Categories
Greinar

Grænar al­mennings­sam­göngur

Deila grein

30/03/2022

Grænar al­mennings­sam­göngur

Eitt af stefnumálum Framsóknar í Hveragerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi er að bæta samgöngur í bæjarfélaginu. Bærinn hefur stækkað ört á síðustu misserum, íbúum fjölgað og fjarlægðir á milli ystu svæða hafa lengst. Við viljum útvíkka starfsemi frístundastrætós fyrir alla Hveragerði. Til að auka þjónustu við íbúa er mikilvægt að fjölga ferðum og stoppistöðvum en á tímum Hamarshallar gekk strætóinn eingöngu á milli frístundaheimilis og hallarinnar. Þessu þarf að breyta. Íþróttamannvirki bæjarins munu halda áfram að byggjast upp á svæði Hamarshallarinnar sem og við íþróttahúsið við Skólamörk en með fjölgun ferða og stoppistöðva munu fleiri íbúar í Hveragerði geta nýtt sér strætóinn.

Í takt við samtþykkt bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 14. mars 2019 um að sett verði markmið í átt að kolefnishlutleysi Hveragerðisbæjar árið 2030 er skýrt í huga Framsóknar að besti kosturinn í þessari samgöngubútbót sé að strætóinn verði knúinn rafmagni, grænn strætó. Í bókun bæjarstjórnar frá sama fundi kemur fram að með markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2030 skipi Hveragerði sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Grænn strætó eykur þjónustu við íbúa, bætir samgöngur og er markmið í átt að kolefnishlutleysi. Ný framsókn í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði.

Categories
Greinar

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Deila grein

27/03/2022

Pútín-efnahagskreppan! Hversu stór?

Stríðið í Úkraínu hef­ur varað í rúm­an mánuð. Af­leiðing­arn­ar birt­ast okk­ur á degi hverj­um, með mynd­um af mann­falli al­mennra borg­ara. Millj­ón­ir flótta­manna eru á ver­gangi, heilu íbúðahverf­in hafa verið jöfnuð við jörðu, ung­ar fjöl­skyld­ur eru aðskild­ar – allt eru þetta birt­ing­ar­mynd­ir mis­kunn­ar­lauss stríðs í Evr­ópu, sem flest okk­ar þekkja ein­ung­is úr sögu­bók­um. Við finn­um fyr­ir af­leiðing­um stríðsins á hverj­um degi; verð á bens­ín, mat, kambstáli og nikk­el hef­ur hækkað veru­lega. Þess­ar hækk­an­ir þýða að verðbólga eykst og neysla og hag­vöxt­ur munu minnka. Lífs­kjör á heimsvísu rýrna! Þess má geta að Rúss­land og Úkraína fram­leiða 26% af hveiti, 16% af korni, 30% af byggi og 80% af sól­blóma­ol­íu. Ljóst er hag­kerfi ver­ald­ar­inn­ar munu finna fyr­ir mikl­um skorti á fram­leiðslu á þess­um afurðum og því miður munu fá­tæk­ustu lönd heims­ins lík­lega finna enn meira fyr­ir þessu.

Þörf á sam­stillt­um aðgerðum á heimsvísu

Það eru blik­ur á lofti og eft­ir­spurn­ar­kreppa gæti mynd­ast vegna verðhækk­ana. Þessi þróun þarf ekki að raun­ger­ast ef efna­hags­stjórn­in er skyn­söm. Til að kljást við Kreml­ar-ógn­ina verða leiðandi hag­kerfi heims­ins að stilla sam­an aðgerðir sín­ar sem miða að því að vera minna háð orku­fram­leiðslu Rúss­lands. Í hag­sög­unni eru dæmi eru mikl­ar hækk­an­ir á olíu, til dæm­is eft­ir Yom Kipp­ur-stríðið 1973 og ír­önsku bylt­ing­una 1979 og svo þær hækk­an­ir olíu­verðs sem áttu sér stað 2010-2011 eft­ir fjár­málakrepp­una 2008. Áhrif þess­ara hækk­ana á heims­hag­kerfið voru þó gjör­ólík. Fyrri hækk­an­ir höfðu mik­il áhrif og urðu til þess að veru­lega hægðist á alþjóðahag­kerf­inu en þær seinni gerðu það ekki. Hver er þá mun­ur­inn?

Tíma­mót­a­rann­sókn Bernan­kes, Gertlers og Wat­sons

Árið 1997 birtu Bernan­ke, Gertler og Wat­son tíma­móta­hagrann­sókn sem fjallaði um áhrif hækk­un­ar olíu­verðs á banda­ríska hag­kerfið. Niðurstaða þeirra var að efna­hagskreppa raun­gerðist ekki vegna þess að olíu­verð væri að hækka, held­ur vegna þess að seðlabank­inn hefði áhyggj­ur af víxl­verk­un launa og verðlags, og hækkuðu því stýri­vexti mikið sem viðbrögð við hækk­un olíu­verðs. Paul Krugman hef­ur ný­lega bent á mun­inn á því hvað gerðist eft­ir ol­íu­áfallið á 8. ára­tugn­um ann­ars veg­ar og hins veg­ar eft­ir fjár­málakrepp­una 2008 þegar Bernan­ke var við stjórn­völ­inn hjá banda­ríska seðlabank­an­um og hélt aft­ur af vaxta­hækk­un­um þrátt fyr­ir áköll um annað. Það ber þó að hafa bak við eyrað að aðstæður á hag­kerf­um heims­ins eru ólík­ar á hverj­um tíma og þurfa viðbrögð stjórn­valda að taka mið af því. Við höf­um lært af reynsl­unni að birt­ing­ar­mynd­ir efna­hags­áfalla eru ólík­ar. Það er ljóst að verðbólga er stórskaðleg öll­um hag­kerf­um og í ljósi verðhækk­ana und­an­far­inna mánaða er ekki að undra að vaxta­hækk­un­ar­ferlið sé hafið víða um heim. Það er þó afar brýnt að þær efna­hagsþreng­ing­ar sem eru í vænd­um verði ekki of mikl­ar og seðlabank­ar bregðist ekki of hart við. Í því sam­bandi er mik­il­vægt að sam­ræm­is sé gætt í stefnu­mörk­un hins op­in­bera. Af þeim sök­um er mik­il­vægt að hið op­in­bera gangi í takt og styðji við pen­inga­stefn­una, t.d. í rík­is­fjár­mál­um.

Horf­urn­ar á Íslandi

Hnökr­ar í alþjóðaviðskipt­um hafa hægt á end­ur­reisn­inni í kjöl­far Covid. Óverj­an­leg inn­rás Rússa í Úkraínu eyk­ur enn á lík­ur þess að það hægi á hag­vexti. Hrávöru­verð hækk­ar mikið á alþjóðamörkuðum og því mun verðbólga aukast í kjöl­farið. Það verður áfram óvissa um þró­un­ina meðan stríðið var­ir. Óljóst er þó hvaða áhrif stríðið hef­ur á greiðslu­jöfnuð þjóðarbús­ins, þ.e. lík­legt er að viðskipta­kjör rýrni vegna hækk­andi verðbólgu en á móti kem­ur að ferðaþjón­ust­an virðist enn standa sterkt. Því ætti gengi krón­unn­ar að hald­ast stöðugt að öllu öðru óbreyttu. Íslend­ing­ar þurfa ekki að leita í sögu­bæk­urn­ar til að kynna sér áhrif verðbólgu á heim­il­in. Stóra málið í efna­hags­stjórn­inni hér á landi er að halda verðbólg­unni í skefj­um. Það er mjög sorg­legt að horfa upp á að helm­ing­ur­inn af 6,2% verðbólg­unni á Íslandi er vegna mik­ill­ar hækk­un­ar hús­næðis­verðs á höfuðborg­ar­svæðinu. 22,4% hækk­un mæl­ist nú á höfuðborg­ar­svæðinu! Hér er ekki gengið í takt til stuðnings bar­átt­unni gegn verðbólg­unni! Það verður að auka fram­boð hag­kvæmra lóða og fara í stór­átak í hús­næðismál­um ef þetta á ekki að enda með efna­hags­legu stór­slysi, því er afar gott að skipu­lags­mál­in séu kom­in í innviðaráðuneyti Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar!

Það hafa orðið ótrú­leg­ar breyt­ing­ar í heim­in­um á ein­um mánuði og óviss­an verður áfram ríkj­andi á meðan stríðið var­ir og jafn­vel leng­ur. Það er auðvitað hrylli­leg til­hugs­un að heim­ur­inn sé jafn­brot­hætt­ur og raun ber vitni. Brýn­ast fyr­ir hag­stjórn­ina bæði á heimsvísu og hér inn­an­lands er að fara í aðgerðir sem miða að því að draga úr verðbólguþrýst­ingi og styðja Seðlabanka Íslands í sinni veg­ferð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Sýslumönnum skal ekki fækka

Deila grein

27/03/2022

Sýslumönnum skal ekki fækka

Síðastliðna daga hef­ur sprottið upp umræða um fækk­un sýslu­mann­sembætta hér á landi. Talað er um að sam­eina ákveðin embætti í eitt og jafn­vel að fækka sýslu­mönn­um í ein­ung­is einn sýslu­mann, sem myndi hafa allt Ísland sem sitt um­dæmi. Þetta er áhyggju­efni þar sem sýslu­menn sinna veiga­miklu hlut­verki inn­an sinna um­dæma. Þeir þjóna sínu nærsam­fé­lagi í mik­il­væg­um og per­sónu­leg­um mál­um íbúa þess hvort sem það eru þing­lýs­ing­ar, gjaldþrot eða mik­il­væg mál­efni fjöl­skyldna. Af þessu er aug­ljóst að mik­il­vægi þess að sýslu­menn séu inn­an hand­ar er óum­deilt. Sýslu­menn eru umboðsmenn hins op­in­bera í héraði. Ef þau áform sem búið er að boða yrðu að veru­leika þá verður búið að eyða grund­vall­ar­hlut­verki þeirra.

Haft er eft­ir for­manni Fé­lags sýslu­manna að dóms­málaráðuneytið hafi fundað með sýslu­mönn­um um málið og að efa­semd­ir séu um ágæti þess inn­an þeirra raða. Skilj­an­lega, enda er nauðsyn­legt að sýslu­menn séu til staðar í nærum­hverf­inu og hafi ein­hverja teng­ingu við sam­fé­lagið. Með brott­hvarfi þeirra úr um­dæm­inu eyðist sú teng­ing, eðli máls­ins sam­kvæmt.

Vissu­lega bjóða tækninýj­ung­ar fjórðu iðnbylt­ing­ar­inn­ar upp á nýj­ung­ar, tæki­færi og upp­færslu ferla og aðferða. Þó er aug­ljóst að áform um að fækka sýslu­mann­sembætt­um tölu­vert brjóta í bága við byggðasjón­ar­mið, en við höf­um skuld­bundið okk­ur til að vinna í þágu þeirra. Fækk­un embætt­anna hef­ur í för með sér nei­kvæð áhrif á mörg byggðarlög, þá helst utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Ásamt því er aug­ljóst að at­vinnu­tæki­fær­um í fá­menn­ari byggðum fækk­ar, en það er göm­ul saga og ný að op­in­ber störf hverfi af lands­byggðinni í óþökk íbúa. Boðað hef­ur verið að með þessu verði störf­um og verk­efn­um sýslu­manna fjölgað, sem er af hinu góða, enda höf­um við í Fram­sókn verið öt­ul­ir tals­menn fjölg­un­ar op­in­berra starfa á lands­byggðinni. Það færi bet­ur á því að halda sýslu­mönn­um og nú­ver­andi um­dæm­a­mörk­um og færa þau störf sem áætlan­ir eru upp um að flytja í kjöl­far breyt­ing­anna til nú­ver­andi embætta og þar með styrkja þær mik­il­vægu stjórn­sýslu­ein­ing­ar sem sýslu­mann­sembætt­in eru í dag.

Fækk­un sýslu­mann­sembætta þvert yfir landið mun ekki verða með mínu samþykki. Hún fer gegn þeim mark­miðum sem sett voru fram í stjórn­arsátt­mála Fram­sókn­ar, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs. Fækk­un­in yrði mikið högg inn­an ým­issa byggða þvert yfir landið. Rök­in fyr­ir henni halda ekki vatni eins og staðan er í dag.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars 2022.

Categories
Greinar

Ný Framsókn um allt land

Deila grein

23/03/2022

Ný Framsókn um allt land

Fátt er stjórn­mál­un­um óviðkom­andi þegar kem­ur að því að skapa hag­felld skil­yrði fyr­ir fólk til þess að lifa góðu lífi. Hring­inn í kring­um landið tek­ur fólk úr ýms­um átt­um þátt í stjórn­mál­um til þess að bæta sam­fé­lagið sitt og stuðla að aukn­um lífs­gæðum.

Um liðna helgi fór fram 36. flokksþing Fram­sókn­ar und­ir yf­ir­skrift­inni Ný Fram­sókn um allt land, en sá vett­vang­ur fer með æðsta vald í mál­efn­um flokks­ins. Þar var sam­an kom­inn öfl­ug­ur hóp­ur fólks sem brenn­ur fyr­ir því að bæta sam­fé­lagið með sam­vinn­una að leiðarljósi. Virki­lega ánægju­legt var að sjá þá miklu breidd og þau fjöl­mörgu nýju and­lit sem hafa gengið til liðs við flokk­inn og taka þátt af full­um krafti í mál­efn­a­starfi hans. Það end­ur­spegl­ar þann mikla meðbyr sem Fram­sókn nýt­ur um allt land sem er já­kvæður upp­takt­ur fyr­ir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar þann 14. maí.

Und­an­far­in sex ár hafa verið ágæt­is­prófraun fyr­ir Fram­sókn. Á þess­um tíma hef­ur gengið á ýmsu, meðal ann­ars þrjár alþing­is­kosn­ing­ar, klofn­ing­ur og fleira. And­spæn­is slík­um áskor­un­um hef­ur fram­sókn­ar­fólk hring­inn í kring­um landið risið upp og tekið slag­inn fyr­ir hug­sjón­um sín­um, rúm­lega aldr­ar gamla flokk­inn sinn og sótt fram til sig­urs. Flokk­ur­inn kem­ur vel nestaður og full­ur orku til leiks í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar eft­ir vel heppnaðar alþing­is­kosn­ing­ar í sept­em­ber síðastliðnum.

Ljóst er að fjöl­marg­ir kjós­end­ur sam­sama sig vel með því sem Fram­sókn stend­ur fyr­ir, því sem flokk­ur­inn iðkar og áork­ar fyr­ir sam­fé­lagið. Rót­gró­in aðferðafræði sam­vinnu er ekki sjálf­gef­in – en hana höf­um við í Fram­sókn stuðst við í allri okk­ar vinnu, hvort sem um er að ræða í rík­is- eða sveit­ar­stjórn­um.

Und­an­farið hafa fram­boðslist­ar Fram­sókn­ar fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar verið kynnt­ir. Þeir eru skipaðir úr­vals­sveit­um fólks með fjöl­breytt­an bak­grunn, reynslu og þekk­ingu. Það skipt­ir miklu máli hvernig haldið er utan um stjórn­artaum­ana í sveit­ar­fé­lög­um enda bera þau ábyrgð á mik­il­vægri nærþjón­ustu við íbú­ana.

Ég tel að fólk sé ekki að kalla eft­ir ein­streng­ings­legri vinstri- eða hægri­stefnu – held­ur miðju­stefnu líkt og Fram­sókn­ar, stefnu sem virk­ar og eyk­ur raun­veru­lega lífs­gæði íbú­anna. Þetta á sér­stak­lega við í Reykjar­vík­ur­borg þar sem önd­verðir pól­ar hafa tek­ist hart á und­an­far­in ár. Þétt­ing eða dreif­ing byggðar, bíll eða hjól eru dæmi um orðræðu sem hafa her­tekið borgar­póli­tík­ina á sama tíma og þjón­ustu borg­ar­inn­ar hrak­ar. Í þessu krist­all­ast þörf­in fyr­ir sterka rödd Fram­sókn­ar á miðjunni. Hið aug­ljósa er að tala um þétt­ingu og dreif­ingu byggðar, bíl og hjól. Þannig eig­um við að nálg­ast viðfangs­efni sam­fé­lags­ins, út frá þörf­um fólks sem vill ein­fald­lega að hlut­irn­ir virki. Á það mun Fram­sókn leggja áherslu á í kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um um allt land, brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða og stuðla að já­kvæðri um­bót­um fyr­ir sam­fé­lagið allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 21. mars 2022

Categories
Greinar

Nýtt hlutverk með öflugu samferðafólki

Deila grein

17/03/2022

Nýtt hlutverk með öflugu samferðafólki

Á dögunum tók ég að mér nýtt hlutverk sem ég tel með þeim stærri í mínu lífi, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri. Er mjög spennt fyrir þessu nýja hlutverki og ætla að gefa mig alla í það. Ég veit að þessi vegferð verður á við nokkrar háskólagráður. Það sem tekur þó af mér allan vafa um að ég hafi tekið rétta ákvörðun er það öfluga fólk sem leiðir þennan lista með mér. Tel að reynsla mín af sveitarstjórnarmálum muni nýtast vel en sú þekking og reynsla sem fylgir samferðafólki mínu, Gunnari Má Gunnarssyni, Ölfu Jóhannsdóttur, Sverre Jakobsson og Theu Rut Jónsdóttur, er ekki síður mikilvæg í þeim verkefnum sem okkur bíða.

Það er ekki spurning í okkar huga að verkefni næsta kjörtímabils eru málefni barna og að koma farsældarlögunum í framkvæmd þeim til heilla. Þar kemur Alfa sterk inn sem hefur unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og starfar nú sem forvarnarfulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gunnar Már hefur sérhæft sig í málefnum norðurslóða og starfar að byggðaþróun sem mun nýtast okkur vel í því verkefni að móta enn frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar og hvernig við ætlum að sækja fram sem sterkt atvinnusvæði. Sverre, leiðtogi úr íþróttahreyfingunni með reynslu úr fjármálum og viðskiptalífinu, og lokum Thea sem mun veita okkur góða innsýn inn í heilbrigðismálin á Akureyri en hún starfar sem skurðhjúkrunarfræðingur.

Af hverju Framsókn?

Sem fulltrúi í fastanefndum sveitarfélagsins og sem varabæjarfulltrúi hefur áhugi minn á bæjarmálunum vaxið jafnt og þétt og í Framsókn hef ég fundið minn hljómgrunn. Ég trúi því staðfastlega að framtíðin ráðist á miðjunni. Framsókn er flokkur samvinnu og frjálslyndis sem leggur ríka áherslu á opinskátt samtal milli íbúa og kjörinna fulltrúa.

Er mjög ánægð með störf Framsóknarflokksins síðustu ár og tel þau ríma mjög vel við áherslur okkar í vor. Hlakka til að eiga gott samstarf við okkar þrjá öflugu þingmenn í kjördæminu og þau fjögur ráðuneyti sem Framsóknarflokkurinn fer fyrir eru okkur líka mikilvæg. Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að flokkar skiptu ekki máli á sveitarstjórnarstiginu, þetta snerist bara um einstaklinga í framboði, en það er alls ekki rétt. Þetta skiptir hellings máli.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 17. mars 2022.

Categories
Greinar Uncategorized

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Deila grein

16/03/2022

 Við drögum ekki orkuna upp úr hatti

Það virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðnar stöðnunar hér á landi. Skort hefur hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru og afleiðingarnar blasa við okkur. Staðan í orkumálum er alvarleg, ný útgefin grænbók – stöðuskýrsla áskorana í orkumálum staðfestir það. Áframhaldandi orkuskortur er fram undan og þá eru til staðar flutningstakmarkanir á milli landsvæða, það á tímum þegar græn orka hefur aldrei verið mikilvægari.

Takmarkað hefur verið virkjað á undanförnum árum miðað við eftirspurn og engin ný virkjun yfir 10 MW hefur fengið virkjunarleyfi sl. 5 ár, en veitt hafa verið virkjunarleyfi fyrir aflaukandi aðgerðum í vatnsafls og jarðvarmavirkjunum sem og fyrir allnokkrum smávirkjunum. Þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í Grænbókinni um aukna orkuþörf Íslands með vísan í loftslagsmarkmið spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Allt eftir því hvort stefnt er að stöðnun eða auknum hagvexti.

Verndun og nýting getur haldist í hendur eins og dæmin hafa sannað. En mikilvægt er að framtíðarorkuvinnslu sé fundin staður í skipulagi þar sem mest sátt ríkir um staðsetningu þeirra, jafnframt sem að umhverfisáhrif verði lágmörkuð eins og kostur er.

Ísland og græna orkan

Stærsta framlag Íslands til loftlagsmála er nýting þjóðarinnar á grænni orku. Í dag státar engin önnur þjóð af jafn mikilli nýtingu á grænni orku líkt og við Íslendingar gerum. 85-90% af allri orku sem Íslendingar nota er græn orka. Við getum verið stolt af því. Þá skilaði þverpólitísk nefnd orkustefnunni til ársins 2050 í mikilli sátt og horfa stjórnvöld á þá stefnu sem leiðarljós inn í framtíðina. Í stefnunni voru sett metnaðarfull markmið þar sem lögð er áhersla á að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneti fyrir 2050.

Þá tilkynnti Forsætisráðherra efld markmið Íslands í loftlagsmálum á leiðtogafundi í desember síðastliðnum. Þar er markið fært úr 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030, í 55% samdrátt. Þessum efldu aðgerðum fylgir fjármagn sem er vel, eftir því sem við aukum metnað okkar í loftlagsmálum þurfum við meiri græna orku – græna orkan er lykillinn.

Sjálfbærni er eftirsóknarverð

Það er einlægur vilji minn að þjóðin verði sjálfbær hvað eldsneyti varðar og hætti alfarið að kaupa olíu og bensín erlendis frá. Við hljótum öll að vilja ná þessum markmiðum og leggja okkar af mörkum í loftlagsmálum. Ávinningurinn fyrir loftslagið er eitt en ef Ísland nær að verða sjálfbært varðandi orku mun það einnig hafa jákvæð efnahagsleg áhrif fyrir Ísland. Við komum til með að spara gríðarlegar gjaldeyristekjur ásamt því að mörg verðmæt störf geta skapast.

Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki. Sjálfbærni er eftirsóknarvert markmið hvort heldur sé í eldsneyti eða fæðuöryggi þjóða og hagvöxtur framtíðarinnar mun byggjast á grænni orku.

Hvernig ætlum við okkur að ná í þessa orku?

Orkustefnan segir að orkuþörf samfélagsins verði mætt með öruggum hætti til lengri og skemmri tíma og að jafn aðgangur verði á landsvísu að orku á samkeppnishæfu verði. Að við verðum alltaf með græna orku til heimila og fyrirtækja. Þessi markmið eru metnaðarfull og góð en spurningunni hvernig við ætlum að afla þessarar grænu orku er enn ósvarað. Nú þurfum við að fara að taka ákvarðanir, sem sumum geta þótt erfiðar, en þær eru þó nauðsynlegar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2022

Categories
Greinar

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Deila grein

16/03/2022

Lofts­lags­váin kallar á aukna og græna raf­orku­fram­leiðslu

Í síðustu viku kom út skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í henni er gerð grein fyrir orkuþörf þjóðarinnar með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Í skýrslunni er einnig er farið yfir stöðuna á flutningskerfinu og orkumarkaði, framboði og eftirspurn á raforku sem og hvernig fyrirséð er að þau mál geta þróast næstu mánuði og ár.

Skýrslan er ítarleg og við lestur hennar má sjá að lögð er til grundvallar vinna sem fram kom í Orkustefnu Íslands til ársins 2050 sem unnin var af þverpólitískri nefnd á síðastliðnu kjörtímabili. Þar kemur fram að það sé mikilvægt markmið í baráttunni við loftslagsvánna að orkuskipti fari fram í lofti, láði og legi. Við á Íslandi höfum þá sérstöðu að nánast ekkert jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuframleiðslu og húshitun. Það er öfundsverð staða sem okkur ber að viðhalda.

Háleit markmið í loftslagsmálum

Til þess að geta staðið við háleit markmið okkar í loftslagsmálum verðum við að skoða af fullri alvöru aukna orkukosti. Þá þurfum við ekki bara að auka framleiðsluna á raforku heldur verðum við einnig að bæta flutningsleiðir þar sem flutningstakmarkanir á raforku eru verulegar á milli landsvæða. Staðan í þeim efnum er sérstaklega slæm á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins. Þegar horft er til kerfisáætlunar Landsnets um styrkingu meginflutningskerfis á Vestfjörðum er hún á langtímaáætlun en í allt of fjarlægri framtíð. Þá er betra að huga frekar að valkostum á virkjunum innan svæðis til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Orkuskipti á Vestfjörðum

Árið2017 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um orkuskipti. Þar er vörðuð leið með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Með orkuskiptum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og sjálfbærri þróun. Í aðgerðaáætluninni er talað um hagræna hvata fyrir neytendur og fyrirtæki við val á vistvænni tækni og orkugjöfum.

Verkefnið Blámi er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Markmið Bláma er að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði ásamt því að efla nýsköpun á sviði orkunýtingar, eins og segir á heimasíðu verkefnisins. Ýmsar raunhæfar hugmyndir hafa litið dagsins ljós. Orkuskipti í sjávarútvegi er enn á hugmyndastigi því eru tækifærin mörg.

Smábátaútgerð á Vestfjörðum er tilvalin til að ýta á stað tilraunaverkefni í orkuskiptum. Yfirleitt er stutt á miðin og úthaldið því styttra í hverjum róðri. Hægt væri að beita hagrænum hvötum í þessum efnum. Línuívilnun hefur dregist verulega saman á Vestfjörðum og hægt væri að hugsa sér orkuívilnun þess í stað sem rynni til þeirra sem nýttu vistvæna orku. Þeir fengju aflaívilnun sem byggði á svipuðum grunni og línuívilnun. Þá má hugsa fleiri hagræna hvata til að flýta fyrir orkuskiptum rétt eins og er verið að gera í orkuskiptum í samgöngum.

Það þarf að framleiða meiri raforku

En staðreyndin er sú að til þess að hægt sé að fara í orkuskipti af alvöru þá vantar rafmagn inn á svæðið, það verður að auka raforkuframleiðslu. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Án þess getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í loftslagsmarkmiðum stjórnvalda.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2022

Categories
Greinar

Skref í átt að jafnvægi á húsnæðismarkaði

Deila grein

10/03/2022

Skref í átt að jafnvægi á húsnæðismarkaði

Það eru vá­lynd veður í heims­mál­un­um þessa stund­ina. Það breyt­ir ekki því að það er mik­il­vægt að halda fókus í lands­mál­un­um. Eitt er það mál sem er mik­il­vægt að við tök­umst á hend­ur með festu og það eru hús­næðismál­in, sá mála­flokk­ur sem teng­ist beint líf­gæðum allra íbúa þessa lands. Við horf­um upp á það að hús­næðis­verð hef­ur hækkað mikið, sér­stak­lega á höfuðborg­ar­svæðinu, á síðustu miss­er­um sem ekki aðeins ger­ir fólki erfitt fyr­ir að kom­ast inn á hús­næðismarkaðinn held­ur hef­ur þessi hækk­un bein áhrif á verðbólgu og þar með lífs­kjör fólks um allt land.

Fortíð er fortíð – horf­um fram á veg­inn

Ekki hef­ur farið fram hjá nein­um að þeir aðilar sem bera sam­eig­in­lega ábyrgð á stöðunni á hús­næðismarkaði eru ekki sam­mála um ástæður þess­ara miklu hækk­ana. Að mínu mati er ljóst að þessi ágrein­ing­ur mun ekki skila okk­ur neitt áfram og veld­ur óá­sætt­an­legri patt­stöðu. Nú er tím­inn til að leggja þenn­an ágrein­ing og þess­ar skær­ur til hliðar. Fortíð er fortíð og nú verðum við, ríki, sveit­ar­fé­lög, aðilar vinnu­markaðar­ins og bygg­ing­ariðnaður­inn að horfa fram á veg­inn og skapa jafn­vægi á hús­næðismarkaði.

All­ir verða að leggja hönd á plóg

Stofn­un nýs innviðaráðuneyt­is sem und­ir heyra hús­næðismál, skipu­lags­mál, mál­efni sveit­ar­fé­laga, sam­göngu­mál og byggðamál er mik­il­væg­ur þátt­ur í því að ná nauðsyn­legri yf­ir­sýn svo hægt sé að taka mark­viss skref í því að ná jafn­vægi. Und­ir ráðuneytið heyr­ir viðamik­il gagna­söfn­un sem mun nýt­ast vel í því átaki sem ráðast þarf í. Það er hins veg­ar ljóst að all­ir þeir sem koma að hús­næðismál­um þurfa að leggja sitt af mörk­um í þeirri vinnu sem er fram und­an.

Fjár­fest­um í jafn­vægi á hús­næðismarkaði

Á næstu dög­um mun ég skipa stýri­hóp til að móta hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland sem unn­in verður í víðtæku sam­ráði við hags­munaaðila víða í þjóðfé­lag­inu. Hús­næðis­stefn­an verður lögð fyr­ir Alþingi til samþykkt­ar í formi þings­álykt­un­ar.

Ef mín áform ganga eft­ir verður lagður grund­völl­ur að því að hér á landi verði hægt að stór­auka hús­næðis­upp­bygg­ingu á næstu árum og jafn­vel horft til þess að setja markið á að það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins op­in­bera í formi fjöl­breytts hús­næðisstuðnings. Við erum með skýr mark­mið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. mars 2022.

Categories
Greinar

Landsvirkjun er ekki til sölu

Deila grein

09/03/2022

Landsvirkjun er ekki til sölu

Undanfarna daga hefur sú umræða sprottið upp hvort íslenska ríkið eigi að selja hluti sína í Landsvirkjun til að bregðast við halla á ríkissjóði sem tilkominn er vegna kórónuveirufaraldursins. Einstaka þingmenn hafa viðrað hugmyndir um að selja hluti í Landsvirkjun en þingmenn Framsóknar eru alfarið á móti þessum hugmyndum og koma ekki til með að breyta þeirri afstöðu.

Landsvirkjun er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki og mun halda því áfram með aukinni eftirspurn eftir grænni orku á komandi árum. Landsvirkjun hefur verið að greiða upp skuldir sínar og mun því geta á næstu árum farið að skila ríkissjóði arði árlega. Sá hagnaður getur skipt sköpum um afkomu ríkissjóðs, sem þarf traustan og tryggan hagnað næstu áratugi, sérstaklega eftir efnahagslegar aðgerðir ríkisins vegna Covid-19. Fjölbreyttur kaupendahópur mun smám saman styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma.

Framsókn tekur afstöðu með almenningi

Það er skýrt að samfélagið allt á að njóta arðsins sem Landsvirkjun mun skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegnir lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Áframhaldandi eignarhald íslenska ríkisins í Landsvirkjun getur leitt til mikillar hagsældar fyrir þjóðina. Við stjórnmálamenn allra flokka þurfum að hlusta á og vinna að vilja almennings, enda er vilji hans skýr að orkumál verði ekki færð í hendur einkaaðila. Áskorunin er að sigra þann freistnivanda sem myndast við skjótan gróða af einkavæðingu. Einkavæðing getur lagað fjárhag ríkisins í nokkur ár, en í stóru myndinni er langtímahagnaður af áframhaldandi eignarhaldi í Landsvirkjun töluvert meira aðlaðandi. Það hefur aldrei talist góð hugmynd að slátra mjólkurkúnni fyrir skjótfenginn gróða.

Við eigum að nýta náttúruauðlindir þjóðarinnar af varúð og virðingu. Nýting þeirra á að vera samfélaginu öllu til hagsbóta. Arðurinn á að vera til uppbyggingar og velferðar. Landsvirkjun er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar og mun gegna lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar. Því kemur ekki til greina að einkavæða félagið, selja í því hluti eða framkvæmdir. Ekki á okkar vakt.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2022.

Categories
Greinar

Að­gengi allra, líka þegar snjóar

Deila grein

08/03/2022

Að­gengi allra, líka þegar snjóar

Síðustu vikur hefur færð á landinu verið mörgum erfið. Við heyrum fréttir af því að fatlað fólk, sem nú þegar glímir oft við erfitt aðgengi almennt, hefur þurft að hætta við læknisheimsóknir og að sækja aðra grunnþjónustu þar sem erfitt hefur verið, ef ekki ómögulegt, að komast úr húsi. Nú gerum við ríkar kröfur til framkvæmdaaðila um að hanna skuli og byggja á grundvelli algildrar hönnunar. Það þýðir einfaldlega að byggingar og aðkomu að þeim skuli nýtast öllum. Í ljósi færðar á landinu er vert að benda á það að aðgengi að samfélaginu má ekki binda við veðráttu. Aðgengi þarf einnig að vera tryggt að vetri til þegar snjó kyngir niður og hefur áhrif á færð.

Bandarísk löggjöf til fyrirmyndar?

Í þessu sambandi má nefna að innan ADA, bandarísku löggjafarinnar um bann á mismunun á grundvelli fötlunar, er að finna sérstakt ákvæði sem krefur bæði opinbera aðila og einkaaðila um að gera viðeigandi ráðstafanir til að göngustígar, bílastæði, inngangar og almenningssamgöngur séu aðgengilegir fötluðu fólki, líka þegar snjóar og færð verður erfið. Snjór skal hreinsaður af bílastæðum, ryðja þarf við rampa hjá kantsteinum og aldrei má hlaða snjó í stæði fyrir fatlaða. Einnig skal tryggja að gangstígar og gangbrautir skuli vera stöðugt aðgengilegar og allar inn- og útgönguleiðir verði að vera snjólausir og tryggja öruggan og greiðan aðgang að og úr byggingu. Þarna er auðvitað að finna ýmislegt meira og annað.

Gerum nauðsynlegar úrbætur

Ég held að öllum okkar þyki þetta nokkuð sjálfsagt og gerist jafnvel að sjálfu sér. En því miður er það ekki svo. Með sambærilegri löggjöf og þeirri bandarísku opnast kæruleið fyrir fatlað fólk telji það sig vera mismunað um aðgengi vegna athafnaleysis við að ryðja frá snjó. Á þetta hefur verið bent síðustu daga. Skoðun mín er því sú að slík löggjöf væri til bóta. Í raun yrði hún hvati og myndi stuðla að frumkvæði hins opinbera og einkaaðila við að tryggja aðgengi fyrir alla í öllum veðrum og aðstæðum, allt árið um kring. Ég mun vinna málið áfram og vona að þetta sé eitthvað sem við getum sameinast um á þingi.

Ágústs Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. mars 2022.