust veru­lega vegna hækk­un­ar stýri­vaxta þar í landi. Bú­ast má við því að sama verði upp á ten­ingn­um í af­komu banka hér á landi þar sem vaxtamun­ur mun aukast í kjöl­far hærri stýri­vaxta. Und­an­farið hef­ur margt fólk þurft að ráðast í dýr­ar fjár­fest­ing­ar til að tryggja sér og sín­um þak yfir höfuðið á fast­eigna­markaði sem ein­kenn­ist af mikl­um skorti á íbúðum vegna langvar­andi lóðaskorts. Þenn­an hóp þarf að styðja við strax í upp­hafi þreng­inga til að draga úr lík­um á greiðslu­vanda seinna meir. Þar skipt­ir sam­vinna stjórn­valda, fjár­mála­fyr­ir­tækja og fjöl­skyldna máli.

Lands­virkj­un áfram í eigu okk­ar allra

Það hug­ar­far að við séum öll í þessu sam­an hef­ur reynst okk­ur vel í gegn­um far­ald­ur­inn. Á sama tíma er ljóst að við blasa áskor­an­ir í rík­is­fjár­mál­um til að vinda ofan af þeim halla sem mynd­ast hef­ur vegna heims­far­ald­urs og viðspyrnuaðgerða sem hon­um tengj­ast. Við ætl­um okk­ur að vaxa út úr þeim halla með auk­inni verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu. Þar munu stjórn­völd halda áfram að skapa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um hag­fellt og hvetj­andi um­hverfi til að sækja fram. Hug­mynd­ir um að selja allt að 40% hlut al­menn­ings í Lands­virkj­un eiga ekki að vera leiðin til að fjár­magna rík­is­sjóð til skamms tíma og get ég slegið því föstu að slík sala mun aldrei eiga sér stað á meðan Fram­sókn á sæti í rík­is­stjórn Íslands. Við vilj­um að Lands­virkj­un verði áfram í eigu allra Íslend­inga, sem burðarás fyr­ir ís­lensk heim­ili og fyr­ir­tæki. Ég tel mjög breiða sam­fé­lags­lega sátt ríkja um slíkt og það eig­um við að virða.

Þrátt fyr­ir krefj­andi tíma und­an­far­in ár vegna veirunn­ar og góðan ár­ang­ur sem náðst hef­ur í gegn­um þann tíma er mik­il­vægt að sofna ekki á verðinum. Við lif­um enn á viðsjár­verðum tím­um vegna óafsak­an­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu, sem hef­ur áhrif á stöðu mála hér í Evr­ópu. Við mun­um tak­ast á við þær áskor­an­ir af festu og með sam­vinnu til að tryggja að Ísland verði áfram í sterkri stöðu til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar-, ferða- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Deila grein

28/02/2022

Skýrsla Ríkis­endur­skoðunar stað­festir mis­ræmi í toll­flokkun land­búnaðar­af­urða

Þrátt fyrir gríðarlega aukningu á innflutningi landbúnaðarafurða síðustu ára, sérstaklega mjólkurafurða, hefur eftirlit með innflutningi ekki aukist að sama skapi, því miður. Þó þessi mál hafi verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri virðist sem ekkert hafi verið reynt til að bæta úr né að gera hana skilvirkari. Ríkisendurskoðandi birti á mánudaginn skýrslu um úttekt á tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða þar sem segja má að eftirlit með tollaframkvæmd landbúnaðarafurða hafi fengið falleinkunn. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við tollaframkvæmd hér á landi. Úttektin staðfestir því sem haldið hefur verið fram um allnokkurt misræmi í útflutningstölum Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í tilviki ákveðinna landbúnaðarvara.

Staðfest misræmi

Í grein hér á Vísi fer formaður Félags atvinnurekanda mikinn og talar um að ásakanir Bændasamtaka Íslands og MS á hendur innflutningsfyrirtækjum um stórfellt svindl við innflutning og að úttekt Ríkisendurskoðanda hafi hrakið það þær ásakanir. Ég veit ekki með hvaða gleraugum hann las skýrsluna en í raun staðfestir hún það misræmi sem Bændasamtökin og fleiri hafa haldið fram og misræmið er verulegt. Hver ber ábyrgðina ? Framkvæmd tollflokkunar er að Tollurinn eða Skatturinn núna, tollflokkar vöruna í samræmi við upplýsingar frá innflytjendum. Í skýrslu Ríkisendurskoðenda kemur fram að Tollurinn hafi farið í sérstakt verkefni að greina áreiðanleika tollskýrslna og í ljós kom að í 23% tollskrýslna finnast misræmi eða villur og þá er ekki laust við að það vakni grunur um að einbeittur brotavilji sé hér um að ræða. Það þarf ekki fleiri vitnanna við, og nægir að vísa í dóma Landsréttar og Hæstaréttar og bindandi álit um þessi mál. Innflutningsaðili ber ábyrgð á tollskýrslu sem skilað er inn til Skattsins þar sem hann hefur leyfi til rafrænna tollflokkunnar.

Undanskot við innflutning

Ríkisendurskoðun fullyrðir að möguleg misflokkun eða undanskot á landbúnaðarafurðum geti numið háaum fjárhæðum sem ríkissjóður verður af auk þess að með misflokkun varðað mikilvæga hagsmuni um heilbrigði manna, dýra og plantna.

Samræmt flokkunarkerfi

Nú vinnum við eftiralþjóðlegu flokkunarkerfi yfir vörur sem samin er af Tollasamvinnuráðinu í Brussel, því ætti samræming tolleftirlits ekki að vera nein stjarneðlisfræði. Þá komum við að mikilvægi eftirlitsins. Það er nauðsynlegt að Skatturinn sem sér um tollaframkvæmd, sé í betri samvinnu við aðrar tollastofnanir erlendis. Eftirgrennslan Ríkisendurskoðenda leiddi af sér niðurstöður um að setja þurfi gæði gagna í forgrunn þar sem áræðanleiki og nákvæmni tollskrýslna sé enn ábótavant. Eftirlit og tollendurskoðun þurfi að efla því endurskoðun á innflutningi sé bæði veikburða og ómarkviss. Ríkisendurskoðun telur að endurskipuleggja og efla þurfi tollsvið Skattsins svo unnt sé að sinna því lögbundna hlutverki sem henni er ætlað. Þangað til að úr því verður bætt munu áfram eiga sér stað ósanngjarnir viðskiptahættir hér á landi og fjárhagstap fyrir ríkissjóð

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. febrúar 2022.

Categories
Greinar

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Deila grein

23/02/2022

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár. Klasar hafa víða sannað gildi sitt; þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun almennt. Ég hef því lagt fram þingsályktunartillögu um að nýta skuli hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana, stuðla að hagræðingu og færa núverandi ástand í þeim málum til betri vegar.

Margvísleg hagræðing fylgir skynsamlegu vali á staðsetningu ríkisstofnana og fyrirtækja

Með uppbyggingu opinberra klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum. Opinbert klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til verðmætasköpunar. Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Gera mætti ráð fyrir 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Með slíkri útfærslu mætti ná fram hagræðingu með þeim samlegðaráhrifum sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar væru til húsa. Þar má helst nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis og húsnæðisins sjálfs.

Risa samgöngubót fyrir höfuðborgarsvæðið nái tillagan fram að ganga

Flestar þessara stofnana og fyrirtækja eru í Reykjavík. Við höfum séð opinberar stofnanir og fyrirtæki flytja í nýtt húsnæði og getur það verið af hinum ýmsu ástæðum. Hins vegar er það mat mitt að þegar slíkir flutningar eiga sér stað, sé það ekki gert með nægilega skynsömum hætti. Horfa þarf frekar til rekstrarlegra áhrifa líkt og lagt er upp með í tillögunni. Nái þingsályktunartillagan fram að ganga er mikilvægt að klasi sem þessi verði á slóðum þar sem nýta megi umferðarmannvirki betur. Það má gera með þeim hætti að staðsetja klasann á svæði þar sem umferð að klasanum verði í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga þá tíma dags sem við þekkjum öll; að morgni og seinni part dags þegar fólk fer í og úr vinnu og skóla. Af þeirri ástæðu þurfa einnig hágæða almenningssamgöngur að vera til staðar í nágrenni.

Stundum eru lausnirnar svo einfaldar. Það eina sem þarf er vilji til góðra verka. Með tillögunni er hægt að ná fram betri nýting á umferðarmannvirkjum og minnka sóun í kerfinu, sóun m.a. á opinberum fjármunum og tíma fólks. Að þessu sögðu tel ég að þetta geti verið ein ódýrasta, besta og skilvirkasta samgöngubót sem íbúar höfuðborgarsvæðisins geta fengið.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.